Skip to main content
26 November, 2021

Arnheiðarstaðir og Droplaugarstaðir

26 November, 2021

Arnheiðarstaðir

Arnheiðarstaðir eru landnámsjörð og mikill sögustaður gegnum allar aldir. Þar fæddust Helgi og Grímur Droplaugarsynir á 10. öld, og ólust upp, en þeir eru helstu sögupersónur fornsagna Austurlands. Þar hafa fundist merkisgripir í jörðu, m.a. Arnheiðarstaðavötturinn, (1889) sem nú er í Þjóðminjasafni, talinn einstakur meðal fornminja á Norðurlöndum.

Geitagerði er gamalt hjáleigubýli innst í landi Arnheiðarstaða, iðulega nýtt þaðan, þó fyrir löngu orðið sérstök jörð, og sama er að segja um jörðina Merki á Jökuldal, þó undarlegt sé, því að langt er þar á milli. Arnheiðarstaðir, með hjáleigum, urðu "kristfjárjörð" með fornbréfi rituðu árið 1367, samkvæmt því átti "guð drottinn 3 hluti í jörðinni", en Valþjófsstaðakirkja átti fjórðung. Þessu fylgdi kvöð um framfærslu ómaga (í stað landskuldar), og var í gildi fram á miðja 20. öld. Fjórðungspartur kirkjunnar var sérstaklega ætlaður prestsekkjum. Jörðin með hjáleigum var metin á 24 hundruð 1695 og 30 hundruð 1847, og þrátt fyrir þessar kvaðir var hún á öllum öldum talin höfuðból, eftirsótt til búsetu. Kristféð virðist hafa verið sameign Fljótsdals- og Fellahreppa, sem e.t.v. voru einn hreppur fram um 1700. (Þessvegna greiddi Fljótsdalshr. Fellahreppi 2 ríkisdali árlega á 19. öld, og laust eftir aldamótin risu málaferli milli hreppanna, sbr. uppkast að málsskjali í Héraðsskjalasafni, Eg.).

Árið 1942 var svo stofnað nýbýli á ysta fjórðungi landsins, sem hlaut nafnið Droplaugarstaðir. Enn er hefðbundinn búskapur á aðaljörðinni (og í Merki), en á öðrum afbýlum aðeins skógarbúskapur.

Minjar á Arnheiðarstöðum voru aðallega skoðaðar og myndaðar (neg.) 22. júní 1986, síðan 9. ágúst 1990 og 3. nóv. 1990. Minjar á Droplaugarstöðum hafa margoft verið myndaðar.

Miðaldabærinn: Til er nokkuð ýtarleg lýsing á húsakynnum á Arnheiðarstöðum á 17. öld, í úttekt Einars Þorvarðarsonar prests á Valþjófsstað (1616-1657), dagsett 23. okt. 1629, varðveitt í Bréfabók Gísla Oddssonar biskups í Skálholti. Fer hún hér á eftir:

“Baðstofan öll sterk og vel standandi að viðum og veggjum, nýbyggð af sáluga Jóni Hemingssyni. Pallur enginn, nema í pallstéttir. Hurðin slæm. Baðstofugöngin með gömlum veggjum, sumsstaðar föllnum, en mestöll niðri að yfirrjáfri. Partbaðstofan þar út úr hefur legið í tóft í 9 ár og liggur svo enn. Parthúsið þar fram af þriggja faðma langt, með birkirafti gömlum. Dyrastafurinn forgenginn, húsið með hurðartötri.

Skálinn allur afgamall og ekki í manna minnum upp byggður eður endurbættur, upphrófandi með gömlum birkirafti, að falli kominn. 7 rúm í skálanum; 4 með birkistokkum en hin umbúningslaus. Göngin þar innar af hræleg [hrörleg?] en þó stæðileg.

Búrið stæðilegt að veggjum, en að yfirrisinu hrörlegt, þriggja faðma langt, með gömlu hurðarflaki. Minna búrið sterkt og vel standandi; hurðarlaust hús innar af skálanum, 2 faðmar á lengd og eins að breidd, með sterkum veggjum, líka vel standandi að yfirrjáfri og með hurðu.

Skemmuhús á hlaðinu þriggja faðma langt, tveggja á breidd, sumsstaðar stæðilegt að veggjum, en nokkuð tilgengið að yfirrjáfri, allt með birki, hurðarlaust. Eldhúsið stæðilegt að veggjum, en lasið að viðum, og þar með gengið áfram á hlaðið. Smiðjukofi lítill, kominn til falls.

Fjósið með 15 básum báðum megin, mjög lágt, en þó stæðilegt, með öllum gömlum birkivið. Göngin fram af og hesthúsið til falls komið, bæði að veggjum og allri stöðu. Fjóshlaðan stæðileg að veggjum, en hrörleg mjög að yfirrisi. 2 gólfin niðri [?].

Fjárhús 8 faðma langt út á vellinum, hrörlega upphrófandi, mjög niðurfellilegt. Lambhús fram á vellinum, tollir uppi naumlega, því allir veggir eru frá gengnir; lasinn birkiraftur. Lítil hlaða innar af, faðmur á hvorn veg, vel standandi. Geithúsið fram í skógi niður fallið, svo öðru megin liggur rafturinn á gólfi; húsið sex faðmar. Í engu áðurskrifaðra húsa er neitt greni, utan í bænhúsi og baðstofu, þó lítið.

Svo er að skilja að baðstofur, skáli og búr hafi verið sambyggð og tengd saman með göngum, en skemma, eldhús og smiðja líklega aðskilin hús, þó líklega við hliðina á aðalbænum. Partbaðstofa og Parthús hafa tilheyrt Valþjófsstaðaparti jarðarinnar, eins og beitarhúsin Parthús. Gamli skálinn var líklega fallinn úr notkun. Fjós, fjóshlaða og hesthús líklega í annari sambyggingu. Húsin eru flest í lélegu ástandi, nema baðstofan sem var nýlega byggð, palllaus. Í bréfi Odds Einarssonar biskups frá 22. apríl 1626 kemur fram að Jón Hemingsson bóndi, "sem þar hefur lengi búið, sé nú orðinn veikur og vanefnaður", og því byggir hann Jóni Daðasyni jörðina með honum, og af því tilefni hefur úttektin verið gerð. Í þessu bréfi er minnst á "Arnheiðarstaðaskóg", sem ábúandi skal vakta "svo hann sé ekki yrktur né aðsóttur ólöglega af neinum manni." Í úttektinni er líka sagt að Geithúsið sé "fram í skógi." Athygli vekur að þök húsanna eru að mestu leyti undirbyggð birkiviði, og jafnvel rúmstæði í skálanum eru úr birki. Hefur sá viður líklega verið úr skóginum á jörðinni.

Bænhús var á Arnheiðarstöðum, sæmilega standandi 1629, með "standþili" á báðum endum, en annars líklega úr grjóti og torfi, með nokkrum gripum: klukku, bjöllu, krossi og líkneski yfir altari. (sbr. ofangreinda úttekt á miðaldabænum). Þetta bænhús hefur haldist lengur en önnur í sveitinni, að Víðivöllum ytri undan skildum.

Grafreitur: Við bænhúsið hefur verið grafreitur, því að mannabein fundust við jarðrask 1915 rétt austan við bæinn, og því er nokkuð víst að bænhúsið hefur staðið þar.

"Veturinn 1915 var grafið í hóldyngju eina, sem var fyrir hlaðinu á Arnheiðarstöðum í Fljótsdal. Kom þar upp mikill gröftur. Þar á meðal voru þrjár beinagrindur, er lágu samhliða í réttum skorðum og með sérstökum umbúnaði. Ein beinagrindin var af mjög stórum karlmanni, einkum var höfuðkúpan afbrigðilega stór. Hinar tvær voru litlar, eins og af kvenmönnum eða unglingum. Lá stóra beinagrindin og önnur sú minni jafn framarlega og samhliða, og hin þriðja einnig samhliða á milli þeirra, en þeim mun framar að höfuðkúpan tók fram úr. Vantaði á þá beinagrindina, sem á milli lá, kjálkabeinin bæði, og það eitt vantaði á þessar tvær beinagrindur. Steinum var raðað í ferhyrning í kringum þær, og leifar af tré voru þar einnig." (Draumur Sölva... Gráskinna hin meiri, 2. bindi, 1979, bls. 97-98).

Þessa frásögn ritaði Halldór Stefánsson, sem þá var bóndi í Hamborg, eftir Sölva Vigfússyni bónda á Arnheiðarstöðum, og bætir við hana draumi sem Sölva dreymdi í framhaldi af uppgreftrinum, þar sem hann þóttist sjá viðkomandi persónur í lifanda lífi og húsakynni þeirra. Að sögn Aðalbjörns Kjerúlf (1986) hafa oftar en einu sinni komið upp mannabein við gröft austan við bæinn, síðast þegar grafið var fyrir rafstreng þangað heim.

Gamli bærinn: "Baðstofa, 15 × 5½ alin, portbyggð, þrískipt uppi og niðri. Búr 8 ¼ × 4 ¼ alin, með 4 herbergjum á lofti. Þverhús við hlaðið, "með innbyggingu og járnþaki" og kjallara að hluta, 16 × 7 álnir, rifið 1942, og efnið selt og notað í sláturhús KHB á Fossvöllum. Búið í bænum til 1934. Sumt af honum stendur enn." (SMJ II, 16). Nokkrar myndir eru til af þessum bæ, ein frá 1920-25 og fáeinar frá 1935-40 (Kópíur hjá höf. / Mig minnir ég hafa séð eldri myndir hjá Droplaugu Kjerúlf í Vallholti).

Baðstofan stóð ofan við steinhúsið sem byggt var 1934, viðbyggð því og sneri þvert á það. Þetta var tveggja hæða hús úr grjóti og torfi, með hefðbundnu torfþaki og þilstafni að SV, tveir gluggar voru á neðri hæð á NV-hlið, þar sem var eldhús, og líklega einn kvistgluggi á austurhlið þekjunnar í norðurhlutanum, auk þess gluggar á þilstafni, uppi og niðri. Innganga var á austurhlið, úr göngum sem lágu gegnum bæjarhúsin. Búið var í baðstofunni til 1942 og voru foreldrar höf. og hann sjálfur síðustu íbúar. Eftir það var hún notuð sem geymsla. Hún stóð ennþá sæmilega 1959, þegar ég tók nokkrar myndir af henni og mun hafa staðið fram til um 1970-75, þegar hún féll, síðust íbúðarhúsa úr torfi og grjóti í Fljótsdal. Hluti af tóttinni (eldhúsið) sést ennþá að húsabaki, og þar mátti til skamms tíma sjá glugga og parta af þiljum.

Búrið (Búrhúsið) var samhliða baðstofunni að austanverðu, skv. SJM II var það styttra en baðstofan, 8 ¼ × 4 ¼ alin, en þó með fjórum herbergjum á lofti, sem stemmir varla við lengdina, svo líklega var það lengra, eða herbergin færri. Á neðri hæð var hlóðaeldhús og búr. Syðsta herbergið á búrloftinu, alþiljað, með glugga á þilstafni, var kallað Halldórsloft, því að þar var síðasta vistarvera Halldórs Guttormssonar smiðs og skurðmeistara, sem lést 1930, og þar voru leifar af áhöldum hans í bernsku minni. Að öðru leyti man ég ekki eftir herbergjum í búrhúsinu. Búrið var líklega rifið um leið og frammihúsið, 1942, eða stuttu síðar.

Frammihús (þverhús) úr timbri var líklega byggt 1889-90, austast í þyrpingunni, austan á því miðju voru bæjardyrnar, og þaðan lágu göng inn í búrhús og baðstofu. Aðalhúsið var hæð og ris, með kvisti að austan, og útskotum með skúrþaki á báðum endum, sem voru ein hæð. Að utan var það málað grænt. Það var líklega ekki notað til íbúðar að staðaldri, vegna þess hve það var lítið einangrað og kalt á vetrum, en þar var gestastofa og skrifstofa Sölva hreppstjóra á neðri hæð, svefnherbergi og geymslur á efri hæð, og þar mun vinnufólk hafa sofið, a.m.k. á sumrum. Í útbyggingunum voru geymslur. (Orðalagið “með innbyggingu” vísar líklega til þess að allir útveggir hafi verið úr timbri, en ekki notast við grjótvegg á bakhlið).

Þetta snotra timburhús var rifið sumarið 1942, og timbrið selt Kaupfélagi Héraðsbúa. Til eru nokkrar ágætar myndir af því. (Líklegt er að Arnheiðarstaðavötturinn hafi fundist þegar grafið var fyrir þessu húsi, 1889.) Sölvi Vigfússon og Sigríður Sigfúsdóttir tóku við búi á Arnheiðarstöðum 1887, og Halldór Stefánsson segir í grein um þau í Óðni. "Þau bygðu þar upp stórt og reisulegt timburhús..." (Óðinn 25 (1-8), 1929, bls. 20-22).

Skemma, með timburstafni fram að hlaðinu, sést á gömlum myndum, utan við þverhúsið, einna best á mynd í grein Ágústs Sigurðssonar um Valþjófsstað í bók hans: Forn frægðarsetur, Rvík 1979.

Fjós var viðbyggt bænum að utanverðu, og sneri langvegg að hlaðinu, með dyrum yst, allt úr torfi og grjóti og með torfþaki, mun hafa tekið 7-8 nautgripi. Það var umbyggt á árunum 1945-50, þekjan þá reist á sperrum, timburlögð og járnvarin, með torfi ofan á. Þá var húsið stytt um ca. helming. Ytri hluti þess var 1990 notaður sem hesthús. Básar, flór og tröð voru þá í upprunalegu horfi í fjósinu, hellulögð. Fjósið stendur vel enn og er gott dæmi um byggingar af því tagi á fyrri hluta 20. aldar.

Fjóshlaða (kúahlaða) var 1990 skammt fyrir utan og neðan bæinn, með grjót-torfveggjum og skúrþaki af járni, sem sett var á hana milli 1930 og 1940. Veggir voru mikið farnir að bila að utanverðu. Hesthús var viðbyggt hlöðunni, að mestu úr timbri og járni, en þar var áður hestarétt. Þessi hús voru rifin á næstu árum.

Einstakahlaða var stutt fyrir utan Fjóshlöðuna, ekki tengd neinu gripahúsi, hefur líklega verið kúahlaða fyrrum. Hún var grafin í djúpan jarðveg á dálitlum hól, vegghæð aðeins um 1 m að utan, en 3-3,5 m að innan, með dyrum að sunnanverðu en vindauga (baggagati) vestan á þekju, gluggalaus, niður í hana voru þrjár tröppur úr hellugrjóti. Innanmál ca. 6,5 × 3,5 m.

Hlaðan var sporöskjulaga að utan, og sneri út og fram, en ferköntuð að innan. Útveggir rauðlitaðir af skófum. Að innanverðu var neðri hluti veggja grjóthlaðinn, upp til miðju, en úr torfi þar fyrir ofan, sem Aðalbjörn E. Kjerúlf kallaði hnaus, stafninn þó aðallega úr lengri torfum, streng. Veggir höfðu verið hlaðnir upp í pörtum síðustu áratugi, sem greinilega sást af mismunandi hleðslu. Elsta hleðslan var í NA-horni, og gæti hafa verið frá aldamótum 1900. Aðalbjörn hélt að Vigfús Einarsson hefði hlaðið veggina, en hann var á Arnheiðarstöðum á 4. áratugnum, og líklega hefur Eiríkur J. Kjerúlf bóndi hlaðið suma þeirra upp á 5. áratugnum. Veggir höfðu rofnað nokkuð sunnan á hlöðunni, þar sem stafninn var torfhlaðinn, en stóðu annars sæmilega að utan og mjög vel að innanverðu. Hefðbundið torfþak var alltaf á hlöðunni. Það var byggt upp af mæniási sem náði stafna milli, og hvíldi á fjórum stoðum, einni undir hvorum enda og tveimur nálægt miðju, önnur endastoðin var þó stutt og stífuð inn í vegginn. Önnur miðjustoðin var með þvertré að ofan (klóstoð), og sneri það langs með mæniásnum, sem er óvenjulegt, og bendir til að á hlöðunni hafi upphaflega verið tveir mæniásar, eins og á Grundarkofahlöðunni, er síðar verður getið. (Faðir minn fékk þessa hlöðu til afnota fyrir kúahey sitt, er hann flutti í Arnheiðarst. 1936). Hlaðan er nú horfin.

Skrúðgarður var settur upp SA við bæinn, um 1910, og síðar stækkaður bæði til norðurs og vesturs. Sigríður Sigfúsdóttir húsfreyja annaðist garðinn af mikilli natni, allt þar til hún og hennar fjölskylda fluttist burtu vorið 1940, og ræktaði þar tré, runna og fjölda blómjurta, bæði innlendra og erlendra, m.a. íslenska þyrnirós, sem enn lifir. Sumarið 1939 var legsteinn Guttorms Vigfússonar bónda á Arnheiðarst. (og eiginkvenna hans) fluttur frá Valþjófsstað og komið fyrir í garðinum, fyrir tilstilli Guttorms J. Guttormssonar skálds, sonarsonar hans. (Nánar í samantekt minni um skrúðgarða í Fljótsdal).

Smiðja er rétt innan við Bæjarlækinn, andspænis bænum, með grjót-torfveggjum, þili á austurstafni og járnþaki. Líklega byggð um aldamótin, og notuð til járnsmíða, en var gerð upp 1975-80 og notuð sem reykhús. Stendur enn. Myllutótt er við Bæjarlækinn að innanverðu, rétt fyrir ofan þjóðbraut, vel skýr en grasi vaxin.

Jarðhús Gríms (Grímshellir?): Í Droplaugarsona sögu er greint frá því að Grímur Droplaugarson fór heim til sín í Arnheiðarstaði, eftir að hann varð sekur, og var komið fyrir í "Grímshelli", sem ekki þekkist lengur (sjá þó Rauðahelli í Geitagerði). Þá kom í ljós að Bæjarlækurinn var saurugur. "En það var reyndar að Grímur gerði jarðhús, og kom munninn upp við sæng konu hans, og lá hann þar um nætur, en mold var færð í lækinn." (Ísl. fornrit XI, 1950, bls. 176). Um þetta ritar Sigurður Gunnarsson þannig:

"Grímshellir (hjá Arnheiðarstöðum) finnst nú ekki. Getur jörð verið sigin fyrir hann í lækjargilinu, eða hrapað fyrir hann upp í klettunum. Djúpt gil er að bæjarlæknum, og standa bæjarhúsin nærri því á gilbarminum., svo Grímur gat hæglega grafið úr gilinu upp í eitthvert bæjarhús." (S.G.: Örnefni... Safn til sögu Ísl. II, bls. 468) .

Þetta tekur Jón Jóhannesson upp í skýringum sínum við söguna í útgáfu Fornritafélagsis 1950. Sjálfsagt er þetta tilbúningur söguritara, þótt mögulegt hefði verið að grafa þarna jarðgöng.

Gripahús á heimatúni
Á Arnheiðarstöðum voru óvenju mörg fjárhús og hesthús, flest nokkuð gömul og upprunaleg að stofni til, dreifð um allt heimatúnið eins og venja var löngum. Þau voru skoðuð og mynduð 22. júní 1986, 9. ágúst og 3. nóv. 1990. Þetta frábæra húsasafn er nú horfið af sjónarsviðinu.

Fitahús var fremst á túninu, í gömlum nátthaga, sem var innan við elsta túnið, og hefur verið afgirtur með torfgörðum, sem nú sést naumast vottur af. Þetta var einfalt fjárhús úr grjóti og torfi, með torfþaki (líklega á járni?), og hlöðu að baki, með járnþaki. Veggir voru talsvert hrundir að utan og húsið allt að falli komið.

Grundarkofi var næst fyrir utan Fitahús, rétt við gamla túngarðinn. Þetta var fremur stutt hús, eins og nafnið bendir til, en fornlegt, með torfþaki sem var að snarast fram og að falli komið 1990. Undirbygging þess var af ýmsu tagi og ýmsum aldri. Að baki var gömul hlaða, sem sneri þvert á kofann, um 6 × 3 m að innanmáli, og 3-4 m vegghæð að innan. Í henni voru þrjár klóstoðir, er sneru þvert, og á þeim hvíldu tveir mæniásar, sem báru rafta o.s.frv. Segja mátti að hlaðan stæði vel að utan sem innan, og veggir voru vel hlaðnir (líklega endurnýjaðir 1935-40 af Vigfúsi Einarssyni). Að innan voru torfveggir á um 1 m breiðu belti efst, mest úr fremur þunnum hnausum, af þökustærð. Að utan voru veggir, þaktir rauðgulri veggjaskóf.

Kútmagi kallaðist gamalt hesthús, um 40 m ofan við Grundarkofa, fast við lítinn lindalæk sem Kútmagalækur nefnist. Það var hlöðulaust og sneri þvert á hin húsin. Húsið hefur líklega verið byggt um aldamótin 1900, e.t.v. upp úr eldra húsi, og var aðallega ætlað fyrir hesta gestkomandi manna, enda stóð það rétt við gömlu traðirnar (veginn) sem lágu sunnan að bænum og enn sést móta fyrir. Torfþak var á húsinu, nokkuð upprunalegt, með einum mæniási og gengu raftar af honum út á lausholt (langstré) við báða veggi, sem hvíldu á stoðum. Að ofanverðu voru stoðirnar um 30-40 sm frá veggjum, og hvíldu á grjóthlöðnum stalli sem myndaði jötur hússins. (Aðalbjörn sagði þetta hafa verið vanalegasta form hesthúsa, t.d. var svipað hesthús í Hamborg, nema þar hvíldu raftar á vegg öðru megin)

Upp af Kútmaga var gömul fjárhústótt, sem Aðalbjörn sagði að hefði kallast Miðlambhús, en það hefur líklega verið fallið um 1930. Lambhús var skammt út og upp af því, út við Bæjarlæk, inn og upp frá bænum. Við það er kenndur Lambhúshjalli, sem er innan og ofan við túnið. Það var svipað Grundarkofa að stærð og lögun, og með þverhlöðu, eins og hann, en hlaðan var 1990 með járnþaki. Torfþakið á fjárhúsinu var að mestu fallið, og veggir hrörlegir.

Hesthús var niður við þjóðbraut, neðan við Bæjarhól, líklega með hlöðu, en það var rifið og jafnað við jörðu um 1970. (Ég man eftir því í notkun um 1940, þá hafði faðir minn þar hesta).

"Dæld í túni, um 2 × 6 m. Grjót sést á nokkrum stöðum. Húsið var hálfhrunið og sléttað af núverandi ábúanda. Rafmagnslína liggur nánast yfir staðinn." (Fornleifaskýrsla 2001, bls. 86).

Halldórskofi var lítið hesthús uppi á Hjallanum, utan og ofan við bæinn og túnið, kennt við Halldór Guttormsson smið, sem hafði reiðhest sinn í þessum kofa. Kofinn var fallinn um 1940, en kofatóttin sést enn. Á Hjallanum er líka tótt Laufakofa sem kenndur var við hest með þessu nafni. Gamalt tóttarbrot var í Leyningi, grunnri lág, utan og neðan við Einstakahlöðu, líklega af fjárhúsi, og var þar ferhyrningslaga röð stórra steina, sem var leikstaður barna á mínum bernskuárum (Við notuðum steinana fyrir hesta). Þetta er nú horfið.

Ærhús stóðu yst á gamla túninu, á svonefndum Teigum. Þau voru alllöng, tvístæð, með stoðum undir sundinu milli húsanna. Jón Kjerúlf bóndi segist hafa rifið millivegginn og sett stoðir í staðinn. Þverhús gekk suður úr þessum húsum, austast (hefur líklega verið aðskilið fyrst). Það var byggt síðar en aðalhúsin, líklega um 1940. Þá var stór hlaða ofan við húsin, öll úr bárujárni á trégrind, og viðbygging af tré og járni austan við húsin. Árið 1990 voru gömlu aðalhúsin mjög farin að "snarast", þ.e. stoðir hallast fram á við (austur), og þekjur höfðu skriðið til. Hleðslur að utanverðu voru líka farnar að gefa sig, og yfirleitt voru Ærhúsin á fallanda fæti. Húsin hafa verið rifin og jöfnuð við jörðu 1991-92, og sést þar nú aðeins bunga.

Nýhús voru spölkorn utar og ofar, á ytri mörkum túnsins. Skv. örnefnaskrá hefur þar líklega verið svonefndur Hringur og Hringhús, eða tótt þess.(Hringar voru víða á bæjum á Héraði, og hafa líklega verið hringlaga vörslugarðar eða nátthagar, sbr. Brekkugerði, Bessastaði og Skriðuklaustur). Jón bóndi segir að Eiríkur faðir sinn og þeir bræður hafi byggt þessi fjárhús, 1948-49, sem voru svo stækkuð smám saman. Um sama leyti var hengibrúin á Bessastaðaá við Hamborg rifin og trén úr henni notuð í nýju húsin, en brúin var eign Arnheiðinga. Fremsta húsið var með torfveggjum og járnþaki, en annars voru húsin, og viðbyggð hlaða, eingöngu úr bárujárni á trégrind. Um aldamótin 2000 voru húsin rifin og byggð stór og nýtískuleg fjárhús úr steinsteypu, með stórri hlöðu í þeirra stað.

Réttir: Rétt er á Gálgafleti undir Lambhúshjalla, um 0,5 km innan við bæinn, byggð milli stórra steina, sem fallið hafa úr hjallanum. Gamla réttin var hlaðin úr grjóti, en nýrri viðbót úr timbri og járni. Árið 1994 var búið að rífa timburréttina, en gömlu gjótveggirnir standa enn.

Rétt var við Ærhúslæk, í gildragi eða lág, neðan vegar, hlaðin úr grjóti, aðeins eitt hólf. Ég man eftir notkun hennar um 1940 og enn sést móta fyrir henni.

"Leifar réttarinnar eru fast neðan við veginn, nákvæmlega þar sem afleggjarinn heim að bæ sker sig frá honum. 10-20 m breitt gildrag, gróið í botni, liggur frá vegi og niður að fljóti. Vottar fyrir hleðslum efst í gilinu, næst vegi. 6 m langur, bogadreginn og algróinn veggur. Annar hugsanlega á móti honum, samgróinn gilbarminum. Ef það er veggur má ætla að stærð réttar hafi verið um 6 × 10 m." (Fornleifaskýrsla 2001, bls. 87).

Nátthagi var neðan þjóðvegar, niður af bænum, líklega girtur torfgarði, sem nú er horfinn, enda hefur þar verið ræktað tún, sem er vírgirt. Annar nátthagi var innan við túnið, sem fyrr getur, við Fitahúsin, en þar er nú líka tún.

Túngarður var kringum allt gamla túnið á fyrri hluta 20. aldar, þá orðinn útflattur, enda líklega aldargamall, hlaðinn í tíð Guttorms Vigfússonar. Hann var að mestu gerður úr torfi, en þó var grjót líka notað í brekkunni ofan túns, þar sem hann er ennþá vel sýnilegur. Einnig sjást merki um hann á framtúninu og í Leyningunum utan bæjar.

Traðir lágu innan að bænum um gamla túnið, og sést móta fyrir þeim enn. Þær hafa líklega verið vagnfær vegur á fyrri hluta 20. aldar, e.t.v. tengdar "naustinu" í Dýjabörðum og gömlum kerruvegi um sveitina.

Túnáveita úr Bæjarlæk var líklega gerð um sama leyti og túngarðurinn, enda var Guttormur áhugasamur um áveitur og skrifaði grein um þær í Ný Félagsrit í Khöfn. Þær þóttu auka og bæta grasvöxt á túnum þegar á þau var veitt á vorin, og urðu síðar til á mörgum bæjum á Héraði. (Áður líklega aðeins á Valþjófsstað, hjá Vigfúsi föður Guttorms). Vatninu var veitt í skurði út eftir Bæjarhjalla og rann þaðan niður á ytra túnið. (Önnur veita var á fremra túnið).

Garðlag í Ærhúslág (Fjárhúslág), utan við Fjárhúslæk, neðan vegar. "Algróin lág, fremur mýrlend. Fram af henni sandrönd við fljótið. Fast út við sandröndina er garðlag, samsíða fljótinu. Torfgarður, um 40 m langur, 0,5 m breiður og ámóta hár. Tilgangur óljós, en hugsanlegt að veitt hafi verið á lágina úr bæjarlæk [!] sem rennur um hana." (Fornleifaskýrsla 2001, bls. 87).

Vatnslögn í bæinn var gerð snemma á 20. öld, fyrir tilstilli Halldórs Guttormssonar, líklega sú fyrsta í Fljótsdal, en lítið er um hana vitað.

Naust í Dýjabörðum: "Austsuðaustur af bæ, fast niður við fljótið, er tóft. Tvær lindir renna þarna út í fljót, og er tóftin norðan við þá syðri... Tóftin er.. hálfgrafin inn í brekku, op snýr í austur, út að fljóti. Grjót sést í innanverðum vegg, sunnan við dyrnar. Stærð tóftar um 5 × 7 m, og dýpt um 1,3 m, þar af er hleðsluhæð þó líklega ekki nema 1 m. Heimildarmaður telur að þetta sé naust og telst það mjög trúlegt." (Fornleifaskýrsla 2001, bls. 86). (Jón E. Kjerúlf, sagði mér 3. 2. 2011, að líklega hefði þetta fremur verið hús til að geyma í vörur sem komu með fljótsbátnum).

"Tæpa 30 m suðvestan við naustið er e.k. jarðbrú yfir lindina, en heimildarmaður telur hana manngerða... Ótrúlega slétt og regluleg, 2 m breið og 3 m löng. Algróin svo hvergi vottar fyrir hleðslum. Hugsanlegt að hér hafi verið vagnfær leið frá lendingarstað bátsins, sem kom með vörur frá Egilsstöðum, og heim að bænum." (Sama heimild, bls. 87). Að líkindum náttúrumyndun.

Gálgaklettur og Gálgaflötur: "Utan við Árnastein heitir Gálgaflötur, og utan og neðan við hann er Gálgaklettur, með steini á. (Örnefnaskrá). Við Gálgaklett er fjárrétt, sem fyrr getur.

"Vestur frá velli þessum [túnvellinum] hækkar landið, og er þar annar harðlendisvöllur, langur og fagur... en hliðhallt við hann, að norðan og ofan, er klettahjalli hár, kallaður Gálgi eða Gálgaklettur. Er flöturinn við hann kenndur og kallaður Gálgaflötur, og liggur eftir honum þjóðvegurinn. Ofanvert við völlinn, uppi undir Gálgakletti, eru tveir steinar, afar mikil björg. Mælt er að fyrr á tímum hafi ás verið lagður á milli þessara steina, og sakamenn hengdir á honum, og hafi af því myndast örnefni þessi." (Sigf. Sigf.: Þjóðsögur, 2. útg., VI, bls. 32).

Þetta eru forn örnefni, um 0,5 km innan við bæinn. Kletturinn er neðan í Lambhúshjalla, nálægt réttinni fyrrnefndu, og við hana eru stóru steinarnir sem Sigfús getur um. Fyrir neðan (austan) er Gálgaflötur, um hann lá reiðvegurinn fyrrum. Norðaustan í Gálgafleti er smáklettur, sem virðist hafa fengið nafnið Gálgaklettur í örnefnaskránni, en neðan við hann liggur núverandi þjóðvegur. Þessi örnefni eru álitin vitna um að þinghald á Arnheiðarstöðum í fyrndinni (sbr. Bessastaði), en um það eru mér vitanlega ekki til skráðar heimildir, nema nokkur ár á 19. öld, sbr. eftirfarandi klausu í Sögu sveitastjórna: "Á árunum 1821-1833 sóttu íbúar Fellna- og Fljótsdalshrepps manntalsþing á Arnheiðarstöðum, að ósk sýslumanns (sjá 8. kafla).." (Lýður Björnsson: Saga sveitastjórna á Ísl.,1972, bls. 113).

Arnheiðarmelur og Droplaugarmelur, stundum nefndir Arnheiðar- og Droplaugarhaugar, eru melkollar með grjóthrúgum úti á Leirum, utan við Fjárhúslæk, beint út af bænum, en þar áttu þessar fornkonur að hafa verið heygðar. (Sjá grein mína: Fornhaugar og féstaðir í Fljótsdal, Múlaþing, 18, 1991). Styrbjörnsklettur er við Fljótið utan og neðan bæjar, en þar var orðrómur um að maður með þessu nafni hefði fyrirfarið sér.

Árnasteinn nefnist stór og stakur steinn, fast við þjóðveginn, um það bil mitt á á milli Geitagerðis og Arnheiðarstaða. Fylgja honum gömul munnmæli um fjársjóð, sem þar á að vera falinn og álög því tengd. Sögurnar eru mismunandi, en samt nokkuð dæmigerðar fyrir slíka staði. Elsta sagan er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, 3. bindi (1954-55), skráð af Sigfúsi Sigfússyni á Skjögrastöðum og nefnist Peningasteinn á Gálgaflöt:

"Fyrir innan Arnheiðarstaði í Fljótsdal stendur stór steinn, á svonefndum Gálgaflöt, sem tekur nafn af þjófum, er þar voru eitt sinn hengdir. Undir þessum steini á að vera fólgin peningahálftunna, en enginn maður hefur enn vogað að grafa eftir henni, fyrir þá sök, að þrír loftandar eiga að vera settir til að geyma hálftunnuna, svo að enginn maður geti notað sér hana."

Fleiri sögur og öðru vísi eru í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar (1. útg. 9. bindi, bls. 32), og enn ein saga í örnefnaskrá Arnheiðarstaða. Líklega dregur steinninn nafn af Árna Þórðarsyni ríka, sem bjó á Arnheiðarstöðum á 18. öld. (H. Hall: Fornhaugar... Múlaþing. 18, 1991).

Vörður eru margar í landi Arnheiðarstaða eins og víðar á Norðurbyggð Fljótsdals, sumar með eigin nöfnum. Samsteypa heitir varða neðan við Skjöldólfsstaðamýri, skammt fyrir ofan heiðarbrún. Hún er tvöföld og farin að gliðna sundur í miðju, um mannhæðarhá. Biskupsvarða og Prófastsvarða eru á Hálsinum ofan við mýrina, við Merkisveg, sem var reiðgata milli Arnheiðarstaða og Merkis á Jökuldal. Neðar í fjallinu eru vörðurnar Eyjólfína og Þórstína, á Grásteinshlíð, kenndar við þá sem sátu yfir fé, og þar eru líka tættur af grjóthlöðnum smalakofum. (Glettingur 10 (4), 2000 og 21 (3), 2011).

Beitarhús voru fern á Arnheiðarstöðum, sem vitnar um stórbúskap á fyrri öldum, því þrjú eru líklega forn að stofni til. Parthús og Stekkhús eru utantil í landinu, þau lentu undir nýbýlið Droplaugarstaði, og lýst þar.

Geithús voru á Geithúsamýri, inn við Geitá, sem er á merkjum við Geitagerði, fyrrum hjáleigu Arnheiðarstaða. "Á henni mótar fyrir stórri tótt, sem nefnd er Geithús. Geithúsklöpp er neðan við mýrina." (Örnefnaskrá). Halldór Stefánsson (Múlaþing 5, 1970) segir að þar hafi verið afbýli frá Arnheiðarstöðum, sem fór í eyði 1707 (í Stórubólu), en þess er þó ekki getið í manntalinu 1703, eða öðrum heimildum, enda ólíklegt. Þarna sjást enn nokkrar tættur, líklega af beitarhúsum, við hliðina á nýræktartúni.

Sauðhús "mikil "á Hamrinum" í fjallinu upp af bæ." (SJM II, 16). Hamarinn er áberandi klettabelti í fjallinu ofan við bæinn, og ber við loft af þjóðvegi, liklega í 400 m y.s. Rústir húsanna munu enn vera glöggar. Sauðhúsin eru líklega frá "sauðatímanum" kringum aldamótin 1900, þegar sauðir voru seldir á fæti til Bretlands. Þarna á heiðarbrúninni var gott beitarland og jarðsælt á vetrum, því að þar skóf jafnan af snjó, en sauðir voru yfirleitt látnir ganga fyrir sér, án heygjafar. (Jón E. Kjerúlf segir að snjóaveturinn 1950-51 hafi þar alltaf verið beit, þegar alveg var orðið jarðlaust neðar í landinu, og var fé þá rekið þangað upp).

Sel: "Utan við Bæjarlækinn, næst honum, heitir Selhlíðarhnaus. Selhlíðin er ofan við hnausinn, og nær út að Rauðalæk." (Örnefnaskrá). Þessi örnefni eru ofantil í fjallshlíðinni, beint upp af bæ. Ekki er getið um tættur á Selhlíð eða annað sem bendir til að þar hafi verið sel, en þær gætu þó verið týndar. Óvanalegt var að sel væru svo nálægt bæjum. Fornaselið í Geitagerðisfjalli hefur líklega verið notað frá Arnheiðarstöðum, þar sem Geitagerði var hjáleiga (sjá Geitag.)

Merkisleið (Merkisvegur) er heiti á gamalli leið milli Arnheiðarstaða og Merkis á Jökuldal, sem var hjáleiga Arnheiðarstaða, en var þó aldrei fjölfarin, enda er heiðin breiðust á þessum slóðum, um 25 km, og því dagleið bæja milli. Farið var upp yfir Hlíðar frá Arnheiðarstöðum, um SkjöldólfsstaðamýriVegups, sem mun vera kennd við þessa slóð (sbr. Vegups á Klausturselsvegi), þaðan vestur yfir Grasakíl, Fjórðungsháls og Álftakíl, að norðanverðu Hengifossárvatni, en þar heitir Tjaldmelur, þaðan í hávestur yfir Miðheiði, um Merkisgreni og Mórauðavatn,Tregludrögum og niður með Treglu (Tregagilsá) að Merki. Víða mótar fyrir götum á leiðinni og haft er eftir Guttormi Þormar að á Miðheiði sé á köflum ruddur vegur. Nokkrar stakar vörður eru við Merkisveg en hvergi er hann skipulega varðaður, enda hefur hann aldrei verið tekinn í tölu opinberra fjallvega. (Philip Vogler: Fornir fjallvegir á Austurlandi. Eg. 1997, bls. 53).

Forngripir: Arnheiðarstaðavötturinn: "Árið 1889 voru menn að grafa tóft fyrir nýju húsi á Arnheiðarstöðum á Fljótsdalshéraði. Djúpt í jörðu fundu þeir nokkra fornlega hluti, meðal annars mórauðan vött eða hanzka úr ullarbandi. Þeir sem að verki voru á Arnheiðarstöðum, skildu, að vettlingurinn sá arna var ekki allur þar sem hann var séður, og réðu af að senda hann á Forngripasafnið. Þangað kom hann árið eftir og átti gott erindi, eins og brátt kom á daginn. Hann bar vitni um fornt verklag, sem fáum var kunnugt, en eitt sinn hefur gegnt mikilvægu hlutverki í daglegum bjargráðum manna." (Kristján Eldjárn: Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvík. 1973, nr. 27. Þjms. 3405).

Þessi vettlingur er talinn geta verið frá 10. öld, og með allra elstu munum úr textíl sem varðveist hafa hér á landi, auk þess eina vattarsaumaða flíkin sem fundist hefur, en vattarsaumur var undanfari þess prjónless sem kom til sögunnar á 16. öld.

Nýlega var haldið námskeið í vattarsaumi á Egilsstöðum og í Fljótsdal, og í kjölfar þess varð til handverkshópur í Fljótsdal sem kallast "Droplaug - hið fljótsdælska handverksfélag", sem hefur æft þennan gamla saumaskap og byrjað að endurgera Arnheiðarstaðavöttinn til sölu.

(Sbr. frétt í Austurglugga, 2. sept. 2011. / Tveir hanzkar. Árbók Fornleifafél. 1895: 34-35. / Margrethe Hald: Vötturinn frá Arnheiðarstöðum. Árbók Fornleifafél. 1949-50, bls. 73-77. Sbr. ennfr. Elsa E. Guðjónsson: Fágæti úr fylgsnum jarðar. Skírnir 166. árg., vorhefti 1992, bls. 27).

Halldór Guttormsson (1855-1930) var upp alinn á Arnheiðarst. og átti þar heima mikinn hluta ævinnar. Hann lærði smíðar í Noregi og vann við þær alla æfi, fékkst líka mikið við útskurð. Eru útskornir gripir hans víða til, m.a. í Minjasafninu á Egilsstöðum. Þar eru líka nokkur útsaumsverk frá hendi Sigríðar Sigfúsdóttur og Droplaugar Sölvadóttur, dóttur hennar.

Umsögn 1990: Erfitt er að meta gildi hinna ýmsu minja, sérstaklega fjárhúsin og hlöðurnar, sem yfirleitt eru í slæmu ástandi eða fallin í rúst. Þó má fullyrða að hér sé að finna mjög gömul, og að ýmsu leyti upprunaleg hús, sem hafa verið á sama stæði um aldir, og sífellt verið endurbyggð. Fjósið og Smiðjan eru einu húsin sem eru í góðu ástandi, og geta staðið lengi enn. Þá eru Kútmaginn, Grundarhúshlaðan og Einstakahlaðan í sæmilegu standi, og kemur því vel til greina að viðhalda þeim. Öðrum húsum verður varla haldið við, nema sem tóttum, en æskilegt er að þær fái að standa áfram. [Eins og fram hefur komið voru öll gömlu húsin jöfnuð við jörðu, nema fjósið og smiðjan.]

Droplaugarstaðir

Droplaugarstaðir eru nýbýli, stofnað og byggt 1942, á ysta fjórðungi Arnheiðarstaðalands, af foreldrum höfundar, Hallgrími Helgasyni og Laufeyju Ólafsdóttur, sem áður höfðu búið í tvíbýli á Arnheiðarstöðum frá 1936 og haft gömlu beitarhúsin, Parthús og Stekkhús, til afnota, og þau komu í hlut nýbýlisins þegar jörðinni var skipt. Bærinn var byggður á bala yst í landinu, við Hrafnsgerðisá, en þar voru engin mannvirki áður.

Torfhús heima: Nokkur hús úr torfi og grjóti voru byggð á nýbýlinu, en eru nú flest horfin fyrir alllöngu. Fyrsta sumarið var byggt lítið hús, eingöngu úr torfi, fyrir smiðina og ýmis áhöld og byggingarefni. Það var svo gert að fjósi þegar flutt var á nýbýlið, haustið 1942. Það stóð í um tvo áratugi. Utan við það var byggt hesthús, úr grjóti og torfi, með járnþaki. Bæði horfin um 1980. Fjárhús var byggt innan við túnið um 1950-60, og standa veggir þess enn að hluta. Í tóttinni var síðar lítill reykkofi, sem enn hjarir. Annað hesthús var byggt yst á túninu, kringum 1975, stendur tóttin ennþá, og mun það vera einhver síðasta nýbygging af þessu tagi í Fljótsdal og jafnvel á öllu Héraði, enda naut Hallgrímur þess að vinna við torf og grjót. Guðsteinn Hallgrímsson segir að byggt hafi verið hesthús úr sömu efnum, með skúrþaki, líklega kringum 1970, utan við vélageymsluna, en það varð lítt nothæft vegna vatnsaga, og var fljótlega rifið.

Fjárrétt og Nátthagi var í Djúpabotni, inn og upp af bænum, á skjólgóðum stað. Réttin var byggð um 1945 við bratta brekku syðst í botninum, annar langveggur úr grjóti, sést vel enn, hinir úr timburgrindum. Nátthaginn var vírgirtur. Eftir 1950 var svo gerð stór fjárgirðing ofan og utan við botninn. Í botninum er lind í grafningi, sem nú er vatnsból bæjarins, og þar er lag af barnamold (kísilgúr), sem við krakkar nýttum í "kökubakstur." Síðan 1990 hefur botninn og umhverfi hans verið skógræktarsvæði.

Leikstaður okkar barnanna var innan við túnið og Bæjarlækinn. Þar höfðum við heila sveit með bæjum, vegum o.s.frv., og byggðum þar kofa sem sjást leifar af enn. (Slíkir leikstaðir barna hafa eflaust verið á öllum bæjum í sveitinni, en þeirra er mjög sjaldan getið í örnefnaskrám eða öðrum heimildum).

Vatnsvirkjun úr Hrafnsgerðisá var sett upp á Droplaugarstöðum 1949, með stíflu og inntaksþró rétt ofan við brúna, þaðan var vatnið leitt í 8-tommu trérörum, sívöfðum með koparvír, um 100 m leið og um 25 m fall, að stöðvarhúsi í Efrabotni. Nýtt stöðvarhús var svo byggt í Neðrabotni og rörin lengd þangað, til að stækka stöðina. Bæði húsin voru steinsteypt, með járnþaki; það efra er fallið, en það neðra stendur enn. Um 1996 var loks byggt þriðja stöðvarhúsið, úr timbri og spónaplötum, neðan við Kiðukletta, til að nýta fallhæðina til fulls, og er það enn í notkun. Plaströr voru sett í stað tréröranna um 1985, en leifar þeirra má enn sjá í botnunum. Þar er nú kominn skógur. Fyrsta túrbínan var smíðuð af Steinþór Eiríkssyni í Egilsstaðaþorpi, og var í notkun til 2010, er ný túrbína var fengin frá verkstæði Jóns í Árteigi, Kinn, S.-Þing. Gamla túrbínan er í stöðvarhúsinu, og við húsið getur einnig að líta gamlan rafal af sérstakri gerð. Mikið bras var við stöðina fyrstu árin, vegna þess að krapi festist í rörunum undir veginum, og stíflaði þau. Fyrst var raflínan á staurum, sem áttu það til að brotna í stórviðrum, en um 1980 var hún lögð í jörð.

Þess má geta að önnur virkjun var við ána frá Hrafnsgerði, byggð 1927, og var því meðal hinna elstu í landinu. Hún var við fossa í ánni ofan bæjar á Droplaugarstöðum, og var vatnið leitt í járn- og síðar trérörum niður snarhallandi kletta- og skriðuvegg. Hætt var að nota stöðina þegar samveiturafmagn kom 1968. Stöðvarhús var steypt, með járnþaki. Það er fallið fyrir löngu en vélarnar liggja enn á sínum stað og ryðga niður.

Grímsbás kallast skúti við Brúarfoss í Hrafnsgerðisá, að utanverðu í gilinu (Hrafnsgerðis megin). Þunnur grjótveggur, með þröngu dyraopi, hefur lokað skútanum, en hann er nú orðinn siginn. Innan veggjar er skútinn um 5 × 2 m að flatarmáli, með sléttu moldargólfi og voru þar nokkrar leifar af kindabeinum. Það var haft fyrir satt á æskuárum mínum, að þarna hefði Grímur Droplaugarson falist á útlegðartíma sínum, og þetta gæti verið "Grímshellir" sá er getið er í Droplaugarsona sögu. Engar heimildir hef ég fundið um Grímsbásinn, og bendir það til að nafnið sé ungt og sagan. Víst hefur þarna verið ágætur felustaður, meðan gilið var skógi vaxið, og reiðvegur lá niður við Fljót. Reyndar er getið um "útilegumann" sem hélt til "undir fossi" í gilinu á 18. öld, og rændi ferðamenn á veginum fyrir neðan, og má vera að hann hafi hlaðið vegginn, en þetta gæti líka verið gamall stekkur. Sjá Geitagerði og Arnheiðarstaði. (Sigf. Sigf.: Þjóðsögur, 1. útg. XI, bls. 273 / H. Hall.: Grímshellir og Grímsbás. Múlaþing 15, 1987, bls. 117-131).

Stekkhús eru um 1 km inn frá bænum, niður undir Fljóti, og standa í litlu túni (Stekkhústúni), sem hefur verið umgirt gömlum torfgarði. Þarna voru tvö fjárhús, líklega mjög gömul að stofni til. Við vegagerð 1935 var rofið skarð í gamla, hringlaga heytótt, stutt fyrir neðan ytra húsið, og fannst þar gamall sorphaugur, með ösku og ýmsu drasli, m.a. beinum og leirtausbrotum, sem sýnir að þarna hefur verið búseta fyrr á öldum, en engar heimildir eru fyrir því, og engar sýnilegar bæjartættur. Ekki sjást heldur neinar stekkjartættur. Fram til um 1970 lá reiðvegur og síðar bílvegur rétt fyrir neðan túnið, og gegnum stykkið sem túngarðurinn umlykur. Heytóttin var notuð fyrir taðhlaða á mínum æskuárum.

Fjárhúsin voru í túninu, með um 40 m millibili, og sneru hornrétt hvort á annað. Fremra húsið var minna en hitt, kallað Stekkhúskofi, sneri þvert á Fljótið, og ofan við það var heystæði (kuml). Kofinn var alla tíð með torfþaki á birkiárefti og nokkrum hellum, en síðast var sett bretaskálajárn ofan á það, og fest með steinum. Hann var rifinn um 1980, og 1988 var byggt upp úr honum lítið kartöfluhús, með burðarviðum af símastaurum, sem þá stóðu án tilgangs ofar í landinu, því símalínan var þá komin í jarðstreng. Síðan var þakið með spýtum og plastdúk á staurana, og loks mokað mold yfir, sem var þakin með grastorfi, svo kofinn líkist nú grónum hól. Það er síðasta húsbygging sem höf. þessa pistils hefur lagt hönd að.

Ytra húsið hét Stóra-Stekkhús, enda var það mun lengra en kofinn, og með viðbyggðri hlöðu að utanverðu. Torfþak var á húsinu til um 1960, en þá var sett á það bretaskálajárn á járnbogum, sem var að hluta til þakið með einföldu torfi. Það skemmdi veggina, því þá rann vatn ofan í þá. Það var rifið 1989 og húsin þá tekin úr notkun. Áður var komið skúrþak af bárujárni á hlöðuna, líklega sett um 1950, og hrundi það veturinn 2011-12. Að öðru leyti var húsinu ekki breytt á næstsíðustu öld, aðeins endurhlaðnir hlutar af veggjum, en þeir eru nær eingöngu úr hornóttu grjóti, og standa nokkuð vel enn. Vesturveggir húss og hlöðu eru á kafi í jarðvegi að utanverðu, því að húsið stendur á brekku. Tóttin er 17 × 6 m að innanmáli, dyr syðst á austurlanghlið. Í tóttinni er grjóthlaðinn garði, með steyptri plötu, enda var steypt baðker syðst í honum, og er víst enn. Hlaðan er mikið niðurgrafin, 3-4 m á hæð og 6 × 6 m að innanmáli. Torfveggur er milli hennar og húss, en útveggur að vestan er timburþil ofantil, og á því miðju vindauga (baggagat), nokkurn veginn í jarðhæð.

Á steini sunnan á stafni er grafið fangamarkið "S G", sem faðir minn hélt að ætti við Sigurð Guttormsson langafa minn, og á sama steini má óljóst greina þrjá aðra stafi, líklega "D R G", en ártal sést ekki. Girt var utan um húsin 1991-92, til að forða þeim frá því að vera jöfnuð við jörðu í tengslum við fjárskiptin, og því stendur tóttin enn, með garða o.s.frv. (Gunnlaugur Haraldsson skráði í "Ferðadagbók 1975" eftir Hallgrími: " steinn í suðurstafnvegg, niðri við jörð, og er í hann klappað E G 1881, sem þýðir Einar Guttormsson 1881.")

Sumarið 1942 var aftur búseta á Stekkhúsum í nokkra mánuði, þá bjuggu foreldrar mínir þar, með okkur þremur bræðrum, meðan verið var að byggja íbúðarhús á Droplaugarstöðum. Var þá eldað og matast í Stóra-Stekkhúsinu, en sofið í litlum asbestskúr rétt fyrir ofan það. Ég var þá 7 ára og minnist þessa sumars með ánægju.

Parthús eru skammt innan við Stekkhúsin, um 1,5 km frá bænum, örstutt neðan þjóðvegar, við Arnheiðarstaðamerki, draga nafn af Valþjófsstaðaparti, sem var fjórðungur upphaflegu jarðarinnar og kirkjueign. Húsin voru einföld, og sneru þvert á fljótið, með hlöðu að baki, og annað minna hús viðbyggt, kallað Parthúskofi, er sneri þvert á það. Inn í hann voru um 3 m löng göng, hurðarlaus að utan, sem óvíst er hvaða tilgangi þjónuðu. (Minnist ekki að hafa séð það á öðrum fjárhúsum). Stórþýfður túnbleðill var umhverfis húsin, girtur með vír síðan ég man eftir, en hvergi sést votta fyrir túngarði. Því er ólíklegt að þarna hafi verið búseta, eins og gefið er í skyn í SJM II. Gamla þjóðbrautin lá fast við húsin, og göptu kofagöngin við vegfarendum að innan.

Hallgrímur Helgason breytti húsunum kringum 1940, í tvístæð fjárhús, með því að rífa suðurvegginn og endurbyggja, og setja stoðir undir sundið milli húsanna, eins og víðar var gert. Síðan reif hann kofann, og sér hans nú lítil merki. Torfþök voru á húsunum þar til hætt var að nota þau 1978. Á fremra húsinu var birkitróð, úr Hallormsstaðaskógi, undir torfinu, en járn undir þaki ytra hússins að hluta til, og síðar aðeins járnþak. Hann endurbyggði einnig hlöðuna, stækkaði hana og setti á hana járnþak með skúrþakslagi. Timburþil var milli hlöðu og fjárhúsa. Í hlöðunni var efri helmingur veggja úr torfi, 10-12 sm þykkum hnausum, ferköntuðum, og sást af öskulagi í þeim að veggurinn var byggður um aldamótin 1900. Tóttin er um 9 m breið, og 16 m löng, með hlöðutóttinni, sem er um 6×6 m. Húsin féllu brátt eftir að hætt var að nota þau, nema hlaðan. Síðustu þökin reif höfundur 1987-88. Tætturnar sluppu við riðuhreinsun, þar sem meira en 20 ár voru síðan húsin voru notuð fyrir sauðfé. Veggir standa enn í hlöðunni, en hafa rofnað nokkuð í fjárhúsunum.

Þegar húsin voru endurbyggð um 1940 fannst steinhella með áletrunum, er lenti síðan aftur í vegginn, en fannst á ný um 1990, og er nú í Minjasafninu á Egilsstöðum. Margskonar krot er á hellunni, ártöl og mannanöfn, elsta ártalið er 1836. Parthúsin urðu þekkt fyrir söguna af Parthúsa-Jóni, draugasögu er þar átti að hafa gerst á 18. eða 19. öld, og birtist fyrst í Þjóðsögum Ólafs Davíðssonar. Sagan er sprottin af nafni húsanna, sem hún átti að skýra, en fyrir henni er enginn fótur, og ekki veit ég til vart hafi orðið við reimleika í húsunum. (Parthús eru líka á Glúmsstöðum, í Merki á Jökuldal og víðar. (Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar, 3. útg. 1978, I. bindi, bls. 328-329 og 359-361 / Sbr. "Þátt Dalhúsa-Jóns" í Þjóðs. Sigf. Sigf. 2. útg. 5. bindi, 1984, bls. 393-395 / Agnar Hallgrímsson: Parthús. - Múlaþing 26, 1999.)

Vörður o.fl.: Myndarleg varða, nafnlaus, er á allháum og stökum kletti í Ytri-Smáklettum, inn við Arnheiðarstaðamerki, neðan við Úthlíðar. Á Einstakahrauni ofan við Blautudali eru tvær vörður, sem sjást langt tilsýndar. Á Grásteinshlíð, um 400 m y.s., eru tvær vörður, með stuttu bili, og milli þeirra eru leifar af smalakofa, allt hlaðið úr hellugrjóti, sem þarna er nærtækt. Fleiri vörður eru innar á hlíðinni, á merkjum, og líklega leifar af skotbyrgi utar á hlíðinni,

Kolásar kallast svæði ofan við Harðvellisbrún, sem ber við loft frá bænum, þar var skógur á 17. öld og líklega fram á 18. öld, en nú er það mjög uppblásið. Í rökum flögum má víða sjá hrúgur af kolum, sem orðið hafa eftir í kolagröfum eða gleymst að taka úr þeim.

Umsögn 1990: Engar verulega gamlar minjar, nema beitarhúsin, Parthús og Stekkhús. Parthúsin eru fallin í rúst, og þarfnast líklega ekki hreinsunar. Stóra-Stekkhúsið verður afgirt, til að sleppa við hreinsun.

Heiðveig Agnes Helgadóttir