16 February, 2022
# Topics

Æskuár og elliglöp

16 February, 2022

Æskutál og elliglöp

Ágrip af veraldarsögu Helga Hallgrímssonar frá Droplaugarstöðum, sem er áttatíu vetra og fjórum betur á því herrans ári MMXIX, eftir minni upp teiknað, ásamt úr ýmsum ritheimildum.

Ég er fæddur 11. júní 1935 í Holti í Fellum, Fljótsdalshéraði, þar sem móðir mín, Laufey Ólafsdóttir (1912-2003) átti heima, en faðir minn Hallgrímur Helgason (1909-1993) var frá Ási í Fellum. Ólafur móðurafi var frá Skeggjastöðum í Fellum, afkomandi Odds Jónssonar og Ingunnar Davíðsdóttur skyggnu frá Hellisfirði,frændi hans var Sigfús Sigfússon þjóðsagnasafnari, sem ritaði langan þátt af Ingunni í safn sitt. Guðlaug Sigurðardóttir móðuramma var ættuð úr Fljótsdal, sonardóttir Guttorms Vigfússonar á Arnheiðarstöðum í Fljótsdal, afa Guttorms skálds í Kanada. Ætt Helga Hallgrímssonar föðurafa er rakin um Lón til Eyjafjarðar,og skildi eftir sig slóð rithöfunda austanlands. Agnes Pálsdóttir föðuramma var úr Vestur-Skaft., fædd á Fossi á Síðu, fjarskyld Jóh. Kjarval.

Foreldrar mínir fluttu vorið 1936 að Arnheiðarstöðum, sögufrægu stórbýli með miklum bæjarhúsum,fengu þar torfbaðstofu til afnota, og bjuggu í tvíbýli við Sigríði Sigfúsdóttur, gamla ekkju frá Skriðuklaustri.Þar ólust upp nokkrar dætur Jörgens E. Kjerúlf, sonar hennar, og var því fjörugt heimilislíf á bænum. Afar mínir voru látnir þegar ég fæddist, en báðar ömmur á lífi. Agnes amma átti heima hjá okkur til dauðadags 1970 og Guðlaug amma dvaldi þar stöku sinnum. Árið 1945 settist að hjá okkur Helgi Jakobsson, karlægur  vinnumaður, sem andaðist þar um áratug síðar. Við nafnar vorum miklir vinir, ég erfði ruggustólinn hans  og ómælda blessun.

Árið 1942 stofnuðu foreldrar mínir nýbýli á jörðinni, sem hlaut nafnið Droplaugarstaðir, kennt við  Droplaugu fornkonu, móður Droplaugarsona, og byggðu bæ við Hrafnsgerðisá, sem skiptir hreppum. Þar voru engin hús áður. Byggt var tveggja hæða íbúðarhús úr steinsteypu. Jörgen Kjerúlf var yfirsmiður. Við héldum til á gömlum beitarhúsum  Stekkhúsum, meðan verið var að byggja sumarið 1942. Eldað var og matast í  fjárhúsi, en sofið í litlum skúr. Fannst mér það skemmtileg tilbreyting. Fagurt útsýni er frá bænum og afarvíðsýnt, Hallormsstaðaskógur blasir við handan Lagar, og áin með fjölda fossa rétt við túnfótinn. „Ómur af fossum og flugnastraum / fléttaðist síðan við hvern minn draum.“ (Jón Helgason: Á Rauðsgili).

Foreldrar mínir höfðu gengið í héraðsskóla um 1930, á Laugum í Reykjadal og á Laugarvatni. Þau voru  bæði ritfær, faðir minn ritaði greinar í blöð og tímarit, og hélt dagbækur. Bókakostur var lítill, aðallega  Þjóðsögur Sigfúsar, Íslendingasögur og tímaritið Gerpir. Móðir mín var tónelsk, eins og margt frændfólk hennar, hún lærði á orgel í Fagradal í Vopnafirði, og erfði hljóðfæri föður síns, en varð að selja það fyrir mjólkurkú, að eigin sögn. Ég var elstur sex barna þeirra. Hin voru í aldursröð Ólafur Þór, síðast prestur á Mælifelli, Agnar sagnfræðingur, Reykjavík, Guðsteinn bóndi á Teigabóli í Fellum, Guðrún Margrét  skrifstofustýra, Akureyri, og Bergljót bóndi og kennari í Haga, Aðaldal. Guðrún og Agnar eru látin.

Bernskuár

Ég var víst fremur einrænn í bernsku, en tók samt þátt í leikjum okkar bræðra, sem voru eftirlíking  bústangs. Við vorum snemma vanin við bústörfin, heyskap á sumrin og umhirðu búfjár á vetrum. Sauðfé var haft á beitarhúsum, Stekkhúsum og Parthúsum, þau síðarnefndu fræg fyrir draugagang, sem þó varð ekki vart.  Allt var unnið með gamla laginu, slegið með orfi og ljá, rakað með hrífum, úthey bundið í bagga og flutt á hestum. Kerra var mikið notuð, sláttuvél fengum við 1947, og lítinn traktor 1949. Lítið var um ferðalög, nema á næstu bæi, aðallega til frændfólks í Fellum.

Bátar voru engir, nema á Hallormsstað, en stundum var fært á ís yfir Fljótið. Einu sinni á ári var farið að tína  fjallagrös uppi á Fljótsdalsheiði, og stundum veiddur silungur í Fljótinu. Á haustin fór faðir minn í göngur sem gátu tekið marga daga, sömuleiðis rekstur sláturfjár á Reyðarfjörð, en 1947 komst sláturhús á Egilsstöðum í gagnið og styttist þá reksturinn. Ég fór einu sinni í Heiðargöngu, lenti í þoku og villtist, þá lét ég hestinn ráða ferð, og skilaði hann mér til byggða.

Ég var lítið gefinn fyrir sauðfé, en hafði gaman af allri ræktun, og mikið þurfti að rækta af túnum og görðum á nýbýlinu. Túnstæði var mjög takmarkað og engjar af skornum skammti, en landið var snjólétt og beitargott, svo ekki þurfti mikið hey.   Fénu var beitt alla daga, nema það væri ófært veður eða ísuð jörð,sem sjaldan skeði.   Þannig hafði það verið um aldir, því var landið illa farið af ofbeit og jarðvegur víða blásinn upp. Flest sumur fengum við lánaðar engjar og jafnvel tún á næstu bæjum. Án þess hefði naumast verið hægt að búa á þessari harðbalajörð.

Breski herinn kom vorið 1940 og settist að á Fjörðunum. Minnisstæð er „herför“ þeirra í Skriðuklaustur,þegar þeir gerðu húsleit hjá Gunnari skáldi í júlí 1940. Ég var þá staddur við veginn með foreldrum mínum við ullarþvott. Í stríðslok 1945 sveif þýsk flugvél yfir Fljótsdal, steinsnar frá húsinu heima.  Sú gróusaga komst á kreik að Hitler hefði verið innanborðs og settur niður í fallhlíf á Klaustri!   Bretar höfðu skotæfingar á Ási í Fellum og Vallanesi, skutu yfir Fljótið. Af því leiddi hið mikla slys sem varð á Ási haustið 1946, þegar tvær jafnöldrur mínar, dætur Guðríðar móðursystur, Margrét Nanna og Droplaug, fórust í sprengingu skammt frá bænum, ásamt Guttormi föður þeirra, og ungri bróðurdóttur hans. Þau höfðu fundið sprengikúlu og farið óvarlega með hana.   Ég syrgði Droplaugu því ég hafði hugsað mér að giftast henni er við yrðum stór. Það voru mín fyrstu kynni af fallvelti lífsins.

Ég fékk snemma áhuga á skógrækt og byrjaði að útbúa smágarða og flytja í þá plöntur. Fáein gömul birkitré voru í árgilinu, síðustu leifar skóga sem þar uxu fram á 18. öld. Þar var hægt að láta sig dreyma, og skógurinn handan Fljóts var hin upphafna fyrirmynd, þaðan bárust fræ og af spruttu birkiplöntur í úthaga,sem voru bitnar jafnóðum. Hannes frændi minn og nágranni í Hrafnsgerði hafði um 1940 byrjað að planta skógi utanvið ána, sem blasti við frá bæ okkar. Auk þess átti hann bækur Einars Helgasonar, Bjarkir og Hvannir, sem ég fékk að skoða.  Árið 1948 girtum við brekku fyrir ofan túnið til skógræktar, og fengum plöntur frá Hallormsstað. Sama vor pantaði ég blómafræ frá Flóru í Reykjavík.  Það var mikil sæluhátíð fyrir 13 ára dreng.

Í barnaskóla og Eiðaskóla

Ég gekk í barnaskóla í Fljótsdal 1945-1948, 2-3 mánuði á vetri. Þá var farskóli í sveitinni, sem fluttist milli bæja, og var á fimm bæjum þessa vetur. Kennari var Guttormur V. Þormar í Geitagerði, frændi minn,landsfrægur íþróttakappi. Hjá frændfólki í Fljótsdal komst ég í kynni við bækur, sem áttu eftir að marka æviferil minn.  Það voru Flóra Íslands eftir Stefán Stefánsson, 1. útg. 1901, Snorra-Edda og Ferðabók Sveins Pálssonar, sem þá var nýkomin á prent á íslensku. Ég fékk flóruna lánaða og skilaði henni aldrei.  Mér þótti gaman í skólanum og byrjaði að skrifa ýmsan fróðleik í vasabækur, m.a. um plöntur og ræktun, veður o.fl

Haustið 1948 fór ég í Alþýðuskólann á Eiðum og var með þeim yngstu í skólanum. Það var fyrir tilstilli  Guttorms kennara og Þórarins skólastjóra á Eiðum, en sjálfur lét ég skeika að sköpuðu. Þórarinn var prestssonur frá Valþjófsstað og umhugað að koma sveitungum sínum í skóla. Viðbrigðin voru mikil.  Heimavistir voru yfirfullar, nýtt heimavistarhús var í byggingu, þangað gátum við flutt eftir hátíðar í ófrágengin herbergi. Ég var lítið fyrir íþróttir, hafði ýmigust á boltaleikjum, en gaman af sundi og smíðum.

Næsta vetur var Halldór Sigurðsson frá Bæjum á Snæfjallaströnd orðinn smíða- og teiknikennari skólans. Við urðum brátt miklir mátar, fór ég þá að kynnast rennismíði og útskurði á Fjósloftinu, sem var smíðastofa skólans, það þótti mér gaman. Þórarinn stýrði skólanum af mikilli röggsemi. Sumum þótti hann harður í horn að taka, en mér reyndist hann vel.

Fermingarvorið mitt 1949 var eitt hið harðasta á síðustu öld. Við vorum fjögur sem fermdust í gömlu kirkjunni á Valþjófsstað, sem varla hélt veðri og vindum. Mig minnir að ég hafi tekið fermingarheitið hátíðlega.  Ég fékk jakkaföt og skó, en engin veisla var haldin. Um sumarið gaf faðir minn mér skrifborð,nýsmíðað í Neskaupstað, við það hef ég unnið mestöll ritstörf. Líklega hefur hann grunað hvert stefndi.

Það hafði verið hugsjón föður míns að koma upp rafstöð við ána. Haustið 1949 komst hún í gagnið. Steinþór Eiríksson málmsmiður á Egilsstöðum smíðaði hverfilinn. Reksturinn gekk í miklu basli, stundum var rafmagnslaust svo vikum skipti á vetrum,og þá gat vantað eldivið. Mamma varð stundum að baka til jóla á öðrum bæjum. Mér þótti rafmagns- og véltækni spennandi, og reyndi að kynna mér eftir föngum.

Sumarið 1950 var dæmalaust óþurrkasamt og hröktust hey um allt Hérað.  Eftir það kom einhver mesti snjóavetur í manna minnum á Austurlandi. Á Mið- og Úthéraði var jarðlaust allan seinni hluta vetrar og fóðurskortur víða. Var þá efnt til viðamikillar björgunaraðgerðar, hey og kjarnfóður flutt með skipum til Reyðarfjarðar og dregið þaðan af jarðýtum á stórum, sérsmíðuðum sleðum. Einnig var snjóbíll GuðmundarJónassonar í ferðum með matvörur. Um þetta hefur Vilhjálmur Hjálmarsson ritað í bókinni „Þeir breyttu Íslandssögunni“ 1995.   Þetta angraði Eiðanema ekki mikið, matur var nægur, og sumir stunduðu skíðagöngur.

Ég naut vel skólavistar á Eiðum þennan síðasta vetur, í Landsprófsdeild. Undir handleiðslu Halldórs smíðaði ég ljósakrónu úr tré, rennda og útskorna, og varði flestum sunnudögum á Fjósloftinu. Í geymslu yfir leikfimisalnum voru kassar með gömlum bókum. Í blaktímum stalst ég þangað upp og nappaði  kennslubók úr eigu skólastjóra: Grundtræk af Astronomien (1907).   Ég stautaði við þessa stjörnufræðibók lengi vetrar, sneri hluta hennar á íslensku og skrifaði upp, með skýringarmyndum o.s.frv.  Síðan hefurstjörnufræði átt leynihólf í huga mínum.

Menntaskólaár

Þórarni skólastjóra þótti einboðið að ég héldi áfram námi, hann sótti um skólavist fyrir mig við Menntaskólann á Akureyri og bauðst til að aðstoða mig við námsefni 3. bekkjar M. A. utanskóla. Þáði ég það góða boð, ekki óviljugur. Það gekk eins og í sögu, með mánaðardvöl hjá Þórarni á Eiðum, er sagði mér til í þýsku, það tungumál varð strax í uppáhaldi.

Snemma vors 1952 fór ég með Esju frá Reyðarfirði til Akureyrar, sem var mín fyrsta sjóferð, sat í 3. bekk mánaðartíma og náði prófi. Fór svo heim með Catalina-flugbáti, sem lenti á Fljótinu við Egilsstaði. Það varfyrsta flugferð mín, og þótti mér hún ævintýraleg. Um haustið settist ég í stærðfræðideild 4. bekkjar og fékk pláss í Nýju heimavistinni.  Oft var glatt á hjalla í Vistinni, ég kynntist þar nokkrum bekkjarfélögum,m.a. Hjörleifi Guttormssyni frá Hallormsstað og Helga Jónssyni, sem urðu ævivinir. Seinni veturna tvo var ég í heimavist Gamla skóla fyrri part vetrar, en undi þar ekki nema til jóla, leigði þá herbergi í bænum.

Litið til baka tel ég menntaskólaárin besta tímabil ævinnar. Ég stundaði námið sæmilega, en þó reyndist stærðfræðin þung í skauti, enda höfðum við þrjá gagnólíka kennara í þeirri grein, síðast Jón HafsteinJónsson, sem þá var að byrja kennslu, og kenndi einnig eðlisfræði. Í 5. bekk fékk ég frjálsan aðgang hjá Jóni að eðlisfræðistofu skólans, og brallaði þar ýmislegt, bjó til útvarpstæki og sullaði í efnum. Málfræðin leiddist mér, og setningafræði neitaði ég að læra. Annars hafði ég gaman af náminu, og naut þess að fara í vorpróf, sem þá voru flest munnleg.

Við lærðum latínu einn vetur hjá Brynleifi Tobíassyni, skrítnum karli úr Skagafirði, það kom síðar að góðu gagni. Þórarinn Björnsson skólameistari kenndi frönsku, það voru skemmtilegustu tímarnir. Hann hafði lært í París og naut þess að fræða okkur um franska siði og menningu. Steindór Steindórsson frá Hlöðum var náttúrufræðikennari, ég varð innundir hjá honum, og heimsótti hann stundum. Aðalsteinn Sigurðsson kenndi sögu og sá um bókasafn skólans. Árni Friðgeirsson ráðsmaður var einkar hjálplegur, leyfði mér að nota smíðastofu sína og lánaði mér smásjá, sem Steindór notaði aldrei. Þá bjuggu þeir Meistari og ráðsmaður í gamla skólahúsinu, sinn í hvorum enda.

Samhliða skyldufögum las ég ýmsar fræðibækur, t.d. „Um uppruna og eðli alheimsins“, eftir Fred Hoyle,sem þá var nýkomin út á íslensku, og „Stefnumark mannkynsins“ eftir Lecomte de Noy, sem hafði varanleg áhrif.  Byrjaði að nema ítölsku, m.a. með bréfaskiftum. Þá fór ég að kynna mér kenningar Helga Péturss umlíf í alheimi og hreifst af þeim um nokkurt skeið.  Fyrsta ræða mín á málfundi var um tilgátur Helga. Ég hengdi upp mynd af honum í herbergi mínu, þegar Þórarinn sá myndina varð honum að orði: „Er þetta þinn guð?“ Þau ummæli lét ég mér að kenningu verða. Seinna fór ég að lesa skáldverk og skrifa sögur, og var tíður gestur á Amtsbókasafninu og í bókabúðum bæjarins, sem voru þrjár, en efnin voru lítil til bókakaupa.

Vorið 1954 birtist fyrsta ritsmíð mín á prenti í skólablaðinu Munin, smásaga að nafni „Flugan“, dálítið  heimspekileg. Næsta vetur var ég ritstjóri blaðsins, með Steingrím Sigurðsson kennara sem ábyrgðarmann, og ritaði í það nokkra pistla. Haustið 1954 fórum við 6-bekkingar í kynnisferð suður áland, alla leið austur í Fljótshlíð, þá kom ég fyrst til Reykjavíkur. Þar varð ég áttavilltur og það hefur fylgt staðnum síðan. Ekki hefur borið á því annarsstaðar í heiminum.

Síðasta veturinn í M.A. varð ég ástfanginn af mun yngri skólasystur, það breytti heimssýn minni, þó ekki leiddi það til neinna teljandi kynna. Hún varð draumadís og uppspretta andagiftar þennan vetur. Þá fór ég að bera við að dansa, líka að lesa, þýða og yrkja ljóð, sem ég hafði naumast gert áður. Ég hafði þá tekið upp bréfaskipti við unglinga á líku reki erlendis, sem kom að gagni við málanám og ferðalög síðar. Þaðan í frá urðu bréfaskriftir uppáhaldsiðja mín. Líklega fékk ég þar útrás fyrir ættgenga hneigð til skáldskapar.

Ég náði naumlega fyrstu einkunn á stúdentsprófinu vorið 1955, sem lauk 15. júní.   Helgi Jónsson varð dúx og Hjörleifur semidúx. 17. júni rann upp, bjartur og fagur, eins og alltaf.  Skólaslit voru kl. 11 árdegis á Sal í Gamla skóla. Þar hélt Meistari eina af sínum snjöllu ræðum, sem lengi var minnisstæð.

Á sumrin vann ég á búi foreldra minna á Droplaugarstöðum, m.a. við byggingu húsa, viðhald véla o.fl. Í staðinn kostuðu þau skólagöngu mína. Ég hafði fengið nokkra tilsögn í húsasmíði hjá móðurbróður mínum. Við byggðum fjós og hlöðu, að mestu án aðstoðar. Nokkrir félagar voru í launaðri vinnu á sumrin,sumir í vegagerð eða „á síld“, en ég slapp alveg við það og þóttist góður.

Söfnun og greining plantna var á dagskrá minni þessi árin, einnig mosar og þörungar og jafnvel skordýr,en mjög skorti tæki og hentugar greiningarbækur. Úr því rættist þegar Sveinn Þórðarson kennari kom mér í samband við félagið Kosmos í Stuttgart, sem gaf út bækur og tímarit um náttúruna, og útvegaði efni og dót til tækjasmíða.  Vorið 1953 smíðaði ég stjörnukíki í páskafríinu og sumarið 1954 smásjá, hvorttveggja með linsum o.fl. frá Kosmos, annars mest úr tré og pappír. Sveinn hafði lært í Þýskalandi, kallaður „doktorinn“.Hann varð skólameistari á Laugarvatni, en flutti síðar til Kanada.

Vorið 1955 var ég ráðinn að tilraunabúinu Hesti í Borgarfirði. Í hönd fór mesta rigningarsumar í mannaminnum á Suður- og Vesturlandi, svo ekkert gekk með heyskapinn. Sagði ég því upp vistinni og fór til Reykjavíkur, þar sem ég fékk húsnæði hjá Auði Víðis frænku minni á Eiríksgötu 4, og átti þar athvarf uppfrá því. Mamma og hún voru systra dætur. Ég fékk vinnu við húsasmíðar og undi því vel. Á Austurlandi var einmuna veðurblíða allt sumarið.

Þýðverjaland - Göttingen

Að loknu stúdentsprófi 1955 kom ekki annað til greina en taka til við nám í náttúrufræði, en ekkert slíktvar þá í boði hérlendis. Ég hafði nokkur tengsl við Þýskaland og þýskan lá vel fyrir mér. Mér var ráðlagt að sækja um Háskólann í Göttingen, sem var frægur fyrir náttúruvísindi. Það gerði ég snemma sumars, og fékk jákvætt svar. Í byrjun okt. fékk ég ókeypis far með togara frá Hafnarfirði til Cuxhaven við Elfarmynni,sem var að flytja þangað fisk til sölu.

Margt var nýstárlegt að sjá og reyna á þýðverskri grund, m.a. tré og skógar, og fyrsta lestarferðin, allt var það ógleymanlegt. Í fyrstu gekk tregt að skilja og tala þýsku en það lagaðist brátt. Ég var nokkra daga í Hamborg og skoðaði mig um. Þar blöstu við afleiðingar Heimsstyrjaldar, sem lokið hafði aðeins áratug fyrr,húsarústir hér og þar í miðborginni. 

Síðan lá leiðin með lest, til Göttingen í Neðra-Saxlandi, um 200 km sunnan við Hamborg. Göttingen er í fallegu umhverfi, í grunnu dalverpi, smáborg á evrópskan mælikvarða, með álíka marga íbúa og Reykjavík,en miklu minni að flatarmáli, og á sér um 1000 ára sögu. Eins og flestar borgir í Mið-Evrópu, var hún girt með varnargarði, sem stendur að hluta til enn og myndar hálfhring um elsta hlutann, á honum liggur nú  göngustígur með linditrjám. Borgin hafði að mestu sloppið við loftárásir, og háskólinn starfaði öll styrjaldarárin. Reyndar var hún mesta nasistabæli á Hitlerstímanum. Segi menn svo „að vísindin efli alla dáð“. Þegar ég hugsa til baka furðar mig hversu lítið ég hugleiddi hrylling og grimmdarverk nasistanna,sem voru þó öllum kunnug á þessum tíma.

Háskólinn var stofnaður 1737 af Georg August II, fursta í Hannover, sem Göttingen heyrði þá til, síðar konungi Englands, og ber skólinn nafn hans. Þar höfðu ýmsir frægir menn numið, svo sem Otto von Bismark og Heinrich Heine, en kunnastur var skólinn fyrir vísindamenn í eðlisfræði og stærðfræði á 19. og framan af 20. öld. Má þar nefna Otto Hahn, sem varð heimsþekktur fyrir að kljúfa úranatómið, og Max Planck upphafsmann skammtafræðinnar, við hann eru kenndar margar vísindastofnanir í Þýskalandi. Um aldamót 2000 höfðu 44 Nóbelsverðlaunahafar lært, kennt eða starfað við háskólann í Göttingen.

Ég innritaðist í líffræði, með grasafræði sem aðalgrein, aukagreinar: dýrafræði, eðlisfræði og efnafræði. Skólasetning fór fram 26. nóv. í aðalbyggingunni, sem nefnd er Aula, var hún mjög hátíðleg. Woermann rektor sagði nemendafjölda um 5 þúsund, þar af um 200 útlendinga. Byggingar háskólans voru fjölmargar og dreifðar um alla miðborgina, þó yfirleitt í göngufæri á „akademísku korteri“, en margir hjóluðu á milli. Grasafræðin var þó öll á sama stað, í nýlega byggðum húsum við gamla Grasagarðinn. Um sama leyti fékk ég vist í Nansenhúsi, fjölþjóðlegum stúdentagarði, sem stofnaður var eftir styrjöldina til að auka kynni og skilning milli þjóða.

Ferðaslangur

Ég hafði um nokkurt skeið skrifast á við stúlku að nafni Gerlinde Müller, sem átti heima í borginni Menden í Westfalen, og var nú 17 ára, einbirni foreldra sinna. Hún hafði boðið mér heim og dvaldi ég hjá fjölskyldu hennar um jól og áramót. Hún var fyrsta stúlkan sem ég kynntist að einhverju marki, fannst mér hún indæl í alla staði og við urðum góðir vinir. Ég fór með henni og vinkonu hennar um nágrennið, sem er fjöllótt og skógi vaxið, víða undurfagurt. Hún hafði áhuga á dýrum og íslenski hesturinn var í uppáhaldi. Við ráðgerðum Íslandsferð næsta sumar, en foreldrar hennar lögðust gegn því. Ég heimsótti þau nokkrum sinnum eftir þetta og var vel tekið. Við skiptumst á bréfum til 1958. Ég frétti löngu síðar (1980) að hún hefði andast 17. júní 1964, aðeins 26 ára gömul.

Í sömu ferð heimsótti ég herbergisfélaga minn í þorpinu Kamp-Lindfort í Ruhrhéraði og gisti tvær nætur. Þá varð ég svo frægur að komast ofan í kolanámu með honum, óneitanlega dálítið smeykur. Hef ég aldrei orðið eins feginn að sjá sólarljós eins og þegar upp kom. 

Í vetrarfríinu mars-apríl 1956 rættist sá langþráði draumur að ferðast til Ítalíu, sem ég hafði undirbúið með ítölskunámi og bréfaskriftum. Fararefnin voru naum og til þeirrar ferðar var stofnað af lítilli fyrirhyggju. Ég fékk lánaðan hjólhest hjá hollenskum félaga mínum í Nansenhúsi, en fór ásamt hjólinu með lest til München og síðan í hríðarbyl yfir Alpafjöll til Feneyja.  Eftir nokkurra daga dvöl í þessari furðulegu borg bjó ég upp á hjólið og renndi vestur Pósléttuna, gisti í nokkrum fornfrægum borgum, m.a. í Padova,þar sem Galileo Galilei beindi kíki sínum til stjarnanna um 1630.  Á leið yfir Appennínafjöll hreppti ég hið versta veður, rigningu og krapahríð, og komst nær dauða en lífi til Flórens síðla kvölds. Þar dvaldi ég nokkra daga og skoðaði frægar byggingar og málverkasöfn. Hér gengu þeir Dante, Boccacio, Michel Angelo og Leonardo da Vinci um götur á Miðöldum, þá var Flórens mesta menningarborg í heimi.

Óhjákvæmilegt var nú að skreppa til Rómar, borgarinnar eilífu, og valdi ég þann kost að ferðast þangað með lest. Þar dvaldi ég í 3 daga, og fannst mikið til um þau undur sem þar getur að líta, var það líkt og að ferðast aftur í tímann um tvö þúsund ár, enda standa þar hús sem reist voru fyrir Kristsburð, t.d. Panþeon. Að sjálfsögðu var litið við í Péturskirkju, þar var stúlka að biðjast fyrir, hún leit á mig snöggvast, því augnatilliti gleymi ég aldrei.

Frá Flórens hjólaði ég til Písa. Þar týndi ég myndavél, með fjölda mynda úr ferðinni, síðan biluðu bremsur á hjólinu, og varð ég að senda það með lest til Torino, og sníkja far með bíl þangað. Í Torino átti ég heimboð hjá Christina Ballor, sem ég hafði átt bréfaskipti við, var þar í nokkra daga í besta yfirlæti og gerði við hjólið. Christina var um tvítugt, mælandi á ensku og þýsku, hafði lesið Eddu og bækur Halldórs Laxness. Við fórum á sinfóníutónleika, sem ég hafði aldrei gert áður.

Hjólaði þaðan til Milano á páskum og náði að komast í Scala-óperuna, og sjá La traviata með Maríu Callas. Ég hafði aðeins efni á stöðuplássi á efstu svölum, og naut þessa fræga söngleiks því ekki sem skyldi. Þaðan lá leiðin austur til Como og Lugano við rætur Alpanna. Þar sá ég fyrstu villiblómin þetta kalda vor. Þá lá næst fyrir að „klífa“ Alpafjöll, og valdi ég leiðina um Gotthardskarð.  Gekk það áfallalaust, og þaðan rann hjólið sjálfkrafa niður dalina í Sviss. Í Zürich átti ég heimboð frá unglingi, Andreas að nafni, sem ég hafði kynnst í ferðinni. Mér var vel tekið af foreldrum hans, og dvaldi þar meðan vorhátíð þeirra Zürichbúa stóð yfir, sú mesta sem ég hef orðið vitni að um dagana, og virtust allir borgarbúar taka þátt í henni af lífi og sál.

Frá Zürich lá leiðin norður um Þýskaland. Þar viðraði illa og ég var stundum hrakinn þegar ég kom í áfangastað, en hlýleg farfuglaheimili bættu það upp. Hélt ég niður hinn undurfagra Rínardal, var þá orðinn blánkur og tók það þrautaráð að leita til sendiráðs Íslands í Bonn. Hjólaði svo til vinafólks míns í Menden,gisti þar nokkra daga, og kom loks heim til Göttingen 3. maí.

Þetta var erfið ferð, en býsna lærdómsrík. Veðrátta var óvenju köld þetta vor, og dró það úr ferðagleðinni. Oftast var gist á farfuglaheimilum og lifað á eplum og þurru brauði, en það varð mér til bjargar að eiga vinum að mæta á nokkrum stöðum, þar sem ég fékk mat og húsaskjól . Ég sagði foreldrum mínum af ferðinni í bréfum sem þau geymdu, og eftir þeim ritaði ég ferðasöguna, sem aðeins er til í handriti.

Í júlílok 1956 fór ég með lest til Kaupmannahafnar, og kom þá í fyrsta sinn í þessa gömlu og glæsilegu höfuðborg okkar, sem ég hafði lesið svo mikið um og þekkti ýmsar byggingar af myndum. Þar dvaldi ég í fimm daga. Fékk far til Íslands með „Drottningunni“ (Dronning Alexandrine), dönsku farþegaskipi sem gekk þá milli landa. Það stansaði heilan dag í Þórshöfn í Færeyjum og dagstund í Klakksvík svo ég gat skoðað mig um þar. Fannst mér margt skrítið hjá þeim frændum okkar.

Haustið 1956 hóf Hjörleifur Guttormsson nám í líffræði í Leipzig í Austur-Þýskalandi (DDR). Eftir það vorum við í stöðugu bréfasambandi. Þó ekki væri langt milli dvalarstaða okkar var óhægt um heimsóknir,því að þar á milli var „Járntjaldið“, sem skipti Þýskalandi milli áhrifasvæða Sovétríkja og Vesturvelda. Þar voru stúdentar á ríkislaunum, en urðu í staðinn að stunda námið af kostgæfni, og var vel með því fylgst. Þetta var gjörólíkt í vesturhlutanum, þar sem ríkti „akademískt frelsi“. Íslenskir stúdentar í DDR gáfu útfjölritað blað, sem hét Vandi. Var ég áskrifandi að því og ritaði fáeinar greinar í það.

Um mánaðamótin júní- júlí 1957 fórum við Hjörleifur til Parísar, og dvöldum þar nokkra daga í mikilli hitabylgju. Við vorum því mest á ferð um kvöld og nætur, og notuðum neðanjarðarlest (Metro), því fyrirbæri hafði ég ekki kynnst áður og þótti nýstárlegt. Á götukaffi hittum við tvær bekkjarsystur sem voru í námi í París, þær lóðsuðu okkur um heimsborgina. Að sjálfsögðu skoðuðum við Eiffelturninn, sem lengi var hæsta bygging í heimi. Við komumst bara á miðpallinn og þótti mér samt nóg um. Síðast fórum við í vínstofu í gamalli grjótnámu í Latínuhverfinu, var þar svalt og fúlt loft, og minnti á Svartaskóla, þann er Sæmundur fróði var í og sjálfur Djöfsi rak.  Hjörleifur átti litla kvikmyndavél og filmaði af og til ferð okkar. Í París hafði Þórarinn meistari lært sín fræði, og þekktum við sumt af frásögn hans.

Íslenskir stúdentar í Göttingen

Í Göttingen voru margir Íslendingar við nám, aðallega í náttúrufræðum og tannlækningum.  BergþórJóhannsson frá Goðdal í Strandasýslu hóf þar líffræðinám sama haust og ég, og fylgdumst við mikið að í náminu. Hann varð síðar fyrsti mosafræðingur Íslendinga. Þar var einnig Guðmundur Ernir Sigvaldason,með Áslaugu konu sinni og tveim börnum, síðar vel þekktur jarðfræðingur. Hörður Kristinsson frá Arnarhóli í Eyjafirði, kom þangað haustið 1958, einnig í líffræði, síðar einn helsti fléttu- og grasafræðingur Íslendinga.

Ásdís Jóhannsdóttir frá Hveragerði lærði efnafræði. Hún var víðlesin í bókmenntum, skáldmælt og hljómelsk, en nokkuð mislynd. Ég gerðist einskonar sálusorgari hennar og við bundumst vináttuböndum. Haustið 1958 fékk hún námsstyrk frá Tækniskólanum í Darmstadt og flutti þangað. Gekk henni þar vel í fyrstu en svo sótti á hana þunglyndi, og þar batt hún enda á líf sitt í okt. 1959, 26 ára, komin fast að lokaprófi. Samband okkar hafði verið stopult síðustu misserin. Hún hafði unnið á sumrum á Atvinnudeild Háskólans og átti þar vísa stöðu að námi loknu. Um aldamótin fór ég að safna kvæðum hennar, og 2002 birtust þau í bókinni Vængjaþytur vorsins, sem út kom hjá Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi.

Nokkuð var íslenska nýlendan í Göttingen slarksöm, og kom það niður á náminu, má víst segja að flestir hafi stundað það við sleitur. Þýski bjórinn varð mörgum freistandi og var óspart kneifaður. Þar var ég ekki barnanna bestur. Áhugi minn á náttúrufræði var í lágmarki og margt annað á döfinni. Ég las ýmis fræði,sótti leikhús og bíó og fékk áhuga á kvikmyndagerð. Var jafnvel að íhuga að „vertera“ yfir í sögu eða bókmenntir. Við stofnuðum „Félag Íslendinga í Göttingen“ 1957, sem starfaði lengi síðan. Það hélt reglulega fundi og undirbjó hátíðir 1. des. og 17. júní. Ég fór nú að reykja pípu til að auka andagiftina, og varð brátt háður henni, þar til um aldamót 2000, að ég lagði þann ósið niður.

Ég fékk vinnu við byggingu Grímsárvirkjunar á Héraði, en heldur fannst mér vistin þar nöturleg. Verst þótti mér að vakna við sírenuvæl á morgnana, það minnti á alræmdar fangabúðir sem ekki þarf að nefna. Þarna kynntist ég Jóni Ásgeirssyni tónskáldi, og við urðum mestu mátar. Kvöld eitt ákváðum við að skreppa á ball á Reyðarfirði og ganga stystu leið um fjallveginn Hjálpleysu. Það var ævintýraleg ferð, við lentum í myrkri en komumst við illan leik niður á Fagradal og fengum bílfar á ballið sem var að enda. Jón var sjófróður og fannst gaman að segja frá.

Næsta vetur leigði ég herbergi í miðbænum í Göttingen og kom mér þar vel fyrir. Það varð samkomustaður íslensku stúdentanna næstu tvö misseri. Þeir komu m.a. til að hlusta á fréttasendingu Útvarps Reykjavík á sunnudögum og lesa íslensku blöðin. Ásdís átti grammófón og nokkrar plötur, sem við hlustuðum mikið á. Þá komst ég fyrst í kynni við klassíska tónlist, sem ég hafði varla lagt eyra við áður, og hefur hún síðan verið í uppáhaldi hjá mér. Svo keyptum við segulbandstæki í sameiningu, sem þá voru nýkomin á markaðinn, á það var hægt að taka upp tal eða músik og spila síðan. Við Bergþór vorum í efnafræðiæfingum, stóðum flesta daga í svælu og reyk í Chemisches Institut. Eitt sinn var ég að eima nítroglycerin og sprakk þá glerdótið, var heppni að ég skaðaðist ekki. Þetta efni er notað í dínamít.

Gifting, nám og kennsla

Ég hafði fram að þessu látið skeika að sköpuðu án þess að hugsa fyrir framtíðinni, þóttist vera frjáls eins og fuglinn, en var þó orðinn mjög ráðvilltur. Náttúrufræðinámið hafði ekki staðið undir væntingum og áhugi unglingsáranna á því grúski var í lágmarki. Ég afréð því að gera hlé og reyna fyrir mér í kennslu. Þá tóku örlögin í taumana, eins og stundum áður.

Á Hallormsstað hitti ég Ninnu Kristbjörgu Gestsdóttur (Kibbu, f. 1932) frá Múla í Aðaldal, sem var ráðskona í Skógræktinni. Hún hafði gengið í Laugaskóla, var vel máli farin og gamansöm, fjölfróð og vel að sér í bókmenntum. Við trúlofuðumst haustið 1957. Þetta sumar gengum við þrír elstu bræður á Snæfell að norðan, og gistum í Laugakofa. Gekk ferðin vel, við fengum gott veður og frábært útsýni af fjallinu. Snæfell er gamalt eldfjall, ég á ennþá hraunskíði af tindinum til minja um þessa ferð.

Um haustið gerðist ég kennari við Alþýðuskólann á Eiðum og fluttum við skötuhjúin þangað með fimm ára dóttur hennar, Björk að nafni, og fengum íbúð í gamla Búnaðarskólahúsinu (Bænum). Kennslan var víst ekki upp á marga fiska. Þórarinn skólastjóra og kennarana þekkti ég flesta frá námsárum á Eiðum, og voru þeir mér vinsamlegir. Um jólin smíðaði ég eldhúsborð í smíðahúsi skólans, sem þá var nýlega risið og vel búið tækjum.

Ég tók upp það nýmæli að koma á legg fjölrituðu skólablaði, en áður var aðeins handritað „blað“ eða bók í skólanum, í einu eintaki, sem hét Helgi Ásbjarnarson. Nefnd var skipuð í hverjum bekk til að útvega efni,þátttaka var furðugóð, og gegnum þetta dútl kynntist ég ýmsum nemendum, sem urði heimagangar hjá okkur. Blaðið hlaut nafnið Bæjarpósturinn og kom út í mars, 28 bls. að vonum heldur óburðugt. Þarna steig Magnús Stefánsson, Fáskrúðsfirðingur, sín fyrstu spor á ritvellinum, 17 ára, og varð það upphaf að ævilöngu samstarfi og vináttu okkar.  Árið 1958 varð Eiðaskóli 75 ára og Alþýðuskólinn fertugur.  Af því tilefni var Benedikt Gíslason frá Hofteigi frændi minn fenginn til að semja sögu Eiða. Hann dvaldi á Eiðum um veturinn, og hafði ég af honum nokkur kynni. Bókin kom út í ágúst, þá var haldin mikil afmælishátíð á Eiðum, sem ég missti af, því ég var í Þýskalandi.

Ég tók nú þá ákvörðun að halda áfram háskólanámi. Við Kibba settumst að í Eddigehausen, litlu þorpi um 10 km norður frá Göttingen. Við leigðum herbergi hjá þrem systrum,sem flúið höfðu frá þeim hluta Þýskalands, sem lagður var undir Pólland í stríðslok, ásamt milljónum annarra Þjóðverja. Þær reyndusto kkur vel eins og raunar allir þorpsbúar.  Þetta sumar fæddist okkur sonur, sem hlaut nafnið Hallgrímur. Um haustið fengum við íbúð í gamalli villu skammt frá þorpinu, sem við nefndum Dynjanda.

Við vorum þarna tvö kennslumisseri, til vors 1959, fórum þá heim í Droplaugarstaði. Ég skrifaði mikið á þessum tíma, m.a. langa ritgerð um skólamál, aðra um vernd sögulegra minja. Ég hafði hug á að stofna fjölritað blað, og lagði fram tillögu þess efnis í Íslendingafélaginu, en ekki varð af framkvæmdum, og ekkert af þessum mörgu skrifum hefur birst á prenti.

Um veturinn lenti ég í þjóðsögugrúski, og tók saman nafnaskrá yfir Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar, sem þá voru loksins allar komnar á þrykk hjá Víkingsútgáfu Ragnars í Smára. Fyrstu heftin komu út 1922 á Seyðisfirði, svo að það tók 36 ár að koma þeim á prent. Ég hafði samráð við Ragnar og afhenti honum handritið að gjöf. Í staðinn gaf hann mér eintak af útgáfubókum sínum sem þá voru fáanlegar, varð það góður stofn að bókasafni okkar hjóna. Hins vegar fórst útgáfa skrárinnar fyrir hjá honum, og þegar ég fór að spyrjast fyrir um handritið löngu síðar fannst það hvergi, en handskrifað eintak á ég enn. Safn Sigfúsar var svo gefið út að nýju hjá Þjóðsögu 1982-1993, og var þá gerð önnur nafnaskrá.

Sumarið 1959 eignaðist ég loks fullkomna smásjá og fór að greina mosa í samstarfi við Bergþór skólafélaga minn, sem þá var búinn að tileinka sér mosafræði sem sérgrein. Hann lauk háskólanámi í Oslo 1964, með íslenska mosa sem prófverkefni. Sama ár fékk hann fasta stöðu við Náttúrufræðistofnun Íslands og varð mosafræðin lífsstarf hans til æviloka 2006. Ég greip nokkrum sinnum í mosagreiningar síðar, og safnaði þeim fyrir Bergþór. Sumarið 1983 tók ég þátt í móti Norræna mosafræðingafélagsins á Laugarvatni, með Bergþór og Ágúst H. Bjarnasyni, sem stóð í vikutíma. Það varð svo hlutverk Ágústs að semja fyrstu mosabók fyrir almenning: Mosar á Íslandi sem kom út haustið 2018.

Aðjúnkt í M. A.

Sumarið 1959 hafði ég sótt um kennarastöðu í nokkrum framhaldsskólum, m.a. við Gagnfræðaskólann á Akureyri. Undir lok ágúst fór ég norður og gisti í Menntaskólanum. Þar hitti ég Þórarin meistara, er sagði mér í óspurðum fréttum, að Steindór hyggðist bjóða sig fram til Alþingis fyrir Alþýðuflokkinn á Vestfjörðum, og reiknaði fastlega með að verða þingmaður næsta vetur, svo nú vantaði skólann náttúrufræðikennara. Spurði hann mig hvort ég vildi hlaupa í skarðið. Ég varð hvumsa við, en þessu boði var erfitt að hafna, enda átti ég enga stöðu vísa í öðrum skólum. Þetta var fastmælum bundið, og lofaði meistari mér ákveðnum fjölda kennslustunda ef Steindór kæmist ekki á þing. Hann var vongóður um frama sinn í pólitík en fékk þó að lokum afsvar. Sat skólinn því uppi með okkur báða næstu vetur. Við hjónin fengum rúmgóða íbúð á leigu á efri hæð gamals verslunarhúss í Innbænum, sem Kaupfélagið átti nú og rak matvörubúð á neðri hæð.

Skólinn var settur 1. október að venju. Þóttist ég nú vera lukkunnar pamfíll, fyrir einskæra tilviljun orðinn kennari við minn gamla og æruverðuga skóla, sem mér þótti innilega vænt um og bar mikla virðingu fyrir,ekki síst vegna þeirra merku náttúrufræðinga sem þar höfðu starfað. Þar var ég kominn á rétta hillu, sem átti eftir að sannast. Ég var að sjálfsögðu lausráðinn, enda ekki nema hálflærður og réttindalaus, en fékk samt næga kennslu við ýmis fög í miðskóladeild og 3. bekk. Miðskóladeildin var leifar af gagnfræðaskóla,sem flutti í þetta glæsilega hús 1904, og breytt var í menntaskóla 1930. Í deildinni voru aðallega nemendur frá Akureyri.  Ég fékk brátt mikinn áhuga á starfinu og tókst nú betur til en áður á Eiðum, enda var aðstaða mun betri. Gamla kennarastofan var orðin of lítil, og búið að bæta við hana stóru herbergi sem áður var skrifstofa skólameistara, þar var yfrið setupláss, auk þess ýmsar handbækur í skápum. Þarna voru flestir af mínum gömlu kennurum, sem tóku mér vel, og gaman var að kynnast þeim frá nýju sjónarhorni. Ég tileinkaði mér gamlan hægindastól í horni stofunnar, sat þar löngum og tottaði pípu. Ég mætti oftast snemma morguns og naut einveru um stund, áður en kennsla hófst.

Þegar Nýja heimavistin komst í gagnið um 1950, var farið að sameina herbergi í Gamla skóla og útbúa nýjar kennslustofur. Steindór kom því til leiðar, að á efri hæð Norðurvistar var allstór stofa með föstum bekkjum og borðum, ætluð til kennslu í náttúrufræði og kölluð Náttúrufræðistofa. Inn af henni var herbergi til geymslu á náttúrugripum, bókum og tækjum, m.a. ágæt smásjá. Þar var gamalt plöntusafn frá tíma Stefáns skólameistara, og talsvert af kennslu- og fræðibókum í grasafræði. Ég fékk aðgang að stofunni, þó ég kenndi þar sjaldan, safnherbergið var fjársjóður, sem ég nýtti mér mikið, og undi þar löngum utan skólatíma við allskonar grúsk. Ég tók upp ýmsar nýjungar í kennslu, svo sem ritgerðir,smásjáræfingar, sýnikennslu og náttúruskoðun. Stundum hafði ég smásjáræfingar í stofunni utan skólatíma. Með tímanum varð ég nokkuð vinsæll kennari og eignaðist jafnvel vini til lífstíðar úr hópi nemenda.

Í kennaraliðinu 1959-60 var annar nýliði, Jón Kristvin Margeirsson, úr Skagafirði, sem kenndi líka næsta vetur, og lenti þá í „einelti“ af hálfu nokkurra samkennara, sem léku drauga við íbúð hans í bænum. Varð af því nokkurt þras. Haustið 1961 bættist við Helgi Jónsson bekkjarbróðir minn, kenndi tvo vetur, og Þórir Sigurðsson 1963, sem kenndi þar lengi síðan. Allir urðu þeir góðvinir mínir.

Sveppafræði og prófþras

Vorið 1960 flutti Steindór mér þá fregn, að Sigurður Pétursson gerlafræðingur á Atvinnudeild Háskólans í Rvík óskaði eftir sveppafræðingi til að fást við fúa í nýlegum tréskipum, og væri tryggingafélagið Samábyrgð Íslands reiðubúið að leggja fram ríflegan námsstyrk. Þetta var freistandi tilboð sem ég hlaut að íhuga. Áður hafði ég varla leitt hugann að sveppum, en fór nú að „líta þá hýru auga“ eftir því sem þeir birtust í náttúrunni. Er ekki að orðlengja það að ég fór að safna sveppum og sveppafræði varð helsta viðfangsefni mitt sumarið 1960 og lengi síðan. Ég ákvað að þiggja styrkinn, og samdi við tryggingafélagið um greiðslur næstu misseri. Þetta vor fæddist annar sonur okkar, sem skírður var Gestur, eftir móðurafa sínum í Múla. Um sumarið fór ég fyrst um Kjalveg yfir Miðhálendi Íslands, með Jóni Víðis, frænda mínum í Rvík.

Um haustið fór ég með Gullfossi til Khafnar og hitti þar Morten Lange sem þá var helsti sveppafræðingur Norðurlanda, og frétti að hann hefði sumarið áður safnað sveppum á SV-Íslandi, vorum við góðkunningjar upp frá því. Þá varð ég líka svo frægur að heimsækja Jón Helgason prófessor, með tveim öðrum, annar var samstarfsmaður hans á Árnastofnun.

Ég hafði hug á að fara til Svíþjóðar í framhaldsnám, þar hafði Elias Fries „faðir sveppafræðinnar“ alist upp og starfað, að ógleymdum meistara Linné. Því skrapp ég yfir sundið, til Lundar, og dvaldi vikutíma við að kynna mér námsmöguleika þar. Það reyndist ekki álitlegt og því sneri ég aftur til Göttingen og tók dýrafræðikúrs og efnafræðipróf sem ég hafði fallið á 1957 og gekk það vel. Þóttist ég þá hafa lokið því námi sem skyldugt var til lokaprófs. Þá fékk ég líka gleraugu vegna nærsýni, og bar þau lengi síðan.

Í vorfríinu 1961 vann ég við að standsetja kjallaraíbúð í „Beitarhúsum“ sem Menntaskólinn átti í Hrafnagilsstræti 4, á efri hæð bjó Árni Kristjánsson kennari og fjölskylda hans. Samdi ég við Meistara um að þessar endurbætur gengju upp í leigu næstu árin. Í apríl fluttum við þangað.

Ég fór aftur utan í byrjun maí, og falaðist eftir prófverkefni í Göttingen, helst um sveppi á Íslandi.  Andre Pirson prófessor ráðlagði mér að fara til Hannoversch Münden, um 30 km vestur frá Göttingen, þar sem Skógræktardeild háskólans hafði aðsetur. Þar var stofnun fyrir skógar- og viðarskemmdir sem Zycha nokkur stýrði.  Münden er smáborg í íðilfögru umhverfi, þar sem árnar Fulda og Verra koma saman, báðar í þröngum, skógi vöxnum dölum. Þarna dvaldi ég sumarmisserið 1961, og kynnti mér fúarannsóknir, en aðalverkefnið var þó fyrirlestur, sem ég hélt í júnílok í Grasafræðistofnun Háskólans. Það var ritgerð upp á 24 bls., sem ég lagði mikla vinnu í að semja.  Ég kallaði hana Über die Sporen (Um gróin), en raunar snerist hún um samhengið í plönturíkinu.  Ég fékk marga áheyrendur og erindið mæltist vel fyrir.

Þeim herrum kom þó saman um að þeir gætu ekki tekið mig sem „doktorand“ í sveppafræði, en vísuðu mér til Hamborgar, þar sem menn væru betur að sér í þeirri grein. Það urðu mér mikil vonbrigði. Á heimleið kom ég þar við og hitti Franz H. Meyer, sérfræðing í Skógræktardeild háskólans. Hann tók beiðni minni vel, en þá kom í ljós að mig vantaði kúrs í lífrænni efnafræði, sem var skylda til lokaprófs í Hamborg. Fór ég heim við svo búið og kenndi næsta vetur í M.A.

Vorið 1962 fór ég til Hamborgar og tók efnafræðikúrsinn, sem fór fram í gamalli höll í þorpinu Ahrensburg,um 25 km austan við Hamborg, hespaði hann af á mettíma í maí-júní, og fór heim með Gullfossi. Sat ráðstefnu um North atlantic biota and their history í Háskóla Íslands, sem Áskell Löve, grasafræðingur, þá í Boulder, Colorado, U.S.A, stóð fyrir.  Voru það mín fyrstu kynni af honum er síðan áttu eftir að aukast. Þarna var margt frægra náttúrufræðinga frá ýmsum löndum, sem ég kynntist lítið, enda hafði ég mig lítt í frammi. Erindi og umræður fóru fram á ensku, sem ég var ekki beysinn í. Efni þingsins var svo gefið út á bók. Um haustið var haldið upp á aldarafmæli Akureyrarbæjar, m.a. með ræðum og sögusýningu.

Veturinn 1962-63 var ég heima og stundaði sveppagrúsk og próflestur fyrir svokallað „fordiplómpróf“ í eðlis- og efnafræði. Hörður kenndi í M.A. þennan vetur, og lögðum við á ráðin um útgáfu tímarits um íslenska grasafræði. Fór um vorið til Hamborgar, og gekkst undir prófin 14. maí. Það vill svo einkennilega til að ég man ekkert eftir þeim, en þau gengu víst furðuvel, ég fékk „Gut“ í báðum fögum.  Fór þá sem skjótast heim til Akureyrar aftur.

Sama vor (1963) fluttumst við í Aðalstræti 36, 120 ára gamalt einbýlishús í Fjörunni á Akureyri, sem Kristján Geirmundsson safnvörður átti, og við keyptum af honum. Það hafði staðið í eyði nokkur ár og var orðið hrörlegt, en því fylgdi stór lóð með ríkulegum trjágróðri. Um sumarið hafði ég samband við Dr.Meyer um verkefni til diplomprófs, og stakk upp á fylgisveppum íslenska birkisins sem rannsóknarefni. Það taldi Meyer of víðfemt og lagði til annað efni, sem hefði þýtt ársdvöl í Hamborg. Það leist mér ekki á,enda hafði ég komið mér vel fyrir á Akureyri. Þessi áætlun rann því út í sandinn, og lokapróf (Diplom) var aldrei tekið. Hafði ég fordæmi þar sem Steindór var og fleiri ágætir náttúrufræðingar.

Fúasveppina lét ég lönd og leið þegar ég hætti námi 1963. Tryggingafélagið var svo vinsamlegt að krefjast ekki endurgreiðslu námsstyrks, enda heyrði fúi í tréskipum brátt sögunni til. Markmið mitt varð nú að kanna sveppaflóru landsins, einkum stórsveppina, sem þá voru lítið þekktir. Var það helsta viðfangsefni næstu sumur, og greinaskrif á vetrum, með kennslu. Sveppakverið kom út hjá Garðyrkjufélagi Íslands,1979 (160 bls.).

Á námsárum í Þýskalandi fór ég 12 sinnum milli landa, ýmist með flugvélum eða skipum, oftast með Gullfossi, á 2. eða 3. farrými (lest). Ég var sjaldan sjóveikur á Gullfossi og naut þess að ferðast með honum,betri hvíld og hugarró var ekki hægt að fá. Ég stalst oft til að sitja í reyksal 1. farrýmis, sötra koníak og reykja vindla. Ég kynntist fáum í þessum ferðum, og varð lítið var við það „ljúfa líf“ er sögur gengu af.

Náttúrugripasafnið

Árið 1962 var ég í vandræðum með sveppasafnið, sem orðið var allmikið að vöxtum og geymt heima í stofu, þar sem engin aðstaða var til rannsókna. Í ársbyrjun 1963 leitaði ég því til bæjarstjóra Akureyrar,Magnúsar Guðjónssonar, sem vísaði mér á herbergi í Náttúrugripasafninu á 4. hæð í Hafnarstræti 81, sem staðið hafði ónotað síðustu árin. Það var sannkölluð himnasending, álíka furðuleg heppni og þegar ég fékk kennslu í M.A. haustið 1959. Þar var pláss fyrir sveppasafnið og ágætis aðstaða til rannsókna, auk þess salerni og eldhús. Get ég aldrei þakkað forsjóninni nóg fyrir þá lukku, sem markaði ævistarfið upp frá því.

Náttúrugripasafnið á Akureyri var stofnað 1951, með gjöf Jakobs Karlssonar forstjóra á stóru og vönduðu fuglasafni, sem Kristján Geirmundsson hafði sett upp, síðan annast það, aukið og bætt, þar til hann fékk stöðu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í Rvík um 1960. Auk þess hafði bærinn keypt plöntusafn Steindórs,sem var í læstu herbergi undir umsjón hans. Safnið hafði þá til umráða austurhluta 4. hæðar, þar var rúmgóður sýningarsalur og umgetin herbergi.

Ég fór nú að íhuga hvað hægt væri að gera úr þessu safni, og sá í hugsýn hvernig það gæti þróast úr sýningarsafni í rannsóknasafn. Fyrirmyndir voru nógar, þannig hafði Náttúrugripasafnið í Reykjavík fengið lagalega viðurkenningu sem rannsóknastofnun 1951. Í Noregi höfðu ýmis söfn þróast á sama hátt,jafnvel upp í háskóla. Ég ritaði Magnúsi bæjarstjóra bréf með þessum hugmyndum. Það leiddi til þess að haustið 1963 var ég ráðinn umsjónarmaður safnsins í litlu hlutastarfi. Þar með hafði ég fengið töglin og bráðum líka hagldirnar. 

Ég fór nú að safna plöntum og dýrum fyrir safnið, auk svepparannsókna, sem áfram voru á döfinni. Næstu ár var sótt um styrki til tækjakaupa og komið upp safni fræðibóka og tímarita. Starfsemin óx stig af stigi,og smám saman þróaðist safnið upp í fræðasetur fyrir allt Norðurland. Kynningarstarf tók líka breytingum, auk fastra sýninga, voru teknar upp sérsýningar með fyrirlestrum og myndasýningum, og skoðunarferðum á sumrin. Árið 1970 var sýning um Tunglið, eftir fyrstu geimferð manna þangað árið áður, og var Þórir Sigurðsson samkennari minn þar hjálplegur. Við fengum m.a. lánaðan tunglstein frá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Hörður Kristinsson, félagi minn frá Göttingen, studdi dyggilega við uppbyggingu safnsins. Hann safnaði plöntum og fléttum og sérhæfði sig í þeim. Árið 1963 stofnuðum við Flóru –Tímarit um íslenska grasafræði og stýrðum því til 1968, er það skiptist í misserisritið Týli, alþýðlegt tímarit um náttúrufræði og náttúruvernd, sem kom út 1971-1985 og Acta botanica islandica, vísindarit um íslenska grasafræði, með  óreglulega útkomu. Var ég aðalritstjóri Týlis en Hörður stýrði Acta botanica. Bókaforlag Odds Björnssonar var útgefandi, með Náttúrugripasafninu. Það gaf einnig út tímaritið Heima er bezt, sem birti margar greinar mínar, og prentverk þess (P.O.B.) prentaði öll ritin. Samstarf við þetta fyrirtæki var eins gott og hugsast getur.

Á sumrin var unnið við söfnun náttúrugripa og margvíslega könnun og rannsókn á náttúrunni, oft í löngum ferðum, stundum í samstarfi við aðra náttúrufræðinga og stofnanir,innlendar sem erlendar. Safnið gaf út fjölritaða Ársskýrslu 1968-86, þar sem nánar er greint frá starfsemi þess, og 1971 hóf það útgáfu Fjölrita, sem birtu niðurstöður rannsókna þess, eða á þess vegum, á landi og sjó, einkum í Eyjafirði,komu út 14 slík rit, það síðasta 1987.  Árið 1971 var komið á fót stjórnarnefnd fyrir safnið, og varð Sigurður Óli Brynjólfsson, Krossanesi formaður hennar.

Sumarið 1963 könnuðum við Hörður hæðarmörk plantna í fjöllum við Eyjafjörð. Sumrin 1964-65 kannaði ég gróður á Flateyjarskaga, með Þóri Sigurðssyni kennara við M.A. Vorin 1965 og 1966 tók ég þátt í rannsókn á rjúpu og fæðu hennar í Hrísey, sem Finnur Guðmundsson dýrafræðingur stóð fyrir. Sumarið 1966 fór ég með Hjörleifi Guttormssyni í rannsóknaferð um Syðri-Austfirði og Austur-Skaftafellssýslu, og safnaði þá m.a. steinum og bergtegundum. 

Ég náði sambandi við ýmsa áhugamenn um náttúrufræði, svo sem Helga Jónasson á Gvendarstöðum í Kinn og Hálfdán Björnsson á Kvískerjum. Hálfdán var sérfróður í greiningu á fuglum, skordýrum og plöntum. Hann dvaldi oft hjá okkur og kom upp skordýrasafni í Náttúrugripasafninu. Á Akureyri voru þeir bræður,Jón og Kristján Rögnvaldssynir frá Fífilgerði, Eyjafirði, umsjónarmenn Lystigarðsins. Árið 1957 komu þeir þar upp fyrsta grasafræðigarði á Íslandi. Ég hafði mikil samskipti við þá, og Kristján varð samstarfsmaður minn í safninu, jafnvígur á safnvinnu og smíðar. Einnig kynntist ég Ólafi Jónssyni ráðunaut, sem hafði  samið miklar bækur um Ódáðahraun og Skriðuföll og snjóflóð.

Nokkrir útlendingar fengu aðstöðu til rannsókna á safninu um lengri eða skemmri tíma. Jón Sigurjónsson trésmíðameistari frá Ólafsfirði var aðalsmiður Safnsins, alltaf til í að breyta og bæta, safnaði sjálfur fuglum og eggjum. Eftir 1975 stóð Náttúrugripasafnið að könnun á náttúrufari og söguminjum vegna Kröfluvirkjunar, Blönduvirkjunar og áformaðrar virkjunar Jökulsánna í Skagafirði, einnig fyrirhugaðra stóriðjuvera á Dysnesi við Eyjafjörð og við Húsavík. Voru samdar viðamiklar skýrslur um þær, sem  Orkustofnun og Iðnaðarráðuneyti gáfu út.

Húsnæði safnsins varð bráðlega of lítið fyrir þá fjölbreyttu starfsemi sem þar fór fram.  Árið 1973 fékk það í viðbót alla neðstu hæð hússins. Þangað voru sýningar fluttar 1974 og fengu þar töluvert meira rými. Jafnframt var þar salur fyrir sérsýningar og fundi og geymslupláss. Árið 1978 fékk safnið alla 4. hæðina. Þar voru skrifstofur, rannsóknastofur, bókasafn, og geymslur fyrir vísindasöfnin. Um 1980 var farið að huga að framtíðarhúsnæði fyrir safnið, og kom þá upp sú hugmynd að byggja hús sunnan við Heimavist M.A. og vestan við Lystigarðinn, er gæti þjónað þessum stofnunum. Það fékk heitið Jónasarhús, kennt við Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðing. Stofnaður var sjóður í þessu skyni, en ekki varð af framkvæmdum.

Ég var starfsmaður við Náttúrugripasafnið 1963-1987, fyrstu árin í hlutastarfi, en frá 1970 í aðalstarfi,forstöðumaður 1964-1974 og 1977-87, í millitíð gegndi Hörður starfi forstöðumanns, og tók við því aftur 1987, er ég flutti burtu. Þá var nafninu breytt í Náttúrufræðistofnun Norðurlands, og árið 1993 sameinaðist rannsóknahluti hennar Náttúrufræðistofnun Íslands, sem er ríkisstofnun, og kallast síðan Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar.  Það var fyrst á efstu hæð í Krónunni, nýlegu stórhýsi í miðbænum, næst fyrir sunnan verslunarhúsið Amaro, inngangur frá Gilsbakkavegi, síðan flutt í nýbyggt hús Háskólans á Akureyri, Borgir við Norðurslóð, og starfar þar nú um tugur náttúrufræðinga. Sýningarsafnið var sett í kassa 1993 og komið í geymslu, hefur það ekki verið í notkun síðan. Mörgum er eftirsjá í því, en nú hafa sprottið upp sýningarsöfn í nágrannabyggðum.

Vísindafélag og háskóli

Árið 1970 stofnuðum við Þórir Sigurðsson o.fl. kennarar við M.A. Vísindafélag Norðlendinga. Reglugerð þess var sniðin að lögum Vísindafélags Íslendinga í Reykjavík, sem hafði starfað síðan 1918. Það stóð fyrir málfundum og fyrirlestrum um vísindaleg efni í nokkur ár. Það lagðist niður um 1975, en segja má að afþví hafi sprottið Stjörnu-Odda-félagið, sem Þórir stofnaði á Akureyri vorið 2010, og hefur stýrt síðan af miklum dugnaði. Það er fyrir áhugamenn um stjörnufræði, kennt við Odda Helgason í Múla, Aðaldal á 12.öld, sem mældi sólargang o.fl. Félagið beitti sér m.a. fyrir því að byggja stjörnuskoðunarstöð á þaki M.A. hússins Möðruvalla.

Á aldarafmæli Akureyrarbæjar 1962 kom sú hugmynd fram í ræðu Davíðs Stefánssonar skálds, að stofna háskóla á Akureyri. Ég tók það mál upp á ýmsum vettvangi, benti á fræðastarf sem unnið var við skóla og aðrar stofnanir á Akureyri, og studdi Ingvar Gíslason ráðherra við undirbúning háskólans, sem Sverrir Hermannson rak smiðshöggið á 1987.  Gauti Arnþórsson læknir frá Eskifirði kom þar líka við sögu. Nú er háskólinn fjölmennasti vinnustaður Akureyringa. (Háskólinn á Akureyri 1987-2012. Afmælisrit).

Víkurbakki og Katla

Um 1965 kynntumst við kona mín Oddi Jónssyni skósmið og Helgu Sigfúsdóttur konu hans. Þau áttu smábýlið Víkurbakka á Árskógsströnd, en voru nú orðin öldruð. Niðurstaðan varð sú að við keyptum Víkurbakka, og fluttum þangað vorið 1966. Árið áður hafði ég eignast fyrstu bifreiðina, Ford-vörubíl,árgerð 1931, sem notaður var í flutninginn. Þarna voru þrjú útvegsbýli á sjávarbakka: Víkurbakki, Ytri-Vík og Sólbakki, öll í eyði. Þeim fylgdu túnskikar, nokkur gripahús og naust. Sæmileg lending var innst í víkinni, sandur með ógrynni af glerhöllum, sem sjórinn hafði slípað, og kom fólk stundum þangað að safna þeim. Við höfðum þarna smábúskap til 1974, oftast eina kú og kálf, hænsni og fáeinar geitur. Haustið 1970 fæddist þriðja barn okkar, Heiðveig Agnes. Þá voru hjá okkur um tíma tvö börn Bjarkar stjúpdóttur minnar.

Á næsta bæ, Kálfskinni, bjó Sveinn Elías Jónsson trésmíðameistari, landsfrægur hugvits- og framkvæmdamaður, og Ása Marinósdóttir ljósmóðir kona hans. Með aðstoð þeirra keyptum við Ytri-Vík  1967, stórt og glæsilegt íbúðarhús, með tilheyrandi landskika. Þá kom upp sú hugmynd að stofna rannsóknastöð á Víkurbæjum, og nýta þennan húsakost fyrir hana. Guðmundur Páll Ólafsson líffræðingur frá Húsavík, réðist kennari við M.A. haustið 1968.  Hann vildi gerbreyta kennslu í náttúrufræði við skólann,og hreifst strax af hugmynd okkar um stöðina, keypti Sólbakka og fór að búa um sig þar, en hvarf tilfrekara náms í Svíþjóð vorið 1970. Hann varð síðar mikilvirkasti höfundur stórbóka um náttúru Íslands og skeleggur baráttumaður fyrir verndun náttúrunnar (Sjá í Náttúrufr. 84. árg. (1-2), 2014).

Við þremenningar stofnuðum Rannsóknastöðina Kötlu 1969, hún dró nafn af galdrakonu, sem getið er í Landnámu, og eftir henni heitir Kötlufjall, sem rís ofan byggðar. Stöðin var formlega opnuð að viðstöddu fjölmenni 18. júlí 1971, þar sem mælt var á fjórum tungumálum, latínu, frönsku og þýsku, auk íslensku. Sama ár var gefinn út bæklingur um stöðina, sem P.O.B. prentaði ókeypis. Slíkar stöðvar voru þá starfandi víðs vegar um Evrópu og Norður-Ameríku, flestar við sjó eða vötn, og höfðum við tekið upp samband við nokkrar þeirra. Í Vestmanneyjum var vísir að slíkri stöð.

Katla var sjálfseignarstofnun með eigin stjórn, en nátengd Náttúrugripasafninu. Fyrsti formaður stjórnar var Jóhannes Sigvaldason ráðunautur. Með aðstoð sjálfboðaliða tókst að innrétta rúmgóða rannsóknastofu í húsinu, og róðrarbát Odds hafði stöðin til afnota. Vorið 1968 rak hafís inn á Eyjafjörð og var að lóna þar fram á mitt sumar. Gat þá að líta furðuleg form og mikla fegurð, þegar jakarnir bráðnuðu. Þá var sjórinn svo tær, að auðvelt var að skoða þaragróður í honum.

Á árunum 1969-1975 stóð Katla fyrir könnun á jarðvegslífi, með Rannsóknastofu Ræktunarfélags Norðurlands, og samdi ég nokkrar greinar um það efni, ásamt Jóhannesi Sigvaldasyni, sem birtust í Ársriti félagsins. Ein þeirra var sérprentuð sem bæklingur 1970 (40 bls.). Áður var jarðvegslíf á Íslandi lítið þekkt.  Síðar tók Bjarni E. Guðleifsson tilraunastjóri á Möðruvöllum upp þráðinn við slíkar rannsóknir. Hann lærði í Noregi og kom til Akureyrar 1968 til að rannsaka kal í túnum, sem olli miklum skaða á þessum árum. Hann varð samstarfsmaður minn og einkavinur, höfundur margra bóka um náttúruskoðun og fjallgöngur.

Stöðin var m.a. ætluð háskólanemum, sem fengu þar ókeypis gistingu og aðstöðu til rannsókna á landi og sjó. Var hún talsvert sótt af innlendum og erlendum stúdentum og kennurum þeirra, einkum frá Bretlandi,og skiluðu þeir skýrslum um rannsóknir sínar og æfingar. Sumarið 1971 dvaldi Sigurður Jónsson þörungafræðingur í París tvær vikur í stöðinni, með marga aðstoðarmenn, þar á meðal tvo froskkafara,Erling Hauksson og Karl Gunnarsson. Þeir urðu góðkunningjar og áttu báðir eftir að rannsaka lífríki Eyjafjarðar betur. Sjálfur reyndi ég að setja mig inn í greiningar á fjöru- og sjávarlífi, og hafði um tíma lítið sjóbúr með ýmsum dýrum.

Þarna á Ströndinni kynntist ég Einari Petersen, jóskum manni, sem hafði sest að á bænum Kleif í mynni Þorvaldsdals. Hann var í senn spekingur og furðufugl, hafði lesið hrafl í ýmsum fræðum, og setti fram nýstárlegar tilgátur, m.a. um hægfara skrið í framhlaupum, og „skálasteina“, sem hann áleit að frumbyggjar landsins hefðu mótað fyrir þúsundum ára.

Nokkuð varð búsetan erfið á Víkurbakka. Tvo fyrstu vetur var ég með kennslu í M.A., og varð þá að gista í gamla húsinu við Aðalstræti, en 1968 seldum við það, og eftir það gisti ég oft í safninu. Árið 1975 keyptum við íbúð í Brekkugötu 13, og bjuggum þar til 1987. Víkurbakka seldum við 1977 Hauki Haraldssyni á Akureyri. Þann 17. nóv. 1979 kviknaði í 3. hæð Brekkugötu 13, þar sem synir okkar bjuggu, og skemmdist þar innrétting en greiðlega gekk að slökkva eldinn.

Aðsókn að stöðinni fór minnkandi og styrkir til rekstrar urðu torfengnir, en verkefni Náttúrugripasafnsins jukust stöðugt, og þeim varð ég að sinna. Það leiddi til þess að starfsemi stöðvarinnar lagðist niður haustið 1979 eftir áratugs rekstur. Tæki og bækur voru ánöfnuð Náttúrugripasafninu. Árið 1985 keypti Sveinn í Kálfskinni Ytri-Vík og kom þar á fót ferðaþjónustu sem hefur blómgast. Hann lét bora eftir heitu vatni og kom það upp eins og fyrir kraftaverk. Guðmundur Páll Ólafsson lést 2012, en erfingjar hans eiga Sólbakka. (Sveinn Elías Jónsson: Rannsóknastöðin Katla. Í bókinni Á sprekamó, 2005, bls. 360-371).

Lífríki vatna og sjávar

Árið 1969 komst stórvirkjun í Laxá við Brúar í Þingeyjarsýslu í hámæli, með tilheyrandi vatnsmiðlun í Laxárdal og veitum suður af Mývatnssveit. Olli hún brátt miklum deilum. Lífríki vatnakerfisins var lítið þekkt, og settar voru fram kröfur um rannsókn á því áður en til framkvæmda kæmi. Sumarið 1970 tók Náttúrugripasafnið á Akureyri frumkvæðið, í samvinnu við Náttúrugripasafnið í Neskaupstað, sem Hjörleifur Guttormsson stýrði. Sett var upp rannsóknastofa í barnaskólanum á Skútustöðum og hafin söfnun lífsýna úr Mývatni og Laxá og nærliggjandi ám og vötnum. Vann ég við þetta sjálfur, fyrst með Hákoni Aðalsteinssyni, sem var að læra vatnalíffræði í Svíþjóð, og starfaði síðar mikið á því sviði. Næstu ár kannaði ég lífríki margra annarra stöðu- og straumvatna, sumarið 1972 með Sigurði B. Jóhannessyni kennara, skólabróður frá Eiðum, sem átti plastbát og tók botnsýni úr honum. Hann andaðist vorið 2019.

Við skoðun vatnalífsins opnaðist nýr og spennandi heimur, sem mig grunaði varla að væri til. Ég reyndi eftir föngum að setja mig inn í greiningar vatnadýra og þörunga, og fór að semja greinar um það efni í HEB.  Af því spratt bókin Veröldin í vatninu – Handbók um vatnalíf á Íslandi (Bókagerðin Askur, Rvík 1979, 216bls.), hin fyrsta um það efni á Íslandi. Þar er getið um 550 tegunda vatnadýra og -plantna, og birtarteikningar af þeim flestum eftir Heinz Streble í Stuttgart, sem ég hafði kynnst um þetta leyti, auk margra ljósmynda höfundar. Bókin var sniðin að þörfum skólanna, og var lengi mikið notuð af kennurum, var ég stundum fenginn til að leiðbeina þeim á námskeiðum.  Hún var endurútgefin 1990, en er löngu uppseld. Samhliða vann ég að skrá um íslenska vatnaþörunga, og kom hún út hjá Náttúrufræðistofnun 2007, undirheitinu Þörungatal. (Fjölrit nr. 48, 94 bls.).

Á árunum 1971-1980 fóru fram rannsóknir á efna- og eðlisfari sjávar og sjávar- og fjörulífi í innanverðum Eyjafirði, tilkomnar vegna skólpmengunar frá þéttbýli við fjarðarbotninn, og voru því kostaðar af Akureyrarbæ. Þetta var fyrsta verulega átakið í því efni hérlendis. Náttúrugripasafnið skipulagði þessar rannsóknir og hafði umsjón með þeim, en þær voru unnar af ýmsum sérfræðingum úr Reykjavík, m.a.Arnþóri Garðarssyni, Erlingi Haukssyni og Karli Gunnarssyni. Ég sá um að búa skýrslur þeirra til prentunar og gefa út í Fjölritaseríu safnsins.

Náttúruvernd

Á sjöunda áratugnum fór bylgja náttúruverndar um heiminn. Við Hjörleifur hrifumst með henni og stofnuðum fyrstu samtök um náttúruvernd á Íslandi 1969-70. Haldin var ráðstefna um málið á Laugum í Reykjadal í júnílok 1969, sem var ágætlega sótt, enda var stórvirkjun Laxár þá komin í hámæli. Þar var ákveðið að stofna Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN) og kosin undirbúningsstjórn. Formlegur stofnfundur fór svo fram 20.-21. júni 1970 í Menntaskólanum, þar var ég kosinn formaður, og gegndi því starfi til 1980, þegar Bjarni E. Guðleifsson tók við því.

Sama ár stofnaði Hjörleifur Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST), og síðan risu samsvarandi félög og samtök á legg í öðrum landshlutum. Sótti ég stofnfundi flestra þeirra. Árið 1975 stofnuðu félögin Samband íslenskra náttúruverndarfélaga (SÍN), sem stóð m.a. fyrir ráðstefnu og sýningu úr öllum landshlutum í Rvík vorið 1977.  Eftir 1985 fór að draga úr starfsemi félaganna og síðan hafa flest þeirra sofið svefninum langa. Þó hefur NAUST starfað óslitið. (H. Hall.: Þáttaskil í náttúruvernd á Íslandi um 1970...Náttúrufr. 79. árg (1-4), bls. 2-36).

Þessi nýja verndarhreyfing lagði áherslu á samspil lífvera í smáu og stóru, eða svokallaða vistfræði(ecology) sem þá var í örri þróun. Tilgangur tímaritsins Týlis var m.a. að kynna hana. Hjörleifur sendi frá sér bókina Vistkreppa og náttúruvernd (Mál og menning, Rvík. 1974), sem markaði stefnu í þessum málum á Íslandi. Þar var fyrst hérlendis vakin athygli á loftslagsvá þeirri sem nú er á allra vitorði, en þá var lítið til umræðu, jafnvel í félögum okkar. Samtökin gáfu út fréttabréf og komu á fót sýningu um náttúruvernd á Norðurlandi, sem sett var upp í stærstu kaupstöðum. Þau héldu fjölmenna aðalfundi, sem oft stóðu tvo daga, með fyrirlestrum, sýningum og fræðsluferðum. Þau gengust fyrir friðlýsingu nokkurra vatnasvæða. Einnig höfðu þau afskipti af virkjunar- og stóriðjumálum á svæðinu. Gljúfurversvirkjun Laxár tókst að hindra, einkum vegna einarðrar afstöðu þingeyskra bænda.

Á þessu tímabili (1970-80) fékkst ég við könnun á náttúrufari og skráningu náttúruminja, og samdi ég náttúruminjaskrár fyrir flest héruð á Norðurlandi. Nokkur ár var ég í hlutastarfi fyrir Náttúruverndarráð,og kannaði m.a. nýstofnaðan Þjóðgarð í Jökulsárgljúfrum 1974. Þá kynntist ég Sigrúnu Helgadóttur kennara, sem var fyrsti landvörður í þjóðgarðinum, frænka mín af skaftfellskri ætt, mjög áhugasöm um náttúru gljúfranna og verndun þeirra. Árið 2008 kom út bók hennar: Jökulsárgljúfur, síðan önnur um þjóðgarðinn á Þingvöllum 2011.

Ég kannaði líka ýmis svæði í Mývatnssveit og á öræfum þar í kring, þar á meðal Kröflusvæðið. Það minnti á landslag á tunglinu þegar ég kom þar fyrst, en spilltist þegar var farið að bora og hafin bygging gufuvirkjunar 1975. Ég hafði eftirlit þar af hálfu Náttúruverndarráðs, sem var óvenjuleg og sérstök reynsla. Á sama tíma geysuðu Kröflueldar, sem flæktu málin og töfðu framkvæmdir. Einu sinni sá ég eldana tilsýndar í myrkri og var það mikilfengleg sjón. Skýrslur voru gerðar, sumar fjölritaðar í fáeinum eintökum, en engin þeirra prentuð.

Söguminjar og þjóðtrú

Sú gríðarlega eyðilegging minja um byggð og búskap í sveitum, sem fram fór um land allt um miðja síðustu öld, einkum eftir að jarðýtan kom til sögu, hefur lengi verið höfundi þyrnir í augum. SUNN hafði vernd söguminja á dagskrá sinni frá upphafi, og mannvistar- og þjóðtrúarminjar voru skráðar á flestum könnunarsvæðum, jafnhliða náttúruminjum. 

Á níunda áratugnum sneri ég mér að þjóðtrúargrúski í frístundum og fór að skrásetja sögur og meinta bústaði huldufólks og annarra vætta í Eyjafirði og merkja á kort. Áhugann má rekja til Þjóðsagna Sigfúsar Sigfússonar, sem ég hafði kynnst í æsku, og síðar betur við gerð nafnaskrár yfir safnið 1959, sem fyrr var getið. Smám saman færðist þessi skráning yfir Norðurland eystra og Austurland. Skráð var úr öllum tiltækum heimildum, birtum sem óbirtum, og sumt eftir munnlegri frásögn. Af þessu grúski spratt greinaserían Þættir um þjóðtrúarfræði I-XV, í tímaritinu Heima er bezt 1983-89, og fleiri ritsmíðar í blöðum, tímaritum og bókum. Mikið af þessu þjóðtrúarefni er þó óprentað. Þetta vakti talsverða athygli,jafnvel út fyrir landsteina. Þótti mörgum skrítið að náttúrufræðingur skyldi velja sér slíkt viðfangsefni. Svo komust fjölmiðlar á sporið og var þá ekki af sökum að spyrja: ég var orðinn „huldufólksfræðingur“.Fræðimenn í Rvík, vísuðu til mín erlendum blaðamönnum og stúdentum sem voru að kynna sér íslenska þjóðtrú. Ef til vill átti það sinn þátt í því að þjóðtrú okkar varð svo kunn erlendis.

Flutt í heimahaga

Árið 1987, þegar ég varð 52 ára, urðu afgerandi þáttaskil, þá flutti ég með fjölskyldu mína austur í Egilsstaðakauptún. Náttúrugripasafnið var að breytast í Náttúrufræðistofnun Norðurlands og ég þóttist vanbúinn að stýra henni. Hörður Kristinsson skólabróðir minn og samstarfsmaður, sem verið hafði prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands í áratug, lýsti sig reiðubúinn að taka við forstöðu þess,enda öllum hnútum kunnugur. Ætlunin var að fá næði til að semja nýja bók um sveppi á Íslandi, auk þess hafði ég tekið aftur upp skógrækt á Droplaugarstöðum, sem ég hóf á unglingsárum. Kristbjörg var mjög fylgjandi þessari breytingu, hún hafði aldrei kunnað við sig á Akureyri. Við keyptum íbúð í Lagarási 2 á góðum kjörum. Upp frá þessu hafði ég ekkert fast starf og Kristbjörg var um skeið helsta fyrirvinna heimilisins,starfaði við umönnun á Sambýli fyrir vangefna. Næstu ár var ég í hlutastarfi,við söfnun og greiningar á sveppum, fékk svo smám saman ýmis önnur launuð verkefni.

Klaustur- og Eiðamál

Árið 1984 tók Þórarinn Lárusson á Akureyri við starfi forstöðumanns Tilraunastöðvar landbúnaðar á Skriðuklaustri, og flutti þangað með fjölskyldu sína. Honum var mikið í mun að hefja staðinn til vegs og virðingar, og fékk mig í lið með sér til að semja „Ávarp til Austfirðinga um eflingu fræðaseturs á Skriðuklaustri“. Það var tekið upp sem þingsályktun á Alþingi 1985 og birt í fjölmiðlum, með undirskriftum ýmissa þjóðkunnra manna. Þessi viðleitni okkar skaut stoðum undir Gunnarsstofnun, sem sett var á laggir 1997, og tók til starfa um aldamótin 2000, undir forustu Skúla Björns Gunnarssonar, sem stýrir henni enn.

Árið 1998 var Alþýðuskólinn á Eiðum lagður niður með valdboði menntamálaráðherra. Skólinn var settur á fót 1918, og hafði í 80 ár verið helsta menntastofnun Austurlands, tekið við af Búnaðarskóla,sem stofnaður var 1883. Þetta var reiðarslag fyrir marga Austfirðinga, þar á meðal mig, sem hafði numið þar og kennt. Undir forustu Vilhjálms Einarssonar fv. skólameistara M.E. stofnuðum við Samtök Eiðavina. Ég var í stjórn til 2002, ritaði blaðagreinar og sá að mestu um Eiðakveðju, fjölritað fréttabréf samtakanna.

Við sölu staðarins 2001 var flestum bókum og gripum skólans ráðstafað til ýmissa aðila á Egilsstöðum. Því fengum við þá hugmynd að koma á fót Sögustofu á Eiðum, til að bjarga munum og kynna sögu staðarins og skólanna ekki síst. Komst hún í framkvæmd 2010, með hjálp sjálfboðaliða úr hópi Eiðanema, og fékk húsnæði í aðalskólahúsinu. Þá tók ég saman rit sem ég nefndi Eiðasaga í hnotskurn (125 bls.), aðallega eftir bókum Benedikts frá Hofteigi og Ármanns Halldórssonar um sögu skólanna. Var efni þess notað til að gera 20 veggspjöld í Sögustofuna, sem Skúli Björn vann á tölvu. Það var líka uppistaðan í Eiðablaði Glettings, sem kom út 2010.

Náttúru- og mannvistarminjar

Eftir bústaðaskiptin 1987 fór ég að ferðast um Fljótsdalshérað og kynna mér landslag og náttúrufar þess og öræfanna suðvestur af því. Til þess fékk ég nokkurn árlegan styrk frá Náttúruverndarsamtökum Austurlands og síðar frá sveitarfélögum Héraðs, í tengslum við svæðisskipulag. Afrakstur þeirrar vinnu var Náttúrumæraskrá Fljótsdalshéraðs, sem gefin var út á kostnað hreppsins 2010 (158 bls.) og dreift ókeypis.

Um 1990 var riðuveiki í sauðfé orðin landlæg á mörgum bæjum á Héraði. Því var það þrautaráð tekið að slátra öllu fé á svæðinu milli Lagarfljóts og Jökulsár á Dal, og var bændum gert að sótthreinsa gripahús og hlöður eða ryðja þeim niður og hylja moldu. Líka var gefinn kostur á að girða þau af og taka úr notkun. Þetta kom illa niður þar sem fjárhús voru úr torfi og grjóti, svo sem á mörgum bæjum í Fljótsdal, og leiddi til þess að flest voru jöfnuð við jörðu. Þetta var mesta eyðing byggðaminja á Héraði í seinni tíð. Ég beitti mér fyrir því að starfsfólk Safnastofnunar og Minjasafns á Egilsstöðum mældi og myndaði húsin, og reyndi að fá menn til að halda húsunum. Heppnaðist það á fáeinum bæjum. Í tengslum við þessa könnun tók ég saman skrá um Mannvistarminjar í Fljótsdal, sem var aukin og endurbætt með tiltækum heimildum 2011-12. Lét Fljótsdalshreppur prenta hana í 50 eintökum 2013 (156 bls.)

Skógrækt og kortagerð

Frá barnæsku hafði ég áhuga á skógrækt, sem fyrr segir, og byrjaði snemma að planta trjám á Droplaugarstöðum. Vorið 1985 tók ég aftur upp þráðinn,og varði eftir það hverju vori í skógarplöntun um tveggja áratuga skeið, en síðan mest við grisjun. Árið 1988 fékk jörðin aðgang að Fljótsdalsáætlun í skógrækt, og síðan að Héraðsskógum, sem ríkið kostaði. Um aldamót var landið neðan 250 m hæðar girt til skógræktar og plantað í mikinn hluta þess. Að því stóðu Gestur sonur minn og síðar Helgi Bragason tengdasonur minn. Skógurinn á Droplaugarstöðum er fyrir löngu vaxinn mér yfir höfuð. Þar vex um tugur trjátegunda, og hann hefur verið mér mikill sælureitur.

Árið 1991 var ég fenginn til að kanna náttúrufar og minjar á skógræktarjörðum Héraðs og gera tillögur um hvar skyldi planta erlendum trjám eða ekki. Þetta varð aðalstarf tíunda áratuginn, og greiddu Héraðsskógar laun fyrir það. Landið var ýtarlega skoðað, og teiknuð „landslags- og örnefnakort“ og„verndarkort“, eftir loftmyndum í mkv. 1:5.000. Um 70 jarðir og jarðapartar fengu þessa meðferð, flestar á Mið- og Upphéraði. Oftast voru kortin leiðrétt af heimafólki eða öðrum staðkunnugum. Þetta starf leiddi til náinna kynna af landi og lífi á Héraði.

Virkjanir og verndun - Lagarfljótsbók

Virkjun Jökulsár í Fljótsdal var ákveðin með lögum 1981 og 1991 gaf ríkisstjórnin út virkjunarleyfi. Þá var gert ráð fyrir stóru miðlunarlóni á Eyjabökkum við Snæfell. Með fyrri reynslu að baki gat ekki hjá því farið að ég drægist inn í þetta virkjunarmál í heimasveit minni, og tók ég nú að skoða lónstæði og fossa í Jökulsá og Keldá og rita greinar um það efni. Þessi fossaföll voru lítið þekkt og flest nafnlaus, varð ég því að gefa mörgum þeirra nöfn.

Virkjunin var nátengd áformum um álver í Reyðarfirði. Stóriðjufyrirtækin slógu úr eða í, og framkvæmdum var frestað hvað eftir annað. Að lokum snerust málin þannig um aldamót 2000 að virkja skyldi jökulsárnar á Dal og í Fljótsdal sameiginlega, með stíflu við Kárahnjúka og lóni á stærð við Löginn í efsta hluta Jökuldals. Var það kallað Kárahnjúkavirkjun. Hófust framkvæmdir við hana 2003.  Eftir þennan viðsnúning fór ég að kynna mér virkjunarsvæðið við Kárahnjúka. Miklar deilur urðu um þessar framkvæmdir, sem skiptu þjóðinni í tvo andstæða flokka.

Árið 1999 lenti ég í stjórn Náttúruverndarsamtaka Austurlands, og það kom í minn hlut að gagnrýna matsskýrslur virkjunar og álvers, sem var allt annað en gaman. Framkvæmdum lauk 2007.  Kárahnjúkavirkjun gerbreytti Jöklu og Lagarfljóti, og raunar öllu hálendi Austurlands.

Af því leiddi að ég fór að draga saman efni í bók um Fljótið, til að sýna fram á eðli þess og gildi fyrir náttúru og sögu Héraðs. Stundum fannst mér ég vera að rita eftirmæli þess. Bókin varð helsta viðfangsefni mitt næstu árin, og kom út í sept. 2005, undir heitinu Lagarfljót - mesta vatnsfall Íslands. Steingrímur Steinþórsson í forlaginu Skruddu (áður Mál og mynd) tók að sér útgáfu bókarinnar.  Það var mikill happafengur og upphaf að farsælu samstarfi okkar. Bókin er 415 bls. í stóru broti. Þar er fjallað um eðlisfar, lífríki, veiðar og umhverfi Fljótsins, samgöngu- og virkjunarsögu þess og ánna sem mynda það,einnig fékk Lagarfljótsormurinn ýtarlega umfjöllun. Útgáfuteiti var haldið á samnefndu skipi á ferð um Fljótið. Bókin hlaut verðlaun hjá Hagþenki – Félagi höfunda fræðirita og kennslugagna, og hjá Félagi bókasafns- og upplýsingafræða, sem besta fræðibók ársins 2005.

Sveppagrúsk og sveppabók

Eftir umrótið við Kárahnjúkavirkjun gafst loks tóm til að sinna sveppafræði, sem verið hafði hornreka undanfarin ár. Sveppakverið frá 1979 var uppselt fyrir löngu. Um 1985 kom fyrst til orða að efna til nýrrar bókar um sveppi, og hafinn undirbúningur að því, með nýju átaki við söfnun sveppa og greiningu. Haldið var áfram að endurbæta skrár yfir íslenska sveppi, með aðstoð Guðríðar Gyðu sem ráðin var sveppafræðingur við Náttúrufræðistofnun á Akureyri 1992. Árið 2004 kom út Sveppatal I - Smásveppir(Fjölrit Náttúrufræðistofnunar, nr. 45, 190 bls.). Sveppatal II – Stórsveppir, er enn í vinnslu hjá Guðríði.

Árið 1990 var byrjað að semja Sveppabókina og tölvutæknin þá tekin í notkun. Var unnið við hana næstu árin, samhliða öðrum störfum til aldamóta, þegar virkjunarmálin og Lagarfljótsbók tóku yfirhöndina. Árið 2005 var þráðurinn tekinn upp aftur, og lokið við handritið á fjórum árum. Það reyndist torsótt að fá útgefanda að bókinni. Helstu forlögum fannst hún of stór og fræðileg til að hún myndi seljast og lögðu til mikla styttingu, sem höfundur léði ekki máls á. Að lokum bauðst Steingrímur í Skruddu til að gefa hana út með ríflegum styrkjum. Sveppabókin – Íslenskir sveppir og sveppafræði kom út í nóvember 2010, 632 bls. Um fjórðungur bókar er almenn sveppafræði, en í kerfishluta er um 700 tegundum lýst og getið meira en 1000 tegunda. Litmyndir eru af 540 tegundum. Hörður Kristinsson lagði til um helming þeirra,útgefanda að kostnaðarlausu. Nær öllum tegundum og flokkum varð að gefa íslensk nöfn og var það ærinn höfuðverkur. Sveppabókin fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka sem út komu 2010, og skipti ég verðlaunapeningum með útgefanda. Bókin var prentuð í tvö þúsund eintökum sem nú (2020) eru næstum uppseld.

Aðrar bækur og tímarit

Fellamannabók: Árið 1989 var ég fenginn til að ritstýra og búa til prentunar bók um fæðingarsveit mína,Fellahrepp, sem Helgi Gíslason á Helgafelli, frændi minn frá Skógargerði, hafði aðallega ritað. Annar frændi,Þráinn Jónsson, var þá oddviti Fellahrepps. Honum var mikið í mun að koma út þessari bók, sem hlaut nafnið Fellamannabók (356 bls.), og birtist á haustdögum 1991.  Fellahreppur veitti styrk til þessa verks og kostaði útgáfuna. Áætlun var gerð um efni og höfunda annars bindis, en ekki varð af útgáfu þess. Prentverk Austurlands h.f. í Fellabæ prentaði bókina. Átti ég góð samskipti við starfsmenn þess, sem leiddi til frekara samstarfs.

Glettingur: Um 1990 fór Ásgeir Valdimarsson forstjóri Prentverksins að þreifa fyrir sér með útgáfu tímarits um austfirsk málefni. Næsta ár stofnuðum við, nokkrir félagar á Héraði, tímarit sem hlaut nafnið Glettingur, eftir fjalli í Borgarfirði, alkunnu úr veðurfréttum. Prentverkið sá um útgáfuna til 1993, en þá tók Útgáfufélag Glettings við henni. Árlega hafa komið út 2-3 hefti, 40-50 bls., stundum tvöföld „þemahefti“, og eru þau nú orðin 73. Áskriftargjöld hafa að mestu leyti staðið undir rekstrinum, um helmingur áskrifendabýr utan fjórðungs. Ég var formaður félagsins til 2001, þá Þorsteinn Gústafsson, Fellabæ, til 2007, síðan hefur Magnús Stefánsson á Fáskrúðsfirði stýrt félaginu. Ég ritstýrði um 20 heftum, oftast með öðrum, og er höfundur að nokkrum tugum greina í ritinu. Ekkert samsvarandi tímarit er gefið út á Íslandi. Vorið 1999 fékk það verðlaun Umhverfisráðuneytis fyrir umfjöllun um virkjunarmálin.

Fljótsdæla: Um 2010 hófst undirbúningur að ritun bókar um heimasveit mína, Fljótsdalshrepp, fyrir tilmæli hreppsnefndar. Varð það aðalverkefni mitt næstu fimm ár. Ákveðið var að greina frá ábúendum jarða síðustu tvær aldir. Tekur sá þáttur, ásamt jarðalýsingum, um þriðjung af rými bókarinnar. Í hinum hluta er fjallað um náttúrufar, sögu, búskap, byggingar, samgöngur, skólamál, listir og fræði, hjátrú,virkjanir og verndun og loks um ferðamál og skipulag. Alls er bókin 544 bls. í stóru broti, ríkulega myndskreytt. Hún hlaut nafnið Fljótsdæla – Mannlíf og náttúrufar í Fljótsdalshreppi. Útgefandi var Skrudda, eins og hinna fyrri bóka, en Fljótsdalshreppur kostaði útgáfuna að miklu leyti, og fékk í staðinn 150 eintök. Bókin var tilnefnd til verðlauna hjá Hagþenki.

Ýmis rit: Árið 2012 tók ég saman efni í minningarrit um og eftir Laufeyju Ólafsdóttur móður mína, í tilefni aldarafmælis hennar. Hlaut það nafnið Leiðarljós, útgefið af okkur systkinum. Þá hef ég valið efni í þrjár jóðabækur og samið æviágrip skáldanna. Þær eru Vængjaþytur vorsins (2002) eftir Ásdísi Jóhannsdóttur skólasystur mína, sem fyrr var getið, Fljótsdalsgrund (2004) eftir Jörgen E. Kjerúlf sveitunga minn, og ónefnda bók eftir Guðnýju Árnadóttur skáldkonu á 19. öld, sem kemur líklega út vorið 2020. Félag ljóðaunnenda á Austurlandi, sem Magnús Stefánsson stýrir, er útgefandi þessara bóka. Ég hef verið félagsmaður þess frá aldamótum. Mér til undrunar hafa nokkrir skáldvinir treyst mér fyrir að lesa og lagfæra ljóðahandrit sín, svo sem Sveinn Snorri Sveinsson og Steinunn Ásmundsdóttir.

Í tilefni af sjötugsafmæli mínu vorið 2005 kom út bókin Á sprekamó, sem Sigurður Ægisson prestur á Siglufirði safnaði til og ritstýrði. (Hólar, Akureyri, 2005). Efnið er fjölbreytt, þar er að finna greinar, ljóð og sögur eftir 70 vini og kunningja. Þar er birt efnisflokkuð ritaskrá 1954-2004. Sigurður var kvæntur Arnheiði, systurdóttur minni, sem átti sinn þátt í tilurð bókarinnar.

Plöntuskrif

Þegar ég hafði lokið við handrit Fljótsdælu og skilað til útgefanda, áttræður, fór ég að taka saman greinar sem ég hafði ritað um plöntur, og birst höfðu í tímaritum, allt frá 1962. Í sérflokki voru greinar um einkennisplöntur Austurlands, sem birst höfðu í Glettingi 1991-2006. Árið 2017 ákvað Útgáfufélag Glettings, að gefa þær út á bók, með nafninu Vallarstjörnur, sem sótt var í Hulduljóð Jónasar Hallgrímssonar (136 bls.).

Jafnframt fór ég að semja nýjar greinar í þetta safn, sem fengið hefur vinnuheitið Foldarskart, einnig fráJ ónasi, og hef haldið því áfram síðan. Það er nú um 240 bls. Þetta kann að virðast furðulegt uppátæki, þar sem 2018 kom út stórbókin Flóra Íslands – blómplöntur og byrkningar (740 bls.), með málverkum af öllum tegundum. Er því borin von að Foldarskart verði gefið út, þó mér tækist að ljúka því. Þetta er mest til gamans gert og til að dunda við í ellinni. Plöntur voru mitt fyrsta áhugamál í æsku, og sannast þar máltækið, að tvisvar verður gamall maður barn.

Mikið af ritverkum mínum er aðeins til í handritum, eins og fram hefur komið, þó að meginhluta tölvusett. Þar á meðal eru ævisöguþættir, gamansögur, ferða- og náttúrulýsingar, þjóðtrúarefni af ýmsu tagi,ritgerðir um ýmis mál, ýmsar skrár og drög að tímaritsgreinum, jafnvel bókum. Komið hefur til tals að stofna „heimasíðu“ á Netinu fyrir eitthvað af þessu efni.

Fjölskyldan

Faðir minn andaðist 30. des. 1993, 84 ára gamall, móðir mín 11. ágúst 2003, þá orðin níræð. Bæði voru þau lengstaf við allgóða heilsu. Kristbjörg kona mín andaðist 1. jan. 2008, 76 ára, hafði verið heilsuveil í nokkur ár. Hún hafði verið mér stoð og stytta í hálfa öld, og átti ómetanlegan þátt í flestu sem ég tók mér fyrir hendur. Hún annaðist heimilishald og uppeldi barna og aflaði tekna síðustu árin. Björk dóttir hennar var sjúkraliði á Akureyri, hún eignaðist fjögur börn, lést 2013, um sextugt. Kristjana (Ditta) dóttir hennar settist að í Fellabæ. Hún á eitt barn og býr með Huga Guttormssyni frá Krossi.

Við Kristbjörg eignuðumst þrú börn. Hallgrímur sonur okkar varð stúdent frá M.A. 1979 og lærði tungumál í Háskóla Íslands, settist að í Reykjavík og vann hjá Garðyrkjudeild borgarinnar í Laugardal,ókvæntur og barnlaus. Gestur, kvæntist Hólmfríði Eiríksdóttur frá Akureyri, þau settust að á Fosshóli í Bárðardal 1988 og ráku þar ferðaþjónustu. Þeim varð ekki barna auðið ,dóttir hennar er Árný Þóra Ármannsdóttir uppeldisdóttir Gests og fóstursonur Gests og Hólmfríðar er Allan Haywood, þau skildu 1995. Gestur varð bráðkvaddur 29. mars 2018, tæplega 58 ára gamall, nýlega byrjaður að byggja sér „kúluhús“. Fosshóll var seldur nýjum eigendum. Heiðveig Agnes fluttist með okkur í Egilsstaði 1987. Árið 1995 tók hún upp sambúð við Helga Hjálmar Bragason, frænda sinn, frá Setbergi í Fellum. Þau voru fyrst á Droplaugarstöðum með skógarbúskap, um aldamót fluttu þau í Setberg og tóku við búi Braga og Hólmfríðar foreldra,Helga, með sauðfé og skógrækt, síðar með ferðaþjónustu. Börn þeirra eru Kristbjörg Mekkín, hefur þegar látið að sér kveða í félags- og loftslagsmálum og Friðmar Gísli.

Vegferðin

Hér hefur vegferð mín verið rakin í stórum dráttum frá æsku til elliára. „Fýsnin til fróðleiks og skrifta“hefur verið sá rauði þráður sem liggur gegnum hana, svo aftur sé vitnað í kvæði Jóns Helgasonar. Ég tel mig hafa lagt huga og hönd að því sem máli skiptir fyrir samfélagið, og flest hefir snúist um að skoða og vernda náttúru og minjar og kynna fyrir almenningi. Einnig hafa saga og þjóðtrú verið í farteskinu. Þessi viðleitni hefur fallið í góðan jarðveg og hlotið ýmsa viðurkenningu.

Mér er ekki grunlaust um að örlögin hafi hér um vélt, því segja má að lukkan hafi leikið við mig um dagana, án mikillar íhlutunar af minni hálfu. Það er ekki sjálfgefið að fá að stunda þau störf, sem maður hefur einlægan áhuga fyrir. Eflaust hafa þær aðstæður valdið mestu um árangurinn.

Ég hef aldrei haft áhyggjur af fjármálum og oftast haft nóg fyrir mig og mitt fólk að leggja, með því að lifa fremur spart. Þar hef ég líka notið minnar góðu konu. Aldrei hef ég verið eins vel stæður og síðan ég komst á ellilaun. Bókakaup hafa freistað mín, bækur þekja nú flesta veggi í íbúðinni, aðallega eru það fræðibækurog tímarit.  Ekki get ég hugsað mér líf án bóka.

Tölvan hefur reynst mikilvægt hjálpargagn við skriftir síðustu þrjátíu árin, og líka hefur Internetið komið að gagni. Hinsvegar hef ég komist vel af án sjónvarps í áratug og farsíma hef ég aldrei notað, hvað þá„snjallsíma“. Ég óttast að hin „stafræna“ tæknibylting nútímans marki endalok mannkyns, ef illska og loftslagsvá verða ekki fyrri til.

Skógurinn á „óðali“ foreldra minna er sannkölluð paradís. Þangað kem ég endrum og sinnum, dáist að trjám og blómum og hlusta á sinfóníu fugla, vinds og vatns. Gróðurbreytingin á Héraði og víðar um land hefur farið fram úr björtustu vonum. Hún er mesta ævintýri lífs míns.

Ég hef aldrei bundist stjórnmálaflokki, þó ég telji mig jafnaðarmann og hef oftast kosið til vinstri. Skoðun mín er sú að allir fulltíða menn ættu að hafa sömu laun, því að öll störf eru jafngild, og allt nám ætti líka að launa. Landið og auðlindir þess ættu að vera sameign þjóðar, og að sjálfsögðu líka sjórinn umhverfis. Ég læt guðdóminn liggja milli hluta, en tel að trúarbrögð hafi gert meira illt en gott. Bókstafstrúin veður nú uppi og tengist öfgastefnum í pólitík.

Ellin kvaddi dyra um áttræðisaldur, þegar ýmsir ellikvillar fóru að gera vart við sig.  Árið 2016 missti ég sjón á hægra auga. Reynt var að laga það á Landspítala, en tókst ekki. Ég prísa mig sælan meðan hitt augað endist, og þá ekki síst til ritstarfa. Ég reyni að ganga nokkra stund úti á hverjum degi, og finnst það endurnærandi. Ég kvíði ekki dauðanum, annaðhvort er hann vitundarleysi eða framhaldslíf í einhverju formi, sem ég hallast fremur að, og getur verið spennandi. „Kom þú sæll þá þú vilt“, kvað Hallgrímur.

Ég á ýmsu samferðafólki mikið að þakka. Það er ómetanlegt að hafa hlotið vináttu þess. Ég hef aldrei kynnst nema góðu fólki, enda held ég að allir heilbrigðir menn séu eðlisgóðir, þó sumir leiðist afvega í ólgusjó lífsins. Margir vinir og kunningjar hafa horfið úr heimi síðustu árin. Ég er enn virkur í nokkrum félögum, hef bréfaskipti við frændur og vini, og sæki tónleika og sýningar þegar færi gefast.

Dóttir mín fylgist með mér heima, auk þess kemur „heimahjúkrun“ reglulega og mælir líkamsástand. Læknishjálp hefur hinsvegar hrakað austanlands síðustu árin og mestalla sérfræðiþjónustu verður að sækja til Reykjavíkur. Ég er svo heppinn að eiga þar góða vinkonu, Ólöfu Stefaníu Arngrímsdóttur frá Akureyri (f. 1945), sem hafði hjúkrun að ævistarfi. Hjá henni á ég athvarf í blíðu og stríðu, sem kemur sér vel fyrir gamlan mann. Við höfum ferðast talsvert saman, auk þess les hún og leiðréttir handrit mín og tekur myndir, sem víða sér stað í bókum mínum.

Eg. í jan. 2019. – H. Hall.

[Verður líklega publiserað í skruddu um og eftir ellibelgi 2020].

 

Tíminn

Tíminn mínar treinir ævistundir,

líkt og kemba´ er teygð við tein

treinir hann mér sérhvert mein.

 

Skyldi´ hann eftir eiga´ að hespa, spóla

og rekja mína lífsins leið,

láta í haföld, draga´ í skeið?

 

Skyldi ´hann eiga eftir mig að þæfa,

síðan úr mér sauma fat,

síðast slíta á mig gat?

 

Skyldi´hann eiga eftir mig að bæta?

Það get ég ekki gizkað á,

en gamall held ég verði þá.

Páll Ólafsson

Heiðveig Agnes Helgadóttir

© Helgi Hallgrímsson 2021