Skip to main content
17 November, 2021

Múlaafrétt, Undir Fellum og Vesturöræfi

17 November, 2021

Múlaafrétt


Múlaafrétt kallast svæðið austan Jökulsár í Fljótsdal, innan við heimaland Glúmsstaðasels, fram til jökla, en austurmörk eru ýmist sett við Keldá eða þverá hennar, Sauðá fremri. Á þessari afrétt hafa verið fjórir kofar, sem er óvenju ríkulegt á ekki stærra svæði. Um einn þeirra var þegar getið, Tunguárfellskofa, sem er innst í Þorgerðarstaðadal (sjá Þorgerðarstaði).

Hrakstrandarkofi er yst í tungunni á milli Jökulsár og þverár hennar, Innri-Heiðarár, en tunga þessi kallast Hrakströnd (Hraksíða á kortum). Kofinn er austan undir klettabelti, sem gengur SA frá mikilfenglegum flúðfossi í Jökulsá, sem líka er kenndur við ströndina, og nefndur Hrakstrandarfoss, og heyrist mikill dynur frá honum í kofanum. Ekki er vitað hvenær þarna var fyrst byggður kofi, en hann virðist hafa lagst niður um aldamótin 1900.

"Til vitnis um hann er aðeins lítil, vallgróin tóft, rétt fyrir norðan núverandi skála, sem byggður var 1972. Níels í Seli man ekki eftir gamla kofanum, og segist ekki vita hvenær hann var notaður, en heyrt hafði hann að kofinn hefði lagst niður vegna reimleika. Þórhallur Björgvinsson segir einnig að kofinn hafi haft orð á sér fyrir reimleika, og sagnir hafi verið um að menn hefðu verið dregnir til í kofanum. Gamli kofinn var nefndur Hrakstrandarkofi, en nýi kofinn er nafnlaus, segir í örnefnaskrá Múlans. Anna Bryndís (í bókinni Göngum og réttum) kallar hann Hrakströnd, og segir hann hafa tekið við af Bergkvíslakofa og Tungnárfellskofa." (H. Hall.: Samatekt um gangnakofa... Múlaþ. 25, 1998, s. 88).

Þarna er nú járnklæddur timburskáli, rúmgóður, með kojum, og hesthús úr sama efni, sem byggt var í tveimur áföngum, lokið 1981. Við skálann eru girðingar fyrir fé og hross. Skálinn hentar vel til gistingar fyrir gönguferðafólk.

Hrakstrandarrétt: "Í gilskoru SV við kofann er dálítil rétt, hlaðin úr grjóti á milli kletta. Þórhallur var við byggingu hennar 1942, ásamt Þóri Kárasyni. Hún var stundum notuð til að smala í fé til rúnings á vorin, þegar vel áraði og fé var sleppt snemma á afréttina. Jón Þór á Glúmsstöðum segir að réttin hafi verið að mestu rifin 1972, og grjótið notað til að hlaða undir skálann." (Sama heimild, bls. 88).

Ragnaborg: Uppi á Múlanum, austur af Hrakstandarkofa trónir sérkennileg klettaborg (664 m y.s.) sem Ragnaborg kallast. Rögn þýðir goð, og eru munnmæli um að Glúmur fornmaður á Glúmsstöðum hafi gengið þangað "kvölds og morguns, til tilbeiðslu og áheita við guði sína." (Sigf. Sigf.: Þjóðsögur og sagnir, 2. útg., VI, bls. 8). Svipaðar sagnir eru um ýmis fjöll á Austfjörðum, sem oft kallast Goðaborgir, þar sem menn héldu að heiðnir menn hefðu byggt sér hof, eftir að þjóðin var kristnuð. (Stefán Einarsson: Goðaborgir á Austurlandi. Glettingur 7 (1), 1997.)

Sjónarhólskofi var innantil á Múlaafrétt, vestan Keldár, um 2 km norðaustan við Folavatn, á gróðurlítilli melöldu. Einar Þórarinsson skoðaði hann 1993 og lýsir honum svo:

"Kofinn var hlaðinn úr andesíthellum, sem nóg er af í grenndinni. Gengið var frá þaki líkt og í Eyjakofa [gamla]. Hann var grafinn nokkuð niður, og voru tröppur niður í hann. Lítið byrgi var austan við kofann, sem ætlað var sem skjól fyrir hunda. Hætt var að nota kofann fyrir 1936, en það ár kom Þórhallur Björgvinsson að honum í fyrsta sinn, og var hann þá að falli kominn." (Einar Þórarinsson: Hraunavirkjun. Orkustofnun 1997, bls. 34)

Níels Pétursson sagði að Baldvin Benediktsson bóndi á Þorgerðarstöðum hefði byggt kofann, um aldamótin 1900, og var hann aðeins notaður í eftirleitum, seint á haustin. Var staðsetning hans miðuð við það. Í eftirleitir fóru menn gangandi, því var gróður ekki nauðsynlegur. Til er reikningur frá Baldvin fyrir kofabyggingu á Múla 1897, sem líklega er umræddur kofi. Tóttin var ennþá heilleg árið 2000. Um 2008 var þarna byggð mikil stífla í Keldá og myndað Keldárlón í Folavatnslægðinni; þá hefur tóttinni líklega verið raskað, og hún jafnvel farið undir stífluna. (H.Hall.: Samantekt um gangnakofa á Fljótsdalsafréttum (I), Múlaþing 25, 1998 / Þóra Pétursdóttir: Minjar sem hverfa. Múlaþing 32, 2005, bls. 48).

Bergkvíslakofi (Eyjakofi, Eyjabakkakofi) er innsti kofinn á Múlaafrétt. Hann stóð við Ytri-Bergkvísl (Kofakvísl), syðst og vestast á stykki því er Múlahraun (eða Kofahraun) kallast, milli Jökulsár og Keldár. Kofinn stóð nálægt kvíslinni, sem smám saman braut upp bakkann, og neyddust menn þá til að byggja annan kofa, niðri á sléttunni við Bergkvíslaraura, utar og neðar en sá gamli var og fjær kvíslinni.

"Níels í Seli segist hafa komið að tótt gamla Bergkvíslakofans, og hafi kvíslin þá verið búin að brjóta hluta hans niður, nema annar stafninn stóð enn. Hann varð hissa að finna þar ræksni af gamalli olíuvél í tóttabrotinu. Þórhallur á Þorgerðarstöðum kom að tóttinni í sínum fyrstu göngum 1936, og var áin þá búin að grafa sig inn í hana miðja. Nú er þessi tótt alveg horfin." (H. Hall.: Samantekt um gangnakofa 1998, bls. 85).

Yngri kofinn var líklega byggður um aldamótin 1900, skv. reikningum hreppsins frá 1901, og talsvert í hann lagt. Rögnvaldur Erlingsson segir að trépallur hafi verið í kofanum í hans gangnatíð, sem ekki var þá í öðrum kofum. Þórhallur Björgvinsson lýsir honum svo:

"Mæniás og raftar voru í þaki, en stoð í miðju. Hellulagt var á raftana og tyrft yfir. Hlaðið set var fyrir innendanum, þar sem gangnaforingi og eldri menn lágu, en á gólfinu framan við lágu yngri menn og óbreyttir. "Komfír" eða hlaðið skot var í vegginn, fyrir prímus og potta. Kofinn rúmaði þá 8 menn sem lengst af voru í göngum á Múla." (Einar Þórarinsson: Hraunavirkjun, 1997, bls. 35).

Tvær myndir eru af kofanum í grein Ingólfs Davíðssonar, sem birtist í Tímanum 22. mars 1981. Þær voru teknar 1935, en þá gisti hann ásamt fleiri náttúrufræðingum í kofanum. Samkvæmt þessum myndum er kofinn vel mannhæðarhár, með dyrum á annari langhlið, sem opnast út. Miðað við menn á myndinni er lengd kofans 5-6 m, og breiddin um 4 m (utanmál).

Kofinn var endurbyggður og stækkaður upp úr 1950. Hjörleifur Guttormsson tók mynd af þeim kofa í ágúst 1994, og stóð hann þá vel uppi, þó hætt væri að nota hann 1972, þegar Hrakstrandarkofi var byggður. Þá var þil á honum að vestan og járnþak á sperrum, með lausum hellum úr ljósleitu bergi (andesíti), og svipað hellugrjót var í veggjum. (Mynd í Múlaþingi 25, 1998, bls. 86). Yngri kofinn stendur á grónum meltanga sem gengur fram á Bergkvíslaraura, um það bil miðja vega milli Ytri-Bergkvíslar og ársprænu sem nú er farið að kalla Kofakvísl, sbr. mynd í Múlaþingi 25, bls. 86. Kofinn hefur gengið undir ýmsum nöfnum, er m.a. kallaður Eyjakofi og Eyjabakkakofi, en nafnið Bergkvíslakofi helst þó að nokkru leyti enn, og þannig er hann merktur á kort.

Múlabúðir: Kringum 1980 lét Orkustofnun flytja nokkra skúra upp upp á Múla, eftir vegarslóð sem þá var nýlega gerð inn frá Glúmsstaðaseli og upp milli Sníkilsánna. Þeim var komið fyrir innantil á Múlanum, skammt vestan við ármót Keldár og Grjótár. Þá var til athugunar að virkja Jökulsá í Fljótsdal og Keldá til samans ofan í Suðurdal (Múlavirkjun). Skúrarnir voru líklega aðeins notaðir eitt eða tvö sumur, en síðan leigðir gegn viðhaldi. Þeir stóðu þarna haustið 2008 og standa líklega enn. Sníkilsárslóðin er fyrir löngu orðin ónýt, en fært er að þeim á jeppum frá Keldárstíflu.

Undir Fellum

Afréttarsvæðið vestan Jökulsár í Fljótsdal, frá innri merkjum Kleifar og fram til jökla, austan fellaraðarinnar: Laugafells, Hafursfells, Snæfells og Þjófahnjúka, kallast Undir Fellum eða Fellnaafrétt. Innri hluta þessa svæðis er nú farið að kalla Eyjabakka. Tveir gangnakofar hafa verið á afréttinni, þ.e. við Laugafell og við Snæfellsháls.

Laugakofi (Laugarkofi, Laugarfellskofi) var norðaustan við rætur Laugafell, skammt fyrir innan og neðan Laugará, við heita uppsprettu sem hefur verið notuð sem baðlaug frá gamalli tíð. Við laugina var kominn kofi um 1870, sem lýst er í ferðabók Richard F. Burton (Ultima Thule, or a Summer in Iceland, Vol I-II, London 1875), sem "hreysi, um 7 x 6 fet, með þurrum grjótveggjum, niðurgrafinn um 2 fet; þakið er áreft torfþak og stutt af einni stoð. Við hittum svo vel á að kofinn var í viðgerð." Líklegt er að eitthvert skýli hafi verið þarna áður. (H. Hall., 1999, bls. 49).

Til eru myndir af Laugakofa a.m.k. frá 1935 (Grein eftir Ingólf Davíðsson í Tímanum 22. apríl 1981). Þá virðist kofinn ekki vera beysinn, en hreindýrshorn rís upp af norðurstafni hans. Um 1950 er enn torfþak á kofanum (e.t.v. með járni undir) og raðað hellum á þakbrún. Dyr voru austan á langvegg, sem opnuðust inn, og lítill gluggi efst á suðurstafni.

Sumarið 1957 gisti ritari í kofanum á leið á Snæfell, en varð lítið svefnsamt. Um 1970 (?) var byggður annar kofi úr timbri og járni, niður við Laugará.

Nánar um kofann í greinum höf.: Samantekt um gangnamannakofa á Fljótsdalsafréttum (I-II), í Múlaþingi 25, 1998 og 26, 1999. Samkvæmt mynd sem tekin var sumarið 1975, og birtist í síðari greininni minni 1999, bls. 49 (með röngum texta , sbr. leiðr. í næsta hefti, bls. 22), stóð kofinn þá enn uppi, en með dyrum á SV-stafni og járnþaki á sperrum, með einföldu torflagi, NV-veggur uppblásinn að hluta til. Hann hefur líklega verið rifinn skömmu síðar, og um það leyti (?) var byggt hesthús úr timbri og járni við rústina, sem var rifið um 2010.
Ýtarleg rannsókn á tóft Laugakofa og tilheyrandi mannvistarleifum fór fram sumarið 2010 undir stjórn Steinunnar Kristjánsdóttur fornleifafræðings. (Fornleifaskráning vegna deiliskipulags við Laugafell á Fellnaafrétti í Fljótsdalshreppi. Skriðuklaustur 2010, 22 bls.)
Í lýsingu á kofatóttinni segir m.a.:

"Rúst Laugarkofa er staðsett um 12 m NA við upphlaðna laug, og um 15 m SV við ferðamannaskála, sem nú er í byggingu (ágúst 2010). Rústin er greinileg á yfirborði (mynd 2)... Rústin liggur SSV-NNA. Hún er um 12 m löng og um 10 m breið með hruni. Að innanverðu er rústin um 5,5 m löng og 4 m breið... Yfirborð hennar er nokkuð slétt, þ.e. veggir standa að mestu uppi að innanverðu. Hún er gróin grasi, en stöku steinar úr veggjum sjást á yfirborði." (Fornleifaskráning... bls. 13-14).

Þeir sem að henni stóðu þóttust finna rúst undir hesthúsinu, sem sést móta fyrir undir veggjum þess, en líklega er það aðeins undirbygging hesthússins, jafngömul því.

Baðlaugin: Hennar er fyrst getið í sóknarlýsingu Valþjófsstaðar 1840, sem Stefán Árnason ritaði, á þessa leið:

"Vatnið í lauginni eður uppsprettu þessari er snarpheitt (40-50° Reamur), mjög tært og hefir brennisteins málmblandaðan smekk. Í laug þessari, eða pytti sem gjörður er skammt fyrir neðan uppsprettuna, og sett stífla fyrir þá fyllast skal, laugar sig með jafnaði giktveikt og kláðafullt fólk, og þykir koma að góðu haldi, einkum þegar menn undir eins drekka vatnið úr sjálfri uppsprettunni. Þegar menn hafa laugað sig, er geta 4 í senn, er stíflan tekin úr pyttinum og vatninu hleypt burt." (Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar, Rv. 2000, bls. 135)

Í örnefnaskrá er baðlaugin kölluð Lind, og sögð vera 40-50° heit. Þorvaldur Thoroddsen mældi hita hennar 51°C, þann 21. ágúst 1894.

"Sumarið 1971 var endurhlaðin laug við Lindina og var gluggaplast haft í botni og upp með stífluveggjum, en þrátt fyrir plastið varð botninn fljótlega þakinn leðju. Á heitum dögum það sumar reyndist sú laug gjarna of heit til baða, en notadrjúg þess á milli. Allnokkrum árum síðar, þann 10. mars 1984, mældist vatnshitinn 44,1°C, um 10 sm undir vatnsyfirborði laugarinnar, en heitasta augað í botninum 48,9°C. [...] Niður undan hesthúsinu, og rétt fyrir ofan sjálfa lindina, var grafin út og hlaðin hringlaga setlaug árið 1985, sem í rúmast 8-10 manns. Heitt vatn kemur upp úr botninum, en ú bökkunum sígur kalt vatn. Þann 30. júlí 1995 var mældur 36,9°C hiti í útrennsli setlaugarinnar, en 48-49°C við botninn. Sólskin var og 12°C lofthiti. Í ágúst 2007 mældist frá 32,6°C til 33,6°C hiti í setlauginni." (Jón Benjamínsson: Jarðhitaleit í Fljótsdalshreppi I, 2009, bls. 45).

Á myndinni í Múlaþingi 26, 1999, bls. 49, má sjá hvernig umhorfs var við laugina áður en setlaugin var gerð. (Maður situr á steininum er síðar var í miðri lauginni.)

"Endurgerðina unnu menn sem voru að vinna að rannsóknum fyrir Fljótsdalsvirkjun, og var Lilja Hafdís Óladóttir meðal þeirra sem tóku þátt í verkinu. Að hennar sögn var laugin aðeins pyttur. Engar hleðslur voru þá í henni, fyrir utan einn stein, sem stóð í henni miðri. Var hann látinn halda sér (sjá mynd 5)" (Lilja H. Óladóttir: Munnl. heimild 16. ágúst 2010 / Fornleifaskráning..., bls. 9).

"Upphlaðna laugin er staðsett um 50 m SV við ferðamannaskálann sem nú er í byggingu. Hún er óreglulega kringlótt, ca. 5 x 5 m að utanmáli og 4 x 3,5 m að innanmáli. Dýpt laugarinnar er 50-60 cm. Breidd/þykkt stéttar í kring er mest um 1 m (mynd 5, teikning 3). Um 1 m breiður stígur liggur í norður frá lauginni, í átt að heitri lækjarsprænu, um 3 m NV við hana. Sá lækur er 51°C, en laugin er 22°C (þann 9. ágúst 2010). Í lauginni miðri er nokkuð stór steinn sem stendur uppúr henni. Á austurhlið hefur hleðslan hrunið nokkuð út í laugina sjálfa..." (Fornleifaskráning, bls. 16-17).

Laugabúðir: Um 1980 fluttu Landsvirkjun og Orkustofnun tvo skúra á staðinn, sem skeyttir voru saman uppi á hæð skammt fyrir norðan Laugakofa. Þessi bygging var kölluð Laugabúðir og notuð til gistingar rannsóknamanna. Árið 1991 keypti svo Fljótsdalshreppur skála af Orkustofnun, sem áður var á Grenisöldu við Gilsárvötn, og var hann settur niður við hliðina á bárujárnskofanum við Laugará. Síðar keyptu "Hestaferðir" (Íshestar?) báða skálana og notuðu til gistingar ferðahópa á Vesturöræfi.

Laugarfellskáli: Árið 2010 var byggt allstórt, tveggja hæða timburhús, rétt utan við tótt gamla kofans. Þangað var leitt rafmagn frá rafstreng skammt frá húsinu , sem Landsvirkjun lagði inn að Ufsarstíflu, og húsið er hitað með vatni úr borholu. Hreppurinn á húsið og leigir það til reksturs sem fjallahótel. Það er nú kallað Laugarfellskáli (Laugarfell Highland Hostel). Árið 2011 var gert bílastæði utan við húsið, og hlaðnir veggir úr grjóti í kringum það, og hellulagt hlað austan við húsið. Þá var einnig byggð ný baðlaug SV við húsið, töluvert stærri en gamla baðlaugin, sem einnig var endurbyggð á sama stað og áður. Báðar eru með helluhlöðum köntum, og hellum í botni, og að þeim liggur hellulagður stígur frá böðum og búningsherbergjum í útenda hússins. Fyrrnefndar Laugabúðir hafa verið rifnar, og hesthúsið við gamla kofann, sem og skálinn við Laugará, en eftir stendur þar járnkofinn frá um 1970, notaður sem hesthús. (Skoðað 30. ágúst 2012).

Kofatótt: Norðaustan undir Snæfelli, á innra gilbarmi Hafursár, rétt neðan við Hafursárfoss, er lítil, ferköntuð tótt, um 2 x 2,5 m að innanmáli, hlaðin úr hellugrjóti, og sér ekki móta fyrir dyrum. Líklega hefur þetta verið smákofi, e.t.v. hlaðinn úr hellum upp í topp. Sverrir Þorsteinsson giskaði á að þetta hefði verið eftirleitakofi, líklega eldri en Hálskofi, en hans er hvergi getið í heimildum. (H. Hall.: Gangnakofar II, Múlaþing 26, 1999, bls. 51, með mynd).

Hálskofi stendur á leiti neðan við lítinn hraunkoll í hlíðarrótum austan undir Snæfellshálsi, en svo nefnist hryggur er gengur SA úr Snæfelli, milli Þjófadals og Eyjabakka, og kofinn er kenndur við. Kofinn var kominn til sögunnar 1872, þegar fyrrnefndur Burton (sjá Laugakofa) var þarna á ferð. Samkvæmt hreppsreikningum var hann að miklu leyti endurbyggður um aldamótin 1900. Ingólfur Davíðsson grasafr. tók myndir af honum 1935, sem birtust í Tímanum 1981 og síðar í kofagrein minni í Múlaþingi 25, 1998, bls. 77. Samkvæmt þeim hefur kofinn verið lágur og sporöskjulaga, snúið þvert á hlíðina, með dyrum á austurstafni, sem opnast inn, rúmur metri á hæð. Mikið af hellum er á kofaþakinu, líklega til að verja það fyrir stormi, en gluggi enginn. Ofan við kofann er allhá stöng, sem Ingólfur segir hafa verið reista "til leiðbeiningar í snjó á vetrum." Steindór Steindórsson, sem var ferðafélagi Ingólfs 1935, segir "hann vera einn með þeim hrörlegri fjallakofum, sem ég hefi gist í, og eru þó margir lélegir." (Útvarpsviðtal).

Um þetta leyti var kofinn endurbyggður, með járnþaki, og veggir hækkaðir til muna. Sá kofi stendur enn, og snýr þvert á þann sem var þarna fyrir (sbr. myndir). Um 1960 var byggður þarna lítill skáli, klæddur bárujárni, við hliðina á torfkofanum, sem eftir það var notaður sem hesthús. Í honum eru tvíbreiðir rúmbálkar með báðum hliðum. Hann er gólflaus og heldur óvistlegur. Hestagirðing er við kofana. Kofinn hefur töluvert verið nýttur af ferðamönnun og rannsóknurum til gistingar, þrátt fyrir að þar hafi þótt reimt. Um það farast Steindóri svo orð:

"Undir Snæfellshálsi var leitarmannakofi, sem var illa ræmdur sakir reimleika. Varð mönnum sjaldan svefnsamt í honum, og kom jafnvel fyrir að menn vöknuðu við að verið var að draga þá út úr kofanum. Og draumfarir höfðu menn jafnan illar. Hefur bókarhöfundur fengið að kenna á því." (Landið þitt1968). Nánar um þessi undur o.fl. í Samantekt um gangnakofa, í Múlaþingi 26, 1999.

Um 1985 var gerð jeppafær slóð inn með Snæfelli að austan, og síðan hefur Hálskofi varla verið nýttur af gagnamönnum, og ekki verið haldið við, sem þó væri ástæða til, vegna ferðamanna.

Snæfellsbúðir nefndust nokkrir sambyggðir timburskálar sem Orkustofnun lét koma fyrir NA við Snæfell og sunnan undir Hafursfelli, kringum 1975, til gistingar fyrir rannsóknamenn. Staðurinn er í um 750 m hæð y.s., en þarna er fremur skjólsælt og fagurt útsýni. Búðirnar voru rifnar eða fluttar burtu á 10. áratugnum, og sjást nú litlar menjar þeirra.

Grenisöldubúðir voru byggðar á Grenisöldu austan við Gilsárvötn á Fljótsdalsheiði, upp af Valþjófsstað, um 1970, fyrir rannsókna- og starfsfólk við undirbúning Bessastaðaárvirkjunar. Mun Orkustofnun hafa staðið fyrir þeim. Þarna voru tveir stórir skálar þar sem fjöldi manna gat gist samtímis í kojum, auk þess eldhús, rafstöð og íbúð húsvarðar, sem lengi var Einar Ö. Björnsson frá Mýnesi, og dvaldi hann þar sumar sem vetur. Þessar búðir voru fjarlægðar snemma á 10. áratugnum (?).

Vesturöræfi

Afréttarsvæðið vestan Snæfells og fellahirðar þess, allt að Jökulsá á Dal (Brú) hefur um langan aldur kallast Vesturöræfi, en "nyrðri öræfi" eða Norðuröræfi hefur líka sést í ritmáli og mun vera eldra, og í samræmi við þá málvenju á Héraði að kalla vesturátt norður. Austasti hlutinn, næst Snæfelli, kallast Sandar, og vestasti hlutinn, þ.e. hlíðin austanvert í Jökulsárdalnum (Hjalladal) kallast Háls, og er nú kominn á kaf í Hálslón.

Þetta svæði hefur tilheyrt Valþjófsstaðakirkju svo langt aftur í fortíð sem heimildir greina, eins og líka Hrafnkelsdalur og afdalir hans, Þuríðarstaða- og Glúmsstaðadalir, sem ganga suður á öræfin. Lengi vel leigðu bændur í Fljótsdal upprekstur á Vesturöræfi af Valþjófsstaðaprestum, en á seinni hluta 19. aldar var farið að líta á þessi öræfi sem sameiginlegt afréttarland, enda tók hreppurinn að sér göngur og refaeyðingu á svæðinu fyrir ókeypis afnot af því. Hreppaskipting var lengst af óviss á þessum öræfum, en síðan um aldamót tilheyra Vesturöræfi Jökuldal og hafa fylgt honum í önnur sveitarfélög.

Gangnakofar: Heimildir eru um tvo gangnakofa á Vesturöræfum, Fitjakofa og Sauðárkofa (Sauðakofa), en aðeins sá síðarnefndi var við lýði á síðustu öld og er enn í notkun. Óljós orðrómur er um kofa við Lindur í Hálsi við Jökulsá.

Fitjakofi hefur líklega verið innst á svonefndum Fitjum eða Fit, votlendisfláka milli Sauðár og Jökulkvíslar, sem fellur meðfram jaðri Brúarjökuls. Ég hef ekki heyrt um nákvæma staðsetningu hans eða séð hennar getið. Sverrir í Klúku sagði hann hafa verið "á Fitjahorninu", sem er óþekkt örnefni. Árið 1890 varð gríðarlegt framhlaup í Brúarjökli og skreið hann þá yfir innri hluta Vesturöræfa (og Kringilsárrana), allt að 10 km til norðurs. Er talið að þá hafi Fitjakofi lent undir jökul og horfið í ruðning hans. Sverrir áleit þó að smátótt er hann rakst á við hlaupjaðarinn, svonefnda Töðuhrauka, gæti verið af kofanum, og er það ekki ósennilegt. Fitjakofi er og verður líklega óráðin gáta. (Sjá grein mína: Samantekt um gangnakofa... í Múlaþingi 26, 1999, og grein Þóru Pétursdóttur: Minjar sem hverfa. Múlaþing 32, 2005).

Sauðárkofi (Sauðakofi) stóð á NV-bakka Sauðár, þar sem hún fellur SV niður Hálsinn ofan í Jökulsá á Dal, beint vestur af Sauðahnjúkum og Snæfelli. Kofaalda heitir NA við kofann og vestan við ölduna er Kofaflói og Kofalækur norðan við flóann og fellur í Jöklu. Elsta heimild um Sauðárkofa er í sóknarlýsingu Þorvaldar Ásgeirssonar í Hofteigi 1874: "Við Sauðá er sæluhús þeirra sem smala Vesturöræfi." (Múlaþing. Sýslu- og sóknalýs. 2000, bls. 82). Síðan eru margar heimildir um kofann frá gangnamönnum og ferðamönnum sem gistu þar. Haustið 1901 gisti Daniel Bruun í kofanum i frosti og snjókomu. (D. B.: Við norðurbrún Vatnajökuls. Múlaþing 7, 1974, bls. 184). Í frásögn hans kemur fram að kofinn hafði verið endurbyggður þá um sumarið, og það er rækilega staðfest í reikningum hreppsins 1901-1902. Eftir það hefur Sauðárkofi verið með stærstu og bestu sæluhúsum á afréttum Fljótsdælinga, enda þurfti hann að rúma 10-12 gangnamenn. Ekki var þó ástandið gott þegar Helgi Valtýsson gisti í kofanum í hreindýraleiðangri vorið 1943 (H.V.: Á hreindýraslóðum, 1945, bls. 50-53).

Aftur var Sauðárkofi endurbyggður um 1950, líklega 1952, og var þá eða einhverjum árum síðar stækkaður með viðbyggingu, hornrétt við eldra húsið. Sú viðbygging var með timburstöfnum. Bæði húsin voru með járnþaki, klæddu þunnu torflagi. Á árunum 1960-70 var byggður lítill timburskáli, asbestklæddur, með járnþaki, fast við kofann að vestan, notaður til gistingar en gamli kofinn þá nýttur fyrir hesta. Árið 1981 var svo loks byggður mun stærri skáli SV við gömlu kofana, klæddur rauðbrúnum krossviði, og með kojum í tveimur hæðum þær neðri tvíbreiðar en efri einbreiðar, og olíukyntum ofni. Síðustu áratugi hefur Sauðárkofi verið notaður til gistingar ferðamannahópa í skipulögðum hestaferðum. Var möguleiki að hýsa þar allt að 30 hesta, en einnig var þar hestagirðing. Jeppafær slóð liggur að kofanum frá Snæfelli (?). (H. Hall.: Samantekt um gangnakofa... Múlaþing 26, 1999).

Þegar Kárahnjúkavirkjun var endanlega hönnuð um aldamótin kom í ljós að Sauðárkofi myndi lenda í vatnsborði miðlunarlóns virkjunarinnar (Hálslóns) og jafnvel flæða kringum hann þegar það væri fullt. Bauðst Landsvirkjun þá til að flytja kofann, eða öllu heldur að byggja nýtt sæluhús og hesthús spölkorn norðar, líklega á Kofaöldu. Jafnframt kostaði hún fornleifarannsókn á gamla kofastæðinu, sem starfsmenn Fornleifastofnunar framkvæmdu sumarið 2004. "Hann var mældur upp, teiknaður og myndaður. Auk þess voru gerðir í hann þrír könnunarskurðir, tveir inni í kofanum og einn utan hans." (Þóra Pétursdóttir: Minjar sem hverfa. Múlaþing 32, 2005, bls. 52). Nánar er sagt frá þessari rannsókn í riti Garðars Guðmundssonar og Gavin Lucas: Rannsókn á fornleifum sem fara undir Hálslón við Kárahnjúka. Fornleifast. Ísl., fjölrit nr. FS296-00065, Rvík 2005.

Lindakofi: Lindur heita volgar uppsprettur sem voru á tveimur stöðum, með stuttu millibili, utantil í Hálsi við Jökulsá á Dal, áður en honum var sökkt í Hálslón, aðgreindar sem Ytri- og Syðri-Lindur. Við Syðri-Lindur hafa sumir Fljótsdælingar álitið að verið hafi afdrep fyrir gangnamenn, en um það eru engar beinar heimildir. Haft er eftir Sverri Þorsteinssyni í Klúku að hann hafi séð þar tótt af litlum kofa, og kvaðst hann muna eftir mönnum sem höfðu gist þar. Enga lýsingu hafði hann heyrt á kofanum, nema að inngangan hefði verið um op á þekjunni og hella lögð yfir það. Páll Pálsson hefur aðeins séð þar ólögulega grjótröð í blásnu rofabarði, sem líktist ekki kofatótt, en grjótið þó líklega aðflutt.

Um 1975 var byggður þarna lítill timburskáli með kojum, til gistingar fyrir rannsóknamenn, sem einnig var nýttur af gangnamönnum, og stóð fram yfir aldamót. Þarna voru líka tvær baðlaugar, sem nefndust Bæjarlaug og Baðker, rétt við kofann, 33-35 stiga heitar. Við Ytri-Lindur var fjárrétt frá Aðalbóli, girt með vír, og ekki gömul. (H. Hall.: Samantekt um kofa... Múlaþing 26, 1999, bls. 62. / Þóra Pétursdóttir: Minjar sem hverfa.. Múlaþing 32, 2005, bls. 55-56).

Herjólfshaugur: Samkvæmt ýmsum þjóðsögulegum heimildum átti maður að nafni Herjólfur heima á Egilsstöðum í fornöld, hann deildi kappi við Jökuldælinga, og féll að lokum fyrir þeim í bardaga á Vesturöræfum, og var dysjaður þar sem heitir Herjólfshaugur, en það er stakur melhóll við Herjólfsdrag, læk sem fellur í Sauðá NV við Sauðahnjúka. Vigfús Ormsson getur fyrst um hauginn í fornleifaskýrslu sinni 1821, og ritar m.a.: "Að hæð þeirri ... hefi eg komið, en ei getað séð þar nokkur auðsjáanleg mannaverk, og ekki kom hann mér öðruvísi fyrir sjónir en grashóll með nokkrum stórum steinum í kollinum." (Frás. um fornaldarleifar I, bls. 35). Ýtarlegust er sögnin um Herjólf í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar, 2. útg. VI, 62-63.

"Herjólfshaugur er steinahvirfing efst á þurri jökulöldu, og sést víða að af öræfunum. Steinarnir eru misjafnir að gerð og lögun, og gætu verið fluttir á þennan stað af mönnum. Væri þetta þá leifar mannvirkis, vörðu eða þess háttar." (Sveinbjörn Rafnsson: Byggðaleifar í Hrafnkelsdal... 1990, bls. 72, Sbr. mynd á bls. 71 í sama riti). Ég hef ekki komið á staðinn.

Grjótteigssel, sem getið er í Hrafnkelssögu í tengslum við dráp Hrafnkels á Einari Þorbjarnarsyni, smalamanni sínum, fyrir að ríða Freyfaxa, hafa menn haldið að væri við ármót Grjótár og Þuríðarstaðadalsár nálægt þeim stað sem Kárahnjúkavegur liggur yfir þá síðarnefndu. Kristian Kålund getur um selrúst á þessum slóðum, en hann var þar á ferð 1873. Hann telur að Grjótá hafi forðum verið nefnd Grjótteigsá, og við hana sé selið kennt.

"Eftir að áin [Grjótá] er komin út úr þrengslunum, rennur hún fyrst á sléttum malareyrum, en brátt verður krókóttur klettafarvegur, og á grjótmel vestan við ána eru seltóftir, og er talið að það sé Grjótteigssel það sem Hrafnkels saga segir frá; nokkru fjær ánni er sýnd Einarsdys, grjóthrúga, að nokkru úr furðulega stórum steinum.[...] Vitanlega er talið að Einarsdys samsvari Einarsvörðu í sögunni. Reyndar er hún ekki alveg í vestur frá seltóftunum (miður aftann)..." (Kålund, Kr.: Íslenskir sögustaðir IV, bls. 22).

Sigurður Gunnarsson (1872) segir að þarna séu engar selsminjar sjáanlegar, en Þorvaldur Ásgeirsson í Hofteigi ritar 1874: "Við Grjótá, sem áður var nefnd, sjást tóftabrot, sem kallað er Grjótársel." (Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar, 2000, bls. 96). Aðrir sem ritað hafa um þetta efni hafa þá sögu að segja að þarna sjáist nú engar tættur, og ekki sá höfundur neinn vott að þeim er hann skoðaði staðinnn 22. júlí 2006. Hafi þær einhverntíma verið þarna virðast þær vera horfnar.

Einarsvarða: Eftir að Hrafnkell hafið vegið Einar segir sagan: "En hann lét færa Einar vestur á hallinn frá selinu og reisti vörðu hjá dysinni. Þetta er kölluð Einarsvarða, og er þaðan haldinn miður aftann frá selinu" (Ísl. fornrit XI, 1950, bls. 105). Kålund getur um vörðuna í ofannefndri grein. Í örnefnaskrá Vesturöræfa er getið um "Einarsvörðu og Einarsdys." Þarna er nú engin sjáanleg varða, en áberandi grjóthóll með hornóttu stórgrýti og fuglaþúfu efst, er nú nefndur þessu nafni. Hann er stutt sunnan (SV) Kárahnjúkavegar, og blasir við af honum. Hann er hluti af jökulruðningshólaröð, sem nær þvert yfir Tunguna, milli Þuríðarstaðadals og Glúmsstaðadals. (Sveinbjörn Rafnsson: Byggðaleifar... 1990, bls. 70-71, með mynd).

Reykjasel eða "Pálstóftir" í Hálsi: Haustið 2003 var Páll Pálsson á Aðalbóli að leita kinda í þoku í Hálsi á Vesturöræfum, og rakst þá af tilviljun á tættur í Hálshlíðinni, beint á móti Sauðá á Brúardölum, er sýnilega voru af fornu seli. Gat Páll sér til að þar væri fundið Reykjasel, sem getið er í Hrafnkelssögu, í sambandi við hina örlagaríku fjárleit Einars sauðamanns á hestinum Freyfaxa. Tætturnar voru í 580 m hæð yfir sjó og því fyrirsjáanlegt að þær myndu lenda á kafi í Hálslóni Kárahnjúkavirkjunar (hámarkshæð lónsins 625 m y.s.). (Páll Pálsson: Er Reykjasel Hrafnkessögu fundið? Múlaþing 30, 2003, s. 84-85).

Landsvirkjun var gert skylt að kosta fornleifauppgröft á tóttunum, sem fram fór sumarið 2005, á vegum Fornleifastofnunar, undir stjórn Gavin Lucas forstöðumanns. Þetta var mjög ýtarleg og alhliða rannsókn, sem aðeins á sér hliðstæðu í rannsókn Steinunnar Kristjánsdóttur og félaga á Skriðuklaustri. Rústirnar reyndust vera frá elsta skeiði búsetu á Íslandi, og höfðu verið í notkun frá miðri 10. öld til ofanverðrar 11. aldar (ca. 950-1070). Þær eru að líkindum af seli, þó ekki sé það ótvírætt. Nokkrir gripir fundust við uppgröftinn, m.a. fjórir peningar, slegnir á dögum Haralds harðráða í Noregi (1047-1066), og brot úr nokkrum skartgripum frá 10. öld, auk fjölda dýrabeina. (Gavin Lucas: Pálstóftir. Sel frá víkingaöld við Kárahnjúka. Múlaþing 34, 2007, bls. 111-119. / Fornleifastofnun: Fornleifauppgröftur á Pálstóftum við Kárahnjúka 2005. Landsvirkjun, febr. 1997, skýrsla LV-2007/018). Rústirnar fóru undir vatn í Hálslóni 2008, og eru nú líklega eyddar.