Hjarðarból og Brekka
Hjarðarból
Hjarðarból er nýbýli sem stofnað var 1947 á innri helmingi jarðarinnar Brekku, milli Hengifossár og Hölknár, og var bær reistur neðan við gömul beitarhús er nefndust Skógargerði, skammt fyrir utan Hengifossá. Við beitarhúsin var dálítill túnblettur, og ofan við þau er varða á Sjónarmel.
Skógargerðishúsin voru skoðuð og teknar af þeim neg. litmyndir, þar af tvær innanhúss, 8. ágúst 1990. Síðan skoðaði Guðrún Kristinsdóttir minjavörður Austurlands húsin 20. ágúst 1991, og tók neg. myndir af þeim bæði að utan og innan.
"Steinhús, byggt 1950-51, 100 m2, ein hæð og kjallari. Útihús: Steypt fjós fyrir 4 kýr (1948), geymslur (1949), hlaða 300 m3 (1971), votheysgryfja 225 m3 (1970). Fjárhús úr torfi og grjóti, undir járni fyrir 320, og hesthús fyrir 3 hesta." "Bráðabirgðahúsnæði: Gerð íbúð í fjósinu, nýbyggðu, og búið þar til 1951, að íbúðarhús var byggt." (SJM II,25).
Heima við bæinn voru, sumarið 1990, tvö, sambyggð, fremur lítil fjárhús, úr grjóti og torfi, með torfþökum, og voru þau að hruni komin. Þau hafa líklega verið byggð eftir að nýbýlið var stofnað. Þeim var rutt skömmu síðar. (Mynd 8. ágúst 1990).
Skógargerði (beitarhús): Talið er að þar hafi verið búið fram til aldamóta 1700, en ekki finnast beinar heimildir um það. "Beitarhúsin sem enn standa að hluta, eru ævagömul, á þeim helluþak," segir í SMJ II. Um 1990 voru þarna nokkur sambyggð fjárhús með hlöðu, líkt og á Hrólfsgerði handan Jökulsár, mikil sambygging og merkileg. Þegar húsin voru skoðuð sumarið 1990 var ennþá helluþak á einu húsi, því suðaustasta; hin húsin voru öll með járnþaki, nema syðsta húsið var með torfi ofan á járni. Á SA-húsinu lágu hellurnar á röftum, eins og í Bessastaðagerði, en sköruðust ekki eins og þar. Í þakinu voru stykki með öðru undirlagi, þar sem það hafði verið endurnýjað í seinni tíð. Þetta hús var sýnilega mjög gamalt að stofni til og upprunalegt (raftar þó flestir úr kaupstaðarviði). Annað hús var sambyggt því að utanverðu, með vel uppgerðum grjót-torfveggjum og járnþaki á sperrum. Þessi hús stefndu austur-vestur.
Að baki þessum tveimur húsum var stór hlaða, einnig grjóthlaðin, með járnþaki, og voru þar líklega mjög gamlar hleðslur. Þá voru hús við báða enda hlöðunnar, sem sneru hornrétt á hin fjárhúsin, það ytra nokkuð langt, með torfgrjótveggjum og járnþaki, dyr á langvegg að austan. Syðra húsið var með torfþaki, sem fyrr segir, en líklega endurnýjað, með járni undir (?), orðið hrörlegt. Austan við það var svo enn dálítið hús, með grjótvegg að austan, krossviðarstafni og járnþaki, notað sem geymsla eða hesthús (?). Í þorpinu voru því samtals 6 hús, og minnti það því á Hrólfsgerðishúsin, sem eru nánast andspænis, handan Jökulsár. Loks var smákofi rétt fyrir utan og ofan sambygginguna, allur úr torfi og grjóti, en orðinn nokkuð hrörlegur.
Yfirleitt var bygging þessara húsa vönduð og viðhaldið gott, og því hefðu flest húsin átt að geta staðið lengi enn, án mikils viðhalds. Hleðslugrjót var þó ekki sérlega hentugt, t.d. voru hellur óvíða í veggjum, nema í kringum dyr. Engar áletranir sá ég á Skógargerðishúsunum. Öll þessi hús voru rifin og jöfnuð við jörðu við "riðuhreinsun" 1991-1992, og var það ómetanlegur skaði.
Stekkur við Grafgil: "Á bakkanum eru rústir af stekk eða fjárhúsi", frá Brekku (Örnefnaskrá). Grafgil er um 0,5 km innan við Hölkná, sem er á merkjum við Brekku. Svarðargrafir frá Brekku voru í Svarðarmýri, inn og upp af Einbúa.
Einbúi eða Einbúaklettur er nokkuð hár, einstakur klettakollur, milli Breiðulækjar og Grafgils, nokkurn spöl fyrir utan Sjónarhraun sem er klettur beint út af Stuðlabergsfossi í Hengifossá. Við hann er tengd huldufólkssaga: "Sagan af Jóni Oddssyni" í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar, IV. bindi, bls. 77-79, eftir sögn Helgu Jónsdóttur á Hrafnabjörgum, 1908. Átti sagan að hafa gerst þegar Beldring var læknir á Brekku (1831-1844). Jón var ungur smalamaður, sem varð fyrir ástleitni huldustúlku úr klettinum, sem hann vildi ekki þýðast, og síðan sótti huldan að honum um áratuga skeið.
Vörður: "Á Sjónarhrauninu stendur stór, vel hlaðin varða, Sjónarhraunsvarðan. Mér hefur verið sagt að hún sé hlaðin af landmælingamönnum.... Annars eru hér í landinu 8-10 hlaðnar vörður, smáar og stórar, sem ég veit um. En þær munu flestar eða allar hlaðnar af gömlu yfirsetumönnunum." (Þórarinn Bjarnason í Örnefnaskrá Hjarðarbóls). Á ytra barmi glúfursins við Hengifoss er um 1,70 m há varða, rauðlituð af skófum.
Umsögn 1990: Skógargerðishúsin verða að teljast meðal merkustu gripahúsabygginga í Fljótsdal og raunar á öllu Héraði, sérstaklega gamla húsið með helluþakinu. Þau eru á ýmsan hátt sambærileg við Hrólfsgerðishúsin, enda byggð í hvirfingu eins og þau, og þar er að finna flestar nýrri gerðir fjárhúsa í Fljótsdal. Segja má að þau hafi vaxið eins og tré af gamalli rót og skotið greinum í allar áttir. Litla þýðingu hefur að varðveita eitt eða tvö hús í þessari 6-húsa sambyggingu, ef hin eru rifin eða látin grotna niður. Það væri eins og að höggva tréð við rót.[Eins og fyrr segir eru húsin horfin].
Brekka
Brekka er ein hinna fornu stórjarða í Fljótsdal, þó ekki sé hennar getið í fornsögum. Elsta heimild um jörðina er í fornbréfi frá 1492, þar sem getið er um skógarítak Brekku á Hallormsstað. Landið náði frá Hengifossá að Marklæk, sem var á merkjum við næstu stórjörð, Arnheiðarstaði, um 5 km vegalengd. Hjáleigur í landinu voru Brekkugerði og Brekkugerðishús (Hús), líklega einnig Skógargerði. Skriðuklaustur eignaðist jörðina, með hjáleigum 1513, og 1772 var heimajörðin "lögð lækni í Austfirðingafjórðungi til frjálsrar brúkunar", og varð læknissetur. Þar sátu fjórðungslæknar síðan til 1844, og héraðslæknar frá 1903 til 1944. Jörðin var metin á 16 hundruð 1695 og 30 hundruð 1847 (með hjáleigum). Frá Brekku er mikið og fagurt útsýni inn yfir Fljótsdalinn.
Minjar á Brekku voru skoðaðar og myndaðar (neg.) 22. júlí 1986,18. júlí 1989, 8. ágúst 1990, og 30. ágúst 2003, þá teknar pós. myndir. Tölvumyndir voru teknar þar 27. ágúst 2012.
Bænhús var á Brekku í kaþólskri tíð, en ekki er nú vitað hvar það stóð. Líklega hefur þar einnig verið grafreitur við húsið. "Kunnugt er um þriðja guðshúsið í hinni fornu Bessastaðasókn, en það er bænhús, sem lengi stóð á Brekku." (Ágúst Sigurðsson: Valþjófsstaður... Múlaþing 9, 1977, s. 28).
Gamli bærinn: "Gamli bærinn stóð ofan við núverandi íbúðarhús. Baðstofa 12½ × 5¾ álnir + "baðstofuendi og eldaskáli"... Búið í bænum til 1960." (SJM II, 24). Þetta var töluvert stór sambygging, með þverhúsi við hlaðið, en um það lá þjóðbrautin, fram til um 1975, er hún var færð upp fyrir bæinn. Þverhúsið var að mestu eða öllu leyti af timbri, timburþil með bæjardyrum og gluggum var á því að austan, og á því var járnþak, það var ein hæð með lofti. Það var byggt inn í eða fast við gamla torfbæinn, eins og venja var, og að baki voru baðstofan og fleiri hús úr torfi og grjóti. Í þverhúsinu var stofa öðru megin við innganginn, og hinum megin eldhús og líklega svefnherbergi hjóna. Á loftinu voru líka nokkur herbergi.
Höf. kom nokkrum sinnum í Brekkubæinn, og naut þar góðgerða, en líklega aðeins í eldhúsið, man ekki eftir að hafa komið í baðstofuna eða aðra hluta torfbæjarins, sem líklega var orðinn hrörlegur eftir 1950. Mig minnir að syðst í bæjarþorpinu hafi verið skemma, með útidyrum fram á hlaðið. Jón E. Kjerúlf segir að þar hafi verið kúahlaða og þá hefur líklega verið þar gamalt fjós, sem bóndi notaði á tíma læknissetursins (?). Bærinn var rifinn á árunum 1960-1970 eftir að búið var að endurbyggja læknishúsið, og sjást nú engar minjar hans á yfirborði.
(Lilja Hallgrímsdóttir bjó fyrsta árið (1960-61?) í timburhúsinu, og segir að það hafi þá verið orðið mjög hrörlegt, og þilið í stofunni að vestan, sem lá upp að torfvegg, verið farið að ganga inn í það. Hún man ekki eftir baðstofu eða öðrum húsum að baki, svo þau hafa þá verið rifin eða fallin, en minnir að torfhús hafi verið sunnan við bæinn. Hún segir að Þórlaug Jakobsdóttir, kona Eiríks frá Krossi, nú í Fellabæ, hafi alist upp hjá næstu ábúendum á undan henni á Brekku, og muni því betur eftir gamla bænum.)
Sjúkraskýlið á Brekku var byggt 1907, úr steyptum steinum, og er því elsta steinhús í sveitinni, og meðal nokkurra elstu á Héraði. Það "var nýjung í heilbrigðisþjónustu, lítið sjúkrahús, rekið með læknisheimilinu, og hið fyrsta í sveit hér hérlendis (Sjá þó Læknar á Íslandi II, 351-353). Aðilar voru allar sveitir á Héraði.... Í upphafi voru sjúkrarúm 4, en orðin 8 1930, en þá þurfti húsrými fyrir ný lækningatæki og fækkaði rúmum við það í 6." (SJM II, 24). Jónas Kristjánsson læknir gekkst fyrir þessari byggingu.
"Sjúkraskýli, vandað steinsteypuhús, með vatnsleiðslu, og girðingu um skrautgarð, kr. 14.000." (Fasteignamat 1918 / SJM II, 24). "Sagt er að sjúkraskýlið, sem jafnframt var læknisbústaður, væri fyrsta steinhús á Héraði. Tvær hæðir og kjallari, stærð 80 m2, aðeins útveggir steyptir. Íbúð læknisins var á efri hæð, en sjúkrarýmið á neðri, eldhús í kjallara." (Sama heimild).
Sjúkraskýlið brann í ársbyrjun 1944, en steinveggir stóðu eftir. Um 1960 var húsið endurbyggt þannig að neðri hluti veggja var nýttur, og sett á það skúrþak. Hallgrímur Ólafsson í Holti og Jóhann Jónsson á Eyrarlandi sáu um endurbygginguna. Eftir það er húsið ein hæð og kjallari, með aðalinngangi að vestan um lítinn skúr. Sjúkraskýlið var byggt úr steinum, um eitt ferfet að flatarmáli og 10-12 sm á þykkt, og sagt er að þeir hafi verið steyptir á staðnum. Nokkuð af steinum úr efri hæð var notað til að hlaða upp veggi Brekkuhússins, efst á túninu, og eru þar enn. (Heimild: Hallgrímur Þórhallsson, 8.8. 1990).
Fjós var byggt, líklega um líkt leyti og sjúkraskýlið, utan við gamla bæinn, heilsteypt, með járnþaki. Það er enn í allgóðu standi, stafnveggur var farinn að springa, en hefur nýlega verið styrktur með steypuvegg að utan. Þetta er líklega elsta steypt fjós á Héraði. Það tók fimm kýr. Hætt að nota það sem fjós um 1980, nú er það geymsla.
Trjágarður: Allstór trjágarður er sunnan við íbúðarhúsið, líklega frá um 1910, og meðfram honum að vestan er fallegur grjótveggur, sagður hlaðinn af Eiríki í Vallholti um 1970 (?), líklega úr grjóti af gamla torfbænum, sem stóð vestan við garðinn.
Hestasteinn (Fiskasteinn) var á hlaðinu á Brekku. Um hann ritar Gunnlaugur Haraldsson::
"Á hlaðinu stendur allmikill steinn, sem fannst í vegg gamla bæjarins, þegar hann var jafnaður við jörðu fyrir nokkrum árum. Í steininn er klappað ártalið 1877 og stafurinn G. Þórhallur Jóhannsson bóndi á Brekku, fann steininn og vill meina fyrir víst, að Gunnar Gunnarsson bóndi á Brekku, afi Gunnars skálds, hafi letrað þetta í steininn, sem hafi verið fiskasteinn á Brekku fyrrum (?)" (Gunnlaugur Haraldsson skráði, eftir sögn Þórhalls 17. júlí 1975, og skoðaði líka steininn, sem er auk þess skráður í Aðfangabók Minjasafns Austurlands, 1975: Skrá yfir muni á heimilum / Gunnl. Har.).
Lilja Hallgrímsdóttir segir að steinninn hafi verið notaður sem hestasteinn á hennar búskapartíð (1960- ca. 1980), og var festur í hann kengur í þeim tilgangi. Heldur að hann sé við garðinn hjá bænum. Ég hef ekki séð hann þar, og nýlega upplýsti Hallgrímur bóndi, að steinninn lægi á túninu utan við bæinn. (Munnleg heimild, 13. 9. 2012).
Forngripir: Á Brekku er gamall myllusteinn, óvenju stór, um 75 sm í þvermál, og 8-9 sm þykkur, brotinn í þrjú stykki, og liggur í blómagarðinum. Hann er úr dökku, holóttu bergi, líkustu hraungrýti, með þvergrópum öðru megin. Steinninn er talinn vera úr kornmyllunni, sem var á Skriðuklaustri við Melshornið, inn og niður af Fljótsdalsrétt, og Halldór Benediktsson lét byggja. Sagt var að vatnshjólið hefði verið mjög stórt og því kallað "Veraldarhjólið." (Sjá Klaustur). Steinsins er getið í Aðfangabók Minjasafns Austurlands, 1975. (Skoðaður 8. ágúst 1990 og myndaður 2012).
Hjáleiga: "Fremst og efst á gamla túninu hét Hjáleigutún; þar stóðu fjárhús, kölluð Hjáleiguhús, nú rifin." (Örnefnaskrá). Ekkert er frekar vitað um þessa hjáleigu, og hún kemur ekki fram í neinum manntölum frá 1703 til þessa dags. (Um hjáleigur heima við bæi er einnig getið í Víðivallagerði og á Bessastöðum).
Gripahús: Hjáleiguhúsin voru innst á gamla túninu, rétt fyrir ofan þáverandi þjóðveg. Jón E. Kjerúlf á Arnheiðarstöðum man vel eftir þeim, segir þau hafa verið húsalengju, með hesthúsi fremst, og tveimur allstórum fjárhúsum með hlöðu á milli (eða ofan við), og ysta húsið hafi Marteinn Pétursson byggt, líklega um 1945-50, en hann var þá húsmaður á Brekku. (Jón E. Kjerúlf munnleg heimild, 3.2.2012). Húsin hafa líklega verið í notkun til 1963, þegar byggð voru steypt fjárhús framan við bæinn, neðan vegar (SMJ II, 23). "Út og upp af Hjáleiguhúsum var Hesthús."(Örnefnaskrá). Öll þessi hús voru horfin 1985.
Brekkuhús nefnist fjárhús á lágri brekku fyrir ofan bæinn, nýlega uppgert 1990, með torfveggjum langs, en annars að mestu úr timbri og bárujárni, og við þau er hlaða úr sama efni. Í örnefnaskrá segir að húsið hafi verið kallað Baðhús, eftir að í það var sett steypt baðker. Húsið stendur enn.
"Útihús: Steypt fjárhús f. 200 (1963), fjós f. 8 (1963), súgþurrkun, votheysgryfja (1970) ("skurðgryfja" hin fyrsta af þeirri gerð á Austurlandi?), geldneytahús (um 1930). Ein torffjárhús fyrir 100 og 50 m3 hlaða við." (Líklega átt við Brekkuhúsin) (SMJ II, 23). Steyptu húsin standa skammt innan við íbúðarhúsið og trjágarðinn; eru nú aðeins notuð fyrir hesta, og við þau er hestarétt úr timbri.
Rafstöð var byggð við Brekkulæk 1927, endurnýjuð síðar, en lögð niður 1972. Inntaksþró stöðvarinnar er NA á Bæjarhólnum, en þangað var vatnið leitt í skurði frá stíflu í læknum, rétt ofan gamla vegarins. Rétt fyrir utan og ofan þessa þró, sér merki til eldri þróar, sem hefur verið alveg á gilbarminum. Frá þrónni rann vatnið í rörum sem lágu þvert niður snarbratta gilbrekkuna, líklega um 30-40 m fallhæð. Þar má sjá leifar af stöðvarhúsinu, sem var með steyptum veggjum og járnþaki, en er nú hrunið saman. "Steyptir veggir stöðvarinnar standa enn að mestu, og fallið bárujárnsþak í rústunum, húsið hefur verið um 6 × 2 m... Greinilega sést skurður upp brattann, vestan við stöðina..." (Fornleifaskýrsla 2001).
Jóhanna J. Kjerúlf í Brekkugerði sagði að fyrsta rafstöðin hefði ekki gengið eins og til var ætlast. Sigurður Jónsson frá Seljamýri, Loðmundarfirði smíðaði fyrstu túrbínuna, en honum voru stundum mislagðar hendur við það verk. Hann sá um byggingu rafstöðva í Hrafnsgerði og á Skeggjastöðum um sama leyti. Um það bil ári seinna var Skarphéðinn á Vagnsstöðum (A.Skaft.) fenginn til að endurbæta stöðina, og fór hún þá að gagnast til ljósa og suðu. (Sögn Jóhönnu 19. nóv. 1989).
Túngarður: "Um 5 m norðan við rafstöðina er garður, líklega gamall túngarður, á hallandi grund. Grjóthlaðinn garður, nær alveg gróinn, allt að 1,5 m breiður, en 0,5-1 m á hæð, liggur frá fljótinu upp að gili, ofan rafstöðvar, alls 40 m. Nú er hrörleg girðing ofan á honum.” (Fornleifaskýrsla 2001).
Minjar um Fljótsbátinn: Á árunum 1905-1935 gekk áætlunarbátur á Lagarfljóti (Leginum), frá Egilsstöðum á Völlum upp að Fljótsbotni við Brekku, oft kallaður Lagarfljótsormurinn. Þessar minjar voru skoðaðar sérstaklega 30. 8. 2003, í tengslum við ritun Lagarfljótsbókar.
"Í hvammi við fljótið, út og niður af bænum, var önnur aðalhöfn Lagarfljótsormsins, en svo hét a.m.k. hinn fyrsti þeirra báta, sem strandferðir fóru um fljótið á öndverðri öldinni, og þar var klakkaður varningur, m.a. til bæja á Efra-Dal, handan Fljótsdalsheiðar. Bryggjustúfur og steypt vöruhús í hvammi niður af bænum." (SJM II, 23) [Heldur ónákvæmt].
Bátshús: Við ós Brekkulækjar að innanverðu er tótt af húsi, sem nefnt var Bátshús, því að þar var báturinn geymdur á vetrum, a.m.k. fyrri hluta þess tíma er hann gekk, og hafði þá heimahöfn á Brekku. Tóttin er um 12 × 3,5-4 m, en veggjamörk eru ógreinileg að utan og austan, snýr þvert á fljótið eða NV-SA, og hefur opnast með víðum dyrum á bakkanum þar sem fjaran tekur við. Veggir hússins hafa verið steyptir, a.m.k. að hluta til, og liggja brot úr syðri vegg meðfram tóttinni, 15-20 m þykk. Líklega hefur verið járnþak á húsinu. Báturinn var um 10 m langur og samsvarar það lengd hússins. (Jóhanna Kjerúlf (1989) segir að Jörgen Eiríksson, faðir sinn, hafi haft umsjón með bátnum og séð um viðhald hans).
Naust?: Neðan við tóttina að innanverðu, efst í fjörunni, er grjótgarður, um 5-6 m langur og 1,5-2 m breiður, sem hallar niður í fjöruna. Ekki er ljóst hvaða tilgangi hann hefur þjónað, en e.t.v. er hann leifar af eldra nausti, sem var ofantil í fjörunni. (Mynd í Lagarfljótsbók, s. 219).
Fljótshús: Við Fljótsbotninn var byggt lítið hús til að geyma í vörur, sem fluttar voru með bátnum, og var það kallað Fljótshús. Tóttin er þar á grónum bakka, fast við sandinn, um 200 m inn og niður frá bænum og um 50 m innan við túngirðingu. Hún er um 6 × 2,5 m að innanmáli, með um 2 m breiðum dyrum á langvegg að austan. Veggir eru vallgrónir, standa vel, þeir eru um 1 m á þykkt, en eru aðeins 0,5 m á hæð, úr grjóti neðst, en torfi ofantil og að utan. Líklega hefur húsið annars að mestu verið úr timbri og járni, byggt ofan á þessa lágu tótt, en ekki sjást neinar leifar þess. Í viðbótum við örnefnaskrá 1973 segir að húsið hafi verið rifið fyrir 40 árum, eða 1933. Jóhanna Kjerúlf í Brekkugerði áleit að húsið hefði aðallega verið notað til að geyma vörur bænda á Efra-Jökuldal, því Fljótsdælir hefðu oftast sótt sínar vörur samdægurs. (Haustið 2002 flæddi fljótið upp í tóttina og gróf undan horni hennar.)
"Greinileg tóft, en gróin, 3 × 5 m, dyr sjást nú ekki. Virðist alls 5 × 5 m, því að sunnan við tóftina, sem er með greinilegri dæld innan veggja, er upphlaðinn stallur, alls 2 × 5 m. Veggir töluvert signir, aðeins sést grjót í stallinum á einum stað." (Fornleifaskýrsla 2001).
Bryggja: Neðan við Fljótshúsið var á tímabili timburbryggja, sem sjá má á gömlum myndum (Lagarfljótsbók 2005, bls. 227). Þarna er mjög aðgrunnt, og nú er þar breið fjara með fínum sandi, og sandeyrar og leirur um 100 m innar. Engar minjar sjást nú um bryggjuna.
Kerruvegur var lagður frá Fljótshúsinu í báðar áttir, líklega á árunum 1910-20, og sér enn vel fyrir honum neðan í Brekkuhól og utanvert í Brekkulækjargili, en þaðan má rekja hann út eftir Háubökkum, a.m.k. út í Brekkugerði. Jóhanna Kjerúlf í Brekkugerði mundi eftir vegagerðinni niður við Fljótið í Brekkuteig, innan við Brekku, sagði að fyrst hefðu menn notast þar við Sandinn (fjöruna), en svo hefðu árnar skolað burt efni úr honum, og var þá farið að gera kerruveg uppi á bakkanum, sem enn er greinilegur. Taldi hún að vegurinn hefði verið lagður á kostnað hreppsins (hreppsvegur) og margir hefðu unnið við gerð hans.
Brekkustekkur var í hvammi innanvert við Hölkná, neðan vegar, skammt frá Fljótsbotni. Þar er líka nátthagi umluktur grjótgarði sem enn stendur nokkuð vel. Áin fellur í smáfossum ofan í hvamminn, og þar er nokkur trjá- og blómgróður í syllum. Þetta er fallegur og skjólsæll staður, enda voru þar stundum haldnar sveitarsamkomur. Stekkjartóttin er upp við klettavegginn, efst í hvamminum. Sumarið 2003 var þarna hestagirðing og hvammurinn því mjög bitinn. (Mynd af stekknum birtist í bókinni Mannvist, Rvík, 2011).
"Stór nátthagi, þrjár hliðar og klettabelti gegnir hlutverki þeirrar fjórðu, ferningslaga, stærð 50 × 60 m. Veggir að mestu hrundir en ógrónir, greinilegt að rekið hefur verið inn á miðri austurhlið. Stekkurinn er samhlaðinn í SV-horni nátthagans, hleðslur hans að mestu grónar. Suðurlangveggur hans er hluti nátthaga. Tvíhólfa, alls 4 × 10 m, lambakró þar af 4 × 4 m." (Fornleifaskýrsla 2001).
Brekkusel var uppi á Heiði, fyrir ofan Hengifossá, undir Kanahlíð, rétt utan við Brekkuselslæk, sem rennur í ána þar sem hún beygir niður í dalinn, og er á merkjum við Mela. Þar eru greinilegar, óhreyfðar tættur, sem ég hef ekki skoðað. Annað sel var við Sellág, utan við Brekkulæk, nálægt merkjum við Brekkugerði. (Hef ekki fundið minjar þess. Líklega sama selið og getið er í Brekkugerði við Sellág).
Smalakofi: "Á Stóramel, utan við Hölknárbotna, er smalakofi sem enn stendur, hlaðinn úr grjóti, og hellur lagðar yfir, sem mynda þak. Kofinn er um mannslengd og um 1 m breiður, hæðin líklega um 1 metri." (Jóhann Fr. Þórhallsson, Brekkugerði, 1991). Þetta er þá annar smalakofi af tveimur sem enn stendur, sbr. kofann á Egilsstöðum.
Huldusteinn er allstór og stakur steinn á melholti, innan og ofan við gamla túnið á Brekku, á brekkubrún ofan vegar, fast við vegslóða sem liggur upp í skógargirðingu og að túnum sem þar eru. Ekki er þekkt nein saga til skýringar á þessu örnefni.
Minnismerki um Jörgen Kjerúlf lækni á Brekku (1819-1831) stendur á Hölknármelum, skammt fyrir utan Hölkná, örstutt neðan þjóðvegar. Það er stuðlabergsdrangur, um 1,50 m á hæð, og á hann fest málmplata sem snýr að veginum, með nokkrum upplýsingum. Varðinn var settur upp sumarið 2002, líklega í tengslum við ættarmót Kjerúlfsættar.
Forngripir: "Axarblað fornt og mjög ryðtekið, fundið á Brekku í Fljótsdal í júnímánuði 1906, um 4,5 alin í jörðu." (Árbók Fornleifafél. 1909, bls. 57 / Skýrsla um safnauka.) Ætti skv. því að vera geymt í Þjóðminjasafni.
Umsögn 1990: Af minjum heima á Brekku hafa tættur Bátshússins og Fljótshússins mest sögulegt gildi, og sömuleiðis Brekkustekkur. (Hallgrímur bóndi segist hafa hug á að viðhalda Brekkuhúsum, en þau er gott dæmi um "nýhúsin" í Fljótsdal.)