Skip to main content
16 February, 2022
# Topics

Vísindafélag Norðlendinga fimmtugt

16 February, 2022

 

"Þá get ég ekki stillt mig um að geta þess, að í des. s.l. var stofnað á Akureyri Vísindafélag Norðlendinga, og eru félagsmenn um 8 eða 10 talsins, flestir þeirra búsettir á Akureyri. Þessi hópur á það sameiginlegt að stunda ýmis vísindastörf. Aðalmarkmið félagsins er að stuðla að auknum vísindalegum rannsóknum og öðrum lærdómsiðkunum á félagssvæðinu, sem er Norðlendingafjórðungur, m.a. með því að beita sér fyrir sérstökum rannsóknum, vinna að eflingu vísindastofnana, stuðla að útgáfu vísindarita og koma af stað fundum og umræðum um vísindaleg efni.
Herra forseti. Ég skal nú brátt láta staðar numið. Af því, sem ég hef sagt, mætti ljóst verða, að þegar er fyrir hendi á Akureyri umtalsverður vísir að fræða--- og vísindastarfsemi. Sumum kann að þykja sá vísir mjór, og hann er það, ef miða á við þann vöxtulega gróður, sem rækta mætti, ef markvisst og skipulega væri unnið að eflingu rannsókna--- og vísindastarfs á Akureyri, en mjór er mikils vísir, segir máltækið.
Það hefði verið ástæða til að minnast á fleiri þætti menningarlífs, sem eru í mótun hjá okkur Akureyringum, m. a. hefði mátt minnast á leiklistarstarfsemina og þær hugmyndir, sem fram hafa komið um eflingu hennar. Að þessu sinni mun ég þó ekki gera því máli skil, en grunur minn er sá, að fyrr eða síðar komi það mál meira til umr."

Úr ræðu Ingvars Gíslasonar á alþingi 22. febrúar 1972 um mennta og vísindastofnanir utan höfuðborgarinnar

 

Vísindafélag Norðlendinga 

Drög að sögu þess eftir tiltækum heimildum
H. Hall. tók saman (2020)


Veturinn 1968-69 varð til á Akureyri óformlegt félag sem ýmist var kallað Félag lærðra manna (skst. F.L.M.) eða Vísindafélagið. Það mun hafa byrjað í hálfgerðu glensi milli okkar Guðmundar Páls Ólafssonar, fyrri part vetrar, en við vorum þá kennarar við Menntaskólann á Akureyri (M.A.), hann fastráðinn með fulla kennslu, en ég lausráðinn í hálfu starfi. Þetta var síðasta kennsluár mitt, en fyrra kennsluár Guðmundar af tveimur við skólann.

Ég hafði fengist við margskonar náttúrugrúsk allt frá unglingsárum, stúdent úr M. A. 1955, lærði líffræði í Göttingen í Þýskalandi, og kenndi við skólann frá hausti 1959, aðallega efnafræði. Forstöðumaður Náttúrugripasafnsins á Akureyri frá 1964, sem var nú var hálft starf, búsettur á Víkurbakka, Árskógsströnd. Guðmundur var nýlega kominn frá námi búvísindum í Ohio í Bandaríkjunum, með nýstárlegar hugmyndir um nám og kennslu. Hann fór í framhaldsnám í líffræði í Svíþjóð sumarið 1970, og varð síðan mikilvirkur höfundur fræðibóka og skeleggur baráttumaður fyrir verndun náttúrunnar, dó 2012. Við kynntumst þennan vetur og fundum að skoðanir okkar fóru saman, hvað varðar kennslu í náttúrufræði og kynningu á náttúrunni.

Þórarinn Björnsson skólameistari andaðist í janúar 1968, þá tók Steindór Steindórsson við stöðu hans um vorið, og gegndi henni til 1972, er Tryggvi Gíslason tók við. Sama vor gerðist það, að Kristján Eldjárn þjóðminjavörður, frá Tjörn í Svarfaðardal var kosinn Forseti Íslands, og gegndi þeirri stöðu til 1980. Víða í Evrópu og Norður-Ameríku voru stúdentaóeirðir, jafnvel svo miklar að loka varð háskólum. Upp úr þeim spratt „68-kynslóðin“, sem þótti róttæk og oft er til vitnað.

Á sama tíma var Þórir Sigurðsson kennari í eðlis- og stærðfræðigreinum (1963-71 og frá 1977). Hann hafði lært stjörnu-, stærð- og eðlisfræði í Stokkhólmi, og kynnt sér sögu náttúruvísinda, m.a. mælingar Odda Helgasonar (Stjörnu-Odda) á 12. öld, og hélt síðan upp merki hans og minningu. Við höfðum farið nokkrar ferðir til náttúruskoðunar saman, m. a. á Flateyjarskaga 1964-65, þar sem Oddi hafði e.t.v. dvalið. (H. Hall.: Ferðaþættir af Flateyjardal, 1967).

Jóhannes Sigvaldason kenndi búfræði og efnafræði (1965-72 og 1976-77), og var framkvæmdastjóri Ræktunarfélags Norðurlands, sem var að koma á fót efnarannsóknastofu á Akureyri. Hann var úr Svarfaðardal og hafði lært búvísindi í Kaupmannahöfn.

Hörður Kristinsson hafði numið líffræði í Göttingen eins og ég, og þar vorum við nokkur ár samtíða. Hann átti heima á Arnarhóli í nágrenni Akureyrar, hafði kennt nokkra vetur í M.A., en snúið sér nú að flétturannsóknum. Við höfðum ferðast allmikið saman, unnið við plöntusöfnun og rannsóknir og stofnað tímaritið Flóru 1963.

Þórarinn Lárusson hafði lært fóðurfræði í Dakota, U.S.A, var kennari við M. A. 1969-72, og vann hjá Ræktunarfélaginu. Loks kom Bjarni Eyjólfur Guðleifsson, doktor í búvísindum frá Ási í Noregi, og tók við forstöðu Tilraunastöðvar á Akureyri 1971, síðar á Möðruvöllum, og byggði þar upp aðstöðu fyrir rannsóknir á kuldaþoli plantna. Hann var kennari við M.A. 1975-78.

Þetta var sá kjarni er stóð að stofnun Vísindafélagsins. Við vorum á svipuðum aldri, en af ýmsum uppruna, með margvíslega menntun úr háskólum í grannlöndum Evrópu og Ameríku, sem öll teldist vera á sviði raunvísinda. Við höfðum kynnst náttúrurannsóknum og höfðum hug á að láta til okkar taka á þeim sviðum til gagns fyrir land og þjóð. Síðar komu fulltrúar hugvísinda í félagið og tóku virkan þátt í störfum þess, svo sem Tryggvi Gíslason skólameistari M.A. Frá sjónarmiði nútímans er athyglisvert að engin kona var starfandi í félaginu, en fáeinar urðu félagar undir lokin.

Lýsandi fyrirmynd höfðum við í fræðastörfum kennara við Möðruvallaskóla, Gagnfræðaskólann og síðar Menntaskólann á Akureyri, sem rekja má allt til upphafs hans 1880, og þá ekki síst þeirra Stefáns og Steindórs grasafræðinga. Þó held ég megi segja að við höfum tekið vísindin með hæfilegri blöndu af gamni og alvöru og lengi eimdi eftir af gamanmálum á fundum félagsins.

Ný vísindagrein, ökologia (ecology), sem nefnd var vistfræði á Íslensku, var komin fram, og hlaut fyrstu kynningu í tímaritinu Týli, sem stofnað var 1971, gefið út af Náttúrugripasafninu og Bókaforlagi Odds Björnssonar. Vistfræðileg sýn á náttúruna var að ryðja sér til rúms, og ný hreyfing náttúruverndar fór um Vesturlönd. Við félagarnir hrifumst með af þessari nýbylgju. Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN) voru stofnuð 1969, og síðan spruttu upp samsvarandi félög í öðrum landshlutum og mynduðu Samband íslenskra náttúruverndarfélaga.

Náttúrugripasafnið á Akureyri hafði haslað sér völl á viði náttúrurannsókna á Norðurlandi. Á sama tíma vorum við Guðmundur Páll og Jóhannes að undirbúa stofnun rannsóknastöðvar á Árskógsströnd, í félagi við Svein Jónsson bónda í Kálfskinni, sem hlaut nafnið Katla, og ætlað var að styðja þessa nýju stefnu, með því að veita aðstöðu til vistfræðilegra rannsókna, eða standa fyrir þeim. Augljós vöntun var á þekkingu á ýmsum sviðum, svo sem á lífríki vatns og moldar.

Náttúrurannsóknir voru meginviðfangsefni félagsins fyrstu árin. Rannsóknir á jarðvegslífi urðu fyrsta verkefni þess og stöðvarinnar. Það tengdist störfum Jóhannesar og Þórarins fyrir Ræktunarfélagið og rannsóknastofu þess. Síðar kom félagið að skipulagi mýrarannsókna. Eftir 1975 snerist félagsstarfið nær eingöngu um fyrirlestrahald.

Félag lærðra manna 1969-1970

Í febrúar 1969 færðist alvara í starfsemi Félags lærðra manna. Voru þá haldnir vikulegir fundir í Náttúrugripasafninu, er snerust um áætlun varðandi rannsóknir á jarðvegslífi, og umsókn um styrk til Vísindasjóðs Íslands, skv. fundargerðum sem Jóhannes ritaði. Þann 5. mars var félagsfundur á skrifstofu Jóhannesar í húsi Ræktunarfélags Norðurlands, í Gróðrarstöðinni á Akureyri. „Mesta athygli vakti skrifborð tilraunastjóra, fornt mjög.“ 27. mars var fundur í Safninu, rætt um flæðiengi og náttúruvernd.

Þann 15. maí var fundur á Víkurbakka, rætt um rannsóknir og rannsóknastofnanir á Norðurlandi, og samvinnu þeirra og hugsanlega sameiningu, en þó fyrst og fremst um fyrirhugaða rannsóknastöð í Ytri-Vík. Fram kom tillaga um 5-manna stjórn hennar, og loks var hús hennar skoðað. („H. Hg. sá um veitingar og G.P.Ó. skenkti koníak“. )

Á fundi í Safninu 16. nóv. 1969 lagði ég fram eftirfarandi tillögu að reglum fyrir félagið. Þær voru sniðnar að reglugerð Vísindafélags Íslendinga, sem stofnað var í Reykjavík 1918, að frumkvæði Ágústs H. Bjarnasonar og Sigurðar Nordal, sem báðir voru kennarar við Háskóla Íslands, og hafði starfað síðan. Í því voru nokkrir fyrrverandi kennarar M.A. og Steindór þáverandi kennari.

LÆRÐA FÉLAGIÐ (Félag lærðra manna)
(Vísindafélag Norðlendinga / Societas scientiarum borealis Islandica)

Markmið félagsins er að stuðla að auknum lærdómi og vísindalegum störfum í fjórðungi Norðlendinga.

Félagið er lokað, og mega félagsmenn ekki vera fleiri en 12.

Þeir sem óska inngöngu í félagið skulu senda um það skriflega umsókn til forseta þess, þar sem þeir skulu greina frá lærdómi sínum og vísindalegum störfum.

Félagið heldur árlegan aðalfund í nóv. eða des. Þar skal kynna vísindastörf félagsmanna, sem unnin hafa verið á árinu, og framtíðarverkefni þeirra.

Aukafundi skal halda eigi sjaldnar en mánaðarlega yfir vetrartímann. Þar skulu rædd þau málefni, sem félagið telur sér viðkomandi, skv. ofangreindu markmiði þess.

Félagið getur beitt sér fyrir og skipulagt ný rannsóknaverkefni, sem unnin eru af félagsmönnum eða öðrum í fjórðungnum.

Stjórn (tillaga): Heiðursforseti: Ólafur Jónsson , fv. ráðunautur. Forseti: Helgi Hallgrímsson safnvörður. Varaforseti: Þórir Sigurðsson kennari. Ritari og gjaldkeri: Jóhannes Sigvaldason. Vararitari: Guðmundur Páll Ólafsson.

Svo er að skilja að þessi tillaga hafi verið samþykkt, og síðan hafa þessar reglur gilt fyrir Vísindafélag Norðlendinga í meginatriðum.

Á fyrsta fundi F.L.M. 1970, 21. jan., var ákveðið að sækja aftur um styrk úr Vísindasjóði til rannsókna á jarðvegslífi, í samvinnu við Náttúrugripasafnið og Ræktunarfélagið. Fyrir þann styrk var Elín Gunnlaugsdóttir líffr. frá Hofi ráðin í vinnu við rannsóknina um sumarið.

Á öðrum fundi, 8. febrúar 1970 var Jóhann Sigurjónsson jarðeðlisfræðingur, sem ráðinn var kennari við M.A. 1969, tekinn í félagið, með þeim skilyrðum sem lög þess mæltu fyrir. Jóhann kynnti rannsóknir sínar og Helga Björnssonar jöklafræðings á Bægisárjökli, sem fram fóru 1967-1968, og kandidatsritgerð sína um það efni við Oslóarháskóla. Það var einskonar doktorsvörn, því að tveir „andmælendur“ á fundinum gagnrýndu verkefnið. Næstu árin var það endurtekið í einfaldara formi við inntöku í V. N., en um 1980 alveg hætt og prófgráður þá látnar gilda.

Rannsóknir á jarðvegslífi á vegum FLM 1969-1970 fóru að mestu fram í rannsóknastöðinni Kötlu á Árskógsströnd, og töldust því hluti af starfsemi hennar (Sbr. Ársskýrslur Kötlu, fjölrit). Guðmundur Páll smíðaði tæki til að flæma smádýr úr moldarsýnum, og styrkur fékkst úr Vísindasjóði til að ráða Elínu Gunnlaugsdóttur til að annast flokkun og talningu smádýra úr þeim. Við Jóhannes rituðum nokkrar greinar um þessar rannsóknir í Ársrit Ræktunarfélagsins 1969-74, þar á meðal yfirlitsgrein: „Lífið í jarðveginum“, sem var sérprentuð, Ak. 1970 (40 bls.). Síðar hélt Bjarni E. Guðleifsson áfram að rannsaka jarðvegslíf á Möðruvöllum. Þessar rannsóknir voru nýjung á sínum tíma. Eftir 1970 stóð félagið ekki að rannsóknum, en félagar þess stunduðu flestir einhverjar rannsóknir eða fræði innan sinna stofnana eða á eigin spýtur.

Tunglsýning: Í júlí 1969 skeði sá heimssögulegi atburður að menn stigu fæti á Tunglið. Af því tilefni efndi Náttúrugripasafnið til tunglsýningar í febr. 1970, og fékk m.a. lánaðan tunglstein. Þórir Sigurðsson var drifkraftur þessarar sýningar, sem tileinkuð var „fyrsta norðlenska náttúrufræðingnum, einum fremsta stjörnuspekingi Norðurálfu á 12. öld, rímsnillingnum Odda Helgasyni frá Múla í Aðaldal, er kallaður var Stjörnu-Oddi.“

Í júní var endanlega gengið frá stofnun Náttúrverndarsamtaka á Norðurlandi (SUNN), og hafist handa um rannsókn á lífríki Mývatns og Laxár í Þingeyjarsýslu, vegna fyrirhugaðrar stórvirkjunar. Það var samvinnuverkefni náttúrugripasafnanna á Akureyri og í Neskaupstað o.fl. stofnana, sem stóð um mánaðartíma.

Vísindafélag Norðlendinga

Það er nokkrum vafa undirorpið hvenær Vísindafélag Norðlendinga var stofnað. Áætlað var að stofna það á fullveldisdaginn 1. des. 1970, upp úr Félagi lærðra manna, en af einhverjum ástæðum heppnaðist það ekki.

Þriðjudag 1. des. 1970 hef ég ritað í dagbók mína

„Kl. 2,30 hófst aðalfundur Félags lærðra manna (FLM) og stofnfundur Vísindafélagsins. Stóð til kl. 6 sd., með stuttu kaffihléi. Hörður [Kristinsson] var tekinn inn. Samþykkt lög o. fl. Ákveðið að efna til framhaldsaðalfundar sunnud. 15. des. Norðan rok og allmikill skafrenningur síðdegis.“

Fundargerð hefur ekki komið í leitir. Daginn eftir „skrifaði ég upp lög Vísindafélagins“, segir í dagbókinni. Lögin hafa geymst frá næsta fundi 1971. Fundurinn sem átti að vera 15. des. hefur fallið niður, a.m.k. er hans ekki getið í dagbókinni, og engin fundargerð hefur geymst. Í yfirliti ársins frá 30. des. 1970 er ritað: „Þá var stofnaður vísir að Vísindafélagi á Akureyri þann 1. des., en eftir er þó að ganga betur frá því.“ Óljóst er hversvegna ekki tókst að ganga frá stofnun félagsins á fundinum 1. des. 1970, eða hversvegna framhaldsstofnfundur fórst fyrir.

Árið 1971 var ritari önnum kafinn við undirbúning Rannsóknastöðvarinnar Kötlu á Árskógsströnd, sem var formlega opnuð 18. júlí, unnið var áfram við rannsóknir á vatnalífi og hafnar rannsóknir á mengun í Akureyrarpolli, á vegum Náttúrugripasafnsins, þær fyrstu af því tagi hérlendis. Um vorið hóf tímaritið Týli göngu sína, gefið út af safninu í félagi við Bókaforlag Odds Björnssonar, og entist til 1985. Félagsstarfið sat því á hakanum.

Þann 1. des. 1971 var loks haldinn framhaldsstofnfundur V. N. Til er vélr. dagskrá þess fundar og drög að handskrifaðri fundargerð á sama blaði, sem er ritað hér á eftir:

F.L.M. Aðalfundur Vísindafélags Norðlendinga, haldinn á Varðborg 1. des. 1971.

Dagskrá: 1. Kaffi með pönnukökum; 2. Inntaka nýrra félaga (Bjarna E. Guðleifssonar og Þórarins Lárussonar); 3. Lagafrumvarp (sem láðist að samþykkja í fyrra); 4. Greinargerð forseta um rannsóknir o.fl.; 5. Umræður um framtíðarverkefni; 6. Önnur mál.

Fundargerð: 2) Bjarni Guðleifsson skýrði frá kalrannsóknum. Þórarinn Lárusson skýrði frá sínu námi. Þeir síðan teknir í félagið. 3) Lagafrumvarp athugað, og 4. grein breytt lítillega, auk þess sem nafn félagsins var ákveðið Vísindafélag Norðlendinga. [Þetta lagafrumvarp finnst ekki.] 4) Forseti skýrði frá vísindastarfi á Norðurlandi. Félagið formlega stofnað. Fleira ekki fyrir tekið, fundi slitið.

Utan dagskrár: Meðan ekki eru fleiri en sex menn í félaginu verði allir í stjórn, og allir boðaðir á alla fundi. Heiðursforsetar kjörnir 1. 12.1971: Ólafur Jónsson, Steindór Steindórsson, Kristján Eldjárn.

Síðan er skrá yfir „Stofnendur“: Helgi, Jóhannes, Hörður, Jóhann og Guðmundur Páll. Þórir Sigurðsson var líka einn af stofnendum, en var nú farinn í framhaldsnám til U.S.A. og Guðmundur var í Stokkhólmi haustið 1971. Af stofnendum hafa því aðeins verið 4 á fundinum, en með Bjarna og Þórarni voru fundarmenn sex.

Lög þessa nýstofnaða félags hafa geymst, dags. 1. des. 1971, en voru samin og lögð fram á fundinum 1. des. 1970. Þau voru í meginatriðum sniðin að reglum F.L.M., sem fyrr voru skráðar, en miklu ýtarlegri, eða í 8 greinum.

2. grein segir að „markmið félagsins sé að stuðla að auknum vísindalegum rannsóknum og öðrum lærdómsiðkunum á félagssvæðinu, m.a. með því að:
a) beita sér fyrir sérstökum vísindalegum rannsóknum,
b) vinna að eflingu vísindastofnana og annarra menntastofnana,
c) koma af stað umræðum og efna til funda um vísindaleg efni,
d) stuðla að útgáfu vísindarita,
e) hafa samband við skyld félög og stofnanir“.

3. grein segir að „félagar geta þeir orðið, sem unnið hafa sjálfstætt að vísindalegum rannsóknum, eða öðrum samsvarandi fræðilegum iðkunum, og ritað hafa a.m.k. eina fræðilega ritgerð, eða sýnt á annan hátt áhuga og hæfileika til vísindastarfa.“ Síðan er fjallað um skilyrði inntöku, sem eru nokkuð flókin, og hámarkstala félaga er orðin 24.

4. grein fjallar um bréffélaga, „sem vegna fjarlægrar búsetu eða annara orsaka geta ekki tekið fullan þátt í störfum félagsins.“ Þeim er heimil fundarseta en hafa ekki atkvæðisrétt.Tala þeirra er ekki takmörkuð.

Í 5. grein segir að stjórn félagsins „skuli skipuð þremur mönnum, forseta, varaforseta og ritara, sem jafnframt fer með fjármál félagsins“ auk þess einn varamaður. Þeir skulu kosnir á aðalfundi annaðhvert ár. „Heimilt er að kjósa allt að þrjá heiðursforseta, án embættisskyldu, og skulu þeir kosnir til lífstíðar, en þurfa ekki að vera reglulegir félagar.“ 7. grein segir að engin séu félagsgjöld, en heimilt að taka við gjöfum.

Þessi félagslög giltu í stórum dráttum með félagið starfaði, en var þó dálítið breytt 1975 og 1982, t.d. inntökuskilyrðum og stjórn.

Ég var áfram í hlutverki forseta. Daginn eftir „Skrifaði ég blöðum og útvarpi frétt um stofnun Vísindafélagsins, og sendi heiðursforsetum tilkynningar um útnefningu þeirra,“ segir í dagbók minni. [Fréttin hefur ekki fundist í blöðum.] Það fer því ekki á milli mála að ég hef litið á aðalfundinn 1. des. 1971 sem stofnfund V.N.

Heimildir eru stopular um starfsemi félagsins næstu árin, aðeins fáeinar ófullkomnar fundargerðir. (Dagbækur mínar vantar frá júlí 1972 til júlí 1982, hafa líklega ekki verið færðar).

Snemma árs 1972 var samin ályktun um eflingu rannsóknastofnana á Norðurlandi, en sú hefur ekki fundist. Á aðalfundi 11. des. 1972 var skipulag vísindastofnana á Norðurlandi og útgáfa vísindarita til umræðu. Þá voru þeir Bernharð Haraldsson, síðar skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, og Tryggvi Gíslason, nýráðinn skólameistari Menntaskólans á Akureyri, teknir í félagið. Gerðu þeir grein fyrir námi sínu og fræðastörfum. Kjör bréffélaga var á dagskrá, en ekki kemur fram hvort eða hverjir voru kosnir. Á framhaldsaðalfundi 4. janúar 1973 (1974?) var kosin stjórn: Helgi forseti, Hörður varaforseti, Jóhannes ritari og gjaldkeri, Jóhann varamaður.

Frá árinu 1973 eru engar fundargerðir, en þá hefur forseti líklega ritað Tillögur um verkefni V. N. í sex liðum, þar á meðal er útgáfa fréttabréfs og vísindarita, og að beita sér fyrir að Stjörnu-Odda verði reist minnismerki, ennfremur Tillögur um mýrarannsóknir.

Vísindarit: Vísindafélag Íslendinga hafði lengi staðið fyrir útgáfu fræðirita, sem heita Greinar og Rit Vísindafélags Íslendinga. Þar birtust ritgerðir Steindórs Steindórssonar og fleiri náttúrufræðinga af eyfirskum uppruna, sem voru í Vísindafélagi Norðlendinga. Það kom nokkrum sinnum til tals að hefja útgáfu slíkra rita, en af því varð ekki, enda tók Náttúrugripasafnið af því ómakið, með útgáfu Acta botanica islandica frá 1972, sem aðallega var ritað á ensku, og Fjölritum Náttúrugripasafnsins. Af þeim komu út 10 hefti á árunum 1971-1979, sem birtu niðurstöður rannnsókna á vegum þess. Tímaritin Flóra (1963-1968) og Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands birtu einnig fræðilegar ritgerðir félaga V.N. Það fyrra var gefið út af Safninu. (Bjarni Guðleifsson safnaði drögum að skrá um vísindalegar ritgerðir félaga V.N. og fleiri fræðimanna í Eyjafirði, sem er í vörslu Brynhildar dóttur hans á Hrafnagili).

Mýrarannsóknir voru mikið á döfinni hjá Vísindafélagi Norðlendinga 1973-1974, í tengslum við vaxandi áhuga á náttúruvernd. Það beitti hann sér fyrir myndun Samstarfsnefndar um mýrarannsóknir (SUM) 1974. Í minnisblaði um nefndina snemma árs 1974 er ritað:

Aðalfundur Vísindafélags Norðlendinga 1973, haldinn á Akureyri 4. jan. 1974, gerði eftirfarandi samþykkt: „Félagið beiti sér fyrir því, að hafnar verði rannsóknir á mýrum landsins, í sambandi við verndun þeirra og nýtingu, og felur stjórn félagsins að koma á samstarfsnefnd um það mál.“

Á stjórnarfundi 2. mars 1974 var samþykkt að leita til eftirfarandi manna um setu í nefndinni: 1. Arnþórs Garðarssonar, Hafnarfirði; 2. Hjörleifs Guttormssonar, Neskaupstað; 3. Magnúsar Óskarssonar, Hvanneyri; 4. Matthíasar Eggertssonar, Hólum; 5. Óttars Geirssonar, Reykjavík; 6. Stefáns Bergmanns, Laugarvatni. Af hálfu félagsins voru þessir skipaðir í nefndina: 7. Bjarni E. Guðleifsson, Akureyri; 8. Helgi Hallgrímsson, Víkurbakka; 9. Hörður Kristinsson, Akureyri; 10. Jóhannes Sigvaldason, Akureyri.

Samkvæmt boðsbréfi V.N., dags. 2. 3. 74, skyldi verkefni nefndarinnar vera eftirfarandi:

a) Að leita eftir tillögum um einstök rannsóknarverkefni og framkvæmd þeirra, og semja áætlun um rannsóknirnar. b) Að leita til rannsóknastofnana og einstaklinga um að taka að sér rannsóknaverkefnin.
Einnig kom til greina að nefndin útvegaði fjármagn til rannsóknanna og sæi að einhverju leyti um útgáfu á niðurstöðum (sbr. Surtseyjarfélagið), en frá því var horfið að athuguðu máli.

Nefndin komst á fót og hélt bráðabirgðafund í Náttúrugripasafninu á Ak. 4. apríl 1974. Þar var rætt um starfstilhögun nefndarinnar, könnun á óframræstu mýrlendi og möguleika á beinum rannsóknum. Í framhaldi ritaði forseti Tillögur um mýrarannsóknir og starfsemi mýranefndar (dags. 2. maí 1974).

Fyrsti formlegi fundur mýranefndar var haldinn í Bændaskólanum á Hvanneyri 5. maí 1974. Átta nefndarmenn voru mættir, auk þess þrír gestir, kennarar á Hvanneyri. Helgi setti fundinn og lagði fram fyrrnefnar tillögur. Magnús Óskarsson var fundarstjóri, Stefán Bergmann ritari, og samdi hann 3 bls. fundargerð. Rætt var almennt um mýrarannsóknir og hlutverk nefndarinnar, síðan sérstaklega um heimildasöfnun, beinar rannsóknir og fjármögnun. Að lokum var skipuð „stjórnunarnefnd“, með Helga, Herði og Jóhannesi, en Magnús og Óttar varamenn.

Ekki finnast heimildir um fleiri fundi í nefndinni, en í framhaldi fór fram yfirlitskönnun á mýrlendi, aðallega flæðimýrum, í ýmsum hlutum landsins, sem skilaði sér í erindum og greinum, m.a. í tímaritinu Týli, og í bókinni Votlendi, sem Landvernd gaf út 1975 (238 bls). Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN), og náttúruverndarsamtök annara landshluta tóku verkefnið upp, enda átti það þar betur heima.

Á fundi 4. jan. 1974 var Gauti Arnþórsson tekinn í félagið. Hann hafði lært í Rvík, Sundsvall og Uppsala í Svíþjóð, og var nú orðinn yfirlæknir við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Hann kom síðar að uppbyggingu hjúkrunardeildar Háskólans á Akureyri.

Þann 1. febr. 1975 var sögulegur fundur í félaginu um hlutverk vísinda og stöðu þeirra í nútíma þjóðfélagi. Til eru drög að erindi forseta fyrir þennan fund (um 10 vélr. bls.), þar sem hagnýting vísinda og misnotkun er gagnrýnd, svo og oftrú á vísindi, og einangrun vísindamanna. Í lokin eru helstu umræðuefni reifuð, og segir þar um Vísindafélag Norðlendinga og hlutverk þess:

„Félagið á ekki aðeins að vera klúbbur þeirra sem lokið hafa háskólagráðum með sæmilegum árangri. Ekki má láta þar við sitja. Það á að örva félaga sína og aðra til áframhaldandi rannsóknastarfs, og skapa þeim möguleika til þess.“

Til er uppskrift af lögum V. N. „samþykkt á aðalfundi félagsins 13. des. 1975“. Þar hefur 6. grein verið breytt þannig: „á hverju ári gengur einn maður úr stjórn félagsins, sá er þar hefur átt sæti síðustu þrjú árin.“ Í 7. grein segir: „aðalfundur ákveður félagsgjald“, sem ekkert var áður. Skráðir félagar voru orðnir um tíu 1975.

Árið 1976 finnast næstum engar heimildir um starfsemi V. N. Aðeins fáeinar nótur fyrir frímerkjum og ljósritum hafa geymst. Á einni þeirra er getið um „útsendingu á safnakönnun Nl. o.fl. í mars 1976“. Þessi könnun hefur líklega farið fram, en um hana finnst ekkert ritað.

Á þessu ári kom út bókin Berghlaup (624 bls.) eftir Ólaf Jónsson heiðursforseta V.N. , sem Jóhannes Sigvaldason bjó undir prentun. Útgefandi var Ræktunarfélag Norðurlands. Efnið er beint framhald bóka Ólafs um Skriðuföll og snjóflóð 1.-2. bindi, sem út komu hjá Norðra 1957, og byggðist á rannsóknum hans undanfarna áratugi. Bókin er ennþá grundvallarrit í þessum fræðum.

Um árið 1977 er það sama að segja, að engar heimildir eru um félagsstarfið nema nótur fyrir kaffi og meðlæti, dags. 15. jan., 2. apríl og 4. apríl, sem benda til funda þá daga. Þann 7. maí hafa verið keypt blóm fyrir 1500 kr. Í minnisblaði Þóris Sig. um fyrirlestra sína (ódagsett) getur hann um fyrirlestur um dulstirni 1976 eða 1977, og segir glærur frá honum vera til.

Árið 1978 er til reikningur fyrir kaffibrauði 7. jan. Ætla má að þann dag hafi verið aðalfundur félagsins. Þá hefur fundist eftirfarandi bréf frá stjórninni:

Vísindafélag Norðlendinga. Akureyri 18/4 1978. Á síðasta aðalfundi Vísindafélags Norðlendinga var samþykkt að bjóða eftirtöldum mönnum félagsaðild: Gísla Jónssyni, Akureyri [kennari við M.A.], Guðbrandi Magnússyni, Siglufirði, Hálfdáni Björnssyni, Kvískerjum, og Hjörleifi Guttormssyni, Neskaupstað. Þetta tilkynnist þér hérmeð. F.h. stjórnar Bjarni E. Guðleifsson (sign).

Þetta bréf sýnir að Bjarni E. Guðleifsson hefur verið forseti eða ritari V. N. 1978. Í Reikningasafni félagsins kemur fram að Þórir Sigurðsson var gjaldkeri, og hefur innheimt kr. 5.000 í félagsgjald. Ekki er vitað um aðra í stjórn. Bjarni var þá tilraunastjóri við Tilraunastöðina á Akureyri. Árin 1979-1981 var hann í námsdvöl í Ottawa í Kanada.

Samkvæmt lögum félagsins hafa þrír síðastnefndu verið bréffélagar, þó það sé ekki tekið fram í bréfinu. Guðbrandur og Hjörleifur þökkuðu fyrir boðið bréflega.

Frá 1979 er aðeins til ein kvittun fyrir póstburðargjaldi frá 29. maí. Um haustið komu út tvær smábækur sem ég hafði samið á undanförnum árum: Sveppakverið (140 bls) sem Garðyrkjufélag Íslands gaf út, og Veröldin í vatninu (214 bls.), hjá Aski, Reykjavík. Báðar voru þær nýjung í útgáfu bóka á Íslandi og afrakstur margra ára rannsókna.

Frá 1980 er til reikningur frá Bóka- og blaðasölunni fyrir „Nortorn´s Staratlas“, sem félagið veitti sem Stjörnu-Odda-verðlaun við skólaslit M.A. Í minnisblaði Þóris Sig. yfir fyrirlestra sína í V. N. (ódagsett) getur hann um erindi um Albert Einstein í tilefni af aldarafmæli hans 1979, og segir ágrip vera til.

Frá og með 1981 hafa geymst 23 fundarboð (vélrituð, síðar tölvusett) hjá, Jóhannesi Sigvaldasyni, en engar fundargerðir, líklega hafa þær ekki verið skráðar, því að upp frá þessu snúast fundir félagsins aðeins um fyrirlestra, oftast einn á hverjum fundi. Í fundarboðum er greint frá fyrirlesurum og efni fyrirlestra rakið í stórum dráttum. Eftir 1985 handritaði Þórir stundum glósur um efni fyrirlestra. -------------------

 

Litla lærdómslistafélagið 1980-1981

Í árslok 1980 urðu þáttaskil í sögu V. N. þegar til varð félag sem nefndist Litla lærdómlistafélagið (skst. L.L.L.). Nafnið var sótt í fyrsta fræðafélag Íslendinga „Hið konunglega íslenska lærdómslistafélag“, sem stofnað var í Khöfn 1779, starfaði til aldarloka, og gaf út tímarit (Félagsritin). Ástæðan var líklega sú að starfsemi V. N. hafði verið í lágmarki undanfarin ár.

Félagið starfaði aðeins eitt ár, og geymst hafa nokkur fundarboð þess, en engar fundargerðir. „Samþykkt um stofnun félagsins“ var samin í Náttúrugripasafninu á Þorláksmessu (23. des.) 1980, undirrituð af Helga, Jóhannesi og Þóri Sigurðssyni, félögum V.N., auk þess af Jóhanni Pálssyni og Kristjáni Rögnvaldssyni (Jóhann er grasafræðingur, forstöðumaður Lystigarðs Akureyrar um þetta leyti, í hlutastarfi við Náttúrugripasafnið, Kristján var múrari að mennt, vann í mörg ár í safninu við smíðar og ýmis safnstörf.)

Markmið félagsins verði hið sama og „Vísindafélags Norðlendinga“, en hins vegar verði það opið öllum, sem áhuga hafa á fræðum eða vísindum, og hvers kyns lærdómi og lærdómslist, hvar sem er á jörðunni eða á öðrum jarðhnöttum himingeimsins. Þetta er helsta breytingin frá reglum V.N.

Fyrstu verkefni félagsins verði: 1) Að gefa út minningarrit um Ólaf Jónsson fv. ráðunaut og heiðursforseta V.N., í því skyni skal stofna útgáfusjóð. 2) Að gefa Guðrúnu, ekkju Ólafs, bók í jólagjöf, í þakklætisskyni fyrir umönnun hennar. 3) Að gefa Steindóri Steindórssyni, heiðursforseta V.N., flösku af brennivíni.

Samþykktin ber þess merki, og þá ekki síður fundarboðin, að ætlunin var að endurnýja gamansemina sem einkenndi Félag lærðra manna. Líklega hefur okkur fundist að starfsemi V. N. væri orðin of formleg, t.d. varðandi inntöku nýrra félaga, og ekki væri ástæða til að takmarka aðgang að félaginu.

Boðað var til stofnfundar LLL á Þrettánda 1981 á sama stað og tíma. Engin gögn hafa fundist um þann fund, en hann mun hafa farið fram eins og til var boðað. Þar hafa líklega verið samþykktar reglur fyrir félagið, ég verið kosinn formaður, og Jóhannes og Þórir verið með í stjórninni, ásamt Bjarna Guðleifs. Ekki man ég hvort eitthvað var framkvæmt af samþykktum félagsins, en víst er að „Minningarritið“ um Ólaf kom aldrei út. Hinsvegar var byrjað að undirbúa endurútgáfu Grasnytja, eftir Björn í Sauðlauksdal, sem birtist 1983, og var tileinkað Steindóri á áttræðisafmæli hans, árið áður.

Næstu fjögur fundarboð hafa bréfhausinn LLL, skrautritaðan, og boða mánaðarlega fyrirlestra til vetrarloka. Þau voru ýtarleg og gamansöm, sum með latínuslettum. Það fyrsta er undirritað „Formælandi“, síðan með P. M. eða Primus motor. Þann 7. febr. ræddi Guðmundur Heiðar Frímannsson kennari um spurninguna: Hvað er heimspeki?, 28. mars hélt Þórir Sigurðsson erindi um þróun sólstjarna, 11. apríl voru Kröflueldar til umræðu, en þeir höfðu þá staðið í fimm ár með hléum, framsögumenn voru Ágúst Guðmundsson og Oddur Sigurðsson jarðfræðingar, og 16. maí var Bjarni á Möðruvöllum heimsóttur og kynnti hann starfsemi sína. Aðrir fundir voru haldnir í Náttúrugripasafninu.
-------------------------

Endurreisn Vísindafélagsins 1982


Næsta fundarboð er með bréfhausnum: VÍSINDAFÉLAG NORÐLENDINGA, Pósthólf 390, 602 Akureyri, undirritað af Tryggva Gíslasyni „Forseta VÍNOR“. [Skammstöfun sem Tryggvi fann upp]. Hann hlýtur að hafa verið kosinn á aðalfundi 1979 eða 1980, en um þann fund finnast engar heimildir. Fundarboðið hljóðar svo:

Aðalfundur hins eina Vísindafélags Norðlendinga verður haldinn laugardag 16da janúar MCMLXXXII í Menntaskólanum á Akureyri, kl. 14,15. Dagskrá: 1 Vítur; 2 Aðalfundarstörf; 3 Önnur mál. Fyrir hönd stjórnar Vísindafélags Norðlendinga, en án samráðs við hana, og að höfðu samráði við leiðtoga uppreistarmanna. Akureyri á Eldbjargarmessu 1982. Tryggvi Gíslason. FORSETI VINOR.

Svo er að skilja að Tryggvi hafi litið á stofnun LLL sem uppreisn nokkurra félaga í V.N., og „leiðtogi“ þeirra - líklega undirritaður - hafi samþykkt að ganga til liðs við upprunalega félagið. Ég ritaði ekki dagbók á þessum tíma, og man ekkert eftir þessum fundi. Eitthvað hefur farið úrskeiðis á fundinum, því að rúmum mánuði síðar er boðað til framhaldsaðalfundar, og fundarboð undirritað „Óstjórnin“.

Framhaldsaðalfundur var haldinn 27. febrúar 1982. Þar kynnti Jóhann Pálsson grasafræðingur störf sín og Ole Lindquist spjallaði um fornleifafræði. Ole var frá Borgundarhólmi, lærði í Þýskalandi, kennari við M.A. frá 1973. Þá voru félagslögin endurskoðuð, og ákvæði 3. greinar um inntöku breytt þannig að einfaldur meirihluti atkvæða á aðalfundi nægi til samþykktar (áður 2/3), og 5. grein að aðalfund skuli halda í janúar.

Til er vélrituð félagaskrá frá jan. 1982. Þar eru 16 skráðir reglulegir félagar og 11 bréffélagar. Á skrána hefur Þórir ritað: Kosin stjórn: Þórir Sigurðsson (fors.), Helgi Hallgrímsson (gjaldk.), Bjarni Guðleifsson (ritari), Jóhann Pálsson (meðstj.). Var Þórir forseti félagsins þetta ár og stóð fyrir mjög líflegri starfsemi. Bjarni var veturinn 1982-83 í námsdvöl í Kiel í Þýskalandi.

Haldnir voru 8 félagsfundir, fleiri en nokkru sinni. Þann 24. apríl ræddi Ole Lindquist um uppruna íslenskra tálgusteina og Kristín Aðalsteinsdóttir líffræðingur kynnti rannsókn sína á vatnalífi o.fl. 1981. 8. maí hélt Einar H. Guðmundsson stjörnufræðingur, Rvík, fyrirlestur um endalok sólstjana, 1. júní ræddi Friðrik Haukur Hallsson um rannsóknaraðferðir félagsfræðinnar.

Þann 19. júní var Bolli Gústafsson prestur heimsóttur að Laufási, leiddi hann okkur um gamla torfbæinn, sem þá var orðinn safn, kynnti hann fræðastörf sín og var skráður í félagið. Þann 19. nóv. var haldinn fundur með forstöðumönnum rannsóknastofnana í Eyjafirði í Búnaðarbókasafninu á Óseyri, Ak., í þeim tilgangi að auka samræmingu og samvinnu þeirra. Boðið var sent 10 stofnunum, en ekkert finnst skráð um sjálfan fundinn eða niðurstöðu hans.

Þann 5. des. ræddi Þorsteinn Gylfason heimspekingur um orsakir geðveiki og 29. des. flutti Páll Árdal heimspekingur um refsingar, tilgang þeirra og áhrif. Sóttu þann fund um 40 manns, sem var algert met hjá félaginu.

Árið 1983 virðist aðalfundur hafa farist fyrir, en Þórir var áfram formaður. Til eru fundarboð þriggja félagsfunda, með fyrirlestrum. Þann 17. maí og 12. nóv. voru fundir með Birni S. Stefánssyni búfræðingi og hagfræðingi, Reykjavík. Í þeim fyrri fjallaði hann um forgangsröðun valmöguleika við atkvæðagreiðslu, í þeim seinni um landsbyggðarstefnu á Íslandi. Björn er skólabróðir Bjarna Guðleifssonar á Ási í Noregi. Þann 3. des. flutti Kristján Kristjánsson heimspekingur fyrirlestur um siðferðilega hluthyggju.

Árið 1984 hefur ekki fundist heimild um aðalfund, en líklega hefur Tryggvi Gíslason þá verið kosinn forseti félagsins. Til eru boð um tvo félagsfundi. Þann 10. mars ræddi Þorsteinn Gylfason um tónlist, vísindi og réttlæti og 28. apríl ræddi Eyjólfur Kjalar um siðfræði og frjálshyggju. Þeir eru báðir heimspekingar, kennarar við Háskóla Íslands, Reykjavík.

Árið 2020 kom í leitir hjá Þóri Sigurðssyni, Ak., „Yfirlit yfir fundi frá 1985“ til 1990, sem hann hefur líklega ritað sem stjórnarmaður V.N. það ár. Þetta skjal fékk ég í hendur, ásamt fleiri gögnum frá Þóri um V.N., 20. júní 2020 og verða þau héreftir notuð sem heimildir.

Í bréf til félagsmanna 16. jan. 1985 boðar stjórnin aðalfund 26. jan. í M.A., með fyrirlestri Guðmundar H. Frímannsonar. Þessu bréfi fylgir ljósrit af lögum V.N. og félagaskrá, hvortveggja undirritað H. Hg. jan. 1985. Orðalag bréfsins ber það með sér að Tryggvi Gíslason hafi skrifað það, sem bendir til að hann hafi stýrt félaginu 1984.

Í fyrrnefndu yfirliti Þóris Sigurðssonar er hins vegar ritað:

Aðalfundur var haldinn 16. janúar 1985. Þá hafði ekki verið haldinn aðalfundur síðan í janúar 1982. Bjarni Guðleifsson gerði grein fyrir starfsemi félagsins undanfarin þrjú ár. Almennir fundir hafa þó verið haldnir á þessu tímabili, t. d. 6 fundir árið 1982. Þrír nýir félagar voru teknir inn: Gunnar Frímannsson félagsfræðingur, Magnús Jónsson veðurfræðingur og Stefán Jónsson eðlisfræðingur. Ný stjórn var kosin á þessum aðalfundi: Helgi Hallgrímsson, Bjarni Guðleifsson og Þórir Haraldsson. Varamaður Guðmundur Heiðar Frímannsson. Á eftir aðalfundi flutti Guðmundur H. Frímannsson fyrirlestur um: Merkingarfræði Gottlobs Frege. (Yfirlit Þ.S.).

Gunnar og Magnús voru kennarar M.A. , Stefán varð síðar kennari við Háskólann á Akureyri. Á stjórnarfundi 14. febr. 1985 skipti nýkjörin stjórn með sér verkum: Helgi Hallgrímsson forseti, Bjarni Guðleifsson gjaldkeri, Þórir Haraldsson ritari. Félagsgjald var ákveðið kr. 2000.

„Ég var endurkosinn formaður á aðalfundi félagsins 1985, og skipulagði nokkra fundi á þess vegum“, segir í yfirliti ársins 1985 í dagbók minni. Síðasta gerð laga V.N. er undirrituð: „Jan. 1985 / H.Hg.“ með breytingum frá 1982, sem fyrr var getið.

Sjö félagsfundir voru haldnir á árinu, allir með fyrirlestrum. Um fyrirlestur Guðmundar Heiðars 16. jan. var þegar getið. Þann 7. mars flutti Stefán G. Jónsson erindi um rannsóknir á atómkjörnum í örfuðu ástandi, en hann hafði numið eðlisfræði og stærðfræði við Háskólann í Uppsölum, kennari M. A. 1972-1976, síðan við Háskólann á Akureyri. 30 mars ræddi Ólafur K. Nielsen dýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun um íslenska fálkann og rannsóknir sínar á honum, sem hann hefur stundað allt til þessa dags. Þann 4. apríl var fundur um trú og vísindi í Náttúrugripasafninu, sem ég hef líklega innleitt, en fáir mættu á fundinn. Þann 4. maí ræddi Úlfur Ragnarsson læknir um nálastunguaðferð við lækningar, sem er komin frá Kína, og hann hafði kynnt sér og notað.

Þann 7. des. fjallaði Tryggvi Gíslason um fyrirhugaðan háskóla á Akureyri, sem var þá mikið til umræðu, fundurinn samþykkti ályktun þar sem mælt var eindregið með stofnun skólans og að hann yrði óháður Háskóla Íslands. Hún var send blöðum og birtist m.a. í Mbl. 14. des. Tryggvi var þá í undirbúningsnefnd fyrir skólann, sem var formlega stofnaður 1987. Að lokum ræddi Þórir Sigurðsson um halastjörnur á fundi 28. des.

Árið 1986 hélt V. N. fjóra fundi. Aðalfundur var haldinn 8. febr. í Náttúrugripasafninu. Þar var ég endurkjörinn forseti, og kynnti þjóðsagnagrúsk mitt, sem ég stundaði nokkuð á níunda áratugnum og fjallaði um í greinum í Heima er bezt. Einnig sagði ég frá fyrirhuguðu fræðasetri á Skriðuklaustri í Fljótsdal, sem við Þórarinn Lárusson vorum að planleggja, en hann hafði flust þangað 1985 og tekið við stöðu tilraunastjóra þar. Þá voru fimm nýir félegar teknir inn.

Þann 8. mars ræddi Bragi Guðmundsson sagnfræðingur frá Holti í Svínadal, um „gósseigendur kringum aldamótin 1700, sem líklega var prófverkefni hans. Hann varð síðar kennari við Háskólann á Akureyri. Þann 19. apríl var fundur um jarðhita í Eyjafirði, þar sem Þóroddur F. Þóroddsson jarðfræðingur hafði framsögu. Hann var starfsmaður Náttúrugripasafnsins. Þann 6. des. ræddi Bjarni Einarsson fornleifafræðingur um rannóknir sínar á hinum forna kaupstað á Gásum við Eyjafjörð. Hann var þá forstöðumaður Minjasafnsins á Akureyri.

Árið 1987 eru engar heimildir um starfsemi V. N. Um vorið sagði ég upp starfi mínu við Náttúrugripasafnið og flutti alfarinn austur í Egilsstaði. Tók þá Hörður Kristinsson við sem forstöðumaður safnsins. Tryggvi Gíslason var í orlofi 1986-1990, og dvaldi í Kaupmannahöfn, á meðan gegndi Jóhann Sigurjónsson starfi hans.

Háskólinn á Akureyri var stofnaður 1987 og tók til starfa þá um haustið. Til hans réðust nokkrir vel menntaðir kennarar, og hafa sumir þeirra stundað rannsóknir í fræðigreinum sínum, sem vani er til í háskólum, og fastráðnum kennurum er skylt að gera. Vísindafélagið átti nokkurn hlut í stofnun skólans. Á árunum 1964-1970 hélt ég erindi, og ritaði nokkrar greinar í blöð og tímarit um háskóla á Akureyri. Það var líka rætt á fundum V. N., eins og fram hefur komið. Bent var á þá undirstöðu sem starfsmenn Möðruvallaskóla, Menntaskóla, Náttúrugripasafns, Ræktunarfélags, Sjúkrahúss o.fl. stofnana höfðu lagt, með margvíslegu fræðastarfi. Tryggvi Gíslason félagi okkar, sat í tveim nefndum til undirbúnings að stofnun háskólans, 1982-1987, og Gauti Arnþórsson, annar félagi, tók virkan þátt í stofnun og skipulagi hjúkrunardeildar skólans. Náttúrufræði og búfræði urðu hins vegar utangátta í skólanum.

Árið 1988 var aðalfundur V. N. haldinn 3. mars í Menntaskólanum. Þar voru Bjarni E. Guðleifsson, Hörður Kristinsson og Þórir Sigurðsson kosnir í aðalstjórn, og líklega var Bjarni forseti. Þórir minntist 300 ára afmælis hins merka ritverks Isaks Newton: Stærðfræðilögmál náttúruspekinnar (Philosophia naturalis principia mathemtica, 1687). Halldór Pétursson jarðfræðingur, starfsmaður N.A. , og Haraldur Bessason nýlega kjörinn rektor Háskólans á Akureyri voru teknir í félagið. Hann hafði áður gegnt stöðu prófessors við íslenskudeild Háskólans í Winnipeg um 30 ára skeið.

Þann 14. janúar höfðu Erlendur Jónsson og Óafur Halldórsson fiskifræðingar flutt erindi um fiskeldi í Eyjafirði, aðallega lúðueldi, sem þeir fengust við á Hjalteyri, og 25. apríl ræddi Haraldur rektor um stílfræðilega notkun goðsagna í fornum ritum.

Árið 1989 var aðalfundur félagsins boðaður 2. maí í Menntaskólanum. Þar kynnti Halldór Pétursson nýjar hugmyndir um loftslags- og umhverfisbreytingar á Íslandi síðustu 10 þúsund ár. Annars er ekki vitað hvað fram fór á fundinum, en líklega var stjórnin óbreytt. Fjórir aðrir fundir með fyrirlestrum voru haldnir á árinu. Þann 28. febr. ræddi Guðný Gerður Gunnarsdóttir, forstöðukona Minjasafnsins um byggðasögu miðbæjar Reykjavíkur. Dagana 18. og 20. mars kynnti Björn Jónsson læknir í Swan River, Kanada, tilgátur sínar um stjarnvísi í Eddum, sem voru harla nýstárlegar. Þann 21. okt. flutti Kolbeinn Þorleifsson prestur erindið: Hinn íslenski Milton, séra Jón Magnússon í Laufási, og 13. des. var fyrirlestur Sturlu Friðrikssonar erfðafræðings hjá Rannsóknastofnun Landbúnaðarins, um orkufæði í lífríki Íslands.

Árið 1990 var aðalfundur boðaður og haldinn 26. apríl, en var ekki lögmætur sökum fámennis. Bjarni Guðleifsson var í Noregi 1990-1991, svo líklega hefur Þórir Sigurðsson gegnt stöðu forseta V. N. Jón Þórðarson útvegsfræðingur hélt erindi á fundinum, um byggðaþróun. Hann hafði lært í Tromsö í Noregi, tók við forstöðu sjávarútvegsdeildar Háskólans á Akureyri 1991, og gegndi því starfi til 2002.

Þann 20. júní kom Jóhannes Vigfússon eðlisfræðingur frá Akureyri á fund V. N. og ræddi um vandamál við að koma fyrir kjarnorkuúrgangi. Hann hafði lært eðlisfræði í Sviss og starfað við atómrannsóknir. Þann 29. des. flutti Kristján Kristjánsson, nýbakaður heimspekingur frá St. Andrews-háskóla í Skotlandi, erindi um frelsi sem siðferðishugtak (Freedom as a moral concept), sem var prófverkefni hans. Hann er sonur Kristjáns frá Djúpalæk skálds á Akureyri.

Arnargerði í Flatey: Sumarið 1988, um mánaðamót júlí-ágúst, gerðist sá merkisaburður, að efnt var til skoðunarferðar á slóðir Stjörnu-Odda í Flatey á Skjálfanda. Þátttakendur voru Þórir Sigurðsson, Þorsteinn Vilhjálmsson vísindasagnfræðingur og Björn Þorsteinsson stúdent. Þeim var bent á Arnargerði, hringlaga garðlag í eynni, sem þeir töldu forvitnilegt að rannsaka, með tilliti til sagna um dvöl Stjörnu-Odda þar. Fengu þeir Guðmund Ólafsson fornleifafræðing í Þjóðminjasafni til aðstoðar við nákvæma rannsókn á gerðinu og öðrum rústum í Flatey, sem fram fór í júlí 1990. Hafði Grétar Guðbergsson jarðfræðingur þá bæst í hópinn. Gerðið reyndist vera af smábæ eða verbúð frá fyrstu öldum byggðar í landinu, en ekki tókst að finna vísbendingar um notkun þess fyrir mælingar á sólargangi. (Guðmundur Ólafsson, Þorsteinn Vihjálmsson og Þórir Sigurðsson: Fornleifar á slóðum Stjörnu-Odda. Árb. Hins ísl. forleifafél.1991, bls.77-124.)

Á aðalfundi V.N. 21. mars 1991 var Tryggvi endurkosinn forseti félagsins, og tók hann brátt rækilega til hendinni við stjórn þess. Ole Lindquist var gjaldkeri félagsins, og Þórir Sigurðsson varamaður, um ritara er ekki getið. (Í gögnum frá 2004 kemur fram að Stefán G. Jónsson hafi verið kosinn ritari). Helgi Hall. var útnefndur heiðursforseti, enda voru þeir Ólafur Jónsson og Kristján Eldjárn þá báðir látnir, aðeins Steindór eftir af upprunalegum heiðursforsetum. Félagsgjald var ákveðið 1000 kr. Hörður Kristinsson flutti fyrirlestur um gróðurfar við landnám Íslands og breytingar er síðan hafa orðið.

Með bréfi til félagsmanna 17. ágúst 1991 tilkynnir forseti að áætlað sé að minnast 20 ára afmælis félagsins með hátíðarfundi á næsta ári. Þar virðist hann hafa misreiknað aldurinn, því félagið var formlega stofnað 1. des. 1991.

Þann 1. des. var boðaður hátíðarfundur í kennarastofu M.A. „Aðalefni fundarins er fullveldi Íslands og Evrópa framtíðarinnar. Í upphafi reifar forseti félagsins viðhorf og kenningar um fullveldi og sjálfstæði þjóðríkja...“

Árið 1992 var líflegt starf í Vísindafélagi Norðlendinga undir stjórn Tryggva. Aðalfundur var haldinn 1. febrúar. Þá hefur stjórnin verið endurkjörin. Guðmundur Heiðar flutti erindi sem hann nefndi: „Hvað er sjálfræði“. Með fundarboði fylgdi félagatal frá des. 1991 og lögin frá 1985. Í félagatali eru 17 félagar skráðir, og heimilisföng þeirra. Það eru allt karlar, búsettir á Akureyri og grennd, nema Bolli Gústafsson, sem þá var orðinn vígslubiskup á Hólum. Bréffélagar eru ekki skráðir.

Á fundi V. N. 29. febr. ræddi Tryggvi um orðatilræki og tilvitnanir í Íslensku, og 9. mai talaði Jón Björnsson sálfræðingur um siðferðileg álitamál sem varða aldraða í framtíðinni. Hann er Húnvetningur, þá orðinn starfsmaður félagsþjónustu Akureyrar, líklega skráður í félagið á aðalfundi 1. febrúar sama ár. Þá var skýrt frá málþinginu sem halda skyldi 12. sept. í Háskólanum. Akureyrarbær og Menntamálaráðuneyti styrktu þingið með 50 þús. kr. hvort. Áætlað að sækja um styrk til Menningarsjóðs KEA til að standa undir útgáfu afmælisrits.

Þann 31. ágúst var sérstakur undirbúningsfundur. „Viðfangsefni þingsins er land þjóð og tunga í þúsund ár, með sérstöku tilliti til félagslegra, heimspekilegra og sögulegra þátta.“ Búið var að fá þrjá góðkunna fyrirlesara. Undirritaður fékk sérstakt boðsbréf og sótti þingið.

Málþingið fór fram í húsakynnum Háskólans (Sólborg) á Akureyri, laugardag 12. september 1992. Það hófst kl. 14,15 með ávarpi forseta. Fyrirlesarar voru: Hörður Kristinsson, sem ræddi um landið, Gunnar Karlsson sagnfræðingur og prófessor við H.Í. ræddi um þjóðina, og Stefán Karlsson málfræðingur á Árnastofnun um tungumálið. Á eftir voru almennar umræður um þessi efni. Málþingið var öllum opið og allvel sótt. Boðsgestir voru, auk fyrirlesara, Guðrún Kvaran forseti Vísindafélags Íslendinga og undirritaður heiðursforseti V. N.

Klukkan 20 var boðið til hátíðarkvöldverðar í Smiðjunni, útbyggingu Bautans, Akureyri. Þar mælti Tryggvi fyrir skálum og minntist afmælis félagsins. Þar var mér afhent bók, með árituðum þakkarorðum frá félaginu og lofað skrautrituðu skjali síðar. (Ég man ekki hvaða bók þetta var og finn hana ekki. Ég hlýt að hafa þakkað fyrir mig, en finn ekkert ritað ávarp).

Í tilefni af afmæli Vísindafélagsins hafði vikublaðið Dagur á Akureyri viðtal við Tryggva um félagið og málþingið, sem birtist í blaðinu 10. sept. 1992, undirritað G.T. Fyrirsögnin er: „Ef Íslendingar rannsaka ekki þjóðmenningu sína þá gera það ekki aðrir.“ Þar segir Tryggvi m.a.:

„Meginmarkmið félagsins er að efla rannsóknir á sviði hvers konar vísinda, og efna til umræðu um vísindaleg efni, og það sem m.a. gefur þessu félagi gildi, er að við fáum hver og einn að heyra um viðfangsefni ólíkra vísindagreina. Á hverjum fundi eru haldin erindi af ýmsu tagi, og einmitt það er heillandi – að fá að heyra eitthvað allt annað en maður fæst sjálfur við.

Félagsstarfið byggist því á samræðu, eins og vísindi allra alda hafa gert með einhverjum hætti. Vísindin, eða vísindaleg hugsun, felast ekki síst í því, að ólík viðhorf eru virt, ef menn geta sýnt fram á gildi þeirra eða sannað skoðanir sínar. Jafnvel innan vísinda – bæði hugvísinda og raunvísinda – eru til ólíkar stefnur og ólík viðhorf; vísindin eru eilíf leit að nýjum sannleika.“

Starfsemi Vísindafélags Norðlendinga hefur varla verið orðuð betur. Því vekur það furðu, að það var á vakt Tryggva, sem V.N. lagði upp laupana.


Tilraun til endurreisnar Vísindafélagsins 2004

Vorið 2004 var gerð tilraun til að endurreisa félagið. Fyrir henni stóð Þórir Sigurðsson, sem þá var kennari við Menntaskólann og Háskólann á Ak. Þann 14. júní, að kvöldi, boðaði hann (símleiðis) allmarga félaga til samspjalls á kennarastofu M. A. Þar á meðal var Tryggvi Gíslason fráfarandi formaður, sem hafði sagt embætti skólameistara lausu 2003, og var fluttur til Reykjavíkur.

Þórir hafði undirbúið fundinn með því að rita „Upprifjað félagatal vorið 2004“, þar sem skráðir voru 15 félagar með heimilsföng og síma. Tíu félagar mættu á fundinn. Neðanvið skrána er ritað: Efni samspjalls 14. júní 2004, kl. 21.00, kennarastofu MA: 1) Líf eða dauði? [félagsins], 2) Skoðun félagatals, 3) Lífgun stjórnar, 4) Gagnaleitir, 5) Framsýn.

Þessi mál voru rædd og virðast fundarmenn hafa látið í ljós áhuga á að endurreisa félagið. Til þess var valin nefnd, þannig skipuð: Þórir Sigurðsson, Guðmundur H. Frímannsson, Jóhann Sigurjónsson, Þórir Haraldsson og Stefán G. Jónsson. Einnig er skráð: „Þórir Har. með bók frá ´85 til ´91.“ Bætt var við nöfnum 4 manna á félagaskrána. Á annað eintak af skránni eru rituð netföng þeirra sem mættu á samkomuna. Þórir Sigurðsson hefur verið sjálfkjörinn formaður nefndarinnar, þó það sé ekki skráð.

Til eru fáein tölvubréf sem farið hafa milli hans og Tryggva Gíslasonar haustið 2004, þar sem þeir leggja á ráðin um fund með Tryggva um íslenskt mál. Þar ritar Þórir 9. sept. m.a.:

Hef hitt og rætt við nokkra félaga sem segjast áhugasamir. Dettur í hug að stofna til fundar um næstu mánaðamót. Þegar ég sá námsskrá Endurmenntunar H. Í. blasti fundarefni við: Íslenskt mál og mállýskur. Ertu tilbúinn að hafa framsögu. Helstu fréttir eru að ýmis gögn eru fundin: Kassi sem ég geymdi við M7, Möðruvöllum, í jarðhúsi Hóla, og mappa, líklega úr þínum fórum uppi á Gömluvistum. Nafni Haraldsson tók þetta til vörslu.

Sérstaka athygli vekur bókin „frá ´85 til ´91“sem getið er í vörslu Þóris Haraldssonar, og hlýtur að vera fundargerðabók félagsins. Höfund rámar í stóra, vel bundna skrifbók, sem hann keypti eða gaf félaginu 1985, og ætluð var til að færa inn í hana fundargerðir félagsins, en líklega varð misbrestur á því. Þórir Haraldsson er nú látinn, og þessi gögn hafa ekki fundist, þrátt fyrir leit 2020, segir Þórir Sigurðsson.

Tryggvi tók vel í þessa beiðni félaga síns, skv. tölvubréfum hans, og niðurstaðan varð að efna til fundar í V. N. 6. desember 2004. Í fundarboði segir:

Fyrirlesturinn nefnist: „Staða íslenskrar tungu í heimi alþjóðasamstarfs og markaðshyggju“. Í fyrirlestrinum er fjallað um fámenn málsamfélög og ný viðhorf til málverndar, auknar kröfur til hagræðingar og vanda þann sem steðjar að alþjóðasamskiptum vegna mismunandi tungumálakunnáttu. Reynir fyrirlesarinn að svara þeirri spurningu hvort fornlegt beygingamál, með þúsund ára bókmenntir og sögu á bakinu, geti lifað af í heimi alþjóðasamstarfs og markaðshyggju. Öllum er heimill aðgangur að fyrirlestrinum um „stöðu íslenskrar tungu í heimi alþjóðasamstarfs og markaðshyggju“.

Þessi fyrirlestur hefur farið fram samkvæmt áætlun. Aftan á fundarboðið og eitt aukablað hefur Þórir Sigurðsson glósað helstu atriði hans. Við fyrstu málsgrein hefur hann skrifað „25 mættir“. Verður það að kallast gott.

Þetta er síðasti fundur Vísindafélags Norðlendinga, sem heimildir hafa fundist um. Þrátt fyrir áhuga félagsmanna á fundinum 14. júní og skipun bráðabirgðastjórnar virðist þessi tilraun til endurreisnar félagsins hafa runnið út í sandinn.

Hér er rétt að geta tveggja félaga/stofnana, sem Bjarni E. Guðleifsson átti mestan þátt í að koma á fót, og má skoða sem framhald af starfi Vísindafélagsins. Annars vegar er það Menningarfélagið Hraun í Öxnadal, sem stofnað var vorið 2003, og þeir félagar Bjarni og Tryggvi Gíslason höfðu unnið að um nokkurra ára skeið. Það keypt jörðina Hraun í Öxnadal sama ár og kom þar upp minningarsetri um Jónas Hallgrímsson og gestaíbúð. Á 200 ára afmæli Jónasar, 2007, var jörðin friðlýst sem fólkvangur. Þar hefur á hverju vori verið haldin „Fífilbrekkuhátíð“. Á afmæli Jónasar 16. nóv. hafa árlega verið haldnir „Jónasarfyrirlestrar“ á vegum félagsins. Bjarni ritaði bókina Hraun í Öxnadal – Fólkvangur (Ak. 2014, 288 bls.) um þetta svæði.

Í öðru lagi beitti Bjarni sér fyrir því að gamalt timburhús frá tíma skólans á Möðruvöllum, kallað Leikhúsið, var endurbyggt og tekið í notkun á afmælisári Jónasar 2007, sem einskonar félagsheimili hreppsins. Bjarni lét ekki þar við sitja, heldur stofnaði hann næstu árin til viðburða í húsinu annan hvern fimmtudag árið um kring. Oft voru það fyrirlestrar um marvísleg efni, í anda þeirra sem V.N. hafði staðið fyrir. Þann 11. júní 2012 flutti ég þar erindið „Sá guðlega þenkjandi náttúruskoðari“, í tilefni sjötugsafmælis hans 21. júní. Bjarni leitaðist alla ævi við samræma guðstrú og vísindi. (Birt í Heimaslóð 14. hefti 2017).

Eftir þetta hittumst við sumir gömlu félagarnir nokkrum sinnum, einkum í tilefni af útskrift stúdenta í Menntaskólanum, sem enn fer fram 17. júní skv. gamalli hefð. Við útskriftina afhendir Þórir Sigurðsson Stjörnu-Odda-verðlaun í nafni V. N., sem tíðkast hefur síðan 1970.

Útgáfuteiti bókarinnar Á sprekamó, sem Sigurður Ægisson prestur og þjóðfræðingur á Siglufirði, kom á fót í tilefni af sjötugsafmæli mínu, var haldið í M. A. 18. júní 2005. Þar mætti Tryggvi Gíslason og ávarpaði samkomuna, en ekki minnist ég þess að rætt væri um Vísindafélagið, enda var Þórir Sigurðsson líklega ekki viðstaddur. Nokkrir félagar okkar eiga greinar í bókinni, og minnast gjarnan forgöngumanns, en enginn víkur að Vísindafélaginu sérstaklega.

Eftirmáli

Árið 1987 tók Háskólinn á Akureyri til starfa, hann þróaðist hratt næstu árin, og samstarf hans við V.N. fór vaxandi kringum 1990. Í fyrrnefndu viðtali í Degi 1992 er haft eftir Tryggva: „Það er skoðun mín að félagið eigi að tengjast enn frekar Háskólanum á Akureyri og öðrum rannsóknarstofnunum, sem eru að rísa á Akureyri og á Norðurlandi.“

Raunar hefði mátt ætla að stofnun háskólans myndi efla starfsemi félagsins, vegna fræðastarfa kennara skólans, sem bjuggu á Akureyri eða settust að þar, og gengu í félagið, m. a. Haraldur Bessason rektor. Hinsvegar er þess að gæta að Háskólinn tók að ýmsu leyti við hlutverki V. N. Meðal annars fór hann brátt að skipuleggja fyrirlestra fyrir almenning. Það getur verið ein af ástæðum þess að Vísindafélagið andaðist. Í Afmælisriti Háskólans 2012, segir:

„Strax á fyrsta ári var það stefna forráðamanna að fá góða fyrirlesara að skólanum til að halda fyrirlestra fyrir íbúa bæjarins og nærsveita, sem ekki stunduðu sérstaklega nám við skólann. Fyrirlestrarnir voru oftast haldnir síðdegis á laugardögum, og reið Gísli Jónsson menntaskólakennari á vaðið síðla árs 1987, með röð fyrirlestra sem hann kallaði Trú – Upplýsing – Rómantík. Þorsteinn Gylfason heimspekiprófessor við Háskóla Íslands, var einnig meðal fyrstu gesta skólans á laugardagsfyrirlestrum, og alla tíð meðan hann lifði dyggur stuðningsmaður Háskólans á Akureyri. Við þessar heimsóknir erlendra og innlendra fyrirlesara og fræðafólks mynduðust mikilvæg tengsl við kennara skólans, nemendur og aðra bæjarbúa. Í ágúst árið 1989 var haldin ráðstefna á vegum Háskólans á Akureyri, sem hlaut nafnið Líf undir leiðarstjörnu eða Man in the North. Hana sóttu margir erlendir og innlendir fyrirlesarar og fluttu efni sem tengdist með ýmsu móti norðlægum slóðum. Fyrirlesarar voru frá Íslandi, Bandaríkjunum, Skotlandi og Kanada og komu víða við í máli sínu. Haraldi var mikið í mun að fá erlenda gesti til fyrirlestrahalds.“ (Háskólinn á Akureyri 1987-2012. Afmælisrit, bls. 37).

Flestir félagar V. N. störfuðu við kennslu við framhaldsskóla og háskóla á Akureyri. Sumir fengust við rannsóknir í náttúrufræði, búfræði, heimspeki, sagnfræði, þjóðfræði o.fl. greinum. Þar á Bjarni Guðleifsson líklega metið. Hann varð heimsþekktur á sviði kalfræða, varðandi frostþol plantna. Bjarni lést haustið 2019, tæplega áttræður. Nokkrir urðu mikilvirkir rithöfundar fræðigreina og bóka, og ber Guðmund Pál Ólafsson þar hæst, með 5 stórbækur og margar smærri. Hann andaðist sumarið 2012, rúmlega sjötugur (Sjá minningabrot H. Hall. í Náttúrufr. 84. (1-2), 2014). Bolli Gústafsson andaðist 2008 og hafði sent frá sér nokkrar frumsamdar bækur. Haraldur Bessason rektor H.A., lést 2009, hann var mikilvirkur fræðimaður og rithöfundur. Þórir Haraldsson lést 2014, var þá búinn að safna efni í bók um hvítabirni á Íslandi, sem Rósa Rut dóttir hans kom á prent 2018. Aðrir aðalfélagar V. N. eru á lífi þegar þetta er ritað á viðsjárverðum tímum 2020, að ég best veit.

Stjörnu-Odda-félagið

Eins og minnst var á framar í þessum pistli var Oddi Helgason (Stjörnu-Oddi) hafður í heiðri hjá Vísindafélagi Norðlendinga allt frá upphafi, sbr. líka Tunglsýningu Náttúrugripasafnsins 1970. Hann var uppi snemma á 12. öld og til heimilis í Múla, Aðaldal, og sótti sjó í Flatey á Skjálfanda. Líklega var þá stofnað til Stjörnu-Odda-verðlauna, sem Þórir Sigurðsson hefur síðan árlega veitt þeim nemanda M. A. sem fengið hefur hæstu einkunn í stjörnufræði á stúdentsprófi. Einnig má minna á rannsókn Þorsteins Vilhjálmssonar, Þóris o.fl. á rústum Arnargerðis í Flatey 1990, sem ýmsir töldu líklegan athugunarstað Stjörnu-Odda (bls. 10). Þeir félagar höfðu æ síðan haldið minningu hans vakandi.

Á vorjafndægrum 20. mars 2010 var efnt til málþings um Undur alheimsins, á vegum Háskólans og Menntaskólans á Akureyri, í tilefni alþjóðlega stjarnfræðiársins 2009, og að þá voru 400 ár liðin síðan Galileo Galilei í Padua á Ítalíu beindi sjónauka sínum til himins og fór að lýsa því sem hann sá. Þingið fór fram í Hólum, aðalhúsi Menntaskólans. Samkvæmt fréttatilkynningu stóðu Stjarnvísindafélag Íslands, Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnaness og Vísindafélag Norðlendinga einnig að þinginu. Tryggvi Gíslason var þingforseti og fundarstjóri.

Þingið stóð frá kl. 10 árd. til kl. um sex sd. Haldin voru 9 erindi. Þórir kynnti frumkvæði Galileis við stjörnuskoðun, sem olli aldahvörfum, Þorsteinn Vilhjálmsson prófessor við H. Í. greindi frá athugunum Stjörnu-Odda á sólargangi, Snævarr Guðmundsson sagði frá stjörnuskoðun og ljósmyndun stjarna, sem hann hefur stundað um árabil, undirritaður ræddi um kennslu í stjörnufræði í M.A. og kynni sín af stjörnum, og Sverrir Guðmundsson lýsti gerð og notkun stjörnusjónauka. Auk þess voru nokkur erindi um sérhæfðar stjörnurannsóknir.

Frumkvöðull þingsins var Þórir Sigurðsson kennari, sem hafði undirbúið það m. a. með því að fá því framgengt að Menntaskólinn keypti vandaðan spegilsjónauka, sem komið var fyrir í kúpli á þaki M.A.-hússins Möðruvalla (Celestron, með 11 þumlunga ljósopi). Var ætlunin að tengja hann við tölvuskjá í húsinu, þar sem hægt væri að stýra honum og skoða það sem í honum sæist, en það hafði ekki komist í framkvæmd. Um kvöldið gafst fundarmönnum kostur á að skoða sjónaukann, en ekki viðraði til stjörnuskoðunar. Einnig hafði Snævarr Guðmundsson komið með handhægt stjörnuver (planetarium), sem hann átti, og notaði til kynningar í skólum víða um landið. Það er stór plastbelgur sem hægt er að blása upp og mynda hvelfinu fyrir stjörnuhimin, sem varpað er úr sérstöku tæki, einnig er hægt að sýna sól og tungl, plánetur og brautir þeirra.

Þórir hafði líka undirbúið stofnun félags áhugamanna um stjörnufræði og stjörnuskoðun, er sett var á dagsrá þingsins, og þar gátu fundarmenn skráð sig í félagið, sem allmargir gerðu. Það hlaut nafnið Stjörnu-Odda-félagið. Framhaldsstofnfundur var haldinn 8. apríl. Þá voru samþykkt lög og kosin fimm manna stjórn. Þórir var formaður félagsins, og hefur stýrt því af miklum skörungsskap allt fram til 2020, er Valdís Björk Þorsteinsdóttir tók við. Það hefur árlega staðið fyrir nokkrum fræðslufundum og málþingum, þar sem færustu stjarnfræðingar þjóðarinnar hafa látið ljós sitt skína, stundum í félagi við Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness, sem stofnað var 1976, og kom upp stjörnukíki á Valhúsaskóla. Nú hefur Snævarr Guðmundsson sest að við Höfn í Hornafirði, og komið sér upp eigin stjörnurannsóknastöð á heimsmælikvarða.

Vel má líta á Stjörnu-Odda-félagið sem arftaka Vísindafélags Norðlendinga, þó að það starfi á þrengra sviði, sem raunar er ekki bundið við stjörnur, heldur heimsfræði (cosmologíu) yfirleitt. Auk þess hefur Þórir haldið tengslum við V. N. með því að skrá það sem þátttakanda í málþingum, og leggja fram verðlaun í nafni þess úr eigin vasa.

Árið 2016 stóð Stjörnu-Odda-félagið, ásamt Vísindafélaginu, Menntaskólanum og Háskólanum á Akureyri að „málþingi fyrir almenning um Albert Einstein“ og kenningar hans, í tilefni af Ári ljóssins og aldarafmæli Almennu afstæðiskenningarinnar 2015. Þar flutti Þorsteinn Vilhjálmsson erindi um Einstein og Þórir fyrirlestur með skýringarmyndum um uppruna og eðli alheimsins. Þar var líka sagt frá nýlega uppgötvuðum þyngdarbylgjum.

Minnisvarði um Stjörnu-Odda hafði snemma komið til tals á fundum Vísindafélagsins. Stjörnu-Odda-félagið tók þá hugmynd upp á sína arma og beitti sér fyrir því að hann var reistur, með tilheyrandi upplýsingum á Grenjaðarstað í S.-Þingeyjarsýslu, nágrannabæ Múla, þar sem Oddi átti heima á 12. öld. Varðinn var afhjúpaður á sólstöðum 20. júní 2020, þar sem undirritaður var boðsgestur. Meðal þeirra sem styrktu gerð minnisvarðans var V.N., sem raunar var Þórir sjálfur.

Á eftir var málþing um Stjörnu-Odda og athuganir hans í félagsheimilinu Ýdölum, Aðaldal. Þar ræddi Þórir um mælingar og mögulegar aðferðir Stjörnu-Odda, Svanhildur Óskarsdóttir, Árnastofnun, um handrit Oddatölu og Þorsteinn Vilhjálmsson um uppruna og tilgang Oddatölu. Fundarstjóri var Snævarr Guðmundsson. Þingið var vel sótt, en fjölmiðlar héldu sig fjarri.

Þetta var vel við eigandi á 50 ára afmæli Vísindafélags Norðlendinga, og sannkölluð stjörnustund fyrir þann sem þetta ritar.

Byrjað að tína saman 2019. Fyrri hluti sendur Jóhannesi og Þóri Sigurðssyni til ath. og endurbóta 13. jan. 2020. Endurritað í mars-apríl 2020, eftir að 23 fundarboð höfðu borist frá Jóhannesi, og Hörður bent á heimildir í blöðum. Sú gerð send Gauta, Herði, Jóhannesi, Tryggva, Þórarni og Þóri Sig. í apríl–maí 2020. Talsverðar viðbótarheimildir afhenti Þórir Sigurðsson mér við afhjúpun minnismerkis um Stjörnu-Odda á Grenjaðarstað 20. júní 2020. Þær eru einkum frá árunum 1982-1992, og 2004. Þeim var bætt við þennan pistil í nóv. 2020, og var hann þá allur umskrifaður. – H. Hall.


Lög Vísindafélags Norðlendinga (1985)

1. grein

Félagið heitir Vísindafélag Norðlendinga. Félagssvæði þess er Norðurland og aðsetur á Akureyri.

2. grein

Markmið félagsins er að stuðla að auknum vísindalegum rannsóknum og öðrum lærdómsiðkunum á félagssvæðinu, m.a. með því að:
a) beita sér fyrir sérstökum rannsóknaverkefnum,
b) vinna að eflingu vísindastofnana og annarra menntastofnana,
c) koma af stað umræðum og efna til funda um vísindaleg efni,
d) stuðla að útgáfu vísindarita,
e) hafa samband við skyld félög og stofnanir.

3. grein

Félagar geta þeir orðið, sem unnið hafa sjálfstætt að vísindalegum rannsóknum, eða öðrum samsvarandi fræðilegum iðkunum, og ritað hafa a.m.k. eina fræðilega ritgerð, eða sýnt á annan hátt áhuga og hæfileika til vísindastarfa.
Stjórnin ber upp tillögur um nýja félaga á aðalfundi, og skal hún hljóta 2/3 atkvæða löglegs aðalfundar. Reglulegir félagar mega ekki vera fleiri en 24.

4. grein

Bréffélagar geta þeir orðið, sem fullnægja skilyrðum 3. gr. um inntöku, en geta ekki tekið reglulegan þátt í störfum félagsins, vegna fjarlægrar búsetu eða annara orsaka. Um kjör þeirra gilda sömu reglur og annara félaga. Þeim er heimil seta á fundum félagsins, en hafa ekki atkvæðisrétt. Tala þeirra er ekki takmörkuð. Aðalfundur getur úrskurðað, að félagar sem flytja brott af félagssvæðinu, eða taka af öðrum orsökum lítinn þátt í störfum félagsins, skuli teljast bréffélagar.

5. grein

Aðalfund skal halda í janúar ár hvert. Aðalfundur er löglegur ef helmingur reglulegra félaga situr hann. Stjórn félagsins gefur aðalfundi skýrslu um störf sín á liðnu ári, og leggur fram starfsáætlun fyrir næsta ár. Allar meiri háttar ályktanir skal bera undir aðalfund.

6. grein

Stjórn félagsins er skipuð þremur mönnum, forseta, ritara og féhirði. Skulu stjórnarmenn kosnir á aðalfundi, þannig að á hverju ári gengur einn maður úr stjórn félagsins, sá sem þar hefur átt sæti síðustu þrjú ár. Aðeins reglulegir félagar eru kjörgengir. Auk þess skal kjósa einn varamann í stjórn árlega. Heimilt er að kjósa allt að þrjá heiðursforseta, án embættisskyldu, og þurfa þeir ekki að vera reglulegir félagar.

7. grein

Aðalfundur ákveður félagsgjald fyrir komandi starfsár. Þeir sem gefa félaginu fjármuni eða önnur verðmæti, eiga rétt að að fylgjast með hvernig þeim er varið.

8. grein

Félagið getur veitt vísindamönnum og öðrum, er sýnt hafa sérstakan dugnað og áhuga fyrir stefnumiðum þess, sérstaka viðurkenningu, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.

9. grein

Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi félagsins, og þarf til þess tvo þriðju atkvæða löglegs aðalfundar.

Lögin voru upphaflega samþykkt á stofnfundi félagsins 1. des. 1971, en breytt lítillega á aðalfundi 13. des. 1975, og aftur (3. grein) á aðalfundi 27. febr. 1982. Þessi gerð er frá jan. 1985. Þar er rauðstrikað undir setninguna í 5. grein: Aðalfundur er löglegur... o.s.frv., sem líklega hefur staðið til að breyta. Aðalfundir hafa verið taldir löglegir þó færri en helmingur félaga sækti þá. Hámarkstala félaga var að lokum ekki virt, og skilyrði fyrir inntöku ekki heldur. – H. Hg. 2020.


 Félagaskrá

Reglulegir félagar (Nöfn á félagaskrá 1991-92 eru feitletruð)
Bernharð Haraldsson skólameistari Verkmenntaskólans á Ak. Skráður 1972.
Bjarni E. Guðleifsson tilraunastjóri, Möðruvöllum. Stofnfélagi V.N. 1971. (D. 2019).
Bolli Þ. Gústafsson, prestur, Laufási, frá 1991 á Hólum í Hjaltadal. Skráður 1982.
Bragi Guðmundsson sagnfræðingur, Akureyri. Skráður 1992.
Elín Gunnlaugsdóttir grasafr., Akureyri. Skráð sem „óreglulegur félagi“ 1989.
Erlingur Sigurðarson kennari við M. A. frá 1978. Tillaga um aðild 1982.
Gauti Arnþórsson læknir, Akureyri, síðar í Rvík. Skráður 1974. Burtfluttur um 1995.
Gísli Jónsson kennari  M.A. Boðin aðild 1978.
Guðmundur Heiðar Frímannsson, kennari, Akureyri. Líklega skráður 1981.
Guðmundur Helgi Gunnarsson búfr., Möðruvöllum, Hörgárdal. Skráður sem „óreglul. félagi“ 1989.
Guðmundur Páll Ólafsson, kennari við M. A., Stofnfélagi FLM, 1969. Burtfluttur 1971.(D. 2012).
Guðný Gerður Gunnarsdóttir, safnvörður, Akureyri. Skráð sem „óreglul. félagi“ 1989.
Gunnar Frímannsson, kennari við M.A., Akureyri. Skráður 1985.
Halldór Pétursson jarðfræðingur, starfsmaður N. A. frá 1986. Skráður 1988.
Haraldur Bessason, rektor Háskólans á Ak. Skráður 1988.
Haraldur Sveinbjörnsson, verkfr., kennari við M.A. 1964-65. Skráður 1986.
Helgi Hallgrímsson, safnvörður. Stofnfélagi FLM,1969. Burtfluttur í Egilsstaði 1987. Heiðursfélagi 1991.
Hörður Kristinsson grasafræðingur. Stofnfélagi V. N. 1971.
Jóhann Pálsson grasafræðingur, starfsmaður Lystig. Ak. og N.A. Skráður 1982.
Jóhann Sigurjónsson kennari við M.A., Akureyri. Tekinn í FLM. 1970.
Jóhannes Sigvaldason, frkvstj. Ræktunarfélags Norðurl. Stofnfélagi FLM 1969.
Jón Björnsson, sálfræðingur. Skráður 1992. Burtfluttur um 1995.
Kristín Aðalsteinsdóttir líffræðingur, starfsmaður N.A. Skráð 1982.
Kristján Kristjánsson, heimspekingur, kennari við Hásk. á Ak. Skráður 1986.
Magnús Jónsson veðurfræðingur, kennari M.A. 1982-85. Skráður 1985.
Ole Lindquist, kennari við M.A., Akureyri. Líkl. skráður 1982.
Ólafur H. Torfason ritstjóri, Akureyri. Skráður 1986. Burtfluttur 19??
Stefán G. Jónsson, kennari við M. A. og Hásk. á Ak. Skráður 1985.
Stefán Þorláksson kennari við M.A.. frá 1970. Skráður 1986.
Stefán Vilhjálmsson, matvælafr., Akureyri. Tillaga um aðild 1982.
Tómas Ingi Olrich, kennari við M.A., Akureyri. Líklega skráður 1991.
Tryggvi Gíslason, skólameistari. Skráður 1972. Burtfluttur 2003.
Úlfur Ragnarsson læknir, Akureyri. Skráður 1986. Burtfluttur 19??
Þórarinn Lárusson, ráðunautur. Skráður 1971. Burtfluttur 1985.
Þórir Haraldsson, kennari við M.A., Akureyri. Skráður í LLL/V.N. 1980. (D. 2014)
Þórir Sigurðsson kennari, Akureyri. Stofnfélagi FLM,1969.
Þóroddur F. Þóroddsson jarðfr., Akureyri. Skráður 1982.
Samtals 37 (19 á skrá 1991-1992)

Bréffélagar
Bjarni Einarsson, fornleifafr., Svíþjóð. Skráður 1989.
Björn Sigfússon bókavörður Háskólabókasafns, Reykjavík. Skráður 1982.
Guðbrandur Magnússon, kennari, Siglufirði. Boðin aðild 1978.
Hálfdán Björnsson bóndi og náttúrufræðingur, Kvískerjum, Öræfum. Boðin aðild 1978.
Hjörleifur Guttormsson, kennar og náttúrufr., Neskaupstað. Boðin aðild 1978.
Indriði Indriðason ættfræðingur, Reykjavík. Skráður 1982.
Kristmundur Bjarnason skjalavörður, Sauðárkróki. Skráður 1989.
Matthías Eggertsson búfræðingur, Hólum, Hjaltadal. Skráður 1982.
Oddur Sigurðsson jarð- og jöklafræðingur, Reykjavík. Skráður 1982.
Sigurvin Elíasson prestur og jarðfr., Skinnastað, Öxarfirði. Skráður 1982.
Stefanía Júlíusdóttir, bókasafnsfr., Kópavogi. Skráð 1982.
Stefán Karlsson, handritafr., Reykjavík. Skráður 1982.
Theodór Gunnlaugsson, Austara-Landi, Öxarfirði. Skráður 1982.
Trausti Einarsson jarðeðlisfr., Reykjavík. Skráður 1982.
Vilhjálmur Þorsteinsson dýrafr., Kópavogi. Skráður 1982.
Samtals 15. Árið 1989 voru 10 fyrrv. reglul. félagar skráðir sem bréffélagar, vegna brottflutnings, og voru þeir þá samtals 25.

Skrá um fyrirlestra og fyrirlesara

Ágúst Guðmundsson jarðfr. og Oddur Sigurðsson, jarðfr.: Kröflueldar, 11. apríl 1981 (LLL).
Bjarni Einarsson fornlfr., Ak.: Um Gásarannsóknir sínar, 6. des. 1986.
Bjarni E. Guðleifsson búfr., náttúrufr.: Kalrannsóknir, 16. maí 1981 (LLL).
Björn Jónsson læknir, Kanada: Stjarnvísi í Eddum, 14. mars 1989.
Björn S. Stefánsson, búfr., hagfr., Rvík.: Forgangsröðun valmöguleika við atkvæðagreiðslu, 17. maí 1983. / Um byggðastefnu á Íslandi, 12. nóv. 1983.
Bragi Guðmundsson, sagnfr., Ak.: Gósseigendur um aldamótin 1700, 8. mars 1986.
Einar H. Guðmundsson, stjarnfr. Rvík: Endalok sólstjarna: Hvítir dvergar og svarthol, 8. maí 1982.
Erlendur Jónsson og Ólafur Halldórsson fiskifr., Ak.: Um fiskeldi í Eyjafirði – lúðueldi, 14. jan. 1988.
Eyjólfur Kjalar heimsp., Rvík.: Siðfræði og frjálshyggja, 28. apr. 1984.
Friðrik Haukur Hallsson félagsfr.: Rannsóknaraðferðir félagsfræðinnar, 1. jíní 1982.
Guðmundur H. Frímannson heimsp., Ak.: Hvað er heimspeki, 7. febr.1981. / Merkingarfræði Gottlobs Frege, 16. jan. 1985. / Hvað er sjálfræði?, 1. febr. 1992.
Guðný Gerður Guðmundsdóttir sagnfr.?, Ak.: Byggingarsaga miðbæjar Reykjavíkur, 28. febr. 1989.
Gunnar Karlsson sagnfr., Rvík.: Þjóðerni og hugmyndir um sjálfstæði og fullveldi. Ráðst. 12. sept. 1992.
Halldór Pétursson jarðfr., Ak.: Nýjar hugmyndir um loftslags- og umhverfisbreytingar á Íslandi síðustu 10.000 árin, 27. apr. 1989.
Haraldur Bessason rektor, Ak.: Um stílfræðilega notkun goðsagna í fornum ritum, 25. apr. 1988.
Helgi Hallgrímsson náttfr., Ak.: Um hlutverk vísinda og stöðu þeirra í nútímaþjóðfélagi, 1. febr. 1975. / Trú og vísindi, 4. apr. 1985. / Um þjóðsögugrúsk, 8. febr. 1986.
Hörður Kristinsson grasafr., Ak.: Gróðurfar við landnám Íslands, 2. mai 1991. / Sambúð lands og þjóðar í þúsund ár. Afmælisráðst. 12. sept. 1992.
Jóhannes Vigfússon kjarneðlisfr., Sviss: Um vandamál við að koma fyrir kjarnorkuúrgangi, 20. júní 1990.
Jón Björnsson sálfr., Ak.: Sálfræðileg álitamál sem varða aldraða, 9. maí 1992.
Jón Þórðarson sjávarútvegsfr., Ak.: Um byggðaþróun (á Íslandi), 26. apríl 1990.
Kolbeinn Þorleifsson prestur: Hinn íslenski Milton, séra Jón Magnússon í Laufási, 21. okt. 1989.
Kristján Kristjánsson heimsp., Ak. : Er siðferðileg hluthyggja réttlætanleg?, 3. des 1983. / Um frelsi sem siðferðishugtak, 29. des. 1990.
Ole Lindquist, hag- og sagnfr.: Uppruni íslenkra tálgusteina, 27. febr. og 24. apr. 1982.
Ólafur K. Nielsen dýrafr., Rvík.: Íslenski fálkinn, 30. mars 1985 (17 á fundi).
Páll Árdal heimspekingur, Kanada: Að eiga illt eitt skilið (Um refsingar), 29. des. 1982 (40 á fundi).
Stefán G. Jónsson eðlisfr., Akuryri: Rannsóknir á atómkjörnum í örfuðu ástandi, 14. febr. 1985.
Stefán Karlsson handritafr., Rvík.: Íslensk tunga, einkenni hennar og þróun, afmælisráðst., 12. sept. 1992.
Sturla Friðriksson búfr., Rvík: Orkuflæði í lífríki Íslands, 13. des. 1989.
Tryggvi Gíslason skólam., Ak. : Um fyrirhugaðan háskóla á Akureyri, 17. des. 1985. / Um orðatiltæki og tilvitnanir í íslensku, 29. febr. 1992.
Úlfur Ragnarsson læknir, Ak.: Nálastunguaðferðin (í lækningum), 4. maí 1985.
Þorsteinn Gylfason heimsp., Rvík.: Orsakir geðveiki, 5. des. 1982. / Tónlist, vísindi og réttlæti, 10. mars 1984
Þórir Sigurðsson eðlis- og stjarnfr.: Erindi um Albert Einstein 1979, í tilefni aldarafmælis hans. / Þróun sólstjarna, 28. mars 1981 (LLL). / Um halastjörnur, sérstaklega Halleys-kómetu, 28. des. 1985. / 300 ára afmæli hins merka ritverks I. Newtons um stærðfræðilögmál náttúruspekinnar, 3. mars 1988.
Þoroddur F. Þóroddsson jarfr., Ak. : Jarðhiti í Eyjafirði, 19. apr. 1986.

Heimildir: Um þær hefur verið getið í texta þessa pistils, en nánar tiltekið eru þær þessar:

1) Ýmis gögn um F.L.M. og V. N. 1969-1975 í vörslu Helga Hall.

2) Fundarboð L.L.L og V. N. 1981-1992 í vörslu Jóhannesar Sigvaldasonar.

3) Fundarboð, fundargerðir, lög, félagaskrár o. fl. í vörslu Þóris Sigurðssonar.

Þær hafa allar verið tölvusettar, að miklu leyti orðrétt, í annað skjal (um 20 bls.), sem verður látið fylgja frumheimildum, sem ráðgert er að afhenda Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Rit mín um V.N. voru send safninu með bréfi 27. mars 2021, og spurst fyrir um gögn félagsins þar. Skv. bréfi, Láru Ágústu Ólafsdóttur skjalaverði 14. apríl voru þar engin skráð gögn frá V.N., en þar eru óskráð gögn frá Bjarna E. Guðleifssyni og Þóri Haraldssyni, sem gætu innihaldið slíkar heimildir. Haldið verður áfram að leita heimilda hjá líklegum aðilum. – H. Hall.
Eg., 1. des. 2020. – H. Hall.

Þessi samantekt var send Herði, Jóhannesi, Tryggva og Þóri Sig., með bréfi 9. des. 2020.

Þakkarbréf H. Hall. til Vísindafélags Norðlendinga 1991.

Eg. 26. nóv. 1991.

Vísindafélag Norðlendinga, Tryggvi Gíslason forseti, Eyrarlandsvegi 28, Ak.

Hef móttekið bréf V. N. frá 26. júlí sl., og ætla nú að svara því „á elleftu stundu“ (Eftir að hafa fengið áminningu um það frá Þóri Sigurðssyni heimsfræðingi).

Ég vil þá byrja á því að þakka þá virðingu sem V.N. sýnir mér aumum, að útnefna mig heiðursforseta félagsins; þigg ég þá nafnbót að sjálfsögðu með þökkum.

„Er vit í vísindum?“ spurði íslenzkur heimspekingur og prófessor eitt sinn, og svaraði sjálfum sér, eins og slíkra er siður. Hvernig svarið var man ég ekki, en það er ekki örgrannt um að ég hafi stundum spurt mig þess sama. Á hinn bóginn eru enn í fullu gildi orð Hávamála: „Vits er þörf...“ (Einhversstaðar las ég að orðið vit væri samstofna orðinu „veda“ á sanskrít, sbr. Veda-bækur Hindúa). Vísindin eru ein aðferð til að öðlast vizku, en oft vill sú vizka verða heldur þunn og einhæf, svo jaðrar við óvizku.

Það er sagt að Galileo karlinn hafi orðið einna fyrstur til að aðskilja vísindin frá öðrum kategoríum mannlegs hugarfars, svo sem trú og ást. Ekki veit ég hvort við eigum að þakka honum fyrir það, því að síðan hafa margir vísindamenn verið einskonar útlagar, sem manni finnst stundum að líkja megi við fávitana, sem eitt sinn var skákað á skip á Rín og skipið látið berast til sjávar með straum og „út í hafsauga“. Eins og þessir fáfvitar hafa þeir horft á landið líða hjá, án þess að gera neitt til að stöðva skipið eða beina því í höfn.

Það var svosem í lagi meðan vísindamenn voru almennt bara „amatores“ fræðanna, eða vísindavinir, en þegar „Gullveig“ kom til skjalanna fór í verra. Ef ég væri einvaldur í landi myndi ég byrja á því að setja alla vísindamenn „á guð og gaddinn“ og leggja niður Vísindasjóð.

Já, það er margt að ugga nú til dags. Hvort „stynja [ekki] dvergar fyrir steindurum?“ Uggvænleg „hröðun“ á sér stað í heimi okkar. Ég hef það á tilfinningunni, að við séum komin að þeim mörkum, þar sem tímarúmið sveigist inn á við. Erum við ef til vill að nálgast svarthol í Vetrarbrautinni?

Tíminn er líklega eina virkilega dularfulla fyrirbærið í veröldinni, eins og ég og annar stofnandi V.N. höfum oft rætt um. Nýlega áskotnaðist mér bókin „Saga tímans“ eftir Stephen Hawking, fatlaðan náunga í Bretalöndum. Þar er mikinn vísdóm að finna og er sá ekki allur auðmeltur. Varla hefur hann þekkt kvæði Páls Ólafssonar: „Tíminn mínar treinir ævistundir/ líkt og kemba er teygð við tein/ treinir hann mér sérhvert mein.“

Hvernig væri að V. N. stofnaði til málþings um tímann? Það yrði auðvitað að fara fram á réttri stundu og á réttum stað í tímarúminu. Það yrði að finna út eftir astronómískum, astrológískum og kosmológískum reglum, og miðast við ákveðna, helst fágæta skurðpunkta, í hinu mikla „horologia mundi“. (Ég treysti fyrrv. forsta V. N. til að finna það út). Það yrði að gefa sér góðan tíma í slíka ráðstefnu, eiginlega yrði hún að vera tímalaus, eða handan rúms og tíma. „O, tempora, o mores!“, andvarpaði Brynleifur gamli Tobíasson, kennari minn stundum.

Það er sagt að Albert Einstein hafi verið boðið að verða forseti Ísraelsríkis 1952, sem hann afþakkaði. „Jöfnur eru mér mikilvægari en stjórnmál“, er haft eftir honum, „því að stjórnmál eru bara fyrir líðandi stund, jöfnur handa eilífðinni.“ Það fór verr fyrir Isak Newton, sem var gerður að forstjóra Myntsláttunnar bresku í heiðursskyni fyrir vel unnin störf.

Það er ef til vill ekki við hæfi, að enda þetta þakkarbréf á vísu Steingríms, en hún er svona: „Orður, titlar, úrelt þing – / eins og dæmin sanna - / notast oft sem uppfylling / í eyður verðleikanna.“

Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki ritað þetta bréf á máli vísindanna, „lingua nobilis latina“, sem vissulega ætti að vera „Alma mater“ okkar í V.N. Í sambandi við 1.-des. hátíðina hafið þetta í huga: „Bonum vinum laetificat cor hominis“.

Verið svo kært kvaddir, vinir vísindanna. – Helgi Hall.

Heiðveig Agnes Helgadóttir

Latest Posts