Skip to main content
16 November, 2021

Víðivallagerði

16 November, 2021
Víðivallagerði


Víðivallagerði var hjáleiga Víðivalla fremri, en jafnan talin sérstök jörð, metin á 6 hundruð 1695, þá var Víðivallasel, sem er innst í landinu, líklega talið með heimajörðinni. Varð klausturjörð um 1500, síðan eign landssjóðs, þar til ábúandi keypti hana 1912. Hefðbundinn búskapur og föst búseta lagðist niður á þessari vildarjörð um 1990, en síðan hefur ræktarland verið nýtt frá ýmsum bæjum á Héraði og úthagi að mestu tekinn til skógræktar. Töluverðar landskemmdir urðu af skriðuföllum 30. des. 1997, en ekki er vitað til að þær hafi skemmt hús eða húsatættur. (H. Hall.: Skriðuföll í Fljótsdal. Múlaþing, 31, 2004).

Örnefnaskrá Gerðis er óvenju ýtarleg og góð heimild, en hún var skráð eftir Margréti Sigurðardóttur, sem átti þar heima alla æfi.

Ég skoðaði minjar í Víðivallagerði 9. ágúst 1990 og tók af þeim neg. myndir. Guðrún Kristinsdóttir skoðaði fjárhúsaþorpið 27. ágúst 1991 og myndaði húsin. Höf. skoðaði þau síðast og myndaði (pós. myndir) 23. okt. 1991.

Gamli bærinn: "Frammihús 12 × 6 álnir, portbyggt, með kvisti og timburþili fram á hlað (b. 1900), baðstofa 17 × 6 1/2 alin, sneri eins... Önnur hús við enda baðstofu og frammihúss, búr og eldhús t.v., skemma t.h. Búið í bænum til 1936. Steinhús byggt 1936, stærð 9 ×10 m, 1 hæð, rishæð og kjallari undir hálfu." (SJM II, 62, mynd).

Í aðföngum "Sveita og jarða í Múlaþingi" í Héraðsskjalasafni, eru teikningar af gamla bænum, bæði af útliti hans og grunni. Grunnteikninguna gerði Þorsteinn Maak, kringum 1970, þá stóð ytri hluti bæjarins ennþá uppi, að hans sögn, en búið var að rífa timburhúsið, baðstofuna og skemmuna. Á grunnmyndinni sést að göng hafa legið frá bæjardyrum á frammihúsinu, beint inn í baðstofuna, sem var bakvið húsið; þaðan var svo gengið í torfhús sem var vinstra megin við baðstofuna og sneri þvert á hana, en í því voru eldhús og búr. Við hlið þess var annað hús, tvískipt, með útidyrum, kallað kofi og þró. Hinum megin við frammihúsið var skemma, með timburþili og dyrum fram á hlað. Að húsabaki til hægri var svo fjós og hlaða, viðbyggt bænum í horn.

Sumarið 1990 voru ennþá rústir af torfbænum rétt fyrir ofan steinhúsið, a.m.k. af nokkrum hluta hans, líklega búri, eldhúsi og baðstofu. Veggir húsanna voru enn býsna heilir, enda vel hlaðnir, úr völdu grjóti, og víða eintómt grjót í þeim að innanverðu. Yst í þyrpingunni var smákofi, með járnþaki. Rústirnar voru grasi vaxnar, og hefðu átt að geta enst lengi. Þetta voru þá heillegustu torfbæjarrústir í Fljótsdal. (Líklega er búið að ryðja þessu öllu saman og jafna við jörðu.)

Fjós: "Fjós og hlaða aðeins frá bænum." (SJM II, 62). "Brekkan ofan við bæinn heitir Fjósbrekka." Sumarið 1990 var fjósið ennþá innan og ofan við bæjartætturnar, með torfþöktu járnþaki og tvöföldum dyrum, en hætt var að nota það.

Brunnhús: "Framan við Bæjarlind er Bæjarhóll” [þar sem bærinn stendur]. Ysti hluti hans heitir Brunnhúsbarð." (Örnefnaskrá). Þar  segir Þorsteinn Maack að sé hleðsla við lækinn, líklega til að mynda bunu í honum, en gæti líka verið af kofa sem byggður var yfir lækinn, e.k. brunnhúsi. Hann segir að þarna hafi verið ullarþvottastaður (Munnl. heimild 14.5.12).

[Til samanburðar má vísa á brunnhús sem var á bæjarlæknum á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal. Þar voru byggð 11,5 m löng göng úr hlóðaeldhúsi bæjarins, að brunnhúsinu, og voru þau “borghlaðin”, og lækkuðu að læknum. Úr göngunum var einnig frárennsli í lækinn, neðan við brunnhúsið. Nánar í bókinni Fimmtíu sumur í Hrafnkelsdal, Ak. 2006, í viðtali við Kolbein Inga Arason flugstjóra.)]

Smiðja: "Fyrir framan Dældina [neðan í Bæjarhól] er Smiðjuholt og næst er Smiðjutún." (Örnefnasakrá). Þarna heitir líka Smiðjubrekka og Smiðjuklettar fyrir ofan hana. Kofatótt er innan við bæinn, sem gæti verið af smiðjunni.

Hjáleiga heitir "yst og neðst í túninu. Ókunnugt er um byggð þar", segir í SJM II, 60. "Utar og ofar heitir Þríhyrna. Nú liggur vegurinn efst um hana, og framan við Hjáleigu. En það er flötur meðfram Börðunum, en það er brekka, sem liggur frá túngarði fram að Bæjarlindinni fyrr töldu. Þarna undir Börðunum stendur vallgróin tóft, sem fyllt hefur verið með gosösku frá 1875." (Örnefnaskrá). Það mótaði enn fyrir tóttinni 1991.

Nátthagi var innst á gamla túninu eða rétt fyrir innan það; minjar um hann fóru undir skriðu 1997 og eru því horfnar. Matjurtagarður var við Fjárhúslæk að utanverðu, ofan vegar. (Þorst. Maack, munnl. heimild, 14.5.12)

Myllutótt er við Grundarlækinn, skammt fyrir innan bæ, í fallegu gili við smáfoss. Gunnlaugur Haraldsson (þá safnvörður á Eg.) ritaði nákvæma lýsingu á myllunni 1975, eftir frásögn Margrétar Sigurðardóttur í Gerði, sem fer hér á eftir:

"Myllutóft við Grundarlæk, nokkuð fyrir innan bæ. Stendur hún á ytri bakka lækjarins, á sléttri grund litlu neðan við þar sem lækurinn steypist fram af stalli í hlíðinni. Var grafin renna úr læknum litlu ofan við tóftina, og hluti lækjarins leiddur í gegnum mylluhúsið, en rennan sameinaðist svo aftur læknum litlu neðan við mylluna. (Sjá annars riss í dagbók 9/7 1975, svo og uppdrátt gerðan eftir því. [NB])

Veggir mylluhússins standa ennþá að nokkru leyti, en nokkuð er hrunið niður í tóftina. Vatnsmyllusteinarnir liggja á bakkanum, en þeir komu í Víðivallagerði 1901, eins og sjá má á klöppuðu ártali í þá. Voru þeir tilhöggnir af Halldóri bónda á Haugum, Skriðdal, sbr. stafi hans H H, í steinana. [líklega úr steinum úr Kvarnarhrauni í Haugahólum, en þar þótti sérlega gott grjót í myllusteina, sjá örnefnaskrá Hauga, bls. 4]. Frá Haugum voru steinarnir síðan fluttir á klakk í Víðivallagerði.

Við mylluhúsið er harður melur, þar sem Sigurður Þorsteinsson bóndi í Víðivallagerði, faðir heimildarmanns, lagði út ábreiður á, og þurrkaði þannig kornið á þeim, þegar honum þótti það ekki nógu þurrt. Mjölið var sótt á Seyðisfjörð fyrst þegar Margrét fór að muna eftir sér, en síðan yfir Hallormsstaðaháls og Þórudalsheiði, á Reyðarfjörð.

Steinarnir lágu láréttir, en þeir eru um 50 cm í þvermál og 10-12 cm á þykkt. Í efri flöt efri steinsins er í miðju höggvin keilulaga skál með lágri bryggju, þar sem mjölið [kornið] rann niður á milli steinanna. Í neðri flöt steinsins er svo klöppuð rás fyrir annan enda járnsins, sem síðan gekk niður í gegnum kringlótt gat á neðri steininum og niður í kallinn. Járnið er til, óryðgað, en kallinn, sem var úr tré, er horfinn af sjónarsviðinu fyrir löngu. Á neðri enda hans voru fleigaðir inn spaðar, einir 6 að sögn heimildarmanns, sem tóku síðan á móti vatnsbununni úr rennunni, sem var úr tré, þar sem hún var næst kallinum. Snerist þannig efri steinninn, en sá neðri var fastur.

Til hliðar við myllusteinana var kassi, mjölkassinn. Í hann var mjölið [kornið] sett, en frá honum lá mjó renna fram yfir miðju efra steinsins, og eftir henni rann mjölið [kornið] niður í skálina. Rennan var breiðust efst, við kassann, en mjókkaði fram í nokkra sentimetra - var opin að ofan. Hún var tengd kassanum, botni hans, við þann enda er sneri að steinunum - með léreftstúðu, þannig að rennan var hreyfanleg upp og niður. Á sín hverri hlið kassans, við þennan enda hans, var komið fyrir trétöppum í götum. Frá þeim lá band niður í enda rennunnar. Var rennan síðan hækkuð og lækkuð með því að vinda upp bandið (böndin) á trétappana. Gat maður þannig skammtað rennslið á mjölinu [korninu], og vissi Sigurður, eftir nokkra reynslu af þessum útbúnaði sínum, nákvæmlega, hvenær mjölið [kornið] var búið úr kassanum. Gat hann því verið fjarstaddur meðan myllan malaði, og síðan komið á vettvang, þegar hann taldi mjölið [kornið] búið. Var það áríðandi, þar sem ekki máttu steinarnir ganga lausir, þar sem þeir eyðilögðust þá fljótt, eða rásirnar, sem ristar voru í snúningsfleti þeirra.

Fyrir kom, sérstaklega ef mjölið [kornið] var ekki nógu vel þurrt, að það stóð á sér, og stíflaðist rennslið í rennunni. Til að fyrirbyggja þetta, kom Sigurður fyrir lítilli járnfjöður við barm skálarinnar á efra steininum. Við hvern snúning steinsins snerti fjöðurin nett við enda rennunnar og hristi fram mjölið [kornið]. Til að ákvarða rennslið og viðkomu fjaðrarinnar voru vindutapparnir á hlið kassans því nauðsynlegir. Með reynslu tókst Sigurði að læra nákvæmlega á þessa stillingu sína, eins og fyrr segir. Að öðru leyti vísast til teikningar í dagbók Gunnlaugs Haraldssonar, 9/7 1975, eða uppdráttar eftir því rissi. (Eftir tilsögn Margrétar Sigurðardóttur, Víðivallagerði, 9. júlí 1975)." (Spjaldskrá Gunnlaugs, í Héraðsskjalasafni, Eg.) [Ýtarlegasta lýsing á vatnsmyllu á Héraði, sem ég hef séð.]. Þorsteinn Maack segir annan myllusteininn vera heima við bæinn, en hinn sé líklega týndur; heldur að Jónas Einarsson hafi notað hann sem sigstein á fjárhúsþak (Munnl. heimild 14.5. 2012)

Fjárhús og hlöður heima við: Fjárhúsin stóðu í gisinni þyrpingu á bala (Fjárhústúni) skammt fyrir utan bæinn, stutt fyrir innan Fjárhúslæk og ofan við Hjáleigu. Þetta húsaþorp var einstakt hvað varðar endurgerð húsanna og óvenju fagurt. Því var svo lýst 1990:

Þau eru þrjú, öll stök, með viðbyggðum hlöðum, og auk þess ein stök hlaða. Þau standa í hálfhring utanum eins konar hlað eða húsagarð, og minna á húsaskipun sveitabæja í Mið-Evrópu. Veit ég ekki til að gripahúsum hafi verið skipað þannig annarsstaðar á Héraði. Húsin nefnast hér (eins og venjulega): Efstahús, Miðhús og Neðstahús, en á milli Efsta- og Miðhúss var Hesthús, sem nú er hlaða. Húsin eru öll nokkuð keimlík, með torfgrjóthlöðnum veggjum og járnþökum, en timburþil eru á stöfnum Efsta- og Miðhúss. Miðhúsið hefur líklega verið hlaðið upp nýlega, en veggir hinna húsanna virðast vera nokkuð gamlir, og eru dálítið farnir að gefa sig, einkum á Neðstahúsinu. Járnþökin eru á sperrum, óvenju brött, og ná ýmist út á ytri veggbrún eða eru framlengd með járni, sem lagt hefur verið á veggina, til að forðast vatnsrennsli ofan í þá. Þökin eru öll einangruð á innra borði með frauðplasti, sem sett er upp á milli sperra (og langbanda?). Garðar eru í hefðbundnu formi, með stoðum upp í sperrur, en botnar þeirra eru úr vatnsheldum krossviði. Þökin eru bundin með vírum niður í hæla í veggjum, bæði að utan- og innanverðu. Í sumum húsanna eru gólfgrindur af járni, og kjallari undir þeim fyrir skítinn. Vatn og rafmagn er í öllum húsunum. Þekjur eru grænmálaðar, en stafnar og efri veggir á hlöðum, blámálaðir, en timburstafnar með brúnum viðarlit. Viðhald húsanna og endurnýjun annaðist Jónas Einarsson smiður (frá Víðivöllum ytri), lengi búsettur í Egilsstaðaþorpi, en annaðist búskap í Gerði á árunum 1975-1985 (?). Í hans höndum voru gömlu torfhúsin endursköpuð í samræmi við kröfur nútímans, svo á betra varð ekki kosið. Hey er nú geymt í hlöðum og sumum fjárhúsunum, frá Víðivöllum fremri.Nú eru þessi hús horfin.

Fjárrétt, gömul var (1991) NA við fjárhúsin, við Fjárhúslækinn að innanverðu. Hún var hlaðin úr grjóti, allstór, með þremur hólfum, innsta hólfið stærst, um 14×7 m, en alls var réttin um 30 m löng. (Ekki er vitað hvort henni var rutt með húsunum).

Túngarður: Frá réttinni liggur grjótgarður í boga og niður meðfram læknum og niður fyrir veginn. Þar tekur við skurður sem lækurinn fellur í, og hefur myndað aðhald niður að Stekkjarkvísl Keldár. Innan og ofan við fjárhúsin tekur við torfgarður, sem beygir niður að lækjardraginu (Lindinni), sem er milli fjárhúsa og bæjar; í framhaldi af honum er garður eftir endilöngum Hryggnum, ofan bæjar, þannig að hlaðið var í skörð á milli klettabríka, inn að Grundarlæk. (Ferðadagbók 23. 10. 1991 og Þorsteinn Maack, munnl. heimild 14.5. 12). Getið er um túngarða og vallargarða á nokkrum stöðum í örnefnaskrá Gerðis, en svo er að sjá að enginn garður hafi verið innan við túnið.

Gamlistekkur (beitarhús): Milli Ytri- og Innri-Ljósár, um hálfan km inn frá bænum eru beitarhús frá Gerði, sem kallast Stekkur eða Gamlistekkur (Gerðisstekkur). Þar stóðu 1990 tvö allstór fjárhús í dálitlum túnbletti, aðskilin, en stutt á milli, og sneru bæði samhliða dalnum, bæði með járnþaki á sperrum, svipað og heimahúsin, og í góðu standi. Viðbyggð hlaða var við fremra húsið, undir sama þaki og það. Þökin voru rifin 1991, og mér er ekki kunnugt hvort veggir standa enn. Innan við túnið er Stekkhóll (Stekkholt, segir Þorsteinn), og neðan við það er Stekkgrund, og neðan vegar er Stekkkíll. (Innan við Innri-Ljósá féll stór skriða 30.12.1997.)

Nýistekkur er um 1 km innan við Gamlastekk, við hlíðarrætur, innan við Háuskriðulæk. "Þar er lítil fjárrétt við brekkuna, og samnefnd grund. Þar var um nokkur ár nátthagi." (Örnefnaskrá). Þarna er lítil, ferhyrnd tótt af réttinni, og mótaði fyrir nátthagagarði á grundinni fyrir neðan.

Víðivallasel: "Selið er beitarhús, utan undir samnefndu klifi, Selklifi. Selgrundir heita sléttar, samliggjandi grundir, sú ytri er beint niður af húsunum, hin innri framar, og nær hún inn að Klifi. Beitarhúsin eru aflögð." (Örnefnaskrá). Sellækir ytri og innri, falla ofan af Selklifi, sitt hvoru megin við selið, og Selkvísl úr Keldá er fyrir neðan það. Selið er um 1 km innan við Nýjastekk. Þar voru beitarhús frá Víðivöllum fremri og síðar frá Gerði, til 1952. Tættur þeirra eru greinilegar á tveimur stöðum á litlum túnbala utan undir brattri hlíð Selklifs. Garður er utan um túnið, úr grjóti og torfi, sem bendir til búsetu á selinu. (Þorsteinn Maack segir að leifar af hlóðum hafi sést í vegg í beitarhústóttunum. Munnl. heimild, 14.5.12).

"Aðalhúsin hafa verið tvístæð, með hlöðu að baki, um 7 × 3 m (hvort hús), með millivegg. Hlaðan er um 7 × 2 m að innanmáli. Innanvert við innra húsið er tótt af þriðja fjárhúsinu, sem hefur líklega verið rifið, og virðist lækurinn sem rennur rétt fyrir utan húsið, hafa grafið undan því og borið grjót að því, og líka að hlöðunni að ofan. (Líklega hefur þarna verið gömul rás, sem lækurinn hefur hlaupið í, en nú er hlaðið fyrir hana). Rétt fyrir utan gamla túngarðinn, sem mótar fyrir þarna á balanum, er tótt af litlu fjárhúsi, um 6 × 3,5 m að innanmáli, veggir grjóthlaðnir nær alveg upp. Hleðslur eru vandaðar og fallegar í báðum húsunum. Túnið hefur verið stækkað, og líklega girt með vír að utan og neðan, samt með töluverðri undirhleðslu, en að ofan og innan hefur gamall grjótgarður verið látinn duga. Hann liggur meðfram læknum innan við túnið, og er fyllt upp að honum að innanverðu, líkt og á Brattagerði á Hrafnkelsstöðum." (Úr ferðadagbók minni 23. okt. 1991)

Áveitur: "Kelduánni og fjallalækjum var veitt á þær [engjarnar] í gróindum og túnið líka. Þótti grasvöxtur mjög undir því kominn, að vatnsveitingar tækjust, og er töluvert um áveitugarða og skurði, sem víða sjást enn." "Grunur á að sumt áveitugarða og skurða sé mjög gamalt, frá 18. öld." (SJM II, 61).

"Þorsteinn Jónsson [Pálsson, segir Þorsteinn Maack] veitti Bæjarlindinni á tún sitt, svo brekkan hljóp fram. Fyrir þetta reiddist hann svo sjálfum sér að hann sagði að réttast væri að kalla skemmdina "Þorsteins skammar skömm." (Örnefnaskrá).

"Ólafsvellir heita sléttir bakkar austan við Selkvísl, og Langatjörn liggur á ská austan Móanna niður af Leirtjörn og Kerlingaraur, austan Ólafsvalla. Vestan úr henni er Sigfúsarskurður, gerður af Sigfúsi bónda hér, í þeim tilgangi að ná vatni úr Selkvísl, út fyrir ofan Móa, allt út á Heimanes." (Örnefnaskrá).

Kolagrafir: “Neðan við Stekkjargrundirnar byrja Móarnir, gamalt skóglendi, að mestu grasigróið, með mörgum kolagröfum.” (Örnefnaskrá).

Tjaldstaður: "Innri-Botn heitir þar fyrir framan og vestan í holtinu [innan við Nýjastekk]. Innan við hann er Tjaldbotn og Tjaldgrund, fram að háum torfgarði, en innan við hann heitir Leirgrund, og nær hún inn að Kerlingaraur." (Örnefnaskrá)

Ferjustaður var á Ferjuhyl í Keldá, við Ferjueyri, inn og niður af bænum, innan við Grundarlækjarós. Ferjan var líklega aðeins notuð í vatnavöxtum, en frekari heimildir vantar um hana.

Ytri- og Innri-Rétt (Sturluárrétt), eru á aurnum stutt fyrir utan Sturluá. "Sú ytri er lágur klettabogi, grasi gróinn í botninn. En sú innri er djúpt og þröngt klettagil, með björk í klettabrúnum til prýðis. Þarna rétt utan við ána er líka Prestalækur, þar fyrir innan ítak [skógarítak?]." (Örnefnaskrá). Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (III, 291) er reimleikasaga tengd réttinni, sem Sigfús á Skjögrastöðum skráði.

Smalakofar: "Spölkorn innan við Þingmannaklif er Geldingasteinn, og smalakofi er suðvestan undir honum." (Örnefnaskrá). Þessi kofi er stutt fyrir ofan mitt Gerðisbjarg. "Framan við Kerlingarlæk heitir Tréhraun, það liggur suður fjallsbrúnina. Inn af því, á brúninni, er hvilft í Hálsinn, og norðan við Svartöldu heiti Slakki; þar er Sigmundarkofi og Fýrka, varða." (Örnefnaskrá). Þorsteinn Maack segir að þriðja smalakofatóttin sé ofar í fjallinu, hérumbil beint upp af bænum, ofan við Drangadali.

Skógur: "Fjallið fyrir innan Sel er kallað einu nafni Selfjall, og innri hluti þess er nefndur Skógur, og sjást minjar hans hér og hvar." (Örnefnaskrá). Þarna var lágt og mjög slitrótt birkikjarr og stakar birkihríslur á stangli þegar hlíðin var girt til skógræktar 1982, og vex nú myndarlegur lerkiskógur neðantil í henni.

Þingmannaklif: "Innan við Innri-Ljósá er Þingmannaklif, þar er fært með hesta. Þá er Einstigi litlu framar. Næst er Hrafnagjá. Upp frá Nýjastekk er Sveinshamar. Sveinn Jónsson kleif bjargið á þessum stað." (Örnefnaskrá). Þessi örnefni eru í Gerðisbjargi, inn og upp af bænum, en það er um 2 km langt og samfellt bjarg, allt að 100 m hátt. Nafnið Þingmannaklif tengist gamalli alfaraleið úr Fljótsdal suður í Álftafjörð og Lón, og e.t.v. líka meintu Kiðjafellsþingi norðan í Suðurfelli (sjá Sturluflöt). Um klifið var ruddur vegur að sögn, en hans sér nú varla stað, og þar er nú ófært með hesta.

"Nafnið Þingmannakleif er sett í samband við Kiðjafellsþing, en það er lægð í hálsinn, rétt fyrir utan [innan] hjáleiguna (Víðivallagerði). Þessa leið eiga menn að hafa komið til þings frá Suðurfjörðum." (Kr. Kålund: Ísl. sögustaðir IV, s. 31, neðanmáls).

Vörður: "Í Selfjalli eru tvær vörður; sú neðri, Jólavarða, er innan við Litlueyrarlæk, og sú efri heitir Spilavarða. Jólavarða var hlaðin á jólum, Spilavarða hlaðin úr smáhellum, sem minna á spil." (Örnefnaskrá). Varðan Fýrka er við Sigmundarkofa sem fyrr segir.

Þórðarskúti: "Lítið eitt sunnar og ofar, ofan við bæ, er hár klettur og skúti undir berginu, sem heitir Þórðarskúti. Það eru munnmæli, að einhverjum Þórði hafi verið úthýst hér í Víðivallagerði, hafi hann látið fyrirberast þarna í skútanum og dáið þar. " (Örnefnaskrá)

Þjóðsaga: Fræg þjóðsaga af Gerðissystkinum tengist Víðivallagerði. (Sjá Þjóðs. Sigf. Sigf. XII, 70 og Grímu hina nýju 3. bindi, s 18-20). Margrét Sigfúsdóttir á Hrafnkelsstöðum orti kvæðaflokk um söguna, er birtist í Hlín, 34. árg. 1952.

Umsögn um minjar í Gerði 1990: Fjárhúsin í Víðivallagerði í sérflokki hvað varðar endurnýjun, viðhald og smekklegt útlit. Þau eru einnig líkleg til að geta staðið í áratugi, án teljandi eftirlits. Af þeim sökum tel ég tvímælalaust að þau beri að vernda. Þar sem jörðin er komin í eyði, er ekki fyrirsjáanlegt að þau verði notuð fyrir sauðfé í náinni framtíð. Auðvelt er að girða fjárhúsaþyrpinguna af. Bæjartætturnar hafa og töluvert verndargildi.

Heiðveig Agnes Helgadóttir