Skip to main content
24 November, 2021

Melar

24 November, 2021

Melar

Melar hafa upphaflega verið afbýli eða hjáleiga frá Bessastöðum. Mjög langt er síðan Melar urðu sjálfstæð jörð, en hafa þó fylgt Bessastaðatorfunni þegar hún komst í eigu Skriðuklausturs og síðar konungs á 16. öld, og var í opinberri eigu til 1919, er ábúandi keypti hana. Jörðin er ekki stór (metin á 6 hundruð 1695) en þótti samt góð til búskapar, þar var lengi skógur, nýttur frá klaustrinu, og þar voru tvö sel, annað frá Skriðuklaustri notað fram á 18. öld (SJM II). Við bæinn er kennd Melaætt, sem var fjölmenn í Fljótsdal og víðar á Héraði.

Land og minjar á Melum var skoðað 11. júlí 1989 og 27. júní 1991 (nesið). Skógræktarlýsing dags. 7. febr. 1992.

Gamli bærinn: "Baðstofa, 12 ½ × 5 ¾ álnir, portbyggð + 5 álna endi á þrepi. Steypt frammihús, byggt 1913, hæð og ris, endurbætt sem íbúð 1923, stækkað og sett miðstöð 1929, stækkað enn og byggð önnur hæð 1945." (SJM II, 27).

Steinhúsið var að stofni til frá 1913, þriðja elsta steinhús í Fljótsdal (sjá Hamborg og Brekku). Það stóð rétt utan við Bæjarlækinn, nánast á bakkanum, upphaflega byggt við gamla torbæinn. Þetta hús átti merkilega byggingarsögu. Hætt var að búa í því 1966, þegar nýtt steinhús var byggt nokkru utar á túninu, og síðan var það notað að hluta til sem fjós og hlaða.

Það stóð ennþá sæmilega 11. júlí 1989, þegar ég skoðaði það og tók myndir af því. Þá var það tvískipt, aðalhúsið, tvær hæðir og kjallari, sneri langhlið samhliða dalnum, en viðbyggt hús að sunnan, ein hæð, með skúrþaki sneri þvert á það. Útidyr voru austan á aðalhúsinu. Múrhúð var farin að flagna, og gluggar talsvert farnir að bila. Á vesturhlið sást í innihald veggjanna, en í þeim var mikið af hornóttu grjóti. (Sbr. neg. myndir). Húsið var þá notað sem hlaða, og líklega búið að rífa allt timbur innan úr því. Viðbyggð geymsla eða fjós var utan við húsið, og við það steypt súrheysgryfja. Þetta var merkileg sambygging, sem hefði getað verið snotur, ef henni hefði verið haldið við. Hún stóð enn sumarið 1992, en var brotin niður um haustið, að boði dýralæknis, vegna riðuhreinsunar, segir ábúandi.

Höf. gisti í húsinu þegar farskólinn var þar um tíma veturinn 1947-1948. Aðalhúsið var allt panilklætt að innan og málað ýmsum litum. Frá bæjardyrum var komið inn á gang, og þaðan lá stigi upp á efri hæðina. Allstór stofa var sunnan við ganginn, þar fór kennslan fram. Norðan við ganginn var eldhús. Á efri hæð voru svefnherbergi, og annað eldhús því að þá voru tvær fjölskyldur á Melum, líklega um 10 manns í allt. Í skúrbyggingunni voru 3 herbergi, og líklega bjuggu gömlu hjónin þar.

Útihús: "Flest gömul, úr torfi og grjóti, undir járni, fjárhús fyrir 280, hesthús fyrir 8, hlaða fyrir 400 hestburði, gamla íbúðarhúsið notað sem fjós og hlaða, haughús (1926) 80 m3, geymslur (1945 og 1958) 200 m3. Steypt súrheysgryfja 1936, 24 m3." (SJM II, 1975, 27).

"Brekkan að bæjarbaki heima í túni heitir Lambhúsbratti. Ofan við hann er Mýri. Hún nær út að Hesthúsi. Niður af því, í miðju túni, er Hesthúshóll. Kofatún nær svo heiman frá Hólnum, sem bærinn er á og út að Lindinni. Frá Hesthúsi út að Fjárhúslæk heitir Kvíaból. Og utan við Fjárhúslæk er Fjárhústún.... En framan við Bæjarlæk er túnbarð sem heitir Smiðjuhóll." (Örnefnaskrá Mela). "Á eftir Fjárhústúni komi: Kvíaból er nú kallað Hali. Upp af Lambhúsbratta stóð Lambhús, nú horfið fyrir löngu. Spölkorn ofan við bæ var fjárhús, kallað Götuhús." (Örnefnaskrá, viðbætur, 1973).

Eyjólfur Ingvason bóndi segir (2013) að Götuhús hafi verið spölkorn utan við bæinn, niður af núverandi fjárhúsum, eflaust við gamlar götur að bænum. Hann nefnir einnig Hólhús, sem var á hólbrúninni ofan við Grjótbotn, í því var baðker, og við það var líklega hlaða. Horfið 1989.

"Nú [um 1900] sjest ekki nokkurt hús með upprepti af birki eingvörðungu hér í sveit, nema eitt fjárhús á Melum, sem er orðið yfir 100 ára gamalt, með tómu upprefti af birki úr Melaskógi. Ein stoðin í því er úr reyniviðarhríslu úr Hengifossárgili. Húsið er allvel stæðilegt enn, en snýr öðruvísi en hús sem nú eru bygð; það snýr í norður og suður, og tekur um 50 fjár, fullorðið, og er í meðallagi að breidd." (Jón Pálsson / Baldvin Benediktsson: Búskapur í Fljótsdal á 19. öld. Múlaþing 29, 2002, bls. 29).

Sumarið 1989 voru öll þessi hús horfin, nema Fjárhúsin, sem voru á tveim stöðum, með stuttu millibili, á Fjárhústúni, milli Innra- og Ytra- Fjárhúslækjar. Aðalhúsin voru tvístæðuhús, með grjótveggjum og sameiginlegu járnþaki og timburstafni að ofan, á austurenda, orðin hrörleg. Hlaða að baki. Innan við þau var tótt af viðbyggðu fjárhúsi, veggir nokkuð hrundir. Stuttu ofar á túninu var einfalt fjárhús, með hlöðu að baki, á því var járnþak, sem hafði verið lagt ofan á gamla undirþekju með röftum, fest með torfi og grjóti. Húsið og hlaðan voru m.e.m. hrunin. (Skoðað og myndað 11. júlí 1989). Þessi hús sneru öll þvert á dalinn. Þau voru öll jöfnuð við jörðu 1990-92.

Kvíar: "Frá Hesthústúni út að Fjárhúslæk heitir Kvíaból." Síðar var þar kallað Hali. (Örnefnaskrá). Þar hafa verið kvíar. Þetta er út og niður af núverandi fjárhúsum.

Smiðja: "En framan við Bæjarlæk er túnbarð sem heitir Smiðjuhóll." Þar hefur staðið smiðjukofi, sem var horfinn fyrir löngu 1989, en þarna er nú gamall trjálundur.

Myllutótt er á brekkubrún, við Fjárhúslæk fremri, stutt fyrir ofan heimveginn, þar sem heitir Myllubotn. Tóttin er skýr og er um 2 × 3 m að innanmáli, en 4,5 × 4-5 m að utanmáli, með dyrum að utanverðu, en vatnsrennu þvert í austur.

Rafstöð: "Bæjarlækur virkjaður 1927, til ljósa og suðu. Stöðin lögð niður um 1946, var ófullnægjandi, vegna vatnsskorts." (SJM II, 27). Þetta var önnur af þremur elstu virkjunum í sveitinni (hinar voru á Klaustri og Brekku), og sjást minjar hennar enn, m.a. stífla í læknum spölkorn ofan við gamla bæjarstæðið og tótt rafstöðvarhúss á bala neðst í lækjargilinu, neðan við Hólinn. Húsið hefur að mestu verið úr grjóti og torfi, en líklega með járnþaki. Eyjólfur bóndi segir (2013) að Þorfinnur á Kleif hafi keypt það sem nothæft var af stöðinni, en þar var sett upp rafstöð 1956.

Melasel (Fremra-Sel): "Utan við Ytri-Leyning er Selurð. Utan við hana Stekkalækur og þar utar eru Selbalar. Þar var haft í seli frá Melum fram á 18. öld, og sér til tófta. Neðan við Selbala er Selbrekka; hún er á móts við Litlanesfoss í Hengifossá." (Örnefnaskrá). Selurð er grýtt og uppblásið svæði. Þarna eru nú varla greinanlegar tættur, segir Eyjólfur bóndi. Þetta sel hefur aðeins verið um 1 km frá bænum, sem er óvenjulegt.

Ytrasel: "Neðsta hlíðin heitir Selhlíð... Utan við Sellæk [Neðri-], neðan Selhlíðarbrúna heitir Ytrasel. Þar var haft í seli frá Skriðuklaustri, því Melar voru Klausturjörð. Seltætturnar eru neðan við hlíðina, í dæld út við gilið. Þá var mikill skógur í Melalandi, var eingöngu brennt skógi í selinu. Auk þess var flutt heim í Skriðuklaustur skógur á 30 hestum á hverju hausti." (Örnefnaskrá). Í hvammi framan og neðan við Hengifoss, milli Neðri- og Efri-Sellækjar, eru tvær vallgrónar tættur, með um 40 m bili; er önnur tvískipt, um 13 × 5 m að utanmáli, og snýr samsíða dalnum, en sú ytri um 10 × 5 m að utanmáli og snýr hornrétt við hina. Sami gróður er á tóttunum og umhverfis þær, og hvergi sést á grjót í þeim. Varla er til annað selstæði í landinu sem jafnast á við þetta hvað fegurð og útsýni snertir.

Hengifossárrétt: "Rétt ofan við brúna á Hengifossá, eru rústir af gamalli lögrétt (skilarétt), sem var ýmist kölluð Melarétt eða Hengifossárrétt, lögð niður um síðustu aldamót." (Örnefnaskrá, viðbætur). Réttin er í mynni Hengifossárgils að innanverðu, stutt fyrir ofan brúna. Gilkletturinn heldur að réttinni að sunnan (SV), en að NA er grjótveggur á árbakkanum, sem ennþá stendur nokkuð vel, hlaðinn úr hnullungagrjóti, sem sótt hefur verið í árfarveginn. Innst í réttinni er afmarkað hólf (dilkur). Austurhluti réttarinnar virðist hafa verið rifinn, grjótið e.t.v. notað til að hlaða kanta við brúna. Þetta var ein af fjórum skilaréttum í sveitinni fram að aldamótum 1900, þegar sameiginleg rétt fyrir landið vestan Jökulsár var byggð á melunum við Bessastaðaá (sjá Hamborg).

Hengifoss má raunar teljast til menningarminja vegna þess hversu hann er frægur og fjölsóttur af ferðafólki. Hefur svo verið í meira en heila öld, og enn er hann þekktastur allra staða í Fljótsdal. Flestir helstu jarð- og landfræðingar Íslands hafa skoðað hann og lýst honum og gljúfrinu fyrir neðan, en þar er Stuðlabergsfoss, álíka frægur. Þeirra á meðal eru Jónas Hallgrímsson á fyrri hluta 19. aldar og Þorvaldur Thoroddsen á seinni hlutanum. (Stutt frá réttinni var um aldamót 2000 gerður áningarstaður fyrir ferðafólk, með upplýsingaskiltum, salernum o.fl., og þaðan liggur tréstigi upp bratta brekku, síðan malarborinn stígur upp með gilinu að SV.)

Gamlistekkur: "Framar og neðar í móunum er lítil flöt, sem heitir Gamlistekkur. Þar var stíað fram á 18. öld, er það slys vildi til að fráfæringar hlupu fyrir kletta í Hengifossárgili, til dauðs, er verið var að hýsa þá. Neðan við Gamlastekk er Stekkabarð. En stekkurinn var fluttur upp fyrir Skál." (Örnefnaskrá). Þessi stekkur var skammt innan og neðan við Stuðlabergsfoss og sést tóttin þar enn, skammt frá göngubraut upp með gilinu.

Stekkur: "Út og upp af Kantsteini er hvilft sem heitir Skál. Upp af Skálinni er tóft, sem heitir Stekkur. Tóft þessi er úr grjóti. " (Örnefnaskrá). Tóttin er á Stekkahnaus. Þetta er í fjallshlíðinni, út og upp af bænum, nokkurn spöl utan og ofan við Völustein.

Völusteinn (Álfasteinn) nefnist stór, stakur steinn, nálægt miðri fjallshlíð, beint upp af bænum, flatur að ofan, rúmlega mannhæð, en hægt er þó að komast upp á hann. "Á steininn eru alltaf látnar sauðarvölur, þegar börnin hætta að leika sér að þeim." (Örnefnaskrá).
Á þennan stein hefur verið safnað flestöllum sauða- og stórgripavölum, sem lögðust til á bænum, líklega í hálfa aðra öld. Á litla hellu sem liggur uppi á steininum, hefur verið rist "V E 1861 2000", sem merkir að það ár hafi völurnar verið orðnar um tvö þúsund, en þær hafa ekki verið taldar nýlega. Smásteinum er raðað kringum völubreiðuna, sem þekur mikinn hluta steinsins að ofan. Metúsalem Jónsson Kjerúlf, sem ólst upp á Melum, áleit að huldufólk byggi í steininum, og kallar hann Álfastein, öðru nafni (M.J.: Æskuminningar. Heima er bezt 11 (7), 1961: 236). Hugsanlega er þarna að finna leifar af eldfornri álfadýrkun, til heilla fjárbúskap. (H. Hall.: Af völum og leggjum. Glettingur 14(1), 2004: 41-46).

Vörður: Í landi Mela eru nokkrar meiriháttar vörður uppi á brúnum innan við Hengifoss. Stutt frá fossinum er mannhæðarhá varða á stuðlakletti, sem er þríhyrnd að grunnfleti, en það er heldur fágætt. (Andspænis henni er álíka há varða á ytra gljúfurbarmi, sjá Hjarðarból). Þá er svonefnd Stapavarða á stuðluðum klettastapa á brúninni út og upp af bænum, og ber við loft þaðan. Hún er hæst af þessum vörðum, um 3-3,5 m á hæð, og um 1,3 × 1,4 m að grunnfleti, reglulega ferköntuð, um 1 m á kant nálægt miðju, og endar í píramíðalaga toppi. Á steini í henni er áletrunin "Jón 1870 Eiríkur", sem er til vitnis um aldur hennar og þá sem hlóðu, en það hafa verið þeir bræður, Jón og Eiríkur Andréssynir Kjerúlf. Þá er varðan Húka, nokkru innar á sömu hlíð, um 2 m há, og loks er varða upp af bænum, sem var álíka há en hrundi nýlega, segir Eyjólfur bóndi. "Upp af þessu er svo Hallormshraun, ber við himin yfir hlíðarnar. Á því er gömul varða, 50-70 árum eldri en Stapavarðan." (Örnefnaskrá).

Svo virðist sem það hafi verið tíska í Fljótsdal á síðari hluta 19. aldar að hlaða vörður, aðeins til skemmtunar (sbr. Sveinkurnar í Bessastaðagerði og Brekkugerði / Sjá nánar í grein minni um vörður á Héraði í Glettingi 21 (3), 2011).

Landamerkjasteinn: "Við Kílinn er steinn, merktur LMS." (Örnefnaskrá). Að sögn Eyjólfs bónda (2013) er þessi steinn við beygjuna á Bessastaðaárkíl. Hann var fallinn um koll, en þegar hann var reistur við kom í ljós greinilegt letur: LMS 1921 PS, sem merkir að Páll Sigfússon langafi hans, bóndi á Melum 1904-1923, hafi rist það 1921. Þaðan liggja merkin í steininn Gráblesa, rétt fyrir innan klettinn Einbúa, ofan vegar, og þarna er nú merkjagirðing.

Áveitur á Melanesi: "Þá er það aftur innan frá; Töglin, utan við þau er Litlalón. Þá eru Framnesbakkar; þeir eru milli Stóralóns, sem fyrr var getið, og Kríuhólmalóns. Þar utar taka við Hólmarnir, og á þeim Útnesbakkar, meðfram Jökulsá, út undir Hengifossá." (Örnefnaskrá). Nokkrir lóngarðar sjást enn á Nesinu, þótt efri hluta þess hafi verið breytt í tún. Vatni hefur verið veitt úr lækjunum í lónin. "Mest áberandi er torfgarður, hlaðinn um tjörn, sem er um 10 × 30 m. Hleðsluhæð mest um 0,5 m." (Fornleifaskýrsla 2001).

Einbúi (álfabústaður) er klettahöfði sem gengur fram úr brekkunni skammt fyrir innan og neðan Melabæinn, allur úr óreglulega stuðluðu bergi. Neðan við hann voru sléttar grundir og raklendi, sem nú er orðið að túni, og liggur þjóðbrautin milli þess og klettsins. Stuttu innar, í landi Bessastaðagerðis, er Einbúalækur í Einbúalækjargili og neðst í því er drangur úr molabergi sem kallast Kerling. Við Einbúa hafa menn orðið varir við ýmis kynleg fyrirbæri, sem tengjast huldufólki, m.a. álfakú með eitt horn, sem e.t.v. minnir á einhyrning. (Sigf. Sigf.: Þjóðs. IV, 153). Jóhann Jóhannesson, síðar bóndi í Kollsstaðagerði, sá hóp af álfum vera að leika sér á grundinni og Aðalbjörg Guðmundsdóttir í Gerði mætti þar konu sem hvarf fyrir augum hennar neðan við Einbúann. Draugurinn Mela-Ísleifur var kenndur við Mela, skv. Þjóðsögum Jóns Árnasonar III, 407. Sigfús á Skjögrastöðum ritaði smágrein um sálmasöng álfa í Hengifossárgili, sem birtist í Þjóðsögum Jóns Árnasonar III, 47. (H. Hall.: Huldufólk á Héraði. Handr. 1993).

Umsögn 1990: Merkustu minjar á Melum eru vafalaust vörðurnar, Völusteinn og Hengifossárrétt, en nefna má einnig seltætturnar og gamla steinhúsið. Sumar þeirra eiga varla sinn líka. Torfgrjóthúsin og tætturnar, sem enn standa, eru hins vegar naumast verndarverð.

Heiðveig Agnes Helgadóttir