Arnaldsstaðir
Arnaldsstaðir
Arnaldsstaðir (Arnilstaðir, Arnhallstaðir) eru gömul jörð, sem líklega hefur tengst Þorgerðarstöðum í upphafi, enda líka eign Valþjófsstaðakirkju frá ómynnistíð og fram til 1916, þegar ábúandi fékk hana keypta. Fyrst getið í fornbréfi frá 1552 (D.I. XII, 379). Talin 8 hundruð að fornu mati (1695). Skipt var á skógarítaki og engjum, líklega einnig beit. Foreldrar Gunnars Gunnarssonar skálds bjuggu á Arnaldsstöðum 1891-1894, og þar sleit Gunnar barnsskónum. Í seinni tíð hefur jörðin einkum orðið þekkt vegna tíðra og mikilla skriðufalla, sem oft hafa skemmt mannvirki og ræktað land. (Ólafur Jónsson: Skriðuföll og snjóflóð I. bindi, bls. 505-513. / H. Hall.: Skriðuföll í Fljótsdal. Múlaþing 31, 2004.)
"Jörðin varð fyrir stórtjóni af skriðuhlaupum 10. nóv. 1941. Talið var að 9/10 af undirlendi jarðarinnar yrðu fyrir skemmdum. Aftur urðu skemmdir af skriðuföllum haustið 1968. Jörðin fór í eyði 1969. Síðasti ábúandi Ásgeir Jónasson." (Örnefnaskrá, viðbætur). Hún byggðist þó aftur en fór endanlega í eyði 1992, eftir riðuniðurskurð.
Minjar á Arnaldsstöðum voru skoðaðar 9. júní 1990 og landið skoðað 29. ágúst 1994, í bæði skiptin teknar nokkrar neg. myndir. Skógræktarlýsing og kort 2. sept. 1994.
Gamli bærinn: "Baðstofa, portbyggð og alþiljuð uppi og niðri, 8 × 6 álnir. Þverhús með þilvegg fram á hlað, alþiljað, með lofti og gólfi og járnþaki, 10 × 5 álnir. Þessi hús notuð til 1929, en hlóðaeldhús stendur enn að nokkru, göng og fjós." (SJM II, 56).
"Járnvarið timburhús, torfveggir á tvær hliðar, byggt 1929, 8 × 4 m, tvær hæðir og kjallari." (mynd) (SJM II, 56). Hús þetta stendur enn, hið eina af þessu tagi sem eftir er í Fljótsdal, en er orðið nokkuð hrörlegt, enda ekki búið í því að staðaldri síðustu tvo áratugi. Sumarið 2012 hafði það þó nýlega verið málað að utan. (Síðsti ábúandi, Þorsteinn Jónasson, lést haustið 2011.)
Útihús: "Öll úr torfi og grjóti, flest undir járni, fjárhús fyrir 300, fjós fyrir 2 í gamla bæjarþorpinu, hesthús fyrir 6, hlöður fyrir 300-400 hestburði." (SJM II, 56)
Hús viðbyggð íbúðarhúsi úttekt 1990. Fjósið er með grjótveggjum og torfþaki, líklega ofan á járni, stafn þess snýr að hlaðinu, fallega hlaðinn, og húsið stendur vel. Líklega notað sem geymsla. Fjóshlaða viðbyggð, með torfgrjótveggjum og skúrþaki af járni. Þar fyrir utan er lítið hús í svipuðum stíl og hlaðan, líklega hesthús. Veggir húsanna eru rauðlitaðir af skófum og grasi vaxnir ofantil, standa vel. Húsin munu vera gömul að stofni til. Skv. mynd sem tekin var yfir Keldá 2012, eru þessi hús fallin, en á bakkanum er nýlegt smáhús úr timbri. (Áin er sýnilega alltaf að grafa úr bakkanum utan og neðan við bæinn).
Fjárhús á heimatúni: "Sitt hvoru megin við túnið eru svo Innri-Hesthúslækur og Ytri-Hesthúslækur." (Örnefnaskrá). "Fremst var kallað Framtún, þá Miðtún, Fjárhústún, og yst hét Þríhyrna. Ofarlega í túni hét Efstahús, fjárhús. Þar skammt frá Hólkofi." (Örnefnaskrá, viðbætur 1973).
Fjárhúsin voru 1990 dreifð um túnið, ofan og utan við bæinn, a.m.k. fjögur, öll stök og aðskilin. Fyrir ofan bæinn voru tvö fjárhús, með stuttu bili, annað með viðbyggðri hlöðu, bæði gömul, með grjótveggjum og torfþökum, sem þakin höfðu verið með bárujárni og grjót lagt ofan á það, til festingar. Timburstafnar á húsunum. Hlaðan með járnþaki á sperrum, veggir mjög farnir að gefa sig og húsin heldur hrörleg.
Nokkurn spöl utar og ofar á túninu var stakt fjárhús, líklega Efstahúsið, með hlöðu, mjög áþekkt hinum, og í svipuðu ástandi. Kringum það var stórgrýtisdreif úr gamallir skriðu, líklega frá haustinu 1941, en þá féllu skriður á túnið, báðum megin bæjar, og raunar úr allri Múlahlíðinni. (Sbr. Ólafur Jónsson: Skriðuföll og snjóflóð I. bindi).
Ystu húsin voru skammt fyrir utan og neðan þessi, tvístæð með hlöðu að baki, timbur-járnstöfnum og járnþökum á sperrum, en hliðarveggir úr grjóti og torfi. Líklega ekki gömul. Þetta eru einu fjárhúsin sem enn standa (2011), sbr. mynd í Múlaþingi 31, 2004, bls. 45. Skv. mynd frá 2012 voru veggir hlöðunnar þá farnir að bila. Hin hafa farið forgörðum við riðuhreinsun 1990-92. Ekki er vitað um rústir hesthúsanna, sem lækirnir eru kenndir við.
Stekkur (beitarhús) er um 1 km utan við bæinn, í sérstöku túni, sem er girt með vír. Þar voru 1990 tvístæð fjárhús af grjóti og torfi, með torfþökum. Að baki var járnklædd hlaða. Á mynd frá júní 1988, sem birtist í Múlaþingi 31, 2004, bls. 46, sýnist vera komið járnþak á húsin. Sumarið 1994 höfðu húsin verið jöfnuð við jörðu.
Þarna hefur upphaflega verið stekkur og e.t.v. sel, því að Selhöfði heitir í hlíðinni (skóginum) fyrir ofan. Sumir telja að þarna sé hið upprunalega bæjarstæði Arnaldsstaða, og að bærinn hafi verið fluttur vegna landbrots Keldár. Þetta er haft eftir Þórhalli Björgvinssyni á Þorgerðarstöðum. "Hann hefur sagt mér að sjá megi bæjarleifar í árbakkanum, innst á túninu, niður af beitarhúsunum, og reyndar sá ég þar grjót, sem líkist því að vera hleðslugrjót, en bakkinn er allmikið gróinn og mikill graslúði á túninu, svo ekki sést móta fyrir tóttum þarna, enda hefur allt Stekkjartúnið verið sléttað." (Ferðalýsing mín 29.8. 1994).
Marklækjarbeitarhús: "Rétt utan við Marklæk eru rústir af beitarhúsum, sem kölluð voru Marklækjarbeitarhús." (Örnefnaskrá, viðbætur 1973). "Halldór Benediktsson hafði fé á Marklækjarbeitarhúsum, er hann bjó á Skriðuklaustri (SJM II, 55). Tættur þeirra eru við hlíðarrætur, skammt utan við Marklækinn, spöl ofan vegar, en þar á milli er tún.
Kiðuhús: Næsti hjalli þar inn af [Neðstahjalla] heitir Skógarhjalli, á honum, utan og ofan beitarhúsa (Stekkjarins), er skóglaus blettur, Selhöfði, og innst á Skógarhjalla, rétt inn við merkin, er Kiðuhús. Þar eru tættur. Þessi hjalli nær merkjanna á milli, þvert yfir landið. (Mig minnir ég hafi séð þessa tótt 29. 8. 94).
Garðar: "Enn mótar fyrir vörslugarði frá Kelduá upp í brekkurætur, í notkun til 1920." (SJM II, 55).
"Heyrof uppi á Múla, vitna um heyskap þar, hætt um 1900." (SJM II, 55). Hér er líklega átt við heystæði. Ekki er getið um heystreng á Arnaldsstöðum, og því ekki vitað hvernig hey var flutt niður af Múlanum, en fjallið er mjög bratt og klettótt og illfært hestum með burð.
Kolagerð: Í Arnaldsstaðafjalli hefur alltaf verið skógur, sem nýttur var af ábúendum og frá Valþjófsstað, m.a. til kolagerðar. Um það vitnar örnefnið Kolagjóta í Neðstahjalla, upp af Stekknum. (Örnefnaskrá, viðbætur).
Umsögn 1990: Torfgrjóthúsin á Arnaldsstöðum eru á ýmsan hátt merkileg og upprunaleg, og endurnýjun þekjanna sérstök (járn ofan á torfi). Á hinn bóginn er viðhaldi húsanna nokkuð ábótavant. Til verndunar kæmi líklega helst til greina fjósið og önnur torfhús við bæinn.