Skip to main content
24 November, 2021

Eyrarland,Litla Grund og Bessastaðagerði

24 November, 2021

Eyrarland

Eyrarland er nýbýli úr Bessastaðalandi, stofnað 1937 (hið elsta í Fljótsdal) af Jóhanni Jónssyni frá Bessastöðum og Bergljótu Þorsteinsdóttur frá Þuríðarstöðum. Bærinn var byggður á eyrum Bæjarlækjarins, stutt neðan þjóðvegar, og fékk mikinn hluta Bessastaðaness í sinn hlut, sem nú er nær allur orðinn að túni. Annað nýbýli, Eyrarland II, var stofnað 1987 á 4,3 ha lands SA við bæinn, en þar voru aðeins byggðir tveir skálar fyrir minkaeldi. (Hefur nú líklega verið sameinað aðaljörðinni). Í "Búkollu" og örnefnaskrá er Eyrarland ekki aðgreint frá aðaljörðinni og hafa minjar sem þar eru því verið taldar með Bessastöðum.

"Steinhús, byggt 1937, stærð 7,5 × 8 m, ein hæð. Bóndinn byggði sjálfur, eftir breyttri teikningu frá Teiknistofu landbúnaðarins.

Útihús: Steypt fjárhús fyrir 400 (1970), og hesthús fyrir 8 (gamalt) og 2 steyptar hlöður, 917 m3, súgþurrkun. Verkfærageymsla (járn), 20 m2 (1958). Steypt fjós (1938) fyrir 4 kýr, torffjárhús fyrir 220 (1940-45)." (SJM II, 32).

Samkvæmt þessu hefur Eyrarland nýtt gamalt hesthús og fjárhús (líklega Ytri-Ærhúsin og/eða Aurhúsið) á heimabænum fyrstu árin, því engar minjar eru um torfgrjóthús við nýbýlið.

Forngripir: "Myllusteinn úr annari Klausturmyllunni, ca. 40 sm í þvermál og 7 sm á þykkt, klappað í hann A 1861." Sjá Klaustur. (Skrá yfir muni á heimilum, Aðfangabók Minjasafns Austurl. G. Har.)

Litla-Grund

Litla Grund er nýbýli stofnað 1946, á aðeins 5 ha innst í landi Bessastaðagerðis, en fékk einnig smápart af landi Bessastaða. Stofnandi Einar Jónsson frá Bessastöðum og Anna M. Kjerúlf frá Hrafnkelsstöðum. (SJM II).

"Steinhús, byggt 1947, stærð 7 × 8 + 6 × 5 m, ein hæð. Útihús: Steypt fjós fyrir 4 kýr, og hlaða. Fjárhús fyrir 40-50 úr blönduðu efni, og geymsla 3,7 × 5 m." (SJM II, 29).

Bærinn fór í eyði 1974. Starfsmannafélag Búnaðarbankans (nú Arion-banka) keypti býlið 1980, og hefur síðan notað íbúðarhúsið sem sumarhús. Útihús voru nýtt frá Gerði fram til um 1990, en voru þá rifin, nema steypta hlaðan. Efri veggur fjárhússins, sem var líklega byggt 1947, og var rétt fyrir utan og ofan íbúðarhúsið, var látinn standa sem skjólveggur fyrir trjágarðinn, sem var stækkaður austur fyrir húsin. Veggurinn er vel hlaðinn úr torfi og grjóti, um 1,50 m hár, var þakinn með grastorfi og stendur ágætlega enn; gott dæmi um endurnýtingu. Mikill trjágróður er nú við Litlu-Grund.

 Bessastaðagerði

Bessastaðagerði er gömul hjáleiga frá Bessastöðum, eins og nafnið bendir til, byggt á ytri hluta jarðarinnar, og fylgdi Bessastöðum um eignarhald, þar til ábúandi keypti það af Landssjóði um 1920. Jarðarmat var 8 hundruð 1695.

Land og minjar í Gerði var skoðað og myndað 11. og 19. júlí 1989, 7. okt. 1990 og 22. okt. 1996, í tengslum við nágrannabæi. Skógræktarlýsing er dags. 7. febr. 1992.

Gamli bærinn: "Baðstofa, 9 × 4,5 alin, byggð á þrepi, innanþiljuð. Bæjardyraloft. Hlöður fyrir 280 hestburði (Fasteignamat 1918)." (SJM II, 29).

Timburhús var byggt við torfbæinn, líklega um 1920 (?), og stóð til 1950-60, en um það er ekki getið í SJM II.

Höf. gisti þar hálfan mánuð, 10 ára gamall, veturinn 1945-46, þegar farskólinn var á Bessastöðum. Mig minnir að þetta hafi verið tveggja hæða hús, járnklætt, með lágu risi, og snúið langhlið samsíða hlíðinni. Líklega stóð þá hluti torfbæjarins.

Þessi bær var um 50-70 m innan og ofan við núverandi íbúðarhús, rétt fyrir ofan trjálundinn sem þar er nú. Þar stóð 1989 lítið hús með grjóttorfveggjum og járnaþaki, líklega fellt um 1995. (Myndir hafa ekki fundist af timburhúsinu).

"Steinhús byggt 1946-1947, spöl utan við gamla bæinn, stærð 147 m3 (90 m2)." (SJM II, 28). Þá hefur verið flutt úr gamla bænum og timburhúsinu. Stærra steinhús var byggt við það á 10. áratugnum og eldra húsi þá breytt.

Trjágarður var neðan við timburhúsið, sem fyrr segir, líklega álíka gamall og húsið. Sumarið 2012 voru þar 8 myndarleg reynitré, 3 stór lerkitré og 3 birkitré, öll í sæmilegu ástandi, reyni- og lerkitrén um eða yfir 10 m há.

Gripahús á heimatúni: "Útihús: Steypt hlaða, 719 m3. Torffjárhús fyrir 260 og fjós fyrir 5 kýr, sambyggt (1966). 4 gamlar torfhlöður, 2 blásarahús fyrir súgþurrkun, og hesthús fyrir 5 hesta." (SJM II, 28 / Skv. mynd voru þá komin steypt fjárhús við hlöðuna). Í örnefnaskrá er ekki getið um nöfn á gripahúsum.

Sumarið 1990 stóðu tvö gripahús á túninu utan við bæinn og rúst af þriðja húsinu. Hesthús var heima við bæinn, rétt utan við Bæjarlækinn, nokkuð langt hús, með tveimur dyrum á langvegg að austan, torfgrjótveggjum og torfþaki, en timburstafni að framan. Veggir voru farnir að gefa sig. Guðrún Kristinsd. minjavörður skoðaði það í sept. 1991, og lýsti því svo:

"Hesthús, með grind úr blönduðu efni, gömlu og nýju, þak á parti með birkitróði, herskálajárn og bárujárn undir torfi á þaki. Grjót- og torfhleðslur standa ágætlega. Eiríkur í Vallholti hlóð. Húsið hefur verið lengt í báða enda (út og fram) í tíð Péturs bónda. Hellulögn er ekki (lengur?) í gólfi. Pétur vill gjarnan halda við, en flytur næsta ár, og [Guðmundur] sonur hans tekur við." Guðrún tók myndir af húsinu og líka inni í því. (Geymdar í Minjasafni Austurl., Eg.)

Þetta gamla hús stendur enn, en er orðið hrörlegt. Ég skoðaði húsið 5. ágúst 2012, með Ólöfu Arngrímsdóttur, sem tók myndir af því. Veggir voru mikið farnir að bila, einkum stafnveggur að utan, og torf farið að eyðast af þakinu, svo víða glitti í járnið sem er undir því; það er venjulegt galvaniserað bárujárn í fremri hluta, en ryðgað herskálajárn í ytri hluta. Í fremri hluta eru afmarkaðir básar fyrir hesta, og þar hefur torf verið fest á vírnet milli rafta, undir járnþakinu. Ytri hlutinn hefur verið nýttur sem geymsla, og allt húsið er notað þannig nú. Anna Jóna Árnmarsdóttir húsfreyja, sem við hittum, taldi húsið ónýtt og að dagar þess væru bráðum taldir.

Stuttu utar var 1990 tótt af fjárhúsi, sem nefnt var Garðhús, veggir þess stóðu enn og hluti af þekjunni, og sást þar hvernig stórum hellum var raðað á raftana, og þær látnar skarast niður á við, svo að þær steyptu af sér vatni. Þriðja fjárhúsið var enn nokkurn spöl utar, í sömu röð og hin, með grjótveggjum, timburþili að austan og járnþaki, og lítil hlaða með járnþaki ofan við. (Líklega nefnt Ystahús?). Þessum húsum og tóttum var rutt við riðuhreinsun 1990-92.

Kóngspartur: "Í túninu, fremst, heita Innri-Kóngspartur og Ytri-Kóngspartur. (Örnefnaskrá). Þessi örnefni eru merkileg því að þau vísa til þess tíma er Bessastaðatorfan taldist eign konungs í Kaupmannahöfn, þ.e. eftir siðaskiptin 1552, þegar jarðir Skriðuklausturs voru gerðar upptækar og urðu opinber eign. Líklega hefur hey af pörtunum gengið upp í landskuld til umboðsmanns Klausturjarða.

Vörður: "Neðan Selhlíðar, utar, er sami flöturinn og á Melum, sem heitir Undirlendi. Þar á, við Brúarlækjargilið, er varða sem heitir Sveinka, hlaðin þar úr grjóti, 1892. (Sjá Brekkugerði)." "Á Brúninni er hæð sem heitir Fálkaþúfa. Utar við Brúarlæk er varða á hrauk, sem heitir Brúarlækjarhnaus." (Örnefnaskrá).

Sveinka er miðhlíðis, við Brúarlækjargil að utanverðu, nefnd eftir höfundi sínum, Sveini Jónssyni vinnumanni. Hún er um 3 m há, og 1,30 × 1,10 sm að grunnmáli. Áletrunin Sv J 1890 er á steini í vörðunni, sem er mestmegnis hlaðin úr hellum og frábærlega vönduð að gerð. (H. Hall.: Ádrepa um vörður og vörðuhleðslu á Héraði. Glettingur 21 (3), 2011 / Þar er mynd af vörðunni). Varðan á Brúarlækjarhnaus, uppi á heiðarbrún, er um 2,50 m á hæð, og 0,8 × 1 m neðst, en engin áletrun er á henni. Á Fálkaþúfu er landamerkjavarða, líklega hrunin, og ofar á heiðinni er Sauðavarða, einnig á merkjum við Bessastaði.

Stekkur var rétt utan Bæjarlækjar, uppi á brekkunni, sem ég hef ekki skoðað. Í Stekkalækjargili, neðst í gilinu að utanverðu, eða efst á grundinni neðan við gilið, er lítil, ferköntuð tótt, um 3 × 4 m, óskipt, sem gæti verið af stekk.

Áveitur: "Áveituskurðir og garðahleðslur á nesinu" (SJM II, 29). Eins og á Bessastöðum var mikið um áveitur í landi Gerðis, aðallega úr Bessastaðaá, sem rennur straumlaus í sveigum út eftir Nesinu, kallast Kíll eða Kíllinn, og klýfur þannig land jarðarinnar, uns hún sameinast Jökulsá fyrir neðan bæinn. "Ofan við Bakka er þá innst, Fremstalón, þá Langalón, og utasti hluti þess, frá Hólmunum að Kíl, heitir Kringla. Meðfram Kílnum eru svo tilsvarandi bakkar, en þeir heita Fremstalónsbakki og Langalónsbakki." (Örnefnaskrá).

"Áveitumannvirki eru um 1 km austur af bæ. Slétt og gróið nes, myndað af árframburði. Nú að miklu leyti ræktað tún. Torfgarður, allt að 800-1000 m langur, liggur frá austri til vesturs, um tún sem er beint niður af bænum Litlu-Grund. Ekki þráðbeinn. Um 100 m frá Jökulsánni skiptist hann í tvennt, og liggur þar á bökkum lítillar tjarnar. Garðurinn er heillegur og allt að 1 m hár. Þar sem hann liggur um túnið er girðing á honum; hann mun einnig hafa þjónað sem landamerki milli Bessastaðagerðis og Bessastaða. " (Fornleifaskýrsla 2001).

Brú var á Kílnum fyrir innan og neðan Gerði, líklega byggð á síðari hluta 20. aldar, af bændum í Gerði, til að auðvelda nýtingu landsins neðan við Kíl. Brúin var byggð á rekatrjám. Á tíunda áratugnum flaut hún í burtu í miklu flóði í Bessastaðaá. Landsvirkjum byggði nýja stálbitabrú á Kílinn upp úr aldamótum 2000, sem er fær öllum farartækjum, segir ábúandi.

Umsögn 1990: Varðan Sveinka er meðal merkustu minja í Fljótsdal. Af gömlum torfhúsum er það helst hesthúsið, sem kæmi til greina að varðveita, og hefur Pétur Þorsteinsson bóndi í huga að byggja það upp eða endurnýja. [Eins og fyrr segir stendur það enn].

Heiðveig Agnes Helgadóttir