Skip to main content
16 November, 2021

Þorgerðarstaðir/dalur

16 November, 2021
Þorgerðarstaðir


Þorgerðarstaðir eru gömul stórjörð sem getið er í fornsögum Austfirðinga, og átti land langt inn á Þorgerðarstaðadal, metin á 8 hundruð 1695. Jörðin komst snemma í eigu Valþjófsstaðakirkju, og er getið í elsta máldaga hennar 1397. Þar var lengi vel búið, en nokkuð skriðuhætt, bærinn lagðist í eyði 1975-80. Sumarið 1992 var allt land Þorgerðarstaða girt til skógræktar og var m.a. búið að planta trjám í túnið 1994.

Höf. skoðaði land og minjar á Þorgerðarstöðum 29. ágúst 1994 og tók þá bæði neg. og pós. myndir. Sama ár var rituð "skógræktarlýsing" og tilh. kort teiknuð. Þórhallur Björgvinsson fv. bóndi veitti margskonar upplýsingar.

Krossinn á Þorgerðarstöðum: Í fornbréfi frá 1507, varðandi afhendingu Valþjófsstaðakirkju, er þessi klausa: "og eitt kúgildi var gefið krossinum á Þorgerðarstöðum." (Ísl. fornbréfasafn, 8. bindi, bls. 179). Eitt kúgildi (= jarðarhundrað) var mikið fé, og má e.t.v. skilja það svo, að krossinn hafi fengið eitt hundrað í jörðinni Þorgerðarstöðum, sem Valþjófsstaðakirkja var þá búin að eignast.

Í kaþólskri tíð voru vel þekktir róðukrossar á nokkrum stöðum á landinu, sem átrúnaður var bundinn við, og fólk nýtti mikið til áheita og gaf þeim peninga, fatnað og ýmsa gripi. Frægastur slíkra var Krossinn í Kaldaðarnesi í Flóa á Suðurlandi, sem Gissur Einarsson biskup lét taka niður eftir Siðaskiptin, og lést skömmu síðar. Á Austurlandi var annar frægur gripur af þessu tagi: Róðukrossinn í Fannardal, Norðfirði, sem Kristján Eldjárn ritaði um í bókinni Gengið á reka, og Bjarni Vilhjálmsson í Árbók Fornleifafél. 1974, ennfremur Jakob Benediktsson í Kulturhistorisk leksikon IX. bindi, 181.-182. dálkur. Í Kaldaðarnesi var kirkja og bænhús í Fannardal, sem viðkomandi krossar voru í, en ekki er getið um bænhús á Þorgerðarstöðum, þó það geti hafa verið til. Í máldaga Valþjófsstaðar 1471 er getið um 7 bænhús, en ekki sagt hvar þau voru. (Ágúst Sigurðsson: Valþjófsstaður... Múlaþing 9, 1977).

Mér vitanlega er ekki getið um krossinn í öðrum heimildum, sem er næsta furðulegt, ef á honum var verulegur átrúnaður. Því er ekkert vitað um gerð hans eða afdrif. Hugsanlega var þetta útikross, eins og krossinn frægi í Njarðvíkurskriðum, sem enn er við lýði, og gæti hafa tengst skriðuföllum sem þarna hafa löngum verið tíð. Ýmsir álíta að róðukrossar hafi verið á bæjum sem bera krossnöfn, og munnmæli eru um slíkan kross á Krossi í Fellum, til varnar tröllagangi. (Sigfús Sigf.: Þjóðsögur).

Gamli bærinn: "Baðstofa 6 × 3,5 m [!] með reisifjöl, eldavélarhús, hlöður fyrir 50 hestburði (F 1918)." (SJM II, 58). Bærinn stóð þar sem fjárhúsin eru á túninu, þar til steinhús var byggt 1939, um 150 m utar, sem enn stendur. Það er ein hæð, og trjágarður við það.

Fjárhús heima: "Þá er komið heim að túni. Hús þar heita Garðhús, Gamlibær, Þorpshús. Þá er Hólhústóft, þar stóð Hólshúsið, sem fór af í skriðuhlaupi 10. nóv. 1941." (Örnefnaskrá / Sjá Arnaldsstaði). Að sögn Þórhalls Björgvinssonar var Hólhúsið um 100-150 m utar og ofar en hin húsin, og tók um 50 kindur. Nýbúið var að hleypa fénu úr húsinu þegar flóðið kom og kaffærði húsið, en hlöðuþakið (líklega úr timbri og járni) flaut ofan á skriðunni.

Fjárhúsin voru byggð á rústum gamla torfbæjarins og var grjót úr honum notað í veggina. Sumarið 1994 voru þarna tvístæð fjárhús, með járnþökum og -stöfnum, en hliðveggjum af grjóti og torfi. Að baki húsanna var járnbogaskemma sem gegndi hlutverki hlöðu. Húsin voru vönduð og smekklega byggð (um 1960), en það mun hafa annast Þórhallur Björgvinsson, síðasti bóndinn. Af hinum húsunun sáust þá aðeins grasi grónar tættur, e.t.v. hefur grjót úr þeim verið notað til að stækka aðalhúsið, sem stendur líklega enn. "Eru fallegar og vandaðar hleðslur í þessum húsum, yfirleitt valið grjót, með góðum köntum og víða hellur. Veggirnir eru mjög jafnir að innan, og dyrakampar oftast hlaðnir í rétt horn." (Ferðadagbók mín 1994).

Hesthús: "Þá er Bæjarhnaus, milli Holtslækjar og Hesthúslækjar, en hann kemur úr Hesthúsgjótu er síðar getur [í Bjarginu]." (Örnefnaskrá). Það er nú horfið.

Grjótgarður ofan við túnið, sem bæði hefur þjónað sem túngarður og til að verjast skriðum úr fjallinu (skriðugarður). Neðanvert við hann eru gamlir kartöflugarðar, sem einnig hafa verið umluktir grjótgörðum. Grjótgarðar (vörslugarðar) voru einnig við Sveinssel (sjá það).

"Myllutótt við Merkilæk, lenti undir aurskriðu 1942" (SMJ II, 58). Tóttin var við fremri grein lækjarins, stutt ofan vegar, hvarf líklega í skriðuhlaupi 1941.

Gamlistekkur: Neðan við neðsta hjallann (Álfaborgina), skammt fyrir innan Holtslæk, eru leifar af grjóthlaðinni rétt og sporöskjulaga stekkjartótt er þar stutt fyrir innan, einnig úr grjóti. Innan og ofan við stekkinn er Stekkjarhnaus í Kúahjalla. Þar er birki- og blómgróður.

Rétt var niður á bakka Keldár, innan og neðan við túnið og Gamlastekk. "Þarna stendur myndarlegur og breiður grjótveggur, neðan vegar, er stefnir þvert á ána, og grjótdreif af hinum veggjunum, sem hafa líklega verið rifnir, en réttin hefur verið ferhyrnd og aflöng þvert frá ánni." (Ferðalýsing 29.8. 1994).

Heystrengur lá af brún Þorgerðarstaðabjargs niður á beitarhúsin Dalshús. Slíkir strengir voru víðar á Dalabæjum í Fljótsdal, notaðir til að renna niður böggum af heyi, sem aflað var uppi á fjallinu. Þórhallur lýsti strengnum og notkun hans þannig 26. apríl 1994:

Strengurinn lá frá Stapanum framanvert við svonefnda Vírgjá í Bjarginu og niður að vindauga efri hlöðunnar á Dalshúsum, sem voru beitarhús frá Þorgerðarstöðum, um 1 km innan við bæinn. Strengurinn var 800 m langur og 7 mm sver. Hann mun hafa verið fluttur á bát upp í Brekku, og þaðan líklega fyrst á kerru en síðan á hestum. Til að flytja hann á hestum varð að greiða rúlluna í sundur og skipta henni á hestana, sem gengu í lestarröð. Þannig var vírinn svo fluttur upp undir Bjarg, en þá var eftir að koma honum upp Vírgjána, og til þess þurfti heilmikinn mannskap. Efri endanum var svo vafið utan um gríðarmikinn, jarðfastan stein. Einu sinni í tíð Þórarins Stefánssonar, fóstra Þórhalls, slitnaði strengurinn upp við steininn, þar sem hann lá á viðarbút eða fjöl; tognaði bara í sundur þegar Þórarinn var nýbúinn að setja bagga á hann. Þeyttist strengurinn þá með miklum tilþrifum og hamagangi út í loftið, vatt jafnframt upp á sig og hafnaði mest af honum heima við húsin. Varð þá að tosa endanum upp aftur, og var það mjög erfitt, vegna þess hve flæktur hann var orðinn. Strengurinn var aðeins notaður einu sinni í tíð Þórhalls, en það var sumarið 1932, þegar hann var 16 ára. Þá var af einhverjum ástæðum heyjað uppi á Múla, í svonefndum Marklækjarbug. Heyið var bundið óþurrkað (votaband), flutt á hestum inn að Vírgjá og rúllað niður strenginn. Þá hafði heystrengurinn ekki verið notaður í mörg ár. Stuttu síðar var hann tekinn niður og seldur í Egilsstaði í Fljótsdal, þar sem hann var aftur settur upp í sama tilgangi. Mun það vera síðasta framkvæmd af því tagi í Fljótsdal, og þá líklega á öllu landinu, en ekki er vitað til að heystrengir væru notaðir annarsstaðar hérlendis. Halda menn helst að fyrirmyndin sé frá Noregi, en þangað fóru nokkrir Fljótsdælir í búnaðarskóla á árunum 1875-80. (Uppskrift: H. Hall. 1994).(Nánar í grein minni: Heystrengir og fjallheyskapur í Fljótsdal. Glettingur 22 (2), 2012).

Álfaborg nefnist stuðlaklettur innst í neðsta hjalla ofan við túnið á Þorgerðarstöðum. Þetta örnefni er ekki tilfært í örnefnaskrá jarðarinnar, svo líklega er það nýlegt. Þórhallur Björgvinsson þekkti það vel, en kunni engar sögur því tengdar.

Minjar á Þorgerðarstaðadal
Þorgerðarstaðadalur liggur inn úr Suðurdal. Í fornum máldaga Valþjófsstaðakirkju segir að hún eigi selför á Seljadal, og sýnist þar átt við Þorgerðarstaðadal, þar sem voru mörg sel. Í elsta máldaga Hallormsstaðakirkju (1397) segir að hún eigi "fjórðung í Keldudal.." og hefur verið talið að það eigi við Þorgerðarstaðadal (Hallormsstaður í Skógum, 2005, bls.121, 325).

Vestan Keldár tilheyrir dalurinn jörðinni Þorgerðarstöðum, sem var eign Valþjófsstaðakirkju, en austurhlutinn var stundum nefndur Fellsdalur, og var líka eign kirkjunnar (sbr. Sturluflöt). Valþjófsstaðaprestar og -bændur höfðu sel í dalnum og líklega einnig landsetar þeirra og leiguliðar. Daniel Bruun kom í Þorgerðarstaði 6. ágúst 1901, og dvaldi þar tvo daga við rannsókn á fyrrnefndu kumli við Keldá (sjá Sturluflöt), en aflaði sér jafnframt vitneskju um selin og beitarhúsin á Þorgerðarstaðadal. Frásögn hans af þeim er þó dálítið ruglingsleg, og setur hann sum þeirra öfugu megin við ána. (Við norðurbrún Vatnajökuls, Rannsóknir á Austurlandi 1901. Múlaþing 7, 1974, bls. 192 og tilh. kort, bls. 171.)

Dalshús: "Þá koma Dalshús, sem eru beitarhús frá Þorgerðarstöðum, og standa gegnt bænum á Sturluflöt. Rétt utan við Dalshús falla niður svonefndir Skriðulækir." (Örnefnaskrá). Dalshús standa í mynni dalsins, andspænis Fellshúsum frá Flöt. Hætt var að nota húsin 1958. Þar eru greinilegar fjárhúsatættur á tveimur stöðum í túni, og sést móta fyrir fornum túngarði. Veggir húsanna eru fallega hlaðnir, að miklu leyti úr hellugrjóti, sem Þórhallur segir að hafi verið sótt ofan í Keldárgil.

Pétur Sveinsson smiður, sem ólst upp á Þorgerðarstöðum, segir frá því er hann var "sauðasmali í 5 ár á svokölluðu Dalshúsi" um miðja 19. öld. Þá var hann látinn sækja skógvið inn í Stöppuskóg og bera heim á bakinu. Úrræði hans var að smíða sleða og aka viðnum á honum eftir Keldánni. (Pétur Sveinsson: Dálítið úr ættartölu og þáttur af einum Austfirðingi. Múlaþing 19, 1992, bls. 196).

Hringsel: "Um 2000 álnum fyrir sunnan Þorgerðarstaði, austan [!] Keldár, er Hringsel. Þar eru nú fjárhús. Hér sjást mjög óskýrar tættur, huldar aurskriðu," ritar D. Bruun 1901 (Múlaþing 7, bls. 192), og setur selið öfugu megin við ána, en þó rétt á tilheyrandi korti. Hann virðist eiga við Dalshús eða Fellshús. Hringsel var á Hringselsgrund (utan- og ofantil) um 700 m innan við Dalshús, og voru þar sýnilegar tættur fram um 1941, þegar skriða féll þar yfir, eins og víðar á þessum slóðum. Í fjallinu eru Hringselsgjá og Hringselsstapi kennd við selið. (Tæpum km innar er Prestselsgrund, talin er vera kennd við sel með því nafni austan Keldár).

Sveinssel "Litlu sunnar [en Prestsel], vestan ár, var Sveinssel. Þar standa nú fjárhús á seltóttum. Þetta sel var um það bil hálfa mílu frá Þorgerðarstöðum", ritar D. Bruun 1901. Sveinssel er á flötum tanga eða höfða undir Sveinsselsfjalli, við Keldá, sem fellur þar í grunnu og víðu gili. Um hálfum km innar byrjar svo Keldárgil og Þorgerðarstaðaskógur (Stöppuskógur). Þarna eru mjög skýrar tættur, þær yngstu af beitarhúsum, stór fjárhústótt, af húsi sem gæti hafa rúmað um 80 sauði, veggir mjög vel hlaðnir úr köntuðu grjóti, enda stendur tóttin vel enn. Innan við hana eru tættur af tveimur "jötukofum", og lítil hlöðutótt við þá báða. Lítil tótt út úr aðaltóttinni er kölluð Mjólkurhús, og minnir á selbúskap á staðnum.

Þórhallur Björgvinsson telur sig hafa heyrt að Ingunn Einarsdóttir, sem bjó á Þorgerðarst. um miðja 19. öld (fram yfir 1860) hafi haft þar í seli. Reyndar man Þórhallur eftir að eitt sumar, líklega 1928 eða 1929, var fært frá á Sveinsseli. Ærnar voru þá réttaðar í stóru hústóttinni og beitt í hlíðina þar fyrir utan. Þetta mun þó aðeins hafa verið gert einu sinni, líklega vegna þess að illa stóð á með mjólkurkýr. (Skv. D. Bruun voru engar kvíaær á Þorgerðarstöðum 1901). Vörslugarður úr grjóti lá niður úr Mjógili ofan í Keldá, en út fyrir hann komust ærnar ekki. Sjást leifar hans enn. Annar garður var líklega fyrir innan selið. (Munnl. heimild, 26.4 1994).

Flötuskriðustekkur: “Þá er það Klapparlækur, en nokkuð innan við hann heitir Flötuskriðustekkur, en snertispöl innan við hann er grashvammur í Kelduárgilinu, sem Stóribás heitir.” (Bragi Björgvinsson: Rölt um sér til hugarhægðar. Austurland, 45. árg., jólablað 1995, bls. 30). Samkvæmt örnefnaskrá er Flataskriða innan við Sveinssel, ofan við Stórabás, og um hana lá gamall heybandsvegur ofan af Múla. Þar er ekki getið um stekkinn, sem líklega hefur verið nýttur frá selinu.

Stöppusel var á Stöppuklifi, innan og neðan við Stöppuskóg, talið "afbýli frá Þorgerðarstöðum" í eyðibýlaskrá Halldórs Stefánssonar (Múlaþing 5), en engar heimildir eru um búsetu þar, sem verður að teljast ólíkleg, enda þótt þarna sé vel gróið land og nokkuð búsældarlegt. Engar tættur fann ég þar við skoðun 26. júní 2000, en Páll Pálsson segir þar vera eina tótt, heldur óskýra.

Randalínusel var innst þessara selja (um 10 km frá Þorgerðarst.). Það er sagt vera kennt við Randalín Filipusdóttur, konu Odds Þórarinssonar, sem uppi var á 13. öld og kemur við sögu Sturlungaaldar. "Þar sjást 4-5 tættur, þar á meðal ein stór tótt, spöl frá hinum", ritar Daniel Bruun (Múlaþing 7, 1974). Við "Randalínufoss" í Keldá er dálítill höfði, og fellur lækur niður um hann miðjan, sem heitir Randalínulækur, og uppi á höfðanum eru tættur Randalínusels.

"Stærsta tóttin er innan við lækinn, aflöng, í stefnu þvert á gilið, um 10 m löng og um 5 m breið að utanmáli, en austurendi er óglöggur. Þessi tótt gæti verið af íveruhúsi (baðstofu eða skála) selfólksins, en Páll Pálsson telur að hún sé líkast til af kvíum eða rétt (m.a. vegna stærðar). Tóttin er með sama gróðri og umhverfið (lyng, gras, grámosi og loðvíðir). Fast við lækinn að utanverðu er lítill hólkollur, og á honum miðjum mótar greinilega fyrir tveimur tóttadældum. Hafa þar verið tvö lítil hús, sambyggð, og sést í grjótvegg við lækinn, sem e.t.v. hefur brotið eitthvað sunnan af rústinni (e.t.v. þriðja húsið?). Stærri tóttin, sem er lækjar megin, er um 4 x 4 m að utanmáli, en sú minni um 3 x 4 m, og mótar fyrir dyrum í austur á þeim báðum. Er líklegt að þarna hafi verið eldhús og búr selsins." (Ferðadagbók H. Hall. 26. júní 2000).

Kofi: Í Tunguárhvömmum, um 0,5 km innan við Randalínusel, er ferköntuð smátótt, mikið niðurgrafin, um 2,50 × 1,50 m, af fornum gangnakofa, sem líklega var dyralaus en gengið í um op á þekjunni. Þórhallur Björgvinsson kvaðst ekki vita hvaða hlutverki kofinn hefði gegnt, en giskaði á að hann hefði verið nýttur af engjafólki, því að góðar slægjur voru í hvömmunum, eða þá fyrir gangnamenn. (Sögn hans 26. apríl 1994).

Tungufellsárkofi (Tunguárkofi) er efst í Tunguárhvömmum, á mel rétt fyrir utan Tunguá, litla þverá sem kemur suðvestan af Múlanum, milli hans og Tungufells. Níels Pétursson í Seli sagði að kofi hefði áður verið um 1 km innar, líklega utan í Tungufelli, og ætti að sjást tótt af honum. Þegar hann kom fyrst í kofann um 1930 var hann lítill og lágur, svo varla var hægt að matast inni í honum, en líklega mátti troða í hann 5-6 manns. Þórhallur Björgvinsson sagði hann hafa rúmað 8 menn, þegar legið var þvert, en hann var svo mjór að stórir menn urðu að liggja krepptir. Kofinn var úr torfi og grjóti, þakið á mæniás og röftum, með hrístróði, sem tyrft var yfir og ein stoð í miðjum kofa. Orf og ljár var í kofanum til að slá hey á gólfið. Árið 1939 var kofinn lengdur um ca. 2 metra, og um 1950 var sett á hann járnþak með torfi. Hætt var að nota kofann um 1970. (Munnl. heimildir í febr. 1993 / H.Hall.: Samantekt um gangnakofa á Fljótsdalsafréttum (I), Múlaþing 25, 1998).

Umsögn 1990: Seljatætturnar á Þorgerðarstaðadal hafa mikið sögulegt gildi, ekki síst Randalínuselið, sem talið er vera frá 13. öld., og á sumum þessara selja hefur e.t.v. verið búið. Fjárhúsin heima eru líka verndarverð, sem dæmi um vel uppbyggð fjárhús.

Heiðveig Agnes Helgadóttir