Skip to main content
03 January, 2022
# Topics

Gamansögur úr Fljótsdal

03 January, 2022

Gamansögur úr Fljótsdal

Konan sem kastaði ellibelgnum
“Það er sagt á Íslandi hafa tilborið (Hvað satt má vera), því það skeði í tíð herra Þorláks biskups [Skúlasonar], að ein kona öldruð, sem bjó á þeim bóndagarði Brekku í Fljótsdal, fyrir austan í Múlaþingi, varð uppgefin af aldursdómi og burðaleysi. Hún lagðist í rúmið, svo ei mátti á fótum vera, og lá í heilt ár. Á meðan missti hún allar tennur úr sínu höfði, en uxu upp aftur nýjar tennr; hún missti og allt skinn af sínum líkama, og fékk aftur annað nýtt. Af þessari líkamanas umbreyting varð hún svo frísk og létt á sér, að hún yfirgaf rúmið, fór á fætur, umgekkst sitt, svo sem áður fyrri, hélt þessum hætti meira en heilt ár, þar til smám saman aptur veiktist, þó með næsta hægri og bærilegri sótt, burthjaðnaði og öndina missti. Og kalla íslenzkir þær nývöxnu tennur gemlur, en það skinnkast, eður umbreyting, að kasta ellibelgnum, og má vera ein sterk complexía eður líkamans hreysti. (Íslandslýsing Þorláks Markússonar. Blanda V, 29 (1932-35))

Um Halldór á Klaustri
Halldór Benediktsson bóndi á Skriðuklaustri var einu sinni staddur í Vallanesi (Jaðri), og var sjera Magnús að sýna honum fjósið, sem var nýbyggt og háreist mjög (steinhús). Þá segir Halldór: “Hvernig stendur á því að mjer sýnast allar kýrnar vera svo litlar?” “Það er nú ekki að marka”, segir sjera Magnús, “þær sýnast bara svo litlar af því fjósið er svo stórt. “Já, en blessaður vertu”, segir Halldór, “þá sýnast þær víst ekki stórar undir berum himni!”.  (Úr vasabók Vigfúsar Sigurðssonar: “Skrítlur...” Um 1910-20).

"Eiríkur "öllum meiri" var vinnumaður á Hrafnkelsstöðum, hjá Metúsalem Kjerúlf. Hann var skrítinn í tilsvörum. Við Halldór Benediktsson stórbónda á Skriðuklaustri sagði hann eitt sinn, þegar Halldór sakaði hann um eitthvað sem nú er gleymt: "Já, greyið, þér ferst nú ekki, sem skripaðir á spítalann og lást á lóueggjum á Fjarðarheiði." Um merkingu og tildrög þessa svars veit ég aðeins eitt, að einhverntíma henti það Halldór í kaupstaðarferð, að sofna brennivínsdauða uppi á Fjarðarheiði, sem frægt varð síðan. (Sögn Eiríks M. Kjerúlfs bónda í Vallholti, 8. júlí 1975. / Gunnlaugur Haraldsson: Spjaldskrá í Héraðsskjalasafni)

Auðnutittlingar og snjótittlingar
“Skemmst er frá því að segja að ég heillaðist af þessari, mér áður ókunnri íþrótt [skíðaíþrótt], og hefði ekki fyrir nokkurn mun viljað skipta við fyrrum sveitunga mína á snjónum úti á Héraði og auðninni uppi í Fljótsdal. Í eyru föður míns kallaði ég fyrrum sveitunga mína “aðnutittilinga”, til endurgjalds fyrir “snjótittlingsheitið”, sem hann hafði gefið núverandi sveitungum mínum.” (Þórarinn Þórarinsson.: Gengið á Beinageitarfjall. Austri, jólablað 1984.)

Gamansaga frá Klaustri
Þegar verið var að grafa fyrir hús Gunnars 1939, hafi verið stór steinn í grunninum, sem þurfti að sprengja. Þegar búið var að bora holur í hann, með ærnu erfiði, var sprengiefni sett í þær, og kveikjuþráður tengdur við það, en þegar til kom verkaði það ekki. Búið var að skipa fólki að halda sig í hæfilegri fjarlægð, og nú þorði enginn að fara ofan í grunninn til að lagfæra þetta, af ótta við að sprenging gæti orðið þá og þegar. Sagði yfirsmiðurinn að bíða yrði til morguns. Jón í Möðrudal var staddur þarna, kvað hann óþarft að hræðast svoleiðis smámuni, og gekk ofan í grunninn. Þá var kallað “sprenging”, og var karl þá fljótur að hlaupa til baka, en þetta var auðvitað bara gabb. Um kvöldið kom í ljós að slokknað hafi á kveikjuþræðinum. Var þetta þá endurtekið og gekk eins og í sögu, hins vegar klofnaði steinninn í svo stóra hluta, að það varð að bora í flesta þeirra aftur og sprengja enn á ný, en allmikið grjót fékkst úr þessum steini til að púkka í grunninn. (Valgeir S. Þormar. Símtal, 23. nóv. 1991.)

Barlómurinn
“Eins og þú manst voru Fljótsdælingar alltaf fyrstir til að fara verslunarferðir til Seyðisfjarðar á vorin, og biðu aðrir Héraðsmenn eftir því að þeir færu og legðu slóðina yfir Fjarðarheiði. Þeir fóru oftast allir saman (frá öllum bæjum) og höfðu fjölda þriflegra og vænna hesta, með góðum búnaði, líklega oft um 60-70. Þeir höfðu veðurspámann, sem var séra Bergur í Vallanesi, og lét hann þá jafnan vita hvernig færi var yfir heiðina, og um veðurhorfur. Nú var hins vegar komið barometer (sem menn kölluðu “barlóm”) á nokkra bæi, og þóttust Fljótsdælingar ekki þurfa að spyrja séra Berg um veður. Nú var það vor eitt að þeir leggja af stað í besta veðri og barlómurinn spáði góðu. Lagarfljót var á ísi, og halda þeir úteftir því með lestina, en þegar þeir koma í Miðhúsafjallið syrtir heldur betur og gerir öskubyl. Er ekki að orðlengja það að þeir urðu að snúa við og héldu nú sömu leið til baka upp í Fljótsdal. Þegar þeir fara fyrir neðan Vallanes sjá þeir einhvern sem veifar öllum öngum og hrópar til þeirra. Sjá þeir að þetta er séra Bergur. Þegar þeir leggja við eyrun heyra þeir að kallað er gegnum veðurdyninn: “Svona fer fyrir þessum barometersmönnum.” (Þórarinn Þórarinsson, í viðtalsþætti við Sigurbjörn Snjólfsson, upphaflega fluttum á Héraðsvöku á Eg, og tekinn upp á segilband. /Heyrt í útv. 20.7. 1992)

Bjarna varð á í messunni
Bjarni Guðjónsson, prestur á Valþjófsstað, hafði þar nokkurt fjárbú. Eitt sinn þegar flutningabíll kom til að sækja sláturfé í Valþjófsstað var Egill Gunnarsson á Egilsstöðum þar staddur og hjálpaði presti við að koma fénu á bílinn. Bíllinn bakkaði að fjárhúsdyrum og féð var rekið á “sliska” upp á pallinn. Þegar verkið stóð sem hæst, heyrði Bjarni hundgá, sem hann taldi til óþurftar, og hastaði á hundinn og sagði honum að steinþegja. Þegar verkinu var lokið áttaði Bjarni sig á því að þarna var enginn hundur nærri, heldur hafði Egill verið að gelta, vel vitandi að sauðfé hrekst undan gelti. Ekki fylgir sögunni hvort Agli hafi þótt inngrip Bjarna vera prestlegt. (Matthías Eggertsson: Bréf, apríl 2013).

Á jólatrésskemmtun
Bjarni segir frá: Ég var að tala við börnin á jólatrésskemmtun, og mælti af munni fram og sagði: “Jesús, jólabarnið er hér hjá okkur.” Þá gellur í einu barnanna: “Það getur ekki verið – hann er löngu dauður.” Ég var svo heppinn að ég skynjaði, að það var Elísabet, dóttir Ragnheiðar í Geitagerði og Gulla [Gunnlaugs Sigurðssonar frá Hallormsstað] sem sagði þetta. Ég lét sem ekkert væri – horfði á stúlkuna og reyndi að skýra fyrir henni gildi orða minna, og virtist hún meta það. Tveim dögum síðar kom ég í Geitagerði. Ég var varla kominn inn þegar Elísabet lét rigna yfir mig spurningum, svo ég hafði nóg að gera að svara. Þetta gekk þónokkuð lengi, eða þar til Þuríður amma hennar segir við hana. Leyfðu okkur nú að tala við prestinn, ég segi þér þetta allt á eftir. Án nokkurs hiks segir Elísabet: “Þegi þú amma, þú hefur ekkert vit á þessu.” [Þess má geta að Elísabet varð síðar doktor í stærðfræði úr frönskum háskóla]

Jarðarförin
Í svartasta skammdeginu fór fram jarðarför frá Áskirkju, en jarðsett var í heimagrafreit. Ákveðið var að jarðarförin hæfist kl. 1, vegna stutts birtutíma. En af óskýranlegum ástæðum gleymdi ég því. Vaninn var svo sterkur, að mér fannst hún hlyti að byrja kl. 2, og gaf mér því góðan tíma, stansaði á Brekku – ekkert lá á og færi á veginum betra en brjóstvitið. Hjá Droplaugarstöðum mætti ég meðhjálparanum, Brynjólfi á Hafrafelli. Þegar við höfðum heilsast segi ég við hann: “Ætlarðu ekki að vera við jarðarförina?” “Jú, ég ætlaði það, en ætlar þú ekki að jarða?”

Útförin hófst kl. 2. Að láta fólk bíða í heilan klukkutíma í kaldri kirkju, og það við jarðarför, er óafskanlegt. En ég var og er þakklátur, hvað aðstandendur tóku þessu vel, og fögnuðu komu minni,  sögðust vera farnir að óttast að ég hefði lent í slysi, enda hávetur og vegir eins og þeir voru þá. Þetta slapp til, en seinna mátti það ekki vera, svo lesbjart væri í grafreitnum. (Bjarni Guðjónsson: Handrit, komið frá Matthíasi, júní 2013)

Trúlofun í Fljótsdal
Soffía, dóttir Þórhildar og Rögnvaldar á Víðivöllum ytri, opinberaði trúlofun sína með Höskuldi, síðar manni sínum, á táningsárum. Þegar Valborg í Klúku heyrði tíðindin varð henni á orði: “Hún ætlar ekki að mygla á búrhillunni.” (Matthías: Bréf 2013).

Kaldar kveðjur
“Það var í árdaga útvarpsins, líklega um 1940, að útvarpað var eldhúsdagsumræðum frá Alþingi. Áhugi var þá mikill að heyra mál sinna flokksmanna, og þeir sem ekki áttu útvarp fóru þá gjarnan til þeirra sem áttu þetta galdratæki, til að njóta stundarinnar. Svo var í umrætt skipti [á Arnaldsstöðum]. Nú var Ólafur Thors að tala og skammaði Eystein Jónsson og Framsóknarflokkinn óspart. Þórhallur Ágústsson bóndi á Langhúsum, maður hæglátur og þægilegur í viðmóti – góður og gegn framsóknarmaður – hlýddi á, uns honum var nóg boðið, snaraðist úr sæti sínu, steytti fram krepptan hnefa, og mælti af miklum þunga: “Það vildi ég að helvítis maðurinn væri kominn svolítið nær, svo ég gæti gefið honum á kjaftinn.”  Þessi ummæli spurðust út og lifðu lengi í Fjótsdal.”  (Bjarni Guðjónsson: minnisblað, maí 2013. Heimildarmaður Bjarna var Einar Einarsson, er sagði þetta hafa gerst á Arnaldsstöðum, þegar hann var þar staddur að hlusta á sína menn. / Matthías sendi mér sömu sögu, aðeins með öðru orðalagi)

Við matborðið á Valþjófsstað
Hallgrímur Helgason bóndi á Droplaugarstöðum var gestur á prestssetrinu á Valþjófsstað. Vitað var með nokkrum fyrirvara um komu hans. Þótti við hæfi að kaffibrauð væri í betra lagi, og átti heitur réttur að tryggja það. Sýndi Hallgrímur réttinum lítinn áhuga. Þar kom að húsbóndinn vakti athygli hans á honum, og segir: “Má bjóða þér – þetta var framreitt í tilefni komu þinnar. Hallgrímur fékk sér þá smáögn á diskinn. “Hvernig bragðast þetta”, var spurt. “Það má slafra það í sig”, var svarið. (Bjarni Guðjónsson, júní 2013).

Þegar Steinar í Seli mátaði Bóas Emilsson
Bjarni Guðjónsson prestur á Valþjófsstað segir svo frá: Steinar Pétursson í Glúmsstaðaseli var vangefinn, sem nú er kallað, en gat þó unnið flestalla sveitavinnu.  Bóas Emilsson átti heima á Reyðarfirði, og fór á tímabili vikulega með nýjan fisk til sölu upp á Hérað.  Þennan dag var ég í embættisferð og kom heim rétt fyrir miðdegiskaffið, og Bóas í sinni vikulegu söluferð. Hann stoppaði alltaf heima, og menn gátu hringt lægi þeim eitthvað á hjarta.

Þetta var um hásláttinn og rífandi þurrkur. Það var margt um manninn niður á Nesi að binda skráþurra töðuna. Nú man ég ekki lengur hverjir það voru, nema Steinar í Seli kom þennan dag frá Melum og naut þess sannarlega að vera einn af hópnum. Svona nokkuð hafði hann aldrei áður séð, að vél sópaði heyinu upp í sig og bindi það í bagga. Þetta var í árdaga þeirrar tækni í Fljótsdal, og menn varla búnir að ná tökum á henni, stoppin urðu mörg og andskotinn margoft ákallaður. Aðeins einum var skammt undir þeim kringumstæðum – Steinari – og hló hann innilega, þegar sá vondi var ákafast ákallaður.

Svo kom að síðdegiskaffinu, og var þéttsetið við borðið. Atvikin höguðu því þannig til, að Steinar var settur við hliðina á Bóasi. Undir borðum ræddu menn gang mála. Allt í einu sneri Bóas sér að Steinari, og spyr hann með hryssingslegri röddu: “Hefurðu séð andskotann?” Steinar leit með barnslegu sakleysi á hann og svarar: “Nei, ekki fyrr en núna.”

Svarið virkaði eins og sprengja, menn hlógu hátt og innilega, og var Steinar þar enginn eftirbátur. En Bóasi stökk ekki bros, hann bara fraus, var kjaftstopp. Hann var sá eini sem ekki áttaði sig á því, að Steinar vissi ekki betur en bindivélin héti Andskotinn.

Eftir þetta átti Steinar alltaf sinn fisk, þegar Bóas kom í Fljótsdalinn í fisksöluferðir sínar. Þar þekkti ég Bóas. Hann var drengur góður, en strigakjaftur, og fór ef til vill stundum yfir strikið. (Bjarni Guðjónsson: Handrit, komið frá Matthíasi, 13. júní 2013)

 Gamansögur af Þorfinni á Kleif
Vart er það ofmælt að Þorfinnur Sigmundsson á Kleif, hafi verið vinsælasti maður í Fljótsdal á síðustu öld, fyrir lífsgleði sína, eftirminnileg ummæli og tilsvör. Þorfinnur bjó lengst af með Pálínu Friðriksdóttur, móður sinni, og  Jóhönnu Þorsteinsdóttur ráðskonu. Kleif er innsti bær í Norðurdal, norðan Jökulsár, en gegnt bænum austan ár er Glúmsstaðasel, og þar bjó Níels Pétursson með foreldrum sínum, Pétri Halldórssyni og Sveinínu Sigfúsdóttur,  og systkinum sínum, Steinari og Kristínu.  Kláfur var á  Jökulsá milli bæjanna, a.m. k. eftir 1926, og um 1930 setti Þorfinnur upp vírstreng af fjallsbrún niður á tún, til að renna heyi niður af fjallinu. Samskonar strengir voru á Egilsstöðum og Hóli. Hér verða teknar upp nokkrar gamansögur af Þorfinni og ummælum hans, sem Bjarni Guðjónsson fv. prestur á Valþjófsstað, Matthías Eggertsson fv. tilraunastjóri á Skriðuklaustri  o.fl. hafa ritað eða sagt mér. – H.Hg.

Norðaustanáttin
Þeim nábúum, Níelsi og Þorfinni,  var vel til vina, en þar sem Jökulsáin hindraði samgang bætti sveitarsíminn það upp, sem allir gátu í þá daga hlustað á. Í Fljótsdal gerist það oft að stíf og nöpur norðaustanátt stendur dögum saman á veturna. Í einu slíku áhlaupi ræddu þeir félagar lengi saman að kvöldlagi um allt og ekkert. Þá gat Þorfinnur ekki orða bundist um norðaustanbelginginn og sagði: “Hvernig er þetta með skaparann; þarf  hann aldrei að draga að sér?” (Matthías Eggertsson, bréf 2013.)

Viðsjárverðar kláfferðir
Það skeði eitt sinn þegar Sveinína (Sveina) í Glúmsstaðaseli var að fara í kláfnum yfir Jökulsá að Kleif, að hún festi hárið í honum, líklega nær landi Kleifar megin, og gat sig hvergi hreyft. Var þá sent eftir Þorfinni til að bjarga henni, en hann var að smala fé upp í fjalli. Þegar hann kemur heim fer hann sér að engu óðslega, byrjar á að fá sér kaffi, sem tekur drjúga stund. Síðan fór hann að bjarga Sveinu úr kláfnum og gekk það vel, og sakaði hana ekki.

Seinna kom það fyrir að Þorfinnur var að fara á kláfnum yfir í Sel, og féll úr honum niður í poll sem áin flæddi inn í við austurlandið, og steinrotaðist.  Þá var Sveina þar viðstödd, og gat bjargað honum úr pollinum, þar sem hann hefði líklega drukknað ella.  Seinna var hann minntur á að þá hefði Sveina ekki gefið sér tíma til að drekka kaffi áður en hún barg honum. (Þórhallur Björgvinsson, 6. mars. 1994)

 Heystrengur og moldarpoki
Skarphéðinn G. Þórisson hafði heyrt að Þorfinnur á Kleif hefði eitt sinn troðið galla sinn fullan af heyi og sent niður heystrenginn, þar sem Pálínu móður hans sýndist hann koma á fljúgandi ferð og varð skelfingu lostin. Gunnar og Bergljót á Egilsstöðum segja söguna þannig:

“Hér var oft sögð svipuð saga af Friðrik í Hóli. Friðrik var oft búinn að tala um, að gaman væri að fara niður á strengnum [sem þar var], og einhverju sinni tróð hann galla sinn fullan af heyi og sendi hann niður. Ingibjörg kona hans var úti stödd og sá hann koma,  og varð heldur bilt við, enda taldi hún sig þekkja sinn mann.

Þorfinnur gerði allt annað. Hann og fleiri Norðurdælingar, ásamt mönnum utan úr sveit, voru að koma úr göngu, og langaði þá til að sjá hvernig vírinn virkaði. Var þá mokað þurri mold í strigapoka, og hann hengdur á vírinn og látinn gossa. Pálína, móðir Þorfinns, heyrði hvína í vírnum, og vissi að þá var eitthvað á leiðinni niður. Hljóp hún þá út og kom að einmitt þegar pokinn rakst niður og tættist sundur, og þyrlaðist moldin yfir hana.” (Bergljót og Gunnar, Egilsstöðum: Bréf 17. maí 2012 / H. Hall.: Heystrengir og fjallheyskapur í Fljótsdal. Glettingur 22 (2), 2012).

Bændaferðin
Þorfinnur fór í bændaferð kominn yfir miðjan aldur. Nýkominn úr ferðinni kom hann í Valþjófsstað og lýsti ferðinni við kaffiborðið, því sem fyrir augu bar, af mikilli innlifun. Kvaðst hafa setið margar veislur og lært heilmikið í mannasiðum. Í sömu andrá rétti ég kökudisk að honum, með orðunum: “Má bjóða þér?” Þorfinnur svaraði að bragði: “Éttu það sjálfur.” Þá varð mér að orði: “Ég heyri að þú hefur lært nokkuð í ferðinni!” (Bjarni Guðjónsson, júní 2013).

“Ég bið að heilsa mömmu”
Eitt sinn voru þeir Snorri á Egilsstöðum og Þorfinnur í fjárstússi inni á Kleifardal, snemma vetrar. Steig Þorfinnur þá á svellbólstur sem hulinn var snjóföli og náði niður  í Jökulsá. Rann hann stjórnlaust í átt að ánni, sem beljaði fyrir neðan, og kallaði til Snorra: “Ég bið að heilsa mömmu!” Varla hafði hann sleppt orðinu þegar hann stöðvaðist, og kallar hann þá aftur: “Ég er ekki feigur.” (Bjarni Guðjónssn, júní 2013, hafði þessa sögu eftir Jónasi Kjartanssyni á Þuríðarstöðum, en honum sagði Páll Pálsson, og hafði eftir Snorra sjálfum).

Síðasta ferðalag Pálínu
 “Það var snemma vetrar (6.11. 1942) að Pálína Friðriksdóttir, móðir Þorfinns, lést. Snjór var á jörðu og svellalög nokkur – leiðinda færi til umferðar. Bera þurfti líkkistuna frá Kleif í Egilsstaði, næsta bæ fyrir utan Kleif, og fengnir til þess hraustir menn, og var Þorfinnur að sjálfsögðu einn þeirra. Á leiðinni er mjög bratt klif, sem var svellað. Þótt gætni væri viðhöfð dugði það ekki, og runnu burðarmenn allir á rassinum niður klifið, en misstu þó aldrei takið á kistunni. Þegar þessari salibunu lauk voru menn hálf vandræðalegir, nema Þorfinnur, sem mælti upp úr eins manns hljóði: “Einhverntíma hefði mamma haft gaman af svona ferðalagi”, og hló sínum glaðværa, smitandi hlátri. Þar með var allur vandræðagangur horfinn. (Bjarni Guðjónsson, minnisblað, maí 2013. Ingólfur á Valþjófsstað var einn burðarmanna, og sagði Bjarna frá þessu).

Næst var að taka gröf í kirkjugarðinum á Valþjófsstað. Ingólfur á Valþjófsstað, tók gröfina með Þorfinni. Þegar Ingólfi fannst gröfin vera orðin nógu djúp, spurði hann Þorfinn hvað honum fyndist um það. Þorfinnur svaraði að bragði: “Já, ég held að mamma krafli sig ekki upp úr þessu héreftir.” (Matthías: bréf).

Þannig var umhorfs hinum megin
“Á efri árum sínum veiktist Þorfinnur og var fluttur á Landspítalann í Rvík. Þar náði hann bata og var sendur þaðan á sjúkrahúsið á Egilsstöðum, sér til hressingar, meðan hann væri að jafna sig. Þar kom að hann fór að segja sjúklingunum frá veikindum sínum, og kvaðst hafa verið svo hætt kominn að hann sá yfrum. Mönnum lék eðlilega forvitni á að vita hvernig þar væri um að litast, og inntu Finnsa eftir því. Hann svaraði að bragði: “Það var eins og að horfa ofan í Seyðisfjörð.” (Bjarni Guðjónsson, minnisblað, maí 2013).

Ég sker hana þá aftur
Þorfinnur var ekki fjárglöggur sem kallað var, og því fékk hann Egil á Egilsstöðum til að hjálpa sér að velja úr sláturfé á haustin, og innti Egill það dyggilega að hendi. Þá var það veturinn eftir að Egill kom í húsin og sá kollótta á sem hann hafið verið búinn að segja Þorfinni að skera um haustið. Þegar hann hefur orð á þessu segir Finnsi: “Ég sker hana þá bara aftur.” (Þórarinn Lárusson, munnl. heimild, 2013).

 Sjónvarpsþátturinn
Ómar Ragnarsson hafði sjónvarpsviðtal við Þorfinn skömmu áður en hann lést. Lofað hafði hann Finnsa að láta hann vita þegar sjónvarpið sýndi þáttinn. Sú stund var að renna upp þegar loforðið skyldi efnt. Hringdi Ómar þá í símstöðina á Eyrarlandi og bað um Þorfinn í símann. Hjördís Sveinsdóttir varð fyrir svörum, og sagði það væri best fyrir hann að tala við prestinn, hvað hann gerði. Bar nú Ómar upp erindi sitt. Prestur segir þá: “Ég jarðaði hann í gær.” Baðst Ómar þá afsökunar og bauðst til að fresta sýningu á þættinum. En prestur bað hann lengst allra orða að breyta í engu áætluninni, og sagði: “Þorfinnur vill ekkert vesen.” Þættinum var svo sjónvarpað á tilsettum tíma.” (Bjarni Guðjónsson, minnisblað, maí 2013 / Hann var staddur á Eyarlandi þegar Ómar hringdi, en það má kyrrt liggja, segir hann).

Því má bæta við, að þau Egilsstaðasystkin, Snorri, Sigurður og Sigríður, nágrannar Þorfinns á Kleif, töldu sig hafa séð svip hans og Pálínu, í og við Kleifarbæinn, eftir að þau létust. (Sjá dulrænar sögur H. Hall.)

Af Páli Jónssyni Kjerúlf, Hrafnkelsstöðum
Páll þótti mjög efnilegur og gáfaður sem ungur maður, hann var tvo vetur í Búnaðarskólanum á Eiðum um aldamótin 1900 og sótti garðyrkjunámskeið hjá Einari Helgasyni í Reykjavík. Páll veiktist síðan á geði og var sendur á Kleppsspítala í Reykjavík, en undi þar aðeins stuttan tíma, og kom gangandi austur. Voru sagðar ævintýralegar sögur af þeirri ferð, m.a. að hann hefði vaðið og synt stórárnar á leiðinni.  Eftir það var Páll alla tíð á Hrafnkelsstöðum og vann þar flest algeng störf, og ritaði ýmsan fróðleik,  en sá líka um að ferja fólk yfir Jökulsá. Í því sambandi birti Metúsalem  efturfarandi gamansögur:

“Lögferjan var orðin staðargripur, margviðgerð, og lak nema hún væri vel bikuð. [...] Frú úr Reykjavík leist ekki á ferjuna og spurði Pál ferjumann, hvort ferjan væri ekki orðin mjög léleg. Páll svaraði rólega: “Hún fer annaðhvort í þessari ferð eða þeirri næstu.”

Í annað skipti var Páll að ferja hóp af fólki yfir ána, og vissi að beygja þurfti fyrir eyri, en fararstjóri hópsins vildi fara þvert yfir og varð svo að vera, enda tók ferjan brátt niðri á eyrinni og sat þar föst. Þá lagði Páll upp árar og sagði: “Nú bíðum við þangað til áin vex.” Fararstjóri bað Pál þá að draga ferjuna út, en Páll sagði að hann gæti gert það sjálfur. Sá maðurinn sitt óvænna og stökk útbyrðis og gat losað ferjuna eftir mikið erfiði.” (Met. J. Kjerúlf: Straumferjan. Múlaþing 3, 1968)

Á Kleppi mun Páll fljótt hafa séð að hann átti enga samleið með þeim sjúklingum sem þar voru vistaðir. Altalað var að þeir væru látnir bera sand upp á efri hæðir hússins, er síðan væri látinn renna jafnóðum niður. Af því eða álíka vinnubrögðum kom upp orðið kleppsvinna, sem enn heyrist í málinu um fávíslega og tilgangslausa starfsemi. Aðspurður um störfin á Kleppi, er sagt að Páll hafi svarað: ”Þau eru bara fyrir svona menn eins og Guttorm á Hallormsstað.” Átti Páll þar við Guttorm Pálsson skógarvörð, náganna sinn, sem honum hefur líklega þótt stundum vinna fánýt skrifstofustörf. (Sigurður Blöndal, munnleg heimild).

Heiðveig Agnes Helgadóttir