Skip to main content
15 November, 2021

Víðivellir Ytri

15 November, 2021
Víðivellir ytri

Mannvistarminjar


Víðivellir ytri voru höfuðból og sýslumannssetur fyrr á öldum. Frægastir sýslumanna þar voru Jón Þorláksson (d. 1712) og Þorsteinn Sigurðsson (d. 1765). Bæjarins er getið í nokkrum fornsögum Austfirðinga. Þar var hálfkirkja og nokkur afbýli, m.a. Hlíðarhús og Klúka. Jörðin er ein af tveimur í Fljótsdal sem alltaf hefur verið einkaeign. Hún átti land austur að Gilsá á Gilsárdal, og landspildu handan Keldár, selför í Hrafnkelsdal og skógarítak í Ranaskógi á Hrafnkelsstöðum. Tvíbýlt hefur jafnan verið á Víðivöllum ytri, og býlin aðgreind með I og II. Fátt er nú orðið sýnilegra minja á þessu höfuðbóli, en mikið mun leynast þar í jörðu.

Minjar á Víðivöllum ytri voru skoðaðar og myndaðar 25. sept. 1990, með leiðsögn Rögnvaldar Erlingssonar fv. bónda þar.

Bæjarhús: "Víðivellir I: Járnklætt timburhús í notkun 1920-1964, þá rifið og bærinn fluttur. Víðivellir II: Steinhús 1945, 2 hæðir, 4 herbergi og eldhús. Nú aflagt." (SJM II, 67). Um torfbæ er ekki getið, hann hefur líklega verið rifinn um aldamót.

"Bæjarhóllinn á Víðivöllum er fáeinum metrum vestan við núverandi íbúðarhús, sem byggt var eftir að eldra íbúðarhús brann 1998. Nýja íbúðarhúsið stendur á austasta hluta hólsins, heimreiðin kemur upp fyrir austan hann. Gömul og há reyniviðartré standa á suðurbrún hólsins. Kúptur og greinilegur hóll. Á honum stóð steinhús þegar tvíbýlt var á Víðivöllum, og var kjallari undir því að hluta. Gróður á hólnum er öðru vísi en í kring, á honum vex ekki mjög hátt gras. Vitað er að nyrst á hólnum stóð fjós. Þegar nýja íbúðarhúsið var byggt eftir brunann ´98 komu í ljós einhverjar hleðslur, og því næstum víst að bæjarhóllinn nær undir íbúðarhúsið." (Fornleifaskrá 2001).

Kirkja og grafreitur: Svo segir í elsta máldaga Valþjófsstaðakirkju, 1397: " [til Valþjófsstaða] liggja tíunder af xi bæjum, utan Bessastöðum og Víðivöllum, eru hér af sex bænhús og tvær kirkjur, og greiðast tvö c af annari en iii merkur af annari." (Ísl. fornbréfasafn IV, 209-212). Í vísitasíu Gísla Jónssonar biskups 1576 var kirkjan aflögð, segir Ágúst Sigurðsson í grein í Múlaþingi 9, 1977, bls. 42. Árið 1676: "Þórður Þorláksson biskup heimilar, eftir ósk Jóns Þorlákssonar sýslumanns, og með ráði prófastsins, sr. Stefáns Ólafssonar og synod., að hálfkirkja mætti uppgjörast á Víðivöllum ytri, á þeim sama stað og gamla kirkjan hefði staðið." (Jarðabók 281-282 / Menningarm. í Fljótsdalshr. 1999, bls. 11).

Hálfkirkja var á Víðivöllum ytri eitthvað fram á 18. öld. Rögnvaldur bóndi taldi sig vita hvar hún stóð: rétt fyrir utan eldra steinhúsið, og um 10 m neðan við yngra steinhúsið. Þar fundust mannabein þegar grafið var fyrir súrheysgryfju. Gryfjan er nú horfin, en þarna er dálítil upphækkuð flöt og á henni standa nokkrar lerkihríslur.

"Þegar grafið var fyrir súrheysgryfju um 1950-60, í hólkoll rétt fyrir utan bæinn, var komið niður á mannabein, og var þar greinilega forn kirkjugarður. Virtist þar vera eins konar fjöldagröf, því beinagrindur lágu hver ofan á annari. Öskulög bentu til að grafirnar væru eldri en frá um 1500, því svarta lagið (1477) lá ofan á þeim. Kristjáni Eldjárn var gert viðvart um beinafundinn, og gaf hann þann úrskurð að þetta væri kirkjugarður, og leyfði að haldið væri áfram með byggingu súrheysgryfjunnar. Beinin voru sett í kassa og jörðuð aftur á sama stað (Rögnvaldur Erlingsson: munnl. heimild 27. apríl 1988).

Rögnvaldur segist hafa heyrt, að smiðjan sem var rétt fyrir utan gamla bæinn, og ofan við staðinn þar sem beinin fundust, hafi upphaflega verið kirkja eða bænhús, og gæti það staðist að því er varðar staðsetninguna og stærð smiðjunnar, sem var líklega um fjórum sinnum stærri en venjulegar smiðjur. Hún stóð fram undir 1950. Rétt fyrir ofan hana var tótt, sem hjallur var á, og héldu sumir að það væri bænhústóttin. (Nánar í skáldsögu Rögnvaldar: Á heimaslóð, ófullgert handrit, ritað eftir 1992. Héraðsskjalasafnið, Eg.)

"Um 10 m norðan við bæjarhól eru nokkur lerkitré og girðing fyrir framan þau. Fast framan við girðinguna og að hluta undir henni, er þúst. Þústin er leifar af votheysturni sem nýlega var rifinn. Þegar grafið var fyrir honum nálægt 1960 komu upp mannabein, og því líklegt að bænhúsið hafi verið á þessum stað eða við hann. Beinin voru grafin aftur á sama stað." (Fornleifaskýrsla 2001).

Fjós og fjóshlaða: "Ofan við bæinn er fjós, og þar ofar tún sem heitir Fjóstún. Lækurinn [Bæjarlækur] rennur ofan við það. Ofan við hann eru nýræktir." (Örnefnaskrá, bls. 11).

"Fjósið stóð 50-100 m austan bæjarhóls. Nú er þar grasblettur, sem afmarkast af heimkeyrslu og bílastæði við nýja íbúðarhúsið. Slétt grasflöt, um 40 x 40 m. Fjósið var úr torfi og grjóti. Lítill kofi var sambyggður því, notaður sem reykhús. Húsin eru nú horfin, en á flötinni mótar fyrir reglulegri dæld, um 3 x 2 m." (Fornleifaskýrsla 2001). "30-40 m, beint fyrir ofan brunarúst frá 1998, og 20-30 m norður af nýlegu fjárhúsi, var tóft. Grösugur hóll. Á hólnum var stór tóft, stundum kölluð Fjóshlaða. Hluti notaður sem hesthús, einnig voru höfð þar hænsni." (Fornleifaskýrsla 2001).

Önnur gripahús: Skammt fyrir ofan bæinn, upp við Bæjarhjalla, eru tættur Geldingshúsa, orðnar vallgrónar. Rétt fyrir innan þær var grjóthlaðinn hesthúskofi, með viðbyggðri smáhlöðu, og hafði þeim verið breytt í reykhús (1990), með skúrþaki af járni, en veggir voru teknir að falla. Kofatótt var rétt fyrir innan og ofan Hesthúsið, upp við Bæjarhjallann, og hélt Rögnvaldur að þar hefði verið hrútakofi. Lítið fjárhús, nefnt Kofi, var á svonefndu Kofatúni, út og upp af bænum, innan við Kofalæk (?). Rögnvaldur byggði þar tvístætt fjárhús, er nefndist Fossgerði (nýnefni), horfið 1990, sem og Gimbrarhúsið, er var neðar á Kofatúni. Fossgerði var alveg upp við Bæjarhjallann, stutt frá fossi í Bæjarlæknum. Í örnefnaskrá er einnig getið um Nýjahús, sem þá var horfið, en virðist hafa verið út og upp af bænum, ofan við Nýjahúsgrund, utan við Kofalæk, og ofan við það var Nýjahúsklettur, líklega í Bæjarhjalla. (Grjót sást á rústum flestra þessara húsa 1990

Geldingshús: "Stór fjárhústóft, snýr austur-vestur, með dyr í vestur. Tveir grjóthlaðnir garðar og hlaða í austurenda. Hún er mjórri en húsið, aðeins 5 m breið, en húsið almennt 7-8 m breitt. Heildarlengd er um 15 m. Dyr eru á SV-horni. Hleðsluhæð allt að 2 m í austurenda, almennt sæmilegt ástand á veggjum." (Fornleifaskýrsla 2001).

Hesthús: "Heilleg, grjóthlaðin tóft, vegghæð allt að 1,6 m. Þaksperrur, stoðir og dyraumbúnaður úr tré, enn uppistandandi. Stærð 7 x 4,5 m, dyr á vesturlanghlið. Upp við húsið að SA er 5 m löng tóft, jafnbreið húsinu og virðist viðbyggð því. Það hlýtur að vera hlaðan.... Hún er mun verr farin en húsið sjálft, hleðslur hrundar og gróið yfir þær að mestu" (Fornleifaskýrsla 2001).

Hjallahús”: "Rétt fyrir innan Fremri-Giljalækinn, og neðan við hjallann [Miðhjalla?] er grjóthlaðin tótt, sem Rögnvaldur hefur nefnt "Hjallahús", en mun ekki hafa sérstakt nafn. Hún er aflöng upp og niður, um 10 m á lengd og 4 m á breidd að ofan en 6 m að neðan, og er breiðari hlutinn hringlaga. Þetta líkist mest rétt eða stekk, en varla fjárhúsi, því ekki sést móta fyrir garða eða jötum. (sjá teikningu)." (Ferðalýsing H. Hall. 20.9.1992)

"Túngarður við Giljalæk [misritað Gilsárlæk]" (SJM II, 67).

Áveitugarður?: "Tæpa 250 m suður frá bæ er torfgarður, sem líklega er áveitugarður. Í norðurjaðri túns, sem ekki er slegið. Garðurinn liggur austur-vestur með túnjaðrinum, 30-40 m hár og ámóta breiður. Vesturendinn er 20-30 m frá ánni, og lengd garðsins er um 60 m. Virðist eingöngu torfhlaðinn" (Fornleifaskýrsla 2001).

Myllutótt er í fallegum hvammi við smáfoss í Myllugili neðst við Hlíðarhúsalæk. Greinileg enn. Myllusteinar sagðir vera til um 1970. (SMJ II, 67). Innan við gilið er Mylluklettur.
"Myllan var í svonefndu Myllugili, ofan við Mylluklett, sem er rétt fyrir ofan nýbýli Hallgríms Þórarinssonar, skammt fyrir innan og neðan Hlíðarhús. Myllutóttin er þarna enn, rétt fyrir neðan lítinn og snotran, mosavaxinn foss, en við hann endar gilið. Tóttin er um 2 x 2,5 m að innanmáli, með dyr í SV, en vatnsstokkurinn hefur gengið í gegnum hana í NV-SA. Myllusteinar hafa verið til heima á bænum, segir Rögnvaldur." (Lýsing og teikning H.Hg. 25.9.1990).

Víðivallarétt: Lögrétt (skilarétt) var á Víðivöllum, en Rögnvaldur greindi ekki nánar frá staðsetning hennar. Lögrétta nefnist dálítil lægð, út og niður af Víðivallabænum, utan við Kofalækinn, og halda menn að þar hafi sýslumenn háð dóma sína (réttað í málum), en líklegra er að þar hafi lögréttin verið áður. (Örnefnaskrá og Rögnvaldur Erlingsson / Ekki skoðað)
"Safnið af Suðurfelli er gripið saman í Suðurfellssporði.... Tekur Flatarbóndi þar fé sitt úr safninu, en síðan er það rekið út að Víðivöllum ytri og dregið þar sundur. Þangað er og farið með það fé sem kemur af Villingadal." (Erlingur Sveinsson: Afréttir Fljótsdalshrepps. Göngur og réttir, 2. útg. V, 372.)
Rögnvaldur segir að gömul rétt hafi verið í Kúaláginni, utan- og neðantil í túninu, ofan vegar. Þeir Erlingur Sveinsson og Hallgrímur Jónsson byggðu svo aðra rétt, neðan við lágina, eða neðst í henni, og notuðu grjótið úr þeirri gömlu. Nú eru báðar þessar réttir líklega horfnar.
"Heimildarmaður man eftir lítilli, grjóthlaðinni rúningsrétt, 300-400 m NV af bæ, líklega innan við 50 m austan vegar. Slétt tún. Engin tóft sést og engar hleðsluleifar, líklega horfin vegna túnræktar.” (Fornleifaskýrsla 2001).

Hlíðarhús eru beitarhús frá Víðivöllum ytri, rétt fyrir utan Hlíðarhúsalæk, og skammt fyrir utan og ofan nýja bæinn Víðivelli ytri I, og tilheyra húsin þeim parti. Búseta var á Hlíðarhúsum fyrr á öldum. Þess er getið í Grýlukvæði Stefáns í Vallanesi á 17. öld: "Ekki fóru sögur / af því flagðinu fyr / en hún rak hausinn inn um / Hlíðarhúsa dyr." (Kvæði St. Ól., I. bindi, 1885, s. 241). Enginn er skráður þar 1703. Halldór Stefánsson segir Hlíðarhús (Hlíðarsel) hafa farið í eyði 1746, en þar hafi aftur verið búið 1790 til 1820. (H. St.: Eyðibýlaskrá. Múlaþing 5, 180).

Gömlu torffjárhúsin á Hlíðarhúsum voru í notkun fram um 1970, en þá voru byggð steinsteypt fjárhús og hlaða skammt fyrir neðan, sem tóku við hlutverki þeirra. Sumarið 1990 voru þekjur allra gömlu húsanna fallnar eða höfðu verið rifnar, en veggir stóðu enn nokkuð vel.Tætturnar sluppu við eyðileggingu riðuhreinsunar 1990, vegna þess hve langt var síðan húsin voru notuð fyrir sauðfé, og munu þær því vera enn við lýði.

Aðalhúsin á Hlíðarhúsum nefndust Bæjarhús, eflaust vegna þess að þau voru byggð upp úr tóttum gamla torfbæjarins, sem stóð fram á miðja 19. öld. Þau voru í miðju túni, ofantil, og sneru þvert á hlíðina, þau hafa síðast verið þrístæð, þ.e. þrjú samhliða fjárhús, án milliveggja, um 10 m löng. Húsin voru tvístæð fram á miðja 20. öld, og með millivegg, segir Rögnvaldur Erlingsson, sem vann við að breyta þeim. Að húsabaki var viðbyggð hlaða, en í tótt hennar var reykingakofi 1990 úr timbri og járni.

Túnið er umlukt hringlaga torfgarði, sem enn sést partur af, ofan við húsin, orðinn útflattur. Innan og ofan við Bæjarhúsin, og við gamla túngarðinn, er tótt Efstahúss, sem var venjulegt fjárhús, með lítilli en djúpri hlöðu, og sneri út og fram, en Bæjarhúsin sneru þvert á hlíðina. Skammt fyrir utan og neðan Bæjarhúsin var Neðstahúsið, svipað að stærð og lögun og það efsta, en hlöðulaust. Þriðja húsið nefndist Ystahús (Ysthús), og sáust minjar þess sem hrúgald 1990, skammt út af Neðstahúsi. Loks voru tvær vallgrónar tættur ofan við Efstahúsið, og hafa þar verið einhverjir kofar. Túnið hafði verið sléttað og stækkað.

Haustið 1979 féll mikið skriðuhlaup úr fjallinu yfir ysta hluta túnsins og reif upp mikinn jarðveg, en gömlu tætturnar sluppu líklega allar. Hins vegar fór hlaupið á hlöðu við nýju fjárhúsin og braut veggi hennar. Grjóthleðslur í Hlíðarhúsarústum eru vandaðar, enda að miklu leyti úr völdu, köntuðu grjóti. Vegglagið er úr torfi (streng). Á 19. og 20. öld varð nokkrum sinnum vart við reimleika á Hlíðarhúsum, sem nefndur var Hlíðarhúsasvipur. Niður af Hlíðarhúsum eru Hlíðarhúsaeyri og Hlíðarhúsakvísl úr Keldá, með brú.

Veturhús voru beitarhús frá Víðivöllum ytri, utarlega í landinu, ofan við Veturhúsaeyri og Veturhúsahólma, rétt ofan þjóðvegar. Þau voru framan af 20. öld notuð frá Bessastöðum, þar sem bjuggu náin skyldmenni. Hætt var að nota þau um 1950. Við skoðun 5. 8. 1989 sýndist mér þarna hafa verið tvö sambyggð fjárhús, um 9 × 9 m til samans, og að baki þeirra hlaða, um 9 × 4 m. Engin merki sáust um túngarð. Efri hluti tóttar var skemmdur við girðingarvinnu haustið 1990, og þar er nú aðeins þúst, þar sem varla sést móta fyrir veggjum.

"Veturhús stóðu rúma 2 km norður frá Víðivöllum og eru leifar þeirra fast upp við veginn, austan megin, í brekkurótum, lækur rennur sunnan við húsin. Trjárækt í brekkunni ofan húsanna. Rafmagnsgirðing liggur yfir austurhluta þeirra. Húsin hafa sýnilega verið mikið skemmd við veglagningu eða annað rask... " (Fornleifaskrá 2001).

Fornasel: Í Fornaselsbotnum, utan við Víðivallaurð, beint upp af Veturhúsum, eru tættur kallaðar Fornasel, á grasbala á hjalla, rétt utan við Veturhúsalæk, í 150-200 m hæð y.s., og annar smálækur fyrir utan þær. Selið er talið með eyðibýlum í skrá Halldórs Stefánssonar (Múlaþing 5, 1970), en ekki eru aðrar heimildir um að þar hafi verið búið.

Tvær húsatættur eru nokkuð skýrar, báðar aflangar, um 15-16 × 5-7 m breiðar, og báðar með nokkrum þverveggjum. Efri tóttin snýr langs eftir hlíðinni, aðalhólf hennar er um 10 × 7 m að utanmáli, þrískipt á þverveginn, og viðbygging ca. 6 × 5 m, tvískipt. Ef þetta er seltótt er hún næsta óvenjuleg, og líkist því raunar meira að vera af litlum bæ. Neðri tóttin snýr hornrétt á hina, og gæti verið af rétt. Líklega sést móta fyrir tveimur öðrum tóttaþyrpingum, sem þá eru eldri, en engin merki sjást um túngarð. Upp af Fornaseli er Selhlíð. (Skoðað 25.9.90, með Rögnvaldi fv. bónda).

Gamlistekkur: "Framan við Mórauðalækinn er grasi vaxið barð, sem heitir Gamlistekkur. Á því eru gamlar stekkjartættur. Gamlistekkur nær inn fyrir ofan Selkvísl. Framan við stekkinn er lind, sem ekki er nafngreind." (Örnefnaskrá). Rögnvaldur kannast við nafnið, en segist ekki muna eftir neinum tóttum þar. (Munnl. heim. 3. okt. 1990. Óskoðað).

Urðarsel: Innanvert við Víðivallaurð, í skógarjaðri, rétt fyrir utan Sellæk, í um 100 m hæð y.s., eru tættur Urðarsels, sem getið er í Grýlukvæði Stefáns frá 17. öld, og virðist þá hafa verið búið þar. Þarna er greinileg tótt, líklega af fjárhúsi, um 11 × 3 m að innanmáli, með grjótveggjum, varla eldri en frá síðustu aldamótum, snýr þvert á dalinn, með dyraopi í NV. Framan við hústóttina er bogalaga garður, um 2 m breiður og útflattur, grasi vaxinn, óskýrastur næst hústóttinni. Hann gæti verið leifar af eldri tóttum, t.d. seltóttum eða bæjartóttum, sem hafa e.t.v. lent undir fjárhúsinu, en líkist þó meira réttarvegg. Auk þess mótar fyrir tveim öðrum tóttum, skammt fyrir utan og neðan. Það eru aflangar dældir, ferhyrndar, báðar um 7 × 3 m að innanmáli; snýr önnur þeirra eins og aðaltóttin, en hin þvert á hana. Grundin og tætturnar eru mikið vaxnar snarrótarpunti, og þarna var oft slegið á engjum, sagði Rögnvaldur. Túngarður sést ekki. Við Urðarsel eru kennd Selkvísl og Seleyri, sem er næst fyrir innan Veturhúsaeyri, út og niður af selinu. (Skoðað 25. 9. 1990, með Rögnvaldi fv. bónda. Riss í ferðabók.)

Vorið 2010 fór fram ýtarleg fornleifaskoðun á Urðarseli, vegna deiliskipulags fyrir sumarhúsabyggð í Víðivallaskógi, sem Steinunn Kristjánsdóttir hafði umsjón með. Rústirnar þrjár voru mældar, ljósmyndaðar og teiknaðar, og þeim nákvæmlega lýst. Aðaltóttin (A) er sögð vera 6 × 13 m að utanmáli, og snýr NV-SA, við SA-enda hennar er smáhólf (B), um 2 × 2 m, með ógreinilegum veggjum, og SV við hana er umgetinn bogagarður (C), um 12 × 9 m að utanmáli. Höfundar segja líklegt að tótt A sé af fjárhúsi frá 19. öld, en B og C geti verið eldri, hinar tætturnar tvær séu mjög gamlar og tilheyri líklega seli eða bæ. Önnur þeirra er um 8 × 4 m, hin um 7 × 4,5 m að utanmáli, báðar einfaldar, með dyraopi á NV-horni. (Ásta Hermannsdóttir, Steinunn Kristjánsdóttir og Una Helga Jónsdóttir: Fornleifaskráning vegna deiliskipulags fyrir sumarbústaðabyggð í landi Víðivalla ytri í Fljótsdalshreppi. Skriðuklaustursrannsóknir, 2010.)

Selsund er í Víðivallaskógi, við Hlíðarhúsalæk, inn og upp frá Hlíðarhúsum. "Í því eru gamlar seltættur. Selsundin ná frá Hlíðarhúsalæk og inn að Ytri-Giljalæk." (Örnefnaskrá). Rögnvaldur kannaðist við þessar tættur, og sagði þær vera "undir hjallanum" (Skógarhjalla?), sem er ofan við sundið. Minnti helst að þar væru tvær tættur, samfastar. Hallgrímur Þórarinsson bóndi sagði (1992) þær vera tvær, með stuttu millibili, á bala út við Hlíðarhúsalæk. Ég gekk um Selsundið 20. sept. 1992, en rambaði ekki á tætturnar.

Þá er Selhjalli og Selklettur í fjallinu upp frá bænum, alllangt fyrir innan Selsundið, nálægt merkjum við Klúku. Ekki er vitað um seltættur þar, en hugsanlega eru þessi örnefni kennd við leiðina austur á Pálssel á Gilsárdal, sem er hinum megin við Hálsinn (sjá Klúku).

Vörður: Katla heitir varða á Kötluhlíð, á Víðivallahálsi, eftir þeim sem hlóð hana, en hann hét Ketill. (Örnefnaskrá).

Vöð: "Í Jökulsá eru merkin um eyrar sem heita Álaeyrar, en milli þeirra eru smáálar, nafnlausir. Yfir þessa ála var gamalt vað á Jökulsá, og var kallað Álavað, eða að fara yfir Á Álum." (Örnefnaskrá). Í örnefnaskrám Valþjófsstaða og Klausturs er getið um fleiri vöð undan landi Víðivalla ytri, svo sem Kirkjuvað og Skógarvað.

Straumferja og brýr: "Frameyrar segir Rögnvaldur að heiti Ferjueyri. Þar var ferjustaður á Keldá." (Örnefnaskrá, viðbætur, s. 13). Yst á Stóreyri, niður undan Hlíðarhúsum, byggði Metúsalem J. Kjerúlf bóndi á Hrafnkelsstöðum, svonefnda straumferju á Jökulsá 1917. Stálvír var strengdur yfir ána, og á honum runnu tvær trissur, sem tengdar voru við sinn hvorn enda ferjubátsins. Með því að skástilla bátnum í ánni dreif straumurinn hann yfir á stuttri stund. Þetta mun hafa verið eina ferjan af þessu tagi á Íslandi. Hún lagðist niður þegar brú var byggð á ána 1952, og sjást nú víst engar minjar hennar. Metúsalem ritaði grein um hana í Múlaþing 1968. (Straumferja. Múlaþing 3, 1968, bls. 98-105. Lagarfljótsbók mín 2005, bls. 189-190).

Þjóðsöguminjar: Bergdrangur heitir Tröllkarl, hann er í Tröllkarlsbotni, efst í Víðivallaurð (berghlaupi). Hann var áður talsvert hærri en efri hlutinn hrapaði um miðja síðustu öld. Ekki er þekkt saga honum tengd. Brandsöxl er uppi á hálsi, á merkjum við Hrafnkelsstaði, og ber við loft frá bænum. Þar segir Stefán Ólafsson vera bústað Grýlu í hinu fræga Grýlukvæði sínu. Grýlulækir tveir eru í hlíðinni utan við Hlíðarhús, og hélt ég þá hafa lent í skriðunni miklu 1979, og tel mig hafa orð Rögnvalds Erlingssonar fyrir því, en skv. skýrslu Steinunnar Kristjánsdóttur o.fl. 2010, eru lækirnir óskertir, stutt utan við skriðufarið, sbr. flugmynd í skýrslunni. (Ef til vill hafa nöfn lækjanna orðið tilefni Grýlukvæðis Stefáns, eða nöfn þeirra eru yngri, og gefin eftir kvæðinu. Þá hafa sumir við orð að Grýla muni hafa sett hlaupið af stað. Grýlukvæðið er talið vera háðkvæði ort til Jóns Þorlákssonar sýslumanns, það varð síðan fyrirmynd margra gamankvæða um Grýlu).

"Í Hálsinum (Gilsárdals megin) eru tvær hlíðar, og heitir sú efri Urðarhraunshlíð, en sú neðri Langahlíð. Yst á Urðarhraunshlíð er hár klettur, með urð fyrir neðan, og heitir hann Urðarhraun." (Örnefnaskrá) . "Sagt er þessi ilskuþjóðin / sé hér ekki fjær / uppi á Dal í Urðarhrauni er þeirra bær. / Uppi á Dal í Urðarhrauni / fjölmenni frá. / Annað bú í Brandsöxl / bölhyskið á." (Kvæði eptir Stefán Ólafsson, 1. bindi. Khöfn 1885, bls. 230-244. / Austfirsk grýlukvæði. Skriðukl. 2011. Bækl.).

Fornminjar: Sagt er að um 1880 hafi Eiríkur Einarsson, vinnumaður á Víðivöllum, fundið kistuhöldu í grafningi í Víðivallahlíð. Hann leitaði síðan kistunnar margoft en fann hana aldrei. (Þjóðs. Sigf. Sigf. VI, 1986, bls. 25).

Umsögn um minjar á Víðivöllum ytri 1990: Tætturnar á Fornaseli eru að líkindum mjög gamlar, og e.t.v. líka á Urðarseli, að hluta til. Þar sem um er að ræða fornbýli ætti tvímælalaust að friðlýsa þessar tættur. Fjárhúsarústir á Hlíðarhúsum eru vel hlaðnar, og því ástæða til að leyfa þeim að halda sér, auk þess sem aðaltóttin (Bæjarhús) er líklega byggð á gamla bæjarstæðinu, og geta þar leynst fornminjar í jörðu. Engin torfhús eru uppistandandi og því er ekki um húsavernd að ræða á Víðivöllum ytri.