Skip to main content
07 January, 2022
# Topics

Snæfellsöræfi

07 January, 2022

Snæfellsöræfi
Eyjabakkar og Snæfell
(1999)

Eyjabakkasvæðið

Eyjabakkasvæðið er víðáttumikið votlendi í dalverpi austan undir Snæfelli. Það er í um 650 m h.y.s., við upptök Jökulsár í Fljótsdal úr Eyjabakkajökli. Jökulsá hefur þarna fyllt upp jökulgrafna kvos, með framburði sínum, og kvíslast þar um marflata sléttu milli fjölmargra eyja og hólma, sem kallast Eyjar eða Þóriseyjar. Eyjarnar eru yfirleitt mjög votlendar, og eins eru bakkarnir beggja vegna. Votlendi þetta er víða gróðurríkt, en gróðurinn óstöðugur enda verða oft breytingar á rennsli vatnanna og skriði jökulsins. Mikill fjöldi tjarna og smávatna er á þessari flæðisléttu, bæði á bökkum og eyjum.

Innst á sléttunni er Eyjafell, en við það eru miklir jökulgarðar (hraukar) eftir framhlaup jökulsins, þeir ystu frá 1890, en þá myndaði jökullinn afar sérkennilega jarðvegsmúga (Hrauka), sem munu vera einstæðir hér á landi a.m.k.. Þessi framskrið hafa gerst öðru hvoru, síðast 1972.

Fuglalíf er oft mikið þarna, sérstaklega sækja ungar heiðagæsir (geldgæsir) þangað í júlí, þegar þær er í sárum (fella flugfjaðrir), og skipta oft þúsundum á kvíslum og vötnum. (Sumarið 1991 voru taldar 13 þúsund heiðargæsir á svæðinu, og síðan hafa þær verið á bilinu 8-10 þúsund, og hefur fjöldi þeirra tífaldast á um 20 árum. Mun það vera stærsti "fellihópur heiðagæsar í heiminum" (Skarph. Þórisson 1991). Einnig er þar nokkurt gæsavarp og töluvert verpir þar af álft. Fyrr á öldum voru álftir og gæsir veiddar þarna, meðan þær voru í sárum. Annars er fuglalífið varla nógu vel kannað eða kynnt, en væntanleg mun vera skýrsla um það frá Kristni Hauk Skarphéðinssyni. (Sjá einnig Perlur í náttúru Íslands, 1990, bls. 296).

Rannsóknastofnun Landbúnaðarins vann gróðurkort af Eyjabakkasvæðinu á áttunda áratugnum, sem Orkustofnun gaf út á prenti 1978. Þar kemur skýrt fram hversu Eyjabakkakvosin er vel gróin, og jafnframt eins og vin í eyðimörk hálendisins beggja vegna.

Eins og flestum er kunnugt hefur virkjun Jökulsár í Fljótsdal verið á döfinni síðustu tvo áratugi eða lengur, en heimild var veitt fyrir henni í lögum (nr. 60/1981). Þessari virkjun tengist um 45 ferkm. miðlunarlón á Eyjabakkasvæðinu, sem þýðir að mestallt undirlendi þess, og næstum allt gróna landið fer undir jökulvatn og aur. Aðeins hæstu jökulruðningshraukarnir myndu standa upp úr lóninu sem eyjar. Það er alkunnugt og viðurkennt, að Náttúruverndarráð fékk komið til leiðar friðlýsingu Þjórsárvera við Hofsjökul, gegn því að leyfa framkvæmd Fljótsdalsvirkjunar með Eyjabakkalóni. Nú er deilt um hvort endurmeta skuli virkjunarsvæðið með tilliti til náttúruverndar, og breyta hönnun virkjunar með hliðsjón af slíku mati, eða leggja hana fyrir róða. (Árið 1991 voru hafnar nokkrar undirbúningsframkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun, svo sem stöðvarhús og aðrennslisgöng).

Það verndarmat á Eyjabakkasvæðinu, sem nú liggur fyrir, er unnið á árunum 1975-80 og birtist í skýrslu Hjörleifs Guttormssonar og félaga (1981), en þar segir m.a.

"Eyjabakkasvæðið er fjölbreytilegast og sérstæðast í heild sinni, af því landi sem Fljótsdalsvirkjun myndi raska. Veldur því m.a. nálægð og reisn Snæfells, sem einnig á þátt í þeirri gróðursæld er einkennir svæðið, þar eð fjallið og hnjúkaraðirnar beggja vegna skýla fyrir norðan- og vestanátt og áfoki. Þar við bætist meiri úrkoma á Eyjabökkum í austan- og suðaustanátt, en vestan Snæfells, og verða þannig allskýr veðraskil við fjallgarðinn."

"Mestan svip gefur hins vegar gróska í votlendi fram með Jökulsá og á Eyjum milli kvísla hennar, þar sem lítilla áhrifa gætir af beit, ólíkt því sem er t.d. í Þjórsárverum. Hin fjölmörgu smávötn, tjarnir og pollar á votlendinu auka einnig á fjölbreytni og fegurð svæðisins, en þeim fylgir talsvert fuglalíf og vatnalíf..."

"Allfjölbreytilegar jökulminjar frá síðustu 100 árum tengjast svæðinu innanverðu, þar sem eru jökulgarðar frá Eyjabakkajökli, sumpart í formi sérkennilegra hrauka austan Eyjafells."

"Þannig eru það tengsl og samspil jökuls, gróðurvinjar og megineldstöðvar (Snæfells), sem ljá svæðinu fegurð og fjölbreytni í lífi og landslagi, sem óvíða finnst slík hérlendis. Hliðstæð gróðurlendi í svipaðri eða sömu hæð er helst að finna á Vesturöræfum, og þar og í Kringilsárrana eru svipaðar jökulminjar í formi hrauka. Tengsl þessara náttúrufyrirbæra við jökul eru þó auðsærri á Eyjabökkum, vegna nálægðar jökulsins þar."

"Þótt erfitt sé um samanburð milli svæða, má telja Eyjabakka meðal athyglisverðustu hálendisvinja hérlendis að náttúruverndargildi. Kemur svæðið að líkindum næst á eftir Þjórsárverum... Þetta hefur verið undirstrikað með því, að Náttúruverndarráð hefur sett svæðið á náttúruminjaskrá sína, 2. útgáfu, er birt var 1978, og er þar mælt með verndun á svæðinu sem næst núverandi horfi." (Hjörl. Gutt. o.fl. 1981, bls. 254-257)

Kristinn Haukur Skarphéðinsson og Skarphéðinn Þórisson hafa kannað fuglalíf á Eyjabakkasvæðinu síðan um 1980. Þeir rita:

"A.m.k. 32 fuglategundir hafa sést á svæðinu austan við Snæfell og út að Laugará, þar af 28 í lónstæðinu á Eyjabökkum (Tafla 6.1). Tuttugu og ein þessara tegunda hafa orpið, eða eru líklegir varpfuglar, þar af 13 á Eyjabökkum. Einkennisfuglar eru álftir, heiðagæsir og nokkrir algengir mófuglar, einkum heiðlóa, lóuþræll og snjótittlingur. Auk þeirra mófugla sem verpa, er talsverð umferð spörfugla um svæðið síðsumars, og slæðingur af vaðfuglum leggur einnig leið sína þarna um í júlí og ágúst." (SINO-skýrslan 1993, bls. 65).

Þeir telja að um 30 pör af álftum verpi að staðaldri á svæðinu (þar af 18 á fyrirhuguðu lónstæði), og sé það óvenju mikill þéttleiki álftavarps (1,1 par á ferkm. votlendis). Um 20 pör af heiðagæs urpu svæðinu í upphafi níunda áratugar, aðallega á Snæfellsnesi og við Eyjabakkafoss. "Endur eru fremur strjálar á svæðinu, en sjást einkum á Eyjabökkum, og þá aðallega á tjörnum í Þóriseyjum. Hávellur eru algengastar (allt að 10 pör 1981) og verpa árlega.... Duggendur eru einnig árvissar á Eyjabökkum og Hafursárups (5-6 pör 1981), og verpa sennilega..."

Heimildir: Helgi Hallgrímsson: Eyjabakkar. Glettingur 2-3, 1998, bls. 31-38. Hjörleifur Guttormsson og Gísli M. Gíslason: Eyjabakkar. Landkönnun og rannsóknir á gróðri og dýralífi. Orkustofnun, nóv. 1977. Guðmundur Ólafsson: Eyjabakkar og Snæfell. -Perlur í Náttúru Íslands. Rvík. 1990, bls. 294-297. Kristinn Haukur Skarphéðinsson: Fuglar á Snæfellsöræfum. Glettingur 2-3, 1998, bls. 51-55. Kristinn H. Skarphéðinsson og Skarphéðinn Þórisson, 1993: Fuglalíf. Samanburður á umhverfisáhrifum (SINO-skýrslan), bls. 61-88. Skarphéðinn Þórisson í Fréttabréfi Fuglaverndarfélags Ísl. 4. (1), nóv. 1991). Sami: Fljótsdalsvirkjun - heiðagæs.- Glettingur 2 (1), 1992, bls. 48. Eyjabakkar-Gróðurkort. Orkustofnun 1978. (2 kortablöð).

Snæfellsnes
"Snæfellsnes er aflíðandi og samfellt gróðurlendi, sem liggur í sveig undir skriðurunnum hlíðum Snæfells, innan við Hafursárufs. Sýnist eðlilegt að telja nesið ná inn að Dimmagili, eða aurkeilunni neðan þess, enda þrýtur þar að mestu undirlendi með ánni og við tekur Snæfellsháls. Önnur aurkeila nokkru strærri er litlu utar, báðar nær gróðurvana við brekkurót. Gróðurlendi á sjálfu nesinu gæti verið 4-5 km2 að flatarmáli." (Hjörl. og Gísli Már 1977, bls. 12).

Þjófagilsflói nefnist mýrlendi sitt hvoru megin við Þjófagilsá, sem hefst skammt fyrir innan Hálskofa, og er um 2,5 km langt. Það er breiðast fram af mynni Þjófadals, um 1,5 km, og myndar þar nes fram í Jökulsá. Það er um 3-4 km2 að stærð, eða litlu minna en Snæfellsnes. Inn af því eru víðlendir aurar, mosagrónir utantil, sem ná inn að Eyjabakkajökli, og inn með honum að vestan er stykki sem kallast Bergkvíslar eða Mosdalsslakki (Sjá Snæfellsfriðland).

Eyjafell nefnist stuttur áshryggur úr föstu bergi, sem snýr N-S, og rís um 25 m yfir flæðisléttuna innst á Eyjum, og rétt við trýnið á Eyjabakkajökli, sem hefur myndað gríðarlegar jökulruðningsöldur aðallega innan við fellið og austan við það. Tilsýndar ber lítið á fellinu miðað við þau firn. (Í örnefnaskrá virðist nafnið Eyjafell líka ná yfir jökulgarðana, og jafnvel vera notað í fleirtölu!) Á Eyjafelli eru lyng- og þursaskeggsmóar, og eru þar skráðar 56 tegundir blómplantna. Austur af norðurenda fellsins er lítið klettasker á sléttunni, sem Ystiklettur kallast, og hafa þar fundist álíka margar tegundir. (Við það er grunn og lífrík tjörn).

Í framhlaupi 1890 náði jökullinn að teygja sig alveg að Eyjafelli, og raunar út yfir innri hluta þess, og mynda afar sérkennilega garða og jarðvegsöldur austan við fellið. Fyrir innan þær er dálítið stöðuvatn, Eyjafellsvatn, sem verður jökulvatnsblandað á sumrum. Í síðari hlaupum hafa þó myndast enn hærri ruðningsgarðar inn (suður) frá fellinu, þeir hæstu líklega frá framhlaupi jökulsins 1938 (E.Todtmann, 1960), og rísa þeir um 20 m hærra en fellið. Í þeim eru nokkrar tjarnir, og gróður í kringum þær, en annars eru þessir ruðningar lítið grónir.

Innan við þessa garða er annað jökulvatnslón, nokkru stærra en hitt, og nær það inn að jökli. Undanfarin ár hefur meginkvísl Jökulsár runnið í gegnum þetta lón, og mun vera á góðri leið með að fylla það af aur. Fyrrum hefur önnur meginkvísl runnið beint til norðurs, og fyrir vestan Eyjafell, og gerist það enn í jökulhlaupum. Þar eru nú víðlendir aurar og leirur.

Eyjabakkajökull er einn af helstu skriðjöklum Vatnajökuls, um 100 km2 að flatarmáli. Hann gengur fram í dalinn á milli Háöldu að vestan og Kverkfells að austan. Á Eyjabakkajökli er urðarrönd, sem liggur niður frá "Hnjúkafelli" (1250 m y. s.), þar sem hinar tvær meginkvíslar jökulsins koma saman. Á jökultrýninu og utan við það kemur röndin fram sem mjór urðarhryggur, allt að 30-40 m hár þar sem jökullinn endar.

"Í krikanum vestan Eyjabakkajökuls, innan við Háöldu, safnast vatn í jökulstíflað lón, kallað Háöldulón, og hafa árlega (?) hlaupið úr því um 15 gigalítrar í Jökulsá í Fljótsdal, nú um nokkurt skeið. Koma flóðin fram undan Eyjabakkajökli norður með jökulröndinni. Þar er mikill íshellir, austan undir Háöldu, hæð munnans nokkrar mannhæðir, og helst hellirinn víður yfir 100 m inn, beygir þá nokkuð austur á við og fer lækkandi. Jökulvatn kemur þar út eftir hellinum, misjafnlega mikið. Ísinn í hellisveggjunum er sérstaklega tær og litbrigði eftir því. Fram á sumar er snjófylla við hellismunnann, þannig að ganga þarf niður í hellinn um holu í fönninni." (Hjörleifur Guttormsson, 1987, bls. 72-73).

Ævintýralegar myndir eru til úr þessum íshelli, sem nú er orðinn vinsæll ferðamannastaður á vetrum, en á sumrin er yfirleitt ófært inn í hellinn.

Heimildir: Oddur Sigurðsson: Eyjabakkajökull. Glettingur 8 (2-3), 1998.

Hraukar. Austan við Eyjafell eru afar sérkennilegar jökulminjar, í formi bylgjulaga garða, sem varla eiga sinn líka hérlendis og etv. hvergi á jörðinni, en virðast þó ekki hafa vakið verðskuldaða athygli, enda þótt fyrirhugað sé að kaffæra þær í "Eyjabakkalóni", ef til virkjunar kemur.

Þorvaldur Thoroddsen lýsir þessum öldum fyrstur manna í ferðabók sinni (III. bindi, bls. 276):

"Framan við hinar eiginlegu jökulöldur eru glögg merki þess, hve þrýstingurinn hefur verið afar mikill. Jarðvegurinn hefir fyrir þunga jökulsins vafist upp í hringstykki, bylgjumynduð, er fylgja jöklinum, og lækka jarðvegsbylgjurnar eftir því sem fjær dregur jökulröndinni. Næst [jöklinum] hefir svörðurinn vafist upp eins og risavaxnar pönnukökur, og er sandur og möl innan í. Þessir uppvöfðu jarðvegsdrönglar eru allir grasi vaxnir, og alls staðar er kafgresi í mitt læri af stör og rauðbreyskingi, alveg að jökulröndinni...."Í skýrslu Hjörleifs og Gísla Más (1977, bls. 15) er bætt við þessu til skýringar:
"Jökulgarðarnir austan Eyjafells eru um 10 metra á hæð, miðað við sléttuna norðan við, og mynda þeir þrjár hálfmánalaga svigður, sem mætast undir kröppu horni, og endurspeglast í jarðvegsmúgunum framan við. Todmann (1960) telur svigðurnar til komnar vegna klapparása eða ámóta hindrana í skriðfleti jökulsins, svipað og sjá má merki um suður af Eyjafelli. Ofan til á hraukunum eru þykkar fellingar, sumsstaðar rofnar af alldjúpum bollum, en þær smækka neðan til og renna smám saman út og saman við sléttuna. Todtmann taldi þannig um 20 bogamyndaðar öldur í jarðveginum á sléttunni, neðan við miðsvigðuna, milli Eyjafells og útfalls Jökulsár þar fyrir austan, og mátti aðeins merkja þær ystu af öðrum gróðri en óx á milli þeirra."

Í þessum hraukum skráði Hjörleifur 58 tegundir blómplantna, 15 mosategundir og 5 tegundir af fléttum. Áberandi var hvað gróðurinn í Hraukunum var mikið bitinn.
Heimildir: Todtmann, Emmy, 1960: Gletscherforschungen auf Island (Vatnajökull).- Universität Hamburg. Abhandl. auf dem Gebiet der Auslandskunde, 65 C, 19. (Þar er m.a. kort og langskurður af jökulgörðunum við Eyjafell / Tekið upp í skýrslu Hjörleifs o.fl. 1981, bls. 41).

Eyjafellsflói

"Eyjafellsflói er flatt og mjög blautt svæði austan og norðaustan við Eyjafell, og nær frá fellinu alveg að Jökulsá, sem fellur þar í meginál til norðurs. Eru þarna 700-1000 m á milli fellsins og árinnar, og til norðurs frá jökulgörðunum tekur flóinn yfir 1,5-2 km svæði, og er þannig allt að 1,5 km2 að flatarmáli. Í flóanum eru allmargar tjarnir og smávötn, einkum nálægt Jökulsá, og á nokkrum stöðum vottar fyrir gömlum vatnsrásum út frá jökulöldunum, en nú eru þær fylltar af gróðri...”

Norðan Eyjafellsflóa taka við sendnar og nær gróðurlausar leirur, á um 1,5 km löngu bili, nema hvað nokkrir sendnir hólar eru skammt frá farvegi Jökulsár, eins og hún féll á athugunartíma." (Hjörleifur og Gísli Már, 1977, bls. 16-17).

Eyjar (Þóriseyjar) eru grónir hólmar á flæðisléttunni suðaustan undir Snæfelli, innantil á Eyjabakkasvæðinu, á milli austustu og vestustu kvísla eða farvega Jökulsár, en sumir þessara hólma eru "landfastir" að jafnaði, aðskildir af aurum eða þurrum farvegum. Hjörleifi og Gísla taldist svo til, að aðaleyjarnar væru 13 að tölu, og er þá miðað við 500 m lengd eða meira. Allar þessar eyjar eru meira eða minna aflangar í straumstefnu Jökulsár. Eyjarnar eru algrónar, og mýrar og flóar eru megingróðurlendi þeirra, eins og vel sést á gróðurkorti í mkv. 1: 20 þús., sem gert var 1978. Að sumarlagi eru eyjarnar iðjagrænar yfirlitum. Dysjar hittast á eyjunum, en eru hvergi áberandi. Eyjarnar eru alsettar grunnum tjörnum, með blátæru vatni, sem stingur í stúf við ljósgráar jökulvatnskvíslar og jökullón og steingráa aura. Þessi litamóasaík og skörpu og vel afmörkuð andstæður í litum, gera Eyjarnar svo sérstæðar yfir að líta, að ekki verður til neins jafnað á Íslandi.

"Eyjarnar eru flestar því sem næst flatar, og rísa vart meira en 50-100 sm yfir árfarvegina í kring. Þó munu bakkar hærri á köflum, einkum á eyjunum nyrst á svæðinu, þar sem mikils áfoks gætir af leirum Jökulsár. Á eyju XIII [austan aðalkvíslar Jökulsár, utantil] eru dálitlir klettar eða holt, rösklega 5 m hærri en landið umhverfis." (Hjörl. og Gísli Már 1977, bls. 19).

Í mýrlendinu er hengistör oftast ríkjandi, gjarnan blönduð við hálmgresi eða fífur, en sumsstaðar er gulstararblendingur, einkum þar sem jökulvatn flæðir tímabundið yfir, og getur hann orðið töluvert gróskulegur og allt að fets hár. Á bökkum eru oftast þurrara land, jarðvegur sendinn, og eru þar oft grávíðiflesjur.

Tjarnir eru yfirleitt um eða undir 50 sm djúpar, oftast með fínum sandi eða leir í botni, en stundum grónar mosa, kransþörungum (Nitella) eða blómplöntum. Kringum þær er oft kragi af bleikstinnungi, sem hér kemur í stað tjarnastarar (hún fannst ekki á Eyjabakkasvæðinu 1977).

Kverk og Eyjabakkahnjúkar. Kverk nefnist afréttarstykki meðfram Eyjabakkajökli að austan ("Búkolla" II,7). Að suðaustan afmarkast það af nokkrum fellum og hnjúkum í norðurjaðri Vatnajökuls (Fljótsdalsjökuls), sem kallast Eyjabakkahnjúkar. Hjörleifur Guttormsson hefur gefið flestum þeirra nöfn. Tunguna eða ranann á milli Innri-Bergkvíslar og Kverkar kallar Hjörleifur Kverkrana.

*Í Eyjabakkahnjúkum og Kverkrana kemur víða fram líparít, bólstraberg og gjóskulög, sem benda til að þar hafi verið eldstöð á tertíertíma. Hún hefur verið kölluð "Eyjabakkaeldstöð". Hugsanlega er hún hluti af Snæfells-eldstöðinni. Þetta svæði hefur lítið verið kannað af jarðfræðingum, og er engar frekari heimildir að hafa um þessa eldstöð.

Snæfell og Snæfellshnjúkar

Snæfell er langhæsta fjallið á Snæfellsöræfum, 1833 m y.s, og var fyrrum talið hæsta fjall landsins. Það er eldfjall, tiltölulega ungt á mælikvarða jarðsögunnar, því talið er að grunnur þess sé aðeins um 400 þúsund ára gamall, og yngsta bergið um 10 þúsund ára. Meginstofn fjallsins hefur að líkindum myndast við gos undir jökli, því að víða í fjallinu er að finna gosmóberg, þ.e. ummyndaða basaltgjósku, en annars er berggerð fjallsins mjög fjölbreytt, og töluvert um ísúrt og súrt berg (líparít), sem vekur athygli vegna hins ljósa litar.

Snæfell er nánast umlukt af hnjúkum og hryggjum, sem eru allt að 20 talsins, og mynda hálfhring um það að sunnan, vestan og norðan. Hæð þessara hnjúka er yfirleitt á bilinu 900-1200 m y.s. Þeir eru flestir úr móbergi, þ.e. ummyndaðri basaltgjósku, og hafa myndast við eldgos undir jökli á Ísöldinni, á sama tíma og Snæfell sjálft, enda tilheyra þeir sömu eldstöð og fjallið. Sumir hnjúkanna eru þó úr ísúru bergi, sem komið hefur upp á hlýskeiðum Ísaldar.

"Fellin í kringum Snæfell sjálft eru með ýmsu móti. Þau bera öll fljótt á litið svipmót móbergsfjalla, sem orðið hafa til undir jökli, en hér er ekki allt sem sýnist. Sum þeirra eru örugglega orðin til á þurru landi, en önnur undir ís eða vatni." (Ármann og Páll 1998, bls. 27).

Hálskofi er suðaustan undir fjallinu. Ferðamannaskáli var byggður á svæðinu, vestan undir Snæfelli 1970, og liggur þangað sæmilega bílfær vegur. Norðaustan undir fjallinu eru búðir Orkustofnunar, og þangað er einnig bílaslóð.

Tillaga liggur fyrir um friðlýsingu þessa svæðis, ásamt landinu austan og vestan fellanna.

Heimildir: G(uttormur) Vigfússon: Ferð upp á Vatnajökul [á að vera Snæfell]. Norðanfari, 20 (1-2), 18. nóv. 1880; Halldór Stefánsson: Sagan af Snæfellsþjófunum. Eimreiðin 1949. Helgi Hallgrímsson: "Silfri krýnda Héraðsdís" (Um Snæfell í þjóðtrú og skáldskap). Austri, jólablað 1991; Helgi Hallgrímsson: Fjallgöngur á Snæfell fyrr á tíð.- Jökull 42, 1992, 65-72. Inga Rósa Þórðardóttir: Snæfell (Náttúruperlur á Austurlandi). Snæfell 13 (2): 21-23. 1993. Jennings, J.N.: Snaefell, East Iceland. - Journal of Glaciology 1952, Vol. 2 (12): 133-137; Sigurður Thorarinsson: On the Age of the Terminal Moraines of Brúarjökull and Hálsajökull.- Jökull 14, 1964: 67-75. Auk þessa eru til allnokkrar frásagnir af fjallgöngum á Snæfell, sem ekki eru skráðar hér.

Snæfell er drottning austfirskra fjalla og eitt hæsta fjall landsins, 1833 m. y.s., snævi krýnt allt árið og með nokkrum skriðjöklum. Það er eldfjall að uppruna, og tiltölulega ungt, miðað við næsta umhverfi (sjá inngangskafla).

"Það er að ytri ásýnd sambland af eldhrygg og eldkeilu, með hnjúkaröðum beggja vegna, til suðurs og norðurs. Hins vegar tengist Snæfelli ekki eiginlegur sprungusveimur, og um það hefur ekki orðið teljandi gliðnun, og gildir hið sama um frægasta nútímaeldfjall landsins, Heklu. Skýringin er sú að Snæfell hefur myndast á svokölluðu hliðarbelti, utan við aðalgosbelti landsins. Þar er það í góðum félagsskap, nyrst megineldstöðva, sem liggja í röð suðvestur um Vatnajökul [....] Þannig er undirstaðan, sem Snæfell hvílir á, mynduð fyrir um 2 milljónum ára, en fjallið hefur líklega hlaðist upp á síðasta eða næstsíðasta jökulskeiði, fyrir um 100-200 þúsund árum. Snæfell hefur hins vegar ekki gosið á sögulegum tíma, og sennilega ekki eftir að jökla leysti. Er almennt litið á það sem kulnaða eldstöð, þótt engan veginn sé það ótvírætt, þar eð mörg þúsund ár og jafnvel tugir árþúsunda geta liðið á milli gosa." (Hjörleifur Guttormsson: Norð-Austurland (1987), bls. 25).

Sama skoðun kemur fram hjá Ármanni Höskuldssyni og Páli Imsland (1998), en þeir rita m.a.:
" Snæfell er virkt eldfjall, eitt hið stærsta á íslandi. Það hefur ekki gosið á sögulegum tíma, en yngstu gos þar eru frá lokum jökultíma á hálendinu, eða eitthvað síðar."

Þeir gera ráð fyrir að í framtíðinni muni Snæfells-Öræfajökuls-gosbeltið, færast til norðvesturs yfir kvikuuppstreymið ("heita reitinn") sem nú er undir vestanverðum Vatnajökli, og nýtt landreksgosbelti muni myndast þar sem þetta gosbelti er nú. Því megi búast við aukinni gosvirkni í Snæfelli og nágrenni þegar fram líða stundir.

Snæfell er að mestu leyti úr basalti, sem er ýmislega blandað við líparít, móberg og gjallberg, svo úr verður hin furðulegasta samryskja, sem vel kemur fram í björgunum ofan við jökulskálina í NA-öxl fjallsins, sem Fljótsdælingar skírðu Sótavistir árið 1880. Þar gnæfir blágrár líparítnaggur á suðurbrún, sem Oddur Sigurðsson nefnir Hall. Sigurður Þórarinsson (1964) nefndi skriðjökul þennan "Hálsajökul" (eftir Snæfellshálsi?), en réttara er að kalla hann "Sótajökul". Neðri hluti hans er þakinn af þykkri grjóturð, og neðan við hann eru risasteinar úr dökku gjallbergi á víð og dreif, þar á meðal drangur mikill sem kallast Sóti.

Norðvestan í fjallsbrún er öxl með um 100-150 m háum og dökkbrýndum þverhnípishömrum að norðanverðu, sem farið er að kalla Hamar, og fyrir utan hann eru tveir samvaxnir skriðjöklar, sem ég hef kallað "Tvíburajökla", en Hjörleifur kallar Grjótárjökla, því að þar eru upptök Gjótár. Gengur annar þeirra (sá syðri) ofan af háfjallinu í ferlega sprungnum jökulfossi, en sá ytri kemur úr jökulbotni, eins og Sótajökull. Á milli þeirra er mjór líparítrimi, og hafa þeir borið fram firna mikla urðarhóla, sem þekja þá alveg neðantil.

Vestan í fjallinu er nafnlaus tindur (um 1320 m), upp af Snæfellsskála, sem kalla má "Skálatind", og á suðvesturöxl fjallsins er annar álíka hár (um 1350 m) tindur, sem sumir kalla Litla-Snæfell, á milli þeirra er nafnlaus skriðjökull, sem nær upp á fjallsbrún, og Hjörleifur kallar Axlarjökul (H.G., 1998). Með hliðsjón af því mætti kalla tindinn "Axlartind", og dalverpið milli þeirra, niður af jöklinum, "Axlardal". (Páll Imsland leggur til að kalla jökulinn Sauðárjökul, því að undan honum kemur ein af upptakakvíslum Sauðár).

Auðvelt er að ganga á Snæfell um þessa SV-öxl, öðru hvoru megin við Axlartind, en nú er vanalega farið upp líparíthrygg (Uppgönguhrygg), sem er austanvert við öxlina, í Þjófadölum, sem fyrr getur, og hefur sú leið verið merkt með stikum. Þegar farið er frá Snæfellsskála, þarf þá að krækja suður fyrir öxlina. Framan af sumri er líka allgóð gönguleið upp langa og jafnt hallandi jökulfönn og melahryggi norðan í fjallinu, og var sú leið oftast farin áður en Snæfellsskáli kom. Þriðja leiðin upp á Snæfell er af Snæfellshálsi upp SA-öxl fjallsins, og mun hún vera auðveldust og brattaminnst, enda hefur þar verið farið með hesta upp á fjallið.

* Snæfell er á einhvern hátt heilagt í hugum Héraðsbúa, enda gnæfir það eins og voldugur vörður yfir byggðinni. Það hefur lítið verið rannsakað, nema helst skriðjöklarnir, en um þá hafa birst tvær ritgerðir. Jarðfræðingarnir Páll Imsland og Ármann Höskuldsson hafa þó verið að athuga jarðsögu og berglagabyggingu fjallsins undanfarin ár, og hafa nýlega ritað um það efni í tímaritið Gletting.

Þjófahnjúkar og Þjófadalir. Hnjúkarnir sunnan eða suðvestan Snæfells kallast Þjófahnjúkar einu nafni, en nokkrir þeirra hafa líka sérnöfn. Þannig er syðsti hnjúkurinn nefndur Litla-Snæfell (1160 m) og gekk Þorvaldur Thoroddsen á hann 1894, og Bjálfafell er lágur hnjúkur samvaxinn því að suðvestan. Ketilhnjúkur (1160 m) er næst fyrir norðan Litla-Snæfell, og Mosdalur milli þeirra. Langihnjúkur (1006 m) er norðan við Ketilhnjúk, en Fitjahnjúkur (1008 m) er vestur af Ketilhnjúk, aðskilinn frá hinum, enda yfirleitt ekki talinn til Þjófahnjúka. Hæstur Þjófahnjúka er hrygglaga hnjúkur (1230 m y.s.), austanvert við Ketilhnjúk, sem nefna mætti "Þjófahrygg", og austan við hann eru tveir stakir hnjúkar, nafnlausir.

Milli Þjófahryggs og suðvesturhnjúka Snæfells er djúpt skarð eða dalverpi, með stórgrýttum botni, sem oft er kallað Þjófadalur (eða Þjófabæli?), og opnast það austur í víða, hálfhringlaga kvos sunnan undir Snæfelli, sem er umlukt hnjúkum og hryggjum á alla vegu, og heitir Þjófadalur eða Þjófadalir. Er þar mjög einkennilegt um að litast, og gæti hafa verið hentugur staður fyrir útilegumenn, eins og nafnið bendir til, meðan dalbotninn var gróinn, en nú eru þar gróðurvana sandar, býsna litskrúðugir, vegna framburðar á líparítmöl úr Snæfelli. Um sandinn kvíslast fjöldi lækja, með mosagrónum bökkum, frá fjallinu og hjúkunum, og koma þeir saman í víðu skarði sem liggur austur úr dalnum, og mynda þar Þjófagilsá, sem fellur í klettagili (Þjófagili) niður á Þjófagilsflóa, áðurnefndan á Eyjabökkum. Norðan við Skarðið er Snæfellsháls (um 1000 m y.s.), sem gengur suður úr SA-horni Snæfells.

Norðvestanvert í Þjófadal gengur líparíthryggur, áberandi bleikur, suður úr Snæfelli, og nær hann langleiðina upp á SV-öxl fjallsins. Eftir honum er nú oftast farið, þegar gengið er á fjallið, og má hann því kallast "Uppgönguhryggur". Við neðri enda hans er ljósbleikur kollur, sem Ármann og Páll kalla "Bjart".

Nálhúshnjúkar og Hafursfell eru langmest áberandi af hnjúkunum norðan Snæfells, báðir yfir 1000 m háir. Þeir eru úr móbergi, og á Nálhúshnjúkum hefur það veðrast út í furðulega dranga og snaga, er munu vera tilefni nafnsins. Á milli þesssara fella er Sandfell, álíka hátt, við rætur Snæfells að norðan, og milli þess og Hafursfells er Sanddalur. Norður úr honum gengur Sandgil (eða Sauðadrag), með fallegum bergmyndunum og dálitlum fossi í gilinu, sem stundum er þurrt.

Sauðafell og Laugafell (fyrrnefnt) eru útverðir hnjúkanna í norðri. Gangnasvæðið austan við öll þessi fell er kallað "Undir Fellum", en gangnasvæðið vestan með þeim kallast "Sandar".
Bílfær slóð liggur af veginum við Laugará inn með Sandgili og inn í gegnum Sanddal, og niður á Hafursárufs á Eyjabökkum

Sandar og "Vesturhnjúkar" Vestan Snæfells er röð af kollóttum móbergshnjúkum og hryggjum, með NNA-lægri stefnu, sem kalla má einu nafni "Vesturhnjúka". Syðst og vestast eru Sauðahnjúkar tveir, samvaxnir, aðskildir af Sauðaklauf (1004 og 1060 m y.s.). Af vestari hnjúknum er frábært útsýni yfir Vesturöræfi. Norður af Sauðahnjúkum eru "Miðhnjúkur" (Langihnjúkur / 900 m) og Grjótárhnjúkur, sem er bátlaga hryggur (um 1000 m). Í næstu röð eru Fitjahnjúkur (1008 m) syðst, fallega keilulagaður, "Langihnjúkur" (1006 m), "Tíutíu" (1010 m) og Grábergshnjúkar (1001 og 1050 m).

Síðari röðin er ekki eins regluleg. Austan við hana eru svo Þjófahnjúkar, Snæfell og Nálhúshnjúkar, sem fyrr var getið. Milli Vesturhnjúka og Snæfells-Þjófahnjúka eru flatir og gróðurlitlir aurar og melar, sem ótal smákvíslar Grjótár (Grjótlækir) og Sauðár liðast um, milli mosavaxinna bakka. Þetta svæði heitir Sandar. Það er á afréttamörkum, og var oftast smalað með austursvæðinu, "Undir Fellum".

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs byggði gistiskála á vatnaskilum ánna á Söndum, vestan undir brattri hlíð "Skálatinds" Snæfells, í um 900 m h. y. s. Hefur hann síðan verið stækkaður nokkrum sinnum, og tekur nú 50-60 manns í gistingu. Auk þess er sæmilegt tjaldstæði við skálann og lítið bað og snyrtihús. Hann kallast Snæfellsskáli. Þar eru veðurathuganir á sumrin. Þangað er sæmilega bílfært utan af Fljótsdalsheiðarvegi, og jeppaslóð áfram inn með Þjófahnjúkum og upp að jaðri Eyjabakkajökuls. Önnur slóð liggur vestur á Sauðahnjúka frá skálanum.


Uppkast ritað í júlí 1999, að hluta tekið inn í Náttúrumæraskrá Héraðs, 2000. Eyjabakkar teknir inn í grein um þá í Glettingi (Snæfellsblaði), 8(2-3), 1998.

 

Heiðveig Agnes Helgadóttir