Skip to main content
16 November, 2021

Víðivellir fremri

16 November, 2021
Víðivellir fremri


Víðivellir fremri (fram) eru forn jörð, sem getið er í Droplaugarsonasögu og í elsta máldaga Valþjófsstaðar 1397, vegna skógarítaks sem kirkjan átti þar. Metin 12 hundruð 1695. Víðivallagerði var hjáleiga, þó jafnan talin sérstök jörð og sérmetin á síðari öldum, og þar var Víðivallasel. Jörðin á land yfir Víðivallaháls, austur að Gilsá á Gilsárdal. Jörðin (ásamt Gerði) komst í eigu Skriðuklausturs eftir 1500, og síðar Konungs og Landssjóðs, þar til ábúandi keypti hana snemma á 20. öld. Hér var síðasta kúabú í Fljótsdal (fram yfir 2000).

Ég skoðaði minjar á Víðiv. fremri 5. júlí og 23. okt. 1991 og tók nokkrar myndir af þeim.

Gamli bærinn: "Baðstofa á þrepi með reisifjöl, 9 ¾ × 5 ½ + baðstofuendi 6 × 6 álnir, þverhús 12 ½ × 5 ½ alin. Járnklætt timburhús, byggt 1934, og viðbót 1936, 2 hæðir og kjallari; eldhús, 1 herbergi niðri, 2 svefnherbergi uppi. Torfveggur mót norðri." (SJM II, 63).

Timburhúsið hefur verið byggt sunnan við torfbæinn og einn veggur hans notaður, sem aðalveggur að norðan. Á mynd af húsinu, frá um 1960, sést að það hefur snúið langhlið A-V, fjórir gluggar á suðurvegg (tveir stórir austantil, og tveir minni vestantil). Skorsteinn á þaki austast. Fyllt að austurstafni með grasi grónum hól (líklega leifar af torfbænum). Timburveggir og þak, hvort tveggja klætt bárujárni. Útidyr voru á vesturstafni, og þaðan gangur inn eftir húsinu að norðan, segir Hrafnkell (5.5.21012); úr honum hefur áður verið gengið í baðstofuna. (Veturinn 1946-47 var höfundur í farskóla í þessu húsi, og minnir að það væri mun stærra en hér er lýst). Húsið var rifið um 1960. Hrafnkell segir að það hafi staðið þar sem steypta fjósið var byggt 1959 , sem enn stendur, sambyggt fjárhúsum og hlöðu frá 1967-68. Steinhús var byggt 1954-1955, á lágum hól um 40-50 m utan og neðan við timburhúsið og gamla bæjarstæðið, hefur það síðan verið endurbætt og er í fullri notkun.

Fornar bæjarrústir: Skriður hafa nokkrum sinnum fallið á túnið og jafnvel á bæinn, sem líklega hefur eyðst af þeim sökum um 1670, eins og segir í annálum:

"Árið 1663: Það haust gengu fyrir austan þungar úrkomur, svo skriður hlupu víða á Austfjörðum. Þá tók af eina jörð, Víðivelli í Fljótsdal, bæinn og túnið, og allt það sem í bænum var, nema mennirnir komust undan naumlega, þó sumir löskuðust nokkuð." (Fitjaannáll).

Í Annál Halldórs Gíslasonar á Desjarmýri segir að þessi atburður hafi orðið 1669. Ólafur Jónsson telur vafalaust að átt sé við Víðivelli fremri, sem voru í eyði þegar fyrsta manntal var tekið 1703, líklega af völdum skriðunnar. Að sögn Mekkínar í Klúku féll skriða á túnið 1891. Ólafur Jónsson skoðaði ummerki skriðunnar um 1950, og taldi sig finna þar merki um fornbæinn:

"Sunnanvert við túnið á Víðivöllum fram er skriðubunga mikil, fram undan svokölluðu Stekkjargili. Norðanvert á þeirri bungu mótar fyrir rústum, og herma munnmæli, að þar hafi bærinn eitt sinn verið, en skriða tekið hann af." (Skriðuföll og snjóflóð I, bls. 336)

"... og eru rústir þær sem áður gat um, í því sunnanverðu, svo sem 150 m niður frá hjallanum. Þar mótar fyrir þessum mannvirkjum: Garðstubb, tvíhlöðnum, úr grjóti, 10-15 m löngum. Hann stefnir nokkurn veginn frá S-N, er mjög greinilegur, en þó á kafi í hlaupinu. Við neðri enda garðsins er óregluleg, þó nær ferköntuð tótt, 3-4 m á hlið, og suður og upp af henni greinileg tótt af litlu húsi; stærð 2 x 4 m, og skipt um þvert. Svo sem 80 m norðaustur af þessum tóttum er mikið af tiltölulega reglulegu grjóti á litlu svæði í skriðunni. Hugsanlegt væri, að þetta sé hleðslugrjót úr húsum, er jafnazt hefðu við jörðu. Vestar og talsvert neðar er svo greinileg, skeifulaga tótt. Gæti verið af húsi, sem hefði verið með þilstafni að framan. Virðist hlaupið hafa hlaðizt upp að húsi þessu. Nokkru neðar er svo stallur eða barð, er gæti verið framjaðar hlaupsins. Þar er nú dálítil rétt. Vel má vera að engin þeirra rústa, sem sjást þarna, séu af bæjarhúsum, þau hafi grafizt undir skriðunni og umrótast gersamlega. (Sjá riss)" (Sama heimild, bls. 336 /Teikning á bls. 335

Bænhús er sagt hafa verið á Víðivöllum fram (Sveinn Níelsson: Prestatal og prófasta. I, 1949, bls. 9), en engar frekari heimildir fást um það og enginn veit nú hvar það stóð.

Gripahús og tættur: "Neðarlega á gamla túninu voru aðalfjárhúsin, sambyggð, hétu Neðstuhús, nú rifin. Bæjarhlaða og nokkrir samliggjandi kofar, nafnlausir, voru rétt utan (NA) við nýju gripahúsin, nú rifin." (Örnefnaskrá frá 1973).

Sumarið 1990 stóð aðeins eitt torfgrjóthús, Hesthúsið, stutt fyrir innan og ofan bæinn (framan við lækinn), sem byggt var upp úr gömlu fjárhúsi, er kallaðist Efstahús. Járnþak var á húsinu og timburþil á stafni. Að baki því var hlaða með járnþaki. (Hrafnkell Björgvinsson endurbyggði). Stuttu innar var fjárhús kallað Bæjarhús, sem sést á litmynd af bænum frá um 1970; ferhyrnd, steypt súrheysgryfja var þá viðbyggð því að ofan, þar sem áður var líklega hlaða. Neðstuhúsin voru í notkun fram til um 1970, þegar steyptu fjárhúsin voru byggð, og er til mynd af þeim frá þessum síðasta tíma. Þetta hafa verið tvö samhliða fjárhús úr torfi og grjóti. Hrafnkell segist hafa endurbyggt ytra húsið úr járni á trégrind og stækkað fremra húsið, líklega gert það tvístætt. (Sögn hans 5. maí 2012).

Nátthagi: "Framan og neðan (vestan) við gamla túnið heitir Nátthagi, nú ræktaður." (Örnefnaskrá).

Garðar og veitur: "Hagagarður á Klúkumörkum. Túngarður ofan við tún. Sýnileg ummerki vatnsveitinga á tún. " (SJM II,62) “Landamerkjagirðing á gamlan grjótgarð. Túngirðing á gamla vörslugarða.” (SJM II, 63).

Stekkur: "Á Bæjarhjalla fremst er Stekkjarklettur, og þar við er stekkur." (Örnefnaskrá). Ólafur Jónsson kallar hjallann Stekkjarhjalla á rissmynd í Skriðuföll og snjóflóð I, bls. 335. Einnig sýnir hann Stekkjarklett og getur um Stekkjargil.
Stekkjartóttin er rétt við Stekkjarlæk, neðan undir stuttu klettagili, að innanverðu. Hún er tvíhólfa, hlaðin úr grjóti, um 1,70 m á breidd og um 2,30 + 2 m á lengd, byggð upp við grjótgarð sem liggur þarna meðfram læknum. Við tóttina að framan eru nokkur ógreinileg hólf, úr grjóti og torfi, lág og vallgróin, og lítill nátthagi fyrir innan og neðan, um 10×12 m. (Skoðað 23. okt. 1991, einnig ljósm. og teiknað).

"Bjarnajaðar er inn við merkin, þar á að vera heygður sakamaður." (Örnefnaskrá). Í Þjóðsögum Sigfúsar er sagt frá draugnum Víðivalla-Móra, sem kenndur var við þennan bæ eftir að Auðunn bóndi á Langhúsum losaði sig við hann, en áður var hann nefndur Langhúsa-Móri. (Sjá Langhús).

Umsögn var ekki orðuð 1990, en þá hafði ég ekki rekist á ofangreinda heimild um miðaldabæinn sem fór undir skriðuna. Minjar hans væri ástæða til að vernda.

Heiðveig Agnes Helgadóttir