Helgi Hallgrímsson fæddist árið 1935 í Holti í Fellum og ólst upp á Arnheiðarstöðum og Droplaugarstöðum í Fljótsdal. Stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1955. Nam líffræði, með grasafræði sem aðalgrein, við háskóla í Göttingen og Hamborg 1955–1963. Kennari við Alþýðuskólann á Eiðum 1957-1958 og Menntaskólann á Akureyri 1959–1969. Forstöðumaður við Náttúrugripasafnið á Akureyri 1964–1987 og rannsóknastöðina Kötlu á Árskógsströnd 1970–1979. Hefur fengist við margskonar rannsóknir á náttúru Íslands, aðallega vatnalífi og sveppaflóru landsins og ritað bækur um þau efni: Sveppakverið (1979) og Veröldin í vatninu (1979, 1990), auk fjölda greina í blöðum og tímaritum. Komið hafa út eftir Helga þrjár stórar bækur hin síðari ár. Árið 2005 kom stórbókin Lagarfljót-mesta vatnsfall Íslands út, árið 2010 kom út Sveppabókin, íslenskir sveppir og sveppafræði og hlaut hún Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka 2011. 2016 kom svo út bókin Fljótsdæla, mannlíf og náttúrufar í Fljótsdalshreppi. Nýjust er bókin Vallastjörnur – einkennisplöntur Austurlands sem kom út árið 2017.
Helgi stofnaði og stýrði Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi 1969–1980 og Vísindafélagi Norðlendinga 1970–1975. Stofnandi og ritstjóri Týlis – tímarits um náttúrufræði og náttúruvernd 1971–1985 og í ritstjórn Glettings, tímarits um austfirsk málefni 1991–2002. Hefur beitt sér fyrir verndun náttúrunnar á ýmsum vettvangi og er mikill skógræktarmaður. Búsettur á Egilsstöðum frá 1987. Helgi var sæmdur hinni íslensku fálkaorðu árið 2014 fyrir ritstörf og rannsóknir á íslenskri náttúru.