Skip to main content
17 November, 2021

Þuríðarstaðir

17 November, 2021

Þuríðarstaðir


Þuríðarstaðir virðast hafa verið eitt af stórbýlum Fljótsdals í fornöld, en þá hafa Egilsstaðir verið hluti af jörðinni. Árin 1696 og 1804 eru þær sameiginlega metnar á 18 hundruð, en 1830 eru Þuríðarstaðir sérmetnir á 6 hundruð (Jarðabók Johnsens 1847, 362) og telst nú fremur lítil jörð. Samkvæmt Fljótsdælasögu flutti Þuríður Hámundardóttir, ekkja Glúms á Glúmsstöðum yfir ána eftir skriðuhlaupið mikla (sjá Glúmsstaði) og byggði þennan bæ, og Oddbjörg dóttir hennar giftist Ásbirni syni Hrafnkels á Aðalbóli. Herma þjóðsögur að Þuríður hafi átt selstöðu á Þuríðarstaðaseli við mynni Þuríðarstaðadals í Hrafnkelsdal, en þar eru miklar tættur, og ljóst er af nafngiftum að einhver tengsl voru milli þessara staða. (Sveinbjörn Rafnsson: Byggðaleifar á Hrafnkelsdal, 1990, bls. 67). Jörðin komst í eigu Valþjófsstaðakirkju á 16. öld og er nú ríkiseign. Hún fór í eyði 1987, og þar höfðu öll gripahús á heimatúni verið jöfnuð við jörðu þegar húsaskoðun fór fram sumarið 1990, nema fjósið. Benedikt Jónasson frá Þuríðarstöðum hafði þar enn fáeinar kindur 2011.

Jörðin var girt og tekin til skógræktar 1997 og þá var landið skoðað nokkuð ýtarlega og gáð sérstaklega að fornminjum. Er eftirfarandi minjaskrá tekin að miklu leyti upp úr skógræktarlýsingu minni, dags, 8. sept. 1997.

Fornbærinn: "Innan bæjar eru mjög fornar bæjarrústir á túninu." (Örnefnaskrá). "Meðfram gamla túninu heima á Þuríðarstöðum að ofan, mótar enn fyrir fornum túngarði, og í brekku fram og niður af íbúðarhúsinu eru sýnileg hleðslubrot í jörðu, og ætla menn að þar hafi fornbærinn staðið." (SJM II, 44). Ég skoðaði þennan stað haustið 1997, og lýsti þannig:

"Um 90 m fyrir innan íbúðarhúsið, og aðeins neðar, eru gamlar bæjartættur á lágum bakka í túninu, orðnar mjög máðar. Er talið að þar hafi fornbærinn staðið. Þær eru nú á kafi í grasi, svo erfitt er að átta sig á húsaskipan. Ein aflöng dæld, með öðru graslagi, um 4 x 8 m, er það eina sem sést á yfirborði, en finna má fyrir fleiri dældum þegar gengið er um stykkið. Líklega hafa tætturnar verið sléttaðar með handverkfærum á fyrri hluta aldar, til að auðvelda heyskap. Neðan í bakkanum má líklega greina vott af grjóthleðslum." (Skógræktarlýsing 1997).

Gamli bærinn: "Þrepabaðstofa, 9 x 6 álnir, alþiljuð, súð úr plægðum viði, allir viðir úr kaupstað. Bæjardyr í suður, stafnar með hálfþili fram á hlað. Skemma innréttuð til íbúðar 1930, 2 hæðir. Veggir á 3 vegu, timbur á stöfnum, og langhlið austur á hlað, klætt tjörupappa. Járnþak. Búið þar til 1944. (SJM II, 45).

Í Héraðsskjalasafni er teikning Vigfúsar Sigurðssonar af gamla bænum (suðurhlið) í vasabók hans frá 1901. Sést þar baðstofan, sem snýr þvert á fjallið, tveggja hæða hús, með þremur gluggum á þekju (eða efri vegg) að sunnan, og dyrum við hliðina á stórum glugga á neðri hæð. Að baki hennar (að utan) sést strompur sem rýkur úr, væntanlega á eldhúsi. Austan við þessi hús eru að því er virðist tvær skemmur, með stöfnum í austur (= "stafnar með hálfþili fram á hlað"?). Í baksýn sést Bjargið. Í safninu er einnig grunnteikning af bænum, líklega gerð af Benedikt Friðrikssyni bónda á Hóli, og sýnir bæinn eins og hann var síðast, um 1940. Þá var þar komið frammihús, er sneri þvert á baðstofuna (= "skemma, innréttuð til íbúðar 1930"?), í því stofa og eldhús, en auk þess eru tvö hlóðaeldhús í bænum, fjós í SV-horni og kúahlaða í NA-horni, auk þess búr og taðkofi.

"Steinhús byggt 1944, 10 x 9 m, ein hæð, án kjallara. Útihús: Heimahús öll úr torfi og grjóti, járnvarin, fjárhús fyrir 230, hlaða 140 hb., fjós fyrir 3, hesthús fyrir 6. Á beitarhúsum fjárhús fyrir 180, úr blönduðu efni, og hlaða úr torfi og grjóti, 300 hb. (1970)." (SJM II, 44).

Rétt fyrir ofan íbúðarhúsið er lítil hlaða og líklega fjós, viðbyggt, úr timbri og járni, og stuttu utar og ofar er lítið hesthús úr sömu efnum (sbr.myndir 2012).

Fjárhús heima við: "Hesthústún er inn og upp á túni." (Örnefnaskrá). "Þá skal að síðustu geta um fjárhúsin á gamla túninu. Innst heitir Fremstahús. Það stendur enn. Þá var næst Lambakofi, nú fallinn. Þá heitir Gamlahús. Það stendur enn, og svo var eitt hús enn, kallað Nýjahús, rétt ofan við Gamlahúsið, það er nú niður fallið." (Örnefnaskrá, viðbætur 1973).

Sum þessara húsa stóðu fram yfir 1980, sbr. bæjarmynd í SJM II (1975). Jörðin fór í eyði um 1987, og voru öll gömlu torfhúsin jöfnuð við jörðu 1988 eða 1989, en þó mátti greina tættur þeirra flestra 1997:

"Ofan bæjar eru nokkrar ógreinilegar tættur gripahúsa, efst á túninu. Innst og efst er lítil tótt, um 3 x 4 m, á dálitlum hólkolli, líklega af hesthúsi, en þar fyrir innan og neðan heitir Hesthústún. Utan við þessa tótt er Bæjarlindin og vatnsból bæjarins, en smálækur rennur þaðan út og niður túnið. Fyrir utan lindina eru stærri tættur, af um 10-13 m löngu fjárhúsi, sem líklega var kallað Fremstahús, og stuttu utar eru tættur Gamlahúss og Nýjahúss?. Þar sést móta fyrir hlöðutótt, um 4 x 8 m. Þar heitir Fjárhústún, og Fjárhúslind er rétt fyrir utan tætturnar. Þaðan rennur annar lækur í gildragi út og niður á eyrarnar." (Skógrækarlýsing 1997).

Vörslugarðar: Í SJM II er getið um túngarðsleifar í brekkunni ofan bæjar, en þar var 1997 svo mikið gras að þær voru naumast sýnilegar. Hins vegar var grjótgarðsbrot í bakka í neðra túnjaðri niður af fornbæjartóttunum, allt að 1 m á hæð og um 10 m langt, sem líklega er hluti af gamla túngarðinum, en neðan við það var kartöflugarður í seinni tíð, og gæti veggurinn hafa verið byggður til skjóls fyrir hann. Grjótgarður liggur niður með "Réttargili" að utanverðu, niður undir veg, líklega leifar af gömlum túngarði eða vörslugarði, því gilið er stutt fyrir innan heimatúnið.

Rétt: Rétt er skammt ofan vegar í botni gildrags, sem kalla má "Réttargil", innan við heimatúnið, en það er framhald af þurru gili í hlíðinni utan við Grundarlæk. Réttin er um 5-6 x 13 m, ekki hólfuð, hlaðin úr grjóti og fyllt að með jarðvegi að utanverðu. Uppi á bakkanum að utan mótar fyrir annari tótt, álíka stórri, sem líklega er af eldri rétt, með torfveggjum. Þar fyrir utan heitir Kvíaból, innst á túninu, en kvíarnar eru horfnar.

Myllutótt var við Grundarlæk, ofan vegar, nú horfin. (Fann hana ekki 1997).

Götur liggja upp frá bænum, og upp gegnum klauf í Bjarginu, sem kallast Snið. "Gamlar götur liggja upp með Grundargili að utanverðu, a.m.k. upp á Nautahlíð, og hafa líklega verið notaðar til heyflutninga ofan úr fjallinu, þó nokkuð séu þær brattar á köflum." (Skógræktarlýsing 1997).

Vöð: "Beint á móti bæ er Þuríðarstaðavað á ánni." Fossárvað er á Jökulsá neðan við Stekkinn, kennt við Fossá í landi Glúmsstaða. (Örnefnaskrá).

Vörður: Myndarleg varða, um 1,5 m há, er á klöpp utan við Grundarlækjargil, í neðanverðri hlíðinni.

Stekkur (beitarhús): "Beitarhús á Stekk, um 1 km innan við bæ, lögð af um aldamót, en endurreist 1970. (SJM II, 44). Stekkurinn er ofan vegar, um 150 m utan við Stekkalæk, neðan við Stekkaklett, í Stekkaþýfi, sem nú er orðið að túni. Þar voru byggð beitarhús, líklega á 19. öld, lögð niður um 1900, endurbyggð 1970, og jöfnuð við jörðu 1986, og sést nú aðeins móta fyrir þeim í túni sem þarna var ræktað.

Fögruklettar eru þyrping af lágum, jökulskúruðum klöppum, ofan vegar, rétt innan við Stekkalæk, og minna þær nokkuð á gamlan torfbæ, séð frá hlið, enda er sagt að huldubær sé í klettunum, og hafa menn þóst verða þar varir við huldufólk. Nokkrar alldjúpar holur ganga inn í klettana að austanverðu. Sumarið 2012 var komið réttarhólf úr timbri og járni við klettana, tengt girðingu utan við þá.

Beitarhúsatættur: Neðan við Fögrukletta, innanverða, á grasi vaxinni grund, er greinileg, ferhyrnd lægð eða tótt, um 9 × 3,5 m að innanmáli, er stefnir þvert á dalinn og opnast í austur. Utan við hana er grynnri lægð, um 10 × 6 m. Þarna virðist hafa verið fjárhús, sem líklega hefur verið rifið og grjótið flutt burtu. Sögn er að þarna hafi fæðst vansköpuð lömb, og því orðið að flytja húsin út á Stekkinn. Var það kennt hulduhrútum, sem æxluðust við ærnar." (Munnlegar heimildir Egilsstaðafólks).

Tættur á Nautahlíð: Á Nautahlíð, beint upp af bænum, er lítil, ferhyrnd tótt, um 3 × 3,5 m að innanmáli, með vandlega hlöðnum grjótveggjum, sem standa enn hérumbil í fullri hæð, 1,50-2 m háir. Þessi tótt var kölluð "Hlaðan á Nautahlíð", og ljóst er að þetta hefur verið hlaða, notuð til að geyma hey sem aflað var á hlíðinni. Hefur líklega þótt hægra að flytja það niður á vetrum (líklega rennt niður á snjó?). Hlaðan er byggð á eldri tóttum af sauðahúsi, og sést nokkuð greinileg tótt af því, um 7 × 5 m, neðanvert við hlöðutóttina, en innanvert við hana er bogalaga garður, sem getur verið leifar af öðru húsi eða rétt. Hlaðan hefur ekki verið notuð í minni núlifandi manna, og því síður beitarhúsin, sem eru líklega frá 19. öld.

Um 200 m utar á Nautahlíð sést óglöggt móta fyrir tveimur, samföstum tóttum. Sú innri er aflöng, um 7-8 × 3-4 m, og getur verið af fjárhúsi, en sú ytri er um 10 × 5-6 m, opin að austan, og hefur líklega verið rétt. Benedikt Jónasson vissi engin deili á þessum tóttum.

Steinbogi (þjóðsaga): Utan og neðan bæjar eru lágar klappir beggja vegna Jökulsár. Klapparhryggur gengur þar þvert yfir farveginn, og klettahólmi er í miðri ánni. Þegar hún er vatnslítil skjóta fleiri klappir upp kolli. Þarna heitir Brúarhvammur austan ár. Munnmæli segja að forðum hafi verið steinbogi á milli klappanna. Átti Þuríður fornkona að hafa látið brjóta hann, til að hrindra för barna sinna yfir ána. Hugsanlega hafa þarna verið lögð tré yfir ána, þegar hún var mjórri og e.t.v. fleiri hólmar, eins og gert var á nokkrum stöðum á Jökuldal yfir þrengsli í Jöklu, og kallað var fjalarfæri. (Sjá Glúmsstaði II).