29 October, 2021
# Topics

Fljótsdalsskógar

29 October, 2021

Heimildir um skóga í Fljótsdalshreppi

Tölvuritað í jan. 2003, eftir spjaldskrá sem gerð var á árunum 1987-1990, og viðbótum úr nýlegum heimildum. – H. Hall.
 

Eftirfarandi samantekt er tekin beint upp úr rituðum eða prentuðum heimildum, sem flestar eru ársettar, en vísa þó margar aftur í tímann. Einnig er getið um örnefni er vísa til skóga. Þessar heimildir sýna að fram á 18. öld voru víðlendir skógar í dalnum, og reyndar er Fljótsdalur enn með ríkustu skógasveitum landsins. Nýta má þessar heimildir til að rita skógasögu Fljótsdals en það hefur enn ekki komist í verk.

Almennt

1894: “Skógar og Fljótsdalur eru eitt hið fegursta hérað á Íslandi.... [hér kemur ýtarleg og upphafin lýsing á fegurðinni]
“Fljótsdalur hefur nálega allur verið skógi vaxinn, og sumsstaðar hafa þar verið miklir skógar til skamms tíma. Nokkrar skógarleifar eru enn eftir á þessum jörðum: Hrafnkelsstöðum, Víðivöllum ytri, Arnaldsstöðum; þar er skógurinn víðáttumikill en mjög smávaxinn; Þorgerðarstöðum; þar eru aðeins litlar leifar. Mestur er skógurinn á Hrafnkelsstöðum, og hefur honum farið allmikið fram á síðustu árum... [sjá nánari lýsingu á Ranaskógi /Hrafnkst.] (Sæmundur Eyjólfsson, Búnaðarritið 8 (1894): 22-23.)
“Land hefir hér allt áður verið skógi vaxið, en skógurinn hefir öld eftir öld miskunnarlaust verið rifinn og beittur. Jarðvegur er því nú mjög víða blásinn niður að hinum ísnúnu blágrýtisklöppum. [síðan kemur um Ranaskóg]. (Þorv. Thor.: Ferðabók III, 289).

1781: “Hinn 5. ágúst kom ég að Lagarfljóti. Báðum megin Fljótsins er mikill skógur, hinn hæsti og mesti er ég sá á ferð minni. Hér er einna fegurst á Íslandi. Veldur þar mestu um fljótið, sem líður hægt niður dalinn, og hið dásamlega umhverfi.” (Nikolai Mohr, 1781. / Prentað í “Glöggt er gests augað”, Rvík. 1946.)

(1627): “Ærið lét skógur þar á sjá [í Bót], það sem eftir var þá af honum, frá því að maðkurinn eyddi skógum hér um 1627, þegar Fljótsdalsskógar féllu mest.” (“Af Stóra-Bótar-Jóni.” Þjóðs. Sigf. Sigf. 1. útg. X,15)
Í Desjarmýararannál segir "að í tíð Odds biskups Einarssonar hafi Fljótsdalsskógar eyðst af maðki." (Austurland V, 178)

(1625-30) 1906/2002:“Hann [þ.e. Jón Pálsson í Víðivallagerði] segist hafa heyrt ungur að skógar hafi eyðst eða fallið í Fljótsdal um 1625-30 af maðki.” (Búskapur í Fljótsdal á 19. öld. Múlaþing 29, p. 28).

 

 

Hrafnkelsstaðir / Vallholt (Ranaskógur)

Um 1000?: “Þetta var skógland mikið, og vítt að merkjum, en vont að húsum, og fyrir það efni keypti hann [Hrafnkell] landið litlu verði. En Hrafnkell sá eigi mjög í kostnað og felldi mörkina, því að hún var stór, og reisti þar reisulegan bæ, þann er síðar heitir á Hrafnkelsstöðum.” (Hrafnkels saga Freysgoða).

1397: ...”skogarteig j hrafnkelstada land. bwdar tungo. slefhollz teig.” (Máldagi Valþjófsstaðakirkju 1397. Ísl. fornbréfasafn IV, 209)

1467: ... “og suo wissu wid ad wijdivellir ytri ættv skog vt vid gilsa j rana....” (Úr vitnisburðarbréfi um landamerki, ítök og ítölur Víðivalla hinna ytri í Fljótsdal, dags. 23.marts 1467. Ísl. fornbréfasafn X, 23).

1500: “Hún [þ.e. Bessastaðakirkja] á tvo skógarparta í Hrafnkelsstaða jörð, milli Buskulækjar og að læk þeim sem fellur fyrir framan Brattagerðiseyri, og annan í Glúmhöfðum, millum lækja tveggja. Skógarteig millum Gilsár og Buðlungavallaár... “ (Úr máldaga Bessastaðakirkju um 1500. Ísl. fornbréfasafn VII, 447).

1570: “Skogarteig i Hrafnkelstaðaland. Budartungur. Sleffhollttzteig. (Gíslamáldagi 1570. Ísl. fornbréfasafn. XV, 681).
“... hun [Bessastaðakirkja] ä Skögarpartt i Hrafnkelstaða Jørd. mille Bustarlækiar og ad læk theim. sem fellur fijrer framann Brattagierdiseijre. og annar i Glumhøffdum, millum lækia tueggia.” (Gíslamáldagi 1570. Ísl. fornbréfasafn XV, 682).

1595: ...” svo og líka Skóg út við Gilsá í Rana...” (og annan Skógarpart í Sturluflatarskógi)” (Landamerkjabréf Víðivalla, úr kaupbréfi Erlends B. Magnússonar... dat. Skriðuklaustri 26. marz 1595).

1674: ...”svo og líka Skóg út við Gilsá í Rana og annann Skógarpart í Sturluflatarskógi...” (Vitnisburður um landamerki og ítök Víðivalla ytri, dags. 10. júní 1674 á Skriðuklaustri./ Jarðaskiptagjörningur, dags. 26. maí 1674 á Skriðuklaustri (Jón Bjarnason selur Jóni Þorlákssyni Víðivelli ytri eða hefur jarðaskipti við hann).

1650/1674: “Vitnisburðir tveggja manna, útgefnir 1650, undirskrifaðir báðir, eru svolátandi: að þeir Einar Styrbjörnsson og [eyða hér]... þeir lýsa sig, annar í þrjú ár, en annar í seitján ár, búið hafa á Hrafnkelstöðum, og ségjast heyrt hafa, frá Fiðluklettum og norður að Kirkjuhamri, og þvert austur frá greindum Fiðluklettum í Gilsá, hefur kallaður verið Rani, hvör á landi skilur á milli Hallormsstaða og sagðra Hrafnkéllstaða, og hefur allur sá Skógur, sem í því plátsi er, verið kallaður Ranaskógur, og aldrei hér tvímæli á leikið.”
“Öll þessi framan skrifuð bréf og skjöl, hvörra réttvísleg orð og meining í þetta bréf er innfærð, höfum vér Sjera Ólafur Sigfússon, Thómas Finnson.... [o.fl.] séð og samanlesið, og vottum rétt copieruð.... ásamt Jarðarinnar eiganda og Seljendum báðum á Skriðuklaustri í Fljótsdal, Anno Domini 1674, 10 Júníi.” (Vitnisburðir um landamerki og ítök Víðivalla ytr. /Héraðsskjalsafn Austf., Eg. / Fljótd. 10. /Ljósrit hjá H.Hg.).

1840: “Skógarteig í Hrafnkelstaðalandi; Búðartungur og Slefholtsteig. Af þessum ítökum eru gjörsamlega töpuð: Sverristeigur, Slefholtsteigur, Ketilsstaðasandur, Bakkaskógur í Víðivallalandi, sem nú framvegis er enginn til.” ( Stefán Árnason: Sóknalýsing Valþjófsst., 1840. Sóknalýsingar, bls. 146)....” en útigangur fyrir sauðpening rétt góður á gras- og kvistlendi. Skógur er hér líka nægur til kolagerðar og húsatróðs. Jörð þessi er undirköstuð sandfoki á vetrardag úr eyrum í ánni, þegar hvöss vestanveður uppá falla.” (sama, bls. 143).

1847: “Staðurinn á skóg.... [þ.e. Valþjófsstaður]... skógarteigur kirkjunnar í Hrafnkelsstaðalandi er notaður til eldsneytis.” (Jarðatal Johnsons 1847, vantar bls.).
“Fegurstu skógarreitir sem ég sá eptir að ég kom hingað austur, voru Gotruskógur í Hallormsstaðalandi og Ranaskógur í Fljótsdal. Þeir voru þá þéttvaxnir, og ókræklaðar limar, 3-5 álna háar. Þeir höfðu byrjað að vaxa eptir Síðueldinn, en um það bil sem fénaður var sem fæstur til að stýfa nýgræðinginn, og voru orðnir allt að 2 álnum á hæð um aldamót.” (Sigurður Gunnarsson í Norðanfara 1872)

1861: “Næstliðið vor, nálægt sumarmálum, sendi jeg út í Hrafnkelstaða skóg, til að taka tróðvið á 4 hesta. Kom þar þá Einar bóndi á Hrafnkelstöðum með húskarla sína, fyrirbauð mönnum mínum að höggva og flytja burtu skóginn, og lét sem hann mundi hindra þá með valdi, og sýndi jafnvel að honum var full alvara, með því að hann hjó sundur ól á einni klifinni, en þegar menn mínir létu ekki fælast við ógnanir Einars, lét hann þá að lyktum í friði fara, án þess að gjöra meira að.” (Úr bréfi Péturs Jónssonar pr. á Valþjófsstað til “hinna háu stiftsyfirvalda”, dags. 3. jan. 1861. Um skógarítak og nýtingu Valþjófsstaðakirkju í landi Hrafnkelsstaða / eða í Ranaskógi. / Fljótsdalsskjöl í HERAUST / Kassi 1/ Ljósrit í möppu H.Hg., með handritum úr Fljótsdal) [Fram kemur í bréfinu að málið hófst um 1850 og hefur verið dæmt í því, þannig að Ranaskógur var dæmdur eigendum Víðivalla ytri, en málinu hafði verið áfrýjað til hæstaréttar. Hefur þó líklega verið staðfestur þar]

1861: “Annars skal eg leyfa mér að geta þess, að Vilchins og Gísla biskups máldagar tileinka Valþjófsstaðarkirkju skógarteig (ekki skógarhögg) í Hrafnkelsstaðalandi, og hlýtur þetta að tákna svið með vissum ummerkjum, en sé nú skógurinn á því annaðhvort upprættur af mönnum eða eyddur af náttúrunnar völdum, eða vanti vitneskju um hvar skógarteigurinn hafi legið, finst mér best að ítakið sé með öllu fallið í burtu. Af því nú Valþjófsstaðar prestur hefir ekki sannað hvar skógarteigurinn sé, en munnmæli liggja á því, að teigurinn hafi verið á Gilsáreyri, fyrir utan svonefndan Kirkjuhamar, en neðan reiðgötur, þar sem nú enginn skógur á sér stað framar, þá hefir því verið mótmælt af umboðsstjórnarinnar hálfu, að prestur léti höggva Hrafnkellsstaðaskóg, en með því prófastur sál. Stephán Árnason hafði áður notið þar skógarhöggs.... (Bréf frá Þ. Jónssyni sýslumanni til séra Péturs Jónssonar á Valþjófsstað, dags. 1. marz 1861. /Er í Fljótsdalsskjölum, kassa 1, HERAUST) [Þetta virðist vera niðurstaða málþófs milli Valþjófsstaðaprests og bænda á Hrafnkelsstöðum og Víðivöllum./ Sjá grein mína: “Úr sögu Ranaskógar í Fljótsdal (Ísl. skóglendi 3). Ársr. Skógrf. Ísl. 1989: 19-32.]

1872: “Nú [1872].... svo óvíða sjást nokkrar menjar svo teljandi séu, nema í Hallormsstaða landi, Ranaskógi og í Miðhúsalandi.” (Sigurður Gunnarsson, í Norðanfara 1872, XI, nr. 29-30. Endurprentað í Glettingi).

1873: “Norðan við Hrafnkelsstaði lýkur hálsinum með hinum svonefnda Rana, en endinn á honum, þar sem hallar niður að fljótinu, er vaxinn tiltölulega hástofna birkiskógi. Í hlíðinni milli Hr. og Ranans er tún, ásamt fjárhúsi. Nefnist það Hrólfsgerði...” (Kr. Kaalund: Ísl. sögustaðir IV, 31). Neðanmáls: “Skógurinn sem áður náði yfir alla landareignina, er nú horfinn.” [Kaalund ferðaðist um Austurland 1873].
1884: “ Skóg allan í svokölluðum Rana í Hrafnkelsstaðalandi, eða fyrir utan Kirkjuhamar og Fiðlukletta.” (Landamerkjalýsing Víðivalla ytri í Fljótsdal, ásamt hjáleigunnar Klúku. Víðiv. og Klúku 14. jan. 1884./ Jón Einarsson. / Fljótsdalsskjöl, líkl. í kassa 10, í HERAUST.

1894: “Mestur er skógurinn á Hrafnkelsstöðum, og honum hefur farið allmikið fram á síðustu árum. Þar verður blómlegur skógur á sumum stöðum eftir nokkurn tíma, ef gætilega og hyggilega er með hann farið. Nokkur hluti af þessum skógi heitir Ranaskógur, og er ítak frá Víðivöllum ytri. Var það ítak dæmt Víðivöllum í Hæstarétti 1866. Ranaskógur var að mestu eyddur fyrir 30-40 árum, en hefur vaxið að mun á síðari árum. Á einum stað hefur þar haldist stórvaxinn skógur frá fyrri tímum, á litlum bletti, en hann hefur mjög verið höggvinn, af því þar hefur þótt til mikils að slægjast. Nú eru þar aðeins fáeinar stórvaxnar hríslur; standa þær mjög strjált, og eru ellilegar og dauðalegar sýnum. Það er sem stæðu þar nokkrir niðurlútir og einmana, áttræðir öldungar, dauðadæmdir, hver við sinn höggstokk. (Sæm. Eyjólfsson: Búnaðarritið 8 /1894, 23)

1906: Jón [Pálsson í Víðivallagerði] segist hafa heyrt að Eiríkur Bárðarson bóndi, sem bjó á Hrafnkellsstöðum fram að aldamótum [1800?], hafi höggvið braut af Kirkjuhamrinum (hann er við Jökulsána fyrir utan Hrafnkellsstaði) austur yfir Háls að Gilsá og hlaðið garð úr skóginum til varnar því að lömbin slyppu inneptir. Þau hafði hann á Rananum fyrir utan.” (Búsk. í Fljótsdal á 19. öld. Múlaþing 29, p. 28)
Ritað um 1910?: Jón Einarsson... “bjó á Víðivöllum ytri alla stund og var gildur bóndi, átti Víðivelli. Hann átti lengi í máli út af skógarbletti á grundinni fyrir innan Gilsá, við Lagarfljótsbotn. Þar var einn hinn fegursti skógur um þær slóðir. Hinn aðilinn var Skriðuklaustursumboð. [f.h. Hrafnkelsstaða, sem var Klausturjörð]. Jón vann að lokum málið, hjó síðan skóginn hlífðarlaust og eyddi honum svo gjörsamlega, að þar stóðu aðeins örfá tré 1890, sem einmana vottur um fegurð hans.” (Ættir Austfirðinga, p. 655 / nr. 6335). [Sjá einnig um Jón og skoðanir hans í grein Sæmundar Eyjólfssonar / sjá Viðivelli]

(1907-1922): “Fljótsdalur hefir allur verið skógi vaxinn, og nokkrar skógarleifar eru þar enn á fáum jörðum, einkum á Hrafnkelsstöðum; Ranaskógur var einna nafnkunnastur, hann var fagur og stórvaxinn, en var eyðilagður seint á 19. öld. (Þorv. Thor.: Lýsing Ísl. II, 433).
“Fyrir sunnan Gilsá var áður fagur skógur og hár, er hét Ranaskógur. Þar voru há birkitré og reynihríslur fagrar, m.a. mjög hátt reynitré, sem ártöl höfðu verið skorin í. Það var nú nýbúið að höggva það. Nú eru í Ranaskógi aðeins eftir fáeinar hríslur. Stórir kestir af röftum sýndu þó, að nýlega var búið að fella mörg lagleg tré. Jón Einarsson bóndi á Víðivöllum hefir unnið sér það til frægðar að uppræta þennan fagra skóg. [síðan koma alm. athugas. um “gamlan húsgangshátt”] (Þorv. Thor. Ferðabók III, 289-90).

1941: “Og eftir að komið er inn fyrir Gilsá tekur Ranaskógur við. Er hann einnig víða mjög fagur. Einstök, stór og gömul tré standa þar á grænum bala, með digrum hvítum stofnum og þéttum krónum. Ég taldi þau ekki en þau eru orðin fá. En fyrir um 20 árum var mér sagt að þau hefðu verið hálft þriðja hundrað. Hér hefur maðurinn verið að verki og unnið illt verk. (Ragnar Ásgeirsson: Austur á Héraði. Sunnudagsblað Vísis, 45, 9. nóv. 1941, p. 2).

1944: “Eins og nú hagar til kemst ferðalangurinn ekki nema á fæti eða hesti á fegursta staðinn í Fljótsdal, Ranaskóg. Í Brekkunum niður af honum er gamall áningarstaður, og standa þar einstök birkitré, enn á verði, svo nefndir Einstæðingar.” (Gunnar Gunnarsson: Í Árbók F.Í. 1944, p. 92).

1953: “Um 1860 ólst upp á Hrafnkelsstöðum, Sigurður Einarsson, síðar bóndi á Hafursá og um skeið amtsráðsmaður, búfræðingur frá Stend....Hann sagði mér að í sínu ungdæmi hefði Ranaskógur verið hálfsprekaðar kræklur, sem virtust mundu deyja út, en þó var þá raftskógur á Stórabala (sem myndin er af) og í neðstu brekku Stórhöfða. Um aldamótin 1900 er skógurinn orðinn samfelld skógarmörk, 1-3 m há, og svo þétt, að grunnurinn var orðinn graslaus, svört mosa- og laufdyngja, og lággreinar teknar víða að feyskjast. Ekki er farið að grisja skóginn fyrr en um 1910. Nú er skógurinn 2-7 m á hæð og eins blómlegur sem bezt er í Hallormsstaðaskógi. Ranaskógur hefur nokkrum sinnum farið illa af skógarmaðki, og geldur hann þess að hann var of seint grisjaður, og hve lággreinalaus trén eru eða urðu, fyrir það. Nú eru elstu blettirnir, sem sennilega eru 120-150 ára gamlir, í hrörnun....” (Metúsalem J. Kjerúlf: Ranaskógur. Tíminn 1. febr. 1953).
“Skógarbali og Stórhöfðakinn hafa grasi gróið á síðustu áratugum, og hafa verið slægjulönd, eru ekki skóglendi, að undanteknum trjánum gömlu á Skógarbalanum. Í brekkunum fyrir ofan er allt þakið ungviði og sumsstaðar samfelldur skógur, þar sem var skóglaust með öllu um aldamót... [hér kemur næst um beitina] Stórtrén á Skógarbala og elztu trén í Hallormsstaðaskógi eiga sammerkt í því að vera komin á fallandi fót, fyrir aldurs sakir en ekki áníðslu. (Sama heimild). Grein Metúsalems var rituð af því tilefni að í grein Hákonar Bjarnasonar skógræktarstjóra, í Tímanum 17. des. 1952, birtist mynd úr Ranaskógi með skýringu sem M. var ekki sáttur við.

1975: “Lítils háttar kjarrskógur í góðum uppvexti.” (Fasteignamat 1918 / “Búkolla” II, 70).
“Þar vex hinn þroskavænlegi skógur út með Gilsárgilinu, frá Tófuöxl og norður undir veg, Ranaskógur.” (Sama heimild, bls. 69). “Víðivellir ytri og Klúka áttu skógarítak í Ranaskógi til 1951, að Vallholtsbóndi keypti þau.” (Sama heimild, bls. 70).

1987: “Um Gilsá eru hreppa- og sýslumörk, við tekur Fljótsdalshreppur og Norður-Múlasýsla. Upp með ánni að innanverðu er Ranaskógur í landi Hrafnkelsstaða, nú talinn fallegasti birkiskógur á Íslandi, og leggja margir leið sína þar upp með gljúfrinu, sem er mjög tilkomumikið.” (Hjörl. Guttormsson: Í Árbók F.Í. 1987, p. 55).
Í grein H. Hall “Úr sögu Ranaskógar” í Ársriti Skógrf. Ísl. 1989, er skóginum lýst og saga hans rakin eftir ofangreindum heimildum, sagt frá málaferlum vegna nýtingar hans etc.
Örnefni: “Kolabotn, Kolaás, Timburflötur og Skógarhöfði eru örnefni í Hrafnkelsstaðalandi. Skógarvað er kallað á Jökulsá, þar sem ætíð var fluttur skógviður yfir ána heim að Valþjófsstað..... Skógargötur voru kallaðar niður frá bænum á Klaustri. (Sæm. Eyjólfsson: Búnaðarrrit 8 /1894, p. 26.) [Þessi örnefni eru öll í örnefnaskrá Hrafnkelsst, nema Skógarhöfði; gæti verið átt við þann sem nú kallast Stórhöfði, og er neðan við Ranaskóg]
“Kolás (43) er hryggur, næst fyrir ofan Breiðahjalla. Hann nær frá Hrólfsgerðislæk inn að Bæjarlæk. Kolabotn (44) er upp með Bæjarlæk á Kolás, upp að Hálsbrekku (45).” (Örnefnaskrá Hrafnkelsstaða).”
“Hrólfsgerðishjalli (31) nær frá læknum [þ.e. Kirkjuhamarslæk], inn neðan við Timburhjallarák (32), en Timburflötur (33) er breiður hjalli upp af Timburhjallarák. Á Timburfleti eru tættur eftir fráfærustekk, og því stundum nefnt Stekkahjalli (34). Fram af Timburfleti er Hrólfsgerðisklettur (34a) en framar og neðar Gunnubotn (35) .... (Örnefnaskrá Vallholts). [Nokkurt birkikjarr, eða stakir runnar eru enn í Kolabotni og ofan við Kolás]

1997: "Skógrækt Metúsalems á Hrafnkelsstöðum", grein eftir Sigurð Blöndal í jólablaði Austra 1997. Þar er gerð ýtarleg grein fyrir skógrækt Metúsalems J. Kjerúlf bónda á Hrafnkelsstöðum (1904-1956) heima við bæinn og í svonefndum Pálsreit í Ranaskógi (3 bls.).

Víðivellir ytri (Víðivallaskógur)

1397: “skogarteig wt fra ytRum wideuöllum.” (Máldagi Valþjófsstaðakirkju 1397. Ísl. fornbréfasafn IV, 209).

1500: ...”og skógarpart í Ytri-Víðivalla jörð...” (Úr gjafabréfi Hallsteins Þorsteinssonar og Cecilíu Þorsteinsdóttur konu hans, er þau gefa jörðina Skriðu til “ævinlegs klausturs”, dags. 8. júní 1500. Ísl. Fornbréfasafn VII, 486-487). [Þessi skógarpartur verður síðan ítak frá Skriðuklaustri].

1570: “Skögarteig vt frä ijtrum Vijdevøllum.” (Gíslamáldagi 1570. Ísl. fornbréfasafn XV, 681).


1674: “enn þeir Vídivalla menn héldu allt Jarðarinnar eign út að illu keldu, utan þann Skógarpart, sem Klaustrið átti í geinda jörð og Valþjófstaðir annan Skógarpart.... ........og alla vora æfi höfum vér heyrt Vídivelli ytri þángað að framm land eiga, að fráteknu því Skógarhöggi, er Skriðuklaustri þar tilheyrir, hvört við vissum haldið fyrir utan Lingrima, og þar lét Jón sálugi Biörnsson Skóg taka Klaustursins vegna; líka heyrðum vér hann segja og fleiri, það ítak væri í Skriðuplátsi fyrir utan Língrima; en þegar hann Snióa vegna eður annars, náði eigi Skóg í nefndu Takmarki, og hann annarstaðar í sama Skóg höggva lét, meðkéndi hann sig það uppá gott traust gjöra, við Víðivallam. en með eingri Skyldu; þóttist hann það gjöra méga Klaustursins vegna. Item Í[tala?] Valþjófsstaðakirkju i Víðivalla Skóg, er kémur fyrir beit hundrað fiár í Mánuð....... höfum við heyrt þessi Ítala Valþjófsstaðarkirkju væri fyrir fra[man].... ...... eyri úr þeim læk, sem nærstur er fyrir framan eyrina, og út í........... er nærstur fyrir utan, og upp undir Urðina.” (Vitnisburðarbréf um landamerki og ítök Víðivalla ytri í Fljótsdal, gert á Skriðuklaustri 10. Júni 1674. Héraðsskjalsafn Austf. Eg., Fl. 10 /Ljósr. H.Hg. er torlæsilegt á köflum, væri líklega betra að lesa frumritið).

1840: “...skógarteig út frá ytri Víðivöllum.” (Stefán Árnason: Sóknalýsing 1840, bls. 146).
“Annars vegar er þar góður útigangur og kvistland þá grasbeit brestur; er þar líka góður skógur til kolagerðar og húsatróðs.” (Stefán Árnason: Sóknarlýsing Valþjófsst., bls. 142).

1847: ...”en skógarteigur kirkjunnar [þ.e. Valþjófsstaðakirkju] í Ytri-Víðivallalandi má heita liðinn undir lok.” (Jarðatal Johnsons 1847, p. 366).

1885: “c. Skógarteigur út frá ytri Víðivöllum.” (Endurrit Landamerkjabókar N. Múl., nr. 11 /1885 (Ítök Valþjófsstaðarkirkju). Ljósrit í Héraðsskjalasafni Austf., Eg. og hjá H.Hg.).

1894: “Land Víðivalla ytri var mjög skógi vaxið fram yfir 1840, upp í miðjar hlíðar, og fyrir 1836 var skógurinn svo stórvaxinn og þéttur, að erfitt var að finna naut í honum. Nú eru aðeins fáeinir og lágvaxnir skógarrunnar á víð og dreif í hlíðinni fyrir utan Víðivelli. Hér notuðu bændur fyrrum skóginn mjög til eldsneytis og kolagerðar handa sjálfum sér, og einnig til sölu í fjarðasveitirnar, þar sem kol voru í háu verði, gegn sjávarvöru.” (Úr bréfi Sæbjarnar Egilssonar til Sæmundar Eyjólfssonar. Búnaðarritið 1894, bls. 25-26).
“Á Víðivöllum ytri er skógur að mestu eyddur. Ég skoðaði eigi þær skógarleifar, er þar eru enn eftir. Jón Einarsson, er þar hefur verið alla sína tíð, en er nú fyrir skömmu hættur að búa, sagði mér að í ungdæmi sínu hefði skógurinn verið svo þéttur, að allmiklir erfiðleikar hefðu verið á því að koma fé í haga frá húsum. Enn svo var skógurinn höggvinn og eyddur á allar lundir, og fyrir því er hann nú nálega gereyddur. Jón sagðist alls eigi sjá eftir skóginum. Hann hefði rifið ullina af fénu og verið til ills eins, nema að því leyti, að hann hefði verið notaður til eldsneytis, raftstekju og kolagerðar, því að kol og raft kvaðst hann hafa selt til mikilla muna. Hann sagði að það væri að vísu satt, að landið þar sem skógurinn hefði verið, mundi “blása upp” allmikið, smám saman, eftir að skógurinn væri horfinn, en þá sagðist hann mundu verða “kominn undir græna torfu.”. (Sæm. Eyjólfsson: Búnaðarrit 1894, p. 24).

1917: "Ekki voru menn vissir um erindislokin, því Hallgrímur [Jónsson] var mjög nískur á skóg sinn, og leyfði ekki að hann væri höggvinn til brennslu á vetrum. En svo fór nú í þetta sinn, að prestur kom erindi feginn, með leyfi fyrir tveggja tunna kolagerð, eða sem svaraði hálfum hestburði." (Þórarinn Þórarinsson: Horft til liðinna stunda, Rvík 1981, bls. 39 / Síðan segir Þórarinn nákvæmlega frá kolagerð Valþjófsstaðamanna í skóginum þetta sumar.)

1918: “Kjarrskógur til eldiviðar.” (Fasteignamat 1918 / Skv. “Búkollu” II, 66). “... en á móti því síðarnefnda kom skógarítak í hlíðinni utan við Veturhús.” (Sama heimild, bls. 66). [Átt er við gagnkvæmt ítak milli Víðivalla og Klausturs].

1988:“Rögnvaldur Erlingsson frá Víðivöllum segir, að þegar faðir sinn kom í Víðivelli, hafi menn reynt á allar lundir að eyða skóginum, sem var í Víðivallaurðinni, m.a. til að auðvelda fjárrekstur um svæðið, en fé vildi fenna í Urðinni í fyrstu snjóum. Þetta var raunar misskilningur, því þegar kjarrið þéttist í Urðinni, hætti sauðfé að mestu að fara í hana og urðu þá slíkir skaðar sjaldgæfari. Hann segir ennfremur að fyrst á öldinni hafi menn höggvið braut upp í gegnum skóginn, til að greiða fyrir fjárrekstri upp í fjallið.” (Skv. viðtali H.Hg. við hann 27. apríl 1988).

1998: “Víðivallaskógur er allstórt skógarsvæði í hlíðinni frá Víðivallaurð og inn undir bæ á Víðivöllum II (gömlu Víðivöllum). Skógurinn er víða nokkuð vöxtulegur, þótt hann hafi alltaf verið beittur. Einna hávaxnastur mun hann vera í kvosinni innan við Urðina, og við Hrafnakletta, sem eru klettaás, er gengur út og niður í fremri hluta skógarins.... Allstór og beinvaxin reynitré hittast hér og þar í skóginum.” (H. Hall. Náttúrumæraskrá, handr. p. 78).
[Víðivallaurðin utan við skóginn, er gríðarlega stórgrýtt holurð (framhlaup), og er hún líka skógi eða kjarri vaxin að miklum hluta, með nokkrum reynirunnum. Gríðarleg jarðvegsskriða féll niður í gegnum miðjan skóginn haustið 1979, og skildi eftir sig um 200 m breiða geil, sem enn er að mestu skóglaus. Innan og neðantil er skógurinn mjög gisinn, og raunar bara stök tré á stangli, en mörg þeirra eru allstór og beinvaxin, með miklar krónur. Þar er grasbotn í skóginum, sem gefur honum sérstakan svip. Líklega er Víðivallaskógur í tölu hinna fegurstu skóga á Íslandi, en er þó lítið þekktur. (Hér vantar tölur um stærð og hæð etc.)]
Örnefni: “Innan við hann [þ.e. Lyngrima], upp af Illhöfða, er annar höfði, sem heitir Timburhöfði (35), var áður skógi vaxinn.” [Timburhöfði er líklega áberandi ás, sem endar í klettum að innan og neðan, við Veturhúsalækinn, utan og ofan við Veturhús. Líklega er þar smáhrísla í klettinum, en annað ekki af skógar tagi.]
Sjá einnig örnefnin Neðri-Stöng og Neðri-Stangarrák í sömu örnefnaskrá, sem hugsanlega geta átt við skóg (raftskóg).

Viðivellir fremri / Víðivallagerði?


1397: “... backaskog j wideualla land. oc alla skoga fra lækium fyrer wtan maríutungur (1) oc til sturloaar.” (Máldagi Valþjófsstaðakirkju 1397. Ísl. fornbréfasafn IV, 209).

1493: “Hvn a skogar partt j vijdivallar merkvm hinvm femrum...” (Máldagi Möðrudalskirkju 1493. Ísl. fornbréfasafn. vantar bindi etc.)

1570: “Backaskög i Vijdevallaland. og alla sköga frä Lækium fijrer vtann Maríutungur og til Stullaär.” (Gíslamáldagi 1570 (Valþjófsstaður). Ísl. fornbréfasafn XV, 681).

1840: “Bakkaskóg í Víðivallalandi og alla skóga frá lækjum fyrir utan Maríutungu og til Sturluár... Af þessum ítökum eru gjörsamlega töpuð... og Bakkaskógur í Víðivallalandi, sem nú framvegis er enginn til.” (Stefán Árnason: Sóknalýsing Valþjólfsstaðarsóknar 1839: Múlas. Sýslu-og sóknal., bls. 146)

1847: “Aptur á móti er skógarteigur sá, sem staðurinn [þ.e. Valþjófsstaður] á í Fremri-Víðivallalandi eigi yrktur, en friðaður og í gróðri.” (Jarðatal Johnsons 1847, p. 366).

1885: “b. Skógarítak millum Sturluár og lækjar þess, sem kemur ofan af fjallsbrún og rennur í farveg beint ofan fjallið. Til einkennis er hlaðin hjá honum grjótvarða, þar sem hann kemur úr fjallinu.” (Undirritað 6.6. 1885). (Endurrit úr Landamerkjabók N.Múl., nr. 11/1885. Héraðsskjalasafn Austf., Eg.). [Sbr. áreið Páls og Péturs, sem fyrr var skráð].

Víðivallagerði


1840: “Á þessum jörðum [þ.e. Víðivöllum og Víðivallagerði] er allgóður heyskapur og útigangur, einkum hjáleigunni, sem hefir gott kvistland, þá grasbeit brestur; er á henni líka nokkurt skógarkropp til kolagjörðar og húsatróðs.” (Stefán Árnason: Sóknarlýsing 1839. Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar 2000, bls. 142).

1872: “Í tilefni af því að Valþjófsstaðakirkju máldagar eigna henni skóg í Víðivallalandi, með tilteknum ummerkjum, sem nú þykja ekki alskostar glögg – þá vorum við undirskrifaðir til staðar á skógarplássinu, til að glöggva okkur á, hvar sá lækur væri, sem takmarkar skógarpartinn að utan, og kom okkur saman um að það væri lækur sá, sem kjemur ofan af fjallsbrún og rennur í farveg beint ofan fjallið, og til að einkenna hann var hlaðin hjá honum grjótvarða, þar sem hann kjemur úr fjallinu. – Valþjófstað, 25ta Mai 1872. Kirkjunnar vegna: Pétur Jónsson. Umboðsins vegna: Páll Ólafsson. [Sbr. “alla skoga frá lækjum fyrir utan Maríutungur.”] (Hvaðan er þetta fengið?).

1894: “Innsti hlutinn af landi Víðivallagerðis, sem kallað er enn “í Gerðisskógi”, var mjög skógi vaxinn. Síðustu leifar þess skógar var verið að eyða nú fyrir 20 árum.” (Úr bréfi Sæbjarnar Egilssonar til Sæm. Eyjólfssonar. Búnaðarritið 8 /1894, 25). [Þarna er enn dálítið kjarr uppi í hlíðinni f. ofan nýlega plantaðan lerkiskóg]

1906: “Í Víðivallagerði var fallegur skógur, “Gerðisskógur”, innst í landinu, en þar átti Valþjófsstaðakirkja ítak, og ljetu því prestarnir á Valþjófsstað drjúgum flytja þaðan. Nú sjást þar aðeins strjálir kalstönglar.” (Búsk. í Fljótsdal á 19. öld. Múlaþing 29, p. 29).
[Gerðisskógur: Innst í landi Víðivallagerðis, næst fyrir utan Sturlá, er enn dálítið birkikjarr og stakir runnar eða tré, sem myndar slitrótt belti eftir miðri hlíðinni. Kjarrið er 1-2 m á hæð, og stakar hrírslur um 4-5 m háar á smáklettum og við læki. Hlíðin var girt til skógræktar um 1990, og plantað lerki neðan við birkibeltið. Er þar nú vaxinn upp lerkiskógur. Flestar stöku birkihríslurnar eru þó utan girðingar.]

Sturluflöt


1493: ...”oc sturlu flete j milli tveggja lækia oc kallazt Péturstvnga.” (Úr máldaga Möðrudalskirkju 1493. Ísl. Fornbréfasafn, ? bindi, ? bls.).

1467: ...”og annann skogarpart fram a stulluflaut...” (Úr vitnisburðarbréfi um landamerki, ítök og ítölur Víðivalla hinna fremri í Fljótsdal. Gert á Víðivöllum 23. marz 1467.)

1570: “Skogarhögg i Stulla flataskog.” (Gíslamáldagi 1570. Ísl. fornbréfasafn XV, 674).

1674: “..svo og líka Skóg út við Gilsá í Rana, og annann Skógarpart í Sturlaflatar skógi... [framhald ólæsilegt í afriti mínu]. (Jarðaskiptagjörningur, dags. 26. maí 1674 á Skriðuklaustri, þegar Jón Bjarnason selur Jóni Þorlákssyni Víðivelli ytri /eða skiptir á jörðum]. Hérðasskjalasafnið: Fljótsdalsskjöl í kassa nr. 10).

1894: Sturlárflatarland var fyrrum mjög skógi vaxið; nú sést þar ekki hrísla.” (Úr bréfi Sæbjörns á Hrafnkelsst. til Sæm. Eyjólfssonar. Búnaðarsitið 8 /1894, 25).
“Kiðjafellsskógur”: “Sigurður Vigfússon fornfræðingur kom að Víðivallagerði 11. júlí 1890. Þar hefur hann skifað sér til minnis þessi orð: “Jón Pálsson þar, sem er 87 ára, segir mér eftir bróður sínum, sem er fæddur fyrir aldamót og var bóndi á Þorgerðarstöðum, að í hans tíð voru birkibitar þar í eldhúsinu úr Kiðjafellsskógi. Þeir voru höggnir og kantaðir á hliðum og lítið eitt á röðum. Jón Pálsson sá sjálfur þessa birkibita. Húsið var víst eigi minna en 5 álna breitt og bitarnir þó heldur lengri; bitar þessir voru líkir á digurð í báða enda, og sýnir það hæðina.” (Sæm. Eyjólfsson: Búnaðarssitið 8 /1894: 24-25.).
[Kiðjafellskógur hlýtur að hafa verið í hlíðum Kiðjafells, sem nú heitir Suðurfell (eða Fell), og er fjallsmúli á milli Villingadals og Þorgerðarstaðadals. Hins vegar er óvíst hvoru megin í fjallinu hann var. Fellið var afrétt Valþjófsstaðakirkju, nú kallað Suðurfellsafrétt, en Flatarbóndi hefur lengi haft beitarafnot þar og beitarhús (Fellshús) NV undir fellinu. Nú er enginn skógargróður í Suðurfelli, hvorugu megin. Hins vegar er belti með strjálu og lágu birkikjarri miðhlíðis í fjallinu ofan og innan við bæinn Flöt, og allþétt samfellt kjarr í brattri skriðutorfu utanvert í Strútsgili, í 300-400 m h. y.s., líklega mest um 1-2 m á hæð.]

1906: “Hann [þ.e. Jón Pálsson í Víðivallagerði] segir eptir Sólveigu Pálsdóttur, ömmu sinni á Melum, að Margrjet móðir hennar hafi þekkt kerlingu í sínu ungdæmi, sem sagði að þegar hún var ung hafi Sturluflatarnes verið hvítt af sprekum. Eptir því sem Jón segir um aldur þeirra hefur þetta verið snemma á 17ndu [!] öld.” (Búskapur í Fljótsdal á 19. öld. Múlaþing 29, p. 28)

Þorgerðarstaðir (Stöppuskógur)


19. öld: Sjá ofangreindar klausur um alla þrjá bæina austan í Múlanum.

Um 1900 (1982): “Eg var sauðasmali í 5 ár á svokölluðu Dalshúsi. Þá þurfti nú stundum að viða í eldinn, og var eg látinn höggva skóg og bera heim á bakinu. Það þótt mér vont – hráan og blautan við – svo eg rændi mér spýtum heima hjá fóstra mínum og smíðaði mér sleða á beitarhúsinu. Svo ók eg á honum 2 hestburðum innan af dal, úteptir Keldánni, og eru þó margir fossar í henni. Eg stakk sleðanum öðru hvoru megin við fossana, ofan fyrir, og varð hann ætíð ofaná, því hlassið var þyngra, en þegar heim kom þótti fóstra mínum eg unnið hafa stórt og mikið, og þótti honum þá vænt um sleðann og fékk eg aungvar skútur þó eg rændi spýtunum í hann.” (Pétur Sveinsson: Dálítið úr ættartölu og þáttur af einum Austfirðingi. Múlaþing 19 (1992), p. 196.)

1906: “Stöppuskógur í Þorgerðarstaðahlíðum var stórvaxnastur eða stærstur, en Valþjófsstaðaprestar létu höggva hann miskunnarlaust, því árlega vóru fluttir þangað heim 100 hestar. Mest ljetu þeir höggva þar síra Vigfús og síra Stefán, og mun það enda hafa haldist talsvert við þar til síra Lárus fjekk Valþjófsstað, að því var hætt algjörlega, enda þá hvergi orðinn skógur til í Suðurdal, nema á Arnaldsstöðum; þar er hann talsverður enn og vel farið með hann, að öðru leyti en því að hann er beittur á vetrum.”
Þegar jeg [þ.e. Baldvin Benediktsson] kom hingað 1884 sást hjer hvergi hrísla í landi, nema í einum hvammi sem er hjer inní gilinu við ána, sem ófært er að flytja eða bera úr. Það er heldur fallegur skógur og í framför. Í stöku stað vottar fyrir nýgræðingi, helst innst í hlíðunum. Það er því rangt eða villandi sem Sæmundi heitnum Eyjólfssyni hefur verið sagt, að hjer væru talsverðar skógarleifar.” (Búsk. í Fljótsd. á 19. öld. Múlaþing 29, p. 29).
[Á síðustu áratugum hefur Stöppuskógur (Þorgerðarstaðaskógur) vaxið upp að nýju, og er þar nú þroskalegt skóglendi á 50-100 ha svæði. Niður í Keldárgili er gamall skógur, með stórum birki- og reynitrjám, þar sem heitir Skógarbás og Stóribás og í gilinu inn frá þeim. Einnig eru stök birkitré og runnar í Keldárgili neðan til á dalnum]

1975: “Upp af bænum rísa brattar hlíðar Múlans, með fjórum klettabeltum, skriðurunnar, með grastóm á milli og birkihríslum í klettabelti Kúahjallans.” (“Búkolla” II, 57).
“... þar inn af [þ.e. við Sveinssel á Þorgerðarstaðadal] verður hlíðin brattaminni, með lyng- og grasgeirum og skógarkjarri á stykki meðfram Keldárgljúfri.” (sama heimild, sama síða).

Arnaldsstaðir (Arnaldsstaðaskógur)


19. öld: Sjá ofanritaðar klausur úr Jarðatali Johnsons og Búnaðarritinu, en þær gilda jafnt um þessa jörð.

1840: “Á þessum næsttöldu jörðum [þ.e. Langhús, Arnaldsst. og Þorgerðarst.] er mjög lítill heyskapur, en útigangur rétt góður, þar þær hafa gott kvistland; líka er skógarkropp til kolagjörðar og húsatróðs nægilegt á þeim öllum, einkum á Þorgerðarstöðum, hvar hingað til fengist hefir raftviður til úthýsa. Fyrrum var á þessum jörðum, og ei lengra síðan en 1 mannsaldur, fallegasti og besti timburskógur, allur næstum teinréttur.” (Stefán Árnason: Sóknarlýsing Valþjófsstaðar 1839. Sýslu- og sóknalýsingar, bls. 142).

1863: “Skógarkropp það sem ennþá er í landi jarðarinnar má leiguliði ekki yrkja eða nota, utan í tróð á þau hús, sem á jörðinni eru, til kolagjörðar á ljádengsli, og skal til þess nota kalviði, eptir sem hægt er, einnig til eldiviðar, kalvið og sprek. Landsdrottni áskil jeg 4 hesta af viði ár hvert; öðrum útí frá má leiguliði alls engum ljá skóg, til nokkurrar nytjar, eða líða að nokkuð gangi undan jörðinni, það sem henni fylgt hefur og fylgja á að lögum.” (Úr byggingarbréfi Péturs Jónssonar pr. á Valþjófsstað, til handa Páli Magnússyni,1863, fyrir jörðinni Arnaldsstöðum. /Héraðsskjalsafn Austf. Eg., Fljótsdalsskjöl 1).

1894: “Arnaldsstöðum, þar er skógurinn víðáttumikill en mjög smávaxinn; Þorgerðarstöðum, þar eru aðeins litlar leifar.” (Sæm. Eyjólfsson. Búnaðarritið 1894, p. 25).

1906: “Fyrir aldamótin [1800] bjó á Arnaldsstöðum Einar Rollantsson; hann fjekk bóndann í Víðivallagerði til að höggva skóg með sjer einn dag, fyrir utan og ofan bæinn. Þeir hjuggu 300 rapta um daginn og afkvistuðu og bunkuðu. Síðan fúnaði þetta allt niður, og segist Jón [Pálsson] hafa sjeð þess glögg merki og þau muni jafnvel sjást enn. Um 1810 var skógurinn svo þjettur á Arnaldsstöðum, að Guðmundur Árnason, sem þar bjó þá, hjó braut í gegnum skóginn til að geta komið fje til beitar út í Múlann. Heitir þar síðan Götuhjalli.” (Búsk. í Fljótsd. á 19. öld. Múlaþing 29, p. 28)

1979: “Skógrækt ríkisins hefur ákveðið að gjöf Einars verði varið til framkvæmda í Arnaldsstaðaskógi í Fljótsdal, einhveri fegurstu perlu íslenzkra birkiskóga.” (Sig. Blöndal í minningargrein um Einar Björnsson frá Hnefilsdal. Ársr. Skógrf. Ísl. 1979, bls. 65.

1998: “Arnaldsstaðaskógur er í brattri austurhlíð Múlans, ofan og utan við bæinn Arnaldsstaði, ysti hlutinn í ófærum klettabeltum. Skógurinn er víða beinvaxinn og fagur og blómgróður töluverður í honum. Hæstur er hann á Skógarhjalla, sem er neðantil í hlíðinni. Þar eru nokkur reynitré, beinvaxin, og líklega allt að 10 m há. Innantil nær skógurinn frá láglendi upp í um 300 m h. y.s., en utantil er hátt klettabelti fyrir neðan skóginn.
Guttormur Pálsson (1948) telur skóginn vera 125 ha að stærð, meðalhæð 3-4 m og hæstu tré 8-9 m. Í skógakönnun um 1970 er skógurinn talinn 100 ha að stærð og meðalhæð yfir 4 m. Nú er meðalhæðin líklega um 5-6 m og hæstu tré yfir 10 m. Ytri hluti skógarins er eign Skógræktar ríkisins. Skógurinn er ekki beitarfriðaður.
Margar aurskriður hafa fallið niður í gegnum skóginn og sópað honum burtu á breiðum beltum, svo nú eru þar berar eða gróðurlitlar geilar, en birkið virðist þó sá sér fljótt í þær aftur. Mestu skriðurnar féllu haustið 1941, og hlupu sumar þeirra á Arnaldsstaðatúnið.” (Helgi Hall.: Náttúrumæraskrá Fljótsdalshéraðs, handr. 1998, bls. 84)


Langhús / "Suðurmúli"


1847: “Staðurinn [Valþjófsstaður] á skóg til kolagjörðar í Langhúsa-, Arnhallsstaða- og Þorgerðarstaða löndum.” (Jarðatal Johnsons 1847, p. 366).

1894: “Öll hin eystri hlíð Múlans, milli Suðurdals og Norðurdals, var einnig jafnlengi frameftir skógi vaxin, og Þorgerðarstaðadalur vestan ár. [Þ.e. fram á minni þálifandi manna]. Alt þetta land var vaxið þéttum en lágum skógi. Nú er skógurinn allur horfinn, nema lítið eitt er eftir í Arnaldsstaða landi.” (Úr bréfi Sæbjarnar á Hrafnkelsstöðum til Sæm. Eyjólfssonar Búnaðarritið 8 /1894, p. 25).

1906: “Jón [Pálsson] segir að mestur skógur hafi verið hjer í sveitinni í öllum Suðurmúla, utan frá Langhúsum alla leið innst í Þorgerðarstaðahlíðar.” (Búsk. í Fljótsd. á 19. öld. Múlaþing 29, p. 28)
[Nú er ekki teljandi skógur í landi Langhúsa austan í Múlanum, en víða eru hríslur í klettum, og jafnvel kjarr á milli hjalla utan við Arnaldsstaðaskóg. Vestan megin sést ekki hrísla].

Glúmsstaðasel:

[Engar heimldir um skóg og enginn skógur nú]

Glúmsstaðir I og II:

[Engar heimildir um skóg og skóglaust nú]

Kleif (Kleifarskógur)


1397: ...”land vnder kleif fram fra þuridarstödum wnder iökla med ollum gædum. wtan skog.” (Úr máldaga Valþjófsstaðarkirkju 1397. Ísl. fornbréfasafn IV, 209).

1570: “Land vnder Kleiff framm frä Thuridarstödum vnder Jökla med øllum giædum. utan skög.” (Gíslamáldagi 1570. Ísl. fornbréfasafn 15, 681).

1841: ...” og ei önnur herlegheit en skógarkropp til kolagjörðar og húsatróðs...” (Stefán Árnason: Sóknalýsing Valþjófsstaðasóknar, 1841. Múlaþing. Sýslu og sóknal. bls. 141).

1865: “Það litla skógarkropp sem er eptir í jarðarinnar landi, má hann ekki brúka nema til bráðustu heimilsnauðþurfta, en engum ljá eða leyfa í að yrkja; einasta áskil jeg sjálfum mjer rétt til að taka þar við í bráð, þegar mig nauðsynjar.” (Úr byggingarbréfi séra Péturs Jónssonar á Valþjófsstað, til handa Jóni Sigfússyni, fyrir jörðinni Kleif, 1865. /Héraðsskjalsafn Austf. Eg. /Fljótsdalsskjöl 1). [Hér virðist skógurinn einnig vera kominn í eigu kirkjunnar, þótt svo sé ekki í gömlum máldögum].

1894: “Í dalnum inn frá Kleif eru enn leifar af skógi, sem hætt er að eyða, og því eru að aukast. (Úr bréfi Sæbjarnar á Hrafnkelsst. til Sæm. Eyjólfssonar. /Búnaðarritið 8. árg. 1894, p. 25.)

1906: “Ekki man Jón [Pálsson] eptir skógi á Norðurbyggð, nema á Kleif, ”Kleifarskógur”; þar er dálítill skógur enn.” (Múlaþing 29, p. 29).

1927: “Kleifarskógur: “Hvergi hef ég séð á einum stað vaxa jafn mikið af eini og innanum kjarrskóg þennan. Og þar uxu hvannir (Angelica og Archangelica) í stórum flekkjum, einkum í hinum röku giljadrögum, sem víða liggja niður í gegnum skóginn.” (Ingimar Óskarsson: “Gróðurrannsóknir”. Dagur (Akureyri), 41. tbl. 1927, p. 154.) .

1942: “Upp úr Norðurdal, inn af Fljótsdal, gengur dalverpi til hálendisins, meðfram Jökulsá, er Kleifardalur heitir. Dalverpi þetta er skógi vaxið, að vísu ekki hávöxnum, vegna þess hve hátt það er yfir sjó. Skógur þessi er höggvinn nokkuð, en fjarlægðin frá bæjum verndar hann að nokkuru fyrir ágangi búfjár, og það eitt virðist nægja til að tryggja honum lífsskilyrði, þótt á hálendinu sé.” (Þór. Þórarinsson: Viðaröxi og sauðartönn. Ársr. Skógrf. Ísl. 1942, bls. 42).

1975: “Er kemur inn undir Ófærusel, taka við skógi vaxnar dalbrekkur, Kleifarskógur, en grasi grónar hlíðar ofar.” (“Búkolla” II, 47).

1998: “Kleifarskógur. Fyrir innan Ófæruna er Kleifarskógur, á klettahjöllum og í bröttum brekkum, og nær á tveim stöðum alveg niður í Jökulsárgilið, þar sem heitir Ytri- og Innri-Kinn. Þar fyrir innan eru skógi vaxnir klettastallar í gilinu. Fjöldi lækja rennur niður í gegnum skóginn í grunnum giljum, og smáfossum, og gera hann óvenju líflegan og aðlaðandi. Yst er Mjóagilslækur í klettagjá ofantil, og meðfram honum er gamall grjótgarður. Neðst í skóginum er Götuhjalli.
Kleifarskógur vex einna hæst yfir sjó af öllum skógum á Austurlandi, eða milli 200 og 350 m hæðar, og kjarrteygingar ná líklega upp í um 400 m h. Meðalhæð skógarins neðantil er um 4-5 m, en stöku tré allt að 7-8 m há. Einir setur mikinn svip á gróðurinn efst í skóginum og fyrir ofan hann, en þar er hlíðin víða þakin í einibreiðum. Skógurinn er blómríkur og hvannir eru áberandi við læki, geitla ofantil en ætihvönn niðri í gilinu. Um 80 plöntutegundir hafa fundist í Skóginum. Ein reynihrísla er yst og neðst.
Guttormur Pálsson (1948) áætlar stærð skógarins 50 ha, meðalhæð 1-2 m og hæstu tré 3-4 m. Í skógakönnun um 1970 er stærðin talin um 80 ha, en þá er líklega kjarrið undir Kleifarbjargi talið með. Gata hefur lengi legið gegnum skóginn á Götuhjalla, en nú hefur skógurinn lokað henni, og liggur gatan nú á næsta hjalla fyrir ofan. Hefur nýlega verið höggvið frá henni, svo þar er nú allbreið geil og hestagata, sem er hluti af vinsælli ferðamannareiðleið inn á Vesturöræfi. Liggur þessi slóð upp úr skóginum innantil, og upp á heiðarbrún við Hvíldarhnjúka.” (Helgi Hall.: Náttúrumæraskrá Fljótsdalshéraðs, handrit, bls. 86).
Sjá ennfremur grein H. Hall.: Kleifarskógur og Ófærusel. Gálgás 12 (6, jólablað): 12-13.
[Undir Kleifarbjargi innantil eru miklar grjótskriður. Á síðustu áratugum hefur vaxið upp mikið kjarr í þessum skriðum. Einnig hefur vaxið upp kjarr og stakir trjálundir í brekkum innan ofan við Ófærusel, báðum megin við stuðlaklettabelti sem þar er, og nær það nú saman við gamla skóginn (Kleifarskóg), sem einnig hefur hækkað og færst út]


Egilsstaðir

[Engar heimildir um skóg og engar skógarleifar nú]

Hóll / Þuríðarstaðir (Bjargskógur)


1918: “Skógur í uppvexti” (Fasteignamat 1918 / Skv. “Búkollu” II, 42)

1975: “Birkiskógur töluverður vex uppi á Bjarginu, inn og upp af bæ, og setur svip á hlíðina.” (“Búkolla” II, 42. /Hóll).
“Fjallshlíðin fyrir ofan tún er brött, vaxin grasi, lyngi og fjalldrapa og yzt birkikjarr, framhald af Hólsskógi.” (“Búkolla” II, 44 / Þuríðarstaðir).
Örnefni: “Fyrir ofan brúnina eða Bjargið er fyrst Bjargskógur (79).” (Örnefnaskrá Valþjófsst. /Hóls).
[Hlíðin ofan við Hól er að miklum hluta vaxin skógi eða kjarri, sem hefur líklega aukist mikið á síðustu áratugum 20. aldar. Þar heitir Geitahjalli næst fyrir neðan Hólsbjarg, og er mikið kjarr í brekkunum milli hans og Bjargsins, og fjöldi reynitrjáa. Í Geitahjallarákum neðan hjallans er samfelldur skógur með stórum birki- og reynitrjám. Bjargskógurinn er í snarbrattri hlíð ofan við Bjargið að innanverðu, og nær fram á Bjargsbrún. Hann er með stærstu skógum í Fljótsdal, allur ofan við 200 m h. y.s., nær inn í land Þuríðarstaða og breiðist út á þá átt.]

Valþjófsstaður


1847:Ítök: “Staðurinn átti skóg til kolagjörðar í Lánghúsa-, Arnhallsstaða- og Þorgerðarstaðalöndum, en skógarteigur kirjunnarí Ytri-Víðvallalandi má heita liðinn undir lok; skógarteigur kirkjunnar í Hrafnkelsstaðalandi er notaður til elsneytis. Aptur á móti er skógarteigur sá, sem staðurinn á í Fremri-Víðivalla landi eigi yrktur, en friðaður og í gróðri.” (Jarðatal Johnsons 1847, p. 366).
1894: “Í minni þeirra manna, sem nú lifa, en eru hnignir á aldur, voru skógar um alla hina skjólsömu og brattlendu hlíð Norðurdalsins, frá Valþjófsstað að Kleif, meiri eða minni. Mestur var skógurinn í Valþjófsstaða landi, þar á milli og Hóls. Nú sést varla hrísla á öllu þessu svæði, en þó hefur landið eigi blásið upp, því að það er í hlje.” (Úr bréfi frá Sæbirni Egilssyni á Hrafnkelsst. til Sæmundar Eyjólfssonar, í grein Sæmundar í Búnaðarssitinu 8, 1894, p. 25).

Örnefni: “Skógarvað er kallað á Jökulsá, þar sem ætíð var fluttur skógviður yfir ána, heim að Valþjófsstað, þegar hann var höggvinn í Þorgerðarstaða-, Arnaldsstaða, Langhúsa-, eða Víðivallagerðislandi. Skógargötur voru kallaðar niður frá bænum á Klaustri.” (Úr bréfi Sæbjarnar á Hrafnkelsst. sem fyrr var vitnað til. Búnaðarritið 8/1894, 26). “...þar er svo næst innan við svæði sem nefnt er Hrísnes (5). Valþjófsstaður átti skógarítak hér handan ár, en þeir beit á Hrísnesbökkum.” (Örnefnaskrá Valþjófsstaðar).
Valþjófsstaðafjall: “Það vekur furðu margra, er fara um Fljótsdalshérað, einkum Fljótsdalinn, að sjá flest allar bergsyllur og hamrabrúnir kögraðar skógi, og það oft ærið stórvöxnum, þó að hann á stundum virðist vaxinn út úr berum klettinum. Brekkurnar fyrri ofan og neðan eru algerlega firrtar öllum skógargróðri, þó að margfalt frjósamari séu. Ég veitti þessu sérstaklega athygli í Valþjófsstaðafjalli. Þar er þessi “hamraskógur” býsna mikill, og margar hríslurnar ótrúlega þroskavænlegar. Oft féllu þessi tré, annaðhvort fyrir elli sakir, eða brotnuðu undan snjóþunga. Hríslurnar sem eftir urðu fóru þá að vaxa þeim mun meira, og nýgræðingurinn beið jafnan eftir vaxtarrýminu og sólinni, og syllan varð jafn skógi vaxin og áður. Á hverju sumri finnast skógarplöntur, hundruðum saman, í brekkunum fyrir neðan, stundum fast að því 50 sm háar eftir sumarið. Næsta vor eru þessir nýgræðingar allir horfnir. Sauðartönnin hefur séð fyrir þeim, þó að hún næði ekki til bræðranna og mæðranna á bergsyllunni fyrir ofan.” (Þórarinn Þórarinsson: Viðaröxi og sauðartönn. Ársrit Skógrf. Ísl. 1942, bls. 41-42).

Skriðuklaustur


Örnefni: .... “og engia teig með ummerkium fyrir framan skogar gauturnar ofan frá Skriðu...” (Úr vitnisburðarbréfi um landamerki og ítölur Víðivalla hinna ytri í Fljótsdal, dags. 23 marts 1467 á Víðivöllum. Ísl. fornbréfasafn X. bindi, bls. 23.)
“Skógargötur voru kallaðar niður frá bænum á Klaustri.” (Úr bréfi Sæbjarnar Egilssonar á Hrafnkelsstöðum til Sæmundar Eyjólfssonar. / Búnaðarritið 8 / 1894, p. 26).
[Óvíst er að þessar Skógargötur vitni um skóg í Skriðulandi, þær hafa líklega dregið nafn sitt af því, að um þær var fluttur skógviður austan frá Víðivöllum og Hrafnkelsstöðum, þar sem klaustrið átti skógarítök. Sjá grein Sæmundar. Skógargróður hefur haldist á Klaustri í Klausturhömrum, neðan við bæinn, en það er klettahjalli allhár, með röð af allstórum birkitrjám á brún og í syllum, einnig nokkrum, ungum reynitrjám, gulvíði o.fl. Sagt er að ekki megi skerða þennan trjágróður, ella sé skepnum hætt]


Hamborg / Bessastaðir / Bessastaðagerði:

[Engar heimildir um skóg, en nokkur birkitré eru í Bessastaðaárgili]

Melar


18. og 19. öld: “Páll faðir Jóns [Pálssonar í Víðivallagerði] segir í sínu ungdæmi hafi verið svo mikill skógur á Melum, að opt hafi orðið leit úr kúnum út og upp á Stekkabölum. Nú er þar ekki nokkur kvistangi til.” (Búskapur í Fljótsdal á 19. öld. Múlaþing 29, 2002, p. 28 / Ritað 1906)
“Nú sjest ekki nokkurt hús með upprepti af birki einvörðungu hjer í sveit, nema eitt fjárhús á Melum, sem er orðið yfir 100 ára gamalt, með tómu upprepti af birki úr Melaskógi. Ein stoðin í því er úr reyniviðarhríslu úr Hengifossárgili. Húsið er allvel stæðilegt enn, en snýr öðru vísi en önnur hús, sem nú eru byggð; það snýr norður og suður og tekur um 50 fjár fullorðið, og er í meðallagi að breidd.” (Sama heimild, bls. 29).

1953: “Ég man eftir Miðhúsinu á Fjárhústúninu og birkireftinu í því. Það kemur ekkert í bága við fall Melaskógar eftir Móðuharðindin, þó það hafi ekki verið byggt fyrr en um 1800. Skógurinn hefir ekki dáið út í einum svip. Trén hafa staðið dauð og blaðlaus, og hafa þau einmitt verið höggvin og notuð í húsið. Slíkir visnir skógar voru kallaðir fauskaskógar. Eftir fall skógarins hefur landið svo farið að blása upp.” (Úr bréfi frá Halldóri Stefánssyni, Rvík, til Metúsalems J. Kjerúlf á Hrafnkelsstöðum, dags. 18. apríl 1953. / Hérðasskjalas. Austf., Eg.).

1961: “Fróðlegt væri að kunna sögu Melaskógar. Ennþá lifir orðtakið: “Enn heimtist úr Melaskógi.” Bendir það til að hann hafi seint verið smalaður til fulls. Orðtak þetta mun vera frá 18. öld, eða eldra en Móðuharðindi. Þau voru dauðadómur yfir öllum skógum á Fljótsdalshéraði, því að af öskufallinu féllu allir skógar, og náðu ekki að vaxa aftur sv að þeir þyldu fjárbeit, almenn afnot og hart árferði. Á Melum var fjárhús með birkirafti og reyniviðarstoð úr Melaskógi. Var það byggt á tímabilinu 1780-1800. (Rifið um 1920).” (Metúsalem J. Kjerúlf: Æskuminning. Heima er bezt, 11 (7), 1961, p. 236).
Ytrasel, Melum: “Þar var selstaða frá Skriðuklaustri í gamla daga, og brennt skógi í selinu á sumrin. Auk þess var fluttur skógviður á 30 hestum heim í Skriðuklaustur á hverju hausti.” (sama heimild, bls. 236).
[Sjá einnig lýsingu hans á náttúrufegurð á selinu: “Þar hefðu Dalvísur Jónasar Hall vel hafa verið kveðnar, “Fífilbrekka gróin grund.” Ætti þar Hengifoss sjálfur að vera Gljúfrabúinn.”]
“Seltætturnar eru neðan við hlíðina, í dæld út við gilið. Þá var mikill skógur í Melalandi, var eingöngu brennt skógi í selinu.... “ (Örnefnaskrá Mela, p. 5)
1975: “Heiðabrekkurnar ofan við bæ eru aflíðandi hið neðra, en brattari ofar og til brúna. Þar var skóglendi fyrr, og leyfði Skriðuklaustur að höggva og flytja þaðan 30 hb. viðar árlega. Skógurinn er nú horfinn með öllu, eyddist mest fyrir öskufall á 18. öld og 19. öld.” (“Búkolla” 1975, II, 26).
Örnefni: “Fram og upp af bænum, í hvarfi [er] Neðrimýri (45), ofan hennar er Efrimýri (46). Móbarð er á milli þeirra, sléttur flötur, sem heitir Skógarland (47), er fram af Blautadal (48), en um hann rennur Fjárhúslækurinn.” (Örnefnaskrá Mela, p. 4). [Nokkuð er af birkitrjám í Hengifossárgili, þó aðallega að utanverðu, sbr. Brekku] Sjá ennfremur grein H. Hall.: “Enn heimtist úr Melaskógi.” Austri 34. árg., 20.4.1989, p. 5.

Brekka


17. öld: “Leiti ber að fyrir utan Brekku, en fyrir utan það var skógur mikill.... Þegar Jón heyrði þetta hljóp hann að einni skógareikinni, reif hana upp með rótum og barði á báðar hendur með klumbunni, svo að bani var búinn hvörjum sem fyrir hefði vorðið...” (“Jón Guttormsson” í Þjóðs. Jóns Árnasonar, 2. bindi (1962), p. 147).
[Jón var f. 1631, og á lífi 1703. Því ætti þetta að hafa gerst á síðasta áratug 17. aldar. Nánar í Þjóðs. J.Á. II, bls. 146-147. Nokkur skógargróður er í Hengifossárgili að utanverðu, sem áður tilheyrði Brekku en nú nýbýlinu Hjarðarbóli, og þar heitir Skógarhvammur neðantil í gilinu, vaxinn birki og reynitrjám. Þá eru stök birkitré í klettum og bökkum meðfram Lagarfljóti, utan við bæinn].


Brekkugerði og Hús:

[Engar heimildir um skóg, en birkitré vaxa þar víða í klettum, einkum meðfram Lagarfljóti, og á Húsum er eitt reynitré við Stekk utan við bæinn]


Geitagerði:

[Engar heimildir um skóg, en mikið um birkitré í klettum meðfram Lagarfljóti, utan og neðan við bæinn. Mikil skógrækt nú]

Arnheiðarstaðir, Geitagerði, Droplaugarstaðir


1626: ....” og skil eg það til að hann vakte Arnheiðarstaðaskóg og láti vakta, so hann sie ecke yrktur nje aðsóktur ólöglega aff neinum manne. Þar með vil eg hann forlýkest vel við Prestenn á Walþjóðstað umm þann part sem Walþioðstaðar kirkia á í fyrrsagðre jörðu.” (Brieff umm Arnheiðarstade” dags. 22. apríl 1626. / Bréfabók Gísla biskups Oddssonar, p. 210. /Landsbókasafn 1640, 4to. /Ljósrit í Héraðsskjalas. Eg.

1629: “Geithúseð framm i skögie niður fallið so auðrumeginn liggur rapturinn á golffe, huseð 6 faðmar.” (“Húsenn aa Arneiðarstauðum. (Úttekt frá 23. okt 1629). Bréfabók Gísla biskups Oddssonar. Ljósrit hjá H.Hg.)
[Í þessari úttekt er víða minnst á “birkirapt” í gripahúsum, t. d. er fjósið “með óllum gómlum birkevid”]

1840: “Engum sérlegum áföllum er jörð þessi undirköstuð, og að öðru leyti er hún ei af sér gengin en því, að nú er þar enginn skógur, hvar hann áður var þó töluverður, eins og alls staðar annars staðar í Fljótsdal.” (Stefán Árnason: Skýrsla yfir Valþjófsstaðakirkjusókn 1840-1841, dags. 28. sept. 1841. Múlasýslur. Sýslu og sóknalýsingar, bls. 139).

Örnefni o.fl.: Yst í landi hinu gamla landi Arnheiðarstaða, sem nú tilheyrir nýbýlinu Droplaugarstöðum, heita Kolásar, allstórt svæði, með smáklettum, þar sem jarðvegur er mikið uppblásinn, í 200-300 m h. y.s. Sagnir eru um að Kolásar hafi verið skógi vaxnir, jafnvel fram á 19. öld, og hafi verið torvelt að finna kýr þar. Mikið er um kolagrafarbotna í uppblástursflögum, og liggja leifar kolanna þar sumsstaðar á yfirborðinu. Allstór birkitré eru víða í klettum og giljum, einna samfelldust í Fosshjalla utan við Geitána, og þar eru líka nokkur reynitré]
Ítak: “Skógarítak í Hallormsstaðaskógi (sameign við Geitagerði) er í miklum uppvexti, en hefur ekki verið höggvið um fleiri ár.” (Fasteignamat 1918). [Ítak þetta er milli Jökullækjar og Ljósár, neðan vegar, og er nú að mestu þakið skógi].


Tölvuritað í jan. 2003, eftir spjaldskrá sem gerð var á árunum 1987-1990, og viðbótum úr nýlegum heimildum. – H. Hall.
 
Super User

© Helgi Hallgrímsson 2021