Skip to main content
24 November, 2021

Hamborg

24 November, 2021

Hamborg

Hamborg var hjáleiga Bessastaða með sérmerkjum, frá 16. öld eign Skriðuklausturs til 1911, er ábúandi (Halldór Stefánsson) keypti hana af landssjóði. Jörðin var landlítil, en jókst nokkuð af landskika innan við Bessastaðaá, sem keypt var frá Skriðuklaustri 1930, þar sem m.a. er Fljótsdalsrétt. Jörðin fór í eyði 1958, en tún hafa verið nytjuð frá Arnheiðarstöðum og engjar frá Hrafnkelsstöðum. Sem hluti Bessastaða er Hamborg mikill sögustaður, þó einkum þjóðsögustaður, því að munnmæli um Bessa á Bessastöðum snúast mikið um Bessastaðaárgilið og næsta umhverfi þess.

Bæjarnafnið hefur vakið furðu margra. Í manntalinu 1703 er það ritað Handborg. Stefán Árnason ritar í sóknarlýsingu 1841: "Hamborg (til forna Hauðurborg, vide Finn Jón.: Hist. eccles. Tom 4, p. 120)." (Múlaþing. Sýslu- og sóknalýsingar, 2000, bls. 140). Hann vísar þarna í Kirkjusögu Finns Jónsonar (Historia ecclesiastica Islandiæ, 4. bindi) sem aðeins er til á latínu. Hauður merkir land í skáldamáli, en hauðna merkir "ung geit, huðna" (Ísl. orðabók). Halldór Stefánsson skýrir bæjarnafnið út frá so. að "hama sig" og "standa í höm", sem gjarnan er notað um hesta í illviðri, og vísar til skjóls undir brekkunni og sérstaklega Gálgakletti. Flestir hafa síðan hallast að því, sbr. örnefnaskrá Hamborgar. (Sbr. líka beitarhúsin Hantó á Klaustri).

Myndir (neg.) af Fljótsdalsrétt voru aðallega teknar á réttardag 20. sept. 1986. Minjar í fjallinu voru skoðaðar og myndaðar (neg.) 20. júlí 1989, og minjar heima í Hamborg 9. ágúst 1990 og í Nesinu 27. júní 1991.

Gamli bærinn: "Baðstofa, byggð skömmu fyrir aldamót, portbyggð og þiljuð." (SJM II, 33). Halldór Stefánsson fræðimaður bjó um tíma í Hamborg og ritaði minningabók. Þar segir m.a.:

"Árið 1912 byggði ég steinhús, einbreitt, ein hæð á kjallara, en lét standa eftir baðstofu og fleiri bæjarhús. Var hugsunin sú að byggja við það síðar... Að kenningu og ráði fróðra manna þá, var raðað sem mestu grjóti í steypumótin til að spara sement. Innbyggingu hússins var ekki lokið fyrr en árið eftir. " (Halldór Stefánsson: Ævislóð og mannaminni. Rvík 1971, bls. 108).

Í bókinni segir höf. að Halldór Guttormsson á Arnheiðarstöðum hafi "annast að mestu innansmíði steinhússins." Þetta var líklega annað fyrsta steinhús sem byggt var í Fljótsdal, en það fyrsta var Brekkuspítalinn (1907). Húsið var fremur mjótt og langt og sneri þvert á hlíðina, með skúrþaki, þremur gluggum á aðalhæð í suður og einum í austur. Árið 1990 var þetta steinhús orðið mjög hrörlegt og veggir farnir að molna.

Bæjardyr voru (1990) á viðbyggðu húsi, nokkru lægra, einnig með skúrþaki af járni, og torfvegg að ofan og utan. Aðeins utar og ofar var skemma, með járnþaki og timburþili að austan, og ofan við þessi hús var fjóskofi, með gömlu, hálfföllnu torfþaki, og hlaða með járnþaki. Fleiri smáhús voru í bæjarþorpinu, að mestu fallin. (Sbr. mynd í Árbók F.Í, 1944, bls. 29, og mynd mína 23.6.1988). Öll þessi hús voru jöfnuð við jörðu um aldamótin 2000.

Fjárhúsin voru í röð efst á túninu, undir brekkunni, inn frá bænum og út frá honum, öll með veggjum af torfi og grjóti, flest með járnþökum, önnur með hálfföllnum torfþekjum sumarið 1990. "Enn hluti af túngarði, mjög gömlum, og gömul fjárhús, þar sem innistöðudagar eru merktir á stoðir (sbr. Arnheiðarstaði)." (SJM II, 33).

Í örnefnaskrá er ekki getið um nöfn húsanna. Tvístæð fjárhús, með hlöðu að baki, voru við SV-horn túnsins, undir Gálgakletti. Fremra húsið var með hálfföllnu torfþaki, en það ytra með járnþaki, eins og hlaðan. Framan við húsin var lítil, grjóthlaðin rétt. Veggir húsanna voru orðnir heldur hrörlegir.

Næst fyrir utan var stakt fjárhús, sem sneri samhliða brekkunni, með járnþaki undir torfi, dyr að austan, fremst á langvegg, orðið mjög hrörlegt. Timburstafn að framan hafði verið rifinn. Kofi eða hlaða hafði verið viðbyggð húsinu að utanverðu, og heystæði ofan við. Þá var tótt af öðru stöku húsi, er sneri þvert á brekkuna, og hlöðutótt ofan við. Ofan við þessa tótt er smáklöpp í brekkunni. Spölkorn utan við bæinn voru tvístæð fjárhús, og hlaða á bakvið, með járnþaki, en sjálf húsin hafa verið með torfþaki, sem var fallið inn. Timburþil hafði verið á fremra húsinu.

Um 50-60 m fram og niður af bænum var smátótt, líklega af hesthúsi, þekjan fallin og veggir að mestu leyti. Myndir (neg.) voru teknar af öllum húsunum 9. ágúst 1990. Ekki var gáð að þeim merkingum, sem getið er í Búkollu. Öll þessi gripahús voru jöfnuð við jörðu á síðasta áratug 20. aldar.

Rétt: Um 50 m SA við innstu fjárhúsin, innan við túnið, er ferhyrnd steinaröð, líklega af rétt, eða litlum nátthaga. Virðist mest af grjótinu hafa verið tekið burtu, en eftir standa aðeins stórir steinar.

Túngarður: "Enn hluti af túngarði, mjög gömlum..." (SJM II, 33), líklega sjást leifar af honum sem röð af steinum, er liggur frá Bæjarlæknum út eftir Brekkunni, nokkuð fyrir neðan brún hennar, og út fyrir ofan Bessastaðabæ. Framan við steinhúsið var matjurtagarður með torfveggjum umhverfis, sem sést á bæjarmyndinni í Árbók F.Í. 1944, og var enn sýnilegur 1990, þá líklega eina dæmi um slíka garða sem víða voru heima við bæi áður fyrr, en var sumsstaðar breytt í skrúðgarða, hann var sléttaður um aldamótin um leið og bærinn.

Stekkur: Neðst í Bessastaðaárgili að utanverðu er stór hvammur, skjólgóður og grasi vaxinn. Það vekur furðu að hann er nafnlaus, en kenna má hann við stekkinn sem þar var, og kalla “Stekkjarhvamm”. Í hvamminum eru mikil garðlög af ýmsum aldri. Austast er ferköntuð tótt með grjótröð umhverfis, sem líklega er leifar af stekk, en líkist nú meira rétt. Stuttu ofar eða vestar í hvamminum er stærra stykki umlukt grjótgarði, sem enn stendur nokkuð vel. Utanum báðar þessar minjar vottar fyrir gömlum, sporöskjulaga torfgarði. Utanum allan hvamminn er svo lágur og mjór torfgarður, sem var undirhleðsla vírgirðingar (Sbr. diapós. mynd 8.8. 1990).

Innan grjótgarðsins hélt Aðalbjörn E. Kjerúlf að Halldór Stefánsson hafi haft kartöflugarð og hefur garðurinn þá líklega verið hlaðinn í hans tíð. Hann sagði garðinn líka hafa verið notaðan frá Bessastöðum. Líklegt er að elsti torfgarðurinn hafi verið nátthagi, meðan stekkurinn var notaður, en Aðalbjörn vissi ekki til þess. Eiríkur faðir hans notaði þessi mannvirki ekkert. Sumir halda að þarna hafi hin upprunalega "Goðaborg" verið, og að goðahús Bessa hafi staðið þar, sem raunar er líklegt, hafi það verið til, og því var sett friðlýsingarmerki á stekkjartóttina.

Gimbrarstekkur var á mörkum við Bessastaði (sjá þá jörð).

Myllutættur eru við Melakvísl úr Bessastaðaá, utan og neðan við melahornið, nánar tiltekið við Myllurás sem fellur milli tveggja hólma, og heitir sá ytri Mylluhólmi (Örnefnaskrá). Myllurnar eru á tveimur stöðum, og hafa fengið vatn úr aðrennslisskurðum, sem næst þeim hafa verið á upphækkuðum görðum. Efri tóttin, næst Melahorni, er vel skýr, um 4 × 5 m að utanmáli. Neðri tóttin er um 100 m neðar á eyrunum, um 3 × 5 m og "garðskurður" um 50 m að henni. Á báðum stöðum er skarð milli myllutóttar og "myllugarðskurðar", þar sem líklega hefur verið tréstokkur. (Ég man ekki eftir að hafa séð aðrar myllur af þessu tagi, nema við Rangá í Skógargerði í Fellum). Um 1990 var búið að stífla Melakvísl og allar rásir úr henni. Kvíslin var áður á merkjum við Klaustur. (Skoðað 27.6.1991).

Goðaborg kallast óglöggt tóttarbrot í smáhvammi neðst í Bessastaðaárgili að innanverðu, sem var í Klausturlandi fyrir 1930. Eins og nafnið bendir til á þetta að vera tótt af hofi Spak-Bersa, sem bjó á Bessastöðum fyrir og um kristnitöku, og kemur við fornsögur Austfirðinga. Um þessa tótt er til fjöldi heimilda, sú elsta frá 1873, þegar Kristian Kålund fór um Fljótsdal, en þar segir aðeins: "Bent er á hofsstaðinn (Goðaborg) suðvestan við bæinn, handan Bessastaðaár". (Kålund: Íslenzkir sögustaðir IV, 25). Næst getur Sigurður Gunnarsson um tóttina 1886:

"Hvammur er framan við Bessastaðaá, skammt inn frá túni á Bessastöðum; þar eru fornar tóptir, og eru kallaðar Goðaborgir. Segja munnmælin að þar hafi goðahús Bessa staðið, og hafi hann hlaupið yfir ána milli hamra í árgljúfrinu fyrir ofan hvamminn, er hann gekk til goðahúss. Nú er þar ófært milli. En hamrarnir geta hafa hlaupið síðan í fornöld." (Sig. Gunnarsson, í Safni til sögu Ísl. II, 1886, bls. 460).

Sigurður Vigfússon fornfræðingur skoðaði tóttina 1890, og ritar:

"Í litlum, fögrum hvammi, útsunnanvert við ána, gagnvart Bessastöðum, litlu ofar en áin kemur fram úr gljúfrunum, er löng tóft, mjög niðursokkin, 60-70 [um 25-35 m] fet á lengd, breiddin verður eigi ákveðin, eða hvar dyr hafa verið, en víst mun þetta vera blóthús Bersa." (Rannsóknir 1890. Árbók Fornleifafélagsins 1893, bls. 36).

Á grundvelli þessarar lýsingar var tóttin friðlýst 25. okt. 1930. "Forn tóft í hvammi við ána."

Daniel Bruun skoðaði tóttina 1901, og ritar: "Rétt hjá Bessastaðaá, sunnan við bæinn, stendur tótt sem nefnist Goðaborg. Þar er haldið að hof Bessa hafi staðið." (Daniel Bruun, 1974, bls. 163). Daniel birtir teikningu af tóttinni; skv. henni er tóttin um 14 x 6 m, og liggur samhliða árgilinu. Sigfús Sigfússon (um 1920) hefur þetta að segja um hofsstaðinn:

"Eigi ber mönnum alveg saman um það, hvar goðahús Bessa voru. Hafa sumir sagt að þau hafi verið þar sem bærinn Hamborg er nú, en það er austan árinnar, við garð á Bessastöðum. Sést þar garðlag mikið og fornt. Sumar sagnir benda til þess að það hafi verið á svonefndri Hantó, framan Skriðuklausturs, næsta bæjar. En vel má vera að það hafi verið flutt úr stað." (Sigfús Sigfússon: Þjóðsögur, 2. útg., VI, 8).

"Innan við Bessastaðaá, ofan við melana, er hvammur. Í honum er Goðaborg. Þetta er smátóft, og er talið að hér hafi hof Bessa staðið." (Örnefnaskrá).

Gunnlaugur Haraldsson skoðaði staðinn 17. júlí 1975 og ritar:

"Goðaborgir" kallaði Andrés bóndi á Bessastöðum þessar minjar. Gat hann ekki fylgt mér upp í gilið, en þar fann ég engar minjar sem passa við þessa lýsingu [þ.e. í Árbók Fornleifafél. 1893], en þar eru þó miklar tóftir og grjóthleðslur. Taldi ekki ástæðu til að friðlýsa að sinni." (Spjaldskrá Gunnlaugs í Héraðsskjalasafni, Eg.)

Ég skoðaði staðinn 20. sept. 1986, í fylgd með Aðalbirni E. Kjerúlf, sem er upp alinn í Hamborg og var þá landeigandi þar. Staðurinn er í dálitlum hvammi fyrir innan (SV) ána, skammt fyrir ofan enda gilsins, um 200 m ofan vegar, og beint upp af Fljótsdalsrétt.Vísar hvammurinn í NA. Þarna sást móta fyrir tótt, um 4 × 6 m á stærð, er snýr langhlið í NA. Þetta er þó fremur lægð en tótt, því að nær ekkert örlar á veggjum, en 3 steinar eru með jöfnu millibili í NV-kantinum. Lægðin er nokkuð reglulega ferköntuð og sléttari en umhverfið, SV-hornið er dýpst, líklega 1-2 fet. Ekkert dyraop sést. Gróður er snöggt gras og mosi. Ekki sáust þarna önnur mannvirki, og taldi Aðalbjörn að aðrir staðir kæmu ekki til greina. Um 20-30 m neðar eru þverhníptir klettar að ánni, álíka háir báðum megin, og gæti þar verið "Bessahlaup". Aðeins neðar er drangi í gilinu út í miðri ánni, kallaður Karl, og skál í kolli hans. Stærðin á þessari tótt stemmir ekki við fyrrgreindar heimildir, svo eitthvað er málum blandað. Hafi hofið verið til er þessi staður næsta ólíklegur. Samkvæmt Fljótsdælu (útg. Fornritafél. XI. bindi, 1950, bls. 294-295) ætti það fremur að hafa staðið á Bessastaðaármelum, en reyndar er staðarlýsing þar mjög óljós. Líklegast er að hofið hafi verið hinumegin í gilinu, þar sem nú kallast Stekkur, eða heima við Hamborg, eins og Sigfús getur um.

Bessahlaup: Skammt fyrir neðan Goðaborg var kallað Bessahlaup í árgilinu, en þar segja munnmæli að Bessi hafi stokkið yfir gilið, til að komast að og frá hofinu. "Enginn í nágrenni kannast nú við Bessahlaup", segir í viðbótum við örnefnaskrá 1973. Sigfús Sigfússon segir frá því að Bessi hafi að síðustu ákveðið að taka kristna trú, en eftir það áræddi hann aldrei að stökkva yfir gilið (Sigf. Sigf.: Þjóðs. VI, 10). Þarna er nú um 20-30 m haf yfir gilið!

Göngubrú var byggð yfir gilið þar sem það endar að neðan, líklega á árunum 1925-30, og sjást minjar um hana á klettunum beggja vegna. Fyrir því stóðu Eiríkur Jónsson Kjerúlf sem var bóndi í Hamborg 1921-1945, og Metúsalem bróðir hans á Hrafnkelsstöðum, sem áður hafði byggt straumferjuna á Jökulsá (sjá Víðivelli ytri). Tilgangur þessarar brúarsmíði var einkum að auðvelda notkun beitarlands sem Hamborg átti innan við ána, sérstaklega fyrir lambfé á vorin, en þá var áin oft illfær vegna leysinga. Brúarsporðar sjást, sem upphlaðnir pallar, sá syðri á klettarana sem skagar út í gilið. (Mynd hefur ekki fundist af brúnni).

Jón E. Kjerúlf, sem var fæddur 1932 í Hamborg og ólst þar upp til 13 ára aldurs, man vel eftir brúnni og notkun hennar. Þetta var hengibrú með tveimur stálköplum, sem festir voru í klappirnar sitt hvoru megin, og hvíldi á ferköntuðum júffertum, sem líklega voru um 20 sm á kant, og hengdar voru í kaplana sitt hvoru megin. Þeir mynduðu jafnframt handrið. Auk þess var fest hænsnanet á handriðin, til að hindra kindur (einkum lömb) í að stökkva út af henni. Brúin var líklega um meter á breidd, brúargólfið úr tommuþykkum fjölum. Brúin var lítið notuð eftir að brú kom á þjóðvegi 1944, hún var rifin haustið 1948, og efnið flutt út í Arnheiðarstaði, þar sem það var m.a. notað til að byggja eða stækka fjárhúsin (Nýjuhús), yst á túninu, júfferturnar sem mæniásar. Jón segir að Metúsalem hafi hirt vírana og hugðist nota þá til að brúa Gilsána, en af því varð ekki, og liggja þeir líklega þar. (Dagbók Aðalbjörns og munnl. heimild, febr. 2012). Franzisca Gunnarsdóttir getur um brúna í bók sinni Vandratað í veröldinni, Rv. 1987,bls 57, á þessa leið:

"Nú var að vísu komin leiðinda, hættulaus brú yfir ána okkar, þessa á leið til Bessastaða, en gamla, ógnvekjandi hengibrúin, með morknum þrepum, vandlega nöguð af tímans tönn, var enn til... undan fossinum, á örugglega lífshættulegum stað."

Bessastaðamenn segja að vírarnir hafi verið yfir gilið í nokkur ár eftir að brúin var rifin, og muna þeir Andrés Einarsson og Einar Axelsson báðir eftir þeim, en þeir eru fæddir eftir 1950. Einar segir að þeir hafi fallið í ána þegar Orkustofnun sprengdi í hylnum (kringum 1975?), en þá klofnaði og datt niður fremsti hluti klettsins að sunnanverðu, þar sem vírarnir voru festir. (Sögn þeirra 15.4. 2012.)

Gálgaklettur: "Ofan við bæinn, inn til Bessastaðaár, er skörp brekkubrún. Á einum stað gengur klettur niður úr brekkunni, sem nefndur er Gálgaklettur. Er í munnmælum að þar hafi verið hengdir afbrotamenn, sem dæmdir voru til dauða á Bessastaðaþingi. Enga staðfestu hefur það þó í kunnum heimildum." (Halldór Stefánsson: Ævislóð og mannaminni, bls. 105). Þessi klettur er í brekkunni, um 200 m innan við bæinn, rétt fyrir ofan fremstu fjárhúsin, er hluti hans nokkuð hár og þverhníptur, og hefur þar e.t.v. verið mögulegt að hengja menn. Nú hefur lítil reynihrísla sprottið fram úr skoru í klettinum, eins og til að sanna sakleysi meintra afbrotamanna. (Páll Sigurðsson: Svipmyndir úr réttarsögu. Ak. 1992, bls. 225-226 / myndir).

Halldór Stefánsson segir að undir klettinum hafi verið "tilvalið afdrep og skjól fyrir hesta til að "hama sig", sem svo er kallað í stormum og hrakviðrum, og af því muni bæjarnafnið Hamborg vera dregið. Má það til sanns vegar færa.

Beinin í Bessastaðaárgili: Vorið 1981 fann Sveinn Ingimarsson á Eyrarlandi hauskúpu af manni, í grjóturð að innanverðu í gilinu, neðan við Litlafoss (?). Var fundurinn tilkynntur sýslumanni, sem sendi lögreglumenn frá Egilsstöðum á staðinn, og fundu þeir fleiri bein. "Reyndust beinin liggja undir hömrum þarna í gljúfrinu..." Læknir skoðaði beinin, og áætlaði þau vera frá 19. öld. (Tíminn, 16. júní 1981). Höf. veit ekki hvað síðan var gert við beinin.
Getgátur voru um að þetta væru bein Sunnevu, en líklega tengjast þau frekar slysi eða aftöku á Bessastaðaþingi, því dauðadæmdir menn fengu ekki legstað í vígðum reit, heldur voru þeir dysjaðir í grenndinni. Hefði þó verið nærtækara að dysja þá hinum megin í gilinu. (Rögnvaldur Erlingsson: Beinin við Bessu. Austri, jólablað, 1989).

Sunnevuhylur: "Í Bessastaðaá er, móts við hvamminn [þar sem Goðaborg er], hylur, sem heitir Sunnevuhylur. Í honum eru tveir drangar, Karl og Kerling. Þegar þau eru komin í kaf, þá er vaðið fyrir neðan hylinn, það heitir Hylvað, ekki fært." (Örnefnaskrá). Þetta er dálítið villandi orðalag, því að hylurinn er neðan við gilkjaftinn. Í viðbótum við skrána (1973), segir að hylurinn heiti öðru nafni Drekkingarhylur. (Kerlingin hrundi þegar rannsóknarmenn sprengdu í hylnum, kringum 1975, sagði Aðalbjörn Kjerúlf). Þarna er talið að sakakonum af Bessastaðaþingi hafi verið drekkt, en um það eru engar heimildir, og þjóðsögur herma að Sunneva Jónsdóttir hafi fyrirfarið sér þar á 18. öld, eða verið komið fyrir.

“En þó segja munnmælin aðallega, að þegar Hans kom heim um kvöldið af aukalögþinginu [á Ljósavatni, 27.-28. sept. 1756] hafi þau Sunneva horfið tvö ein. Hefði verið veður stillt, og tungl vaðið í skýjamara. Er svo sagt að Wíum færi þá með hana út að Bessastaðaánni, eftir veginum, og kastaði henni þar í Drekkingarhylinn, sumir segja í poka, aðrir orða það eigi; en með því að sagan segir að hún væri þá enn eigi heil, þá flyti hún og kæmist upp á steinkellingu þá sem er í miðjum hylnum. Kastaði hann þá klæðum og synti út í skerið og kæfði hana alveg. En hvernig sem Sunneva hefur látist, þá hefir eitthvað óhreint verið við það, og hulda yfir því fyrr og síðar. En nóttina sömu á vísan að hafa verið kveðin á glugga yfir Guðrúnu: Týnd er æra, töpuð er sál / tunglið veður í skýjum / Sunnefunnar sýpur skál / sýslumaður Wíum.” (Sigfús Sigfússon: Þjóðsögur og sagnir 2. útg., VIII, bls. 49-50).

Bjarni Þorsteinsson í Höfn (Borgarfirði) og Jörgen E. Kjerúlf (Fljótsdal) hafa ort kvæði um Sunnevu. Í þeim báðum er gert ráð fyrir að hún hafi drekkt sér sjálf í Sunnevuhyl. (Fullvíst er talið að Sunneva hafi látist á Eiðum veturinn 1757-1758, þegar Hans bjó þar, en um dánarorsök er ekki kunnugt.)

Hylvað á Bessastaðaá var rétt fyrir neðan Sunnevuhyl. Það varð sjaldan ófært. Í vorleysingum í júní 1989 braut áin brúna á þjóðveginum, og var þá þrautaráð að ríða hana á Hylvaði, sagði Andrés Einarsson á Bessastöðum, sem reið ána á vaðinu þetta vor, vegna vinnu á Klaustri, því að hún var þá alveg ófær bílum. Vaðið var mjög grýtt og varð að gæta þess vel að hestar hnytu ekki.

Leikskálar nefnast tættur á Hamborgartanga niður við Jökulsá. Halda menn að þar hafi verið samkomustaður fornmanna, þar sem þeir stunduðu knattleika (Þjóðs. Sigf. Sigf. VI,8), og Skálavað á ánni, sem getið er í Hrafnkelssögu.

"Þar sér enn fornar girðingar og tóftir, hvort sem þar hefir verið bær eða skálar. Þar upp frá má sjá 13 fornar götur, sem minna á, að þar hafi lengi verið þjóðvegur. Nú fara þar engir um, og ekki er áin fær þar niður af", ritar Sigurður Gunnarsson í örnefnagrein sinni (Safn til sögu Íslands 2. bindi, s. 458). Svipaða umsögn hefur Daniel Bruun (Við norðurbrún Vatnajökuls, Múlaþing 7, 1974, bls. 163-164), og birtir einnig teikningu af rústunum.

Þessar tættur eru rétt við Kröflulínuna að innanverðu, niður við Jökulsá, yst í Fremstalóni, áveitulóni sem nú er þurrt. Er áveitugarðurinn langs með norðurvegg aðaltóttar, eða raunar samrunninn honum. Aðaltóttin er um 20 m löng og 3-4 m breið (á miðja veggi), snýr A-V, eða þvert á ána, og mjókkar austur. Hún er nokkuð greinilega skipt í þrjú hólf, misstór; vestasta hólfið er um 6 m langt, það næsta um 4 m, og það austasta um 3 m, og vottar fyrir dyrum á austurenda þess. Auk þess er viðbyggð tótt, frá SV-horni aðaltóttar, stefnir þvert eða nokkuð skáhallt á hana, ca. 7-8 × 4 m. Þetta geta varla verið skálatættur, líklega frekar rétt. (Skoðað, myndað og rissað upp, 27. 6. 1991).

"Enginn heimildarmanna kannast við þessar tættur. Gengið var um staðinn sem lýst var, og að lokum fundust óreglulegar þústir, um 125 m norður af meintu Skálavaði. Þetta er örfáum metrum sunnan við raflínu, sem liggur yfir Jökulsá. Sléttar og grónar grundir. Mjög óljósar þústir, gætu verið leifar af gamalli áveitu. Þetta eru einu hugsanlegu tóftirnar sem fundust á svæðinu." (Fornleifasskýrsla 2001).

Hlaða frá Hrafnkelsstöðum var á Hamborgartanga, framan af 20. öld, þar sem bærinn átti engjar. Jón E.Kjerúlf segir að hlaðan hafi verið á bakkanum rétt utan við Ferjukíl, beint á móti Skipabotni á Hrafnkelsstöðum, líklega byggð um 1925, eftir að Eiríkur faðir hans og Metúsalem Kjerúlf keyptu jörðina. Þetta var torfhús með skúrþaki af járni. Heyið var sett í hlöðuna og flutt yfir árnar á ís á vetrum. Eftir að árnar voru brúaðar (1952) var hlaðan rifin.

"Hlaðan er horfin, áin hefur sýnlega brotið töluvert af bakkanum og sópað henni burt. Nú einungis stóreflis, sandfyllt rofabörð og grjót á víð og dreif, sem líklega er úr hlöðuveggjunum." (Fornleifaskrá 2001).

Skálavað: "Þar stutt frá [Leikskálum], við Melakvísl, er sagt að hafi verið vað á Jökulsá, Skálavað, sem getið er í Hrafnkelssögu. Bæði þessi vöð eru nú horfin úr mæltu máli og vaðið ófært. Ysta vað, sem nú er fært, heitir Álavað (Í Álum), sjá Hrafnkelsstaði II." (Örnefnaskrá, viðbætur 1973).

Fljótsdalsrétt (Melarétt) stendur á Bessastaðaármelum framan við Bessastaðaá, við landamerki Hamborgar og Klausturs. Fyrir 1930 var hún í landi Klausturs, en nú eru merkin um girðingu við réttina að innan. Réttin er fast við þjóðveginn, og er þar ágætis áningarstaður og útsýni gott yfir sveitina. Réttin var byggð um 1905 (ekki hefur tekist að finna nákvæmt ár) að undirlagi Halldórs Benediktssonar bónda á Klaustri, sem líklega teiknaði hana og stóð fyrir byggingu hennar. Hún kom í stað tveggja rétta sem áður voru á Norðurbyggð Fljótsdals, þ.e. Hólsréttar utan og neðan við bæinn Hól, og Hengifossárréttar við mynni Hengifossárgils, að innanverðu. Erlingur Sveinsson segir um Fljótsdalsrétt: “ er hún nefnd Melarétt í daglegu tali, en af öðrum kölluð Klausturrétt” (Göngur og réttir, 2. útg. V, bls. 373). Nú er Fljótsdalsrétt mest notað, a.m.k. út í frá. Réttin er öll hlaðin úr hnullungagrjóti, sem sótt var í farveg árinnar. Útveggir eru þykkir, um 1,5 m að neðanverðu, með góðum fláa, enda hefur réttin staðið ágætlega, en þarf samt nokkurt árlegt viðhald, einkum safnhringurinn, þar sem veggir eru þynnri. Réttin er meðal hinna stærstu í landinu, og þykir almennt býsna fögur og mikilfengleg, ekki síst þegar hún var full af fólki og fé þegar réttað var á haustin, en nú hefur sauðfé fækkað mikið á afréttum Fljótsdælinga, og nær það ekki að fylla réttina. Við réttina er lítið hús, stundum kallað Pilsvangur í gamni, því að þar ráða konur ríkjum á réttardaginn og framreiða veitingar.

Elsta mynd af réttinni var líklega tekin af Vigfúsi Sigurðssyni um 1910-20. Frummynd í Þjóðminjasafni. Kópía í Héraðsskjalasafni Eg. Á myndinni sjást mörg, prúðbúin börn, sum með hatta, er hafa raðað sér upp við réttarvegginn, lengra inn í réttinni er líkt og laufguðum birkitrjám hafi verið stillt upp. Það vekur grun um að myndin sé frá þeim degi er réttin var fyrst tekin í notkun, um 1905, við hátíðlega athöfn. Myndin birtist í grein Baldvins Benediktssonar, í Múlaþingi 29, 2002, bls. 27.

Selið á Ingiríði: Uppi á klettahjalla á heiðarbrún ofan við Hamborg eru einkennilegar minjar, tættur af grjóthlöðnum byrgjum eða smáhýsum, en stórgrýti er þar mikið, og hefur það verið notað að hluta sem veggir. Kletturinn kallast Ingiríður, og rústirnar "Selið á Ingiríði". Munnmæli greina að kletturinn dragi nafn af selstúlku eða selráðskonu. Aðalbjörn Kjerúlf sagði menn ekki hafa efast um að þarna hefði verið sel, og líklega gert ráð fyrir að það væri mjög gamalt. Kvaðst hann ekki hafa heyrt um um aldur þess eða hver það byggði. Hóseas (Hósi) gamli í Hamborg hafi ekki minnst á það, svo hann myndi eftir. (Munnl. heim. 1.12.96).

Aðaltóttin er tvískipt, með þvervegg úr uppréttum hellum í tvöfaldri röð; fremra hólfið er um 2 x 3,30 m, en ytra hólfið aðeins 2,5 x 1 m. Dyraop er á fremra hólfi að austan, við millivegg, og framan við það er torfhleðsla (dyraskjól?). Frá þessu hreysi eru aðeins 4-5 m fram á brún klettsins. Fáeinum metrum innar er smátótt, um 2,5 x 2 m að innanmáli, byggð upp við háan stein, sem myndar vegginn að ofan (NV) en dyr snúa úteftir. Loks er þriðja tóttin stutt ofan við aðaltóttina, og sú stærsta þeirra, um 6,5 x 3-4 m, mynduð af steinaröð, og líkist helst rétt. Lítill jarðvegur er þarna á klettinum, en þó er réttin gróin að hluta, en að hluta slétt klöpp, einnig er dálítil grasi vaxin torfa utanvert við aðaltóttina, botn hennar er einnig gróinn og stykki fram af dyrum. Helst minnir þetta á útilegumannakofa. Enginn lækur er nærri, nema e.t.v. á vorin, og aðeins mýrapyttir á bakvið hjallann. (Úr ferðalýsingu 19. júlí 1989)..

Í Múlaþingi 2, 1967 er smágrein eftir Pál Guðmundsson frá Rjúpnafelli, Vopnafirði (bróður Björgvins tónskálds), en móðir þeirra var úr Fljótsdal. Þar segir m.a. frá Eyjólfi Magnússyni, er var bóndi í Hamborg um miðja 19. öld: "Eyjólfur var góður bóndi og framtakssamur. Hann byggði á heiðarbrúnum upp af Hamborg, sel, þar á hæð nokkurri, sem kölluð er Ingiríður." Út af þessu framtaki Eyjólfs varð til gamanbragur, og í honum er þessi vísa: "Þegar ég fer Hamborg hjá / heimsins sést þar prýði. / Selið ber við himin há / hæst á Ingiríði." (H. Hall: Selið á Ingiríði... Austri, jólablað, 1996).

Beitarhús (Sel) á Höllum: Aðalbjörn sagðist muna eftir fjárhústóttum í Höllunum ofan við mýri sem er ofan við Ingiríði. Þær hafi verið af einföldu húsi, af venjulegri gerð, og líklega sjáist móta fyrir því enn. Skammt fyrir innan hafi svo verið önnur tótt, sem Hóseas kallaði Fjósið og sagði hafa rúmað tvo nautgripi. Þarna hefur því að líkindum verið sel. Bæjarlækur Hamborgar rennur niður skammt fyrir innan tætturnar. Þarna austan í heiðarbrúninni var ágætt beitarland, og því eðlilegt að Hamborgarbændur nýttu það fyrir sel og beitarhús. Aðalbjörn sagði að Eiríkur faðir sinn hefði íhugað að byggja þarna beitarhús. (Munnl. heimild 1.12.96).

Hósakofi: "Fyrir ofan brún eru Höll, norður að Holuvörðuhæð. Þar framar er Hósakofi." (Örnefnaskrá/ Ranglega ritað Húsakofi). Þetta mun vera smalakofi, kenndur við Hóseas Jónsson vinnumann í Hamborg um aldamótin 1900. Hann hefur líklega staðið þarna yfir fé á vetrum. (Hóseas var sjálflærður músikant og organisti Valþjófsstaðakirkju).

Bessastaðavegur er gamall reiðvegur, sem lá frá Hamborg, meðfram Bessastaðaárgili upp á heiðina, að Vegups á Miðheiði, en þar skiptist hann í Eiríksstaðaveg, að Þorskagerði í Rana, og Klausturselsveg að Stuðlafossi. Þetta var fjölfarin kaupstaðarleið af Efra-Dal og frá Norðurlandi, enda í seinni tíð sýsluvegur, styrktur af sýslusjóði, og oftast unnið eitthvað við lagfæringu á honum hvert sumar. Aðalbjörn Kjerúlf sagðist hafa unnið í veginum, líklega fram undir 1940. Leifar af honum sjást hér og þar meðfram gilinu. Hann var ætlaður gangandi og ríðandi mönnum, einkum fyrir klyfjahesta.

Klausturselsvegur: "Frá Klausturseli á Jökuldal að Bessastöðum í Fljótsdal. Er þéttvörðuð leið, enda um skeið tekin í tölu þjóðvega, og Jökla brúuð 1908 hjá Hákonarstöðum. Milli 1960 og 1970 var gerð ýtuslóð eftir þessari leið, og gömlu göturnar þræddar að mestu, norður á Fossöldu, eða að svonefndum Grautarflóa. Þaðan sveigir slóðin (ýtuslóðin) fram að Fossá og ofan á Stuðlafossveg meðfram ánni, en gömlu göturnar yfir flóann að Klausturseli. Þetta er aðeins fært jeppum og í rigningartíð er jafnan blautt á heiðinni. Vegamót eru sunnan á Vegups, og liggur Eiríksstaðavegur þaðan til vesturs, en Klausturselsvegur til norðurs af upsinni, og yfir Lambakíl rétt framan við Bessastaðavötn. Þar gat verið illfært yfir kílinn, og skapaðist þá önnur slóð yfir hann á Eiríksstaðaleið, síðan norður á veginn vestan kílsins. Hæð yfir sjávarmáli 679 m." (Fornir fjallvegir á Austurlandi. Eg. 1997, fjölrit, bls. 55 / Í beinu framhaldi er Eiríksstaðavegi lýst, á sömu bls.)

Um 1970 var lagður nýr vegur með jarðýtu frá Bessastöðum inn að Bessastaðaárgili, síðan meira á ská, og með meiri krókum en gamli vegurinn, og átti að vera fær traktorum og jeppum. Um 1975 var sá vegur endurbættur mikið vegna virkjunarrannsókna og framlengdur inn eftir heiðinni, og varð þá fær öllum bílum, loks endurbyggður 1990-95 og malbikaður, og kallast nú Kárahnjúkavegur. Eyvindarkelda er á merkjum við Klaustur uppi á heiði.

Í Hrafnkelssögu er minnst á Bessagötur sem hafi legið frá Skálavaði á Jökulsá upp á Fljótsdalsheiði, og Hrafnkell og félagar riðu í eftirför að Eyvindi Bjarnasyni (Ísl. fornrit XI, 1950, bls. 127). Þar segir neðanmáls að nafnið hafi ekki haldist, og er haft eftir Sigurði Gunnarssyni í Safni til sögu ísl. II, 458. Þess er heldur ekki getið í Örnefnaskrá.

Áveitur: Bessastaðaá eða kvíslum úr henni var veitt á engjar á Bessastaða- og Hamborgarnesjum, þar voru hlaðnir áveitugarðar sem mynduðu uppistöðulón. "Næst Jökulsá er Silungalón við Silungakíl. Þá er Melakvísl, síðan Fremstalón og Stóralón. Ofan við þetta er Nýjalón (Langalón)." (Örnefnaskrá). Áveitugarðar og skurðir sjást ennþá nokkuð vel.

"Um 100 m sunnan rafmagnslínu, sem liggur yfir Jökulsá frá Hamborgartanga, rennur kíll eða smálækur út í ána. Hann er nálægt mörkum Hamborgar og Skriðuklausturs. Við lækinn eru áveitugarðar. Sléttir og grónir bakkar. Austast við ána eru garðarnir tveir, annar sveigir að kílnum eftir um 50 m, en hinn heldur áfram til vesturs... Torfhlaðnir garðar, mest um 0,5 m háir. Einnig eru garðlög sunnan lækjar, en þau gætu verið í Skriðuklausturslandi." (Fornleifaskýrsla 2001).

Ferjustaður var milli Ferjukíls í Hamborgarlandi og Skipabotns innan við Hrafnkelsstaði, sem örnefni sýna. "Þar utar er Illaþýfi, neðar er Blautaker og Pyttur. Ofar er svo Merkjalón, svo er Ferjukíll og yzt er Útgrund." (Örnefnaskrá). Þarna var líklega ferjað í eina skiptið sem höf. fór á ferju yfir ána, sumarið 1950.

"Kíllin er um 270 m fyrir innan markagarðinn. Sléttir og víðáttumiklir árbakkar, nú að miklu leyti tún. Smákíll upp frá Jökulsánni. Líklegt er að þarna hafi verið lent, þegar ferjað var frá Hrafnkelsstöðum." " Meðfram Ferjukíl eru áveitugarðar...Áveitugarður liggur upp frá Jökulsá og umhverfis kílinn; torfhlaðinn, liggur í sveigju, og alls um 40 m langur. (Fornleifaskýrsla 2001).

Steinristur: Þegar ný landamerki milli Hamborgar og Klausturs voru ákveðin 1930 voru ristir stafirnir L M í klett innan og neðan við Litlafoss í Bessastaðaárgili, þar sem merkin liggja frá gilinu. Í landamerkjalýsingu Skriðuklausturs frá 1922 er getið um sömu merkingu (LM) á Merkjavörðum ytri og fremri uppi á Heiðinni. Jón E. Kjerúlf segir þessar vörður aðeins vera jarðfasta steina, með fáeinum steinum ofan á. Páll Pálsson fann þær nýlega aftur.

Umsögn 1990: Í Hamborg eru ýmsar merkilegar byggingaminjar, sumar taldar eldfornar, svo sem Goðaborgin, sem er friðlýst. Fljótsdalsrétt er næsta einstæð. Selið á Ingiríði er að ýmsu leyti óráðin gáta. Gripahúsin heima fyrir hafa lítið gildi í núverandi ástandi, þar sem þau eru öll á fallanda fæti eða fallin. (Athugandi væri að rífa þökin sem enn hanga uppi, og reyna að varðveita tætturnar, sem eru vel staðsettar fyrir ferðafólk.)

Heiðveig Agnes Helgadóttir