15 March, 2022
# Topics

Völvustaðir samantekt

15 March, 2022

Samantekt um Völvustaði
(2005) / Óbirt)

Völvuörnefni, oft með tilheyrandi sögnum, eru þekkt víða á svæðinu frá Fljótum í Skagafirði austur um land og suður og vestur að Faxaflóa, en langsamlega þéttust eru þau á Austurlandi og sérstaklega á Austfjörðum.

Algengasta örnefnið af þessu tagi er Völvuleiði, sem oftast eru aflangar þúfur í túnum heima við bæi, sem líkjast upphlöðnum leiðum, en snúa vanalega þvert á kristin leiði. Stundum eru þetta grasi vaxnir steinar eða litlir hólar, sem sagt er að haldist grænir árið um kring. Fáein völvuleiði eru á hálsum á milli byggða, oftast merkt með vörðum.

Völvuleiðum fylgir oft sú saga að þar sé jarðsett völva (valva) eða spákona úr heiðnum sið, sem látið hefur svo um mælt að hún muni vernda viðkomandi bæ eða byggð fyrir ránum eða annari vá, svo lengi sem leiðin eru óröskuð, eða bein sín eða tennur séu órotnuð. Þau álög hvíla á völvuleiðum, að þeim má ekki raska nema til að gera þau upp eða hlúa að þeim á annan hátt. Sé leiðunum hyglað leiðir það gjarnan til happa, t.d. í formi reka, en ill meðferð hefnir sín á ýmsan hátt. Oft er líka sláttubann á leiðunum.

Álögin hafa yfirleitt verið virt fram á þennan dag, og þrátt fyrir mikla eyðileggingu minja á seinni hluta 20. aldar hafa völvuleiðin sloppið við hana, með örfáum undantekningum. Fáein hafa horfið vegna náttúrubreytinga.

Vala- og völu-örnefni eru líka nokkuð algeng, ss. Valagil og Valahjallar. Þau geta verið kennd við fuglinn val (fálka), steinvölur, sauðarvölur, eða jafnvel við stuðlaberg. Fyrir kemur að þau tengjast völvusögum, sem líklega stafar af misskilningi. Vola-örnefni þekkjast einnig (t.d. Voladalur á Tjörnesi, Volasel í Lóni), en uppruni þeirra er óviss.

Sigurður Ægisson, nú pr. á Siglufirði, ritaði greinina: Sagnir og minjar um völvuleiði, í Lesb. Morgunbl. 21. nóv. 1998, bls. 7, sem hér notuð sem heimild. Hann var búinn að skoða ýmis völvuleiði og safna miklu efni um þau (ljósritum, úrklippum, viðtölum etc.) og taka myndir að þeim, og raða því upp í heila stóra ferðatösku, sem hann lánaði mér til skoðunar og etv. notkunar, líklega um 2010. Ekki gafst þó tími til þess hjá mér að vinna úr þessu mikla efni, og því skilaði ég honum töskunni sumarið 2017. Þá kvaðst Sigurður hafa hug á að semja doktorsritgerð um þetta efni, og var byrjaður aftur að skoða völvustaðina.

Almennt um völvur og völvuleiði

"Völvur. Í heimildum eru konur sem fremja seið ýmist kallaðar "völvur", "seiðkonur", "spákonur", "fjölkunnugar konur" eða "vísindakonur". Þessar mörgu og oft ónákvæmu nafngiftir gætu bent til að heimildir kunni ekki lengur skil á á muninum á þeim, hafi hann einhver verið. Í rannsóknasögunni hefur því verið slegið föstu að orðið "völva" sé komið af "völur", þ.e. "stafur" og merki sú sem ber staf. [Vitnað til Halvorsen í Kulturhist. Leksikon 20. bindi]. Þannig á völvan að hafa fengið nafn sitt af þeim seiðstaf sem hún er með í nokkrum sagnanna. Nærtækara er að álíta að orðið sé leitt af sama stofni og latneska sögnin "volvere", velta, snúa, og vísi til leiðslunnar sem völvan fellur í, hæfileika hennar til að sjá yfir í annan heim.

Í sögunum af þessum konum má greina mjög ákveðið frásagnarmynstur: Völvan er sótt á bæ. Táknrænt séð, og frá íslensku sjónarhorni, kemur hún frá villtri náttúrunni, ótömdum svæðum, oftast Grænlandi, Finnmörku eða Suðureyjum. Hún er gömul. Karlar krefja hana um vitneskju sem þeir fá. Hún fær gjafir, þ.e. borgun, fyrir spána. Að vera völva er launað starf. Hún situr hátt og það er lögð áhersla á sýn hennar eða vitrun. Hún syngur eða kveður spá sína. Nokkrir trúa henni, aðrir ekki, og þeir reyna að þagga niður í henni. Eru þeir alltaf ungir karlmenn, oftast tveir saman, fóstbræður. Oft er kristninni teflt fram sem mótstöðu. Völvan leggur áherslu á orð sín, sem rætast.

Þessi goðsögn kemur fyrir í mismunandi afbrigðum, sem í má greina ákveðið ferli. Fyrst eru völvurnar virtar, síðan hæddar, þá ógnað, og að lokum er þeim misþyrmt, þær særðar eða jafnvel drepnar. Þeim er þá drekkt eða þær eru grýttar." (Helga Kress: Máttugar meyjar. Rvík. 1993, bls. 34-35 / Meira er um völvur í þessum kafla bókarinnar, sem heitir "Skáldskapur og seiður". Í lokin fjallar höf. þar um Völuspá, sem hún telur líklegt að völvan Þuríður sundafyllir, sem sagt er frá í Landnámu, hafi skáldað).

"Völva. Allt frá fornöld og fram á hámiðaldir trúðu germanar því að konur hefðu sérstaka forspárhæfileika og tignuðu jafnvel einstakar konur sem völvur. Í lýsingu Tacitusar segir: "Það er og trú manna að konurnar séu að nokkru leyti helgaðar og forspáar", og tvær völvur eru nefndar með nafni, þær Veleda og Álfrún (Germania 8). Aðrar nafnkunnar völvur fornaldar eru Waluburg og Ganna, sem báðar voru uppi á 1. öld e. Kr.."

"Í Eddukvæðum er völvu gjarnan lögð þýðingarmikil vitneskja í munn (Vsp., Bdr.)og í fornsögum eru nokkrar völvur nefndar á nafn: Þorbjörg litlavölva (Eiríks saga rauða, 4), Þórdís spákona (Vatnsdæla saga, 44), Heimlaug völva (Gull-Þóris saga, 18) og Þuríður sundafyllir (Sturlunga saga, 145)." (Rudolf Simek: Hugtök og heiti í norrænni goðafræði. Rvík 1993, bls. 263).

"Völva var fjölkunnug kona, sem einkum sagði mönnum fyrir örlög þeirra og óorðna hluti. Orðið völva er dregið af fornu orði, völur, sem merkir staf, en seiðastaf munu völur hafa notað þegar þær frömdu seið. Af orðinu völur er einnig dregið "að fara á vonarvöl", þ.e. að bera betlara- eða göngumannastaf. Ýtarlegust allra völusagna er sú sem skráð er í Eiríks sögu rauða. Þar segir svo frá, að á meðan völvan sat á seiðhjalli, lét hún syngja kvæði sem nefndist Varðlokur. [Vitnað í próf. Magnús Ólsen í Oslo, varðandi skýringu á Varðlokum]

Völurnar fremja oftast seið sinn í þjónustu manna til þess að veita þeim vitneskju, sem þeir óska eftir, en bezt mundi að móðga þær ekki. Sumar völvusögur minna á það sem nú á dögum er sagt frá miðlum." (Sigrún Gísladóttir: Völvusögur frá Felli í Mýrdal. Lesb. Mbl. 36. árg. 1961, bls. 26. Eftir Birni K. Þórólfssyni.)

"Flestir kannast við völvuna sem sagði Örvar-Oddi og Ásmundi fyrir örlög þeirra á Berurjóðri. (Sjá Fas. II, 2008). Er sú sögn allmerkileg. Þó mun hvergi í fornsögum betur lýst þeirri athöfn en í sögunni af Þorbjörgu litlu-völvu, sem innfléttuð er í sögu Eiríks rauða. Báðar þessar sagnir sýna að seiður og særingar voru engu minna notfærð við að hnýsast um forlögin. Viðhöfn og útbúnaður allur bendir til þess að þetta hafi verið langfrjálsasta og merkilegasta notkun seiðs, og þeir eða þær sem hann frömdu virðir höfðingjum meira. Helst voru það konur (völvur) er fengust við forlagaleit, bæði á þennan hátt og með allskonar öðru spákukli. Þorbjörg litla-völva var ein af 10 systrum er allar voru spákonur.[...] (Sigfús Sigfússon: Um forlagaleit. Þjóðs. og sagnir, 2. útg., V, bls. 222.)

Valgerður Bjarnadóttir varpar nýju og sérstöku ljósi á völvur og fornan átrúnað í masters-ritgerð sinni "The Saga of Vanadís, Völva and Valkyrja", um 2000, við California Institute of Integral Studies. Þar kemur m.a. fram að orðið völva er stofnskylt lat. volva/vulva = kviður, og enska vulva= ytri kynfæri konu. (Hún vitnar mikið í bók Mariju Gimbutas: Language of the Goddess, og bók Helgu Kress: Máttugar meyjar. Rvík. 1993). Það er mikill vísdómur og dulspeki í þessu riti, sem ég hef enn ekki brotið til mergjar.

Eðli og uppruni völvuleiða

Líklega á öll hjátrú rætur í heiðnum sið, en það er þó einkum augljóst hvað völvuleiðin varðar. Sigurður Ægisson (1992:7) kallar þetta "neista heiðninnar", og finnst sérstaklega athyglisvert að að menn hafi verið að hlúa að völvuleiðum allt fram á okkar daga, eftir að þjóðin hefur formlega verið kristin í þúsund ár.

"Af fornum bókum má ráða, þrátt fyrir allt, að völvur hafa á 8., 9, og 10. öld verið algengar á Norðurlöndum og Grænlandi, en tekið að fækka upp úr því, við tilkomu hins nýja siðar, kristinnar trúar. Þær hafa samt vitanlega ekki horfið með öllu, rétt sísona, heldur starfað áfram, og þá í leynum, ef ekki vildi betur til. Jarðvegurinn var enn til staðar. Lýsingin í Eiríkssögu rauða virðist einmitt benda í þá átt. Og nú er spurt: Hafi þessar eftirlegukindur heiðindóms lifað fram á 11. öld og haldið iðju sinni áfram, hvað skyldi þá hafa verið gert með jarðneskar leifar þeirra síðar? Í kristnu landi, vel að merkja. Ekki kom til greina að setja þær í kirkjugarð [?] og því hefur bara eitt verið til ráða: að grafa þær fyrir utan svæði hinnar vígðu moldar. [...] Mörg leiðanna snúa í norður-suður, eins og títt var með grafir heiðinna manna, en sum þó einnig í austur-vestur. Vera má að hér sé um að ræða þessar jarðnesku leifar völvanna, sem minnst var á, þ.e.a.s. í einhverjum dæmum, en um það verður ekkert fullyrt á þessu stigi málsins." (Sigurður Ægisson: Sagnir og minjar um völvuleiði. Lb. Mbl. 21. 11. 1998, s. 7).

Hér má bæta við að á þeim fáu stöðum sem völvuleiðum hefur verið raskað er ekki vitað til að upp hafi komið neinar líkamsleifar. Þá eru völvuleiði sumsstaðar smáhólar, án leiðis-lögunar, og stundum eru steinar eða klettar í völvuleiðum, sem gerir þau ólíkleg sem legstaði. Oftast eru völvuleiði mjög nálægt bæjum, jafnvel við hlaðvarpa, þar sem ávallt var hætta á einhverju raski. Heiðin kuml voru aldrei þannig staðsett, heldur "utan garðs" í grennd við bæi, oft á hæðum þar sem vel sást yfir.

Sem þjóðtrúarfyrirbæri eru völvuleiðin náskyld svonefndum fornhaugum, sem eru algengir um land allt, og gegna svipuðu verndarhlutverki. Í þeim eiga landnámsmenn eða frumbyggjar viðkomandi jarða að vera grafnir, en yfirleitt eru þetta náttúrumyndaðir hólar en ekki legstaðir. Oftast fylgja þeim álög um að þeim megi ekki raska, og sé það gert sjái menn ofsjónir eða einhver slys muni henda þá sem það gera. Samt hafa menn á öllum öldum freistast til að grafa í marga þessa hauga í leit að verðmætum. Sumsstaðar gegna huldufólksbústaðir sama verndarhlutverki, að ógleymdum trúarlegum stöðum sem rekja má til "pápisku", svo sem "krossastöðum", þar sem róðukrossar voru staðsettir á kaþólska tímabilinu. Athyglisvert er örnefnið Völusteinn, eða Álfasteinn öðru nafni, á Melum í Fljótsdal. Þetta er stór steinn, flatur að ofan, og á hann hefur verið safnað völum í 1-2 aldir, eflaust til búskaparheilla. /Sjá H.Hall.: Af völum og leggjum. Glettingur 14(1): 41-46)

(Kristin trúarbrögð eru vanalega flokkuð sem eingyðistrú, en eru það raunar ekki þegar þau eru skoðuð ofan í kjölinn. Með "siðbreytingu" Lúters á 16. öld var að vísu reynt að hreinsa ýmsa hjáguðadýrkun úr kristninni, en fljótlega sótti aftur í sama horfið, og á 17. öld magnaðist hjátrúin frekar en hitt, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir kirkjunnar til að eyða henni. Síðan dró heldur úr henni á 18. og 19. öld, fyrir áhrif upplýsingar og síðar vísindanna, og skilin milli trúar og hjátrúar urðu gleggri en fyrr á öldum. Engu að síður lifði hjátrúin og blómgaðist, ekki hvað síst hér á landi, og má víst segja að hún lifi góðu lífi enn í dag, án teljandi árekstra við "ríkistrúna". Ræktarsemi við völvuleiðin er gott dæmi um það. Aðeins í ríkjum múslíma virðist hafa tekist að útrýma fjölgyðistrú og mestallri hjátrú.)

"Völvan á Vestdalsheiði". Þann 22. júlí 2004 fundust nokkrir skrautmunir í daldragi við Afréttarskarð norðantil á Vestdalsheiði, þar sem var gömul vetrarleið milli Héraðs og Seyðisfjarðar eða Loðmundarfjarðar.Við nánari rannsókn sama sumar kom í ljós að þarna hafði ung og óvenju skartbúin kona borið beinin, m.a. fundust um 500 perlur, fimm myndskreyttar nælur, hringprjónn, slípaður karneólsteinn o.fl. Gripirnir benda til fyrri hluta 10. aldar, og virðist konan hafa orðið þarna úti og ekki fundist, sem þó er næsta torskilið ef þetta var alfaraleið. (Sigurður Bergsteinsson: "Fjallkonan" - fundur leifa 10. aldar konu við Afréttarskarð". Glettingur 15 (1): 32-36. 2005). Á þessum slóðum er örnefnið Unaleið eða Unaleiði, sem munnmæli segja kennd við Una danska og viðureign hans við Héraðsmenn.

Vegna hins mikla skarts hafa sumir gert því skóna að þetta hafi verið völva og hefur Valgerður H. Bjarnadóttir rökstutt það í grein sem hún ritaði í bókina "Á sprekamó" (Ak. 1995, bls. 378-383), m.a. með hliðsjón af hinum mörgu völvuleiðum og sögnum um völvur á Austurlandi. Lokaorð hennar eru þessi: "Hér er brugðið líkömnuðu ljósi á þann hluta sögunnar, sem allt til samtímans hefur verið hulinn og dulinn, afmáður og smáður, og snýr að konum sem eiga sig sjálfar, sem tengjast landinu og stoltar seiða og dreyma á mörkum tveggja heima." (Sbr. völvuleiðin Unurnar í Vestmanneyjum).

"Völuspá". Þjóðsögur Guðmundar Hoffells, bls. 217, og víðar. (Um það hvernig börn spáðu með sauðarvölum.) Sjá einnig H. Hall.: Af völum og leggjum. Glettingur 14 (1): 41-46. 2004.

Útbreiðsla völvustaða (tilraun til skýringar)

Útbreiðsla völvustaða er sem fyrr segir bundin við austurhelming landsins og á það sérstaklega við völvuleiðin. Af um 50 þekktum völvuleiðum eru 4 á Vesturlandi (?), 5 á Norðurlandi, 35 á Austurlandi, 10 á Suðurlandi og 1 á SV-landi. Þéttleiki þeirra er mestur á Austfjörðum og í Austur-Skaft., frá Norðfirði til Suðursveitar, og annað álíka þétt svæði er í Vestur-Skaft. "Hvað skyldi valda þessari einkennilegu dreifingu?", spyr Sigurður Ægisson, en lætur vera að svara því (Lesb. Mbl. 21.11.1992, bls. 7). Ýmsar skýringar geta verið á þessu, og raunar fellur þetta dreifingarmynstur nokkuð vel að útbreiðslu eða tíðni nokkurra annara fyrirbæra.

Ekki fer milli mála að völvuleiðin eru álagastaðir, og mynda vel afmarkaðan hóp í þeim fjölbreytta flokki. Þegar könnuð er útbreiðsla svonefndra álagabletta, sem oftast eru sláttubönn, kemur í ljós að þau eru algengust og þéttust um vesturhluta landsins, frá Rangárvallasýslu til Skagafjarðar, og þau eru gjarnan tengd huldufólkstrú. Á Norðurlandi eystra og á Austurlandi er fátt um slíka bletti. Má segja að á Austur- og SA-landi komi völvuleiðin í þeirra stað.

Þessi tvískipting þjóðtrúarinnar á Íslandi kemur strax fram í Landnámu (Sbr. grein mína: Vættir í Landnámabók. HEB 37 (7-8): 244-247. 1987), og hlýtur það að vekja grunsemdir um að þær megi rekja til mismunandi uppruna eða þjóðernis landnámsmanna í hinum ýmsu landshlutum. Samkvæmt Landnámu voru nokkrir Bretlandseyjabúar meðal landnámsmanna á Suður- og Vesturlandi, en engir á Austurlandi. Örnefni af keltneskum uppruna er aðeins að finna um vestanvert landið.

Fleira mætti telja sem styður þá tilgátu að fólk af tvenns konar uppruna hafi numið Ísland, og flutt með sér tvo nokkuð ólíka trúarsiði og hjátrú. Yfir höfuð má segja að íslenska þjóðtrúin líkist meira þeirri sem þekkist á Bretlandseyjum (einkum í Skotlandi og á Írlandi) en hinni Skandinavísku. Mér er að vísu ekki kunnugt um "völvuleiði" á Norðurlöndum, en óneitanlega tengjast völvur fyrst og fremst norrænni heiðni, og því gætu völvuleiðin vel verið minjar þeirrar undanþágu sem Íslendingar fengu við krisnitökuna, "að blóta á laun."

Vesturland / Vestfirðir

Hraunsnef í Norðurðárdal, Borgarfirði.
Þar eru þrjú völvuleiði, að sögn konu, sem þar rekur ferðaþónustu, skv. útvarpsþættim 9. ágúst 2006. (Þarf að að huga að fleiri heimildum um bæinn).

Völvustaðir í Reykhólasveit, Austur-Barðastrandarsýslu
"Heimlaug völva er nefnd í Þorskfirðinga sögu. Hún bjó á Völvustöðum í Kambsheiði. Þessi bær er nú ekki til, en uppi í fjallsbrekkunni er lægð, Kambsheiði, þar sem talið er að hún hafi búið, og þaðan hefur hún haft vítt útsýni yfir sveitina." (Kr. Kålund: Íslenskir sögustaðir II, bls. 128.)
Þetta mun vera eina bæjarnafnið sem dregið er af völvu, fyrir utan nýbýlisnafnið Völvuholt í Mjóafirði, og jafnframt eina völvu-örnefni sem um er kunnugt á Vestförðum. Líklega var nafnið þó aðeins búið til fyrir söguna, og er því naumast marktækt sem völvuörnefni.

Norðurland

Spákonufell og spákonuarfur í Húnaþingi
Bærinn Spákonufell á Skagaströnd í Austur-Hún. er kenndur við Þórdísi spákonu, sem getið er í fornsögum og þjóðsögum. Ekki fer milli mála að hún var völva, og má þessi bær því vel teljast með völvustöðum.

"Á Spákonufelli bjó Þórdís spákona á söguöld og hét Þórólfur bóndi hennar. Þórdís var sögð kona illa lynt og svo ráðrík að það varð hver maður að sitja og standa sem hún vildi. Það var sagt að Þórdís væri vön að ganga hvern dag upp á Spákonufellsborg (646 m y.s.), sem er svipmesta og sérkennilegasta fjall á þessum slóðum, til að njóta útsýnisins þaðan. Þar sat hún löngum og greiddi hár sitt með gullkambi. Þórdís á að hafa dáið uppi á Spákonufellsborg, en áður hafði hún farið með kistu fulla af gersemum þangað, sett hana á klettasyllu framan í hömrunum og látið svo um mælt, að sú kona mætti eiga kistuna og það sem í henni væri, er hvorki væri skírð í nafni heilagrar þrenningar né hefði nokkurt guðsorð lært. Sagt er í sögum að Þórdís hafi búið "undir Felli", en eftir henni hlutu bæði bærinn og fellið nafn. Síðar breyttu selstöðukaupmenn nafni fellsins í Spákonufellsborg, en það nafn á aðeins við klettaborgina efst á fjallinu. Frá Þórdísi segir m.a. í Kormáks sögu. Efldi hún seið og ætlaði að spá góðu fyrir Kormáki Ögmundarsyni og Steingerði Þorkelsdóttur. Kormákur kom að henni þar sem hún hafði skorið gæsir til fórnar, en með því spillti hann seiðnum og missti meyjarinnar. Þórdís fóstraði um skeið Þorvald víðförla Koðránsson, fyrsta íslenska kristniboðann. Við Þórdísi er kenndur Spákonuarfur, rekaítök á Skagaströnd og Skaga. Skiptast þau milli Þingeyraklausturs og ýmissa kirkna." (Þorsteinn Jósefsson og Steindór Steindórsson: Landið þitt Ísland. 4. bindi. Rv. 1983, bls. 147.)

..." að til eru rekaítök í Húnavatnssýslu sem hafa verið kölluð Spákonuarfur, eflaust kenndur við og kominn frá Þórdísi spákonu á Spákonufelli. Virðast menn hafa haft trú á því að spákonan gæti seitt hvali á land eða önnur hvílík höpp og því gefið henni parta í rekum (Sjá um Þórdísi t.d. í Bisk. I: 35-36). Síðar varð Þingeyraklaustur eigandi að flestum þessum rekaítökum og var það eðlilegt, því að í kristnum sið höfðu menn trú á að klaustur og aðrar slíkar stofnanir drægi höpp á land. Elsta skjal um Spákonuarf er frá ca. 1200, sjá Fornbréfasafn I, 304-306. (Björn M. Ólsen: Um kornyrkju á Íslandi að fornu. Búnaðarrit 1910.)

Völuhóll, Tungu/Hring, Stíflu í Fljótum
"Frá fjallsegg fyrir ofan Mjölbreið er sjáanlegur garður yfir um þvera Stífluna og allt á fjallsegg á Tunguhyrnu, fyrir ofan Hring. Á hans syðri enda er hóll nefndur Völuhóll og er talað að vala þessi, sem garðinn lét tilbúa hafi þar heygð verið með fé sínu." (Frásögur um fornaldarleifar II, bls. 512). (Um garðinn er nánar fjallað, líkl. í Skagfirðingabók).

Valva, Vík, Héðinsfirði
"Gamalt eyðibýli er í Vík niður við sjóinn sunnan árinnar. Það heitir Valva. Enginn veit nú hvernig stendur á þessu nafni. En fleiri örnefni eru þar kennd við völvuna, Völvutótt, Völvulaut og Völvuhryggur. Einhverjar sagnir munu hafa verið um þessi örnefni, en eru nú gleymdar. Völvutóttin var álagablettur. Hana mátti ekki slá.

Þegar Björn Þorleifsson bjó í Vík, kom honum í hug að rækta upp Völvutóttina og þar um kring. Björn var merkismaður, bóndi góður, og talinn gæddur dulrænum gáfum. Þrátt fyrir þessi ummæli kom honum í hug að rækta þarna. Hann bar þangað fiskslóg í kjagga. En er hann kom að Völvutótt, setti hann frá sér kjaggann og meira varð ekki úr þeim fyrirætlunum. Slóginu dreifði hann aldrei. Þarna stóð kjagginn og grotnaði niður, því að enginn vogaði sér nokkurn tíma að hrófla við honum. Álitu menn að Björn hefði orðið einhvers var, er hann setti frá sér slógílátið, og hefði þá hætt við frekari framkvæmdir." [Neðanmáls: "Býlið hét ekki Völva." (Dulrænar frásagnir skráðar af Eiríki Sigurðssyni, Akureyri [úr Hvanndölum og Héðinsfirði]. Súlur, 6. árg, bls. 153. 1976.)
Skv. upplýsingum frá Örnefnastofnun (Bréf 28. 11.05) eru örnefnin Völvuhóll og Völvuhaugur einnig í Vík.

Eyjafjörður fram

Völuvarða (eða Valavarða) á Núpufellshálsi, Saurbæjarhreppi, Eyjafirði
" Á hól á Lágöxlinni er vörðubrot er nefnist Völuvarða, aðrir segja Valavarða. Munnmæli herma að þar hafi verið borin út börn. Ekki hefur þótt gott að fara þar um í þoku og myrkri. Hafa þar heyrst undarleg hljóð og væl. Um vörðuna er til þessi gamla vísa: Völuvarða var ei heldur / vinsæl mönnum. / Núpufells á hálsi háum, / helst þegar dreif úr skýjum gráum. (Angantýr H. Hjálmarsson og Pálmi Kristjánsson: Örnefni í Saurbæjarhreppi, 1957, bls. 59). Óvíst hvort telja á þetta örnefni með völvustöðum.

Völvuleiði í Nesi, Saurbæjarhreppi, Eyjafirði.
"Út frá bænum er Lambhúsið. Milli þess og Lambhúshóls er blettur lítill, yzt við túnið, kallaður Völvuleiði, en ekki eru sagnir bundnar við það." (Sama heimild, bls. 150)

Völvuleiði í Leyningshólum, Saurbæjarhreppi, Eyjafirði
"Völvuleiðið er í Völvuleiðishvamminum, norðan vatnsins [Tjarnargerðisvatns]. Engin sögn fylgir því, en rúnasteinn er á leiðinu." (Sama heimild, bls. 128). Leiðið er í laut eða litlum hvammi við Tjarnargerðisvatn, skammt frá sumarhúsi Bílstjórafélags Akureyrar. Það var hlaðið upp á seinni hluta 20. aldar og snyrt á ýmsan hátt.

Jónas Hallgrímsson kom í Leyningshóla 26. júní 1839 og skoðaði leiðið og teiknaði rúnasteininn og letrið á honum. Um það ritar hann í dagbók sína:
"Í Leyningshólum var mér vísað á gamlan legstað - kallaðan Völvuleiði - en hans er getið í Tidsskr. for nordisk Oldkyndighed, Aarg. II, 3. hft, bls. 312-313. Hann er rétt hjá tjörn einni, í grænni brekku, afar fagurri, er veit mót suðvestri, beint fram undan mynni Torfufellsdals. Á staðnum hefur fyrr verið mikill kjarrskógur og þótt hann sé horfinn nú, þá hvílir óneitanlega yfir staðnum einstök kyrrð og rómantísk sumarsæld, er sýnir að fornmenn gjörðu sér skýra og rétta grein fyrir náttúrufegurð sem þessari, því ekki getur leikið á því nokkur vafi að legstaðurinn var valinn með gaumgæfni og sennilegast af hinum forna grafarbúa í lifanda lífi eins og oft var raunin.

Legstaðurinn sjálfur er nú spilltur og nær því eyðilagður. Á honum lá fyrrum fimmstrendur stuðlabergsdrangi, þriggja álna langur, og reyndust fletirnir er mældir voru 16, 17, 8, 13 og 8 Aþumlungar á breidd. Nú er hann oltinn til hliðar og brotinn þversum á óskiljanlegan hátt, hér um bil eina alin frá öðrum endanum. Þessi skemmd er þeim mun bagalegri, sem hún gengur þvert í gegnum grafskrift, mjög máða, og óttast ég að hún sé ólæsileg. Hún er með rúnaletri og reyndar mjög stutt, var að líkindum aldrei annað og meira en fullt nafn þess sem undir hvílir. Ofan við grafskriftina er höggvið þetta tákn [láréttur kross], sem sennilega mun eiga að vera Þórshamar fremur en krossmark í kristnum skilningi, og er þannig vísbending um það - að minni hyggju - að rúnasteinn þessi sé frá því fyrir kristni. Sé svo, þá er hann elsti legsteinn er fram til þessa hefur fundist á Íslandi.[...]

Það er um sjálfan legstaðinn að segja, að grafið hafði verið í hann og grafarþróin síðan fyllt aftur óvandlega með mold og möl. Nokkrir flatir steinar, sýnilega vel valdir, lágu á dreif umhverfis; annaðhvort voru þeir rifnir úr veggjum grafarþróarinnar eða þeir mynduðu þar eins konar kistu utan um sjálft líkið. Leiðið hefur verið steinhlaðið í aflangan ferhyrning, 6 til 8 álna á lengd og 3 til 4 álna á breidd." [rissteikning fylgir]. (Jónas Hallgrímsson: Ritverk II (Rvík. 1989), bls. 329.)

Séra Einar Thorlacius sagði Jónasi að fyrir mörgum árum hefðu bræður tveir í sveitinni rofið leiðið á laun í leit að peningum eða dýrgripum, en ekki var vitað með vissu hvort þeir fundu eitthvað slíkt. (Jónas getur einnig um þessa skoðun í bréfi til Finns Magnússonar, dags. 22. júlí 1839. Ritverk II, bls. 26).

"Sagt er að smalamaður frá Leyningi hafi skemmt steininn og brotið hann allan. Nóttina eftir hafði hann dreymt völvuna. Var hún hin reiðasta og lagði það á hann, að upp frá þessu skyldi hann verða hinn mesti ólánsmaður, og á sömu leið skyldi fara fyrir hverjum þeim, er yrði svo djarfur að róta við dysinni. Álög þessi þóttu rætast, því að smalamaður þessi varð hinn mesti ólánsræfill og dó að lokum á vergangi. Síðan hafa engir þorað að róta við dysinni, og hefur þó marga fýst að grafa í hana og vita hvað hún hefur að geyma." (Gríma. - Sögn Hannesar Jónssonar í Hleinargarði. / tekið upp í bók Árna Óla: Álög og bannhelgi. / Einnig í Súlum, 5. árg. 1. hefti).

Kristian Kålund getur um Völvuleiðið í Leyningshólum neðanmáls. Þar kemur ekkert nýtt fram, nema hann segir að "presturinn frá Saurbæ" segi í bréfi til Finns Magnússonar 1833, að gröfin sé kölluð "Nunnuleiði". Hann bendir á að eyðihjáleiga frá Jórunnarstöðum nefnist Nunnugerði. (Kålund: Ísl. sögustaðir III, bls. 88).

Laufey Sigurðadóttir frá Torfufell sagði frá Völvuleiðinu í útvarpsþætti 14. ágúst 1964, og ritaði grein um “Völvuleiðið við Tjarnargerðisvatn”, í tímaritið Heima er bezt 1985, þar sem hún rekur ýmsar sagnir um leiðið og rúnasteininn. Þegar leiðið var hlaðið upp á vegum Bílstjórafélags Akureyrar, dreymdi Hafstein Halldórsson, Aðalstræti 46, Ak., einn þeirra sem vann það verk, að hann þóttist sjá nokkra illskulega menn í gráum kuflum, vopnaða breddum, og foringja þeirra sem var mun betur búinn, með bláleita öxi við belti, koma inn í svefnherbergi sitt, og síðan birtist þar glæsileg og vel búin kona, sem sagði að þeir hefðu verið banamenn sínir.

“Í sömu svifum opnast svefnherbergishurðin, og inn kom kona, eftir útliti að dæma um fimmtugs aldur, frekar hávaxin, með mikið rauðgult hár, blá augu, hátt enni, beint nef, full að vöngum, og yfirleitt vel farin í andliti, björt yfirlitum, og augu hennar lýstu tígullegri ró og festu. Hún var í hvítleitum, skósíðum serk. Á herðum hafði hún brúnleitan möttul, er festur var saman á brjóstinu með silfurlitaðri sylgju. Um enni og hár hafði hún breiðan, gulan borða, og í hægri hendi hélt hún á einhverju, er ég ekki sá svo glöggt hvað var, en það líktist helst stuttum krókstaf.” (HEB, 35. ár, 2. tbl. 1985, bls. 64-65).

Að sögn Laufeyjar hafa ýmsir skyggnir menn líka orðið þessarar konu varir við leiðið. Þetta er eftir sögn Laufeyjar Sigurðardóttur frá Torfufelli, í útvarpsþætti 14. ágúst 1984.

Nýjustu niðurstöður um rúnirnar: "Í Leyningshólum, við Tjarnargerðisvatn í Eyjafirði, er grásteinn með "kistulagi", sprunginn í tvennt, kallaður Völvuleiði, l. 180 cm, br. 43 cm, h. 25 cm. Á annari hliðinni eru nokkur strik, klöppuð í steininn, þau eru greinilega gerð af manna höndum, en ekki rúnir, hæð þeirra er 10 til 12 cm. (79 / Vísað í IR, bls. 170-172 og Jónas Hall., Rit 2, bls. 25-26. / Þórgunnur Snædal: Rúnaristur á Íslandi. Árb. Fornleifafél. 2000-2001, bls. 31). Völvuleiðið í Leyningshólum hefur algera sérstöðu vegna rúnasteinsins.

Austurland

Vopnafjörður

Völvuleiði í Böðvarsdal, Vopnafirði
"Í túninu í Böðvarsdal, framan og ofan við gamla bæinn, var stór þúfa eða lítill hóll, lengri frá norðri til suðurs. Þetta var kallað Völvuleiði. Nú sést það ekki lengur. Jarðyrkjuvélar hafa jafnað úr því. (Jón Eiríksson: Örnefnaskrá Böðvarsdals, bls. 14.) (Etv. hefur hvarf Kristbergs, 4 ára drengs á árunum 1930-40 á fjallinu Búrinu, milli Böðvarsdals og Fagradals, verið tengt því að leiðinu var rutt, en líklegra þó að það hafi gerst áður. Löngu síðar hvarf uppkominn bróðir hans, Geirfinnur Einarsson, í Keflavík, sem varð tilefni svon. Geirfinns-máls. Hvorugt líkið hefur fundist. (Handrit Sólrúnar Eiríksdóttur á Krossi, 1984.)

Völvuleiði á Eyvindarstöðum, Vopnafirði
"Á einum stað í túninu á Eyvindarstöðum á [!] Vopnafirði, þar sem ég ólst upp, var stór þúfa, sem líktist mjög upphlöðnu leiði. Var hún kölluð Völvuleiði. Nokkru var hún stærri en venjulegt leiði, en auðséð var að þetta var mannaverk, enda túnið alveg slétt þar í kring, sem það líka var víðast. Sú var trú á, að ekki mætti slá leiðið. Væri það gert hlutust slys eða einhver óhöpp af, fyrir eiganda jarðarinnar.

Friðrik Sigurðsson, fyrri maður móður minnar, lét aldrei slá leiðið, og það var ekki heldur gert meðan faðir minn lifði. Eftir að faðir minn dó, hafði móðir mín vinnumann í 8 ár, og mun hún hafa beðið hann að slá ekki leiðið, svo og þá bræður mína. Var það því aldrei gjört. En tveimur árum áður en vinnumaðurinn fór frá okkur, brá hann samt út af þessari venju og sló leiðið. Gjörði hann það án vitundar móður minnar og bræðra. Mömmu líkaði þetta stórilla, þótt hún hefði ekki mörg orð þar um. Hún sagði sem var, að þótt þetta væri sennilega bara hjátrú, þá munaði ekkert um grasið af þessum litla bletti." [Síðan kemur saga af efnilegri mjólkurkú sem mamma hennar keypti, en lánaðist ill og varð að slátra.].(Sigurlaug Guðmundsdóttir: Var það tilviljun?. Heima er bezt 28(3), 1978.)

Jökuldalur

Völvuleiði í Hjarðarhaga, Jökuldal
"Hún [þ.e. hlíðin milli Sauðár og Teigarár] er álitleg fyrir snjóflóð að renna sér, en hleypur aldrei, meðan við lýði eru og óhrófluð völvuleiði tvö við brekkurætur." (Ármann Halldórsson (ritstj.): Sveitir og jarðir í Múlaþingi I, bls. 259.)

Páll Pálsson segir leiðin vera tvær aflangar þúfur, rétt framan við bæinn, í brekkurótum, og stefna þau nokkuð þvert á brekkuna. Annað leiðið gengur út úr brekkunni, um 4-5 m á lengd og innan við 1 m á hæð. (Munnl. heimild).

"Sögn er að þarna hvíli spákonur, sem hafi mælt svo fyrir, að meðan leiðin standi óhreyfð muni snóflóð ekki granda bænum. Unglingur (Þorsteinn Snorrason) á vist í Hjarðarhaga gróf hlóðir í neðra leiðið. Veturinn eftir setti niður mikinn bleytusnjó í fjallið og komu niður skriður sem gerðu þó ekki skaða. Leiðið var sett í samt lag næsta vor. Tvisvar hefur hlaupið á Fjallshús (efri húsin). (Páll Gíslason: Búkollu-aðföng, eftir Páli Þ. Hjarðar.)

Þess má geta að beitarhús skammt utan við Hjarðarhaga heita Dísastaðir. Munnmæli herma að þar hafi verið bær sem hét Teigur, en eftir að hofið í Hofteigi var lagt niður gerðist þar reimleiki mikill svo bærinn eyddist og fékk nafnið Dísastaðir. Í Teignum utan við Teigará, utan og neðan við Dísastaði, eru miklar fornar tættur, sem eru taldar vera af hofinu.

Hróarstunga

Völvuleiði á Kirkjubæ í Hróarstungu
"Gömul sögusögn er, að Völuleiði hafi hér verið við kirkjugarðinn utanverðan, og hefur leingi séð vott til hellu þeirrar, er yfir því skyldi vera. - Fyrir skemstu, þá eg á þessu ári lét kirkjugarðinn útfæra, var þessari hellu af 8 manns á brotum uppvelt, og fannst ei annað undir henni en 4 steinar, ótilhöggnir, á hvörjum hún hafði staðið, en alls ekkert annað merkilegt, enn þótt lengra væri niður grafið. Hellan sjálf er ei ýkja stór ummáls, en nokkuð þykk, aflaung að lögun, flöt og slétt á annan veg, en hinumegin mjög óslétt og líkust fyrir að hún sé spreingd útúr kletti eða stórum steini." (Sveinbjörn Rafnsson (ritstj.): Frásagnir um fornaldarleifar I, bls. 19. Úr skýrslu Árna Þorsteinssonar prests.)

Völvuleiði á Vífilsstöðum í Hróarstungu
"Álagablettur, Völvuleiði, væn þúfa er í túni, og þess gætt að hrófla ekki við henni." (Sveitir og jarðir í Múlaþingi I, bls. 355) (Sjá einnig frásögn Eiríks Eiríkssonar, skráð eftir honum í síma 1983. Finn hana ekki.)

"Í túninu niður af Ystahúsi er þúfa sem heitir Völvuleiði. Það er álagablettur og hafa ábúendur á Vífilsstöðum aldrei slegið þann blett svo vitað sé, og ekkert hróflað við þúfunni þegar túnið var sléttað þar í kring." (Örnefnaskrá Vífilsstaða.)

Leiðið er allstór þúfa, topplaga, um 1 m á hæð og rúmlega það í þvermál, vaxin lágu grasi og mosa. Í henni er steinn eða klettur sem grillir í á nokkrum stöðum í hliðum hennar, aðallega í dálitlu rofi að vestan, sem virðist vera nýlegt (líklega eftir troðning kálfa sem beitt var þar). Leiðið er um 40 m út og niður af nýjum (steyptum) fjárhúsum, og um 150 m norður frá núverandi íbúðarhúsi.

Borgarfjörður eystri

Völvuleiði í Bakkagerði, Borgarfirði
"Völvuleiði heitir gróin þúst uppi á borginni (Álfaborg) og er friðlýst." (Sveitir og jarðir í Múlaþingi II, bls. 387.)
"Uppi á henni [Álfaborg] yst er grasivaxinn hnúkur. Hann heitir Völvuleiði. (Örnefnaskrá Bakkagerðis, bls. 4.)

Völubás í Kjólsvík í Borgarfirði
"Rétt utan við Sandinn eru tveir básar, Lækjarbás, sem Bæjarlækur fellur í, og Völubás." (Örnefnaskrá Kjólsvíkur. Gusa. Félagsblað U.M.F.B., júní 1981, bls. 13.). Básinn er varla kenndur við völvu.

Völvuleiði í Litluvík (Breiðuvík) í Borgarfirði
"Í túnfæti Litlavíkurtúns að austan er upphlaðið leiði, Völvuleiði." (Örnefnaskrá Litluvíkur. Gusa. Félagsblað U.M.F.B., júní 1980, bls. 30 (fjölritað))

Mjóifjörður

Völvuholt í Firði, Mjóafirði
"Völvuholt var nýbýli, eins og raunar hin býlin, stofnað 1904 af Gunnari Sigfússyni, síðasta ábúanda á Þuríðarstöðum í Eiðaþinghá. Bærinn stóð neðan við svonefnda Hóla, sem eru framhlaup, með mjög grasgefnum lautum, að norðanverðu í dalnum, æðispöl inn af Firði, og innst af býlunum. Fór í eyði 1925, og túnstæðin eftir það nytjuð sem engjar frá Fjarðabýlunum." (Sveitir og jarðir í Múlaþingi II, bls. 535. Hjörl. Gutt. (2005, 169) segir að þau hafi kallað þetta nýbýli Lyngholt.

"Þau Anna og Gunnar fluttu byggð sína til Mjóafjarðar árið 1904 og reistu nýbýlið Völvuholt, sem þau nefndu reyndar Lyngholt, og áttu 10 börn. Bærinn stóð nokkuð inn í dalnum, neðan við Hólana, á fremur greiðfæru harðvelli.[...] Túnið náði utan frá Völvuholtslæk inn að Torflagsmýri..." ("Undir eyktatindum" (Völvuholt), eftir Sigurð Kristinsson. Múlaþing 10 (1980), bls. 153.)

Ekki er vitað um uppruna bæjarnafnsins, en þarna hefur líklega heitið Völvuholt, sem bærinn var byggður á, sbr. lækjarnafnið. Skv. upplýsingum frá Örnefnastofnun (Bréf. 28.11.05) eru örnefnin Völvulækur og Völvuklettur skráð í landi Fjarðar, líklega í nánd við umrætt býli. (Völvulækur þá líkl. = Völvuholtslækur hjá Sigurði Kristinssyni).

Reykir í Mjóafirði
"Hringur heitir spilda neðan bæjar og voru leifar af túngarði á jöðrunum umhverfis. Upp af þeim að utan var slétt ræma og á henni Völvuleiði, sem snýr norður suður. Var það látið óhreyft þegar jafnað var og sléttað allt um kring upp úr 1950." (Hjörl. Gutt.: Austfirðir... Árb. F.Í. 2005, bls. 158.)

Norðfjörður

Völvuleiði í Fannardal, Norðfirði
"Völvuleiði er í Fannardalstúni, stutt utan og ofan við bæinn. Lögð er áhersla á að enginn megi hrófla við leiðinu, því þá muni hinum sama illa farnast. Engar skráðar sögur hef ég fundið um leiði þetta. Þó var það vel þekkt af flestum Norðfirðingum um miðja þessa öld og jafnvel enn í dag." (Hálfdán Haraldsson: Norðfjarðarbók / Brot. Handr., bls. 22. / Einnig getið í Sveitum og jörðum í Múlaþingi III, bls. 47, og í Árbók Fornleifafél. 1974, bls. 46.)

"Milli lækja í túninu í Fannardal er tunga ofan vegar, nefnd Hesthústún, en tungusporðurinn neðan götu heitir Tröllkonulæri. Í miðju Hesthústúni er stök, aflöng þúfa, nefnd Völvuleiði." (Hjörl. Gutt.: Austfirðir... Árb. F. Í. 2005, bls. 116.)

Völvuleiði í Grænanesi, Norðfirði
"Þorleifur Árnason sagði Sigfríð, dóttur Sigfinns Þorleifssonar í Grænanesi, að völva væri grafin rétt utan og ofan við bæinn, nánast í Bæjarhólnum. Ekki er vitað nákvæmlega hvar það er. Þorleifur sagði að völvan hefði sagt þessi orð um býlið: "Frá Grænanesi mun enginn feitum hesti ríða".

Þorleifur Árnason var sonur Árna Davíðssonar, er bjó í Grænanesi 1881-1924. Þorleifur bjó um tíma í Efri-Miðbæ og síðast í Neskaupstað. Var mjög minnugur og sögufróður maður." (Hálfdán Haraldsson: Norðfjarðarbók / Brot (handrit), bls. 22.)

"Sögn er um Völvuleiði rétt utan og ofan við bæ í Grænanesi, en nú er ekki hægt að vísa á það með vissu." (Hjörl. Gutt.: Austfirðir... Árb. F.Í. 2005, bls. 105.)

Völvuleiði á Stuðlum, Norðfirði
"Völvuleiði er í Stuðlatúni, en engar sagnir við það bundnar." (Stefán Einarsson: Árbók Ferðafél. Ísl. 1957, bls. 14 / Einnig getið í ritg. Halldórs Stefánssonar: Örnefni í Múlaþingi (handr.), bls. 45)

"Ekki hef ég getað fengið neinar aðrar heimildir um völvuleiði á Stuðlum, hvorki skráðar eða munnlegar. Ekki heldur hvaðan Stefán hefur fengið sína sögn um leiðið. Hann segir þó í bók sinni: "Þegar ég fór um Norðfjörð sumarið 1954, voru bæirnir Barðsnes, Stuðlar og Viðfjörður enn í byggð. Er því helst að ímynda sér að hann hafi fengið þessar upplýsingar hjá heimamönnum á Stuðlum, á ferð sinni þetta sumar." (Hálfdán Haraldsson: Norðfjarðarbók (handrit), bls. 22.)

"Í örnefnaskrá Stuðla í Norðfirði, eftir Guðmund Magnússon, segir svo: "Í túninu fyrir neðan gamla bæjarstæðið er stór þúfa, og sér í klett í báðum endum hennar. Þegar maður stappar niður á hana bylur undir henni. Líkast til er kletturinn undir henni klofinn. Þessi þúfa er kölluð Völvuleiði, en ekki veit ég neina sögu um það."Þessar upplýsingar fann ég eftir að ég skrifaði greinina um Völvuleiði á Stuðlum. Er hún því viðbót við þá grein. Síðastliðið vor (1992) kom ég í Stuðla og fann Völvuleiðið eftir lýsingunni í örnefnaskránni. Lýsing leiðisins er mikið til rétt, og er það vel áberandi í túninu utan við Stuðlaána, neðan við gamla bæjarhólinn." (Hálfdán Haraldsson: Norðfjarðarbók. /Brot. (handrit), bls. 23.)

"Völvuleiði heitir þúfa eða stór steinn, grasigróinn, neðan við gamla bæjarstæðið í Heimatúni, og Huldufólkssteinn er þar út og niður af bæjarstæðinu." (Hjörl. Gutt.: Austfirðir... Árb. F.Í. 2005, bls. 93. Á bls. 92 er mynd af leiðinu.)

Reyðarfjörður

Völuhjalli (Valahjalli) á Krossanesi, Reyðarfirði
"Bjó valan á Völuhjalla í Krossaneslandi." (Stefán Einarsson. Árb. F.Í. 1955, bls. 113)
"Þegar Tyrkir rændu hér á landi 1627, komust þeir ekki inn á Reyðarfjörð fyrir norðvestan roki, sem þakkað var ummælum völvu einnar, sem að sögn bjó á Völuhjalla í Krossaneslandi. Hún bað um að jarðsett væru bein sín á einhverjum þeim stað, sem bezt sæist yfir Reyðarfjarðarflóa, og henni var valinn legstaður á Hólmahálsi, þar sem svonefnt Völvuleiði, grasi vaxið, sést vel enn. Það er líka víst, að nærri byggð er hvergi til betra útsýni yfir Reyðarfjörð og flóann út til hafs.
"Ef þetta verður gert", sagði völvan, "þá skal ég sjá svo um, að á meðan nokkur ögn af beinum mínum er ófúin, skulu engir ræningjar eða ófriðarmenn geta náð neinu, sem er innan fjallahrings þess sem umlykur Reyðarfjörð."
Þetta reyndist svo Tyrkjum, er þeir ætluðu að ræna; einnig þýzku flugvélinni, sem rak sig á kletta á Völuhjalla, skammt frá bústað völunnar og fórst með allri áhöfn." (Ásmundur Helgason: Á sjó og landi, 1949, bls. 229.)

"Völvuhjalli (Valahjalli) liggur skáhallt út og upp, allhátt í brekkum út frá Snæfugli. Þar bjó völvan, hollvættur Reyðarfjarðarbyggðar, sem afstýrði Tyrkjaráninu, og grafin er á Hólmahálsi." (Reyðarfjörður. Náttúra og minjar (skýrsla), bls. 77-78.)
"Hjallinn [Valahjalli] er afluktur og grösugur, hallar upp að þverhníptum Valahjallahömrum og verður þar snemmsumars tjörn. Vestur af lokar annar bergveggur og þar uppi yfir gnæfir Snæfugl, himinhár að sjá.
Neðanmáls: Í seinni tíð heyrist nafngiftin Völvuhjalli eða Völuhjalli og spunninn þráður til völvunnar á Hólmahálsi. Það telur Eiríkur Björnsson frá Karlsskála fjarstæðu, samanber örnefnaskrá hans." (Hjörl. Gutt.: Austfirðir... Árb. F.Í. 2005, bls. 71.)

Mynd af Valahjalla er á bls. 74 í bókinni og rammagrein með frásögn af slysinu 22. maí 1941, þegar þýska sprengjuflugvélin fórst þar með 4 mönnum. Örnefnið Vala(Völu)hjalli verður líklega að skoðast sem náttúrunafn, eins og fleiri Valahjallar og Valagil, en vegna frægðar völvunnar á Hólmahálsi hafa sagnir af henni yfirfærst á Valahjalla.
Völuhjalli er einnig í fjallinu upp af Svínaskála (Hjörl. Guttormsson: Austfirðir... Árb. F.Í. 2005, bls. 54). Líklega kenndur við steinvölur?

Völvuleiði á Hólmahálsi, Reyðarfirði
"Í fyrndinni bjó seiðkona að Hólmum í Reyðarfirði í Suður-Múlasýslu. Hún átti nokkur börn, sem hún missti þar og lét heygja þar í túninu. Sjást þar hvítleitir steinar standa á nokkrum þúfum, og eru það leiði og bautasteinar barnanna. Hefir sú trú á þeim legið, að ef menn vildu fá úrfelli úr lofti, þurfti eigi annað en að slá í steinana. Minnir það á sorgartár völvunnar. Eftir barnamissinn eirði valvan þar eigi og flutti að Sómastöðum í sömu sveit og bjó þar. Hún lagði það fyrir að vera heygð þar sem hún sæi best yfir Reyðarfjörð, og eigi langt frá leiðum barnanna. Sagði hún að aldrei skyldi Reyðarfjörður ræntur verða af hafi meðan nokkurt bein sitt væri órotið. Lagðist það í hana að þar mundu sjóræningjar koma. Hún var grafin á utanverðum Hólmahálsi. Sér þar enn á dögum grænan blett, nærri svonefndum Hvíldarsteini. Er það leiði völvunnar.

Nú liðu langir tímar þangað til að Algeirsræningjarnir ræntu sunnan og austan 1627. Ætluðu þeir þá að sigla inn í Reyðarfjörðinn og einkum að ræna Breiðuvíkurkauptún og Hólmakirkju. En þá gerði vestanvind svo hvassan að fjörðurinn var snjóhvítur af roki svo segja mátti að fjöll þekti. Þar með sýndist þeim sem láð og lögur brynni inn til fjarðarins. Sneru þeir því frá, enda er Reyðarfjörður óræntur enn um 1900, og halda Reyðfirðingar einnig að eigi séu bein þessa trygga hollvættar með öllu fúin enn." (Sigfús Sigfússon: Þjóðs. og sagnir, 2. útg., 5. bindi, bls. 129-130. "Reyðfirsk sögn")

Hliðstæð saga er í Sagnakveri Björns Bjarnasonar frá Viðfirði II, bls. 111-112. / Ásmundur Helgason frá Bjargi: Á sjó og landi, bls. 23. / Árni Óla: Álög og bannhelgi, bls. 170. / Stefán Einarsson: Austfirðir sunnan Gerpis. Árb. F.Í. 1955, bls. 113, og grein Magnúsar Stefánssonar: Völvuleiði á Hólmahálsi, í Glettingi 12 (2), 2002: 34-35.

"Ýmislegt er sagt af því í bók Vilhjálms Hjálmarssonar um Eystein Jónsson ráðherra. Til dæmis af sprengjuflugvél sem fórst í Krossanesfjalli á stríðsárunum, og sérkennilegri landamerkjaþrætu sem kom upp milli Eskfirðinga og Reyðfirðinga um 1940-50, sem endaði með því að hreppsnefnd Reyðarfjarðar óskaði eftir því að Völvuleiðið yrði innan marka hreppsins (en skv. lagafrumvarpi um stækkun Eskifjarðar áttu þau að vera beint úr Hólmanestá upp í NA-horn Hólmatinds). Merkjunum var breytt þannig að þau eru úr tánni upp í stað 3 m norðan við Völvuleiði, og þaðan í Hólmatind. (Þáttur Ólafs Ragnarssonar í Ríkisútvarpinu 17. maí 1987).

"Völvuleiði á Hólmahálsi er kunnasta sagnaörnefnið. Þar hvílir völva sú er ver alla byggð við Reyðarfjörð háska og grandi. Sagnakver Björns frá Viðfirði, bls. 172." (Reyðarfjörður- Náttúra og minjar, bls. 80).

"Völvan á Hólmahálsi reyndist svo drjúg að hún blés hræsvelg við Seley þegar Tyrkir ætluðu að ná mönnum þar. Tókst þeim, þrettán talsins, að felast í þröngri gjá, sem fékk síðan nafnið Ræningjaskora." (Þorsteinn Helgason: Örnefni og sögur tengd við Tyrkjarán. Glettingur 13 (1), 2003, bls. 21 (18-22 ) (Þar er einnig minnst á völvuleiðin í Breiðdal.)

Völvuleiði endurbætt: Þann 29. maí 1998 fjölmenntu Eskfirðingar að Völvuleiðinu á Hólmahálsi "til að fagna endurbótum sem nemendur grunnskólans höfðu unnið að í kringum leiðið, ásamt kennurum sínum."
"Þórhallur Þorvaldsson kennari á Eskifirði segir Eskfirðinga líta á völvuna sem verndara sinn og þeir hafi viljað gera vel við hana. Við vígsluathöfnina klæddust nemendur í fornlega búninga og þökkuðu völvunni verndina í aldanna rás. Þórhallur segir allt benda til þess að Völvan hafi verið hin ánægðasta með endurbæturnar. Til marks um það, þá hafi verið kalsaveður og þokumugga þegar byrjað var að hlaða, en eftir því sem verkinu miðaði áfram birti til og endaði með sól í heiði við verklok. Vegvísar voru settir að Völvuleiðinu og gönguleiðir að því lagfærðar, einnig var varða sem þarna er hlaðin upp. "Eskfirðingar eru ánægðir með endurbæturnar og þóttu þær til sóma.", segir Þórhallur." (Morgunblaðið 10. júní 1998 / 2 litmyndir fylgja greininni, teknar af Helga Garðarssyni, Eskifirði.)

Sumir hafa alið þá von í brjósti að völvan á Hólmahálsi myndi einnig bægja frá þeirri vá sem risaálver á Hrauni kallar yfir byggðir Reyðarfjarðar. Ekki sér þess þó merki enn.

Valhöll, klettabelti milli Flateyrar og Hrauns. Þar bjó Hólmaskotta. (Reyðarfjörður - Náttúra og minjar, bls. 80. (Þetta örnefni getur falið í sér aðra sögu þó ekki sé þekkt.)

Völvustekkur, Seljateigshjáleigu, Reyðarfirði.
"Rétt utan við ána hvílir valva á Völvustekk, og þar hjá eru Geithúsatættur, frá því Sæbjörg ríka í Seljateigi hýsti þar geitur sínar." (Hjörl. Gutt.: Austfirðir... Árb. F.Í, 2005, bls. 22.)

Berunes við Reyðarfjörð, Fáskrúðsfjarðarhreppi
"Í Berunestúni er Völvuleiði." (Stefán Einarsson: Austfirðir.... Árb. F.Í. 1955, bls. 106.)

Breiðdalur

Hvalnesháls, milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur
"Völvuleiði er austan gamla vegarins, um 2 m norðan við vörðu yst á hálsinum." (Hjörl. Guttormsson: Austfirðir... Árb. F.Í. 2002, bls. 227 og 229). Mynd er af vörðunni og leiðinu.

Völvuleiði á Breiðdalsheiði
"Svo er mælt að til forna átti valva nokkur eða seiðkona heima innarlega í Breiðdal í Suður-Múlasýslu, eða innanvert í Skriðdal. Hún vissi fyrir ófrið af hafi. Kvað hún svo á að hún væri látin skyldi heygja sig á Breiðdalsheiðinni, sem liggur milli þessara dala, nálægt vatni sem er á heiðinni. Lét hún það um mælt eða lagði það á, að enginn ófriður er kæmi frá hafi skyldi komast upp yfir heiðina á meðan hún hvíldi þar og leiðið væri óbrotið. Það segja kunnugir að leiði hennar hafi sést þar til skamms. Hefir og enginn viljað verða til að rjúfa það. Þykir sumum sem ummæli hennar hafi ollað því meðfram að Algeirsmenn, Tyrkir, komust aldrei nema í Breiðdalinn. Er og varla hætt við því að menn fari að glettast við völvuleiðið á Breiðdalsheiði." (Sigfús Sigfússon: Þjóðs. og sagnir, 2. útg. 5. bindi, bls. 127. / Sm. Árni Björn Arbjarnarson. Í B [1. útg.] er þessari sögu og hinni næstu á eftir steypt saman. Þjóðs. VIII, 86: Völvuleiði og álög á Breiðdal.)

"Nálægt Heiðarvatni er talið að hafi verið völvuleiði, og sagt er frá í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar. Enginn veit nú hvar það er." (Heimild Gunnar og Hlífar Erlingssynir). (Breiðdæla hin nýja I, bls. 355. / Sbr. "Völvuleiði og álög í Breiðdal". Sigf. Sigf. Þjóðs. VIII, bls. 86. (Einnig getið í ritg. Halldórs Stef.: Örnefni á Austurland, bls. 45

Völvuleiði á Þorvaldsstöðum, Breiðdal
"Sagt er að systir völvunnar á Breiðdalsheiði, er mun hafa búið í Skriðdalnum, hafi búið á Þorvaldsstöðum í Breiðdal, og var líka valva. Hún sagði það fyrir að Breiðdalur mundi verða eitthvert sinn ræntur af hafi en aldrei af landi. Lagði hún það á, að engum skyldi takast að ræna Norðurdalinn, þar sem Þorvaldsstaðir standa. Bað hún að heygja sig í Þorvaldsstaðatúni þar sem leiði hennar stendur síðan. Kvað hún álög sín rætast á meðan dysin sín stæði órofin. Hefir enginn maður árætt að brjóta hana. Ummæli hennar þóttu og rætast þegar Algeirsmenn ræntu Breiðdalinn 1627, því þá ætluðu þeir inn í Norðurdalinn, en þá sló strax á móti þeim þokudumbungi svo þeir rötuðu hvergi og urðu aftur frá að hverfa. Það er því sama með hana og systur hennar, að fáir munu ráðast í að ónáða slíka verndarvætti, er verja sinn dalinn hvor." (Sigfús Sigfússon: Þjóðs. og sagnir, 2. útg. 5. bindi, bls. 127-128. Sami sögumaður og áður.)

"Svo heitir upphlaðið leiði í gamla túninu á Þorvaldsstöðum. Í kring er túnþýfi frá fornu fari, en auðséð að þarna hefur eitthvað verið grafið og hlaðið upp eins og stórt leiði, og er sú sögn að þar sé grafin völva eða spákona úr heiðnum sið. Má ekki hreyfa við leiðinu, enda var það látið óhreyft er túnið var sléttað nú eftir stríð, og verður vonandi ekki hreyft meðan frændur þess fólks, sem búið hefur á Þorvaldsstöðum síðustu 200 árin, býr þar. [Saga fylgir um hrakfarir Tyrkja í Breiðdal, sem m.a. var þakkað völvunni]. (Breiðdæla hin nýja I, bls. 345/ einnig mynd.)

"Völvuleiði er þar fast við bæjarhlaðið, áður í gamla túninu; barg völvan Norðdælingum í Tyrkjaráni með því að leggja þokuband yfir dalinn." (Hjörl. Guttormsson: Austfirðir... Árb. F.Í. 2002, bls.203.)
Ljósmynd af bænum og leiðinu er í grein Sigurðar Ægissonar í Lesb. Mbl. 21. nóv. 1992.

Völvuleiði á Ánastöðum, Breiðdal
"Talið er að völvuleiði sé í grashólma milli bæjarins á Ánastöðum og stekkjarins, þar sem áður voru beitarhús upp frá bænum. Þessi grashólmi helst grænn og óbreyttur þó að á landssvæðinu í kring hafi gróður eyðst af völdum Ánastaðaárinnar. Á völvuleiðinu er varða, og er talið að stundum hafi sést þar ljós... Ekki eru kunnar neinar aðrar sagnir í sambandi við þetta völvuleiði." (Sögn Björgvins Magnússonar. Breiðdæla hin nýja I, bls. 384, og sama bók, bls. 333, en þar er mynd af leiðinu. / Einnig getið í Árb. F.Í. 2002, bls. 186.)

Papey og Berufjörður

Völvuhóll (Völvuleiði) í Papey
"Hólarnir í túninu hafa ýmis nöfn. Helztir þeirra eru þessir: Beruhóll, Svíri, Bóndi, Ásgrímshóll, Litlihóll og Völvuhóll (eða Völvuleiði)." (Eiríkur Sigurðsson og Halldór Stefánsson: Papeyjarsaga og Papeyinga. Austurland III, bls. 44.)
"... en Völvuhóll er norðaustast í túninu, austur við girðinguna. Gísli bóndi Þorvarðarson vildi aldrei láta hreyfa við honum, en sléttaði allt í kringum hann, að sögn Gústafs sonar hans." (Kristján Eldjárn, í Arbók Fornleifafél. 88, bls. 58.)

Hamars- og Álftafirðir

Völvuleiði á Hamri, Hamarsfirði
"Bæjarhús á Hamri standa í brekku upp frá sandinum, klettar að baki og Völvuleiði í brekkuhalli, örskammt austan bæjar." (Hjörl. Guttormsson: Austfirðir... Árb. F.Í. 2002, bls. 78.) Engar sögur þekktar.

Völvuleiði á Flugustöðum, Álftafirði
"Á Flugustöðum er grænn grashóll inni í dalnum, sem nefnist Völvuleiði. Er bundin við hann sú þjóðsaga, að þar sé grafin tröllkonan Fluga, en hún hafi búið í Flugustaðadal í þrem hellum. Háhellir var dagstofa hennar, Bríkarhellir svefnherbergið og Búrhellir matargeymslan. Er fátítt að tröllkonur hafi haft svo mörg herbergi til íbúðar." (Eiríkur Sigursson: Örnefnaskráning í Geithellnahreppi 1957. Glettingur 3 (1): 43-46.)

"Í landeign Flugustaða í Álftafirði á Austurlandi og gagnvart Hofi sunnan ár, er topplagaður hóll, sem kallaður er Völvuleiði. Hann er að kalla má auður vetur kaldan sem varmt sumar og jafnan grænn. Þar allnálægt er svokallaður Bríkarhellir. Bæði þessi örnefni eru aftan úr svarta fornöld. Segir sagan að seiðkona nokkur, afar mikil vöxtum (og því líklega tröllkona) hafi búið í hellinum. Sér þar enn í dag rúm hennar...

Mælti hún svo um að aldrei skyldi koma mannfall af hauðri né Álftafjörður verða rændur, meðan leiði hennar væri óhrært.." (Völvuleiði í Álftafirði. Sigf. Sigf.: Þjóðs. og sagnir, 1. útg. VIII, bls. 87-88. Sögumaður: Seselia Steinsdóttir, Hamri. / Einnig getið hjá Kaalund: Isl. Beskrivelse II, bls. 263.) Friðlýst sem fornminjar 25. okt. 1930, skv. Fornminjaskrá Þjóðminjasafnsins ("Völvuleiði", svonefnt, nálægt bænum).

"Á Selgilsaurnum, beint fram af mynni Bríkarhellis, er stór grasi vaxin þúfa, sem kölluð er Völvuleiði. Þar á Fluga að vera jörðuð, og er leiðið friðlýstar fornminjar. En Selgilið fer ekki eftir neinum lögum, og er nú farið að brjóta utan úr leiðinu. Þar sem vatnið hefur sorfið leiðið má sjá steinaröð, sem gæti verið gömul hleðsla, og má þó vera að til þess þurfi dálítið hugmyndaflug. En stór má Fluga hafa verið, ef Bríkarhellir hefur verið henni hæfilegt hvílurúm." (Stefán Einarsson: Austfirðir sunnan Gerpis. Árb. F.Í. 1955, bls. 23.)

"Grashóll var skammt frá Hellrum og bar heitið Völvuhóll, og var talið að Fluga hvíldi þar. Um miðja 20. öld fór Selgilslækur að brjóta upp Völvuleiði, sem nú er horfið." (Hjörl. Guttormsson: Austfirðir... Árb. F.Í. 2002, bls. 33.)
"Völvuleiðið umtalaða var um 100 m norðvestur af "Hellraklettinum", niður af grunnu gili, nafnlausu, en rétt innan við kemur niður Selgil og niður af því Selskriða, mikil og stækkandi aurkeila, og slær sér m.a. til austurs. [Tilv. í Árbók F.Í 1955, s. 23.] Í viðbót við örnefnaskrá Flugustaða hefur Guðmundur Björnsson frá Múla bætt við um Völvuleiðið: "Er nú alveg horfið 1978." Flosi bóndi telur sig geta vísað nokkur veginn á hvar leiðið hafi lent undir Selskriðu." (Hjörl. Guttormsson: Um örnefni og þjóðminjar í Álftafirði. Múlaþing 30, 2003, bls. 78-79. Góðar litmyndir eru af hellunum með þessari grein.)

Völvuleiði á Geithellum, Álftafirði
"Geithellar voru í alfaraleið og gestanauð mikil, en viðtökur oftast góðar. Hálfkirkja var á Geithellum í kaþólskum sið og Kirkjuteigur og Völvuleiði eru þar í heimatúni." (Hjörl. Guttormsson: Áustfirðir... Árb. F.Í. 2002, bls. 58.)

Lón, Austur-Skaftafellssýslu

Völvuleiði í Vík í Lóni
"Bærinn Vík stendur á bökkum Lóns undir Víkurfjalli og renna túnið og lónið nánast saman í eitt. Í túninu eru þrjú upphlaðin Völvuleiði." (Hjörl. Guttormsson: Við rætur Vatnajökuls. Árbók F.Í. 1993, bls. 220.). Góð litmynd er af þessum völvuleiðum í grein Sigurðar Ægissonar í Lesb. Mbl. 21. nóv. 1992.

Stafafell í Lóni
Er getið sem "völvustaðar" í grein Sigurðar Ægissonar í Lesb. Mbl. 1992. Heimildir vantar.

Völvuhóll í Þórisdalur í Lóni
Þar er örnefnið Völvuhóll, skv. bréfi Svavars Sigmundssonar, Örnefnastofnun, 28.11.05. (Er getið sem "völvustaðar" í grein Sigurðar Ægissonar í Lesb. Mbl. 1992. / Vantar nánari uppl.)

Völvuhóll á Krosslandi í Lóni
"Austur af Volaseli og út af Hvammi er mikið sléttlendi, sem kallast Lambey, og endar það í Volaselstagli út undir fjörum. Laxá og Krosslandskíll renna austan við Lambey og greina hana frá Krosslandi, allstórum og flötum hólma austur undir Jökulsáraurum. Þar stóð bærinn Krossland á Völvuhól út undir Affalla, sem skildi hann frá Fjörum..[...] Krossland var á seinni öldum í eigu Stafafellskirkju, heldur kostarýr jörð og undir ágangi Jökulsár. Lá þjóðleiðin austur um Krossland til 1908. Jörðin fór í eyði 1948." (Hjörleifur Guttormsson: Við rætur Vatnajökuls. Árbók F.Í. 1993, bls. 202-203.)

Völvuleiði í Firði í Lóni (Hornaf.)
Skv. bréfi Svavars Sigmundssonar, Örnefnastofnun, 28.11.05, er örnefnið Völvuleiði á þessum bæ. (Vantar nánari uppl.)

Hornafjörður, Mýrar og Suðursveit

Hafnarnes í Nesjum, Hornafirði
Er getið sem "völvustaðar" í grein Sigurðar Ægissonar í Lesb. Mbl. 1992, en frekari heimildir vantar.

Krossbær í Nesjum, Hornafirði
Er getið sem "völvustaðar" í grein Sigurðar Ægissonar í Lesb. Mbl. 1992, en frekari heimildir vantar.

Hoffell í Nesjum, Hornafirði
Er getið sem "völvustaðar" í grein Sigurðar Ægissonar í Lesb. Mbl. 1992, en frekari heimildir vantar.

Völ(v)ulág (Völvu-leiði) í Einholti, Mýrum
"Á kirkjustaðnum Einholti má sjá, 1) Leiði, kallað Völvuleiði, sem liggur í miðju túni. Segja menn að valvan hafi þar sprungið af mæði og þreytu, er hún var að raka fyrrgreint 18 teiga tún eftir manni sínum, Álfinum, á einum degi, og sprakk hér í brekku við túnfótinn, kallaðri Álfadalur." (Frásagnir um fornaldarleifar I, bls. 84.)

"Völvulág er norðan á miðju túninu og þar er Völvuleiði, sem oftast hefur verið haldið við og girt í kringum. Það kemur góður reki á fjöruna þegar völvuleiðinu er eitthvað gert til góða, en ef það er trassað eða girðingin rifin niður getur illa farið." (Byggðasaga Austur-Skaftafellsýslu II, bls.71-72. / Sjá ennfr. "Einholts-völvan". Þjóðs. Sigf. Sigf. 1. útg. VIII, bls. 151-152.)

Sigfús segir að leiði Álfs sé horfið af vatnagangi. Hann segir þá sögu af Jóhanni Knúti Benediktssyni, sem pr. var í Einholti 1869-74, að hann hafi heitið því að gera upp völvuleiðið ef hann fengi 20 álna rekatré á fjörur Einholts, og gekk það eftir.

"Var prestur þá eigi seinn að enda loforð sitt. Fékk hann menn til að gera vel upp leiðið, og síðan lét hann snikkara þann er Jón hét, gera tvöfalt grindverk kringum völvudysina. Var þar hurð á járnum fyrir og tröppur upp að ganga á leiðið. Síðan er sagt að prestur þessi legði mikinn átrúnað á völvu þessa. Gekk hann þangað fyrst á hverjum morgni, og jafnan varð hann fyrstur upp að ganga ef hann sýndi leiðið vildismönnum sínum. Það var síðan almenn trú margra manna að valva þessi vitraðist honum, helst í draumi, og gerði hann ýmislegs varan, er hann varðaði miklu. Þótti honum þá fátt á óvart koma." (Sigf. Sigf.: Þjs. 2. útg. V, s. 211-212.)

"Nú standa tvær kynslóðir bæjarhúsa uppi á holtinu. Þar er Völvuleiði í túni, með miklum átrúnaði, og Álfadalur vestar, með sólskinskvíu eða sólfylgju (umfeðmingi, sem einnig er kölluð sólsekvía), en leiði álfsins er horfið í vötn. Álfurinn og völvan voru hjón í Einholti. [...] (Hjörl. Guttormsson: Við rætur Vatnajökuls. Árb. F.Í. 1993, bls. 162.)
Ljósmynd af leiðinu, með girðingu umhverfis, er í grein Sigurðar Ægissonar 1992.


Völvuleiði á Heinabergi, Mýrum
"Item finnst í túni sömu jarðar 1 leiði, kallað Völvuleiði." (Þar er einnig grjótdys, kölluð fornmannahaugur). (Frásagnir um fornaldarleifar I, bls. 84.). Heinaberg er nú í eyði.

Uppsalir í Suðursveit
"Uppsala á Mýrum" er getið sem "völvustaðar" í grein Sigurðar Ægissonar í Lesb. Mbl. 1992, en skv. bréfi Svavars Sigmundssonar hjá Örnefnastofnun (28.11.05) er örnefnið Völvulág skráð á Uppsölum í Suðursveit (hverfinu Mörk eða Borgarhafnarhverfi. Annara Uppsala er ekki getið í Árb. F.Í. 1993 eftir H.G.).

Völvuleiði á Kálfafellsstað (Hellu / Hellum), Suðursveit
"Hella heitir hjáleiga eða kotbær, er byggður er úr Kálfafellsstað, kirkjustað Suðursveitunga í Austur-Skaftafellssýslu. Til forna hvíldu þau álög á Kálfafellsstað, að þar skyldi enginn prestur vera svo lengur en þrjátíu ár að hann héldi heilli sinni. En hver það var sem lagði það á vita menn nú eigi. En snemma í kristni þóttu ummæli þessi taka þegar að rætast og stóð mönnum stuggur af þeim. En eigi leið mjög langur tími þangað til sú valva kom að Hellu, er var í ætt við Ólaf kóng hinn helga, Haraldsson. Hún réð mönnum til þess að fá líkneskju af frænda sínum og sjá svo hvernig færi. Kvað hún álög þau trautt mundu hrína meðan líkneskjan væri þar. Var þá fengin líkneskjan og festu menn traust á henni, og bar eigi framar neitt á því að prestar trufluðust þar fremur en annarsstaðar, enda þótt þeir væru þar lengur en þrjátíu ár. Valva þessi var síðan heygð þar að Hellu. Sér þar enn leiði hennar og er hún sveitarvörður og hollvættur." ("Völvuleiði í Suðursveit". Sigfús Sigfússon: Þjóðs. og sagnir, 2. útg., V, bls. 128-129.)

"Í mýri skammt fyrir neðan kirkjustaðinn Kálfafellsstað er klettaholt, sem nefnist Hellaklettur. Framan undir klettinum er völvuleiði. Fylgir því sú trú, að þann sem sýnir leiðinu sóma, hendi eitthvert happ. Fyrir seinustu aldamót lét séra Pétur Jónsson á Kálfafellsstað hlaða upp leiðið, og skömmu síðar kom á reka kirkjunnar afar mikið tré, beint og fagurt, svo að ekki fundust í því nema tveir kvistir. Úr þessu tré var íbúðarhúsið á staðnum byggt. Því sem ekki þurfti í grindina var flett í borð til að hafa í þiljur, og þær þiljur eru fallegar, því að viðurinn er fram úr skarandi." (Völvuleiði í Suðursveit. Á. Ó. 1938. / Árni Óla: Álög og bannhelgi ", bls. 174.)

"Annað var við Hella, sem gerði yfir þeim leyndardómsfullan blæ. Suðvestan undir klettunum, örstutt frá þeim, var leiði á sléttri grund. Það var eins stórt og stærstu leiðin í kirkjugarðinum á Kálfafellsstað. Það var einkennilegt að horfa á leiðið úti á bersvæði, langt frá bæjum og algerlega einmana og vel upp gert, eins og þar væri einhver nýgrafinn. Það gerði mann dapran og meðaumkunarfullan. Maður vorkenndi þessu leiði. Það var sagt að undir því hvíldi völva og það var alltaf kallað völvuleiði. Enginn vissi hvenær hún hefði lifað á jörðinni, né hvað hún hefði heitið, né úr hverju hún hefði dáið, og spádómar hennar höfðu aldrei verið skrifaðir. En leiðinu fylgdi sú trú, að happ bæri upp á Staðarfjörur, ef dyttað væri að því, þegar það væri farið að láta á sjá. En það kom ekkert happ, ef bjástrað var að því að óþörfu.

Um síðustu aldamót var leiðið orðið mjög étið af veðrum og nuddi gripa. Þá tóku vinnumenn á Kálfafellsstað sig til og gerðu það myndarlega upp. Litlu seinna rak geysilega mikið tré á Sléttaleitisfjöru, en þar átti Staðurinn allan stórreka. Það var ferkantað, og ég heyrði Björn föðurbróður minn segja, að kanturinn hefði náð sér upp að vestisvasa, þegar hann mældi það við sig í fjörunni, og eftir því var það langt. Björn var meira en meðalmaður á hæð. Þvílíkt tré hafði enginn séð í Suðursveit né heyrt um getið í annálum. Úr því var byggt timburhús á Kálfafelsstað. Í annað sinn gerðu menn á staðnum leiðið upp af nauðsyn. Ekki löngu seinna strandaði frönsk skonnorta með miklum kosti á Sléttaleitisfjöru. ("Í Suðursveit" eftir Þórberg Þórðarson. Rv. 1981, bls. 222-223.)

Sjá ennfremur: "Völvuleiði". (Ragnar Ásgeirsson: Skrudda II, 1973, bls. 217-218./ Eftir Helgu Skúladóttur á Kálfafellstað.). Þar er sagt nánar frá rekatrénu mikla, sem er sagt hafa verið 16 álna langt og breiddin náð manni í mitti. Úr því fengust klæðningarborð sem nægðu bæði utan og innan á grind hússins, en grunnflötur þess var 7 x 14 álnir, ein hæð með risi. Þegar fréttin barst um rekann var leiðangur með 25 hesta tilbúinn til farar á Djúpavog til að sækja timbur í húsið, en við hann var hætt. Sögumaðurinn, Helga Skúladóttir, var kona Péturs Jónssonar prests, sem lét byggja húsið, og ætti frásögn hennar því að vera sönn.

Torfhildur Hólm (Þjóðs. og sagnir, Rvík 1962, bls. 146) segir að "í Kálfafellsstaðar landareign er lítil tjörn, fyrir sunnan kotið Hellra, sem aldrei má slá." Einn hjáleigubóndi sló hana og missti besta hestinn sinn.

Steindór Steindórsson getur um "hinar breiðu þiljur úr rekatré, sem borist hafði á fjöru staðarins í þakkarskyni fyrir það, að það hafði verið hlaðið upp hið svokallaða Völvuleiði, sem er í landi staðarins." (Std. Std.: Frá Snæfelli á Landmannaleið. Í bókinni "Út og suður - 20 ferðaþættir, Friðrik Páll Jónsson ritstj. Rvík. 1983. Bls. 175.)

Hnappavellir í Öræfum
Er getið sem "völvustaðar" í grein Sigurðar Ægissonar í Lesb. Mbl. 1992, en frekari heimildir vantar.

Suðurland

Fljótshverfi, Síða og Meðalland

Völvudys á Núpsstað, Fljótshverfi
Skv. bréfi Svavars Sigmundssonar, Örnefnastofnun, dags. 28. 11.05, er þetta örnefni skráð á Núpsstað. (Bæjarins er ekki getið í skrá S.Æ. / Vantar nánari upplýsingar).

Völvuleiði á Kálfafelli, Fljótshverfi
"Á Kálfafelli í Fljótshverfi stóð kirkjan fyrrum á háum hóli framan við bæinn. Sunnan í hólnum er brött brekka; er neðan við hana stór þúfa, sem kallast Völvuleiði. Þar undir á að hvíla völva, og má hvorki slá þúfuna né hrófla við henni. Þó er sagt að þann mann, sem hressir við leiðið muni henda eitthvert happ. Hefur þúfan sennilega oft verið löguð, því að ella myndi tímans tönn hafa gnagað hana meira en raun er á. Ekki gat ég þó fengið neinar sögur um það." (Árni Óla: Völvuleiði. Álög og bannhelgi, bls. 175-176.)

Skaftárdalur á Síðu
Er getið sem "völvustaðar" í grein Sigurðar Ægissonar í Lesb. Mbl. 1992.
“Á Tumatorfu (54) er völvuleiði. Það snýr frá landnorðri til útsuðurs. Magnús í Skaftárdal sagði að völvuleiði hefðu þá stefnu.” (Eftirmáli eða athugasemdir við örnefnaskrá Skaftárdals, sem var yfirfarin með Kristjáni Pálssyni bónda þar 10. sept.1966. Blað frá Þórði Tómassyni, Skógum, líklega sent Sigurði Ægissyni, til mín komið frá honum.)

Efri-Ey í Hólslandi, Meðallandi
Er getið sem "völvustaðar" í grein Sigurðar Ægissonar í Lesb. Mbl. 1992. Heimildir vantar.

Mýrdalur og Eyjafjallasveit, Vestur-Skaft.

Höfðabrekka í Mýrdal
Er getið sem "völvustaðar" í grein Sigurðar Ægissonar í Lesb. Mbl. 1992. Nánari heimildir vantar.

Völvuleiði í Efri-Vík í Mýrdal
"Völvuleiði kallað, vestur á gilbarminum í Efri-Víkurtúni; það er aflangur, einstakur grashóll, frá austri til vesturs... [meira] (Frásagnir um fornaldarleifar I, bls. 104 (Sigurður Ögmundsson, Reynisþingum. / Einnig í Þjóðs. Jóns Árnasonar IV, bls. 36-37 og í Þjóðs. Jóns Þorkelssonar (1956), bls. 65-66.)

"Í barminum á lækjargilinu í Norður-Vík er staður sem heitir Völvuleiði. Gilið er þarna mjög djúpt, en gilbarmurinn vallgróinn. Fremst í honum er sporöskjulöguð kvos, og í henni miðri hóll, sem snýr austur og vestur. Er síst að undra þótt mönnum hafi á fyrri öldum sínzt mannaverk vera á þessu. En sennilega hefur þetta myndazt þannig, að vatn hefur komið upp þarna í bakkanum og myndað dý. Af gróðri og áfoki hefur svo hlaðizt upp hóll í miðju, en vatn seitlað fram beggja vegna við hann, og sé farvegir þess lautirnar beggja megin við hólinn. Fremst í hólnum er laut, og er hún sjálfsagt mannaverk. Sagan segir og, að þegar Lýður Guðmundsson sýslumaður (1755-1801) átti heima í Vík, hafi hann látið grafa í Völvuleiði, en sýnzt þá öll ódæmi og bærinn í loga, og því skipað mönnum sínum að hætta.
Þau álög hvíla á Völvuleiði, að aldrei má slá það. Þegar Ólafur Runólfsson (nú í Hafnarfirði) bjó í Vík, lét hann slá það. En um veturinn eftir brá svo við, að hann missti fjölda fjár úr allskonar ótjálgu og með undarlegum hætti." (Sögn þar eystra - 1948)

[Löng saga fylgir, höfð eftir Jóni Sverrissyni, sem var vinnumaður í Vík 1898-99, og sló Völvuleiðið án þess að vita um álögin. Sama dag hrapaði hestur til bana í Víkurgili, rétt við túnfótinn, en þar hafði aldrei áður farist skepna í manna minnum.] (Árni Óla: Völvuleiðið í Vík. Álög og bannhelgi, bls. 186-187.)
Skv. uppl. frá Örnefnastofnun (bréf Sv. Sigm. 28.11.05) er örnefnið Völvuskákar skráð í Vík.

Völvuleiði á Felli, Mýrdal
"Sagt er að valva ein hafi búið á Felli í páfadómi og jafnvel átt þá jörð. Leiði hennar er sagt að sé austur í brekkunum, þar sól skín fyrst á og fer síðast af. Hún skyldi hafa heitið á fátæka á einum pestartíma, að gefa þeim 30 álna toll, ef pestin dræpi engan á sínum bæ af ungu fólki, hvað svo við borið hafði. Og svo var mikill átrúnaður á þessum tolli, að allt svo lengi sem hann væri goldinn mundi þar ei ungbarn deyja, og enginn vissi eða mundi nú á dögum að þar hefði nokkur unglingur dáið, meðan honum var útsvarað." (Ævisaga Jóns Steingrímssonar, bls. xx. / Tekið upp úr grein Sigurðar Ægissonar í Lesb. Mbl. 1992.)

"Dys nokkur, eður stórt leiði, skammt frá Prestsetrinu Felli, sem horfir til norðurs og suðurs, kallað Völvuleiði, í þeim stað hvar sól skín fyrst og leingst á; því þar skyldi þessi so nefnda valva hafa boðið að veita sér greftran. Menn halda fyrir satt, að þar liggi kona sú, er fyrrum, á þeim pápisku tíðum /óvíst hvenær / bjó hér á Felli, og líklega hefur verið eigandi þeirrar jarðar. Hún lagði fyrir, að þeir eð þar byggju síðan, skyldu greiða til hreppsins fátækra, 2 tunnur skyrs á hvörju ári; hefur þessi tollur síðan varað og varir enn, að því leyti sem Fells ábúandi má annaðhvört greiða til fátækra 60 ál: í landaurum eða forsorga einhvörn ómaga af hreppnum, so leingi þessi tollur nær, hönum til framfæris. Einn minna formanna hefur reynt til að koma af þessari álögu, sem bygði á pápiskri yfirtrú, en forgefins; og sumir hafa þá trú, að óhöpp við liggi, ef brugðið er útaf þessarar konu fyrirmælum." (Frásagnir um fornaldarleifar I, bls. 106-107.)

Sjá ennfremur: Einar Ólafur Sveinsson: Landnám í Skaftafellsþingi, bls. 146-147. / "Völvuleiðið hjá Felli". Þjóðsögur Jóns Árnasonar II, bls. 86. / "Völvusögur frá Felli í Mýrdal", eftir Sigrúnu Gísladóttur (Árni Óla skráði). Lesb. Morgunbl. 36. árg, 1961, bls. 26-27 og 34-35. / "Völvuleiðið á Felli", eftir Kjartan Markússon, Hvammi, Mýrdal. Lesb. Morgunbl. 5. árg., 29. maí.

"Þegar faðir minn fór að grennslast eftir kvöðum þeim sem fylgdu jörðinni, þótti honum afnotagjaldið furðu hátt, og er hann spurði í hverju það lægi, var honum svarað, að í heiðni hefði völva ein átt jörðina, og var hún heygð þar; átti hún að hafa lagt þá kvöð á jörðina, að ábúandinn skyldi gefa fátækum 30 álnir eða 60 fiska, sem í tíð föður míns var 10 fjórðungar smjörs eða 1 skyrtunna að mati, en á móti skyldi reitur sá er hún var heygð í njóta friðhelgi. Mátti því ekki slá leiði hennar og ekki nokkra metra út frá því á alla vegu." [Óvíst úr hvaða heimild þetta er tekið]

Ytri-Skógar (Skógum), Austur-Eyjafjallasveit
Er getið sem "völvustaðar" í grein Sigurðar Ægissonar í Lesb. Mbl. 1992. Nánari heimildir vantar.

Álfsstaðir á Skeiðum, Árnssýslu: Er getið sem "völvustaðar" í grein Sigurðar Ægissonar í Lesb. Mbl. 1992. Þar mun vera átt við örnefnið Valagil, sem er sunnan í Vörðufelli, milli Álfsstaða og Helgastaða. Úlfsgil er nokkru vestar í fjallinu. Munnæli á Skeiðum herma að Vali og Úlfur hafi verið skólapiltar í Skálholti, sem hrapað hafi í nefndum giljum, er þeir ætluðu að stytta sér leið yfir fjallið. Líklega er gilið kennt við vali (fálka) eins og fleiri Valagil. (Sbr. Bjarni Harðarson: Landið fólkið og þjóðtrúin, 2001, bls. 271.)

Árnessýsla, Vestmanneyjar, Gullbringusýsla

Völvuleiði á Búrfelli í Grímsnesi
Skv. bréfi Svavars Sigmundssonar, Örnefnastofnun, dags. 28.11.05 er þetta örnefni skráð á Búrfelli. (Vantar nánari heimildir / Ekki getið í skrá S.Æ.! og ekki í bók Bjarna Harðarsonar, 2001).

Völukirkja í Ölfusi
"Á gömlu leiðinni milli Kirkjuferju og Arnarbælis er klettur einn mikill og einkennlegur sem heitir Völukirkja. Á þeim enda er veit að Ölfusá er djúp dæld, ferköntuð, inn í steininn, og líkist gluggatóft. Hinn endinn er hár og reistur og líkist gafli á stóru húsi. Upp af þessum steini er sem turn, og var það trúa manna að þarna væri huldufólkskirkja. Fyrir löngu var vinnukona á Kirkjuferju sem Kristín hét. Hún fór einu sinni ein til kirkju í Arnarbæli, en þegar hún kom að Völukirkju var tíðagjörð að hefjast og margt fólk fyrir. Hún fór þar til kirkju og þótti söngur þar undurfagur og embættisgjörð með ágætum."

"Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er þess getið, að við Völukirkju hafi fyrrum farið fram galdramessur, en að vonum eru heimildir um þær samkomur litlar." (Bjarni Harðarson: Landið, fólkið og þjóðtrúin. Self. 2001, bls. 55 og 57.)
Mynd fylgir af klettinum, og skv. henni er óreglulega stuðlað berg í honum; gæti það verið tilefni nafnsins.
"Strýtumyndaður hóll, að hluta úr stuðlabergi, með fuglaþúfu á. Kunn úr þjóðsögum sem Álfakirkja. " (Þór Vigfússon: Í Árnesþingi vestanverðu. Árb. F.Í. 2003, bls. 133.)

Völvuleiðin (eða Unurnar), Ofanleiti, Vestmanneyjum
"Í Ofanleitistúni voru þrjár stórar þúfur, sem kallaðar voru Unurnar. Sagnir hermdu að þar hvíldu þrjár völvur, og voru tvær þeirra nefndar Una eldri og Una yngri, en önnur deili vita menn ekki á þeim. Þessi völvuleiði voru friðhelg, mátti hvorki slá þau né raska þeim á neinn hátt."

Tvær sögur fylgja. Í þeirri fyrri segir af vinnumanni hjá Ara presti á Ofanleiti, sem hét Edenhans, kallaður Hans, og var um tvítugt þegar sagan gerðist. Prestur bað hann eitt sinn að slétta þúfur í túninu norðan við bæinn og fékk honum sterklega fjósreku í hendur. Hans réðist á völvuleiðin, en þá vildi svo til að hann festi rekuna og braut skaftið á henni og hentist á bakið. Þá bar prest þar að og segir:                                           "Ég gleymdi alveg að minnast á það við þig, að hrófla ekki við þessum stóru þúfum. Þetta eru völvuleiði. Hér undir hvíla þrjár vitrar konur, sem vissu fyrir örlög manna, og það er harðbannað að hrófla við leiðum þeirra. Við skulum nú ná upp skóflublaðinu og fylla upp í rekufarið, og vona svo að meira illt hljótist ekki af þessu. Í Krukkspá er getið um völvuleiðin í Ofanleitistúni, og sagt að það geti haft hinar hræðilegustu afleiðingar ef við þeim sé hróflað. Þetta mun prestur hafa heyrt, því að það var á hvers manns vitorði í Vestmannaeyjum, en hann kom í veg fyrir það á þann hátt sem hér segir." (Sögn Sigurðar J. Árness. - 1959)

Seinna var Sigurður Árness vormaður hjá séra Oddgeiri Guðmundssyni á Ofanleiti, og lenti þá í því sama að ætla að slétta völvuleiðin, en prestur sá til hans í tæka tíð, kom út og kallaði: "Ætlarðu að sökkva Vestmannaeyjum?" Hætti þá Sigurður við verkið.
"Seinna var þessi þúfnareitur plægður og sléttaður. Blöskraði þá mörgum í Eyjum slík ofdirfska og töldu að mikinn ófarnað mundi af þessu leiða. Skömmu seinna veiktist hastarlega sá sem gera lét þessar jarðabætur, og sögðu menn þá að þetta mundi vera hefnd völvanna. Maður sem er upp alinn fyrir ofan Hraun í Vestmannaeyjum, en nú fluttur til Reykjavíkur, varð kvíðinn er hann frétti um að þúfurnar hefði verið sléttaðar, og sagði eitthvað á þá leið, að hér mundi mikið illt af hljótast." (Árni Óla: Völvuleiðin þrjú. Álög og bannhelgi, bls. 195-196.)

Ekki fer hjá því að manni verði hugsað til eldgossins mikla á Heimaey 1973 í þessu sambandi. (Hér má geta þess að Unhóll í Þykkvabæ, sem samnefndur bær stendur á, er álagablettur (Álög og bannhelgi, bls. 204)).

Völvuleiði á Görðum, Álftanesi
"Hér eru engir haugar eða fornmannaleiði, nema ef telja skyldi hér fyrir ofan prestsetrið á Garðaholti, það sem kallað er Völvuleiði, sem fornar sagnir eru um að þar sé grafin völva (spákona), sem farið hafi um í heiðni. En við leit finnast þar engar menjar eða leifar af nokkru tagi." (Þýðing útgefanda úr dönsku) (Bréf Markúsar Magnússonar pr. í Görðum, dags. 28. ág. 1817, nr. 102. Frásagnir um fornaldarleifar I, bls. 241.) Skilja má af þessu að leiðinu hafi verið raskað, og ekki er vitað hvort það er enn við lýði.

Ritgerðir um völvur, auk þeirra sem getið er í texta
Gimbutas, Marija: Language of the Goddess. Thames & Hudson, New York, 1989.
Helga Kress. Máttugar meyjar. Háskólaútgáfan, Rvík. 1997.
Scovazzi, Marco: Nerthus e la völva. Einarsbók. Afmæliskveðja til Einars Ólafs Sveinssonar, 12. des. 1969. Rvík 1969. Bls. 309-323. (Á ítölsku).
Valgerður Hjördís Bjarnadóttir: The saga of Vanadís, Völva and Valkyrja. Images of the Divine from the Memory of an Icelandic Woman. Master´s Thesis for Women´s Spirituality Philosophy and Religion Department, School of Consciousness and Transformation, California Institute of Integras Studies. 120 bls.
Valgerður Bjarnadóttir: Heiður. Í bókinni Á sprekamó. Afmælisrit H. Hg. Ak. 2005, bls. 378-383.

Samantekt þessi var gerð í byrjun október 2005,
aðallega eftir spjaldskrá sem höf. ritaði kringum 1985,
með viðbótum úr ýmsum prentuðum ritum.
Helgi Hall.

 

Skrá yfir völvustaði

NORÐURLAND
Spákonufell, bær og fell (Spákonufellsborg) í Austur-Hún.
Völvuhóll, Tungu/Hring, Stíflu í Fljótum.
Valva, eyðibýli í Vík í Héðinsfirði. (Einnig Völvutótt, Völvulaut og Völvuhryggur)
Völuvarða (Valavarða) á Núpufellshálsi, Saurbæjarhr., Eyf. (Þjóðtrúarstaður)
Völvuleiði í Nesi, Saurbæjarhreppi, Eyf. (Í túninu við bæinn).
Völvuleiði í Leyningshólum, Saurbæjarhr., Eyf. (Með krotuðum legsteini).

AUSTURLAND
Völvuleiði í Böðvarsdal, Vopnafirði (Var í heimatúni, nú eyðilagt).
Völvuleiði á Eyvindarstöðum, Vopnafirði (Í heimatúni).
Völvuleiði í Hjarðarhaga, Jökuldal (Rétt við bæinn).
Völvuleiði á Kirkjubæ í Hróarstungu (Var við kirkjugarðinn, eyðilagt).
Völvuleiði á Vífilsstöðum í Hróarstungu (Í túninu, stutt frá bæ).
Völvuleiði á Álfaborg, Bakkagerði, Borgarfirði (Er uppi á borginni).
Völvuleiði í Litluvík (Breiðuvík), Borgarfirði (Í túnfæti).
Völvuholt (Lyngholt), í Firði, Mjóafirði (Nýbýli, byggt 1904, líkl. á samnefndu holti. Í eyði).
Völvuleiði á Reykjum í Mjóafirði (Neðst í túni).
Völvuleiði í Fannardal, Norðfirði (Í túni stutt frá bæ).
Völvuleiði í Grænanesi, Norðfirði (Rétt við bæinn).
Völvuleiði á Stuðlum, Norðfirði (Í túni stutt frá bæ, klettur undir).
Völuhjalli (Valahjalli), Krossanesi, Reyðarfirði. (Líklega náttúrunafn, en tengist sögum frá næsta stað).
Völvuleiði á Hólmahálsi, Reyðarfirði (Frægast þessara leiða. Þar er nýlega hlaðin varða).
Völvustekkur, Seljateigshjáleigu, Reyðarfirði (Stekkjartótt við Geithúsaá).
Völvuleiði í Berunesi, Reyðarfirði (Fáskrúðsfjarðarhr.) (Er í túninu).
Völvuleiði á Hvalneshálsi, milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur (Merkt með vörðu).
Völvuleiði á Breiðdalsheiði (Er nú týnt).
Völvuleiði á Þorvaldsstöðum í Norðurdal, Breiðdal (Er í túni fast við bæinn).
Völvuleiði á Ánastöðum í Suðurdal, Breiðdal (Milli bæjar og Stekkjar (beitarhúsa)).
Völvuhóll (Völvuleiði) í Papey (Í jaðri gamla túnsins).
Völvuleiði á Hamri, Hamarsfirði (Í túni við bæinn).
Völvuleiði (Völvuhóll) við Hellra á Flugustöðum, Álftafirði. (Eytt af vatnagangi)
Völvuleiði, á Geithellum, Álftafirði (Í heimatúni).
Völvuleiði í Vík í Lóni (Þrjú upphlaðin leiði í túninu).
Völvuleiði (?) á Stafafelli í Lóni (Getið í grein Sigurðar Ægissonar í Lesb. Mbl. 1992).
Völvuhóll í Þórisdal í Lóni (Skv. bréfi Sv. Sigm. 28.11.05 / Getið í grein Sigurðar Ægissonar 1992)
Völvuhóll í Krosslandi í Lóni. (Bærinn stóð á hólnum, nú í eyði).
Völvuleiði í Firði í Lóni (Svavar Sigm.: Bréf 28. 11,05)
Völvuleiði (?) í Hafnarnesi, Nesjum, Hornafirði (Getið í grein S.Æ. 1992).
Völvuleiði (?) í Krossbæ í Nesjum, Hornafirði (Getið í grein S.Æ. 1992).
Völvuleiði (?) í Hoffelli, Nesjum, Hornafirði (Getið í grein S.Æ. 1992).
Völvuleiði í Völvulág í Einholti, Mýrum, Hornafirði.
Völvuleiði á Heinabergi, Mýrum, Hornafirði.
Völvulág á Uppsölum í Suðursveit (Mörk undir Borgarhafnarfjalli).(Bréf Svavars Sigm. 28.11.05 / (S.Æ. 1992 getur um völvustað á Uppsölum á Mýrum, sem mun vera sami bær).
Völvuleiði á Hellu /Hellum, Kálfafellsstað, Suðursveit.
Völvuleiði (?) á Hnappavöllum, Öræfum (Getið í grein S.Æ. 1992).

SUÐURLAND og SV-LAND
Völvudys á Núpsstað, Fljótshverfi.
Völvuleiði á Kálfafelli, Fljótshverfi, V. Skaft.
Völvuleiði (?) í Skaftárdal, Síðu, V. Skaft. (Getið í grein S.Æ. 1992).
Völvuleiði (?) á Efri-Ey, Hólslandi, Meðallandi, V.Skaft. (Getið í grein S.Æ. 1992).
Völvuleiði (?) á Höfðabrekku í Mýrdal, V. Skaft. (Getið í grein S.Æ. 1992).
Völvuleiði í Efri-Vík, Mýrdal, V. Skaft.
Völvuleiði á Felli í Mýrdal, V. Skaft.
Völvuleiði (?) í Ytri-Skógum, Rang. (Getið í grein S.Æ. 1992).
Völvuleiði á Búrfelli í Grímsnesi. (Svavar Sigm: Bréf, 28.11.95).
Völukirkja í Ölfusi, Árness. (Þjóðtrúarstaður, ekki getið völvu).
Völvuleiði (Unurnar), Ofanleiti, Vestmanneyjum.
Völvuleiði á Görðum, Álftanesi (Garðabæ?).

Heiðveig Agnes Helgadóttir

Latest Posts

© Helgi Hallgrímsson 2021