Skip to main content
16 November, 2021

Klúka

16 November, 2021
Klúka


Klúka er gamalt afbýli og hjáleiga frá Víðivöllum ytri, og hafði innsta fimmtung jarðarinnar til umráða. Varð sjálfstæð jörð um miðja 19. öld, þegar Ólafur Vigfússon keypti hana af Víðivallabændum. Eins og aðaljörðin á Klúka land austur á Gilsárdal. Sauðfjárbúskap var hætt í Klúku eftir riðuniðurskurð 1990, og því var gömlum gripahúsum ekki rutt niður eins og víða á öðrum bæjum, enda eru þau öll í afgirtu túni. Í gömlu húsunum í Klúku er óvenju gott hleðslugrjót, nær allt hornótt, sem líklega var tekið úr klettahjalla ofan við bæinn. Hleðslum er yfirleitt þannig hagað að slétt hlið steina snýr inn í húsin, svo veggir hafa óvanalega jafna og slétta áferð og standa vel. Torf er oftast milli steina efst í veggjum, en neðantil hefur verið reynt að fella þá vel saman.

Í Klúku er því ennþá (2013) heillegt safn útihúsa í hefðbundum stíl og á upprunalegum stöðum á túninu, sem telja má einstakt á Íslandi og ber eftir föngum að vernda. (Sjá mynd í Búkollu 1995).

Minjar í Klúku voru skoðaðar og myndaðar 9. ágúst og 7. okt. 1990, í síðara skiptið með Halldóri Sigurðssyni fv. kennara og trésmið. Guðrún Kristinsdóttir skoðaði hesthúsið o.fl., mældi það og myndaði, 27. ágúst 1991. Loks skoðaði ég minjarnar 1. ágúst 2012, með Ólöfu Stefaníu Arngrímsdóttur, sem tók margar myndir af þeim (á tölvumyndavél).

Gamli bærinn: "Baðstofa, endurbyggð 1897, portbyggð, tvískipt uppi og niðri, kaupstaðarviðir, reisifjöl, máluð stofa inn af eldhúsi, niðri. Notuð til 1949. Bæjardyr á þilstafni í norður, annars torf í veggjum og stöfnum." (SJM II, bls. 65). Í Héraðsskjalasafni er grunnteikning af Klúkubænum. Sést þar að viðbyggð baðstofunni eru fjós, búr og fjóshlaða, búrið á milli, innnangengt í það úr göngum, en fjós og hlaða með útidyrum.

Höfundur gisti í þessum bæ nokkrar vikur þegar hann var í farskóla, líklega veturinn 1946-47, og hélt þá til í máluðu stofunni, ásamt þeim bræðrum Baldri og Sverri Þorsteinssonum, en Mekkín Ólafsdóttir móðir þeirra (frænka mín), og tvær systur þeirra, sváfu á efri hæð baðstofunnar. Mig minnir að bærinn hafi þá verið í góðu standi, og vel hlýr. Líklega hefur þá fjós enn verið viðbyggt bænum (þar gengu menn örna sinna). Steinhús, ein hæð, var byggt rétt fyrir framan baðstofuna 1948, og 1949 var flutt í það úr torfbænum. Þarna mun síðast hafa verið búið í torfbæ (baðstofu) í Fljótsdal.

Fjós og geymsla: Heima við bæinn í Klúku, rétt fyrir utan íbúðarhúsið, eru tvö, lítil, sambyggð hús, með veggjum úr torfi og grjóti og járnþökum. Að baki þeim er hlaða, einnig með grjótveggjum og járnþaki, og steypt súrheysgryfja. Ytra smáhýsið var 1990 notað sem fjós (fyrir 4 kýr), en það fremra er geymsla fyrir reiðtygi o.fl. Þessi hús voru byggð upp úr gamla torfbænum, sem stóð þarna fram um 1950, og er ytri fjósveggurinn hinn upprunalegi baðstofuveggur, svo og veggurinn milli fjóss og hlöðu. Þetta eru þykkir veggir, vel hlaðnir, úr hornóttu grjóti, með torflögum á milli, og NV-hornið bogamyndað. Timburþil er á geymslunni að framan. Þetta eru vönduð hús og standa enn ágætlega 2012. Fjósið er með tvöföldum dyrum, en kýr hafa ekki verið þar síðasta áratug eða svo. Flór og stétt eru steypt, básar lagðir timbri, og milligerðir og stallar úr járnpípum, þak einangrað með froðuplasti. Ytri hurð með tveimur krókum, eins og hurðir fjárhúsanna. Þak súrheysgryfju er farið að bila. Í horninu innan við geymsluna og neðan við hlöðuna er lítill kofi, allur úr ryðguðu járni.

Hesthús: Örskammt innan og ofan við bæinn er lítið hesthús úr torfi og grjóti, með torfþaki, en bárujárn hefur verið lagt í boga ofan á það (bárurnar snúa langs), og viðbyggð hlaða bakvið, með járnþaki. Langveggir eru vaxnir grasi og blómum að utan. Húsið er gamalt að uppruna og alveg í gömlum stíl, gólfið hellulagt, með básum fyrir hestana. Sverrir Þorsteinsson sagðist hafa stækkað húsið 1956, sem var áður fyrir 3 hesta en tók eftir það sex. Þá voru básar fyrir hestana, afmarkaðir með stórum hellum. Sverrir sagðist ekki vita til þess að það hefði verið gert annarsstaðar í sveitinni, og ég hef hvergi séð það nema í Klúku. Járn var sett ofan á torfþakið 1988-89. Þetta er mjög sérstakt og athyglisvert hús. Áður var annað hesthús fyrir innan Bæjarlækinn, líka fyrir þrjá hesta. Gólfið í því var hellulagt, en ekki afmarkaðir básar. Það var rifið 1956 og hellurnar fluttar í endurgerða hesthúsið. Sumarið 2012 stóð hesthúsið ennþá allvel og hlaðan að baki, en dyraumbúnaður hafði skekkst, svo ekki varð komist inn í húsið til að mynda það !

Smiðja: Í efra túnjaðri, við Bæjarlækinn, skammt fyrir innan og ofan hesthúsið, er smiðjukofi með torfgrjótveggjum og torfþaki, en timburþil að framan (vestan), um 2 × 3,5 m að innanmáli. Sverrir byggði smiðjuna á árunum kringum 1950, en áður var lítill smiðjukofi þarna rétt fyrir ofan. Smíðaði hann þarna skeifur o.fl., lengi vel. Árið 1990 höfðu flestöll smíðatól verið tekin þaðan (voru líklega í geymslunni) og húsið notað fyrir hænsni. Þótt húsið sé ekki nema um 60 ára er það samt í hefðbundnum smiðjustíl, en smiðjuhús eru nú orðin fágæt. (Sverrir segir að Ólafur afi sinn hafi smíðað mikið, og hafi smiðjudótið verið selt þegar hann lést). Sumarið 2012 var smiðjan orðin hrörleg, einkanlega þakið. Upp af smiðjunni, ofan túns, er nýlegt smáhús úr timbri og álplötum, sem ekki var skoðað 2012, líklega hænsnahús.

Fjárhúsin: Þrenn fjárhús stóðu 1990 á túninu innan við bæinn, beggja megin við Bæjarlækinn, og kallast Efstuhús (Efrihús),Miðhús (Lambhús) og Neðstahús. Árið 2012 var Miðhúsið fallið í tótt, en hin standa enn. Sauðfé hefur ekki verið í húsunum síðan um 1990, og þau hafa varla verið notuð fyrir aðrar skepnur. (Fjárhúsin sjást á bæjarmynd í SJM II, 65 og í Búkollu V, 1995. Sumurin 1990 og 2012 voru teknar margar myndir af þeim.

Efstuhúsin eru beint fram af bænum, innan við lækinn, þrístæð fjárhús, með hliðarveggjum úr grjóti og torfi, járnklæddum stöfnum að vestan (NV) og járnþökum (frá 1963). Milliveggir eru engir, en stoðaröð undir sundum. Þrennar dyr eru á húsinu, hurðir vandaðar, með höldum og allar með tveimur járnkrókum. Að húsabaki er löng hlaða, einnig járnklædd, en með grjótveggjum neðantil; timburskilrúm milli hlöðu og húsa. Þessi hús standa vel enn, nema efri hlöðuveggur er fallinn inn og er járnþak hennar því farið að hallast upp að brekkunni.

Miðhúsið var stutt fyrir innan og neðan Efstuhúsin, sneri út og fram, með dyrum á suðurstafni. Veggir grjóthlaðnir allt um kring, með vandaðri hleðslu úr völdu grjóti, sem litast hafði rauðleitt af veggjaskóf, stafnar torfhlaðnir. Árið 1990 var torfþak á húsinu í upprunalegri mynd, með hellum undir á norðurhlið en járn undir torfi á suðurhlið. Húsið var fornt að stofni, a.m.k. 150 ára, sagði Sverrir, en hafði verið stækkað og endurbyggt í seinni tíð. Það virtist í góðu ásigkomulagi og féll vel að landslagi. Sverrir hélt að Jón Einarsson, bóndi á Víðivöllum ytri á síðari hluta 19. aldar, hefði endurbyggt húsið, og síðan hefði því lítið verið breytt. Mekkín Ólafsdóttir, móðir Sverris, vissi ekki hvað það var gamalt (Sögn Sverris 7.5. 1991). Sumarið 2012 var þetta hús fallið, aðeins tóttin eftir, vaxin háu grasi eins og umhverfið, en veggir standa að mestu.

Neðstahúsið er um 100 m utar og neðar, utan við Bæjarlæk og fast við heimveginn. Það er svipað Efstuhúsum, nema ennþá nýtískulegra. Hliðveggir húsanna eru einnig úr grjóti og torfi. Það er tvístætt undir einu risþaki af bárujárni á sperrum, sem stoðir garðanna eru festar við og standa undir. Það er með krossviðarþili og allstórum glugga að vestan, og tveimur þakgluggum. Gluggarnir eru af trefjaplasti með bárum. Þakið er klætt frauðplasti að innan. Inn í norðurvegg, innst, gengur hrútakofi, um 1,5 × 3 m, með jötu, aðskilinn af steyptum hálfvegg. Tvennar dyr eru á vesturstafni. Að baki er hlaða, með grjótveggjum og járnþaki á sperrum. Þessi hús standa ágætlega 2012, og voru þá mynduð í bak og fyrir.

Mylla: "Myllutótt við Bæjarlæk, aflögð myllan fyrir aldamót." (SJM II, 64). Tóttin er á lækjarbakkanum að utanverðu, út af Miðhúsi, var orðin mjög ógreinleg 1990, og þá óx þar rabarbari, sem var þar enn 2012. Sverrir Þorsteinsson mundi ekki eftir steinum úr myllunni, hélt að þeir hefðu verið seldir á uppboði sem haldið var í Klúku, líklega eftir að Ólafur afi hans dó 1890. Hins vegar kvaðst hann muna eftir steini úr handkvörn, sem lengi var notaður ofan á kjöttunnu, en brotnaði og lentu brotin víst undir rústum gamla bæjarins (Munnl. heimild 7. júní 1991).

Hjallahús: "Upp undir Urðum, framan og ofan Hjallanna, stóðu beitarhús, sem voru nefnd Hjallahús, aflögð 1914; þar heitir nú Hjallahústóft." (Örnefnaskrá, viðbætur 1973). "Aflögð beitarhús á Bæjarhjalla, neðsta hjalla upp af bæ, eftir 50-60 ára notkun. Rifin 1923." (SJM II, 64). Sverrir sagði þar vera glögga tótt af einstæðu húsi og heytótt, sem sneri þvert á hlíðina, síðast notað 1921, og þakið rifið 1923.

Botnasel var í Sóleyjarbotnum, ofan við Urðirnar, inn og upp í fjallinu. "Þar var sel um 1865 og sjást seltætturnar enn." (Örnefnaskrá). Sverrir segir að Ólafur afi sinn hafi byggt selið, og að þar hafi ekki verið sel áður, en líklega var það bara notað tvö ár. Þarna má enn sjá þrískipta tótt. (Hef ekki skoðað hana).

Pálssel var austur á Gilsárdal, handan við Víðivallaháls. Þar eru að sögn miklar tættur, sem benda til búsetu, en orðnar óglöggar. Þær eru á grafningsbakka, spölkorn frá Gilsá, nálægt landamerkjum Klúku og Víðivalla ytri.

"Selið er kennt við Pál Pálsson bónda á Víðivöllum fremri, albróður Jóns blinda í Víðivallagerði", segir í örnefnaskrá Klúku, en neðanmáls er bætt við: " Margrét í Víðivallagerði segir að selið sé kennt við Pál Þorsteinsson, föður Jóns í Víðivallagerði", síðar bónda á Víðivöllum fremri, f. 1774. Sverrir sagði að Páll Pálsson hafi byggt selið. (Óskoðað)

Stekkar voru á tveimur stöðum, annar fram af bænum, stutt fyrir ofan túnið, hinn upp undir landamerkjakletti við Víðivelli ytri. Búið er að slétta þann fyrrnefnda, en tættur efri stekkjarins sjást enn. (Sverrir Þorsteinsson, 7.5. 1991).

Hagagarður kallast gamall grjótgarður á merkjum Klúku og Víðivalla fremri. "Nær frá Klúkukíl upp í Urðarhorn í Efrafjalli, gerður upp á stykki 1912" (SJM II, 64). Meðfram garðinum rennur Hagagarðslækur. Að sögn Sverris sást garðurinn enn um 1990.

Heystæði?: Við Lóngarð í mýrlendi fram og niður af bænum var ferhyrnd upphækkun, um 13×14 m, og þegar verið var að vinna þarna tún kom í ljós hleðslugrjót, fremur smátt, utanmeð henni. Kvaðst Sverrir þá hafa látið Jón Bjarnason, ýtumann, hætta við að jafna þetta niður, og því megi enn sjá þessa þúst í túninu. Hann hélt að þetta hefði verið heystæði, en til þess var það nokkuð stórt. Ekki sást greinilegur garður kringum stykkið, nema að utanverðu. (Sögn Sverris 7. maí 1991).

Áveitur: Þarna var kallað Langalón og Lóngarður, og mundi Sverrir eftir því að lónið var stíflað til að halda uppi vatni á því. (Sama heimild).

Smalakofi: "Inn af Selhjalla er Selhjallakrókur, en fremst og efst í Urðunum er Smalaskálahraun." (Örnefnaskrá). Urðirnar eru berghlaup úr Sóleyjarbotnum.

Narfagata: "Næst brúninni er Langihjalli. Í honum, fyrir framan botnana, er Narfagata. Um hana er greiðfær leið með hesta, enda mikið notuð, meðan heyjað var á Gilsárdal." (Örnefnaskrá). Sverrir kvaðst ekkert vita um tilefni þessa heitis. Hann sagði götuna vera nokkuð bratta, og klettahorn að fara fyrir; þar hafi ekki verið fært með heybandslest.

Grýlubrekkur er örnefni fyrir utan og neðan selið í Sóleyjarbotnum. (Valborg Þorsteinsd. og systkini hennar skírðu á þriðja tug 20. aldar, segir í örnefnaskrá, líklega með hliðsjón á Grýlu-nöfnum á Víðivöllum).

Forngripir: Í Klúku var geymdur gamall stóll, fagurlega útskorinn, úr íslensku birki. Á efstu bakfjöl var nafnið GUÐMUNDUR PS skorið með höfðaletri, sem var talið vera nafn eigandans, Guðmundar Pálssonar (1765-1828), klausturhaldara á Skriðuklaustri um 1800. Líklegt er að hann hafi verið smíðaður í tilefni giftingar hans og Unu Guðmundsdóttur, ekkju Hans Wíums, um 1790, en ekki er vitað hver smíðaði hann og skar út. Stóllinn kom í Klúku með Kristrúnu Sölvadóttur frá Hrafnsgerði, þegar hún giftist Ólafi Vigfússyni Frydendal. Mekkín dóttir þeirra erfði stólinn og sat oft í honum, og síðar börn hennar. Sverrir Þorsteinsson afhenti Minjasafni Austurlands stólinn 1994, og hefur hann verið í sýningarsal þess. (H. Hall.: Klúkustóllinn. Glettingur 8 (1), 1998, s. 42).

Klúkuklettur: Stutt ofan bæjar er kollóttur klettur, sem líklega hefur orðið tilefni bæjarnafnsins. Þar hafa menn haldið að byggi huldufólk, sem Mekkín Ólafsdóttir skyggna (sjá Egilsstaði) sá m.a. við heyskap í Klúku á seinni hluta 19. aldar, sbr. Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar II, 177. Klúkusystkin, Valborg og Sverrir, Þorsteinsbörn, hafa staðfest þetta.

Umsögn um minjar 1990: Torfgrjóthúsin í Klúku eru fjölbreytileg og í góðu ástandi, enda vel til þeirra vandað í upphafi og viðhald þeirra gott. Miðhúsið, smiðjan og hesthúsið eru sérstaklega verðmæt í þessu tilliti. Miðhúsið er eitt af örfáum fjárhúsum í upprunalegu formi í sveitinni, og smiðjan er dæmigerð fyrir slík hús. Svipað má segja um hesthúsið. Í fjósinu eru fornar vegghleðslur gamla torfbæjarins. Sverrir fyrrv. bóndi hefur lagt mikla rækt við þessar gömlu byggingar og endurnýjun þeirra, og Sigurður Þórhallsson bóndi var einnig áhugasamur um það mál.

Heiðveig Agnes Helgadóttir