08 November, 2021
# Topics

Skrúðgarðar í Fljótsdal

08 November, 2021

Samantekt um skrúðgarða í Fljótsdal

Helgi Hallgrímsson tók saman (2011-2014).
Úrval þessa pistils birtist í grein höf.: Skrúðgarðar í Fljótsdal á 20. öld,
í Garðyrkjuritinu 2021. Þar er fjallað um 5 garða.Fyrstu tilraunir með trjárækt í görðum voru líklega gerðar á Akureyri um miðja 18. öld. Eru líkur til að enn lifi reynitré frá þeim tíma við Laxdalshús, sem búið er oftar en einu sinni að höggva niður. Í næstu atrennu, 1820-1830, var stofnað til trjágarða á Möðruvöllum, Skriðu og Fornhaga í Hörgárdal, þar sem m.a. var plantað reyniviði, lifa nokkrir þeirra enn og hafa myndað nýja stofna.
Undir lok 19. aldar fóru skrúðgarðar að verða algengir í kaupstöðum, svo sem á Akureyri og í Reykjavík, einnig á Ísafirði og Seyðisfirði, þar sem Danir og Norðmenn ruddu brautina. Garðyrkjufélag Íslands var stofnað 1885 að frumkvæði Schierbecks landlæknis, og var skrúðgarðyrkja á dagskrá þess frá upphafi. Lærisveinn hans var Einar Helgason (1897-1935), fæddur á Kristnesi í Garðsárdal, Eyjafirði, búfræðingur frá Eiðum 1887 og garðyrkjufræðingur frá Vilvorde í Danmörku. Hann var garðyrkjuráðunautur Búnaðarfélags Íslands 1898-1920, síðan garðyrkjustjóri í Reykjavík, rak þar gróðrarstöð og ritaði fjölda greina og nokkrar bækur, m.a. Bjarkir, um skrúðgarða fyrir almenning, sem út kom 1914.
Á Akureyri voru stofnaðar gróðrarstöðvar um aldamótin 1900 og síðan Lystigarður Akureyrar 1912. Jón Rögnvaldsson lærði garðyrkju í Kanada, gerðist frumkvöðull skrúðgarðyrkju í Eyjafirði og kom upp fyrsta grasagarði á Íslandi í Fífilgerði, er síðar var fluttur í Lystigarðinn. Hákon Bjarnason (1979) telur að Wathnes-bræður og aðrir Norðmenn er settust að á Austfjörðum á síðari hluta 19. aldar hafi byrjað þar skrúðgarðyrkju, og eflaust komið með plönturnar frá Noregi.

Skrúðgarðrækt í Fljótsdal


Um aldamótin var hafin skógrækt á Hallormsstað. Árið 1902 var girt þar svæði sem kallað var Mörkin, að frumkvæði Dananna Carls Ryder og Christians E. Flensborg, og hafið þar uppeldi plantna. Árið 1908 voru sett lög um skógrækt og Skógrækt ríkisins sett á fót, og 1909 var Guttormur Pálsson skipaður skógarvörður á Hallormsstað. Þessi atburðarás fór ekki framhjá Fljótsdælingum, sem þegar í upphafi aldar fóru að stofna til garða við íbúðarhús og planta þar blómum og trjám. Í þessu efni voru þeir á undan öðrum sveitum á Héraði, og gætti þar vafalaust áhrifa frá Hallormsstað. Einnig má hafa í huga, að birkiskógar, með reynitrjám, eru á nokkrum jörðum í Fljótsdal, og víða trjágróður í klettum og giljum.
Á 19. öld og fyrstu áratugum 20. aldar voru víða matjurtagarðar á sveitabæjum, og voru þeir oftast staðsettir í skjóli við bæjarhúsin, í “bæjarrústinni” eins og það var kallað. Kringum þá voru veggir af grjóti og torfi til skjóls og til að verja þá fyrir beitargripum. Sést einn slíkur garður á teikningu af bænum Egilsstöðum í Fljótsdal, sem Vigfús Sigurðsson dró upp árið 1899 (póstkort). Telja má víst að fyrstu tilraunir til skrúðgarðyrkju í sveitum hafi farið fram í þessum görðum, og sumir skrúðgarðar í Fljótsdal eru sprottnir upp úr þeim.
Á fundi í Ungmennafélagi Fljótsdælinga 29. ágúst 1915 hélt Sigmar Guttormsson (Þormar) í Geitagerði erindi “um uppruna og eðli skrúðgarða.” Hann hafði lært garðyrkju í Danmörku. Árið 1929 var hann fenginn til að gera skipulagsuppdrátt af gróðursetningu á lóð félagsins á Valþjófsstað. (Fundargerðabók UMFF).
Einar Helgason ferðaðist um Austurland 1920, og ritaði grein um "Garðyrkju á Austfjörðum" í Garðyrkjuritið 1922, sem fjallar bæði um matjurtarækt og blóma- og trjárækt. Matjurtagarðar eru þá á mörgum bæjum í Fljótsdal, sumsstaðar allstórir. Hann getur um skrúðgarða á Arnheiðarstöðum, Geitagerði, Brekku, Hamborg, Skriðuklaustri og Valþjófsstað. Á Klaustri eru þá tvær reynihríslur, 22 ára gamlar, þ.e. frá 1898. Annars voru elstu garðarnir aðeins um 10 ára gamlir,þ.e. frá um 1910. Einar ritar:

Jeg held jeg megi fullyrða að hvergi til sveita hjer á landi sje garðræktin í meiri blóma en á Upp-Hjeraði og í Fljótsdal. Þar voru víðast á bæjum stórir og vel hirtir kartöflu- og rófnagarðar og á mörgum bæjum myndarlegir skrúðgarðar. - Þrifalegt umhorfs, túnið sljett. Gestir sem ríða í hlað í sólskini og sumarblíðu, verða hrifnir af sveitasælunni íslensku, taka undir með heimilisfólkinu og segja: „Hjer vil jeg una alla mína daga.“ (Einar Helgason: Garðyrkja á Austfjörðum. Garðyrkjuritið 1922, bls. 24).

Vorið 1930 ferðaðist Svava Skaftadóttir garðyrkjukona um Austurland á vegum Kvenfélagasambands og Búnaðarfélags Íslands, og leiðbeindi um garðyrkju og trjárækt. Hún kom þá m.a. í Fljótsdal, en ekki er höfundi kunnugt um neina skýrslu frá hennar hendi.
Í bæklingi Guttorms Pálssonar um Hallormsstaðaskóg 1931 er kafli sem heitir "Trjárækt í nágrenninu". Þar farast honum svo orð:

Út frá skógræktinni hér á Hallormsstað mun óhætt að segja, að fluzt hafi veruleg vakning um nágrennið, sem ýtt hafi undir menn að koma upp trjágörðum heima við bæina og eins við hús í kaupstöðum og sjóþorpum. Eg hygg að Austurland standi í þessu efni framar öðrum landsfjórðungum. Úr skóginum hér hefir mönnum gefist kostur á birkinýgræðingum með jarðhnaus, en það er langöruggasta efnið sem völ er á. Hefir það víða borið ágætan árangur.[...] Aðalstofninn í trjárækt í görðum eru innlendu tegundirnar, birki og reyniviður. Útlendar trjátegundir, svo sem fura, greni og barrfellir, eru þó nokkuð víða í görðunum og hafa dafnað allvel sumstaðar. [...] Sumstaðar í Fljótsdal hafa barrtrén vaxið vel, t.d. á Arnheiðarstöðum og Geitagerði. Þær hafa reynst miður annarstaðar á Héraði, enda eru skilyrði fyrir trjárækt bezt í Fljótsdal. (Guttormur Pálsson: Hallormsstaður og Hallormsstaðaskógur. 1931, bls. 68-69).

Um 1930 var Guttormi kunnugt um trjágarða á 46 bæjum á Héraði, og segir hann þá elstu vera 22 ára, þ.e. frá 1908. Um þriðjungur þeirra var í Fljótsdal, eða 15 garðar, en þá voru 25 bæir í sveitinni. Á sama tíma getur hann um 8 garða í Vallahreppi, 6 í Tungu, 6 í Skriðdal, 5 í Eiðaþinghá, 3 í Hjaltastaðaþinghá, 2 í Fellum og 1 á Jökuldal. Hér er eitthvað vantalið af görðum í Fellum, sem hafa líklega verið 4-5 á þessum tíma. Guttormur segir garðana á Arnheiðarstöðum, Geitagerði, Bessastöðum, Skriðuklaustri og Valþjófsstað vera meðal þeirra elstu og fegurstu. Hann telur æskilegt að garðarnir væru stærri í sveitum, þar sem landrými er nóg. "Þá fyrst er veruleg ánægja að trjágarðinum, þegar hann fer að líkjast dálitlum skógarteig. Og það myndi gera þá laðandi og verða meiri hvatning til stærri framkvæmda í trjárækt."
Árið 1935 ritar Theodór Árnason:

En svo að segja við hvern bæ í Fljótsdal er ræktaðir trje- og blómagarðar, flestir í hlaðinu, en sumsstaðar mynda þeir vinkil á tvo vegu umhverfis bæjarhúsin. Flestir eru garðar þessir 18-25 ára gamlir, eða frá tíð Jónasar Kristjánssonar, sem læknir var á Brekku alllengi, og þykir mér líklegt að hann hafi verið frumkvöðull að þessari prýði. Sumir eru garðar þessir mjög fagrir og skipulagðir - og þrastahjón, ein eða fleiri, halda jafnan til í hverjum garði. Fegurstur og skipulegastur fanst mjer garðurinn í Geitagerði. Þar eru m.a. há og velvaxin nálatrje. Á Arnheiðarstöðum er líka sjerstaklega fallegur garður, enda hefir frú Sigríður mikið yndi af að hirða hann vel, og er sjerlega natin við að rækta þar blóm. Íslenska rós sá jeg þar í fyrsta sinn, og er hún uppáhald gömlu konunnar. (Th. Árnason: Hallormsstaðaskógur og Fljótsdalur. Lesbók Mbl. 10 (29), 21. júlí 1935. 

Í bókinni Sveitum og jörðum ("Búkollu"), II. bindi (1975) er getið um skrúðgarða á 14 bæjum í Fljótsdal. Samkvæmt þeim upplýsingum hófst trjáplöntun á Valþjófsstað „í þáverandi kirkjugarði“. Líklega er þar átt við gamla kirkjugarðinn heima á bænum, sem var lagður niður um 1890, en elstur er garðurinn í Geitagerði, frá 1906, þeir næstu frá árunum 1914-15 og þeir yngstu frá 1920-26. Þessi ártöl hafa verið rituð eftir minni ábúenda og því er aldur nokkurra garða of lágur. Sumir þessara garða sjást á bæjarmyndum í bókinni, og líka nokkrir sem ekki er getið. Í síðari útgáfu bókarinnar (1995) sjást auk þess garðar eða trjálundir á nokkrum bæjum til viðbótar.
Í upptalningum Guttorms er ekki gerður greinarmunur á trjágörðum og skrúðgörðum. Í "Búkollu" eru flestir þessir garðar nefndir "trjágarðar". Aðeins á Arnheiðarstöðum er garðurinn kallaður "skrúðgarður" og í Geitagerði og á Bessastöðum "trjá- og blómagarður." Ætla má að einhver garðblóm og runnar hafi í upphafi verið í flestum görðunum, og nokkrir elstu garðarnir voru skrúðgarðar, þar sem auk trjánna voru ræktaðir runnar af ýmsu tagi og margar tegundir skrautjurta, sumir fluttu jafnvel íslenskar blómjurtir í garðinn. Það voru einkum húsfreyjur sem sinntu um garðana, og lögðu sig fram við að rækta þar blóm og tré. Nokkrar þeirra lögðu metnað sinn í að halda sem fegursta garða og kepptust við að ala sem flestar tegundir blóma í þeim. Þetta kom illa niður á þyrnirósinni, sem aðeins óx villt á einum stað á Héraði, eins og síðar getur.
Þegar þessar áhugasömu konur féllu frá minnkaði blómaræktin, tegundum fækkaði, og eftir miðja 20. öld voru lítið annað en runnar og tré í görðunum, og jafnvel þeim hrakaði er á öldina leið. Ástæðan var m.a. fækkun vinnufólks, sem leiddi til meira annríkis húsmæðra, innan- sem utanhúss. Sumsstaðar var þess ekki gætt að halda við girðingum og skepnur komust í garðana og skemmdu trén. Annar vágestur trjánna er norðvestan stormur, sem getur orðið mjög sterkur á Norðurbyggð Fljótsdals. Hefur hann þverbrotið barrtré í nokkrum görðum. Elstu trén í görðunum eru nú orðin meira en aldargömul og þá fara birki- og reynitré að sýna ellihrörnun, nema þau séu höggvin niður og fái að endurnýja sig. Þannig eru flest reynitré við gamla húsið á Hrafnkelsstöðum nú dauð. Aðeins í Geitagerði hefur garðinum verið haldið nokkurn veginn í sama horfi.
Á síðari hluta 20. aldar voru settir upp garðar við nokkur ný íbúðarhús og nýbýli, og má segja að með þeim hafi skrúðgarðyrkja í Fljótsdal gengið í endurnýjun lífdaga. Aðeins á nýbýlinu Vallholti tókst þó að koma upp skrúðgarði sem jafnast á við garðana á fyrri hluta aldarinnar. Nýlega hefur nærumhverfi Gunnarshúss á Skriðuklaustri verið skipulagt sem trjá- og skrúðgarður, en það er opinber framkvæmd. Auk þess hafa tré sumsstaðar verið gróðursett við bæi, einkum alaskaösp, sem hefur verið fljót að ná sér á strik.
Athyglisvert er, að á sama tíma og trjágörðum hrakaði við bæina um miðja 20. öld, jókst áhugi fyrir skógrækt, og þá var á nokkrum bæjum komið upp litlum skógarreitum, m.a. á Hrafnkelsstöðum, í Geitagerði og á Droplaugarstöðum, svo og á nokkrum bæjum í Fellum. Um 1970 hófst svo skógrækt í Fljótsdal, sem þáttur í búskap. Á næstu áratugum voru teknar stórar spildur á flestum jörðum til skógræktar. Í fyrstu var nær eingöngu plantað lerki, og setja lerkiskógar nú mikinn svip á dalinn. Auk þess hefur birki sáð sér mikið á eyrar og hólma í Miðdalnum, og er þar víða á góðri leið að mynda skóg. Þá hefur blómgróður stóraukist vegna friðunar og minnkandi beitar. Þannig hefur ásjóna landsins tekið stakkaskiptum. Í stað hinna litlu trjálunda við bæi er Fljótsdalur að skrýðast skógi.

Vallholt

Nýbýlið Vallholt var stofnað 1946-1948 af Eiríki M. Kjerúlf og Droplaugu J. Kjerúlf, í ytri hluta Hrafnkelsstaðalands, skammt frá beitarhúsum á fornbýlinu Hrólfsgerði. Bæjarhúsin standa uppi á háum hól eða höfða, sem virðist mjög áveðurs, en óvíða er jafn fagurt um að litast af byggðu bóli. Um 1960-1965 var komið þar upp allstórum skrúðgarði, sunnan og vestan við íbúðarhúsið, og er neðri hluti hans í brattri brekku vestan í hólnum. Þar ræktaði Droplaug upp fegursta skrúðgarð á þeim tíma í sveitinni, og annaðist allt til aldamóta, og fetaði þannig í fótspor ömmu sinnar, Sigríðar á Arnheiðarstöðum, sem fóstraði hana upp. Í þennan garð var plantað mörgum trjátegundum, m.a. birki, reyni, lerki, alaskaösp, blágreni, fjallaþin og stafafuru. Hafa flest þeirra vaxið prýðilega, þrátt fyrir skjólleysið, m.a. höfðu blágrenitrén náð 6-7 m hæð um 1995. Sagt er að Jörgen faðir Droplaugar hafi komið með fyrsta reynitréð úr Ranaskógi.
Einnig ræktaði Droplaug þar margar tegundir runna og garðblóma. Þar að auki safnaði Droplaug allskonar skrautsteinum og stillti upp í garðinum og á hlaðinu austan við hann. Þannig hefur garðurinn í Vallholti mikla sérstöðu. Enn er talsvert af fjölærum blómum og runnum í garðinum, þó lítið hafi verið um hann hugsað síðan Droplaug hætti að geta sinnt honum.

Við Ólöf Arngrímsdóttir skoðuðum garðinn 14. sept. 2011. Hann er sunnan og vestan við íbúðarhúsið, austurhlutinn á hrygg, en vesturhlutinn í brekku móti vestri, hann er um 45 m langur og 15-20 m breiður. Mest er þar af birkitrjám og reyniviði og eru þau tré flest orðin 7-8 m há. Tvístofna reynitré í miðjum garði er þó allt að 10 m hátt, og eitt aspartré í SA-horni álíka hátt. Stutt fyrir innan húsið eru 4 blágrenitré í röð A-V, 7-8 m há, og einn fjallaþinur austast í röðinni, álíka hár. Í SA-horni er eitt blágrenitré, um 5 m hátt, og tvær aspir, 5-7 m. Rétt við húsið er margstofna reynitré á hellulagðri stétt, um 7 m hátt, líklega það elsta í garðinum. (Stafafura var ekki skráð.) Einn runni af þyrnirós er við suðurstafn hússins og tveir af annarri rósategund, ennfremur rannfáng. Meðfram girðingu garðsins utantil að austan er gerði af birkikvisti og röð af ribsrunnum við girðingu að vestan, auk þess er þar einn þyrnirunni (Crategus) og einn mispilrunni (Coteonaster) og smávegis af rabarbara og ætihvönn. Annars er garðurinn með grasbotni, þar sem vex dálítið af umfeðmingi, blágresi, bláklukku og dagstjörnu. Í smávörðu á hlaðinu eru ennþá nokkrir skrautsteinar. Ofan við garðinn er skjólbelti af alaskavíði og viðju og búið að planta birki neðan við hann.

Hrafnkelsstaðir


"Trjágarður heima við frá 1915 og töluvert gróðursett í hvammi ofan við bæinn, aðallega barrviðir," segir í "Búkollu". Guttormur getur um garðinn 1931. Elsti hluti garðsins er ofan við gamla steinhúsið, sem byggt var 1916-1918, skv. "Búkollu", suðvestan við gamla torfbæinn, sem enn sjást leifar af í grjótveggjum utan við húsið. Einar Helgason fór ekki um Suðurbyggð Fljótsdals 1920, og getur því ekki um garðinn. Metúsalem Jónsson Kjerúlf frá Melum settist að á Hrafnkelsstöðum, með Guðrúnu Jónsdóttur konu sinni, 1904, og keypti jörðina af Landssjóði 1911. Þau hjón áttu 17 börn, en aðeins 12 komust á fullorðinsaldur, og ólu auk þess upp þrjú fósturbörn.
Metúsalem var mikill sauðfjárbóndi en engu að síður þekktur fyrir áhuga sinn á trjá- og skógrækt og eignaðist nú jörð með einum fegursta birkiskógi landsins, Ranaskógi, þar sem var mikið af myndarlegum reynitrjám. Ingimar Óskarsson grasafræðingur ferðaðist um Austurland sumarið 1927 og birti ferðasögu í blaðinu Degi sama ár. Þar ritar hann:hrafnkelsstadir

“Í báðum leiðum var komið við á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal. Þar býr stórbóndinn Metúsalem Kerulf. Það sem eg dáði þar mest var hinn innilegi áhugi búanda á trjá og blómarækt. Honum var blómagarðurinn sinn einn óhjákvæmilegur þáttur í búskapnum. Fyrir tveim árum [þ.e. 1925] hafði hann flutt reynitré í garðinn; var það tekið úr svonefndum Ranaskógi, sem liggur alllangt norðan bæjar. Tré þetta var einkar fallegt, 3-4 metrar á hæð, teinrétt og vel limað, og virtist ekki hafa beðið minnsta tjón við flutninginn. “ (Dagur, 10. árg, 41. tbl. 1927).Í minningargrein um Metúsalem, sem Páll á Hallormsstað ritaði, segir svo: "Skömmu eftir að hann [Metúsalem] byggði íbúðarhúsið, 1914-15, hófst hann handa að koma upp trjágarði. Flutti hann árið 1916 tuttugu birki- og reyniplöntur með hnaus, 1-3 m háar, sjálfssáðar, utan úr Ranaskógi. Einnig fékk hann á þeim árum reynivið í Gróðrarstöðinni á Hallormsstað, er hann gróðursetti á öðrum stað við bæinn. Þau eru vaxin upp af fræi úr Bæjarstaðaskógi." (Páll Guttormsson: Metúsalem J. Kjerúlf, Hrafnkelsstöðum. Minning. Íslendingaþættir Tímans, vorið 1971).

Sigurður Blöndal ritaði ítarlega grein um skógrækt Metúsalems í jólablað Austra 1997. Þar vitnar hann í fyrrnefnda minningargrein Páls en segir svo m.a.:

metusalem i gardinum a hrafnkelsstodumNú standa þessi reynitré í þéttum lundi bak við gamla íbúðarhúsið. Stærsta tréð var mælt núna í byrjun nóvember [1997], með stöng, sem er hárnákvæmt. Það reyndist 13,83 m á hæð og þvermál bolsins í brjósthæð (1,3 m frá jörð) 35 og 46 sm, krossmælt. Þetta er hæsta reynitré á Íslandi, eftir því sem mér er kunnugt. Um langt árabil safnaði Páll Guttormsson fræi af reynitrjánum á Hrafnkelsstöðum, til þess að ala upp plöntur í gróðrarstöðinni á Hallormsstað. Afkomendur þeirra vaxa nú í görðum um allt Austurland og í Reykjavík, á Akureyri og Húsavík. (Sig. Blöndal: Skógrækt Metúsalems á Hrafnkelsstöðum. Austri, jólin 1997.


Sama kemur fram í grein Sigurðar: Ilmreynir á Upphéraði og í Fjörðum, í jólablaði Austra 1998. Sbr. mynd í bókinni Íslandsskógum, 1999, bls. 70.
Eins og sjá má af þessari lýsingu á elsta hluta garðsins standa þar risastór reynitré, mjög þétt, sem gnæfa hátt yfir gamla húsið, sum einstofna en önnur tví- eða þrístofna og var eitt þeirra lengi talið það hæsta af þessari tegund á Íslandi, um 14 m, með allt að 45 sm stofnþvermáli. Í apríl 2000 mældist það 14,20 m, en haustið áður mældist reynir í Minjasafnsgarðinum á Akureyri, 14,30 m og er nú talinn hæstur. Líklega eru báðir nú komnir uppundir 15 m hæð. Reyniberjum var safnað af Hrafnkelsstaðatrjánum 1947, 1953 og 1958 fyrir gróðrarstöðina á Hallormsstað. (Sig. Blöndal: Reyniviður (Sorbus acuparia L.) á Íslandi. Skógræktarritið 2000, 1. tbl. bls. 21 og 34).
Síðar gróðursetti Metúsalem nokkur birki- og reynitré í bæjartóttinni utan við húsið, sem eru að sjálfsögðu lægri. (Gamla steinhúsið er það elsta sem enn stendur í Fljótsdal).
Árið 1946 girti Metúsalem svo hvamm í hlíðinni ofan við bæinn, og fékk þar um hálfan hektara til skógræktar, og var það kallað Lundur. Þar plantaði hann á næstu tveimur áratugum ýmsum tegundum barr- og lauftrjáa, samtals 11 tegundum. Sigurður Blöndal hefur lýst þessum teig með vísindalegri nákvæmni í grein sinni um skógrækt Metúsalems í Austra 1997. Þar segir hann sitkagrenitré þar vera það næsthæsta í landinu, 17,88 m (Í ársbyrjun 2004 var það 19,6 m), og 13,5 m birkitré þar vera það hæsta í landinu. Einnig mældist þar þingvíðir, 15,30 m á lengd, sem Sigurður taldi Íslandsmet. Merkilegast fannst honum þó að finna þarna þrjú tré af hvítþini (Abies concolor), sem er fágætur á Íslandi, þau voru ekki há en ósködduð. Við Lundinn er minnismerki um þau Hrafnkelsstaðahjón.
Kringum 1955 girti Metúsalem um 1 ha stóran reit við Kiðuhól í miðjum Ranaskógi, og plantaði þar lerki og ýmsum grenitegundum, til minningar um Pál bróður sinn. Hafa þau tré einnig náð mjög góðum vexti, 1997 voru blágreni og sitkabastarður komin þar í um 11 m hæð og síberíulerki í nálægt 14 m, skv. grein Sigurðar Blöndals.
Jón M. Kjerúlf og Lára Ólafsdóttir byggðu nýtt hús (nýbýli) á Hrafnkelsstöðum 1954-55 á bæjarhólnum fyrir neðan gamla húsið, og var þar einnig settur skrúðgarður sem umlykur húsið á þrjár hliðar. Í hann var aðallega plantað reynitrjám, en líka ýmsum runnum og garðblómum. Mun Lára einkum hafa annast þann garð. Málfríður Benediktsdóttir, sem tók við búinu 1970, ásamt Hirti E. Kjerúlf, segir að Lára hafi sáð reyniberjum úr gamla garðinum í matjurtagarð innan við bæinn og alið upp reynitrén sem sett voru í skrúðgarðinn. Sjálf segist hún hafa bætt í hann mörgum tegundum blóma, sem hún sáði til, en hún var þá í Garðyrkjufélagi Íslands. Hún plantaði einnig lerki- og birkitrjám á hólinn neðan við húsið og í lítinn garð við Bæjarlækinn niður á bakka Jökulsár. (Hún segir að Guðrún, kona Metúsalems, hafi komið upp litlum blómareit sunnan undir gamla steinhúsinu, þar var sigurskúfur, sem hún hafði mikið uppáhald á, en er nú horfinn).
(Úti á Gilsáreyri hafði Páll J. Kjerúlf sinn sérstaka trjáreit, eingöngu með dauðum trjám eða rótarhnyðjum. Hann var ekki eins og fólk flest og hafði sína sérstæðu aðferð við garðyrkju. Það myndi nú vera kallað listaverk eða gerningur.)

Við Ólöf komum í Hrafnkelsstaði 14. sept. 2011, og litum á garðana og trén við bæinn. Gamli trjágarðurinn við steinhúsið frá 1916 er í bágbornu ástandi. Í bæjartóttinni utan við húsið eru tvö birkitré og tvö reynitré, 5-6 m há, sæmilega lífleg, en í eldri hlutanum ofan við húsið er um helmingur trjánna dauður eða því sem næst. Þarna eru 8 reynitré, þar af tvö tvístofna frá rót, önnur einstofna, og líklega öll 10 m á hæð eða meira. Eitt er steindautt og fallið, og 2 eða 3 hálfdauð (barkflögnuð neðantil), 4 sæmilega lifandi, þar á meðal tréð sem lengi var talið það hæsta í landinu (um 15 m), það stendur austast í garðinum og er með mikla krónu en greinafátt. Syðst í garðinum er tvístofna birkitré og liggur annar stofninn fast upp að reynitré er þar stendur. Botn garðsins var þakinn kindataði og arfa.
Utanvert við garðinn er tótt úr gamla torfbænum, með grjóthlöðnum veggjum sem standa ennþá nokkuð vel að norðan og vestan, og á vesturvegg hangir skápur með hillum, líkast til eldhússkápur. Annars er garðurinn umluktur risastórum timburhlerum (líklega frá virkjuninni), og segist Hjörtur hafa notað hann sem skýli fyrir lambfé á vorin. Hann segir trén hafa farið svo illa af reyniátu og elli, sauðféð skemmi þau ekki, og hesta hafi hann ekki átt síðustu 20 árin.
Við yngra húsið eru nær eingöngu reynitré, 17 að tölu, sem umlykja húsið á þrjá vegu, 6-7 (8) m á hæð, en 3 birkitré eru við NV-enda hússins. Engir runnar eða blóm eru lengur í garðinum, enda er hann ógirtur og sauðfé gengur óhindrað um hann. Fyrir neðan og utan húsið eru allmörg birki- og reynitré, 3-5 m á hæð, sum nokkuð barkskemmd, en þó öll sæmilega lífleg, einnig nokkur lerkitré, og í brattri brekku eru 3 gráreynitré í röð 3-4 m á hæð, vel á sig komin. Á smátanga við Bæjarlækjarósinn eru nokkur lerkitré, ca. 3-5 m á hæð, leifar af garði Málfríðar. Við litum einnig í Lundinn ofan bæjar. Innst og neðst í honum eru risatré af sitkagreni, um 20 m á hæð, með berum flatrótum. Sitkagreni er mest áberandi í reitnum, en auk þess er þar talsvert af lerki, birki og fáein reynitré, en við skoðuðum reitinn aðeins neðst. Þar vex talsvert af garðabrúðu, og var það eina aðflutta blómjurtin sem við sáum á Hrafnkelsstöðum. (Sigurskúfur sást ekki). Reynitrén við yngra húsið voru með miklum berjaklösum, sem voru brúnir og sumir byrjaðir að roðna.

Víðivellir ytri

Í "Búkollu" er trjágarður þar sagður vera frá 1926. Hann hefur líklega verið sunnan við timburhúsið, sem byggt var 1920. Árið 1945 var byggt steinhús spölkorn utar og ofar, og loks annað steinhús, ennþá utar og ofar, árið 1970, og við það er nýlegur garður. Fjögur birkitré og eitt reynitré stóðu ennþá í gamla garðinum 1990, óvarin á túninu. Að sögn Rögnvaldar Erlingssonar voru þarna fleiri tré, sem eyðilögðust þegar kindur komust í garðinn að vetrarlagi og skófu börk af þeim, og þau sem eftir standa eru líka dálítið barkskemmd. Utan við bæinn var eitt sinn kirkja og kirkjugarður, sem var sléttaður. Árið 1990 var þar upphækkaður grasflötur með nokkrum ungum lerkitrjám.
Árið 1964 var byggt "nýbýli" í neðra jaðri Víðivallaskógar, neðan við beitarhúsin Hlíðarhús, og kallast það Víðivellir ytri I. Þar hefur líka verið plantað trjám við húsið, m.a. alaskaösp og sitkagreni. (Í Klúku er mér ekki kunnugt um skrúðgarð. )

Víðivellir fremri

Guttormur getur um skrúðgarð þar 1931; hefur hann líklega verið við bæinn, en síðan eyðst. Á mynd í "Búkollu" (1975) sést vönduð girðing við íbúðarhúsið, sem byggt var 1954-55, en engin tré sjáanleg. Á mynd í seinni útgáfu bókarinnar (1995) eru tré við húsið komin í á að giska 4-5 m hæð. Á hólkolli innan við bæinn og gripahúsin (fjósið) er dálítill lundur, með lerki- og grenitrjám, sem Bergljót Jörgensdóttir og Hrafnkell Björgvinsson plöntuðu 1961, í tilefni af fæðingu Jörgens sonar síns. Skv. mynd sem ég tók sumarið 1988, voru þau þá orðin 6-7 m há (sbr. líka myndir frá 1991 og 2012).

Víðivallagerði

Skv. "Búkollu" er trjágarður þar frá 1921 eða 1922. Hann hefur verið settur sunnan og neðan við torfbæinn og frammihúsið sem byggt var um 1900, og nú er hann sunnan við steinhúsið sem byggt var 1936. Þegar ég skoðaði garðinn 9. ágúst 1990, voru í honum 9-10 birki- og reynitré, sem stóðu þétt saman á litlum bletti, nokkuð hávaxin, hæst var einstofna og beinvaxið birkitré, líklega hátt í 10 m. Reynitrén voru flest með mikið sködduðum berki og sum jafnvel dauð, enda var garðurinn alveg óvarinn fyrir skepnum. Hefðbundinn búskapur lagðist niður 1990, og 1992 var öll jörðin beitarfriðuð og tekin til skógræktar á vegum Héraðsskóga. Um 2010 var búið að planta lerki, stafafuru, alaskaösp o.fl. trjátegundum í mestallt neðra landið, nema túnin. Þegar ég fór þar um 2. ágúst 2012 sýndist mér gömlu trén við húsið vera horfin.

Sturluflöt

Hef ekki fundið neinar heimildir um skrúðgarð þar. Samt er þar nú trjálundur fast við íbúðarhúsið að sunnanverðu. Þar eru allmörg, einstofna og beinvaxin reynitré, 7-9 m há, og eitt lerkitré, sem er hæst (9-10 m) og fáein birkitré, lægri. Þau standa mjög þétt. Íbúðarhúsið var byggt 1937 og líklega er garðurinn frá þeim tíma, en getur þó verið eldri. Hann er nú ekki girtur.

"Sunnan við íbúðarhúsið er lítill trjágarður, með 10-11 reynitrjám, tveimur birkitrjám og einu lerkitré. Reynitrén eru flest einstofna, en fáein tvístofna frá rót, öll með beinum stofnum, allt að 25-30 sm sverum, og allt að 8-9 m á hæð, með ljósum berki, sem er mikið klæddur dökkum skófum. Þessi tré eru furðu lík þeim sem eru við Húsmæðraskólann á Hallormsstað, og þau eru vafalaust af útlendum uppruna. Í sumar hafa þau verið óvenju rytjuleg, segir Sveinn bóndi, og þau voru furðu laufsmá og með gisnum laufum, fannst mér. Sveinn vildi kenna þetta reyniátu, en ég gat ekki séð merki hennar. Að vísu eru gömul barksár á nokkrum trjánna, sem eru á leið að lokast, og gætu verið af völdum hesta, en þau ættu ekki að hindra vöxt eða þrif trjánna. Lerkitréð er hæst í garðinum, líklega um 10 m, en birkitrén tvö eru heldur lægri en reynirinn, og ekki sérlega myndarleg. Garðurinn hefur verið ógirtur síðustu 1-2 áratugi. (Ferðalýsing 27. ágúst 2001).
Þegar ég kom í Flöt 2. ágúst 2012 var búið að höggva mikið af trjám í garðinum, svo þau sýndust þá heldur gisin, líklega til að fá betri birtu í húsið. Sveinn bóndi var ekki heima, svo ég fékk ekki aðra skýringu. (Jörðin var tekin til skógræktar um aldamótin 2000, og er búið að planta lerki, furu, birki o.fl. trjátegundum í hlíðina fyrir ofan túnið. Einnig er sjálfsáið birki víða að vaxa upp innan og ofan við túnið og utantil á Strútsdal, beinvaxið og fallegt).

Þorgerðarstaðir

Guttormur getur um garð þar 1931, og í "Búkollu" (1975) segir að þar sé garður frá 1926, endurnýjaður 1956. Gamli torf- og timburbærinn var um 100-150 m innar á túninu en núverandi íbúðarhús, sem byggt var 1939; þar eru nú fjárhús. Þar hefur trjágarðurinn frá 1926 líklega verið, en af honum sjást nú engar leifar. Garðurinn frá 1956 er heima við nýja bæinn, og sést á mynd í “Búkollu”, með nokkrum, ungum grenitrjám SV við húsið, og einu birkitré. Þegar ég kom þarna fyrst 1987 var þar aðeins lítill lundur með birki- og reynitrjám, um 5-6 m háum, ógirtur. Bærinn fór í eyði 1983. Á fjarmynd sem tekin var 2012 sést þessi lundur ofan við húsið, trén þá orðin um helmingi hærri en það. (Lerki o.fl. trjám hefur verið plantað í túnið umhverfis bæinn, m.a. í skriður, er féll a túnið um áramótin 1997-98).
Á Arnaldsstöðum er ekki getið um skrúðgarð og ekki sjást nein merki um slíkan garð þar. Bærinn fór í eyði 1992.

Langhús

Þar eru engar heimildir um skrúðgarð, en þar er samt dálítill lundur, skammt austan við steinhúsið sem byggt var 1938, um 10 x 10 m að flatarmáli, með um 10 birkitrjám, nokkuð þéttum en beinvöxnum; þau eru flest hvítstofna, líklega um 10 m há, og sum þar yfir. Lundurinn var ógirtur 1990, er ég skoðaði hann fyrst, og sum trén voru þá nokkuð barkskemmd, en þegar ég skoðaði hann 2012 bar lítið á því, og voru öll trén þá í ágætu standi, eitt þeirra áberandi beint og fagurt, með hvítum stofni (sbr. myndir ÓSU). Þessi lundur er líklega eldri en íbúðarhúsið frá 1938. Nýlegt timburhús stendur nú rétt vestan við trjálundinn, sem enn er ógirtur.
Á Glúmsstaðabæjum eru engar heimildir um skrúðgarða og þeirra sér engin merki, og sama er að segja um Glúmsstaðasel og Kleif. Sel fór í eyði 1990 og Kleif 1981.

Egilsstaðir

Þar eru heldur ekki heimildir um skrúðgarð, en um 1990 var kominn afgirtur trjáreitur milli gamla og nýja íbúðarhússins, með ýmsum tegundum runna og barr- og lauftrjáa, sem flest voru aðeins 2-3 m á hæð (sbr. mynd). Sumarið 2012 voru grenitrén (líklega sitkagreni) í þessum garði orðin 7-9 m há, en því miður skoðaði ég hann ekki nánar.
Á Þuríðarstöðum og Hóli eru engar heimildir um skrúðgarða og enginn vottur sást af slíkum görðum við þessa bæi um 1990. Hefðbundinn búskapur lagðist niður á þessum bæjum 1986, en síðan hafa eigendur, sem búa í Egilsstaðaþorpi, haft þar tómstundabúskap.

Valþjófsstaður

„Heima við bæinn óx upp fagur trjálundur, en það upphaf að, er presthjónin gróðursettu tré og blóm á leiði Margrétar dóttur sinnar í gamla kirkjugarðinum.“ (Ágúst Sigurðsson: Valþjófsstaðaprestar. Múlaþing 10, 1980, bls. 94.) „Þar er fallegur garður sunnan undir bænum, með blómjurtum og trjám. Hæstu trjen eru orðin meir en mannhæðar há,“ ritar Einar Helgason 1922.

Eflaust á Einar hér við gamla kirkjugarðinn. Í ‚Búkollu‘ II., 1975, segir að „fyrstu plönturnar“ hafi verið „gróðursettar í þáverandi kirkjugarð rétt eftir aldamót“. Þessi gamli kirkjugarður var austan (SA) við gamla torfbæinn, og var lagður niður laust fyrir aldamótin 1900, þegar búið var að gera nýjan grafreit við kirkjuna sem byggð var allfjarri bænum 1888. Sagt er að þá hafi krossar og legsteinar verið fluttir í nýja grafreitinn.
Garðurinn sést á mynd af bænum, sem tekin var líklega um 1925, og ber þar framan við stafn baðstofunnar, sem var syðsta húsið í bæjarþorpinu, þá girtur með vír að NA, trén orðin vel mannhæðarhá. Sbr. einnig teikningu Þórarins Þórarinssonar yngra, sem er gerð eftir annarri ljósmynd, tekinni SA frá. Þar sést vandlega hlaðinn grjótveggur við garðinn að sunnan. Sunnan við baðstofuna er torfveggur, líklega við matjurtagarð. Báðar myndir birtar í Lesbók Morgunblaðsins 22. jan. 2000 (H. Hall.: Höfuðbólin í Fljótsdal III. Valþjófsstaður.)
Guttormur (1931) getur um garð á Valþjófsstað. Á myndum sem Björn Björnsson tók af bænum, líklega 1939, sést að trén í kirkjugarðinum eru orðin jafnhá húsunum. Þar hafa trén haldist að mestu, þrátt fyrir að hann hafi lengi verið illa girtur. Þar eru aðallega birkitré, en austast í honum er stórt, margstofna reynitré, og eitt lerkitré í SA-horninu, hæst trjáa í garðinum, líklega um 8-9 m. Leifar af grjótveggnum sjást að sunnan og vestan. Bjarni Guðjónsson fv. prestur á Valþjófsstað segir að austurhluti kirkjugarðsins hafi verið sléttaður í tún, og hafi þar komið fram djúpar holur þegar kistur féllu saman í gröfunum, en hann átti þar tún og heyjaði þar.
Núverandi kirkjugarður
Var settur utan við timburkirkjuna sem byggð var 1888, og um 1890 hefur líklega verið byrjað að jarða í honum, og hætt að nota gamla garðinn (?). Árið 1966 var lokið við byggingu steinkirkju rétt sunnan við gömlu kirkjuna, sem þá var rifin. Fáum árum síðar var kirkjugarðurinn stækkaður suður fyrir kirkjuna og lykur nú um hana á alla vegu.
Fyrir miðja síðustu öld var farið að planta trjám á leiði í ytri hluta garðsins, og síðar á jöðrum hans. Nálægt miðu hans standa nú tvö lerkitré, sem eru hæstu trén í garðinum, á að giska 9-10 m, með 30-35 sm stofnþvermáli. Er annað þeirra á leiði Aðalbjargar M. Kjerúlf frá Hrafnkelsstöðum, sem lést 1949, en hitt á eða hjá leiði Jörgens og Íseyjar á Víðivöllum fremri (Jörgen lést 1965). Þriðja lerkitréð hefur verið sagað niður. Í miðjum garði er stórt, margstofna birkitré, á leiði Bergljótar Þorsteinsdóttur á Víðivöllum ytri, sem lést 1912.
Mörg reynitré eru í kirkjugarðinum, misstór og líklega af ýmsum aldri, það stærsta er austast í garðinum, rétt við leiði Guttorms og Sigríðar í Geitagerði, með þremur stofnum frá rót, og getur verið 8-9 m hátt, en stofnar þess hafa verið að drepast síðustu árin. (Búið að saga tvo). Önnur reynitré eru 6-7 m há, en ekkert þeirra sýnist vera á afmörkuðum leiðum. Meðfram girðingunni að norðan er svo röð af reynitrjám, 4-5 m, greinilega yngri en hin. Innan við stóra reynitréð eru 8 broddfurutré í tveimur röðum, það stærsta syðst, um 6-7 m, og með um 35 sm stofnþvermáli, mjög greinamikið. Um 1980-85 var plantað röð af alaskaöspum á suður- og austurmörkum garðsins, sem nú eru orðnar 7-8 m á hæð. Sumarið 2013 grisjaði höfundur talsvert af greinum og kalviði í garðinum (Skoðað og myndað 9. okt. 2012).

Trjárækt við Végarð: Árið 1912 fékk Ungmennafélag Fljótsdæla úthlutað tveggja dagslátta lóð, yst á Valþjófsstaðagrundum, til húsbyggingar og trjáræktar. Þar reis samkomuhús félagsins á árunum 1915-17, með síðari viðbótum, og loks félagsheimilið Végarður. Lóðin var girt um 1930 og byrjað að planta tvöfaldri röð af birkitrjám umhverfis hana, en illa gekk að halda girðingunni við og þar með líka plöntunum. Árið 1940 gaf Skógræktarfélag Íslands Ungmennafélaginu 300 trjáplöntur, sem settar voru í lóðina til viðbótar þeim fyrri. Árið 1961 fékkst leyfi til að stækka lóðina upp að klettabeltinu.
Á 40 ára afmæli félagsins 1950 gaf Þórarinn skólastjóri því 200 kr. er verða skyldi vísir að sjóði til að fegra lóðina kringum samkomuhúsið. Næsta vor ákvað aðalfundur að stofna Fegrunarsjóð UMFF, sem öllum væri heimilt að efla með frjálsum gjöfum, og tilgangur hans skyldi vera „að koma upp minningarlundi fallinna félaga við félagsheimilið“, þegar nægilegt fé hefði safnast til þess. Af því mun þó ekki hafa orðið.
Þann 1. ágúst 2000 skoðaði ég birkitrjáröðina, sem nú er aðeins á innri lóðarmörkum, innan við Végarð. Þar eru mörg myndarleg tré, sum einstofna, með allt að 30 sm stofnum, og allt að 7-8 m há, flest ljósstofna. Mörg trén bera þess merki að skepnur hafi skemmt börk þeirra. Á ytri mörkum eru engin gömul tré. Upp við brekkuna er lítill lundur af lerkitrjám. (Ferðadagbók 1. ágúst 2000 / Nánar í viðaukum við pistilinn).
Nýlegir garðar eru við íbúðarhúsið heima á Valþjófsstað (II), sem byggt var 1959, með aspartrjám sunnan við húsið, og sömuleiðis við Prestshúsið (Valþjófsstað I), sem byggt var 1944. Báðir þessir garðar sjást á myndum í Búkollu 2. útg. 1995, og er sá síðarnefndi þá rétt í byrjun, aðeins með nokkrum runnum. Hann umlykur nú húsið að sunnan og vestan, aðallega með alaskaösp og víðitegundum sem mynda skjólbelti utanmeð honum.

Skriðuklaustur

Líkur hafa verið leiddar að því að garðyrkja hafi verið stunduð við klaustrið á Skriðuklaustri, sem stofnað var 1493, og þá einkum ræktun lækningaplantna. Hafa m.a. fundist frjókorn af brenninetlu, græðisúru og villilauk, er staðfesta það. Líklega hafa þar einnig verið ræktuð skrautblóm sem tengjast helgihaldi, svo sem liljur og rósir. (Samson B. Harðarson: Klausturgarðar á Íslandi. Skriðukl., Fræðirit Gunnarsst. 1, bls. 101-111). Gömlu birkitrén á brún Klausturhamra, rétt fyrir neðan rústir klausturs og kirkju, og ríkulegur blómgróður í syllum þeirra geta verið til vitnis um þessa ræktun, enda hvíla þau álög á trjánum að þau megi ekki skerða, ella megi búast við skaða á stórgripum.
Því er athyglisvert að fyrsti vísir að skrúðgarði í Fljótsdal í seinni tíð varð líklega til á Skriðuklaustri. Á elstu bæjarmyndinni frá Klaustri, sem Vigfús Sigurðsson tók líklega um 1900 er búið að girða skot austan við baðstofuna og sunnan við timburhúsið (þverhúsið). Á mynd sem tekin var nokkrum árum síðar sést að búið er að gróðursetja fáein tré í skotið, og er það hæsta orðið um mannhæð [Ég finn nú ekki þessa mynd.] Þá bjuggu þar Halldór Benediktsson frá Heydölum í Breiðdal og Arnbjörg Sigfúsdóttir frá Klaustri. Halldór var þekktur fyrir ýmsar nýjungar í búskap og byggingum, og stundaði smíðar með búskapnum. Einar Helgason lýsir garðinum svo 1920:

"Í garði sunnan undir bænum eru 2 reynihríslur, rúmir 3 m. á hæð, 22 ára gamlar; 1 reynihrísla 7 ára gömul, nú 2,20 m., nokkur birki af sömu gerð, barrfellir, ribs, greni, og töluvert af blómjurtum vex þar í garðinum."


Ein af þessum reynihríslum er líklega reynitréð limamikla, sem ennþá stendur um 20 m sunnan við Gunnarshús. Reyninn hafa þau líklega sótt í Ranaskóg, þar sem nóg var af honum. Guttormur getur um garðinn 1931. Þá bjuggu á Klaustri hjónin Sigmar G. Þormar frá Geitagerði og Sigríður Halldórsdóttir frá Klaustri. Sigmar hafði lært garðyrkju í Danmörku. Á mynd frá um 1935(?) má sjá Sigmar og fjölskyldu undir trénu, sem þá er orðið 4-5 m, margstofna og limamikið.
Guttormur í Geitagerði segist muna eftir að skuggsýnt hafi verið í stofunni á Klaustri á sumrin vegna trjánna. Hann segir að Sigmar hafi komið með stóra ánamaðka (Lumbricus terrestris?) og sett í garðana á Klaustri og í Geitagerði, og þar eru þeir enn. Hann man líka eftir að verið var að skipta á garðblómum milli Klausturs og Geitagerðis, og var stundum sendur með þau í pottum. (Símtal 25. okt. 2011).
skriduklaustur garðurinn við gamla bæinnÁ mynd sem Björn Björnsson tók af bænum sumarið 1939, þegar íbúðarhús Gunnars var í byggingu, og birt er í Árbók Ferðafélags Íslands 1944, sést þessi gamli garður mjög vel. Elsti hluti hans er í góðu skjóli austan undir torfbænum og sunnan við timburhús Sigmars og Sigríðar. Þar er þéttur lundur, með á að giska 3-5 m háum trjám, það hæsta við hússtafninn líklega reynitré það sem enn er á lífi. Neðan eða austan við þennan lund sjást blóm og runnar á stangli og girðing utan um nokkuð stærri reit. Virðist því sem garðurinn hafi þá nýlega verið stækkaður.
Þessi tré voru við lýði meðan Gunnar og Franzisca bjuggu á Klaustri, eins og sjá má á ýmsum myndum frá þeim tíma, og Franzisca mun hafa komið upp skrúðgarði á flötinni sunnan undir íbúðarhúsi þeirra og austan við nýja fjósið. Þar voru kjöraðstæður því garðurinn naut skjóls af báðum húsum. Sagt var að Franzisca hefði verið mikil blómaræktarkona og líklega var plantað þar einhverjum runnum og trjám. Það var í samræmi við útlitsteikningu Fr. Höger af húsinu, frá 11. maí 1939, þar sem nokkur stór tré standa á þessum stað. (Sbr. póstkort Gunnarsstofnunar).
Á mynd sem Ólafur Jónsson ráðunautur á Akureyri hefur líklega tekið 1945-50 sést þessi garður, afmarkaður af lágu runnabelti að austan, en að sunnan af röð sex trjáa, þar sem gamla reynitréð er neðst og sýnist stærst, hin eru líklega einnig reynitré, því þau eru með beinum stofnum; inni í garðinum eru tvö birkitré, nokkuð lægri. Engin girðing er þá sýnileg utan um garðinn, sem er næsta undarlegt. Á litmynd Þorvarðar Jónssonar frá Bessastöðum frá 1955-60 eru enn 3-4, margstofna reynitré þarna, tvö efstu hæst.
Eftir að Tilraunastöð í búskap var sett á Klaustri 1949 hafa skepnur komist í trén og skemmt þau, og svo fór að lokum, að eldgamla reynitréð var eitt eftir, til vitnis um forna frægð. Það stóð af sér allar breytingar á Klaustri, en 1985 var það orðið nokkuð hrörlegt, um 8-9 m hátt, og með 8-10 stofnum, þeim sverustu um 50 sm (diap. mynd), og sumarið 1989 var það dautt, nema ein lítil grein (mynd), er síðan varð að dálitlu tré. Á næstu árum var það að mestu sagað niður, en síðan hafa sprottið fleiri greinar upp af stofninum, og er tréð nú aftur orðið hið sprækasta. (Þetta tré er mikilvægt til að staðsetja helstu byggingar gamla bæjarins, þ.e. baðstofuna og timburhúsið.)
Hins vegar kom Jónas Pétursson tilraunastjóri upp dálitlum trjáreit, líklega um 1960 (?), neðan undir Klausturhömrum, beint niður af bænum og kirkjurústinni, og plantaði þar lerki- og birkitrjám. Í hömrunum hafa lengi verið stórvaxin birkitré og blómgróður og reynir hefur sprottið þar upp í seinni tíð. (Sumarið 2000 var 5-6 m hátt reynitré, með um 15 sm stofni, stutt fyrir innan Klausturskot í Hömrunum, og nokkrar litlar reynihríslur að auki. Þau álög voru á trjánum í Klausturhömrum að þau mætti ekki höggva).
Það var svo ekki fyrr en í tengslum við aldarafmæli Gunnars skálds 1989, að farið var að hugsa til skrúðgarðyrkju að nýju við Gunnarshús og skipuleggja nærumhverfi þess, eftir teikningu Björns Jóhannessens arkitekts. Þá voru hlaðnar stéttir og tröppur kringum húsið og gróðursett blóm og runnar í beð og ker. Flötin sunnan við húsið, þar sem áður var blómagarður Franziscu, var hellulögð og umkringd runnum og blómabeðum, sem eru einnig í skjóli af steinvegg er var undir fjósinu, en það var úr timbri og var rifið um 1990. Ennfremur var plantað tvöfaldri röð af aspartrjám beggja megin við heimveginn, sem Skógrækt ríkisins á Hallormsstað gaf í tilefni af afmælinu. Þau eru nú orðin allt að 10 m á hæð, hærri en Gunnarshús og bera það eiginlega ofurliði. Húsið Skriða var byggt 1967, spölkorn sunnanvið Gunnarshús. Þar var settur upp garður, og greni og lerki plantað ofan við það húsið, sem nú eru orðin stæðileg tré.

Hamborg

Einar Helgason ritar, 1920: "Í garði, þar sem lítið virðist vera um skjól, voru 10-20 birkitré, 9 ára, 1,50 m. á hæð þau hæstu." Þetta er einn af gömlu görðunum í Fljótsdal, frá um 1910, og hefur þá sérstöðu að hann var ekki settur heima við bæinn, heldur á bersvæði 150-200 m suðaustan við hann. Heima við bæinn var hins vegar matjurtagarður, umluktur torfveggjum, í skjóli við bæjarhúsin. (Sbr. ferðalýsingu 9. ág. 1990).
Halldór Stefánsson bóndi og fræðimaður tók við búi í Hamborg 1909, ásamt Björgu Halldórsdóttur frá Klaustri (systur Sigríðar konu Sigmars bónda þar). Má víst telja að þau hafi stofnað þennan trjáreit. Í honum hefur víst aldrei verið annað en birkitré, sem nú eru líklega um 10 m há, og að sama skapi digur, flest með fleiri en einum stofni. Þegar höfundur var í farskóla á Bessastöðum veturinn 1947-48 gerðum við strákarnir það til gamans að hlaupa inn í lundinn og klifra upp í trén. Kom fyrir að við héldum eins konar fundi uppi í trjánum.

Bessastaðir

Skrúðgarðurinn á Bessastöðum varð þekktastur allra garða í Fljótsdal og er hans víða getið á prenti. Það voru hjónin Anna Jóhannsdóttir og Jón Jónasson sem ræktuðu þennan garð. Þau bjuggu á Bessastöðum 1901-1936, þegar Jón lést, en Anna stóð síðan fyrir búi þar með börnum sínum til 1943. Þau eignuðust 19 börn og komust 14 til fullorðinsára. Öllum ber saman um að Anna hafi verið driffjöðrin í garðyrkjunni. Þrátt fyrir barnafjöldann gaf hún sér tíma til að koma upp einum fegursta skrúðgarði á Héraði og annast um hann. Einar Helgason getur ekki um garðinn á Bessastöðum í yfirlitsgrein sinni 1922, sem er næsta furðulegt, því varla getur annað verið en hann hafi komið í Bessastaði og skoðað garðinn. Árið 1925 birtist eftirfarandi smágrein, um Bessastaðagarðinn, undir heitinu "Blómadrotningin", í blaðinu "19. júní"

Ekki er það æfintýri, sem eg ætla að skrifa undir þessu nafni, heldur sönn saga af konu á Fljótsdalshéraði. Á Bessastöðum í Fljótsdal er skrúðgarður, líklega þriggja til fjögra ára gamall í þeirri mynd sem hann hefir nú. Hann er á að giska fimm faðma [10 m] langur út og fram, en allt að helmingi mjórri upp og ofan. Hann liggur í hlaðvarpa móti suðri; var þar áður kartöflugarður og tún í kring; á þrjá vegu um hann eru hlaðnir torfveggir, nokkuð háir, og fagurlega vallgrónir, með hliði móti bæjardyrum, sem lokað er með grindahurð, en suðurhliðin öll er aðeins girt með tvöföldu vírneti. Í miðjum garðinum er ferhyrnd grasflöt, umkringd af háum birki- og reynitrjám, nema það sem að bænum veit; öll stærstu trén hafa verið flutt þangað úr svokölluðum Ranaskógi í Hrafnkelsstaða-landareign, auk þess eru trjáplöntur í röðum meðfram innganginum og þeim veggnum sem til norðurs veit. Í garðinum eru að sögn flest hagablóm er vaxa í Fljótsdal, og nokkur lengra að, og fjöldi af útlendum blómum.

anna johannsdottir bessastodum fljotsdal smallÞennan reit hefir búið til, á hann og annast, húsfrú Anna Jóhannsdóttir á Bessastöðum. Hún er mjög blómelsk, og hefir ætíð inniblóm, sem eru snilldarlega hirt eins og reiturinn. Oft má sjá Önnu á ferð úr eða í garðinn með hreinsunarjárn og vatnsfötu, og svo vel er hún að sér að hún þekkir ættir allra blóma sinna, og hefir þó engrar menntunar notið í þeirri grein, nema lesturs "Flóru". Þó er ekki svo að hún hafi haft góða hentugleika til þessa starfs, sem hægt er að geta sér til, er menn vita, að hún hefir átt 19 börn, og flest þeirra verið veik einhvern part æfi sinnar. Heilsa hennar sjálfrar var líka svo tæp, tvö ár, að hún mátti ekkert á sig reyna og lá rúmföst lengri tíma; en það sem hefir haldið við lífsþreki hennnar er glaðlyndið, sem aldrei hefir yfirgefið hana, og einbeittur vilji að koma upp skrúðgarði við bæinn sinn.
Í mörg ár var það aðeins lítið horn af kartöflugarðinum, er hún hafði fyrir blóm, en altaf var það vel hirt og ræktað, því umgengni hennar utan húss og innan er sönn fyrirmynd. Má þó nærri geta hvað mikinn tíma hefir krafið umhyggja fyrir svona mörgum börnum. Þau eru fjórtán á lífi og öll mannvænleg, þar af sjö fermd, og þessum stóra hóp hafa þau hjónin komið upp án nokkurs styrks, nema sinna eigin handa og ráðdeildar, því maður Önnu, Jón Jónasson, er mesti atorku- og dugnaðarmaður.
Anna er, eins og áður er sagt, glaðlynd, og svo ungleg, að hefði hún óskemdar tennur, myndi enginn ætla hana eldri en þrítuga. Það er gaman að sjá hana í garðinum sínum, broshýra, undir vaggandi birkilaufinu, með alt blómskrúðið kringum sig, sem hún hefir gróðursett og fóstrað; og þó er enn tilkomumeira að sjá hana með börnunum sínum fjórtán, sem hún hefir borið undir brjósti sér, og elskað og hlúð að, með móðurástarinnar óþreytandi krafti, svo það verður sannnefni í tvöföldum skilningi, er sumar grannkonur hennar hafa gefið henni í gamni, að kalla hana "blómadrotning", og víst er um það, að hvenær sem þau Bessastaðahjón leggjast til síðustu hvíldar, hafa þau reist sér þann minnisvarða, sem fegurri er öllum þeim krossum og steinum er kirkjugarða prýða. Kona. ("Blómadrotningin". Í blaðinu "19. júní", 8 (11), 1925, bls. 83-84). (Höfundur er líklega Margrét Sigfúsdóttir á Hrafnkelsstöðum).


Eins og fram kemur í greininni, var blómagarðurinn upphaflega horn í kartöflugarði. Líklega hefur garðurinn þá verið sunnan (SA) við gamla torfbæinn og timburhúsið (þverhúsið) sem var fram við hlaðið, en 1937 var byggt steinhús og stækkað 1949-50, og eldri hús þá rifin og líklega einnig torfveggurinn sem umlukti garðinn á þrjá vegu, en vírgirðing sett í staðinn. Garðurinn var þá suðaustan við steinhúsið, og naut skjóls af því fyrir NV-átt, sem oft er hvöss í Fljótsdal.
Í Tímanum 1954 birtist smágrein um Bessastaðagarðinn, undir heitinu Fagur reitur, undirrituð af P.G., sem líklega er Páll Guttormsson skógfræðingur á Hallormsstað.

Garðurinn á Bessastöðum í Fljótsdal hefir venjulega verið nefndur "Garðurinn hennar Önnu á Bessastöðum". Nú þegar Anna er fallin frá, verður manni ljúft að minnast hans, og stendur hann meðal annarra verka hennar sem merkur minnisvarði fyrir hugskotssjónum.
Bærinn Bessastaðir í Fljótsdal, er á milli Bessastaðaár og Hengifossár. Hann stendur utan við Bessastaðaána, næst við Hamborg, ofan við rennislétt nes upp frá Jökulsá í Fljótsdal, rétt undir fjallshlíðinni. Neðan við bæinn er garðurinn, er vakti, þegar hann var gerður, mikla athygli vegfarenda. Trén í garðinum eru orðin 6-8,5 m á hæð, og standa með hæfilegu millibili á fleti, sem er um fjórum sinnum grunnflötur hússins. Nú er garðurinn orðinn mjög áberandi þarna á sléttunni.
Það var þó ekki bara trjágarðurinn sem Anna Jóhannsdóttir ræktaði. Í frásögn manna á meðal og í riti var hún nefnd blómadrottningin, því að jafnmikla alúð lagði hún við ræktun blóma - inni og úti - sem trjáa. Er garðurinn og hefir jafnan verið mjög blómauðugur. Í garðinum fékk hvert tré og hvert blóm þá beztu umönnun, sem hægt er að hugsa sér, því að alúð Önnu við að hlynna að öllum gróðri var svo mikil og starfsgleðin ótakmörkuð. Á seinni árum, þegar ævistarf hennar var orðið bæði mikið og langt, var hún sem kornung manneskja og lék á als oddi. Var hún og full af lífi og gleði í öllum viðræðum, ekki sízt þegar talið barst að trjágróðri og blómum. Gaman og gagn væri af, ef sem víðast við íslenzk heimili yxi upp slíkur trjá- og blómareitur. - P. G.


Anna var alltaf ungleg og kvik í hreyfingum. Ég minnist hennar sem einstaklega aðlaðandi gamallar konu. Húsið hennar var alltaf fullt af blómum. Hún lést 1954, 97 ára gömul. Afkomendur hennar hafa búið á Bessastöðum fram að þessu, og látið sér annt um garðinn, þó vissulega hafi blómskrúð hans horfið að mestu. Jóhann sonur hennar stofnaði nýbýlið Eyrarland í túnfæti Bessastaða, og þar búa afkomendur hennar líka.
Til er litmynd af garðinum, sem Þorvarður sonur Önnu tók um það leyti er hún lést. Þá eru birki- og reynitrén hæst í miðjum garðinum, ásamt einu lerkitré, en austast í honum sést grenitré, sem aðeins er hálfdrættingur við hin. Er það vafalaust broddgrenið sem nú er einna hæst í garðinum.
Um 1980-85 var garðurinn stækkaður suður og vestur fyrir húsið (sbr. myndir frá 1988, og í Búkollu 1995). Var þar gróðursett alaskaösp, sem nú myndar 10-12 m háan og þéttan laufvegg fjallsmegin við húsið, og röð af blágrenitrjám innan hennar, við hlaðið. Fram til um 1995 lá þjóðvegurinn fast við garðinn, svo við lá að háir bílar strykjust við trén, en var þá færður um 15-20 m fjær garðinum. Í garðinum eru nú aðallega birki- og reynitré, auk þess eitt eða tvö lerkitré og eitt myndarlegt og vel vaxið broddgreni, sem lengi var talið hæst af þeirri tegund hérlendis (Ásgeir Svanbergsson: Tré og runnar. 1982).

Við Ólöf Arngrímsdóttir skoðuðum garðinn 14. sept. 2011, með leiðsögn þeirra hjóna, Andrésar Einarssonar og Lilju Esterar Ragnarsdóttur, fv. ábúenda og eigenda jarðarinnar, þau eiga nú heima í Egilsstaðaþorpi, en Einar sonur þeirra hefur heimili á Bessastöðum.
Gamli garðurinn er í góðri umhirðu og trén yfirleitt í góðu gengi, þar á meðal broddgrenið austast í garðinum, sem er orðið margtoppa og hefur lítið hækkað undanfarin ár eða áratugi, að sögn þeirra, svo það er naumast lengur hæst sinnar tegundar á Íslandi. Mest er annars af birki- og reynitrjám í garðinum, um 12 stykki af hvorri tegund, auk þess 2 lerkitré, annað álíka hátt og broddgrenið, líklega um 10-12 m, ein broddfura í NA-horni, og eitt lítið sitkagreni. Einn stór ribsrunni er í norðurjaðri garðsins, með óhemju af berjum, sem varla voru þroskuð. Af blómum eru rannfáng, venusvagn og ein jurt með ljósbláum blómklösum, sem við þekktum ekki, og eru þau öll vestast í garðinum, næst húsinu. Girðing er um garðinn, nema við hlaðið. Lítið barnahús er í margstofna reynitré vestast í garðinum. Ekki sjást neinar leifar af torfgarði þeim er upphaflega lukti um skrúðgarðinn, og Andrés kvaðst ekki muna eftir honum (hann var fæddur 1951 og upp alinn á Bessastöðum), en gamli þjóðvegurinn er nú kominn inn í garðinn að austanverðu, vaxinn grasi, lítið upphækkaður. Yfirleitt er snjólétt í Fljótsdal, en veturinn 1974-75 fylltist garðurinn af snjó, og brotnaði þá eitthvað af trjánum.
Í nýja hlutanum eru ýmsir runnar, sunnan við húsið og nokkur tré, sem við skoðuðum ekki nánar. Blágrenið við hlaðið er fallegt og í góðum vexti, 3-4 m hátt. Milli þess og aspartrjánna er stór grasflöt, og þar stendur allstór steinn, e.t.v. gamall hestasteinn. Allt er mjög snyrtilegt á Bessastöðum. (Steypt fjárhús og hlaða standa skammt utan við bæinn, sem nú er verið að breyta til framleiðslu á vörubrettum úr lerki.)

Eyrarland

Þar var kominn garður sunnan við íbúðarhúsið með um 3-4 m háum trjám 1995, og búið að planta röð af alaskaösp ofan við bæinn og túnið þar. (Sbr. mynd í "Búkollu" 2. útgáfu.)

Litla-Grund

Nýbýli stofnað í landi Bessastaðagerðis 1946, með litlu landi. Kringum það var settur trjágarður, líklega um 1960, og voru þar sprottin upp nokkur 3-4 m há grenitré sunnan við húsið 1974, þegar bærinn var myndaður fyrir "Búkollu". Býlið fór í eyði 1975, og var síðan keypt af Starfsmannafélagi Búnaðarbankans fyrir sumarhús. Félagið plantaði asparröð kringum túnblett eða lóð umhverfis íbúðarhúsið, og eru þær nú orðnar um 10 m á hæð. Einnig var plantað röð af reynitrjám meðfram heimreið að húsinu, sem nú eru 4-5 m á hæð, og birkiröð meðfram brekkunni ofan við bæinn.

Bessastaðagerði

Guttormur (1931) minnist á trjágarð í Bessastaðagerði, og í "Búkollu" II, segir: "Trjágarður framan við gamla bæinn frá 1920." Árin 1946-47 var steinhús byggt um 50 m utar og neðar. Þá varð garðurinn viðskila við bæinn. Sumarið 1989 stóð lítið grjóthús með járnþaki ofan við garðinn, innan sömu girðingar og hann. Í garðinum voru þá tvö allstór lerkitré og nokkur reyni- og birkitré, heldur lægri. Sumarið 2012 var kofinn horfinn, en komin röð af yngri aspar- og lerkitrjám ofan við gamla garðinn og nýja íbúðarhúsið. Í gamla garðinum voru þá 8 reynitré, flest margstofna og nokkuð blómleg, allt að 10 m há eða þar yfir, einnig 3 stór lerkitré, álíka há, og 3 birkitré, nokkru lægri, aðeins eitt þeirra myndarlegt að vexti, sem er í SV-horni garðsins. Engin garðblóm sáust þar nema rannfáng.

Melar

Guttormur (1931) getur um trjágarð á Melum. Sumarið 1989 var þar dálítill trjálundur rétt innan við Bæjarlækinn, með nokkuð háum og beinvöxnum birkitrjám og einu reynitré. Reiturinn var þá ógirtur og höfðu trén orðið fyrir nokkrum barkskemmdum af völdum beitargripa. Heimildir vantar um aldur garðsins, en líklega er hann frá um 1920-25. Gamla steinhúsið á Melum stóð andspænis garðinum, rétt fyrir utan lækinn, sem var brúaður þar á milli. Það var byggt í nokkrum áföngum á árunum 1913-1945. Það var jafnað við jörðu á tíunda áratugnum.
Á nýbýlinu Hjarðarbóli, sem stofnað var syðst í Brekkulandi 1947 hefur víst aldrei verið skrúðgarður.

Brekka

Theodór Árnason getur þess til að Jónas Kristjánsson, sem var læknir á Brekku 1903-1911 hafi átt mikinn þátt í að efla áhuga Fljótsdælinga fyrir skrúðgarðyrkju, og má vera eitthvað til í því. Myndarlegt hús var reist á Brekku 1907, fyrir læknirinn og starfsemi hans, eins konar sjúkrahús, kallað "Sjúkraskýli" í opinberum heimildum. Gera má ráð fyrir að á næstu árum (1908-10) hafi verið settur garður sunnan við sjúkrahúsið, og 1920 lýsir Einar Helgason honum svo:

Í garði rjett við bæinn, eru um 100 birkitrje, hin hæstu rúmir 3 m. Auk þess eru þar reynir, víðir, ribs, barrfellir, fura, greni. Í garðinum óx hampur og ýmsar blómjurtir. Mesta furða hve vel vex þarna, þar sem garðurinn stendur áveðurs. (E.H.1922, bls. 22.)


Í ‚Búkollu‘ segir að tré hafi fyrst verið gróðursett þarna 1914, en það stemmir ekki við ofangreinda heimild, því að þá hefðu birkitrén ekki verið orðin 3 m há 1920. Merkilegt er að finna þarna hamp (Cannabis sativa), sem líklega er gömul lækningajurt, en þó fyrst og fremst notuð til að framleiða striga og kaðla. (Sérstakt afbrigði hennar er nú nýtt til vímuefnagerðar og stranglega bannað að rækta það hér á landi). Sjúkraskýlið brann í ársbyrjun 1944, og læknir fluttist í Egilsstaðaþorp. Nokkrum árum síðar var það endurbyggt að hluta til, þ.e. aðeins neðsta hæðin, og í því verið búið síðan.
Garðurinn er nú SV við íbúðarhúsið, sem byggt var upp úr brunarúst Brekkuspítala um 1960. Hann er um 20 x 20 m. Að ofan er hann girtur með lágum, tvöföldum grjótgarði, sem stendur enn nokkuð vel. Á aðrar hliðar hefur verið vírgirðing, sem fyrir löngu er horfin, og því hafa skepnur komist í garðinn og skaddað sum trén. (Sumarið 2012 var hann aðeins girtur með “rafbandi”, til að halda hestum frá honum, en þó var hrossaskítur í honum frá vorinu eða vetrinum.)
Í garðinum eru 8 reynitré, flest margstofna, og standa allþétt, 7-10 m, og með allt að 40 sm stofnþvermáli, öll nokkuð heilbrigð að sjá, nema það ysta og efsta, sem var hálfdautt. Nálægt miðju er fallegt reynitré, um eða yfir 10 m hátt (mynd). Um 20 birkitré eru í garðinum, flest austantil, flest margstofna og heldur lægri en reynitrén og slúta undan NV-áttinni. Eitt lerkitré, lélegt er í miðjum garði. Austan eða neðan við garðinn er belti af alaskavíði, á lægra stalli, og utan og ofan við bæinn er belti af alaskaöspum, orðið 7-9 m hátt. Nokkrir ribsrunnar eru austast í garðinum og NA við hann, neðan við húsið. Af garðblómum sást aðeins garðabrúða, upp við grjótvegginn, auk þess er talsvert af kúmeni um allan garðinn. (Mynd í Búkollu, 1995). Í löndum Brekku og Hjarðarbóls er 40-50 ha lerkiskógur sem byrjað var að planta 1972.

Brekkugerði

Guttormur (1931) getur um trjágarð í Brekkugerði, og í "Búkollu" segir að þar sé garður frá 1914. Árið 1986 lýsti ég garðinum þannig:

Þar eru tveir trjágarðar heima við bæinn, annar á dálitlum hól fyrir sunnan hann, og hefur sá líklega verið fyrir sunnan baðstofuna sem þarna var um 1900-1920, eða gamla bæinn. Þar eru 5-6 stór birkitré, tvö þeirra með mjög sverum stofni (um faðmur ummáls). Jóhanna J. Kjerúlf segir að Jörgen faðir sinn hafi gefið elstu börnum sínum sína hrísluna hverju, þegar þær voru gróðursettar, en það var milli 1910 og 1920. Hrísla Eiríks mun vera stærst eða sverust, og er hún í miðjum garðinum. Hinn garðurinn er sunnan og austan við núverandi timburhús (fast við það). Þar eru líka aðallega birkitré, en ekki eins gömul, einnig nokkur ung lerkitré, grenitré og þinir, viðja o.fl. (Skoðað í júlí 1986, og myndað 31. ág. sama ár. H. Hg.)


Timburhúsið var byggt 1934, við eldra frammihús. Þessi gömlu bæjarhús voru brennd skömmu eftir að nýtt íbúðarhús var byggt 1995, um 150 m utar. Trjágarðarnir voru lengi ógirtir, og þegar húsin voru brennd eyðilögðust flest trén sem voru í garðinum sunnan við íbúðarhúsið, því að svo slysalega vildi til að vindur snerist meðan á því stóð, að sögn Þórhalls, sonar Jóhanns Frímanns bónda, sem sýndi okkur Ólöfu Stefaníu garðana 27. ágúst 2012.
Hann hefur nú aftur komið upp vísi að skrúðgarði í bæjartóttinni, sem er lukt um 2 m háum grjótveggjum að ofan og utan, sem veita gott skjól, og í gamla garðinum sunnan við hana. Ber þar mest á rauðbleikri rós, með einföldum blómum, sem líkist mjög íslensku glitrósinni; hefur hún vaxið út úr veggnum og skriðið eftir honum og þekur hann að miklu leyti. Þar er eitt ungt reynitré, um 2 m hátt, 3 ung birkitré, álíka há, ennfremur um 1,5 m hátt tré, sem ég hélt vera gullregn, eftir blöðum að dæma, en var blómlaust. (Þórh. sagði það hafa verið selt sem gullregn, en hefði verið grætt á “baunatré”, sem hefði lifað en hitt dáið.)
Í miðjum garðinum var um 1,5 m hár, dauður stofn af birkitré, sem hafði verið sagað þvert, og um það vöfðust tvær tegundir af sírenum (Syringa). Á stofninum óx allstór, trékenndur sveppur, sem ég þekkti ekki. Annar stofn um 2 m, var í SV-horni garðsins, sem hafði skotið fjölmörgum greinum. og sá þriðji nokkru austar, orðinn líkari venjulegu tré. Þetta eru leifar af birkitrjánum sem brunnu. Einnig er nokkuð af ætihvönn, heimulu og rabarbara í tóttinni. Neðan (austan) við tætturnar er röð af 7 stórum birkitrjám, sem voru milli heimreiðar og húsa, þau sakaði ekki, og eru ennþá í góðu standi. Þau eru 5-7 m há., flest margstofna, og stofnar og greinar áberandi sveigðar til austurs, undan helstu stormáttinni.
Syðri lundurinn, sem getið er í lýsingu frá 1986, er á lágum hól, um 15-20 m sunnan við tætturnar. Þar eru 5 birkitré,í þéttri þyrpingu, það sem er í miðju, er hæst og sverast, ca. 10-12 m hátt, einstofna, og með allt að hálfs metra stofnþvermáli í 1 m hæð. Er það líklega sverasta birkitré í görðum í Fljótsdal. Þessi trjálundur er eldri en trén við bæinn, eða frá um 1910-15, eins og áður var sagt, og var stærsta tréð líklega tileinkað Eiríki J. Kjerúlf. (Sbr. myndir ÓSU). Þórhallur hefur byggt sér timburkofa rétt utan og ofan við lundarhólinn, og í skjóli við hann er borð og stólar. Hann sagðist hafa hug á að byggja sér hús þarna á gamla bæjarstæðinu. Mikill hluti lands í Brekkugerði var tekinn til skógræktar 1993, og er nú vaxinn lerkiskógi.

Hús

"Trjágarður (birki) um 1930, og trjáreitur ofan við tún um 1960." ("Búkolla" II). Gamli trjágarðurinn er framan við húsið, með birki eingöngu, og annar smáreitur frá um 1960, er fyrir utan og ofan bæinn. Þar eru nokkur grenitré, auk birkisins. Geitla vex meðfram bæjarlæknum í túninu. (Ferðadagbók, 8. ágúst 1990 / Húsaskoðun). Hefðbundnum búskap var hætt á Húsum 1988, og 1992-93 var landið girt til skógræktar og má kallast fullplantað lerkiskógi.

Geitagerði

Garðurinn í Geitagerði hefur ávallt verið talinn með merkustu görðum í Fljótsdal og jafnvel á öllu Héraði, enda sá eini sem stöðugt hefur verið hirtur og haldið í góðu ástandi til þessa dags. Í SJM II er sagt að garðurinn framan við húsið sé frá 1906, "þá plantað birki, 1914 barrviðum". Í sömu heimild segir að "þverhús" væri byggt 1906, og þá hefur garðurinn verið settur sunnan við það og byrjað að planta þar trjám. Áður hefur þar líklega verið matjurtagarður. Í viðtali mínu við Guttorm V. Þormar bónda 3. ágúst 2006, taldi hann að barrtrjánum hefði verið plantað 1907, en birki og reyni áður, líklega laust eftir aldamótin, því að varla hefði verið byrjað á því að gróðursetja barrtré. Einar Helgason (1922) ritar um garðinn:
geitagerdi"Í garði þar heima við eru 30-40 birkitrje, hin hæstu 2,50 m., reyniviðir, hæstir 2 m., gulvíðir, ribs, þyrniber, barrfellir, fura, og þrjár grenitegundir. Garðurinn er nú 12 ára gamall, elstu trjen eru frá þeim tíma. 15 tegundir blómjurta sá jeg í garðinum. " (Einar Helgason, 1931, bls. 22.)

„Fegurstur og skipulegastur fanst mjer garðurinn í Geitagerði. Þar eru m.a. há og velvaxin nálatrje,“ ritar Theodór Árnason 1935. Guttormur Þormar segist muna eftir ‚laufskála‘ í miðjum gamla garðinum, og hafði heyrt að þar hefði farið fram húskveðja við jarðarför Sigríðar ömmu sinnar 1922. (Símtal 25.10.11.) Á málverki, líklega frá um 1920-25, sést garðurinn sunnan við bæinn, með um mannhæðarháum trjám, umluktur grjótgarði. Nú er aðeins grjótgarður um gamla garðinn að ofan og utan. (Þormarsætt, bækl. 1998, bls. 28).
Árið 1930 var núverandi steinhús byggt, rétt fyrir innnan og neðan þverhúsið og torfbæinn, og nýtur aðeins neðri hluti garðsins skjóls af því. Þegar búið var að rífa torfbæinn var garðurinn stækkaður út á grunn hans, fyrir ofan steinhúsið og út fyrir það, og var hann þá orðinn langstærsti skrúðgarður í Fljótsdal. (Sbr. mynd Gísla Gestssonar í Árbók. F.Í 1944, bls. 84). Hann umlykur nú íbúðarhúsið á þrjá vegu. Í nýja hlutann var plantað ýmsum tegundum, m.a. fjallaþin, broddfuru, stafafuru og broddgreni, auk lerkis, birkis og reynis.
Ábúendur í Geitagerði á fyrsta fjórðungi 20. aldar voru hjónin Guttormur Vigfússon frá Arnheiðarstöðum og Sigríður Sigmundsdóttir frá Ljótsstöðum í Skagafirði. Guttormur hafði lært búfræði í Noregi og Danmörku og var fyrsti skólastjóri Búnaðarskólans á Eiðum (1883-1888), síðar alþingismaður 1898-1908. Það mun þó einkum hafa komið í hlut Sigríðar að annast um skrúðgarðinn, og í því efni hafði hún samráð við nöfnu sína og svilkonu, Sigríði Sigfúsdóttur á Arnheiðarstöðum. Er jafnvel sagt að þær hafi keppst um að hafa sem flestar tegundir blóma í görðum sínum. Árið 1924 tók Vigfús G. Þormar sonur þeirra við búi, með konu sinni, Helgu Þorvaldsdóttur úr Borgarfirði vestra, og 1954 sonur þeirra, Guttormur V. Þormar, með Þuríði Skeggjadóttur úr Reykjavík.
Eftirfarandi lýsing á garðinum birtist í Morgunblaðinu 1963:

Það fyrsta sem blasir við þegar komið er heim að Geitagerði, er stórglæsilegur garður, þar sem bæði er falleg blómarækt og einhver stærstu og myndarlegustu tré landsins. Í garði þessum er t.d. blágrenitré, sem gróðursett var 1915 [á að vera 1907]. Alls munu þá hafa komið 6 tré af þessari tegund frá Danmörku. 5 þeirra voru gróðursett í Hallormsstaðaskógi, rétt hinum megin við Lagarfljótið, en eitt í Geitagerðisgarði. Það tré er þriðja hæsta tréð af þessum sex. Við hlið þess stendur annað grenitré, álíka stórt, en það er fjallahlynur [á að vera fjallaþinur], komið frá vesturströnd Bandaríkjanna, og mun vera hæstur sinnar tegundar hér á landi. Nokkru utar í garðinum eru svo furur, sem nú í nokkur ár hafa gefið af sér fullþroskuð fræ, sem Guttormur hefur safnað og afhent Skógrækt ríkisins, sem nú hefur alið upp af fræjum þessum mikinn fjölda plantna. Guttormur hefur síðan fengið 3ja og 4ra ára plöntur út af fræjum þessum hjá Skógræktinni aftur, og gróðursett þær í myndarlegum trjáreit, sem hann á nokkru fyrir utan bæinn. (Vig.: Ærnar hans eru verðlaunagripir og furutrén uppspretta nýrra skóga á Íslandi. Morgunblaðið 6. júní 1963.)


Sigurður Blöndal skógarvörður á Hallormsstað mældi hæð nokkurra trjáa í Geitagerðisgarði sumarið 1965, og birtust niðurstöður þeirra mælinga í bókinni Garðagróðri eftir Ingimar Óskarsson og Ingólf Davíðsson, 2. útg. 1981, bls 124. Þá var fjallaþinur 10,40 m, broddgreni (?) 10,10 m, broddfura 5,60 m og lerki 6,90 m. Þar segir ennfremur:

"Trén eru öll gróðursett um 1918. Þinurinn er sá hæsti sinnar tegundar í landinu og broddfuran sú fallegasta, en hærri broddfurur eru til í Hallormsstaðaskógi. Fuglar hafa stundum brotið toppa þinsins og grenisins. Vænir fjallaþinir eru einnig til á Arnheiðarstöðum í Fljótsdal, Holti í Fellum og Svínafelli í Öræfum. Lindifura, svartgreni og broddgreni eiga sennilega framtíð fyrir sér, sem garðtré, á Fljótsdalshéraði, í Eyjafirði og e.t.v. víðar til dala."


Hér er eitthvað málum blandað, því að stóru trén í Geitagerði eru mun eldri en frá 1918, eins og þegar er fram komið. Auk þess hefur líklega misritast broddgreni fyrir blágreni. Höfuðprýði garðsins er þintréð, sem stendur í miðjum gamla hlutanum, og var lengi talið það hæsta í landinu. Aðalheiður Ólafsdóttir mældi tréð 8. ágúst 1987, og reyndist það þá vera 12,5 m á hæð og þvermál um 40 sm í 1 m hæð. Tréð var tvístofna frá rót, en annar stofninn klofnaði frá og brotnaði á 9. eða 10. áratug síðustu aldar. Sá sem eftir stóð hefur líka orðið fyrir skakkaföllum og er nú með margskiptum toppi. Síðast skemmdist tréð í vestan roki 10. jan. 2012, brotnuðu þá af því nokkrir samtengdir toppar, svo nú er líklega bara einn eftir (?) (G. Þormar: símtal í febr.´12.)
Skammt frá þintrénu er blágreni af sama aldri, lítið eitt lægra, þótt af því brotnaði toppurinn um sama leyti og þintréð klofnaði. Guttormur bóndi telur að bæði þessi tré séu af fyrstu sáningu Flensborgs á Hallormsstað um aldamót 1900, og því jafngömul risatrjánum efst í Mörkinni, sem var plantað þar 1905.
Það er áréttað í bókinni "Barrtré á Íslandi" (2006), en þar segir:

"Í Geitagerði í Fljótsdal og á Bessastöðum voru gróðursett tré af sama uppruna [eins og blágrenitrén í Mörkinni á Hallormsstað 1905]. Þessi tré uxu líka hægt framan af, en tóku vaxtarkipp þegar þau voru komin upp fyrir mannhæð, og hafa vaxið stöðugt síðan. Þau hafa stöku sinnum misst topp og orðið fyrir áföllum af völdum lúsar." (Auður I. Ottesen (ritstj.): Barrtré á Íslandi.Rv. 2006, bls. 93 / Sbr. einnig Skógfræði Sig. Blöndals 2, bls. 52).
Hákon Bjarnason ritar 1979: "Blágreni hefur vaxið hér á landi frá árinu 1905. Hinn 25. maí kom fyrsti skógræktarmaðurinn á Íslandi, C.E. Flensborg, ríðandi frá Seyðisfirði með nokkrar tágakörfur, sem í voru ýmsar plöntur, og þar á meðal nokkrir tugir blágreniplantna. Er nokkuð víst að þær uxu upp af fræi frá Colorado, sem tekið var í mikilli hæð yfir sjó." (H.B.: Ræktaðu garðinn þinn, bls. 111.)

Höfundur skoðaði garðinn síðast 3. ágúst 2006 í fylgd Guttorms bónda. Auk þeirra merkistrjáa, sem þegar var getið, eru innst í garðinum (NV-horni) tvö mjög stór reynitré með stuttu millibili, annað margstofna en hitt einstofna, bæði um eða yfir 10 m há. Einnig eru nokkur birkitré af svipaðri hæð í garðinum. Í SA-horni garðsins, við vesturstafn íbúðarhússins, er geysistórt lerkitré, sem stendur nánast á grjótvegg, sem var hlaðinn meðfram tröppustíg við húsið. Það er sverasta tréð í garðinum, með um 50 sm stofnþvermáli í mannhæð, en um 1 m við rætur. Hæðin er um 12-15 m, enda ber það vel yfir húsmæninn. Guttormur telur það vera frá 1925.
Í yngri hluta garðsins (frá um 1930), ofan við húsið, eru tvær broddfurur, sitt hvoru megin við stíginn (hliðið), líklega 7-8 m á hæð, og þriðja tréð stuttu utar. (5. ágúst 2012 sýndi Skeggi mér unga broddfuru, um 1 m á hæð, sem vex efst í brekkunni neðan við Bjargið, og hann taldi víst að hefði sáð sér af trjánum í garðinum, sem oft hafa borið köngla. Þetta er eina dæmið sem ég þekki um sjálfsána broddfuru). Í miðjum garðinum var þintré, sem var orðið álíka hátt og það fyrrnefnda um 1985, en það þverbrotnaði um 1990 (?) og var sagað niður. Einnig var þar broddgrenitré, sem brotnaði á sama hátt og var sagað niður. Utan við húsið er myndarlegt þintré, líklega plantað um 1960, orðið um 7 m hátt. Annars eru í þessum hluta garðsins allmörg lerkitré og birkitré meðfram jaðri hans, og fáein ung reynitré. Í jaðri hans að ofan er um 2 m hátt og samfellt belti af ribsrunnum. Í miðhluta garðsins eru nú engin tré, en þar eru veggir gamla torfbæjarins að koma upp úr grassverði, og dældir hafa myndast á milli þeirra.
Einnig eru nokkrir ribsrunnar syðst í gamla garðinum, og í SA-horni hans er myndarlegur runni af íslenskri þyrnirós, um 1 m á hæð og í þvermál að ofan, og annar minni er nálægt miðjum garði (?). Að sögn Guttorms var rósin upphaflega ofan við húsið, en var flutt þaðan vegna þess að þar var orðið skuggsælt af trjám. Hann veit ekki um uppruna rósarinnar, en hún gæti verið ættuð frá Háubökkum við Skeggjastaði, þar sem henni var útrýmt vegna eftirsóknar í garða. (Sjá Arnheiðarstaði). Talsvert er enn (2012) af fjölærum blómum í gamla garðinum. Meðfram grjótveggnum er jurt sem líkist venusvagni, með fölblá blóm, og við tröppustíginn nyrst í garðinum er beð með ýmsum tegundum sporasóleyja (Aqulegia).
Trjáreitur / skógrækt: Í Geitagerði var girtur reitur til skógræktar 1951, utan við bæinn, 1 ha að stærð, og sama ár var byrjað að gróðursetja þar barrplöntur frá Hallormsstað (Ártalið 1953 í "Búkollu" segir Guttormur vera rangt). Þar ber nú mest á sitkagreni, sem er komið í 15-20 m hæð. (Nánari lýsingu vantar).
Árið 1972 var svo girt 24 ha svæði innan og neðan við Geitagerðistúnið, neðan vegar, til skógræktar, í tengslum við svonefnda "Fljótsdalsáætlun í skógrækt" og plantað í hana um 45 þúsund lerkiplöntum á næstu fjórum árum, og smávegis af hvítgreni. Við þjóðveginn efst í girðingunni var plantað röð af alaskaösp. (Jónas Jónsson: Skógrækt í Fljótsdal. Viðtal við Guttorm í Geitagerði. Freyr 75 (20), 1979. / Jón Loftsson og Sig. Blöndal: "Framkvæmdir í Fljótsdal" í tíu ár. Ársrit Skógrf. Ísl. 1980). Þarna vex nú myndarlegur skógur, sem nokkrum sinnum hefur gefið af sér stauravið og jafnvel borðvið. Um 1995 var bætt við skógargirðingu ofan vegar, og plantað þar birki, lerki, stafafuru o.fl., sem allt hefur vaxið mjög vel. Meginhluti lands neðan 200 m hæðar hefur því verið tekinn til skógræktar, og Guttormur Þormar bóndi hefur lengi verið í fararbroddi skógræktarmanna á Héraði.

Arnheiðarstaðir

Skrúðgarðurinn á Arnheiðarstöðum var meðal þekktustu garða í Fljótsdal á fyrri hluta 20. aldar, og er hans getið í nokkrum heimildum. Hann var settur á fót um 1910, og driffjöður hans var Sigríður Sigfúsdóttir frá Klaustri (systir Arnbjargar húsfr. þar), sem bjó á Arnheiðarstöðum með Sölva Vigfússyni, síðari manni sínum, sem þar var fæddur og upp alinn. Þau höfðu misst nokkur barna sinna á unga aldri. Sonur hennar af fyrra hjónabandi var Jörgen E. Kjerúlf, smiður og skáld. Hún ól upp fjórar dætur hans frá barnsaldri til fullorðinsára, þar á meðal Droplaugu í Vallholti, sem fyrr var getið. Sölvi lést haustið 1926, og eftir það stóð Sigríður fyrir búinu með ráðsmönnum, til vors 1940, er hún flutti til Reykjavíkur. Elsta heimild um garðinn er í skýrslu Einars Helgasonar 1920, og hljóðar svo:

Sunnan við íbúðarhúsið er ljómandi fallegur skrúðgarður. Fram með hliðum garðsins eru rúm 30 birkitrje, hin hæstu 3 m. og öll hin vel á sig komin. Garðurinn er nú 11 ára gamall. Þar er heggur, ribs, íslenska rósin og gulvíðir. Barrfellir um 1,25 m. og fura 1,15 m., rauðgreni 1,10 m., 1 hvítgreni og 1 fagurgreni [þinur]. Í garðinum eru 20-30 tegundir af blómjurtum, hjerlendum og erlendum. (E.H., 1922, bls. 22.)


Eftir þessu að dæma hefur garðurinn verið tegundaflestur allra garða í Fljótsdal. Svo vel vill til að til er lýsing Sigríðar sjálfrar á garðinun, fjórum árum síðar, eða frá 1924.

 sigridur sigfusdottir Um garðinn okkar er ekki mikið að segja, hann hefir ekki tekið miklum breytingum síðan þú sást hann, nema hvað hann hefir verið stækkaður dálítið, og svo hafa trén auðvitað hækkað. Það eru nú 13 ár síðan settar voru niður fyrstu plönturnar, og eru nú hæstu birkihríslurnar orðnar um 4 metrar, líka eru í honum nokkur reynitrje, einnig greni, fura og lævirkjatrje (barrfellir), sem öll hafa þroskast vel. Við höfum í garðinum altaf nokkuð af útlendum blómum, bæði einær og fjölær, einnig hefi jeg sett í hann flestar tegundir íslenskra blóma, sem jeg hefi náð í, og gegnir það furðu, hve stórvaxin mörg blómin, sem tekin eru úr óræktarjörð, geta orðið, þegar þau koma í garðinn, sjerstaklega virðast þau kunna vel við sig í steinhæð, sem sett var í eitt hornið. Jeg get ekki með orðum lýst, hversu mikla ánægju við hjer á heimilinu höfum haft af garðinum frá því fyrsta, og jeg sje ekki eftir þeirri vinnu sem í hann hefir verið lögð. Fæst af því sem jeg hefi unnið hefir líklega borgað sig betur þegar á alt er litið, þó ekki komi peningar í aðra hönd. (Hlín, 8. árg. 1924.)


Þetta er úr bréfi sem Sigríður hefur skrifað Halldóru Bjarnadóttur, ritstjóra Hlínar, 1924, en þær voru í bréfasambandi, m.a. vegna útsaums og annarra hannyrða, sem Sigríður og Droplaug dóttir hennar voru þekktar fyrir. Þetta er jafnframt eina lýsingin sem mér er kunnugt um frá eigin hendi þeirra sem ræktuðu skrúðgarða í Fljótsdal. Þarna kemur fram að nýlega var búið að stækka garðinn, líklega til norðurs.
Laufey Ólafsdóttir, móðir mín, frá Holti (Fellum), var í Laugaskóla í S.Þing. 1930-1932. Í skólastíl sem hún samdi síðari veturinn, lýsir hún heimsókn í Arnheiðarstaði og segir þar:

Eg var komin heim að bænum, sem er mjög stór torfbær, en snýr grænum þiljum fram að hlaðinu, ef hlað skyldi kalla. Þarna var einu sinni hlað, en nú er þar aðeins mjó gangstétt heim að dyrunum, en blómsturgarður sinn til hvorrar handar. Hægra megin eru aðeins ung tré og blóm, en til vinstri handar er stór trjágarður með blómabeðum í miðju, og þar var raðað öllum þeim blómum sem eg kannast við, og mörgum útlendum blómum. Allt var í röð og reglu og þar sást varla óræktuð jurt, og bar það með sér að um þetta hefði verið hugsað og annast. Þetta er fallegasti garður á Austurlandi, og hefi ég oft séð hann, en aldrei leiðist mér að skoða hann, því fjölbreytnin er svo mikil....
Eg heilsaði Sigríði og svo fórum við að spjalla saman um blómin og trén. Hún sagði mér nöfn á þeim blómum sem eg ekki þekkti, og sýndi mér þau sem hún hafði síðast plantað út. Eg dáðist að því hvað hún fylgdist með vexti hverrar smájurtar, og ósjálfrátt kom mér til hugar, að blómin væru fyrir hana, það sem börnin hennar hefðu átt að vera, ef þau hefðu lifað. Þennan garð hafði þessi kona myndað, fyrst lítinn, og svo fært hann út smámsaman. Þarna hafði hún unnið dag eftir dag, frá því snemma á vorin og þar til seint á haustin, en þrátt fyrir það hefur hún stjórnað heimilinu, sem er mjög stórt, með miklum skörungsskap." (Leiðarljós. Minningarrit um Laufeyju Ólafsdóttur, Eg. 2012, bls. 15-16.)


Hér kemur fram að garðurinn hefur verið stækkaður til norðurs, og gangstétt er þvert gegnum hann, beint að bæjardyrum. Á þessum tíma var allstór torfbær á Arnheiðarstöðum, en austast í húsaþyrpingunni var frammihús úr timbri, grænmálað. Skrúðgarðurinn var SA við húsin, og náði nokkurn spöl suður fyrir þau, fram að bakka Bæjarlækjargilsins. Eftir að steinhúsið var byggt 1934 hefur garðurinn verið stækkaður til vesturs, suður fyrir það.
Guttormur Pálsson getur um garðinn 1931, og Theodór Árnason 1935, sem fyrr segir, og hrósar Sigríði fyrir blómaræktina. Þar sá hann í fyrsta sinn íslenska rós, og segir vera "uppáhald gömlu konunnar." Ingimar Óskarsson segir, í grein um gróðurrannsóknir á Austurlandi, í blaðinu Degi, 1927, að Sigríður hafi tekið rósina "í klettaskoru undan Skeggjastöðum, og flutt heim í garð sinn, en hún dó. Voru þá teknar 1 eða 2 plöntur á ný og færðar heim að Skeggjastöðum til gróðursetningar, og lifa þær enn. Eftir fleiri eintökum hefir ekki verið tekið." Nú er rósin horfin af þessum vaxtarstað, líka úr görðum á Skeggjastöðum, en einn smárunni tórir enn í garðinum á Arnheiðarstöðum, og í Geitagerði eru tveir runnar, sem gætu verið af sama uppruna. (H. Hall.: Þyrnirós (villirós) á Íslandi. Garðyrkjuritið 2007, bls. 131-167.)
Í bréfi frá Margréti, dóttur Sigríðar, dags. 1. ágúst 1917, kemur fram að þyrnirósin í garðinum á Arnheiðarstöðum var sótt að Kollaleiru í Reyðarfirði 1916.

“Við náðum í dálítið af henni í fyrra niðri á Reyðarfirði og settum hér í garðinn, en það hefur ekki lifað nema svolítill angi, en svo hefur kona á Reyðarfirði lofað að ná í einhverjar plöntur, og þá ætla eg að reyna að setja í pott og vita hvort það getur ekki lifað; það er svo gaman að henni, af því hún er íslensk.”

Ásmundur Guðmundsson skólastjóri á Eiðum segir í minningargrein um Margréti 1928:
“Fyrir austan það [Fljótið] blasir Hallormsstaðaskógur við, í veldi sínu og tign... Þaðan sótti móðir Margrétar sér ungar skógarhríslur, og gróðursetti þær fyrir sunnan bæinn, og má geta nærri hve góður skóli það hefir verið fyrir dótturina, að fylgjast með starfi hennar og aðstoða hana, uns fegursti trjá- og blómagarður Héraðsins reis.” (Á: Margrét Sölvadóttir. Minning. “19. júní” 1928, bls. 6).
Í bréfi frá Droplaugu, dóttur Sigríðar, 30. maí 1923, segir m.a.: “Við erum nýbúin að sá öllu blómafræinu sem við áttum til, svo það ætti að verða talsvert blómskrúð í garðinum ef það þróast allt.”

Árið 1939 gerðist það að Guttormur J. Guttormsson skáld í Nýja-Íslandi í Kanada heimsótti Fljótsdal, og rakst á legstein afa síns og ömmu, Guttorms Vigfússonar og Halldóru Jónsdóttur, í óreiðu í gamla kirkjugarðinum á Valþjófsstað. Gekkst hann fyrir því að legsteinninn var fluttur í skrúðgarðinn á Arnheiðarstöðum, þar sem þau höfðu búið á fyrri hluta 19. aldar, og komið fyrir í elsta hluta garðsins, þar sem hann getur enn að líta.
Droplaug dóttir Sölva og Sigríðar lést vorið 1939 á miðjum aldri. Halldór Stefánsson ritar í minningargrein um hana:

En þær mæðgur hafa auk þess reist sér minnismerki, til ánægju og hvatningar öldum og óbornum. Þær hafa komið upp við bæinn sinn einum hinum fegursta blóma- og trjágarði, sem til er á íslenzkum sveitabæ, til eftirbreytni og hvatningar öllum þeim, er hafa heimili í sveitum forstöðu að veita. Það afrek og sú saga stendur óafmáanlega skráð á spjöld sögunnar, þótt einstaklingarnir hnígi að móðurskauti. (Framsókn, 7. árg. (10. tbl.), 27.5. 1939.)

Þessi ummæli benda til að Droplaug hafi átt sinn þátt í garðinum.
Ragnar Ásgeirsson ráðunautur, ritar í Sunnudagsblað Vísis 1941:
Áður bjó á Arnheiðarstöðum Sigríður Sigfúsdóttir, og hefir hún gróðursett þar mikinn trjágarð. Eru þar nú laufríkar krónur og þreknir stofnar. Vorum við þar um nóttina og fram á miðjan næsta dag, í góðum fagnaði, fengum m.a. jarðarber og rjóma, sem er sjaldgæft að fá hér á landi. Var mikil jarðarberjabreiða úti í skrúðgarðinum. (Ragnar Ásgeirsson: Austur á Héraði. Vísir, Sunnudagsblað, 45 / 9.11. 1941, bls. 2.)

Þegar hér var komið sögu voru Sigmar G. Þormar frá Geitagerði og Sigríður Halldórsdóttir, sem fyrr var getið á Skriðuklaustri, nýlega flutt í Arnheiðarstaði, og bjuggu þar til 1945. Sigmar var lærður garðyrkjumaður, sem fyrr segir (sjá Klaustur).
Höfundur ólst upp á Arnheiðarstöðum til 7 ára aldurs (1936-1942) og minnist skrúðgarðsins með mikilli virðingu. Garðurinn var þá vandlega girtur, frú Sigríður réði þar ríkjum, virðuleg, gráhærð kona, þá komin á níræðisaldur, og henni var líklega ekki vel við að krakkar væru að sniglast í garðinum. Við höfðum þó einhver ráð með að krækja okkur í ribsber af runnum sem voru meðfram girðingunni í SV-horni garðsins. Eftir að Sigríður eldri flutti frá Arnheiðarstöðum 1940 var minna hugsað um garðinn, en girðingunni um elsta hlutann hefur þó alltaf verið haldið við.
Höfundur skoðaði Arnheiðarstaðagarðinn 22. júní 1986, og ritaði í dagbók:

Þar eru mörg gömul birkitré, flest 5-7 (8) m, sum nýlega brotin eða fallin. Tvö margstofna reynitré, annað að mestu dautt (2 stofnar á lífi), en hitt sæmilega kröftugt. 2-3 lerkitré, líklega Evrópulerki, 7-8 m, 1 fjallaþinur, beinvaxinn, með um 30 sm sverum stofni, nálægt miðjum garðinum, austantil, langhæsta tréð, líklega 10-11 (12) m. 1 blágrenitré, um 7-8 m, einnig austantil í garðinum annað líklega sömu tegundar, þverbrotið. Þriðja grenitréð, 6-7 m, er syðst í garðinum, e.t.v. sama tegund. Loks er ein broddfura syðst í vesturhluta garðsins, sunnan við steinhúsið; fallegt tré, um 7 m hátt. [Þar eru einnig nokkur birkitré.] Ribs-runnar eru margir á gilbarminum, syðst í garðinum, og breiður af ætihvönn og umfeðmingi. Ytri hluti garðsins er nýlega girtur með plasthúðuðum vír. Gömul grjóthleðsla er að NV-verðu við gamla garðinn. Legsteinn Guttorms er í sæmilegu ástandi. Búið var að slá garðinn, en hann er allur grasi vaxinn og lítið í honum af blómum. Hlið er að norðan (utan). (Grunnriss fylgir). Við mælingu Aðalheiðar Ólafsdóttur haustið 1987 reyndist þintréð vera um 11 m, næstum 2 m lægra en þinurinn í Geitagerði var þá.


Ég skoðaði garðinn aftur 20 árum síðar, eða 3. ágúst 2006, og ritaði lýsingu á honum. Ytri hluti garðsins (utan við stéttina) var þá ógirtur, en þar voru nokkur allstór og sver birkitré, og hallaðist eitt þeirra mikið til austurs. Í innri hluta garðsins var þinurinn ennþá langhæsta tréð, enda með óskertum toppi, eflaust orðið um 12 metrar. Birkitrén voru lífleg, áætluð 7-8 m há. Eina reynitréð í garðinum var orðið mjög hrörlegt, grenitrén í sama horfi og áður, annað brotið, 3-4 m frá jörðu. Nú sá ég í fyrsta sinn þyrnirósina, sem fyrr getur; hún stendur upp við grjótvegginn, beint niður af gamla steinhúsinu, heldur rengluleg, enda í skugga af trjám, um 1 m á hæð. Tel ég víst að hún hafi verið þarna 1986, þó ég tæki þá ekki eftir henni. Ein óblómguð erlend planta var í garðinum og hafði breiðst út fyrir hann.
Loks má geta þess að 1942 byggðu foreldrar höfundar nýbýli yst í landi Arnheiðarstaða, sem nefnt var Droplaugarstaðir. Stendur bærinn á hólbarði þar sem er mjög vindasamt. Móður mína hafði lengi langað til að koma upp skrúðgarði við bæinn. Á árunum 1965-75 var reynt að koma þar upp skrúðgarði, en það heppnaðist ekki. Hins vegar útbjó höfundur kringum 1950, tvo smágarða fyrir blóm og tré upp við bæjarbrekkuna og við ána fyrir utan og ofan bæinn, þar sem var skjólsælla, og um sama leyti var brekka þessi girt fyrir skógrækt, um 1,5 ha. Í garðinum við ána stendur nú um 10 m hátt, einstofna og þráðbeint birkitré, sem fengið var frá Hallormsstað, og álíka stórt reynitré úr garði í Holti. Sigurskúfur var fluttur í garðinn úr syllu í Kiðuklettum neðan við bæinn, og hefur nú breiðst út um skóginn. Í skóginum vaxa um 10 trjátegundir, þar á meðal blæösp, sem flutt var úr Egilsstaðaskógi um 1990.
Uppkasti lokið 23. sept. 2011. Endurbætt í sept.-okt. 2012. Ólöf St. Angrímsd. leiðr. stafavillur í sept. 2012, og aftur í ágúst 2016. – Helgi Hall.


AUKAEFNI

Garðar í Fljótsdal, sem getið er um í SMJ II, 1974

Arnheiðarstaðir: "Skrúðgarður um 1914" (Sést einnig á mynd í bókinni)
Geitagerði.: "Trjá- og blómagarðurinn framan við húsið frá 1906, þá plantað birki, 1914 barrviðum. 1953 ýmsum tegundum í 1 ha utantúns, þroskast mjög vel." (Sést á mynd)
Brekkugerði: "Trjágarður frá því um 1914." (Sést á mynd)
Hús: "Trjágarður (birki) um 1930, og trjáreitur ofan við tún um 1960." (Sést á mynd)
Brekka: "Fyrst gróðursett tré 1914, sunnan við Sjúkraskýlið.".
Bessastaðagerði: "Trjágarður framan við gamla bæinn frá 1920."
Bessastaðir: "Trjá- og blómagarður frá 1914. Anna Jóhannsdóttir lagði frábæra rækt við hann."
Hamborg: "Trjágarður frá tíð H.St." [1909-1921]
Skriðuklaustur: "Trjágarður um 1914."
Valþjófsstaður: "Trjágarður við bæinn. Fyrstu plönturnar gróðursettar í þáverandi kirkjugarð rétt eftir aldamót."
Þorgerðarstaðir: "Trjágarður 1926, endurnýjaður 1956." (Sést á mynd)
Víðivallagerði: "Trjágarður frá 1921 eða 1922".
Víðivellir ytri: "Trjágarður 1926." (Sést á mynd)
Hrafnkelsstaðir: "Trjágarður heima við frá 1915 og töluvert gróðursett í hvammi ofan við bæinn, aðallega barrviðir." "Afgirtur minningarreitur um Pál Kjerúlf í Ranaskógi 1958, 1 ha."
Auk þess sjást trjágarðar á myndum í bókinni á Litlu-Grund (nýbýli frá 1946), Hrafnkelsstöðum II og Vallholti (nýbýli frá 1947).

Nánar um garðana úr ferðalýsingum höf. (Efnið að mestu tekið inn í greinina)
Vallholt: "Næst fór ég upp í Hrólfsgerði og tók litskuggamyndir af fjárhúsunum, síðan heim í Vallholt, hitti Droplaugu þar og skoðaði garðinn hennar og steinasafnið, sem er aðallega í garðinum og á hlaðinu. Þar kennir margra grasa, og segist hún hafa tínt steina þessa mest á Gilsáreyrum og Gilsárgili. Þetta eru allskonar glerhallar, jaspis og krystalsteinar, m.a. ýmsir zeolítar, silfurberg etc. Einnig koma þar fyrir líparítsteinar og a.m.k. einn steingerður trjábolur, með geislasteinum í viðarvígindum. Virðist svæðið vera býsna fjölbreytt hvað steina snertir.
Í garðinum eru ýmsar trjátegundir, aðallega þó birki, reynir og lerki, nokkur blágrenitré og ungir fjallaþinir og stafafurur í uppvexti. Tveir þinir hafa staðið sig vel þarna, þótt garðurinn sé uppi á hólkolli og virðist afar skjóllaus. Þá er einnig mikið af blómum í garðinum og ýmsum runnum. Hefur Droplaug verið natin að koma upp þessum garði við erfiðar aðstæður, og hefur sýnilega erft áhugann fyrir skrúðgarðyrkjunni frá ömmu sinni, Sigríði á Arnheiðarstöðum, þar sem hún var að nokkru alin upp." (Ferðadagbók 5. sept 1991)
"Næst var ekið í Vallholt og hittum við þar Droplaugu Kjerúlf fv. húsfreyju, sem dvelur þar á sumrum, en á nú heima í Reykjavík, og Jóhönnu systur hennar, frá Brekkugerði. Skoðaði skrúðgarðinn á bænum, sem er meðal hinna stærstu í Fljótsdal, en orðinn nokkuð þéttur af trjám. Þar eru m.a. nokkrir þinir, sem hafa staðið sig vel, og er einn þeirra kominn í 6-7 m hæð. Auk þess eru þar þroskaleg blágrenitré, reynir, lerki, birki og alaskaösp, og heilmikið af ýmisskonar runnum og blómum." (Dagbók 23. ágúst 1995)
Víðivellir ytri: "Nú er þarna [þar sem grafreiturinn var] sléttur, nokkuð upphækkaður grasflötur, sem nokkur lerkitré hafa verið gróðursett á. Þarna er líka gamall trjágarður, fáeina metra framan og neðan við eldra steinhúsið, en í honum eru nú aðeins fáein tré, nokkuð há, 4 birkitré og eitt reynitré. Trén sem voru á milli eyðilögðust af því að rollur komust í garðinn að vetrarlagi og skófu börkinn af þeim, og trén sem eftir standa eru líka dálítið barkskemmd. Nú er í staðinn kominn trjá- og blómagarður neðan og utan við yngra húsið, aðallega með lerkitrjám." (Ferðadagbók 25. sept. 1990)
Valþjófsstaður: "Austan við hlaðið er gamli kirkjugarðurinn, og þar stóð kirkjan fram um 1885, er timburkirkjan niðri á túninu var byggð. Séra Þórarinn lét taka upp alla krossa og legsteina úr þessum gamla garði, og flytja í nýja garðinn, en gróðursetti tré í þann gamla, og mun hafa sléttað yfir leiðin, því lítið mótar nú fyrir þeim. Einn gamall járnkross af leiði, liggur þar enn í garðinum, með áletruðum nöfnum tveggja kvenna (mynd.)." (Ferðadagbók 9. ág.1990 / Húsaskoðun]
Melar: "Rétt framan við Bæjarlækinn er myndarlegur trjálundur, ekki stór, en með nokkuð háum birki-og reynitrjám, sem farin eru að láta á sjá vegna beitargripa (hesta?), sem hafa skafið af þeim börkinn, og sjálfsagt hafa veðrin hjálpað þar til. Reiturinn hefur víst lengi verið ógirtur. Hann er líklega frá sama tíma og aðrir skrúðgarðar í Fljótsdal, eða 1920-25. Merkilegt er hvað trén eru beinvaxin, þótt garðurinn sé mjög áveðurs þarna, og bendir það ekki til mikilla hvassviðra af heiðinni." (Ferðadagbók, 11. júlí 1989).
Arnheiðarstaðir: Eins og í Geitagerði var gangstígur að bænum gegnum garðinn, er skipti honum í innri og ytri hluta. Nú er aðeins innri hlutinn girtur og haldið við sem garði, en í ytri hlutanum eru aðeins nokkur allstór og býsna sver birkitré og hallast eitt þeirra mikið til austurs. Í innri hlutanum er eitt þintré langhæst og mest áberandi, en það mældist 11 m síðsumars 1987, og stendur það í miðjum garðinum. Það er einstofna, með óskertan topp, og virðist aldrei hafa orðið fyrir verulegum skakkaföllum, gnæfir hátt yfir önnur tré í garðinum, sem eru aðallega birkitré 7-8 m há, og eitt margstofna reynitré, sem er orðið nokkuð hrörlegt, líklega 5-6 m, neðan við gamla steinhúsið. Ennfremur tvö blágrenitré, annað með þverbrotnum stofni, um 3-4 m frá jörðu (var brotið 1986) og 2-3 lerkitré, ekki há, líklega evrópulerki. Loks er ein broddfura á lækjarbakkanum, ofan við gamla garðinn, og ofan við hana eru nokkur birkitré í röð. Syðst í garðinum, og meðfram honum við Bæjarlækinn, eru 1-2 m háir ribsrunnar, og innan og neðan við garðinn vex einhver lágvaxin, erlend planta í breiðum, sem ekki var blómguð. Líklega vex hún einnig inni í garðinum, en þar er allmikið gras, sem virðist ekki hafa verið slegið þetta sumar.
Einn runni af þyrnirós er í garðinum, beint niður af gamla steinhúsinu, upp við grjótvegg sem afmarkar garðinn að NV. Runninn er um 1 m á hæð, og um 0,5 m í þvermál að ofan, heldur renglulegur, enda í skugga af trjám. Tel ég víst að þetta sé það eintak, sem Sigríður flutti í garðinn snemma á 20. öld. [frá Háubökkum við Skeggjastaði. Sjá grein mína um þyrnirós í Garðyrkjuritinu 2007]. Þó ég væri á Arnheiðarstöðum til 7 ára aldurs man ég ekki eftir rósinni þarna. Þegar ég skoðaði garðinn 22. júní 1986, og lýsti nokkrum trjám og runnum í honum, er þar ekki getið um rósina. Hlýtur hún samt að hafa verið þar þá, enda er hennar getið hjá Einari Helgasyni 1922 og Theodór Árnasyni 1935. Mikið vex af ætihvönn í Bæjarlækjargilinu, innan og neðan við bæinn og garðinn, og líka niður við þjóðveg, eflaust komin úr gamalli ræktun (hvannagarði) við bæinn á 18.-19.öld. (Skv. skoðun 3. ágúst 2006).

Brekka: Garðurinn er fyrir SV íbúðarhúsið, sem byggt var upp úr brunarúst Brekkuspítala um 1960, af þeim Þórhalli Jóhannssyni (Dolla) frá Eyrarlandi og Lilju Hallgrímsdóttur, frænku minni, frá Holti í Fellum. Garðurinn var líklega settur á fót stuttu eftir að “Sjúkraskýlið” var byggt, eða um 1910. Hann er um 20 x 20 m og í honum eru allmörg myndarleg birki- og reynitré. Að ofan er hann girtur með lágum, tvöföldum grjótgarði, sem stendur enn nokkuð vel. Á aðrar hliðar hefur verið vírgirðing, sem fyrir löngu er horfin, og því hafa skepnur iðulega komist í garðinn og skaddað sum trén. Nú var hann aðeins girtur með “rafleiðslubandi”, til að halda hestum frá honum, en þó var hrossaskítur í honum frá vorinu eða vetrinum.
Í garðinum eru 8 reynitré, flest margstofna, og standa allþétt, þau hæstu um 10 m, og með allt að 40 sm stofnþvermáli, öll nokkuð heilbrigð að sjá, nema það ysta og efsta, sem var hálfdautt. Nálægt miðju er fallegt reynitré, um eða yfir 10 m hátt (mynd). Um 20 birkitré eru í garðinum, flest austantil, flest margstofna og heldur lægri en reynitrén og slúta undan NV-áttinni. Eitt lerkitré, lélegt er í miðjum garði. Austan eða neðan við garðinn er belti af alaskavíði, á lægra stalli, og utan og ofan við bæinn er belti af alaskaöspum, orðið 7-9 m hátt. Nokkrir ribsrunnar eru austast í garðinum og NA við hann, neðan við húsið. Af garðblómum sást aðeins garðabrúða, upp við grjótveginn, auk þess er talvert af kúmeni um allan garðinn. (Úr ferðadagbók 27. júlí 2012)

Brekkugerði: Í innri tóttinni og næst henni að innan er nú eins konar skrúðgarður, sem Þórhallur, sonur Jóhanns Frímanns, bónda, hefur komið upp. Ber þar mest á rauðbleikri rós, með einföldum blómum, sem líkist mjög mikið íslensku glitrósinni, og gæti jafnvel verið sú tegund, hefur hún vaxið út úr veggnum og skriðið eftir honum og þekur hann að miklu leyti, og var enn með nokkrum blómum. Þar er eitt ungt reynitré, um 2 m, og 3 ung birkitré, álíka há. Einnig er nokkuð af ætihvönn, heimulu og rabarbara í tóttnni.
Þórhallur kom þarna til okkar og upplýsti okkur um garðinn. Þar er um 1,5 m hátt tré, sem ég hélt vera gullregn, eftir blöðum að dæma, en var blómlaust. Þórh. sagði það hafa verið selt sem gullregn, en hefði verið grætt á “baunatré”, sem hefði lifað en hitt dáið. Í miðjum garðinum var um 1,5 m hár, dauður stofn af birkitré, sem hafði verið sagað þvert, og um það vöfðust tvær tegundir af sírenum (Syringa). Á stofninum óx allstór, trékenndur sveppur (vanfönungur), um 10 x 15 sm í þvermál, en aðeins um 5 sm á þykkt, og fastvaxinn á allri flathliðinni, virtist gamall og e.t.v. dauður. Hann líkist engum tegundum sem ég þekki, og ómögulegt að geta sér til um tegundarnafn (mynd ÓSA).
Annar stofn um 2 m, var í SV-horni garðsins, sem hafði skotið fjölmörgum greinum. og sá þriðji nokkru austar, orðinn líkari venjulegu tré. Þórhallur sagði, að þegar húsið var brennt, hefði vindur snúist í norður, og birkitrén sem næst voru húsinu hefðu sviðnað og sum drepist, og verið söguð niður. Neðan (austan) við tætturnar er röð af 7 stórum birkitrjám, milli heimreiðar og húsa, þau sakaði ekki, og eru ennþá í góðu standi. Þau eru 5-7 m há., flest margstofna, og stofnar og greinar áberandi sveigðar til austurs, undan stormáttinni.
Á lágum hól, um 15-20 m sunnan við tætturnar og umrædd tré, eru 5 birkitré, í þéttri þyrpingu, eitt þeirra, sem er í miðju, hæst og sverast, ca. 10-12 m hátt, einstofna, og með allt að hálfs metra stofnþvermáli í 1 m hæð. Er það líklega sverasta birkitré í görðum í Fljótsdal. Þessi trjálundur er líklega eldri en trén við bæinn, eða frá um 1910-15, og sagði Jóhanna í Brekkugerði að Jörgen faðir sinn hefði plantað þeim og gefið elstu börnum sínum sínu hvert tré. Það stærsta og líklega elsta var þá tileinkað Eiríki, elsta syni hans.(Sbr. myndir ÓSU).
Þórhallur hefur byggt sér kofa úr timbri, sem stendur rétt utan og ofan við hólinn með lundinum, og sunnan við hann er útiborð og stólar. Hann sagðist hafa hug á að byggja sér hús þarna á gamla bæjarstæðinu. (Ferðadagbók 27. júlí 2012)
Úr Fljótsdalsbók (handriti) 2014.
Skógrækt var á dagskrá ungmennafélaganna. UMFF fékk lóðina á Valþjófsstað “til skógræktar og húsbyggingar”. Árið 1915 var ákveðið að sækja um styrk “til gróðrarstöðvar” til Búnaðarþings, og sama ár hélt Sigmar Guttormsson fyrirlestur “um uppruna og eðli skrautgarða”, en hann hafði þá numið garðyrkjufræði í Danmörku. Oft var til umræðu á fundum af girða lóðina og koma þar upp trjágróðri. Hvatti Halldór Guttormsson sérstaklega til þess á fundum 1925 og 1926, og “skoraði einkum á stúlkurnar, að koma upp skrúðgarði kringum húsið.” Ekki tókst þó að girða lóðina fyrr en sumarið 1928, og 1929 var Sigmar G. Þormar fenginn til að gera skipulagsuppdrátt fyrir ræktun á henni, þá voru plöntur fengnar frá Hallormsstað, en lentu í Fljótinu. Lóðarsamningur við prestinn var endurnýjaður 31. des. 1929.
Vorið 1930 var Svava Skaftadóttir garðyrkjukona í ferð um Austurland á vegum Kvenfélaga og Búnaðarfélaga, til að leiðbeina um trjá- og blómagarða. Kom hún á fund í félaginu, og var síðan við plöntun á birkitrjám kringum lóðina. Illa gekk að halda girðingunni við, og þetta mál síðan iðulega til umræðu. Vorið 1939 barst félaginu bréf frá Skógræktarfélagi Austurlands (stofnað 1938), með tilboði um inngöngu, og var það samþykkt. Vorið 1940 bauðst Skógræktarfélagið að leggja UMFF ókeypis til 300 trjáplöntur, og var samþykkt að þiggja þá gjöf. Þá var rætt um að félagið þyrfti að fá 10-15 hektara af landi Valþjófsstaðar til skóggræðslu, en af því varð ekki.
Á aðalfundi 14. maí 1950 var kynnt bréf frá Skógræktarfélagi Austurlands, þar sem hvatt var til að stofnuð yrði skógræktarfélagsdeild í sveitinni. Var skipuð nefnd til að annast það. Til er listi með nöfnum um 15 manna, sem innrituðust í deildina, en hún virðist þó ekki hafa komist á legg. Um þetta leyti urðu samt til 1-2 ha skógræktarreitir á þremur bæjum í sveitinni (bls. xxx). Árið 1961 fékkst leyfi frá Kirkjumálaráðuneyti að stækka lóð félagsins í því skyni að græða þar skóg.
Á 40 ára afmæli félagsins 1950 gaf Þórarinn skólastjóri því 200 kr. er verða skyldi vísir að sjóði til að fegra lóðina kringum samkomuhúsið. Næsta vor ákvað aðalfundur að stofna Fegrunarsjóð UMFF, sem öllum væri heimilt að efla með frjálsum gjöfum, og tilgangur hans skyldi vera “að koma upp minningarlundi fallinna félaga við félagsheimilið”, þegar nægilegt fé hefði safnast til þess. Af því mun þó ekki hafa orðið.

Garðurinn á Egilsstöðum í Fljótsdal
Þann 21. júlí 2014 skoðaði ég garðinn á Egilsstöðum, sem er í lág milli gamla og nýja íbúðarhússins, aðeins ofar en húsin, og stendur í brekku. Hann er ferkantaður, um um það bil jafn á alla kanta, ca. 30-40 m., vel girtur, með hliði að neðan (austan). Til garðsins var stofnað milli 1960 og 1970, af þeim Egilsstaðasyskinum, sem plöntuðu þar ýmsum tegundum trjáa og runna og fluttu í hann innlend og erlend blóm.
Trén hafa vaxið áætlega og eru flest komin í 8-10 m hæð. Mest ber á alaskaöspum er standa efst í garðinum, og hafa náð um 10 m hæð. Neðar og utantil í garðinum eru tvö eða þrjú sitkagrenitré, og nokkur lerkitré, álíka há. Neðar og nær miðju, rétt ofan við hliðið eru um 10 blágrenitré, er standa sum í röðum, upp-niður, og eru heldur lægri, eitthvað um 6-7 m en ágætlega þroskaleg, og nest er líklega eitt rauðgrenitré, svipað að hæð. Enga furu sá ég í garðinum. Yst og neðst er röð af reynitrjám, um 6-8 m, í ágætu formi, og um miðju er önnur reynitrjáröð, yngri og lægri. Þar eru líka tvö gráelritré. Röð af birkitrjám er innst í garðinum og nokkur birkitré líka á ytri og neðri mörkum hans, líklega flest 5-7 m. Í miðjum garði er um 2 m hár rósarunni, sem líkist mjög glitrós frá Kvískerjum, og gæti verið kominn frá Hallormsstað, hélt Bergljót Þórarinsdóttir, er sagði að þarna væri líka íslensk þyrnirós frá Kollaleiru í Reyðarfirði. Nokkrir rifsrunnar eru í garðinum innst og neðst. Annars er mikill hluti hans þakinn alaskalúpínu og umfeðmingi, og um hann allan vex rannfang (stóra afbrigðið) á stangli. Sumsstaðar er snarrótin ríkjandi, og farin að mynda þúfur. Begga segir að garðinum hafi ekkert verið haldið við síðan hún hætti að geta sinnt honum, fyrir um áratug síðan. Þarna var áður leikstaður barna á bænum, og sjást minjar hans sem smátótt í honum miðjum. (22.7. 2014).

Heiðveig Agnes Helgadóttir

© Helgi Hallgrímsson 2021