04 November, 2021
# Topics

Vísað til vegar í Fljótsdal

04 November, 2021

Vísað til vegar um Fljótsdalshrepp
Frá Gilsá að Hrafnsgerðisá
(1995-97)

Við Gilsá eru mörk Valla- og Fljótsdalshreppa, og tekur sá síðarnefndi yfir dalina og öræfin þar fyrir innan, allt til jökla, og út að Hrafnsgerðisá handan Fljóts, þar sem Fellahreppur hefst. Mörk gagnvart Jökuldal hafa alltaf verið óviss og eru enn. Í huga Héraðsbúa er Fljótsdalur = Fljótsdalshreppur, en þeim sem lítt þekkja til þykir eðlilegra að tala um Fljótsdal allt umhverfis stöðuvatnið Lagarfljót (Löginn), frá Egilsstöðum og upp eftir, eða a.m.k. frá Vallaneshálsi og Ási í Fellum, þar sem segja má að dalurinn hefjist samkvæmt landslaginu. Ef að hrepparnir á Héraði sameinast, má búast við að einnig heimamenn fái aðra tilfinningu fyrir þessum örnefnum.
[Efni þessa pistils var að miklu leyti tekið inn í bókina Fljótsdælu – Mannlíf og náttúrufar í Fljótsdalshreppi, sem út kom 2016, en þar öðruvísi skipað niður.]

Gósenlandið Fljótsdalur


Hver hreppur á sér sína sögu, og saga Fljótsdalshrepps er á ýmsan hátt sérstæð, allt frá Landnámsöld. Þar voru óvenju miklir landkostir og veðurfar með því besta sem þekkist á Íslandi. Óvenju margar góðjarðir og höfuðból eru í hreppnum, og á þeim sátu embættismenn og valdsmenn löngum. Hér var eina klaustrið í fjórðungnum, læknissetur og spítali á Brekku, og heimsfrægur skáldbóndi á 20. öld.
Frá náttúrunnar hendi er Flótsdalur einkar vel fallinn til búskapar. Dalurinn er langt inn í landi, en botn hans er þó lítið hærri en sjávarmál. Dumbungsveður í hafátt nær þangað sjaldnar og í minna mæli en í aðrar sveitir Héraðs, og þar er að jafnaði snjólétt. Frjósamur jarðvegur er á flæðisléttunni í dalbotninum, og víða nánast sjálfgert tún. Þá tilheyra hreppnum eða stórjörðum hans mikil afréttarlönd og vel gróin.
Eftirfarandi vísa túlkar vel það álit sem Fljótsdalurinn naut á öldinni sem leið:

Fljótsdalur, hrósið framtaksins,
fær þá glósu víða,
að hann sé rósin Héraðsins
haldinn Gósen bændakyns.


Hér er vísað til þess, að á 19. öld og fram á þá tuttugustu voru íbúar Fljótsdalshrepps töluvert á undan sinni samtíð, einkum í félagsmálum og ýmsu er laut að búskap. Einnig voru skáldskapur og tónlist iðkuð þar í meira mæli en gengur og gerist.
Náttúra dalsins er ákaflega fjölbreytt. Til dæmis er ólíklegt að nokkur sveit geti státað af öðru eins fossaskrúði og þar er að finna. Hlíðar eru skógi klæddar og blómlegar á ýmsum stöðum, en hinu er ekki að neita, að víða er gróður rýr og illa farinn eftir þúsund ára ofnýtingu, og jarðvegur hefur víða eyðst í hlíðum. Fyrir 25 árum hófst sérstakt átak í því að græða aftur upp skóga í Fljótsdal, sem nefnt var Fljótsdalsáætlun. Varð það upphaf að stofnun Héraðsskóga og skógarbúskap sem nú er stundaður á Upphéraði.
Þegar fyrsta manntal var tekið 1703 voru íbúar hreppsins 214, og jafn margir 1801, en urðu um 300 á fyrstu áratugum 19. aldar. Þeir eru nú um 100.

 SUÐURBYGGÐ

Fljótsdalshreppur skiptist í þrjú meginsvæði, sem oft eru aðgreind sem byggðir, og ráða vötnin mestu um skiptinguna. Austurhlíð dalsins (austan Jökulsár og Keldár), frá Gilsá að Fellsá, er nefnd Suðurbyggð (Austurbyggð hjá G.G., 1944), en innstu bæirnir eru þó raunar í Suðurdal. Múlabyggð er í Múlanum beggja vegna, og Norðurbyggð norðan eða vestan Jökulsár og Lagarfljóts.
Suðurbyggðin liggur í vesturhlíð Víðivallaháls, sem gengur fram milli Fljótsdals og Gilsárdals. Hálsinn er 600-700 m hár. Berglög í hálsinum eru fremur óregluleg utantil, og þar eru engin samfelld klettabelti, aðeins stuttir hjallar og klettasnasir. Innantil eru þau reglulegri, en þar eru berghlaup eða jarðsig víða áberandi, sem hylja hlíðina neðantil. Undirlendi er ekkert fyrr en kemur inn í Víðivelli, en þar fyrir innan eru nes í dalbotninum. Skógar þekja allstór svæði í hlíðinni. Flestar jarðir á Suðurbyggð eiga land að Gilsá á Gilsárdal, og þar voru sel fyrrum. Upprunalega hafa verið tvær stórjarðir á Suðurbyggð, þ. e. Hrafnkelsstaðir og Víðivellir, en nú eru jarðirnar 8-10.

Frá Gilsá að Hrafnkelsstöðum

Gilsárgil: Á mörkum Vallahrepps og Fljótsdalshrepps er Gilsárgil, djúpt og mikilfenglegt árgil, litskrúðugt, og með fjölbreyttum bergmyndunum. Það er um 5 km langt, og nær inn á Gilsárdal. Á einum stað er um 20 m hár drangur, að lögun sem kirkjuturn, og skúti í dyrastað. Fyrir neðan eyðibýlið Skjögrastaði (í Vallahreppi), er dálítið berghlaup í austurbarmi gilsins, og skammt fyrir innan fellur Grafningsá í háum flúðfossi ofan í gilið, en annars er það hérumbil fossalaust. Skógur teygir sig hér og hvar ofan í gilið, og þar er óvenju mikið af reyniviði. Í gilbotninum eru breiður af eyrarrós og fleiri blómum.

Ranaskógur: Hægt er að ganga upp eftir gilinu, þegar lítið er í ánni á sumrin, en annars er auðveldast að ganga á innri gilbarminum, í gegnum Ranaskóg, sem lykur að gilinu innanverðu. Hann er óvenju hávaxinn, gisinn og greiðfær af birkiskógum að vera, enda oft talinn með fegurstu skógum landsins. Botninn er þakinn grasi og mosa, og yfir honum hvelfist samfellt laufþak birkitrjánna. Í skóginum er barrviðalundur, til minningar um Pál J. Kjerúlf á Hrafnkelsstöðum, sérkennilegan hæfileikamann, sem annaðist skóginn af kostgæfni framan af þessari öld.
Innst í skóginum eru Fiðluklettar, sem urðu tilefni samnefnds ljóðs, er Þorsteinn Valdimarsson orti í minningu Páls Kjerúlf. Þorsteinn var ættaður frá Skjögrastöðum, og var langdvölum á Hallormsstað. Upphaf kvæðisins er þannig:

Fram um Fiðlukletta / flytur blær í laufi hjá,
ljúflingstóna létta / leyndum bergsins frá.
Þekkirðu þá?
Hefurðu gengið í Gilsárrana / gauktíðarkvöldin blá?
Svo fagrir eru þeir tónar / og fullir af þrá.

Kirkjustaður huldufólksins: Einstæðingar nefnast fáein eldgömul birkitré, er standa einstök í túni skammt fyrir innan og neðan Ranaskóg, stutt fyrir ofan veginn. Slík tré kallast eikur á þessum slóðum. Þarna var vinsæll áningarstaður meðan menn ferðuðust á hestum, og gjarnan teknar myndir af ferðafólkinu við trén. Sumir skáru fangamörk sín í trjábörkinn, eins og tíðkast í útlöndum.
Stutt fyrir innan þessi stórtré er klettahöfði úr stuðlabergi við veginn, er Kirkjuhamar nefnist. Þar telja Fljótsdælir að sé kirkja huldufólksins í sveitinni. Um aldamótin rann Jökulsá upp að hamrinum, og má enn greina farveg hennar þar. Þá sáu menn prúðbúið huldufólk koma siglandi á bátum til kirkju sinnar. Lítil reynihrísla er framan í klettinum, til að undirstrika helgi hans.

Hrólfsgerði: Hrólfsgerði er fornt afbýli (nefnt Hrólfsstaðir í Hrafnkels sögu) og beitarhús frá Hrafnkelsstöðum og síðar nýbýlinu Vallholti, sem er rétt fyrir innan. Fjárhúsin á Hrólfsgerði standa enn, þótt hætt sé að nota þau. Þau eru gott dæmi um gripahúsaþyrpingar úr torfi og grjóti, sem þróuðust í Fljótsdal á þessari öld, og voru lengur í notkun þar en í öðrum sveitum. Húsin voru endurbyggð af Eiríki M. Kjerúlf bónda í Vallholti, sem var góður hleðslumaður. Ýmsar áletranir eru á dyrasteinum húsanna, sem vert er að taka eftir. Túnblettur er kringum húsin, umluktur fornum grjótgarði, sem fyllt er að innanvert. Stutt er að ganga upp að húsunum frá vegi við heimreiðina að Vallholti.

Vallholt: Nýbýlið Vallholt er einkennilega sett, á klettahæð skammt ofan vegar. Hefur bæjarstæðið greinilega verið valið fremur með tilliti til útsýnis en hagræðis, því að þaðan er mjög víðsýnt og fagurt að horfa yfir Fljótsdalinn, með sínum grænu grundum, margbreytilegu ám og fossaskrúði. Hengifossárgil, með Hengifossi á heiðarbrún, blasir við í hlíðinni andspænis, einnig Bessastaðaárgil, og Snæfell gnæfir yfir dalbotninn eins og austurlenskt musteri. Utan við bæinn falla tveir lækir í fossum fram af klettahjalla, og gömul grjóthlaðin rétt er á Réttarhjalla, skammt inn frá bænum.

Jörgen Fljótsdalsskáld: Jörgen Eiríksson Kjerúlf (Jörgen frá Húsum), sem öðrum fremur má kalla "Fljótsdalsskáld", dvaldi síðustu áratugi ævinnar hjá Droplaugu dóttur sinni í Vallholti. Hann orti mörg kvæði um Fljótsdal og fegurð hans, sem hann dásamaði endalaust. Eftir hann er sveitarsöngur Fljótsdælinga, sem er sunginn við sama lag og sænski konungssöngurinn: "Ur svenska hjärtans djup en gång..." Lagið er eftir Otto Lindblad. Fyrsta vísan er svona:

Þú Fljótsdals grund mín fagra sveit
hér fyrstu vorsins blóm ég leit,
ég ann þér ár og síð.
Þér Hengifossinn hrynur ljóð,
sem heyrast vítt um bjarka slóð,
þér syngja fuglar sumaróð,
er sólin gyllir hlíð.

Gaslindir: Á bakka Jökulsár, fyrir neðan Vallholt, bólar stöðugt upp brennanlegt gas á nokkrum stöðum. Það hefur töluvert verið rannsakað og hefur valdið vísindamönnum nokkrum heilabrotum. Hafa sumir litið svo á, að það væri komið lengst neðan úr iðrum jarðar, en aðrir hafa úrskurðað það sem mýragas, er verður til við rotnun á lífrænum efnum, og mun það nú vera viðurkennt. Sams konar gas sprettur upp hér og þar í Lagarfljóti, t.d. undan Hreiðarsstöðum í Fellum, þar sem það heldur opnum vökum allan veturinn.
Við sérstök veðurskilyrði geta gasstrókarnir tekið á sig ýmsar furðulegar myndir. Sú skoðun hefur komið fram, að Lagarfljótsormurinn eigi rætur að rekja til ýmissa fyrirbæra er þetta gas getur valdið. (Sjá Týli 1982 o.fl. heimildir um gasið).

 HRAFNKELSSTAÐIR

Hrafnkelsstaðir eru vafalaust ein af hinna fornu stórjarða í Fljótsdal. Hugsanlega hét hún upphaflega Hrólfsstaðir, en breytti um nafn þegar Hrafnkell Freysgoði settist þar að. Í Hrafnkels sögu segir að bærinn hafi áður heitið Lokhilla, en í Brandkrossa þætti er hann nefndur Lokhellur og Lokhillur. Ólíklegt er að það hafi verið nafn á aðaljörðinni."Við vatnsbotninn stóð einn lítill bær, sem hét að Lokhillu. Þetta land keypti Hrafnkell í skuld, því að eigi var kosturinn meiri en þurfti til búshluta hafa... Þetta var skógland mikið og mikið merkjum, vont að húsum, og fyrir það efni keypti hann landið litlu verði. En Hrafnkell sá ekki mjög í kostnað og felldi mörkina, því að hún var stór, og reisti þar reisilegan bæ, þann er síðan hét á Hrafnkelsstöðum. Hefir það síðan verið kallaður jafnan góður bær."Þannig segir í Hrafnkels sögu Freysgoða, eftir að Sámur Bjarnason á Leikskálum hafði hrakið goðann af óðali sínu, Aðalbóli, slyppan og snauðan.
Hrafnkeli búnaðist vel á Hrafnkelsstöðum: "Mátti svo að kveða, að nálega væru tvö höfuð á hverju kvikindi. Á því sama sumri lagðist veiður mikil í Lagarfljót." Má skilja að Freyr hafi ekki alveg sagt skilið við goða sinn, þrátt fyrir ófarir hans og þau ummæli, sem eftir honum eru höfð: "Eg hygg það hégóma að trúa á goð."
Hrólfsgerði (fyrrnefnt) og Brattagerði voru afbýli eða hjáleigur Hrafnkelsstaða, og síðar beitarhús þaðan. Sel voru við Selás fyrir ofan Vallholt, og við Engilæk yst á Gilsárdal. Þar telja sumir að sé eyðibýli sem hét Háls.
Hrafnkelsstaðir eru mjög beitarsæl jörð, en túnrækt er þar erfið sökum brattlendis, nema á Gilsáreyri, sem nú tilheyrir Vallholti. Landið hefur jafnan verið skógríkt, eins og fram kemur í Hrafnkels sögu, og enn eru þar töluverðar skógarleifar.
Ranaskógur er eldgamalt ítak Víðivalla ytri í landi Hrafnkelsstaða. Urðu málaferli út af því á árunum 1856-66, en Hrafnkelsstaðir voru þá Skriðuklaustursjörð. Einnig áttu Bessastaðakirkja og Valþjófsstaðakirkja skógarítök í landinu, en sá skógur er löngu eyddur. (Helgi Hall.: Úr sögu Ranaskógar í Fljótsdal. Ársrit Skógrf. Ísl. 1989: 19-32).
Hrafnkels saga segir Lokhillu hafa staðið "við vatnsbotninn", en hann er nú um 4 km utan við bæðinn. Samkvæmt því hafa Fljótsdalsárnar aukið um 5 m við dalbotninn árlega.

Griðkonuhjal: Þegar Hrafnkell Freysgoði hafði búið nokkur ár á Hrafnkelsstöðum, skeði sá atburður, að Eyvindur Bjarnason, bróðir Sáms kom til Íslands, eftir langa dvöl í útlöndun, þar sem hann "hafði mikið við gengist um menntir, og var orðinn hinn vaskasti maður". Skip hans lá í Reyðarfirði. Þangað fór Sámur og bauð honum heim til sín í Aðalból. Reið Eyvindur svo við fimmta mann, sem leið liggur yfir Þórdalsheiði og Hallormsstaðaháls, svo fyrir neðan garð á Hrafnkelsstöðum og yfir Jökulsá á Skálavaði. "Voru þeir og allir í litklæðum og riðu við fagra skjöldu", og ráku undan sér 16 klyfjaða hesta. Þetta var snemma morguns, og hafði griðkona á Hrafnkelsstöðum farið með þvott niður að vatninu.
"Griðkona sjá sópar saman léreptunum og hleypur heim. Hún kastar þeim niður úti hjá viðarkesti, en hleypur inn. Hrafnkell var þá eigi upp staðinn, og nokkurir vildarmenn lágu í skálanum, en verkmenn voru til iðnar farnir. Þetta var um heyjaannir. Konan tók til orða, er hún kom inn: "Satt er flest það er fornkveðið er, að svo ergist hver sem eldist. Verður sú virðing, sem snemma leggst á, ef maður lætur síðan sjálfur af með ósóma, og hefir eigi traust til að reka þess réttar nokkurt sinni, og eru slík mikil undur um þann mann, sem hraustur hefir verið... Eyvindur Bjarnason reið hér yfir á Skálavaði með svo fagran skjöld, að ljómaði af. Er hann svo menntur, að hefnd væri í honum". Lætur griðkonan ganga af kappi.. Hrafnkell rís upp og svarar henni: "Kann vera, að þú hjalir helsti margt satt..." (Hrafnkels saga Freysgoða. Ísl. fornrit XI, 126-27)
Lét Hrafnkell þá safna mönnum, og riðu þeir eftir þeim Eyvindi. Varð fundur þeirra við Eyvindarfjöll á Fljótsdalsheiði. Þar drápu Hrafnkell og menn hans Eyvind og félaga hans alla, utan skósveininn, sem komst í Aðalból og gat sagt frá tíðindum. Strax nóttina eftir reið Hrafnkell svo við fjölmenni í Aðalból, tók Sám í rekkju, og gerði honum sömu kosti og Sámur hafði áður gert honum. Settist hann svo á Aðalból, og hafði alla sína fyrri reisn.
Þessi frásögn hefur mörgum orðið minnisstæð, og hefur Einar Pálsson fræðimaður ritað ýmislegt um hann í bók sinni um Hrafnkels sögu (E.P.: Stefið. Heiðinn siður og Hrafnkels saga. Rvík 1980). Þar leggur hann m.a. út af tölunum 5 og 16, sem hann telur hafa sérstaka dulspekilega merkingu. (Nánar í ritgerð minni um Lagarfljót. Handr. 1996).

Merkir ábúendur: Á 19. öld bjó Sæbjörn Egilsson á Hrafnkelsstöðum. Hann var forgöngumaður um ýmis framfaramál á Héraði og ritaði blaðagreinar og dagbækur, sem eru hin merkasta heimild um sögu Austurlands. Einnig safnaði hann þjóðsögum fyrir Jón Árnason.
Á fyrri hluta þessarar aldar bjó Metúsalem Jónsson Kjerúlf, oft nefndur Sali, á Hrafnkelsstöðum. Hann var um tíma með fjárflestu bændum í landinu, en hafði líka áhuga á skógræk. Þá álitu flestir að sauðfjárbúskapur og skógrækt gætu ekki farið saman. Lundurinn fyrir ofan bæinn er til vitnis um þennan fyrsta skógarbónda á Héraði, og þar er minnismerki um hann og Guðrúnu konu hans. Við gamla húsið eru taldar vera hæstu reynihríslur á Íslandi, um 14 m.
Áður en brýrnar komu hjá Víðivöllum var fólk og fé ferjað yfir árnar frá Hrafnkelsstöðum, sem var opinber ferjustaður. Metúsalem smíðaði einnig og setti upp aðra ferju hjá Víðivöllum (sjá síðar). Hann hlóð grjótgarða út í Jökulsá, og hugðist þannig vinna aftur eitthvað af því landi sem áin hafði brotið, en Jökla var þrjósk og vildi engu skila. Sali var einnig skáldmæltur og spilaði á orgel. (Ýmsum fannst hann minna á frænda sinn Jón í Möðrudal í útliti og háttum). Bróðir hans var Páll Kjerúlf, sem fyrr var nefndur, og annaðist hann ferjuna. Var hann mörgu ferðafólki minnisstæður fyrir hnyttin tilsvör. Hjörtur E. Kjerúlf, sonarsonur Metúsalems býr nú á Hrafnkelsstöðum og var oddviti sveitarinnar.
Nokkur af börnum Guðrúnar og Metúsalems, hafa getið sér gott orð á sviði tónlistar. Jón sonur hans var lengi organisti og kórstjóri í Fljótsdal og Guðrún og Ragnhildur, hafa báðar samið lög, sem hafa verið spiluð og sungin á Héraði. Þær hafa gefið út tvö hefti með frumsömdum ljóðum og lögum eftir Kjerúlfsfólkið.

"Austfirsk kona": Margrét Sigfúsdóttir frá Skjögrastöðum var lengi til heimilis á Hrafnkelsstöðum, og fékkst við barnakennslu í sveitinni, félagsstörf og ritstörf. Hún var af merkri skáldaætt (sjá Langhús). Hún var sískrifandi og orti mikinn fjölda ljóða í anda hinnar rómantísku átthagaástar, svipað og Jörgen Kjerúlf. Einnig samdi hún, ritgerðir, smásögur og lengri sögur. Var sumt af því birt í tímaritum, t.d. í Hlín, undir dulnefninu "Austfirsk kona", en mest er þó óbirt í handritum. Í næstum tvo áratugi "gaf hún út" handskrifað blað, er nefndist "Leiftur", á vegum kvenfélagsins Einingar. (Austri, jólablað 1987). Hún gaf þessa stuttu og snjöllu lýsingu á sveitungum sínum:

Við eigum skáld og skyggna menn,
skörunga og bjálfa,
hyggið fólk og einnig enn,
aðeins vita hálfa. 

 Frá Hrafnkelsstöðum að Víðivöllum ytri

Hallsteinn eða hallandi steinn: Innst í landi Hrafnkelsstaða eru tættur gamalla beitarhúsa á Brattgerði, rétt fyrir ofan veginn. Utanum þær er hringlaga túnblettur, umluktur fornum grjótgarði. Þar fyrir ofan er Hallsteinsfoss, myndaður af litlum læk, sem fellur ofan í stuðlabergsbás, og stuðlaklettar eru beggja vegna. Samkvæmt "Náttúrunafnakenningu Þórhalls" er nafnið dregið af stuðlunum, sem hallast alla vega, en aðrir telja fossinn kenndan við Hallstein á Víðivöllum, sem getið er í Droplaugarsona sögu. ¬Samkvæmt kenningu Þórhalls er hins vegar ekki ólíklegt að Hallsteinn sögunnar sé kenndur við stuðlabergið (sjá Grímni 2, 1983).
Héðan er ættaður stuðullinn undir bronsmynd Gunnars skálds, sem nú er á Skriðuklaustri.

Víðivallaskógur hinn nýi og útsýni þaðan: Stutt fyrir innan Brattagerði, á merkjum Hrafnkelsstaða og Víðivalla er allstórt stykki vaxið myndarlegum lerkiskógi. Þessi skógarreitur er sérstakur fyrir þá sök, að hann er elstur af svonefndum "bændaskógum", sem stofnað var til um 1970 með "Fljótsdalsáætlun" Skógræktar Ríkisins, í samvinnu við bændur. Má því segja að hann sé upphaf skógarbúskapar, sem nú er kominn til framkvæmda á Héraði (Héraðsskóga) og víðar um landið. Var 25-ára afmælið haldið hátíðlegt í skóginum þann 25. júní 1995. Þó lerkiskógur þessi sé ekki nema 25 ára, eru mörg tré í honum orðin um 7 m há, og þar hafa verið teknar þúsundir girðingarstaura við grisjun á reitnum.

Aftur skógar skrýða láð
skarta laufi björtu,
aftur verður óskum sáð,
inn í mannleg hjörtu.

Neðan við miðjan skóginn er grasi vaxinn bali og bílastæði, þar sem tilvalið er að stansa og virða fyrir sér útsýnið yfir þessa fögru sveit. Hinum megin í dalnum er Valþjófsstaðafjallið, með sínum reglulegu klettahjöllum, sem virðast næstum láréttir, en gríðarmikill berggangur klýfur fjallið skáhallt upp til norðurs, frá rótum upp undir brún. Hann heitir Tröllkonustígur. Undir fjallinu eru hin fornu höfuðból, kirkjustaðurinn Valþjófsstaður fremst, Skriðuklaustur nokkru utar, beint á móti skóginum, og loks Bessastaðir við ytri enda fjallsins.

 Heimkynni Grýlu og Grýlukvæði: Miklum og mörgum sögum fer af vættinni Grýlu á Austurlandi, og á fyrri öldum voru þar kveðin nokkur "Grýlukvæði". Grýlukvæði séra Stefáns Ólafssonar í Vallanesi er talið elst þessara kvæða og er langfrægast. Það byrjar svona:

Ekki linnir ferðunum um Fljótsdalinn enn,
það sér á að þar búa þrifnaðarmenn,
það sér á að þeir ala gangandi og gest,
förumannaflokkarnir flykkjast þangað mest.

Förumannaflokkar og kerlingakrans,
þó nú taki átján yfir umferðin hans,
þó nú taki átján yfir, ef það er satt,
að hér sé komin Grýla, sem geti öngvir satt.

Síðan kemur nánari lýsing á þessu hroðalega kvendi, og er hún ekki par fögur. Í kvæðinu segir að bústaður Grýlu sé í Urðarhrauni, í landi Víðivalla austur á Gilsárdal, en "annað bú í Brandsöxl bölhyskið á." Brandsöxl er uppi undir brún Víðivallaháls, fyrir ofan lerkiskóginn, og ber við loft þaðan.
Stefán lætur Grýlu hefja ferð sína með því að heimsækja kotin í landi Víðivalla, Urðarsel og Hlíðarhús, og krefjast þar barnanga í matinn, en hún hefur þar ekki árangur sem erfiði. Heima á Víðivöllum skattyrðist hún sýslumann, sem leyfir henni að gleypa fjósamanninn. Að lokum svelgir hún Gamla-Skjóna og lýkur þá kvæðinu, enda er kerling þá trúlega orðin mettuð. Kvæðið er líklega ort til að skopast að sýslumanninum, sem gæti hafa verið Jón Þorláksson, og því látið gerast á þessum stað. Mörg grýlukvæði hafa síðan verið ort í sama dúr, og því má segja að grýlukvæði Stefáns haf orðið upphaf að sérstakri bókmenntagrein í landinu.

Víðivallaurð: Tættur Urðarsels eru rétt fyrir framan Víðivallaurð, sem er ákaflega stórgrýtt framskrið neðantil í hlíðinni, í ytra jaðri Víðivallaskógar. Grjótflykkin þarna eru mörg á stærð við hús, og milli þeirra og undir þeim eru hellar og holur. Kom fyrir að lömb týndust þar, og heyrðust jarma langt undir yfirborði jarðar, en engin tiltök að bjarga þeim. Urðin er mjög vaxin gamburmosa, sem er grár í þurrki. Niður á hana rennur Mórauðilækur, eins konar pínu-jökulsá, því hann er alltaf jökullitaður, þó ekki komi hann úr neinum jökli. Við upptök urðartungunnar að ofan er gjá með fallegum reynitrjám og klettastríp, sem heitir Tröllkarl. (Hann er sagður hafa verið um 15 m hár áður en hrundi ofan af honum um 1950). Víðivallaskógur er einn af hinum gömlu birkiskógum í Fljótsdal, og nær inn undir bæ á Víðivöllum. Hann er víðast hvar nokkuð greiðfær, eins og Ranaskógur, og sumsstaðar aðeins tré á stangli, á grasi vöxnum bölum. Er gaman að ganga um hann. Nýlega var byrjað að byggja sumarhús við Urðarsel, og liggur þar nú vegur upp í skóginn.

Síðustu tiltektir Grýlu - Víðivallaskriðan: Haustið 1979 féll gríðarleg aurskriða ofan frá fjallsbrún og niður í gegnum miðjan Víðivallaskóg, þar sem hún skildi eftir um 200 m breiða geil, gróðurlausa og jarðvegsvana, sem blasir við sjónum vegfarenda. Skriðan fór í gegnum hlöðuna á beitarhúsunum Hlíðarhúsum, og kaffærði brúna á Hlíðarhúsakvíslinni, sem rennur þarna meðfram brekkum.
Þar sem skriðan féll heita Grýlulækir. Kannske hefur Grýlu gömlu þótt sem trúin á tilveru sína væri farin að dofna, og uppeldishlutverk sitt orðið lítils metið, og því viljað minna á sig, með þessum skelfilegu afleiðingum.

 VÍÐIVELLIR YTRI

Víðivellir er ein hinna fornu stórjarða í Fljótsdal. Hún virðist snemma hafa skipst í Víðivelli ytri og Víðivelli fremri, og koma báðir bæirnir fyrir í Droplaugarsona sögu. Þar fyrir innan eru Víðivallagerði og Sturluflöt, sem hafa tilheyrt Víðivöllum fremri.
Víðivellir ytri, með hjáleigunni Klúku, er önnur tveggja jarða í Fljótsdal, sem aldrei komust í opinbera eign. Þar var kirkja framan af öldum, sem tilheyrði jörðinni (bændakirkja), en eftir siðaskiptin er þar aðeins hálfkirkja eða bænhús. Gamall kirkjugarður er skammt fyrir utan bæinn. Jörðin átti hlunnindaítök hér og þar, meðal annars Ranaskóg, selför á Hrafnkelsdal, og reka á Héraðssöndum. Þrjú sel voru í landareigninni, og afbýlið Hlíðarhús.
Tvíbýlt hefur lengst af verið á Víðivöllum ytri, og um 1964 byggði önnur fjölskyldan "nýbýli" úti í Víðivallaskógi, sem kallast Víðivellir ytri I.
Hallsteinn á Víðivöllum ytri (fyrrnefndur) kemur nokkuð við Droplaugarsona sögu. Giftist Droplaug honum í óþökk sona sinna, sem leiddi til þess að hann var veginn af þræli sínum, að undirlagi Helga:
"Einn dag kom Þorgils að Hallsteini og bað hann fara að sjá hey sín og fé. Hann fór og kom í hlöðu og ætlaði út vindauga. Þá hjó Þorgils til Hallsteins með öxi, er átti Helgi Droplaugarson, og þurfti hann eigi fleiri til bana. Helgi kom þar að úr hlíð ofan frá hrossum sínum og sá að Hallsteinn var veginn. Helgi drap þegar þrælinn." (Droplaugarsona saga, bls. 154).
Á 15. öld er annar Hallsteinn á Víðivöllum ytri. Hann og kona hans Seselia, gáfu jörðina Skriðu til klausturhalds árið 1500.

Sögufrægir sýslumenn: Sýslumenn sátu oft á Víðivöllum og hafa þeir Jón sonur Þorláks biskups og Þorsteinn Sigurðsson orðið frægastir þeirra.
Jón átti ævintýralegan feril að baki er hann fékk sýsluvöld í Múlaþingi og settist að á Víðivöllum ytri, þar sem hann átti heima í tvo áratugi (1676-1686).
"Hann átti oft deilur við ýmsa menn í Múlaþingi, en er þó í ritum talinn vel þokkaður, vel að sér, en nokkuð kvenhollur. Hann hefir tínt saman úr eldri ritum lækningabók, sem víða er til í handritum; honum ****er og eignað, að hafa samið þáttu og sögur af fornmönnum, er finna má í handritum (af Þóri hast, Ármanni og Þorsteini gála o.fl.), hann lagði og út Trójumanna sögu og lét Jón Jónsson í Vattarnesi yrkja rímur af." (Ísl. æviskrár)
Um Jón Þorláksson hafa myndast þjóðsögur, einkum í sambandi við drauginn Fluganda. Þennan draug átti Jón að hafa sent bóndanum á Glúmsstöðum, er hann vildi neyða til að selja sér jörð sína. Átti sýslumaður jafnvel að hafa hresst upp á gömlu kirkjuna og dubbað fjósamann sinn til prests til að sakramenta drauginn. Svo fóru leikar að Flugandi gekk að Glúmsstaðabónda dauðum, og sumir segja að hann hafi einnig grandað galdramanninum Dalhúsa-Jóni, sem átti að hafa vakið hann upp. (Sjá Glúmsstaði I).
Þorsteinn Sigurðsson var Húnvetningur að ætt og uppruna. Hann var einstakur atorku- og gáfumaður, gekk aldrei í skóla, en lærði tungumál o.fl. á eigin spýtur. Hann gerðist aðstoðarmaður Páls Vídalíns við ritun Jarðabókarinnar miklu, og ritaði jarðabók Múlaþings, sem nú er týnd. Sýslumaður var hann í nyrsta hluta Múlaþings 1720-1751. Bjó fyrst á Skriðuklaustri, en síðan á Víðivöllum ytri 1718-1760. "Mikilhæfur maður, búhöldur góður og hagsýnn, enda gerðist hann auðmaður mikill." (Ísl. æviskrár).
Sveinn Pálsson tekur dæmi um útsjónarsemi hans í Ferðabók sinni. Þá keypti hann smíðajárn, og lét draga úr því bandprjóna, sem hann seldi. "Um þær mundir vissi enginn þar í sveit hvað dráttarlöð var, svo að slíkir prjónar voru slegnir til á steðja, eins og aðrir smíðisgripir úr járni, en það var seinlegt verk."
Þorsteinn átti alltaf miklar matar- og heybirgðir, en var tregur til að miðla öðrum af þeim. Einhverntíma í harðæri er sagt að hann neitaði að selja sveitungum sínum hey, og báru þeir sig upp við Hans Wíum sýslumann á Skriðuklaustri. Þorsteinn átti tvö óátekin hey á bökkunum niður frá Víðivöllum. Hans lét taka upp annað heyið og kvaddi sex menn til að meta stærð þess og verð. Síðan skipti hann því til þeirra er mest voru þurfandi og barg þeim þannig. Sjálfur ábyrgðist hann að heyinu yrði skilað næsta sumar jafnstóru og eins frá gengnu að öllu leyti. Er sagt að við það væri staðið, og Þorsteinn fengi hey sitt aftur árinu yngra með fullum skilum. (Að vestan II,75).
Synir Þorsteins voru m.a. Pétur sýslumaður á Ketilsstöðum, er lengi átti í hörðum deilum við Hans Wíum og Sigurður gullsmiður í Kaupmannahöfn.

Rögnvaldur rithöfundur: Rögnvaldur Erlingsson rithöfundur á Egilsstöðum var upp runninn á Víðivöllum ytri og bjó þar sjálfur í aldarfjórðung. Erlingur faðir hans var úr Skagafirði, hagmæltur og góður söngmaður, lengi oddviti í Fljótsdal. Rögnvaldur hóf snemma að skrifa sögur og birtust þær m.a. í tímaritinu Samtíðinni. Eftir að hann hætti búskap hefur hann verið sískrifandi, leikrit, smásögur og lengri sögur, en fátt eitt af því hefur verið prentað og gefið út. Hann hefur m.a. samið skáldsögu af Jóni Þorlákssyni sýslumanni, og leikrit um Hans Wíum og Sunnevu (Sjá Skriðuklaustur).

Klúka og Klúkustóll: Afbýlið Klúka er stutt fyrir innan Víðivelli ytri. Þar bjó Mekkín skyggna um tíma á 19. öld (sjá Egilsstaði), og síðan sonardóttir hennar og alnafna, Mekkín Ólafsdóttir. Í Klúku eru ennþá gömul gripahús úr torfi og grjóti, á sínum upprunalega stað í túninu, og er bærinn því eins konar sýnishorn af gamla bæjarskipulaginu. Þar var til skamms tíma eldgamall stóll, lystilega útskorinn, með nafni Guðmundar Pálssonar klausturhaldara á Skriðu á seinni hluta 18. aldar. Stólinn er nú í Minjasafni Austurlands.

Berghlaup eða grjótjöklar: Vestan í Víðivallahálsi eru nokkur einkennileg hrúgöld af urðum og melum. Víðivallaurð hefur þegar verið nefnd, en innan og ofna við Klúku er tungulaga mela- og urðaþyrping í hlíðinni, sem kallst Urðir, og ofan við þá er skál í fjallinu, sem heitir Sóleyjarbotnar. Upp af Víðivallagerði eru svipaðar myndanir. Jarðfræðinga greinir á um, hvort þessir haugar séu ummerki berghlaupa eða svonefndra grjótjökla.
Grjótjöklar (rock glaciers) myndast til fjalla í köldu loftslagi, þar sem úrkoma er ekki svo mikil að nægi til myndunar samfelldra jökla. Þeir setjast að í giljum eða lægðum, vaxa og skríða fram sem blanda af grjóti, aur og ís. Virka grjótjökla er enn að finna í hlíðum Snæfells. Við berghlaup brotna hins vegar hlutar fjallanna niður í einu vetfangi og mynda oft feikilegar urðarrastir og grjóthóla, sem víða um land eru kölluð hraun. (Sjá Náttúrufræðinginn 1995).

 SUÐURDALUR

Frá höfuðbólinu Víðivöllum ytri liggur leiðin inn í Suðurdal Fljótsdals. Suðurdalur er nokkuð víður, með breiðum og flötum dalbotni, sem Keldáin liðast um í mörgum kvíslum, síbreytileg og óútreiknanleg. Oftast er hún blátær bergvatnsá, með fögrum silungsríkum hyljum, en getur á skammri stund orðið hin mesta hamhleypa og ógnað landi og lífi í dalnum. Upptök hennar eru inni á Hraunum, en svo nefnist einu nafni hálendið milli Fljótsdals, Suðurfjarða og Lóns. Nafn sitt dregur hún af "keldum", en svo hafa fornmenn nefnt uppsprettulindir, sbr. sveitarheitið Kelduhverfi norðanlands.
Fyrir dalbotni er reisulegur fellsmúli, sem kallast nú Suðurfell eða bara Fell, en hefur líklega heitið Kiðufell fyrrum. Þar skiptist Suðurdalur aftur í tvennt. Heitir eystri dalurinn Villingadalur en sá vestari Þorgerðarstaðadalur. Kemur Keldá niður þann síðarnefnda, en Fellsá úr hinum, og sameinast þær utan við Fellsendann, hjá bænum Sturluflöt.
Vesturhlíð dalsins austan í Múlanum er snarbrött og alsett klettabeltum. Þar er Arnaldsstaðaskógur, með mörgum skriðuförum, mismunandi grónum, en hans verður síðar getið.

 VÍÐIVELLIR FREMRI OG VÍÐIVALLAGERÐI

Víðivellir fremri eru næsti bær fyrir innan Klúku. Hann stendur efst í stóru og fallegu túni, með vægum en jöfnum halla niður á bakka Keldár, en fyrir ofan rís brött fjallshlíðin, giljum grafin. Þar er nú eina kúabúið í Fljótsdal. Spölkorn innar er Víðivallagerði, sem var hjáleiga þaðan. Það er stór jörð og kostamikil, þrátt fyrir gerðis-nafnið. Eru þar víðlend nes meðfram ánni, sem enn hafa ekki verið ræktuð. Í Víðivallagerði hefur ekki verið föst búseta síðan um 1980, en jörðin er nýtt frá Víðivöllum fremri og til skógræktar. Til skamms tíma voru þar nokkur gömul fjárhús, sem stóðu í þyrpingu fyrir utan bæinn. Jónas Einarsson, fyrrum flugvallarstarfsmaður á Egilsstöðum, hafði endurnýjað þau og endurbyggt snilldarlega á síðustu áratugum. Þau hlutu ekki náð fyrir augum nýs eiganda jarðarinnar, og hafa nýlega verið rifin.

Gerðisbjarg og Þingmannaklif: Innan við Víðivallagerði er gríðarmikill klettaveggur í fjallinu, sem gengur skáhallt inn og niður hlíðina, og heitir Gerðisbjarg. Það er um 2 km langt, og víða allt að 40 m á hæð. Það hefur líklega myndast við misgengissprungu. Í bjarginu eru þunn hraunlög, sem gætu hafa runnið frá einhverri elddyngju austur á Hraungarði á tertíertíma.
Berggangur, sem kallast Hryggur, liggur frá bænum inn og upp í bjargið. Er það líklega sami gangurinn og Tröllkonustígur í Valþjófsstaðafjalli. Um það bil sem hann klýfur bjargið er klauf eða skora, sem kallast Þingmannaklif, og liggur gömul gata þar í gegnum. Örnefnið sýnir að þar hefur aðalleiðin til Suðurfjarða og Lóns(?) eitt sinn legið.
Við innri enda Gerðisbjargs eru rústir Víðvallasels. Þar er nú sumarbústaður. Innan við Bjargsendann kallast Skógur í hlíðinni, og eru þar dálitlar leifar af birkikjarri, en nú er að vaxa þar upp álitlegur lerkiskógur, sem nær inn að Sturluá, sem er á merkjum við Sturluflöt. Áin kemur fram úr djúpu klettagili, með nokkrum myndarlegum fossum. Á aurunum fyrir utan ána er lítið réttarhólf í klettabás (gömlum farvegi árinnar), en þar á að vera reymt.

Systkinin frá Víðivallagerði: Við bæinn Víðivallagerði er tengd ein þekktasta útilegumannasaga landsins. Á hún að hafa gerst á síðari hluta 17. aldar, þegar Jón Þorláksson (fyrrnefndur) var sýslumaður á Víðivöllum ytri, en Böðvar Sturluson prestur á Valþjófsstað (1657-1712).
Systkinin Jón og Sigríður bjuggu þá í Víðivallagerði. Þóttu þau hin mannvænlegustu og voru mikils virt í sveitinni. Þá varð Sigríður þunguð, og var ekki öðrum til að dreifa en bróður hennar, en í þann tíð var slíkt atferli dauðasök. Vinfengi var með þeim systkinum og séra Böðvari, og er sagt að hann hafi vísað þeim á eyðidal einn, líklega Víðidal í Lónsfjöllum, og fluttu þau þangað á laun. Einnig sendi hann vinnumann sinn til þeirra með 12 kindur. Guðmundur prestur á Hofi í Álftafirði var þeim einnig innan handar, enda ræktu þau vel trú sína.
Bjuggu þau systkin í dalnum í 17 ár og ólu upp dóttur sína, sem einnig hét Sigríður, en þá lést Jón. Sendi þá Sigríður eldri dóttur sína á fund Böðvars prests, sem gerði þegar út leiðangur í dalinn. Þegar þangað kom var Sigríður eldri einnig látin. Voru líkin flutt að Valþjófsstað og greftruð í kirkjugarðinum þar, þrátt fyrir hörð mótmæli Jóns sýslumanns. Böðvar fermdi Sigríði og fékk henni gott gjaforð. Bjuggu þau hjón í Fljótsdal og eiga þar afkomendur.
Sagan er til í ýmsum gerðum og hefur þrisvar verið birt á prenti. (Þjóðs. Sigf. IX, 228-236 / Gríma III, 59-67). Þá hefur Margrét Sigfúsdóttir frá Skjögrastöðum ort langt og snjallt kvæði út af sögunni, sem birtist í Hlín 1952. Í því er þetta erindi:

Ómar kyrrlát klukknahringing,
kistur tvær í garði standa,
hjá þeim prestur hempuskrýddur,
heimamenn til beggja handa.
Unga mærin öræfanna
að þeim hljóðlát niður krýpur,
klökknar hugur heimamanna,
hryggðartár af augum drýpur.

 STURLUFLÖT

Innsti bær í Suðurdal að austanverðu heitir Sturluflöt eða Sturluflötur, en er í daglegu tali nefndur Flöt. Bærinn stendur ofantil á sléttum grundum, skammt frá Fellsánni. Hefur hann líklega tilheyrt Víðivallatorfunni fyrrum. Í túni er gömul hringlaga hlaða, þaklaus. Á melbakka niður við Keldá fannst kuml um aldamótin 1900, meða mann- og hrossbeinum. Daniel Bruun gróf upp kumlið og rannsakaði það. Hrossbeinin voru rannsökuð ýtarlega í Kaupmannahöfn, og borin saman við ýmsar gerðir af hestum. Reyndist Sturluflatarhesturinn vera af svipaðri stærð og íslenskir hestar um aldamótin.
Þórhallur Vilmundarson (fyrrnefndur) hefur ritað athyglisverða grein um Sturlu-örnefni í tímariti Grímni, er nefnist "Af Sturlum og stöðlum." Þar tekur hann bæjarnafnið Sturluflöt til sérstakrar meðferðar. Telur hann það vera afbakað úr orðinu stöðull, sem notað var um aðhald eða stað, þar sem kýr voru mjólkaðar að sumarlagi. Ef rétt er getið, gæti þessi stöðull hafa verið notaður frá Víðivallaseli, og eins gat annað sel hafa verið á Sturluflöt.

Strútsfoss og Villingadalur: Villingadalur gengur til suðurs frá Sturluflöt. Ysti hluti dalsins kallast Strútsdalur, og þar er Strútsfoss í Strútsá, sem kemur austan af Hraunum. Strútsfoss er einn af hæstu og tignarlegustu fossum landsins, en hefur af einhverjum ástæðum verið óþekktur af ferðamönnum allt til þessa. Þó er ekki nema tæplega klukkustundar gangur að honum frá Flöt. Kannske hefur hann goldið þess að vera í sömu sveit og hinn alkunni Hengifoss.
Strútsáin fellur þarna í tvískiptum fossi, meira en 100 m háum, af fjallsbrún ofan í stórhrikalegt og litskrúðugt gljúfur, sem er allt að 200 m á dýpt. Niðri í gilinu eru klettastapar nokkrir, og er einn þeirra líklega "Strúturinn", sem áin heitir eftir, en strútur er samstofna orðinu strýta, og kemur á nokkrum stöðum fyrir í örnefnum. Fuglsheitið strútur mun vera af sama uppruna (trjónulaga fugl).
Tveir lækir, er ¬Þverár kallast, falla í fossum og hvítfyssandi strengjum ofan í gljúfrið austan megin, og auka fjölbreytni þess og fegurð, og í gilvanganum milli þeirra er torfa með birkikjarri. Stórvaxin ætihvönn vex í gilbotninum við fossinn.
Best er að skoða Strútsfoss seinni hluta dags, þegar sólin er komin í vestur og nær að skína á fossinn. Ekki er gengt með góðu móti nema að gljúfrinu neðantil, í um 3-400 m fjarlægð frá fossinum, en hægt er þó að ganga inn eftir gljúfrinu þegar lítið er í ánni, með því að vaða hana nokkrum sinnum. Þá er tæp gata inn gilvangann þar sem kjarrtorfan er, og loks er sá möguleiki að fara alveg upp á fjallið og komast þannig að fossinum.
Myndarlegir fossar eru einnig í Hellukvísl, Sultarranaá og Ófæruá inni á Villingadalnum. Er skemmtileg og þægileg gönguleið inn eftir dalnum að austanverðu, og hægt að fara yfir brú á Strútsánni.

Suðurfell eða Kiðafell: Eins og fyrr getur nefnist fjallið sem skiptir Suðurdalnum nú Suðurfell, og í daglegu tali jafnan bara Fell eða Fellið (680-690 m). Á kortum er það nefnt Kiðafell, sem líklega er eldra nafn. Fellið og hlíðar þess beggja vegna, milli Fellsár og Keldár, er sérstakt afréttarsvæði og kallast líka Suðurfell. Það var fyrrum eign Valþjófsstaðakirkju. Einn gangnakofi var innantil á Fellinu, austanverðu, en er nú fallinn í rúst.
Utan í Fellsendanum sást móta fyrir einhverjum rústum fram á fyrstu áratugi 20. aldar, og voru munnmæli um að þar hefði Kiðjafellsþing verið, sem getið er í Fljótsdæla sögu. Rústirnar eyðilögðust af skriðuhlaupum. Engar heimildir eru um þingstað þarna, og fátt sem styður það, nema ef vera skyldi örnefnið Þingmannaklif í Víðivallagerði, sem fyrr var getið.
Vestan við Fellsendann eru Fellshús, beitarhús frá Sturluflöt. Orðrómur er um að þar hafi eitt sinn verið bær sem hét Fell. Inni á dalnum, fyrir innan Fellshús, eru örnefnin Prestasel og Broddasel, en litlar eða engar minjar eru þar sjáanlegar. Í klettakví við ármót Fellsár og Keldár eru tóttir af gamalli skilarétt fyrir Suðurfellsafrétt. Réttin eyðilagðist að mestu við að Keldá hljóp yfir hana, fyrir nokkrum áratugum.
(Hér ætti etv. að koma kafli um Hraunin inn af Suðurdal). 

 MÚLABYGGÐ

Fjallið sem klýfur Fljótsdal í tvennt heitir Múli (Fljótsdalsmúli). Það er um 600 m hátt, víðast með bröttum hlíðum beggja vegna, þar sem klettabelti eru mikið áberandi. Beggja megin við Múlann renna stór vatnsföll, Keldá að austan en Jökulsá að vestan. Byggðin í Múlanum var því mjög einangruð frá öðrum hlutum sveitarinnar, en hún var líka kölluð Múli eða Múlabyggð, og hálendið upp af henni, milli ánna, Múlaafrétt. Nú hafa báðar árnar verið brúaðar og Múlinn þannig tengdur vegakerfinu. Bílfærir vegar liggja að fremstu bæjum, beggja megin í Múlanum, þótt þeir séu báðir fallnir í eyði. 

Suðurdalur að vestan

Straumferjan og brýrnar: Eftir að hafa ekið til baka sömu leið út Suðurdalinn, framhjá Víðivallabæjunum, komum við að vegamótum fyrir neðan eyðibýlið (beitarhúsin) Hlíðarhús, í landi Víðivalla ytri I. Þaðan liggur þverbraut yfir stutta brú á Keldárkvísl (Hlíðarhúsakvísl), þar sem enn má sjá ummerki skriðunnar miklu, er sópaði miðhlutanum af Víðivallaskógi niður í árnar. Síðan er farið um langa steinbrú yfir kolgrátt jökulfljót er nefnist Jökulsá í Fljótsdal, sem reyndar hefur innbyrt Keldá þegar hún fellur undir brúna. Fljótsdalsárnar voru mikill farartálmi áður en brýrnar komu árið 1952, en þá voru þær riðnar á ýmsum vöðum og lögferja var á Hrafnkelsstöðum.
Á brúarstæðinu var framan af öldinni svonefnd Straumferja, sem mun ekki hafa átt sinn líka hérlendis. Var hún aðallega notuð til að ferja sauðfé yfir árnar, því aðalafréttir hreppsins eru vestan (norðan) í dalnum, og var því mikilvægt að koma fénu af Suðurbyggðinni þangað. Straumferjan var hönnuð og smíðuð af Metúsalem Kjerúlf bónda á Hrafnkelsstöðum. Vírkaðall var stengdur yfir ána, og endar ferjunnar festir við trissur, sem runnu eftir honum. Með því lengja eða stytta annan festikaðalinn, var bátnum skástillt, og knúði þá straumurinn hann til þess lands sem menn vildu komast. Ekki gekk þetta fyrirkomulag þó áfallalaust, og munaði litlu að eitt sinn yrði stórslys við þessa ferjun. (Múlaþing 1968).

Hrakfarir vegagerðarmanna: Við beygjum nú til vinstri, inn á Múlaveginn. Liggur sá vegur inn Hólma og Aura í stefnu á Múlann (Fljótsdalsmúla), sem héðan að sjá er mjög formfagurt og rismikið fjall, einna líkast skipsstefni í laginu. Á leiðinni er farið yfir langa trébrú á Keldá.
Haustið 1980 var Vegagerðin að ljúka framkvæmdum við Keldárbrúna og veginn að henni, þegar gríðarlegt flóð kom í Keldá að morgni 31. okt. Um miðjan dag fóru þrír vegagerðarmenn á stórri traktorsgröfu frá búðum sínum austan ánna yfir að þessari brú, til að styrkja nýja veginn, sem hér og þar var byrjað að flæða yfir. Á leiðinni til baka festist grafan í um 50 m breiðu skarði sem áin hafði rofið í veginn, og sökk á kaf, svo að upp úr stóð aðeins þakið á stýrishúsinu, sem þeir klifu upp á. Þarna urðu þeir að bíða í 3-4 klukkustundir, eftir að hjálp bærist. Var þá fyrir löngu farið að flæða yfir húsið og mennirnir orðnir mjög kaldir. Mátti því litlu muna að þarna yrði mannskaði. Ýmsir Fljótsdælingar töldu að huldufólk hefði þarna átt hlut að máli, vegna sprenginga Vegagerðarinnar á kletti utan í Múlanum (sjá síðar).
Á fögrum sumardegi, þegar fjöllin speglast í lygnum pollunum við Múlaveginn, er erfitt að ímynda sér þessar aðstæður, eða hvernig þessi meinleysislega bergvatnsá getur breyst í slíka hamhleypu.
(Guðni Nikulásson verkstjóri var einn af þeim sem lentu í þessum háska./ Hjörleifur Ólafsson: Hrakningasaga af Austurlandi. Vegamál (Reykjavík), 1980).

Á Langhúsadal: Vegurinn meðfram Múlanum að austan beygir inn í Suðurdalinn, rétt áður en komið er að Langhúsum. Sá hluti dalsins sem tilheyrir Langhúsum kallast Langhúsadalur. Þar er landslag fjölbreytt og fagurt.
Brátt verða fyrir okkur slitur af berggangi. Á einum stað er augljóst að sprengt hefur verið úr ganginum, því þar liggja jötunstór grjótflykki í haug fyrir framan klettana. Berggangur þessi er sýnilega framhald af Tröllkonustígnum mikla í Valþjófsstaðafjalli. Nokkru innar myndar hann klettahöfða, með reglulegu láréttu stuðlabergi, sem heitir Hrakhamar. Þar eru blómabrekkur með nokkrum kjarrgróðri af birki og víði. Fellur Keldá upp að rótum klettsins, og er þar geysidjúpur og stór hylur í ánni, sem nefnist Hrakhamarshylur. Má þar oft sjá veiðimenn að renna fyrir silung. Hamarinn dregur trúlega nafn af þessari torfæru.
Um 1 km innar er Votbergið, sem einnig er hluti af ganginum, en það er um 50 m langur, jafnt hallandi klettaveggur, með svörtum og hvítum bleyturákum, bryddaður röð af myndarlegum birkitrjám. Fyrir neðan hann er slétt og þurr grund, og því er þarna vinsæll áningarstaður ferðafólks, enda er þetta einstaklega fagur og skjólsæll staður.
Því hefur lengi verið trúað að í Votabergi og Hrakhamri byggi huldufólk, og hafa ýmsir séð þar ljós á vetrum og jafnvel dularfullar mannaferðir. Það var því ekki nema eðlilegt, að vegagerðarmönnum hefndist fyrir það að sprengja grjót úr hamrinum, og er það ekki í eina skiptið sem þeir hafa fengið sig fullreynda af skiptum við huldufólkið. (Sjá hrakfarasögu þeirra hér á undan).
Uppi á hjallanum, sem gangurinn myndar, er Hrakhamarsrétt, hlaðin úr grjóti, og stendur að mestu enn. Þangað var rekið fé af Múlaafrétt og dregið þar sundur.

ARNALDSSTAÐIR

Bærinn á Arnaldsstöðum stendur á vesturbakka Keldár undir snarbrattri en skógi vaxinni austurhlíð Múlans, og er þar lítið undirlendi. Á Arnaldsstöðum er mjög skriðuhætt, og má segja að hvergi sé óhult fyrir skriðum í landinu. Um 1 km utan við bæinn voru beitarhúsin Á Stekknum, og halda sumir að bærinn hafið upphaflega verið þar. Þar er nú túnblettur og mótar fyrir rústum. Gunnar Gunnarsson skáld fæddist á Arnaldsstöðum vorið 1889, en foreldrar hans bjuggu þar aðeins fáein ár. Jörðin fór í eyði árið 1993, og stendur þar gamalt timburhús..

Arnaldsstaðaskógur: Miðja vega milli Langhúsa og Arnaldsstaða eru ókleif hamrabelti neðantil í hlíðinni, þverskorin af djúpum gjám eða giljum, en uppi á þeim glittir í skógargróður. Það er ysti hluti Arnaldsstaðaskógar, sem við sáum áður handan yfir ána.
Skógur þessi er víða fagur og beinvaxinn, þó hann sé að miklu leyti í snarbrattri og klettóttri fjallshlíð, og virðist nánast "hanga" utan í klettunum, og þar eru nokkur stór reynitré. Nokkrar skóglausar geilar liggja þvert niður í gegnum skóginn, augljós ummerki skriðufalla, eins og í Víðivallaskóginum. Sumar geilarnar eru yfir 100 m breiðar, og eru nokkrar þeirra nálægt bænum.

Skriðuhlaupin miklu 1941: Síðla hausts 1941 gerðust válegir atburðir á Arnaldsstöðum, sem er lýst svo fréttabréfi úr dalnum:
Suðurdalur Múlamegin er varla þekkjanlegur lengur. Frá Hrakhamri og inn hjá Dalshúsum eru 20 stór hlaup og mörg minni, en breidd allra hlaupanna er talin 5-6 km. Fólkið á Arnaldsstöðum flýði bæinn, og mun ekki treystast til að vera þar í vetur. Hlaupin komu öll á einum sólarhring, og eyðilögðu svo að segja allar slægjur á Arnaldsstöðum og gríðarmikið af skógi. Eitt hús sópaðist burt og annað skemmdist. Tvö hlaupin hafa stöðvast á miðri leið, beint upp af bænum á Arnaldsstöðum. Er talið að Arnaldsstaðir séu ekki byggilegir lengur. Á Þorgerðarstöðum skemmdu hlaupin tún og engi og tóku eitt hús. Það var ógurlegt að heyra, þegar hlaupin voru að ryðjast fram, sérstaklega eftir að dimma tók.
Það var ævintýraleg ferð, þegar heimilisfólkið á Arnaldsstöðum var að flýja út í Langhús, því að allsstaðar voru illfærar aurskriður og fossandi vatn, en auk þess voru stöðugt að falla nýjar skriður á meðan það var á leiðinni, bæði fyrir aftan og framan. Var nánast kraftaverk að fólkið skyldi bjargast úr þessum leiðangri. Keldá var að sjálfsögðu bráðófær, og ekki var talið gerlegt að fara upp yfir Múlann, þó sá kostur væri íhugaður. Arnaldsstaðir héldust þó í byggð, allt til 1993.

 ÞORGERÐARSTAÐIR

Frá Arnaldsstöðum liggur leiðin að Þorgerðarstöðum, fremsta bæ í Múlanum austan megin. Þar er fagurt bæjarstæði á víðum völlum undir brattri og hjöllóttri austurhlíð Múlans. Bærinn fór í eyði 1983. Keldá hefur í seinni tíð verið iðin við að brjóta neðan af landinu og í vatnavöxtum flæðir hún yfir veginn stutt fyrir innan Arnaldsstaði, svo hann getur orðið ófær. Um aldamótin 1900 bjó Baldvin Benediktsson á Þorgerðarstöðum, dugandi bóndi og brautryðjandi í ýmsum efnum. Dóttir hans, Elísabet, var fyrsti formaður Ungmennafélags Fljótsdæla. Á 19. öld ólst þar upp Pétur Sveinsson smiður, sem hefur ritað ýmislegt um Fljótsdal og mannlíf á Héraði. (Sjá Múlaþing 19 (1992): 193-214).

Ekki er allt gull sem glóir: "Kona hét Þorgerður og var kölluð silfra.. Hún var dóttir Þorvalds ins háva, ung að aldri, og var hún þó ekkja og bjó í Fljótsdal, þar sem nú heitir að Þorgerðarstöðum, og var að umsýslu með henni bróðir hennar er Kolfinnur hét. Þorgerður bauð Brodd-Helga til sín við þriðja mann, og fór hann þangað, og tók hún við honum ágætavel og setti hann í öndvegi og settist niður hjá honum, og varð þeim allhjaldrjúgt. Og áður Helgi fór heim, er það að segja, að hann fastnaði sér Þorgerði silfru." (Vopnfirðinga saga. Ísl. fornrit XI, 36).
Brodd-Helgi var goði Vopnfirðinga og bjó á Hofi. Þegar þetta gerðist var hann kvæntur Höllu Lýtingsdóttur frá Krossavík. Hún hafði að vísu boðið honum skilnað og fjárskipti, vegna veikinda sinna, en ummæli hennar við Helga, er hann sagði þessi tíðindi: "Það þykki þér eigi of brátt", benda þó til að hún hafi vænst annars af honum.
Líklega hefur Þorgerður verið skartkona mikil, og því fengið þetta viðurnefni. Koma hennar til Hofs varð upphaf mikillar harmsögu, vígaferla milli Hofverja og Krossvíkinga, sem Vopnfirðinga saga fjallar um. Eftir að Brodd-Helgi var veginn af fyrrverandi mági sínum, og Bjarni sonur þeirra Höllu hafði vegið móðurbróður sinn til föðurhefnda, var Þorgerður rekin burt frá Hofi, og fer ekki sögum af henni eftir það.

Heyflutningur á norskan máta: Víða í Fljótsdal háttar svo til, að góðar engjar eru uppi á flötum aðliggjandi fjalla og heiða, en hins vegar eru oft mikil klettabelti og björg í hlíðum dalanna, er hindra flutninga heysins á hestum til byggða. Var því ekki nema eðlilegt að hugvitsmenn reyndu að finna aðrar aðferðir til að flytja heyið niður.
Laust fyrir aldamótin tók Baldvin Benediktsson bóndi á Þorgerðarstöðum upp það snjallræði, að strengja vír frá brúninni á Bjarginu, þar sem síðan heitir Vírgjá, og niður að hlöðunni við beitarhúsin á Dalshúsum, til að renna heyinu niður. Danski fræðimaðurinn Daniel Bruun var á ferð um Fljótsdal 1901, og minnist á þetta mannvirki. Hann segir strenginn vera 1500 álna langan (um 800 m), telur þetta vera "að norskri fyrirmynd." Er líklegt að Fljótsdælingar sem fóru á búnaðarskólann á Steini (Stend) í Noregi 1875 hafi kynnst þessari heyflutningsaðferð þar.
Heyið var bundið grasþurrt í fremur litla bagga, sem festir voru á krók neðan á trissuhjóli, sem rann á strengnum, og síðan látnir gossa niður. Nokkrar trissur voru í notkun, svo hægt var að senda fleiri en einn bagga í einu.
"Hraðinn var ofboðslegur og góð skemmtun að horfa á. Trissan sjóðhitnaði og sást í myrkri skjóta gneistum út í loftið. Spölkorn frá festingunni í neðra var steinn, sem baggarnir rákust í og tók við mesta högginu. Oft fóru þeir úr böndunum og heyið þyrlaðist víðs vegar." (Heyflutningastrengir. "Búkolla" II, 72).
Heyið var síðan þurrkað niður við húsin, en trissurnar þurfti að bera upp aftur fyrir næstu atrennu. Einu sinni slitnaði strengurinn, og þeyttist efri endinn út í loftið með miklum hvin, og vafðist síðan upp í óreglulegar flækjur, sem erfitt var að leysa úr, enda var vírinn allt að sm digur. Svipaðir strengir voru á nokkrum bæjum í Norðurdal framan af þessari öld. Strengurinn á Þorgerðarstöðum var síðast notaður árið 1938, en var þá seldur í Egilsstaði í Norðurdal, þar sem hann var notaður einhver ár eftir það. Síðast var heystrengur notaður á Kleif, um 1950.

Þorgerðarstaðadalur og sel Randalínar: Inn af Þorgerðarstöðum gengur alllangur dalur til suðurs, og kallast hann Þorgerðarstaðadalur vestan megin. Í mynni hans eru beitarhúsin Dalshús, sem fyrr var getið, og liggur bílaslóð þangað inneftir og reyndar lengra inn á dalinn, en þar hefur nýlega verið sett upp skógræktargirðing.
Keldáin rennur um dalinn endilangan, og myndar nokkra laglega fossa inni í dalbotninum. Gjögurfoss og Stöppufoss eru neðstir þessara fossa, 10-20 m háir. Þar er fallegur skógur í árgilinu og kjarr í hlíðinni fyrir ofan, og kallast þar Þorgerðarstaðaskógur.
Á Þorgerðarstaðadal eru nöfn eða ummerki nokkurra selja, og telja sumir að dalurinn hafi verið nefndur Seljadalur áður fyrr. Á Sveinsseli eru tættur beitarhúsa frá Þorgerðarstöðum, en lengra inn á dalnum voru Stöppusel og Randalínusel. Það síðastnefnda er kennt við Randalín Fillipusdóttur húsfreyju á Valþjófsstað á 13. öld. (Sjá síðar). Er talið að hún hafi haft þarna í seli frá Valþjófsstað. 

NORÐURDALUR

Norðurdalur er allt öðru vísi en Suðurdalur. Hann er þröngur og lokaður utan frá séð, enda liggur hann í bugðum, og fer smámjókkandi og hækkandi inn til landsins. "Norðurdalur er svo reglulega sorfinn gegnum bergið, að það er eins og hann sé skorinn með bjúghníf", ritar Þorvaldur Thoroddsen um hann. (Ferðabók III, 288). Skuggaleg og himinhá björg gnæfa beggja megin í hlíðum dalsins, en sumsstaðar eru þær skógi klæddar og hinar fegurstu. Undirlendi er af skornum skammti, víðast fremur mjó ræma meðfram Jökulsánni, sem þrumir í dalbotninum ýmist á eyrum eða í grunnu klettagili með flúðum og smáfossum, grá og gruggug á sumrum. Alltaf blasir Snæfell við sjónum, upphafið og tígullegt eins og eitthvert háleitt markmið. Stundum finnst mér dalurinn minna á grískt hof með súlnagöngum beggja vegna, og fyrir stafni mikilfengleg mynd einhvers hinna olympisku guða, kannski Appolóns.

 LANGHÚS

Bærinn á Langhúsum stendur utan í Múlaendanum, og er sá fyrsti sem að er komið í Múlanum. Jörðin var fyrrum eign Valþjófsstaðakirkju eins og Arnaldsstaðir og Þorgerðarstaðir. Er sagt að séra Vigfús Ormsson hafi haft þar 100 svartar ær á beitarhúsum. Kannske er bæjarnafnið dregið af löngu fjárhúsi.

Merkilegt húsasafn: Víst er að ennþá eru mikil "langhús" fyrir sauðfé á Langhúsum, öll byggð með hinu þúsund ára gamla byggingarlagi Íslendinga, úr torfi og grjóti, og er ennþá vel við haldið. Slík gripahús voru lengur í notkun í Fljótsdal en í flestum eða öllum öðrum sveitum landsins. Um 1990 voru fjárskipti í hreppnum vegna riðuveiki. Var þá fyrirskipað að sótthreinsa öll fjárhús sem nota átti áfram, en þau sem menn vildu taka úr notkun varð annaðhvort að girða vandlega eða rífa til grunna og hylja jarðvegi. Þarf naumast að geta þess, að flestir tóku síðasta kostinn, og byggðu í staðinn ný hús fyrir "riðubæturnar." Þannig fór mest af hinni fornu byggingararfleifð á Héraði forgörðum "á einni nóttu" fyrir vanhugsaðar opinberar aðgerðir, sem að sjálfsögðu komu að litlu gagni, hvað snerti útrýmingu veikinnar, en leiddi hins vegar til mikillar fækkunar sauðfjár, sem líklega var hið dulda markmið þessarar herferðar.
Því gleðilegra er það, að geta ennþá virt fyrir sér gömlu fjárhúsin á Langhúsum, sem standa í tveimur þyrpingum í túninu rétt fyrir vestan bæinn, vendilega hlaðin og snyrtileg, flest með torfþekjum. Í aðalbyggingunni eru fjögur samliggjandi fjárhús, án milliveggja, en stoðir undir sundum, auk þess hesthús og hlaða. Í einu húsinu eru ennþá leifar af eldgömlu helluþaki, en þau voru nokkuð víða á fjárhúsum í Fljótsdal, og hesthúsgólfið er einnig hellulagt.
Ágúst Þórhallsson bóndi hefur látið sér annt um þessi gömlu hús, enda var hann við byggingu þeirra flestra, eða endurbyggingu, með Þórhalli Ágústssyni föður sínum. Fyrir það stendur þjóðin í þakkarskuld við þennan bónda.

Langhúsa-Móri: Í upphafi 19. aldar var maður að nafni Auðunn Einarsson bóndi á Langhúsum. Sagt er að í búskapartíð hans kæmi nauðleitarmaður utan af Héraði að Langhúsum og bæði bónda fyrir fé sitt, en hann færðist undan og kvað sig vanta fólk til að gæta þess. Reiddist þá aðkomumaður, og kvaðst myndi senda honum "smaladreng" innan skamms. Leið ekki á löngu þar til fór að verða vart við strákling nokkurn í mórauðum fötum, með prjónahúfu, sem sóttist eftir að gera Auðuni bónda skráveifur. Þóttust menn vita að hann væri uppvakningur, og var hann nefndur Langhúsa-Móri. Auðunn hafði áhyggjur af því að Móri yrði fólki sínu skeinuhættur eftir sinn dag, og fékk vin sinn Einar á Víðivöllum til að taka hann að sér. Eftir það fylgdi Móri Einari hvert sem hann fór, og líkti eftir háttum hans. Meðal annars sást hann reykjandi pípu eins og Einar. Mekkín skyggna sá hann oft sitja á hlóðarsteininum í Klúku og púa pípuna áður en Einar kom.

Upphaf skáldaættar: Um miðja 19. öld bjuggu á Langhúsum hjónin Sigfús Jónsson og Þorbjörg Jónsdóttir. Þorbjörg var svo vel skáldmælt, að almannarómur taldi ómögulegt að hún væri rétt feðruð og vildi kenna hana Hallgrími Ásmundssyni skáldi í Stóra-Sandfelli. Lítið hefur geymst af skáldskap hennar nema fáeinar vísur, m.a. þessi um þorrann:

Lundhýr þorri þýddi mund,
þandi skúr um holt og sand,
undir fjalla ultu um grund,
anda hlýjum blés á land.

Af þeim hjónum er komin mikil skáldaætt austanlands. Sigfús sonur þeirra bjó á Skjögrastöðum í Skógum og var kenndur við þann bæ. Hann var gefinn fyrir fræði og ritaði m.a. nokkrar þjóðsögur. Dætur hans voru allar skáldmæltar, en ein þeirra var Margrét á Hrafnkelsstöðum, sem "gaf út" sveitarblað í Fljótsdal um árabil. Rannveig systir hennar var móðir Guðfinnu skáldkonu í Teigi í Vopnafirði, sem kallaði sig Erlu, og hennar sonur var Þorsteinn Valdimarsson skáld. 

GLÚMSSTAÐIR (I)

Glúmsstaðir eru næsti bær fyrir innan Langhús vestan undir Múlanum. Þetta er ein af hinum fornu stórjörðum. Tilheyrði henni Norðurdalur allur að austanverðu, og afréttarland sem kallast Múlaafrétt, inn til jökla. Jörðin átti selför í Hrafnkelsdal, þar sem enn kallast Glúmsstaðadalur. Glúmsstaðir eru önnur tveggja jarða í Fljótsdal, sem alltaf hafa verið í einkaeign, því kirkja og klaustur áttu þar flestar jarðir. Í fornum skjölum kemur fyrir nafnið Gnúpsstaðir, sem gæti bent til þess að Múlinn hafi verið nefndur Gnúpur (Núpur). Langt er síðan Glúmsstaðasel var byggt út úr jörðinni, og um miðja þessa öld var Glúmsstöðum aftur skipt í tvær jarðir: Glúmsstaði I og II.
Bærinn á Glúmsstöðum I stendur í sveig undir snarbrattri vesturhlíð Múlans, sem er alsett fremur lágum klettabeltum, en ofantil í fjallinu er Glúmsstaðabjarg, nokkuð hátt og samfellt. Sólin kemur ekki upp á bænum í heilar 18 vikur eða 4½ mánuð, enda vilja sumir meina að Glúmsstaðir merki skuggsæll staður. Handan við ána er hrikalegt Hólsbjargið, þar sem Ljósáin steypist ofan í syngjandi fossaföllum.
Anna Margrét Þorsteinsdóttir, móðir Björgvins Guðmundssonar tónskálds, var alin upp á Glúmsstöðum á seinni hluta 19. aldar. Kannske rann tónlist náttúrunnar henni þar í merg og bein, og gekk í arf til sonarins.
Nú er þar önnur kona með sama nafni, Margaret Anne húsfreyja, borin og barnfædd í sólarlandinu Ástralíu, og furða margir sig á að hún skuli kunna við sig á þessum skuggastað. Hún býr til ýmsar handunnar vörur og hefur til sölu, m.a. flókahatta, sem unnir eru úr ull. Einnig framleiðir hún svonefnt birkisalt, úr þurrkuðum og möluðum birkiblöðum og íslensku salti. Jón Þór Þorvarðarson bóndi, er fararstjóri og leiðsögumaður í "Hestaferðum", sem skipulagðar eru fyrir ferðafólk inn að Snæfelli og á Vesturöræfi á sumrin.

"Var hlaupin skriða á bæinn": Í Fljótsdæla sögu er þessi frásögn: "Glúmur hét maður, er bjó í Fljótsdal fyrir vestan (þ.e. Norðurdal), þar sem nú heitir á Glúmsstöðum. Þuríður hét kona hans og var Hámundardóttir, kynjuð sunnan úr Þjórsárdal. Þau áttu sér eina dóttur, þá er Oddbjörg hét. Þær mæðgur fóru í fjós einn morgin snemma. Nautamaður var í fjósi, en Glúmur lá í rekkju sinni. En þá er þær komu heim að bænum, var hlaupin skriða á bæinn og þar Glúmur inni orðinn og allur lýður, sá er á bænum var, nema þessir þrír menn. Eftir þessi tíðindi lætur Þuríður færa bæinn yfir ána, hóti ofar en áður var. Hún bjó þar lengi. Sá bær heitir nú síðan á Þuríðarstöðum.
Ásbjörn sonur Hrafnkels Freysgoða fékk Oddbjargar á Þuríðarstöðum, og fluttist hún til hans í Aðalból. Þeirra sonur var Helgi Ásbjarnarson, er deildi við þá Droplaugarsonu. Þannig skýrir sagan ítök Glúmsstaða og Þuríðarstaða í Hrafnkelsdal og að afdalir hans heita Glúmsstaðadalur og Þuríðarstaðadalur.
Utan við bæinn er tvær skriðubungur er kallast Ytra- og Fremra-Háaleiti. "Þar kvað á einum stað votta fyrir tóttum, og munnmæli herma að þar hafi bær Glúms staðið", segir Ólafur Jónsson (Skriðuföll og Snjóflóð I, 299). Neðan við ytra leitið er Tóftartangi við Jökulsá. Þar eru tættur af langhúsi, sem gæti verið forn skálatótt. Hugsanlega var byggt þar upp eftir að skriðan féll á bæinn. Þarna hafa oft fallið aurskriður. Síðasta stórskriðan féll rétt fyrir utan túnið og fjárhúsin haustið 1979, sama dag og Víðivallaskriðan mikla, og sjást ummerki hennar greinilega. Hún færði m.a. í kaf gamlan túngarð, sem þarna var. Um aldamót 1900 fannst spjótsoddur í nánd við bæ á Glúmsstöðum, kannske er úr rústum fornbæjarins. Hann er nú í Minjasafni Austurlands.

Sakramentaður draugur (Flugandi): Í þjóðsögum Jóns Árnasonar, Jóns Þorkelssonar (bls. 302) og Sigfúsar Sigfússonar er sagt frá draugnum Fluganda, sem ásótti Magnús bónda Jónsson á Glúmsstöðum á seinni hluta 17. aldar. Átti Jón Þorláksson sýslumaður á Víðivöllum að hafa ásælst jörðina, en Magnús ekki viljað selja hana, og fékk sýslumaður þá Dalhúsa-Jón, frægan galdramann, til að vekja upp draug og senda Magnúsi. Segja sumar sagnir að hann endurbyggði kirkjuna á Víðivöllum og dubbaði fjósamann sinn til prests, í þeim tilgangi að "sakramenta" drauginn, þ.e. að taka hann til altaris. Af þeim sökum varð draugur þessi hinn versti viðureignar.
Leitaði Magnús bóndi til nafna síns prests á Hörgslandi syðra, sem var þekktur fyrir kunnáttu sína, og fékk þar góð ráð, sem hann gat þó ekki hlýtt, og lauk svo að Flugandi gekk að honum dauðum, við Rauðalæk (Raunalæk) fyrir innan bæinn. Ýmsum sögum fer af endalokum draugsins. Segja sumir að hann væri settur niður í skálanum á Glúmsstöðum og væri þar lengi reymt síðan. Aðrir segja að hann hafi að lokum banað Dalhús-Jóni á Parthúsum út frá Arnheiðarstöðum, með því að slíta hann í parta.

 GLÚMSSTAÐIR II

Nýbýlið Glúmsstaðir II (stofnað 1948) var byggt á höfða sem gengur fram í Jökulsá, nokkru innar en andspænis bænum Hóli. Þar voru áður beitarhús frá Glúmsstöðum, er nefndust Stekkur. Því er bærinn oft kallaður "á Stekknum". Glúmsstaðabjarg er þar skammt fyrir ofan í fjallinu, en það er nánast samfelldur klettaveggur, sem nær frá Glúmsstöðum I inn að Fossá, um 3 km vegalengd, og rís einna hæst (um 40 m) fyrir ofan bæinn. Handan við ána eru Hólsbjargið og "Ljósárkinnin", sem njóta sín mjög vel héðan. Beint á móti bænum, er Bjargskógurinn, sem virðist hanga utan í klettunum. Héðan sést langt út og inn eftir dalnum, og Snæfell gnæfir við himinskör.

Steinboginn í Brúarhvammi: Innan við höfðann, sem Glúmsstaðir II standa á, heitir Brúarhvammur, og innst í honum, um 1/2 km innan við bæinn er klettahryggur sem gengur þvert um árfarveginn, og myndar dranga í miðri ánni. Munnmælin segja að þarna hafi verið steinbogabrú á Jökulsá til forna, en Þuríður Hámundardóttir hafi látið brjóta hana niður, eftir að börn hennar fórust af honum. Börnin ætluðu að strjúka yfir í Glúmsstaði, sem þá voru eyddir af skriðuhlaupinu. Er nafn hvammsins sagt vera dregið af þessari brú.

Hamarssel og Jökulsárbrúin nýja: Frá Stekknum liggur leiðin inn að Hamarsseli, beitarhúsum frá Glúmsstöðum (II). Þar standa enn gömul tvístæð fjárhús með grjót-torfveggjum, og á þeim járnþak á sperrum, en þannig var síðasta "kynslóð" gripahúsa með gamla laginu í Fljótsdal og víðar á Héraði. Sagt er að búið hafi verið á Hamarsseli, enda er þar dálítið tún.
Stutt fyrir utan selið er nýleg járnbitabrú á Jökulsá, byggð um 1990. Áin fellur þar á flúðum í þröngu gili, með fjölbreyttum klettastöllum, sem gaman er að skoða nánar, og horfa ofan í flauminn. Þarna var nánast sjálfgert brúarstæði, og raunar furða að þar skyldi ekki hafa verið byggð brú löngu fyrr.

 GLÚMSSTAÐASEL

Ef við höldum áfram inn dalinn frá Hamarsseli, komum við brátt að fremsta bænum Glúmsstaðaseli, sem kallað er Sel í daglegu tali. Bærinn fór í eyði 1990, þegar Níels Pétursson og systir hans fluttu í Egilsstaði. Þar er snoturt íbúðarhús í gömlu og ræktarlegu túni, sem logar í sóleyjum hvert sumar, og enn eru þar nokkrir torfkofar uppi standandi, jafnvel með torfþaki.
Innan við Glúmsstaðasel kallast Seldalur austan Jökulsár. Þar eru gamlar seljatættur á nokkrum stöðum. Trönusel með beitarhúsatóttum, um 2 km inn frá bænum og Bjarsendasel, miklu innar.
Hvað er að gerast í Selfjallinu? Í fjallshlíðinni innan og ofan við Glúmsstaðasel er Gjáhjalli. Eftir honum endilöngum liggur röð af sprungum og gjám, allt að 2 km á lengd. Aðalgjárnar eru tvær, og opnast sú syðri fram úr hjallabrúninni. Bergstabbinn neðan við gjána hallast ofan í dalinn, og úr honum féll dálítið berghlaup um 1870. Sést grjótdreifin þaðan niður í Jökulsá. Gjáin er allt að 20 m djúp á kafla og um 10 m breið í botninn, og minnir töluvert á Almannagjá á Þingvöllum. Hin aðalgjáin tekur við af þessari, ofar á hjallanum, en neðan við hana eru margar mjórri gjár og sprungur, samhliða henni.
Ólafur Jónsson ráðunautur og skriðufræðingur telur að bergfylla hafi sigið til á hjallanum og sprungið um leið, og muni þetta bergskrið að líkindum halda áfram með einhverjum hvíldum. Þarna geta því verið skilyrði fyrir nýjum berghlaupum. (Skriðuföll og snjóflóð I, 422-426). (Athuga hvort bæta má þessa lýsingu eftur ferðalýsingu minni frá 2001)

Kláfar og strengir á Jökulsá: Andspænis Glúmsstaðaseli er bærinn Kleif, sem hefur verið í eyði um nokkurt skeið. Stutt er á milli bæjanna, og áin ekki breiðari en svo að kallast má á yfir hana. Þar er einnig kláfur eða kláfferja, sem hægt er að fara á yfir ána og virðist í sæmilegu standi. Annar kláfur var hjá Hamarsseli (?), þar sem nú er komin brú, og við Glúmsstaði II var strengur eða seil til að hala á vörur og póst yfir ána, og annar slíkur fyrir innan Hvamm í landi Valþjófsstaðar, byggður af Vatnamælingum fyrir nokkrum árum, og notaður til að mæla vatnsmagnið í ánni.
Kláfar voru og eru algengir á Jökulsánum eystra, en hafa lítið tíðkast í öðrum landshlutum. Flestir eru þeir á Jökulsá Dal, og kallast þar oftast drættir. Sagt er að þeir hafi tíðkast þar allt frá 17. öld. (Um kláfana á Jökuldal sjá Gletting 3 (1), 1993).

Fossarnir í Jökulsánni (gönguferð): Í Jökulsá í Fljótsdal eru margir fossar, af ýmsum stærðum og gerðum. Eru neðstu fossarnir skammt fyrir innan Glúmsstaðasel, og síðan allar götur upp að Eyjabökkum. Á þeirri 20 km leið eru um 15 fossar, sumir að vísu flúðkenndir. Tveir þeirra eru stærstir og í tölu hinna mikilfenglegustu á Íslandi, þ.e. Faxfoss og Kirkjufoss. Ef til virkjunar árinnar kemur yrðu fossarnir ekki nema svipur hjá sjón.
Til að skoða fossavalið í Jökulsánni, er best að fara í gönguferð frá Seli upp með Jökulsánni að austanverðu, því að flestir fossarnir vísa til austurs og blasa við þeim sem skoðar þá af austurbarminum, en snúa oft baki við hinum, sem gengur vestan megin. Þetta er löng ganga ef menn eiga að skoða alla fossana, og er þá vart um annað að ræða en taka sér gistingu í gangnakofanum á Hrakströnd, og fara til baka næsta dag, eða halda áfram inn að Eyjabakkajökli. Frá Seli að Hrakströnd mun vera um 5-6 klst. gangur. (Um Jökulsárfossana og selin innst í Norðurdal sjá jólablað Austra 1990).
Frá Glúmsstaðaseli snúum við aftur út í Hamarssel, förum þar yfir nýju brúna á Jökulsá, sem fyrr var getið, og ökum svo aftur inn eftir dalnum norðan megin.

 EGILSSTAÐIR

Frá Jökulsárbrúnni er stuttur akstur að bænum Egilsstöðum, vestan Jökulsár. Þar er undirlendi meira en annarsstaðar í dalnum, en túnið allt með vægum halla niður að ánni, og hlíðin fyrir ofan er nánast klettalaus. Á Egilsstöðum var fram að "riðuhreinsun" mikið af gömlum gripahúsum úr torfi og grjóti, sem dreift var um allt gamla túnið, eins og forðum daga. Nú er aðeins Ystahúsið eftir, en það var talið upprunalegast, er t.d. með birkiárefti undir torfinu. Halda menn að þar hafi verið grafreitur. Þá er gamall smalakofi hlaðinn úr hellum uppi í fjallinu, og stendur vel enn.

Fornar væringar milli sveita: Þjóðsögur greina frá Herjúlfi á Egilsstöðum, sem sagnir eru um að hafi átt í deilum við Jökuldæli vegna landnýtingar á Vesturöræfum..
Var þá efnt til sáttafundar í Tungunni inn frá Hrafnkelsdal.Til fundarins mátti hvor aðili koma með níu menn, en Jökuldælir komu á 10 hestum og tví- og þrímenntu á hverjum hesti. Snerist því sáttafundurinn í bardaga, og féll Herjólfur þar og var heygður. Er Herjólfshaugur þar í Tungunni. (Þjóðsögur Sigf. Sigf., VI, 62).
Enn er deilt um það hvort Vesturöræfi tilheyri Fljótsdals- eða Jökuldalshreppi.

Þórsdýrkun: Við Jökulsárbrúna eru Þórisstaðalækir tveir norðan ár, og Þórisstaðakvísl er uppi á heiðinni, en Þórisstaðir er aðeins þekkt sem nafn á fornbýli í Hrafnkelsdal. Lágt fell uppi á heiðinni heitir Þórfell. Annar af sonum Hrafnkels Freysgoða hét Þórir. Hann bjó á Hrafnkelsstöðum og er ekki getið að hann tengist þessum örnefnum, sem líklega benda fremur til Þórsdýrkunar á þessum slóðum. Inni á Múlanum austur af Hrakströnd er örnefnið Ragnaborg, er menn telja benda til goðadýrkunar. Þangað átti Glúmur á Glúmsstöðum að hafa gengið berfættur morgun hvern, til að dýrka goðin.

Mekkín skyggna: Á Egilsstöðum bjó Mekkín Ólafsdóttir hin skyggna síðustu áratugum 19. aldar, og síðan afkomendur hennar, sem hafa ýmsir verið skyggnir. Mekkín var dóttir Guðrúnar dóttur Ingunnar skyggnu á Skeggjastöðum í Fellum, sem fluttist þangað neðan úr Hellisfirði í upphafi 19. aldar. Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari var sonarsonur Ingunnar, og ólst upp á Skeggjastöðum. Þegar hann varð fulltíða var hann nokkur ár hjá Mekkínu frænku sinni á Egilsstöðum, og hafði dvölin þar mikil áhrif á þroskaferil hans og áhuga fyrir þjóðfræðum. Mekkín var gædd ríkri forsagnargáfu, svo varla kom nokkuð henni á óvart. Auk þess sá hún fylgjur manna, svipi og jafnvel huldufólk. Sigfús ritaði þátt af Mekkínu í þjóðsagnasafn sitt. Hún var fróðleiksfús og las bækur og handrit, jafnvel við tunglsljós, kunni heilar sögur og rímur utanbókar, segir Sigfús.

Vigfús Sigurðsson: Sigurður Hjörleifsson sonur Mekkínar bjó á Egilsstöðum. Synir hans voru Gunnar og Vigfús, sem var góður teiknari, og byrjaði að taka ljósmyndir þegar um aldamótin, fyrstur manna á Héraði, er hann var um tvítugt heima á Egilsstöðum. Er sagt að hann hafi notað annað glerið úr gleraugum Mekkínar ömmu sinnar til að smíða fyrstu myndavélina. Eftir hann liggja margar teikningar og ljósmyndir af mönnum og bæjum á Héraði um aldamótin. Sérstakur bás er tileinkaður Vigfúsi í hinum nýja sýningarsal Minjsafns Austurlands í Safnahúsinu á Egilsstöðum. (Bróðurdóttir Sigurðar var Meckin Perkins rithöfundur í Kanada).
Gunnar Sigurðsson átti fjölda barna, og fengu flest þeirra einhvern snert af skyggnigáfu. Þeirra þekktastur er Snorri Gunnarsson, þúsund þjala smiður, er saumaði íslenska kvenbúninga betur en flestir aðrir. Nú búa Gunnar systursonur Snorra, og Bergljót systurdóttir hans á Egilsstöðum, og hafa byggt þar myndarlega upp. Bóndi stundar vörubílaakstur.

Eyrarsel og Volgulindir: Innst í landinu eru beitarhúsin Eyrarsel, við samnefnda þverá, en þar endar bílvegurinn. Skammt fyrir utan og ofan Eyrarsel eru Volgulindir eða Eyrarselslindir, en það eru volgar uppsprettur, eins og nafnið bendir til, hinar einu sem til skamms tíma voru þekktar í byggð á Héraði. (Í Hrafnkelsdal eru þó einnig laugar í byggð). Þær koma upp á nokkrum stöðum í hlíðinni, og eru um 20-24° heitar. Heildarrennsli mun vera 1-2 sekúndulítrar. Líklega má fá meira vatn og heitara með borun.

 KLEIF

Bærinn Kleif stendur rétt fyrir innan Kleifarána, sem fellur í mörgum og fögrum fossum stall af stalli niður Kleifarfjallið. Áin var  virkjuð til heimilisnota árið 1956. Þar var heyflutningastrengur lengst í notkun í Fljótsdal, eða fram um 1950. (Sjá Hól) Enn er þar nothæfur kláfur yfir Jökulsá. Bærinn fór í eyði um 1980. Síðasti bóndi var Þorfinnur Sigmundsson, sem var þekktur fyrir spaugsemi sína og hnyttin svör. Hann lést 1981 og fór bærinn þá í eyði. Fært er á öllum bílum inn að beitarhúsunum á Eyrarseli, en þaðan er aðeins jeppavegur að Kleif.
Frá Kleif liggja glöggar götur vestur yfir heiði til Hrafnkelsdals, sem kallast Aðalbólsvegur eða Kleifarvegur. Leiðin er vörðuð á milli brúna dalanna. Önnur leið liggur inn eftir Kleifardalnum, en svo kallast sá hluti Norðurdals sem tilheyrir jörðinni Kleif, og nær hann um 10 km inn frá bænum. Þá leið fóru ferðamenn oftast að Snæfelli, áður en bílvegur kom inn Fljótsdalsheiði.

Kleifardalur (gönguferð): Kleifardalur er fremur þröngur og undirlendið mjó ræma. Jeppafært er frá Kleif inn að enda túnanna, um 1 km inn fyrir bæinn, en síðan verður að taka til fótanna, ef lengra skal halda. Inn eftir Kleifardalnum er mjög skemmtileg gönguleið, þar sem hrikalegt Kleifarbjargið gnæfir á fjallsbrún, um 3 km langt og allt að 100 m hátt á köflum. Innantil undir því er allmikið birkikjarr í grjótskriðum, sem vaxið hefur upp síðustu áratugina. Farið er framhjá neðstu fossunum í Jökulsánni, Miðselsfossi og Stóralækjarfossi.
Við innri enda Bjargsins er Ófærusel. Þar voru beitarhús frá Kleif fram um aldamótin síðustu og sögn er að þar hafi eitt sinn verið búið. Neðan við selið er Ófæruselsfoss í Jökulsá, sem nýtur sín varla þeim megin, og þar fyrir innan er skógi vaxin hlíð, mjög sérkennileg og fögur, sem Kleifarskógur kallast. (Um Kleifarskóg og Ófærusel sjá jólablað Gálgáss 1994).
Eftir þennan útúrdúr höldum við til baka út að Jökulsárbrúnni og hefjum þar skoðun okkar að nýju. Að þessu sinni ökum við út dalinn norðan Jökulsár.

 ÞURÍÐARSTAÐIR

Samkvæmt Fljótsdælu flutti Þuríður ekkja Glúms á Glúmsstöðum (sjá þann bæ) sig yfir ána eftir skriðuhlaupið mikla og byggði bæinn, sem við hana er kenndur. Oddbjörg dóttir hennar giftist Ásbirni Hrafnkelssyni á Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Herma þjóðsögur að Þuríður hafi haft í seli á öðrum afdal Hrafnkelsdals, sem enn kallast Þuríðarstaðadalur, en á hinum var sel frá Glúmsstöðum, sem fyrr var getið. Ljóst er að einhver tengsl hafa verið milli Glúmsstaða og Þuríðarstaða, og þaðan vestur á Hrafnkelsdal, þó ekki sé nú vitað hvernig þeim var háttað. Nú eru Þuríðarstaðir fremur lítil jörð. Má ætla að jörðin Hóll hafi tilheyrt henni í öndverðu, en báðar jarðir komust í eigu kirkjunnar á Valþjófsstað. Þuríðarstaðir fóru í eyði 1986. Þar stendur íbúðarhús úr steini, en gripahús hafa verið jöfnuð við jörðu. "Innan bæjar eru mjög fornar bæjarrústir í túninu", segir í örnefnaskrá. (Nýlega hafa Kristrún Jónsdóttir bókavörður og leikari á Egilsstöðum og Benedikt Jónasson frá Þuríðarstöðum fengið ábúð þar).

Fögruklettar og hulduhrútar: Rétt fyrir ofan veginn, innst í landi Þuríðarstaða, stutt fyrir utan Jökulsárbrúna, eru lágir, jökulskúraðir klettar, þverhníptir að austanverðu, og minna á gamlan íslenskan burstabæ. Þeir heita Fögruklettar. Austan í klettaveggnum eru nokkrar holur, allt að meters djúpar. Undir klettinum mótar fyrir gamalli tótt. Er sagt að þar hafi verið beitarhús frá Þuríðarstöðum, en flytja varð húsin þaðan vegna þess að þar fæddust vansköpuð lömb, og vildu menn kenna það hrútum huldufólksins er byggi í klettunum.

 HÓLL

Bærinn á Hóli er einkennilega settur, undir snarbrattri fjallshlíð með hrikalegum björgum efst. Mun leitun á jafn fögru og sérstöku bæjarstæði hér á landi. Þar er myndarlegt íbúðarhús úr steini, sem nokkuð er farið að láta á sjá. Í Bjarginu upp af bænum er örnefnið Heyklettur. Þaðan var heyi rennt á streng niður á túnið og var þar stór steinn sem tók ferðina af böggunum. Þetta var síðast gert 1928. Vegalengdin frá Heykletti niður á Hólstún er um 300 m og hæðarmunur álíka mikill. (Sjá Þorgerðarstaði).
Á Hóli bjó í upphafi aldar Friðrik Stefánsson, einstakur ferðagarpur, sem fylgdi mörgum ferða- og veiðimönnum inn að Snæfelli og á Vesturöræfi, og var líka sjálfur góð hreindýraskytta. Friðrik kemur mikið við sögu í bók Helga Valtýssonar:"Á hreindýraslóðum" (Ak. 1944). Benedikt sonur hans var lengi oddviti í Fljótsdal, orðheppinn og gamansamur, og Guðfinna systir hans var ljósmóðir, mikils virt.. Hóll var hjáleiga Valþjófsstaðar, fram til aldamóta eða lengur, en er nú ríkisjörð. Bærinn fór í eyði 1986. (Sólveig Dagmar Bergsteinsdóttir útgáfustjóri Austra og Þórhallur Þorsteinsson voru síðustu bændur, og hafa ennþá ábúð á jörðinni).

Land hinna ljósu fossa: Skammt fyrir utan Þuríðarstaði hefst bjargveggur mikill, sem stefnir út og upp eftir hlíðinni, og hækkar eftir því sem utar dregur. Þetta er Hólsbjargið, sem er um 5 km langt, og allt að 100 m hátt fyrir utan bæinn. Ytri hluti þess kallast Teigsbjarg. Neðan við Bjargið er breiður hjalli, Geithjallinn, vaxinn kjarri ofantil, og uppi á Bjarginu innantil er Bjargskógur, sem fyrr var nefndur.
Neðan í Geitahjalla eru nokkur klettabelti, Geitahjallarákir. Í þeim er Sesseljuskúti, kenndur við stúlku sem leitaði þar athvarfs.Í Rákunum eru stök tré og lundir af birki og reyniviði og blómgróður ríkulegur. Blágresi, geithvönn, sóleyjar og fjöldi annar blóma vefur sig þar um stalla og syllur, enda heitir þar Fagrarák. Í Háurák var nátthagi fyrir kvíaær. Uppi á bjarginu innantil er Bjargskógurinn, sem fyrr var nefndur, og í skriðum á Geitahjalla er líka nokkuð samfellt kjarr.
Ljósá fellur í háum fossi fram af Bjarginu stutt fyrir utan Hól, skiptist þar og myndar snjóhvíta úðafossa fram af Geitahjallarákum og Ljósárhjalla. Í vorleysingum og eftir rigningar eru þessi fossaföll mikilfengleg og hrífandi fögur sjón, en síðsumars verður oft lítið í ánni. Nafn sitt dregur áin eflaust af þessum ljósu fossum.

Þitt ljósa hár bar við ljósa fossa
í Ljósá við bæinn Hól,
og ljósálfar buðu þér ljúfa kossa,
í ljósi frá hádegissól.

Á björtum og fögrum sumardegi er "Ljósárkinnin" líkust paradís á jörð, hvort sem förunauturinn er ljóshærður eða dökkhærður. Þar er auðvelt að gleyma stund og stað og láta sig "dreyma um draumfagra heima".

Dvergabýli og Einbúi: Um l km fyrir utan Hól er dálítil vel gróin eyri við Jökulá, sem vegurinn liggur um. Þar er gömul grjóthlaðin fjárrétt, sem Hólsrétt kallast, fast við veginn, fyrrum skilarétt fyrir afréttina Undir Fellum. Á lágum og grónum hjalla fyrir ofan réttina er staður sem heitir Dvergabýli (eða Dvergabæli). Þar voru fornar tættur, er menn héldu vera af bæ. Um 1925 voru beitarhús byggð á tóttunum, sem hafa nýlega verið rifin og sléttuð niður."Í fyrndinni bjuggu þar tveir dvergar, sem menn kunna nú orðið nær engar sögur af...Þar þótti ýmislegs verða vart. Og til skamms tíma hefur það verið svo" Um síðustu aldamót sáust þarna tveir mjög smávaxnir menn. "Þeir skröfuðu og skeggræddu um hitt og þetta, og hurfu óeðlilega fljótt í Dvergabýlinu." (Þjóðsögur Sigfúsar 3, 186).Síðasti bóndinn á Hóli, Benedikt Friðriksson, sagðist hafa heyrt smíðahljóð í kletti við Dvergabýli, en rétt fyrir utan er sérkennileg klettakúpa, sem Einbúi kallast, og gæti verið heimkynni dverganna.

Valþjófsstaðateigur: er næst fyrir utan Dvergabýli og kallast bara Teigur í daglegu tali og tilheyrir jörðinni Valþjófsstað. Þar gnæfir Teigsbjarg á brún, í beinu framhaldi af Hólsbjargi, allt að 100 m hátt og ófært öðrum en fuglinum fljúgandi. Undir bjarginu eru langar skriður en neðar grasi grónar brekkur með lágum klettahjöllum. (Þetta er stundum kallað Teigsfjall.)
Nálægt miðjum Teignum má enn sjá tættur Teigshúsa, sem voru beitarhús frá Valþjófsstað og nokkru utar og ofar eru eða voru stekkjartættur. Yst í Teignum er gamalt afbýli frá Valþjófsstað, sem Hvammur kallast, en þar eru nú steinstreypt beitarhús. Neðan við húsin var Hvammseyri í Jökulsá, sem hún flæddi yfir í hlaupum og ísabrotum á vorin, og Hvammskvísl, oftast vatnslítil, milli hennar og lands.

Virkjunaráform: Við Teigshús voru grafin um 100 m löng göng inn í fjallið, sumarið 1991, sem áttu að verða upphaf að svonefndri Fljótsdalsvirkjun. Einnig voru byggðir tveir stórir vinnuskálar á uppfyllingu á bakka Jökulsár fyrir neðan göngin. Samkvæmt áætlun átti að stífla Jökulsá í Fljótsdal við Eyjabakkafoss, og mynda um 40 ferkm.(?) lón á Eyjabökkum. Þaðan átti að leiða vatnið í jarðgöngum út Fljótsdalsheiði, og fram á Teigsbjarg, þar sem stöðvarhúsið yrði inni í fjallinu. Umrædd göng voru hugsuð sem inngangur í stöðvarhúsið. Virkjun þessi var áætluð 210 MW að stærð og átti að framleiða 1400 GWst á ári. Ári fyrr en framkvæmdir hófust hljóp skriða úr hlíðinni rétt fyrir utan göngin. Túlkuðu sumir það sem áminningu máttarvaldanna. Ekki varð af þessari virkjun að sinni og stóðu þessi mannvirki í Teignum ónotuð í áratug. Á þeim tíma fauk annar vinnubúðaskálinn og dreifðist brak hans um nágrennið.
Árið 1998 var málið tekið upp að nýju og Fljótsdalsvirkjun samþykkt á öllum stjórnstigum, þrátt fyrir mikla andstöðu náttúruverndarmanna og almennings í landinu, sem töldu Eyjabakka og fossana í Jökulsá hafa ómetanlegt verndargildi. Einnig urðu miklar deilur um lögboðið umhverfismat á virkjuninni, sem stjórnvöld töldu að hún væri undanskilin, vegna þess að áætlun um hana var samþykkt áður en lög um umhverfismat komu til sögunnar. Álver í Reyðarfirði sem Norsk Hydro hugðist reisa átti að tryggja markað fyrir raforkuna.
Aldamótaárið 2000 (?) sneri Norsk Hydro við blaðinu og fór fram á að byggja mun stærra álver, sem krafðist miklu stærri virkjunar. Var þá Fljótsdalsvirkjun lögð til hliðar en gömul áætlun um virkjun Jökulsár á Dal við Kárahnjúka tekin upp í staðinn. Þar skyldi myndað uppistöðulón á stærð við Löginn, Hálslón kallað, og frá því yrði vatnið leitt að stöðvarhúsi í Teigsfjalli, eins og áður var áætlað. Jökulsá í Fljótsdal skyldi stífluð neðan við Eyjabakkafoss og vatni hennar veitt inn í göngin frá Hálslóni, þannig var virkjun jökulsánna tengd saman.
Framkvæmdir við þessa gríðarlega stóru vatnsvirkjun hófust vorið 2003 og eru í fullum gangi þegar þetta er ritað. Þær hafa þegar valdið töluverðum breytingum á landinu í Teignum og eiga eftir að breyta því meira. Þrjú ný göng hafa verið sprengd inn í fjallið, utan við göngin frá 1991 (sem ekki virðist eiga að nota). Innst eru aðkomugöng að stöðvarhúsi, þá strengjagöng fyrir raflínur, og yst útfallsgöng fyrir vatnið, skammt fyrir innan Hvammshúsin. Eftir er að byggja stjórnhús á bakka Jökulsár og tengivirki fyrir raflínur. Hvammskvíslin hefur verið fyllt upp og þar er nú vinnubúðaþorp. Yfir Hvammseyri mun koma skurður fyrir affallsvatnið, með tilheyrandi flóðgörðum og ná austur á móts við Múlaenda.
Þegar Kárahnjúkavirkjun lýkur verður Jökulsá í Fljótsdal vatnslítil mestan hluta ársins, frá Hvammi upp að Eyjabökkum, og fossarnir í Norðurdal munu verða svipur hjá sjón, nema í stuttan tíma síðsumars og á haustin þegar Hálslón verður fullt og áin rennur á yfirfalli. Einnig er áætlað að veita upptakakvíslum Keldár til Kárahnjúkavirkjunar, og því mun vatnsmagn hennar einnig skerðast verulega og fossar á Þorgerðarstaðadal minnka að sama skapi. Neðan virkjunar mun meðalvatnsmagn Jökulsár fjórfaldast, og vatnsborð hennar hækka um allt að hálfan metra, sem leiðir til aukinnar flóðahættu í Fljótsdal, en áætlað er að hindra það með görðum. Þá mun rennsli og eðli Lagarfljóts að sjálfsögðu einnig breytast. Tvennar raflínur á stálmöstrum verða lagðar frá stöðvarhúsi, þvert yfir Múlaenda og Eyrar og út eftir austurhlíð Fljótsdals.

MIÐSVEIT

Miðsveit er hér talin ná yfir hinar fornu stórjarðir í miðhluta Fljótsdals, þ. e. Valþjófsstað, Skriðuklaustur og Bessastaðatorfuna. Svæðið einkennist af allbreiðu undirlendi, sem myndast hefur af framburði Jökulsár og þveránna. Þetta undirlendi kallast nes og eru þau kennd við bæina sem þau tilheyra, þ. e. Valþjófsstaðanes, Klausturnes, Bessastaðanes o.fl. Innri nesin voru allvíða mýrlend, en voru ræst fram eftir miðja öldina, og hefur að miklum hluta verið breytt í tún. Upp af innri hluta Miðsveitar rís Valþjófsstaðafjall, með reglulegum klettabeltum, en utantil er hlíðin með aflíðandi brekkum. Miðsveitin er ákaflega búsældarlegt land, og því er ekki að undra að þar er líklega að finna fyrsta fastan bústað mann í Fljótsdal, landnámsjörðina Bessastaði.

 VALÞJÓFSSTAÐUR

Kirkjustaðurinn Valþjófsstaður stendur í hlíðarrótum neðan undir Valþjófsstaðafjalli. Bæjarstæðið er einstaklega staðarlegt og tignarlegt. Kirkjan var upphaflega heima við bæinn, en var flutt niður á grundina 1889, þegar ný kirkja var byggð. Skammt fyrir utan hana var svo byggt prestssetur 1944, og kallast það Valþjófsstaður I. Þar var áður hjáleiga, kölluð Miðbær. Enn utar var hjáleigan Garðar, og loks Gunnhildargerði, þar sem félagsheimilið Végarður er nú. Hjáleigurnar hafa ekki verið byggðar síðan fyrir aldamót, en oft hefur verið tvíbýlt á Valþjófsstað og er svo enn.
Framan og neðan við bæinn eru Valþjófsstaðamelar, með upphækkaðri tungu ofantil, er skyggir á útsýni inn til Norðurdals. Melarnir eru í þremur stöllum, ca, 35, 40 og 50 m yfir sjávarmál. Þeir eru myndaðir af Jökulsá í Ísaldarlokin, sem eyrar út í þáverandi Lagarfljót eða "Lagarfjörð". Bæirnir standa á miðstallinum, sem er langstærstur. Þar voru sléttar grundir, myndaðar af framburði lækja úr fjallinu, nú orðnar samfellt tún.
Valþjófsstaður er mikil bújörð og kostarík, vafalaust ein sú besta í landinu. Jörðin er ríkiseign. Síðustu áratugi hefur þar verið tvíbýlt og þar eru tvö myndarleg íbúðarhús úr steini, ásamt tilheyrandi útihúsum. Auk túna sem tilheyra býlunum, er þar sameiginleg nýrækt á vegum hreppsins. (Núverandi ábúendur eru Helga Vigfúsdóttir frá Glúmsstöðum og Friðrik Ingólfsson frá Valþjófsstað, sem búa á heimabænum, er nú kallast Valþjófsstaður II, og Lára G. Oddsdóttir sóknarprestur og Sigmar Ingason, sem búa á Prestssetrinu, Valþjófsstað I.)

Fjallið sem leiðir ferðamenn í hlað: Upp af þessari sléttu rís Valþjófsstaðafjall, með sínum reglulegu, láréttu klettabeltum, um 15 talsins. Margir hafa látið þau orð falla, að það sé eitthvert formfegursta fjall á Íslandi. Ármann Halldórsson ritar:Ofan við grundirnar rís Valþjófsstaðafjallið, allhátt og einkennilega fagurt. Frá jafnsléttu upp á brún skiptast á grasbelti og beinar klettaraðir, en á víð og dreif um allt fjallið koma bjarkirnar út úr klettasprungum og teygja lim sitt upp fyrir brúnirnar. En fari maður meðfram fjallinu í hæfilegri fjarlægð, þá sýnist allt yfirborð þess fara á ið, ýmist ganga með eða móti ferðamanninum, líkt og það vildi leiða hann í hlað eða fylgja úr garði (Snæfell 1981, 17).Nokkrir smálækir falla þvert niður fjallið. Þeir eru oftast þurrir á sumrum, en í vorleysingum geta þeir orðið býsna glaðhlakkalegir og falla í óteljandi fossum stall af stalli. Þá syngur fjallið og endurómar nið þeirra eins og margradda hljómsveit.

Berggangur mikill, sem kallast Tröllkonustígur:(Skessustígur í Þjóðs. Sigf. Sigf.) sker fjallið frá rótum upp undir brún, og er neðri endinn við samkomuhúsið Végarð. Gangurinn er ekki ósvipaður stíg eða vegi upp fjallið, enda iðulega notaður sem slíkur. Utan við Stíginn er fjallið líka nefnt Klausturfjall og hæsta bungan, sem er upp af Skriðuklaustri, heitir Klausturhæð. Jóhannes á Skjögrastöðum líkir fjallinu við "himnastigann" sem Jakob dreymdi í Biblíunni, er hann kveður:

Hér er móti suðrinu af sólinni hlýtt,
og sveipað í fegurðarklæðum,
og fjallið það stendur svo stöðugt og frítt,
sem stigi sé reistur að hæðum.

Valþjófsstaðaveldi: Valþjófsstaður er mesti sögustaður á Fljótsdalshéraði og jafnvel í öllum Austfirðingafjórðungi. Saga staðarins væri efni í heila bók, og verður því aðeins tæpt hér á fáeinum atriðum. Fyrir 1200 er saga Valþjófsstaðar lítið þekkt, en á 13. öld sátu þar höfðingjar af ætt Svínfellinga, sem ríktu yfir öllu Austurlandi og voru Svínafell í Öræfum, Valþjófsstaður og Hof í Vopnafirði helstu aðsetur þeirra.
Þekktastir þessara höfðingja eru Oddur og Þorvarður Þórarinssynir, sem oft eru kallaðir Valþjófsstaðabræður. Þeir koma mikið við sögu Sturlungaaldar. Oddur var veginn um tvítugsaldur norður í Skagafirði, þar sem hann hafði verið settur yfir "ríki" Gissurar jarls. Oddur var í banni Hólabiskups er hann lést, og var því grafinn utan garðs. Kona hans, Randalín Fillipusdóttir, af Oddaverjaætt, háði aldarfjórðungs langa baráttu fyrir því að fá hann leystan úr banni og jarðsettan í vígðri mold.
Þorvarður komst hins vegar til mikilla metorða, og á síðari áratugum 13. aldar var hann mestur höfðingi á Austurlandi. Hann varð síðastur íslenskra valdsmanna til að afsala goðorðstign sinni og ganga Noregskonungi á hönd, árið 1264. Því hefur hann verið nefndur "síðasti goðinn." Eftir það dvaldi hann um tíma í Noregi og er talið að hann hafi aðstoðað Magnús konung við samningu lögbókar er kölluð var Járnsíða. Hann lést árið 1296 nálægt 70 ára að aldri. (Björn Þórðarson: "Síðasti goðinn" 1950).

Valþjófsstaðakirkja: Séra Ágúst Sigurðsson hefur ritað kirkjusögu Valþjófsstaðar (Forn frægðarsetur 1979). Þar gerir hann því skóna, að Sörli Brodd-Helgason, sem bjó á Valþjófsstað þegar Brennu-Flosi fór í liðsbón sína, hafi reist fyrstu kirkjuna á staðnum skömmu eftir kristnitökuna árið 1000. Hann telur örugga heimild um kirkjubyggingu þar laust fyrir 1200. Það var "stafkirkja", hið veglegasta hús, sem stóð í margar aldir, jafnvel allt fram á miðja 18. öld, og var helgað Maríu mey. Má telja víst að fyrir henni hafi verið hin fræga Valþjófsstaðahurð, sem er álitin vera frá svipuðum tíma (sjá síðar).
Nánar er fjallað um þetta mikla kirkjuhús og hurðina frægu í ritgerð Magnúsar Más Lárussonar: ‚Maríukirkja og Valþjófsstaðahurð‘ í bók hans Fróðleiksþættir og sögubrot (Rvík. 19??). Elsta heimild um kirkjuna er í Vilkinsmáldaga frá 1397, en fyrsta lýsing hennar er í vísitasíu biskups 1641. Magnús ritar:
"Gerð hússins eins og það kemur fram á árabilinu 1641 til 1734 er í aðaldráttum á þá leið, að kirkjan er útbrotakirkja með kór í tveimur stafgólfum, hákirkju eða framkirkju í fjórum stafgólfum og forkirkju í tveimur stafgólfum. Um aldur hennar er ekkert sérlegt tekið fram." Kirkjan var með 3 eða 4 glergluggum.
Magnús telur mestar líkur á því að kirkjan hafi verið byggð um 1180. "Sagt er að Markús Gíslason í Saurbæ á Rauðasandi hafi látið höggva í Noregi viðinn í Valþjófsstaðarkirkju, en komið út í Gautavík í Berufirði. Þá gaf hann viðinn Sigmundi Ormssyni presti og goðorðsmanni á Valþjófsstað." (bls. 159). Þetta er heimild úr Sturlungu (Hrafns sögu). Í annálsbroti er getið um bruna Valþjófsstaðakirkju 1361, en Magnús telur að það geti átt við kirkju á Valþjófsstöðum í Núpasveit, N.Þing. Um 1700 er kirkan enn talin "ásjálegt hús að öllu leyti", en 1707 er sagt að hún sé "mjög tilgengin til norðurs, [en] undirviðir sterkir"
"Einhverntíma á tímabilinu 1734 til 1748, líklega um 1743-44, er gamla trékirkjan felld ofan, en torfkirkja reist í hennar stað, er stóð til ársins 1846. Þá er aftur reist trékirkja á staðnum. Fyrir þessum kirkjum var hurð sú sem geymd er í Þjóðminjasafni."
Því eru allar líkur til að kirkjan sem byggð var um aldamótin 1200 hafi að stofni til verið við lýði fram undir miðja 18. öld, eða um 550 ár, þó að sjálfsögðu með endurbótum. Kannski finnst mörgum það ótrúlegt, en í grannlöndum eru til miklu eldri byggingar úr timbri, t.d. stafkirkjurnar í Noregi, sem enn standa með prýði. Umgetin trékirkja stóð í 40 ár, eða til 1888, þegar ný og líklega mun stærri timburkirkja var byggð á grund neðan við bæinn, fyrir forgöngu Sigurðar Gunnarsonar prests. Hún skemmdist smá saman í veðrum og skekktist svo eftir 75 ár var hún dæmd ónýt. Árið 1966 var vígð ný steinsteypt kirkja á sama stað, sem enn stendur með dálitlum breytingum. (H. Hall.: Stafkirkja og rauðviðarskáli á Valþjófsstað. Múlaþing 33 /2006, bls. 123-141 / Mætti breyta þessari grein með tilliti til þeirrar ritgerðar)

 Landeign Valþjófsstaðar: Aðalkirkja sveitarinnar var fyrst á Bessastöðum en árið 1306 tekur Valþjófsstaðakirkja við því hlutverki, þegar Valþjófsstaður var gerður að "stað". Prestar hafa setið á Valþjófsstað a.m.k. frá því um 1300, og er svo enn. Valþjófsstaðakirkja auðgaðist fljótt af löndum og lausum aurum, og náði smám saman eignarhaldi á öllum afréttum milli Fljótsdals og Jökuldals, þar með töldum Hrafnkelsdal, auk nokkurra jarða í Suðurdal og Norðurdal. Jarðirnar hafa gengið undan kirkjunni, en hún er enn talin eigandi afréttanna.
Samkvæmt gamalli hefð skiptast afréttir Valþjófsstaðar í tvo hluta. Austan Snæfells og fellanna norðan og sunnan þess, er afréttin "Undir Fellum", sem telja má að nái frá Öxará inn að Vatnajökli, og eru austurmörkin við Jökulsá í Fljótsdal. Á því svæði eru Eyjabakkar, flæðislétta, um 50 ferkm að flatarmáli, þar sem Jökulsá kvíslast milli vel gróinna bakka, og þykir þar einstaklega fagurt land. Þar er stærsti "fellistaður" heiðagæsa á jörðinni (Sjá Lesb. Mbl. 24. okt. 1998 og Gletting, 2-3. tbl. 8. árg., 1998). Undir Fellum eru tveir gangnakofar, Laugakofi og Hálskofi (Sjá Múlaþing 25, 1998 og 26, 1999). Við Laugakofa er baðlaug.
Vestan Snæfells og Snæfellshnjúka eru Vesturöræfi, víðlent og vel gróið afréttarland, með miklu votlendi og ótal tjörnum, og nær að Jökulsá á Dal. Vestasti hlutinn kallast Háls og er mikilvægt burðarsvæði hreindýra. Á Vesturöræfum er Sauðárkofi (Sauðakofi), og Snæfellsskáli vestan undir Snæfelli. Vesturöræfi eru í Jökuldalshreppi, en hafa mest verið nýtt af Fljótsdælingum, sem annast fjallskil þar. Við Háls er áætlað að mynda gríðarstórt uppistöðulón (Hálslón) í tengslum við virkjun Jökulsár á Dal við Kárahnjúka.

"Dýrt er Drottins orðið": Í gamalli þjóðsögu greinir frá 18 útileguþjófum, er settust að í helli í Þjófadal sunnan undir Snæfelli. Aðeins fjórir eru nafngreindir, og hét einna þeirra Valþjófur. Létu þeir greipar sópa um sauðfé Fljótsdælinga, og þótti byggðamönnum illt að búa við það hlutskipti. Þá var sá prestur á Valþjófsstað er Svarthöfði hét, og átti son og dóttur frumvaxta. Eitt sinn þegar þessi mál voru rædd á sveitarfundi, kvaðst prestur sjá ráð til að koma koma þjófunum í hendur byggðamanna og bað þá taka mannalega við, og hétu þeir því.
Skömmu seinna fréttist að prestssonur hefði framið hræðilegan glæp og væri horfinn til fjalla. Fór hann á fund útilegumanna, og tóku þeir við honum eftir miklar fortölur. Var hann þar veturinn eftir og ávann sér traust þeirra. Fór hann þá að ámálga við þá, að fara til byggða og sækja sér konur, því að þeim væri daufleg vistin kvenmannslausir. Samsinntu þeir því, og báðu hann finna ráð til þess. Prestsson kvað vænlegast að ráðast til atlögu á Hvítasunnudag, þegar allt fólk væri að messu í Valþjófsstaðakirkju. Var það svo afráðið. Tókst honum að koma boðum til byggðamanna. Á Hvítasunnudag fóru allir hinir hraustustu menn til kirkjunnar, og sátu þar í kvenfötum, alvopnaðir innan klæða. Komu þá ræningjar og greiddu atgöngu, en skildu vopn sín eftir úti, því þá grunaði ekki að þar væri nein fyrirstaða.
Upphófst þá bardagi og er ekki að orðlengja það, að byggðamenn höfðu betur og drápu flesta ræningjana þar í kirkjunni, en nokkra eltu þeir til fjalls og unnu á þeim þar, sem ýmis örnefni votta. Valþjófur varðist lengst, með því hlaupa bita af bita í kirkjunni, og var rómuð hreysti hans, en enginn má við margnum. Er svo að skilja að bærinn hafa síðan dregið nafn af honum.
Útilegumenn þessir voru dysjaðir sunnan garðs á Valþjófsstað, og voru þar sýnd leiði þeirra til skamms tíma, og kölluð Þjófadys eða Þrælaleiði. "Sannaðist á þeim, ef sagan er sönn, að dýrt er Drottins orðið", ritar Gunnar skáld (Árbók F.Í 1944). (Sögnin af Snæfellsþjófunum. Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar IX, 165-170).

Glæsilega búin fornkona: Um aldamótin 1800 blés upp heiðið kuml á Valþjófsstaðamelum, suðaustan við túnið. Séra Vigfús Ormsson kannaði kumlið og lýsti því, og sendi gripina sem þar fundust til Fornleifanefndar Danmerkur. Í kumlinu var mikið af ýmiss konar tölum og þrír skildir úr bronsi, gullroðnir. Kristján Eldjárn segir þessa skildi vera skrautnælur, sem konur báru á viðhafnarklæðum sínum. Þarna hefur því verið jarðsett hefðarkona með öllu sínu besta skarti.Ýmislegt hefur verið ritað um þennan fornleifafund, og rannsókn Vigfúsar er með þvi fyrsta sem gerðist í því efni hérlendis. Gripirnir eru geymdir í Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn (Nationalmuseet). (Kristján Eldjárn: Kuml og haugfé o.fl.)

Riddarinn og ljónið (Valþjófsstaðahurðin): Mesta frægð hefur Valþjófsstaður hlotið fyrir útihurð eina gamla og fagurlega útskorna með myndum, sem kölluð er Valþjófsstaðahurðin. Hún er nú vandlega geymd í Þjóðminjasafninu í Reykjavík, en Halldór Sigurðsson myndskeri á Miðhúsum smíðaði og skar út nákvæma eftirlíkingu hennar, sem gefin var hinni nýju Valþjófsstaðakirkju, þegar hún var vígð árið 1966, og er hún þar fyrir innri dyrum.
Valþjófsstaðahurðin er frægust íslenskra forngripa, ef handritin eru undan skilin, segir Kristján Eldjárn í Afmælisriti Þjóðminjasafnsins 1973. Fjöldi lærðra ritgerða hefur verið saminn um hurðina, og jafnvel heilar bækur. Til þess liggja ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi aldurinn, því hurðin er talin vera skorin um eða upp úr aldamótunum 1200, og er því með elstu tréskurðarverkum í Evrópu.
Í öðru lagi er myndmál hurðarinnar afar merkilegt. Á henni eru tveir kringlóttir fletir með útskurði. Í þeim efri er eldgömul frönsk riddarasaga færð í myndrænan búning: Riddari leggur flugreka í gegn með sverði sínu og bjargar þannig ljóni sem drekinn hafði hremmt. Eftir það fylgir ljónið lífgjafa sínum til veiða eins og tryggur hundur og sést að lokum deyjandi á gröf hans. Á legsteininn er ritað með rúnum: "Sjá inn ríka konung - hér grafinn - er vá dreka þenna." Á neðri kringlunni eru fjórir sams konar drekar, fléttaðir saman. Bítur hver þeirra í sporð sér, en klærnar tengjast saman í miðju. Þar er líkt og óskapnaðurinn sé bundinn í fjötra. Hin guðlega regla nær yfirhöndinni, enda telja fræðimenn að "hinn ríki konungur" sé enginn annar en frelsarinn Jesús Kristur.
Hurðin er fyrst nefnd í vísitasíu Brynjólfs biskups 1641, og er þá innri hurð fyrir hinni gömlu og veglegu timburkirkju, sem fyrr var getið: "Skorin hurð, sterk, fyrir kirkju á járnum, með silfursmelltum hring og nýrri hespu." Þegar timburkirkjan var rifin um miðja 18. öld og torfkirkja var byggð í hennar stað, halda menn að hurðin hafi verið stytt um þriðjung, og einn myndflötur tekinn af henni, auk þess var hún gerð að útihurð.
Árið 1851 (eða 1852?) var Valþjófsstaðahurðin seld Þjóðminjasafni Danmerkur í Kaupmannahöfn, og fékk kirkjan í staðinn nýja hurð og tvo "álnarstjaka", sem enn prýða altari hennar, en munu ekki vera til margra fiska metnir. (H. Hall.: "Í dag hafa menn farið hjá..." Austri, 25. maí 1989).

Rauðviðarskálinn: Sú saga gekk í Fljótsdal, að hurðin hefði upphaflega verið fyrir mikilli skálabyggingu, sem í margar aldir stóð á Valþjófsstað, og menn héldu að fornkappinn Þórður hreða hefði smíðað. Þar var hátt til lofts og vítt til veggja, og útidyr svo stórar, að sagt var að Skálholtsbiskup og sveinar hans hefðu riðið þar inn með alvæpni. Í Ferðabók Eggerts og Bjarna (1772) segir: "Á prestsetrinu Valþjófsstað í Múlasýslu er skáli eða stórt hús, sem bæði er miklu stærri og eldri en almennt gerist. Samt hefir hann sýnilega verið endurreistur á seinni öldum."
Þessi mikla bygging stóð eitthvað breytt fram á fyrstu áratugi 19. aldar. Til er lýsing af henni frá 18. öld. Skálinn var þá 17 m að lengd, 6 m breiður og 4,6 m hár um mænirinn. Honum var skipt með þili í tvo misstóra hluta.
"Allir veggirnir niður að gólfi voru þiljaðir borðum úr eins konar við, sem mikið rak af hér við landið í gamla daga, og nefndist "rauðaviður". Úr þesskonar trjám var yfirbyggingin undir þakinu, sömuleiðis undir þverbitunum, og báðar hurðir á húsinu. En öll undirtré voru úr norsku timbri, sem fyrrum var vant að flytja hingað, höggvið á undan."
Minni hluti skálans var "hafður fyrir drykkjustofu, og voru þar haldin brúðakaup, eða önnur hátíðleg samkvæmi." Þar voru tvö rúm, er nefnd voru "múkalokrekkjur", með kringlóttum dyrum og útskurður í kringum þær. Í stærri hlutanum voru 12 hvílurúm, 6 hvoru megin, þar af fjórar lokrekkjur, sumar prýddar skurði. "Gluggarnir voru 4 kringlótt op efst á þakinu, eins og sagt er að sé á sumum bóndabæjum í Noregi."
Þegar þessi lýsing var skrifuð, líklega um 1750, hafði veisluskálanum nýlega verið breytt í "vanalega stofu, með glergluggum". (Hvaðan er lýsingin tekin?) Árið 1818 var skálinn eða hluti hans enn við lýði, eins og fram kemur í úttekt staðarins frá 5. sept. það ár, þegar séra Vigfús flytur þaðan burtu (Magnús Már, bls. 190). Er líklegt að hann hafi þá verið elsta timburbygging á Íslandi.
Í gamalli útgáfu af Gunnlaugs sögu ormstungu (1775) er stór teikning af skálabyggingu, sem á að vera gerð eftir lýsingu Valþjófsstaðaskálans, en ekki ber henni alveg saman við lýsinguna. "Rauðaviðurinn" var líklega lerki.

"Myndskerinn mikli frá Valþjófsstað": Árið 1939 birti Barði Guðmundsson þjóðskjalavörður grein með þessum titli í Alþýðublaðinu. Með hugvitssamlegri röksemdafærslu setur hann fram þá skoðun sína, að Randalín Fillipusdóttir, ekkja Odds Þórarinssonar á Valþjófsstað, hafi skorið út Valþjófsstaðahurðina kringum 1250. Þessi tilgáta tengist hugmyndum hans um Þorvarð Þórarinsson, mág Randalínar, sem höfund Njálu. Telur hann að Þorvarður hafi notað persónur úr samtímanum í söguna, eins og skáldsagnahöfundar gera nú, og bendir á líkingu Randalínar við Hildigunni Starkaðardóttur í Njálu, en um hana segir sagan: "Hún var svo hög, að fáar konur voru þær er hagari voru" Auk þess telur Barði að Oddaverjar hafi rækt hina evrópsku riddarasöguhefð meira en aðrar íslenskar ættir. Randalín var líka afkomandi Magnúsar konungs berfætts, sem hafði ljón í skjaldarmerki sínu.
Rögnvaldur Erlingsson frá Víðivöllum hefur skotið frekari stoðum undir þessa tilgátu Barða. Hann bendir á að Randalín hafi gefið Skálholtskirkju mestallar eigur sínar, til að Oddur eiginmaður hennar mætti fá leg í vígðri mold. Í Sögu Árna biskups, frænda hennar, eru þessi ummæli höfð eftir henni: "Enn fremur mun eg, til sálarheilla Oddi, ofra einhverjum grip, herra biskupi og stað til sæmdar." Álítur Rögnvaldur að þessi gripur sé Valþjófsstaðahurðin. (Glettingur 2 (1), 1992).

Miðstöð fornsagnaritunar á Austurlandi: Eins og fyrr var á minnst komst Barði Guðmundsson að því gegnum miklar pælingar, að Þorvarður Þórarinsson væri höfundur eða a.m.k. "ritstjóri" Njáls sögu. Reit hann um þetta nokkrar greinar í blöð og tímarit, er síðar voru dregnar saman í bókina "Höfundur Njálu", 1958. Síðan hefur Sigurður Sigurmundsson í Hvítárholti undirbyggt þessa kenningu frekar með blaðagreinum og bók sinni: "Sköpun Njálssögu" 1989. Þá hefur svíinn Lars Lönnroth reifað svipaðar hugmyndir í bók sinni "Njálssaga, critical introduction." (Los Angeles 1976).
Þessir fræðimenn benda á ýmsa þræði sem legið hafi frá sögupersónum Njálu til þeirra Valþjófsstaðabræðra. Þeir voru af ætt Svínfellinga, sem röktu ætt sína til Brennu-Flosa á Svínafelli, og voru auk þess tengdir Oddaverjum, sem frá upphafi höfðu fengist við fræðiritun og bókmenntir.
Brandur Jónsson ábóti í Þykkvabæ og síðar Hólabiskup var föðurbróðir þeirra, en hann kemur víða við sagnaritun og fræðimennsku, og hefur Hermann Pálsson getið þess til, að hann muni hafa samið Hrafnkels sögu. Einnig er athyglisvert, að Þorvarður er einn af örfáum 13. aldar mönnum, sem nefndur er með nafni í einu handriti Njáls sögu.
Í sambandi við tilgátu Hermanns um höfund Hrafnkels sögu, má benda á, að Valþjófsstaðakirkja taldi sig hafa eignarrétt á öllum Hrafnkelsdal og lögðu Valþjófsstaðaklerkar sig fram um það á seinni öldum að tryggja kirkjunni þennan rétt. Má líta svo á, að Hrafnkela sé fyrsta tilraun í þá átt, því að hún tengir höfuðbólið Aðalból við Fljótsdal og Velli, þar sem Hrafnkell og sonarsonur hans Helgi áttu goðorð.
Í niðurlagi Droplaugarsona sögu segir, að hún sé "sögð" af Þorvaldi Ingjaldssyni, er var þriðji ættliður frá einni af aðalpersónum sögunnar, Grími Droplaugarsyni. Hefur hann eflaust átt heima í sömu sveit. "Valþjófsstaðir, hið forna höfðingjasetur, voru helsta menntabólið á þeim slóðum, og eru öðrum fremur líklegir sem ritunarstaður sögunnar," segir Jón Jóhannesson í formála hennar í útgáfu Fornritafélagsins.
Bendir því margt til þess, að Valþjófsstaður hafi verið ein helsta miðstöð sagnaritunar á Íslandi, á sama hátt og Oddi á suðurlandi og Þingeyrar norðanlands, þó ekki sé hann eins þekktur.

Hjörleifur latínuskáld: Ýmsir merkisprestar hafa setið á Valþjófsstað, en tveir hafa orðið frægastir út á við: Hjörleifur Þórðarson (1695-1786) og Vigfús Ormsson. Hjörleifur var prestur þar frá 1743 til æviloka, Skaftfellingur að ætt. Hann var skáld gott, bæði á latínu og íslensku, og liggja eftir hann mörg kvæði og sálmar á báðum málunum. Merkust er þýðing hans á Passíusálmum Hallgríms Péturssonar á latínu, sem prentuð var í Kaupmannahöfn 1785. Háttalykill á latínu var prentaður 1918. Hann orti einnig rímur. Af honum er komin mikil embættismannaætt á Austurlandi og víðar, m.a. Kristján Eldjárn fv. forseti.

Búnaðarfrömuðurinn: Séra Vigfús Ormsson (1751-1841) var sunnlendingur. Hann fékk Valþjófsstað 1789 og hélt til 1835, kvæntist Bergljótu Þorsteinsdóttur, dótturdóttur séra Hjörleifs. Bróðir hennar var Jón vefari, en af honum er komin Vefaraætt, sem er mjög fjölmenn á Austurlandi og víðar.
Vigfús var mikill búhöldur og tók upp ýmsar nýjungar í búskap. Þegar hann kom í Fljótsdal voru þar ekki fjárhús, nema lambhúskofar. Hann lét byggja fjárhús heima fyrir og beitarhús á Langhúsum, þar sem hann hafði mislita féð. Hann aflaði nægra heyja og áætlaði hverri skepnu ákveðið fóður, sem þá taldist til nýjunga. Einnig jók hann og bætti nýtingu húsdýraáburðar, og tók m.a. upp þann sið að hýsa stórgripi og jafnvel sauðfé á sumrum til að nýta áburðinn. Hann byrjaði fyrstur að veita vatni á engjar austanlands, með því að grafa skurð úr Jökulsánni yfir á Valþjófsstaðanesið, og um svipað leyti byggði hann fyrstu kornmylluna á Héraði.
"Fór sá orðrómur af honum, sem ei var undarlegt, að hann væri mestur búmaður á öllu Austurlandi" ritar Ágúst Sigurðsson (Múlaþing 9, 1980). Fyrir þessar framkvæmdir fékk hann veglegan verðlaunapening frá danska Landbúnaðarfélaginu. (Hann er nú geymdur hjá afkomanda hans, Guttormi í Geitagerði).
Vigfús var einnig virkur í félagsmálum sveitarinnar, og stofnaði svonefnt Matsöfnunarfélag árið 1800. Það var eins konar tryggingarfélag, líklega hið fyrsta af því tagi hér á landi, en eftir miðja 19. öld spruttu slík félög upp víðar í sveitum. Tilgangur félagsins var að safna mat, svo sem korni, smjöri o.fl., í eins konar forðabúr, er síðan mætti nota til að lána úr í harðærum eða sérstökum áföllum. Til eru samþykktir félagsins í 19 liðum. (Múlaþing 12, 1982). Börn fátæklinga tók hann oft og hafði sem matvinnunga.
Séra Vigfús varð snemma sjóndapur og blindur síðustu árin. Eftir að hann hætti prestsskap bjó hann þó rausnarbúi á Arnheiðarstöðum í nokkur ár. Einn af sonum Vigfúsar var Guttormur bóndi á Arnheiðarstöðum, sem einnig var frumkvöðull í búskap og síðar verður getið. Margrét Vigfúsdóttir giftist Guttormi Pálssyni presti í Vallanesi, og af þeim er Hallormsstaðafólk komið.
Stefán Árnason frá Kirkjubæ var tengdasonur Vigfúsar og eftirmaður hans í prestsstarfi, gagnmerkur maður og fræðilega sinnaður. Hann ritaði sóknalýsingu Valþjófsstaðasóknar 1840 og lét í því sambandi mæla hæð Hengifss og dýpi í Lagarfljóti. Einnig lýsti hann fyrirbæri á fljótinu sem hann taldi geta skýrt sýnir Lagarfljótsormsins.

Leikur að stráum: Séra Lárus Halldórsson frá Hofi í Vopnafirði var prestur á Valþjófsstað 1877-1883. Hann tók upp ýmsa nýja hætti í starfinu, sem Fljótsdælir virðast ekki hafa kunnað að meta, og gerðist síðar fríkirkjuprestur í Reyðarfirði og Reykjavík. Dóttir hans var skáldkonan Guðrún Lárusdóttir, sem fórst á besta aldri við Tungufljótsbrú.
Séra Sigurður Gunnarsson gegndi prestsstarfinu 1883-1894. Eitt fyrsta verk hans var að efna til nýrrar kirkjubyggingar á Valþjófsstað. Var hún staðsett á grundinni fyrir neðan bæinn. Þessi glæsilega timburkirkja var vígð 1889 og stóð til 1965, þegar núverandi steinkirkja var byggð. Sigurður var mikill áhugamaður um uppfræðslu barna og unglinga. Bróðir hans Gunnar Helgi Gunnarsson, var faðir Gunnars skálds, og bjó um tíma á Valþjófsstað með séra Sigurði, en áður á Arnaldsstöðum nokkur ár.
Í fyrsta bindi af skáldsögunni Fjallkirkjan rifjar Gunnar upp bernskuár sín á Valþjófsstað, en hann var 7 ára þegar foreldrar hans fluttu þaðan að Ljótsstöðum í Vopnafirði. Lýsingar hans á heimilisfólkinu hafa mörgum þótt eftirminnilegar og er sú skoðun almenn, að þessir kaflar séu með því besta sem Gunnar hefur ritað. Þeir eru oft fluttir í leikritsformi, og oft til þeirra vitnað.

"Ó blessuð vertu sumarsól": Þórarinn Þórarinsson var prestur á Valþjófsstað 1894-1938, vinsæll og virtur. Valþjófsstaðaheimilið var á hans tíma orðlagt fyrir gestrisni og rausn í hvívetna, og þó ekki síst fyrir sérstaka menningu, sem kom m.a. fram í tónlistariðkun og söng.
"Á prestssetrinu var eðlilega gestkvæmt á messudögum og oftar. Viðtökurnar voru af alúð og innileik. Sátu gestir löngum við glymjandi söng og annan góðan fagnað." (Halldór Stefánsson: Ævislóð og Mannaminni).
Til er saga af því, þegar Ingi T. Lárusson, hið ástsæla tónskáld Austfirðinga, kom ferðlúinn af Fljótsdalsheiði, og hafði á leiðinni samið lag sem hann vildi spila og syngja. Af því veður var gott, var orgel prestsins borið út á tún, og þar safnaðist allt heimilisfólkið í kringum tónskáldið, sem frumflutti þar lagið við kvæði Páls Ólafssonar: "Ó blessuð vertu sumarsól", sem næstum hver Íslendingur hefur kunnað síðan. Og Valþjófsstaðafjallið bergmálaði sönginn. (Skv. grein Sigurðar Magnúss. í Múlaþingi 25, 1998, var þetta öðru vísi).
Sonur séra Þórarins, Þórarinn skólastjóri á Eiðum, hefur sagt þessa sögu, en hann var lengi söngkennari og kórstjóri í Eiðaskóla. Eftirmaður séra Þórarins, Marinó Kristinsson, ættaður af Suðurnesjum, lét ekki sitt eftir liggja í þessu efni. Hann var um tíma einn efnilegasti einsöngvari landsins, og stóð fyrir líflegu kórstarfi í Fljótsdal, stjórnaði m.a. 20-30 manna kirkjukór, sem söng við ýmis tækifæri.
Bjarni Guðjónsson, ættaður úr Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu, var prestur á Valþjófsstað 1963-1998, vinsæll og virtur af sóknarbörnum sínum, og góður heim að sækja, enda jafnan glaður og reifur, eins og segir í Hávamálum að menn skuli vera til dauðadags. Núverandi prestur er Lára G. Oddsdóttir, ættuð af Vestfjörðum.

Núverandi kirkja og gripir hennar: Núverandi kirkja er byggð úr steinsteypu og var vígð árið 1966. Turn hennar hefur nýlega verið breikkaður og hækkaður.
Í Valþjófsstaðakirkju eru ýmsir gamlir gripir. Merkasti gripurinn er líklega oblátudósir úr silfri, sem Pétur Þorsteinsson sýslumaður og Sigurður gullsmiður bróðir hans (á 18. öld) gáfu kirkjunni, til minningar um foreldra sína, Þorstein Sigurðsson sýslumann á Víðivöllum og konu hans, en Sigurður mun hafa smíðað Á dósirnar eru grafnar tvær vísur og fleira letur.
Í kirkjunni er líka gamall skírnarfontur, sem séra Hjörleifur Þórðarson lét smíða, og annar nýlegur, svo og gamall kaleikur og patína. Í kirkjunni var fagurlega útskorinn stóll, kallaður Prestsmaddömustóll, sem Þjóðminjasafnið falaðist eftir á fyrstu áratugum aldarinnar. Var nýr stóll látinn í staðinn, sem stundum er nefndur "Fangastóll" í háðungarskyni. Ýmsir gripir, sem getið er í gömlum úttektum kirkjunnar, virðast hafa farið forgörðum, m.a. Maríulíkneski sem var í kirkjunni 1821. (Hugsanlegt er að það sé sama líkneskið og Þjóðminjasafnið fékk úr Wardssafni, og talið var frá Skriðuklaustri / sjá Klaustur-Maríu þar). Merkasti gripur kirkjunnar er þó eftirmynd af Valþjófsstaðahurðinni, sem fyrr var lýst.

Samkomuhúsið (Végarður): Kvenfélag var stofnað í Fljótsdal árið 1909 og ungmennfélag 1910, en þá voru slík félög óvíða til í öðrum sveitum. Félögin stóðu að margvíslegri menningarstarfsemi, gáfu m. a. út handskrifuð sveitarblöð: "Leiftur" og "Helga Droplaugarson". Kvenfélagið kom sér upp stóru tjaldi, sem var leigt fyrir ýmsar samkomur. Á árunum 1914-15 byggði Ungmennafélagið samkomuhús á grundunum utan við Valþjófsstað. Það var kallað "Ungmennafélagshúsið" og varð nú miðstöð alls félagsstarfs í sveitinni. Húsið var á tveimur hæðum, með anddyri og leiksviði. "Ekkert ungmennafélag í landinu mun eiga jafn veglegt fundarhús...", segir Jón Kjartansson í Skinfaxa 1918. (J.K.: Ferðasaga. Skinfaxi, maí 1918. Endurpr. í Snæfelli 1981).
Félögin skiptust á um að halda samkomur, með vel undirbúinni dagskrá. Þá voru oft sýnd leikrit sem heimamenn höfðu æft. Um 1960 var samkomuhúsið endurbyggt á sama stað, og skírt Végarður. Það stækkað með viðbyggingu árið 2002. Síðustu áratugi hefur hreppurinn haft þar skrifstofu og síðustu tvö sumur hefur Landsvirkjun rekið þar upplýsingamiðstöð fyrir Kárahnjúkavirkjun. Utan og ofan við Végarð eru fornar tættur, líklega af gamalli skilarétt. Þar var einnig hjáleigubýlið Gunnhildargerði.
(Valþjófsstaðaþáttur birtist í Lesbók Mbl. 22. jan. 2000, undir titlinum Höfuðbólin í Fljótsdal III).

 SKRIÐUKLAUSTUR

Bærinn Skriðuklaustur, sem í daglegu tali er nefndur Klaustur, hét upphaflega Skriða, en breytti um nafn eftir að klaustur var sett þar um aldamótin 1500. (Gunnar skáld reyndi að endurvekja Skriðu-nafnið, en það heppnaðist ekki).
Bærinn stendur undir snarbrattri hlíð Klausturhæðar (562 m y.s.), ysta hluta Valþjófsstaðafjalls, sem er með grónum brekkum og melarindum neðantil en þéttum klettabeltum ofar. Utan við það skerst hrikalegt gil Bessastaðaár inn í fjallið. Sjálfsagt hefur einhverntíma verið skriðuhætt á Klaustri, þegar jarðvegur var meiri ofantil í fjallinu, enda stendur bærinn á fornum skriðum, en síðustu aldir fer þar ekki sögum af neinum stórskriðum. Gamla túnið er á tveimur hjöllum; bærinn er á þeim efri, og stendur hærra en aðrir bæir í miðdalnum. Þaðan er frítt útsýni og staðarlegt heim að líta. Framan í neðri hjallanum eru Klausturhamrar, bryddaðir birkitrjám og blómríkum syllum.
Neðst er Klausturnesið, marflöt og víðlend framburðarslétta Fljótsdalsánna. Ofan breiðra valllendisbakka var það áður mjög mýrlent, og voru mýrarnar notaðar sem flæðiengi, en um 1950 var það ræst fram og að hluta til breytt í tún. 
Jörðin Skriðuklaustur hefur verið talin með bestu bújörðum á Íslandi, þó að heimalandið sé ekki stórt, aðeins um 3 km á breidd, en síðan á klausturtímanum a.m.k. telst það ná þvert yfir Fljótsdalsheiði, niður að Jökulsá á Dal, um 20 km vegalengd. Þar eru býlin Fossgerði (Stuðlafoss) og Klaustursel, sem nú eru gengið undan jörðinni. Auk þess telst afréttin Rani, milli Eyvindarár og Hölknár á Jökuldal, til Skriðuklaustursjarðar, en þar eru eyðibýlin Brattagerði og Þorskagerði.
Á Klaustri stendur stórt og sérkennilegt íbúðarhús, sem Gunnar skáld Gunnarsson lét byggja árið 1939, og er því gjarnan nefnt Gunnarshús. Annað íbúðarhús var byggt 1967, stuttu innar, og er nú kallað Skriða. Þar býr forstöðumaður Gunnarsstofnunar. Á fyrri tíð var oft rekið stórt sauðfjárbú á Klaustri, og var svo fram um 1990, er hún var svipt sauðfjárkvóta sínum. Síðan er þar enginn sjálfstæður búskapur, en 1999 var jörðin seld bændum á Bekku í Fljótsdal og er nýtt þaðan.

Yngsta klaustrið á Íslandi: Fyrstu klaustrin á Íslandi voru stofnuð á 12. öld, en allt fram um aldamótin 1500 var ekkert klaustur í þeim hluta landsins sem nú er Austurlandskjördæmi (og ekki heldur í Þingeyjarþingi). Ástæður þess er lítt kunnar. Klaustrin urðu snemma miðstöðvar hins kirkjulega auðs og valds, og mun kirkjunnar mönnum hafa þótt nokkuð á skorta, að hafa ekki slíka fótfestu fyrir austan. Því var það, að Stefán Jónsson Skálholtsbiskup (1491 -1518) beitti sér fyrir því, að stofnað var klaustur að Skriðu kringum árið 1495.
Lítið er vitað um sögu þessa bæjar fram að þeim tíma. Klausturstofnunin var nátengd kirkjubyggingu á staðnum, sem ef til vill á sér trúarlega orsök, og kann að vera ástæðan fyrir því, að jörðin var gefin til klausturhalds, en formlegt gjafabréf var undirritað 8. júní árið 1500. Í bréfinu tilkynnir Hallsteinn Þorsteinsson á Víðivöllum, að hann og kona hans Cecilia Þorsteinsdóttir, gefi jörðina Skriðu: "fyrst að upphafi guði almáttugum, jómfrú Marie og helga blóð, til ævinlegs klausturs."
Árið 1498 er fyrst getið munka í klaustrinu, en klausturbræður voru fáir, líklega aldrei fleiri en 5-6. Fyrsti príor var Narfi Jónsson. Talið er að klaustrið hafi tilheyrt Ágústínusarreglu. Saga þessa unga klausturs varð stutt, því að fljótlega eftir siðaskipin var það lagt niður, líklega 1552.

Húsalýsing frá 1598: Ekki er vitað hvernig húsaskipan á Skriðu var háttað á klausturtímanum, en vorið 1598 eru sex menn þar saman komnir til að meta eignir staðarins, sem nú skal afhenda nýjum umboðsmanni, Jacob Vijnoch. Þó húsin hafi hrörnað, eru þar ennþá margar og reisulegar byggingar, sem tilteknar eru í úttektinni: Þá eru enn tvær kirkjur á staðnum. Hér kemur útdráttur úr lýsingunni:
"Klausturkirkjan vel standandi að veggjum og viðum, með hurðum og járnum, hespu og keng... Heimakirkjan að falli komin, bæði að veggjum og viðum...Reiðingsskemman niðurfellileg... Eldaskemman gömul, sterk og vel standandi... Stórastofan ný, með hurð á járnum, með háborðsbekk og þiljuð þar um kring, háborðið með stólum, tvö borð með einu forsæti. Kjallarinn gamall og sterkur, vel standandi... Prestaskálinn lítt hallaður að grindinni, hrörnaður að veggjum og rjáfri...Litla baðstofan að öllu sterk...Litla stofan komin til falls. Skálinn nýr og sterkur að viðum og veggjum, með 6 sængum hvoru megin, þar í ein lokrekkja með hurð... Búrið mjög fornt og niðurfellilegt.... Skreiðarskemman að falli komin...Stóra baðstofan sterk og stæðileg...Hlaðan að falli komin, með níu grenisúlum...Fjósið vel sterkt og stæðilegt... Hitunarhúsið svo nær sem niður fallið, ónýtt að veggjum og viðum. Item klausturhúsin af fallin." (Heimir Steinsson: Saga munklífis að Skriðu í Fljótsdal. Prófritgerð við H.Í., 1965, bls. 44-46)
Hér eru talin 16 hús heima á staðnum. "Heimakirkjan" er líklega gamla kapellan sem stóð niðri á Kirkjutúni áður en Klausturkirkan var reist þar. Á þessum tíma er hún notuð sem geymsla. "Hitunarhúsið" hefur líklega verið brugghús klaustursins, og hafa klausturbræður því varla verið þurrbrjósta.
Þessara miklu bygginga sér nú engan stað, en talið er að þær hafi verið á núverandi bæjarstæði. "Klausturhúsin" sem þá voru fallin, voru líklega íverustaður príors og klausturbræðra. Þegar Daniel Bruun kom í Klaustur um aldamótin 1900 var honum vísað á tvær tættur rétt fyrir innan og ofan bæinn, sem sagðar voru af klausturhúsum, en fornleifauppgröftur síðustu ára bendir til að þau hafi verið niður á Kirkjutúni í beinum tengslum við klausturkirkjuna (Nánar um uppgröftinn?)
Við endurbyggingu bæjarins um 1890 fannst gömul kjallaragröf, með leifum af skyri, að menn héldu, og brunaminjar ofan á, en vitað er að bærinn brann laust eftir aldamótin 1600. Gröfin var 10 x 11 fet að flatarmáli og 3 fet á dýpt. Taldi Jón Jónsson læknir, sem rannsakaði hana, að hún hefði verið fyllt af skyri (Jón Jónsson: Kjallaragröfin á Skriðu í Fljótsdal... Árb. Fornleifafél. 1897: 22-24).

Skriðuklaustursumboð: Þó klaustrið stæði aðeins í hálfa öld eignaðist það fjölda jarða um allt Austurland. Er talið að um 50 jarðir og hjáleigur hafa tilheyrt því undir lokin. Þegar klaustrið var lagt niður gengu þær undir konung eða "ríki" þeirra tíma, og voru seldar á leigu. Það var kallað Skriðuklaustursumboð, og leigutakar umboðsmenn eða klausturhaldarar. Þeir gegndu oft jafnframt sýslumannsstörfum í Múlaþingi. ¬Þeim var skylt að viðhalda klausturkirkjunni og launa prest eða djákna við hana. Þetta skipulag stóð lítið breytt til 1874, en eftir það voru klausturjarðir kallaðar þjóðjarðir og gengu afgjöld þeirra þá beint í landssjóð. Um og eftir aldamótin 1900 voru þær flestar seldar ábúendum.
Af nafnkunnum klausturhöldurum á Skriðu má nefna Gísla Magnússon, er nefndur var Vísi-Gísli, og Jón Þorláksson sýslumann, fyrrnefndan, sem héldu staðinn á 17. öld. Gísli hóf fyrstur manna skipulegar ræktunartilraunir hér á landi, og Jón var læknisfróður og samdi fornsöguþætti. Frægastur þessara embættismanna konungs varð þó Hans Wíum á 18. öld (sjá síðar). Jón Þórarinsson prests í Múla, Jónssonar, var klausturhaldari 1841 til dauðadags 1854. Hann var guðfræðingur frá Kaupmannahöfn, og hélt um tíma undirbúningsskóla fyrir þá sem fóru í Lærða skólann í Reykjavík. Páll Ólafsson skáld var með þeim síðustu er gegndu þessu embætti og tók við því af Birni Skúlasyni á Eyjólfsstöðum, tengdaföður sínum.

Hvernig klaustrið eignaðist Bessastaði: Til eru margar sögur af því hvernig kirkjur og klaustur á miðöldum náðu eignarhaldi á jörðum. Var þá ýmsum brögðum beitt og sumum ófögrum.
Samkvæmt gamalli þjóðsögu hafði ábótinn á Skriðuklaustri lengi ágirnst Bessastaðatorfuna. Hann tók nú það ráð að bjóða Bessastaðabónda til veislu. Meðan á veislunni stóð lét hann flytja heilmikið af hangikjöti út á veginn á milli bæjanna og bauðst svo til að fylgja bóndanum áleiðis heim. Bóndi reyndi áranguslaust að afþakka fylgdina, og þegar þeir komu að kjöthrúgunni brá honum heldur í brún, því að nú bar ábótinn það á hann að hafa ætlað að stela kjötinu. Kvaðst hann myndi kæra bóndann til yfirvalda ef hann seldi sér ekki jörðina eða gæfi klaustrinu hana. Neyddist bóndi þá til að láta hana lausa og þarmeð hjáleigurnar sem henni tilheyrðu. (Þjóðs. Sigf. Sigf. 2. útg. 10: 201-202).

Klausturkirkjan og kraftaverkið: Samkvæmt gamalli helgisögn skeði það eitt sinn í kaþólskum sið, er Valþjófsstaðaklerkur átti erindi út í dalinn að þjónusta deyjandi sóknarbarn sitt, að hann tapaði kaleik og patínu. Fannst hvorttveggja á þúfu við götuna neðan við Skriðu. Var þá vín í kaleiknum og patínan með oblátum lá kyrfilega ofan á honum. Þetta var álitið kraftaverk, og skömmu seinna var byggð kapella þar sem bikarinn fannst. Stóð hún á neðsta hjalla, fram og niður af bænum, þar sem heitir Kirkjutún.
Þegar stofnað var til klausturs á staðnum var byggð þarna ný og vegleg kirkja úr timbri, líklega með "útbrotum" og nokkrum ölturum eða stúkum, og fagurlega skreytt líkneskjum og myndum. Er það klausturkirkjan sem getið er í úttektinni 1598. (H.Hall.: Klaustur-María og kraftaverkin tvö. Austri 33, jólablað 1988.)
Eftir siðaskiptin tók kirkjunni að hraka og líklega hefur hún verið rúin sínum bestu gripum, þótt sumum væri skilað aftur. Hún var endurbyggð um 1670, og þá í allt öðru og minna formi, að hluta til með torfveggjum. Það eru rústir þeirrar kirkju sem nú getur að líta niður á Kirkjutúni. Hún var formlega lögð niður árið 1792, og rifin skömmu seinna.
Enn eimir eftir af hinni fornu kirkjuhelgi, því að á brún Klausturhamranna, fyrir neðan kirkjutóttina vaxa eldgamlar birkihríslur, sem ekki má höggva eða skerða á annan hátt. Sé það gert missir bóndinn bestu kúna eða gæðing sinn, segir Gunnar skáld (Árbók F.Í.1944).

Klaustur-María: Eitt af listaverkum gömlu klausturkirkjunnar var Maríumynd, sem virðist hafa horfið úr kirkjunni um aldar bil eftir siðaskiptin, en er getið í síðari úttektum hennar.
Árið 1950 barst Þjóðminjasafninu dálítið safn íslenskra forngripa frá Bretlandi, sem breskur fiskkaupmaður, Pike Ward, hafði safnað. Þar á meðal var Maríulíkneski úr tré, sem honum var sagt að hefði fundist þegar bóndinn "á Klaustri við Lagarfljót" var að rífa og endurbyggja gamlan fjósvegg. Hafa menn fyrir satt, að þar sé komin önnur Maríumyndin úr klausturkirkjunni, eftir margra alda hrakning.
"Að öðrum myndum ólöstuðum, er þessi ein áferðarfegursta Maríumyndin, er safnið geymir", segir Heimir Steinsson í ritgerð um Skriðuklaustur.
Í tilefni af aldarafmæli Gunnars Gunnarssonar 1989, gengust nokkrir Héraðsbúar fyrir því að láta skera út eftirmynd þessa Maríulíkneskis frá Skriðu. Það var Sveinn Ólafsson myndskeri í Reykjavík sem vann verkið, er þótti takast með ágætum. Maríulíkneskið er því á vissan hátt komið heim og prýðir nú arinstofu Gunnarshúss, þar sem gestir geta skoðað það.

Leiði Jóns hrak: Frásagnir af Jóni hrak (eða flak) eru þekktar víða um landið og tengdar ýmsum stöðum. Flestar ganga sagnirnar út á það, að Jón þessi hafi verið umrenningur, sem hafi látist um hávetur, og hafi menn ekki hirt um að grafa hann eins og aðra kristna menn, þ.e. að snúa leiðinu í austur-vestur, heldur hafi það snúið "út og suður". Fylgir jafnan þessi alkunna vísa:

Kalt er við kórbak,
kúrir þar Jón hrak,
ýtar snúa austur og vestur,
allir nema Jón hrak.

Þjóðsagnapersóna þessi öðlaðist sérstaka upphefð með samnefndu kvæði Stephans G. Stephanssonar, en í því er þessi vísa:

Þegar alþjóð einum spáir
óláns, rætist það - ei tjáir,
snilli mikils manns né sómi,
móti fólksins hleypidómi.
Falin er í illspá hverri,
ósk um hrakför sýnu verri.

Stefán virðist hafa tengt sögnina um Jón hrak sérstaklega við Skriðuklaustur, því að hann lét hlaða upp leiði Jóns, sem menn töldu vera í suðausturhorni kirkjugarðsins þar, þegar hann kom hingað 1917. „Mér finnst ég skulda karlinum þetta, að þúfunni hans sé haldið við, fyrst þú hefir hana til sýnis fyrir gesti“, ritar hann Sigríði Halldórsdóttur á Klaustri.
Síðan lét Hákon Bjarnason gera legstein, með nafni Jóns, og setja á leiðið. Er það eini legsteinninn sem nú er sýnilegur í gamla klausturkirkjugarðinum, og ekki er vitað til að Jón eigi sér slíkt minnismerki annarsstaðar.
Franzisca Gunnarsdóttir, sonardóttir Gunnars skálds, hefur ritað bók með æskuminningum sínum frá Skriðuklaustri, en þar ólst hún upp til sjö ára aldurs. Franzisca tók sérstöku ástfóstri við Jón hrak og leiði hans í gamla kirkjugarðinum. Þangað fór hún oft og ræddi við Jón í einrúmi. Á leiðinni tíndi hún blóm og lagði á leiðið, með tilheyrandi signingu og bænalestri. Í lok athafnarinnar fór hún með vísuna um Jón dálítið breytta:

Kalt er við kórbak,
kúrir þar Jón hrak.
Ítar snúi norður og niður,
allir nema Jón hrak.

Þannig vildi hún rétta hlut Jóns gagnvart sveitungum hans, sem voru svo ósvífnir að snúa leiðinu öfugt. (Franzisca Gunnarsdóttir: Vandratað í veröldinni. Rvík 1987)

Af steinum: Bessasteinn nefnist steinkúla ein, um 40 sm í þvermál, sem lengi hefur verið á Klaustri, notuð sem aflraunasteinn. Steinninn var upphaflega á Bessastöðum, og fylgir honum sú sögn, að þegar Spak-Bersi (sjá síðar) var gamall orðinn og fann dauðann nálgast, hafi hann spyrnt þessum steini frá bænum niður á völlinn, og látið svo um mælt að sig skyldi heygja þar sem steinninn næmi staðar. Dæld er í steininn sem á að vera far eftir sparkið. Haugur Bersa er um 200 m frá bænum, og hefur þetta því verið myndarlegt spark, sem enginn fótboltagarpur gæti leikið eftir.
Þórarinn Þórarinsson skólastjóri segir, að steinninn hafi legið við hestaréttina á Klaustri, og að þrenns konar aflraunir hafi verið háðar við hann: í fyrsta lagi að "grasa" honum, þ.e. að lyfta honum úr grasi, í öðru lagi að lyfta honum í hnéshæð, og í þriðja lagi að lyfta honum upp á réttarvegginn, "og var þá aflraunin fullkomnuð". Þórarinn taldi fráleitt að nokkur hefði getað "jafnhattað" Bessastein. (Gestur Guðfinnsson: Lausleg samantekt um steintök og aflraunasteina. Farfuglinn 21 (2), 1977: 4-13).
Annar kúlulagaður steinn, nokkru stærri og þyngri, er þarna einnig, en ekki er vitað hvernig hann er til kominn. Liggja steinar þessir við leifar af gömlu reynitré rétt fyrir sunnan Gunnarshús. Í hlaðvarpanum er þriðji steinninn, kallaður Hestasteinn, miklu stærri en hinir, hleiflaga, með ferhyrndri holu ofan í miðju. Það er sýnilega steðjasteinn, ættaður úr smiðju, en steðjinn var festur í holuna. (H. Hall.: Þrír steinar á Skriðuklaustri. Austri 34. 2. febr. 1989).

Hans Wíum og Sunnevumál: Hans Jensson Wíum (1712-1788) er frægastur þeirra umboðsmanna konungs er sátu á Skriðu og fóru jafnframt með sýsluvöld. Jens Wíum faðir hans var danskur, einnig sýslumaður, og þótti óvæginn dómari. Árið 1740 dæmdi hann systkin tvö úr Borgarfirði eystra til lífláts á Bessastöðum í Fljótsdal, fyrir að hafa átt barn saman, því að þá var Stóridómur í gildi. Þau hétu Jón og Sunneva, Jónsbörn. Hún var þá 16 ára en hann aðeins 14. Fáeinum dögum síðar fórst Jens sýslumaður á báti í mynni Seyðisfjarðar, ásamt sjö öðrum mönnum. Slysið þótti dularfullt, því að veður var ekki tiltakanlega slæmt. Spunnust af því margar sögur. (Agnar Hallgrímsson: Jens sýslumaður og hvarf hans vorið 1740. Múlaþing 22: 101-114. 1995)
Hans tók þá við embætti föður síns, og m.a. málum Jóns og Sunnevu, sem kölluð voru Sunnevumál, en dóminum hafði þá verið skotið til Alþingis og konungs náðar.
Sunnevumálin stóðu með nokkrum hléum í tvo áratugi, og eru einhver lengstu og flóknustu sakamál sem um getur hérlendis, enda reyndust þau Hans Wíum erfið og afdrifarík. Þau systkin voru í haldi á Skriðuklaustri næstu árin, og vildi þá ekki betur til en svo, að Sunneva varð þunguð í annað sinn. Á Alþingi árið 1743 lýsti Sunneva því yfir, að Hans væri faðir að þessu síðara barni sínu, og tók málið þá að vonum nýja og óvænta stefnu. Stóð Sunneva við þann framburð til dauðadags, en hún lést í varðhaldi á Klaustri, líklega veturinn 1757-58. Hans sór fyrir barneign þessa, og 1758 var fyrri dauðadómur staðfestur yfir Jóni, enda játaði hann að hafa getið bæði börn systur sinnar. Konungur breytti dómnum í ævilanga þrælkun. Jón var svo fluttur á Brimarhólm og loks norður á Finnmörk í Noregi, sem var eins konar fanganýlenda Dana um þetta leyti. Þar mun hann hafa borið beinin.
Sunnevumálin hafa orðið viðfangsefni skálda og rithöfunda. Rögnvaldur Erlingsson (fyrrnefndur) samdi leikrit út af þeim um 1980, er hann nefndi "Sunneva og sonur ráðsmannsins," og bretinn Dominic Cooper samdi skáldsögu, sem Franzisca Gunnarsdóttir þýddi. (Sunnevumálin. Örn og Örlygur. Rv. 1980). Ýmsir hafa ort kvæði og ljóðabálka um Sunnevu, m.a. Bjarni Þorsteinsson í Höfn og Jörgen Kjerúlf.

Vinur smælingjanna: Þó Hans Wíum væri nokkuð brokkgengur virðist honum hafa ofboðið réttarfar samtímans og harka valdsmanna gagnvart smælingjum, sem brotlegir gerðust, og reynt á ýmsan hátt að draga úr broddi laganna og túlka þau á mildari hátt en vant var. Kemur það m.a. fram í Sunnevumálunum, þar sem hann er iðulega sakaður um slælega gæslu þeirra systkina.
Almælt var að Hans sýslumaður skyti skjólshúsi yfir sakamenn og aðstoðaði þá við að komast úr landi. Meðal annars er sagt að hann héldi Fjalla-Eyvind á laun sem vinnumann á Skriðuklaustri heilan vetur, en Halla var þá á Víðivöllum.
Fyrir þetta skapaði hann sér óvild annara embættismanna, er fylgja vildu lagabókstafnum, svo sem Péturs sýslumanns á Ketilsstöðum, er lét dæma hann frá embætti fyrir embættisglöp árið 1754 , einkum í Sunnevumálinu, en þeim dómi var hnekkt í hæstarétti Danmerkur.
Meðal skjólstæðinga Wíums var Egill Benediktsson, sem kallaði sig Snotrufóstra. Sem ungur maður þótti hann frábær að gáfum og öðru atgervi, varð stúdent og fór til náms við Hafnarháskóla. Þar bilaði hann á geði og var eftir það einkennilegur í öllu hátterni sínu. Eftir heimkomuna var hann fyrst á Ketilsstöðum á Völlum, hjá Pétri sýslumanni, sem gekk illa að tjónka við hann, en síðan hjá Hans Wíum á Klaustri og þar lést hann 1754. (Sjá Ketilsstaði). (Agnar Hallgrímsson: Hans Wíum sýslumaður og afskipti hans af Sunnevumálinu... Múlaþing 19 (1992): 44-136. Þorsteinn frá Hamri: Egill Snotrufóstri. Tíminn, Sunnudagsblað 1, 1962: 940-)

"Týnd er æra, töpuð er sál.": Þjóðtrúin hafði hins vegar sinn skilning á þessu öllu saman og spann upp sögur, sem voru í litlu samræmi við raunveruleikann. Þannig herma sumar þeirra að sýslumaður hefði drekkt Sunnevu í Drekkingarhyl í Bessastaðaá, til að bera af sér barneignina með henni, og því væri hylur þessi líka kallaður Sunnevuhylur. Af því tilefni átti hin alkunna vísa að hafa komist á flot: (Þjóðs. Sigf. Sigf. VIII, 49).

Týnd er æra, töpuð er sál,
tunglið veður í skýjum.
Sunnevu nú sýpur skál,
sýslumaðurinn Wíum.

Líklegra er þó að vísan sé kveðin í tilefni þess að Jens sýslumaður fórst skömmu eftir dauðadóminn yfir systkinunum, sem fyrr var getið.
Aðrar sögur herma að Sunnefa hefði drekkt sér sjálf í Sunnevuhyl. Þá skoðun túlkar Bjarni í Höfn og lætur þetta vera lokaorð hennar: (Bjarni Þorsteinsson frá Höfn: Þrjú ljóð. Múlaþing 8, 107).

Grafarsöng mér gjálpin þylur.
Geigvænlegi myrki hylur,
mig í þínum faðmi fel.
Leys þú mig frá lífsins kvölum.
Leið þú mig að friðarsölum.
Falski heimur farðu vel.

Skáld-Guðný: Um 1860 flytur Guðný Árnadóttir, sem kölluð var Skáld-Guðný, að Skriðuklaustri, til Þóru systur sinnar, er þar bjó ekkja eftir Eirík Arason, en þeirra sonur var Jónas, fyrsti skólastjóri Búnaðarskólans á Eiðum og Guðríður, amma Herdísar leikkonu, móður Hrafns og Tinnu, Gunnlaugs barna.
Hallgerður móðir þeirra Guðnýjar og Þóru var frænka Vigfúsar Ormssonar, hafði verið send í Valþjófsstað sunnan af landi um fermingu, og vann fyrir sér á leiðinni. Þær systur höfðu unun af skáldskap og voru báðar skáldmæltar. Guðný hafði búið með Bjarna manni sínum á ýmsum bæjum, oftast í húsmennsku eða vinnumennsku, við bágan efnahag og endalaust strit. Við komuna í Klaustur og samveruna með systur sinni er eins og hún endurfæðist, og fer nú að yrkja löng kvæði í rímnastíl.
En Guðný yrkir ekki um konunga og hetjur í riddarasögum, eins og flest rímnaskáld gerðu, heldur verða villidýrin í Fljótsdalnum henni að yrkisefni. Hún yrkir ævintýri í ljóðum um mús, sem lendir í mjölbiðu, um viðskipti krumma og tófu, og síðast en ekki síst yrkir hún hjartnæm kvæði um hreindýrin, sem hún kynntist nú fyrst í Fljótsdal, og virðist hafa hrifist af. Sveinbjörn Beinteinsson segir Skáld-Guðnýju sóma sér vel á bekk íslenkra rímnaskálda, en ekkert hefur enn verið prentað af kvæðum hennar.
Guðný hafði áður komið við sögu séra Vigfúsar, frænda síns, á nokkuð sérstæðan hátt (sjá Arnheiðarstaði). Hún lenti að lokum suður í Lón og varð ljósmóðir þar. (Nánar í jólablaði Austra 1992 og Jón Helgason: Ísl. mannlíf, 2. bindi. Rv. 1959).

"Halldór og "höllin": Árið 1880 hóf Halldór Benediktsson búskap á Skriðuklaustri, með konu sinni Arnbjörgu Sigfúsdóttur, og gerðist brátt umsvifamikill. Þau keyptu jörðina af landssjóði 1895. Í búskapartíð þeirra varð Klaustur til fyrirmyndar í flestu er laut að búskap og sveitalífi. Halldór var smiður og endurreisti allan Klausturbæinn eftir sínum hugmyndum, sem voru á ýmsan hátt nýstárlegar. ¬Þar var m.a. sérstök tengibygging, sem kölluð var Höllin. Henni er svo lýst:
"Þegar inn var komið tók við stór, bjartur salur. Var gólf hans í sömu hæð og stofugólf baðstofuhússins, en vegghæð hans jöfn portbitum þess. Þessi salur svaraði til mjög stórs innra anddyris í íbúðarhúsum nú á tímum, nema hvað hann var hærri til lofts, því að ris var á honum ofan hárra veggja. Allmikið fannst mönnum til um þetta hús og var það nefnt "höll". Úr höllinni voru fimm dyr til annara herbergja í bænum. Þar voru m.a. tvö stór hreindýrshorn, áföst á hnakkabeininu, og notuð sem snagar fyrir yfirhafnarföt gesta. Höllin var samkomustaður hins fjölmenna heimilis til dansleikja og annara leikja og mannfagnaðar, því Halldór var gleðimaður og þau hjón bæði.
Síðar tóku fleiri upp þetta byggingarlag á bæjum á Héraði. Halldór lét hlaða túngarða, sem enn sér merki til, og traðir, sem notaðar voru sem hestarétt fyrir gesti. Einnig teiknaði hann og lét byggja Fljótsdalsrétt (sjá síðar) um 1905. Kornmyllu byggði hann við skurð úti á Klausturnesi. Þar var lítill straumur en vatnsmagn talsvert, og því þurfti vatnshjólið að vera mjög stórt og með skúffum. Það var kallað "Veraldarhjólið" af nágrönnum. Halldór var orðlagður fyrir gamansemi sína, og ganga af því ýmsar sögur.

Ævintýri Gunnars skálds: Það varð uppi fótur og fit í Fljótsdal þegar það fréttist vorið 1938, að Gunnar Gunnarsson eða "Gunnar skáld", eins og hann var jafnan kallaður heima fyrir, ætlaði að kaupa Skriðuklaustur af Sigmari Þormar, sem þar bjó, gerast bóndi og flytja með fjölskyldu sína "heim í heiðardalinn". Gunnar var þá um fimmtugt og var orðinn heimsfrægur rithöfundur. Hann hafði frá tvítugsaldri verið búsettur í Danmörku og hafði ritað allar bækur sínar á dönsku.
Gunnar var fæddur Valþjófsstað 18. maí 1889, sonur Gunnars Helga Gunnarssonar, bróður Sigurðar prests á Valþjófsstað, og Katrínar Þórarinsdóttur frá Bakka í Bakkafirði. Þau bjuggu þrjú ár á Arnaldsstöðum (1891-94) og síðan önnur þrjú á Valþjófsstað, en fluttu vorið 1896 að Ljótsstöðum í Vopnafirði, og ólst Gunnar þar upp til fullorðinsára.
Það var varla að menn tryðu því að slík undur gætu gerst á okkar tímum. En vorið eftir varð sjón sögu ríkari, því að þá var byrjað að byggja hið mikla íbúðarhús Gunnars, sem oft er nú kallað Gunnarshús. Það er þögult vitni um ævintýri skáldbóndans. Í júní 1939 flutti Gunnar með fjölskyldu sína í timburhús sem fyrir var á staðnum, og fylgdist eftir það með byggingarframkvæmdum.
"Fólk í Fljótsdal og nágrannasveitum skorti því ekki umræðuefni þetta blíða sumar, sem annað eins hafði ekki komið á Íslandi síðan hver veit hvenær. Já, það voru margar sögurnar, sem gengu þetta sumar, um byggingu hins mikla húss og standið í kringum það. Allt var svo stórt í sniðum og gersamlega óvenjulegt," (Sig. Blöndal í HEB 39 (12), 1989)
Um 30 manns unnu að staðaldri við bygginguna þetta sumar, enda gekk verkið eins og í sögu. Húsið varð fokhelt um haustið, og gat fjölskyldan flutt inn í það fyrir jól.
Strax um vorið réð Gunnar sér ráðsmann og vinnufólk til að stunda búskapinn, og kom upp stóru kúa- og sauðfjárbúi á þeirrar tíðar vísu, með allt að 400 ám. Túnin voru stækkuð til muna og búið var vélvætt meira en þá þekktist austanlands. Gunnar hafði áhuga á búskap og fylgdist grannt með honum. Hann gekkst fyrir stofnun Ræktunarsambands, til að kaupa stórvirk jarðvinnslutæki, og jarðýtan hélt innreið sína, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir búskap, minjar og náttúru Austurlands.
Búskapurinn reyndist Gunnari hins vegar örðugur, því þetta voru breytingatímar. Heimsstyrjöldin síðari gekk í garð árið eftir, og skapaði næga vinnu í kaupstöðunum. Það varð smám saman erfiðara að fá vinnufólk til sveitarstarfa, og það krafðist hærri launa en áður. Samgöngur voru ennþá mjög frumstæðar, og verslunin bágborin. Þar við bættist svo heilsuleysi í fjölskyldunni, og að læknissetrið var flutt frá Brekku í Fljótsdal í Egilsstaði 1944.
Þessar aðstæður leiddu til þess, að Gunnar ákvað að hætta búskap á Skriðuklaustri. Á haustdögum 1948 flutti fjölskyldan alfarin þaðan til Reykjavíkur. Þessu tíu ára ævintýri skáldbóndans var lokið.
Um sama leyti gáfu þau Gunnar og Franzisca íslenska ríkinu jörðina Skriðuklaustur með húsum og öðrum mannvirkjum. Gjafabréfið er dagsett 11. des. 1948 í Reykjavík. Í því segir meðal annars:
"Jarðeign þessi skal vera ævarandi eign íslenzka ríkisins. Hún skal hagnýtt á þann hátt, að til menningarauka horfi, t.d. að rekin sé þar tilraunastarfsemi í landbúnaði, byggðasafn, bókasafn, skjalasafn, listasafn, skóli, sjúkrahús, hressingarhæli, barnahæli eða elliheimili."
Einnig var þess óskað, að lokið yrði við byggingu íbúðarhússins mikla, samkvæmt upphaflegri áætlun, og að því yrði sem minnst breytt að utanverðu".

Gunnarshús: "Hvernig má skilja þau feikn og undur sem við sjáum, skilja þessa miklu byggingu, staðsetningu hennar, stórhýsi í alpastíl, sem er eins og því hafi verið kippt upp með rótum suður í Týról og sett niður á Íslandi, einmitt hér. Hvernig eigum við að skilja þetta hús í rúmi og tíma? Hvenær og hver er þess tími? Er hann kannske ekki runninn upp? Hvaða búskapur bar uppi þessa miklu höll, eða eru þetta einungis duttlungar heimsmannsins, skáldsins mikla, sem klætt hefur eina smásögu í stein, til þess að gera okkur, þessum jarðbundnu vanahyggjumönnum, mikilfengleikann skiljanlegan, vegna þess að við skiljum hann ekki nema í áþreifanlegri mynd." (Jóhann Ólafsson í Lesbók Mbl. 46 (32), 1971.)
Þessi lýsing gefur til kynna þau áhrif sem ókunnugur ferðalangur verður fyrir er hann lítur íbúðarhús Gunnars og Franziscu fyrsta sinn. Óhætt er að segja, að húsið sé eitt hið sérstæðasta sem byggt hefur verið á Íslandi. Það var teiknað af þýskum arkitekt, Fritz Höger, sem gárungar sögðu að hefði verið einkavinur Hitlers og teiknað "Arnarsetur" hans í Alpafjöllum, en fyrir því er enginn fótur.
Samkvæmt teikningu Högers átti að hlaða útveggina úr höggnu grjóti, en til þess skorti bæði kunnáttu og hentugt efni. Var því brugðið á það ráð, að raða blágrýtishnullungum í þykka steypu utan á veggjunum, og líkja þannig eftir steinhleðslu. Þetta tókst furðu vel, og minnir húsið, með grjótveggjum sínum og torfþaki, raunar nokkuð á gamla íslenska torfbæinn, enda vafalítið til þess ætlast.
Súlnagöngin austan við húsið voru ekki byggð fyrr en árið 1977 (1974-82. Þ. Lár.). Þau voru hlaðin úr völdu grjóti, sem límt var saman með steypu, og eru því nær hinni upphaflegu áætlun Högers. Sveinn Einarsson hleðslumaður á Egilsstöðum sá um það verk. Torfþakið sem upphaflega var á húsinu reyndist mjög erfitt í viðhaldi í hinu þurra loftslagi Fljótsdals, og var því tekið af um 1960. Það var svo endurnýjað fyrir aldarafmæli Gunnars 1989, og sett í það vökvunarkerfi. Jafnframt var umhverfi hússins skipulagt og mótað samkvæmt teikningum Björns Jóhannessens landslagsarkitekts.
Gunnarshús er 335 fermetrar að grunnmáli, tvær hæðir og ris, og í því eru um 30 herbergi og kompur. Á efri hæð eru tvær stórar, samliggjandi stofur, og stór borðstofa og eldhús á neðri hæð. Í útenda hússins hefur frá upphafi verið sérstök íbúð, með sérinngangi, og var hún gerð að gistiheimili fyrir lista- og fræðimenn árið 1989.
Gunnarshús er stílhreint og merkilegt listaverk. Það sameinar á sérstakan hátt útlit íslenska torfbæjarins og lögun dansk-þýska "herragarðsins", en skírskotar einnig til klausturbygginga í Mið-Evrópu. Eins og í skáldverkum Gunnars mætast hér íslensk bændamenning og evrópsk byggingarlist og fallast í faðma. Húsið er því minnismerki um Gunnar í fleiri en einum skilningi.

Minjasafn Austurlands: Gunnar skáld var frumkvöðull að stofnun Minjasafns Austurlands 1943, og sat í stjórn þess fyrstu árin. Var safnið eitt helsta áhugamál hans á Klausturárunum. Safnið var fyrst í geymslum á Hallormsstað, en 1945 bauðst Gunnar til að taka það inn í hús sitt og leggja eitt herbergi til sýningar á því. Var það opið almenningi á sumrin og sá fjölskyldan um vörslu þess.
Þegar Gunnarshús var afhent ríkinu 1948, stóð til að safnið fengi stóraukið sýningarpláss, enda var það í samræmi við gjafabréf Gunnars og Franziscu. Þegar til kom þurfti Tilraunastöðin, sem þá flutti í húsið, á þessu húsnæði að halda, og varð því ekkert af stækkuninni. Árið 1966 var safninu á Klaustri lokað formlega, vegna ófullnægjandi aðstöðu. Þegar Safnastofnun Austurlands var sett á laggirnar 1972 var enn leitað eftir því við ráðuneyti þau er hlut áttu að máli, að safnið fengi nægilegt húsrými í Gunnarshúsi, og náðist samkomulag um það. Í staðinn skyldi stefnt að nýbyggingu fyrir tilraunastöðina. Þessi áætlun fór einnig út um þúfur, og 1979 varð niðurstaðan sú, að safnið skyldi flutt burt frá Klaustri og byggt yfir það á Egilsstöðum. Sú bygging er nú risin að hluta til, og var safnið opnað þar vorið 1996.

Tilraunastöðin: Tilraunastöð á vegum ríkisins var sett á fót á Hafursá í Skógum árið 1947, en áður hafði Búnaðarsamband Austurlands rekið tilraunastöð að Eiðum. Í samræmi við gjafabréf Gunnars og áhuga hans á búskap, þótti sjálfgefið að nýta jörðina fyrir þessa starfsemi. Var tilraunastöðin því flutt í Klaustur vorið 1949 og sett þar upp tilraunabú. Starfsemin var tvíþætt frá upphafi: annars vegar kynbætur og fóðrun sauðfjár og hins vegar ræktunartilraunir. Fyrsti bústofninn var keyptur af Gunnari skáldi.
Fyrsti tilraunastjóri á Klaustri var Jónas Pétursson, síðar alþingismaður, og mótaði hann starfsemi stöðvarinnar, einkum á sviði sauðfjárræktar. Hann kom upp stóru fjárbúi og byggingum fyrir það, lét ræsa fram mýrar á nesinu, og hóf þar stórfellda túnrækt. Einnig lét hann nýta Ranann á Jökuldal, sem tilheyrt hefur jörðinni frá fornu fari.
Skipulegt úrval og kynbótaræktun á sauðfé hófst 1956 með "Stofntilrauninni" svonefndu. Bestu fjárstofnar á Austurlandi voru leitaðir uppi, ræktaðir og kynbættir áfram. "Í höndum Jónasar Péturssonar varð úr þessari blöndu mjög vel gerður og afurðamikill kynstofn, sem fljótlega var farið að leita til með kynbótafé." (Búkolla II, 1975).
Eftir 1965 var sauðfjárræktartilraunum á Klaustri stýrt meira af sérfræðingum Rannsóknastofnunar Landbúnaðarins, og hefur Stefán Aðalsteinsson (frá Vaðbrekku) haft veg og vanda að þeim. Hafa þær einkum gengið út á það að rækta upp fjárstofn með kostamikla hvíta ull.
Ræktunartilraunir voru oftast í umsjón sérfræðinga sem til þess voru ráðnir, og tilraunir með áburð voru gerðar hjá bændum á ýmsum stöðum í fjórðungnum. Árið 1962 tók Matthías Eggertsson við stöðu tilraunastjóra á Klaustri. Hann byggði sér annað íbúðarhús á jörðinni, sem nefnt var Skriða. Sérgrein Matthíasar var á sviði jarðræktar, og efldist sá þáttur mjög á næstu árum. Um það leyti reis mikil kornræktaralda á Héraði og kom það í hlut Matthíasar að annast tilraunir og leiðbeiningar í þessari nýju búgrein. Um miðjan sjöunda áratuginn snerist veðrátta til hins verra og kalskemmdir urðu algengar í túnum. Varð það að vonum höfuðviðfangsefni tilraunastjórans. Settar voru upp dreifðar tilraunir með áburð, kölkun o.fl. víðs vegar um fjórðunginn.
Árið 1965 voru sett ný lög um rannsóknir í þágu atvinnuveganna og Rannsóknastofnun Landbúnaðarins (RALA) var komið á fót. Skyldu nú allar tilraunastöðvar ríkisins heyra undir þá stofnun. Þór Þorbergsson gegndi tilraunastjórastarfinu á Klaustri árin 1971-1984 og hélt m.a. áfram kaltilraunum. Í hans tíð voru svalir byggðar á húsið, eins og ráð var fyrir gert. Þá var hafin nytjaskógrækt á jörðinni um 1982.
Árið 1985 urðu þær breytingar á rekstri tilraunastöðvarinnar, að tilraunabúið var aðgreint frá annari starfsemi, og tók Búnaðarsambandið að sér rekstur þess. Bústjóri var ráðinn Jón Björnsson. Sama ár tók Þórarinn Lárusson við starfi tilraunastjóra, en hann hafði áður starfað á Klaustri við sauðfjárræktartilraunir í tíð Jónasar og Matthíasar.
Það varð brátt helsta viðfangsefni Þórarins og Guðborgar Jónsdóttur konu hans, að sjá um nauðsynlegt viðhald og endurnýjun á Gunnarshúsi, og sérstakar framkvæmdir sem efnt var til vegna aldarafmælis Gunnars 1989. Jafnframt urðu þau að heyja baráttu fyrir menningarlegu hlutverki staðarins og efndum á gefnum loforðum við skilningslítil stjórnvöld.
Árið 1990 ákvað Rannsóknastofnun Landbúnaðarins að leggja tilraunastöðina á Skriðuklaustri niður. Þarmeð lauk þar 40 ára tilraunastarfi í þágu íslensks landbúnaðar. Síðan voru haldin þar stutt námskeið í ýmsu er lýtur að búskap og atvinnulífi í sveitum. Sauðfjárstofninn sem ræktaður var upp á Klaustri var fluttur að bænum Freyshólum árið 1990, vegna niðurskurðar á sauðfé vestan Lagarfljóts, og 1999 að bænum Steinholti við Egilsstaði, þar sem honum er enn haldið við (?).

Gunnarsstofnun: Oft hefur verið rætt og ritað um að koma á fót safni eða stofnun til minningar um Gunnar og Franziscu í Gunnarshúsi á Klaustri, sem jafnframt gæti verið aðsetur fyrir ýmis fræði, bókmenntir og listir í anda gjafabréfs þeirra. Ýtarleg tillaga um ‚fræðasetur‘ var sett fram af höfundi þessa ritverks og Þórarni Lárussyni árið 1985, og birt sem „Ávarp til Austfirðinga“ í blöðum 1986. Einnig var flutt tillaga um sama efni á Alþingi.
Aldarafmæli Gunnars var haldið hátíðlegt á Skriðuklaustri þann 20. ágúst 1989, eftir að gagngerðar endurbætur höfðu farið fram á Gunnarshúsi og umhverfi þess. Þá var formlega opnuð Gestaíbúð í húsinu, er síðan hefur verið vinsæll dvalarstaður fræðimanna, rithöfunda og annara listamanna og er jafnan fullbókuð yfir sumartímann (Sjá Gletting 2 (2), 1992).
Snemma árs 1993 afhenti ráðuneyti landbúnaðarmála menntamálaráðuneytinu Gunnarshús til forræðis og afnota. Það var hins vegar ekki fyrr en vorið 1999 að samkomulag var gert milli ráðuneytanna um skiptingu jarðarinnar. Samkvæmt því heyra Gunnarshús og húsið Skriða undir Gunnarsstofnun, ásamt 15 hektara lóð, en að öðru leiti er jörðin leigð til búskapar (sjá inngang).
Þann 9. desember 1997 voru „Reglur um Gunnarsstofnun“ staðfestar af menntamálaráðherra (Birni Bjarnasyni). Í fyrstu grein þeirra segir að stofnunin skuli starfa á grundvelli gjafabréfs Gunnars og Franziscu frá 11. des. 1948. Hlutverk stofnunarinnar er:
„að leggja rækt við bókmenntir, með áherslu á ritverk og ævi Gunnars Gunnarssonar; að reka dvalarstað fyrir lista- og fræðimenn; að stuðla að atvinnuþróun á Austurlandi; að efla rannsóknir á austfirskum fræðum; að stuðla að alþjóðlegum menningartengslum á verksviði sínu; að standa fyrir sýningum og öðrum listaviðburðum.“
Stjórn Gunnarsstofnunar er skipuð af ráðherra menntamála til þriggja ára í senn. Stjórnin ræður forstöðumann og setur honum erindisbréf. „Miðað skal við að ríkissjóður greiði laun forstöðumanns og stjórnar, en stofnunin afli sjálf tekna til rekstrarins að öðru leyti,“ segir í reglunum. Sumarið 1999 var Skúli Björn Gunnarsson bókmenntafræðingur, frá Litla-Bakka í Tungu, ráðinn forstöðumaður og tók hann til starfa 1. okt. það ár.
Hann hefur mótað þá stefnu að á Skriðuklaustri „verði fágað menningar-, sögu- og fræðasetur, með umhverfi og innviðum sem hæfa þeim glæsileika sem Gunnar sýndi sjálfur með byggingu hússins á sínum tíma“ (Skúli Björn: bréf). Gunnarshús er opið gestum sem vilja skoða það og kynna sér stafsemi þess. Franzisca yngri hefur látið stofnuninni í té húsgögn sem voru í húsinu þegar afi hennar og amma áttu þar heima, og hefur þeim verið komið á sinn stað aftur. Á göngum og í stofum er föst sýning á fjölskyldumyndum og á málverkum og teikningum Gunnars yngri, og safnað hefur verið fumútgáfum af verkum skáldsins. Auk þess hafa verið í húsinu margvíslegar listsýningar á hverju sumri, og í einu herbergi sem kallað er ‚Gallerí Klaustur‘ eru stöðugar listsýningar. Auk þess hafa þjóðtrúarleg efni eins og huldufólk og útilegumenn á Austurlandi verið tekin til sýninga. Gestaíbúðin hefur verið rekin áfram í húsinu, en auk þess verið komið upp vinnuaðstöðu á neðstu hæð, með tölvum og öðrum útbúnaði. Afkomendur Helga Gíslasonar á Helgafelli gáfu Gunnarstsofnun bókasafn hans árið 2003. Loks hefur veitinga- og matsala farið fram í húsinu yfir sumartímann. Með Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri hyllir undir að staðurinn fái hlutverk í samræmi við óskir skáldsins, er svarað geti kalli tímans og orðið stoð og stytta fyrir íslenska menningu. (Skriðuklaustursþáttur birtist í Lesbók Mbl. 18. des. 1999, með undirtitlinum: Höfuðbólin þrjú í Fljótsdal.)

 Á milli ánna

Byggðin milli Bessastaðaár og Hengifossár er kölluð "Á milli ánna." Þetta svæði hefur upphaflega verið ein jörð, Bessastaðir, sem líklega er landnámsjörð, og varð snemma kirkjustaður og þingstaður. Hamborg, Bessastaðgerði (Gerði) og Melar eru gamlar hjáleigur Bessastaða, en Eyrarland og Litlagrund eru nýbýli, er byggðust fyrst um miðja þessa öld. Landið á milli ánna hefur löngum þótt búsældarlegt. Undirlendið er allt ein iðjagræn slétta (nes), sem Bessastaðaáin hefur myndað með framburði sínum, en hún hefur runnið vítt og breitt um sléttuna í mörgum farvegum. Núverandi farvegur (Kíllinn) krókast út undir Gerði og mynnir þar loks við Jökulsá. Í vorvöxtum flæðir áin yfir mestöll nesin og frjóvgar þau með framburði sínum. Nú hefur þessari flæðisléttu að mestu verið breytt í tún og flóðin í Bessu eru bændum ekki eins kærkomin og áður.

  BESSASTAÐIR

Bærinn Bessastaðir stendur á lækjargrund undir brekkurótum, nokkurn spöl fyrir utan Bessastaðaá (Bessu), sem kemur þar fram úr miklu gljúfragili og fellur á eyrum út fyrir neðan bæinn. Utan og neðan bæjar er víðáttumikil slétta, Bessastaðanes, sem orðin er samfellt tún. Þar standa nýbýlin Eyrarland (stofnað 1937) og Litla-Grund (stofnað 1946) og gamla hjáleigan, Bessastaðagerði. Búskapur á Litlu-Grund lagðist niður 1974, en húsið er í eigu starfsmannafélags Búnaðarbankans (nú KB-banka). Skammt fyrir innan bæinn er önnur gömul hjáleiga, Hamborg, sem fór í eyði 1958. Líklega hefur bærinn Melar einnig verið afbýli frá Bessastöðum. Hefur því allt landið milli Bessu og Hengifossár, sem kallað er ‚Milli ánna‘, upphaflega tilheyrt jörðinni.
Fjallið upp af Bessastöðum er með aflíðandi bratta, næstum klettalaust og allvel gróið, en alsett lækjagiljum sem grafist hafa í þykkan jökulaur, sem þekur hlíðina að miklu leyti. Þar hefur frá alda öðli legið reiðvegur yfir Fljótsdalsheiði, Bessastaðavegur, yfir að bænum Klausturseli á Jökuldal. Í Hrafnkelssögu nefnist hann Bessagötur. Á árunum 1975-80 var lagður þarna fullkominn bílvegur upp á heiðina, kallaður Snæfellsvegur, því að hann endaði við Snæfelli, og 2002-03 var hann framlengdur yfir Vesturöræfi, að Kárahnjúkum við Jöklu, og kallast síðan Kárahnjúkavegur. Bessastaðir eru því enn sem fyrr á krossgötum í miðri sveit.
Þar hefur sama ættin búið síðan um 1870, er Jónas Jónsson frá Víðivöllum og Bergljót Þorsteinsdóttir frá Brekkugerði settust þar að, og kallast það Bessastaðaætt. Jón sonur Jónasar og Anna Jóhannsdóttir kona hans áttu 19 börn og komust 14 þeirra upp. Við bæinn er gamall skrúðgarður, með myndarlegum trjám, sem Anna átti mestan veg og vanda að. Framan af 20. öldinni þótti hann bera af öðrum skrúðgörðum á Héraði, og undruðust margir þá ástundun hennar. Búskap var hætt á heimajörðinni um aldamótin 2000, en íbúðarhúsið (byggt 1937) hefur verið leigt. Á Eyrarlandi býr Þorvarður Ingimarsson af Bessastaðaætt og stundar minkarækt með öðrum búskap.
Á Bessastöðum-Eyrarlandi er tilvalinn staður fyrir umferðarmiðstöð og ferðaþjónustu vegna hins mikla straums ferðafólks inn á öræfin. Má vel hugsa sér að þar eigi eftir að rísa þorp.

Landnámsbær: Engan þarf að undra, að Bessastaðir séu taldir vera bústaður Brynjólfs hins gamla, þó að þess sé ekki getið í Landnámu. Brynjólfur nam:
"Fljótsdal allan fyrir ofan Hengifossá fyrir vestan (Lagarfljót), en fyrir ofan Gilsá fyrir austan, Skriðudal allan og svo Völluna út til Evindarár og tók mikið af landnámi Una Garðarssonar og byggði þar frændum sínum og mágum. Hann átti þá tíu börn, en síðan fékk hann Helgu, er átt hafði Herjólfur bróðir hans, og áttu þau þrjú börn. Þeirra son var Özurr, faðir Bersa, föður Hólmsteins..." (Landnámabók).
Brynjólfur var því mikill ættfaðir á þessum slóðum, og kallast sú ætt Fljótsdælir. Fljótsdælir voru friðsemdarmenn og margir spakvitrir. Bersi Özurarsonar, sonarsonur Brynjólfs, var þeirra frægastur, og verður síðar getið. Af Brynjólfi var einnig kominn Kolskeggur fróði, er sagði fyrir um landnám í Austfirðingafjórðungi, þegar Landnámabók var rituð.

Kirkju- og þingstaður: Á Bessastöðum reis kirkja, líklega við upphaf kristni. Með vissu er þar kirkja um 1200, og önnur á Valþjófsstað. Um 1300 varð Valþjófsstaðakirkja aðalkirkjan, þegar þar var settur "staður". Eftir að klausturkirkjan var byggð á Skriðu, tók hún við hlutverki Bessastaðakirkju, sem var lögð niður um 1600. Ekki sjást lengur neinar minjar um kirkju eða kirkjugarð á Bessastöðum, en kirkjan hefur eflaust verið heima við bæinn, sem enn er á sama stað.
Löggiltur þingstaður var á Bessastöðum snemma á öldum og fram á 18. öld. Um það vitna örnefnin Þingvöllur og Þingbrekka í túninu innan og neðan við bæinn, og sér þar enn móta fyrir lítilli tótt og garðlagi rétt neðan vegar. Í skjölum um Sunnevumálin er getið um sérstakt þinghús á Bessastöðum. Hefur það líklega staðið á Þingvelli, en þar var síðar fjárhús nefnt Þingvallahús, er stóð fram á þessa öld. Vigfús Ormsson segir að þarna hafi verið ferhyrnt garðlag, um 30-40 faðma á hvern veg, sem kallað var Hringur. Héldu sumir það vera fornan dómhring, en aðrir töldu það vera „sáðgarð Bessa“. (Frásagnir um fornaldarleifar I, 35). Minjar þingstaðarins eru friðlýstar, en sagt er að vegurinn hafi verið lagður í gegnum Þingvöllinn.
Stutt fyrir innan Hamborg er Gálgaklettur, neðst í hlíðarbrekkunni. Lítil reynihrísla vex út úr klettinum, til vitnis um breytt viðhorf gagnvart afbrotamönnum. Drekkingarhylur fyrrnefndur er í Bessastaðaá, inn frá Gálgakletti. Bæði örnefnin tengjast þingstaðnum, þó ekki séu neinar heimildir um aftökur þar. (Karlar voru hengdir en konum drekkt).

Hofgarður Spak-Bersa: Bersi Özurarson á Bessastöðum kemur víða við fornsögur Fljótsdæla. Hann var spakur að viti og þessvegna auknefndur Spak-Bersi. "Hann var blótmaður mikill og hafði mikinn átrúnað við goðin", segir í Fljótsdælu. Hann var kallaður fóstri Helga Droplaugarsonar, sem dvaldi hjá honum löngum í æsku. Helgi fyrirleit goðatrúna, og varð þeim þetta oft að misklíðarefni. Í síðasta kafla sögunnar (sem nú er varðveitt) segir frá því er þeir Grímur og Helgi Droplaugarsynir villtust í hríðarbyl, og komu loks að "hofgarði" Bersa:
"Þeir sjá sorta einn í hríðinni fyrir sér. Þeir sjá að það var virki eitt mikið og svo hátt, að Helgi getur eigi betur en tekið upp jafnhátt. Þeir gengu umhverfis virkið. Það var kringlótt. Þeir finna að hlið var þar fyrir, grindlæst og búið um vel. Helgi mælti: "Vita muntu hvar við erum komnir." "Nei," sagði Grímur, "heldur fer það fjarri, því að hér hefi eg aldrei komið fyrr, svo að eg muna." "Ekki er mér það," segir Helgi. "Kenni eg víst hvar við erum komnir. Þetta er hofgarður Bersa fóstra míns..." (Ísl. fornrit XI, 294).
Helgi braut upp lásinn á hofgarðinum og síðan hofið sjálft, þrátt fyrir mótmæli Gríms, og gengu þeir inn í það. "Það var allt altjaldað... og glóði allt í gulli og silfri". Þar voru líkneskjur Þórs og Freys, Friggjar og Freyju. Helgi ávarpaði skurðgoðin heldur kersknislega, en fátt varð um svör af þeirra hálfu. Þá tók hann þau af stöllunum, svipti þau klæðum og gripum, og bar í hrúgu í einu horni hofsins. Vildi Helgi kenna goðunum um villu þá er hent hafði þá bræður, en Grímur taldi þetta hið versta verk, þó hann fengi þar engu um ráðið. Að svo búnu fóru þeir sína leið og skildu hofið eftir opið svo snjó og vind lagði inn í það.
Ekki fer sögum af því hvernig Spak-Bersi tók þessum tiltektum fóstursonar síns, því að niðurlag Fljótsdæla sögu er týnt. Frásögnin ber þess merki, að söguhöfundur sé að skopast að goðatrúnni, og hún er því ekki talin trúverðug sem lýsing á hofi. Þó má skilja af sögunum, að Helgi hafi orðið ógæfumaður, og þá ekki síst vegna bíræfni sinnar og hvatskeytni. (Af lýsingu sögunnar má helst ráða að hofgarður Bessa hafi verið á nesinu neðan við Bessastaðaármela).

Bessahlaup: Þar sem fornsagan endar taka þjóðsögurnar við, og hefur Sigfús Sigfússon ritað langan þátt um Spak-Bersa, sem byggður er á munnmælum, er menn töldu vera ættuð úr hinum týnda hluta Fljótsdælu.
„Bessi var mikill trúmaður og átti hann hof. Mun Brynjólfur afi hans hafa reist það. Er sú sögn manna, að það stæði þar vestanvert við Bessastaðaána, spölkorn frá bænum. Er þar gil að ánni og hljóp hann þar yfir ána milli hamra, sem síðan var kallað Bessahlaup, en það er eigi annarra manna færi..“ (Sigf. Sigf.: Þjóðs. VI, 10).
Samkvæmt þessum gömlu munnmælum lifði Bessi fram á þann tíma er kristniboð hófst í landinu. Þá gerði mikið harðæri, og hét Bessi á goðin til árbóta, en lítt skipaðist veðrátta við það. Ákvað hann þá að prófa hvort hinn nýi guð kristinna manna væri máttugri, og hét því að trúa á hann ef hláka yrði komin að morgni daginn eftir. Þegar hann hafði staðfest þetta heit þorði hann ekki að stökkva yfir gilið, en næsta dag var komin asahláka og batnaði tíðarfar upp frá því.
„Þegar Bessi þóttist sjá hve miklum mun goðin væru ómáttugri en hinn nýi guð, þá er mælt að hann segði: "Aldrei skal ég á goðin trúa framar." Síðan tók hann þau og bar í ána. Flutti hún þau út í Lagarfljót, og komu þeir hernaðarguðinn Þór og ársældargoðið Freyr sinn upp á hvort nes, sem síðan eru við þá kennd. Heitir þar Þórsnes austan Lagarfljóts er Þór kom á land; það er á Völlum út. En Freysnes heitir þar sem Frey rak, gagnvart, norðan Lagarfljóts, í Fellasveit.“ (Þjóðsögur Sigfúsar, 2. útg., 6. bindi, bls. 10-11).
Bessahlaup hefur líklega verið neðst í gilinu, en þar eru nú um 15-20 m milli kletta. Þar var mjó hengibrú á fyrri áratugum aldarinnar, fyrir gangandi fólk að fara yfir ána, og sér ennþá merki brúarsporðanna. Bessagötur eru nefndar í Hrafnkels sögu, og sagðar liggja frá Bessastöðum vestur yfir Fljótsdalsheiði, líklega þar sem síðar var kallað Eiríksstaðavegur. Bessabrunnar koma fyrir í Fjótsdæla sögu, og má skilja að þeir hafi verið nálægt "hofgarðinum". Um "Sáðgarð Bessa" var fyrr getið.

Bessahaugur: Sagt er að Bessi héldi vel sína nýju trú, en vildi samt láta heygja sig að fornum sið:
"Því er sagt, að þegar hann þóttist skammt myndi lifa þaðan frá, þá tók hann stein einn hnöttóttan og renndi honum eftir vellinum, og bað heygja sig þar sem hann stansaði. Steinninn rann ofan sléttan völlinn og stansaði á árbakkanum. Skömmu síðar lést Spak-Bessi og var þar heygður, er steinninn hafði staðnæmst. Er haugur þessi hár og toppmyndaður." (Þjóðs. Sigf. VII, 11).
Steinninn er nú að Skriðuklaustri, sem fyrr getur, og kallaður Bessasteinn. Ýmsar heimildir eru um Bessahaug og greina flestar frá því, að reynt hafi verið að brjóta upp hauginn, en ekki tekist vegna óvæntra atburða er hentu grafarmennina. Í eitt skipti fylltist holan jafnóðum af vatni, í annað sinn af mold, og grafarmaður fékk augnaverk. Jafnan bar Bessa í drauma þeirra er grófu, og skildist þeim að honum væri lítið um það gefið að haugnum væri raskað.
Nú er haugurinn ekki toppmyndaður, heldur eins og skeifa í laginu, eða tóttarbrot, og virðist miðhlutinn með toppnum hafa verið grafinn burtu. Hann er vaxinn háu grasi, en á einum stað sér í mold, og kemur þar fram beinarusl. Sagt er að þar hafi fundist hrossbein. Bessahaugur er friðlýstur.
Í þjóðtrúnni er Bessahaugur tengdur tveimur öðrum fornhaugum á Héraði, þ. e. Ormarshaug í Fellum og Rauðshaugi á Völlum. Áttu þeir Bessi, Ormar og Rauður að hafa verið fóstbræður, og lést Rauður síðast. Lét hann þá heygja sig þar sem sæist til hauga vina sinna beggja, enda er Rauðshaugur uppi á Hálsinum fyrir ofan Höfða og sést þaðan vítt um Hérað.

Hamborg heitir gömul hjáleiga Bessastaða, skammt fyrir innan bæinn. Hún var komin í jarða tölu, en hefur verið í eyði síðustu áratugina.
Um aldamótin var þar Hóseas Jónsson vinnumaður, sem var organisti við Valþjófsstaðakirkju og frumkvöðull að sönglífi í Fljótsdal.
Halldór Stefánsson alþingismaður bjó um tíma (1909-21) í Hamborg, en hann átti dóttur Halldórs á Klaustri fyrir konu. Halldór var alinn upp í Geitagerði, og taldi sig jafnan Fljótsdæling. Á efri árum gerðist hann mikilvirkur fræðimaður og ritaði mikið um sögu Austurlands. Einnig stofnaði hann og stóð fyrir útgáfu á ritsafninu "Austurlandi" 1947-1958, og ritaði æviminningar sínar (Ævislóð og mannaminni. Rv. 1971) þar sem sagt er frá ýmsu úr Fljótsdal.
Bæjarnafnið Hamborg getur verið skylt hamur og hamar, og sagnorðinu að hama (sig), eða standa í höm (um hesta). Í grannmálum getur ham merkt hrútur, sauður, læri eða rass, og jafnvel þorp (í ensku). Kannske er borgarnafnið Hamborg (Hamburg) af sama uppruna. Einn eða fleiri umboðsmenn Skriðuklausturjarða á 17. öld voru af þýskum uppruna, og líklega tengdir Hansakaupmönnum. Gátu þeir gert sér til gamans að nefna kotið þessu nafni. Í gömlum manntölum er stundum ritað "Handborg", og í sóknalýsingu (1841) segir að það hafi verið ritað "Hauðurborg" til forna, og vitnað í Kirkjusögu Finns Jónssonar. (Hauðna eða haðna er = geit eða kið). (Sbr. einnig Hantó á Skriðuklaustri).

Fljótsdalsrétt: Hamborg, tilheyrir nokkur spilda sunnan Bessastaðaár, þar sem heita Bessastaðaármelar. Melarnir eru forn framburðareyri Bessu út í Lagarfljót (sbr. Valþjófsstaðamela áður). Á melunum stendur Fljótsdalsrétt (oftast kölluð Melarétt heima fyrir) stór og mikil fjárrétt, hlaðin úr hnullungagrjóti, og mun lengi hafa verið ein stærsta skilarétt í landinu. Hún var byggð árið 1905 (?) eftir teikningu og í umsjá Halldórs Benediktssonar á Klaustri. Útveggir eru mjög þykkir með miklum fláa að utan, og hefur þurft firn af grjóti til að hlaða þá, en grjótið var tekið í farvegi Bessastaðaár. Hingað var allt fé af hinum víðlendu afréttum vestan Jökulsár rekið til réttar í kringum 20. september, og skipti það mörgum þúsundum þegar flest var.
Réttardagurinn í Fljótsdal var einn mesti hátíðisdagur sveitarinnar, og þangað fóru allir sem vettlingi gátu valdið. Einnig sóttu menn þangað úr öðrum sveitum á Héraði og jafnvel neðan af Fjörðum, og var því oft mikið fjölmenni saman komið á réttardaginn. Kvenfélagið hafði kaffisölu í litlum skúr við réttina, sem stundum var kallaður Pilsvangur, brennivínsflöskur gengu á milli, og þegar líða tók á daginn voru flestir karlmenn orðnir hreifir og upphófu söng í smáhópum kringum réttina. Líklega var réttardagurinn þó mesta hátíðin fyrir börnin, og þar gerðust ýmsir örlagaríkir atburðir, eins og sá sem Rögnvaldur Erlingsson segir hér frá:
„Þegar ég kom svo á réttina um morguninn settist ég á réttarvegginn og virti fyrir mér féð. Og ég tók strax eftir stelpu á svipuðu reki og ég sjálfur, með mikið ljóst hár, bundið í tagl aftan á hnakkanum, montin og kát að sjá. Hún þykist vera að draga lömbin, en er þó alltaf öðru hverju að gefa mér gætur, glettin á svipinn. Grunar víst að ég sé hálf smeikur við féð. Og allt í einu stendur hún svo við réttarvegginn hjá mér og segir, án þess að heilsa fyrst. "Ertu hræddur við féð veslingur?“ (Réttardagsmorgunn í Fljótsdal. Austri 24. 9. 1987).
Síðdegis streymdu fjárrekstrar í allar áttir frá réttinni, og þeir sem lengst áttu að reka komu ekki heim fyrr en í myrkri. Nú er þetta allt breytt því fénu hefur fækkað til muna, og er flutt burtu á bílum eða vögnum. Réttun er nú vanalega lokið um hádegi, þegar flestir gestir koma.
Góður áningarstaður er á melunum við Fljótsdalsrétt. Þaðan er hið fegursta útsýni um alla sveitina, og stutt að ganga í Bessastaðaárgilið.

Bessastaðaárgil: Fyrir utan Melana fellur Bessastaðaá í fossum fram úr miklu gili, Bessastaðaárgili, sem er eitt helsta náttúruundur Fljótsdals. Áin var fyrrum kennd við gilið og nefnd Gilsá (sbr. Gilsárvötn á Heiðinni), en í Fljótsdælu er gilið kallað Öræfagil. Raunar líkist það meira þröngum afdal en gili, enda er það allt að 200 m djúpt á kafla í Heiðarbrún, og um 1/2 km breitt, með vel grónum brekkum og hvömmum, einkum að utanverðu, og kallast þar Litlihagi og Stórihagi. Að innanverðu er allt að 100 m hátt standberg á einum stað. Jónsfoss er hæsti fossinn, um 20-30 m, nálægt miðju gilinu, en neðar eru Litlifoss og Tófufoss. Mikil og litskrúðug setlög eru í gilinu frá tertíertíma, og surtarbrandsvottur með fornum gróðurleifum eins og í Hengifossárgili. Jónas Hallgrímsson skáld fór eitt sinn að leita kola í Bessastaðaárgili, en fann ekkert nema bikstein, og sagðist í ferðadagbók sinni hafa lent í lífshættu við að klifra þar.
Í neðsta hvamminum að utanverðu eru gamlar stekkjartættur og nátthagi umluktur grjótgarði. Þar finnst mörgum líklegt að hafi staðið hof Bessa, en munnmælin segja það hafa verið í litlum hvammi innan við ána, þar sem enn heitir Goðaborg, og sést þar tóttarvottur. Sá staður er beint upp af Melarétt, á merkjum Klausturs og Hamborgar, og lætur lítið yfir sér.
Vorið 1981 fannst hauskúpa af manni og síðan fleiri bein, í grjóturð innanvert í gilinu fyrir neðan Litlafoss (?). Voru getgátur um að það væru bein Sunnevu (sjá Skriðuklaustur), en líklegra er að þau séu tengd gamla þingstaðnum á Bessastöðum, því að afbrotamenn sem hlutu dauðadóm fengu ekki legstað í kirkjugörðum, heldur voru lík þeirra dysjuð í grennd við þingstaðinn. (Tíminn 16. júní 1981 og Rögnv. Erlingsson: Beinin við Bessu" (saga). Austri, jólablað 19??).
Þægilegast er að ganga upp gilið eða meðfram því að utanverðu, og einnig má skoða það úr bíl af Snæfellsvegi, sem liggur í krókum upp með því að utan, og kemur á einum stað alveg fram að gilbarminum.

Selið á Ingiríði: Ingiríður heitir klettahjalli í brún Fljótsdalsheiðar, sem ber við loft upp af bænum Hamborg. Þangað er stutt ganga af Snæfellsvegi og raflínan frá Kröflu liggur yfir klettinn. Stórgrýti er á klettinum og milli steinanna getur að líta grjóthlaðin veggjabrot, sem afmarka nokkrar litlar tættur. Sagt er að framtakssamur bóndi, er var í Hamborg um miðja 19. öld, hafi byggt sel á Ingiríði. Hefur það líklega ekki þótt viskulegt, því að kletturinn er mjög áveðurs og ekkert rennandi vatn er nærri. Líklega hefur þetta ekki verið venjulegt sel. Um þetta kvað Jón Sigfússon frá Langhúsum.

Þegar ég fer Hamborg hjá,
heimsins sést þar prýði.
Selið ber við himin há,
hæst á Ingiríði.

Sumir segja að kletturinn sé kenndur við selráðskonu sem hét Ingiríður, en líklega er nafnið eldra en selið. (H.Hall.: Selið á Ingiríði og "Ingiríðarbragur". Austri, jólablað 1996).

Leikskálar og Skálavað: Hamborgarnes kallast sléttan niður frá bænum Hamborg. Þar eru dálítil tóttarbrot, niður við Jökulsá, sem kallast Skálatættur, og menn halda að sé af leikskálum fornmanna, þar sem þeir höfðu knattleiki á ísum. Á þessum slóðum var Skálavað kallað á Jökulsá, og getur þess m.a. í Hrafnkels sögu. (Í Hrafnkels sögu er getið um bæjarnafnið Leikskála í Hrafnkelsdal eða á Efra-Dal). (Þjóðs. Sigf. Sigf. VI, 8). Sigurður Gunnarsson (1886) segir 13 götur liggja frá vaðinu. (Bessastaðaþáttur birtist í Lesbók Morgunblaðsins 6. nóv. 1999, undir titlinum "Höfuðból í Fljótsdal 1 - Landnámsbærinn Bessastaðir).

Helgastræti: Frá Bessastöðum liggur 3 km langur og þráðbeinn þjóðvegarkafli um sléttar grundir út að Hengifossá, fyrst lagður um 1960, undir verkstjórn Helga Gíslasonar á Helgafelli, og því oft við hann kenndur. Þá voru beinir vegir mjög í tísku. Hann var endurbyggður um aldamótin 2000 í sama formi.

Fljótsdalsheiði

Allt heiðarflæmið milli Fljótsdals og Jökuldals hefur frá fornu verið kallað Fljótsdalsheiði, en í þrengri merkingu er átt við þann hluta heiðarinnar sem tilheyrir Fljótsdalshrepp. Sá hluti er að heita má algróinn, nema hæstu fell og ásar, og þar er mikið af stórum og smáum stöðuvötnum og tjörnum, sem tengd eru saman með lygnum lækjum eða kílum. Yst er Hengifossárvatn, allstórt en grunnt, sem Hengifossá rennur úr, þá Bessastaðavötn nokkur í röð. Úr þeim fellur Lambakíll til suðurs í Gilsárvötn, sem eru stærstu vötnin í þessum heiðarhluta. Þar á Bessastaðaá upptök sín, en hún hét áður Gilsá. Austan við Gilsárvötn eru Garðavatn, Hólmavatn og Eyrarselsvatn. Liggur Snæfellsvegur nálægt þeim öllum. Suður af Gilsárvötnum er Langavatn, við Svartöldu, sem vegurinn liggur eftir, og loks Axarárvötn. Þar fyrir innan er víðlendur flói, sem Snæfellsvegur liggur um.
Heiðin er þægilegt og skemmtilegt gönguland, fyrir þá sem vilja njóta einveru, fjarri skarkala mannlífsins, í félagsskap hreindýra, sauðkinda, fugla og refa. Í Hólmavatni og Garðavatni er nokkur silungur og seld veiðileyfi. Annars eru vötnin yfirleitt mjög grunn og hafa grynnst mikið af vikurfallinu 1875, þegar gríðarlegt magn af vikri fauk í þau. Áður fyrr var mikið af fjallgrösum á Fljótsdalsheiði, en eftir að hreindýrum fjölgaði þar um miðja þessa öld hafa þau nánast horfið.

Fjallagrös og silungsveiði: Eftirfarandi þjóðsaga á að skýra mismuninn á lífríki Fljótsdalsheiðar og Jökuldalsheiðar.
"Svo er sagt, að til forna bjó sín skessa í hvorri heiði og voru þær systur. Er við Fljótsdalsheiðarskessuna kenndur Skessustígur. Skessurnar lifðu mest á silungsveiði og fjallagrösum, en hvort tveggja var nægilegt í heiðum þessum, en þrátt fyrir það nægði hvorugri sitt hlutskipti og stal hvor frá annarri; gengu þær yfir Jökulsána á steinbrúnni ofarlega á Dalnum.
Einu sinni hittust þær og slóst þegar í heitingar með þeim og álög. Norðanskessan mælti þá: "Það legg ég á og mæli um, að allur silungur hverfi úr Austurheiðarvötnum í Norðurheiðarvötnin, og sérðu þá hvern ábata þú hefir." Austanskessan greip þegar orðið og mælti: "En veiðist treglega og komi jafnan upp á sporðinum, og það legg ég á ennfremur, að öll fjallagrös hverfi úr Norðurheiði í Austurheiði, og mun þetta þá jafna sig." "Haldist þá hvorugt" sagði Norðanskessan. "Jú, haldist nú hvorutveggja", mælti hin, og hefir eigi af þessu brugðið síðan, að nægur þykir silungur í Norðurheiðinni, en veiðitregur, og kemur jafnan öfugur upp, en í Austurheiði skortir eigi fjallagrös." (Þjóðs. Sigf. 2. útg. III, 267).
Ekki linnti þó illdeilum þeirra, og endaði með að Norðanskessan vann það óþurftarverk að brjóta niður steinbogann hjá Brú, sem verið hafði mikil samgöngubót. Ekki lét Austanskessa það á sig fá, heldur óð hún Jöklu eða stökk milli kletta. Að lokum gerðu þær samkomulag um að búa báðar í Norðurheiði, og hlóðu gríðarlegan merkjagarð úr stórgrýti á milli landa sinna. Hann heitir Tröllkonugarður eða Skessugarður og blasir við vestan Sænautavatns á Jökuldalsheiði, ekki langt frá þjóðvegi.
Nú virðast álög skessanna vera farin eitthvað að dofna, því nóg er af grösum í Jökuldalsheiði en þau eru næstum horfin úr Fljótsdalsheiði, en þar hefur silungur settur í nokkur vötn. (Sjá H. Hall.: Tröllkonustígur og skessugarður. Múlaþing 30 (2003): 33-41).

Gamlir vegir frá Bessastöðum: Eins og fyrr var getið er tiltölulega greiðfært upp á Fljótsdalsheiði frá Bessastöðum, upp með Bessastaðaárgili, og þar hefur aðalleiðin yfir heiðina, milli Fljótsdals og Jökuldals legið frá upphafi byggðar. Í Hrafnkelu er leiðin nefnd Bessagötur, en á senni öldum Bessastaðavegur. Vegurinn liggur fyrst upp með gilinu, en síðan með Sauðabanalækjum, og upp á hæð er kallast Vegups. Þar greinist vegurinn í Eiríksstaðaveg og Klausturselsveg, er liggja að samnefndum bæjum á Jökuldal.
Klausturselsvegur var grjóthreinsaður á köflum, og vel varðaður alla leið, enda var hann um tíma í tölu þjóðvega, eftir að brú var byggð á Jöklu hjá Hákonarstöðum, og er nú sýsluvegur (?). Frá Vegups liggur hann að Bessastaðavötnum, og síðan norðvestur yfir Miðheiði og Klausturselsheiði. Um 1965 var Klausturselsvegur ruddur með jarðýtu og eru nú líklega jeppafær.
Eiríksstaðavegur liggur frá Vegups í stefnu á Eiríksstaði á Dal. Þann veg fara gangnamenn í Rana, og til Hrafnkelsdals. Mun það vera sú leið sem Eyvindur Bjarnason fór þegar Hrafnkell veitti honum eftirför. Leiðin er vel vörðuð að Lambakíl, en síðan liggur hann meðfram Vegakvísl ytri niður á Eyvindardal. Ýtuslóð er nú einnig með þessari leið, og liggur sá ruðningur síðan út Eyvindardal að Brattagerði í Rana.

 BESSASTAÐAGERÐI

Þá er komið að Bessastaðagerði, sem er gamalt hjáleigubýli frá Bessastöðum, en hefur lengi verið sjálfstæð jörð. Bærinn stendur á grund við lítinn læk, eins og sjálft höfuðbólið. Stutt fyrir utan bæinn er annar lækur, Brúarlækur, sem fellur í fossi í klettaþröng, rétt fyrir ofan veginn. Loks er Einbúalækur í samnefndu gili, sem er alldjúpt neðantil. Í öllum þessum giljum eru sérkennilegar bergmyndanir.

Sögu-Gvendur: Guðmundur hét maður og var Magnússon. Hann staðfestist í Fljótsdal, og bjó lengst af í Bessastaðagerði. Í þætti hans í Sigfúsarsögum er honum svo lýst:
"Hann var maður fremur hár vexti og fjörmaður mikill og snarmenni og nokkuð harðfylginn. Hann var og gáfumaður með afburðum og snemma smiður og skrifari góður, fróðleiksgjarn og söngvinur mikill. Skrifaði hann að sögn margar fornsögur. o.fl. Glaðlyndur var hann, ræðinn og skemmtinn mjög, og sagði þá jafnan sögur er hann var annarsstaðar. Það er mál gamalla kunningja hans, að hann næmi heilar bóksögur orð  ef ekki stafréttar, og sagði eins og þær væru lesnar af bók. Var hann því allsstaðar kærkominn gestur, að hann var óbágur á að segja þær, og þess utan fróður og kátur maður. Oft þuldi hann orðréttar ræður presta upp úr sér. Næmi hans var þessu líkt...Guðmundur komst brátt að því hversu margir menn voru auðtrúa. Hafði hann gaman af að vita, hve mikið mætti bjóða þeim, og laug þá upp ýmsum sögum, sem víða eru síðan í mæli hafðar... Sagði Guðmundur þessar sögur meðfram af gáska og kátínu."
Af þessu fékk Guðmundur auknefnið Sögu-Gvendur eða Lyga-Gvendur. Í þættinum er fjöldi sagna í Münchausen-stíl, sem hafðar eru eftir honum, en þess skal getið að þá munu sögur hins þýska lygalaups hafa verið ókunnar á Íslandi. Eftirfarandi saga er lítið dæmi:
Þegar ég var á Hrafnkelsstöðum, þá var þar skemma gömul. Hún var öll skæld og hornskökk og varla nema til skammar. En þá vill svo til að gekk í ofsaveður.. Kom þá einn þessi mikli hvirfilbylur. Hann tók skemmuna upp og flaug með hana í háaloft, og lék sér að henni litla stund, og setti hana svo niður í sömu stellingar. Hafði hún í engu bilað, heldur var hún nú þeim mun betri, að nú var hún hornrétt og alla daga síðan.

Einhyrnda kýrin við Einbúa: Utan við Einbúagilið er klettabunga úr óreglulegu stuðlabergi, rétt ofan vegar, sem heitir Einbúi, og er vel þekktur huldufólksbústaður. Þar hafi ýmsir orðið varir við fólk á ferð, sem ekki er af þessum heimi. Einn heimildamaður sá þar eitt sinn hóp af unglingum, einkennilega klæddum, sem voru að leika sér á grundinni fyrir neðan klettinn. Í Einbúagili var álfakýr af mjög sérstöku tagi:
"Víða hafa menn séð álfakýr. Því er mælt, að rauð kýr með eitt horn upp úr miðjum hausnum sé við Einbúa, klett milli Mela og Bessastaða í Fljótsdal, mjög fagur gripur og hefir oft sést þar." (Þjóðs. Sigf., 1. útg. IV,153).
Hugsanlega er þetta "einhyrningurinn" glæsilegi, sem er nafntogað þjóðsögudýr víðs vegar um Evrópu, en dýrafræðingar hafa enn ekki fundið. Af honum fara engar sögur hér á landi, og væri Einbúinn þá sérstaklega útvalinn, ef sú er raunin.

MELAR

Melar heitir ysti bærinn á milli ánna. Hann stendur uppi á allháum melahjalla, sem líklega er forn framburður Hengifossár, drjúgan spöl fyrir innan ána. Jörðin mun hafa verið ein af hjáleigum Bessastaða, enda ekki stór.

Melaætt: Margir kannast við þennan bæ, vegna ættarinnar sem við hann er kennd, og kölluð er Melaætt. Ættfaðir hennar, Þorsteinn Jónsson, flutti austur í Mela frá Hákonarstöðum 1774, og bjó þar góðu búi til dauðadags 1804. Þorsteinn var afkomandi Þorsteins jökuls, sem sagt er að hafi flutt sig að Dyngju í Arnardal á Brúaröræfum, þegar plágan mikla gekk, og bjargað sér svo og sínu fólki.
Þorsteinn á Melum var tvíkvæntur og fjórtán barna faðir. Ílentust börn hans flest í Fljótsdal og Fellum og er meiri hluti íbúa þessara hreppa af honum kominn og fjöldi annara Héraðsbúa og Austfirðinga. Melaættin hefur lengst af verið nokkuð hreinræktuð bændaætt, og þótti einkennast af dugnaði, verklagni og varkárni í fjármálum, og margir hafa ættmenn þessir verið góðir bændur og vel efnaðir. Í Fljótsdal blandaðist ættin fólki af Kjerúlfskyni, sem hafði listræna hæfileika í ættarfylgju, var glaðlynt og örlynt, svo og fólki af Vefaraætt, sem margt var lærdóms- og embættismenn, en þótti aðsjált. Nú eru nær allir Fljótsdælingar af þessum þremur ættum, og má það teljast góð blanda.

Vinsæll áningarstaður: Hengifoss er frægasti staður í Fljótsdal, þó af mörgu sé að taka, og þangað leggja þúsundir ferðamann leið sína á hverju sumri.
Við brúna er vinsæll áningarstaður, þar sem ferðafólk tjaldar oft, og þar hefur nýlega verið sett upp bílastæði og salernisskúr. Þar stoppa þeir sem ætla að skoða fossana, og hefja þar göngu sína. Liggur þaðan göngustígur upp með gilinu að innanverðu, alveg upp að Hengifossi, og fara hann flestir. Áður var oftast farið upp með gilinu að utan, en þar er líka götuslóði. Stuðlabergið við Stuðlabergsfoss nýtur sín betur þeim megin, og þar er meiri trjágróður í gilinu. Hins vegar er auðveldara að komast að Hengifossi að innanverðu, og hann nýtur sín betur þaðan. Best er að ganga beggja megin, og þegar lítið er í ánni á sumrum má oftast vaða hana eða stikla á steinum á eyrum neðan við Hengifoss (einnig bæði ofan og neðan við Stuðlabergsfoss).

Hengifossárrétt: Hengifossárrétt eða Melarétt var ein af fjórum lögréttum í Fljótsdal fyrir aldamótin, en var lögð niður sem slík þegar Fljótsdalsrétt var byggð á Melunum við Bessastaðaána. Réttin er í mynni Hengifossárgilsins, innanvert við ána, byggð upp við klettavegginn, sem notaður var sem aðhald á eina hlið. Efsti hluti réttarinnar er ennþá nokkuð heillegur, en neðri hluta hennar hefur verið raskað af framkvæmdum við brúna og veginn. Réttarstæðið er sérstakt og fagurt. Handan við ána er lítill blómríkur klettabás með nokkrum trjám, og áin hefur leikið undirspilið við söng réttarmanna.

Ritað og ort um Hengifoss: Margir fræðimenn og listamenn hafa skoðað Hengifoss og ritað um hann eða ort. Jónas Hallgrímsson fór þangað margar ferðir, þegar hann dvaldi á Brekku sumarið 1842. Jónas hafði mestan áhuga á surtarbrandinum, en um hana ritar hann m.a.:
"Surtarbrandsmyndunin er þarna sérlega viðamikil og hallar henni allmikið inn í fjallið. Lögin eru álíka mörg og mismunandi og ég hefi mest séð annarsstaðar, en þau eru líka, sem fyrr segir, ákaflega fátækt af jurtamótum, og lítið í þeim af surtarbrandi... Við þessa rannsókn hef ég sannfærst enn frekar um það, að surtarbrandslögin eru samsvarandi um allt landið."
Merkilegt er að Jónas minnist ekki á stuðlabergið við Stuðlabergsfoss, en lýsir eins konar stuðlamyndun í þunnu leirlagi í surtarbrandssyrpunni. (Jónas Hall.: Rit IV, 1934 og Austri, jólablað 1986).
Þorvaldur Thoroddsen ritar hástemmda lýsingu á heimsókn sinni að Hengifossi sumarið 1882, en hann fór þangað í fylgd tveggja skólabræðra sinna, þeirra Sigurðar Gunnarssonar prests á Ási og Þorvarðar Kjerúlfs læknis á Ormarsstöðum. Þeir komu að fossinum síðla kvölds í þoku, og biðu þess að henni létti. "Um kl. 1 um nóttina reif þokuna allt í einu frá, og sást fossinn ágætlega, og var það tignarleg sjón." (Ferðabók I, 53).
Þorvarður læknir orti langt kvæði um fossinn, enda er hann alinn upp á Melum og var þarna gerkunnugur. Mest hefur þó Jörgen Kjerúlf Fljótsdalsskáld ort um Hengifoss. Í kvæði hans "Við Hengifoss" eru þessar vísur: (Efni kvæðisins minnir á Hulduljóð Jónasar).

Saman hlaðið hrauns af glóð
heljarbjarg með jötunrótum.
Vígi þetta veglegt hlóð
vatn sem rann af heiðaslóð.
Slokkna logar - Grösin góð
glóa á dala og heiðamótum.
(2 fyrstu línur endurteknar)
Vatnadís með vota brá
varpar sér úr iðudjúpi,
meður augu yndisblá,
aldrei fegri mey ég sá,
gullna hárið glóir á
gliti skreytt í úðans hjúpi.

Hengifossárgil: með fossaskrúði sínu og gróðurríkum hvömmum er almennt talið vera eitt merkasta náttúrundur Íslands, enda óspart auglýst í ferðabæklingum. Við skulum nú hugsa okkur að við förum hringferð meðfram gilinu, göngum upp með því að utan og niður með því að innan, eins og áður var á minnst.
Við fylgjum ógreinilegum götuslóðum upp með gilinu. Brátt verður fyrir okkur grýttur skriðuhvammur, sem Skógarhvammur kallast, enda er hann alþakinn skógi neðantil, og ber þar óvenju mikið á reyniviði. Auðvelt er að ganga inn í Skógarhvamm neðan frá, og njóta þess að sitja undir reynitrjánum og hlusta á árniðinn. Skammt fyrir ofan hvamminn er mjög fallegur sveigur í gilinu, með litskrúðugum berglögum, og birki- og reynitrjám á gilbarminum. Þar er neðsti fossinn í ánni, sem Jónsfoss heitir, ekki hár. Við hlið hans fellur lítill lækur, Stekkjarlækur, í hárri og gullfallegri fossbunu ofan í gilið. Skammt fyrir utan gilið voru beitarhús frá Brekku, sem heita Skógargerði, en þar er nú nýbýlið Hjarðarból.

Stuðlabergsfoss: Nálægt miðja vega milli brúar og Hengifoss víkkar gilið allmikið, og áin rennur á eyrum. Að innan- og ofanverðu eru háir klettar, sem allir eru myndaðir af mjög reglulegu stuðlabergi, með löngum og beinum, lóðréttum stuðlum, fremur grönnum. Innst í gilinu eru stuðlaðar bríkur, og minnir ein þeirra mjög á útskotin á turni Hallgrímskirkju í Reykjavík. Þar fellur áin í þrengslum í allháum flúðfossi niður í gilið. Hann kallast Stuðlabergsfoss eða Litlanesfoss. Fossinn sést aðeins vestan frá, eða þegar farið er ofan á eyrarnar. Hins vegar nýtur stuðlabergsveggurinn sín langbest austan eða neðan frá, og helst þarf að stilla svo til, að vera þarna nálægt hádegi, þegar sólin myndar hæfilega skugga í berginu. Gaman er líka að horfa ofan í fossþrengslin, af gilbarminum. Þaðan eru stuðlasúlurnar líkastar oregelpípum, sem má hugsa sér að fossinn leiki á. Sama stuðlabergslagið kemur fram í Sjónarhrauni í landi Hjarðarbóls, nokkru utar og ofar í hlíðinni.

Hengifoss:Nú er farið yfir lækjardrag, og upp á melhrygg þar fyrir ofan. Þaðan blasir Hengifoss við sjónum. Hengifoss er talinn meðal hæstu fossa landsins, 118 m hár, og fellur í fríu falli í einni bunu, niður í hrikalegt og ægifagurt hamragljúfur, með litskrúðugum setlögum og millilögum í berginu. Setlögin eru tugir metra á þykkt, sandsteinskennd. Smá berghlaup hefur fallið úr gilvanganum utanvert við fossinn, og liggja þar bergflykki á stærð við hús í einni bendu.
Í setlögunum eru þunn lög af surtarbrandi, sem skoða má niðri í gilbotninum, og hafa þar fundist blaðför og ýmsar aðrar jurtaleifar. Hafa menn greint aldur þeirra í ca. 4-5 (?) milljón ár. (Framan af sumri er oft snjóskafl undir fossinum, svo hann sést ekki allur). Tveir lækir falla ofan í gljúfrið vestan megin, skammt neðan við Hengifoss, og mynda flúðir og fossa á hallandi setlagafletinum. Þeir heita Sellækir eftir seli, sem þarna var. Lækirnir setja mikinn svip á gilið þarna.
Við förum svo yfir ána á dálitlum eyrum, neðan við Sellækina. Þar er mikið af stórum steinum í farveginum, og má oftast stikla þurrum fótum á þeim. Á leiðinni niðureftir er rétt að koma við á selinu, og skoða útsýnið þaðan yfir gilið og dalinn. Líka má skreppa að Völusteini (sjá síðar) þó það sé nokkur krókur, og skoða vel byggðar vörður á brúnunum fyrir ofan Mela. Þá er hægt að ganga upp á Stapahlíðina, þar sem Hengifossinn "breiðir fram af bergi hvítan skrúða" og horfa þaðan ofan í þetta hrikalega gljúfur. Fyrir ofan Hengifoss eru enn nokkrir myndarlegir fossar í ánni.

Melaskógur og selið fagra: Í dálitlum hvammi við innra Sellækinn eru rústir af seli, sem kallað var Ytrasel. Varla mun hægt að hugsa sér sérstæðara eða fegurra selstæði en þetta. Metúsalem á Hrafnkelsstöðum rifjar hér upp æskuminningar sínar frá Melum:
"Þar var selstaða frá Skriðuklaustri í gamla daga (því Melar voru Klausturjörð) og brennt skógi í selinu á sumrin. Auk þess var fluttur skógviður á 30 hestum heim í Skriðuklaustur á hverju hausti...Þar sem Ytraselið stóð er skjól fyrir öllum áttum. Iðjagræn hlíðin tekur mann í faðm sinn. Þar gætu Dalvísur Jónasar verið kveðnar: "Fífilbrekka gróin grund, grösug hlíð með berjalautum". Silfurtær Sellækurinn fellur í bunu framaf heiðarbrúninni, og "gljúfrabúinn" sjálfur Hengifossinn, fellur í klettaþröngum skammt í brottu".
Af Melaskógi eru nú aðeins eftir fáeinar hríslur af birki og reyni í Hengifossárgilinu, eins og fram hefur komið.

Völusteinn eða Álfasteinn: nefnist steinn allstór, er stendur á melrinda nálægt miðri fjallshlíð, beint upp af Melabænum. Steinninn er ferhyrningslaga, um mannhæðarhár og flatur að ofan. Uppi á fletinum er heilmikil breiða af sauðar- og stórgripavölum, og smásteinum raðað utanmeð, til að þær rúlli ekki útaf í veðrum. Skipta völurnar í þessu safni líklega nokkrum þúsundum. "Á steininn eru alltaf látnar sauðarvölur, þegar börnin hætta að leika sér að þeim," segir í örnefnaskrá Mela. Þessi siður er efalaust mjög gamall, því að á hellu eina við völusafnið er rist: "V.E. 1861. 2000." Merkir síðari talan trúlega völufjöldann þetta ár, og má ætla að nokkra áratugi hafi þurft til að safna þeim. Er ekki fjarri lagi að Þorsteinn ættfaðir Melaættar hefði getað byrjað á þessu um aldamótin 1800. Í því sambandi er þess að geta, að langt fram á þessa öld var leggjum safnað á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal og hlaðinn úr þeim einhvers konar veggur, sem mynd er til af.
Nafnið Álfasteinn bendir til að álfatrú hafi verið á steininum, og getur Metúsalem Jónsson þess í minningabrotum sínum (HEB 11 (7), 236). "Þar á bláklædda álfamærin heima", segir hann, "eða þar var hún." Hér getur því verið um leifar af fornri álfadýrkun að ræða, frá þeim tíma er menn færðu álfum fórnir líkt og goðunum. Hélst sá siður víða í sveitum fram um síðustu aldamót, einkum í sambandi við jól og áramót. Hefur þessari "völufórn" þá verið ætlað að færa bóndanum heppni í sambandi við sauðfjárhald.

Vörðuhleðslulist: Annan sið hefur Þorsteinn ættfaðir ef til vill tekið með sér af Efra-Dal, en það er vörðuhleðslulistin. Á hinum víðlendu Brúaröræfum hafa vörður gegnt mikilvægu hlutverki sem leiðarmerki eða áttavísar, og meðfram Bessastaðavegi er t.d. að finna slíka vörður.
Á Melum eru hins vegar nokkrar vörður, sem ber við himin á Heiðarbrún, en hafa sýnilega ekki slíkan tilgang, heldur virðast þær vera hlaðnar til skemmtunar, eða til að spreyta sig í hleðslulistinni. Vörður þessar eru óvenju háar, oft 2-3 m, og sumar mjög vandaðar að frágangi. Auk þess bera sumar þeirra áletranir með ártali og fangamörkum þeirra er hlóðu og oftast hafa vörðurnar sérstök nöfn.

Stapavarða er á klettastapa á Stapahlíð inn af Hengifossi, beint upp af Melum, og ber við loft þaðan séð. Hún er hæst þessara varða, um 3,5 m, reglulega ferhyrnd, og um l m á kant nálægt miðju, með jöfnum fláa, og endar í píramíðalaga toppi. Þó varðan sé meira en aldargömul hefur hleðslan ekkert raskast. Á stein í augnhæð norðan í vörðunni er grafið: "Jón 1870 / Eiríkur". Þetta munu vera nöfn þeirra Jóns og Eiríks Andréssona Kjerúlf. Þorsteinn á Melum var langafi þeirra bræðra og Jón var faðir Metúsalems á Hrafnkelsstöðu.

Sveinka heitir allstór varða og óvenju vandlega hlaðin, sem er miðhlíðis fyrir ofan Bessastaðagerði. Hún er um 1,30 x 1,10 m að grunnfleti og um 3 m há, mestmegnis hlaðin úr hellum, og fellt með hellubrotum í allar raufar. Toppurinn hvolfþakslaga, með toppsteini efst. Á hana er letrað: "Sv.J. 1890". Hleðslumaðurinn hét Sveinn Jónsson, og var vinnumaður í Fljótsadal fyrir aldamótin. Hann hlóð aðra vörðu svipaða og álíka vandaða í Brekkugerðisfjalli, og kallast hún líka Sveinka.
Á gilbarminum beggja megin við Hengifoss eru ennfremur myndarlegar vörður, sem sjást langt neðan að. Þessar fljótsdælsku vörður munu eiga sér fáa líka hérlendis.

 ÚTSVEIT

Svæðið milli Hengifossár og Hrafnsgerðisár hefur ekki neitt sérnafn í daglegu tali, en er hér kallað "Útsveit" Fljótsdals. Þar hafa upphaflega verið tvær stórjarðir: Brekka og Arnheiðarstaðir, en þeim hefur báðum verið skipt í nokkrar hjáleigur og nýbýli. Arnheiðarstaðir koma mikið við sögu Droplaugarsona, en á Brekku var læknissetur í langan tíma.
Landslag í Útsveit er dálítið svipað og á Suðurbyggð Fljótsdals. Undirlendi er af skornum skammti, og túnin víða á hjöllum. Vindasamt er á Útbyggð og koma oft mikil hvassviðri þvert ofan af heiðinni, sem á vetrum feykja snjó í burtu. Þar er því mjög snjólétt og þótti beitarsælt fyrr á tíð, enda sést það á gróðri og jarðvegi sem víða er illa farinn eftir þúsund ára búsetu. Engir upprunalegir skógar eru á svæðinu, en heimildir eru um skóga þar fram á 18. öld, og sjást leifar þeirra víða klettum. Nú eru hins vegar að vaxa upp nýskógar á nokkrum jörðum.

BREKKA

Brekka í Fljótsdal kemur ekki við fornsögur, þó hún sé ein af stórjörðum dalsins. Skriðuklaustur eignaðist jörðina með hjáleigunum Brekkugerði og Brekkugerðishúsum 1513, en 1772 er heimajörðin "lögð lækni í Austurfjórðungi til frjálsrar brúkunar" og varð læknissetur. Þar sátu fjórðungslæknar til 1844, og héraðslæknar á tímabilinu 1903-1944.
Bærinn á Brekku stendur á melahjalla um 50 m yfir Lagarfljót. Við bæinn er útsýni einna mest og fegurst af þjóðvegi yfir Fljótsdal. Sést þaðan yfir endilanga dalsléttuna eða nesin í dalbotninum, þar sem Fljótsdalsárnar liðast milli grænna bakka. Einnig sést langt inn í Suðurdal, með Suðurfell fyrir stafni, síðan Múlinn, eins og risaknörr á siglingu út eftir dalnum, þá Snæfellið voldugt og upphafið yfir Norðurdal, og loks Valþjófsstaðafjall og Klausturhæð, með sínum reglulegu klettabeltum.
Suðurbyggð Fljótsdals blasir við handan ánna, Gilsárgil og Ranaskógur andspænis, við Fljótsbotninn, síðan Lagarfljót með sínum gráblá lit, og Hallormsstaðaskógur. Í norðaustri sést Austfjarðafjallgarðurinn allt til Beinageitafjalls. Mun óvíða völ á jafn fagurri landslagsmynd og á Brekku.

Hölkná og Brekkustekkur: Hölkná er næst fyrir utan Hengifossá, og fellur í fossi fram af klettahjalla, rétt fyrir ofan veginn, stutt fyrir innan Brekku. Upptök hennar eru á heiðarbrún nálægt Hengifossá, og fyrir kemur að Hengifossáin stíflast á vorin, og hleypur að nokkru leyti í Hölkná, sem getur þá orðið mjög vatnsmikil. Framan í heiðarbrúninni utan við Hengifoss er mikið gil, sem heitir Hölknárbotnar. Það hefur Hengifossáin grafið í fyrndinni, en nú steypist Hölkná þar niður í smáfossum. Háifoss er í ánni miðhlíðis, um 10-15 m.
Stykkið frá Hengifossá út að Hölkná kallast Brekkuteigur neðan vegar. Þar fellur Hölkná ofan í fallegan hvamm, með ávölum klettahrygg, sem Jónas Hallgrímsson taldi merkilegan fyrir jarðsögu landsins. Brekkustekkur er á grundinni þar fyrir neðan, og grjóthlaðinn nátthagi í kring. Þar er mjög skjólsælt og fagurt. Voru þar stundum haldnar samkomur fyrrum. Upp með Hölkná er nýlega vaxinn lerkiskógur, sem kenna mætti við ána og kalla "Hölknárskóg".

Efnafróður læknir og upphaf Eyjasels-Móra: Brynjólfur Pétursson var fyrsti fjórðungslæknirinn á Brekku (1772-1807). Hann var afbragðs námsmaður og lærði læknisfræði hjá Bjarna Pálssyni landlækni í Nesi. Margar og misjafnar sögur gengu af Brynjólfi fyrir austan. Hefur Sigfús Sigfússon ritað þátt af honum í þjóðsagnasafn sitt (1. útg., V, 145-155).
"Brynjólfur notaði margslags grös í meðul, er hann tók á sumrin og hirti og brúkaði lögulega. Mörgum þóttu meðul hans óstyrk og verkanalítil. Hann var skáld, söngmaður allgóður og nokkuð drykkfeldur er á leið ævi hans, en þó sæmilega bygginn í búi. Það er sögn ýmsra manna á Fljótsdalshéraði, að Brynjólfur færi með galdur..."
Líklega hefur Brynjólfur orðið frægastur fyrir það afrek, er hann vann að sögn manna á Héraði, að búa til draug á efnafræðilegan hátt. Hann var þá orðinn ekkjumaður og fluttur að Hallgeirsstöðum í Hlíð. Þar hafði hann saumakonu frá Ketilsstöðum er Ingibjörg hét. Er sagt að hann hafi beðið hennar en fengið afsvar. Skömmu síðar veiktist hún og sendi Brynjólfur henni meðal í glasi. Þegar hún tók meðalið varð hún vitskert, segir sagan.
"Eru ýmsar sagnir um að Brynjólfur hafi átt að biðja lyfsala erlendis um tíslags meðalaefni. Hinn lét þau til 9, og kvaðst ei sjá til hvers skyldi, nema ef hann vildi skapa draug, og yrði hann nógu svæsinn af 9 efnum, en óvinnandi af 10. Brynjólfur gerði úr þessum 9 efnum draug þann, er frægur hefur verið til þessa á Austurlandi og kallaður Eyjasels-Móri, gangári mikill."
Eyjasels-Móri eða Hóls-Móri kvað enn gera vart við sig á Úthéraði, og kunna menn þar margt að segja af afrekum hans ófögrum. Halldór Pétursson frá Geirastöðum hefur skráð ævisögu hans í sérstaka bók. (Ævisaga Eyjasels-Móra. Rvík 1962).
Ólafur sonur Brynjólfs tók við læknisstarfinu á Brekku eftir hann, en varð skammlífur. Pétur sonur Brynjólfs var lærður gullsmiður, skáldmæltur, og bjó á Víðivöllum ytri. Hann kannaði fyrstur Vatnajökulsveg, frá Austurlandi norðan jökla, og ritaði skýrslu um hann. Hann drukknaði í Berufirði 1798, og þótti það mikill mannskaði.

Jörgen læknir og Kjerúlfsætt: Vorið 1819 réðist að Brekku danskur læknir, að nafni Jörgen Kjerulf (1793-1831). Hann giftist norðlenskri ekkju Arnbjörgu Bjarnadóttur. Þeirra sonur var Andrés Hermann, er giftist Önnu Margréti Jónsdóttur, Þorsteinssonar á Melum og bjó þar. Þau eignuðust 14 börn, en af þeim lifðu aðeins átta. Jóhanna Sigríður, systir Andrésar, giftist Sigfúsi Stefánssyni frá Valþjófsstað og bjuggu þau á Skriðuklaustri, og áttu 7 börn er upp komust. Af þessum tveimur systkinum er komin Kjerúlfsættin í Fljótsdal og víðar um land, en samkvæmt ættarnafnareglu hafa aðeins afkomendur Andrésar notað Kjerúlfsnafnið. Þorvarður læknir á Ormarsstöðum var einn af sonum Andrésar, og Jörgen Fljótsdalsskáld var sonarsonur hans. Söng- og tónlistargáfa hefur þótt fylgja ættinni, enda er norska tónskáldið Halfdan Kjerulf af þessari ætt.
Annar danskur læknir, Hans Peter Johan Beldring, var næsti læknir (1831-1844) á Brekku. Af honum fara litlar sögur og ekki skildi hann eftir sig neina ætt. Eftir lát hans sátu fjórðungslæknar á öðrum stöðum. Jónas Hallgrímsson náttúrufræðingur og skáld dvaldi um mánaðartíma hjá Beldring lækni sumarið 1892, sem fyrr getur.

Spítalinn á Brekku: Á seinni hluta 19. aldar var Austurlandi skipt í nokkur læknishéruð, og varð Fljótsdalshérað eitt þeirra. Um aldamótin var því aftur skipt í tvennt: Upphérað og Úthérað. Var Upphéraðslækni ætlaður staður á hinu gamla læknissetri, Brekku í Fljótsdal, og þangað flutti 1903 ungur og áhugasamur læknir, Jónas Kristjánsson, sem fengið hafði embættið 1901. Hann varð síðar þekktur sem boðberi náttúrulækingastefnunnar hérlendis.
Sama haust var haldinn fundur forystumanna hreppanna á Upphéraði, til að undirbúa stofnun og byggingu spítala á Brekku. Byrjað var að byggja spítalann árið eftir, og var hann fullbúinn snemma árs 1907.
"Var það steinhús, með timburhlið á hlað fram, hæð og ris með kvisti. Í kjallaranum var eldhús og borðsalur, en á hæðinni apótek og tvær sjúkrastofur ásamt herbergi hjúkrunarkonu. Í risinu, sem var með kvistum, var gjörð íbúð fyrir læknirinn. Var þetta vandað hús og íbúðin hin sómasamlegasta." (Benedikt Gíslason frá Hofteigi: Ævisaga Jónasar Kristjánssonar læknis. Rv. 1987, bls. 71).
Fjár var aðallega aflað með samskotum í læknishéraðinu og styrkjum úr ýmsum sjóðum. Meira að segja var efnt til "lotterís", þar sem aðalvinningurinn var orgel á kr. 150. Var aðdráttum jafnað niður á hreppanna sem skylduvinnu. Árið 1907 gengu nokkrir hreppar á Úthéraði til samstarfs um bygginguna og rekstur spítalans, og stóð það til 1925, þegar Úthéraðsmenn ákváðu að byggja læknisetur á Hjaltastað.
"Í upphafi var sjúkrahúsið búið 4 rúmum og skurðstofu, en 1911 voru þau orðin 8, og flest urðu þau 10 um 1930. Þá komu til sögunnar röntgen- og ljóslækningatæki, sem tóku töluvert rými, og frá 1931 til loka telst húsið aðeins taka 6 rúm. Fyrsta árið voru lagðir inn 17 sjúklingar, og frá 1. janúar til 14. júní 1911 voru legudagar orðnir 608 talsins, og segir sú tala mest til um þörfina fyrir stofnun þessa." (Anna Björk Guðjónsdóttir: Sjúkraskýlið að Brekku. Prófritgerð í M.E. 1991).
Héraðslæknirinn og fjölskylda hans bjó í spítalanum, og sá um rekstur hans. Allir Brekkulæknar munu hafa rekið nokkurn búskap á jörðinni. Jónas læknir sagði stafi sínu lausu 1911, af heilsufarsástæðum. Í ævisögu hans er þetta haft eftir honum um Brekkuspítalann:
"Hvers vegna var byggt sjúkrahús upp í afdal á Íslandi? Mér finnst ótrúlegt að það hafi verið gert vegna mín. Þó er eins og engin önnur skýring sé fyrir hendi." (Ævisagan bls. 74)
Ólafur Lárusson var læknir á Brekku 1912-1925, Bjarni Guðmundsson 1925-1933, og Ari Jónsson 1933-1944. Þann 3. janúar 1944 brann sjúkrahúsið á Brekku til kaldra kola. Fluttist héraðslæknirinn þá að Eiðum, og síðan í Egilsstaði á Völlum, þar sem byggt var lítið sjúkrahús sameiginlegt fyrir Héraðið 1945. Varð það upphaf þorpsmyndurnar á þeim stað. Úr rústum spítalans var byggt íbúðarhús það sem nú er á Brekku. Gunnar Gunnarsson skáld var mjög mótfallinn þessari breytingu og ritaðu skeleggar greinar gegn henni.
Læknissetrið á Brekku hafði að vonum ýmisleg áhrif á mannlífið í Fljótsdalnum. Má geta þess, að Hansína Benediktsdóttir, kona Jónasar læknis, gekkst fyrir stofnun Kvenfélagsins Einingar. Theodór Árnason fiðluleikari var um tíma hjá Bjarna lækni og dreif upp kór í sveitinni, og Halldór Kiljan Laxness dvaldi þar um 1930 og viðaði að sér efni í skáldsöguna Sjálfstætt fólk.

Brekkubáturinn ("Lagarfljótsormurinn"): Talið er að Þorvarður læknir Kjerúlf sé upphafsmaður þeirrar hugmyndar, að reka áætlunarbát á Lagarfljóti. Árið 1891 héldu Fljótsdalsbændur fjölmennan fund um það mál, og söfnuðu 1750 kr. í hlutafé. Var ákveðið að kaupa gufubát, er gengi frá Fossi inn að Brekku. Af því varð þó ekki. Árið 1905 stofnuðu þeir "Mótorbátsfélagið Lagarfljótsorminn", sem gaf út 10 kr. hlutabréf. Félagið lét smíða 6 tonna eikarbát á Seyðisfirði, sem siglt var upp Lagarfljót, og dreginn fyrir Steinboga og Foss. Hann var ýmist nefndur Brekkubáturinn eða Lagarfljótsormurinn. Hóf hann reglulegar áætlunarferðir, frá Egilsstöðum í Brekku, þann 1. júlí 1905. Fastir viðkomustaðir voru 10, eða fimm hvoru megin Fljóts. Fargjald var 1 kr. fyrir manninn að Brekku, og 60 aurar fyrir 100 kg. frakt. Bryggjur og vörugeymslur voru byggðar á endastöðvunum, og skýli fyrir bátinn á Brekku, en fastar ferðir voru aðeins um hásumarið. Tótt vöruhússins á Brekku er enn sýnileg við sandfjöruna innan og neðan við bæinn. Bátshúsið var í gilinu utan og neðan bæjar, steypt hús, og sést grunnur þess enn.
Þegar Lagarfljótsormurinn hóf göngu sína var enn ekki kominn akfær vegur milli Fjarða og Héraðs, en byrjað var að leggja "flutningabraut" um Fagradal og var hún fullbúin haustið 1909. Eftir það jukust flutningar mjög með bátnum. Voru vörur þá fluttar á hestvögnum frá Búðareyri til Egilsstaða, síðan með bátnum upp Lagarfljót. Þá urðu margir bændur að taka þær á klakk, eða geyma í vöruhúsinu á Brekku þar til orðið var sleðafært.
Ýmsar ævintýralegar sögur eru til af siglingum Lagarfljótsormsins. Sumarið 19l8 lenti báturinn í hvassviðri, og stutt fyrir utan Geitagerði bilaði vélin. Rak hann þá upp á klettatanga og stórskemmdist, en vörum og fólki var bjargað.
Árið 1919 var stofnað nýtt félag: "Lagarormurinn." Keypti það nýjan bát, er hóf siglingar um Fljótið 1920. "Báturinn var keyptur frá Akureyri, og fluttur yfir Fagradal á bíl. Báturinn var fallegur en ekki mjög traustvekjandi þegar hann var kominn á Fljótið." Hann var með lokuðu húsi fyrir farþegana, og hafði annan bát í togi til vöruflutninga(?).
Rekstur áætlunarbáts á Lagarfljóti lagðist af 1935, þegar bílvegir voru komnir að Brekku og Hallormsstað.

Ástfangin huldustúlka: Á fyrri hluta 19. aldar var ungur maður að nafni Jón Oddsson sumarsmali hjá Beldring lækni á Brekku. Eitt sinn er hann sat yfir ám við Einbúa, klett nokkurn uppi í fjallinu, dreymdi hann að til sín kæmi huldukona og leiddi sig inn í klettinn:
"Þar var fyrir ung stúlka, fögur álits og mjög vel búin. Hún heilsar Jóni kurteislega og blíðlega, og lætur í ljósi ástaratlot og hjúskapartilmæli. Segist vera dóttir eldri konunnar, og vera því valdandi að hann sé þar nú, og biður hann eiga sig, því hann sá eini sem hún girnist." (Þjóðs. Sigf., 1.útg. IV, 77-79)
Jóni verður bilt við þessi tíðindi, og veit eigi hverju hann skal svara stúlkunni. Þó fannst honum sem hann væri alveg á valdi hennar. Þá heyrðist honum einhver rödd hvísla: "Gerðu það ekki, það er sálartjón." Eftir það snerist hann öndverður gegn atlotum stúlkunnar, og sagðist þó hafa tekið það nærri sér: "svo hreinan og hlýjan yndisþokka hefði hún vakið hjá honum."
Eftir þetta fór huldustúlkan að ásækja Jón, bæði í vöku og svefni, og gerðist Jón þunglyndur af þeim sökum. Síðan fór hann norður á Jökuldal, en losnaði eigi við huldustúlkuna að heldur. Að lokum er sagt að Hjörleifur nokkur grasalæknir hafi losað hann við ásókn stúlkunnar..
Á brekkubrún, innan og ofan við gamla túnið á Brekku er allstór stakur steinn á melholti, sem Huldusteinn heitir, en engin saga er til um það nafn.

 BREKKUGERÐI OG HÚS

Þessi tvö afbýli frá Brekku eru fyrir löngu orðin sjálfstæðar jarðir, en eru í ríkiseign eins og móðurjörðin. Brekkugerði þótti ágæt bújörð og beitarsæl. Þar bjó Þorsteinn sonur Jóns vefara lengi á 19. öld, hreppstjóri og sveitarhöfðingi, en þótti aðsjáll í fjármálum. Jón sonur hans varð skammlífur, en Margrét Sveinsdóttir ekkja hans bjó lengi í Brekkugerði við mikla rausn.
Nýlega hafa Jóhann Frímann Þórhallsson og Sigrún Ólafsdóttir byggt þar myndarlegt hús, sem jafnframt er iðnaðarbýli, og stundar Sigrún þar söðlasmíði.
Á Húsum munu upphaflega hafa verið beitarhús frá Brekkugerði, enda er bærinn oft kallaður Brekkugerðishús í gömlum skjölum. Ekki var þar samfelld byggð. Árið 1924 byggði þar upp Jörgen Eiríksson Kjerúlf, Fljótsdalsskáld, sem oft var getið, og kona hans Elísabet Jónsdóttir frá Brekkugerði. Þau bjuggu á Húsum til 1936, en eftir það synir þeirra. Jörgen kenndi sig oft við þennan bæ og ritaði "Jörgen frá Húsum" undir kvæði sem eftir hann birtust. Jörgen stundaði smíðar eftir að hann hætti búskap, og átti heima á Húsum, þar til hann flutti í Vallholt um 1950? Jón Kjerúlf sonur hans bjó á Húsum um miðja öldina, en hann var sömuleiðis vel skáldmæltur þó lítið hafi birst eftir hann.
Eftir nokkurra ára eyðitíma, flutti Hákon Aðalsteinsson frá Vaðbrekku, með konu sinni Sigrúnu Benediktsdóttur, að Húsum, og endurbyggðu þau gamla íbúðarhúsið á svo myndarlegan hátt, að til fyrirmyndar má teljast. (Sjá grein um það í tímaritinu Hús og hýbýli 1994). Hákon er vel skáldmæltur og þekktur fyrir gamankvæði sín. Hann hefur gefið út tvær kvæðabækur. Hann er nú hreppstjóri Fljótsdæla, skógræktarbóndi og skáldbóndi.

Sækýr úr Lagarfljóti: Baulutangi nefnist lítill og lágur klettaoddi út í Lagarfljót spölkorn fyrir innan Brekkugerði.
"Þar gengu í fyrndinni fimm kýr á land, allar dökkgráar að lit. Brekkugerðisbóndinn var þar nærstaddur, hljóp til og gat sprengt blöðruna milli nasanna á stærstu kúnni. Missti þá kýrin náttúru sína með að fara aftur í Fljótið, eins og aðrar sækýr. Síðan leiddi hann kúna heim og átti hana í margt ár, ól sveitungum sínum marga kú undan henni og hélst það kúakyn í Fljótsdal fram eftir öllum öldum og var kallað Dumbukyn, því sækýrin hét Dumba." (Þjóðs. Sigf. 1.útg., III, 206).
Ekki eru heimildir um sækýr í öðrum vötnum en Lagarfljóti, nema ef vera skyldi í Sænautavatni á Jökuldalsheiði, en þar er það nafnið eitt.

Brekkugerðis-Sveinka: Vörðunnar Sveinku í Bessastaðagerði var áður getið, en í fjallinu inn og upp af Brekkugerði, á Fláabrún rétt fyrir utan Selgil, er önnur varða með þessu nafni, hlaðin af sama manni, Sveini Jónssyni, sem skilið hefur eftir fangamark sitt á henni og ártalið 1893. Varðan er nálægt 3 m á hæð og 1,25 x 1,25 m að grunnmáli, en 1 x 1 m nálægt brún, alveg rétthyrnd, hlaðin úr völdum eða tilhöggnum steinhellum og vandlega fellt í allar glufur með hellubrotum, svo hliðar vörðunnar eru sléttar líkt og á steinlímdum byggingum. (Líklega er þetta vandaðasta varða á öllu Íslandi).
Margar fleiri vörður eru í Brekkugerðisfjalli, og tótt af smalakofa, er Miðskáli nefnist er skammt fyrir utan og ofan Sveinku.

GEITAGERÐI

Bærinn í Geitagerði stendur undir allháum og klettóttum ás, sem kallast Geitagerðisbjarg, og liggur þjóðvegurinn milli bjargs og bæjar. Bæjarstæðið er skjólsælt og vinarlegt, og útsýni austur yfir Lagarfljót er mjög fagurt, því bærinn er beint á móti Atlavík, og Hallormsstaður og Hallormsstaðaskógur blasa við sjónum. Í Geitagerði eru skógarlundir og teigar af ýmsum aldri, er setja svip á staðinn. Heima við bæinn er allstór og gamall skrúðgarður með nokkrum háum trjám. Þar var lengi hæsta þintré á landinu. Utan við bæinn er reitur með mörgum trjátegundum, sem stofnað var til um 1950, og 25 hektara lerkiskógur framan og neðan við túnið, sem plantað var á árunum 1972-73.
Af þessu mætti ætla, að hér væri fyrst og fremst um skógræktarbýli að ræða, en svo er þó ekki. Hér hefur hefðbundinn búskapur með sauðfé, kýr og hesta verið stundaður allt til þessa dags, og jafnan verið talið gott og arðsamt bú, enda er búskaparáhugi ríkur í því ættfólki sem hér hefur búið mann fram af manni.
Geitagerði var hjáleiga frá Arnheiðarstöðum, og var stundum nýtt þaðan. Árið 1894 hóf Guttormur Vigfússon frá Arnheiðarstöðum búskap í Geitagerði. Hann hafði lært búfræði í Noregi og Danmörku (?). Hann varð fyrsti skólastjóri Búnaðarskólans á Eiðum, 1883-1888, og síðar alþingismaður Norðmýlinga (1898-1908). Guttormur innleiddi ýmsar nýjungar í búskap í Geitagerði, eins og afi hans og langafi áður (sjá Arnheiðarstaði og Valþjófsstað). Þeir Geitagerðisbændur erfðu verðlaunapening þann sem séra Vigfús fékk hjá Danska Landbúnaðarfélaginu. Fleira gamalla og merkilegra gripa er geymt í Geitagerði, og þar er allt í hefðbundnum og menningarlegum skorðum, jafnt utan húss sem innan.

Þormarsætt: Kona Guttorms var Sigríður Sigmundsdóttir úr Skagafirði. Þau hjón eignuðust 8 börn er upp komust, og tóku þau sér ættarnafnið Þormar (af "Goðþormur", sem er gamall ritháttur nafnsins Guttormur), sem síðan hefur haldist í ættinni. Vigfús Guttormsson Þormar tók við búskapnum af föður sínum 1924. Hann hafði kynnt sér sláturhúsrekstur í Danmörku, og auk bústarfa í Geitagerði var hann í hálfa öld verkstjóri á sláturhúsum Kaupfélags Héraðsbúa. Einnig var hann hreppstjóri Fljótsdælinga í áratugi. Kona hans var Helga Þorvaldsdóttir af Mýrum vestur. Stefán bróðir hans var einnig í Geitagerði, þekktur fyrir kímnigáfu sína.
Sigmar G. Þormar lærði garðyrkju í Danmörku. Hann varð bóndi á Skriðuklaustri, og seldi Gunnari skáldi jörðina, sem fyrr getur. Geir Þormar var kennari á Akureyri, útskurðarmeistari, og Andrés Þormar samdi leikrit og smásögur.

Íþróttamaðurinn Guttormur: Sonur Vigfúsar í Geitagerði, Guttormur Þormar, varð gagnfræðingur frá Akureyri. Hann var barnakennari í Fljótsdal í áratug, en tók við búskap í Geitagerði árið 1954. Hann tók snemma að stunda íþróttir og æfði sig heima í hlaupum og stökkum. Á fjórða áratugnum keppti hann á landsmótum ungmennafélaganna og öðrum frjálsíþróttamótum og náði góðum árangri í 100 og 200 m hlaupum, langstökki og þrístökki. Á landsmótinu 1943 var hann stigahæstur einstaklinga, og fyrir það hlaut hann veglegan grip að verðlaunum, skjöld útskorinn af Ríkharði Jónssyni. Einnig hlaut hann fjölda verðlaunapeninga. Guttormur var lengi oddviti í Fljótsdal og hreppstjóri eftir föður sinn. Kona hans, Þuríður Skeggjadóttir úr Reykjavík, tók einnig virkan þátt í félagsmálum Fljótsdælinga, var lengi formaður kvenfélagsins og sóknarnefndar.

Holur af ýmsu tagi: Uppi á hákollinum á Geitagerðisbjargi eru nokkrir einkennilegir koppar og stampar, sumir alveg sívalir og allt að meter á dýpt. Stendur vatn uppi í þeim sumum. Þeir kallast Hlandkollur og þessi hluti bjargsins Hlandkollubjarg. Hlandkollurnar líkjast mjög skessukötlum þeim, sem algengt er að finna undir fossum og í fosstæðum, enda munu þeir vera tilkomnir á sama hátt, það er vegna vatnssvörfunar. Fossinn sem þar um ræðir hefur líklega verið í stöðnuðum skriðjökli, sem legið hefur yfir Bjarginu í Ísaldarlokin. Slíkar jökulfossminjar eru sára sjaldgæfar hér á landi.
Neðan undir Geitagerðisbjargi, fyrir ofan bæinn, eru aðrar holur ekki síður merkilegar. Þær eru sívalar eða sporöskjulaga og hérumbil láréttar, og allt að 70 sm í þvermál. Undir þeim er allþykkt lag af leirkenndum steini, rauðleitum, og eru sumar holurnar efst í því. Einnig er leir í holunum þegar innar dregur, og verður því ekki sagt um raunverulega dýpt þeirra. Holurnar eru líklega för eftir barrtré, sem þarna hafa vaxið fyrir milljónum ára, og lagst útaf þegar hraunið rann yfir skóginn. Slíkar holur eru einnig í Bessastaðaárgili og víðar, en hér eru þær með stærra móti og auðvelt að komast að þeim til skoðunar. (Austri, jólablað 1985).

Árnasteinn: Mitt á milli bæjanna Geitagerðis og Arnheiðarstaða er stór steinn fast við þjóðveginn, sem myndar væga beygju fyrir steininn. Hann heitir Árnasteinn. Undir honum á að vera falinn fjársjóður (peningahálftunna), en þau viðurlög eru við því að grafa eftir honum, að þá á bærinn á Arnheiðarstöðum að brenna, og sumir segja einnig að þrír helstu menn sveitarinnar eigi að látast, ef þetta er reynt. Enn er sú sögn, að þrír loftandar hafi verið settir til að gæta fjársjóðsins. Ýmsir munu þó hafa reynt að grafa undir steininn, en ekki heppnast vegna einhverra undra er þá skeðu. Örnefnið vekur grunsemdir um að að steinninn sé kenndur við Árna ríka, bónda á Arnheiðarstöðum á 18. öld. Líklega hafa menn ímyndað sér að Árni hefði grafið eftir fjársjóðnum og auðgast þannig, eða þá að hann hefði grafið lausafé sitt þar er hann lést (sjá síðar). Skammt fyrir utan Árnastein eru örnefnin Gálgaklettur og Gálgaflötur.

 ARNHEIÐARSTAÐIR

Arnheiðarstaðir eru einn helsti fornsögustaður í Fljótsdal og heimili Ketils þryms, sem talinn er með landnámsmönnum í Landnámabók. Jörðinni tilheyrði landið frá Marklæk að Hrafnsgerðisá, en hjáleigan Geitagerði er fyrir löngu orðin sjálfstæð jörð, og nýbýlið Droplaugarstaðir var byggt úr jörðinni 1942, yst í landinu. Þá var jörðin Merki á Jökuldal talin hjáleiga Arnheiðarstaða fram á síðustu öld, og milli bæjanna er reiðgata yfir Fljótsdalsheiði, sem nefnd er Merkisvegur, en þar er heiðin einna breiðust, um 20 km. Á Heiðarbrún við veginn er Skjöldólfsstaðamýri, líka til vitnis um gagnkvæm samskipti við Jökuldælinga.
Í máldaga frá 1367 kemur fram að Arnheiðarstaðir eru kristfjárjörð og "á guð drottinn iii hluti í jörðinni." Þetta mun skiljast svo, að guð eigi 3/4 hluta jarðar, sem hann notar til fátækraframfæris, en 1/4 hluta átti Valþjófsstaðakirkja, og höfðu afdankaðir prestar og prestsekkjur þar löngum aðsetur. (Nú telst jörðin ríkiseign í umsjá hreppsins).
Bænhús eða hálfkirkja var á Arnheiðarstöðum fram á 17. öld, með tilheyrandi grafreit. Örnefnin Gálgaklettur og Gálgaflötur innan við bæinn, benda til þess að þar hafi verið þingstaður, líklega fyrir Fella- og Fljótsdalshreppa, en þeir áttu Kristféð þar að jöfnu. Á Arnheiðarstöðum stóð gömul baðstofa fram um 1970, sem höfundur þessara skrifa ólst upp í, og allt til 1990 stóðu gömul fjárhús og hlöður víðs vegar um gamla túnið. Enn er þar gamalt fjós og minjar um forna túngarða og áveitur.
Stór trjágarður er við bæinn, frá upphafi aldar, og þar er legsteinn Guttorms Vigfússonar bónda þar, sem fluttur var frá Valþjófsstað þegar gamli kirkjugarðurinn þar var lagður niður.

Upphaf Arnheiðarstaða og gömul ástarsaga: "Ketill og Graut-Atli, synir Þóris þiðranda, fóru úr Veradal til Íslands, og námu land í Fljótsdal, fyrr en Brynjólfur kom út. Ketill nam Lagarfljótsstrandir báðar, fyrir vestan Fljót, á milli Hengiforsár og Ormsár. Ketill fór utan og var með Véþormi syni Vémundar ens gamla. Þá keypti hann að Véþormi Arneiði, dóttur Ásbjarnar jarls skerjablesa, er Hólmfastur son Véþorms hafði hertekið, þá er þeir Grímur systurson Véþorms drápu Ásbjörn jarl. Ketill keypti Arneiði dóttur Ásbjarnar tveim hlutum dýrra en Véþormur mat hana í fyrstu; en er kaupið var orðið, þá gerði Ketill brúðkaup til Arneiðar. Eftir það fann hún grafsilfur mikið undir viðarrótum. Þá bauð Ketill að flytja hana til frænda sinna, en hún kaus þá honum að fylgja. Þau fóru út og bjuggu á Arneiðarstöðum. Þeirra son var Þiðrandi faðir Ketils í Njarðvík." (Landnámabók, 296).
Nánar segir af þessu ástarævintýri í Droplaugarsona sögu. Þar segir að Arnheiður hafi fundið "kistil einn fullan af silfri", þegar hún gekk á land í Víkinni (Oslófirði) í Noregi. Í sögunni segir að Ketill keypti sér land "fyrir vestan vatn það er Lagarfljót heitir - sá bær heitir á Arneiðarstöðum - og bjó þar síðan... Eftir þetta gerir Ketill brullaup til Arneiðar, því að hún var hinn mesti kvenskörungur. Þau áttu son er Þiðrandi hét."
Frásögn þessi er næsta einstæð í Íslendingasögum, en þó er viss líking við frásögn Laxdælu af af kynnum þeirra Höskuldar og Melkorku. Árni Óla rithöfundur hefur nefnt hana "eina fegurstu ástarsögu í fornbókmenntum okkar." Um hana kvað Gísli Jónsson frá Háreksstöðum í kvæðinu "Arnheiður." (Haugeldar. Ak. 1962).

Er léstu mig lausa allra mála,
mér ljóst varð þú unnir mér.
Ég, konan sem keypt gat sér frelsi,
nú kaus það að fylgja þér.

Sú tilgáta hefur komið fram, að silfusjóðurinn sem fannst á Miðhúsum í Eiðaþinghá 1990 hafi verið sá sami er Arneiður fann undir viðarrótum í Víkinni í Noregi. Hugsanlegt er að þau Ketill og Arneiður hafi geymt sjóðinn, og síðan hafi Gróa á Eyvindará (sonardóttir Ketils) fengið hann í arf og komið honum þarna fyrir, því Miðhús eru upphaflega beitarhús eða hjáleiga þaðan. Líklega hefur þau ekki órað fyrir því að sjóðurinn ætti eftir að verða slíkt deiluefni í lok tuttugustu aldar sem raun varð á. (Eiríkur Sigurðsson: Silfursjóðurinn frá Miðhúsum. Glettingur 6 (2), 1996 / H. Hall.: Arneiður og Droplaug. Handrit 1995).

Fornar tröllasögur: Þó að Landnámu og Droplaugarsona sögu beri nokkuð vel saman um uppruna Arnheiðar hafa aðrar Austfirðingasögur miklu ævintýralegri sagnir af henni og Droplaugu, sem í þeim er gjarnan talin dóttir Arnheiðar.
Í Fljótsdæla sögu er Arnheiður sögð vera Helgadóttir og hafa átt bústað á Hjaltlandi. Faðir hennar var "danskur maður." Björgólfur jarl á Hjaltlandi hafði átt með henni dóttur, Droplaugu að nafni, sem var afbragð annara kvenna. Hafði jötunn einn mikill þar á eyjunum, numið Droplaugu á brott og flutt í helli sinn, þar sem heita Geitishamrar eða Geitissúlur.
Þorvaldur Þiðrandason fór utan og braut skip sitt við Hjaltland. Fékk hann vetursetu hjá Björgólfi jarli. Um jólaleytið fór hann í hellinn, drap jötuninn og frelsaði Droplaugu. Fór hún með honum til Íslands, þar sem hann kvæntist henni.
Þorvaldur keypti jörð þá fyrir vestan Lagarfljót er Vallholt hét. "Þetta land var lítið að húsum en þó fullbýlisland. Það kaupir þorvaldur með fé. Hann húsaði landið og efldi bústað þann, og er sá bær kallaður góður síðan jafnan. Eftir það tekur Arnheiður móðir hennar við búi fyrir innan stokk og allri umsjá. Er þá snúið nafni bæjarins og kallað á Arneiðarstöðum. Sezt Þorvaldur þar í bú og fekk hann brátt vinsældir miklar. Droplaug skipti sér ekki af ráðum. Var hún ríkilát mjög. Þótti mönnum mikils um hana vert." (Fljótsdæla saga. Ísl. fornrit XI, 233). Í Brandkrossa þætti er svipuð saga, en þar er Droplaug sögð vera dóttir Geitis hálftrölls, sem býr í helli í Geitishömrum í Þrándheimi.

Droplaugarsynir: Samkvæmt Droplaugarsona sögu, sem telja verður sannferðugasta af Austfirðingasögum, átti Þiðrandi Ketilsson fyrrnefndur nokkur börn með Yngvildi konu sinni, þeirra á meðal Þorvald bónda á Arnheiðarstöðum, Ketil í Njarðvík, Gró á Eyvindará og Hallkötlu í Krossavík. Var sú ætt kölluð Njarðvíkingar. Þorvaldur kvæntist Droplaugu Þorgrímsdóttur frá Giljum á Jökuldal.
"Hún var væn kona og kunni sér allt vel. Þorvaldur bað Droplaugar, og tókust þau ráð, og áttu þau tvo sonu. Hét Helgi inn eldri en Grímur inn yngri. Þeirra var vetrar munur. Þorvaldur varð eigi gamall maður og andaðist, en Droplaug bjó þar eftir og synir hennar.
Helgi var mikill maður vexti og vænn og sterkur, gleðimaður og hávaðasamur. Hann vildi ekki um búnað hugsa. Vígur var hann manna best. Grímur var mikill maður vexti og afrendur að afli, hljóðlátur og stilltur vel. Hann var búmaður mikill. Þeir bræður vöndu sig alls kyns íþróttum, og þóttu þeir þar fyrir öllum ungum mönnum í allri aðferð sinni, svo að þeirra jafningjar fengust eigi."
Svo er að skilja að þeir hafi verið kenndir við Droplaugu móður sína, vegna þess hve faðir þeirra var skammlífur. Þeir höfðu mikla ást á móður sinni, og fyrsta víg þeirra er unnið til að hefna fyrir illmæli Þorgríms torðifils um hana. Þá var Helgi þrettán vetra en Grímur tólf. Af því hljótast illdeilur milli þeirra nafnanna, Helga Ásbjarnarsonar og Helga Droplaugarsonar, sem enda með því að Helgi Droplaugarson er veginn, og síðan vegur Grímur nafna hans til bróðurhefnda.
Þegar synir Droplaugar voru upp komnir giftist hún Hallsteini á Víðivöllum, sem áður getur. Hann var veginn nokkrum árum síðar af þræli sínum, og töldu menn að Helgi ætti þar hlut að máli og jafnvel hún sjálf. Eftir það fluttist Droplaug til Færeyja, með Herjólf son þeirra Hallsteins, keypti sér þar jörð og bjó til elli, segir sagan.

Grímshellir og Grímsbás: Eftir víg Helga Ásbjarnarsonar á Eiðum varð Grímur Droplaugarson sekur skógarmaður og varð að fara huldu höfði. Leyndist hann á ýmsum stöðum, sem síðan eru við hann kenndir. Hann var fyrst á laun hjá frænda sínum Þorkeli Geitissyni í Krossavík í Vopnafirði. Þá fór hann heim í Arnheiðarstaði, en þar bjó Helga kona hans og Ingjaldur faðir hennar.
"Nú komu þeir Grímur til Ingjalds, og fóru þeir í helli þann, er nú heitir Grímshellir. Ingjaldur talaði við sauðamann sinn: "Þótt hverfi nokkrir sauðir, þá gettu ekki um." Þá mælti griðkona við Ingjald: "Svo er lækur vor saurugur, að varla er drekkanda úr." "Því sætir það, að hann var stífldur", sagði hann, "en eg fór til að ræsta hann." En það var reyndar, að Grímur gerði jarðhús, og kom munninn upp við sæng konu hans, og lá hann þar um nætur, en mold var færð í lækinn."
Eftir það komu þeir Ingjaldur Grími utan til Noregs, og lést hann þar. Bærinn á Arnheiðarstöðum stendur nálægt Bæjarlæknum, þar sem allhár bakki er að honum, svo mögulegt hefði verið að grafa umrætt jarðhús frá læknum til bæjarins. Um Grímshelli eru hins vegar skiptar skoðanir, en hann þekkist nú ekki lengur. Yst í landi Geitagerðis er skúti í klettum við Lagarfljót, sem kallast Rauðihellir. Gæti hann hafa verið afdrep Gríms um tíma, enda sést hann ekki nema utan af Fljótinu. Annar möguleiki er skúti í Hrafnsgerðisárgili, sem nefndur er Grímsbás.

Vötturinn frægi: Árið 1889 fannst sérkennilegur vettlingur á Arnheiðarstöðum, þegar verið var að grafa fyrir nýju húsi og var hann sendur Þjóðminjasafni."Hann bar vitni um fornt verklag, sem fáum var kunnugt, en eitt sinn hefur gegnt mikilvægu hlutverki í daglegum bjargráðum manna", ritar Kristján Eldjárn (Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rv. 1973).
Þessi vettlingur var ekki prjónaður, eins og vettlingar síðari alda, heldur brugðinn eða saumaður með sérstakri nál, og kallar Kristján það "vattarsaum" eða "nálbragð." Kristján segir að Íslendingar hafi ekki lært að prjóna fyrr en á 16. öld, og fyrir þann tíma voru flestar flíkur ofnar, en vettlingar og sokkar munu þó oft hafa verið saumaðir á þann hátt sem hér um ræðir.
"Við vattarsaum var notuð stór nál úr tré, beini eða málmi. Verkinu miðaði áfram í sporum eða lykkjum, líkt og við hekl eða prjón, en vattarsaumur er í grundvallaratriðum annars eðlis en þær aðferðir."Hann hefur svipaða áferð og hekl, en skortir teygjanleik á við prjónles, og verður ekki rakinn upp á sama hátt.
Ekki er til nein önnur flík íslensk með þessu handbragði, og hefur Arnheiðarstaðavötturinn því hlotið mikla frægð og verðuga umfjöllun í fjölda greina. Hann er nú talinn með merkustu gripum Þjóðminjasafnsins.

Poka-Þórður og Ríki-Árni: Á seinni helft 17. aldar lentu bræður nokkrir, Árnasynir, frá Móbergi í Langadal austur á Hérað og staðfestust þar. Þeir þóttu furðulegir um margt og uppáfinningasamir. Einn þeirra hét Þórður, síðar auknefndur Poka-Þórður, því sagt var að hann stæli peningapoka á Djúpavogi og auðgaðist svo. Um aldamótin 1700 býr hann á Arnheiðarstöðum með Oddnýju Pálsdóttur, ekkju sem er 10 árum eldri. Árni hét sonur þeirra, er bjó eftir þau á Arnheiðarstöðum, mestan hluta 18 aldar. Hann var kallaður Ríki-Árni eða Árni auðgi. Kona hans var Kristín Brynjólfsdóttir frá Melrakkanesi. Þau áttu fjölda barna og er ætt frá þeim kölluð Arnheiðarstaðaætt. Af henni er margt sérkennilegra gáfumanna, sem ekki hafa farið troðnar slóðir og hefur frásagnargáfa, fræðimennska og skáldskapur þótt fylgja ættinni, en af henni eru meðal annara J.Magnús Bjarnason rithöfundur, Páll Ólafsson skáld og Einar Jónsson ættfræðingur.

Jón vefari og Vefaraætt: Margrét dóttir Hjörleifs Þórðarsonar prests og skálds á Valþjófsstað (sjá áður), giftist Þorsteini Stefánssyni presti á Krossi í Landeyjum. Fimm af börnum þeirra fluttust austur á land og staðfestust þar, þeirra á meðal Jón sem kallaður var vefari. Hann lærði vefnað í Danmörku, og tók þá upp viðurnefnið Skjöld, sem hélst þó ekki í ættinni. Jón hafði með sér vefstól af nýrri gerð frá Kaupmannahöfn, og kenndi mönnum að nota hann. Jón vefari bjó á Arnheiðarstöðum á fyrsta áratug 19. aldar, með konu sinni Þóreyju Jónsdóttur, systur Bjargar konu Hjörleifs hins sterka. (Ætlaði Jón bróðir! hans fyrst að eiga Þóreyju, en upp úr því slitnaði). Þau hjón urðu kynsæl, og er sá ættleggur nefndur Vefaraætt. Þar voru margir lærdómsmenn og embættismenn, en líka gildir bændur, og er fjöldi Fljótsdælinga og Fellamanna kominn af Jóni. Minningartafla um Jón Skjöld var lengi í Valþjófsstaðakirkju. (Nú geymd heima á Valþjófsstað).

Ástamál gamla klerksins: Eins og fyrr var getið (sjá Valþjófsstað) flutti séra Vigfús Ormsson í Arnheiðarstaði þegar hann hætti prestsskap á Valþjófsstað 1821, og var þá orðinn blindur. Samt hélt hann áfram búskap með hjálp sona sinna, er þá voru upp komnir. Þar andaðist kona hans, Bergljót systir Jóns vefara. Eftir það flyst Hallgerður frænka hans þangað, með Árna manni sínum og börnum þeirra. Líður þá ekki á löngu þar til Vigfús, sem þá var um áttrætt, ákveður að kvongast Guðnýju dóttur þeirra, en hún var þá 19 ára gömul. Ekki fer sögum af vilja hennar.
Vakti þetta uppátæki gamla mannsins að vonum mikla athygli, þótt mikill aldursmunur hjóna væri ekki óvanalegur í þann tíð. Líklega hefur Vigfúsi gengið gott til við Guðnýju, því hér var í raun um eins konar arfleiðslu að ræða henni til handa, enda mætti þessi ákvörðun harðri andstöðu af hálfu sona hans og tengdasonar, séra Stefáns Árnasonar, sem var eftirmaður hans á stóli Valþjófsstaðar. Er sagt að hann hafi þráast við að "lýsa" með hjónaefnunum, og að lokum hætt við það á síðustu stundu. Reiddist Vigfús gamli þá ákaflega og reyndi allt hvað hann gat að ná rétti sínum. Árið eftir fékk hann slag og var eftir það mest í kör, en stýrði þó búskapnum næstu árin með frændfólki sínu. Guðný fór þaðan burt í vinnumennsku nokkru síðar. Hún var skáldmælt, og fékk síðar viðurnefnið Skáld-Guðný (sjá Skriðuklaustur). (Jón Helgason: Ísl. mannlíf 2. bindi. Rv. 1959 / Austri, jólablað 1992).

Guttormur stúdent: Guttormur sonur séra Vigfúsar lærði og varð stúdent úr heimaskóla 1824. Bjuggust víst flestir við að hann yrði prestur, en hugur hans stóð til annars. Hann gerðist bóndi á Arnheiðarstöðum 1826 og bjó þar til æviloka 1856. Hann var alþingismaður Norðmýlinga 1847-1848, og sat þjóðfundinn fræga 1851. Guttormur var mikill áhugamaður um framfarir í búskap eins og faðir hans. Hann hóf fyrstur útfærslu túna svo heitið gæti hér austanlands, tvöfaldaði stærð þess og bætti með áburði og áveitum, svo töðufengur þrefaldaðist á búskaparárum hans. Hann var forgöngumaður um vatnsveitingar á tún og skrifaði ritgerð um það efni í Ný Fjelagsrit, sem Jón Sigurðsson forseti gaf út. Síðari árin útvegaði hann sér plóg og herfi til jarðvinnslu og hóf kartöflurækt í meira mæli en þá þekktist. Einnig gerði hann tilraunir með kornyrkju.
Guttormur gekkst fyrir stofnun Búbótafélags í Fljótsdal laust fyrir miðja öldina, og er það annað elsta búnaðarfélag landsins. Vorið 1850 boðaði Guttormur til fundar í kjördæmi sínu til að undirbúa þjóðfundinn og kjósa fulltrúa á hann. Eftir það voru slíkir héraðsfundir haldnir árlega næstu 10-12 árin. Þeir voru nefndir "vorþing" að fornum sið, og voru oftast haldnir á hinum forna þingstað, Þinghöfða í Tungu, enda kallaðir Þinghöfðafundir á daglegu tali. Guttormur stýrði þremur fyrstu fundunum og undirbjó dagskrá þeirra. Á vorþinginu 1851 var stofnað Búbótafélag fyrir alla Norður-Múlasýslu, og urðu búbótafélög hreppanna þá deildir í því. Er það líklega fyrsta búnaðarsambandið?
Á þessum fundum kom einnig fram tillaga um stofnun búnaðarskóla á Austurlandi, og mun Guttormur hafa átt frumkvæði að því. Það hlaut þó engan hljómgrunn að sinni, en þess má geta, að sonarsonur Guttorms og alnafni varð fyrsti skólastjóri Búnaðarskólans á Eiðum, er hann var stofnaður 1881.(Minningarrit um Guttorm var útg. á Ak.1857).
Einn af sonum Guttorms var Jón, er fluttist til Kanada um 1870 (?). Hans sonur var Guttormur J. Guttormsson bóndi á Víðivöllum við Winnipegvatn, sem varð annað frægasta skáld Íslendinga í Vesturheimi. Hefur hann lýst vesturför foreldra sinna í löngu kvæði, í bókinni Jón Austfirðingur.

Parthúsa-Jón: Um það bil miðja vega milli Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða eru tættur beitarhúsa er nefnast Parthús, rétt fyrir neðan veginn. Við þau eru tengdar þjóðsögur af Jóni nokkrum, sem átti að hafa látið þar lífið á hryllilegan hátt af völdum draugs, er sumir segja að hann hafi sjálfur vakið upp, og var hann því nefndur Parthúsa-Jón. (Sjá Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar I, 328).
Sigfús Sigfússon telur að það hafi verið Dalhúsa-Jón (Þórðarson), frægur galdramaður á Héraði, sem þarna átti hlut að máli, en hann hafði átt þátt í að vekja upp drauginn Fluganda (sjá Víðivelli og Glúmsstaði I), og hefði uppvakningurinn viljað hefna sín á honum.
Jón var á leið upp í Fljótsdal, þegar bylur skall á, og hann varð að leita sér skjóls í beitarhúsunum, sem einnig þá voru fast við veginn. Annar maður var með honum, og bjuggu þeir um sig í garðanum. Um nóttina heyrði fylgdarmaðurinn að Jón lét illa í svefni, var að lokum dreginn niður í kró og barið utan í vegginn. "Fyrst heyrði hann stunur og emjan í Jóni, en að síðustu ekkert hljóð. Þó var haldið áfram að berja innan húsið. Var sem einhverju væri kastað úr einum stað í annan um allt húsið innanvert. Gekk svo lengi nætur." Fylgdarmaður flýði húsin í dagrenningu og sagði tíðindin á Arnheiðarstöðum. Fóru menn með honum þaðan út á húsin. "Var þar ill aðkoma. Líkami Jóns var allur sundur slitinn, og lágu partar af honum um allt hús.... Húsin voru síðan kölluð Parthús."
Þessi sögn er gott dæmi um örnefnasögu, er skapast til skýringar á nafni beitarhúsanna, sem líklega eru kennd við Valþjófsstaðapartinn, fjórðung jarðarinnar, en húsin hafa tilheyrt honum. Vegna sögunnar um Parthúsa-Jón voru margir hræddir við að fara framhjá Parthúsum í myrkri, og eru til um það ýmsar skemmtisögur, en ekki er þess getið að þar hafi orðið vart við reymleika. (Þjóðs Sigf. Sigf., 2. útg, 5, 394).
Stutt fyrir utan Parthús eru önnur beitarhús niður við Fljótið, sem Stekkhús heita. Þar er gamall túngarður og aðrar mannvistarleifar, sem benda til að þar hafi eitt sinn verið búseta. Þegar verið var að byggja nýbýlið á Droplaugarstöðum bjó fjölskyldan á Stekkhúsum, og var eldhúsið í einu fjárhúsinu.

Droplaugarstaðir: Svo heitir nýbýli, sem byggt var úr landi Arnheiðarstaða árið 1942 út við Hrafnsgerðisá af Hallgrími Helgasyni og Laufeyju Ólafsdóttur. Bærinn er kenndur við Droplaugu fornkonu og hefur það farið fyrir brjóstið á sumum, enda er það dálítið villandi. Fyrir ofan bæinn er skógarreitur frá um 1950, og tengist öðrum stærri utan við Hrafnsgerðisána, sem er um áratug eldri. Fjölbreyttur trjágróður eru í þeim báðum, og í ytri reitnum eru til dæmis flestar furutegundir, sem fluttar hafa verið til landsins. Myndar skógur þessi skemmtilega andstæðu við kletta og grjóturðir, sem eru mikið áberandi á þessum slóðum, því að þarna er hvassviðrasamt og hefur orðið mikill uppblástur, enda landið þrautbeitt um aldir. Örnefnið Kolásar fyrir ofan bæinn bendir þó til skógar sem þar óx fram á 18. öld. [Um aldamót var neðra landið nær alvaxið nýskógi.]
Neðan við bæinn eru Kiðuklettar, en þar vex sigurskúfur villtur, kallaður kiðugras. Innan við Hrafnsgerðisána, neðan vegar, eru nokkrir botnar í röð, gamalt gil árinnar, sem hún hefur yfirgefið fyrir löngu. Þar er ennþá gangandi lítil vatnsaflsvirkjun til heimilisnota frá um 1950, og önnur slík er í Geitagerði.
Arnheiðarstaðir og Droplaugarstaðir eru æskuheimili höfundar þessa kvers.
Lokið fyrstu gerð, 3. ágúst 1995. (Síðast leiðrétt 14. 2. 1997). H. Hall.

 

Heiðveig Agnes Helgadóttir

© Helgi Hallgrímsson 2021