Vallholt
Vallholt
Mannvistarminjar í Fljótsdal
Vallholt er nýbýli, sem stofnað var til 1946-1948 á ytri hluta Hrafnkelsstaðajarðar, af Eiríki M. Kjerúlf frá Hrafnkelsstöðum og Droplaugu J. Kjerúlf frá Arnheiðarstöðum. Bærinn var byggður á hól yst á Vörðuholti, skammt fyrir innan beitarhúsin Hrólfsgerði, þar sem forðum var bærinn Hrólfsstaðir sem getið er í Hrafnkelssögu Freysgoða. Bæjarnafnið Vallholt var sótt í Fljótsdælasögu, sem segir að Arnheiðarstaðir hafi heitið svo, áður en Arnheiður settist þar að á 10. öld og bærinn var nefndur eftir henni. Hefðbundnum búskap í Vallholti var hætt eftir riðuniðurskurð 1990 og lát Eiríks 1991. Þar er nú skógrækt.
Húsin í Vallholti voru skoðuð og mynduð 6. ágúst og 7. okt. 1990, 18. júní 1991, og nokkrum sinnum síðan. Guðrún Kristinsdóttir, minjavörður Austurlands, skoðaði húsin með höf. 27. ágúst 1991 og myndaði þau bæði að utan og innan. Þá munu þau einnig hafa verið mæld. (Myndir Guðrúnar eru geymdar í Minjasafninu á Egilsstöðum).
Fjós: Heima við íbúðarhúsið í Vallholti er lítið fjós, hlaðið úr torfi og grjóti, með hvítmáluðum veggsteinum að framan, og sambyggt því er smáhús úr sama efni, með timburstafni. Þessi hús byggði Eiríkur eftir að nýbýlið var stofnað um 1950. Þau eru vandlega hlaðin og enn í góðu ástandi (2012). Sambyggð þeim eru skíthús, súrheysgryfja og hlaða, öll úr steinsteypu, með járnþaki.
Hestasteinn, um mittishár steindrangur, var í hlaðvarpa í Vallholti, skv. mynd 25.9. 1990, líklega fallinn nú.
Hrólfsgerði: Fjárhúsin á Hrólfsgerði standa efst á túnbletti, skammt fyrir utan nýbýlið Vallholt, og voru áður beitarhús frá Hrafnkelsstöðum. Talið er að þau standi á tóttum fornbýlisins Hrólfsstaða, og hafa fundist þar minjar er virðast staðfesta það. Þarna eru fimm fjárhús í þyrpingu, með hlöðum að baki. Aðalfjárhúsin eru fjögur, í miðri stæðunni, tvö þeirra sambyggð, án milliveggs, með stoðum er halda húsasundinu uppi, því að þök þeirra eru aðgreind. Mun Eiríkur hafa rifið millivegginn. Hann byggði stutt fjárhús innan við stæðuna, og hesthús utanvið hana, með steyptum vegg að utan. Ennfremur byggði hann hlöðuna, sem er meðfram allri húsaröðinni að ofanverðu, en þar sagði hann hafa verið fjárhús, sem sneri eins og hlaðan, þegar hann byrjaði búskap.
Þekjur húsanna eru af margvíslegri gerð, og fer það mest eftir aldri þeirra, þ.e. hvenær þær voru endurbyggðar, og hversu mikið í einu. Aðeins eitt húsið er með torfþaki af upphaflegri gerð öðru megin (það næstysta), en hin eru m.e.m. járnklædd, sum þó með torfi ofan á járninu. Hins vegar hefur innri gerð húsanna yfirleitt haldið sér, þótt járnþök væru sett á húsin, þ.e. upprefti og stoðir á görðum er nánast það sama og áður. Flestir raftar eru úr kaupstaðarviði (plönkum), en þó er víða nokkuð af birkiröftum á milli, og birkitróð undir gamla torfþakinu, ásamt hellum. Á hlöðunni er járnþak á sperrum.
Veggir húsanna eru yfirleitt vel hlaðnir, með torfi á milli grjótlaga að utanverðu, en að innan er eintómt grjót upp í a.m.k. 1,5 m hæð, en oft torflag þar fyrir ofan. (Það þótti ekki hentugt að hafa torf milli steina inni í fjárhúsum, þar sem kindur náðu til, því að þeim hætti til að éta það eða nudda það út. Sagt var að þær eyddu því með "anda" sínum). Húsin ganga nokkuð mislangt fram (vestur). Hornin eru yfirleitt boghlaðin að utanverðu. Stafngluggar eru ofan við dyr á miðhúsunum fjórum, og yfir þeim hvítmálaðar vindskeiðar, sumar með skreytingum af hrútshornum. Einnig hafa steinar í stafnveggjum verið málaðir hvítir.
Skammt fyrir innan og ofan umrædda húsaþyrpingu er stakt fjárhús með hlöðu, fremur lítið, veggir grjóthlaðnir og þök af járni. Það hefur Eiríkur endurbyggt. Rétt innan við það er svo lítill torfkofi, líklega notaður sem reykhús.
Sérkenni húsanna á Hrólfsgerði eru áletranir, sem ristar hafa verið á steina utan á veggjum dyrakampa. Eru a.m.k. tveir steinar með áletrunum, sem tilgreina ærfjölda í húsunum og innistöðudaga, með viðkomandi ártölum: "Ær á Hrólfsg. haustið 1906: 232." "Ár 1932 Ær 298. Innist. 2 P O N", auk annara áletrana, svo sem: “P J" "E J K 1907 1921". Þetta gefur húsunum sérstakt gildi, enda er það fágætt.
Húsin voru afgirt 1991-92, til að forða þeim frá niðurbroti vegna riðuhreinsunar. Ekkert viðhald hefur verið á þeim síðan, og eru þökin farin að hrörna, en standa þó enn uppi og veggir hafa ekki bilað svo teljandi sé, nema í hlöðunni. Nauðsynlegt væri að taka þeim tak og gera við það sem farið er að bila.
Þessi húsaþyrping er næsta einstæð og mun varla finnast önnur sambærileg á Íslandi, nema á Lánghúsum (sjá síðar). Hrólfsgerði gæti verið mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu, ef húsin væru löguð og aðgengi bætt að þeim, t.d. lagður þangað göngustígur, girðing rifin, og gras slegið kringum húsin. Einnig þyrfti að setja upp skilti með upplýsingum við þjóðveginn.
Túngarður úr grjóti og torfi er umhverfis Hrólfsgerðistúnið (gerði merkir upphaflega stað sem er umluktur garði). Garðurinn er að mestu heill utan og ofan við túnið, og þar hefur verið fyllt upp að honum að innanverðu, og grafin geil að utanverðu til að hækka hann þeim megin (sbr. Brattagerði, sjá síðar). Garðurinn er úr grjóti að neðantil en torfi að ofan. Hann sést einnig við gil Hrólfsgerðislækjar, sem er SV við túnið.
“Langagerði”: Yst á Skógarbala, neðan undir Stórhöfða, við lækinn Stórhöfðalind, er fjárhús, nokkuð langt, með járnþaki og timburstafni, og hlöðu að baki, úr sama efni. Húsið byggði Eiríkur bóndi í Vallholti, líklega kringum 1970, þannig að grafið var fyrir því með jarðýtu inn í uppgróinn foksandshól. Síðan voru hlaðnir grjótveggir að innan, en að utan eru engar hleðslur. Stoðir úr birki og lerki, og birkiraftar undir járnþakinu. Járnklætt timburþil er á hlöðunni. Þetta mun vera eina húsið sem byggt er með þessari aðferð í Fljótsdal. Það var í góðu gengi 1990, og stendur að mestu leyti enn.
Stekkur: "Á Timburfleti eru tættur eftir fráfærustekk, og því stundum nefnt Stekkahjalli." (Örnefnaskrá). Timburflötur (Timburhjalli) er í fjallshlíðinni, utan og ofan við Hrólfsgerði. Að sögn Gunnlaugs Kjerúlfs er hjallinn nú nefndur Stekkjarhjalli, því að yst á honum er stekkjartótt, vallgróin; sést á loftmynd. Stekkjarlækur rennur þar niður (Örnefnaskrá H. Hg.).
Svarðargrafir: "Innan við Stekkjarhjalla er mýrarblettur með gömlum svarðargröfum, og úr þeim sitrar Svarðargraflækur um gildrag niður hlíðina" (Örnefnaskrá H.Hg.).
Háls: "Utan við Lækjardalsmela eru vallgrónar tættur af eyðibýli, sem heitir Háls," segir í örnefnaskrá. Þessar tættur eru á Lækjardalstanga, milli Lækjardals og Gilsárgils, innst á Rananum eða innan við hann. Að sögn Eiríks eru þarna merki um nokkur sambyggð hús og túngarð, sem bendir til búsetu, en líklega hefur þar síðast verið sel. Hjörleifur Guttormsson skoðaði þessar rústir, ásamt Guðnýju Zoëga sumarið 2004, í tengslum við fornleifakönnun í landi Hallormsstaðar, og ritar:
"Á sléttlendi utan við Lækjardalsmela eru rústir af eyðibýlinu Hálsi, sumpart vaxnar birkikjarri..[...] Við fornleifaskráningu vorið 2004 komu í ljós á Hálsi, rústir fornbýlis, bæjarhóll um 20 × 15 m að ummáli, með fjórum vistarverum, og túngarður, mjög jarðsokkinn umhverfis, en þó rekjanlegur á löngum kafla. Þess utan eru þarna margar smárústir og rústaþyrpingar af útihúsum, svo og áheldi. Bæjarhóllinn bendir til endurbygginga á staðnum, og miðað við útlit tóftanna má geta sér til um að á Hálsi hafi verið búið á miðöldum, ef til vill um eða fyrir siðaskipti." (H. G. og S.B.: Hallormsstaður í Skógum, 2005, bls, 59 / litmynd fylgir af bæjarhólnum)
Tættur við Engjalæk: "Þar sem Engjalækur fellur í Gilsá eru gamlar tættur, nafnlausar. Óvíst er hvaða hús hafa verið þarna" (Örnefnaskrá). Engjalækur kemur innan af Hálsinum austast á Rana og sameinast Gilsá efst í Ranaskógi, á móts við Skjögrastaði. Gunnlaugur M. Kjerúlf sagði tætturnar vera á grasbala á horninu, rétt fyrir utan þar sem lækurinn fellur í gilið, og varla nema um 30 m frá gilbarmi, en balinn er nú líklega orðinn skógi vaxinn. Svo hafi verið ein tótt upp við brekkuna, um 100 m ofar eða vestar (Munnl. heimild 14. des. 1991) Að líkindum hefur þarna verið sel. (Ég hef ekki séð þessar tættur).
Seltættur: Selás er örnefni í hálsinum, beint upp af Vallholti, og þar ofar Kolás. Utan og ofan við þessa ása eru kjarri vaxnar dældir, sem ná út að Sjónarhrauni. Gunnlaugur M. Kjerúlf sagði að vottað hefði fyrir tóttum við Selás (Munnl. heimild 14.12. 1991). Við skoðun 23. ágúst 1995 fann ég þar engin tóttamerki, en 150-200 m utar og ofar, neðan við kjarrsvæði, mótaði fyrir þremur dældum á smávegis upphækkun, sem er um 5-6 × 7 m. Dældirnar eru um 1 × 1 m að innanmáli, og 1-1,5 fet á dýpt, mjög óglöggar, vaxnar reyrgresi og nokkrum lágum birkirunnum. Ferköntuð lítil dæld, um 1 × 1 m og um 2 fet á dýpt er rétt fyrir utan þessa þyrpingu, e.t.v. brunnur. Hrólfsgerðislækur er um 30 m utan og ofan við tætturnar.
Kiðuhóll (geitakofi) "Austur við Gilsárgil utarlega, er Kiðuhóll með gróinni kofarúst. Framar er Kiðuhólsmýri og Klöpp ber þar fram yfir mýrina (Örnefnaskrá). Hóllinn er í Ranaskógi og þar eru nokkur myndarleg reyni- og birkitré. Gunnlaugur Kjerúlf sagðist muna eftir tóttinni, hún er nú orðin óskýr og varla greinanleg, en upp á hólkollinum er smádæld, sunnan megin.
Smalaskáli: "Hálsmýri nær frá Hálssundi inn að Efrabyrgi. Sauðaustur af Efrabyrgi er Smalaskáli og Smalaskálasund. Eftir því fellur Engjalækurinn í Gilsá" (Örnefnaskrá). Þarna munu vera tættur smalakofa.
Kirkjuhamar nefnist allhár stuðlabergsklettur, rétt ofan vegar, um 1 km utan við Vallholt, sem gengur fram úr samnefndum hjalla, en uppi á honum er tún. Þar hafa menn lengi trúað að væri kirkja huldufólksins í Fljótsdal. "Í Kirkjuhamri var álfakirkja. Þangað sást skip koma siglandi eftir Lagarfljóti og upp eftir Jökulsá, sem þá féll að hamrinum, og hvarf skipið þar (Örnefnaskrá, viðbætur). Eitt sinn á gamlárskvöld átti að hafa sést fara þangað bátur með prúðbúnu fólki og hverfa þar ("Kirkjuhamar". Gríma hin nýja V, 135).
Ofan við bæinn og trjáreitinn á Hrafnkelsstöðum er örnefnið Kirkjuklettur, en engar sögur þekktar um hann. Í Ranaskógi er örnefnið Fiðluklettar, og hafa sumir tengt það við tónlist huldufólks, sbr. kvæði Þorsteins Valdimarssonar, með sama nafni. Loks er í Gilsárgili mjög há klettastrýta, sem hefur í seinni tíð verið nefnd Huldukirkja (Mynd í Lagarfljótsbók, bls. 368)
Dys var á melrinda, stutt innan við Kirkjuhamar, er hennar fyrst getið í bók Christians Kaalund: Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island, IV. bindi 1882. (2. útg. Íslenskir sögustaðir IV, 1986, bls. 31). Sigurður Vigfússon fornfræðingur lýsir dysinni svo:
" Fyrir innan Gilsá...þar á litlum tanga er steinaröð, hringmynduð, þar innan í er sem uppblásin steinþró, sem snýr frá austri til vesturs; hún er 6 fet á lengd. Þetta er allt saman uppblásið, svo að þetta er slétt við jörðu. Það er auðsjáanlegt að þetta eru leifar af fornum haug, enda sáust þar fyrir nokkrum árum uppblásin hrossabein, og með því að þetta er rétt fyrir ofan [utan] Hrólfsstaði, er líklegt að þetta sé haugur Hrólfs er þar bjó." (Árbók Fornleifafélagsins 1893, bls. 36
Dysin var eyðilögð af vegarframkvæmdum, líklega kringum 1960. (Nánar í grein minni: Fornhaugar og féstaðir í Fljótsdal. Múlaþing 18, 1991. Sjá einnig Kristján Eldjárn: Kuml og haugfé, 1956, bls. 177).
Eikurnar á Skógarbala: Á Skógarbala eru fjögur eldgömul birkitré, er standa stök, með nokkru millibili á túnbletti, og eru nú komin á fallanda fót. Slík stórtré voru kölluð eikur í gamla daga. Trén eru leifar af skógi sem þarna var á 19. öld en var að sögn felldur vegna aldurs og fúa. Meðan ferðast var á hestum var þarna vinsæll áningarstaður, og létu ferðamenn gjarnan mynda sig undir trjánum, og skáru fangamörk sín í börkinn, eins og víða tíðkast erlendis. Gunnar Gunnarsson kallar trén "Einstæðinga" í Árbók F.Í. 1944, bls. 92. (H. Hall.: Úr sögu Ranaskógar í Fljótsdal. Ársrit Skógræktarf. Íslands 1989).
Minningarlundur um Pál Jónsson Kjerúlf er ofantil í Ranaskógi, innan við Kiðuhól. Til hans var stofnað af Metúsalem bróður Páls 1955, þá var girtur einn ha í birkiskóginum og plantað í hann barrviðum, aðallega blágreni, sitkagreni og lerki, sem nú eru orðin risatré. (Um Pál orti Þorsteinn Valdimarsson eitt sitt besta kvæði, Fiðluklettar, en það er örnefni í skóginum eða innan við hann).
Forngripir: "Til er kljásteinn, fundinn niðri á melunum, skammt frá Hrólfsgerði." (Ferðabók Þórðar Tómassonar og Gunnlaugs Haraldssonar, 1975. Handrit í Héraðsskjalasafni). Hjá Droplaugu Kjerúlf í Vallholti voru um aldamót 2000 gömul húsgögn úr búi Sigríðar Sigfúsdóttur og Sölva Vigfússonar á Arnheiðarstöðum, smíðuð af Halldóri Guttormssyni (1855- 1930) og fagurlega útskorin, m.a. stofuborð, hinn mesti kjörgripur, ruggustóll, kistill og saumaborð. Aðrir smíðisgripir Halldórs eru flestir komnir á Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum. (H. Hall.: Halldór Guttormsson og smíðisgripir hans. Gálgás, jólin 1991). Hér má líka geta um letursteinana á Hrólfsgerði, sem áður var sagt frá.
Umsögn um verndargildi 1990: Torfgrjóthúsin í Vallholti-Hrólfsgerði eru á ýmsan hátt sérstæð. Skiptir þar sköpum að Eiríkur bóndi var góður hleðslumaður og listrænn að eðlisfari. Bygging Hrólfsgerðishúsanna á fornu bæjarstæði, fjölbreytni húsanna og hinar umgetnu steinristur, gefa þeim líka sérstakt gildi.