Skip to main content
17 November, 2021

Egilsstaðir

17 November, 2021
Egilsstaðir

Egilsstaðir eru forn jörð og töluvert landstór, metin á 16 hundruð 1651. Getið í fornbréfi frá 1517 og hefur þá verið í einkaeign, en komst síðan í eigu Valþjófsstaðakirkju. Árið 1804 er jörð þessi talin hjáleiga frá Þuríðarstöðum (Jarðabók Johnsens 1847, 362), sem líka var eign kirkjunnar. Líklega hafa báðar verið ein jörð í upphafi, ásamt Kleif. Egilsstaða er ekki getið í fornsögum, en í Þjóðsögum Sigfúsar er sagt frá fornmanninum Herjólfi á Egilsstöðum, sem deildi kappi við Jökuldælinga, og tengist ýmsum örnefnum á Vesturöræfum, eins og fyrr var greint frá. Sigfús Sigfússon dvaldi nokkur ár á Egilsstöðum, þegar hann var um tvítugt, hjá frænku sinni, Mekkínu Ólafsdóttur skyggnu, og skrifaði margt eftir henni. Um sama leyti ólst þar upp sonarsonur Mekkínar, Vigfús Sigurðsson (1880-1943), sem byrjaði um aldamótin að teikna og taka ljósmyndir. Hann teiknaði m.a. nokkra bæi í Fljótsdal, eins og þegar var getið.

Á Egilsstöðum var merkilegt safn af gripahúsum, sem dreift var um gamla túnið, og voru í góðu standi um 1990. Þeim var flestum rutt í riðuhreinsuninni, nema einu fjárhúsi og þremur hesthúsum.

Þau voru skoðuð og mynduð (neg.) 9. ágúst 1990. 3. ágúst 2012 voru þau hús skoðuð, sem eftir voru, og Ólöf Arngrímsdóttir, tók myndir af þeim.

Gamli bærinn: "Portbyggð baðstofa, 10 × 5 álnir. Eldhús niðri. Allir viðir úr kaupstað, plægð, slétt súð, máluð. Rifin 1940." (SJM II, 46). Til er teikning af framhlið (austurhlið) bæjarins frá 1899, sem Vigfús Sigurðsson gerði. Baðstofan snýr langhlið að hlaðinu, með tveimur samstæðum, allstórum gluggum á aðalhæð, 5 litlum gluggum á þekjunni, og tveimur strompum. Viðbyggt henni að sunnanverðu er hús sem virðist snúa eins og baðstofan, með tveimur þilstöfnum austur á hlaðið og dyrum á þeim báðum, líklega bæjardyrum og eldhúsi, því að á þekjunni er stór strompur sem rýkur úr, og syðst er torfstafn, líklega á fjósi. Neðan við hlaðið er matjurtagarður, unluktur torfveggjum. (Myndin var gefin út á póstkorti af Guðborgu Jónsdóttur og Þórarni Lárussyni á Klaustri um 1990 (?). Fleiri teikningar og riss eru af Egilsstaðabænum í vasabókum Vigfúsar, og sjást þar önnur viðbyggð hús að bæjarbaki, sem líklega hafa verið fjós og hlaða. (Ljósmynd Vigfúsar, sem birtist í Múlaþingi 29, 2002, bls. 26, er líklega af Egilsstaðabænum, en hefur speglast við kóperingu af neg. plötunni).

"Steinhús byggt 1940, 9 x 6 m, 2 hæðir, án kjallara, torfeinangrun." (SJM II, 46-47). Það var byggt 1938-39, segja ábúendur nú. Það hefur líklega verið panilþiljað innan, og sjást þær þiljur enn í stigagangi, en herbergi eru klædd nýrra efni; hurðir enn upprunalegar.

Útihús: "Flest gömul, úr torfi og grjóti, sum undir járni, standa dreift. Úr blönduðu efni, fjós (1952) fyrir 6, hlaða (1963), 324 m3, geymslur 136 m3 (SJM II, 47). Geymsluhúsið er viðbyggt íbúðarhúsi að ofan, eitthvað yngra en það. Það er steinsteypt, með járnþaki, líklega um 15 m að lengd, og nær langt út fyrir íbúðarhúsið, fjölnotahús, skipt í 4 parta með þverþiljum. Í innsta parti er nú (2012) salerni og bað, innangent í það úr íbúðarhúsi, næst er smíðastofa þeirra “Egilsstaðabræðra”, enn með smíðatólum þeirra, síðan almenn geymsla og matargeymsla yst. Fjós og hlaða úr steypu, eru sambyggð rétt fyrir ofan þetta hús. Hlaðan enn í góðu standi, en ytri fjósveggur sprunginn og mjög bilaður.

Núverandi íbúar gamla hússins (2012), Steingrímur Karlsson og Arna Bjarnadóttir, áætla að byggja upp “Óbyggðasafn” í þessari húsaþyrpingu, og hafa sett upp áætlun þar að lútandi og lagt fyrir sveitarstjórn. Meginstofn safnsins yrði húsbúnaður, áhöld og aðrir gripir úr eigu “Egilsstaðabræðra”: Egils, Sigurðar og Stefáns Gunnarssona, og fjögurra systra þeirra, sem bjuggu félagsbúi á Egilsstöðum 1963-1984, svo og Snorra bróður þeirra, sem hafði heimilisfesti á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal, og átti m.a. mikið safn gamalla saumavéla. (Sumarið 2013 var búið að endurbyggja hlöðuna og fjósið í þessum tilgangi, en frágangi ekki lokið. Rætt hefur verið um að endurnýja kláfinn á Kleif og heystrenginn þar, eða á Egilsstöðum, í tengslum við safnið.)

Bænhús?: Fjárhúsið Ystahús er talið vera byggt á fornum grafreit eða bænhússtæði (Búkolla hin nýja, bls. 247). Þar hafa fundist mannabein (staðf. af Bergljótu Þórarinsd. 6.3.1994). Um bænhúsið eru engar öruggar heimildir, og fremur ólíklegt að það hafi verið svo langt frá bæ (um 150 m), en hugsanlegt að bærinn hafi upphaflega verið á þessum stað, því að Ystahús stendur á allstórum hól, og virðist móta fyrir fornum tóttum á honum.

Gripahús í heimatúni: "Hóllinn framan og ofan (vestan) við bæinn heitir Hesthústún [Hesthúshóll segja núv. áb. / Bréf 6.4.2012] Bæjarlækur rennur um túnið, rétt fyrir utan bæinn. Utarlega í túninu er ennþá einn lækur, sem heitir Ysthúslækur, þar nálægt var fjárhús, kallað Ysthús." (Örnefnaskrá).

Hesthús gamalt er stutt fyrir ofan eldri bæinn, rétt neðan þjóðvegar, sporöskjulaga, með bröttu torfþaki, sem var nýlega uppgert 1990, en nokkuð skemmt af traðki 2012. Það hefur síðustu 2-3 áratugi verið notað sem reykhús. Annað hesthús, lítið (tekur 3 hesta), með torfþaki, er á milli íbúðarhúsanna, er enn í góðu standi 2012 og notað sem kartöflugeymsla. Þriðja hesthús, nýlegt, er um 250 m framan við bæinn, innan við Myllulæk, í "nýhúsastíl", þ.e. með járnþaki og -stafni, áður geitakofi, en geitur voru haldnar á Egilsstöðum fram um 1950. Stendur líklega enn.

Kofi var byggður yfir lind um 50 m utan og neðan við bæinn, og var þar kæld mjólk o.fl. matvörur. Stendur enn 2012.

Út og niðri á túninu voru, um 1990, þrjú gömul fjárhús, stök, með nokkru millibili, utan við Bæjarlækinn. Efra miðhúsið var upprunalegt, með torfþaki og veggir stóðu vel. Lítið hús úr timbri og járni var byggt við húsið, til að geyma fyrsta traktorinn, sem kom 1953. Neðra miðhúsið var með viðbyggðri hlöðu, sem var sporöskjulaga að utanverðu, a.m.k. grjótveggirnir, og járnþök á sperrum voru á báðum húsum. Stæðilegt hús og sérkennilegt. Þessi tvö fjárhús voru jöfnuð við jörðu um 1990, og 2012 sást aðeins móta fyrir þeim í túninu.

Þriðja húsið, kallað Ysthús (Ystahús) snýr samhliða fjallinu, með dyrum á miðjum austurvegg, og glugga á útstafni. Hlaða viðbyggð suðurenda, að hluta úr timbri og bárujárni, nema grjótveggur að framan og ofan. Árið 1990 var það upprunalegast af húsunum á Egilsstöðum, t.d. ennþá að hluta með birkiárefti undir torfþekjunni, og nokkrum hellum innst. (Á gamla hlöðuþakinu hafa líklega verið hellur, því að margar slíkar lágu ofan á þaki fjárhússins). Ætlunin var að varðveita þetta hús, og því var girt utanum það, svo það slyppi við riðuhreinsun. Hins vegar entist það illa eftir að hætt var að nota það og halda því við. Sumarið 2012 var þekjan fallin af ytri hluta þess, en var nokkuð heil á innra helmingi. Þá var suðurveggur hlöðunnar einnig fallinn inn, en aðrir veggir heilir og svo þakið.

Þá voru (1990) fjórstæð fjárhús innar og neðar, rétt fyrir innan Bæjarlækinn, að mestu úr bárujárni á trégrind og þökum með bárujárni á sperrum, aðeins grjótveggur að utan, líklega af eldri húsum. Smekklega byggð og snyrtileg hús. Þau voru rifin og tóttin sléttuð eftir 1990. Í gömlu húsunum á Egilsstöðum var aðallega hnullungagrjót.

Mylla var við Grundarlæk rétt framan við tún, sem einnig var nefndur Myllulækur, skv. örnefnaskrá. "Þar var um tíma vatnsmylla", segir í skránni. (Ekki vitað hvort tóttin sést).

Túngarður: "Eldri grjótgarður um tún heima og á Eyrarseli o.v. " (SJM II, 46). Garðslækur er yst í túni, sem líklega er kenndur við túngarðinn.

Gamlistekkur er við Hvannalæk. "Þar við lækinn, skammt frá veginum, eru rústir af stekk, kallaðar Gamlistekkur... Rétt utan við stekkinn eru tveir smálækir, kallaðir Hlauplækir." (Örnefnaskrá). Þetta er um miðja vega milli bæjar og Eyrarsels, og sést tóttin af veginum.

Smalakofi er í fjallinu við Fremri-Þórisstaðalæk, á næsta hjalla ofan við Selhlíð, hlaðinn úr hellum, enn mjög heillegur. (Annar slíkur er í fjallinu ofan við Brekku). Páll Pálsson skoðaði kofann og myndaði 1991, í fylgd með Benedikt Jónassyni frá Þuríðarstöðum. Páll lýsir kofanum svo:

"Byrgið stendur á hjalla, allhátt upp í hlíðinni utan við Þórisstaðalæk fremri. Er alveg byggt úr hellugrjóti og hangir enn uppi. Dyr snúa til suðurs, fram dalinn. Sér í toppinn á Snæfelli frá kofanum.[...] Hæðin til lofts mun ekki ná 100 sm. Annað, mjög lítið byrgi, virðist hafa verið við hliðina á smalabyrgi þessu, og sjást leifar þess á annari myndinni - er dalsmegin við kofann. Við Benni giskuðum á að það hefði verið fyrir hundinn. Mannvirki þetta er í landi Egilsstaða. Stendur rétt utan við fremri Þórislækinn[!], á rana sem myndast milli hjallabrúnarinnar og lækjarfarvegsins, en lækurinn sneiðir á ská út eftir hjallanum, smáspöl. Landamerkin milli bæjanna eru við ytri Þórislækinn." (Bréf, ágúst 1991). Skv. korti sem fylgdi bréfinu er kofinn í um 330 m hæð y.s.

Bergljót og Gunnar á Egilsstöðum segja að bræðurnir Gunnar og Vigfús Sigurðssynir hafi byggt kofann um 1890, er þeir sátu yfir kvíaám, en litla byrgið hafi börn Gunnars byggt, er þau voru að leika sér þarna, en þar á meðal var Jóríður móðir Gunnars. (Bréf 6.4 2012).

Eyrarsel: "Innan við ána [Eyrarselsá], neðan hæðanna er Eyrarsel, þar eru nú beitarhús, þar hefur verið búið stundum. Þar upp af bænum er Eyrarselsklif. " (Örnefnaskrá). "Afbýlið Eyrarsel (Aurasel í Jarðabók 1847) er niður við Jökulsá og innan við Eyrarselsá. Það fór í eyði í stórubólu (um 1709). Síðar voru þar og eru enn beitarhús." (SJM II, 46). Halldór Stefánsson segir það sama um eyðingu þess (Múlaþing 5, 1970). Í manntali 1703 eru skráðar þar þrjár persónur, en líklega hefur þar aldrei verið föst byggð.

Eyrarsel er um 2 km innan við bæ. Þar voru 1990, tvö fjárhús, með stuttu millibili á litlum túnbletti. Fremra húsið var gamalt, í upprunalegri mynd, með torfþaki og viðartróði öðru megin, en járnþaki undir torfi hinum megin, og járnklæddri hlöðu að baki. Það var rifið 1991. Ytra húsið stendur enn, og var skoðað og myndað 16. ágúst 2013. Það er tvístætt með langveggjum úr grjóti, timburstafni, sameiginlegu járnþaki á sperrum, og einangrunarplasti milli þeirra. Mikið er af hellugrjóti í veggjum, sem standa vel. Viðbyggð að ofan er allstór hlaða, með járnþaki og grjótveggjum sem eru byrjaðir að hrynja. Gunnar bóndi segir þetta hús hafa verið byggt upp úr tveimur eldri húsum, sem voru aðskilin með sundi, er hvíldi á stoðum, og voru þá jafnframt lengd um ca 2 m. Það var sótthreinsað og tekið úr notkun 1990, og tókst þannig að bjarga því. Göngubrú er á Eyrarselsá, rétt utan við húsin. (Á Eyrarseli er sagður vera draugur að nafni Eyrarsels-Móri, skv. Búkollu 1995. Sjá þátt af Lata-Páli á Kleif í Þjóðs. Sigfúsar Sigfússonar).

Lúðasel: "Þar uppi er svo Lúðasel, eða Lúðursel, og Lúðaselsbotnar eru þar, ofan við Hrafnakletta, mitt milli ánna [Kleifarár og Eyrarselsár]. Þar eru merki eftir selið. Þar ofan við er Votaberg, klettar sem liggja þvert milli ánna." (Örnefnaskrá).

Sel á Selhlíð: "Þar ofar heitir Selhlíð, sem er langur hjalli, og nær út undir bæinn Hól." (Örnefnaskrá) "Selhlíð heitir í miðju fjalli, út og upp af bæ, þar eru óljósar tættur af seli, eftir nafninu að dæma..." (SJM II, 46). "Selhlíð byrjar við Bæjarlæk á Egilsstöðum, og endar við Ljósá, út og upp af Hóli. Á henni, innan við Fremri-Þórisstaðalæk, eru mjög greinilegar tættur af fjárhúsi, með heytóft við annan endann.” (Bergljót og Gunnar, bréf 6.4.2012).

“Á hjallanum milli Þórisstaðalækjanna, rétt ofan við veginn, voru tvær litlar, samliggjandi tóftir, þær eru nú horfnar undir tún." (Sama heimild).

Þórisstaðalækir tveir eru á merkjum við Þuríðarstaði, og virðist það örnefni geta bent til að þar hafi verið býli sem hét Þórisstaðir, en um það er hvergi getið. Lækirnir koma úr Þóristjörn uppi á Fljótsdalsheiði. Þórfell er lágt fell uppi á heiðinni, í landi Egilsstaða, og þar er líka Þórfellsflói. Örnefnið getur bent til Þórsdýrkunar í fornöld, en líklega eru öll þessi nöfn kennd við mann að nafni Þórir. (Sbr. Þórisstaðakvíslar á Fljótsdalsheiði og Þórisstaði, eyðibýli í Hrafnkelsdal).

Vindbelgur: "Uppi í brún við Bæjarlæk er kofi, sem þeir Egilsstaðabræður, Snorri, Egill og Sigurður Gunnarssynir, byggðu í kringum 1975, úr timbri og járni til að geyma í vélsleða, og nefndu Vindbelg." (Bergljót og Gunnar, bréf 6.4.2012).

Vörður: "Þar norður á heiðinni, á smáöldu, er Sölvavarða, skammt frá Kleifaránni, talið er að þar hafi maður orðið úti." (Örnefnaskrá). Miðaftansvarða er inn og upp af bæ.

Heybandsvegur: "Utan við Hestahjalla var heybandsvegur og fjárgötur til heiðar, þar heitir Vegmelur." (Örnefnaskrá).

Heystrengur: "Útheyskapur var áður sóttur svo til eingöngu upp fyrir brúnir, og heyinu rennt niður á streng." (SJM II, 46). Í dagbók Vigfúsar Sigurðssonar á Egilsstöðum, frá sumrinu 1903, kemur fram að heystrengur hefur þá verið á Egilsstöðum, en var þá slitinn. (Handrit V.S. í Héraðsskjalasafni, Eg.).

"Jóhann Jónsson frá Bessastöðum man þessa heyflutninga á þrem bæjum, Þorgerðarstöðum Egilsstöðum og Hóli. Lengsti vírinn var, segir hann, á Egilsstöðum, og erfitt að strengja hann svo að baggarnir slyppu við hlíðarbrekkur undir hömrunum." (SJM II, 72).

"Heystrengurinn eða heyvírinn, eins og heimamenn kölluðu hann, var í notkun til 1952 (alla vega man núverandi bóndi (f. 1948) eftir honum og heyskap uppi á fjalli. Vitað er um þessa strengi á fjórum bæjum, Kleif, Egilsstöðum, Hóli og Þorgerðarstöðum." (Bergljót og Gunnar, bréf 6. apríl 2012). Þau lýsa heystrengnum þannig í bréfinu:

Strengurinn hérna á Egilsstöðum var milli Bæjarlækjarins og Ystahússlækjar [þ.e. utantil á gamla túninu, þar sem fjárhúsin voru fram um 1990], og vírinn er ennþá hérna í brekkunum, semsé hann hefur aldrei verið fjarlægður. Efri festingin fyrir hann var á Sjónarhraunshlíð innan við Sjónarhraunið, en sú neðri á bakkabrúninni (við Jökulsá) stutt utan við Bæjarlækinn,[...] það gekk ágætlega að nota strenginn, helst að baggarnir drægjust í Selhlíðarbrúnina, og hann var hátt á lofti þar sem núverandi túngirðinging er.

Efri festingin var þannig útbúin að vírinn var vafinn um stein eða trjádrumb, sem var svo grjótborinn rækilega, grjóthrúgan er þarna enn, í neðra kanti hennar var staur með þvertré, sem vírinn lá yfir. Staurinn var líka stagaður í grjóthrúguna og stífaður með tveim skástífum. Þessi festing var það naumt á brúninni, að rétt var hægt að komast að með bagga og hengja á trissu. Neðri festingin var tvöfaldur trérammi, þríhyrndur, í hann var smeygt kefli sem vírinn var vafinn um (endinn var festur með því að vefja einhverja vafninga um keflið); til að spana vírinn voru tvö göt í gegnum keflið, og járnkarlar notaðir til að snúa því og skorða það. Það er hægt að ímynda sér að það hafi þurft átak til þess. Þessi festing var stöguð niður, eins og gert var með girðingarstaura [hornstaura?], en ekkert grjót var í henni. Jörðin stöðvaði svo baggana þegar þeir rákust niður.

Eins og áður sagði er strengurinn ennþá í fjallinu, og er neðri endi hans vafinn upp; spurning hvort hann hafi verið eitthvað styttur. Efri festingin stóð einhver ár eftir að notkun strengsins var hætt, og hann var uppi á henni, en fauk trúlega niður í ísingarveðri að vetrarlagi, og út fyrir Ystahúslækinn, og þar er hann nú. Þetta er strengurinn sem kom frá Þorgerðarstöðum, og við vitum ekki hvort hér hafi verið strengur áður en hann kom. Hins vegar vitum við að þessi slitnaði einu sinni, fyrir ofan Ystahúsmelinn; var þá brugðið á það ráð að flytja smiðjuna þangað uppeftir og bræða hann saman aftur, tókst það vel og var hann notaður áfram.
Einhverjar leifar eru til af því sem var notað við strenginn; járnkarl, stór og mikill er hér til, og hefur þjónað við girðingarvinnu fram á þennan dag; trissur munu vera til, og jafnvel hluti af keflinu. (Bréf, dags. 17. maí 2012 / Bréfinu fylgja teikningar af festingum strengsins, til frekari skýringar)

Enn eru nokkrar minjar um heystrenginn á Egilsstöðum, og skoðaði ég þær 3. ágúst 2012, í fylgd Gunnars bónda, og Ólöf Arngrímsdóttir tók tölvumyndir af þeim. Neðri hluti strengsins liggur upprúllaður á grasbala, um 50 m ofan vegar, sutt fyrir innan og neðan staka klettastrýtu sem heitir Einbúi. Þetta er einfaldur járnvír, álíka sver og mjótt steypujárn, líklega 6 mm í þvermál, nokkuð stífur, en þó beygjanlegur, ryðlitur að utan, en virðist þó lítið ryðgaður. Heima í bænum sýndi Gunnar okkur eina af þeim járntrissum, sem notaðar voru til að renna heyi niður strenginn, en þær voru líklega um 10 talsins, og sýndi Gunnar okkur “símamynd” af 7 trissum, sem enn liggja við festingu stengsins á fjallsbrún, einnig myndir af vörðubrotum, sem þar eru á stuttum klettahjalla, og strengurinn var festur við. Greina má vörðubrotin neðan frá bæ. Hann gekk líka með okkur niður á bakka Jökulsár, neðst í túni, þar sem neðri festingin var, og spanvalsinn, og sáust þar steinar úr festingunni framan í bakkanum, sem hann sagði hafa verið velt þangað niður af túnjaðri, þegar hætt var að nota strenginn. Þessi neðri festing var ekki við neitt fjárhús eða hlöðu, þau voru öll nokkru ofar á túninu, og þurfti því að flytja heyið þaðan að húsunum. Valsinn sagði Gunnar lengi hafa verið til, en hann hefði að lokum verið sagaður sundur í parta til annara nota. Hann segir heyið hafa verið þurrkað uppi á fjallinu. Besta fjallengið var nokkru utar en strengurinn, og neðan við efstu brúnir. Gunnar segist hafa séð á litla tótt á Sjónarhraunshlíð, skammt frá strengnum, sem gæti verið heytótt. (Helgi Hall.: Heystrengir og fjallheyskapur í Fljótsdal. Glettingur 22 (2), 2012)

Laugar: "Heitar laugar eru í landareigninni, nálægt Eyrarselsbeitarhúsum." (SJM II, 46) "Stuttan spöl utan við Eyrarselsá, við þjóðveg, er volg uppspretta, kölluð Volgulindir eða Eyrarselslind. (Örnefnaskrá) (Nánar á skýrslum Jóns Benjamínssonar).

"Volgar lindir eru víðar en við Eyrarsel; innan við Eyrarselsá uppi í fjalli, utan við Gamlastekk fyrir neðan veg, á mel við Kaldalæk og neðan Hestahjalla á mel innan við Myllulæk. Ekki er vitað um neinar volgar uppsprettur utan við Myllulæk." (Bergljót og Gunnar, bréf 6.4. 2012)

Fornminjar: Á Egilsstöðum var um 1990 geymdur lítill bikar (kaleikur) úr postulíni, gylltur að innan og myndskreyttur að utanverðu, sem sagður var kominn úr Skriðuklausturskirkju. Sagði Snorri Gunnarsson hann vera frá Páli Þorsteinssyni frá Melum, langa-langafa sínum, er hefði verið síðastur meðhjálpara í kirkjunni (Páll var líklega fæddur um 1775, svo þetta stenst varla). Bikarinn var fyrrum notaður sem sykurker á Egilsstöðum. Hann segir að tveir minni bikarar hafi fylgt þessum, og hafi þeir verið sendir Þjóðminjasafni. (H.Hall.: Klaustur-María og kraftaverkin tvö. Austri, jólin 1988. (mynd)

Í Minjasafni Austurlands og Héraðsskjalasafni á Egilsstöðum eru ýmsir gripir, teikningar og ljósmyndir sem Vigfús Sigurðsson frá Egilsstöðum gerði og er sérstakur bás tileinkaður honum í sýningarsal safnsins. Snorri Gunnarsson var listamaður í fatasaumi og safnaði gömlum saumavélum og eru margar þeirra geymdar á Egilsstöðum, aðrar í Minjasafni Austurlands. Í geymsluhúsi við eldri bæinn er ennþá (2012) smíðastofa þeirra Egilsstaðabræðra, með margskonar verkfærum, óbreytt. Þann 3. ágúst 2012 sýndi Bergljót mér lítinn tréstokk, með renniloki, útskorinn á alla kanta, með höfðaletri, sem hún sagði Sigmund Jónsson bónda á Kleif hafa skorið út.

Vættir: Mekkín Ólafsdóttir skyggna, frá Skeggjastöðum í Fellum, bjó lengi á Egilsstöðum á síðasta fjórðungi 19. aldar og lést þar 1901. Hún sá þar álfa og ýmis fyrirbæri önnur, og sama er að segja um dætur og syni Gunnars Sigurðssonar, sonarsonar hennar, og Bergljótar Stefánsdóttur, sem sum voru dulskyggn, en meðal þeirra var Snorri Gunnarsson þekktastur. Þegar hann var um fermingu sá hann þar eitt sinn álf sem einna helst líktist jólasveini, að sögn hans, 1984.

Umsögn um minjar 1990: Gripahúsin á Egilsstöðum hafa orðið frægari en önnur samskonar hús á öðrum bæjum í Fljótsdal, enda njóta þau sín vel af þjóðveginum, eru mjög snyrtileg og vel um gengin, með sínum rauðleitu grjótveggjum í iðjagrænu túni. Má víst segja að vart geti fegurri mynd af íslenskum sveitabæ í hefðbundnu formi. Þar hafa líka hagir menn um vélt, þar sem eru þeir Egilsstaðabræður, sem nú eru nýlega látnir. Þó er efniviður húsanna mest hnullungagrjót, sem ekki er sérlega hentugt til vegghleðslu. Húsin standa dreift um túnið, eins og venjan var á íslenskum sveitabæjum. Æskilegt væri að viðhalda öllum Egilsstaðahúsunum, en sé það ekki gerlegt þyrfti a.m.k. að vernda Ystahúsið, Efra-Miðhúsið og kofana.

Heiðveig Agnes Helgadóttir