Skip to main content
10 January, 2022
# Topics

Dagbækur úr Fljótsdal

10 January, 2022

Dagbækur úr Fljótsdal

Dagbók Sæbjarnar Egilssonar (1837-1894) bónda á Hrafnkelsstöðum. Nóv. 12. 1882 – 12.12. 1893, með yfirliti yfir öll árin. (Útdráttur úr dagbókinni um veðurfar 1880-1881, birtist í Austra, 3. árg. 1886). Um 11 ár. “Til er dagbók Sæbjörns tólf síðustu æviár hans, óvenjuvel gerð og greinargóð.” / H.Stef. í Nýjar Kvöldvökur 40 (7-9), 1947.

Dagbækur og “veðurbækur” Sölva Vigfússonar (1854-1926) bónda á Arnheiðarstöðum, oft með mánaðar- og ársyfirlitum. Ná að miklu leyti yfir tímabilið 1880 til 1916 og árið 1924, eða um 37 ár.

1) Veðurbók. Frá 1. nóv 1879 til 22. des. 1883.
2) Veðurbók. Frá 1. jan. 1884 til 24. apríl 1884.
3) Minnisbók. Frá 25. apríl 1886 – 22. apríl 1893.
4) Veðurbók. Frá 1893 til 1898. Ljósrit hjá H. Hall. (Handrit komið frá Jóhönnu J. Kjerúlf í Brekkugerði, febr. 1989 / Byrjað að tölvusetja vorið 2013.)
5) Veðurbók. Frá 1899 til 22. nóv. 1903.
6) Veðurbók og dagbók. Frá nóv. 1903 til ágúst 1907.
7) Dagbók. Frá 16. ágúst 1907 til 31. des. 1916.
8) Veðurbók. Frá 24. febr. 1924 til 1. nóv. 1924.
[9) Dagbók Sölva. Frá 1. jan 1897 til 23. febr. 1924. [Þannig ritað í skrá yfir bækur og handrit í vörslu Gríms M. Sigurðssonar, landsbókavarðar. / Líklega ruglað]

Ofangreindar dagbækur voru líklega gefnar Minjasafni Austurlands á Skriðuklaustri, kringum 1945. Lentu síðan í vörslu Gríms M. Helgasonar landsbókavarðar, Rvík., og eru hér teknar upp úr skrá frá honum. Síðar mun Héraðsskjalsafnið á Eg. hafa fengið þessi handrit, eða afrit af þeim. Lítill sem enginn munur virðist á “dagbókum” og “verðurbókum” Sölva. Í báðum er alltaf getið um veður, en auk þess um gestakomur, ferðir, heimilis- og embættisverk, veikindi og dauðsföll í nágrenni o.fl.

Dagbækur Halldórs Guttormssonar (1855-1930) á Arnheiðarstöðum. Hörður Þorleifsson, dóttursonur hans, ritaði mér í bréfi 31. jan. 1992, að hann hefði haldið dagbækur, líklega alla ævi, sem Margrét móðir hans hefur líklega eignast eftir lát hans, en þær hafi týnst í flutningum. “Dagbækurnar eru nú glataðar, nema ein, sem ég á fórum mínum, frá því rétt eftir aldamót.” (Nánar í bréfinu). Hann sendi mynd af einni opnu, frá byrjun apríl 1901.

Dagbækur Vigfúsar Sigurðssonar (1880-1944) á Egilsstöðum í Fljótsdal: 1) frá 27. maí 1903 til 10. júlí 1903. 2) Dagbók V. S. frá 10. júlí til 19. sept. 1903.” Hálft ár. Frumrit í Héraðsskjalasafni, Eg. Ljósritaðar og tölvusettar af H. Hall. 2013.

Dagbækur Þuríðar Sigfúsdóttur (1871-1947), vinnukonu á Klaustri og síðar Melum (skráð þar 1930), gift Gísla Benediktssyni, bróður Halldórs á Klaustri. Héraðsskjalasafn, Eg. Ná yfir tímabilið frá nóv. 1913 til júní 1934, þ.e. um 20 ár. Þær eru í lausum áttblöðungum (oktavo), sem raðað er saman í þrjú bindi, 1) 13. nóv 1913 til 11. okt 1916. 2) 3. jan. 1917 til 27. febr. 1926. 3) 11. júní 1926 til 17. júní 1934. H. Hall. ljósritaði annan bindið (1917-26) í okt 2013.

Dagbók Sigurðar Erlendssonar (1890-1953)¸ bjó 1940-1942 á Melum, annars líkl. mest í vinnumennsku á ýmsum bæjum í Fljótsdal. Dagbókin er frá okt 1923 til okt. 1925. Um 2 ár. Byrjar í Kanada, en flyst í Fljótsdal í árslok 1924. Handrit frá Jónu Þorsteinsdóttur, konu Sigurðar, til Jóhönnu J. Kjerúlf, sem afhenti það Héraðsskjalasafni, 1989. Ljósritað af H. Hall.

Dagbók Páls J. Kjerúlf (1877-1968?) á Hrafnkelsstöðum, 1943, allt árið. (Rituð í prentað almanaks-dagbókar-form.) Auk venjulegra dagbókarfærslna er mikið af vísum í bókinni, eftir ýmsa höfunda, sumar etv. frumortar. Frumrit var í eigu Eiríks M. Kjerúlf (bróðursonar Páls) og Droplaugar J. Kjerúlf konu hans í Vallholti. Ljósritað í maí 1990, með leyfi þeirra. Þau eru nú bæði látin, og ekki vitað hvar handritið er niður komið, líklega þó enn í Vallholti. (Þau voru með fleiri handrit frá Páli, sem H.Hg. fékk að ljósrita, m.a. stíla hans úr Eiðaskóla um 1900).

Dagbækur Hallgríms Helgasonar (1907-1993), bónda á Droplaugarstöðum. Meira eða minna samfelldar frá 1954, fyrst sem vasabækur, síðan lengi á lausum blöðum af ýmsu tagi, eftir 1970 í bundnum bókum, til dauðadags, um 40 ár. Afhentar Héraðsskjalasafni, Eg. 1994. Dagbók Hallgríms veturinn 1954-55, úr vasabók, var tölvusett af H. Hall. í febr. 2001 (8 bls.).

Dagbækur Helga Hallgrímssonar (1935-), Droplaugarstöðum, frá 16. apríl 1948 til 3. okt. 1948, og frá 27. maí til 25. sept. 1949. “Vikubók” sumarið 1950. Þrjú sumur. Handrit hjá höf. Tölvusett. Einnig sérstök veðurbók frá sumrinu 1948, og nokkrar vasabækur með dagbókarbrotum og ýmsum fróðleik frá sumrunum 1948-1954, þegar ég var heima á Droplaugarst. (Frá um 1970 hef ég haldið ýmisskonar dagbækur á Akureyri og Egilsstöðum).

Dagbækur bræðranna Aðalbjörns (1917-?) og Jóns E. Kjerúlf (1932-) á Arnheiðarstöðum. Dagbók Aðalbjörns líklega byrjuð þegar hann flutti þangað 1945, eða jafnvel fyrr (í Hamborg), og dagbók Jóns nær til aldamóta 2000. Eftir lát hans 2014 fékk Guðrún Einarsdóttir ekkja hans bækurnar, hún býr í  í Fellabæ. Gæta náð yfir um 55 ár.

Dagbækur Jónasar Péturssonar (1910-1997) bónda og tilraunastjóra á Skriðuklaustri, líklega frá 1949 til 1960. Eru hjá Erlu dóttur hans eða í Héraðsskjalasafni, Eg. (Ath.)

Hér á eftir hafa nokkrar þessara dagbóka verið tölvusettar, eða hlutar úr þeim.

Úr dagbókum Sölva Vigfússonar, Arnheiðarstöðum, 1893 
Úr dagbók Magnúsar Sæbjörnssonar 1894 - Fjallganga á Snæfell 
Dagbækur Vigfúsar Sigurðssonar, Egilsstöðum, 1903
Dagbækur Helga Hallgrímssonar, Droplaugarstöðum, 1948-1950 
Dagbók Hallgríms Helgasonar, Droplaugarstöðum, veturinn 1954-1955 

 

Dagbækur Þuríðar Sigfúsdóttur frá Skjögrastöðum,
í Héraðsskjalasafni, Eg.

 

Dagbók frá 13. nóv. 1913 til 11. sept. 1916. Á Skriðuklaustri.
Dagbók frá 3. jan. 1917 til 27. febr. 1926. Til um 1921-22 á Klaustri, síðan á Melum.
Dagbók frá 11. júní 1926 til 17. júní 1934. Á Melum.

Dagbækurnar spanna um 20 ára tímabil, þær eru allar ritaðar á lausar arkir, brotnar í oktavo-form. Líklega hefur svo átt að binda þær, en af því ekki orðið. Þær eru í þremur bunkum, sem að ofan greinir.

Þuríður var fædd á Skjögrastöðum 5. júlí 1871, næstelst af börnum Sigfúsar Sigfússonar frá Langhúsum og Guðfinnu Egilsdóttur frá Hvannstóði, Borgarfirði. Hún var líklega sem ungbarn tekin í fóstur hjá Sæbirni, móðurbróður sínum, og Hólmfríði Jónsdóttur konu hans, sem var ekkja Jóns Sigurðssonar með þrjú börn. Sæbjörn og Hólmfríður voru byrjuð að búa á Hrafnkelsstöðum um 1870. Þau áttu soninn Magnús, sem varð læknir í Flatey. Hólmfríður lést ung, og kvæntist Sæbjörn þá Hallfríði Einarsdóttur frá Skeggjastöðum, en þeim varð ekki barna auðið. Sæbjörn lést 1894 og þá réðist Gísli Benediktsson (f. 1853) frá Heydölum, bróðir Halldórs stórbónda á Klaustri, ráðsmaður til Hallfríðar, og varð eiginmaður Þuríðar, um 20 árum eldri en hún. Þau giftust 2. ágúst 1895. 1. nóv. 1901 eru þau farin frá Hrafnkelsst., og finnast ekki á öðrum bæjum í Fljótsdal.

Þuríður og Gísli eru skráð á Klaustri 1910 og 1920, hún sem vinnukona og hann sem vinnumaður. Þau hafa eignast soninn Benedikt, f. 30.3. 1898, sem drukknaði ungur í Hvítárbakkaskóla (ekki skráður á sama bæ og foreldrar hans 1920). 2. des. 1930 eru þau skráð á Melum, hann sem ættingi hjóna. Þuríður lést 28. febr. 1947 í Reykjavík. Í bókinni Huldumál (2003) eru birtar tvær vísur eftir Þuríði frá 1923, og “Ferðasaga frá 1930”, af ferð á hestum til Borgarfjarðar eystri. Þar er örstutt æviágrip. Fáeinar lausavísur eru eftir hana í Leiftri, handskrifuðu blaði Kvenfélagsins í Fljótsdal, sem Margrét systir hennar ritstýrði. (Ef til vill eru kvæði hennar týnd?).

(Um 1894 kom líka í Hrafnkelsstaði Þórólfur Sigvaldason, er varð eiginmaður Margrétar Sigfúsdóttur, og 1896 fluttu þau úr Fljótsdal, líklega í Mýnes, og Guðfinna með þeim, en þar lést hún 1897. (Erlu-ritsafn I, 44).
Ég ljósritaði dagbókina 1917-1926, í okt. 2013. – H. Hall.


Úr dagbókum Sölva Vigfússonar á Arnheiðarstöðum

Ágúst 1893
1. ágúst: Logn og þykkur. Við fórum með líkið [af Þorvarði lækni] uppyfir og að Egilsstöðum. Við fluttum það á kviktrjám. [Þorvarður lést á Seyðisfirði]
2. ágúst: Austangola. Við fluttum líkið á bát frá Egilsstöðum og upp að Ormarsstöðum. Jeg heim.
3. ágúst: Utan gola, þykkur.
4. ágúst: Sunnan vindur, hvass.
5. ágúst: Logn og heiðríkt. Jarðaður Þorvarður Kjerulf. Á 3ja hundrað manns viðstatt.
6. ágúst, sunnudagur: Logn og heiðríkt. Fóru margir til kirkju, því Einar bróðir messaði, bæði á Ási og Valþjófsstað, fyrir séra Sigurð, sem er á þingi.
[Einar Vigfússon (1852-1929), útskr. 1877, fékk Hofsþing 1880, Fjallaþing 1883, Desjarmýri 1885. Fór til Vesturheims 1902, stundaði prestþjónustu þar í Vatnabyggðum. / Ísl. æviskrár)
7. ágúst: Sama veður og í gær. Einar bróðir skírði drenginn okkar, Þorvarð Kjer.
8. ágúst: Logn og heiðríkt. Jeg fór á stað til Seyðisfjarðar, að Egilsstöðum.
9. ágúst: Logn og heiðríkt. Við Jón Bergsson fórum ofan á Seyðisfjörð og vorum á aðalfundi Gránufélagsins. Þar var ákveðið að greiða 3% í næsta ár af hlutabjefum fjelagsins.
10. ágúst: Sama veður og í gær. Jeg heim.
11. ágúst: Sama veður og að undanförnu.
12. ágúst: Utan gola, þykkur. Fluttir 32 heimflutningar hjer úr gripahögum[?] fyrir ofan.
13. ágúst, sunnudagur. Sama veður og í gær. Helgi fór á Seyðisfjörð með 4 vetra naut fyrir mig.
14. ágúst: Utan gola, mikið heiðríkt.
15. ágúst: Logn og heiðríkt. Við að þurka, hirtum 17 hesta hjer að ofan og 9 hesta af Mýrinni.
16. ágúst: Utan, þykkur. Við slóum á húsunum.
17. ágúst: Utangola, þykkur.
18. ágúst: Norðaustan grenjandi með rigningu. Við að slá í Hallaennunum, og síðari partinn á Stekkhúsinu og þar í kríng.
19. ágúst: Norðaustan stormur, hefir rignt gróft í nótt.
20. ágúst: Norðaustan með rigníngu fyrri partin. Við Sigríður fórum uppað Klaustri, þar í nótt.
21. ágúst: Norðanhvass, jef fór uppað Flöt og skrifaði upp bú Halla sál. Snjólfssonar, heim um kvöldið.
22. ágúst: Norðanstormur með rigníngu af og til.
23. ágúst: Norðvestan stormur með rigníngu af og til, hefði snjóað mikið í fjöll í nótt.
24. ágúst: Norðan með rigníngu. Við að slá á Gæðabotnsmýrinni og útí Úthöllum um kvöldið.
25. ágúst: Framan gola, þykkur. Fór Gutti á Seyðisfjörð.
26. ágúst: Logn og þykkur. Við Sigríður fórum útað Ormarsstöðum. Þar í nótt.
27. ágúst, sunnudagur: Vestangola, mikið heiðríkt. Við vorum við kirkju á Ási, sera Einar í Hofteigi messaði.
28. ágúst: Logn og þykkur. Jeg fór uppí dal og stefndi þeim Sæbirni, Halldóri og Sigfúsi á Klaustri, vitnastefnu í máli milli Jóns á Víðivöllum og Páls Ólafssonar.
29. ágúst: Logn og mikið þykkur. Við að slá í Blautudalnum. Kom hjer og var í nótt, norskur maður að nafni Of Olsen, einslags trúboði (advendiste).
30. ágúst: Utan gola, mikið heiðríkt. Við að þurka, hirtum 40 hesta.
31. ágúst: Logn og mikið þykkur, glaðnaði til kl. 11. Við þurkuðum 17 hesta útá Mýrinni og hirtum þá.

September 1893
1. sept.: Logn og heiðríkt. Við að slá útoguppi í Einstakahraunshlíðum.
2. sept.: Vestan gola. Fluttir rúmlega 50 heimflutningar að utan og ofan, sumt á Húsin og sumt heim. Við þurkuðum á Húsunum.
3. sept., sunnudagur: Logn og þykkur.
4. sept.: Utan rigníngarveður allan dægin, ekkert gert að heyskap. Um kvöldið snjóaði ofan í fjall.
5. sept.: Utan stormur, þykkur, alhvítt ofan fyrir Hlíðar, tók upp um miðjan dag, eptir það var hægt að slá í efra.
6. sept.: Norðaustan stormur, kaldur. Við að slá uppá Hlíðum. Um kvöldið komu hjer og voru í nótt, séra Sigurður og Jón Jónsson læknir, sem settur er til að vera hjer í vetur í stað Þorvarðar sál.
7. sept.: Utan gola, þykkur. Jeg fór með þeim útí Ormarsstaði og upp híngað um kvöldið aptur.
8. sept.: Vestan gola, mikið heiðríkt. Við að þurka hjer heima og sumir að flytja af Hlíðunum.
9. sept.: Vestan gola, mikið heiðríkt. Við að þurka og flutt að ofan.
10. sept., sunnudagur: Sama veður og í gær. Við fórum til Áskirkju.
11, sept.: Logn og mari í lofti.
12. sept.: Vestan gola, heiðríkt. Gutti á Seyðisfjörð.
13. sept.: Norðanstormur, hvass, með slögum eptir miðjan dag.
14. sept.: Utan með rigningu.
15. sept.: Norðaustan grenjandi, með rigníngu fyrri partin. Kom Gutti af Seyðisfirði.
16. sept.: Um morgunin logn og snjóaði, varð hvítt ofan fyrir Hlíðar, birti upp kl. 12 og kom gott veður, snjóin tók upp. Fluttir 30 heimflutningar af Hlíðunum.
17. sept., sunnudagur: Utan gola, þykkur. Jeg fór með Jóni Bergsyni uppað Klaustri. Fór að rigna um kvöldið. Helgi, Gutti og Mundi fóru á stað í Gaungu.
18. sept.: Utan, með þoku og rigníngu. Kom hjer séra Einar á Kirkjubæ, fór á Hjeraðsfund sem haldin var á Valþjófsstað í dag.
19. sept.: Norðaustan, hálfófært snjóveður. Piltar komu aftur, því ekki er hægt að fara á Afrjéttar í þessu tíðarfari.
20. sept.: Sama norðaustan, hálfófært veður. Mjög hætt við að fje sje fent.
21. sept.: Norðan gola, mikið heiðríkt. Jeg fór útað Ormarsstöðum, þar í nótt. Piltar fóru á stað til gaungu aptur.
22. sept.: Norðaustan stormur með jeljum. Jeg heim.
23. sept.: Norðan, mikið heiðríkt, með frosti.
24. sept., sunnudagur: Utangola, þykkur og ljótur. Hjer í nótt Halldór á Klaustri, Gunnar, Ketilsstöðum, G br. Hermann póstur.
25. sept.: Framan gola, mikið heiðríkt.
26. sept.: Logn og heiðríkt.
27. sept.: Austan þykkmikið. Rjettað í Heingifossrjett.
28. sept.: Utan með rigníngu af og til. Vigtað hjer. Kom B. Siggeirrsson hjer.
29. sept.: Logn og þoka. Við að vigta.
30. sept.: Norðvestan þykkur.

Október 1893
1. okt., sunnudagur: Logn og heiðríkt. Við Sigríður fórum á Seyðisfjörð og Magga og Jaugi.
2. okt.: Sama veður og í gær.
3. okt.: Utan með rigníngu af og til.
4. okt.: Utangola, þykkur.
5. okt.: Norðan með snjókomu. Við fórum uppyfir að Egilsstöðum.
6. okt.: Norðan kaldur. Við heim.
7. okt.: Sama veður og í gær.
8. okt., sunnudagur: Norðangola, þykkur.
9. okt.: Logn og þykkur. Við fórum útað Strönd að sækja korn. Komu hjer og voru í nótt, Klausturhjónin og Guðríður og Þorvarður Brynjólfsson, Ormarsstöðum.
10. okt.: Norðangola, þykkur og kaldur. Við smöluðum. Komu hjer og voru í nótt 14, frá Strönd, Ketilsstöðum og Hafursá, og Stefán Sigfússon.
11. okt.: Norðan stormur, þykkur.
12. okt.: Norðan þykkur til kl. 5, þá lygndi hann og færði sig í austur með rigníngu.
13. okt.: Utan gola, þykkur. Við settum þaug frá Strönd austur. Jeg fór á stað uppað Flöt til að skipta búi Halla sál., að Klaustri um kvöldið.
14. okt.: Stóð af útsynningi. Jeg fór uppað Flöt og að Klaustri aptur um kvöldið.
15. okt., sunnudag: Utan gola með þoku.
16. okt. Logn og þoka, birti upp kl. 2.
17. okt. Logn og þykkur. Gerði landskuld [?], við slögtuðum 16 geldum ám.
18. okt. Vestan gola, heiðríkt.
19. okt. Sama veður og í gær.
20. okt. Sama veður.
21. okt. Logn og heiðríkt, jeg hjelt Hreppamót.
22. okt., sunnudag. Vestan hvass.
23. okt. Sunnan, með rigníngu til kl. 11 um kvöldið, þá hvesti fjarskalega á norðvestan, víða í ytri fauk af heyjum og ofanaf heyjum, bátar í Seyðisfirði.
24. okt. Utan þykkur, um kvöldið gekk í ófært veður. Jeg fór á stað á pöntunarfund [Pöntunarfélagsfund?] að Miðhúsum, að Ormarsstöðum um kvöldið.
25. okt. Utan með snjóhreytu, kl. 7 um kvöldið gekk í ófært veður. Við á fundi á Miðhúsum.
26. okt. Norðaustan stormur, úrkomulaust. Jeg fór uppað Ormarsstöðum, haldinn fundur á Miðhúsum um uppsiglíngu í Lagarfljótsós.
27. okt. Vestanstormur, heiðríkt, jeg heim.
28. okt. Utan með drífu framan af. Flutt tað af Stekkhúsinu.
29. okt., sunnud. Norðaustan, hálfófært veður.
30. okt. Vestan, mikið heiðríkt. Fullorðna fjeð tekið og farið að hýsa.
31. okt. Vestan stormur, þítt til kl. 3, þá fór að frysta.

Nóvember 1893
1. nóv. Norðvestan með kófi síðari partin.
2. nóv. Norðan með kófi. Lömbum kent átið.
3. nóv. Norðan með kófdraganda.
4. nóv. Framan gola, bjartviðri.
5. nóv., sunnud. Norðan stormur, en bjartur.
6. nóv. Vestan gola, heiðríkt.
7. nóv. Logn og heiðríkt, bezta veður. Jeg fór á pöntunarfelagsfund að Hrafnkelsstöðum.
8. nóv. Logn og heiðríkt. Fór Mundi á stað í 4. göngu í Rana. Komu hér þeir Halldór og Sæbjörn að semja pöntunarskýrslur.
9. nóv. Sama veður og í gær.
10. nóv. Suðvestan hláka allan dagin.
11. nóv. Logn og heiðríkt, frostlaust. Fóru þeir Halldór og Sæbjörn.
12. nóv., sunnud. Vestanvindur, mikið heiðríkt.
13. nóv. Sama veður og í gær, þeir komu úr 4. göngu úr Rana. Jeg fjekk 2 lömb.
14. nóv. Logn og þykkur. Við böðuðum 50 lömbin mín, en settum smirsli ofan á hin.
15. nóv. Norðvestan stormur, gjörði gróft jel um dagin.
16. nóv. Norðan grenjandi, 7° fr., var gróflega hvass í nótt með kófi.
17. nóv. Norðanstormur, heiðrík, 7° fr.
18. nóv. Vestangola, heiðríkt, 8° fr.
19. nóv., sunnud. Logn, heiðríkt til kl. 5 um kvöldið, þá hvesti á suðvestan með hláku. Kom hjer G. br. [Guttormur bróðir?]
20. nóv. Útsunnan gola, heiðríkt.
21. nóv. Vestangola, heiðríkt.
22. nóv. Norðvestan stormur, 8° frost.
23. nóv. Vestan þíðvindur.
24. nóv. Norðaustangola, 2° fr. Hafði gránað í nótt.
25. nóv. Norðan gola, þykkur, 6° frost, um kvöldið norðanskari. Kom hjer og var í nótt, Jón faðir sira Magnúsar í Vallanesi.
26. nóv. Framan gola, þykkur, 8° fr. Um kvöldið komst hann á sunnan, 2° hiti.
27. nóv. Framan gola, þykkur. Jeg fór uppað Valþjófsstað að borga Jóhannesi 180 kr., sem hann fjekk uppí þær 1150 kr. sem hann átti í þrotabúi Guðmundar Ögmundssonar.
28. nóv. Utangola, þykkur, með snjóhreitu, 3°fr.
29. nóv. Norðan, með kófi, 8°fr, um kvöldið varð 10°fr.
30. nóv. Norðan hvass, 14° frost, um kvöldið stóð hann framan.

Desember 1893
1. des. Logn og þykkur, 9° fr. Gamla Skjóna drepin.
2. des. Logn og slímaður í lofti, 8° fr.
3. des. Vestan vindur, mikið heiðríkt, 2° fr. Hefði drifið í nótt.
4. des. Logn og mikið heiðríkt, 1° fr., mesta blíða. Við Sigríður fórum útað Ormarsstöðum.
5. des. Sama veður og í gær, til kl. 7 um kvöldið, að fór að drífa. Jeg fór útað Egilsstöðum, þar í nótt.
6. des. Norðaustan með snjókomu, 6°fr. Jeg fór upp að Ormarsstöðum.
7. des. Norðan stormur, kóflaust, 13° fr. Við Sigríður fórum heim.
8. des. Norðan grenjandi, en kóflaust, 14° frost.
9. des. Norðan stormur, þykkur, en kóflaust, 5° frost.
10. des. sunnud. Norðan stormur, þykkmikið, 5° frost.
11. des. Norðanstormur með kófi, 9° frost.
12. des. Austan, frostlaust. Jeg fór út að Hrafnsgerði að rekja vef.
13. des. Utan og austan karga snjóveður, 0°, kom mikill snjór.
14. des. Vestangola, mikið heiðríkt, 4° fr.
15. des. Vestangola, lengstaf 2° fr.
16. des. Sama veður og í gær. Við settum ofan í ærnar tóbakssmyrsli. Þoka tekin, Rauður og Neisti teknir áður, Vignir hefur altaf verið hýstur.
17. des., sunnud. Logn og þykkur, 10° fr. til kl. 10 um kvöldið, þá kom austan sjóbleyta.
18. des. Austan krapa rigníng. Orðið jarðlaust bæði í efra og neðra, svo útlitið er mjög ljótt, ef ekki rætist úr því.
19. des. Logn og mikið heiðríkt, 2°fr. Svolítil snöp á bökkunum. Hestar allir teknir.
20. des. Austan snjóbleytukakk. Alfeg jarðlaust.
21. des. Austanstormur, 0°, má heita að alfeg sje jarðlaust. Það eru stíngir í Fljótsbökkum.
22. des. Norðaustan stormur, 1° fr. Kl. 3 um dagin gekk í utan snjóbleytuveður, fjarska vont.
23. des. Logn og þykkur, 0°. Nú er engin jörð, nema nasastíngur á blá-fljótsbökkunum.
24. des., aðfangadagur jóla. Suðaustan grófrigníng til kl. 1, þá fór að birta upp í suðrinu, 2° hiti til kvölds.
25. des., jóladagur. Logn og mikið heiðríkt, 0°. Fóru 6 til Áskirkju. Eru dálítlir stíngir í bökkunum.
26. des. Sunnan hvass, með rigníngu, hafði hlánað dálítið í nótt, stytti upp kl. 3, en hjelt hlákuvindinum.
27. des. Vestangola, 0°, hefði frosið á jörðu. Komu hjer sera Sigurður og Helgi cand. frá Vallanesi.
28. des. Sunnanhláka, kl. 1 hvesti svo mikið að hjer hefur aldrei orðið hvassara af þeirri átt, hlánaði mjög mikið.
29. des. Vestangola, heiðríkt, 0° á mælir, en fraus á jörðu.
30. des. Vestangola, heiðríkt, 1° fr.
31. des. Logn og heiðrikt, 3° fr.

Þá er nú þetta ár [1893] á enda, og hefur það verið hagstætt að því er tíðina snertir. Frá Nýári var mjög góð tíð, að sönnu var jarðlaust hjer í 3 vikur, og af því heyin voru mjög lítil frá sumrinu, þá urðu flestallir útsveitamenn heylausir og fjöldi rak hjer upp á hjerað. Vorið var mjög gott og sumarið líka, en þó varð grasspretta hjer á ummhjeraði ekki nema í meðallagi, vegna þurka, en aftur á öllu úthjeraði ágæt grasspretta. Haustið var svippótt, svo heimtur urðu heldur slæmar, því um fyrstu göngu kom bylur, svo dálítið fenti og hrakti í kíla. Tíðin í vetur hefur verið svipótt, en góðar jarðir til 18. desbr., þá setti niður bleytusnjó og rigndi í hann, svo jarðlaust varð nokkra daga, en svo hlánaði og kom góð jörð og stillíngar.
En þó tíðin hafi verið góð þetta liðna ár, þá hefur ekki alt gengið að óskum, því þetta liðna ár hefur tekið með sjer margan góðan mann frá okkur sem eptir lifum, og er þá fyrst að nefna Þorvarð læknir Kjerulf, sera Gunnlög Halldórsson, frú Guðrúni Briem (Gísladóttir, Hjálmarsens), Jón Þorsteinsson Brekkugerði, Hall Einarsson Rangá, Sigurð Vakursstöðum og Ágúst Ljótsstöðum í Vopnafirði, Jensen vert á Akureyri, Einar Ásmundsson í Nesi, Halla Snjólfsson á Flöt og marga fleiri bændur sem jeg ekki þekkti til. Á þessu ári voru flutningar til Ameríku með meira móti, og er talið að um 700 mans hafi farið, þar af um 200 úr Vopnafirði. Nokkrir komu frá Ameríku, er búnir voru að vera þar nokkur ár, og ljetu illa af öllu þar. Verzlun þetta ár var nokkru betri en í fyrra. Korn 3-4 kr. birlegra, og sauðir seldust á Englandi 4 kr. betur en í fyrra. Í Ameríku dóu Íslendngar, Björn og Jón Pjetursynir frá Valþjófsstað. [Synir sér Péturs Jónssonar]

Úr dagbók Magnúsar Sæbjörnssonar 1894 - Fjallganga á Snæfell

15. ágúst, miðvd. R.9. Gott veður seinni hluta dags. Bjó mig til ferðarinnar. Hafði tvo hesta, nesti, brekán, kaffi, o.s.frv. Skrifaði Páli Pálssyni. Lagði af stað kl. 8 eptir hádegi. Glaða sólskin. Hitti Sigfús frá Skjögrastöðum, fylgdarmann minn, og sera Jón Bjarnason nokkuð fyrir innan Valþjófsstað. Þeir höfðu biðið á Langhúsum, en hjeldu norðr yfir Jökulsá þegar þeir sáu til mín. Við fórum svo inn Norðurdal. Komum að Kleyf, sem er innsti bær, kl. 11. Fólk var háttað þar. Sigmundur Jónsson, sem einusinni var vinnumaður hjá föður mínum, kom til dyra. Þar býr mágur hans, Guðni Arnbjörnsson. Hann hefr gert þar margar umbætr á jörðunni. Vorum þar um nóttina. Prestur og jeg í sama rúmi. W. t. b. 12. [?]

16. ágúst, fim. R. 8. Tók mjer bað í Kleyfaránni, sem fellur rjett utan við bæinn. Kláfur er á Jökulsá undan Kleyf. Glúmstaðasel heitir bær, sem þar er beint á móti. Þar býr Torfi Hermannsson. Flest fólk frá Kleyf var við heyskap inn í dal. Fórum frá Kleyf kl. 11. Í dag er bezta veðr, sólskin og blíðviðri, skafheiðrík, Við fórum sem vegr liggur beint upp frá Kleif. Er þar bratt mjög, en sneiðingar góðar. Þann veg hefr Guðni bóndi lagt. Þegar komið var upp á brún, var fagurt að líta út yfir Fljótsdal og hjeraðið. Svo hjeldum vjer inn brýr. Þar heitir Axará og nokkru innar Laugará. Komum að Laugarkofa (göngumannakofa) kl. 2. Hann stendr suðaustan [NA] undir Laugarfelli. Þar eru volgar laugar. Sú sem við kofann er 40° R., þar sem vatnið kemr upp. Snæddum og drukkum kaffi. Þaðan kl. 4. Inn Laugarás og beint inn yfir mýrar, yfir Hafursá og upp á Upsinn. Þaðan upp undir Snæfell. Skoðuðum 16 álna háan, svartan hraungrýtisdrang, sem stendr upp við rætur fellsins. Síðan inn í Hálskofa. Komum þar kl. 9. Sá kofi er sunnan [SA] undir Snæfelli. Snæddum og drukkum kaffi. Heiðmyrkur um nóttina. Heptum hestana í mýri, sem er fyrir utan og neðan kofann. Bjuggumst fyrir í kofanum með heyi, brekánum og pokum. W.t.b. 11.

17. ágúst, föst. R. 7. Átum morgunverð. Sigfús fór snemma á fætr og hitaði kaffið. Þvoðum okkur í lind, sem er framan og neðan við kofann. Gott veðr. Þaðan kl. 9 ½. Mættum þar skamt fyrir utan 3 mönnum úr Fljótsdal, sem ætluðu að skjóta hreindýr (frjetti seinna að þeir hefðu ekkert fundið). Út þangað sem við höfðum ákveðið að ráðast til uppgöngu á Snæfell, kl. 11 ½ . Sprettum af hestum og heptum þá. Fengum okkur bita (hangikjöt), og lögðum af stað kl. 12. Við höfðum allir broddstafi og brodda, enfremur öxi og 9 faðma langan kaðal, sem Sigfús bar. Auk þess hafði hann kompás. Jeg hafði kíkir. Hjeldum svo upp innarlega á stórri skriðu, sem byrjar skamt fyrir innan Hafursána, en hún fellr fram milli Snæfells og Kolls. Þar fyrir austan kemr Kambafell [Nálhúshnjúkar?]. Þar næst Hafursfell og þá Laugarfell. Skriða þessi er suðaustan í Snæfelli. Gengium fyrst upp eptir gili einu alllangt, er jökull var í. Síðan í skriðuna. Hún er brött mjög og há. Vorum í henni 2 ½ tíma, áðr vjer komumst á brún. Í skriðunni sá jeg einn lítinn grastodda, í c. 4000 feta hæð, sem jeg tók af, annars ekki stingandi strá. Sigfús var kominn fyr upp á brúnina og hlóð þar vörðutippi. Þá vestr eptir brúninni og á jökulinn. Rjett fyrir neðan er jökullinn byrjar tók jeg þrjár mosa tegundir (c. 4800 feta hæð....).

Í jöklinum eru margar sprungur og glufur, er vjer sneiddum fram hjá, eptir því sem vjer gátum. Á jöklinum var nýr snjór, sem tók í ökla, og varð því miklu betra að ganga upp en annars hefði orðið. Þurftum hvergi brodda. Sigfús hafði kaðalinn og dró á eptir sjer. Af brúninni höfðum vjer ágæta útsjón. Neðan við Öxlina urðum við að fara yfir eina sprungu, sem hapt var á nærri alveg. Það gekk vel. Þá há og brött brekka áðr en á Öxl er komið. Gengum við Sigfús á undan, en prestr, sem nú er 70 ára að aldri, var orðinn lúinn og fór sjer hægar, enda átti loptið eigi vel við hann, að því er hann sagði.

Þá er við komum á Öxlina (sem gengr norðr af sjálfri húfunni) dreif yfir þoku,áðr bjart um daginn. Settumst við þar niður, og biðum sra Jóns. Rofaði þá upp og hjeldum sur á tindinn. Tveir eru hnjúkar á fellinu, eystri og vestari. Sá hinn vestari virtist öllu hærri. Við hjeldum á hinn eystri. Urðum að fara yfir eina sprungu, sem hapt var á. Þá var kl. 5, er vjer stóðum á tindinum. Þoka lá vestan í vestari hnjúk og dreif yfir af og til. Fórum vjer því eigi á hann. Þó sást allt af til sólar, því heiðríkt var í lopti. Við rætur fellsins voru 10° R, á Öxlinni 2° og á tindinum 1 ½ - ½ ° R., eptir því sem rofaði meir eða minna til sólar. Inctabar [?] cum Sigfuss et vici Cecinimus etiam. Vorum uppi hálfan tíma. Rjeðum til niðurgöngu kl. 5 ½ . Hún gekk slysalaust. Settum upp brodda neðarlega í Stóruskriðu og gengum á gaddi. Alls þrjá tíma niðurför en fimm upp.

Þegar niður var komið sló yfir þoku. Sigfús hafði upp á hestunum. Lögðum af stað frá fellinu kl. 9 ¾ um kvöldið. Hjeldum síðan í náttmyrkri og þoku út og austur undir Jökulsá, út með henni. Varð seinfarið. Urðum einatt að teyma hestana, því vegleysa var og votlent mjög. Lá víða í. Undir kl. 2 fór að rofa til og sást til tungls. Hjeldum Laugarás, þræddum yfir mýrarnar og komum loks utan að Laugarkofa, klr. 2 ¼. Vorum þá blautir til knjes og syfjaðir, þvoðum okkur í lauginni, skiptum plöggum og lögðumst svo til svefns. W. t.b. 3.

18. ágúst Ld. R. 10. Baðaði mig í Laugará. Tók einar 5 ólíkar tegundir af ölgum þeim er vaxa við laugina (.....). Snæddum og drukkum kaffi. Frá Laugarkofa kl. 12. Út með Laugará og neðr að Jökulsá. Þar sem þær falla saman er foss mikill í Jökulsá. Skoðuðum hann. Síðan út og upp að krækja fyrir árgil. Þá út og ofan dalinn. Þar er töluverður skógr eptir enn og margbreytilegr jurtagróður. Fann þar Rubus saxatilis, Vaccinium uliginosum, Empetrum nigrum, Juniperus alpinus, Fragaria vesca etc. Vorum þar um stund.Komum að Kleyf um kl. 3 ½. Mjög syfjaðir allir. Hef sofið harla lítið tvær síðustu nætur. Frá Kleyf kl. 5. Skildi við sera Jón skamt fyrir innan Valþjófsstað, og Sigfús á hólmunum fyrir utan Langhús. Þá heim kl. 8. Helgi Jónsson kom um kvöldið og fór inn að Valþjófsstað að kveðja föður sinn. W.t.b. 10. („Memoranda“. No. 4 ( frá 17. júlí 1894 – 2. febr. 1895, bls. 19-27. Handrit í Héraðsskjalasafni, afhent safninu á Klaustri 10. maí 2014, af Önnu Kristjánsdóttur, dótturdóttur Magnúsar).

Dagbók Vigfúsar Sigurðssonar
á Egilsstöðum í Fljótsdal sumarið 1903
(Eftir handriti í Héraðsskjalasafni Austf., Eg.)

Miðvikudag 27. maí 1903. Í dag var indælt veður, suðvestan hlákuvindur, logn með kvöldinu. Ég fór inn í Eyrarsel í morgun og sótti tað á 2 hestum, en reið þeim þriðja. Fjarskalegur hroði í bæjarlæknum, svo ég hef ekki áður séð hann svo mikinn. Við breiddum nokkuð af grundinni úti og niðri. Ég setti mér upp þessa dagbók.

Fimmtudag 28. maí. Sama veður. Við breiddum það sem eftir er af grundinni. Stelpur riðu út í Valþjófsstað til spurninga. Seinni part dags fórum við Gunnar út að Hóli til að stinga upp það sem eftir var af garðinum frammi og niðri, fyrir Sigfús á Vaðbrekku. Þar hittum við mömmu, Helgu á Kleif, Jón Þorsteinsson, Jón og krakka þeirra. – Þau voru að flytja sig að Kleif, og var Árni lánaður að hjálpa þeim uppeftir, og mamma fór um leið út að Hallormsstað. Þegar við komum heim aftur, og á leiðinni, var komin blika framan yfir dalinn, biksvört með ákaflegri brennisteinsfýlu, og síðan hefur hún aukist og öskufall er töluvert.1 Björgvin á Hallormsstað ætlar að skrifa fyrir mig Stefáni (oddhaga), og biðja hann að vera mér innan handar að útvega mér pláss í Rvík, til að hafa ofan af fyrir mér þar, svoleiðis að ég geti að vetrinum gengið á kvöldskóla hjá Stefáni, eða lært eitthvað af því sem langar til. 

 Þetta öskufall hefur verið frá eldgosi við Grímsvötn í Vatnajökli, 28-30 maí 1903.

Föstudag 29. maí. Í morgun var svo dimmt í lofti af öskunni, að sólin sást aðeins eins og í gegnum reikugt gler. Dimt fyrir utan og innan. Eftir hádegi fór sortinn að minka, og kl. 4 var mistrið hérumbil horfið. Sama veðurblíðan er enn – dálítil vindgola var fyrri part dagsins. Við Árni stungum upp í görðunum, og svo breiddum við í kvöld mikið af túninu út og niðri, og erum nú nýhættir – það er nær miðnætti. Ég safnaði mér dálitlu af eldfjallaösku í bréf og geymi það. Nú er himinn skýjaður á suðvestan og indælasta veður.

Laugardag 30. maí. Sunnan í lofti, rigningarlegur. Við breiddum dálítið úti og niðri, fórum svo upp á tún að breiða þar, og lukum hérumbil við það. Fórum svo skömmu eftir hádegið að bera saman tað og hlaða því, og lukum við það að fullu. Þegar við vorum að enda við það, fór að rigna og heldur því enn. Á morgun er Hvítasunnudagur.

Hvítasunnudagur 31. maí. Rigningarslitra á austan (eða norðaustan), snerist svo og er nú á norðan, en úrfellislaust. Ég fór til kirkju í dag og mamma og stelpurnar tvær (Gþ. og Sigra). Á Þuríðarstöðum bættist Stína við, og á Hóli Stefanía og Finnur. Dálítill týningur var við kirkju. Eftir messu spilaði Hákon nokkur lög og síðan ég. Við komum inn á Valþjófsstað og fengum kaffi. Ég tók svo myndakassann [myndavélina] minn með mér þegar ég fór. María á Flöt varð okkur samferða upp í Þuríðarstaði, og ætlaði að vera þar í nótt. Við komum þar inn og fengum kaffi. Árni og Metta fóru inn að Kleif í dag, en Gunnar út í Þuríðarstaði, svo Guðrún var ein heima allan miðpart dagsins.

Mánudagur, annar í hvítasunnu, 1. júní. Norðan. Gránaði ofan fyrir miðfjall. Hálfkalt. Sigfús á Vaðbrekku var hér í nótt – kom seint í gærkvöld hingað. Mamma og Guðrún fóru inn að Kleif í dag, en ég fór út í Þuríðarstaði og skoðaði þar harmoniku, sem Stefanía í Hóli hafði beðið Einar að selja fyrir sig. Hún er mikið brúkuð. Ég spilaði lengi á hana og rifjaði upp mörg danslög. Í nótt dreymdi mig að Stefán Eiríksson [myndskeri] var á Glúmsstöðum, og var ég þar að tala við hann. Í dag setti ég myndakassann [myndavélina] minn í stand. Jón Þorsteinsson kom hér núna á leið út í Skjögrastaði – ætlar úteftir í nótt.

Þriðjudagur 2. júní. Sama veður. Árni og Gunnar riðu út í Brekku á uppboð.2 Ég gekk við ærnar. Stúlkur fóru út á bakka að tína hrossatað. Logn með kveldinu og þykknaði loft. Í dag teiknaði ég mynd af dalbotninum, séðum frá Nautahlíðarmelum.

2Brynjólfur Þórarinsson bróðir séra Þórarins og Sigurveig Gunnarsdóttir, föðursystir Gunnars skálds, höfðu búið á Brekku en Sigurveig lést þetta ár. Við tók Jónas Kristjánsson læknir

Miðvikudagur 3. júní. Ég fór á fætur á undan öllum og fleygði í kýrnar. Gekk svo til ánna fram að Mylnulæknum, og svo út grundina, og var um leið að rifja upp fyrir mér enska vísu, sem ég las í gærkvöld, og mér fanst mikið til um. Hann er suðvestan í lofti og indælasta veður. Vísuna skrifa ég hér, eða vísurnar: “To a kiss (tú a kiss). Stgr. Thorsteinsson hefur áður íslenzkað þær, og er það prentað í Félagsritunum, 16. ár. Kh. 1856. [3 vísum á ensku er sleppt hér]. Ég hjálpaði rollu hér framm-og-uppi, sem átti gríðarstóran hrút. Um kl. 1 komu piltar að utan. Gunnar með gráan fola 4 vetra, sem hann keyfti af Brynjólfi [á Brekku] fyrir 60 kr. Við entum svo við að breiða efra túnið – Hesthúshólinn breiddu stúlkur í morgun, og sömuleiðis nokkuð af Ystahús-hólnum – og breiddum síðan þýfið fyrir neðan bæinn og dálítið af fetanum (fitinni). Seinast gengum við Gunnar til ánna.

Fimmtudagur 4. júní (7. vika sumars). Vestan í lofti – hvesti með kvöldinu. Við vorum að rífa niður og hlaða upp aftur neðri garðinn á sáðgarðinum hérna í rústinni. Stelpur fóru út að Valþjófsstað til spurninga. Færðu mér bréf frá séra Bjarna á Siglufirði og pakka af Heimskringlu, og er nú orðið langt síðan ég hef séð hana. Í gærmorgun kom hlaup í Jöklu, með jakaburði, og enn er sama skólp í henni, en jakalaust auðvitað. Árnar urðu gróflega miklar í dag. Jóna var hér í nótt. Grái folinn lagði til stroks, en stansaði hjá Þuríðarstaðahestunum og náðum við honum þar.

Föstudagur 5. júní. Suðvestan í lofti, lítið hvass framan af deginum, fór að rigna með hádeginu og rigndi til miðaftans, logn og blíðviðri í kvöld. Við lögðum undirstöðu í garðinum fyrir neðan, útúr gegn, og hlóðum upp í skörðin á útgarðinum. Eftir hádegi fór Árni að smala Eyrarselsfjall, og Gunnar fór svo inneftir til að kanna féð, því á morgun á að verða samganga út að Bessastaðaá. Ég breiddi það sem eftir var af neðra túninu með stúlkunum, málaði myndakassann minn í annað sinn (hvítan), og sömuleiðis plötuna undir honum, og “kassettuna”.3 Einar á Þuríðarstöðum kom hér í kvöld og Jón Þorsteinsson utan frá Skjögrastöðum á heimleið.

3 Hér er greinilega átt við heimasmíðaða myndavél. Í kassettuna var glerplata með ljósnæma laginu sett og loka dregin frá þegar myndað var. Linsu og kassettu hefur Vigfús líklega keypt, en smíðað kassann sjálfur.

Laugardagur 6. júní. Vestan hvass, með miklu mistri. Lygndi síðdegis. Við smöluðum öllu geldfé heim. Ég teiknað mynd af fossinum við Birnuhamar, málaði svarta kantana á myndakassanum mínum, og svartan hólkinn. Málaði rammann á spjaldinu aftur.

Sunnudagur 7. júní. Suðvestan blíðviðri. Hallgrímur í Hóli og Sigfús á Vaðbrekku fóru með flutningshest innhjá og ætluðu norður [í Hrafnkelsdal] í nótt. Mamma fór út að Hóli og þær stúlkur allar: Gunnþ., Sigra, Metta og Guðrún. Mamma kom aftur með harmonikuna frá Stefaníu – keyfti hana af henni og borgaði um leið – og gaf mér hana svo. Það var enda að mig dreymdi harmonikusöng í dag þegar ég lagði mig útaf, enda spilaði ég lengi á hana þegar hún kom. Ég skrifaði upp handa séra Bjarna [Thorsteinssyni, Siglufirði]: “Óvinnanleg borg er vor guð”, því hann var að biðja mig um gömul sálmalög í bréfinu sem ég fékk frá honum um daginn. Ég get líklega fengið eitthvað handa honum hjá Signýju á Kleif.

Mánudagur 8. júní. Vestan heiðríkur, sem hélzt allan daginn. Ég sótti 2 hesta og lagði á þá, til að flytja í garðinn fram-og-niðri. Fyrst fluttum við mold úr garðinum hérna fyrir neðan – rofamold – eitthvað 3 ferðir, og síðan úr réttinni, 10 ferðir. Svo sáðum við í garðinn og entum við það. Við Árni fluttum en Gunnar lauk við að hlaða garðinn fyrir neðan. Við vorum seint búin. Gunnþóra vakti yfir túninu í nótt og ætlar að vaka aftur í nótt.

Þriðjudagur 9. júní. Norðan, hálfkaldur. Nokkuð hvass framan af deginum. Við sáðum í heimagarðinn og afganginn fram-og-niðri í árbakka. Árni mokaði saman moldinni sem af gekk garðinum og þakti með hnausum. Svo lögðu þeir hnausalag ofan á útgarðinn, en ég breiddi fitina á milli ræsanna með stúlkum.

Miðvikudagur 10. júní. Vestan, hvessti síðdegis með mistri miklu. Við fórum að gera við reiðfæri. Stefán á Glúmsstöðum kom hér inn á Birnuhamarsklettana og kallaði þaðan, og fór ég útogofan til tals við hann. Hann var að láta okkur vita, að áformað væri að fara í kaupstað á laugardaginn kemur, og bað hann okkur að koma orðum um það til Torfa [í Glúmsstaðaseli]. Hann sagði ennfremur í fréttum, að þeir fóstbræður, Jóh.[annes] sýslumaður og séra Einar í Hofteigi hefðu hlotið kosningu [til Alþingis] fyrir Norður-Múlasýsluna, kjörfundurinn hefði staðið yfir 24 kl.tíma. Rétt á eftir fór mamma út að Þuríðarstöðum en Guðrún inn að Kleif. Gunnar var áður farinn inn að Kleif, en kom aftur áður en Guðrún fór. Stefán sagði að það ætti að ferma á Valþjófsstað á 2. sunnudag eftir Þrenningarhátíð. Eftir kl. 3 ½, er mamma kom að utan, fórum við að hreinsa dálítið af efra túninu og fyrir neðan götuna á neðra túninu.

Fimmtudagur 11. júní. Norðan, kom með utanvind eftir hádegið. Við smöluðum heim og rúðum nokkuð. Stelpur fóru út að Valþjófsstað til spurninga. Einar á Þuríðarstöðum kom hér í morgun til að sækja hesta, og elti gamla Skjóna hann úteftir. Síðast í kvöld riðum við Gunnar út að Þuríðarstöðum, Gunnar á Skjóna Árna, en ég á Þuríðarstaða-Skjónu, sem gamli Ketill kom á að utan og reið inn að Kleif. Við fórum með rekstur úteftir og tókum gömlu Skjónu þar. Mamma fór úteftir með stelpunum og út að Klaustri. Þær eru nýkomnar kl. 10.

Föstudagur 12. júní. Utan og norðan – var með þoku í nótt. Gott veður á dag og heitt hér í neðra en kul upp á heiði. Við járnuðum hestana, vorum að því frá því í morgun, líklega kl. 9 ½ og framyfir hádegi, en við lögðum okkur niður um miðjan daginn. Í kvöld gengum við Gunnar við ærnar. Valdi á Seli fór út fyrir austan og ætlaði út í Glúmsstaði í kvöld, og ætla þeir flugsnemma á morgun. Ég skifaði bréf til Laugu og sendi spjaldið með Árna. Við gátum ekki járnað folsa litla, hann lét svo illa.

Laugardagur 13. júní. Heiðríkt loft, logn, kom með austanvind um stund seinni part dagsins. Ég fór á fætur kl. 4 ½ í morgun, til að sækja hestana og hjálpa Árna til að komast á stað. Fór hann kl. ca. 6 ½. Eftir það fóru stúlkur að hreinsa og hreinsuðu það alt sem eftir var af túninu, en við bárum af og feldum niður það sem eftir var af brunnhústóftarbrotinu og sléttuðum það. Hallgrímur, Sigfús með sína fjölskyldu, og Elías og Bjarni frá Hóli komu austur [úr Hrafnkelsdal] í dag seint. Bjarni, Elías og Hallgrímur héldu áfram úteftir, en Sigfús var eftir á Kleif með fólk sitt. Elías ætlaði helzt í hvaltúr, eða ofan á Seyðisfjörð.

Sunnudagur 14. júní. Norðan heiðríkur framan af deginum, en þyknaði upp um nónbil. Kom með utanþokuslæðing í kvöld. Ég fór inn að Kleif í dag – seinni partinn – og smíðaði þar klossa til að hafa undir myndavélina; tók um leið rúgmjöl sem Jón lánaði mömmu þangað til komið yrði úr kaupstaðnum; það voru 20 p. Sigfús og fólk hans fór úthjá í dag. Gamli Ketill fór út að Klaustri eftir flutning sínum. Mamma og Metta fóru út að Þuríðarstöðum um leið og þær sóttu kýrnar, sem höfðu sloppið útfyrir.

Mánudagur 15. júní. Utan í lofti með þokuslæðing í kvöld og nótt. Við Gunnar gerðum við Ystahússlækinn, sem var ófær, hlóðum og bárum heim hraukana frá kofanum, fórum svo, og mamma og Guðrún inn í Eyrarsel og bárum inn alt taðið þar. Fórum svo út í Valþjófsstað eftir tarfi á Rauðu-kussu og náðum á fótum gömlu Steinunni og Ellu. Við komum að utan með tarfinn kl. að ganga 4 í morgun. Þau Sigfús og Einhildur voru að sá í Hólsgarðinn í nótt þegar við fórum innhjá. Gamli Ketill kom utan frá Klaustri með flutning sinn í gær.

Þriðjudagur 16. júní. Sama veður, þokulaust, hægur utanvindur. Guðrún var send inn að Kleif til að fá lánaða hesta til að fara úteftir með tarfinn, og lenti hún inn á dal til að finna Guðna. Hún kom með tvo hesta handa okkur, og svo kom Helga með henni á þeim þriðja, með krakka sína alla. Við Gunnar fórum svo úteftir með tarfinn og skildum við hann eftir í nautunum, og sneri Gunnar þar aftur, en ég hélt áfram og átti ég að fara út í Klaustur, en hætti við það þegar ég frétti á Valþjófsstað að þau hjónin væri ekki heima. Frú Ragnheiður bað mig að koma úteftir á morgun og vera við jarðarför.

Miðvikudagur 17. júní. Indælasta veður um morguninn – hiti og sólskin – en kom með kaldan utanvind seinni part dagsins. Ég vaknaði kl. 6 um morguninn, því frú Ragnheiður bað mig að koma snemma. Þórarinn á Kleif, eða réttara sagt á Heiðarseli, kom í gærkvöld að norðan og ætlar norður aftur á morgun, og ætlar mamma að lána Guðrúnu með honum. Hann kom að norðan með hest, sem hann vildi koma á mig úteftir, og sem átti að ganga út í Bessastaðagerði, en ég mátti ekki vera að bíða eftir honum – Gunnar fór inneftir til að sækja hann – heldur fór ég strax þegar ég var tilbúinn, og var ekki búið að heita kaffið á Valþjófsstað þegar ég kom þangað. Ég fór svo með Siggu litlu, Þuru, Þórhöllu og Nonna [börn prestshjóna á Valþjófsstað] að ná í skógvið þar úr hjallanum, og blóm til að skrýða með stofuna. Þar var ekki margt fólk aðkomandi. Mamma kom meðal annara úteftir. Þar var vel veitt og sköruglega. Niðri í kirkjunni spilaði Hákon undir á orgelið og söng, fyrst orð eftir sjálfan sig – söng einn bassann. Kistan var stór og falleg, svört, “glaceruð”, og með fínum, bronslituðum “húlkílum”. Hún var þakin krönsum. Engir fóru þaðan fyrr en kl. 8 ½ . Við sáum til lestarmanna héðan úr Norðurdalnum frá Valþjófsstað.

Fimmtudagur 18. júní. (9. vika sumars). Norðan “gúaldalegur”, hvesti á utan seinn partinn. Ég var að reyna að rifja upp rekninginn fyrir stelpunum, sem eiga að koma úteftir á morgun með prófskrift og steinspjöld til að reikna á¸en á laugardaginn á að spyrja þær til þrautar. Árni kom í dag eftir hádegi og færði mér óbrúkuðu plötunar mínar og bækur úr kofforti mínu, ásamt skónum mínum.4 En Grímsi á Glúmsstöðum hafði flutt hattinn, flibbann og myndirnar mínar frá honum Eyjólfi, og ætlar hann að koma því öllu saman út að Valþjófsstað á sunnudaginn. Gunnar gekk eitthvað fyrir ofan í dag og fann eina ána niðri-í, en lambið stóð yfir – hún var vel lifandi. Árni kom með vírinn. Hann fékk “Héðin” litla járnaðan á Seyðisfirði, og gekk það sæmilega.4

4 Eftir þessu að dæma var Vigfús búinn að vera eitthvað á Seyðisfirði, og hafði skilið  þar eftir koffort með ýmsu dóti, þar á meðal myndplötum. Eyjólfur er líklega Eyjólfur Jónsson ljósmyndari, sem gæti hafa kóperað myndir fyrir V.S.

Föstudagur 19. júní. Suðvestanvindur lítill, lygndi seinni partinn og rigndi lítið eitt með kvöldinu. Við rákum saman í dag, og rákum lambær inn, ásamt geldfénu, til að laga á þeim. Stelpur fóru úteftir með töflur sínar og kver, en fóru á undan Jónu, því þeim leiddist að bíða eftir henni. Svo kom Signý með Jónu á eftir, og fylgdi henni út í Þuríðarstaði. Ég sendi með stelpum þessar bækur til Betu á Valþjófsstað – hún hafði beðið mig að lána sér þær: Bæði dönsku almanökin (frá Gosa og Sigurði í Klúku), “Vulkaner og Jordsjælv”, og kverið með þýðingunum: “Kosningin í Gramstrup”, o.s.frv. Stelpur gerðu ráð fyrir að vera á Klaustri í nótt. Ég ætla að vaka eitthvað frameftir yfir túninu.

Laugardagur 20. júní. Norðan, skýjaður, rigndi í völd. Ég vakti í nótt þar til kl. var rúmlega 5; þá fór mamma ofan en ég að sofa. Gunnar fór inn að Kleif til að smala með Jóni. Guðni fór norður að fylgja Þórarni, en Árni fór út í Hól að hjálpa Hallgrími að binda, kom hann aftur með stelpum, sem höfðu verið á Klaustri í nótt í góðu yfirlæti. Ég hreinskrifaði í nótt lagið: “Guð miskunni nú öllum oss”, og bjó mér til vasanótnabók. Guðrún kom rétt núna að innan. Þau voru öll á Brú í nótt. Ég “blænkaði” alla stígvélaskóna okkar í dag.

Sunnudagur 21. júní. Norðan kaldur, snjóaði mikið í brýrnar í nótt og var með úrfelli fyrri part dagsins. Hvass á utan seinni partinn og mjög kaldur. Við fórum öll til kirkju, nema Guðrún. Við Gunnar fórum gangandi á undan, því ekki höfðu allir hesta. Það var margt fólk við kirkju, og þar á meðal nokkrir fásénir, t.d. Einar, bróðursonur Vilhjálms á Þuríðarstöðum, Eiríkur Hallsson o.fl. Þá voru þeir líka þar Geitagerðisbræður, og hafði ég gaman að tala við Palla [Pál G. Þormar] um veru hans hjá Helga Valtýssyni.[Hann var kennari og skólastjóri á Seyðisfirði 1900-1901, áður í kennaraskóla í Noregi]. Hann kvaðst eiga tvær teiknibækur, og skyldi ég koma einhverntíma úteftir til að skoða þær. Þar var líka að kirkju, Kalli [Karl Ólafsson, síðar vel þekktur smiður], bróðir Sigru, og hafði hann gaman af að sjá okkur, og við hann.

Það voru fermd 8 börn í dag, Gunnþóra og Sigra [Sigurbjörg Ólafsdóttir frá Urriðavatni, fósturbarn á Eg.] héðan, Sigga og Eyjólfur frá Brekkugerði, Sigmar [Hallason] frá Bessastaðagerði, Jónína [Guðnadóttir] frá Kleif, og úr Suðurdalnum: Sigmundur [Þorsteinsson] frá Flöt og Arnfríður [Eðvaldsdóttir og Steinunnar vinnukonu] frá Víðvallagerði. Þeim var raðað eftir stafrófsröð. Ég spilaði dálítið á orgel fyrir messu. Nú fékk ég myndirnar mínar frá Eyjólfi og borgaði nú skuldina, og gaf frú Ragnheiði eina myndina og Mekkínu í Klúku aðra, svo nú er ekki nema ein eftir af þeim 4, sem ég fékk að neðan.5 Eftir messu fengum við kaffi á Valþjófsstað. Enn var við kirkju Jón frá Eiríksstöðum, sem tekinn var fóturinn af í fyrravor, og var hann spertur á tréfæti sínum. Það var orðið framorðið þegar við fórum frá Valþjófsstað. Gunnar fór frá kirkjunni út að Klaustri, því hreppamót á að verða með morgninum. Við teymdum graðfola inneftir, sem á að ganga upp að Kleif. Hver veit nema Palli geti nú látið mig hafa fixatur. Á morgun á að flytja fyrir Hallgrím í Hóli burð norður að Þórisstaðakvísl,6 og á þriðjudag á að fara í kaupstað eða hvalferð. Öskufallið sem kom um daginn, var miklu meira fyrir norðan (í Hrafnkelsdalnum og heiðinni), einnig út í Jökulsárhlíð. Í Hrafnkelsdalnum var það mest um tíma um nóttina, það stóð yfir ca. 20 mínútur, og varð þá svo dimt að varla glórði í gluggana.7

Eyjólfur Jónsson ljósmyndari á Seyðisfirði hefur  líkl. framk. og kóp. myndir V.S. Sbr. áður. 6 Hallgrímur Friðriksson flutti að Vaðbrekku 1903 og bjó þar til 1922.7 Gos við Þórðarhyrnu (Grímsvötn) í Vatnajökli byrjaði 28.maí 1903

Mánudagur 22. júní. Norðankuldi með litlum éljagangi (hagli) framan af. Stefanía í Hóli kom að utan með burð á 4 hestum, og fór ég svo að sækja hesta, og fór svo Árni með burðinn norður að kvíslinni. Ég fór að búa til bunu í bæjarlæknum og láta í garðshliðið frammi og niðri. Í kvöld kom Hólsfólkið að utan, og með því Páll á Víðivöllum, að fylgja þeim. Bjarni, Finnur [synir Stefaníu], Sigfús og Páll fóru inn að Kleif að gista þar, en Hallgrímur, Guðf[inna Jakobsdóttir, móðir Hallgríms, ekkja], Stefanía og Gunnar litli [1 árs fósturbarn] ætla að vera hér í nótt. Gunnar og Guðni komu utan af hreppamótinu. Seinni part dagsins var ég að verka burt grjótið á grundinni fram og niðri, sem lækurinn flutti þangað í vetur.

Þriðjudagur 23. júní. Hólsfólkið fór norður, og Margrét Grímsdóttir, sem gisti á Þuríðarstöðum í nótt, fór með þeim, og ætlar hún að vera kaupakona hjá Elíasi [á Aðalbóli] í sumar. Við smöluðum heim til að marka – það var samganga út að Bessastaðaá - og í var fjöldamargt ókunnugt fé, og rákum við Gunnþóra það út í Þuríðarstaði, en þar var Sveinn [Jónsson vinnumaður] á Klaustri fyrir, til að reka það úteftir. Árni og Jón Þorsteinsson fóru í hvalferð, Jón með alla hesta þeirra Guðna, en Árni skildi folann okkar eftir heima. Þeir ráku geldfé sitt á Glúmsstöðum í dag. [Smáteikning]

Miðvikudagur 24. júní. Sunnan þykkur í lofti, blíðasta veður með kvöldinu. Gunnar fór út í dal til að leita í grenjum. Ég var að verka grjótið af grundinni frammogniðri og stúlkur að hreinsa. Páll á Víðivöllum [Páll Sigfússon á Víðiv. fram, síðar bóndi á Melum] kom að norðan í kvöld með lánshesta Hallgríms, en Sigfús ætlar að koma austur aftur á föstudag. Hólskýrnar sluppu út á Aðalbóli í nótt og mátti elta þær austur á heiði. Hannes á Arnaldsstöðum kom hér inn á móts við í kvöld til að vitja hvuta síns, en hann var þá farinn eitthvað og fanst hvergi. Ég var fram eftir allri nóttu í gærkvöld að hringla innan um ærnar, til að koma saman á og lambi, sem ekki vildi þýðast hana, af því hún var nýrúin, og lukkaðist það á endanum. [Smáteikning af á og lambi].

Fimmtudagur 25. júní.10. vika sumars. Sama veður. Ég enti við að verka grjótið af grundinni og fór svo að bera af [afrak?] fram að hádegi. Eftir hádegi fóru stúlkur að þvo ull, en ég að stífla lækinn. Enginn hefur komið í dag, nema Þuríðarstaðakýrnar !!! [Teikning af fugli]

Föstudagur 26. júní. Sama veður, mjög þykkur í lofti framan af deginum, en reif til með kvöldinu. Gunnar kom í gærkvöld þegar við vorum nýháttuð, og hafði hann ekki fundið tóu í neinu greni sem hann leitaði á. Sigurður Pétursson á Klaustri var fenginn honum til fylgdar. Í gærkvöld skutu þeir svo á Hólmavatninu 15 hávellur, og kom Gunnar heim með sumt af þeim, en Sigurður fór með sumt, og 4 náðu þeir ekki af vatninu – það var of djúpt. Stúlkur héldu áfram að þvo ullina. Gunnar skrapp út í Þuríðarstaði fyrir hádegið, en kl. c. 4 fórum við að ganga fyrir ofan og smöluðum um leið útfjallið, og rákum féð inn fyrir bæ. [Smáteikning]

Laugardagur 27. júní. Sunnan framan af deginum, rigndi nokkuð um hádegið, snerist svo til austurs og rak inn þoku. Við Gunnar rifum fjósskúrinn og ókum ruslinu úr honum út í götu, löguðum til í bæjardyrunum og göngunum. Tveir menn fóru með geldfjárrekstur inneftir í morgun, og fóru úthjá aftur um hádegið. Gunnar hélt þeir hefðu verið frá Hrafnkelsstöðum og Víðivöllum. Í kvöld voru þessar 6 hávellur reittar, sem Gunnar kom með. [Næst koma “Tvö kvæði” úr skáldsögunni “Vor og haust”, eftir Jóhann Magnús Bjarnason. Yfir þeim er teikning af önd, líklega hávellu.]

Sunnudagur 28. júní. Í nótt var niðaþoka og rigning, en hvorttveggja hvarf með morgninum. Guðni á Kleif kom hér fyrri part dagsins, til að fá Guðrúnu lánaða að smala með sér á morgun, og fór hún með honum eftir hádegið. Þeir Árni og Jón Þorsteinsson komu úr hvalferðinni, og höfðu fengið sporð, bæxli og þvesti fyrir ekki neitt, en keyptu svo rengi (fallarengi) fyrir 4 kr. hvor. Kristín á Hóli kom hér með Tóta litla, og skrifaði ég bréf með þeim til Palla í Geitagerði. Nú er töluverður framanvindur. [Pennateikning af borði með ýmsu dóti, sem tilheyrir bréfaskrift og ljósmyndun, litaspjald og penni á flugi!] Kl. 10 er Guðrún komin að innan aftur, það var vitleysa að Guðni ætlaði að fá hana til að smala með sér. Antoníus er kominn – á leið til Seyðisfjarðar með lest, og ætlar að vera hér í nótt.

Mánudagur 29. júní. Vestan, skýjaður. Við brytjuðum hvalinn og söltuðum niður kjötið og sumt af renginu líka, eða það allt sem af gekk 4 pottum. Eftir nón fórum við Gunnar og stelpurnar að smala, og rákum að Eyrarseli og stíuðum. Af ánum vöntuðu um 20, og nokkrar ókunnugar voru, en þær verða ekki reknar fyr en kanske á morgun. Ég fór út í Þuríðarstaði í morgun.

Þriðjudagur 30. júní. Sama veður framan af deginum, en rak inn þoku seinast í kvöld. Sama hringlið við ærnar. Við Gunnar, mamma og Guðrún fórum á stekkinn í morgun, og rákum við ærnar út að Hlauplækjum. Svo gengum við ekki til þeirra fyr en í kvöld og leituðum þá um leið og fundum 5 ærnar sem vöntuðu. Jón Þorsteinsson kom hér í dag og fór út í Hól. Árni fór inn að Kleif í dag.

Miðvikudagur 1. júlí. Norðan framan af deginum, rak inn þoku í kvöld. Sama ærhringlið. Árni gekk með okkur í kvöld, og fórum við norður undir Svörtuöldu. Allir eru búnir að fá svo mikið kvef að menn ætla að drepast, og rykur það á ánægjuna!!! Þessi vika er réttnefnd kvalræðisvika. Sigurvin á Langhúsum kom hér í kvöld að fá klósög, og mátti hann ríða inn í Kleif og var hún ekki þar heldur. Í morgun þegar við fórum á stekkinn var niðaþoka ofan í á. Ég er farinn að læra “Dactylismum ecclesiasticum” [kirkju-fingrarím] þessa dagana.

Fimmtudagur 2. júlí. Bjartur framan af deginum, en rak inn þoku seinni partinn (kl. 3 ½). Sami rolludansinn. Í morgun þegar við vöknuðum voru komnir rekstrarmenn frá Klaustri: Sveinn og Kári. Í gærkvöldi voru reknar heim ókunnugu ærnar, og fór Árni með þær úteftir í morgun. Gunnar fór inn að Kleif af stekknum, og kom svo seint aftur, að ég mátti ganga einn við ærnar og lenti ég í allri þokunni. Guðni var fenginn til að gelda í kvöld. Ég fór inn að Kleif frá smalamenskunni í kvöld og varð svo Guðna samferða út á Eyrarselið.

Föstudagur 3. júlí. Utan með þoku og sudda allan daginn, en létti samt þokunni í kvöld. Gunnar reið út að Glúmsstöðum í morgun til að sækja Blesu, sem hann ætlar að hafa inneftir. Ég fór að sækja hestana og löguðum við Árni undir Skjóna hans. Með Gunnari komu að utan Páll á Víðivöllum og Björn vinnumaður hans, með ær norður í Hrafnkelsdal til fráfærna og göngu. Þeir voru hér lengi og eru nú nýfarnir kl. 10. Þeir fóru í kaupstað í dag, Árni og Guðni. Jón Þorsteinsson kom með Guðna að innan og var hér lengi. Í morgun var ánum slept, og varð ég fegnari en frá verði sagt að losna við að hringla í þeim. Þær voru reknar fram fyrir Eyrarsel, en þó voru verstu túnærnar komnar hér heim um hádegi. Þeir P. og B. ætla að hýsa ær sínar á Eyrarseli í nótt, en vera sjálfir á Kleif.

Laugardagur 4. júlí. Norðan. Kom með þoku í kvöld. Böggi á Kleif kom hér í morgun, til að láta Gunnar vita að Jón gæti ekki farið inneftir í dag, vegna vesaldar í barninu. Við Gunnar fórum samt inneftir og rákum með okkur ærnar, sem hér voru heima, og fór ég með þær inn í skóg [Kleifarskóg]. Jón fór þá að búa sig og fóru þeir frá Kleif kl. c. 7 ½ í kvöld. Ég var þá nýkominn að innan, og fór ég að skrifa upp sálmalög eftir Signýju handa séra Bjarna. Skrifaði 2, en hún mundi ekki það þriðja í svipinn. Þá kom Antoníus þangað, en ætlar norður í nótt, og þeir Hólsfeðgar með honum, til að sækja sínar ær. Einar Hávarðsson kom með þeim að utan og var “kendur”. Hér komu rekstrarmenn frá Víðivöllum: Guðni og Sigfús, og stóðu hér við.

Sunnudagur 5. júlí. Norðan, með skúrum af og til. Þórst. kaupi (nýibóndi!) [í Klúku] hafði farið innhjá í nótt og fór úthjá í dag, með Einari Hávarðssyni. Ég skrifaði upp 2 lög handa séra Bjarna, og skrifaði bréf til Bjarna í Grenivík [Grímsey], því ég fékk bréf frá honum í gærkvöld.

Mánudagur 6. júlí. Norðan sem fyr. Bjartviðri allan daginn, en kom með utangolu seinni partinn. Ég fór upp að Kleif fyrir mömmu, til að grípa uppí vefinn fyrir Signýu – var ég þar í dag að vefa, en varð því miður lítið ágengt, því vefurinn og vefstóllinn var í mesta óstandi, ívaf vantaði, og auk þess var óverandi í baðstofunni fyrir hita, því frú þorði ekki að opnaður væri gluggi, vegna barnsins sem er með kíghóstanum – þær eru báðar með kíghóstanum stelpur hennar. Mamma og Metta [Mekkín] fóru fóru inn í Kleyf í kvöld, og mætti ég þeim á Klifinu, þegar ég fór frá Kleyf. Einhverjir rekstarmenn fóru núna innhjá með lömb.

Þriðjudagur 7. júlí. Í dag komst hann suðvestan og rigndi nokkuð. Ég var lasinn í morgun og eiginleg í allan dag. Ég verkaði fjósið og hlóð torfinu úr loftinu, en ók burt rosmanum út í götu. Stúlkur voru að þvo ull í dag, þangað til fór að rigna. Rekstrarmennirnir komu hér í morgun, það voru: Sigurvin, Bensi frá Gerði og drengur frá Hrafnkelsstöðum. Sigurvin var frá Flöt. Þeir voru að reka lömb og dilkær.

Miðvikudagur 8. júlí. Suðvestan, með vind framan af deginum. Ég fór inn í Kleyf í morgun og var að vefa þar í dag. Gunnar kom úr grenjaleitinni kl. að ganga 4 í morgun, og fundu þeir tóu aðeins í einu greni, og skaut Jón hana á örstuttum vegi, en hún fór sína leið – töldu þeir víst að hún hefði verið dauðskotin. Einn hvolpur var í greninu, en náðist ekki út, og eitruðu þeir fyrir hann. Þeir fundu 2 álftaregg og kom Gunnar með annað. Árni og Guðni komu í kvöld.

Fimmtudagur 9. júlí. Suðvestan, rigndi dálítið. Er nú að koma með þokuslæðing. Þurkur var í morgun og breiddum við ull Árna o.fl. Gunnar fór eitthvað út á bæji, og er ókominn enn. Signý á Kleif kom hér í dag fyrir mömmu, og rifjaði nú upp lagið sem hún mundi ekki um daginn – handa séra Bjarna – og skrifaði ég það svo upp.

Föstudagur 10. júlí. Norðan. Ég fór með 2 hesta – reið á öðrum – að sækja kubbann, sem Halldór á
Klaustri hafði lofað okkur til að hafa í spilið.
Á Valþjófsstað hitti ég Sigfús á Hóli, sem var að fara út í Brekku, ríðandi með 2 hesta í taumi, til að sækja uppboðsmuni sem hann hafði keyft þar. Ég kom inn á Valþjófsstað og fékk kaffi. Ég varð svo Sigfúsi samferða út að Klaustri, og var Halldór ekki heima. Hann var út á Brekku við baðstofusmíði. Mátti ég fara þangað úteftir, og sagði þá Halldór mér að allir kubbarnir hefðu verið sagaðir niður (flettir), svo hann vissi ekki af, og “svona fór um sögu þá”.

Enginn átti til kubba, sem ég talaði við. Ég ætlaði svo að fá Jón á Bessastöðum til að brasa saman þráðinn, en hann sagði það gæti ekki orðið fyrr en einhverntíma. Svo skrifaði ég Halldóri Guttormssyni og bað hann að koma, en þá sagði læknir mér að hann væri einhversstaðar suður í Skaftafelssýslum og væri óvíst hvenær hann kæmi. Ég tók svo plankann, sem Gunnar keyfti á uppboðinu, og lagði á “Sunnu” og héldum við svo á stað. Það var hroðahvassviðri. Við fórum ofan utan við lækinn á Brekku, og fældist Gráni – sem ég reið - af því Sunna ruddist svo fast á eftir honum. Setti hann sig aftur á bak og botnbyltist ofan fyrir melinn, og kastaðist ég af honum og valt ofan í lækinn, en meiddi mig ekkert. Gráni valt einu sinni um hrygg og stansaði svo. Þeir voru önnum kafnir við að smíða og byggja baðstofuenda á Brekku. [Hér vantar líklega 1 bls. í handr.]
[jarðar]för Möggu litlu, sem dó úr kíghóstanum í vor. Þegar ég kom heim var búið að fara inneftir með Skjónu, sem Gunnar var á (Helga fór með hana), en Guðrún fór svo aðra ferðina inneftir með Busku. Ég má til með að setja mér upp aðra dagbók í kvöld. Tölvusett í mars 2013. – H. Hall.

8 Hér (og aftur neðar) virðist vera áttu við heyflutningssteng, sbr. grein mína í Glettingi 22 (2), 2012, og hefur þá slíkur strengur verið kominn upp á Egilsstöðum um aldamótin, á svipuðum tíma og á Þorgerðarstöðum.

 

 

 

“Dagbók Vigfúsar Sigurðssonar, Egilsstöðum. Frá 10. júlí til 19. seft. 1903”

Framhald af 10. júlí 1903. 12. vika sumars.
Við fengum kaffi á Brekku. Við vorum beðnir að skila til læknis frá Valþjófsstað, að hann væri beðinn að koma, því frú María var veik og Sigurveig. Sigurveig var að búa sig á Seyðisfjörð með Brynjólfi og Betu, sem ætla norður á Akureyri, en hún varð að setjast aftur vegna veikinnar, og sagði læknir að það væri gula. Það var orðið framorðið þegar við komum að Valþjófsstað, og stönsuðum við þar og biðum eftir kaffi. Þegar við komum inn að Hóli, vildi Sigfús að ég kæmi inn og fengi mér að éta, og fékk ég þar mjólk og brauð. Þar voru allir háttaðir, en Sigfús vakti Kristínu. Ég kom heim kl. 4 í morgun, en nú er

Laugardagur 11. júlí 1903. Norðan með skúrum. Eg svaf til hádegis. Jón Þorsteinsson kom hér í morgun. Við Gunnar fórum eftir hádegið inn á Eyrarsel að gera við garðinn.

Sunnudagur 12. júlí 1903. Sama veður. Í morgun fór ég að leita að Faxa og Skjónu, sem höfðu sett norður á heiði. Fór ég upp á brýr án þess að sjá nokkuð, og leitaði inn á Skyrhraun, en fann ekki. Setti svo út hlíðar og fann þau þar. Kom heim kl. c. 3¼. Svo fór ég út að Hóli og kom aftur kl. 9. Sigfús var út á Valþjófsstað og Einhildur. Gunnar reið út að Glúmsstöðum í dag á Blesu, sem hann varð fyrst að sækja inn að Kleif.

Mánudagur 13. júlí 1903. Þurkur. Utanvindur seinni partinn. Í morgun lögðu þau af stað í kaupstaðinn, Árni, mamma og stelpurrnar héðan, en Jón Þorsteinsson, Signý og Jóna frá Kleif. Guðni kom hér úteftir í morgun til að brasa saman þráðinn og gekk það vel. Böggi kom hér líka í morgun og hafði heimalingshrússa frá Hóli í taumi og fór með hann út í Þuríðarstaði; Metta fór með honum. ------Löng þögn.----

Sunnudagur19. júli. Síðan á mánudag hef ég ekki getað skrifað neitt í kver þetta, því nú er heyskapurinn byrjaður. Þá er að telja upp það helzta sem gert hefur verið þessa viku. Þriðjudaginn byrjuðum við að slá – um kvöldið – Guðrún fór inn að Kleif á hverjum morgni til að mjólka kýrnar. Miðvikudaginn slóum við líka. Fimtudaginn slóum við, og fönguðum um kvöldið heyið á efra túninu – neðan af því, við skildum eftir skák ofan af því, af því við höfðum ekki rekju. Föstudaginn slóum við og þurkuðum ekkert. Laugardaginn þurkuðum við alt á efra túninu og hirtum það, en fönguðum nokkuð á neðra túninu. Þá komu þau úr kaupstaðnum og Hallgrímur á Vaðbrekku kom að norðan, á leið í kaupstað. Í dag ætla ég í kaupavinnu út í dal.

Sunnudagur 26. júlí. (14. vika sumars). Á sunnudaginn var settist ég að á Hóli, í kaupavinnu hjá Sigfúsi, og var þar þessa viku. Við gátum ekkert annað en slegið því aldrei kom þurkur. Ég skrapp austur að Glúmsstöðum einn daginn til að koma fyrir sláttuskyrtu til að sauma handa mér. Einn daginn kom mamma úteftir, og þann sama dag var skýrt barnið á Kleif – prestur reið umeftir – og réðist ég þá hér á Valþjófsstað til viku í kaupavinnu. Við Sigfús slóum Hólsteiginn í gær – laugardag – og varð ég svo hér eftir og – búið er nú!

Sunnudagur 2. ágúst 1903 (15. vika sumars). Þessa viku hef ég verið hér á Valþjófsstað að slá og sýsla við aðra heyvinnu. 3 síðustu daga vikunnar var þurkur seinni partinn, og þurkuðum við þá og settum í hlöðu kringum 70 hesta; aðrir 70 hestar standa í sátum, og svo er mikið í föngum. Halldór Stefánsson kom hér í gær að sækja barn sitt að Klaustri, og ætlar hann ofan yfir aftur í dag. Í gærkvöld riðu þeir Jón og Bjössi norður í Hrafnkelsdal. Í vikunni komu hér á sáttafund, Ásgeir á Klaustri og Þórsteinn á Mýrum, ósáttir útaf vistarsvikum – skildu sáttir. Ég er ráðinn hér á Valþjófsstað fyrir næstu viku. Í dag voru skírð 3 börn í kirkjunni og fermingarbörnin tekin til altaris.

Sunnudagur 9. ágúst (16. vika sumars). Ég var hér á Valþjófsstað þessa viku. Hirtum alt upp á mánudag og þriðjudag. Slóum hina dagana. Köstuðum heyi og tyrfðum það. Í þessari viku (föstudag) fóru til Seyðisfjarðar lestarferð, Gunnar br. m., Grímsi á Glúmsstöðum og Sigurvin á Langhúsum. Prestur reið norður í Hrafnkelsdal í gær, til að taka út á Vaðbrekku og messa á Brú í dag. Eddi fór með honum norður. Í gær fóru hér um til Seyðisfjarðar, Jón Kjerulf á Melum og Sali (sonur hans). Baldvin á Þorgerðarstöðum fór út í Klaustur í gær, og sagði að Jens vantaði kaupamann – getur skeð ég fari þangað. Í gærkvöld riðum við 4, ég, Bjössi, Sigurður og Jón út og ofan að á, að leita að klifinni góðu, sem lenti í ána.

Sunnudagur 16. ágúst. Ég fór til Jensar fyrra sunnudag og var hjá honum þessa viku. Við slóum alla vikuna því einlægt voru rekjur (ákafar rigningar). Í dag fékk ég hest hjá Jens og riðum við Hannes inn í Norðurdal. – Hannes inn að Kleif en ég heim. Þegar ég kom heim var tómur bærinn; mamma var þá farin út að Glúmsstöðum, en stelpur og Guðrún fóru inn að Kleif. Sigfús á Hóli reið inneftir með okkur. Þegar við vorum búnir að standa svolítið við, komu þeir Glúmsstaðabræður, og riðu þeir þá strax inn að Kleif, Grímsi og Gunnar og sóttu kvennfólkið þangað. Á úteftirleiðinni komum við Hannes að Glúmsstöðum og var þá mamma þar. Ég var ráðinn hjá Jensi næstu viku og fór ég því með Hannesi inneftir í kvöld, og var orðið dimt þegar við komum. [Hér er átt við Jens Guðmundsson bónda á Arnaldsstöðum].

Þriðjudagur 15. seft. 1903. Nú er langt síðan ég hef rissað í dagbókina og verð ég nú að bregða þögninni. Þá er nú fyrst til að taka, að ég var hjá Jensi aðra viku til, fyrir sama kaup, 2,50 kr. á dag, og rigndi alla þá viku – við vorum að heyja á dalnum. Laugardaginn reið ég - eftir hádegi – út í Valþjófsstað, samkvæmt aftali okkar Ragnheiðar (mad.), og ætlaði að verða þeim samferða hjónunum, til Áskirkju. Jens fór með mér út í Valþjófsstað. Þegar við komum þangað var það að búa sig fólkið: prestur, Ragnheiður og Anna. Ég fékk hest hjá Jensi úteftir. Reið út að Geitagerði um kvöldið og gisti þar. – Einn samferðamaður var enn, og það var Ella Stefánsdóttir, og gisti hún líka í Geitagerði – hin voru á Brekku um nóttina, og þar slóst Jóhannes í förina. Ekki var messað á Ási daginn eftir, því það komu svo sem engir. Við fórum aftur upp að Valþjófsstað á sunnudagskvöld, og hafði ég hið mesta gaman af túrnum. Ekki gekk ferðin slysalaust. Þegar við komum inn á Hantóarmýrarnar í myrkrinu um kvöldið var mad. Ragnheiður mót venju á undan; hesturinn sá stóran stein í myrkrinu og stökk útundan sér, því hann er hvimpinn í myrkri, og hún datt illa úr söðlinum og meiddi sig svo mikið, að prestur varð næstum að bera hana inn, og fór hún ekki á fætur í viku á eftir.

Miðvikudagur 16. seft. (frh.). Á mánudagsmorgun fór ég snemma á fætur og ætlaði að flýta mér inn í Arnaldsstaði, en þá biður Brynjúlfur mig að vera hjá sér í 3 daga, og sendi hann Bjössa inneftir til að fá til þess leyfi Jensar. Það var þurrviðri og átti að binda heim þurt hey úr sæti á Valþjófsstað, og var Þorsteinn á Flöt fenginn til að binda með okkur – hann lá í tjaldi úti á nesi við heyskap. Bundum við svo hvíldarlaust frá því um morguninn og til kl. 6 úr sætinu, því hann leit regnlega út, og byrjaði að rigna (sem smátt og smátt) kl. c. 4, og um það leyti komu þangað heim, Björgvin á Hallormsstað, Ragnheiður kona hans, Rúna, séra Guttormur í Stöð, með tvö börn sín: Guðríði og Pál, og stóðu þessi öll lengi við, en riðu síðan út í Klaustur. Mér féll ágætlega að tala við séra Guttorm og vel leizt mér á Guðríði dóttur hans, eins og Pál. Þegar þessir 3 dagar voru liðnir fór ég að búa mig inneftir, en þá fanst hvergi beizlið, sem Jens hafði léð mér úteftir, og leitaði ég þó lengi að því. Kom ég beizlislaus inneftir og þótti Jensi ilt sem von var. Þetta var á fimtudag og hirtum við þá upp heyið, sem eftir var á dalnum, og með því að þá voru búnar heimaengjarnar, lét Jens okkur fara út á nes, og láum við þar við tjald þá 2 daga sem eftir voru af vikunni. [Líklega átt við Valþjófsstaðanes, þar sem heyjað hefur verið frá ýmsum bæjum]. Laugardagskvöld fór ég heim í Valþjófsstað og var þar um nóttina og sunnudaginn, og tók nú til óspilltra málanna með beizlisleitina. Þá komu þar Hólshjónin með krakka sína, Jóhannes á Brekku og Bjarni – verslunarmaður frá Húsavík – með honum – hann er bróðir Hansínu, konu Jónasar læknis. Var þetta fólk þar lengi um daginn, og spilaði ég lengi fyrir það á orgelið niðri í kirkju, og var ekki fundið að þó skökk nóta kæmi fyrir. Um kvöldið fann Þura litla beizlið, og hafði Brynjólfur gengið frá því undir söðli. Hún varð glöð við og heimtaði af mér fundarlaun og gaf ég henni 1 kr., því mér þótti vænt um að beizlið fanst.

Fimtudagur 17. seft. (frh.). Mánudag var ég hjá Jensi á nesinu og eins þriðjudag og miðvikudag, og var þá úti þriðja vikan sem ég var ráðinn hjá honum upp á 2,00 kr. Þá bað séra Þórarinn mig að vera 3 daga hjá Sigfúsi á Hóli, því hann ætlaði í hvaltúr fyrir þá báða; fór ég svo þangað á fimtudag og var þar til sunnudags. Sunnudaginn skrapp ég heim, og fór úteftir aftur á sunnudagskvöld, en þá fékk ég orð frá Jensi um að ég þyrfti ekki að koma til hans aftur. Var ég á Valþjófsstað um nóttina en fór heim daginn eftir. Var nú kaupavinnan úti, og reikningur yfir hana þannig:

Fyrst 1 viku í Hóli fyrir 2,50 pr. dag, er kr. 15,00, svo hálfan mánuð hjá séra Þórarni fyrir sama, 2,50 pr. dag, gerir kr. 50,00, síðan hálfan mánuð hjá Jensi fyrir 2,50 pr. dag, eru kr. 30,00, og svo eina viku fyrir 2,00 pr. dag, eru 12,00 kr. Svo 3 daga hjá Brynjólfi fyrir 2,00 pr. dag, eru 6,00 kr. og síðast 3 daga á Hóli fyrir þá prest og Sigfús uppá kr. 2,00 pr. dag, eru 6,00. Alls 99,00 kr.

Nú fékk ég hjá Jensi uppí kaupið 1 ljáblað og hestlán út að Ási. Ljáblaðið kostaði 1,20 kr., en hestlánið 1,50 kr. Ennfremur slapp undan hálfur dagur af fyrri vikunum, og er það kr. 1,25. Þetta alt gerir kr. 3,95, svo það sem eftir stóð hjá Jensi var kr. 38,05. Svo bað hann mig – af því hann sagðist ekki eiga meiri smápeninga - að taka hjá Vilhjálmi á Þuríðarstöðum kr. 3,90, en hitt borgaði hann mér í peningum á sunnudaginn var, er ég fór að finna hann og hina aðra skuldunauta mína, var það 34,15 kr. Frá Brynjólfi hef ég móttekið 4,00 kr. og standa þá 2,00 kr. eftir. 2,00 fékk ég hjá Sigfúsi á Hóli, og standa þá kr. 16,00 eftir, sem Árni ætlar að lána Sigfúsi handa mér. Séra Þórarinn er ekkert búinn að borga mér enn.
Þennan síðasta hálfa mánuð hef ég verið heima, og ætla ég nú á morgun að leggja á stað áleiðis til Reykjavíkur, hvað sem þar liggur fyrir mér. Fyrra mánudaginn sem ég var heima var verið að flytja hey ofan úr hlíðum. Var rennt ofan á strengnum af 3 ferðum, en við seinasta baggann bilaði strengurinn um brasið. Dagana á eftir hnýttum við hann saman aftur, en þegar hann var spanaður eftir það réttist önnur lykkjan upp. Enn hnýttum við hann saman og höfðum lykkjurnar lengri, en þá brast hann. Og enn einu sinni reyndum við að hnýta hann saman, og fór hann þá við 3ja bagga – hrökk. Svo í morgun – þetta var í gær – settum við hann enn saman, og heittum hann í eldi, og rendum nú á honum c. 3 ferðum og gekk ágætlega. Er nú ekkert hey í efra, nema ræpa, sem ég sló í kvöld hérna í gontunni út og uppi. Er nú bókin búin og sagan úti, svo mér er óhætt að segja Amen. (frh.)
Tölvusett í okt. 2013. H.Hg.

Til skýringar (Úr manntali 1. nóv. 1901)
Egilsstaðir
Sigurbjörg Gunnarsdóttir, húsfreyja, 46 ára, f. í Hjaltastaðarsókn, kom 1878 frá Hrafnsgerði.
Vigfús Sigurðsson, sonur hennar, 21. árs, f. í Valþjófsstaðarsókn.
Gunnar Sigurðsson, sonur hennar, 19. ára, f. í sömu sókn.
Gunnþóra Sigurðardóttir, dóttir hennar, 12 ára, f. í sömu sókn.
Mekkín Sigurðardóttir, dóttir hennar, 8 ára, f. í sömu sókn. [Kölluð Metta]
Sigurbjörg Ólafsdóttir, fósturbarn, 12 ára, f. í Ássókn. [Kölluð Sigra, dóttir Ólafs Hjörleifssonar á Urriðavatni, mágs Sigurbjargar, sem lést úr inflúensu 1894, og kona hans einnig.]
Salóme Stefánsdóttir, vinnukona, 43 ára, f. í Skeggjastaðasókn, kom frá Ketilsst. á Völlum 1897.
Ólafur Sigurjónsson, sonur hennar, 5 ára, f. í Ássókn.
Bjarni Jónsson, hjú, 61 árs, f. í Þingmúlasókn (er á Skriðukl.)
Árni Runólfsson, hjú, 37 ára (er á Vopnafirði). [Kemur oft við sögu í dagbókinni / síðast vinnumaður hjá Sigmari G. Þormar á Klaustri og Arnheiðarst.]

Kleif
Guðni Arnbjörnsson, húsbóndi, 57 ára, f. í Eydalasókn (Breiðdal), kom frá Ormsst., Skógum 1885.
Signý Jónsdóttir, kona hans, húsmóðir, 52 ára, úr Þingmúlasókn.
Björgvin Guðnason, sonur þeirra, 9 ára, f. í Valþjófsstaðasókn.
Jónína Guðnadóttir, dóttir þeirra, 14 ára, f. í sömu sókn.
Helga Guðnadóttir, dóttir þeirra, 27 ára, kom 1885 frá Ormsstöðum.
Þóarinn Ketilsson, tengdasonur bónda, 25 ára, úr Desjarmýrarsókn.
Ólafur Þórarinsson, sonur þeirra, 4 ára, f. í Valþjófsst.sókn.
Bergljót Þórarinsdóttir, dóttir þeirra, 1 árs, f. í sömu sókn.
Stúlka, óskírð, dóttir þeirra, f. 20.8.1901, í sömu sókn.
Guðrún Sigurðardóttir, hjú, 32 ára, f. í Garðasókn, Akranesi, kom 1900 frá Seyðisfirði. [Hefur líklega flutt sig í Egilsstaði, sbr. dagbókina.]

Þuríðarstaðir
Vilhjálmur Einarsson, húsbóndi, 59 ára, f. í Eiðasókn, kom 1865 frá Hleinargarði.
Þórhildur Eiríksdóttir, húsmóðir, 29 ára, f. í Svalbarssókn, kom 1887 úr Breiðdal.
Halldór Vilhjálmsson, barn þeirra, 5 ára, f. í Valþjófsst. sókn. [Bóndi á Víðivöllum fram, 1930-37.]
Kristín Vilhjálmsdóttir, sömuleiðis, 2 ára, f. í sömu sókn.
Þórstína Vilhjálmsdóttir, dóttir hans, 17 ára, f. í sömu sókn.
Einar Vilhjámsson, sonur hans, 15 ára, f. í sömu sókn.
Vilborg Einarsdóttir, vinnukona , 49 ára, f. í Eiðasókn.
Jón Grímsson, sonur hennar, 17 ára, f. í Valþjófsst. sókn.
Guðrún Grímsdóttir, dóttir hennar, 13 ára, f. í Valþjófsst. sókn.
Sveinn Jónsson, vinnumaður, 36 ára, f. í Hjaltastaðasókn. [Var 1890 í Bessastaðagerði og hlóð þar “Sveinkuna”]

Hóll
Guðfinna Jakobsdóttir, húsmóðir, 67 ára, f. í Vallanessókn, kom 1854 úr Presthólasókn. (Ekkja
Friðriks Vigfússonar Frydendals, Stefánssonar prófasts Árnasonar á Valþjófsst., bróður Ólafs í Klúku)
Hallgrímur Friðriksson, sonur ekkjunnar, ráðsmaður, 25 ára, f. í Valþjófsst. sókn
Stefanía Friðriksdóttir, dóttir hennar, 35 ára, f. í Valþjófsstaðasókn, kom frá Fjallseli 1901.
Bjarni Gíslason, sonur hennar, 14 ára, f. í Valþjófsst. sókn.
Guðfinnur Halldórsson, sonur hennar, 8 ára, f. í Ássókn, kom 1901 frá Fjallseli.
Gunnar Halldórsson, fósturbarn, 1 árs, f. í sömu sókn, kom úr Vallanessókn 1901.
Anna Einarsdóttir, vinnukona, 35 ára, úr Langholtssókn, V. Skaft.

[Þetta fólk hefur haft bústaðaskipti við Sigfús Hallsson á Vaðbrekku og hans fjölsk. og flutt að Vaðbrekku árið 1903, en Sigfús í Hól, eins og fram kemur í Dagbókinni. Hallgrímur flutti svo 1922 í Glúmsstaðasel. Athyglisvert er hversu mikil og náin samskipti Norðurdælingar hafa við bæina í Hrafnkelsdal, jafnvel meiri en við flesta bæi í Fljótsdal, þar á meðal við nágrannabæina Sel og á Glúmsst., en þar skildi Jökulsá á milli, og virðist sem þá hafi ekki verið kláfur á henni.]

Um öskufallið í Fljótsdal (úr dagbókinni)

28. maí. Þegar við komum heim aftur [frá Hóli], og á leiðinni, var komin blika framan yfir dalinn, biksvört með ákaflegri brennisteinsfýlu, og síðan hefur hún aukist og öskufall er töluvert.

29. maí. Í morgun var svo dimmt í lofti af öskunni, að sólin sást aðeins eins og í gegnum reikugt gler. Dimt fyrir utan og innan. Eftir hádegi fór sortinn að minka, og kl. 4 var mistrið hérumbil horfið. Sama veðurblíðan er enn – dálítil vindgola var fyrri part dagsins. Ég safnaði mér dálitlu af eldfjallaösku í bréf og geymi það. Nú er himinn skýjaður á suðvestan og indælasta veður.

21. júní: Öskufallið sem kom um daginn, var miklu meira fyrir norðan (í Hrafnkelsdalnum og heiðinni), einnig út í Jökulsárhlíð. Í Hrafnkelsdalnum var það mest um tíma um nóttina, það stóð yfir ca. 20 mínútur, og varð þá svo dimt að varla glórði í gluggana. [Gos við Þórðarhyrnu (Grímsvötn) í Vatnajökli byrjaði 28. maí 1903. (Sjá Sig. Þór.: Vötnin stríð, 1974, bls. 114-126].


Dagbækur H. Hall 1948-1950


Dagbók vor og sumar 1948
16. apríl, föstudagur: Sólskin og besta veður. Mestan daginn var nærri logn og austan átt. Við breiddum karteflugarðinn, efsta flagið og innsta partinn af flaginu fram á Tánga, með superfosfati.

17. apríl, laugard.: Þykkt loft þangað til um miðdag, þá birti dálítið svo að sól sá. Jarðarför Þórarins Hallgrímssonar [Víðivöllum ytri] var þennan dag á Valþjófsstað. Pabbi fór inneftir og margir fleiri. Bergsteinn [á Ási], Hallgrímur í Holti og Elísabet komu hingað snöggvast, einnig Jónas Einarsson og Pétur á Egilsstöðum. Ég sáði morgunfrúarfræi, blómkálsfræi og blönduðu blómafræi efst í “Húsinu”, og setti glugga yfir. [Teikning fylgir af skipan beðanna. “Húsið” var lítil, húslaga tótt, sem ég hlóð upp við brekkurætur beint upp af bænum, upp við árgilið, eins konar gróðurhús. Þar var síðan kallað “Húsagarður”. Þar er nú eitt reynitré og nokkrir runnar og garðblóm].

18. apríl, sunnud.: Dálítið frost, annars besta veður. Norðan kaldi, nærri heiðskýrt. Við fórum út í Holt og vorum þar allan daginn, eftir mat. Við komum með 30 gulvíðianga, en hvort þeir komast nokkurntíma í jörð, veit ég ekki. Ég bar áburð á flestar plönturnar í Brekkunni [fyrir ofan túnið og bæinn, sem girt var fyrir skógrækt síðar um sumarið].

19. apríl, mánud.: Suðvestan gola, nærri logn, er leið á daginn. Nokkuð mikið frost um nóttina. Ef til vill hefur það frosið sem ég sáði. Alveg heiðskýrt. Hiti 6°C.

20. apríl, þriðjud.: Afskaplega gott veður, um 7°C. Nærri logn, en gola er á leið daginn. Ég gróf upp karteflurnar mínar, þær eru alveg óskemmdar. Nokkuð farið að bera á flugum.

21. apríl, miðvd.: Sólskin og besta veður. Dró yfir ský seinni hluta dagsins., hiti 9°. Jón á Hafrafelli, og stelpur hans, Sigrún og Gulla, Lilja í Holti, og Guðríður á Ási og hennar börn, Gulla og Bibbi, komu hingað í dag í “seppa” [jeppa, sem Jón var nýbúinn að fá]. Ég setti niður gulvíðiangana frá Holti.

22. apríl, fimmtud., Sumardagurinn fyrsti. Besta veður, þykkt loft, sá ekki til sólar, hiti 8°. Pabbi fór á Búnaðarfélagsfund upp í Valþjófsstað. Við [strákar] spásseruðum upp í Bug. Snjór var þar yfir öllu, alveg niður á Grásteinshlíð. Þórey, Bjarnheiður [á Skeggjast.] og Elísabet komu hingað um kvöldið.

23. apríl, föstud.: Besta veður, austan gola, dálítil rigning fyrri partinn. Hiti 8 °C. Við breiddum ystu sléttuna.

24. apríl, laugard.: Besta veður, sunnan stormu fyrst, en lygndi er leið á daginn. Við breiddum sléttuna hérna fyrir innan og ofan.

25. apríl, sunnud.: Besta veður, sólskin og suðvestan vindur, hiti 8°. Ég stækkaði Húsagarðinn. Hannes [í Hrafnsgerði] er búinn að týna Glóa og Hvít [hundum], og er ógurlega mikið uppistand þess vegna um allan Fellahrepp. Ha, ha!

26. apríl, mánud.: Sólskin og besta veður, suðvestan hvassviðri, lygndi er leið á daginn. Hiti um hádegi 6°C. Ég setti karteflurnar mínar upp til spírunar.

27. apríl, þriðjud.: Sæmilegt veður, frost mestallan daginn, norðaustan kaldi. Ég fór út í Egilsstaði með Dúdda, til að láta læknir skoða mig, áður en ég færi á sundnámskeið út í Eiða.

28. apríl, miðvikud.: Norðan kaldi, frostlaust um daginn og úrkomulaust, nema um kvöldið, þá snjóaði dálítið. Við möluðum [sauðatað í skítamyllu] á Stekkhústúnið.

29. apríl, fimmtud.: Frostlaust, NA-kaldi, hiti 2° á hádegi. Snjókoma öðru hvoru, en ekki meira en svo að það bráðnar jafnóðum.

30. apríl, föstud.: Norðaustan kaldi, allhvass, hiti um frostmark. Snjókoma öðru hvoru, þykkt loft.

1. maí, laugard.: Norðaustan kaldi, þykkt loft, dálítil snjókoma. Nærri logn fyrri part dagsins.

2. maí, sunnud.: Gola, suðvestan, hiti 4° um hádegi. Ég fór út í Eiða á sundnámskeiðið, með Dúdda, og með mér voru Sveinn í Brekkugerði, Sigga á Melum, Þórhallur á Eyrarlandi, Jón á Bessastöðum og Anna Þórunn sama stað. Eftir þetta fellur dagbókin niður í hálfan mánuð.

15. maí, laugard.: Austan gola, rigning um morguninn, en birti er leið á daginn. Ég kom heim frá Eiðum. Páll á Skeggjastöðum kom með 300 birkiplöntur frá Hallormsstað.

16. maí, sunnud., hvítasunnudagur. Sunnan hvass, mikil hláka. Við settum niður 170 plöntur, allar í Brekkuna [fyrir ofan túnið].

17. maí, mánud.: Allhvass suðvestan, mjög mikil hláka. Áin óx í fyrsta sinn að ráði. Við settum niður plönturnar sem eftir voru, 62 út í garði og 67 fram og niður í karteflugarði. [Hér er átt við lítinn trjágarð út og upp af bænum, við skógargirðingu Hannesar, stutt frá ánni, er stundum var nefndur “Blautigarður”, og kartöflugarð inn og neðan við bæinn, ofan vegar. Síðar voru þessar plöntur fluttar þaðan og dreifsettar í skógargirðingunni.]

18. maí, þriðjud. Sunnan, hiti um 20 stig, nærri logn, en hvessti er leið á daginn, þiðnaði mjög mikið. Í fyrsta sinn farið að sjást á auða bletti í Sandfellinu. Við sáðum matjurtum í garð upp í Neðra-Botni. (Teikning fylgir af reitum hans). [Hér mun vera átt við smábotn við Bæjarlækinn, innan við Brekkuna og neðan við Djúpabotn, þar sem síðar var kartöflugarður, þá skrúðgarður (1985) og nú aftur berjarunnagarður (2013)).

19. maí, miðvikud.: Sunnan allhvass, hiti um 18°C. Nærri heiðskýrt. Áin jafn mikil. Við byrjuðum að taka út taðið úr Stekkhúsinu.

20. maí, fimmtud.: Suðvestan gola, hvass er leið á daginn. Hiti um 18°. Mikil hláka.

21. maí, föstud. Norðvestan, hvass, hiti 4°. Við kláruðum að taka út taðið á Stekkhúsunum.

22. maí, laugard.: Norðaustan stinningskaldi, hiti 3°. Byrjað að hreinsa ytri sléttuna.

23. maí, sunnud.: Norðaustan kaldi, hiti 3°, þykkt loft, en úrkomulaust að mestu.

24. maí, mánud.: Norðaustan gola, hiti 3°. Smalað til þess að setja í girðingu. Við smöluðum ekki. Alla þessa þrjá daga hefur verið næturfrost, ekki samt svo mikið, að það sem ég sáði upp í húsi hafi nokkuð skemmst.

25. maí, þriðjud.: Austan gola eða kaldi, hiti um 4°. Pabbi plægði kartöflugarðinn. [Líklega með einum hesti, og plóg sem hann fékk lánaðan í Hrafnsgerði] Ég stakk upp minn garð. Þegar ég skrifa þetta skín sólin inn í Norðurherbergið, grænt túnið blasir við, fáeinar hrúgur af afraki liggja út á sléttunni. Í glugganum er krukka með rannfángi, flagsóley [?] og fíflum, hálfdautt rabarabarablað liggur í glugganum, og hálfdauður fífill á borðinu.

26. maí, miðvikud.: Austnorðaustan kaldi, hiti um 4°, dálítil él, sérstaklega seinni partinn.

27. maí, fmmtud.: Austan eða norðaustan kaldi, hiti um 6°, él. Við reistum taðið á Stekkhúsum. Um nóttina eignaðist mamma stelpu. Guðfinna ljósa [Hóli, Fljótsdal] kom í gær. Kristín á Arnheiðarstöðum kom í dag.

28. maí, föstud.: Austan gola, sunnan er leið á daginn. Dálítil rigning um kvöldið, annars besta veður. Ég sáði gulrófum í minn garð.

29. maí, laugard.: Austan gola, eða suðaustan. Við byrjuðum að sá rófunum fram og niður í garði.

30. maí, sunnud. Suðaustan gola, besta veður, þykkt loft. Unnur á Arnheiðarstöðum kom í staðinn fyrir Kiddu. Guðríður, Tobba á Ási og Elísabet í Holti komu um kaffileytið. Síðan fóru þær út í Hrafnsgerði. Byrjað að koma upp í garðinum upp í Botni.

31. maí, mánud.: Suðaustan gola, besta veður, sólskin mestallan daginn. Við kláruðum að sá rófunum. Byrjað að sá karteflunum fram í garði.

1. júní, þriðjud.: Suðaustan kaldi, sólskinslaust, útlit fyrir rigningu, en hún varð engin. Haldið áfram að sá karteflunum.

2. júní, miðvikud.: Suðaustan gola eða kaldi, hiti 9° um hádegi. Fyrsta áætlunarbílferð hingað uppeftir. Tómas keyrði bílinn. Klárað að sá karteflunum hér heima.

3. júní, fimmtud.: Austan kaldi, þykkt loft, sólskinslaust. Snjóél.

4. júní, föstud.: Norðaustan kaldi, þykkt loft, sólskinslaust. Hiti um 4°.

5. júní, laugard.: Norðaustan eða austan kaldi, sólskinslaust, úrkomulaust að mestu leyti. Klárað að hreinsa [túnið] hér heima.

6. júní, sunnud.: Austan kaldi, úrkomulaust, þykkt loft, blautt á mestallan daginn. Ég tók 35 gulvíði[anga /græðlinga?] út í garði og setti í miðbrekkuna. Einnig bjó ég til beð í garðinum, yst, og tók svolítið horn af stóra plöntubeðinu, og í því voru 50 plöntur, frá 1 sentimeter upp í 4 eða 5, þeim plantaði ég út í beðið. [Þetta hafa verið birkiplöntur sem ég hafði sáð]. Ég sótti mold í hjólbörunum innogupp í Brekku (Kolásamold), sem ég ætla að hafa ýmsar blómjurtir í, sem lifa í þurrum melum, moldina setti ég í húsið [Húsagarðinn]. Af þeim fjórum valmúum (harðg. teg.) sem ég tók úr flaginu, kemur bara einn upp (sumir voru 2ja ára, en aðrir 1árs). Báðar stjúpmæðurnar sem voru í fyrra, og lifðu þangað til snjó leysti í vor, eru dauðar. Eins er með þær sem voru upp í húsi, þær lifðu þangað til snjórinn fór af þeim, en þá tókuþær að visna, en kannske hefur það verið af óhentugri veðráttu, eins og hefur verið í vor. Aðeins ein er eftir, og er hæpið að hún lifi.

7. júní, mánud.: Austan kaldi, skýjað, slidda. Sáð karteflunum inn á Tánga.

8. júní, þriðjud.: Norðvestan, síðar austan kaldi. Skýjað, úrkomulaust.

9. júní, miðvikud.: Suðaustan gola, nærri heiðskýrt, besta veður. Smalað hér og á Arnheiðarstöðum, til þess að marka.

10. júní, fimmtud.: Sunnan gola, sólskin, logn fyrri part dagsins. Rúnir gemlingar allir sem komu. Byrjaðar að koma upp rófurnar mínar. Ég setti 40 plöntur niður í beðið, það eru alls 90 birkiplöntur, ennfremur 9 reyniplöntur.

11. júní, föstud.: Sunnan gola, besta veður, nærri heiðskýrt. Tekið saman taðið á Stekknum.

12. júní, laugard.: Suð-suðaustan gola, besta veður. Hálfþykkt loft.

13. júní, sunnud.: Austan gola, dálítil rigning., þykkt loft. Fermt á Ási. Fermd voru þessi börn: Bragi Hallgrímsson, Holti, Garðar Pálsson, Skeggjastöðum, Sigrún Jónsdóttir, Hafrafelli, Guðrún Einarsdóttir, Ormarsstöðum. Við fórum úteftir, öll nema mamma og Steini, og auðvitað ekki Milli [Helgi Jakobsson]. Fólkið var á 2. hundrað. Við gátum lítið verið úti, því að rigning var framan af deginum. Þegar búið var að ferma var sest að drykkju, og veittu þeir það Jón og Hallgrímur.

14. júní, mánud.: Austnorðaustan kaldi, skýjað, úrkomulaust. Klárað að hreinsa Parthústúnið. Fljótsdalsdráttarvélin kom um kvöldið. Jón Bjarnason frá Valþjófsstað var á henni. Hann herfaði einu sinni yfir flagið fram og niðri á Tánga.

15. júní, þriðjud.: Austan og norðaustan kaldi, skýjað, úrkomulaust að mestu. Jón herfaði flagið fyrir ofan löngu sléttuna. Á meðan breiddum við áburðinn og sáðum höfrunum fram og niðri; það fóru tveir og hálfur poki af höfrum í flagið, en samt varð svolítið horn eftir, því að við höfðum ekki meira í það sinni.

16. júní, miðvikud.: Norðaustan kaldi, þykkt loft, úrkomulaust. Þuríður í Hrafnsgerði dó í gærkvöld.

17. júni, fimmtud.: Austan gola eða kaldi, úrkomulaust, sólskin. Samkoma í Egilsstaðaskógi.

18. júní, föstud.: Austan gola, úrkomulaust, þykkt loft. Sigurjón Rist kom hingað og mældi vatnið í ánni. Svo fór hann upp í Bessastaði. Byrjað að bera kúaskít í flagið fyrir ofan hús.

19. júní, laugard.: Austnorðaustan gola (kaldi). Sæmilegt veður, úrkomulaust, hálfþykkt loft. Klárað að setja áburð í flagið.

20. júní, sunnud.: Austan gola, sólskin, besta veður. Samkoma að Valþjófsstað. Ég fór þangað, lagði af stað gangandi og gekk inn að Melum, þá náði mér bíll sem tók mig upp í. Til skemtunar var dreingjamótið, söngur og dans. Mestallan daginn var austan gola, og sólskin, en þó kalt. [Líklega fékk ég far heim um nóttina með vörubíl Aðalbjörns á Arnheiðarstöðum. Mig minnir að Gunnar Jónsson frá Hofi hafi spilað á harmoniku fyrir dansi.]

21. júní, mánud.: Sólmánuður byrjar. Lengstur sólargangur. Austnorðaustan kaldi, skýjað, skúrir, einkum seinni hluta dagsins. Sigurjón Rist kom hingað um morguninn, og mældi fallhæðina neðan frá fljóti og upp að rafmagnshyl Hannesar. [Mig minnir að ég fengi að halda á mælistöng fyrir hann, sem hann siktaði á með kíki á láréttu mæliborði, og var hvorttveggja fært í áföngum upp eftir brekkunum]

22. júní, þriðjud.: Austan gola, úrkomulaust, sólskin, besta veður.

23. júní, miðvikud.: Suðaustan gola, síðar austan. Heiðskýrt. Byrjað að girða skógargirðinguna.

24. júní, fimmtud.: Suðaustan, síðar sunnan gola., hitaveður, nærri heiðskýrt. Ungmennafélag Fljótsdals efndi til ferðar norður um land. Það fór í dag.

25. júní, föstud.: Suð-suðvestan gola, þykkt loft, sá aldrei til sólar. Annars besta veður. Byrjað að koma upp í karteflugörðunum. Byrjað að slá sléttuna neðan við húsið [Varpann].

26. júní, laugard.: Sunnan gola, skýjað, úrkomulaust, besta veður. Jarðað í Hrafnsgerði. Um 60 manns voru á jarðarförinni. [Jarðað var í nýjum heimagrafreit innan við bæinn, og mun öll athöfnin hafa farið fram heima. Þetta var jarðarför Þuríðar Hannesdóttur húsfreyju, sem fædd var á Flateyjardalsheiði í S.-Þing.]

27. júní, sunnud.: Austnorðaustan gola, þykkt loft, svolítil rigning seinnipartinn.

28. júní, mánud.: Suðaustan gola, logn um morguninn, heiðskýrt. Mjög gott veður.

29. júní, þriðjud.: Sunnan gola, logn fram að hádegi, heiðskýrt. Mjög heitt. Smalað til rúninga inn að Brekku. (Milli ánna var smalað daginn eftir).

 30. júní, miðvikud.: Suðaustan gola, logn fram að hádeg, rigning seinni part dagsins, þoka um kvöldið. Áætlunarbíllinn kom með grasfræ. Við sáðum því daginn eftir í flagið fyrir ofan löngu sléttu. Klárað að rýja (það sem kom)

1. júlí, fimmtud.: Suðaustan gola, síðar sunnan, skýjað, svolítil rigning.

2. júli, föstud.: Sunnan gola, heiðskýrt, hiti 13°.

3. júlí, laugard.: Suðaustan gola, skýjað, úrkomulaust að mestu. Við fórum með tvo rekstra, annan út í Holt, hinn inn í Arnheiðarstaði. Um nóttina gerði ofsaveður, norðaustan, með miklli úrkomu, en á sunnudagsmorgun var komið besta veður.

4. júlí, sunnud.: Norðan eða norðvestan gola, allhvass á milli. Annars besta veður, hitinn mun hafa verið um 10°. Samkoma í Hallormsstaðaskógi (Atlavík). Hannes byrjar að slá.

5. júlí, mánud.: Austan gola, logn fyrripartinn, sólskin , áleiðingar [skúraleiðingar] á milli, einkum seinni partinn. Hirt heyið af sléttunni fyrir neðan, þar var hálfilla þurrt.

6. júlí, þriðjud.: Austan og suðaustan gola, skýjað en úrkomulaust að mestu., hiti 8,5°.

7. júlí, miðvikud.: Norðan rok, sólskin með köflum, þoka og mikil rigning um nóttna. Pabbi fór út í Ás um morguninn, að sækja staura, sem Guðríður lét hann hafa, kom svo með áætlunarbílnum aftur með staurana. Guðlaug [amma] fór inn í Geitagerði.

8. júlí, fimmtud.: Suðaustan, síðar sunnan gola, skýjað, úrkomulaust. Besta veður. Klárað að girða skógargirðinguna. Jón Bjarnason kom með Fljótsdalsdráttarvélina utan frá Ormarsstöðum og skildi hana hér eftir. Ullin viðruð eftir mat. [Skógargirðingin var í því fólgin að hólfa Brekkuna af frá túninu, með girðingu utan frá skógar/túngirðingu Hannesar við ána, inn fyrir ofan túnið, og inn og upp á brúnina, fyrir utan og neðan Djúpabotn, þar sem hún tengdist túngirðingunni. Þetta svæði er nú alvaxið blönduðum skógi).

9. júlí, föstud.: Sunnan og suðaustan gola, logn um morguninn. Mjög heitt veður. Við slógum löngu sléttuna.

10. júlí, laugard.: Aust-suðaustan gola, rigning meiri hluta dagsins.

11. júlí, sunnud.: Norðaustan stormur, skýjað, úrkomulaust. Pabbi tók dráttarvélina og valtaði með henni flagið. Þegar ég skrifa þetta blæs norðanstormurinn úti, stormhljóðið blandast saman við óminn af messu í útvarpinu í næsta herbergi. Sléttan liggur slegin fyrir ofan gluggann. Flagið liggur valtað fyrir ofan sléttuna. Hannes er upp í garði, að vinda sér yfir grjótgarðinn á milli garðanna, með reku í hendinni, hann er í hvítri lopapeysu og gráum buxum. Brekkurnar ofan við ána eru orðnar grænar, í kartöflugarðinum ofan við ána er að byrja að koma upp. Sveinn í Brekkugerði og Pétur á Húsum komu hingað um kl. 5.

12. júlí, mánud.: Austan eða norðaustan gola, þykkt loft. Úrkomulaust. Pabbi fór á Reyðarfjörð um kvöldið, með ullina.

13. júlí, þriðjud: Norðaustan kaldi, heiðskýrt, þykknaði um kvöldið, besta veður, dálítill þurrkur.

14. júlí, miðvikud.: Aust-norðaustan gola eða kaldi, nærri heiðskýrt. Þurrkað heyið á löngu sléttunni, við settum það innsta í sátu,og fönguðum sumt af hinu. Pabbi kom um kvöldið, um kl. 12. Með honum fékk ég pennann sem þetta er skrifað með. [Þ.e. penna í pennastöng]

15. júlí, fimmtud.: Austan gola, þykkt loft. Þoka mestallan daginn, suddi, að öðru leyti úrkomulaust.

16. júlí, föstud.: Austan gola, skýjað, úrkomulaust. Slegin ytri sléttan og ysta sléttan.

17. júlí, laugard.: Hægviðri, skýjað, austan gola seinnipartinn, úrkomulaust að mestu.

18. júlí, sunnud.: Suðaustan og síðar sunnan gola, nærri logn fram að mat, sólskin með köflum. Við fórum upp í Háls [Fjórðungsháls] í grasaferð. Hirt heyið af neðri sléttunni (garðinum). Fundur í Almannagjá kl. 11 ½. [Hér er átt við klauf í Kiðuklettum, þar sem við bræður lékum fundi, og héldum smáræður úr skarði í klaufinni, yfir áheyrendum fyrir neðan]

19. júli, mánud.: Norðaustan eða austan kaldi. Sudda-áleiðingar fyrri part dagsins, annars lítil úrkoma. Við snerum við föngunum á löngu sléttunni og hirtum þau svo fyrir mat. Alls kom þá af löngu sléttunni og garðinum 18 hestar, en alls hafði þá verið hirtur 21 hestur. [Með “garðinum” er átt við litla sléttu framan við bæinn, þar sem fyrst var kartöflugarður.]

20. júlí, þriðjud.: Norðaustan stormur og rigning um nóttina, en lygndi er leið á daginn, og minnkaði úrkoma. Byrjað að slá Hrafnsgerðistúnið sem við höfum. [Það var innsti og neðsti partur gamla túnsins, innan og neðan bæjar, að hluta slétt en að meiri hluta þýft, og varð að slá með orfi og ljá. Hannes var lítill sláttumaður og þótti gott að leigja okkur þetta tún, sem var gamalt og vel ræktað og óx vel.]

21. júlí, miðvikud.: Norðan eða norðaustan stormur, lítil úrkoma, þykkt loft, hiti um 7°. Gránaði í fjöll um miðjan daginn. Sigríður Skaftadóttir og sænsk stúlka komu hingað um kvöldið, eftir kl.5. [Sigríður var frænka mömmu, barnakennari á Akureyri]. Þegar ég skrifa þetta er komið kvöld (búið að borða), hurðin stendur í hálfa gátt, bjart er í herberginu (norðurherberginu), utan á glugga er móða og regndropar, svo að lítið sést út, nema hvað maður heyrir hvininn af norðaustan storminum. Fjögur blóm eru í glugganum, eða blómbærar jurtir, réttara sagt, einn spegill og ein bók, Gimsteinar Ópalborgar. Allt er fremur kuldalegt og myrkt.

22. júlí, fimmtud.: Norðvestan eða norðan hvassviðri, lygndi um kvöldið.

23. júlí, föstud.: Suðaustan og síðar austan gola. Hiti um 14°. Sólskin allan seinni hluta dagsins, nokkur þurrkur. Rakað í flekki á Hrafnsgerðistúni.

24. júlí, laugard.: Suðaustan gola, allhvass seinnipartinn, heiðskýrt um morguninn, en dró á er leið fram yfir hádegi.. Mikill þurrkur. Hirt heyið á ytri sléttunni og ystu sléttunni. Það var 10 hestar.
[Hé koma 7 bls. í dagbókinni, með teikningum af görðum mínum í Brekkunni og skýringum við þær. Teiknað 17. júní.]

25. júlí, sunnud.: Suðaustan gola, þokuloft, rigning. Í gær kom 5-manna bifreið í Hrafsgerði. Með henni voru Jón Sigurðsson [bróðir Hannesar og Beggu, þá líklega búsettur á Seyðisfirði] og kona hans, og einhverjir fleiri. Eiríkur Kjerúlf [á Húsum] og krakkar hans komu hingað um kl. 5. Einnig kom Steinþór búvélasmiður hingað á “drossíu”.

26. júlí, mánud.: Suðaustan eða sunnan kaldi, frekar þykkt loft, samt dálítill þurrkur. Fángað heyið á Hrafnsgerðistúninu.

27. júlí, þriðjud.: Sunnan gola, besta veður. Hirt sumt af heyinu á Hrafnsgerðistúninu. Slegin sléttan fyrir neðan húsið í annað sinn.

28. júlí, miðvikud.: Suðaustan eða austan gola, úrkomulaust, sæmilegt veður en lítill þurrkur.

29. júlí, fimmtud.: Sunnan og suðaustan gola, nokkur þurrkur. Slegið upp í gili utan við á. Hirt það sem eftir var af Hrafnsgerðistúninu, af því komu alls 15 hestar.

30. júlí, föstud.: Sunnan og síðar austan gola, nærri heiðskýrt, besta veður.

31. júlí, laugard.: Sunnan og síðar austan gola, nærri heiðskýrt, mjög heitt. Hirt af sléttunni fyrir neðan húsið, 4 hestar. Alls er þá búið að hirða 50 hesta af töðu, allt í skálann [heima], en 56 með heyi sem var hirt í garðinum fyrir utan ána. [Það var gamall, uppgróinn kartöflugarður, í gilinu beint út af bænum]

1. ágúst, sunnud.: Austnorðaustan eða norðaustan gola, rigning um morguninn, en birti til er leið á daginn. Vigfús í Geitagerði kom hingað kl.3 eða 4.
2. ágúst, mánud.: Hægviðri um morguninn, en sunnan gola síðari part dagsins. Hirtir 3 hestar í gilinu. Byrjað að slá Stekkhústúnið á laugardag.
3. ágúst, þriðjud.: Sunnan eða suðaustan gola, besta veður, nærri heiðskýrt. Klárað að slá Stekkhústúnið.
4. ágúst, miðvikud.: Suðaustan gola, nærri logn um morguninn. Áætlunarbíllinn kom með nýjan fisk (og kjöt og slátur frá Ási). Mikill þurrkur.
5. ágúst, fimmtud.: Austan eða suðaustan, hægviðri, léttskýjað. Nokkur þurrkur. Hirtir 6 hestar af Stekkhústúninu. Byrjað að slá út á Hrafnsgerðismýrum, utan við Fitalæk.
6. ágúst, föstud.: Suðaustan gola eða kaldi, lítill þurrkur, þykkt loft fyrri hluta dagsins. Hirt það sem eftir var af heyinu á Stekkhúsunum, 3 hestar. Þá hafa komið 9 hestar af því, en þó var skilið eftir nokkuð sem óslægt þótti (svo snemma sumars?)
7. ágúst, laugard.: Austan eða suðaustan gola. Settum 6 hesta í sátu út á Mýrum.
8. ágúst, sunnud.: Suðaustan hægviðri, skýjað en úrkomulaust að mestu. Besta veður. Bragi í Holti kom hér eftir matinn, svo fórum við í berjamó, en fundum mjög lítið af berjum, og flest óþroskð. [Líklega höfum við farið upp í Hlíðar, þar sem bláber og krækiber vaxa]. Brekkugerðisstrákar og Pétur á Húsum komu hingað um kvöldið, þeir voru að sækja hesta.
9. ágúst, mánud.: Austan eða suðaustan gola, þykkt loft, dálítil rigning seinnipartinn. Haldið áfram að slá út á Mýrum.
10. ágúst, þriðjud.: Sunnan stormur, skýjað en úrkomulaust að mestu.
11. ágúst, miðvikud.: Suðvestan gola, besta veður, sólskin. Pabbi fór út í Hrafnsgerði og hjálpaði Hannesi við að lóga kvígu, sem hann sendi með áætlunarbílnum.
12. ágúst, fimmtud.: Sunnan eða austan gola, logn um morguninn. Alheiðskýrt og sást ekki ský um morguninn, en um miðdag komu fáeinir skýjahnoðrar upp á loftið, sem sífellt breyttu um myndir.
13. ágúst, föstud.: Sunnan gola, nærri alheiðskírt. Mjög heitt. Helgi Gíslason [Helgafelli] kom hingað eftir kaffið á bíl sínum, og flutti heyið sem slegið hafði verið út á Mýrum inn á Parthús. Það var 26 hestar.
14. ágúst, laugard.: Sunnan eða suðaustan gola, logn um morguninn, nærri heiðskýrt. Mjög heitt.
15. ágúst, sunnud.: Austan eða suðaustan gola, þykkt loft, rigning eða súld.
16. ágúst, mánud.: Sunnan eða suðaustan gola, frekar þykkt loft, en létt til er leið á daginn.
17. ágúst, þriðjud.: Hægviðri, sást rkki ský.
18. ágúst, miðvikud. Sunnan gola, nærri heiðskýrt. Mjög gott veður.
19. ágúst, fimmtud.: Austan kaldi, fremur kalt. Nærri heiðskýrt, ef til vill frost um nóttina. Guðlaug amma kom hingað eftir matinn.
20. ágúst, föstud.: Austan eða suðaustan kaldi, sólskin. Helgi Gíslason kom hingað um kvöldið og flutti 20 hesta af heyi inn á Parthús í tveimur ferðum. Þá eru komnir í Parthúshlöðuna 46 hestar, auk gamals stabba, sem mun vera um 15-20 hestar.
21. ágúst, laugard.: Austan eða norðaustan kaldi, frekar þykkt loft, suddi.
22. ágúst, sunnud.: Austnorðaustan gola, úrkomulaust að mestu, þykkt loft, sérstaklega seinni hluta dagsins.
23. ágúst, mánud.: Norðaustan kaldi, áleiðingar en samt lítil úrkoma. Hannes í Hrafnsgerði hafði lánað Guðmundi í Refsmýri nokkuð tún neðan í Hólnum, en er tími þótti til að slá það hætti hann við allt saman. Þetta tún fékk svo pabbi, og byrjuðum við að slá það í morgun.
24. ágúst, þriðjud.: Austan kaldi, sólskin með köflum, dálítill þurrkur. Úrkomulaust. Alla þessa daga, frá 5. til 23. ágúst, hefur verið heyjað út á Mýrum, einnig eftir mat í dag. Er ég skrifa þessar línur er orðið nokkuð framorðið dags, búið að borða, hálfrökkvað í herberginu (en ég sé þó vel til að skrifa). Í glugganum er “fallbyssan” mín, tilbúin að skjóta mig ef mér verður orðfall. Innan úr herberginu heyrist “bib-bib-bib”, það er víst Steini sem er að flauta þetta, á hvað veit ég ekki. Innan úr hinu herberginu heyrist talið í ömmunum, ekki er það nú víst merkilegt samræðuefni sem þær hafa. Það sem sést af himninum er alheiðskýrt, og bjarmi yfir það.
Ég leyfi mér að bæta hér inn í, þó það sé nokkru seinna, eða 1. sept., að þegar ég var búinn að skrifa þetta fór ég inn í annað herbergi. Þá fóru hundarnir að gelta. Ég lít út um gluggann, og sé, þótt nokkuð dimmt væri, að maður kemur ríðandi út hjá Hrafnsgerðissteini. Skömmu seinna er barið. Þar er þá kominn Helgi Gíslason frá [Hrappsstöðum] Vopnafirði, mælingamaður. Þegar hann var kominn inn fór ég með hestana upp í girðingu. Þá var orðið nokkuð dimmt. Síðan sofnaði ég og svaf vært þangað til mamma vakti mig, daginn eftir, til að mjólka Bekku.
25. ágúst, miðvikud.: Hægviðri fyrri part dagsins, en suðaustan gola seinni partinn., úrkomulaust og besta veður.
26. ágúst, fimmtud.: Austan gola, þykkt loft, dálítil rigning. Helgi [á Helgafelli] flutti 12 hesta af heyi inn á Stekkhús, utan frá Mýrum.
27. ágúst, föstud.: Sunnan gol, mikill þurrkur, besta veður. Hirtir 6 hestar út á Mýrum, og þarmeð hætt þar. Ennfremur 6 hestar á Hrafnsgerðistúni í sátu.
28. ágúst, laugard.: Sunnan eða suðaustan gola, nokkur þurrkur, sólskin. Hirtir 9 hestar á Hrafnsgerðistúninu.
29. ágúst, sunnud.: Suðvestan eða sunnan gola, sólskin með köflum, besta veður. Við fórum í berjamó upp á Hlíðar, en fundum frekar lítil ber, allt krækiber, en bláber öll óþroskuð, nema niðri í byggð.
30. ágúst, mánud.: Suðaustan gola, sæmilegt veður, frekar lítill þurrkur.
31. ágúst, þriðjud.: Austan kaldi, dálítil rigning. Vegagerðarmenn komu hingað (Þórarinn á Strönd, Björn á Ekkjufelli og Siggi Þorsteinsson) um kl. 4, og óku 12 hlössum af möl í rafmagnsstífluna og –húsið.

1. sept., miðvikud.: Sunnan eða suðaustan gola, úrkomulaust, en lítill þurrkur. Guðríður á Ási kom með áætlunarbílnum.
2. sept. , fimmtud.: Norðan eða norðaustan, allhvass. Þykkt loft, en úrkomulaust. Byrjað að slá fram á Sauðabotnshalli.
3. sept., föstud.: Norðaustan allhvass, og þykkt loft, en úrkomulaust. Slegið utan á hallinu.
4. sept., laugard.: Austnorðaustan kaldi, dálítil rigning. Byrjað að slá á Parthúsunum, og klárað það sem eftir var af Stekkhústúninu.
5. sept., sunnud.: Norðaustan kaldi, rigning með köflum. Við [strákarnir] smíðuðum hjólhest, en hann er víst ekki nothæfur nema til þess að keyra honum.
6. sept., mánud.: Austnorðaustan kaldi, dálítil rigning, einkum seinni partinn.
7. sept., þriðjud.: Austnorðaustan kaldi. Hallgrímur í Holti og Bergsteinn á Ási komu hingað til þess að slá upp fyrir rafmagnsstíflunni.
8. sept., miðvikud.: Austan gola, sólskin með köflum, úrkomulaust. Örn á Melum og Marteinn á Skriðu komu til viðbótar þeim sem fyrir voru, til þess að steypa stífluna. Þeir steyptu hana mestalla.
9. sept., fimmtud.: Suðaustan gola, skúrir seinni partinn, besta veður. (Rafmagnsvinna).
10. sept., föstud.: Norðaustan kaldi, stormur seinni partinn, ásamt miklu vatnsveðri. Þorbjörn og Brynjólfur Bergsteinssyni á Ási komu hingað til þess að steypa stífluna. Þeir kláruðu hana, en um nóttina óx áin svo mikið að hún flæddi yfir hana.
11. sept., laugard.: Austnorðaustan kaldi, dálítil úrkoma.
12. sept., sunnud.: Norðaustan kaldi, norðanstormur fyrri partinn. Allflestir hér á heimilinu lágu í einhverri faraldspest.
13. sept., mánud.: Austnorðaustan kaldi.
14. sept., þriðjud.: Norðaustan kaldi, sæmilegur þurrkur. Hirtir 8 hestar af útheyi á Sauðabotnshalli.
15. sept., miðvikud.: Sunnan eða suðaustan rok fyrst, en gola síðar. Uppboð var haldið á Skriðu í Fljótsdal. Það var Gunnar Gunnarsson sem seldi alla búslóð og suma gripi. Og flutti síðan alfarinn þaðan seinna um haustið, en áður hafði hann ánafnað ríkinu jörðina. Seinasta áætlunarferð!
16. sept., fimmtud.: Suðaustan gola, rigning allan seinni part dagsins.
17. sept., föstud.: Norðaustan stormur, þykkt loft. Mikil úrkoma fyrri part dagsins. Byrjað að slá hafragrasið.
18. sept., laugard.: Norðaustan eða norðan gola, úrkomulaust, sólskin með köflum.
19. sept., sunnud.: Norð-norðaustan allhvass, þykkt loft. Mestan daginn var vitlaust veður með snjókrapahríð, svo varla var “hundi út sigandi.” Pabbi fór inn í Hól um kvöldið, til þess að fara í göngu “undir Fell”.
20. sept., mánud.: Norðvestan gola, sólskin, frost um nóttina. Byrjað að taka upp úr garðinum hérna heima, það er ágætlega vaxið.
21. sept., þriðjud.: Suðvestan gola, nærri heiðskýrt. Besta veður.
22. sept., miðvikud.: Vestan eða norðan gola, nærri heiðskýrt, besta veður. Klárað að taka upp úr garðinum heima.
23. sept., fimmtud.: Suðvestan gola, dálítið skýjað, besta veður. Tekið upp úr garðinum framogniður á Tánga.
24. sept., föstud.: Réttardagur. Suðvestan gola, heiðskýrt, mjög gott veður. Við fórum allir á réttina.
25. sept., laugard.: Suðaustan gola, þykkt loft, en úrkomulaust. Besta veður.
26. sept., sunnud.: Norðaustan stormur, þykkt loft, áleiðingar.
27. sept., mánud.: Norðaustan stormur og snjókrap. Klárað að taka upp úr kartöflugörðunum.
28. sept., þriðjud.: Norðaustan stormur, mikil úrkoma. Slegin sléttan neðan við húsið í þriðja sinn.
29. sept., miðvikud.: Suðaustan gola, léttskýjað og úrkomulaust. Teknar upp gulrófurnar.
Frá 24. júní til gangna var slegið í 38 daga, en hirt á 20 dögum, en auðvitað var oftast bæði slegið og hirt þessa daga.
30. sept., fimmtud.: Suðaustan gola, besta veður. Klárað að taka upp gulrófurnar. Um kl. 5 kom skúr.

1. okt., föstud.: Suðaustan og síðar austan gola, logn fyrri partinn, þoka niður í miðjar hlíðar fram til kl. 4. Smalað til slátrunar.
2. okt., laugard.: Austan gola, besta veður.
3. okt., sunnud.: Norðaustan gola, nærri heiðskýrt, fremur kalt. Hingað komu 9 gestir í dag. (Teikning fylgir af hástökki, með textanum: “Ég set met í dag.”). 4. okt., mánud. Ekki neitt.
Hér endar dagbókin, sem er rituð í brúna stílabók (enska) með penna og pennastöng, mest með bláu og fjólubláu bleki, líka með grænu og svörtu. Röð veðurorða er stundum breytt, svo og greinarmerkjum og réttritun. (Nokkrar síður voru eftir af bókinni, svo þessvegna hefði mátt halda lengur áfram, óljóst hvers vegna því var hætt).

Sumarið 1948 ritaði ég einnig ýmsan fróðleik í litla, rauða vasabók, sem Guttormur kennari gaf mér, þar á meðal “Veðurdagbók”, sem byrjuð var 22. apríl og enduð 3. okt. Þar var skráð vindátt að morgni og kvöldi, hitastig á hádegi, skýjahula og úrkoma. Einnig er þar skráð “Jurtadagbók”, með blómgunartíma o.fl., “Plöntudagbók” með nöfnum um 50 birkiplantna, og Fugladagbók, ennfremur heyskapur, 1943-48 og fleira.
Þetta haust fór ég í Eiðaskóla, sem var settur 20. okt., en ég kom viku seinna, man ekki af hvaða ástæðu (Nánar í Endurminningum). Vorið 1949, 27. maí, byrjaði ég aftur að rita dagbók, og hætti því 25. sept. Síðan ritaði ég ekki reglulega dagbækur fyrr en um og eftir 1970.

 

 

Dagbók sumarið 1949
Ég var í Eiðaskóla veturinn 1948-49, 13 ára gamall, og mun hafa komið heim þaðan um mánaðamótin apríl-maí. Þá var búin að vera kuldatíð allan aprílmánuð, en veturinn var ekki tiltakanlega harður. Ég hafði ritað dagbók vorið og sumarið 1948 (16. apríl – 3. okt.) og byrjaði nú aftur á því, 27. maí.
Vorið 1949 hefur verið mjög vont (í einu orði sagt). Allt hefur gengið seint, og lítið gróið (skrifað 27. maí). Frost er ekki hálffarið úr jörðu. Sauðburður hefur verið slitróttur, og oftast þurft að gefa inni (a.m.k. fram til þessa). Af því leiðir að flestir eru nú orðnir heylausir, en einstaka bændur sem grónir hafa verið í fyrningum, hafa hjálpað. Það er þó bót í máli að veturinn hefur verið sæmilegur og lítil fannlög, þó hefur hann reynst mörgum nokkuð þungur í skauti. Aðaláttin í vor hefur verið norðaustan, og var sú átt ríkjandi langt fram yfir sumarmál, og fram til um 10. maí, þá kom sunnan átt í eina 6-7 daga, og þá greri dálítið. Síðan hefur verið norðaustanátt.

Og nú, 27. maí, föstudag, er norðaustan rok, með éljum; í morgun var krapahríð og mjög mikil úrkoma. Margar kindur eru bornar. Aðeins er hægt að sjá grænku í brautarköntum og nýjum túnsléttum. Við erum búnir að breiða mestallt túnið hérna heima (það sem verður breitt með skít). Útlendur áburður er ekki enn kominn. Einnig er búið að breiða Húsatúnin. Lummulykt leggur að vitum mínum. Það er afmæli Lillu [Guðrúnar Margrétar, 1 árs] Úti er hvítt niður í 100 m hæð yfir sjávarmál.
28. maí, laugardag: Norðaustan stormur, rok um kvöldið og dálítil úrkoma. Snjóaði mikið um nóttina. Krapasnjór yfir allt.
29. maí, sunnudag: Norðaustan eða austan gola. Mikil snjóbleytuúrkoma mestallan daginn.
30. maí, mánudag: Suðaustan og síðar norðaustan gola, hægviðri, hiti um 4°. Úrkoma seinnipartinn.
31. maí, þriðjudag: Norðaustan kaldi, hiti um 2°. Dálítill rigningarsuddi, þoka seinnipartinn.

1. júní, miðvikudag: Hægvirðri allan daginn, og þoka niður í byggð. Úrkomulaust. Hiti um 4°. Ég fór í seinasta sinn til spurninga. Vegurinn er allsæmilegur. Enn eru ekki nema 6-7 þuml. þíðir (þ.e. rekustunga) móti sól. Alla þessa daga höfum við hýst og gefið, og suma [voru] innistöður. Vegarkantarnir eru orðnir grænir og tún dálítið farin að grænka. Snjór er í flestum lautum, bæði nýr og gamall.
Þegar ég skrifa þetta sit ég í Norðurherberginu. Það er skuggsýnt þó 1. júní sé. Úti veltist grámygluleg þoka. Annars er gott veður. Við erum nýkomnir innan frá Húsum (kl. er um 10). Þeir á Arnheiðarstöðum hafa stundum verið til kl. 3 og 4 [á nóttunni í fjárhúsum].
2. júní, fimmtudag: Norðaustan gola, hægviðri, þoka niður í byggð, hiti um 4°, dálítil rigning. Ég fékk fötin [til fermingar]. Lambánum (flestum) sleppt.
3. júní, föstudag: Aust-norðaustan gola, þoka, nærri úrkomulaust.
4. júní, laugardag: Hægviðri, nærri logn, brúnaþoka niður í fljót allan daginn. (Þessa 3 daga hefur verið eins).
5. júní, sunnudag, hvítasunnudag: Aust-norðaustan kaldi, sólskin fyrri partinn, úrkomulaust allan daginn. Messað á Valþjófsstað (fermt). Ég játaðist til hlýðni við kristna trú. Allt heimilisfólkið fór uppeftir, nema Guðlaug og Helgi. Páll [Jónsson á Skeggjastöðum] fór með okkur. [Hann átti þá jeppa]
6. júní, mánudag, 2. hvítasunnudag: Norðaustan kaldi, hiti um 3°, úrkomulaust. Ofurlítið sólskin.
7. júní, þriðjudag: Austan eða norðaustan gola, úrkomulaust, hiti um 4°.
8. júní, miðvikudag: Austan og norðaustan gola, úrkomulaust, sólskin fyrri partinn. Við sáðum matjurtafræi í garð okkar.
9. júní, fimmtudag (Tíðarfarsgleðidagur): Logn fram að hádegi, þá birti til með sunnan átt. Sólskin mestallan daginn, hiti um 10°. Enn er ekki búið að sleppa öllu fé. Við höfum tvílembdar ær í húsi, og svo nokkrar sem verið er að venja undir. Tún eru víðast hvar að verða græn, en lítill gróður út um hagana.
10. júní, föstudag: Sunnan gola, bjartviðri, hitinn um 12°. Byrjað að grafa fyrir rafmagnshúsinu.
11. júní, laugardag: Sunnan gola, skýjað fyrripartinn, hiti um 12°. Vorperla sprungin út. Tvílembdu ánum sleppt.
12. júní, sunnudag: Austan rigning fram til kl. 3, en þá birti upp með norðan roki, sem stóð fram á nótt. Um kvöldið var aftur dálítil úrkoma, snjóél. Pabbi fór út í Skeggjastaði til þess að ná í kú sem hann keypti.
13. júní, mánudag: Norðan eða norðvestan, allhvass. Nærri heiðskýrt, hiti um 11°. Byrjað að taka út taðið á Stekkhúsunum.
14. júní, þriðjudag: Hringlandi átt, heiðskýrt, hiti um 8°. Jón Bjarnason kom til að fara með Búnaðarfélags-dráttarvélina.
15. júni, miðvikudag: Sunnan gola, nærri heiðskýrt, hiti um 14°. Herfað flagið fram og niðri á Tanga. Hann [Jón] herfaði einnig tað á báðum húsunum. Hann reyndi að plægja á Tanganum, en það tókst ekki sökum bleytu.
16. júní, fimmtudag: Sunnan gola, hiti um 18°. Byrjað að sá karteflunum fram og niðri. Við höfum eintóman skít á þær, sauðatað.
17. júní, föstudag: Sunnan stormur, besta veður. Við sáðum fram að miðdegi. Þegar þetta skrifast er túnið hérna ekki orðið almennilega grænt; alstaðar skín í gráar skellur, enda hafa kindur verið á því í allt vor. Áin er kolmórauð, búin að vera það í fjóra daga. Pabbi er sofandi, mamma og amma eru einhversstaðar, líklega úti í Hrafnsgerði. Hannes er uppi í garði að stækka hann í norður. Hvítur labbar um á bakkanum eins og hann væri sjálfur Harun Alrasjid. Fyrstu plönturnar [birki] eru byrjarðar að springa út.
18. júní, laugardag: Sunnan gola, dálítið skýjað.
19. júní, sunnudag: Sunnan gola, ákaflega gott veður, sólskin allan daginn, hiti um 20°. Fermt á Ási. Pabbi fór úteftir, en hitt fólkið inn í Arnheiðarstaði, allt nema við nafnar [Helgi Jakobsson og ritari].
20. júní, mánudag: Sunnan gola, mjög heitt, um 25°. Við fengum útlendan áburð.
21. júní, þriðjudag, sólastöður: Sunnan, nærri logn framanaf, til kl. 5. Hiti um 24°, sólskin. Klárað að sá karteflunum. Við höfðum bæði útlendan áburð og skít á þær.
22. júní, miðvikudag: Mjög gott veður. Sunnan gola, hægviðri, nærri heiðskírt, hiti um 20°. Ekið skít af Stekknum og út á Tanga [á kerru].
23. júní, fimmtudag: Mjög gott veður. Sunnan, logn mestallan daginn, hiti um 22°, kom svo austan gola eða hafgola um kl. 4. Ekið skít.
24. júní, föstudag: Sunnan gola, sólskin mestallan daginn, hiti um 20°, hafgola síðdegis. Byrjað að aka af Parthúsunum eftir mat.
Úr vasabók: Dagana 20.-24. júní bar mikið á hunangsflugum. Voru þær þá um allt, líka inni í húsum og herbergjum. Líklegt er að þær hafi fyrst farið á kreik um 15. júní. Fiðrildi fóru fyrst að sjást um 20. júní.
25. júní, laugardag: Suðaustan gola, og síðar allhvasst, hafgola seinnipartinn, þoka um nóttina. Ekið skít.
26. júní, sunnudag: Sunnan og síðar suðvestan allhvass. Lítið sólskin, hiti um 15°. Pétur á Húsum kom hingað, og Sveinn í Brekkugerði, um kl. hálf-þrjú. Ég setti 18 birkiplöntur (4-5 þuml. háar) í Brekkuna, úr gamla beðinu, og aðrar 70 í beð í garðinum (áður búinn að taka 30 í beðið). [Hér er átt við garðinn út við ána, sem var kallaður “Blautigarður”]. Sauðburði er nú lokið, og hefur hann gengið sæmilega, nema hvað ótíðin gerði nokkurn grikk, og afleiðingar innistöðunnar eru þær að lömb tóku að drepast úr mílum, um hálfum mánuði eftir burð. Pabbi er nú búinn að sleppa síðustu rollunum. Tún eru að verða loðin; grasið hefur vaxið mjög ört þessa síðustu daga, svo nærri má segja að maður hafi getað séð það vaxa. Birkiplöntur eru nú allar laufgaðar.
27. júní, mánudag: Suðvestan gola, síðar allhvass, sólskin með köflum, hiti um 14°. Ekið skít af Parthúsunum.
28. júní, þriðjudag: Suðvestan, allhvass, skiptist á sólskin og gróðrarskúrir. Klárað að aka í flagið á Tanganum. Í það eru þá komnar um 135 kerrur, í það allt, þar af um 20 kerrur á kartöflurnar. Við erum búnir að aka í 7 ½ dag, um 16 kerrur að meðaltali á dag.
29. júní, miðvikudag: Sunnan og suðaustan, allhvass, lítið sólskin, hvessti um kvöldið og rigndi dálítið. Ekið hrossataði í flagið heima, um 20-30 kerrur.
30. júní, fimmtudag: Suðaustan kaldi, skýjað. Tekið út tað á Parthúsunum. Vatnavextir hafa verið mjög miklir síðan sunnanáttin byrjaði, og fljótið flæddi upp í bakka. (Að sögn aldrei orðið eins mikið, síðan 1925). Árnar voru mjög miklar, og flæddu yfir mikinn hluta nesjanna.                         Úr vasabók: 30. júní voru flestar brekkur orðnar nærri hvítar af holtasóley, og aðrar rauðar af gullmuru og túnfíflum. Jarðarber einnig í fullum blóma.

1. júlí, föstudag: Sunnan gola, nokkuð skýjað. Klárað að púkka í grunninn af rafmagnshúsinu. Aðalbjörn á Arnheiðarstöðum var búinn að lofa að herfa flagið á Tanganum, var beðinn um það á miðvikudag, en þá fór hann á Reyðarfjörð, og kom ekki í gær, og eftir matinn í dag voru strákarnir sendir inneftir, og kom hann þá um kl. 4 ½ og herfaði niður skítinn. Á meðan sáðum grasfræi og gerlamenguðu baunafræi í flagið, og síðan fór hann yfir það. Kl. um hálf-ellefu var hann búinn og kom þá heim að borða. Það fóru 40 kg af grasfræi í flagið, og 8 kg af baunafræi.
2. júlí, laugardag: Sunnan og síðar austan gola, ekkert sólskin. Um kl. 4 byrjaði að rigna og rigndi til kvölds. Sett saman sláttuvélin (ef til vill í síðasta sinn). Karteflurnar eru farnar að koma upp.
3. júlí, sunnudag: Sunnan, allhvass. Sólskin mestallan daginn. Holtskrakkarnir komu hingað; það var ekkert skemmtilegt!
4. júlí, mánudag: Austan gola, mjög skýjað. Pabbi fór á Reyðarfjörð í gær um kl. 7. Við breiddum skítinn í heimaflaginu, sem ekið var á miðvikudaginn. Það passaði líka, því að rétt þegar við vorum að enda við að borða heyrðist í bíl; strákarnir þutu út, sem þeirra var vandi, en gátu engan bíl séð. Þá kom í ljós að drunur þessar voru ekki í “helt almindelig automobil”, heldur í Fljótsdalsdráttarvélinni sem kom innan frá Húsum. Við vorum búnir með mestallan matinn, svo að Jón [Bjarnason] fékk sér kaffi á meðan eldað var á ný. Síðan fór hann að herfa, og létti ekki fyrr en búið var um kl 8 ½ um kvöldi. Hann festist nokkrum sinnum í flaginu, en aldrei lengi. Flagið var merkilega blautt um þennan tíma árs, sumstaðar alger forardíki, enda er sumstaðar frost í jörðu enn.
5. júlí, þriðjudag: Suðaustan gola, sólskin með köflum. Pabbi kom í gærkvöld kl. hálf-tólf, bíllinn sem hann var með strandaði við bilaða rennu út í Hólnum, og varð að taka allt af þar. Jón fór inn á Tanga um morguninn, til að valta grasfræflagið, en á meðan sáðum við höfrunum og útlenda áburðinum í efra heimaflagið (eintómur útl. áb. í því), í það fóru um 60 kg af höfrum og 100 kg af áburði. Þá kom Jón heim og herfaði það, en á meðan sáðum við í neðra flagið; í það fóru um 70 kg af höfrum og 80 kg af áburði (í það var líka settur skítur). Þá fór Jón fram á Tanga og herfaði um eina dagsláttu fremst (úr mó), og í það sáðum við einnig höfrum, með eintómum útlendum áburði (65 kg hafrar og 110 kg áburður). Eru þetta því mestu hafraflög síðan Droplaugarstaðir byggðust, eða tæplega 3 dagsláttur (dagsl. 3190 m2). Einnig herfaði hann og plægði nokkuð stórt stykki. Við vorum búnir kl. 12 að sá fram og niðri, en Jón um kl. 1, og þá fór hann inn í Brekku.
6. júlí, miðvikudag: Austan gola, lítið sólskin, samt heitt. Sláttur byrjar. Slegin langa sléttan, prýðilega vaxin.
7. júlí, fimmtudag: Sunnan andvari, ákaflega heitt, sást ekki ský á lofti. Smalað (til hvers?). Ég tók mál af stráunum á löngu sléttu, og hafa þau vaxið að jafnaði 3 sm frá kl. 5 í gær til kl. 4 í dag (alveg satt!).
Úr vasabók: 5. júlí fann ég fyrsta maríátluhreiðrið; 7. júlí fann ég fyrsta lófuhreiðrið; 12. júlí fyrsta steindepilshreiðrið, 4 egg.
8. júlí, föstudag: Sunnan gola, sólskin með köflum, en um kl. 3 kom skúr, og svo fylgdu honum aðrir smærri, en eftir það gerði rokhvassa suðvestan átt, en síðar lægði dálítið. Haldið áfram að rýja, klárað.
9. júlí, laugardag: Suðaustan eða austan gola, hálfkalt. Slegin sléttan neðan við bæinn og garðurinn.
10. júlí, sunnudag: Sunnan allhvass, dálítið sólskin. Hirt heyið á löngu sléttu, það var 14 hestar. Byrjað að koma upp grasfræið (eftir 9 daga) og hafrarnir sem fyrst var sáð. Margrét Sigfúsdóttir kom hér utan frá Hrafnsgerði. [átti heima á Hrafnkelsst.]
11. júlí, mánudagur: Suðvestan gola, sólskin með köflum. Tekið saman taðið á Parthúsunum.
12. júlí, þriðjudag: Suðaustan gola, logn fyrripartinn.. Tjörguð rörin, sem Jónas Einarsson smíðaði. [Hann mun hafa smíðað þau á verkstæði KHB, Egilsst., þar sem hann var lengi starfsmaður, ættaður frá Víðivöllum. Rörin voru úr timbri, sívafin með vír.]
13. júlí, miðvikudag: Austan gola, sólskin allan daginn. Tjörguð rörin. Slegin ysta sléttan. Byrjað að koma upp í hafraflögnum.
14. júlí, fimmtudag: Austan gola, sólskin með köflum. Klárað að tjarga rörin. Hirt heyið af sléttunni fyrir neðan húsið, það var 5 hestar.
15. júli, föstudag: Suðaustan gola, sólskin mestan daginn. Slegið upp fyrir rafmagnshúsinu [í Efra-Botni].
16. júlí, laugardag: Austan gola, sólskin. Byrjað að steypa rafmagnshúsið.
17. júlí, sunnudag: Sunnan og síðar suðaustan gola, sólskin mestan daginn, logn fram að mat, og mjög heitt. Við fórum upp í “Háls” [Heiði], hina árlegu 18. júlí grasaferð.
Viðbót úr vasabók: Snjór í Selbrekkum [Hrafnsgerði] og í árgilinu út af Hlíðum. Sæmilegt útlit fyrir ber en seinþroska verða þau, ef þau kom. Þegar ég skrifa þetta sit ég á lyngþúfu upp í “Hálsi”. Það er austan gola og ekki mjög heitt, sólskin með köflum. Strákarnir eru farnir á undan mér niður á “Mýri” [Skjöldólfsstaðamýri], þeim liggur svo á heim. Loftið ómar af fuglasöng, og lófan tónar sín venjulegu dægurljóð. Allt í kring er urð, og einu blómin sem sjást eru holtasóley og geldingahnappur; ein og ein fluga þýtur suðandi framhjá mér. – Nú er ég kominn heim, og kl. er um það bil 11. Við komum ekki heim fyrr farið var að mjólka. Ég fann eina [nýja] blómjurt, skriðnablóm, á kletti við ána, þar sem einnig var mjög mikið af burnum. Einnig kom ég með tröllastakk, sem ég fann ekki í fyrra. Við sáum mikið af hreindýraförum niður á Hlíðar; munu þau hafa verið þar um og eftir miðjan maí.
18. júlí, mánudag: Suðaustan gola, mjög heitt, sólskin og heiðríkja. Haldið áfram að steypa húsið. Hirt heyið af ystu sléttunni eftir kaffi, það var 7 hestar.
19. júlí, þriðjudag: Sunnan andvari, mjög heitt og gott veður, nærri heiðríkt. Klárað að steypa húsið.
20. júlí, miðvikudag: Sunnan, logn fyrri partinn. Mjög heitt. Byrjað að slá Stekkhústúnið.
21. júlí, fimmtudag: Sunnan gola, skýjað, en úrkomulaust. Klárað að slá Stekkhústúnið.
22. júlí, föstudag: Suðvestan gola, skýjað, en úrkomulaust. Úr vasabók: Í dag fann ég steindepilshreiður í skógargirðingu Hannesar í Hrafnsgerði, grafið í sinuna. Í því voru 5-6 ungar, líklega nýkomnir úr eggjum. (13. ágúst kom ég að hreiðrinu og voru þá allir ungarnir farnir úr því fyrir fáum dögum).
23. júlí, laugardag: Suðvestan gola fyrst, en norðan eða norðaustan stormur eftir kaffitíma, og þá dálítil úrkoma, en fyrripartinn var sólskin og besta veður. Hirtir 4 hestar af Stekkhústúninu í sátu. Um kl. 5 fór ég út í Eiða á samkomu, með Guttormi í Geitagerði. Ferðin úteftir gekk vel, og komum við í Eiða um kl. 7, og kom ég þá beint í kvöldmat verkamannanna, og buðu þeir mér að borða. Þá fékk ég þær fréttir að skólinn væri lokaður, en ég hafði ekkert tjald. Þá fór ég út í nýju byggingu, og fékk þar herbergi, en varð að liggja á gólfinu, því herbergin eru ókláruð. Fékk ég mér síðan lausan sneril og lokaði með honum, svo að engir gátu komist inn. Ég fór seint að sofa og varð lítið svefnsamt um nóttina.
24. júlí, sunnudag: Austan gola eða kaldi, sólskin fyrst, og besta veður, en kólnaði er leið á daginn, og þoka um nóttina. Þar sem gauragangur var mikill í húsinu um nóttina, fór ég á fætur í bítið, át nesti mitt, og fór síðan niður í skóg, þar sem ég fann mikið af fjalladalafíflum, og tók ég þá með rót, eftir því sem ég frekast gat. Kl. 1 ½ byrjaði íþróttamótið (Íþróttamót Austurlands), en síðan var gengið til fimleikasýningar, sem flokkur af Seyðisfirði, undir forystu Björns Jónssonar, hafði með höndum. Að lokum var dansað til kl. hálf-tvö. Eins og ég gat um áður var mjög kalt um kvöldið. [Við Guttormur fórum heim um nóttina. Hann hefur líklega keppt á mótinu, þó ég geti þess ekki. Það fór fram á íþróttavelli UÍA. Dansað var þar á palli. Sjálfsagt hef ég hitt einhverja félaga úr Eiðaskóla veturinn áður. Þetta sumar var verið að innrétta nýja heimavistarhúsið, er síðar nefndist Útgarður, og þar hafði ég raunar dvalið um tíma veturinn áður]
25. júlí, mánudag: Austan kaldi, skýjað, en úrkomulaust að mestu.
26. júlí, þriðjudag: Austan kaldi, dálítil rigning. Hingað komu Þórarinn Pálsson og Sæbjörn Jónsson á Skeggjastöðum og unnu við að grafa fyrir rörunum.
27. júlí, miðvikudag: Austan og norðaustan kaldi, nokkur rigning. Slegið í botnunum niður með ánni.
28. júlí, fimmtudag: Norðaustan og austan gola, dálítil úrkoma um kvöldið. Slegið neðan við Kiðukletta.
29. júlí, föstudag: Austan gola, úrkomulaust, en lítill þurrkur, sólskinslaust. Fangað á efstu sléttunni. Haldið áfram að slá Sauðabotnshallið.     Úr vasabók: Þennan dag fór að bera mikið á flugum, svo að þær urðu til óþæginda, hefur lítið borið á þeim fyrr í sumar.
30. júlí, laugardag: Sunnan gola, mikill þurrkur. Hirt af Stekknum, það var samtals 12 hestar.
31. júlí, sunnudag: Austan gola, síðar um daginn rigning eða suddi, svo að þorrnaði aldrei á. Samkoma í Egilsstaðaskógi. Pétur á Húsum og Jörgen (Bói) í Brekkugerði komu hingað.

1. ágúst, mánudag: Austan kaldi, rigning með köflum. Byrjað að slá inn í Höllum eftir mat.
2. ágúst, þriðjudag: Norðan eða norðvestan, hvass. Úrkomulaust að mestu. Slegið fyrir utan Sjónarhraun (Botnana).
3. ágúst, miðvikudag: Norðaustan eða austan hvass, skýjað, úrkomulaust. Slegið utan við Sjónarhraun.
4. ágúst, fimmtudag: Austan kaldi, nærri úrkomulaust, skýjað, en sæmilegt veður. Slegið fyrir ofan Stekkhús (brekkuna) og rakað líka.
5. ágúst, föstudag: Austan kaldi, dálítill þurrkur. Rakað og slegið inn í Höllum.
6. ágúst, laugardag: Hefst á því að ég vakna við að bíll rennur í hlaðið. Við höfðum lengi átt von á gestum, og flýttir ég mér því á fætur og niður. Komst ég þá að því að þar voru komnir rafmagnsfræðingar, til að leggja inn í húsið. Strax og þeir komu inn fóru þeir að mæla út og hugsa. Eftir að hafa snætt morgunverð fór ég út. Úti var norðaustan rok og úrkoma með köflum, og hélst það veður allan daginn. Mestan þennan dag var ég að rífa til á “háaloftinu”, fyrir raflagningarrörin. Þeir kláruðu mesta efri hæðina þennan dag
7. ágúst, sunnudag: Þetta er sá óþrifalegasti sunnudagur sem ég hefi lifað. Öll gólf voru þakin í steypumolum, sementi og öðru drasli, og allan daginn þurfti ég að vera að höggva og brauka. Pabbi fór út í Fossvelli á fund. Skömmu fyrir mat komu þeir Sigfús Árnason á bíl sínum, Steinþór Eiríksson og Sæbjörn Jónsson með “túrbínuna”, og steypu hana svo niður. Þeir sóttu möl í steypuna út í Langamel. Allan daginn var fremur kalt, austan gola, en úrkomulaust.
8. ágúst, mánudag: Austan gola, þurrklaust, skýjað. Menn eru nú margir farnir að örvænta vegna þurrkleysis, sérstaklega út á Héraði. Rafmagnsfræðingarnir klára að leggja í húsið. [Mig minnir að Einar Ólason rafvirki frá Þingmúla, hafi annast þetta verk, eða stjórnað því, en hann átti þá heima á Egilsstöðum]
9. ágúst, þriðjudag: Austan eða norðaustan kaldi. Klárað að slá í Höllunum.
10. ágúst, miðvikudag: Logn fram að mat, og lágskýjað, en um kl. 2 rofaði til og varð þurrkur. Austan gola var það sem eftir var dags. Hirt úr botninum og hallinu út af Sjónarhrauninu (4 hestar), og niður með Sumarliðalæknum (3-4 hestar), einnig blettirnir inn á Hallabrúninni (1 hestur), samtals 8 hestar.
11. ágúst, fimmtudag: Sunnan og suðaustan gola, mikill þurrkur. Hirt það sem eftir var í Höllunum (fyrir utan Stekkhúsin), 5 hestar.
12. ágúst, föstudag: Suðaustan gola, úrkomulaust, en enginn þurrkur. Byrjað að slá út á Háubökkum [í landi Hrafnsgerðis]. Kafloðið, við slógum um 8-9 hesta þennan dag.
13. ágúst, laugardag: Aust-norðaustan gola, skýjað, dálítil rigning. Slegið út á Háubökkum (um 7 hestar).                                                                                    Úr vasabók: Líkindi eru til að nú séu ungar flestra fugla að verða fleygir. Samt lúpast lófur ennþá á undan manni.
14. ágúst, sunnudag: Austan gola eða kaldi, hálfkalt, lítill þurrkur, en úrkomulaust. Skömmu eftir mat kom Steinþór, og með honum Jón Sveinsson, Jónssonar á Egilsstöðum, og um leið komu þeir Einar Ólason og Halldór nokkur eftirlitsmaður, að innan, og voru þeir hér til kl. 4. [Þeir hljóta að hafa komið með rafalinn og sett hann niður í rafmagnshúsinu]
15. ágúst, mánudag: Austan kaldi, skýjað en úrkomulaust að mestu. Aðalbjörn á Arnheiðarstöðum kom hér og hjálpaði okkur að stífla ána.
16. ágúst, þriðjudag: Austan kaldi, skýjað en úrkomulaust. Steypt þróin [Þ.e. inntaksþró fyrir rafmagnsrörin].
17. ágúst, miðvikudag: Suðaustan gola, dálítill þurrkur, sólskin með köflum. Steypt þróin. Agnes amma kom með áætlunarbílnum frá Reykjavík. Hirtir 10 hestar út á mýrum [Hrafnsgerði], í sátur.
18. ágúst, fimmtudag: Suðaustan eða sunnan gola, góður þurrkur. Hirtir 6 hestar á mýrunum í sátur. Klárað að steypa þróna.                                      Úr vasabók: Um 18. ágúst byrjuðu jarðarberin [í Hrafnsgerðisárgili] að þroskast.
19. ágúst, föstudag: Austan gola, skýjað, dálítil úrkoma. Slegið út á mýrum.
20. ágúst, laugardag: Austan gola, nokkur úrkoma. Slegið.
21. ágúst, sunnudag: Sunnan andvari fyrri part dagsins, en síðan austan gola, sólskin allan daginn. Besta veður. Jón á Hafrafelli kom, með Ólaf á Urriðavatni, Einar á Hafrafelli, Þorbjörn á Ási og Brynjólf á Ási, að vinna við rörin. Þeir kláruðu að leggja þau, og voru búnir kl. um 11 að kvöldi. Þá var matast við kertaljós, og þótti mörgum leiðinlegt að hafa unnið við rafmagn allan daginn, en hafa svo bara kertaljós. Aðalbjörn flutti 16 hesta af heyi í Parthúshlöðu [utan af Hrafnsgerðismýrum].
22. ágúst, mánudag: Austan kaldi, þurrklaust, en úrkomulaust. Sæmilegt veður. Hirtir 10 hestar út á Háubökkum úr slægju.
23. ágúst, þriðjudag: Austan og suðvestan allhvass, skýjað og dálítil úrkoma. Slegið.
24. ágúst, miðvikudag: Þessi dagur vona ég að verði til þess að breyta búskap og búskaparháttum hér. Allan daginn var suðvestan stormur, mikill þurrkur, léttskýjað. Við fórum út á mýrar að vanda um kl. 10, og fórum að garða og raka en pabbi að slá, og sló hann fram að kaffi (um kl. 5). Við ætluðum heim með áætlunarbílnum, og um kl. 1 kom hann, Þórarinn [Árnason] bílstjóri, og var hann með dráttarvél, sem pabbi hefur í hyggju að kaupa. Hallgrímur í Holti pantaði hana hjá “h.f. Orku”, en hann fékk aðra, svo að hann þurfti hennar ekki með. Með henni var sláttuvél (áföst). Hirtir 3 hestar.
25. ágúst, fimmtudag: Sunnan gola, síðar hvass. Hannes [í Hrafnsgerði] kom inneftir og byrjaði að slá með dráttarvélinni, og gekk það allvel. En eftir að hann var farinn fór að bera á því að hún dræpi á sér, og að síðustu komum við henni ekki í gang. Fengum við þá Hannes aftur, og komumst við þá að því að traktorinn var með bensínstíflu, og við nánari rannsókn kom í ljós að í bensíngeyminum var mikið af vatni og sandi, sem hafði rignt og fokið í hann, því að lokið af honum var týnt. Einnig var geymirinn farinn að ryðga. Meira var ekki átt við hann þennan dag. Eftir matinn fórum við út á mýrar og hirtum það sem eftir var þar, 7 hesta, er þá alls búið að heyja þar 44 hesta af góðu heyi og vel þurru. Hey þetta höfum við slegið á 5 ½ degi, og má það teljast góður heyskapur (um 9 hestar til jafnaðar á dag).
26. ágúst, föstudag: Sunnan allhvass, þurrkur, en skýjað. Við settum vélina í gang og byrjuðum aftur að slá; það gekk sæmilega nema hvað hann drap oft á sér, en um kl. 1 var komin stífla í hann aftur. Þá kom bíll og bílstjóri hans hreinsaði stífluna, og gekk þá allt sæmilega þangað til um kaffi. Þá var hann ennþá stíflaður, þrátt fyrir það að við værum búnir að taka bensínið af honum og setja annað í staðinn, en þegar búið var að hreinsa það komst hann ekki í gang vegna rafmagnsleysis. Sléttuna löngu kláruðum við samt að slá þennan dag.
27. ágúst, laugardag: Suðvestan gola, dálítill þurrkur fyrir mat, en síðar rigning. Hér kom Jón Brynjólfsson á einkabíl, og með honum Guðríður Ólafsdóttir og börn. Slegin sléttan neðan við húsið. [Jón var mágur hennar, búsettur á Seyðisfirði].
28. ágúst, sunnudag: Austan gola, mígandi rigning mestan daginn. Aðalbjörn á Arnheiðarstöðum flutti það sem eftir var af heyinu, 27 hesta. Þá eru komnir 45 hestar í Parthúshlöðuna, 36 hestar í Stekkhúshlöðuna, og 32 hestar í skálann (samtals 113 hestar), en eftir er svo að vita hverju haustið skilar í hlöðurnar. [Skálinn var bretabraggi, sem notaður var sem hlaða fyrir fjós og hesthús heima við bæinn]
29. ágúst, mánudag, höfuðdag: Austan eða norðaustan gola, nokkuð skýjað, en úrkomulaust. Slegið fyrir mat uppi í botni [Djúpabotni], og steyptir milliveggir í þróna það sem eftir var dags. Hallgrímur í Holti kom inneftir og átt við Yngra-Rauð, og komst hann þá í gang. [Aldraður burðarhestur á bænum hét Rauður].
30. ágúst, þriðjudag: Austan og norðaustan, allhvass, nokkur úrkoma seinni partinn. Byrjað að slá Parthústúnið [seinni slátt]. Við fórum inneftir á Yngra-Rauð og vorum 10 mínútur á leiðinni.
31. ágúst, miðvikudag: Norðaustan gola, dálítil úrkoma. Slegið Parthústúnið.

1. sept., fimmtudag: Norðaustan gola, úrkomulaust að mestu. Klárað að slá Parthústúnið, og byrjað að slá upp á Parthúsklöpp.
2. sept., föstudag: Austan gola, úrkomulaust, þoka allan daginn níðrí byggð. Slegið í Parthúshöllum.
3. sept., laugardag: Sunnan en síðar suðaustan gola, þykkt loft, dálítill þurrkur. Rakað í Parhúshöllum.
4. sept., sunnudag: Austan gola, en síðar sunnan andvari. Nokkur þurrkur, fangað heyið á löngu sléttunni; það er orðið mjög skemmt, og einnig er heyið fyrir neðan húsið farið að gulna. Við eigum nú um 40 hesta undir.
5. sept., mánudag: Suðaustan gola, rigning um nóttina og fram á dag. Við unnum við rafmagn fyrir mat, slegið eftir mat.
6. sept., þriðjudag: Austan gola, dálítil rigning. Slegið.
7. sept., miðvikudag: Suðaustan gola, besta veður, dálítill þurrkur. Breitt sumt af föngunum og fangað aftur (á löngu sléttu).
8. sept., fimmtudag: Norðan og norðvestan allhvass með köflum. Mikill þurrkur.
9. sept., föstudag: Sunnan gola, logn fyrripartinn, sást ekki ský. Mikill þurrkur. Við breiddum föngin á sléttunni og hirtum þau inn í skála, 12 hestar. (Fyrst breiddum við föngin heima, um kl. 10 var því lokið, að því búnu var garðað á neðri sléttunni og í botninum, síðan fórum við inn á Parthús og görðuðum þar á túninu, og helmingnum af útheyinu. Þá var kominn matur. Síðan eftir mat var garðað heima, og þá tekið saman á löngu sléttunni, því var lokið um kl. 6. Þá var fangað neðan við húsið og upp i botninum, síðan farið inneftir og fangað helmingurinn af útheyinu. Þar með var dagsverkinu lokið.
10. sept., laugardag: Logn mestan part dagsins, eða sunnan andvari, sást ekki ský. Ágætis þurrkur. Við byrjuðum daginn með að breiða heima og síðan að breiða innfrá [á Parthúsum] og garða öllu þar. Þegar við vorum búnir að því var farið í mat., síðan inneftir aftur að taka saman útheyið, og hirtum við það allt, um 20 hesta, sumt í sátu, annað í bagga. En mamma hirti heima í sátur, 8 hesta.
11. sept., sunnudag: Logn fram að mat, þá sunnan gola. Hirt á Parthústúninu inn í hlöðu, 10 hestar, og settum 5 hesta af útheyi inn í hlöðuna, og er hún þarmeð full, með 70 hestum af heyi, nýju og gömlu. Við drógum einnig inn heyið af neðri sléttunni, 6 hesta.
12. sept., mánudag: Suðaustan gola, og síðar sunnan allhvass. Við bundum 4 hesta af útheyi og settum það í Stekkhúshlöðuna. Slegin efsta sléttan. Byrjað aftur að slá út á mýrum eftir kaffi.
13. sept., þriðjudag: Bundnir 11 hestar, eða það sem eftir var af útheyinu. Það var sett í Stekkhúshlöðuna. Hirtir 6 hestar af ystu sléttunni.
14. sept., miðvikudag: Norðaustan kaldi, úrkomulaust. Slegið út á mýrum. [í Hrafnsgerði].
15. sept., fimmtudag: Austan gola, úrkomulaust. Hirtir 2 hestar út á mýrum. Slegið þar.
16. sept., föstudag: Sunnan hvass. Hirtir 8 hestar utan af mýrum í Stekkhúshlöðu, og hún þarmeð fyllt, með 74 hestum af nýju og gömlu heyi.
17. sept., laugardag: Sunnan gola. Hirtir 8 hestar utan af mýrum í Skálann. Hirt upp þar. Slegin Tangasléttan og hafragrashornið, sem sáð var í um leið.
18. sept., sunnudag: Sunnan gola, mjög hlýtt og gott veður. Við fórum upp á Hlíðar að tína ber, og fundum mikil krækiber, en lítil eða engin bláber.
19. sept., mánudag: Suðaustan gola, mjög skýjað, nærri þurrklaust. Þórarinn og Jón á Skeggjastöðum komu hingað í rafmagnsvinnu, að hlaða undir rörin.
20. sept., þriðjudag: Suðaustan og sunnan gola, sólskin, þurrkur. Slegið út á Engjatanga [í Hrafnsgerði].
21. sept., miðvikudag: Sunnan gola, fremur kalt, en þó gott veður, eftir því hve áliðið er orðið. Skýjað. Dálítill þurrkur. Steinþór Eiríksson kom með rafalinn og setti hann upp. Hleypti einnig vatni í rörin, en þau hripláku.
22. sept., fimmtudag: Sunnan kaldi, nokkuð skýjað, lítill þurrkur. Hirtir 10 hestar út á Engjatanga í skálann.
23. sept., föstudag: Sunnan gola, nokkur þurrkur (á hverri nóttu er áfall eða héla, síðan um 16. sept.). Hirtir 4 hestar út á mýrum.
24. sept., laugardag: Logn mestan daginn, og mikil móða, einnig kafskýjað. Göngum var frestað, og lagði pabbi því af stað í dag “undir Fell”. Rakað í vatnsgarða á Tanganum.
25. sept., sunnudag: Sunnan og síðar aust-norðaustan gola, stormur síðar. Mjög lítill þurrkur, sá aldrei til sólar, rigning um kvöldið. Við breiddum dálítið innfrá, en það þornaði lítið, og vorum við rétt búnir að taka það saman þegar regnið skall á um kl. 6,30.

Hér lýkur dagbókinni, líklega vegna þess að stílabókin (rauða) var búin, en aftantil úr henni hafði ég klippt margar síður. Rafstöðin hlýtur að hafa komist í gang í október, en ég finn ekkert um það ritað í vasabók minni frá þessu ári (merkilegt!). Í vasabókinni er alls konar fróðleikur um plöntur, en líka um ræktun, heyskap o.fl., m.a. nokkur súlurit. (Nokkrar klausur voru áður ritaðar úr henni).

18. okt. Hætt að heyrast í lófu og flestum farfuglum.
30. október. Kl. er um 11. Allgott veður, sólskin og sunnan gola. Mikil hláka í gær, kul í nótt, en nú er orðið þítt. Ég sit úthjá “Garði”. Í kringum mig er haustbrúnt grasið. Plönturnar eru allflestar búnar að fella blöð, en þau sem enn hanga á, eru visin og skrælnuð. Rannfángið er samt ennþá grænt, og með gulum blómum, en það er líka seinasta vígi sumargyðjunnar. Brátt fellur það einnig, og þá verður hún að flýja til annara landa, og dvelja þar þangað til aftur fer að hlýna, þangað til hún kemur og vekur allt með hrópi sínu: “Vor, vor”, “Spring, spring”. Ísi lögð áin minnir á það að veturinn er genginn í garð. Nú fljúga ekki lengur glöð fiðrildi milli blóma. Nú er ekki lengur sumarvindur með jurtaangan í lofti. Fuglarnir eru einnig farnir. Aðeins fáeinir einmana hrafnar, sem vekja mann með sínu viðkunnarlega og gamalkunna hljóði, krunk, krunk. En eins og öldur ægis hníga og stíga, eins hnígur sólin og stígur, og þá um leið tíðarfarið, kuldinn og hitinn. Og að liðnum vetri kemur vorið og færir með sér hlýju inn á hvert heimili, hlýju sem verður að endast árið um kring.(Úr vasabók 1949).

Eiðaskóli var settur 6. nóvember, tveim vikum seinna en vanalega, vegna þess að verið var að ljúka við byggingu heimavistarhússins (Útgarðs), og sama dag fór Dúddi í Geitagerði með mig þangað. Sumarið 1949 ritaði ég einnig ýmislegt á vasabók, m.a. brot þau sem tekin voru upp hér að framan, einnig jurta- og fugladagbækur, og yfirlit um heyskap og jarðabætur. Sumarið 1950 hélt ég “vikudagbók”, þar sem ritað var það helsta sem unnið var í vikunni. Næstu sumur ritaði ég ýmislegt í vasabækur, þar á meðal ýmis dagbókarbrot. – H. Hall. (maí-júní 2013).

Viku(dag)bók sumarið 1950
Með innskotum
1.-6. maí, 3. vika sumars: Ég kom heim frá Eiðum þann 1. maí. Sett í loftið í eldhúsinu “gypros”. Byrjað að breiða túnið (löngu sléttuna), ysta sléttan var breidd sl. haust. Veður frekar kalt og oftast frost.
6.- 13. maí, 4. vika sumars: Á sunnudaginn ætluðum við að koma dráttarvélinni af stað, en kom þá í ljós að hún var biluð, tengslið (kúplingin) sleit ekki sambandi, og urðum við að gefast upp við svo búið. Klárað að breiða túnið. Settar upp karteflurnar í fjósið. Veður allsæmilegt en litlar hlákur, oftast sunnanátt.
13.- 20. maí, 5 vika sumars: Tekið út tað úr Parthúsunum. Traktorinn sendur út í Egilsstaði á “Vélanámskeið” og fór pabbi og sótti hann á laugardaginn, og kom heim um nóttina.
20.- 27. maí, 6. vika sumars: Herfað túnið á sunnudaginn, og gekk ágætlega. Á mánudaginn fórum við inn á Parthús, og ætluðum að herfa sundur skítinn, en þá var traktorinn stíflaður, og var ekki gert meira með hann þann daginn. Daginn eftir kom Dúddi [í Geitagerði] og verkaði úr blöndungnum, og gátum við þá herfað taðið. Á þremur næstu dögum ókum við taðinu útá Tánga, og voru það eitthvað um 30 kerrur, og þar af voru settar 20 kerrur á kartöflur, en hitt á hafra. (12 kerrur í efri garðinn). Oftast sunnan og ágætt veður, en lítil hláka. Sáð matjurtum hér 21. maí upp í Botni. Sáð rófum 25. og 26. maí, framogniðri í garði. Byrjað að sá karteflum 26. maí.
25. maí: Ég bý í norðvesturherbergi þessa húss, á efri hæð. Þetta er allra skemmtilegasta herbergi, það er allt fóðrað innan með Bretatexi, og innan á það er límdur pappír. Veggirnir eru brúnmálaðir, en loftið er hvítt. Ofan úr miðju loftinu hanga tveir svartir strengir, og á enda þeirra peruhylki og pera. Ef ég svo geng fram að hurðinni get ég látið koma ljós á peruna, því að þar er slökkvari og einnig innstunga. Á veggnum hangir herljarmikil og allsterkleg bókahilla, með 2 hillum, smíðuð á Eiðum í fyrra. Upp af henni hangir mynd af Jóni Sigurðssyni, klippt úr Tímablaði, sem gefið var út 17. júní 1944. Ekkert gler er á myndinni.
Í hillunni kennir margra grasa. Í neðri hillunni eru Íslendingasögurnar allar, ásamt Eddunum, og kennslubók í bókfærslu, 2. hefti af Tarsansögunum og Minningabók frá Eiðum í vetur. Í efri hillunni er talið frá hægri: Jónas Hallgrímsson: Ritsafn, fjórða Tarsansaga, Lýsing Íslands, Skógræktarritið, Samkvæmisleikir og skemmtanir, 2. bindi af Þeir gerðu garðinn frægan, Inkarnir í Perú, Fjögur ár í Paradís, Andvari 1950, Drengirnir í Makefing[?], Blárra tinda blessað land, e. Árna Óla, Plönturnar, Enskubók, Skátarnir í Róbinsoneyjunni, Íslenskt landakort, Markaskrá af óviðráðanlegum ástæðum, 3 bindi Heimskringla, Heilbrigt líf, Dönskunámsbók, Eðlisfræði, Almanak 1950, Forn-íslensk lestrarbók, Íslendingasaga, Stafsetningarorðabók, Hjálp í viðlögum, Enskar endursagnir, Hlín 2. bindi, Úrvalssögur Menningarsjóðs, Drengir sem vaxa og Félagsfræði. Upp á þessu liggja ennfremur: Almanak 1949, Áburður, Noregur, Flóra Íslands, blóhanspakki [?], Líffæri búfjárins og störf þeirra, Freysblað, Ensk-Íslensk orðabók, skáldsaga gömul, vindlakassalok, og hæst er Kartaflan, skipar öndvegi sem hún einnig ætti að gera hvarvetna á Íslandi. Ofan á í neðri hillunni liggja, barnabók einhver, Dýrafræði, Myndir frá Útlöndum, málkústi og Guðvin góði. Held ég þá að fulllýst sé bókahillunni og innihaldi hennar, nema hvað hún er ekki máluð, heldur lökkuð.

Á norðurhliðinni er glugginn, stór og mikill, með opinni rúðu, og í honum úir og grúir af allskonar hlutum, sem einnig víðar. Er þar talið frá hægri ýmis traktorsskjöl, sænskt blað Vi, rennd dolla, 2 bókafílar að stangast, tvær 15-kerta perur, innpakkaðar, jarðlíkan, bolli sem strákarnir komu með áðan, þeir voru víst að sá rófufræi í beðin sín, vasaljósbatterí, mótor smíðaður á Eiðum í vetur, þá var ...öl[?] einnig smíðuð á Eiðum og var á henni vasaljóssgeimaka [?] “batterí”, og ýmsar frætegundir, matjurtafræ í kassa rauðum, með teygjum þvers og langs. Ofan á þessu liggur einnig dálítið blaðadrasl.

25. maí: Ég setti niður 28 ribsanga, sem ég tók af ribsplöntunni okkar, sem nú er orðin um 80 sm há (var fengin frá Hrafnsgerði). Ég tók 4 anga af henni í fyrra og lifa þeir vel núna og eru komnar á þá rætur, eru farnir að laufgast. Tíð hefur verið sæmileg í vor, og eru [birki]plönturnar nú í óða önn að laufgast, þær fyrstu að verða allaufgaðar. (Sú fyrsta mun hafa sprungið út um 15. maí). Reyniplönturnar eru að springa út, og sólberjaplantan allaufguð. Regnfangið er orðið um 2 þuml. hátt, og venusvagninn einnig. Eins og venjulega eru birkiplöntur misjafnlega snemmablaða, og fer hér á eftir skrá yfir plönturnar í “Garðinum”. [Teikning á næstu síðu, með dagsetningum]
27. maí- 3. júní, 7. vika sumars: Unnir kartöflugarðar og sáð kartöflunum. Það voru um 3 tunnur og fóru þær í 1180 m2, og var borið á þær um 20 vagnhlöss (um 50-60 kerruhlöss) af sauðataði og 45 kg. kalkammonsaltpétur. Búið að hreinsa túnið. Einnig að sá rófum í 330 ferm. Oftast sæmilegt veður. Þann 27. maí sá ég fyrsta snigilinn (með bobba). Þann 28. maí fannst lófuhreiður inn í Parthúshöllm. Þá voru ekki farnar að sjást flugur úti, svo nokkru næmi.
27. maí: Ég er staddur út í Garði. Litlu plönturnar, sem sáð hefur verið til, eru flestar laufgaðar. Þær virðast kunna ágætlega við sig hér í garðinum. Hallormsstaðaplönturnar eru einnig flestar útsprungnar, en af gömlu heimaplöntunum er engin útsprungin hér í garðinum. Er þó líklegt að þær væru laufgaðar ef þær væru á sínum gamla stað. Rifsplantan er að springa út. (Teikning) [Heimaplönturnar voru fluttar úr landi Droplaugarstaða, sjálfsánar þar, flestar margbitnar.]
3.-10. júní, 8 vika sumars: Tekið út taðið á Stekkhúsunum, og því ekið út á Tánga, þar sem það var svo herfað. Gert við Hesthúsvegginn, sem hrapaði í vetur. Hreinsað Stekkhústúnið. Taðinu ekið í flagið og var það herfað, 12 vagnhlöss sem sett var í grasfræflagið, en það er rúmlegast. Búið var að setja í það áður 4-5 vagnhlöss. Síðan herfaður niður skíturinn, eina umferð. Gert við girðinguna á Parthúsunum. Veðrið mátti heita ágætt þessa viku, skiptust á sunnan hitar og NA-skúrir. Einar Ólason kom og lagði heimleiðsluna, og setti við eldavél og þvottapott. Jón Bjarnason kom á miðvikudagskvöldið og herfaði eina ferð yfir flögin hér heima, og fór síðan fram á Tánga daginn eftir og vann flagið þar. Þann 7. júní fannst andarhreiður inn á Parthúsum, með 7 gulhvítum eggjum. (Þann 25. júní voru ungarnir farnir úr því).
10.-17. júní, 9. vika sumars: Sunnudaginn 11. júní fórum við út í Ás á dráttarvélinni. Ekið hrossaskít í efra flagið hér heima. Breitt neðra flagið með útl. áburði, og einnig með í það efra. Síðan herfuð og sáð í þau höfrum. Heflaður vegurinn. Hlaðinn stafn á fjósið, hann hrundi einnig í vetur. Allgott veður alla vikuna, sunnan sólskinsdagar og gróðrarskúrir.
17. – 24. júní, 10. vika sumars: Fermt á Ási á sunnudaginn. Breytt rafmagnshúsinu, til að koma fyrir spennubreytinum. Sáð grasfræinu á þriðjudaginn og valtað daginn eftir. Skorið torf. Málað eldhúsið. Sett saman sláttuvélin, og slegin sléttan fyrir neðan húsið á laugardag 24. júní. Mesta vikuna var austan og norðaustan átt, oft votviðri og fremur kalt.
25. júní: Ég tók allar plönturnar upp úr breiða beðinu, sem sáð var til 1945, og skipti þeim í tvo flokka, litlar og stórar. Þær stóru voru flestar um 3-4 þuml., en þær litlu flestar um 1-2 þuml. Þær litlu voru 70, og setti ég þær í annað beð í Garðinum, en hinar 35 setti ég niður fyrir innan Garðinn. Við byrjuðum að slá í gær, sléttuna fyrir neðan húsið, og var hún allavel vaxin. Einnig er Langasléttan orðin vel slæg, en hinar eru frekar lélegar. Tángasléttan hefir verið beitt svo mikið í vor að hún er bráðónýt. Við sáðum grasfræi framogniðri þann 20. júní, fengum valtara hjá Hannesi. Höfrum var sáð í flagið hér heima um viku fyrr. Karteflum var sáð um mánaðamótin og eru þær nú allar komnar upp, og gulrófurnar einnig, sem sáð var um Hvítasunnu.(Teikning af fossi).
24. júní – 1. júlí, 11. vika sumars: Slegin Langasléttan þann 28., og hirt af sléttunni fyrir neðan húsið sama dag. Slegin sléttan upp við girðinguna þann 29. Hirt helmingurinn af Löngusléttunni á laugardag 30., en það sem eftir var á sunnudaginn. Fyrri part vikunnar var norðaustan, en seinni partinn sunnan og prýðis veður alla vikuna.
1.- 9. júlí, 12. vika s.: Smalað á mánudag og klárað að rýja á þriðjudag kl. 2. Rekinn reksturinn inn í Arnheiðarstaði, og slegin sléttan fram og niðri sama dag. Mamma fór norður á Akureyri með húsmæðrum Fellahrepps. Sigrún á Hafrafelli kom í staðinn. Unnið að þurrki á heyinu allt fram á föstudag, þá þyngdi til og var þá fángað heyið fram og niðri, en sumt sett í sátu, lá þá heyið heima, en það var fángað á laugardaginn. Frá laugardegi 1. júlí til laugardags 7. júlí var sunnan og ágætis þurrkur, en á föstudag og laugardag var austan eða norðaustan, en úrkomulaust að mestu.
8.- 16. júlí: Við fórum austur í Hallormsstað á sunnudaginn í rigningu og kalsaveðri. Við vorum gangandi upp í Brekku, þar fengum við hesta upp í Hamborg, og vorum svo ferjaðir yfir, og að lokum komumst við með Jóni á Hrafnkelsstöðum út í Hallormsstað (Atlavík). Ferðin heim gekk líkt, nema þá fengum við Axel [á Bessast.] með okkur úteftir. Á mánudag var grafið fyrir geymslu, einnig á þriðjudag og miðvikudag. Slegið upp fyrir geymslunni á fimmtu- og föstudag. Alla vikuna var aust-norðaustan gola og kaldi, oftastnær úrkomulaust, nema fyrstu daga vikunnar, en nær alltaf þoka á nóttunni og langt fram á dag. Slegið Stekkhústúnið á föstudag og laugardag.
16. júlí: ”18.-júlí-förin” 1950. Við erum staddir upp í Heiði, rétt ofan við ána, í örlítilli vík [viki] sem gengur inn í melbarð, og snýr móti suðri. Beint framundan er dálítið vatn [tjörn], sem bærist mjúklega fyrir austan golunni. Um 1 m frá mér er stór skafl, sem liggur að vatninu að utan. Víkin er gróðurlaus að mestu, enda nýkomin undan snjó, rétt nýbyrjuð að gróa. Alstaðar hér meðfram ánni eru snjóbakkar. Þegar við lögðum af stað var ekki sérstaklega fallegt útlit, þoka alveg niður á Harðvellisbrún, en við brutumst gegnum hana alveg upp fyrir Mýri, og nú sér maður yfir þokuhafið, sem nær alla leið upp að Grásteinshlíð. Í vestri gnæfir Vegufsinn, með 3 vörðum.
16.- 23. júlí: Við fórum “18. júlí í Bugferðina” þann 16. júlí, sunnudag, í sæmilegu veðri, en þoku alveg upp í Háls. Austan gola. Af jurtum sem fundust mætti telja t.d. lækjafræhyrnu og lækjasteinbrjót. Annars gerðist lítið markvert. Pabbi var á Reyðarfirði mestan mánud. og allan þriðjudag. Byrjað að steypa geymsluna á miðvikudag. Steypt einnig á fimmtudag, föstudag og laugardag. Er þá búið að steypa norðurvegginn, og jafnhátt honum öðrum megin við dyrnar. Eru komnir í það 14 ½ poki af sementi.
23. -30. júlí: Alla vikuna var austan eða norðaustan, og stundum suðaustan átt, oftast úrkomulítið en aldrei þurrkur. Oftastnær þoka ofan í miðjar hlíðar. Bændur eru nú mjög farnir að örvænta vegna óþurrkanna, og liggur hey manna fyrir stórskemmdum ef ekki rætist úr á næstunni, og sumt er þegar orðið nær ónýtt. 25. júlí: Mjög gott útlit fyrir birkifræuppskeru á trjánum hér, virðist vera mikið af því og þroskast vel, en undanfarin ár hefur fræþroskun verið mjög lítil, síðan einhverntíma kringum 1944-45. (23. júlí teiknaði ég hafragras í bókina í réttri stærð, meðalhæð).
30. júlí – 5. ágúst: Við fórum upp í Hús á sunnudaginn. Breytt á riðstraum á mánudag, og voru hér við það, Halldór Einarsson, Steinþór og Einar [Ólason]. Þeir renndu einnig af dýnamónum (jafnstraumshluta). Slegið fram og niðri á Sauðabotnshalli á mánudag. Á þriðjudag kom þurrkur, var þá hirt af Stekkhústúninu, 9 hestar. Á miðvikud. fór pabbi út í Ás um kl. 4, að hjálpa Guðríði, en áður höfðum við ekið því sem var í föngum á Tánganum inn á Stekkhús og breitt það þar. Um kvöldið settum það í sátu, og var það svo breitt aftur daginn eftir, og þá hirt. Einnig hirt heyið af Sauðabotnshalli og ekið inn á Stekkhús. Á föstudaginn var byrjað upp í Blautudölum, og slegin sléttan neðan við húsið. Á laugardag var slegið í Blautudölum. Sunnudag og mánudag var austan og norðaustan gola, stundum úrkoma, þriðjudag til fimmtudags suðaustan og sunnan, mjög heitt, þurrkur, föstud. og laugardag þurrklaust, sunnan á föstudag, en skýjað, norðaustan á laugardag. Þann 6. ágúst eru jarðarberin að byrja að verða æt, þ.e.a.s. þar sem friðunar og skjóls nýtur.
5.- 13. ágúst (17. vika sumars): Mánudag og þriðjudag slegið og rakað upp í Blautudölum. Miðvikud. og fimmtud. slegið hér upp í fjárgirðingunni og Botninum. Föstud. og laugard. rakað og garðað, en allt til einskis. Mánudag og þriðjud. austan eða suðaustan gola, oft rigning, miðvikudag norðaustan og rigning öðru hvoru, fimmtudag suðaustan og rigning seinnipartinn. Föstudag suðaustan en þurrviðri, þurrklítið, búist við þurrki á laugardag, og garðað öllu um kvöldið, einnig á laugardagsmorgun, og var þá dálítill þurrkur, en rigndi allan seinnipart dagsins, mest hey náðist. Mjög illar horfur.
13. ágúst: Eg er staddur inn á Tánga. Rófurnar þar eru að verða góðar, en þær eru gisnar, sérstaklega þar sem mikill halli er. Þar hefir orðið of þurrt í vor til að þær spíruðu, og munu óþurrkarnir hafa bjargað þeim sem spíruðu til að vaxa, því þarna er allþurrt, nema rétt yst. Rófunum var sáð um mánaðamót maí-júní. Kartöflurnar eru einnig í góðu útliti, sérstaklega í efsta garðinum, en í hann voru sett 12 vagnhlöss (eða um 30-35 kerruhlöss) á 900 m2, virðist það vera allgóður íburður í 2 ára og nærri illgresislausan garð. Svarar það til um 114 kerruhl. í dagsláttu, eða um 106 smál. á ha. Sérstaklega er þó gullaugað í góðu útliti. Grasvöxtur er þar einnig allmikill, og eru að koma blómknappar á þau sum [þ.e. kartöflugrösin]. Í neðra garðinum er miklu verr vaxið, og grasvöxtur einnig minni, en grösin eru dökk og virðist alls ekki skorta köfnunarefni. Neðri garðurinn er um 400 m2, í hann var borið 4-5 vagnhlöss (um 9-12 kerruhl.) og 30 kg af kalkammonsaltpétri, svarar það til um 95-100 kerrum á dagsl., eða um 90 smál. á ha., auk saltpétursins (reiknað með 300 kg. kerruþunga). Á því sést að ekki er um að ræða vöntun á köfnunarefni, og tæplega er það of mikið, þar sem ekkert hefir verið borið í garðinn áður. Í garðinn var einnig borið kalí, en ekki nein sýra [líklega átt við sölt af brennisteinssýru].
13.- 20. ágúst (18. vika sumars): Sunnudag, garðað í girðingunni og Botninum. Byrjuð að þroskast krækiber. Mánudag dálítill þurrkur, öllu garðað, bæði í Blautudölum og girðingunni. Byrjað að taka saman í girðingunni strax fyrir mat, var þar hirt allt sem búið var að raka, eða 6 hestar, fluttir heim og settir 2 hestar í sátu í Botninum. Var síðan farið heim og sett í sátu fyrir neðan húsið, 5 hestar. Komu þá dálítlir dropar og voru alllengi, en ekki til skaða. Þrátt fyrir dropana var svo haldið upp í Blautudali og sett í sátur allt neðan í brekkunni, ca. 15 hestar, og fángað allt á miðdalnum. Var þá látið staðar numið dag þann. En víst er það að mörgum varð hann að miklum notum, þótt betur hefði mátt nota hann, en gert var. Á þriðjudag var byrjað að slá Parthústúnið eftir mat, en steypt fyrir mat. Miðvikudag lokið við að slá Parthústúnið. Á fimmtudag og fimmtudagsnótt gerði vitlaust norðaustan vatnsveður. Rafmagnið fór af vegna bilunar á einangrunarplötum í dýnamónum. Föstudag kom Hallgrímur í Holti og sperrureisti geymsluna. [Þá lærði ég að sperrureisa af honum]. Laugardag var slegið upp fyrir þakskegginu. Sunnudag og mánudag var austnorðaustan gola eða allhvass, úrkomulaust. Þriðjudag til laugardags austan og norðaustan, oft rok, með gríðarlegri úrkomu.
20.-27. ágúst (19. vika sumars): Á mánudag kom Einar Ólason og reif upp dýnamóinn, og fór með anker hans út í Egilsstaði. Pabbi fór út í Holt og vann hjá Hallgrími. Við byrjuðum að slá á Sauðabotnshallinu (utan girðingar), þriðjudag slegið þar. Miðvikudag steypt þakskeggið á geymsluna. Fimmtudag byrjað að slá á Mýrunum (Háubökkum), og slegið þar það sem eftir var vikunnar. Alla vikuna var austan og norðaustan kaldi, oft einhver úrkoma, og einu sinni mikið vatnsveður.
27. ágúst – 3. sept.: Mánudag ? Þriðjudag (Höfuðdag) bjart um morguninn, en þykknaði og rigndi að lokum. Garðað á Parthúsum. Fluttir 10 hestar ofan úr Blautudölum, úr sátunum. Þær voru góðar sem hafði verið breitt yfir, en hinar voru blautar. Miðvikudag rofaði til eftir mat og gerði góðan þurrk. Hirt af Parthústúninu í sátur, einnig hirt af Hallinu og flutt inn á Stekkhús, 6 hestar. Fimmtudag allmikill þurrkur, rakað út á Mýrum fyrir mat. Slegin langa sléttan eftir mat, og tekið saman á Stekkhúsum, 6 hestar, sem höfðu verið breiddir þar úr sátum í Blautudölum, einnig um 8 hestar út á Mýrum. Föstudag rakað og hirt út á Mýrum, lokið að hirða þar. Slegin ysta sléttan. Laugardag hirtir og fluttir 5 hestar úr Blautudölum.
3. sept. – 10. sept. (21. vika sumars): Sunnudag ók Aðalbjörn 14 hestum af heyi utan af Mýrum í Parthúshlöðu. Hirt af löngu sléttunni. Mánudag slegnar ræpur hér heima, eftir mat gerði eitt af þessum venjulegu norðaustan veðrum, svo illfært var til vinnu. Þriðjudag og miðvikudag slegið út á Mýrum. Fimmtudag rakað út á Mýrum og slegin efsta sléttan. Laugardag slegið hafragras.
10. – 17. sept. (22 vika sumars): Mánudag hirt á ystu sléttunni. Hirtir um 12 hestar út á Mýrum. Þriðjudag slegin sléttan á Tánganum, og hirt það sem eftir var út á Mýrum. Sýnd kvikmyndin Björgunarafrekið við Látrabjarg upp í Húsi [þ. e. Ungmennafélagshúsi á Valþjófsstað]. Miðvikudag bundið út á Mýrum, rakað hafragras. Föstudag slegið Stekkhústúnið. Laugardag lokið slætti. Aðalbjörn flutti allt af Mýrunum inn á Parthús. Eru þá komnir af Mýrunum um 40 hestar af sæmilega hirtu og óhröktu heyi. Sunnudag, mánud. og þriðjud., og að nokkru leyti miðvikud., var suðaustan gola, sæmilegur þurrkur, en vitlaust rigningarveður á fimmtudag, síðan þurrvirði það sem eftir var vikunnar.
17.- 24. sept. (23. vika sumars): Rafmagnið komst aftur á á mánudag. Rakað hafragrasi í sátur. Þriðjudag hirtur ¼ partur af sléttunni á Tánganum, en þá rigndi ofan í. Miðvikudag hirt það sem eftir var. Hirt það seinasta í Blautudölum og flutt heim, 3 hestar. Einnig bundnar sáturnar á Parthúsunum og dregnar inn í hlöðu. Föstudag ekið heyinu af Tánganum inn í Stekkhúshlöðu. Laugardag jarðarför á Ási, Einar Einarsson [Ormarsstöðum]. Alla vikuna var þurrviðri að mestu leyti, en þó stundum smáél, snjóaði langt ofan í fjöll og fyrsta frostnóttin kom.
Hér endar þessi vikubók.

Haustið 1950 voru karteflur hér um slóðir víða allmikið skemmdar, einkum þar sem blautt var, þ.e. hallalítið land eða dældir sem vatn vatn gat ekki sigið frá, vegna hinna miklu rigninga. Voru þær með svörtum blettum og dálítilli skemmd inn úr blettunum, en sumar voru alveg svartar í gegn og alónýtar, sem þær voru líka flestar, vegna þess hve súrar þær voru. Á sumum karteflunum voru aðeins hvítir, örlitlir blettir, og voru þær vel ætar. Líklegt er að þetta hafi verið einhverskonar mygla, a.m.k. hvítu blettirnir. Einnig fannst mér, þegar verið var að taka upp hjá okkur, ég allvíða verða var við skemmdir, sem lýstu sér mjög líkt og stöngulveiki, voru grös þessi flest fallin, stöngullinn linur og drullulegur, og flestar karteflur skemmdar, sem undir þeim voru, og virtist skemmdin koma út frá spírunni sem liggur í kartefluna, og ef karteflan var skorin sundur, var skemmdin svört með tímanum.

Í sömu bók er tafla yfir heyskapinn sumarið 1950, þar sem skráð er hey af hverri sléttu, í fyrra og seinna slætti, og hvenær þær voru slegnar. Af Heimatúni fengust 70 hb., af Tangatúni 36 hb, af Stekkhústúni 17 hb. og af Parthústúni 10 hb. Af töðu samtals 133 hb. Af útheyi fengust 80 hb, af hafragrasi 25 hb. Mesta heyið var í Skálanum heima,105 hb., í Stekkhúshlöðu 66 hb., í Parthúshlöðu 80 hb., í Stekkhúsheyi 25 hb. [Það hey var í tótt við Stekkhúskofann], hafrahey 25 hb. Heyskapur alls 302 hb.
Lýsing sláttar: Heyskapartíð mjög ill allt sumarið, aðeins þeir sem snemma byrjuðu að slá áttu sæmilegar töður. Frá 9. júlí allt til 25. sept. var nærri óslitin óþurrkatíð, en eftir það gerði dálítlar flæsur. [Þetta sumar var í minnum haft austanlands sem “Óþurrkasumarið 1950.” Á eftir kom svo mesti snjóavetur í manna minnum á Héraði, og varð þá víða heyskortur, einkum á Úthéraði, en fjárfelli var bægt frá með miklum heykaupum og flutningum á heyi af Suðurlandi.

“Atlavíkurferðin 9. júlí 1950”, sem skráð er í bókinni, var birt í Fiðrildunum, blaði samnefnds Danshóps, dálítið breytt, og birtist svo endurrituð í Hallormsstaðabók 2005.

Dagbókarbrot sumarið 1951
Um 25. maí fóru hunangsflugur fyrst að sjást. Varð þá allmikið af þeim, svo að þær flugu víða inn um glugga og dyr. Um 20. maí var orðið allmikið af öðrum flugum (tvívængjum), en fiðrildi sjást ekki enn. Víða má sjá litla snigla, en fyrsta brekkusnigilinn sá ég 1. júní. Fyrst fór að bera á köngulóm um 25. maí. Sáust þá víða köngulóarvefir.
Þann 7. júní settum við niður 150 birkiplöntur frá Hallormsstað, og dálítið af gulvíði, sem við tókum úr garðinum. 6. júní, sá ég fyrsta grasfiðrildið.
Þann 14. júní fann ég köngulóarhreiður (fjallakónguló) niðri á Kiðuklettum, inn í hreiðrinu, sem var fast ofið úr gulleitum þræði (afarsterkum), var eggjakökkur (að ég held) og könguló. Tók ég kökkinn og fór með hann heim, og ætla að reyna að halda honum lifandi eitthvað lengur.
17. júní 1951: Allgott veður. Austan gola. Sólskin. Ég vann að náttúrurannsóknum mestan daginn. Nafngreindi 4 plöntutegundir: skeggsanda, grávíði, loðvíði og týsfjólu. Fann nýja sniglategund (kuðung) á Kiðuklettum, einnig sá ég nýja bjöllutegund, rauðflekkótta, ákaflega fallega, á mel hér fyrir neðan veginn. [Líklega maríubjalla]. Mest ber nú á stórum fiðrildum (eða tvívængjum) með ákaflega langa fætur og vængi, sjást þau víða vera að eðla sig. [Líklega átt við galdraflugu?] Hunangsflugur sjást nú ekki, enda hefur verið kalt lengi. Sniglar sjást yfirleitt lítið, og enn hef ég ekki séð neinn kuðungslausan. Holtasóley er sú jurt sem mest ber á, þó nokkuð sé farið að minnka. Birkitré eru nýlega orðin allaufguð, og sum þó varla enn. Túnin eru allmikið farin að vaxa, en eru mikið kalin, einkum nýræktir.
Þann 18. júní sá ég fyrstu kuðungslausu sniglana, en langt er síðan fullt var af hinum. Þá var ennig orðið allmikið af grasfiðrildum.
Hinn 16. júní var sáð grasfræi í flagið fyrir framan hér heima, fóru í það 3 skjólur af grasfræi. Sett var í flagið um 14 kerrur (traktorkerrur) af húsdýraáburði (kúaskít, hrossataði og sauðataði). Traktorvinna við flagið var sem hér segir: 1) Vinna með jarðýtu 11. júní, 1 klst, 70 kr. 2) Niðurherfing skítsins (með Pony), 1½ klst. 3) Niðurherfing fræsins, 1 klst. 4) Völtun, 1½ klst. 5) Sléttun fyrir fræ og ýmisl. fleira, 1 klst. Samtals 6 klst., þar af 5 með Pony [Traktor].
20. júlí uppgötvaði ég eftirfarandi jurtategundir hér á Droplaugarstöðum: Carex rostrata (tjarnastör), Poa alpina (fjallasveifgras), Juncus castaneus (dökkasef) og Gentiana tenella (maríuvendling). Allt fundið upp í Blautudölum. Allir birkimaðkar farnir úr hýðum sínum.
Hér hafa fundist ræflar af 3 hreindýrum, sem ég veit af, en annars hafa þeir víst fundist víða. Ég hef athugað tvo ræflana. Annar var af kálfi (líkl. ársgömlum), hornin greinalaus, hryggur 95 sm frá banakringlu að mjaðmabeinum. Hinn var líklega af 2-3 ára gömlum tarfi, fannst hann liggjandi í eðlilegum svefnstellingum, með fæturna undir sér. Allmikið var í vömb hans af ýmsu drasli, sinu og rótum, en vel getur hann hafa drepist úr sulti fyrir það. Líklega hefur veturinn höggvið alldjúpt skarð í hreindýrastofninn. Í vetur voru þau mikið niðri í byggð, og hafa verið það 3 undanfarna vetur. Veturinn 1947-48 sá ég fyrst hreindýr hér niðri í byggð.
28. júlí: Botanical expedition: Þann 28./7. fór ég í grasaferð upp í Heiði. Veður var ágætt, sólskin og hiti. Árangur af förinni var allgóður. Ég fann í fyrsta sinn hér í landinu eftirtaldar jurtir: Ranunculus pygmaeus (Dvergsóley), Ran. hyperboreus (Sefbrúðu), Ran. reptans (Liðaskriðsóley), Ran. confervoides (Lónasóley), Potamogeton filiformis (Þráðnykru), Carex saxatilis (Hrafnastör), Carex rostrata (Tjarnastör), Carex panicea (Belgjastör), Hippuris vulgaris (Lófót). Einkum bættist mikið við sóleyjarættina í þessari ferð. (Kortriss er af ferðaleiðinni).
Fyrir nokkrum dögum fann ég fjalldalafífil í fyrsta sinn hér í landinu, ofan við Blautudalina. Líklega hef ég fundið fleiri jurtir en hér eru greindar, en þær hef ég ekki nafngreint. Hér á eftir fer svo list yfir helstu háplöntur sem ég sá upp í Heiði, kringum Grasakíl utanverðan, er það þó ekki á háheiðinni. (Í listanum eru skráðar 40 tegundir með ísl. nöfnum.).
8. ágúst hvarf loks að öllu leyti skaflinn sem var neðan í Hnausnum á Skeggjastöðum. Mun það einsdæmi hér um slóðir, að skaflar séu svo neðarlega allt sumarið, og það því síður að skaflinn snýr vel móti öllum sólargangi.
Um mánaðamótin júlí-ágúst voru jarðarberin að verða æt, einkum þar sem friðunar nýtur, og 10. ágúst byrjuðu hrútaber að þroskast. 10. ágúst fann ég þessar jurtir hér í fyrsta sinn: Sparganium hyperboreum (mógrafabrúsa) og Gentiana aurea (gullvönd.).
19. ágúst fann ég hunangsflugubú upp í Fjárgirðingu, alveg inn í sinunni í bakka nokkrum. Allar flugurnar voru komnar úr hólfunum, nema ein, sem enn var púpa. Einnig voru allmargar dauðar í hólfunum. 4-5 flugur virtust vera stærstar þarna, en hinar flestar líkar að stærð, og sumar varla orðnar gang- eða flugfærar.
26. ágúst: Botanical excursion in the Fljótsdalsheiði, along Hrafnsgerðisá, and nort-east of it. Bad weather, rain an fog. At least two sedges were found: Carex machlowiana (L), and another, [which] I could not determine correctly, perhaps C. lachenalii (Sch.). I found also klukkublóm and aðalbáberjalyng, in the hill Selbrekkur. Yet there are snow gletchers (skaflar) in the valley of Hrafnsgerðisá, west for Selbrekkur. Most likely the do not [dis]appear in summer.
29. sept.: Sjö eða átta hreindýr fundust dauð í Rana. Virtust hafa drepist í sumar eða seint í vor (öll með hornum). Skv. ónákvæmum fregnum gangnamanna.

Haustið 1951 er farið að bera allmikið á rjúpum, að sögn gangnamanna, á heiðum uppi, mun meira en undanfarin ár. Hreindýrum virðist ekki hafa fækkað að mun síðastliðinn vetur eða vor. Athugavert hvernig þau haga sér uppi á heiðunum: Í fyrstu göngu voru þau “út u allt”, en í 3. göngu, hálfum mánuði síðar, voru þau flest komin “inneftir” aftur. Sumir telja líklegt að þau ferðist mjög eftir vindátt, fari út á heiðar þegar austræn átt er, en inneftir aftur í vestanátt.
Sumarið 1951 var fremur lítill berjavöxtur, sérstaklega krækiber og bláber, a.m.k. hér í fjallinu, jarðarber uxu sæmilega og hrútaber einnig, rifsber ágætlega.

Þann 28. okt. 1951 fór ég út í Eiða, og fékk þá hjá Þórarni Þórarinssyni hina sjaldgæfu plöntutegund mýraertur, sem fundust hjá Ketilsstöðum í Hjaltastaðaþinghá í sumar.
Í “Dagbókinni 1951” er listi yfir blómgunartíma um 100 plöntuteguda, ennig upplýsingar um komudaga farfugla og fuglavarptíma, og sitthvað fleira.

Dagbókarbrot 1952
12. febr. 1952 bar hér á einkennilegu rafmagnsfyrirbæri í loftneti við útvarpstæki, sem liggur úr húsinu vestanverðu og í staur fyrir vestan húsið, er það 10-12 m langt, einangrað frá staurnum með postulíni, og frá húsinu með horni (hornhögld), en vírinn er einnig einangraður. Um kvöldið tók ég af tilviljun um loftnetsendann og fékk þá allmikið högg. Ef útvarpið var tengt við loftnetið brakaði í því. Rafmagn þetta var allmikið, myndaðist um ½-1 sm neisti ef endinn var lagður að einhverjum hlut, virtist alveg sama hvernig hann var, úr tré, eða bara veggurinn (sem er klæddur með texi og málaður). Rafmagn þetta hélst í nærfellt 3 klst., mismunandi mikið. Hér getur ekki hafa verið um eldingu að ræða, því slíkt rafmagn hefði farið á svipstundu, er leitt var úr vírnum í jörð, en það var einnig gert. Líklegast hefur það myndast úr loftinu, en veður þetta kvöld var allhvasst á norð-norðvestan eða vestan, og allmikið kóf og snjókoma, en lítið frost, enda virtist rafmagnið háð veðrinu og veðurhæðinni, vera minna þegar lygndi, en aukast þegar hvessti. [Snjókornin hafa sýnilega framkallað hleðslu (núningsrafmagn?) í loftnetinu].
10. mars 1952: Undanfarið hefur verið allgóð tíð, og í dag sá ég allmikið af flugum úti á víðavangi, sem augsýnilega eru nýkomnar úr dái. Voru það litlar, aflangar flugur, með álútt höfuð og stutta, óloðna fálmara, fljúga með tíðum vængjaburði. (Safnað).
Grasaferð 28. júlí 1952: Farið frá Droplaugarstöðum að Hengifossi, þaðan norður að Hengifossárvatni. Skrifaður flórulisti á leið frá vatninu að Kílnum, sem rennur í ána. Á þeirri leið fannst einnig Lycopodium selago (skollafingur). Í tjörn rétt neðan við kílinn (margar tjarnir saman og svartar “rústir” á milli) fannst einnig skötuselur (tók tvö sýnishorn), þar tók ég einnig tvo vatnsketti. Í einni tjörn sá ég einkennileg kvikindi, aflöng í laginu, en breiðari í annan enda, syntu þau áfram allhratt, en þegar þau voru tekin upp úr vatninu urðu þau að kringlóttum slímdropa. Líkaminn var sýnilega ekkert annað en slím (líklega amöbur). Af öðrum smádýrum í Heiðinni má nefna flugutegund eina litla (sýnishorn tekið).
Skrifað hjá Hengifossi kl. 10 árd.: Ég fór af stað kl. 4,30 í morgun, að Hengifossi og kom þar kl. tæplega 7. Veðrið var dásamlegt, SA-gola og sólskin. Útsýnið yfir Fljótsdalinn er ágætt. Árnar liðast á milli grænna bakka, og langir og beinir skurðir skerast gegnum nesin. Búið er að slá túnin á flestum bæjum. Inn yfir dalnum gnæfir svo Vatnajökull. Fyrir neðan mig er djúpt árgilið, þar sem Hengifossáin niðar áfram milli stórgrýtisins, og virðist vatni hennar miða furðu lítið. Handan við gilið rís svo lóðréttur hamraveggur úr blágrýti efst og neðst, en allþykkt millilag af móbergi og sandsteini, í miðju þessu lagi er surtarbrandur, er það aðallega viðarbrandur, og trén sum furðu stór, sumsstaðar er hann steinrunninn og hvítur að lit. Lagið er víðast hvar þunnt og vantar sumsstaðar alveg, en annarsstaðar eru tvö lög með um meters millibili. Ofan á móberginu eru 6 lög af blágrýti, og er neðsta lagið og lagið að ofan þykkust. Á milli allra blágrýtislaganna eru rauð lög af einhverjum leirsteini. Fossinn sjálfur er ákaflega fallegur, þráðbeinn niður úr, en strýkst allmikið við bergið neðantil. Ofan á surtarbrandinum, og á milli laganna (þar sem þau eru tvö) er alldökkt lag, en neðan við hann þunnt, hvítt lag. Skriðnablóm og ólafssúra vaxa mikið í gilinu, einnig fjallasveifgras.   

 Athuga: Steinn sem kastað var af brúninni var um 4-5-6 sek. að komast niður.
Mikið er hér af maríuvendlingi, lyfjagrasi, víði, rjúpnalaufi, mýrasóley, mosasteinbrjót, snæsteinbrjót, stjörnusteinbrjót, þúfusteinbrjót, vetrarblómi, steindeplu, fjalladeplu, vallhæru, hrafnaklukku, kornsúru, grasvíði, lambagrasi, músareyra, jakobsfífli, ljónslappa, túnsóley. Ofantaldar jurtir eru i meiri hluta frá Hengifossi og upp að næsta hjalla fyrir ofan hann, en þar byrjar heiðagróðurinn fyrst fyrir alvöru. Sú jurt sem mest ber á þar, sem og annarsstaðar eftir að komið er upp í 400 m hæð, er holtasóleyjan, næst henni kemur krækilyngið, lyfjagras, lmbagras, kornsúra, sýkisgras, grasvíðir, stinnastör, móastör, mýrasef, og ýmsar eskitegundir, einnig vetrarblóm. Strjálla vaxa svo bláberjalyng, brjóstagras, axhæra, sauðvingull, geldingahnappur, grávíðir, músareyra, limur, fjallasveifgras, (hvítt lambagras).
Eftir að kemur upp á Miðheiði er þurrlendið, þ.e. melar og ásar á milli flóa, aðallega vaxnir fjallagrösum og hreindýramosa, einnig grasvíði. (Á eftir kemur flórulisti Fljótsdalsheiðar, með 47 tegundum. /Teikning er l

Í vasabók frá sumrinu 1953 er lítið efni, aðeins nokkrar athuganir á mosum og sveppum.
Í vasabók frá sumrinu 1954 er lítið annað en athuganir og teikningar af vataþörungum.
Tölvusett í júní 2013. H. Hg. 


Dagbókarbrot frá Droplaugarstöðum, veturinn 1954-1955.
Uppskrift úr vasabók Hallgríms Helgasonar bónda.

1954
4. des. (laugardag): Kúnum hleypt út í síðasta skifti. Smalað og tekin lömb.
5. des. (sunnudag): Kýrnar settar í nýja fjósið, 3 kýr og ein kvíga.
9. des.: Rafvatnið tekið af. Rétt glórðu ljósin um morguninn.
10. des.: Lömbunum á Stekkhúsum gefið Dungal-ormalyf, en eftir eru lömbin í hesthúsinu, 5 hrútar og 8 gimbrar. Vantar 2 lömb.
17. des. (fimmtudag): Rafvatnið sett á kl. 3 ½, en áður var vatnið búið að renna í efri partinum af rörunum í rúman sólarhring; hætti að renna á föstudaginn kl. um 12; var þá frosið saman í þeim. Það var 5 stiga frost.
18. des. (föstudag): Kom Jónas Þorsteinsson og bólusetti lömbin við garnaveiki, 41 lamb. 3 lömb vantar. Sluppu 8, við fundum 5 þeirra.
21. des.: Næst var rafvatnið sett á um hádegi, þriðjudaginn 21. des., en hætti að renna í rörunum um kl. 3-4, svo ekki kom dropi. Ég fór út í Egilsstaði með Einari Ólafssyni, um kl. 3, og var þar um nóttina.
22. des.: Ég kom heim 22. des. með Jóni Pálssyni, Skeggjastöðum, í norðvestan kulda, frost 9 stig. Komum heim kl. að ganga sex. Fórum í Ormarsstaði á leiðinni að utan. 22. des. fór Laufey út í Holt, til að baka fyrir jólin, og Steini litli með henni, því rafvatnið er frosið. Þau komu heim um kl. 9 í norðan stormi og kulda, en úrkomulausu.
23. des.: Fórum við Ólafur og Agnar út í Holt með 6 lömb í fóður til Braga, og sóttum við hangikjötið um leið, og brauð sem var eftir í Holti. Norðan allhvass, él, og 8 st. frost um morguninn, en lygndi um hádegi æði stund.
24. des. (aðfangadagur): Hægviðri að sunnan, skýjað, frost um 8 st. allan daginn. Jón Pálsson kom að fá viðtækið lánað hjá mér. Við dönsuðum og sungum kringum jólatréð, síðan var lesinn húslestur eftir Ásmund Guðmundsson.
25. des. (jóladagur): Logn um nóttina og morguninn og 4 st. frost, smáminkaði frostið og var orðið frostlaust um kl. 1 ½ , utan-austangola og snjóaði dálítið framan af, en suðaustan gola síðdegis, þokuloft en lítil úrkoma, 3. st. frost.
26. des. (annar jóladagur): Utanaustan andvari, þokuloft, frost 2 st, en 3 st. um kvöldið, snjóaði fáein korn öðru hvoru. Við bræddum úr rörunum austan við veginn, hituðum á smiðjunni og helltum heitu vatni í rörin ofaneftir. Dúddi í Geitagerði og Alli komu á jeppa. Rafvatnið fór að renna um kl. 3. Var tekið af um kvöldið kl. 10. Við dönsuðum og sungum kringum jólatré æði lengi.
27. des. (þriðji jóladagur): Núll gráða á mæli, úrkomulaust framan af og gott veður, en krapahríð og allhvass utan síðdegis, frekar frost. Ég fór inn í Arnheiðarstaði og kom með skyrspennu 2 kg að þyngd, með ílátinu. Við smöluðum og gáfum á Stekkhúsunum. Rafvatnið smáeykst. Vélarnar voru farnar að snúast þegar við vorum búnir að drekka kaffið, og gáfu svo mikið rafmagn um kl. 7, að það komu góð ljós og heyrðist í útvarpinu.
28. des.: Rafmagnið er alltaf að aukast, svo það var nærri fullt síðdegis. Vigfús og Dúddi í Geitagerði komu og færðu mér 2 poka af kolum, sem ég var búinn að biðja þá um, og svo komu þeir með bæturnar almanna, síðustu bæturnar vegna Helga gamla, 1881, 90 (kr.) að upphæð, og 745 barnalífeyri. Agnes 1237 kr. Ég gaf ánum öllum í fyrsta skifti á vetrinum, (byrgði þær allar) og hleypti til. Snjóklessa var á jörðinni, sem fraus í nótt, svo ekki var eins gott til jarðar, frost var um 5 st. og hæg suðvestan gola, en 8 st. frost um kvöldið, léttskýjað og þéttstirndur himinn. Gaf Valþjófsstaðaánum blásteins-ormalyf. Það vöntuðu 1-2 ær.
29. des.: Logn og heiðríkt allan daginn, frost 7-8 st. Hleypti til fullorðnu ánna. Gaf veturgömlu ánum blásteinslyf. Gaf öllum ánum hey. Pósturinn kom, Jónas E.
30. des.: Suðaustan allhvass framan af, frost 2 st, þykknaði upp undir kvöld og lygndi, snjóaði dálítið um nóttina.
31. des. (gamlársdagur): Suðvestan kaldi, æði hvass, um morguninn, og kófaði, en lægði svo. Frost 5 st. Gáfum Parthúsánum blásteinslyf, það vantaði í 25 ær. Gáfum öllu fénu hey. (Birnufellskussa bar).

1955:
1. jan. (nýjársdagur): Sunnan hláka (austan kaldi /er síðar ritað) og blíða allan daginn, úrkomulaust, hiti 4 st. Ég hýsti og gaf ánum...Ég skrifaði Páli Zópa... Snjóklessa var á jörðinni, svo þegar tók að hlána, varð svellglerungur yfir allt, svo að vont var að koma fénu að húsum. Ólafur og Agnar fóru út í Holt og lentu með fólkinu þar út í hús til Páls, til kaffidrykkju, svo þeir komu ekki fyrr en kl. um eitt heim.
Alla dagana 1.,2., 3., og 4. jan. voru hlákur og blíða, um 6 st. 3.jan. Þá fór Ólafur minn út í Eiða, og sótti Birnufellsjeppinn hann hingað, kl. um 2 ½, Ólafur Bessi. Gaf ekki Parthúsánum kvöldið, 4. jan. Það vantaði af þeim kvöldið áður. Ég hefi alltaf hleypt í síðan þriðja í jólum. Lömbin staðið inni síðan 18. des., að þau voru bólusett.
5. jan.: Hægviðri og hiti 4 st., blakti ekki hár á höfði, þíðviðri. Hestarnir komu heim á tún. Ég dró undan þeim. Okkur vantaði af fénu í kvöld. Gaf Parthúsánum fiskimél í fyrsta skipti.
6. jan.: Suðvestan, æðihvass framan af, en lygndi heldur. Hiti 3 stig en kul á jörðu fram eftir degi. Þetta er þrettándinn. Sungum og gengum kringum jólatré. Við smöluðum upp á Hlíðar, en vantaði af veturgömlu ánum.
7. jan.: Utan hægur, duttu nokkur snjókorn um morguninn, gránaði aðeins í rót, frost 2 st. Hvessti á norðaustan um kl. 7 um kvöldið. Vantaði ekkert í kvöld. Sendi bréf til Páls Zóphoníassonar með Dúdda og bréf til Stefáns útibússtjóra á Egilsstöðum.
8. jan.: Norðaustan allhvass, en snjóaði ekkert. Dálítill gráði síðan í fyrrinótt, frost 5 st. Ég lógaði kálfinum undan Mullu, hýsti í björtu; féð var allt komið að húsunum.
9. jan. (sunnudag): Kalt, norðaustan, æði kaldi, úrkomulaust, frost 8 st. um morguninn, en 9-10 st. um kvöldið. Enginn kom. Gáfum öllu fénu hey. (Fékk ég 2 flöskur af “Sanasól” frá Birni Björnssyni kaupmanni, Norðfirði).
10. jan. (mánudag): Norðan, og öðru hvoru sló að utan vindinn. Frost 8 st. um morguninn. Kófaði upp í fjalli. Bjartviðri, úrkomulaust. Frost varð fljótt 10 st., og féð stóð stutt á. Gaf öllu fénu hey og Parthúsánum mat í morgun (?). Eiríkur kom á Parthúsin.
10. jan. urðum við að taka rafvatnið af kl. um 5-6. Það fór að lækka spenna svolítið um hádegið; okkur gekk allvel að ná því af. Fórum til þess þegar við komum af beitarhúsunum og drekka kaffi.
11. jan.: Norðan allhvass, smáél., 15 st. frost um morguninn, fór niður í 13 st., en varð 14 st. um kvöldið. Ég gaf ánum bæði morgun og kvöldið. Þær hlupu út dálitla stund, en höfðu ekki viðnám. Léttskýjað að mestu. Pósturinn kom um kl. 5 á jeppa, Gísli Sigurðsson og Bói frá Brekkugerði, (þeir) fóru inn sand, komust ekki upp Hólinn, vegna bólsturs sem er í honum.
12. jan.: Norðan allhvass, heiðskýrt, frost 15 stig um morguninn, 17 st. um kvöldið. Ærnar hlupu snöggvast út. Gaf í bæði mál. Pétur Gunnarsson og Marteinn Pétursson komu á jeppa Matta, með botnóttu gimbrina sem ég keypti af Pétri. Kostaði 300 kr.
13. jan.: Framan vindur og sunnanstæður á Fljótinu á tímabili, en lygndi nær undir kvöldið, frost 16 st. um morguninn, 14 st. um kvöldið. Féð var æði stund á beit, því að það var heldur lygnara. Jón á Arnheiðarstöðum kom á hjóli.
14. jan.: Norðan og norðvestan hvass, léttskýjað, sólskin dálitla stund. Frost 16 og 17 stig.
15. jan. (laugardagur): Gránaði svolítið um nóttina og logn framan af nótt, en norðan hvass um morguninn og 17 st. frost., lygndi undir rökkur. Léttskýjað og stjörnur um kvöldið, og sama frost. Féð ekkert látið út fyrir dyr, og bárum við Agnar vatn í það allt. Stekkhúslækurinn var alveg þurr í gær og Parthúslækurinn þurr í morgun. Bárum við vatnið úr Parthúsdýinu og dýinu á milli húsanna, upp undir brekkunni. Ég fór inn í Arnheiðarstaði að sækja lýsi.
16. jan.: Norðaustan bylur um morguninn, rokhvass um nóttina. Birti síðan til og varð sæmilegt veður æði stund, hvessti síðan norðan og kófaði. Frost var 8 st. um morguninn, en fór svo hækkandi og var 11 st. um kvöldið. Við vorum allan daginn í rafvatninu, sem endaði þannig að rörin ofan vegar voru alveg komin saman, svo ekki fór dropi í gegn. Þá hættum við og tókum vatnið af aftur. Féð stóð allt inni. Gat snjóað því.
17. jan.: Norðan allhvass og heiðskýrt, frost 15 stig. Lygndi undir rökkur og þykknaði upp. Virtist vera sunnan gola á fljótinu. 14 stiga frost um kvöldið. Ég fór inn í Arnheiðarstaði og fékk lánað í eldinn 1 poka kol og 1 poka af taði, 50 pund koks. Jón Pálsson kom. Ég lét ekkert féð út fyrir dyr. Við Agnar bárum í það vatn. Rauða kussa bar kl. um 6 ½ um kvöldið.
18. jan.: Logn um morguninn. Lagarfljót heilrent, svo rennisléttur ís uppúr. Frost var 14 st. en minnkaði ofan í 11 st. Hvessti strax norðan og dróg (?) við léttskýjað, en lygndi heldur öðru hvoru undir rökkur. Frost var 14 st. um kveldið. Fé fór dálítið á beit, en ég gaf fulla gjöf.
19. jan.: Hreitti dálítið að utan fyrst, síðan fór að koma suðaustan gola og fór að minnka frost smátt og smátt, og það var 3 stiga frost kl. 8 um kvöldið. Féð var lengi á beit, og við vorum að taka sundur rafrörin á klettinum. Tómas (?) bílstjóri fór upp í Fljótsdal. Ég sendi með honum poka undir kol, og mjólk í Ás. (Byrjað að gefa Stekkhúskofaánum fóðurbætir).
20. jan.: Sunnankaldi fyrst, rokhvessti síðan og rigndi mikið. Hiti varð 4 st. mest. Stillti upp og lygndi um kvöldið, og fór að frysta. Ég fór þá inneftir og lét út féð æði stund. 5 st. frost um kvöldið, heiðskýrt og norðurljós og stjörnubjart.
21. jan.: Heiðskýrt fyrst en þykknaði upp suðaustan, og snjóaði dálítið, en birti síðan allt í einu og kom sólskin, hægviðri til kvölds, og 6 st. frost um kvöldið, og hvessti þá dálítið vestan. Tómas bílstjóri kom með 20 poka af kolum, 4 poka rúgmél, 6 poka hveitiklíð og 1 poka af fiski, nýjum. (Ég seldi honum 1 poka kartöflur).
22. jan.: Suðvestan kaldi, frost 6-7 st, léttskýjað. Við fórum út í Holt með kvíguna undir tarfinn. Þorrablót í Fellum.
23. jan.: Sunnudagur fyrsti í þorra. Snjóaði fyrst utan um morguninn, en hlýnaði svo og krapa (?) eða rigndi fram um hádegi. Þá stytti upp, og var alveg logn til kvölds, hiti varð 1 stig, en 2 st. frost um kvöldið. Þá blæjalogn og svartaþoka. Jónas Sigþór kom með póst. Hann var í bíl með Þorsteini lækni. Ég fékk bréf frá Ólafi mínum.
24. jan.: Logn og þokuslæðingur og snjóaði dálítið föl, stillti síðan og varð besta veður. Hiti um frostmark allan daginn. Hvessti utan um kvöldið. Við vorum að hita járn á smiðjunni og svíða úr rafrörunum neðan vegar.
25. jan.: Snjóslydda austan fram eftir degi. Hiti 0 st. Hvessti sunnan með hláku og 3 st. hita um kvöldið, en heiddi seint um kvöldið, og kom kul um nóttina. Pálsmessa. Ekkert sólskin.
26. jan.: Blæjalogn og 1-3 st. frost allan daginn. Mikil svell svo vont er fyrir féð að komast að húsunum. Alheiðskýrt um kvöldið og stjörnur.
27. jan.: Logn, skýjað, svartaþoka um kvöldið. Frost 3 stig. Besta veður. Ég fór út í Egilsstaði með séra Pétri í Vallanesi. Hann var að koma ofan úr Fljótsdal, var þar um nóttina. Við fórum um kl. 2 héðan en stönsuðum á Helgafelli. Ég var að fá mér verkfæri og ráðleggingar að ná frostinu úr rafrörunum. Gísli Sigurðsson flutti mig heim á jeppa Péturs á Egilsstöðum. Ég kom heim um kl. 8. Vegurinn var svellaður en Gísli keyrði samt hart. Kostaði 100 kr. (Greitt 40 kr. fyrir epli, sem ég keypti í Kaupfélaginu, dálítið skemmd).
28. jan.: Þokuloft og blæjalogn fram eftir deigi, en hvessti dálítið og fór að snjóa undir rökkrið. Frost 2-4 st. Við vorum að svíða úr rörunum, og Jón Pálsson, Skeggjast., með okkur.
29. jan.: Utan allhvass, snjóaði í éljum, en varð krapaslydda síðdegis. Kólnaði þó heldur aftur. Hiti mest 1 st. en frost um morgun og kvöld.
30. jan. Sunnudagur: Norðaustan hvass og snjóaði í éljum, en birti á milli. Frost 2 st. um morguninn. Féð stóð alveg inni, ég gaf allt í einu á húsunum, og kom ekki heim fyrr en kl. var 2 1/2 .
31. jan.: Norðaustan hvass og snjókoma öðru hvoru, frost 2-3 st. Birti heldur til um kvöldið. Innistaða en hægt að snjóa fénu.

Febrúar
1. febr.: Norðaustan hvass allan daginn og snjókoma dálítil. Frost 3 stig, birti heldur um kvöldið. Ég gaf ám í einu og gat ekki snjógað þeim, og ekki hægt að bera vatn.
2. febr.: Norðaustan kaldi, úrkomulaust fram eftir degi, en él öðru hvoru eftir kl. 11. Frost var lítið, 1 st. Féð fór dálítið á beit en stóð illa á. Kyndilmessa, og sól sást lítið, minnsta kosti ekki í heiði.
3. febr.: Norðaustan allhvass og éljagangur öðruhvoru til rökkurs, þá birti í lofti. Frost var 5 st., 6 st. um kvöldið. Féð fór dálítið á beit, en stóð stutt á. Kófaði.
4. febr.: Norðan allhvass og él um morguninn snemma, lygndi svolitla stund, en rauk svo aftur upp að norðan og var kófmökkur en snjóaði ekki. Sást til sólar í gegnum mokkinn. Lygndi svo allt í einu um kl. 5. Frost var 12-13 st.
5. febr., laugardagur: Norðanbylur um morguninn og dimmur, en birti heldur um kl. 11-12 og lygndi. Mikil snjóél eftir það öðru hvoru, og hvessti aftur. Talsvert frost, 10 st. um morguninn, 6 st. um 1-2, og 8 st. um kvöldið. Bjart.
6. febr.: sunnudagur: Vestan kaldi og 12 st. frost, sólskin meðan sá til sólar, hvessti meira fljótt, en kófaði lítið. Ærnar fóru sem snöggvast á beit, en höfðu ekki viðþol. 14 stiga frost um kvöldið og léttskýjað vestan.
7. febr.: 12 st. frost þegar komið var á fætur, vestan kaldi og nokkur mari í lofti, birti svo og varð sólskin, en alltaf æðihvass norðan, svo féð stóð lítið á, og frost lækkaði ekkert. Vatnið í brunninum þraut alveg.
8. febr.: Norðan kaldi, skýjað, ekki mjög hvass, frost var 7 stig, en 8 st. um morguninn og kvöldið. Jón Pálsson kom.
9. febr.: Norðvestan kaldi, léttskýjað, frost 9 st., 12 st. síðdegis. Eyjólfur á Melum kom að skoða miðsvetrarskoðun. Póstur kom, Bói frá Brekkugerði, og var hann með hest og sleða undir póstinn. Féð fór lítið á beit. (Greitt kirkjugj. 80 kr., fyrir 4 menn, 20 kr. á mann).
10. febr.: Logn öðru hvoru, en norðvestan æði hvass um morguninn. Sólskin, sást ekki ský á lofti. Frost 12 st. um morguninn og kvöldið.
11. febr.: Norðaustan kaldi, léttskýjað, frost 8 st., lygndi æði stund í rökkrinu. Féð dálítið á beit. Alli á Arnheiðarstöðum kom með póst.
12. febr.: Norðan gola fyrst, en lygndi svo alveg. Alheiðskýrt, frost 8 st. um morguninn. Byrjað að gefa lömbunum á Stekkhúsunum fenothasin-ormalyf, gaf 7 lömbum í dag.
13. febr.: sunnudagur: Suðvestan kaldi og varð hiti á mæli, 1-3 st. í forsælu, þykknaði upp á suðurhimni og fallegt loft. Um kl. 4 fór svo að hvessa norðan, og var kominn norðan stormur um kvöldið. Allt kvöldið og nóttina kófaði, úrkomulaust, 6-7 st. frost.
14. febr.: Norðvestan allhvass fyrst, kófaði, frost 6 st. Lygndi svo og varð besta veður, sólskin og framan gola til kvölds. Frost 1 st. um kvöldið. Ég fann Stebba Torfa á bíl niður á fljóti, hann keypti fyrir mig eldspýtur og ...?lyf handa kú. Gimbur drapst á Stekkhúsunum, meðan ég fór heim að borða og bera fjósvatnið.
15. febr.: Logn og heiðskýrt, hiti 0 st. Um morguninn æði norðan kaldi, en 4 st. hiti eftir hádegi, sólskin og tók dálítið austan í móti. 3 st. frost um kvöldið. Ég fór austur í Hafursá og stansaði þar lengi, fór svo norður á húsin. Gott veður.
16. febr.: Utan og norðaustan hvass fyrst, en lygndi heldur fyrir hádegi, og komst utan smáél, að mestu léttskýjað. Frost 6 st. um morguninn, 9 st. um kvöldið og hvass.
17. febr.: Hvass norðan og dálítil snjókoma, sást aldrei austur yfir fljótið. Frost 8 st. allan daginn. Hvessti heldur meira undir kvöld. Ég fór tvisvar inn á hús. Brynti lömbum og veturgömlu ánum.
18. febr.: Norðaustan kaldi, úrkomulaust og að mestu skýjað, kófaði ekki. Frost alltaf 7 st., svo féð stóð lítið á, þykkt loft um kvöldið. Ein gimbrin veiktist svo varð að lóa henni.
19. febr.: Framan kaldi fyrst, lygndi undir hádegi, léttskýjað og sólskin og 12 st. frost um morguninn, en logn og 11 st. um kvöldið. Þetta er þorraþrællinn.
20. febr.: Sunnudagur: Logn, 12 st. frost, heiðskýrt og sólskin. Minnkaði heldur frost síðdegis., en 10 st. um kvöldið, logn. (Gefið gömlu ánum enskt ormalyf í dunkum. Gaf ég á Párthúsum ormalyf (Dungalle)
21. febr.: Norðvestan gola fyrst, lygndi svo. Sólskin allan daginn og logn, frost 8 st. um morguninn en 11 st. um kvöldið, léttskýjað. Fórum inn í Hús með Mullu undir tarf þar.
22. febr.: Blæjalogn og léttskýjað, frost 8 st. um morguninn, 3 st. um kvöldið og svolítil ský á framloftinu.
23. febr.: Suðvestan gola og skýjað, 0 st. um morguninn en 2-3 st. frost eftir kl. 2 og logn.
24. febr.: Dálítið snjóföl, austan gola stundum framanaf, alskýjað, frost 5 st. fyrst, en 2-3 st. síðdegis. (Gaf ég Stekkhúskofaánum ormalyf).
25. febr.: Sunnan rigning um morguninn og 1 st. hiti, 3 st. hiti mest, skýjað og 0 st.um kveldið.
26. febr.: Logn og 3 st. frost um morguninn, er að þykkna upp. Þokuloft og dálítil snjókoma síðdegis, varð 1 st. hiti dálitla stund, svo fór að verða 1 st. frost, blæjalogn.
27. febr.: Dálítil sunnan rigning, logn 1,5 st. hiti um morguninn, hiti mest 4 st., úrkomulaust, sá til sólar lengi og gott veður. Ég fór inn í Arnheiðarstaði. Þeir járnuðu með mér tvo hesta. 2 st. hiti um kvöldið.
28. febr.: Suðaustan hvass og rigning, lægði heldur um hádegið, 4 st. hiti, mikill vatnsgangur, 1 st. hiti um kvöldið og suðvestan allhvass.
Mars
1. marz: Suðvestan gola, sólskin og 2 st. frost um morguninn, þykknaði upp sunnan, besta veður. Kom snjóslydda um kl. 4 ½, síðan birti upp, og 1-2 st. frost um kvöldið.
2. marz: 3 st. frost um morguninn, léttskýjað, allhvass suðvestan, lygndi svo og þykknaði upp suðaustan, létti síðan, hvass þá vestan. Hiti mest 4 st.
3. marz: Norðan kaldi og skýjað loft fyrst, frost 4 st., létti síðan, sólskin allan daginn. 3 st. frost um kvöldið.
4. marz: Norðvestan kaldi fyrst og 4 st. frost, heiðskýrt og 4 st. hiti og sólbráð og blæjalogn strax og allt til kvölds. 3 st. frost um kvöldið. Við fórum inn í Arnheiðarstaði með Rauðu kusu
5. marz: Laugardagur: Sunnan skýjað, logn og hiti 0 st. um morguninn, síðan sunnan gola og hláka, hiti mest 4-5 st., heiðríkt og kul um kvöldið og blæjalogn. Ég fór út í Ormarsstaði á jarðarför Odds Sölvasonar frá Refsmýri, fór ríðandi. (Sendi Helga Gíslasyni á Helgafelli lambsskrokk, 13 kg.)
6. marz: Blæjalogn og sólskin allan daginn, heiðskýrt og hiti 4 st. mest, en 2 st. um morguninn. Kul um kvöldið og 0 st. frost.
7. marz: Glaða sólskin og svolítill sunnanandvari, frost 2 st. um morguninn, hiti mest 7 st., heiðskýrt og 2 st. frost um kvöldið, svolítill norðan kaldi öðruhvoru síðdegis, logn um kvöldið. Allan daginn verið að bræða úr rörunum, til kl. 8 um kvöldið, og komst nærri samgaung.(?) (Svörtu kvígunni haldið undri tarf á Arnheiðarstöðum).
8. marz: Dálítið snjóföl, logn og þoka ofan í Hlíðar; létti til og tók dálítið, logn til kvölds, hiti 3 st. mest, 5 st. frost um kvöldið. Rafvatnið komst í gegntengt (?), og kom rafmagn um kl. 4.
9. marz: Sunnan kaldi, skýjað, sá til sólar fyrst; hiti mest 5 st., 3 st. hiti um kvöldið.
10. marz: Sunnan skýjað, hiti 2 st. um morguninn, nærr logn; hiti 9 st. mest, sunnan gola og sólskin, hvass; suðvestan um kvöldið, 2 st. hiti.
11. marz: 2ja st. frost um morguninn, vestan allhvass fram eftir degi, sólskin, lygndi svo; hiti 2 st. mest, dálítil sólbráð; 1 st. frost um kvöldið. Ég fór út í Skeggjastaði að sækja ormalyf.
12. marz: Suðvestan kaldi, sólskin, frost 2-3 st. fyrst, hiti 3 st. mest. Kom snjó- og haglél, hvessti vestan, kólnaði, 3 st. frost um kvöldið og léttskýjað. Fórum í Arnheiðarstaði með Mullu undir tarf. (Gaf ég veturgömlu ánum sem eftir voru (9) enskt ormalyf.
13. marz (sunnudagur): Logn að mestu, dálítið skýjað, en sá til sólar; hiti mest 5-6 st., 4 st. hiti um kvöldið, logn, hæg hláka. Ég fór í Geitagerði með skattaskýrsluna.
14. marz: Suðvestan gola framan af og 4 st. hiti um morguninn; sólskin, hiti mest 9 st., norðvestan hvass um kvöldið, frost 0-1 st.
15. marz: 6 st. frost um morguninn, dimmdi í lofti, logn, norðan kaldi og sólskin síðdegis, hækkaði frost, 10 stig um kvöldið og mikið heiðskýrt. (Gaf ég á Helga (þriggja vetra) enskt ormalyf, og 3 lömbum í hesthúsinu.)
16. marz: 8 st. frost, smáél, rokhvass norðan fyrst; lygndi heldur; 5 st. frost minnst, 9 st. um kvöldið, ekkert hvasst.
17. marz: 11 st. frost kl. 8, heiðskýrt og logn. Hiti 2 st. mest. Þokuloft síðdegis, smásnýi (?) kom og blæjalogn, 5 st. frost um kvöldið.
18. marz: 9 st. frost kl. 8, norðan hvass, sólskin, lygndi smátt (?), og þykkt loft og logn um kvöldið, 4 st. frost.Við Laufey fórum út í Refsmýri til jarðarfarar Katrínar Jónsdóttur.
19. marz: 9 st. frost og norðan allhvasst fyrst, 4 st.frost minnst, sólskin allan daginn, 9 st. frost um kvöldið. Rafmagnið dofnaði.
20. marz: 13 st. frost, norðan hvass, þykt loft og smáél; frost minnst 8 st. Sá til sólar síðdegis og lygndi heldur; 12 st. frost um kvöldið, skýjað og allhvass norðan.
21. marz: 9 st. frost, norðan allhvass, lægði svo og snjóaði síðdegis, hvessti þá að norðaustan, og 11 st. frost um kvöldið. Póstur kom; Laufey fór með honum út í Egilsstaði til læknis.
22. marz: Fyrsti Einmánaðardagur. Norðaustan kaldi, úrkomulaust, skýjað, frost 6 st. fyrst, minnst 3 st., dró við (?), sá til sólar dálítla stund, 6 st. umkvöldið.
23. marz: Logn, 11 st. frost kl. 8, nokkuð skýjað, en sá til sólar æði lengi.; hiti 0 st. mest, 9 st. frost um kvöldið, stjörnur og norðurljós.
24. marz: Mikið frost um morguninn og héla, sólskin fyrst, þykknaði svo upp, austan, blæja logn; minnst frost 2 st., og 5 st. um kvöldið. (Kom Björn Stefánsson bílstjóri með 1 tonn kol, 2 tunnur af fiskimjöli).
25. marz: Frost 4 st., norðaustan allhvass, skýjað,3ja st. hiti, síðan 2 st. frost; utan allhvass og snjóél um kvöldið.Við hleyptum rafvatninu á kl. 2, glaðnaði smátt svo heyrðist í radíóinu um kvöldið. Spennan er 140 Volt.
26. marz: 2 stig um morgunin, utan gola, dálítil sólbráð, 0 st. mestur hiti,8 st. frost um kvöldið; heiðskýrt, stjörnur og norðurljós.
27. marz: Sunnudagur: Mikið frost um morguninn, heiðskýrt og sólskin allan daginn; viknaði sunnan í móti, frost um kvöldið 6-8 stig.
28. marz: Blæjalogn og sólskin en mikið frost um morguninn, töluverð sólbráð; suðvestan gola um kvöldið, 0 st. og frostlaust um nóttina.
29. marz: Öllum gemlingunum gefið ormalyf (Kópastine) á Stekkhúsum.... (ólæsilegt)
31. marz: Gáfum við 34 ám ormalyf (Fenosithone?) á Parthúsum 27 ám 3ja vetra, og Moldu, Fínhærð(?).

Hér endar dagbókin í þessu vasakveri. Uppskrifað í febr. 2001. H.Hg.

Heiðveig Agnes Helgadóttir