18 November, 2021

Valþjófsstaður

18 November, 2021

Valþjófsstaður


Valþjófsstaður er einn af merkustu sögustöðum á Íslandi, höfuðból frá fornu fari, sveitarmiðstöð, kirkjustaður og prestsetur frá kristnitöku til vorra daga. Valþjófsstaðakirkja náði á miðöldum gríðarmiklum jarðeignum og afréttarlöndum í Fljótsdal og á Jökuldal, svo með ólíkindum má teljast. Margbýlt var á Valþjófsstað á fyrri öldum og voru nokkur afbýli og hjáleigur þar í túni, sem búið var á af og til. Á 19. öld og framan af þeirri 20. var oftast einbýlt á jörðinni og höfðu prestar þá stórbúskap. Séra Þórarinn Þórarinsson bjó þar frá 1895 til dauðadags 1939 og hafði mikil umsvif. Tvíbýlt var frá 1926, er Einar Sveinn Magnússon og Þuríður dóttir séra Þórarins hófu þar búskap, og 1949 stofnuðu Ingólfur Gunnarsson frá Egilsstöðum og Unnur dóttir Einars Sveins nýbýlið Valþjófsstað II, á þriðjungi jarðar. Þuríður lést 1929. Einar Sveinn hætti búskap 1967 og lést 1973. Marinó Kristinsson var prestur á Valþjófsstað 1942-1960, Bjarni Guðjónsson 1963-1998, er Lára G. Oddsdóttir tók við. Nýr prestsbústaður var byggður 1944, íbúðarhús og útihús, og kallast síðan Valþjófsstaður I.

Um sögu staðarins hefur verið fjallað í mörgum ritgerðum og bókum, en engin heil bók er þó til um staðinn, og væri það verðugt verkefni að rita hana. Mest hefur verið ritað um ábúendur á 13. öld (Sturlungaöld) og um kirkjusöguna, sem Ágúst Sigurðsson hefur gert góð skil í bók sinni: Forn frægðarsetur II, 1979. Þá hefur Gunnar skáld Gunnarsson gert garðinn frægan með skáldsögu sinni Leikur að stráum (1. bindi Fjallkirkjunnar), þar sem hann segir frá bernsku sinni á staðnum. Stutt yfirlit um söguna er að finna í grein minni: “Höfuðbólin í Fljótsdal III, Valþjófsstaður” í Lesbók Morgunbl. 22. jan. 2000, og í ritgerð minni: “Stafkirkja og rauðviðarskáli á Valþjófsstað” í Múlaþingi 33, 2006. Sjá einnig rit Sveinbjörns Rafnssonar: “Byggðaleifar í Hrafnkelsdal og á Brúardölum”, Rit Hins ísl. fornleifafélags, 1990.

"Engar minjar á þessum fornfræga og merka stað. Ekki einu sinni ljóstýra úr álfabyggð, þótt undarlegt megi kalla, þar sem klettarnir í Valþjófsstaðafjalli eru sumsstaðar eins og konungshallir." ("Búkolla V. 1995, bls. 245).

Þessi ummæli eru höfð eftir Bjarna Guðjónssyni fv. sóknarpresti á Valþjófsstað. Þarna er heldur djúpt í árinni tekið, en furðu lítið er þó eftir af þeim glæstu mannvirkjum sem fyrrum prýddu þennan stað. Mikið er þó af mannvistarminjum, eins og fram kemur í eftirfarandi skrá.

Höfundur skoðaði land og minjar á Valþjófsstað 9. ágúst 1990 og tók þá allmargar neg. myndir af gömlum húsum og öðrum mannvirkjum. Á þeirri könnun var byggð minjalýsing jarðarinnar í ritinu "Mannvistarminjar í Fljótsdal" 1990. Næst var hluti landsins skoðaður 27. júní 1991 og 11. júlí sama ár. Skógræktarlýsing fyrir jörðina var unnin í febr. 1992. Þann 1. ágúst 2000 var landið skoðað að nýju, og teknar myndir.

Árið 1999 skráðu Orri Vésteinsson og Sædís Gunnarsdóttir minjar á Valþjófsstað eftir heimildum, eins og á öðrum bæjum í sveitinni, en bættu litlu við mína skrá. Árið 2001 fór fram vettvangskönnun nokkurra minja sem töldust í hættu vegna Kárahnjúkavirkjunar (Adolf Friðriksson o.fl., 2001). Árið 2005 var svo ráðist í ýtarlega vettvangskönnun, sem Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Magnús Á. Sigurgeirsson önnuðust, fyrir Fornleifastofnun, sem gaf út skýrslu um hana sama ár. (Fornleifaskráning á Valþjófsstað á Fljótsdal. Rvík, 2005.). Þar er minjum og minjastöðum vel lýst, og birtar teikningar og litljósmyndir af þeim. Þar er einnig lýst minjum á afréttum Valþjófsstaðar. Mikill hluti af efni hennar hefur verið tekið upp í eftirfarandi kafla, og því er hann mun ýtarlegri en umfjöllun annara jarða í Fljótsdal.

Fornbærinn: Til eru ýmis heimildabrot sem lýsa fornbænum á Valþjófsstað og gefa til kynna að þar hafi verið óvenju stór og glæsileg húsakynni á fyrstu öldum Íslands byggðar, er samræmst hafa hlutverki staðarins sem eins helsta höfuðbóls landsins. Þetta kemur m.a. fram í úttekt sem Brynjólfur Sveinsson biskup lét séra Halldór Eiríksson gera 1660, ásamt fimm öðrum "dándismönnum" í sept. árið 1660. Þar er minnst á "skálann og stóra eldhúsið, hvað oss virðist næsta ómögulegt á þessum dögum, fyrir félítinn mann, skuli hann við öllu sjá á sína ábyrgð, og fullar vörslur taka, án tilbærilegs álags." Leggja þeir til að þessi hús og "önnur stórhýsi so stór, ónauðsynleg á þessum tímum, megi með yfirvaldsins leyfi, með tíð og tíma saman færast og setjast til hæfilegs vaxtar, sem hentar." (Bréfabók Brynjólfs biskups, Lbs. 1082 4to, bls. 240-244). Þarna kemur glöggt fram að hinn forni húsakostur á Valþjófsstað var miðaður við miklu fleira fólk og meiri umsvif en raunin var á 17. öld, en kirkjustjórnin hafði reynt að láta prestana viðhalda honum. (H. Hall.: Stafkirkja og rauðviðarskáli. Múlaþing 33, 2006, bls. 134).

Rauðviðarskálinn: Í úttektinni frá 1660 er minnst á skálann á Valþjófsstað. Í margar aldir var þar óvenju stór og mikil skálabygging. Ekki er vitað hvenær þessi skáli var byggður, en því var trúað að fornkappinn Þórður hreða hefði smíðað hann, þá líklega á söguöld. Til eru allnákvæmar lýsingar og mál á skálanum frá miðri 18. öld, en þá var búið að breyta hluta hans í gestastofu. Eftir þeim að dæma hefur þetta verið glæsilegt hús. Það var um 18 × 6 m að grunnfleti og allt að 5 m á hæð undir ris, klætt innan með "rauðviði", skipt í tvo hluta, þ.e. svefnskála karla og kvenna, og voru föst rúmstæði í þeim báðum, m.a. nokkrar lokrekkjur með útskurði í kringum dyr. Getið er um skálann í Ferðabók Eggerts og Bjarna (1772), á þessa leið: "Á prestssetrinu Valþjófsstað í Múlasýslu er skáli eða stórt hús, sem bæði er miklu stærri og eldri en almennt gerist. Samt hefir hann sýnilega verið endurreistur á seinni öldum." (Ferðabók E.Ól. og Bj. Pálss. 1975, II, 131).

Það var almenn skoðun Fljótsdælinga að Valþjófsstaðahurðin fræga hefði upphaflega verið á þessum skála. Skálinn var rifinn eða alveg umbyggður um 1820-30. Hann mun hafa snúið eins og miðhúsið í aldamótabænum, sem gæti því hafa verið byggt á grunni hans. (Nánar um skálann í grein minni í Múlaþingi nr. 33 /2006).

"Á Valþjófsstað var stór skáli. Þá sögu heyrði Jón ungur, að eitt sinn hafi Oddur biskup komið þangað í mikilli rigningu, með 20 áburðarhesta, og hafi hann, ásamt með fylgdarmönnum sínum, opnað skálann og farið inn með alla hestana og tekið þar ofan af þeim og sprett af þeim öllum inni. " (Jón Pálsson: Búskapur í Fljótsdal á 19. öld. Múlaþing 29, 2002, s. 31).

Aldamótabærinn: "Þessi glæsilegi bær og kirkja stendur undir heiðarbrekkunni, sem verður hér sérkennilega stöllótt fjall, með merkilegum, reglubundnum hjöllum." (Kr. Kaalund: Ísl. sögustaðir IV,25, ritað 1873). "Portbyggð baðstofa, byggð rétt fyrir aldamót, 17 × 6 álnir." (SJM II, 40). Gömul bæjarhús stóðu að hluta fram um 1930-40, og eru til myndir af þeim, sú elsta tekin af Vigfúsi Sigurðssyni, birt í Múlaþingi 33, 2006, bls. 124, og sýnir þrjú sambyggð hús, baðstofu innst (útidyralausa), er snýr þvert á fjallið, þá þverhús (miðhús), heldur lægra, samhliða fjalli, með tveimur dyrum að austan, við sinn hvorn enda, og loks önnur baðstofa (gamla stofa) yst, jafnhá hinni. (Ein af rissteikningum Vigfúsar í Héraðsskjalasafni er líklega af baðstofunni frá SA-hlið, og sést þar garður sunnan við hana, e.t.v. hestarétt, og smákofi.)

Öll húsin eru tvær hæðir, með torfgrjótveggjum að baki og á hliðum, en timburþiljum að austan, dökkmáluðum (rautt) og hvítmáluðum gluggum og dyragættum. Á þeim öllum er nýlegt torfþak, því það mótar fyrir torfum á þeim, og baðstofuveggir virðast nýlega hlaðnir, úr völdu, köntuðu grjóti. Það rýkur úr tveimur strompum. Þetta hefur sýnilega verið óvenju stór og glæsilegur bær. Á annari mynd, nokkrum árum yngri (1910-20 / þá komin tré í kirkjugarðinn) sést skemma með timburþili viðbyggð umgetnum húsum að norðan og tvö torfhús viðbyggð norðan við hana, líklega önnur skemma og smiðja. Myndin birtist í Lesb. Mbl. 22. jan. 2000 og í Fornleifaskýrslu 2005.

Þórarinn Þórarinsson skólastjóri lýsir innréttingu bæjarins lítillega í bóki sinni: Horft til liðinna stunda (1981), bls. 12. Þar kemur fram að tvær stofur voru í bænum, Fremri-stofa og Innri-stofa. Milli þeirra var vængjahurð. Fremri stofan var borðstofa, með stóru borði sem hægt var að draga út til beggja enda, og jafnframt "skólastofa" barnanna. Innri-stofan var "stundum kölluð Stásstofan, notuð bláspari og á hátíðum." "Þessar tvær stofur, ásamt eldhúsinu, voru undir baðstofunni, og sneru húsin rauðmáluðu þili með hvítum vindskeiðum fram á hlað. Þrír gluggar voru á þilinu, tveir á stofunni, og einn á hjónahúsinu uppyfir Innri-stofunni." Í Innristofunni (sem var austast) var jólatréð. Í sögunni af tíkinni Týru (bls. 49) getur Þórarinn um "gömlubæjardyrnar svokölluðu, en þar innaf var hundaskemman. Skemma þessi hafði raunar áður verið tilhaldsstofa þeirra Valþjófsstaðaklerka og maddama þeirra."

Til er líka grunnteikning af bænum frá þessum árum, sem Þórarinn skólastjóri hefur líklega teiknað, og birtist í bókinni Forn frægðarsetur II., 1979, bls. 71, og í fornleifaskýrslu 2005; þá eru sýndar tvær skemmur og smiðja í röð utanvert við bæinn. Annars er bærinn eins og á myndunum. Hver vistarvera er númeruð og nafngreind; ein þeirra nefnist Höll (sbr. Skriðuklaustur). (Frumteikningin er nú í Héraðsskjalsafni, Eg.). Skv. mælikvarða var öll húsaröðin um 35 m á lengd og aðalbærinn um 12 m á breidd, að utanmáli. (Sbr. einnig mynd í Múlaþingi 37, 2011, bls. 121, frá Ragnheiði Þórarinsdóttur).

Á mynd Björns Björnssonar sem birtist í Árbók Ferðafélags Ísl. 1944, sést torfbygging NA úr syðri baðstofunni, að bæjarbaki, þar sem var búr og hlóðaeldhús, skv. grunnteikningunni. Þá var timburhús komið, í stað miðhússins og ytri baðstofunnar. Þar sést einnig hestarétt SA við baðstofuna.

Timburhúsið á Valþjófsstað var byggt 1926, af séra Þórarni Þórarinssyni. Það var tvær hæðir, með lágu risi, tveimur skorsteinum, og tveimur útidyrum. Það var byggt inn í gamla bæjarþorpið, í stað miðhússins, og því eru engir gluggar á stöfnum. Á tveimur myndum í Árb. F.Í. 1944, sem Björn Björnsson og Gísli Gestsson tóku, líklega 1935-40, stendur gamla baðstofan (sú innri) ennþá við syðri enda hússins og rís aðeins hærra en það (á mynd Gísla er hestaréttin horfin). Skreyttar syllur voru yfir gluggum og útidyrum. Húsið var a.m.k. að hluta til einangrað með mosa, sem var óvenjulegt. Að innan var það klætt með borðum og/eða paneli, og síðan betrekkt, a.m.k. efri hæðin. (Mynd í Lesb. Mbl. 22. jan. 2000). Þetta var stórt og glæsilegt hús, síðast rauðmálað.

Þórarinn skólastjóri, segir frá tveimur ferðum á bátnum Lagarfljótsormi til að sækja timbur í húsið sumarið 1926 (Múlaþing 11, 165-169 / Lagarfljótsbók bls. 225). Líklega hefur húsið í fyrstu aðeins verið timburklætt, en var síðan klætt með bárujárni allt um kring, eftir að torfhúsin voru rifin, en það hefur varla gerst fyrr en um 1940. Þá var reist viðbygging við húsið að sunnanverðu, á grunni baðstofunnar, ein hæð með skúrþaki, og tveim gluggum í austur, útidyralaus. Guttormur í Geitagerði segir að skrifstofa prests hafi verið vinstra megin við innganginn (syðri dyr), og minnir að þaðan hafi verið gengið inn í gestastofuna, sem líklega var fyrst undir gömlu baðstofunni og síðar í skúrbyggingunni á sama stað. Hægra megin var svo eldhús og borðstofa. Framan við húsið var hellulögð stétt.

Prestar bjuggu í húsinu fram til 1944, þegar sérstakt prestshús var byggt utan við kirkjuna. (Marinó Kristinsson var prestur 1942-1960). Árið 1959 var byggt tveggja hæða steinhús, spölkorn innan við gömlu húsin, og eftir það var ekki búið í timburhúsinu.

Höfundur kom nokkrum sinnum í timburhúsið á æskuárum, þegar Einar Sveinn bjó þar með seinni konu sinni, Maríu Jónsdóttur frá Bessastöðum, en man lítið eftir herbergjaskipan. Þá var bókasafn Lestrarfélagsins m.a. geymt í þessu húsi á neðri hæð, sunnan megin (minnir mig) og líka námsbækur Barnaskólans, sem var farskóli, en Einar Sveinn var formaður skólanefndar.

Ég skoðaði timburhúsið 9. ágúst 1990 og tók nokkrar myndir af því að utan og eina inni í því. Það var þá orðið mjög hrörlegt, og hafði verið notað sem geymsla og hlaða síðustu árin. Búið að rífa milligólf að hluta til. Þó voru leifar af skrautlegu betrekki innan á veggjum á efri hæð í suðurenda, og þar var ennþá innbyggður veggskápur. Var mér sagt að þar hefði verið vistarvera prestsins. Þá var búið að setja víðar útidyr á skúrbygginguna sunnan við húsið. Fáum árum síðar lagðist húsið á hliðina í NV-roki og var rifið.

Hesthús: Viðbyggt timburhúsinu að utan var (síðast) allstórt hús, kallað Hesthús, en hefur líklega gegnt fleiri hlutverkum. Það var að mestu úr timbri og járni, með skúrþaki, en torfvegg að utan og ofan, og hefur verið byggt upp úr ysta hluta bæjarþorpsins, þar sem áður var skemma og smiðja. Þar gæti verið að finna forna viði. Í Fornleifaskýrslu 2005 er því svo lýst:

"Bæjarhóllinn er um 40 × 70 m stór og snýr norður-suður. Hesthús úr bárujárni er suðaustan [NA] í hólnum, grafið inn í hann. Nyrsti veggurinn og vesturhlið hússins eru hlaðnir úr grjóti og torfi. Nyrsti veggurinn er um 1,9 m hár að utan, með 1,7 m hárri steinhleðslu og um 20 sm torflag ofan á henni. Þessir veggir eru úr gamla bænum. Hellulögð stétt er framan við hesthúsið, um 1 m breið, og dyraþrep eru greinileg á tveim stöðum." (Fornleifaskýrsla 2005, bls. 17).

Hér er eitthvað málum blandað, því að stéttin með dyraþrepunum var framan við timburhúsið og hlýtur því að vera innan við hesthúsið (sbr. neg. mynd nr. 153790, frá 9.8.1990). Þetta hús stendur enn (2011) og má líta á það sem síðustu leifar gamla bæjarins.

Fjós: Í örnefnaskrá er getið um Fjósatungu í túninu, sem virðist vera utan og neðan bæjar: "þar var gamalt fjós..." Í Fornleifaskýslu 2005 (bls. 20) segir: "Fjósið var í norðvestanverðum bæjarhólnum, 20 m NNV við leifar gamla bæjarins, sem nú eru notaðar sem hesthús. Á þessum stað sér móta óljóst fyrir veggjum. Talsverð grjótdreif er á þessu svæði, en greinileg mannvirki sjást ekki." Þetta er líklega haft eftir heimafólki. (Sbr. kort á bls. 17 í skýrslunni). (Ég hafði áður giskað á að örnefnið sé kennt við "sumarfjós", er hafi verið NA af bænum.)

Hestarétt: Á mynd sem Vigfús Sigurðsson hefur líklega tekið um 1910-20 og birtist í Múlaþingi 37, 2011, bls. 121, sést grjóthlaðinn garður SV- undir bæjarhúsum (baðstofu), sem getur verið hluti af hestarétt. Á mynd Björns Björnssonar í Árbók F.Í. 1944 (bls. 80) sést lítil rétt við SA-horn bæjarins, SV við kirkjugarðinn, sem líklega var hestarétt, einkum fyrir gesti, og hefur hún þá verið flutt um set. Á annarri mynd í sömu bók (bls. 88), sem Gísli Gestsson tók virðist hún ekki sjáanleg, þó báðar séu frá svipuðum tíma (um 1935-40). Mynd úr albúmi Gunnars og Franziscu, tekin á Valþjófsstað 1937, sýnir fólk við grjótvegg, og virðist vera tekin inni í réttinni. Myndin birtist í bókinni Landnám - Ævisaga Gunnars, 2011, bls. 347. Loks sést horn af réttinni á mynd Þorvarðar Jónssonar af kirkjunni, frá 1955-60.

Kirkjur, grafreitir og samkomuhús

Fornkirkjan: Leiddar eru líkur að því að kirkja hafi verið byggð á Valþjófsstað skömmu eftir Kristnitöku árið 1000, og hafi Sörli Brodd-Helgason, er þá bjó á staðnum, og getið er í Njálu, haft um það forgöngu. Heimild er um prest að nafni Oddur Gizurarson á síðari hluta 12. aldar, og um 1200 rís þar mikil og voldug stafkirkja helguð Maríu mey, sem átti eftir að standa með litlum breytingum til miðrar 18. aldar, eða í 550 ár. Aðalkirkja sveitarinnar var þó á Bessastöðum fram til 1306 er kirkjan á Valþjófsstað eignaðist alla jörðina, sem þá varð "staður". Margar lýsingar eru til á þessari kirkju frá seinni öldum, einkum á innréttingum hennar og gripum, og þar á meðal kirkjuhurðinni, sem er hin fræga útskorna "Valþjófsstaðahurð" sem nú er í virðingarstöðu í Þjóðminjasafni í Rvík.

(Nánar í grein minni: Stafkirkja og rauðviðarskáli á Valþjófsstað í Múlaþingi 33 /2006, einnig í ritgerðum Ágústar Sigurðssonar í Múlaþingi 9/1977 og 10/1980 og í bókinni Forn frægðarsetur II, 1979, ennfremur í ritgerð Magnúsar Más Lárussonar í bók hans Fróðleiksþættir og sögubrot, 1967.)

Um 1740 var þessari fornfrægu kirkju breytt í torfkirkju, með timburþili og lækkuð til muna. Þá er talið að sagaður hafi verið þriðjungur af hurðinni, til að fá hana til að passa, og sá partur hafi týnst. Sveinn Pálsson læknir og náttúrufræðingur kom í Valþjófsstað 1794 og ritar m.a.:

"Kirkjan er ekki ósnotur, skreytt mörgum skrifuðum dánarminningum eins og nú tíðkast. Meðal annars skrauts voru oblátudósir úr silfri, smíðaðar í Kaupmannahöfn á kostnað fyrrverandi sýslumanns héraðsins, Péturs Þorsteinssonar og Guðmundar sonar hans, sem heldur sýsluna, til minningar um foreldra Péturs, Þorstein sýslumann Sigurðsson hinn ríka og konu hans, sem liggja þarna grafin." (Ferðabók Sveins Pálssonar, Rv. 1945, bls. 378). Sveinn getur einnig um kirkjuhurðarhringinn. (Oblátudósin er aðeins ein; samsett úr dós og loki).

Um 1845 var þessi kirkja rifin og ný timburkirkja byggð í staðinn, líklega miklu minni. Allar þessar kirkjur stóðu á sama grunni í gamla kirkjugarðinum heima við bæinn og andspænis honum. Grunnur þeirra er nú ekki sýnilegur, en mætti eflaust finna með smávegis könnun.

Árið 1888 lét Sigurður Gunnarsson prestur byggja nýja timburkirkju á grund suðaustan við bæinn og túnið, sem stóð til um 1965. Hún var syðst og austast í nýjum kirkjugarði, 10-15 m utan við þá kirkju sem nú stendur. Þar er nú sléttur grasblettur, en ekkert sést af undirstöðu kirkjunnar. Til eru lýsingar og myndir af henni. Höfundur þessa pistils gekk þar undir fermingu þann 5. júní 1949, og minnist kirkjunnar sem veglegs húss, þó hún væri þá nokkuð farin að láta á sjá. Síðast var hún orðin talsvert skökk, veggir farnir að bila, og bundin niður með vírum.

"Hin nýja kirkja var háreist og glæsilegt hús og vandað að viðum, kom tilhöggvið frá Noregi eins og hin forna og mikla stafkirkja á 12. öld. [...] Með því að kirkjuhúsið tók mjög á sig veður, þar sem það stóð, alls óvarið, austur á bakkanum, en einkum NV veður afar hvöss á Valþjófsstað, fór svo að það titraði mikið, en rúður brotnuðu tíðum og skekktist loks nokkuð á grunni. Ekki var þó hætta á að það fyki, því að tvöföld, rammgerð grindin var fyllt af grjóti upp að gluggum, sem alsiða var, einkum á veðurnæmum stöðum [...] ... 1933 var hún talin, í kirkjuskoðun prófasts, vel stæðileg og í góðri umhirðu, en sagt að titringurinn hafi valdið rúðubrotum, þótt tréhlerar væru fyrir gluggum, en m.a. hafði reykháfurinn brotnað í átökunum. (Ágúst Sigurðsson: Forn frægðarsetur II, 1976-, bls, 64-66.)

Nýja steinkirkjan: Gamla trékirkjan var afhent söfnuði "til umsjónar og ábyrgðar" 1955. Hún var þá orðin svo farlama að ekki þótti gerlegt að endurbæta hana og því var farið að huga að nýrri kirkjubyggingu og undirbúa hana 1957, en bygging hennar tók næstum áratug og var ekki lokið fyrr en 1966, en 3. júlí það ár var hún loksins vígð.

"Kirkjan er steinsteypt með plasteinangrun og bárujárnsklæddu þaki. Fimm gluggar eru á hvorri hlið, auk tveggja á hvorum kórvegg. Söngloft er fremst í kirkjunni og hvílir það á sjö stoðum. Altari og kirkjubekkir eru úr gömlu kirkjunni, en predikunarstóll og altarisgrindur eru jafn gömul kirkjunni.
Forkirkjan var breikkuð verulega og turninn yfir henni endurbyggður á árunum 1993-94. Við það fékkst rými fyrir skrúðhús og snyrtingu, en heimafólk hafði fundið að aðstöðuleysi strax þegar hún var í byggingu. Við breytinguna stækkaði söngloftið, og fleiri sæti fengust niðri, því stigi upp á loftið færðist yfir í nýja skrúðhúsið. Turn kirkjunnar var hækkaður og gerður reisulegri.

Á árunum 2001-08 voru miklar framkvæmdir við Valþjófsstaðarkirkju innanhúss. Þorsteinn Gunnarsson arkitekt var sóknarnefndinni til ráðuneytis um breytingar og litaval [...] Steindir gluggar eftir listakonuna Höllu Haraldsdóttur í Keflavík voru settir í kór kirkjunnar á afmælisárinu 2001, og listakonur á Héraði hönnuðu og saumuðu hvít messuklæði, hökul og tilheyrandi." (Vigfús I. Ingvarsson: Kirkjur og kirkjugöngur í Múlaprófastsdæmi. Eg., 2011, bls. 10). Lágur grjótveggur er meðfram kirkjunni að utan, laglega hlaðinn úr hellum, sem líklega hafa verið í undirstöðu gömlu kirkjunnar.

Valþjófsstaðahurðin: Innri hurð nýju steinkirkjunnar er nákvæm eftirlíking af Valþjófsstaðahurðinni, sem varðveitt er í Þjóðminjasafni Íslands. Hin upprunalega hurð er talin vera smíðuð og myndskorin á 13.öld og er því með elstu forngripum sem til eru á Íslandi. Barði Guðmundsson þjóðskjalavörður setti fram þá tilgátu, að Randalín Filipusdóttur, sem bjó á Valþjófsstað á 13. öld, ekkja Odds Þórarinssonar sem féll um tvítugsaldur í Skagafirði, 1255, hafi skorið út hurðina (Myndskerinn mikli á Valþjófsstað. Alþýðublaðið 1939 / Endurpr. í Höfundur Njálu. Safn ritgerða, Rvík 1958, bls. 19-28).

Hurðin var fyrir kirkjudyrum á Valþjófsstað, fyrst hinnar veglegu stafkirkju sem reist var um aldamótin 1200, og síðar arftökum hennar. Álitið er að hún hafi verið lækkuð um þriðjung þegar torfkirkjan var byggð um 1740. Tveir myndskornir hringlaga fletir eru á hurðinni, sá efri sýnir eldgamla sögu, líklega ættaða frá Frakklandi, um riddara og ljón sem hann bjargaði úr klóm flugdreka, en eftir það fylgdi ljónið honum eftir eins og rakki, og lagðist á gröf hans þegar hann lést. Á þeim neðri eru fjórir flugdrekar fléttaðir saman.

"Myndskurðurinn á kirkjuhurðinni frá Valþjófsstað á Héraði, er áreiðanlega eitt af öndvegisverkum íslenskrar listar, norrænnar liggur mér við að segja. Að minnsta kosti á hann sér engan líka á hinu norræna menningarsvæði, því veldur m.a. myndefnið, myndefnisröðunin og ekki síst myndstaðurinn. Enda hafa margir fræðimenn, bæði innlendir og erlendir, um hurðina og skurðinn fjallað." (Hörður Ágústsson: Fjórar fornar húsamyndir. Árb. fornleifafél. 1977, bls. 135-136).

Þann 11. sept 1851 var hurðin send Forngripasafninu í Kaupmannahöfn (Oldnordisk Museum), með bréfi Stefáns Árnasonar þáv. prests á Valþjófsstað. (Frásögur um fornaldarleifar I, 39). Í staðinn fékk kirkjan nýja útihurð úr eik og tvo altarisstjaka (álnarstjaka). Þjóðminjasafn Íslands fékk gipslíkan af hurðinni 1883 (Árbók fornleifafél. 1883, bls. 71) og svo hurðina sjálfa 1930, ásamt fleiri gripum, og prýðir hún nú sýningarsal þess. (Sráningarnúmer hennar er 11009, og gipslikansins 2190).

Eftirgerðin var útskorin af Halldóri Sigurðssyni tréskurðmeistara á Miðhúsum, Egilsst. Brottfluttir Fljótsdælingar gáfu kirkjunni hurðina á vígsludegi hennar. Í tilefni af Alþingishátíðinni 1930 voru gerðir nokkrir minnispeningar og aftan á einum þeirra (5-króna peningi) er eftirlíking af drekamyndinni á neðri hring hurðarnnar, og á aldarafmæli Þjóðminjasafnsins gaf Póst- og símamálastjórn út frímerki með mynd af efri hring hurðarinnar (Árb. fornleifafél. 1962, bls. 124 / 1963, bls. 38).

Vigfús Ormsson varð einna fyrstur til að lýsa hurðinni, í fornleifaskýrslu sinni 1821 (Frás. um fornaldarleifar I, bls. 35), en fyrstu nákvæmu lýsingu hennar er að finna í riti Kr. Kålund: Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island, Khöfn 1882. Björn M. Ólsen ritaði fyrst um hurðina á íslensku (Valþjófsstaðahurðin. Árbók Fornleifafél. 1884-1885, bls. 24-37), og birti ágæta teikningu af henni. Síðan hafa fjölmargir lagt sitt til málanna um þessa merkishurð, svo sem Kristján Eldjárn í bókinni Hundrað ár í Þjóðminjasafni (1964?), Magnús Már Lárusson: Maríukirkja og Valþjófsstaðahurð. Fróðleiksþættir og sögubrot. Hafnarf., 1967, Anders Bæksted: Islands Runeinsskrifter. Bibliotheca Arnamagneana II, 1942) og Peter Paulsen: Drachenkämpfer, Löwenritter und die Heinrichsage. Köln. 1966. Í tveimur síðasttöldu er ýtarleg ritaskrá um efnið. Sjá ennfremur grein höf. Stafkirkja og rauðviðarskáli. Múlaþing 33, 2006.
Líkneski af Guðmundi góða var í Valþjófsstaðakirkju þegar Sveinn Pétursson biskup vísiteraði hana 1471, einnig var þar bókakista. (Ágúst Sigurðsson: Valþjófsstaður. Múlaþing 9, 1977, bls. 38).

Maríulíkneski: Vigfús Ormsson getur um tvö líkneski í Fornleifaskýrslu sinni 1821: "Gamlar myndir og bílæti etc. Þaraf er 2 að finna í Valþjófstaðar kyrkju; annað er líkneskja Maríu, Jesú móður, er heldur á barninu Jesú, en hitt er einhvörs kvenmanns." (Frásagnir um fornaldarleifar I, 36). Þessar myndastyttur hafa bjargast úr eyðingarfári siðaskiptanna á 16. öld, en virðast nú vera týndar. (Athuga þarf úttektir kirkjunnar í því sambandi / Á 19. öld var algengt að selja forngripi úr kirkjum, sbr. Maríulíkneskið úr Skriðuklausturskirkju.)

Kistill frá Klaustri: Vigfús (1821) getur líka um "kistilkorn nokkurt, er fyrrum var haft til að geyma prestsskrúðann á Skriðuklaustri, en selt þegar kirkjan samastaðar var afsköffuð." Á framhlið hans var myndskurður og áletrun á latínu, og lýsir Vigfús því ýtarlega. Þessi gripur virðist sömuleiðis vera týndur og tröllum gefinn. (Sjá Skriðuklaustur). Vigfús getur einnig um "alskyns leyfar úr papískri öld... t.d. krossmarksbrot." (sama heimild).

Aðrir kirkjugripir: "Altaristöfluna, sem er dönsk, og sýnir ummyndum Krists á fjallinu, gaf Kvenfélagið Einingin 1930. Tvær klukkur fornar, eru í turni. Önnur með áletrun og mynd af konungi í hásæti." (Vigfús I. Ingvarsson: Kirkjur og kirkjugöngur í Múlaprófastsdæmi, Eg. 2011, bls. 10). Í kirkjunni er skírnarfat, sem séra Hjörleifur Þórðarson lét smíða, líklega 1750-70, og ber fangamark hans á bakhlið, svo og gamall kaleikur og patína, einnig oblátudósir úr silfri, frá 18. öld, með áletruðum vísum, smíðaðar af Sigurði Þorsteinssyni í Khöfn, gefnar til minningar um foreldra hans, Þorstein sýslumann á Víðivöllum og konu hans, skv. Ferðabók Sveins Pálssonar 1794/ 1945, bls. 378. (Bjarni Guðjónsson segir að hefð hafi verið að oblátudósin væri á altarinu þegar fermt var.) Ennfremur tveir "álnarstjakar", líklega úr tini, frá 19. öld, sem fengust fyrir hurðina þegar hún var seld Þjóðminjasafni Dana um 1850, og tveir aðrir stjakar minni.

Í kirkjunni er útskorinn stóll, kallaður Prestmaddömustóll, ekki sérlega vandaður. Bjarni Guðjónsson prestur hafði af því spurnir, að þetta væri danskur skrifborðsstóll, sem fengist hefði í skiptum frá Þjóðminjasafni fyrir annan, mun eldri stól, með sama nafni, er lengi hafði verið í kirkjunni. Þetta hefur nú verið staðfest með bréfi Þjóðminjasafnsins, dags. 22. mars 2012. Þar kemur fram að Sigurður Vigfússon fornfræðingur kom í kirkjuna 1890 og samdi við Sigurð Gunnarsson sóknarprest, með samþykki biskups, að fá gamlan stól, útskorinn og skreyttan, ásamt þremur öðrum gripum, gegn því að útvega kirkjunni "vandaðan og sómasamlegan stól, sem prýði þykir að í kirkjunni," og útvegaði Thomsen kaupmaður hann frá Danmörku, áætlaður kostnaður 50 kr. Gamli stóllinn er skráður sem "stóll með gyllileðri, nr. 3616." Lýsing Sigurðar forna á honum er svohljóðandi:

"Stóll með gamaldags lagi, bakið er á hæð 1 al. 17 þuml., hann slær sér mjög út að framan, og er þar á breidd 22½ þuml; bakið er útskorið í miðju, að ofan með gamaldags blaðrós; fæturnir að framan eru mjög bjúgir og með gömlu lagi, og skornir að ofan og framan með upphafðri blaðrós; grindverk er beggja megin við setið, með bjúgum álmum; hliðarslár eru milli fótanna og þverslá milli þeirra, allar rendar; bakið er bogið aptur, og fæturnir eptri að neðan; stóllinn hefir fallegt lag, og er allur málaðr dökkrauðr. Bak og sæti er uppstoppað, og yfirklætt með því dýrmæta spánska leðri sem tíðkaðist mest á 15. og 16. öld. Það er með upphleyptum og margvíslegum blómstrum og blöðum af skýru gulli, og rauðum, grænum, rauðbrúnum, hvítum, og fleiri millumlitum, og svo hefir þetta haldið sér vel, að bakið er nær sem nýtt, en setan, einkum í miðju, farin að fölna og slitna, þó heil, þetta er neglt utanmeð, með látúnsbólum. Stóll þessi er úr Valþjófsstaðakirkju, og stóð hann þar sunnanvert við altarið, fékk eg hann í ferð minni 1890, en hann kom í haust [1891]." (Bréf Lilju Árnadóttur, fagstjóra munasafns Þjóðminjasafns Íslands, 22. mars 2012.)

Hinir gripirnir sem Sigurður fékk úr kirkjunni voru: helgiskrín (nr. 3612), útskorinn kirkjubekkur (nr. 3613) og gegnskorin fjöl (3615). (Lýsingu vantar á þessum gripum, vísað í netsíðuna Sarp).

Minningartafla úr kirkjunni, um séra Hjörleif Þórðarson (nr. 11966), er líka í Þjóðminjasafni, skv. ofangreindu bréfi 2012. Stór minningartafla um Jón vefara Þorsteinsson og Þóreyju konu hans var í kirkjunni, líklega dönsk smíð, gerð eftir lát Þóreyjar og jarðarför hennar á Valþjófsstað 1843, komin í kirkjuna þegar biskup visiteraði 1850, og hékk á kórþili. Þegar síðasta timburkirkjan var rifin um 1965 var hún sett í geymslu heima á bænum, þar sem ég uppgötvaði hana 1990, þá orðin nokkuð flekkótt af vatnsleka. Árið 2007 var hún gerð upp í Reykjavík, að frumkvæði Gunnlaugs Haraldssonar fv. safnvarðar. Fyrir því stóðu óformleg samtök afkomenda þeirra hjóna af hinni svokölluðu Vefaraætt. Sóknarnefndin afhenti hana svo Minjasafninu á Egilsstöðum í ágúst það sumar. (Bæklingur Minjsafnsins, 2007).

Silfurpeningur: "Árið 1852 gaf prófasturinn á Valþjófsstað þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn silfurpening frá Játvarði góða á Englandi, sleginn af myntaranum Godric í Lincoln. Lykkja hefur verið sett á peninginn, og í honum hangir gáraður hringur, og álítur prófastur að eigandinn hafi borið hann við hálshnapp skyrtukragans, "alveg eins og Íslendingar gera enn". Hann fannst hátt uppi á einu fjallinu fyrir ofan Valþjófsstað, um það bil níu þumlunga undir yfirborði jarðar og er álitið að þar hafi hann einhverntíma týnzt." (Kr. Kålund: Íslenzkir sögustaðir, IV, bls. 29).

Gamli kirkjugarðurinn er austan við hlaðið eða tröðina við gamla bæinn; hann var sléttaður eftir aldamótin 1900 og plantað trjám í hann að hluta til. Þar vaxa nú nokkur stæðileg birki- og reynitré og eitt lerkitré, sem er hæst, líklega 8-9 m. Sagt er að legsteinar og krossar hafi verið fluttir í nýja kirkjugarðinn, en það er nokkurt efamál. Legsteinn, sem var á leiði Guttorms Vigfússonar bónda á Arnheiðarstöðum (d. 1856), var fluttur í trjágarð á þeim bæ 1939, að tilstuðlan Guttorms J. Guttormssonar skálds í Kanada. Einn ómerktur járnkross lá enn í gamla garðinum 1990, og garðshliðið, sem er úr járnteinum, er enn í girðingu "sem liggur um þveran garðinn", segir í Fornleifaskýrslu 2005. Líklega má enn finna þar gamla legsteina og staðsetja kirkjugrunninn.

Grjótgarður hefur verið utan um kirkjugarðinn, a.m.k. að sunnan og vestan, en að austan og norðan líklega torfgarður, sem nú er horfinn. Austurhluti garðsins (allt að helmingur) var sléttaður í tún, og segir Bjarni fv. prestur að þar hafi komið fram djúpar holur og dældir þegar kistur voru að falla saman, en hann hafði tún austan bæjar og norðan heimreiðar. Lítið hefur verið hirt um gamla garðinn og þyrfti að verða breyting þar á. Ekki má minna vera en hann sé merktur og girtur.

"Gamli kirkjugarðurinn er enn vel sýnilegur að stórum hluta, og þar sem hann hefur verið sléttaður í tún, má víða greina útlínur hans, þar sem túni hallar frá garði. Norðvesturveggur kirkjugarðsins, á móti bæjarhóli, er greinilegastur, um 25 m langur. Á einum stað er rof í hleðsluna, en ekki er víst að það sé eiginlegt op á garðinum. Suðvesturhlið garðsins er greinileg efst, en verður ógreinilegri eftir því sem austar dregur. Af þeim ummerkjum sem sjást á yfirborði að dæma, mætti ætla að garðurinn hefði verið 25-30 m á breidd, en 30-45 m á lengd. Engin ummerki um kirkju sjást innangarðs eða við hann, og ekki sjást leiði í garðinum. Stærstur hluti hans er orðinn að rennisléttum túnum. Girðing gengur yfir garðinn þveran, en norðvestan við hana er trjáreitur innangarðs, sem merktur er á túnakort frá 1917. Þar sem kirkjugarðurinn er heillegastur er hann um 0,7 m hár og um 1 m á breidd, þó innri brún garðs sé víðast heldur óskýr." (Fornleifaskýrsla 2005, bls. 31).

Nýr kirkjugarður var settur umhverfis timburkirkjuna frá 1888, líklega um eða upp úr aldamótum 1900, og var þá hætt að grafa lík í gamla garðinum. Einn legsteinn úr gamla garðinum liggur laus (2013) við girðinguna að vestan, og á hann er letrað Sæbjörn Egilsson, er mun eiga við Sæbjörn bónda á Hrafnkelsstöðum, er lést 1894. Hefur hann sýnilega verið fluttur úr gamla garðinum, en láðst að koma honum fyrir.

Í garðinum eru allmargir legsteinar, flestir frekar nýlegir, og margar grafir eru ómerktar, eða aðeins merktar með steyptri hellu, án áletrunar eða númers. Steyptur rammi með leturspjöldum er utan um leiði séra Þórarins (d. 1939) og Ragnheiðar konu hans (d. 1940), og líklega einnig leiði Guttorms í Geitagerði og Sigríðar (?). Samkvæmt túnakorti 1918 var þessi garður 44 × 44 m, en hann var stækkaður við byggingu nýju kirkjunnar (líklega um 1965) um 30 m til suðvesturs, og síðan hefur mest verið grafið þar. Í þessum nýja hluta er markaður kross í grasflötina, álíka stór og grunnflötur kirkjunnar og snýr eins og hún.

Í eldri hlutann hefur verið plantað nokkrum trjám, af birki, reyni, furu, og lerki, og röð af alaskaösp sunnan og austan við nýja hlutann. Nýtt hlið og ný stétt úr brenndum steinum voru sett á árunum 1995-2000 (?)

Samkomuhús var byggt á grund utan við eyðibýlið Garða af Ungmennafélagi Fljótsdæla 1914-17 og var því jafnan nefnt Ungmennafélagshúsið. Það var steinhús á tveimur hæðum, með anddyri, stórum samkomusal og leiksviði á efri hæð, eldhúsi og borðstofu á neðri hæð. "Ekkert ungmennafélag í landinu mun eiga jafn veglegt fundarhús," ritar Jón Kjartansson í Skinfaxa 1918. (Endurpr. í Snæfelli 1981). (Í þessu húsi steig undirritaður fyrst í ræðustól, á sumardaginn fyrsta 1948, 13 ára gamall, og flutti kvæðið Gunnarshólma.)

Sunnan við húsið var sléttaður íþróttavöllur og skjólbelti af birki plantað kringum lóðina, en hluti þess eyðilagðist. Á árunum 1955-59 var nýtt samkomuhús byggt á sama stað, sem skírt var Végarður og var gamla húsið þá brotið niður. Um aldamót 2000 var aukið við nýja húsið byggingu sem hýsir skrifstofu og fundarsal Fljótsdalshrepps.

Gripahús heima

Litlar heimildir er að hafa um gömul gripahús á Valþjófsstað, fram yfir það sem þegar var ritað um fjós og hesthús viðbyggð bænum. Fjárhús voru úti á Görðum (sjá síðar) og beitarhús í Hvammi, alllangt innan við bæinn.

Daniel Bruun (1901) ritar: "Snertispöl suðaustur frá kirkjunni eru fáeinar litlar tættur. (Múlaþing 7, 1974, bls. 165). Hér átt við timburkirkjuna frá 1888. Þessar tættur eru nú fyrir löngu horfnar, e.t.v. undir vegi.

"Sigmundartótt hét norðan við gamla bæinn", segir í Örnefnaskrá. Í Fornleifaskýrslu 2005 (bls. 29) segir: "Sigmundartóft var í norðvesturhorni bæjarhóls, um 30 m norðan við Hesthúsið... Engar minjar sýnilegar á þessum stað." (Sbr. kort bls. 17 í sömu heimild).

Hesthús: Á mynd Björns Björnssonar í Árb. F.Í. 1944, sér í lítið torfhús (kofa), á túninu austur af bænum, um það bil miðja vega, milli bæjar og kirkju, sem líklega var hesthús. Vesturendi hússins var enn við lýði 1955-60, þegar Þorvarður Jónsson frá Bessastöðum myndaði kirkjuna.Tóttin er ennþá sýnileg, tvískipt, eystra hólfið líklega hlaða.

"Rétt utan (NA) við heimreiðina að Valþjófsstað II er hesthústóft.... um 60 m SA við bæ. Tóftin er í rennisléttu túni. Tóftin er 15 x 8 m löng [!] og snýr NV-SA. Hún skiptist upp í tvö hólf, og er það norðvestara mun stærra. Ekki er greinilegt op á tóftinni, hvorki á útveggjum né milli hólfa. Engar grjóthleðslur eru greinilegar, en tóftin er talsvert hrunin og á kafi í grasi." (Fornleifaskýrsla 2005, bls. 38. / Teikning fylgir).

Hjallahús er uppi á lágum hjalla, Bæjarhjalla, stutt fyrir ofan bæinn. Það mun vera gamalt að stofni til, með torfgrjótveggjum langs og að baki, en járnklæddum timburstafni og bárujárnsþaki. Viðbyggð hlaða með járnþaki. Sumarið 1990 hafði húsið nýlega verið gert upp þannig. Þetta er eina gripahús í gömlum stíl sem enn stendur á bænum. Í Fornleifaskrá 2005 segir, að það sé 22 × 8-9 m. "Veggir úr torfi og grjóti, allt að 1,5 háir og álíka breiðir.”

Hlöðutótt: "Um 15 m NA við Hjallahús er ferhyrnd tóft á sömu hæð, og um 100 m norðan við bæ. Tóftin er upp af norðurenda bæjarhóls, á lágum hjalla. Tóftin er 11 × 8 m stór. Hún er einföld og snýr NV-SA. Op eða dyr eru á henni bæði á NV- og SA-veggjum miðjum. Tóftin er úr torfi og grjóti. Hún er á lágri hæð, sem er um 15 × 10 m stór. Friðrik Ingólfsson bóndi á Valþjófsstað segir tóftina vera af hlöðu." (Fornleifaskýrsla 2005, bls. 38).

"Um 5 m NA við tóft 048 [ofangreinda hlöðutóft] er einföld tóft... Tóftin er nær hringlaga, 5 × 6 m stór. Hún er einföld og ekki er að sjá að op hafi verið á henni, en rof er í hana vestarlega." (Sama heimild / Teikning). Síðarnefnda tóttin er líklega af heystæði.

Afbýli (hjáleigur) og fjárhús í heimatúni eða nálægt bæ

Í Jarðabók Johnsens 1847 segir: "1760 voru hér að auki taldar hjáleigur með Valþjófsstað, Garðar og Hvammur, og voru Garðar byggðir 1804, en Hvammur talinn með staðnum."

"Í gamla daga voru þrjú býli í túninu, auk staðarins. Gunnhildargerði, nokkuð utan túns, þar sem nú er félagsheimilið Végarður, Garðar og svo Miðbær, upp af þar sem nú er prestssetrið, og svo er það Hvammur, beitarhús nú frá Valþjófsstað, er hér nokkuð innar. Nyrst á túninu heitir Garðahlaup, tekur við bæjarmegin við Végarð, og nær inn að fjárhúsum [á Görðum]. Þá er næst Garðatún, kringum fjárhúsin. Þá Miðbæjartún í kringum Miðbæ." (Örnefnaskrá).

"Í túni og nágrenni V. voru 5 hjáleigur: Gunnhildargerði, Miðbær (í eyði 1760), Garðar (til 1811), Hvammur (til 1756), og Staðarsel sem fór í eyði 1756. Á Görðum og Hvammi voru og eru enn fjárhús, á Gunnhildargerði [!] og Miðbæ núverandi Valþjófsstaður I og prestssetur." (SJM II, 38).

Föst byggð hefur líklega aldrei verið á þessum hjáleigum nema stutt tímabil, aðallega fyrr á öldum, þegar "húsmenn" staðarins fengu þar aðsetur. Þegar fyrsta manntal var tekið, 1703, voru aðeins Garðar í byggð, þeir voru í sumum heimildum taldir sérstök jörð, metin á 6 hundruð 1696. Þar gæti hafa verið nokkuð föst búseta fram um aldamótin 1800. Árið 1816 er enginn skráður á þessum hjáleigum og ekki heldur í síðari manntölum.

Miðbær var stutt fyrir ofan núverandi Prestshús. Fór í eyði 1700, segir Olavius (Ferðabók II, 140). Þar voru síðar fjárhús úr torfi og grjóti fram um 1970, þegar ný og steypt fjárhús voru byggð á sama stað fyrir prestssetrið. Séra Bjarni byggði steyptu fjárhúsin og segir að þá hafi verið tættur tveggja sambyggðra fjárhúsa á Miðbæ, og fjóskofi með þaki, sem hann notaði fyrstu árin. Tvær þústir á sléttu túni, innan við fjárhúsin, eru nú það eina sem er til vitnis um Miðbæinn. Neðri þúfan er vikurhaugur, sem rakað var saman eftir Öskjugosið 1875, en sú efri er grjóthrúga, líklega leifar af gripahúsi. (Bjarni Guðjónsson, 9. ágúst 1990).

Mikið moldarvatnsflóð féll á túnið og niður að Prestshúsi 7. nóv. 1998, en olli ekki skemmdum á mannvirkjum. Sjá grein mína: Skriðuföll í Fljótsdal. Múlaþing 31, 2004. Í Fornleifaskýrslu 2005, bls. 24-25, segir:

"Örugg ummerki sjást ekki um Miðbæ við Prestshús (Valþjófsstað I), en þó má á tveimur stöðum greina óljósar mannvistarleifar, sem gætu vel tengst bænum. Í fyrsta lagi er þústarhæð fast ANA við bílastæðið... og í öðru lagi er hryggur í túni um 100 m utan við prestshús. Allt umhverfis íbúðarhúsið... eru sléttuð tún. Fast ANA [!] við bílastæði við Prestshús er hæð, sem er um 19 x 14 m stór. Hún er á kafi í gróðri, og ýmsum úrgangi hefur verið hent á svæðið. Af þessum sökum er erfitt að greina óljósa tóft, sem er á hæðinni, norðaustarlega ... hún er gróflega hringlöguð, og um 6 m í þvermál. Samkvæmt Unni Einarsdóttur... var þarna einhver kofi, e.t.v. einhverntíma notaður fyrir nokkra hesta, en síðar var þar þurrkað tað... Um 100 m utan við íbúðarhúsið.... er hryggur í túninu, sem mögulega gæti verið síðustu ummerki um útflattan vallargarð. Hrygginn má greina á 60-70 m kafla, NV-SA, áður en hann verður alveg ógreinilegur í túninu." (Fornleifaskýrsla 2005).

Árið 2005 stóð til að byggja bílskúr á óræktarblettinum norðan við prestshúsið, en varað er við því í fornleifaskýrslunni, vegna ofangreindrar kofatóttar. Skúrinn var byggður rétt NV við íbúðarhúsið. Sigmar Ingason á Valþjófsstað I, segir í bréfi, að þegar grafið var fyrir skúrnum hafi ekki komið í ljós “einn einasti steinn, né heldur nokkur vottur af timburleifum.” Ekki hafi heldur vottað fyrir neinni gólfskán. Hann staðfesti að neðri þústin innan við fjárhúsin hefði innihaldið Öskjuvikur, er hann kveðst hafa sameinað hana efri þústinni, til að auðvelda vélavinnu. Sigmar Ingason: Bréf, jan. 2013).

Garðar voru á grundinni um það bil miðja vega milli Prestshúss og Végarðs, og heitir þar Garðatún og Garðahlaup, þar sem Garðalækur hefur hlaupið á grundina. Þar var búið 1703, sem fyrr segir. "Garðar voru í ábúð fram til 1811" ritar Halldór Stefánsson (Múlaþing 5 /1970, 180) og líklega mestalla 18. öld. (Einar Jónsson frá Görðum (um 1725-1811) var af sumum bendlaður við morð Gunnlaugs Árnasonar í Hrafnkelsdal 1749. Sjá Þjóðs. Sigf. Sigf.).

Síðast voru þar allstór fjárhús úr torfi og grjóti, líklega tvístæð (eða meira) og hlaða bakvið. Þau voru rifin og sléttuð í kringum 1975, en þar er enn dálítil grjótdreif og annað graslag en í túninu umhverfis. Á Görðum var nokkuð skriðuhætt, og síðast féll þar stór skriða á árunum 1970-75 (?) og bar grjót á mestallt túnið, fór niður fyrir veg og ofan á nesið, segir Bjarni, sem hafði túnið og tíndi grjót úr því næstu árin. "Engar minjar sjáanlegar, en á staðnum er bungulaga hóll, 25 × 40 m stór, sem snýr N-S", segir í Fornleifaskýrslu 2005, bls. 22.

Gunnhildargerði var 20-30 m utan og ofan við félagsheimilið Végarð, og sést þar dálítil þúst til minja um þetta forna býli. Um það hef ég ekki fundið aðrar heimildir en fyrrnefnd ummæli í Örnefnaskrá og ekkert er vitað hvenær þar var búið.

"Engar tóftir sjást nú þar sem býlið Gunnhildargerði var, en þar er greinilegur hóll, um 25 m norðan við félagsheimilið Végarð... Lágur hóll á sléttum grasbala. Hóllinn er 10 × 10 m stór, en um 1-1,5 m hár. Sléttað hefur verið úr hólnum að hluta vestanmegin." (Fornleifaskýrsla 2005, bls. 24).

Á teikningu sem fylgir í skýrslunni er sýndur garður um 150 m utan við Végarð, frá neðsta hjalla út og niður, og krókbeygir svo í SV. Yfir hann liggur girðing á tveim stöðum. Þessi garður tengist líklega "Gunnhildargerðisrétt" (sjá síðar).

Hvammur er fornt afbýli og síðar beitarhús frá Valþjófsstað, í djúpum hvammi innan við Valþjófsstaðamela. Hvammur fór í eyði 1756, segir Olavius, en þar var enginn skráður 1703. Steypt fjárhús voru byggð þar 1970-1975 og voru eldri hús þá rifin og jöfnuð við jörðu. Í Fornleifaskýrslu 2005, bls. 23, er ritað:

"Bæjarhóllinn er á grasi grónum bala, undir hlíð, fáeina metra suðvestan við fjárhús og hlöðu sem þar standa... Bæjarhóllinn snýr ANA-VSV, 40 x 24 m stór. Stakir steinar sjást í hólnum, og garðlag liggur frá VSV-enda hans í boga til suðurs. Það er samtals um 48 m langt. Girðing liggur langsum yfir hólinn norðanverðan." [Teikning fylgir. Missagnir eru í sögulegu yfirliti um Hvamm í skýrslunni.] Garðurinn gæti verið hluti af fornum túngarði, sem líklega hefur umlukt Hvammstúnið.

Beitarhús og sel

Teigshús nefndust gömul beitarhús í svonefndum Valþjófsstaðateig, um miðja vega milli Valþjófsstaðar og Hóls. Tættur þeirra eru skýrar á grund skammt ofan vegar. Þar hafa verið tvístæð fjárhús með millivegg og líklega hlaða eða heystæði að húsabaki. Um 1990 hófust framkvæmdir við fyrirhugað stöðvarhús Fljótsdalsvirkjunar, með því að sprengd voru um 100 m löng göng inn í fjallið rétt fyrir ofan Teigshús, og síðan byggðar vinnubúðir á bakka Jökulsár neðan við tætturnar. Þeim var samt þyrmt, og eru enn óhreyfðar í grænni torfu á milli vega. Nýlega byggð virkjunarhús eru 150-200 m utar.

"Tóftin er hlaðin úr torfi og grjóti. Hún er 24 x 11 m stór og snýr NV-SA. Fjárhúsið sjálft er með garða eftir endilöngu húsinu, en að baki er lítið hólf við NV-enda. Garðinn skiptir aflanga hólfinu í tvö 15 x 3 m stór hólf (að innanmáli), en hólfið að baki, sem líklega hefur verið hlaða, er 6 x 2 m að innanmáli. Gengt er úr langhólfunum í litla hólfið, og dyr eru á SA-enda langhólfa." (Fornleifaskýrsla 2005, bls. 26). Hér túlka skýrsluhöfundar millivegginn sem garða.

Staðarsel er talið með eyðibýlum Valþjófsstaðar í eyðibýlaskrá Olaviusar (1776), og sagt hafa farið í eyði 1756, eins og Hvammur. "Eigi er kunnugt hvar Staðarsel var, ef til vill uppi í heiði eða Hrafnkelsdal." (SJM II, 38). Sel í Fljótsdal voru ýmist í fjalli, ofan bæja, eða inni á afdölum. Selhjalli heitir í Valþjófsstaðafjalli, neðan við mitt fjall, skv. örnefnaskrá. Elín Ósk og Magnús leituðu þar tótta (2005) en fundu engar. Hins vegar rákust þau á þústir við læk "tæpum 600 m suðvestan við gamlabæ", líklega á Torfhjalla, sem hugsanlega gætu verið leifar af tóttum, en voru of óljósar til að hægt væri að ganga úr skugga um það (sbr. lýsingu og mynd á bls. 26-27 í Fornleifaskýrslu 2005).

Sverrir Þorsteinsson taldi ekki ólíklegt að Staðarsel hafi verið á Gamlastekk í Teignum (sjá síðar). Innantil á Þorgerðarstaðadal eru tættur sels sem kallast Randalínusel og var álitið kennt við Randalín Filipusdóttur húsfreyju á V. á 13. öld. Valþjófsstaðarkirkja átti Þorgerðarstaði og þar með dalinn að vestan, en að austan var afrétt í eigu staðarins, og þar var m.a. Prestssel sem vafalaust hefur tengst Valþjófsstað. Loks er þess að geta að samkvæmt Wilchinsmáldaga 1397 átti Valþjófsstaðakirkja selland að Laugarhúsum í Hrafnkelsdal. Þar eru margar fornar tættur, og telur Sveinbjörn Rafnsson, að þar hafi verið búið "framan af miðöldum, og síðar kunni að hafa verið þar selstaða." (Sv. R. : Byggðaleifar í Hrafnkelsdal... Rvík 1990, bls. 57). Það var því úr nógu að velja varðandi sel á Valþjófsstað.

Réttir og stekkar

Svo virðist sem helsta skilarétt Fljótsdælinga hafi fyrrum verið á Valþjófsstað, sem raunar var eðlilegt, en síðar var slík rétt í landi Mela við Hengifossá (Melarétt eða Hengifossárrétt) og loks var byggð stór og mikil skilarétt á Bessastaðaármelum, um 1905, þar sem hún er ennþá og kölluð Melarétt eða Fljótsdalsrétt.

Kvíabólsrétt: "Á Kvíabóli í suðurhorni túns, var rétt eða kvíar í djúpu jarðfalli, kölluð Kvíabólsrétt." (Örnefnaskrá: Viðbót). Kvíabólsrétt var á Kvíabólinu, innan við bæinn, norðan við eða inn á milli melanna. Unnur Einarsdóttir sagði að þarna hefði verið torfrétt, með venjulegu réttarlagi, sem hætt var að nota þegar hún mundi fyrst eftir, og haldið var að hefði áður verið kvíar. Réttin var neðanvert við götuslóðann þarna, sagði Unnur, og hefur því ekki verið í neinu "jarðfalli". Í fornleifaskýrslu 2005 (bls. 21), segir að tóft sé á þessum stað, "hvort sem hún er af kvíum eða öðru mannvirki", í suðvesturhorni túns, upp undir melunum, um 200 m SV við bæ, "í vel grónum móa í túnjaðri":

"Aðaltóftin er mjög skýr, er 16 × 11 m stór, og snýr ASA-VNV. Op hefur verið á ASA enda tóftarinnar, miðjum. Veggir tóftarinnar eru 0,5 - 0,7 m háir og 1-3 m breiðir. Hólfin eru fremur ógreinileg. Nokkrir steinar eru sjáanlegir í veggjum hér og þar, en eru lítið áberandi. Við vestur (NV) hlið eru tvö garðlög, nær annað frá NV horni tóftarinnar, og að brekkunni norðan hennar, en hitt liggur með NV-vegg tóftarinnar og myndar þannig lítið hólf, með op á ASA enda." 

Þetta er greinilega lýsing á rétt en ekki kvíum, en óvíst er að átt sé við sama stað og getið er í örnefnaskránni.

Rétt og nátthagi á Vatnsleysu: "Frá heimatúni að Hvammi er hæð, sem nefnd er Vatnsleysa. Þetta er allt orðið að túni nú." (Örnefnaskrá). Þarna er sléttur flötur milli mela og fjalls, í framhaldi af Bæjarhjalla, innan og ofan við bæinn, og efst á honum er þríhólfa rétt, hlaðin úr grjóti að hluta, en líka úr timbri og járni. Stuttu utar er grjótröð, líklega af nátthaga, í hlíðarrótum undir Torfhjalla. Réttin er enn í notkun að hluta til.

"Réttin er um 330 m suðvestan við bæinn... Undir brekku, á grasi vöxnum bala. Réttin er grjóthlaðin og 28 × 9 m að stærð. Hún snýr NA-SV, og er aðeins eitt hólf, þó 10 m langt garðlag liggi að henni frá ANA, og einnig megi greina garðhleðslur, bæði um 20 m innan við réttina, sem og um 50 m utan við hana, þar sem eru um 50 m garðlag, sem gæti hafa markað af nátthaga til norðausturs, sem liggur frá klettabelti í hlíðinni og niður á jafnsléttu. Veggir sjálfrar réttarinnar eru 0,9 m háir og 0,5 m breiðir. Norðurhluti hennar er enn nýttur. Réttin er opin í báða enda." (Teikning og mynd. Fornleifaskýrsla 2005, bls. 29).

Rétt við Prestssetrið: Beint niður af Prestssetrinu, örskammt neðan vegar, í dæld í melabrúninni, er fjárrétt, tvíhólfa, torf- og grjóthlaðin, líklega nýleg, og notuð þaðan.

Skilarétt við Végarð (Gunnhildargerði): Stutt utan girðingar utan við Végarð mótar fyrir torfgörðum er mynda nokkur hólf, er líkjast rétt, þar eru einnig tveir garðstúfar er stefna þvert á fjallið. Ekki er minnst á þær í örnefnaskrá eða öðrum rituðum heimildum, svo mér sé kunnugt, og Unnur Einarsdóttir húsfreyja þekkti þær ekki. Þetta ber öll einkenni skilaréttar (lögréttar). Sverrir Þorsteinsson í Klúku kannaðist við réttina og taldi að þarna hafi verið skilarétt áður en Melarétt við Bessastaðaá kom til sögu. Um aldur er ekkert hægt að segja að svo stöddu. (Milli réttartóttanna og Végarðs voru nýlega reist tvö sambyggð timburhús, ætluð til sumargistingar fyrir ferðamenn (Fljótsdalsgrund). Vonandi hafa þau ekki raskað tóttunum.). Í Fornleifaskýrslu 2005, er ritað, bls. 28:

"Réttin er 140 m austan [NA] við Gunnhildargerði, um 4 m austan vírgirðingar... Við brekkurót, klettar taka við um 50 m ofar. Réttin er 25 × 23 m stór, og skiptist í 5, misstór hólf. Langstærst er þó hólf norðvestast, 15 × 16 m stórt. Öll hin hólfin, með einni undantekningu, eru með op inn í þetta hólf. Veggir eru úr torfi að mestu leyti, þó sjást stöku steinar. Breidd veggja 1-1,5 m, en hæð um 0,5 m, og þeir eru mjög signir. Utan við hólfið að vestan er óreglulegt garðlag sem líklega tengist réttinni. Það liggur stutt (um 15 m) til suðvesturs, en beygir svo til suðausturs, og liggur rúma 100 m niður hlíðina [!]. Þar fjarar það út, en örfáum metrum suðvestar má aftur greina garðlag sem heldur áfram til suðvesturs í átt að Végarði." Teikning fylgir.

Skilarétt á Stekkatanga: "Er allt það fé sem kemur úr Rana, af Vesturöræfum og undan Snæfellinu, réttað undir svokölluðum Stekkjartanga [Stekkatanga nú] við Jökulsána, á nesinu fyrir austan Valþjófsstað." (Stefán Árnason: Sóknarlýsing 1841. Múlasýslur. Sýslu og sóknalýsingar, bls. 144).

Stekkatangi er beint austur af Prestssetrinu, þar sem Jökulsá og Keldá koma saman. Nafnið sýnir að þar hefur verið stekkur. Unnur Einarsdóttir sagði að fé hefði oft verið rekið saman á Stekkatanga, og staðið þar fyrir því, eða á malareyrinni fyrir framan, en hún kannaðist ekki við neinar réttarleifar þar, taldi líklegt að Jökulsá hefði sópað þeim burtu fyrir löngu, enda bryti hún stöðugt land á þessum slóðum, t.d. væru gömlu reiðgöturnar að ferjustaðnum horfnar í ána. (Sögn hennar 11.8. 1990). Á eyrinni er ekkert grjót, og því hefur réttin líklega verið hlaðin úr torfi. Sverrir í Klúku mundi heldur ekki eftir tóttum á Stekkjartanga.

Stekkur við Jökulsárkvísl: Um ½ km innar, í litlum hvammi á NA-horni Melanna, beint austur af bæ og kirkju, er lítil tótt, sem kvísl úr Jökulsá hefur brotið framan af, helming eða meira, og gæti verið af stekknum. Kvíslin hafði verið stífluð. Tóttin er talsvert upphækkuð og hefur verið sporöskjulaga. Ingólfur bóndi hélt hana vera heystæði. (Skoðað 27. júní 1991).

" Tóftirnar eru tæpum 600 m austan við bæ... Þær eru fast ofan (NV) við þurran farveg í Jökulsá, sem þornaði eftir að varnargarður var settur í ána... Á þessum stað er garðlag, sem og 2-3 tóftir. Mest áberandi er tóft sem stendur á hól á árbakkanum, sem áin hefur greinilega brotið nokkuð af. Snýr hún SA-NV. Eftir eru um 8 m af lengdinni, en hún er um 7 m breið. Í rofabarðinu sést að hún er yngri en A-1875, sennilega frá því um aldamótin 1900. Rétt sunnan við tóftina eru tvö hólf, annað 7 x 4 m stórt, en hitt 6 x 3 m stórt. Báðar tóftirnar eru einfaldar. Sunnan þeirra er garðlag, 30 m langt, sem liggur SA-NV. Þessar tvær síðastnefndu tóttir og garðlagið eru öll fremur óveruleg, eða 0,5-0,7 m á breidd. Frá húsunum [!] liggur annað garðlag, nokkru verulegra, til suðvesturs og beygir svo til suðurs, og endar þar sem áin hefur brotið af hvamminum. Þetta garðlag er samtals um 40 m langt. Engar grjóthleðslur eru greinilegar í tóftunum. (Fornleifaskýrsla 2005, bls. 28 / Teikning fylgir).

Eftir þessari lýsingu að dæma gæti aðaltóttin verið leifar af stekk eða heystæði, en hinar e.t.v. uppskurður á hnausum fyrir hana, og garðurinn þvert frá bakkanum undirhleðsla girðingar.

Stekkur (eða rétt) í Dranganesi: Inn og niður frá bænum, á lægsta stalli Melanna, eru greinilegar tættur á flötu móastykki, sem geta verið af stekk. Aðaltóttin stefnir N-S, hún er tvískipt langsum, ca. 10 × 9 m; í beinu framhaldi til suðurs eru tveir garðstúfar, með um 8 m bili, allt að 16 m langir. Tætturnar eru grasi vaxnar, en með öðru gróðurlagi en mórinn, og virðast nokkuð fornlegar. Unnur og Ingólfur þekktu þær, en vissu hvorki um nafn á þeim eða nýtingu þeirra. (Skoðað 27. júní 1991).

"Grasi gróin tóft er í hvammi neðan við skógrækt, en um 40-50 m ofan við Jökulsá. Tóftin er um 670 m SSA við bæ. Grasi vaxinn og sléttur hvammur. Hún er sunnarlega í hvamminum. Tóftin er um 26 m löng en um 11 m á breidd. Hún skiptist upp í þrjú hólf. Að norðaustan eru tvö hólf, svipuð að stærð, og eru þau mun greinilegri en stórt hólf sem liggur til suðvesturs. Op eru á milli minni hólfanna tveggja, og frá þeim og yfir í það stærra, auk þess sem er op á útvegg austara hólfsins. Engar grjóthleðslur sjást í tóftinni, en dæld er í kringum þær, þar sem torf virðist hafa verið stungið upp. Hæð veggja er mest 0,3 m. Tóftin er afar óskýr á köflum. Ekki er ljóst hvaða hlutverki hún hefur gegnt." (Teikning fylgir. Fornleifaskýrsla 2005, bls. 34).

Óvíst er hvort hér er um sömu tóttir að ræða, því mikið ber á milli um stærð, og skýrslan nefnir ekki garðana, hins vegar virðist staðháttum bera saman. Hvorug er dæmigerð stekkjartótt, en geta verið af rétt eða fjárhúsum.

Gamlistekkur var í Valþjófsstaðateig, um 0,5 km utan við Teigshús, ofan við Stekkeyri við Jökulsá og skammt ofan vegar. (Friðrik Ingólfsson vísaði mér á hann 11. júlí 1991). Þar er allstórt réttarhólf á grasbala upp við klettahjalla, og heldur minna þverhólf út úr því miðju að austan. Öflug grjóthleðsla er milli hólfanna, með greinilegum dyrum. Túngresi er á balanum.

"Gamlistekkur er um 400 m NA við Teigshús. Frá honum eru um 200 m niður á þjóðveg. Stekkurinn er um 2,3 km SV við bæinn. Tóftirnar eru í grasi grónum hvammi, upp á hjalla, undir klettavegg við fjallið. Á þessum stað eru a.m.k. tvær tóftir. Sú vestari er byggð upp við klettavegg sem myndar NV-vegg norðvestara hólfsins. Tóftin skiptist í tvö hólf, annað aflangt, sem snýr SV-NA, og er um 12 x 12 m stórt, en mjókkar verulega til norðausturs, enda NA-endi aðeins 6 m á breidd. Hitt hólfið er áfast SA-horni þessa hólfs, og er 6 x 3 m stórt, með dyrum í suðvestur. Dyr eru á milliveggnum milli hólfa og þar sér í grjót í hleðslunni. Annars sér óvíða í hleðslur, og er tóftin sigin og grasi gróin. Um 6 m suðvestan við stærri tóftina er sú minni. Hún er ferhyrnd, og um 6 x 5 m stór. Hún er úr torfi og er fremur sokkin, með opi á miðjum NV-vegg. Hvergi sér í grjóthleðslur. (Teikning fylgir. Fornleifaskýrsla 2005, bls. 26).

Hér taldi Sverrir í Klúku líklegt að Staðarsel hefði verið. Tóttin við klettinn er dæmigerð stekkjartótt, en óvíst er um hlutverk hinnar. Til samans líkjast þær varla seltóttum, og því síður eyðibýlistóttum.

Stekkur (?) utan við Melgrófarlæk: "Undir næsta hjalla ofan við þjóðveg, um 100 m utan við Melgrófarlæk, og 160 m frá myllunni, er tóft. Jeppaslóð liggur að tóftinni. Hún er um 1,4 km suðvestan við bæ. Tóftin er aflöng, og minnir lag hennar og staðsetning einna helst á stekk. Hún er 15 x 6 m stór, og er tvískipt. Veggir eru mjög signir og útflattir, eða allt að 3,5 m á breidd en 0,5 m á hæð. Tóftin skiptist í tvö hólf, og er það vestsuðvestara mun stærra. Op er á milli hólfa og tóftin virðist opin til VSV. Hún er úr torfi, en grjóthleðsla er að innanverðu í aðalhólfinu og er hún talsvert hrunin." (Teikning fylgir. Fornleifaskýrsla 2005, bls. 35). Tóttin líkist meira fjárhúsi en stekk.

Ýmsar minjar

Kornmylla var við Melgrófarlæk innan við Hvamm, talin sú elsta á Héraði eða Austurlandi, byggð í tíð séra Vigfúsar Ormssonar, um eða fyrir 1800. (SJM II, 40). Ég hef ekki rekist á tóttina, en í Fornleifaskýrslu 2005, bls. 22, segir:

"Myllan er undir vegkanti skammt innan við Valþjófsstað, 20 m utan við Melgrófarlæk... Grasi gróinn bali er framan við mylluna, að Jökulsá. Myllutóftin er einföld og snýr NNV-SSA og er op á suðurvegg. Tóftin er 4,4 × 3,8 m stór, og eru veggir hennar úr torfi og grjóti. Lækur hefur runnið fast sunnan við tóftina (um 0,5 m frá) en lækjarfarvegurinn er nú þurr. Mesta hæð veggja í tóftinni er 0,5 m, en breidd þeirra um 1 m." (Teikning fylgir af skeifulaga tótt.)

Traðir: "Traðirnar eru fast sunnan við núverandi malarveg [heimreiðina], en innar taka við sléttuð tún. Traðirnar eru um 2-2,5 m á breidd og má fylgja á um 120 m kafla. Þær voru notaðar allt fram á seinni hluta 20. aldar (þar til um 1960). " (Fornleifaskýrsla 2005, bls. 35).

Túngarðar: "Túngarður er nú víðast hvar horfinn, en óljóst má sjá móta fyrir honum sem hrygg í túni á nokkrum stöðum. Frá Kvíabóli gengur hryggur til ASA í um 140 m, en beygir þá til NA. Annar hryggur gengur reyndar frá þeim er fyrst var minnst á, um 40 m vestar, og nær hann lengra til SA, og heldur áfram í þá átt SA heimreiðar að Valþjófsstað II. Garðurinn er hvað greinilegastur frá NV-horni kirkjugarðs í beina stefnu NNA, samhliða þjóðvegi. [...] Samtals eru garðlög og hryggir í túninu greinileg á svæði sem er samtals um 140 x 320 m stórt, en þeir hafa þó hérumbil allsstaðar verið sléttaðir í tún. (Fornleifaskýrsla 2005, bls. 36).

Sigmar Ingason í Prestshúsi kveðst hafa uppgötvað fornan garð, er glöggt sjáist móta fyrir, um 40 m austan við húsið, hann liggur samhliða dalnum og stefnir á bílastæðið við kirkjuna.

“Þegar ég afmarkaði núverandi lóð hússins, lét ég grafa skurði meðfram henni báðum megin, þvert á stefnu þessa garðs. Þar komu í ljós í báðum skurðunum, steinar, vel lagaðir til að nota í hleðslur. Þeir voru bæði smáir og stórir, sumir “tveggja manna tak”, svo við eitthvað sé miðað. Jarðvegur er þarna annars algerlega grjótlaus. Steinarnir eru sokknir djúpt í jörð, ca. 35-55 sm undir núverandi grassverði... Um lengd garðsins er ekkert hægt að segja. Ég tel mig geta fylgt honum af nokkru öryggi ca. 150 m, en þá taka við til beggja enda slétt tún.” (Sigmar Ingason: Bréf, jan. 2013).

Matjurtagarðar: Austan í Bæjarhjalla beint upp af nýja íbúðarhúsinu er gamall matjurta- eða kartöflugarður, umgirtur torfgarði, sem gæti verið frá fyrri hluta 20. aldar. Neðan við hann var byggð lítil kartöflugeymsla (jarðhús), líklega um 1980. Í Fornleifaskýrslu 2005 segir að þetta gerði sé 25 × 22 m að flatarmáli, hlaðið úr torfi, "lítillega grafið inn í brekkuna að norðvestan. Veggir eru um 1,5 m á breidd og 0,7 m á hæð. Op eða rof er á garðinum á tveimur stöðum (sbr. teikningu). Í sömu heimild (bls. 37) er getið um annan matjurtagarð, í grasi gróinni brekku "um 120 m norðan við bæjarhól". "Gerðið er um 30 × 15 m stórt, og snýr SA-NV. Veggir þess eru að mestu úr torfi, en grjót er sjáanlegt einnig í NA-vegg.... Lækur rennur gegnum gerðið nálægt SA-enda." (Teikning fylgir).

Nafngreindir teigar í túni: "Teigar í Úttúni: Arnheiðarstaðateigur upp af kirkjunni. Utan við hana var Egilsstaðateigur, þá voru þar Kleifarteigur og Langhúsateigur og Þuríðarstaðateigur, aflagðir 1887, og ekki vitað hvar þeir voru. Þó álítur Þórarinn [Bjarnason] að Langhúsateigur hafi verið í Framtúni." Geitagerðisteigur var líka í Úttúni. "Þar var slegið frá Geitagerði til um 1940." "Þá er það svokallað Framtún. Neðst var Arnaldsstaðateigur, svo Þorgerðarstaðateigur og Hólsteigur." (Örnefnaskrá). Þetta eru túnskikar sem ábúendur jörðum á í eigu V-kirkju voru skyldaðir til að slá og gekk það upp í jarðaleiguna. Þetta var tíðkað á flestum kirkjujörðum.

Áveituskurðir, garðar og lón eru á Valþjófsstaðanesi, þeir elstu frá tíð séra Vigfúsar um 1790-1800, sem tók upp á því að veita vatni úr Jökulsá á engjar á nesinu. Er talið að það sé elsta áveita á Austurlandi (SJM II, 40).

"Þá er komið að Úthleypuskurði (8). Lengi var Jökulsá veitt á nesið, þessi skurður var grafinn út nesið, beygir hér utan við Valþjófsstaðamela og nær út í Klausturnes." (Örnefnaskrá). "Þá var þar innar Úthleypulón og Úthleypa, þar var Jökulsá veitt á nesið. Ofan við Úthleypulón hét Garðamýri." "Nálægt því sem þjóðvegurinn liggur yfir nesið voru leifar af fornum vörzlugarði og líklega áveitugarði jafnframt. Þar hét Gamligarður." (Örnefnaskrá, viðbætur).

"Áður var þarna [á merkjum við Skriðuklaustur] garður, hlaðinn úr sniddu, sem gegndi tvíþættu hlutverki, bæði sem varnar- og landamerkjagarður, og sem áveitugarður. Nú er þessi garður fallinn á stórum köflum. Hann hefur alltaf verið kallaður Nýigarður, nær niður að á [Jökulsá] frá Hamraenda. Sunnan þessa garðs liggur svo Valþjófsstaðanes. Nýjagarð byggði sr. Lárus Halldórsson prestur hér." (Örnefnaskrá). Skv. úttekt 1888 eða 1894 er garðurinn 555 faðma langur, 2 álnir og 13 þuml. á hæð, og 2 álnir og 22 þuml. á þykkt. (Þjóðminjaskrá Gunnlaugs Haraldssonar).

"Sunnan Nýjagarðs myndast lón, sem heitir Nýjalón, það er ofan þessa og nær niður í Hrísnesið. Þar innar er Gamlalón, þar var byggður garður löngu á undan Nýjagarði. Þá er Rebekkulón; trúlegt að einhver Rebekka hafi fengið það til slægna. Þetta er niður undir Stekkatanga, og þar er einnig Stekkatangalón... Förum eina röð hærra á nesinu; þá er þar yst Blautalón, sem er ofan við Torftjörn, svo eru í röð inn nesið, innan við Blautalón, Krókalón, Péturslón og Úthleypulón. (Örnefnaskrá).

"Garður er fast neðan við tún, sem eru neðan þjóðvegar, norðaustan við Valþjófsstað. Það er tæpum 2 km ANA við Valþjófsstað I. Allt umhverfis garðinn eru sléttuð tún. Hann nær fram á bakka Jökulsár. Garðurinn liggur í um 16 m til SSA, en svo kemur rúmlega 30 m skarð í hann, þar sem m.a. liggur bílaslóði í gegn. Garðurinn heldur því næst áfram í sömu stefnu í um 100 m og endar á árbakka Jökulsár. Á köflum er vart hægt að rekja garðinn, nema sem óljósan hrygg, en þar sem hann er skýrastur er hann 1,5 m á breidd og 0,5-0,6 m hár." (Fornleifaskýrsla 2005, bls. 32 / Líklega er hér átt við Gamlagarð).

Kolabotnar er örnefni yst í Miðfjalli, ofan við Selhjalla og Selhjallarák, skv. örnefnaskrá.

"Kolagrafirnar sjást enn, við endann á Langahjalla ... sem er í hlíðinni ofan við Valþjófsstað, og eru um 700 m þangað í beina loftlínu til vesturs. Enn sjást kolagrafir á þessum stað. Þær eru raunar fremur ógreinilegar, en 4-5 hringlaga skálar sjást þó í dokkinni. Þrjár þeirra eru þétt saman, um 2 m í þvermál, og 1-2 aðrar eru utar. Engin kol eru sjáanleg, en skv. Friðrik Ingólfssyni ábúanda á Valþjófsstað fundust þau þarna fyrir mörgum áratugum." (Fornleifaskýrsla 2005, bls. 33).

"Þar fyrir innan [Götudæld] hét Torfristulón." (Örnefnaskrá). "Það er um 240 m VSV við Valþjófsstað I, en um 550 m NA við bæ. Þar er langur deiglendisblettur, sem gengur í svolítinn boga milli tveggja túna. Umhverfis eru sléttuð tún. Ekki sjást merki um torfristuna nú, enda þess varla að vænta." (Fornleifaskýrsla 2005,38).

Torfhjalli: "Mógrafir eru á Torfhjalla, um 330 m SSV við íbúðarhúsið á Valþjófsstað II, en um 360 m SV við bæ. Mógrafirnar eru alveg fram á brún hjallans... Mógrafirnar eru um 20 x 10 m að stærð og eru ennþá blautar, og um 80 sm djúpar." (Fornleifaskýrsla 2005, bls. 39).

Vöð talin frá mynni Norðurdals: Teigshúsavað (innst), Hundabrot, Melgrófarvað, Drangsvað, Fremra-Skógarvað, Ytra-Skógarvað eða Kirkjubrot, í stefnu af kirkjunni. "Milli Melgrófarvaðs og Drangsvaðs var slæmt vað, kallað Langhúsastrengur. Talað var um að fara yfir á Strengnum." (Örnefnaskrá). "Langhúsastrengur hét vað sem stundum var farið á bílum eftir að þeir komu. Þá var farið á milli Langhúsaeyrar og Hvammseyrar, neðan við Hvammshúsin, beitarhús frá Valþjófsstað." (Helgi Gíslason: Um vöð og ferjur á Lagarfljóti. Múlaþing 13 / 1983, bls. 9).

"Klettastapi í Jökulsá, nokkuð innan við tún, var kallað Drangur, og þar var Drangavað." (Örnefnaskrá.) "Vaðið er um 200 m austan Langhúsavaðs... Þegar vaðið er farið, er farið yfir Hvammseyrar og Langhúsaeyrar í SSV-stefnu á klettadrang sem er á hinum bakkanum, skammt utan við Langhús. Þessum dranga var rutt um með jarðýtu um 1992. Leifar af honum sjást enn. Malareyri er við bakkann. Bílaslóði liggur að vaðinu, en ekki greinileg merki um eldri götur." (Fornleifaskýrsla 2005, bls. 33). Fleiri vöðum er lýst í Fornleifaskýrslu 2005, bls. 33-34.

Ferja: "Þar sem straumferjan var á Jökulsá heitir Ferjueyri. Milli Nýjagarðs og Stekkatanga heitir Ferjubakki, hvorttveggja nýnefni frá 1917." (Örnefnaskrá). "Ferjan var um 100 m innan við brúna á Jökulsá (aðalbrúna). Ferjustaðurinn var tæpa 2 km SV við bæ. Grónir vellir eru á báðum bökkum. Vestanmegin er um 1 m hár torfbakki. Þarna er Jökulsá í einum farvegi og mjög breið." (Fornleifaskýrsla 2005, bls. 33). (Nánar um straumferjuna í Víðivallakafla).

Kuml og dysjar

Kuml úr heiðni fannst á Valþjófsstaðamelum um 1800 og ýmislegt haugfé í því. Séra Vigfús Ormsson ritar í fornleifaskýrslu til "Fornleifanefndar" 20. sept. 1821:

"Þegar eg eitt sinn fyrir herum 20 árum, var að gánga um mela nokkra er liggja sunnan og suðaustan við túnið á Valþjofstað - hvorjir melar árliga blása upp undir túnið - sá eg fram úr moldarbakkarofi standa lærlegg af manni, hvörsvegna eg fór í þeim sama stað að forvitnast um, hvört meira væri að finna; fann eg þá beinagrind af manneskju, er, epter því sem beinin láu, var að sjá hefði lagst, eður lögð verið þar hálfkrept fyrir. Milli bols og höfuðs var mikið af stórum og smáum tölum, þær stærstu voru á stærð við fremstu kjúku vísifingurs á meðalmanni, þó nokkuð styttri, svartar á lit og með hvítum og rauðum krossum, en hinar minni á stærð við krækjuber, einlitar, eins og silfraðar væru; neðanverðt við tölurnar, eður hvar brjóst manneskjunnar vyrðist verið hafa, lá nisti eðr lítill ferhyrndr koparskjöldur, hvorreð hermeð fylgir til sýnis, en tölurnar eru allar týndar, so ekkert af þeim getr sendst. Í miðtisstað beinagrindarinnar voru 2 koparkúluskildir, er litu út fyrir að hafa verið á belti, til að krækja að sér, þareð í öðrum var krókur, en undir hinum sást vottur til vefnaðartöjs með vaðmálsvíindum. - Skildir þessir ega hermeð að fylgja til sýnis." (Sveinbjörn Rafnsson: Frásögur um fornaldarleifar I. Rvík. 1983, bls. 37-38) .

Þessi svokallaði "Valþjófsstaðafundur" er geymdur í Nationalmuseum í Kaupmannahöfn (Na. DCLIX og DCLX). Myndir af skjöldunum eru í bókinni, bls. 37. Sjá einnig: Kristján Eldjárn: Kuml og haugfé, Rvík. 1956, bls. 176. Þar er vísað í fleiri heimildir. Eftir skartinu að dæma hefur það verið hefðarkona sem þarna var grafin, líklega í heiðnum sið, að líkindum fyrir árið 1000. Ekki eru heimildir um búendur á V. fyrir kristnitöku, en skv. Njálssögu bjó Sörli Brodd-Helgason þar árið 1012, þegar Brennu-Flosi kom þangað í liðsbón. Kona Sörla var Þórdís dóttir Guðmundar ríka á Möðruvöllum. Flosi brá honum um "kvonríki", þegar Sörli neitaði honum um liðveislu.

Nákvæm staðsetning kumlsins er ekki þekkt, en það hefur líklega verið á melunum, innan núverandi skógargirðingar, 300-350 m sunnan eða SA við bæinn.

Þjófaleiði (Þjófadys, Þrælaleiði): "Efst á Kvíabóli voru tvær þúfur, kallaðar Þjófaleiði." (Örnefnaskrá). "Dalbúar [þ.e. útilegumenn úr Þjófadal við Snæfell] voru heygðir þar í Valþjófsstaðatúni er áður hét Þjófadys (nú Þrælaleiði), suðvestan bæjar. (Sigf. Sigf. Þjóðs. 2. útg, IX, 170). "Í túni voru þúfur tvær, nefndar Þjófaleiði... Nú eru slétt leiði þeirra og eftir sögusögnin ein, sem greinir m.a. að einn hafi Valþjófur heitið." (SJM II, 38). "Sannaðist á þeim að "dýrt er Drottins orðið", ritar Gunnar skáld í Árbók. Ferðafél. 1944, 89.

Þjófaleiðin tengjast "Sögunni af Snæfellsþjófunum", sem Sigfús Sigfússon skráði eftir sögnum Jóns Pálssonar (blinda) í Víðivallagerði og Bergljótar Sigurðardóttur á Skeggjastöðum, sem var alin upp í Geitagerði [langamma mín]. (Þjóðs. Sigf. Sigf. 1. útg., 12. bindi, bls. 17). Halldór Stefánsson fræðimaður, um tíma bóndi í Hamborg, skráði söguna "Útlagarnir í Þjófadölum", og birti í Eimreiðinni 55. árg. 1949, sem er efnislega eins.

Einhverntíma í árdaga höfðu 18 sakamenn hreiðrað um sig í helli undir fossi í Þjófagilsá sunnan við Snæfell. Eru fjórir þeirra nafngreindir: Galti, Valur, Valþjófur og Valnastakkur. Prestssonur á V. leitaði á náðir þeirra og kvaðst hafa framið glæp. Gat hann talið þá á að fara að V. um messu á Hvítasunnudag til að ræna konum úr kirkjunni, en þá hafði hann komið boðum til bænda, er sátu með alvæpni, dulbúnir sem konur í framkirkju, en konur í kór. Hófst þar bardagi sem lyktaði svo að útilegumenn voru allir drepnir, sumir þó eftir nokkurn eltingarleik, svo sem Galti í Galtaklifi utan og ofan við bæinn og Vali á Valahjalla við Kleif. Svo er að skilja á sögunni að bærinn heiti eftir Valþjófi þessum!
"Kvíabólið, sem hér um ræðir, var innan við heimreiðina að Valþjófsstað, og utan undir háu melunum. Að sögn Unnar Einarsdóttur, sem er fædd og alin upp á Valþjófsstað, voru leiðin í suðausturhorni túnsins (núverandi), og við NA-horn Melanna, rétt fyrir innan hlið sem þar er á túngirðingunni (um það liggur slóð inn að skála sem er austan undir Melunum). Hún segir leiðin hafa verið tvö, að lögun sem aflangar þúfur og snúið frá vestri til austurs. Þau voru sléttuð þegar túnið var stækkað í þessa átt, líklega á árunum 1950-60. Ekki fannst neitt annað en mold í þúfunum þegar þær voru jafnaðar við jörðu." (H. Hall.: Fornhaugar, féstaðir og kuml í Fljótsdal. Múlaþing 18, 1991, bls. 47).
"Kvíaból er um 180 m SV við íbúðarhúsið á Valþjófsstað II. Þar er tóft á ósléttaðri hæð, en engar þúfur sem gætu mögulega talist Þjófaleiði er þar að finna. Í túninu, um 40 m NA við Kvíabólið, eru hins vegar tvær aflangar þúfur í rennisléttu túninu, og er líklegast að þær séu það sem kallað hefur verið Þjófaleiði... Þúfurnar eru um 2 m í þvermál og 3 m eru á milli þeirra. Þær standa aðeins um 5 sm upp úr túninu. Þær virðast ekki náttúrlegar, og er hugsanlegt að þarna kunni að leynast litlir öskuhaugar og nafnið sé þannig til komið." (Fornleifaskýrsla 2005, bls. 31-32).

Söguleg örnefni

Galtaklif er í örnefnaskrá sagt vera í Bæjarhjalla upp af Miðbæ (þ.e. Prestshúsi), en mér finnst líklegra að það sé í næsta hjalla, Torfhjalla (Torhjalla), sem er miklu hærri og erfiðari uppgöngu. "Þar á útilegumaður úr Þjófadölum að hafa verið drepinn, var hann við kirkju, en hinn hét Vali, er drepinn var á Valahjalla, rétt hjá Kleif." (Örnefnaskrá).

Tröllkonustígur (Skessustígur) kallast sá mikli berggangur, sem liggur skáhallt út og upp Valþjófsstaðafjall frá Végarði. Nöfnin tengjast þjóðsögu um skessur tvær er bjuggu á heiðunum sitt hvoru megin Jökuldals og voru systur, en deildu um grasatekju og veiði á heiðunum. (Sigf. Sigf. : Þjóðs. 2. útg., III, 267). Nánar í grein minni Tröllkonustígur og Skessugarður. Múlaþing 30, 2003, bls. 32-41.

Pálsvörður tvær eru á brún Valþjófsstaðafjalls beint upp af Végarði, og sjást vel þaðan. Í Örnefnaskrá er nafnið sagt "nýnefni frá því um 1940, kenndar við Pál Kjerúlf frá Hrafnkelsstöðum." Mig minnir ég hafa heyrt, að Páll hafi gengið þarna þvert upp fjallið, að vörðunum, líklega á samkomu, og kannski út af veðmáli (?). Líklegra er þó að þær séu kenndar við höfund sinn. Sigmar Ingason á Valþjófsstað kom að vörðunum í júní 2013, myndaði þær og mældi. Ytri varðan er 2,20 m á hæð, með steini er hún stendur á, og 0,80 m í þvermál neðst, og sú innri 1,85 m, með steini. Þær eru alveg á brún klettahjalla, með um 50 m bili. (Tölvubréf 10.júní 2013).

Heiðveig Agnes Helgadóttir

© Helgi Hallgrímsson 2021