Skip to main content
16 November, 2021

Sturluflöt/Suðurfellsafrétt

16 November, 2021
Sturluflöt


Sturluflöt (Flöt) var líklega í upphafi hluti Víðivallatorfunnar, en hefur svo lengi sem heimildir greina verið sjálfstæð jörð, og var ein af þeim fyrstu sem Skriðuklaustur eignaðist (1497), metin á 6 hundruð 1695. Jörðin átti land að Fellsá, en langt er síðan farið var að nýta landið sunnan hennar, sem formlega tilheyrði Valþjófsstaðakirkju, og eru þar gömul beitarhús frá Flöt. Hefðbundinn búskapur lagðist niður um 1990, og mikill hluti landsins var girtur og tekinn til skógræktar. (Varðandi nöfn bæjar og ár, sjá ritgerð Þórhalls Vilmundarsonar: Af sturlum og stöðlum. Minjar og menntir. Afmælisrit Kr. Eldjárns, Rvík 1976, bls. 533-).

Húsin á Flöt voru skoðuð og mynduð (neg.) 7. okt. 1990, í fylgd með Halldóri Sigurðssyni trésmið. Landið var ýtarlega skoðað 27. júlí 2001 í tengslum við skógræktarkönnun (pós. myndir). Skógræktarlýsing, 3. des. 2001.

Gamli bærinn: "Bærinn sneri hlið að hlaði, hlaðnir torfstafnar upp úr, bæjardyr í NA. Portbyggð baðstofa, 9 x 4,5 alin, að nokkru yfir fjósi. Kaupstaðarviðir í afltrjám og þiljum. Notuð til 1937." (SJM II, 60). "Járnklætt timburhús, byggt 1937, viðbygging 1956, alls 4 herbergi, eldhús og gangur. Flatarbræður byggðu eftir eigin höfði." (Sama heimild, bls. 59).

Árið 1990 var smákofi rétt fyrir ofan íbúðarhúsið, með grjótveggjum og torfþaki, notaður sem geymsla, en var áður fjós, byggður á rústum torfbæjarins. Hann var fallinn 2001, en á sama stað var mikill rústhaugur, vaxinn húsapunti. Við NV-horn haugsins var lítið, steinsteypt vélarhús, og rétt fyrir ofan hauginn steypt súrheysgryfja, með mæniþaki.

Reykhús: Um 50 m innar og ofar á túninu er grjóthlaðinn kofi, í sæmilegu standi, með torfþaki, sem áður var hrútakofi, en var 2001 notaður sem reykhús. Hann var byggður um 1960 á rústum annars gripahúss. Þarna voru áður, að sögn fv. bónda, hesthús, fjárhús og hlaða, sem voru rifin og sléttuð. Sumarið 2012 sá ég ekki þennan kofa.

Myllutótt er við Bæjarlækinn (SJM II, 59). Tóttin er við flúð í læknum, rétt innan og ofan við Grundarhús, en varla sást móta fyrir henni 2001. Frá sama stað liggur gamall áveituskurður úr læknum, út og niður á túnið á grundunum.

Fjárhús á heimatúni: Fjárhúsin stóðu sitt hvoru megin við bæjarlækinn, efst á túninu, utan og ofan við bæinn. Þau voru nýlega uppgerð, og sluppu við riðuhreinsun eða ruðning vegna þess að sauðfjárhaldi var hætt 1990, og túnið er vel afgirt (sbr. Klúku).

Í bók Harðar Ágústssonar: Íslensk byggingararfleifð, I. bindi, Rvík 2000, bls. 59, eru tvær myndir úr fjárhúsi á Sturluflöt, sýnir önnur hellurjáfur á birkibitum, en hin birkitróð á grenibitum og langböndum.

Lækjarhús er innan við Bæjarlækinn. Það er uppgert í svipuðum stíl og Grundarhúsið, tvíbreitt, með grjóttorfveggjum á þrjá vegu, sem stóðu vel 2001, með járnþaki á sperrum og timburþili að vestan. Því hafði 1990 verið breytt í geymslu fyrir vélar o.fl. Þetta hús stóð enn sumarið 2012, en var orðið hrörlegt, grjót farið að hrynja úr ytri veggnum.

Rétt fyrir innan það eru stór, nýleg fjárhús, steinsteypt, með hlöðu, og útbyggingu til suðurs, byggð um 1960. Stuttu innar var Lambhús, sem var horfið 1990.

Grundarhús var stakt fjárhús utan við lækinn, sem 1990 var nýlega uppgert í "Jónasarstíl", með grjótveggjum á þrjá vegu, en stafni úr járni og plasti og rauðmáluðu járnþaki á sperrum. Það var byggt upp úr eldra fjárhúsi. Það stóð enn ágætlega 2001, en sumarið 2012 var það fallið í tóft, sem var vaxin háu grasi.

Hringhlaða: "Til var kringlótt hlaða með toppþaki, nú fallin.” (SJM II,59). Að baki Grundarhúsinu er hringlaga hlaða, um 4-5 m í þvermál og nokkuð djúp, líkist mest súrheysgryfju. Þekjan var fallin (1990), en viðir úr henni lágu þarna. Hún hefur líklega verið með toppþaki og einni stoð í miðju. Veggir voru að mestu heilir, að utanverðu úr torfi, vallgrónir, um 1,5 m á hæð, en að innan eru þeir að mestu úr grjóti, um 4 m á hæð. (Skoðuð 1990, 2001 og 2012, og reynt að mynda hana, síðast hafði verið brennt rusl í tóttinni, og hafði gras á veggjum hennar sviðnað.)

Hring- eða topphlöður voru víða á Héraði áður fyrr, en eru nú orðnar mjög fágætar og hvergi til alveg heilar, ég veit ekki um aðra slíka í Fljótsdal. Auðvelt væri að endurbyggja hlöðuna og hafa til sýnis ferðafólki sem leggur leið sína að Strútsfossi o.fl.

Kvíar voru á Kvíagrund "sem dregur nafn af kvíatóftum, sem voru þar í gamla daga", en eru nú horfnar. (Örnefnaskrá). Kvíarnar voru skammt fyrir utan Bæjarlæk, út og niður af Grundarhúsi.

Stekkur: "Framan og ofan við bæinn er melur, sem heitir Stekkjarmelur, sem liggur þar út og fram, dregur nafn af gömlum tóftum, sem enn eru við ytri enda hans. Lækjardalur er dálítið undirlendi bakvið mel þennan. Stekkur er við enda dalsins, sem nær suður á árbakka Fellsár." (Örnefnaskrá). Þarna sást móta fyrir stekkjartótt á lækjarbakkanum 1990. Þar var einnig tótt af grjóthlöðnum kofa, við lítinn klett, sem er fast við lækinn, fremur ungleg, og hafði skemmst af vegslóða meðfram vatnsleiðslu,. Kofinn var notaður sem hænsnahús um tíma. Óvenjulegt er að stekkir séu svo nálægt bæ.

Stekkur á Strútsdal: "Innan við bæ heitir Stekkafjall, en stekkurinn sem fjallið heitir eftir, er á Strútsdal, á bala einum um miðbik dalsins" (Örnefnaskrá). Þarna er grjóthlaðin tótt á grasi vaxinni grund, tvískipt, og líkari rétt en stekk. Sagnir eru um að þar hafi kýr verið mjólkaðar, sem gengu sumarlangt inni á dalnum, og hefur þetta þá verið stöðull. (Sigsteinn, munnl. uppl.) Stuttu utar vottar fyrir grjótgarði, frá Fellsárgili upp í hlíð Stekkafjalls, sem líklega hefur myndað aðhald fyrir gripina á dalnum. Hugsanlega hefur þarna verið sel á fyrri öldum, en engar heimildir eru um sel á Strútsdal/Villingadal.

Kláfur hefur verið á Fellsá á 19. öld. Í sóknarlýsingu Stefáns Árnasonar 1840 segir: "Á henni [Fellsá] er hafður kláfur (eða dráttur) til að koma geldfé yfrum í Fellið á vorin í vatnavöxtum." (Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar, 2000, bls. 136. / Sbr. kláf á Jökulsá, milli Glúmsstaðasels og Kleifar).

Fellsárbrú (hengibrú): Á fyrri hluta 20. aldar var byggð hengibrú fyrir gangandi menn og fé yfir Fellsá í gilinu innan við bæinn, líklega þar sem kláfurinn var. Hún er um 20 m löng. Ég skoðaði brúna 30. júlí 1968 og tók litmynd af henni. Hún hvíldi á tveimur stálvírum, sem festir voru í kletta sitt hvoru megin. Á henni voru 5 trégálgar, með jöfnu millibili, og hvíldu strengirnir á endagálgunum tveimur, en hinir þrír voru festir á hliðum á vírana, og héldu uppi brúargólfinu, sem líka var þrískipt. Um 1970 var brúin endurbyggð, og þá á tveimur miklum rekatrjám, sem hengd eru á vírstrengi beggja vegna, sem eru rammlega festir í steyptar undirstöður, svo þetta er líka eins konar hengibrú. Gata hefur verið löguð að henni beggja vegna. Sumarið 2012 hafði brúin aftur verið endurnýjuð nýlega, burðarstrengir þá settir á gálga beggja megin, og er nú snoturt mannvirki. (Mynd frá um 2000 í Glettingi 18 (2), 2008. / Sbr. hengibrú á Bessastaðaá, sjá Hamborg).

Strútsárbrú er neðst í Strútsárgili. Hún mun hafa verið hengibrú, en árið 1968 tók áin hana. Þá var byggð ný brú á staurum, sem liggja á klettum beggja vegna. Hún er um 10 m löng.

Kuml fannst á eyrarbakka við Keldá, beint niður af bænum, um aldamótin 1900, og var grafið upp af Daniel Bruun 1901. Virtist jarðvegur hafa blásið upp á bakkanum og komu þá í ljós tveir litlir grjóthringir, samtengdir. Í öðrum þeirra fundust illa farin mannsbein, en hestsbein í hinum og einhverjir smágripir. Hestsbeinin voru rannsökuð af sérfræðingum erlendis, nákvæmlega mæld, og borin saman við önnur bein úr hestum. Reyndust þau samsvara beinum nútímahesta á Íslandi. Kumlið var ennþá sýnilegt þegar ég skoðaði staðinn 1988, sem sporöskjulaga steinaröð á lítt grónum melnum, stutt fyrir utan Bæjarlæk, aðeins nokkra metra frá bakka Keldár. (H. Hall.: Fornhaugar, féstaðir og kuml í Fljótsdal. Múlaþing 18: 29-54, 1991. / Kristján Eldjárn: Kuml og haugfé. Rv. 1956.)

Suðurfell (Suðurfellsafrétt)
Suðurfellsafrétt nær yfir Suðurfell, sem áður hét líklega Kiðafell, og er á milli Villingadals og Þorgerðarstaðadals (Fellsdals). Markast afréttin af Fellsá í Villingadal að austan og Keldá að vestan. Valþjófsstaðakirkja mun snemma hafa eignast Suðurfellsafrétt, og hafði þar sel, m.a. Prestasel (sjá síðar). Flatarbændur hafa þó lengi fengið að nýta landið.

Fellshús eru beitarhús frá Flöt, sem standa á túnbletti stutt fyrir innan Fellsá, í afréttarlandinu Suðurfelli. Þar telja sumir að verið hafi bærinn Fell til forna, sem Olavius segir hafa eyðst um 1700. (Ferðabók Olaviusar: Eyðibýlaskrá). "Austan árinnar [Keldár], undir fellinu eru beitarhús frá Sturluflöt, en fyrr var þar bær, er hét að Felli, og er sagt að Kiðjafellsþing hafi verið háð þar í fornöld." (Jón Jónsson, Staðarfelli: Fundinn forn fjallvegur... Austri, 3. árg.26. tbl. 1886). Um þetta fornbýli finnast ekki aðrar heimildir, og engar minjar, svo mér sé kunnugt, en þarna er vissulega nóg landrými fyrir bújörð.

Á Fellshúsum stóðu um aldamótin 2000, tvístæð fjárhús, með sambyggðri hlöðu. Aðalveggir þeirra eru úr torfi og grjóti, en stafnar að vestan úr timbri. Í veggjum er mikið af hellum, sem líklega eru sóttar ofan í Keldárgil. Húsin eru með járnþaki á sperrum. Hlaðan að mestu úr timbri og járni, en stendur á lágum grjótveggjum. Húsin höfðu þá ekki verið notuð í áratug og voru talsvert farin að bila. Að sögn fv. bónda voru þarna einhverjar tættur rétt fyrir innan húsin, sem sléttaðar voru við ræktun túnsins, en hann segist ekki muna eftir neinum túngarði. Stutt fyrir innan húsin mótar fyrir nátthaga og líklega einnig gamalli skilarétt, sem e.t.v. var notuð fyrir Suðurfellsfé áður en rétt var byggð í Keldárgili. Húsin eru afgirt.

Fellsrétt er í gömlum farvegi Keldár við Gerpishyl, beint niður af Fellshúsum.

“Safnið af Suðurfelli er gripið saman í Suðurfellssporði, og rekið þar í svo að segja sjálfgjört áheldi í klettaþröng við Kelduá, örstutt innan við Fellsána. Tekur Flatarbóndi þar fé sitt úr safninu, en síðan er það rekið út að Víðivöllum ytri og dregið þar sundur. Þangað er og farið með það fé sem kemur fyrir á Villingadal.” (Göngur og réttir, 2. útg. V, 372).

Þessi merkilega rétt stórskemmdist í miklu flóði Keldár, líklega haustið 1980. Grjóthlaðinn vesturveggur stendur ennþá, en hinir veggirnir hafa sópast burtu. Þarna liggur hellugrjót, sem gæti verið úr veggjunum. Reyndar virðist öll þröngin hafa verið girt, því að hlaðið er í skörð innan við réttina. Talið er að réttin sé gömul, en hún var stækkuð á síðustu öld, og var óskipt. Eftir að réttin eyðilagðist var réttað heima við Fellshúsin.

Kiðjafellsþing” er eitthvert undarlegasta fyrirbæri í gervallri þingsögu landsins. Þess er aðeins getið í Fljótsdæla sögu, og sagt vera “á hálsinum milli Skriðudals og Fljótsdals”. Kiðafell (Kiðufell á kortum) virðist vera gamalt nafn á Suðurfelli, og því hafa menn talið að þar hlyti Kiðjafellsþing að hafa verið. Sigurður Gunnarsson segir í skýringum við örnefni fornsagna á Austurlandi:

“Kiðafell er nú aðeins nefnt Fell. Það er fjallsmúli hár, sem gengur út í Suðurdal í Fljótsdal, milli hans og Villingadals að austan, sem er óbyggt dalverpi. Sér enn utan og norðan undir Fellinu menjar hins forna þingstaðar, en er nú mjög blásið.” (Safn til sögu Íslands II, 483).

Kiðjafellsþingstaður: "Heimildarmaður kom um 1933 á grundina á Skaganum, austan við Fellsána, og sá þar 4-5 tættur, auk hrings, hlöðnum úr grjóti, ca. 10-15 m í þvermál. Telur hann miklar líkur á að þar hafi Kiðjafellsþing verið háð, einnig áleit það Elísabet Baldvinsdóttir á Þorgerðarstöðum, að hans sögn. En ekkert verður lengur um það fullyrt, þar sem haustið 1942 féll grjótskriða yfir grundina, en mun þó ekki hafa hreyft mikið við jarðvegi, að mati heimildarmanns. (Heimildarmaður: Þórhallur Björgvinsson, Þorgerðarstöðum, 10.7. 1975)" (Spjaldskrá Gunnl. Haraldssonar, Héraðsskjalasafni).

Það var almenn skoðun í Suðurdal, að þingið hefði staðið utan undir hámúla Suðurfells, þó frekar Villingadals megin, dálítið innar en andspænis bænum á Flöt. Þar töldu gamlir bændur á fyrri hluta 20. aldar sig muna eftir rústum og garðlagi, en þær hafa eyðst í skriðuhlaupum og uppblæstri snemma á öldinni. Þegar ég skoðaði staðinn 1968 í fylgd Halla Þorsteinssonar bónda á Flöt, sást þar ekki annað en nokkrar óljósar grjótraðir á melum. Staðurinn er heldur ólíklegur fyrir þinghald, enda töldu þeir Flatarbændur að “dómhringur” hefði verið í sporðinum, þar sem Fellsá og Keldá mætast, en hann var þá líka horfinn. Nánari skoðun og fornleifarannsókn gæti hugsanlega leitt í ljós einhverjar minjar um þetta meinta vorþing. (H. Hall.: Strútsfoss í Fljótsdal, Útivist 15, 1989, bls. 69 og 72).

Ég gekk síðast um þetta svæði 27. ágúst 2001, "en sá hvergi neitt sem bent gæti á þingstaðinn, nema eina litla, nokkurn veginn ferkantaða steinaþyrpingu á mel niður við gilið, skammt fyrir innan og ofan brúna á Fellsá.”

Þórhallur Björgvinsson frá Þorgerðarstöðum taldi sig muna eftir að hafa séð tættur á bala austan undir Fellinu, lítið eitt utar en á móti Strútsá, er hann kom þar 11 ára gamall (1933), í fylgd með Þóri Kárasyni á Sturluflöt. "Hann segist enn muna vel eftir grjóthringnum, sem var vel upp úr grasi, og var úr tvöfaldri steinaröð, og sitt hvoru megin við hann voru tvær aflangar tættur (tvær hvoru megin), aðskildar, og sneru dyrum niður að gilinu. Ekki vissi Þórir neitt nafn á þessum stað, og virtist sem enginn hefði tekið eftir þessu áður...Haustið 1941 féll skriða á þennan bala... Þórhallur segist fyrir nokkrum árum hafa farið með Páli Pálssyni á staðinn, en þá sáust engin merki um tætturnar... Þessi staður er um 1,5-2 km innar en Flatarbændur töldu þingstaðinn vera. (Skv. viðtali við Þórhall 11. des. 2001. / Nánar í samantekt minni: "Kiðjafellsþing (Fljótsdal), skv. rituðum heimildum." Handrit 6 bls.)

Seltættur á Fellsdal (Þorgerðarstaðadal): "Austan árinnar, spölkorn frá því fyrrnefnda [Hringseli] var Prestasel, sem notað var frá Valþjófsstað." (D. Bruun: Við norðurbrún Vatnajökuls. Múlaþing 7 (1974, s. 192). Prestasel er sagt hafa verið skammt fyrir innan Fellshús, en Broddasel, neðan við Broddaselsbotna í fjallinu. Minjar þeirra eru orðnar mjög óljósar eða jafnvel horfnar.

Í örnefnaskrá Þorgerðarstaða er getið um Prestsselsgrund, um það bil miðja vega milli Dalshúsa og Sveinssels, og er sögð vera kennd við Prestssel handan Keldár: "Um Prestssel eru engin ummerki, en talið er að það hafi verið sunnan [!] við Keldá, og er horfið sem örnefni." (Flatarbændur gátu heldur ekki vísað á þessi sel). Þetta svæði tilheyrði Valþjófsstaðakirkju langt fram eftir öldum, og var haft þar í seli frá Valþjófsstað, eins og nafnið Prestssel bendir til. Samkvæmt örnefnaskrá Suðurfells og Villingadals er svo að skilja að Broddaselsbotnar séu innst í Suðurfelli, "mitt milli Fellsár og Sauðár", sem hlýtur að vera rugl.

Suðurfellskofi: Gamli gangnakofinn var í Suðurhlíðum, innst á Suðurfelli (Kiðafelli), um 1 km suðvestan við krókinn á Fellsá, inn undir Leirudæld. Efst í Suðurhlíðum er Klettahlíð og Kofaalda þar fyrir ofan, kennd við kofann. Erlingur Sveinsson segir í Göngum og réttum, 2. útg. 5. bindi, að hann hafi líklega verið byggður áður en það fór að tíðkast að fara ríðandi í göngur, því að við hann eru engir hagar. Gamli kofinn var hlaðinn úr grjóti og torfi, með hellum undir torfþaki, og mun hafa tekið 5 menn. Hann er fyrir löngu fallinn í rúst.

Rögnvaldur Erlingsson sagði að nýr kofi hefði verið byggður, líklega á árunum 1945-50, efst í Suðurhlíðum, um 2 km utar en gamli kofinn, vestur af miðjum Sultarrana, þar sem var meiri gróður. Halli Þorsteinsson á Flöt annaðist bygginguna, með einhverjum styrk frá hreppnum. Hann var með járnþaki, en annars svipaður hinum og álíka stór. Hætt var að nota hann um 1970, því að eftir það var afréttin gengin á einum degi. Hann hékk ennþá uppi 1974, en er nú vafalaust orðinn hrörlegur eða fallinn.

"Leiðið" á Þingvelli: Neðst á tungunni milli Fremri-Sauðár og Keldár á afréttinni Hraunum (Múla) er sléttur mór eða grund sem nefnist Þingvöllur, líklega vegna þess að þar var gangnamönnum skipað niður til smölunar. Þar er aflöng þúfa í líkingu við leiði. Rögnvaldur Erlingsson ritar:

"Þegar ég er kominn skamman spöl frá ánni, ríð ég fram á upphlaðið mannsleiði. Hvort sem þarna eru bein í gröf, er það víst, að þetta er alveg eins og mannsgröf og af manna höndum gjört. Snýr það alveg eins og önnur leiði, og er steinum raðað í kross á því." (E.R.: Andstæður. Austri, júní 1985)

Rögnvaldur tengir leiðið við bónda sem þjóðsaga greinir að hafi búið í Dýjaseli við Ytra-Dýjafell í Norðurdal (sjá Glúmsstaðasel), og verið drepinn á leið úr kaupstað á Djúpavogi. (Jón Helgason: Syndir ferðranna I. bindi, og kvæðasafn Rögnvaldar).

Þórhallur Björgvinsson segir að "leiðið" sé aflöng þúfa á sléttum bala eða grund, að lögun og stærð sem upphlaðið leiði, líklega vel yfir 1 fet á hæð, og bungulaga, hækkar aðeins til austurs. Ekki vottar fyrir dæld í því, eins og um tótt væri að ræða. Á því er steinaröð, sem myndar nokkuð greinilegan kross. Þar að auki eru tveir steinar við leiðið, við sitthvort suðurhorn þess, og virðast þeir hafa verið fluttir þangað. Hann segist hafa farið að leiðinu fyrir nokkrum árum, ásamt Guðmundi Ármannssyni á Vaði, Hirti Kjerúlf o.fl., og þá hafi þeir grafið niður með því að norðan og séð að þar var greinilegur grjótveggur. Þórhallur álítur að þetta geti varla verið annað en leiði, og hefur sett það í samband við Dýjasels-bóndann, eins og Rögnvaldur. (Munnleg heimild, 11. des. 2001).

Umsögn um minjar 1990: Tótt hringhlöðunnar á Flöt ber tvímælalaust að vernda, svo og seltættur á Fellsdal og minjar um Kiðjafellsþing, ef finnanlegar eru, ennfremur kumlstaðinn.

Heiðveig Agnes Helgadóttir