Skip to main content
17 November, 2021

Hóll

17 November, 2021

Hóll


Hóll er gömul hjáleiga Valþjófsstaðar á syðsta fjórðungi jarðar eða svo. "Landamörk við Valþjófsstað voru ekki ákveðin fyrr en 1970..." segir í SJM II, 42. [Það er varla rétt]. "Gömul merki eru við Dvergabælislæk", segir í Örnefnaskrá. Telst nú ríkiseign, eins og aðaljörðin. Bærinn fór í eyði þegar riða kom upp í sauðfé 1986 og því var slátrað. Skógrækt var hafin á jörðinni 1992, og var plantað í ysta hluta landsins (Teiginn). Þórhallur Þorsteinsson frá Arnaldsstöðum hafði þar 20 kindur 2011, að sögn Hjörleifs á Glúmsstöðum.

Gömlu húsin voru skoðuð 27. júní 1988. Landið var skoðað 2. ágúst 1990, og líka gáð að minjum. Skógræktarlýsing er dagsett 10. sept. 1992. Þá var búið að ryðja öllum torfhúsum.

Gamli bærinn: "Baðstofa, að hluta á þrepi, öll 8 x 4 3/4 alin, rifin 1950. Bæjardyrahús 7 x 4 álnir, dyr í suður, rifin 1935." (SJM II, 43).

Benedikt Friðriksson bóndi á Hóli teiknaði grunnmynd af bænum, sem geymd er í aðföngum SJM í Héraðsskjalasafni. Samkvæmt henni sneri bærinn langhlið S-N, og voru bæjardyrahús, baðstofa og kúahlaða í röð vestan megin í bænum, göng og búr í miðju, en fjárhúskofi, hlóðaeldhús og fjós í austurhlið, innangengt í öll húsin nema kúahlöðuna.

Steinhús, byggt 1935 og viðbót 1950-51, 10 × 7,6 m, 2 hæðir. Glæsilegt hús en má nú muna fífil sinn fegri. (SJM II, 43) Mynd í bókinni.

Útihús: "Steypt hlaða, 130 m3 (1958) og votheysgryfja 26 m3. Önnur hús úr torfi og grjóti, undir járni, fjós fyrir 4 (1959), fjárhús fyrir fyrir 330, hesthús fyrir 8, hlaða 220 m3, gryfja 22 m3." (SJM II, 43). Hlaðan sést á bæjarmyndinni, rétt fyrir ofan íbúðarhúsið.

"Kofatún heitir fremst á túninu, framan við gilið, þar var hesthús, en svo hrapaði steinn eitt sinn niður í það, svo hætt var að nota það. Utan við lækinn, neðst og fremst á aðaltúninu, heitir Garðhvammur. Þegar hér voru fyrst ræktaðar kartöflur, var það gert þarna, nú er það tún." (Örnefnaskrá). "Gömlu gripahúsin stóðu spölkorn framan við bæ. Neðst var Hesthús, þá var Neðstahús, Miðhús og Efstahús. Búið að rífa Miðhúsið." (Örnefnaskrá, viðbætur 1973).

Hesthús var 1988 skammt innan við bæinn, með fallega hlöðnum veggjum. Í þeim voru kantaðir steinar og vinkilréttir á hornum. Járnþak var síðast á húsinu. Bak við það var heystæði eða hlöðutótt. Mynd var tekin af því 27. júní 1988, en það var jafnað við jörðu 1989, ásamt öðrum gripahúsum á jörðinni. Mótar nú aðeins fyrir þeim sem hólbungum í túninu.

Smiðja: Gamall smiðjukofi úr torfi og grjóti, með torfþaki, stóð enn að nafni til 1992, niður við veginn innan og neðan við bæinn, líklega byggður af Friðrik Stefánssyni bónda á Hóli framan af 20. öld, síðar notaður af Benedikt syni hans til járnsmíða. Í kofanum voru ýmis áhöld sem tilheyra smiðjunni, en lágu undir skemmdum, enda var hann að hruni kominn.

Jón Benjamínsson jarðfr., Rvík lagði til um 1986, að smiðjan yrði varðveitt og endurnýjuð:

"Einu langar mig að vekja athygli á í lokin, en það er uppbygging og viðhald á gömlu smiðjunni í Hóli. Þetta er lítil, stílhrein bygging, sem vekur athygli vegfarenda, og myndi ekki kosta mikið að endurbæta - að auki eru í henni einhver áhöld, sem þar hafa verið notuð og eru nánast safngripir. Þetta mál hefur verið reifað við nokkra brottflutta Fljótsdælinga hér syðra sem og eystra, og hafa þeir sýnt mikinn áhuga. Má þar m.a. nefna Benedikt Jónasson frá Þuríðarstöðum og Þórhall Björgvinsson frá Þorgerðarstöðum, sem þegar hafa lýst sig fúsa til aðgerða. Rvík í okt. 1986. J.B." (Jón Benjamínsson: Fljótsdæla hin nýja - meraættir. Fjölrit, okt. 1986).

Því miður varð ekki af framkvæmdum, þrátt fyrir góðan vilja þessara manna, og nú er líklega orðið of seint að bjarga húsinu og smíðatólum þess. Sumarið 2012 var þak smiðjunnar fallið inn í hana og allt sem þar var inni sýnilega ónýtt.

Túngarður: "Gamla túnið girt að ofanverðu með grjótgarði, og utan við það ævagamall vörslugarður úr torfi og grjóti til 1930." (SJM II, 43). Brot af garðinum sást ofan túns 1990.

"Bæjarlind er nú utan túns. Var veitt heim á tún, áður en vatnsleiðsla kom." (Örnefnaskrá).

Nátthagi: "Og utan við Ljósána er rák í hjallanum [Geitahjalla / Geitahjallarákum], sem heitir Háarák. Stundum voru kvíaær reknar þangað og svo hlaðið fyrir, svo þær kæmust ekki burtu." (Örnefnaskrá).

Stekkur: "Þá er næsti lækur [utan við Ljósár] Stekkalækur, og utan við þann læk er gamall stekkur, sem heitir Einarsstaðir, var stekkur áður en Einar byggði sér þar kofa. Út af stekknum er svo Stekkahjalli." (Örnefnaskrá).

"Myllutótt við Ljósá, niður við Jökulsá." (SJM II, 42). Ekki skoðuð.

Dvergabæli (Dvergabýli / beitarhús): "Undir Stekkaklettum, utan til, stendur Dvergabæli. Það voru beitarhús. Utan við húsin er klettur, kúptur að ofan, sem heitir Einbúi. Og utan við húsin er Dvergabælislækur. Sögn er að dvergur hafi búið hér og kerling hans á Tóftatanga, handan ár. Hér eru tóftaleifar, sem virðast vera af smábýli. En beitarhúsin voru byggð þar sem aðalrústirnar voru.." (Örnefnaskrá)

"Dvergabæli eða Dvergabýli er gamalt eyðibýli, talið frá Valþjófsstað (skv. eyðibýlaskrá Halldórs Stefánssonar. Sjá Múlaþing 5, bls. 180). Þar bjó síðast einsetukona. Talið er að dvergar hafi átt sér bústað þar nærri. (Sjá Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar IV, bls. 167). Þar segir að bærinn hafi verið fluttur frá Dvergabæli og endurreistur á Hóli, enda er sú jörð hjáleiga frá Valþjófsstað. Benedikt Friðriksson segist hafa heyrt smíðahljóð í kletti nálægt Dvergabæli." (Örnefnaskrá, viðbætur 1973).

"Skammt frá Hóli í Norðurdal í Fljótsdal eru gamlar tættur. Sýnist ein tóttin, sú stærsta, að hafa verið langskáli sem tíðkaðist í fornöld. Tættur þessar eru kallaðar Dvergabýli. En sú er orsök til nafnsins, að í fyrndinni segja menn að þar hafi búið dvergar tveir, þótt eigi kunni menn nú sögur af þeim. En síðast voru þar tvær kerlingar, og fluttu bæinn þangað sem nú heitir á Hóli, og áður var nefnt. En þótt engar sögur fari af dvergunum í Dvergabýli, þá hafa þeir auðsjánlega haft þar allmikla byggingu, því skálatóttin segja menn að Sigurður Vigfússon fornfræðingur segði að væri sú stærsta samslags tótt á landinu, er hann hefði fundið." (Sigfús Sigfússon: Þjóðs. og sagnir, 2. útg., III. 186).

Dvergabæli er um 1 km utan við bæinn, á stuttum klettahjalla, skammt ofan vegar. Þar voru beitarhús frá Hóli frá um 1925 og fram að búsetulokum 1986, en þau voru jöfnuð við jörðu 1989. Húsin voru tvístæð, í "nýhúsastíl", með hlöðu. Þau voru byggð á gömlum tóttum. Samkvæmt myndum frá 27. júní 1988, hafa þau verið dálítið sérstæð. Langveggir húsanna voru vel hlaðnir, úr köntuðum steinum. Þökin voru úr járni, og lagt ofan á þau torf og fest með steinum. Húsin sneru stöfnum fram í dalinn, og voru tveir stórir gluggar á þeim og einar dyr á milli þeirra í miðju. Þau hafa því verið milliveggslaus. Utan við þau var stór hlaða, öll úr bárujárni á trégrind, og sneri þvert á húsin, en utan við hana sést í bogalaga skála eða skemmu úr járni, sem líklega hefur einnig verið tvístætt fjárhús. (Þetta hefur því verið fjárhúsaþyrping, svipað og í Vallholti og á Hjarðarbóli).

Heystrengur: "Svo heitir HeykletturHólsbjargi, utan við Hólsgjá]. Þar var heyi rennt niður á túnið. Var þar stór steinn, sem tók ferðina af böggunum. Vírnum, sem rennt var á, var festur við spil. Þetta var síðast gert 1928." (Örnefnaskrá) (Sbr. Þorgerðarstaði, Kleif og Egilsstaði).

"Fram til ársins 1928 voru engjar sóttar hátt í fjall ofan við Bjargið, í brattar, grösugar brekkur. Þar voru þurrar og skemmtilegar engjar og heygóðar, m.a. laufslægjur, en afar torsóttar. Reipi, trissur, amboð og viðlegubúnað þurfti annaðhvort að flytja á hestum inn fyrir Þuríðarstaði, til að komast upp, eða þrælast með allan þennan flutning á bakinu upp Hólsgjá á Bjargbrún, þar sem það var sett á hesta. Stundum var einnig flutt á hestum upp undir gjána, þótt bratt væri. Þá klöngraðist jafnan einn maður daglega niður Hólsgjá eftir matföngum og bar upp. Heyið var bundið í bagga og rennt niður á streng af Heykletti á Bjargbrún - í garð." (SJM II, 42.).

Hólssel (beitarhús): "Á Nautahlíð, ofan við Hólsbjarg, eru á þrem stöðum tættur; heitir þar Hólssel." (SJM II, 42). Á Nautahlíð er Hólssel, þar voru beitarhús fram um aldamót. Hólssel er aðeins utar en bærinn Hóll. Utan við Hólssel er Selhnúta, þar er varða... Næsta hlíð er svo Selhlíð, hún gengur undir því nafni frá Bjarnagjá inn hjá Egilsstöðum." (Örnefnaskrá). Þetta sel er uppi í fjallinu fyrir ofan Hólsbjarg og Bjargskóg. Þar eru óhreyfðar tættur beitarhúsa, sem voru síðast notuð um aldamótin 1900, og líklega einhverjar minjar um selið (sbr. eftirf. tilvitnun), en ég hef ekki komið á staðinn. (Örnefnið Nautahlíð bendir til að naut hafi verið höfð á selinu. / Sbr. einnig Kúahjalli í Þorgerðarstaðafjalli o.fl.)

"Grasi vaxinn hvammur, klettabelti fyrir ofan og brött brekka neðan við. Á selinu eru 3 tóftir. Aðaltóftin snýr NNV-SSA, 16 x 5,5m, vegghæð 0,5 m, hlaðin úr torfi og grjóti og skiptist í 3 hólf, stórt miðhólf, og lítil hólf við hvorn enda. Op er á SA-gafli. Um 6 m sunnan við S-horn er önnur tóft, óskipt, 9 x 6 m, snýr því sem næst í N-S, með op á miðjum A-vegg. Um 54 m VSV frá aðaltóftinni er 3ja tóftin, hún er 15 x 9 m, snýr í NV-SA, skiptist í stórt hólf og lítið, gengt er á milli hólfa, og dyr eru á SA-gafli stærra hólfsins." (Fornleifaskýrsla 2001).

Varða: "Utan við Hólssel er Selhnúta, þar er varða." (Örnefnaskrá). "Varðan er uppi á hjallabrún, beint upp af fjárhúsum á Hólsseli... Varðan er heilleg, um 1,4 m há, hlaðin úr grjóti." (Fornleifaskýrsla 2001).

Hólsrétt er allstór grjóthlaðin rétt, við veginn, á grasi vaxinni eyri við Jökulsá utan og neðan við Dvergabæli. Áður en Fljótsdalsrétt (Melarétt) var byggð, um 1905, var Hólsrétt skilarétt fyrir fé undan Fellum, en síðan notuð frá Hóli meðan þar var búið. Skv. mynd frá júní 1988 er réttin tvískipt, og voru veggir nokkuð farnir að hrynja, nema í innsta hlutanum. Stór steinn er utantil í réttinni.

Sesseljuskúti:Geitahjallarákunum, upp af Ljósárhjalla, er Sesseljuskúti. Sagt er að þangað hafi stúlka flúið undan húsmóður sinni, sem var vond við hana." (Örnefnaskrá).

Vættasögur: Ýmsar sagnir eru um dverga og/eða huldufólk við Dvergabýli, eins og fyrr var getið. Sigfús hefur sögu eftir Pálínu Friðriksdóttur (Frydendal), sem lengi bjó á Hóli fyrir 1900, að eitt sinn hafi hún séð tvo menn koma gangandi ofan af Geitahjalla. "Var annar þeirra lágur vexti, en hinn lítið eitt hærri. Þeir skröfuðu og skeggræddu um hitt og þetta, og hurfu óeðlilega fljótt í Dvergabýlinu." Þar voru þá engir menn. Benedikt bóndi á Hóli heyrði smíðahljóð í kletti (Einbúa?) nálægt Dvergabýli, Þórarinn skólastjóri á Eiðum hafði heyrt "að Egilsstaðasystkin hefðu séð þar smávaxið fólk í mórauðum fötum, með koll- eða skotthúfu." (H. Hall.: Huldufólksstaðir á Héraði, 1993, handrit).

Umsögn um minjar á Hóli 1990: Smiðjan hefur nú mest minjagildi af mannvirkjum á Hóli, en grípa verður fljótt til verka ef takast á að bjarga henni frá því að falla í rúst.

Heiðveig Agnes Helgadóttir