Skip to main content
24 November, 2021

Minjar í Rana

24 November, 2021

Minjar í Rana

Eins og fyrr getur tilheyrir neðri hluti Ranans, milli Hölknár og Eyvindarár á Jökuldal, jörðinni Skriðuklaustri. Þar eru selja- og eyðibýlatættur á þremur stöðum, þ.e. á Brattagerði, yst í Rana, Eiríkshúsum og Þorskagerði, sem eru stutt fyrir innan Sauðá, í miðjum Rana. Heimildir eru um byggð þar á 19. öld, sem lagðist í eyði eftir Öskjugosið 1875. (Sjá grein Sigurðar Kristinssonar í Múlaþingi 25, 1998). Þess utan hefur Raninn verið nýttur frá Klaustri og bæjum vestan Jöklu á Jökuldal, einnig sem afrétt Fljótsdælinga.

Brattagerði: Þar var búið samfellt í hálfa öld, eða frá 1826 til 1877. "Á hjallanum stóð Brattagerði. Á þrepi neðan við stóðu tvö peningshús." (SJM I, 292). Rústir bæjarins munu enn vera óhreifðar, innan við lækjargil (Brattagerðislæk), og tættur gripahúsa eru sýnilegar á gamla túninu, beggja megin við gilið. (Höf. hefur ekki komið á staðinn og nákvæmar lýsingar finnast ekki í heimildum). Bæjarhúsin hafa verið notuð til gistingar fyrir gangnamenn eftir að bærinn fór í eyði, en í Fasteignamati 1918 er jörðin talin húsalaus. Um það leyti eða nokkru síðar var byggður þar gangnakofi úr torfi og grjóti utan við gilið, og sagði Aðalbjörn Kjerúlf á Arnheiðarstöðum, að síðasti torfkofinn, hefði verið byggður (eða endurbyggður) 1945. Hann er álíka stór og gamli kofinn við Fjallaskarð, og rúmar um 10 menn. Hann stendur enn og er notaður sem hesthús eða fyrir reiðtygi í göngum. Á árunum 1950-60 var svo byggður þar timburskáli með kojum, á vegum tilraunabúsins á Skriðuklaustri, sem flutti þangað afréttarfé á vorin. Stendur hann rétt hjá gamla kofanum. Þarna er einnig fjárgeymslugirðing og rétt. (H. Hall.: Samantekt um gangnakofa... Múlaþing 26, 1999).

Kláfur og skyndibrú: "Kláfur var á Jöklu undan bænum [Brattagerði]. Þar fellur áin í þröngum stokki í vorkuldum, og höfðu Brattgerðingar þar skyndibrú, planka, og teymdu hesta yfir." (SJM I, 202). Hallgrímur Þórhallsson á Brekku segir kláfinn hafa verið um 250 m utan við bæinn, og standa þar enn grjóthleðslur, beggja megin við Jöklu, til minja um hann.

Tættur í Ranasporði: Yst í sporðinum, milli Eyvindarár og Jöklu, er tótt fast við gilið, um 50 m ofan við brúna. Tóttin er yst á lágum mólendisstalli og snýr langs eftir dalnum, um 6-7 × 4 m að stærð, með sama gróðri og umhverfið. Utan í stallinum, beint út af tóttinni, er önnur tótt, ferhyrnd, um 3 × 4 m, hefur verið grafið fyrir henni inn í stallinn og sér þar í lóðréttan móbergsklett. Þarna hafa líklega verið beitarhús frá Brattagerði. Hvorki Hrafnkell Jónsson né Páll Pálsson kannast við þessa tótt. (Ferðalýsing mín 29. júní 2000)

Hellir í Eyvindarárgili: Um það bil í miðju Eyvindarárgili, vestan megin, er allstór hellishvelfing, um 4 m breið og 5 m há, fremst, en lækkar brátt inn. Botninn er sléttur og gróinn fremst, og mótar þar fyrir lágum þvergarði, sem bendir til að hellirinn hafi verið notaður til fjárgeymslu frá Brattagerði. (Ferðalýsing mín, 29. júní 2000).

Húsahvammur: "Ef við höldum upp með Eyvindará, þá er ofan við gilið Húsahvammur. Í Húsahvammi voru beitarhús frá Brattagerði, þar upp af var nefnt Kinn. Á því svæði tók aldrei fyrir beit." (Örnefnaskrá Rana / Aðalsteinn Jónsson, Vaðbrekku). "Í Húsahvammi, upp við Eyvindará, handan hálsins, eru rústir, ef til vill beitarhúsa, og nægar engjar í grenndinni." (SJM I, 292). Hallgrímur Þórhallsson á Brekku segir þarna vera tættur tvístæðra fjárhúsa, sem hafi getað tekið allt að 100 fjár. (Munnleg heimild, 13.9.2012).

Á Eiríkshúsum var byggður bær 1808, og hafa þar líklega verið fjárhús frá Þorskagerði, sem er skammt frá. Sú byggð varaði þó aðeins tvö ár, og síðan hefur þar ekki verið búið, en tættur býlisins munu enn vera skýrar.

Þorskagerði stendur á grónum grundum skammt fyrir innan Sauðá í Rana. Þar hefur líklega verið haft í seli frá Skriðuklaustri fyrr á öldum, og stundum verið búið í stuttan tíma. Halldór Stefánsson segir í eyðibýlaskrá sinni (Múlaþing 5), að þar hafi verið búið 1783. Árið 1825 var þar byggt upp á selrústum, en aðeins búið í eitt ár. Kringum 1865 byggði Sigfús Stefánsson bóndi á Klaustri beitarhús yfir 140 fjár á Þorskagerði, og “hafði þar í seli nokkur sumur” (G. í Óðni 1909, bls. 53). Síðan var búið þar frá 1871 og þar til Öskjuvikurinn lagði Efra-Dal í eyði 1875. Þar eru skýrar tættur bæjar og gripahúsa, en nánari upplýsingar vantar.

Kláfur var á Jökulsá milli Þorskagerðis og Eiríksstaða, oftast kenndur við síðarnefnda bæinn, og um hann lá Eiríksstaðavegur af Klaustursels-Bessastaðavegi við Vegups á Fljótsdalsheiði. Olavius nefnir kláfinn hjá Eiríksstöðum 1776 (Ólafur Olavius: Ferðabók I, bls. 139), en þegar Sveinn Pálsson átti þarna leið 1794 var búið að flytja kláfinn upp að Brú. (Sveinn Pálsson: Ferðabók, 1945, bls. 389). Hann hefur þó verið settur upp aftur, og getur enn að líta strengi hans og kassa í Jökulsárgilinu neðan við Eiríksstaðabæinn.

Mógil: Í Mógilshálsi, innst í Rana, austan við Hölknárgil, er tótt sem Halldór Stefánsson kallar Mógil í eyðibýlaskrá sinni (Múlaþing 1970). Sigurður Vigfússon fornfræðingur kom á þennan stað 1890, og taldi sig finna túngarð utan um ca. 2ja dagslátta tún. Hann lýsir tóttinni svo: "Í miðju túninu er forn skálatótt, frá 66-70 fet á lengd, en 34-36 fet á breidd. Tóftinni er skift í þrent með tveim milliveggjum, og þrem dyrum á sömu hlið, er að ánni veit." (Árbók Fornleifafél. 1893, bls. 45). Hann efaðist ekki um að þetta væri mjög forn tótt, og lét friðlýsa hana. Sveinbjörn Rafnsson skoðaði tóttina og teiknaði hana 11. ágúst 1980. "Borun innan tóftarinnar leiddi í ljós að viðarkolaborið gólflag er talsvert undir gjóskulaginu H-1158, jafnföllnu yfir rústirnar. Hér er því ævaforn mannabústaður." (S. R.: Byggðaleifar í Hrafnkelsdal..., Rvík 1990, bls. 42-43 Þar eru einnig ljósm. af staðnum.)

Fjallaskarðskofi / Ranakofi: Austan við Fjallaskarð, í efri hluta Rana (Ranaafrétt), milli Fremra- og Ytra- Eyvindarfjalls, er annar gangnakofi, en það land var talið eign Valþjófsstaðakirkju. Pétur Sveinsson getur um þennan kofa á seinni helmingi 19. aldar og segist þrisvar hafa byggt hann, en mun þá eiga við endurbyggingu. (Dálítið úr ættartölu og þáttur af einum Austfirðingi. Múlaþing 19, bls. 202). Samkvæmt hreppsreikningum var nýr kofi byggður 1898, og var hann endurbyggður 1936, þak líklega endurgert síðar.

Sá kofi er nokkuð sérkennilegur, með afar þykkum veggjum, úr hellugrjóti, og járnþaki á sperrum, með torfi ofan á. Allstórt hesthús var byggt við kofann 1968-69, með járnþaki, timburstöfnum og dyrum sitt hvoru megin við kofann. Á árunum 1972-73 var svo reistur þarna myndarlegur gistiskáli í sumarhúsastíl, sem rúmar 12 manns í kojum, og 1991 var fluttur þangað skúr frá Landsvirkjun, sem rúmar 10 manns, og eru þeir aðallega notaðir til gistingar ferðafólks á vegum Hestaferða. Jeppaslóð liggur að kofanum frá Snæfellsvegi innan við Eyrarselsvatn. (H. Hall.: Samantekt um gangnakofa... í Múlaþingi 26, 1999. Þar eru m.a. myndir af umræddum mannvirkjum.)

Höfundur skoðaði gamla kofann 30. ágúst 2012, í fylgd með Jóhanni Þórhallssyni í Brekkugerði, sem er þaulkunnugur í Rana. Kofinn stendur á SA-bakka Kofalækjar (Kofakvíslar). Hann er ennþá í góðu standi, nema þak er farið að bila. Hann er um 4 × 4 m að innanmáli. Veggir standa prýðilega, þeir eru um 1,5 m þykkir í dyragátt, vandlega hlaðnir úr hellum, með torflögum á milli, grasi vaxnir að ofan og talsvert grónir að utanverðu, mosavaxnir að innan. Lítill gluggi er á timburstafni yfir dyrum, sem eru austan á húsinu. Sperrur undir járnþaki ganga inn í veggina efst, sem er óvanalegt, og hefur valdið fúa í þeim, svo nokkrar hafa brotnað sundur við vegginn, en þakið helst þó uppi. Moldargólf er í kofanum, þakið heyi. Utanvert við kofann er lítil tótt, tæplega 2 × 2 m, opin að austan, nema þar rísa tveir hellusteinar upp á rönd, sem virðast vera leifar af austurvegg. Norðurveggur er heill, nema rofinn í endann. Líklega er tóttin leifar af eldri kofa, sem hefur verið rifinn.

Hesthúsið er byggt við kofann að vestanverðu. Það er um 10 m á lengd, og 3,5-4 m á breidd að innanmáli, með timburjötu við vesturvegg, og rúmar um 20 hesta, að sögn Jóhanns. Tvennar dyr eru austan á húsinu, hvor sínu megin við kofann, hurðir með járnhespum og krókum sem loka þeim tryggilega. Það er með svipuðum torfveggjum og kofinn, með bogadregnum hornum að utanverðu, vel grónir og stæðilegir. Ofan við þá eru timburstafnar með loftgati á suðurenda. Á húsinu er bárujárnsþak á sperrum, sérkennilegt að því leyti, að sperrur eru styttri að austanverðu, og þakið brattara þeim megin, auk þess liggur bárujárnið þar langsum, en þvert á vesturhlið. Járnið hefur verið þakið með þunnu torflagi og vírnet strengt yfir, til að halda því föstu. Samt hefur það grisjast mikið, einkum á mæni og austurhlið. Gólfð var nú þakið heyi; þar var langborð úr timbri, og vélbundnum heyböggum raðað sem sætum sitt hvoru megin. Hafa hestaferðamenn sýnilega notað húsið sem veisluskála.

Búið var að setja niður undirstöðustaura fyrir þriðja skálann rétt fyrir innan hina skálana, og sumarið 2013 var sá skáli byggður, er hann stærri en hinir, sem mun vera áætlað að rífa.

Eyvindartorfa: “Í Fremra Eyvindarfjalli er blásin roftorfa, sem heitir Eyvindartorfa (sjá Hrafnkelssögu).” (Örnefnaskrá Rana).

"Þeir ríða þá upp á hálsinn. Þar standa fjöll lítil á hálsinum. Utan í fjallinu er meltorfa ein, blásin mjög. Bakkar hávir voru umhverfis. Eyvindur ríður að torfunni. Þar stígur hann af baki og bíður þeirra... Eftir það gengu þeir upp á torfuna og brjóta þar upp grjót nokkurt. Hrafnkell snýr þá af götunni og suður að torfunni." [Þarna voru Eyvindur og félagar hans felldir. Sámur, bróðir Eyvindar, reið eftir þeim Hrafnkeli en náði þeim ekki] "Snýr Sámur þá aftur við svo búið, kemur þar til er Eyvindur lá, tekur til og verpur haug eftir hann og félaga hans. Er þar og kölluð Eyvindartorfa og Eyvindardalur og Eyvindarfjöll." (Hrafnkels saga Freysgoða. Ísl. fornrit, 11. bindi, 1950, bls. 129- 130).

Sigurður Vigfússon fornfræðingur fór þarna um 1890, og ritar af því tilefni:

"Þar sem af mýrinni kemur og dregur upp í fjallið, hefir verið Eyvindartorfa, sem nú er öll uppblásin og horfin, og segir mér svo Sigfús á Skjögrastöðum, greindur maður og fróður um örnefni, að faðir hans hafi séð Eyvindartorfu og haug á henni, en þá hafi torfan verið svo blásin, að ekki hafi verið eftir nema lítill kragi í kringum hauginn." (Árbók Fornleifafél. 1893, s. 37). Faðir Sigfúsar var Sigfús Jónsson bóndi á Langhúsum, sem vafalaust hefur þekkt þarna til.

Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari hefur svipuð orð um torfuna og nafni hans, sagði gamla menn hafa talið sig geta giskað á hvar hún var.

"Haust nokkurt elti göngumaður kindur þar nærri yfir fjallið í þoku. Hentist hann þar yfir moldarflag og sá þar uppblásin mannabein og járnarusl. Gat hann þá eigi sinnt þessu. Leitaði hann síðan að flaginu, en fann það aldrei, og enginn maður síðan." (Sigf. Sigf.: Þjóðs. IX, 40).

Sigurður Nordal hæðist að þessum sögnum í ritgerð sinni um "Hrafnkötlu":

"Hvort lýsingin á við torfuna á 10. eða 13. öld, skiptir litlu máli. En svo stendur torfan af sér, nokkurn veginn óhögguð, storma og sandfork 6-8 alda, þangað til allt í einu kemur sá dyntur í hana að þurrkast út, nokkru áður en fyrsti fornfræðingurinn kemur að skoða hana..." (Studia islandica VII, bls. 25).

Jóhann Fr. Þórhallsson, bóndi í Brekkugerði, sem oft hefur farið í göngur í Rana, kvaðst (30.8. 2012) ekki hafa heyrt hvar Eyvindartorfa ætti að vera, enda er hún eflaust horfin, en önnur roftorfa gæti hafa tekið við nafni hennar, eins og gefið er í skyn í örnefnaskrá.

Heiðveig Agnes Helgadóttir