Skip to main content
15 November, 2021

Hrafnkelsstaðir

15 November, 2021
Hrafnkelsstaðir

Mannvistarminjar

Hrafnkelsstaðir eru stór jörð sem getið er í Droplaugarsonasögu og Hrafnkelssögu, þar sem sagt er að bærinn hafi heitið Lokhilla, áður en Hrafnkell Freysgoði settist þar að seint á 10. öld. Árið 1397 er Hrafnkelsstaða getið í máldaga Valþjófsstaðakirkju og Bessastaðakirkju, vegna skógarítaka. Skriðuklausturseign eftir 1500. Í Hrafnkelssögu er getið um bæinn Hrólfsstaði, sem er talinn hafa verið þar sem síðar var hjáleigan Hrólfsgerði og síðast beitarhús, um 1,5 km utan bæjar, og innst í landinu var hjáleigan Brattagerði, síðast einnig beitarhús. Í mynni Gilsárdals eru tættur sem nefnast Háls, líklega af smábýli, en um búsetu þar finnast engar heimildir. Nýbýlið Vallholt var byggt laust fyrir 1950, við Hrólfsgerði, sem fyrr segir, og fékk ytri hluta jarðarinnar. Bærinn er frægur sögustaður, og því hefur nýlega verið sett þar upp söguskilti, sem minnir á dvöl Hrafnkels Freysgoða þar. Einnig er þar skilti sem vísar á Lagarfljótsorminn.

Húsaminjar á Hrafnkelsstöðum voru skoðaðar og myndaðar 7. júlí 1990 og 18. júní 1991, hús og garðar heima við nokkrum sinnum síðan, síðast 14. sept. 2011.

Torfbærinn: "Gamli bærinn stóð á sama stað og íbúðarhúsið 1916. Byggður í tíð Sæbjarnar Egilssonar bónda á Hr. 1870-1894. Baðstofa 14 × 5,5 alin. Hluti af henni stendur enn. Steinhús byggt 1916-1918, 2 hæðir og kjallari, 8 × 12 m. Stendur nú autt. " (SJM II, 1975, 70)

Gamli bærinn var fast við steinhúsið frá 1918, sem hefur líklega verið byggt inn í hann. Standa tættur enn af hluta hans og má þar sjá vel hlaðna grjótveggi, þar sem hver steinn er vandlega valinn.

"Upp við steinhúsið að norðaustan eru hæstu veggirnir allt að 3 m, og torfhleðsla þar af helmingur hæðar. Þetta hólf er um 5 x 7 m. Rúmlega 2 m breiðar dyr eru í suður [?], og gæti þessi hluti hafa verið notaður samhliða steinhúsinu sem byggt var 1916. Stoðir og sperrur úr tré standa að hluta, veggir allt að 1 m þykkir. Í norðausturhorni eru dyr í næsta hólf, sem er um 5 x 3 m, ógreinilegt, og virðist hafa verið fyllt upp að hluta. Út frá því norðanverðu liggur einföld garðhleðsla, 4-5 m löng, gæti verið seinni tíma verk. Fremst, næst veginum, standa leifar af heillegu hólfi, um 5 x 2 m, með op í suður [?] nú notað sem ruslakista." (Fornleifaskýrsla 2001)

Steinhúsið er það elsta í Fljótsdal sem enn stendur, byggt af Metúsalem J. Kjerúlf 1916-18. Því hefur ekkert verið haldið við síðan hætt var að búa í því um 1970, og er nú í bágbornu ástandi, sumir gluggar brotnir, hurðir bilaðar og múrhúðun skellótt. Milliveggir og gólf eru úr timbri og allir veggir klæddir innan með panilborðum. Í undirstöðu þess, í kjallaradyrum og inni í kjallara, eru fallegar grjóthleðslur, og virðist grjótið vera höggvið til. Við húsið að sunnan er ferhyrnd upphækkun, með grjótveggjum, sögð hafa verið blómabeð. Mikilvægt væri að gera húsið upp, ekki síst vegna sögufrægðar bæjarins.

Hestasteinn: Allstór steindrangur stendur á hlaðinu við yngra húsið, fast við veginn, líklega í hlutverki hestasteins. Innan og neðan við gamla húsið, og inn með veginum að ofan, var 1990 röð af stórum, aflöngum steinum, um 1-1,20 m á hæð, sem risu á rönd, notaðir sem girðingarstaurar. Þeir eru nú fallnir.

Trjágarður er ofan við gamla steinhúsið, aðallega með reynitrjám; þar er að finna einhver hæstu reynitré landsins (um 15 m), sem eru nú orðin barkskemmd og ellimóð, nokkur tré eru líka í tótt gamla bæjarins. Garðurinn er jafn gamall húsinu. (Nánar í H.Hg.: Skrúðgarðar í Fljótsdal. Handrit 2011). Yngri garður er við steinhúsið, sem byggt var 1954-55, líklega álíka gamall og það. Þar eru myndarleg reynitré, sem umkringja húsið.

Lundurinn: Ofan við bæinn er skógræktarreitur í Hvammi sem Metúsalem girti 1946, og plantaði í ýmsum trjátegundum, og kallaði Lund. Þar eru nokkur sitkagrenitré meðal hinna hæstu á landinu. (Sig. Blöndal: Skógrækt Metúsalems á Hrafnkelsstöðum. Austri, jólin 1997). Neðan við Lundinn er minnismerki um þau hjónin, Metúsalem og Guðrúnu, líklega frá árunum 1970-80.

Gripahús og tættur: Árin 1990-91 voru engin gömul gripahús uppi standandi með þökum á Hrafnkelsstöðum, enda höfðu þau ekki verið notuð síðan um 1970, en tættur þeirra voru allar á sínum stað og veggir yfirleitt nokkuð heilir, enda með vandaðri hleðslu. Þær sluppu við riðuhreinsun og eru því enn við lýði og furðu heilar 2013.

Bakkahlaða stóð á hól um 80 m framan og neðan við bæinn, og þaðan er snarbrött brekka niður að Jökulsá. Tóttin er enn með stæðilegum veggjum, um 6 × 3,5 m að innanmáli.

"Heilleg tóft, byggð í miklum halla, og að nokkru leyti niðurgrafin. Þannig er engin hleðsla ofan jarðar á austurhlið, en veggir hækka smám saman í vestur. Dyrnar snúa í vestur, og framan við þær hefur verið hlaðinn um 1,5 m breiður stallur, sem er jafnlangur húsinu, enda brött brekka sem varla er stætt í, framan dyranna. Stallurinn er algróinn, sömuleiðis hlöðuveggirnir að utanverðu, en grjót sést innan veggja. Húsið er 5×7 m, veggir vel hlaðnir, allt að 1 m þykkir og 1,6 m háir. (Fornleifaskýrsla 2001).

Hesthús: Tótt þess er innst á gamla túninu, Hesthústúni, rétt fyrir neðan veginn, tvöföld, önnur líklega hlaða, er snýr þvert á brekkuna, en húsið langs. Bæði hólfin eru ca 3 x 5 m að innanmáli, veggir grjóthlaðnir upp á brún og standa vel enn (mynd og riss, 18.6.91).

"Tæpa 200 m suðvestur af 001 [bænum] og liggur vegurinn nánast á barmi hennar. Brött grasbrekka niður frá vegi. Tóftin er 8 x 5 m, snýr norður-suður, en dyr eru syðst á vesturhlið. Tvö hólf, hið nyrðra meira niðurgrafið og breiðara, að öllum líkindum hlaða. Veggir uppistandandi að nær öllu leyti, allt að 9-10 umför af hleðslum. Járnleifar eru í tóftinni. (Fornleifaskýrsla 2001).

Lambhús: Stakt fjárhús á Lambhúshól á túninu, um 70 m fyrir innan og ofan bæinn, snýr samhliða dalnum. Veggir stóðu vel um 1990, fallega hlaðnir, en torfþekjan var að mestu fallin. Tóttin mun vera þarna enn. Við Lambhúsið eru kennd örnefnin Lambhúsklettur og Lambhúsklauf.

"Aflöng tóft, um 5 × 15 m, með dyr í suður, en hlöðu í norðurenda. Lengd hlöðu er um 5 m. Grjóthlaðnir veggir, sperrur [!] og þakstoðir úr tré. Torfþekja er enn á litlum hluta hússins, þykkt torfs 20-30 cm. Hlaðinn veggur milli hlöðu og húss, dyr sjást nú ekki á honum. Enginn garði, en rúmlega 1 m hár stallur er hlaðinn með vesturlanghlið innanverðri. Húsið er byggt í brekku, þar af leiðandi er eystri langveggur að hluta niðurgrafinn, en sá vestari rís hærra. Hleðsluhæð allt að 2 m, hlöðumegin." (Fornleifaskýrsla 2001).

Grjótkofi: Stakt fjárhús út og uppi á túni, utan Bæjarlækjar, innst á Grjótkofahjalla. Það hefur verið af venjulegri stærð og lögun, snýr út og fram, með viðbyggðri hlöðu að utanverðu, dyr að innanverðu. Þekjan var alveg fallin 1990, en veggir stóðu að mestu. "Fram af Grjótkofa er Grjótkofatún, sem nær fram að Bæjarlæk," segir í Örnefnaskrá.

Hjallahús (Hjallhús): "Á Grjótkofahjalla er fjárhús, nefnt Hjallahús." (Örnefnaskrá). "Þetta er fremur lítið fjárhús /hesthús, með grjótveggjum og torfþaki með birkitróði öðru megin, en járnþaki hinumegin. Viðbyggð er lítil, steinsteypt hlaða með járnþaki." (Lýsing 1990).
Grænistekkur var rétt fyrir neðan Hjallahúsið. Þar eru nú aðalfjárhúsin, sem eru steypt, með járnþaki, og miklir taðhaugar neðan við þau. Húsin standa á hjallabrún, lágt klettabelti er stuttu ofar. Þetta eru 250 m utan og ofan við bæinn. Skv. nafninu hefur verið þarna stekkur, en ummerki hans eru líklega horfin. Fágætt var að stekkir væru svo nálægt bæ. Kvíabali var skammt fyrir neðan, sem líka er grunsamlegt. Stekkur var líka á Timburfleti (sjá Vallholt).

Mylla: "Myllutótt er við Bæjarlækinn, líklega skammt fyrir ofan veg." (Örnefnaskrá). Við skoðun 18.6. 1991 sá ég tótt á ytri bakka lækjarins, ofan vegar, ca. 2 x 3 m að innanmáli, sem gæti verið af mylluhúsi, en ekki sást þar nein renna eða afrennslisskurður.

Túngarður: "Ofan við Hesthúsið er Lambhúsklettur, hann ber við loft af veginum, en úr honum og niður í Jökulsá... sér til brota af gömlum túngarði." (Örnefnaskrá Hr. II).

"230 m suður af bæ og 30-40 m suður af Hesthúsi eru leifar af gömlum túngarði. Grasbrekka, snarbrött á köflum, en slétt og gróin eyri á síðustu 10 m niður við ána. Grjóthlaðinn garður, en nú bæði gróinn og siginn að mestu. Um 50 m langur og allt að 1 m hár. Sést greinilega, en einna síst þar sem hallinn er mestur." (Fornleifaskýrsla 2001).

Rétt er á Réttarholti, um miðja vega milli Hrafnkelsstaða og Vallholts, á sama hjalla og síðarnefndur bær stendur á. Réttin er stórt og mikið mannvirki, öll hlaðin úr grjóti, og hefur upphaflega verið með 4-5 hólfum, en aðeins þremur verið haldið við, og munu vera enn í notkun. Borð höfðu verið lögð á hluta veggjanna til að hækka þá. (Skoðuð og mynduð 23. ágúst 1995). Skv. loftmynd er réttin tvö allstór hólf (utantil), og 2-3 minni, viðbyggð að SA, líklega dilkar. Gunnlaugur M. Kjerúlf sagði að hún hafi verið í þessu formi síðan hann mundi fyrst eftir. Hann vissi ekki hver byggði hana, eða hvenær. Hún var stækkuð með trégrindum þegar flest fé var á bænum. (Viðtal 14. des. 1991).
Nátthagar: Gunnlaugur sagðist muna eftir tveimur nátthögum við réttina, sem girtir voru með torfgörðum, er voru orðnir svo lágir að setja þurfti vírnet (hænsnanet) ofan á þá. Líklega sést móta fyrir þeim á stækkaðri flugmynd (1: 5.000), öðrum innan við réttina, en hinum neðan við hana.

Álavað / Skálavað: "Innan við Forvaða tekur við Brattagerðiseyri, en hún nær að Álavaði, en þar eru merki á móti Ytri-Víðivöllum" (Örnefnaskrá). "Undan Forvaðanum var hið forna Skálavað, sjá Hrafnkelssögu." (Örnefnaskrá, Hr. II, viðbót, s. 4). Þetta vað er fyrir löngu orðið ófært, hafi það verið til (sjá Hamborg).

Ferjustaður: Lögferja var á Hrafnkelsstöðum, a.m.k. síðan um 1885, en áður var hún neðan við Skriðuklaustur. "Suðvestan gamla garðsins heitir Krosshóll. Hann nær að Skipabotnslæk, sem fellur niður um svonefndan Skipabotn. Fremst í honum er Ferjuskot, þar var lögferjan bundin í hléi." (Örnefnaskrá). Þessi staður er um 0,5 km innan við bæinn, á móts við Bessastaði. (Ekki er vitað um tilefni nafnsins Krosshóll).

"Eftir því sem Halldór Sigurðsson á Miðhúsum segir, 7. 10. 1990, er ferjan komin út í Egilsstaði á vegum Minjasafns Austurlands, og ekki svo illa farin að hann telur mögulegt að gera við hana. Í skrá Gunnlaugs Haraldssonar um gripi á Hrafnkelsstöðum er aðeins nefnd Straumferja, og má vera að eitthvað hafi ruglast hjá öðrum hvorum þeirra." (H.Hall.: Spjaldskrá).

Brattagerði: Um 1 km innan við Hrafnkelsstaði er Brattagerði, sem talið er með eyðibýlum í skrá Halldórs Stefánssonar (Múlaþing 5, 1970), en ekkert er vitað hvenær þar var búseta. Á seinni öldum voru þar beitarhús á hringlaga túnbletti, sem er umgirtur grjót- og torfgarði, og er ennþá nær alveg heill. Fyllt var að honum að innanverðu, sérstaklega að innan og neðan (sbr. Hrólfsgerði). Tvenn fjárhús voru yst og efst á túninu, með stuttu millibili. Fremri húsin voru tvístæð, með hlöðu á bakvið, og sneru þvert á dalinn, en ytri húsin einföld, þó með útskoti á austurhlið, sneru út og fram og dyr í austur. Nú er meira en hálf öld síðan hætt var að nota húsin. Þekjur þeirra hafa fallið eða verið rifnar, en veggir standa enn sæmilega, enda hafa þeir verið listavel hlaðnir, mest úr köntuðu grjóti, sem sprengt hefur verið úr klettum þar nálægt. Í einu horni er meira að segja stuðlagrjót úr klettum við Hallsteinsfoss, sem er innan og ofan við gerðið. Þar eru hallandi stuðlar, sem gætu verið tilefni nafnsins á fossinum. (Skoðað og myndað 5. ágúst 1989)

Á loftmynd fannst mér sjást móta fyrir rétt, utan og neðan við húsin, fast við veginn, en hef ekki getað fundið hana í landinu, þarna var byggt hornstauravirki á raflínunni frá Kröflu, um 1980, sem olli talsverðu raski. Stutt fyrir innan lækinn, sem rennur framan við túnið, sá ég móta fyrir óglöggu tóttarbroti, einna líkast heystæði, um 3 × 4 m.

Nesið: "Neðan við akveginn, utan Bæjarlækjar, heitir Botn og Nes niður við Jökulsá. Þetta nes hefur Meth. Kjerúlf grætt upp úr ánni, með því að hlaða þvergarða út í hana." (Örnefnaská.) Neðan við bæinn má sjá fleiri slíka varnargarða við árbakkann.

Smalabyrgi (líklega grjóthlaðið) er á Byrgishjalla, upp af Skipabotni, fyrrnefndum. Smalaskálaalda er hæst á Hálsinum ofan við Brandsöxl og Brandsaxlarflóa. Getið er um sortudý á Gilsárdal í landamerkjalýsingu.

Tófugildra hefur verið á Gildruási eða Gildruhnaus, sem eru örnefni inn og upp í fjallinu.

Brandsöxl: "Upp frá Fláum heita Kambar, en Brandsöxl. bústaður Grýlu, ber við loft upp af Kömbum." (Örnefnaskrá). Nú eru landamerki Hrafnkelsstaða og Víðivalla ytri um framanverða Brandsöxl. Í sínu fræga Grýlukvæði lætur Stefán Ólafsson Grýlu eiga "annað bú í Brandsöxl", en aðalbúið er í Urðarhrauni á Gilsárdal, í landi Víðivalla.

Forngripir: Ýmsir gamlir gripir eru enn í gamla steinhúsinu, sem ástæða væri til að skoða og meta, því að þeir liggja þar undir skemmdum.

Umsögn um verndargildi 1990: Rústir gamla torfbæjarins heima á Hrafnkelsstöðum og beitarhúsanna á Brattagerði hafa töluvert gildi, einkum vegna hinna vönduðu vegghleðslna.

Heiðveig Agnes Helgadóttir