Skip to main content
07 January, 2022
# Topics

Vigfús Ormsson

07 January, 2022

Vigfús Ormsson

Líkræða Stefáns Árnasonar prófasts á Valþjófsstað í sept. 1841

Presturinn sálugi, séra Vigfús Ormsson, var fæddur í þennan heim að Keldum á Rangárvöllum þann 9. júní 1751; það var fimmtudaginn í 8. viku sumars. Foreldrar hans voru Ormur prestur til Keldna- og Gunnarsholtssókna nær því 40 ár, Snorrasonar prests, fyrst að Mosfelli í Grimsnesi og síðan að Görðum á Akranesi, Jónssonar prests að áðurnefndu Mosfelli um 32 ár, Snorrasonar, Jónssonar , Ormssonar sýslumanns Vigfússonar í Eyjum í Kjós, er lifði samtíma Hallgrími Péturssyni, og var vinur hans.

Móðir séra Vigfúsar sál. var Guðlaug Árnadóttir, merkisbónda og orðlagðs smiðs frá Fíflholti í Landeyjum, Arnórssonar bónda úr Fljótshlíð. Höfðu þau hjón, síra Ormur og Guðlaug átt 5 börn, Magnús, Grím, Árna, Gottskálk og Vigfús, er missti móður sína þá hann var 3 nátta, en guð sá honum þá fyrir annari móður, sem var ljósmóðir hans, Þórunni Þorsteinsdóttur frá Reyðarvatni [Rangárvöllum]; hafði hún áður verið tvígift, og var nú ekkja; flutti hún Vigfús heimleiðis með sér, og var hann að fóstri með henni um hríð, unz faðir hans fluttist frá Keldum að Reyðarvatni og gekk að eiga straxnefnda Þórunni. En þá Vigfús var 7 ára að aldri missti hann einnig þessa sína ástríku stjúpmóður.

Ólst hann eftir það upp hjá föður sínum að Reyðarvatni, til þess hann var 13 ára, að faðir hans kom honum að Odda um haustið 1765, til sóknarprests þar, prófasts og officinalis (stiftsprófasts) Skálkoltsstiftis, séra Gísla Snorrasonar, til að læra betur að skrifa og byrja latínulærdóm. Þar var hann síðan næstu 3 vetur til lærdómsiðkana, en að þeim tíma liðnum kom faðir hans honum í ölmusu í Skálholtsskóla, hvar hann naut tilsagnar þeirra, fyrir lipurleika og staka ástundun orðlögðu kennenda, conrektors Páls Jakobssonar og magisters Bjarna Jónssonar, um 7 vetur, og var að þeim tíma [liðnum] dimitteraður með bezta vitnisburði, um vorið 1775, þá hann var nær 24 ára að aldri.

Tveim árum síðar var hann skikkaður til Ásprestakalls í Fellum, er þá var liðugt eptir Þórð prest Högnason, er fengið hafði Kirkjubæ í Tungu; og collatrionsbréf hans útgefið 7. apríl 1777 af stiftamtmanni Thodal. Sama ár tók hann prestsvígslu af biskup Doctor Finni Jónssyni, 6. sunnudag eptir páska, og fluttist það sumar austur að Ási, hvar hann var ógiptur til þess 1781, þá hann tókst ferð á hendur suður að Krossi í Landeyjum, til að ekta og sækja heitmey sína, jómfrú Bergljótu Þorsteinsdóttur. Eptir að hann hafði einnig gengið í heilagt hjónaband með henni [5. júní] fóru þau hjón austur að Ási, hvar þau bjuggu til þess um vorið 1789, þá þau fluttu hingað að Valþjófsstað, eptir fengnu collationsbréfi af 21. Janúar sama árs.

Á umgetnu tímabili, frá 1781-85, innféll sá mikli fellir eptir jarðeldinn í Skaptafellssýslu veturinn 1783 og 1784, og komst séra Vigfús sálugi ekki þá frá honum heldur en aðrir, þá hann missti töluvert af gripaeign sinni, þó hann héldi nokkru eptir, og þar á ofan bættist að hann frétti um sömu mundir lát tengdaföður síns, séra Þorsteins Stefánssonar, er eptirlét ekkju með 7 óframkomnum börnum og lítil efni. Gerði hann sér þá, ári síðar, ferð suður í Landeyjar, til að grennslast eptir um hag tengdamóður sinnar, og veita henni þá aðstoð, er hann mætti; flutti hann á þeirri ferð austur 3 yngstu börn hennar, og tók sjálfur 2 af þeim til fósturs, Sigríði og Einar, en Jón tók móðursystir þeirra, Madame Sigríður Hjörleifsdóttir. Og 3 árum eptir að hann var kominn að Valþjófsstað, tók hann einnig tengdamóður sína, madame Margréti Hjörleifsdóttur, og var hún hjá honum til dauðadags. Svo var líka orðin alkunn ættrækni hans og rausn, að ættingjar hans og venzlamenn töldu sér þar víst athvarf, er hann var, og brást þeim það ekki heldur, sem alkunnugt er.

En þegar presturinn sálugi var hérum sextugur að aldri, varð hann þess var, að sjóndepra fór að sækja á annað augað og þaðan á bæði, sem fór svo í vöxt, að hann haustið 1817 varð algerlega blindur, og er hann fann hvað að fór kallaði hann sér fyrir kapellán, tengdason sinn, stúdent Stephán Árnason, er tók prestvígslu sumarið 1812, og þegar séra Vigfús sálugi fann að hann, vegna blindunnar, gat ekki haft þá umsjón er honum þurfa þótti, yfir stað og kirkju, sótti hann til þess konunglega danska cancellís um leyfi til að mega afhenda capelláni sínum hvorttveggja til umsjónar, hvert hann og öðlaðist 11. apríl 1818. Skilaði hann þá frá sér sama sumarið staðnum og kirkjunni og flutti bú sitt að Arnheiðarstöðum, en eptirlét séra Stepháni ábúð staðarins. Var þar þó sjálfur næstu 3 ár í húsmennsku, en lét konu sína vera til búsforráða á Arnheiðarstöðum. Vorið 1821 flutti hann sjálfur einnig út þangað, og bjuggu þau þar sameiginlega til 1828, þá guði þóknaðist að kalla hana frá þessa heims armæðu.

Að næsta vori byggði hann syni sínum, stúdent Guttormi Vigfússyni, jörðina alla, Arnheiðarstaði, en hafði jafnframt í skilorði, að hann nyti helming hennar til afnota, meðan við bú héldi, og varaði þetta til þess um haustið 1834, að hann hastarlega fékk slag, af hverju hann varð hálfvisinn í sinni vinstri hlið. Gat hann uppfrá því engin afskipti haft af nokkrum hlut, og tók áðurnefndur sonur hans alla jörðina, og hélt hann til dauðadags þann 12. þessa mánaðar. [1841]. Á þessu síðasta tímabili þjáðist hann opt, auk þreytslis af þeirri langvinnu legu, af megnum iktsýkisverkjum, er hann afbar með undrunarverðri þolinmæði. Rúmri viku fyrir andlátið bættist sóttveiki ofan á sjúkdóm hans, er lagðist svo þungt á hann, að 3 dægur fyrst eptir að hann tók sóttna hafði hann enga ró né rænu; þar eptir sló útum hann svita, er hægði sjúkdómskvölinni í 2 dægur; svo espaðist sóttarkvölin að nýju, sem viðvaraði 4 dægur; rénaði smám saman tilfinningin, eptir sem ráðið varð, ásamt hans litlu kröptum., unz hann um hádegisbil nefndan dag rólega uppgaf sinn anda. Þannig framleið æfi þessa merkismanns fram á 91. aldursár, þá hann var búinn að vera í prestsembætti meira en 64 ár.

Þennan langa tíma rak hann með stakri kostgæfni guðs erindi, með því að prédika og brýna guðsorð alúðlega og rækilega, bæði fyrir honum tiltrúuðum söfnuðum og heimilisfólki, og einkum með frábærri þolinmæði, alúð og umhyggju að uppfræða ungdóminn, meðan honum unnust kraptar til; jafnvel á sínum sjónlausu elliárum var það hans yndi og iðja, að taka til uppfræðinga tornæma unglinga, yfirheyra þá og undirvísa í þeirra barnalærdómi, þar til þeir höfðu tekið nærri ólíklegum framförum, bæði í kunnáttu og skilningi. Með stakri þolinmæði og stillingu áminnti hann þá er villtir fóru og sannfærði þá af guðsorði, helzt heimuglega, um þeirra yfirsjónir og bresti. Svo það má með sanni segja, að fáir munu með jafnmikilli alúð og reglusemi hafa staðið í prestsembætti.

Í hússtjórninni var hjá honum sameinað umhyggja og reglusemi, röggsemi og alvörugefni með stillingu, blíðlyndi og glaðværð, á búnaðinum ráðdeild, framsýni, atorka, þrifnaður, iðni og sómasamleg sparsemi, sem olli því, að þótt hann hefði optast mikla fjölskyldu og ómegð, bæði eigin barna og annara, samt mörgum útífrá væri rétt ótæpt hjálparhönd, var hann þó ætíð veitandi fremur en þurfandi, og það þó hann þaraðauki verði töluverðum kostnaði til staðarins viðhalds og endurbótar, svo ei er kyn þótt hann á þeirri tíð þætti fyrirmynd annara í þessu falli, þar hann þau 12 ár sem hann hélt staðinn á Ási, uppbyggði allan staðinn og breytti húsaskipaninni þar til betra, eptir þar til fengnu biskupsleyfi; og eins eptir að hann kom að Valþjófsstað, ekki einasta byggði flestöll staðarins hús og kirkjuna, heldur og bætti við mörgum útihúsum, auk annara ýmislegra starfa, sem báru óræk merki hans stöku framkvæmdasemi.

Ráðdeild hans í búnaðinum lýsti það, að hann byrjaði hér um sveitir fyrstur manna á betri fjárhirðingu, heldur en hér var kunn eða brúkuð fyrir hans tíma, með því að ætla fulorðnu fé, einkum ærpeningi, vetrarfóður og laga fjárhúsin hagkvæmar þar til en venja var til. Því má hér og viðbæta, að hann var sá fyrsti hér austanlands, er byrjaði með innilegu búsmala á sumrum, svo vel naut- sem ærpenings, til þess að auka þar með áburð og bæta túnræktina, og hafa margir síðan fundið mikla gagnsemi þar af og fylgt hans dæmi; eins og hann líka í öllu vildi reyna að brúka það sem væri til hagnaðar. Bjó hann fyrstur manna vatnsmylnu hér austanlands, og oflangt væri upp að telja allar þær tilraunir, er hann á ýmsan hátt gerði til að komast eptir hvað bezt hentaði búskap manna, og fór því sá orðrómur af honum, sem ei var undarlegt, að hann væri mestur búmaður á öllu Austurlandi, og knúði þetta matreculaire [?] commissaire og cancelliesekretaire Árna Sigurðsson, eptir að hann hafði reist hér um, til að skýra konunglegri hátign frá framúrskarandi framkvæmdarsemi hans, hver þá allramildilegast veitti honum minnispening af silfri, til endurgjalds og uppörfunar fyrir aðra.

En séra Vigfús sálugi girntist ei einungis að efla sína velgengni, heldur var það honum jafnaðarlega gleðiefni að sjá eða heyra velgengni annara, og hvert það fyrirtæki þeirra er miðaði til að efla hana; sérílagi lagði hann mesta alúð á að laga hreppstjórnina í báðum þeim hreppum, hvar hann þjónaði sem prestur, með því að útvega óuppfræddum unglingum þá hentugustu kennslustaði, og örvasa gamalmennum eða öðrum vesalingum þá staði, hvar þeir nutu beztrar og nákvæmastrar aðhjúkrunar, og sjálfur var hann fyrirmynd annara húsfeðra í þessu, eins og hann sem embættismaður sýndi í þessu rétt frábæra umhyggjusemi, hvað almenna velferð snerti, sýndi hann sérlega hjálpsemi og eðallyndi við þurfandi náunga og ráðvanda en fátæka húsfeður, og létti stórum byrði þeirra með því að taka til fósturs eitt eða fleiri af börnum þeirra, hvers menjar að alkunnugt er að flest af þeim uppfrá því báru, og hvers flest af þeim með þakklæti hafa minnst og minnast.

Að presturinn sálugi var héraðauk hinn trúfasti vinur vina sinna, þar til mætti færa, ef þörf geðist, mörg dæmi, eins og um það hversu ráðhollur og einlægur hann var þeim, er hans ráð sóttu; geta bæði nærstaddir ættingjar hans og aðrir kunnugir bezt borið vitni um.

Hvað náttúrufari, sinnislagi og gáfum vors framliðna viðvíkur, má nokkuð sjá af því sem hér er að framan sagt, en þarvið má þó bæta þessu, að hann var í öllu ráði sínu og fyrirtækjum, fastlyndur og stöðugur, og vildi ei láta áform sín og fyrirætlanir að óreyndu niðurfalla, án þess þó að vilja hafa í frammi fávíslega keppni, og var það fyrir þá skuld, að hann kom svo miklu og mörgu til leiðar, en þaraf leiddi og, að hann á efri árum var ei frí frá þungsinni, þegar því gat ei orðið framgengt er hann óskaði. Í geðslagi var hann einkar stilltur og hógvær í allri umgengni, og mátti tileinka því, að áminningar hans og viðvaranir höfðu meiri krapt hjá þeim er í hlut áttu, en margra annara, þar það líka lét sig í ljósi að þær fram kæmi með einlægum velvilja og sérlegri lotningu er hann bar fyrir guði, skyldu og ráðvendni, og vannst honum því fremur flestum öðrum að lagfæra bresti sína og annara, eins og áður er sagt.

Í daglegri umgengni var hann jafnaðarlega geðskemmtinn og glaðvær, og fundu því allir, einkum vinir hans, yndi af hans návist og umgengni. Gáfur hans voru nokkuð seinar, en þó var skilningur hans djúpur og einkar heppinn, en ímyndunarkrapturinn mjög sterkur, hversvegna hann tók flestum fram að hugviti og hagleiksgáfu, en skynsemi hans var yfrið ljós og sameinuð mestu námfýsi, svo hann var ætíð frí fyrir hleypidómum, og með auðfúsu [les aufúsu / H.J.] og gleði tók hann á móti sérhverri nýrri tilsögn, hvort heldur í bókum eður samræðum við aðra.

Svo merkilegur og frábær var sá merkismaður sem hér liggur nú nár fyrir vorum augum, svo nytsamur í sinni köllun sem guðsþénari, svo uppbyggilegur í manna félagi og svo stjórnsamur í sínu húsi, og svo eptirbreytnisverður í allri sinni hegðan og framfæri, að....!

"Hér endar handritið neðst á blaði, og vantar því aptan af líkræðu þessari, sem er með hendi séra Stefáns prófasts Árnasonar á Valþjófsstað, tengdasonar séra Vigúsar, og samin af honum. Frumritið nú í Þjóðskjalasafninu, en afskript þessi tekin 24. maí 1922. H.Þ.

" H.Þ. mun vera Hannes Þorsteinsson fræðimaður. Hann hefur einnig leiðrétt fæðingardag og ættfærslu Vigfúsar. Hannes var aðstoðarmaður í Þjóðskjalasafni 1911-1924 og þjóðskjalavörður 1924-1935 (Ísl. æviskrár). Vann lengi að ritun á "ævisögum lærðra manna" (handrit 66 bindi, óútgefið í Þjsks., þar er m.a. þáttur af Vigfúsi. Í því sambandi hefur hann líklega afritað ofangreinda ræðu. Eintak af henni er geymt í Geitagerði, Fljótsdal, hjá afkomendum Vigfúsar. H.Hall ljósritaði það 1991, og tölvusetti 9. apríl 2012, stafrétt eftir uppskrift Hannesar. Varla geta vantað nema fáeinar setningar í ræðuna.

Líklegt er að þar hafi verið getið um börn Vigfúsar og Bergljótar, sem lést 9. okt 1828, 67 ára. Þau sem upp komust voru: Margrét, sem átti Guttorm Pálsson prófast í Vallanesi, Ingunn er átti Sigurð stúdent Guðmundsson á Eyjólfsstöðum, Sigríður kona Stefáns Árnasonar prófasts, Einar bóndi á Víðivöllum ytri, er átti Þorgerði Jónsdóttur, Þorsteinssonar á Melum, og Guttormur stúdent og bóndi á Arnheiðarstöðum, er átti Halldóru Jónsdóttur vefara, frændkonu sína. Öll áttu þau afkomendur. Umgetinn verðlaunapeningur er geymdur hjá Guttormi V. Þormar í Geitagerði eins og handrit ræðunnar.

Fleira um Vigfús Ormsson

Pétur Sveinsson frá Bessastöðum ritaði (1890-1894) þátt af Vigfúsi Ormssyni, sem birtist í Sagnaþáttum Þjóðólfs, Rvík 1947, bls. 230-240. Ber honum allvel saman við þessa líkræðu, þó minna sé um bein hrósyrði. Hins vegar getur Pétur um ýmsar nýjungar Vigfúsar sem Stefán sleppir, svo sem að hann hafi innleitt fjárhús með garða á Héraði og verið frumkvöðull í notkun "danskra vefstóla", en þar byggði Vigfús m.a. á mági sínum Jóni Þorsteinssyni vefara. Pétur segir ýmsar sögur af Vigfúsi, m. a. um samskipti hans við syni sína, vegna giftingarmála hans á gamals aldri, og búskapar þeirra á Arnheiðarstöðum. Hann segir Vigfús hafa lagt niður búsetu á hjáleigubýlum Valþjófsstaðar, og líka á kirkjujörðinni Langhúsum, til að geta nýtt þau sjálfur, og gengið óþyrmilega á skóga kirkjunnar í Suðurdal.

Í fyrrnefndu handriti Hannesar Þorsteinssonar "Ævir lærðra manna" getur hann þess að Vigfús hafi líklega verið frumkvöðull "Matsöfnunarfélagsins í Fljótsdal", sem stofnað var árið 1800, hið fyrsta af því tagi í landinu. Sigurður Óskar Pálsson ritaði grein um félagið í Múlaþing 12, 1982, og tekur undir þá skoðun Hannesar, og þess er einnig getið í Ísl. æviskrám V. bindi 1952. Merkilegt er að hvorki Stefán né Pétur geta þess, en félagið hefur líklega orðið skammlíft. Í Ísl. æviskrám fær Vigfús þessi ummæli: "Hann var búhöldur góður og vel efnum búinn." (Nánar í bók H. Hall.: Fljótsdæla – Mannlíf og náttúrufar í Fljótsdalshreppi. Skrudda, Rvík. 2016, bls. 108, 199 og 285).

Í Ættum Austfirðinga (3. bindi 1957, bls. 662) eftir Einar Jónsson á Kirkjubæ / Hofi Vopnaf. er klausa um Vigfús, og ætt hans. Þar segir m.a.: “Hann var búmaður mikill og hygginn fjármálamaður og varð auðugur vel, en þótti ekki örlætismaður.” Þar er skráð níðvísa Magnúsar Pálssonar (Tíkar-Manga), bróður Guttorms í Vallanesi, um séra Vigfús, sem þóttist eiga honum grátt að gjalda, eins og fleiri frændum sínum og tengdamönnum. (Nánar í þætti um Tíkar-Manga, e. Hjörleif Guttormsson. Múlaþing, 36, 2010, bls. 13-22).

Í bók Vigfúsar Guðmundssonar: Keldur á Rangárvöllum (Rvík 1949, bls. 59-60) er sagt frá Ormi Snorrasyni, föður Vigfúsar, sem var prestur í Keldnaþingum 38 ár, 1737-1775, og bjó á Keldum líklega í 13 ár, 1740-1753, er hann flutti að Reyðarvatni í sömu sveit.

Magnús Ormsson, bróðir Vigfúsar, var aðstoðarmaður Björns Jónssonar, fyrsta lærða lyfsala Íslands, sem tók við lyfsölu af Bjarna Pálssyni landlækni 1772; hann bjó í Nesi við Seltjörn [Seltjarnarnesi], og kom þar upp garði með lækningajurtum. Magnús lærði hjá Birni, og tók við embætti lyfsala 1798, þegar Björn lést. (Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir: Garðrækt í Nesi við Seljörn á síðari hluta 18. aldar. Garðyrkjuritið 2020).

Ágúst Sigurðsson prestur ritaði þátt um séra Vigfús í Múlaþing 9. hefti 1977, og notar þá mest fyrrnefndar heimildir. Loks ritaði Jón Helgason blaðamaður þátt um "Hjúskaparstríð blinda prestsins", Ísl. mannlíf, 2. bindi, Rv. 1959, bls. 79-86. Sbr. grein mína um Guðnýju Árnadóttur (Skáld-Guðnýju), sem Vigfús vildi kvænast en fékk ekki, í jólablaði Austra 1992, og bókina Hugurinn einatt hleypur minn – Kveðskapur og æviferill Guðnýjar Árnadóttur (Skáld-Guðnýjar). Félag ljóðaunnenda á Austurlandi, 2020.

H.Hall., í mars 2012 / 2021.

Heiðveig Agnes Helgadóttir