Skip to main content
12 November, 2021
# Topics

Helstu sögustaðir Fljótsdælu og Droplaugarsonasögu á Héraði

12 November, 2021

Fljótsdæla saga og helstu sögustaðir hennar
og Droplaugarsona sögu á Héraði.

Tekið saman í tilefni af ferð Hallormsstaðaskóla á söguslóðir Fljótsdælu, 28. ágúst 2007, þar sem undirritaður var leiðsögumaður. Farin var hringferð umhverfis Löginn og stansað á helstu sögustöðum sem hér voru skráðir á þeirri leið, en ekki farið út á Hérað. Pétur Þorsteinsson skólastjóri, tók videómyndir á þessum stöðum, en hann býr nú á Kópaskeri. Hallormsstaðaskóli lagðist niður 2015.
Síðast endurbætt 2016. Helgi Hall. 

Fljótsdæla saga, sem einnig var kölluð Fljótsdæla hin meiri, er naumast sjálfstæð saga heldur tengist hún öðrum Austfirðingasögum og virðist hafa tekið upp efni sumra þeirra, beint eða óbeint. „Fljótsdæla saga er skáldsaga með nokkru sögulegu ívafi, samin til skemmtunar mönnum“, segir Jón Jóhannesson (Ísl. fornrit XI). Álitið er að Fljótsdæla sé samin á 15.-16. öld sem viðbót við Hrafnkels sögu Freysgoða, enda rituð í beinu framhaldi af henni í sumum handritum. „Fljótsdæla saga er síðgotungur í þeirri bókmenntagrein sem kölluð er Íslendinga sögur“, ritar Jón Jóhannesson. Um þetta eru þó skiptar skoðanir, og sumir telja söguna mikið eldri og byggja það m.a. á fornlegumum orðatiltækjum.

Fljótsdæla fjallar að verulegu leyti um sama efni og Droplaugarsona saga (Fljótsdæla hin minni), en þó vantar þar síðari hluta söguefnis hennar (6.-15. kafla), sem annaðhvort hefur glatast eða aldrei verið ritaður. Auk þess er í Fljótsdælu rakin atburðarás Gunnars þáttar Þiðrandabana,og sitthvað úr Vopnfirðinga sögu, að viðbættum ævintýrasögnum um uppruna Arnheiðar og Droplaugar í sama dúr og í Brandkrossa þætti. Efnið er því mjög blandað og lítt afmarkað.

Það sem helst einkennir söguna eru ævintýralegar sagnir af afrekum Þorvaldar Þiðrandasonar er hann nemur Droplaugu úr trölla höndum á Hjaltlandi, og ýkjukenndar gamansögur af sonum þeirra, Helga og Grími. Að sumu leyti svipar efninu til sagna í þeim flokki er kallast Fornaldarsögur Norðurlanda og lengi voru taldar yngri en Íslendingasögur, en nú líklega jafnaldra þeim. Svipað efni er líka í Bárðar sögu Snæfellsáss og Ármanns sögu, sem Jón Þorláksson (1642-1712) sýslumaður á Víðivöllum í Fljótsdal er talinn hafa samið á síðari hluta 17. aldar.

Í stórum dráttum má skipta efni Fljótsdælu í eftirfarandi átta þætti:

I (1.-4. kapítuli): Inngangur. Kynning á sögupersónum og uppruna þeirra. (Beint framhald Hrafnkelssögu)
II (5.-6. kap.): Ævintýri um Droplaugu og brottnám hennar á Hjaltlandi, gifting hennar og Þorvaldar.
III (7.-10. kap.): Af ýmsum atburðum. Búskapur á Arnheiðarstöðum. Þorvaldur ferst á Lagarfljóti. Uppvöxtur Droplaugarsona. Helgi Ásbjarnarson kvænist Þorlaugu Bersadóttur og missir hana í Fljótið. Gróa systir Droplaugar sest að á Eyvindará.
IV (11.-12. kap.): Þorgríms þáttur tordífils. Sagt af Þorgrími vinnumanni í Mjóanesi sem rægir Droplaugu og Helgi Droplaugarson vegur hann, 12 ára gamall, til að hefna rógsins.
V (13. kap.): Nollars þáttur. Gamansögur af Nollari á Nollarsstöðum (Hrafnsgerði) og bellibrögðum Helga við hann og Bersa á Bersastöðum, fóstra sinn, vegna Helgu á Skeggjastöðum.
VI (14.-22. kap.): Af Gunnari Þiðrandabana. Sagt frá Þiðranda Geitissyni (frænda Droplaugarsona), Ásbirni vegghamri og Gunnari austmanni sem vó Þiðranda í ógáti. (Að mestu sama efni og í Gunnars þætti Þiðrandabana)
VII (23.-25. kap.): Hallsteins þáttur. Droplaug giftist Hallsteini á Víðvöllum í óþökk sona sinna og sona hans, og flyst þangað, en bráðlega kemur upp ósætti milli þeirra og hún fer að brugga honum launráð.
VIII. (26. kap.): Hof-þáttur. Gamansaga af ferð Droplaugarsona að Víðivöllum í hríðarbyl, þegar þeir villast að hofi Spak-Bersa. Helgi kennir goðunum um villuna, snýr öllu við í hofinu og smánar goðin. (Þar með dettur botninn úr Fljótsdæla sögu).
Þáttur II gerist á Hjaltlandi og þáttur VI að mestu í Njarðvik og Borgarfirði, aðrir þættir sögunnar gerast á Héraði og eru eftirtaldir sögustaðir helstir. Miðað er við hringferð frá Egilsstöðum, réttsælis umhverfis Löginn, og síðan út á Hérað. Bæir sem ekki koma fyrir í Fljótsdælu, en sagt er frá í Droplaugarsona sögu, og tengjast atburðarás Fljótsdælu eru ekki númeraðir. Miðað er við gömlu hreppaskiptinguna.

Skógar (fyrrum í Vallahreppi)

1. Mjóanes: Þangað flutti Helgi Ásbjarnarson nokkru eftir konumissinn á Ormsstöðum (Oddstöðum), og bjó þar með annari konu sinni, Þórdísi toddu. Er þar enn sýnd tótt af skála hans skammt neðan vegar. Yst á Mjóanesi er Feigðarstapi, þar sem þjóðsögur herma að Þorvaldur á Arnheiðarstöðum hafi farist. Í sambandi við Mjóanes er minnst á Kiðjafellsþing sem gæti hafa verið á Hálsinum ofan við Freyshóla.

2. Ormsstaðir: Þetta býli er kallað Oddsstaðir í flestum fornsögum. Þar hóf Helgi Ásbjarnarson búskap með Þórlaugu Bersadóttur og horfði á hana farast í vök á Leginum innan við Ormsstaðaklett, ásamt tveimur þrælum sínum, þar sem síðan kallast Þrælavík og Þrælavakir. Skilja má á sögunni að bölvun hafi lagst á búsetu Helga vegna fyrri ábúanda sem var drepinn af föður hans fyrir litlar sakir. (Hrakinn burt segir í Brandkrossa þætti).

Fljótsdalur

3. Hrafnkelsstaðir: Hrafnkell Freysgoði byggði þar upp á kotbýlinu Lokhillu, og bjó góðu búi um tíma eftir hrakfarir sínar á Aðalbóli, síðan Þórir sonur hans. (Sbr. Hrafnkelssögu).

4. Víðivellir ytri: Þar bjó Hallsteinn er kvæntist Droplaugu eftir lát Þorvaldar, þau bjuggu þar saman í um áratug, þar til Hallsteinn var drepinn að undirlagi Droplaugar og Helga að talið var (Droplaugarsonasaga). Höfuðból og sýslumannssetur.

5. Þorgerðarstaðir: Fljótsdæla saga hefst þannig: „Þorgerður hét kona. Hún bjó í Fjótsdal austur. Hún var ekkja af hinum beztum ættum og hafði þá fé lítið. Þar bjó hún sem nú heitir á Þorgerðarstöðum.“ Þórir Hrafnkelsson Freysgoða bað hennar og bjuggu þau á Hrafnkelsstöðum; er ekki annars getið en þeirra samfarir væru góðar. (Ísl. fornrit XI, 2015)

Vopnfirðinga saga greinir ólíkt frá. Þar er hún kölluð Þorgerður silfra „ung að aldri og var hún þó orðin ekkja... Þorgerður bauð Brodd-Helga til sín við þriðja mann, og fór hann þangað, og tók hún honum ágætavel og setti hann í öndvegi og settist niður hjá honum, og varð þeim allhjaldrjúgt. Og áður Helgi fór heim, er að segja, að hann fastnaði sér Þorgerði silfru.“ Brodd-Helgi bjó á Hofi í Vopnafirði, var goði og annar helsti höfðingi Vopnfirðinga, en hinn var Geitir Lýtingsson í Krossavík, og var Helgi kvæntur Höllu systur hans þegar þetta gerðist, hún var þá orðin heilsuveil og skildu þau Helgi að skiptum. Þetta varð upphaf fjandskapar milli Hofverja og Krossvíkinga, sem leiddi til þess að Geitir drap Helga, og Bjarni sonur hans og Höllu, vá Geiti móðurbróður, sinn til föðurhefnda. Þá var Þorgerður rekin burt frá Hofi og fer ekki sögum af henni síðan. Geitir átti Hallkötlu, föðursystur Droplaugarsona, og kemur við þeirra sögu. (Austfirðingasögur. Ísl. fornrit, bls. 36)

6. Glúmsstaðir - Þuríðarstaðir: Í upphafi Fljótsdælu er sagt frá Glúmi á Glúmsstöðum, Þuríði konu hans og Oddbjörgu dóttur þeirra. Mikil skriða féll á bæinn og fórst allt heimilisfólk nema, þær mæðgur og fjósamaður, sem voru í fjósi. Þá flutti Þuríður bæinn yfir ána og nefndi á Þuríðarstöðum. Ásbjörn Hrafnkelsson á Aðalbóli kvæntist Oddbjörgu og þeirra sonur var Helgi Ásbjarnarson, önnur aðalsöguhetja Austfirðingasagna. (Þessi sögn tengist eflaust Glúmsstaðaseli og Þuríðarstaðaseli í Hrafnkelsdal, þó að þeirra sé ekki getið í fornsögunum.)

7. Bessastaðir: Bær Bersa Özurarsonar (Spak-Bersa), líklega landnámsjörð Brynjólfs gamla afa hans, og lengi eitt mesta höfuból á Héraði, kirkju- og þingstaður. Bersi var í vinfengi við Þorvald og Droplaugu á Arnheiðarstöðum og bauð Helga syni þeirra fóstur eftir lát Þorvaldar. Þeir Droplaugarsynir dvöldu þar löngum tímum og kenndi Bersi Helga lögfræði og íþróttir. Þorlaug (Droplaug) Bersadóttir giftist Helga Ásbjarnarsyni og fórst í Lagarfljóti við Ormsstaði, ung að árum, sem fyrr segir.
Bersi var mjög fylginn Ásatrúnni og átti veglegt hof innan við Bessastaðaá, umlukt hofgarði, en Helgi var trúlaus og varð þeim þetta oft deiluefni. Í sögulok segir frá komu Droplaugarsona í hofið, eftir villuferð í hríðarbyl, sem Helgi kenndi goðunum um. Hann smánaði þau í orði og verki og stórspillti hofi fóstra síns.
Ýmsar þjóðsögur ganga af Bersa. Skv. þeim tók hann kristna trú og fleygði goðunum í ána; síðan rak Freyr á Freysnesi og Þór á Þórsnesi, sem eru beggja megin Fljóts innan við Ekkjufell og Egilsstaði. Ýmsar tilgátur eru um hvar hofið stóð, en ofan við Fljótsdalsrétt er ógreinileg tótt við ána sem kallast Goðaborg og halda sumir það hoftóttina. Þar heitir Bessahlaup sem sagt er að Bersi hafi stokkið yfir gilið á leið til hofs, en eftir trúskiptin þorði hann ekki að stökkva. Þegar Bersi fann dauðann nálgast spyrnti hann hnöttóttum steini, nokkru stærri en fótbolta, niður á völlinn og kvað sig skyldi heygja þar sem steinninn næmi staðar. Bessahaugur er í túni Bessastaða, skammt neðan vegar, en steinninn er á Klaustri og kallast Bessasteinn.

8. Arnheiðarstaðir: Bær Droplaugar og Þorvaldar, sem þau keyptu, og skírðu eftir Arnheiði, móður Droplaugar, þar hét áður Vallholt. Þar er haugur Arnheiðar „fyrir ofan garð og utan“. Þar ólust synir þeirra upp, Helgi og Grímur (f. um 967-968). Þeir voru ólíkir í sjón og raun en mjög samrýmdir og bráðþroska. Þorvaldur varð skammlífur og Fljótsdæla segir hann hafa farist á Lagarfljóti „við níunda mann“. Því voru þeir bræður kenndir við móður sína, en reyndar hafði það fyrr gerst í móðurætt þeirra. Helgi var manna best vígur, en ófyrirleitinn og ráðríkur, sem kom honum í koll er hann lenti í illdeilum við nafna sinn Ásbjarnarson, sem varð honum að bana við Kálfshól á Eyvindardal, líklega árið 998 (skv. Droplaugarsonasögu).
Eftir að Grímur drap Helga Ásbjarnarson á Eiðum til bróðurhefnda þurfti hann að fara huldu höfði, en var þá um tíma í Grímshelli á Arnheiðarstöðum og gróf sér jarðgöng frá Bæjarlæknum inn í svefnstofu konu sinnar, segir í Droplaugarsonasögu. Nú er talið að þessi hellir sé skúti í klettum niður við Fljót, inn við merki Geitagerðis, og kallast Rauðihellir. Grímsbás heitir annar skúti með vegghleðslu við efsta foss í Hrafnsgerðisá, neðan vegar. Þjóðsögur greina að þar hafi Grímur Droplaugarson leynst, og reyndar á fleiri stöðum sem við hann eru kenndir, svo sem í Grímstorfu við Hafrafell. Nýbýlið Droplaugarstaðir var byggt í landi Arnheiðarstaða 1942 og skírt eftir Droplaugu.

Fell

9. Hrafnsgerði og Skeggjastaðir voru upphaflega ein jörð. Á þeim slóðum var kotbýlið Nollarsstaðir, skv. Fljótsdælu, en þess er hvergi annarsstaðar getið. Nollarshaugur heitir lítil tóft við nýbýlið Teigaból, þar sem menn halda að bærinn hafi staðið. Þar bjó Nollar, „svartur maður, manna mestur, kvittinn var hann, illorður og óvinsæll og öllu var hann óþokkamaður“. Honum er nánast lýst sem trúði í sögunni. Nollar átti í útistöðum við Helga Droplaugarson eftir að Helgi drap bróður hans, Þorgrím tordýfil (sjá Mýnes), og njósnaði um heimsóknir hans til Helgu Þorbjarnardóttur á Skeggjastöðum sem Helgi var í tygjum við, en Spak-Bersi fóstri hans var líka í vinfengi við hana.
Í Droplaugarsona sögu er sagt að "hjalskona" Helga hafi verið Tófa á Torfastöðum í Hlíð, sem kölluð var Hlíðarsól. Sigfús Sigfússon þjóðsagnasafnari var ættaður frá Skeggjastöðum og alinn upp þar, en hann skráði þjóðsögur um söguhetjur Austfirðingasagna.

10. Hreiðarsstaðir koma við sögu umgetins Nollarsþáttar af brellum Helga Droplaugarsonar og byggist það á gasvökum sem lengi hafa verið þekktar á Leginum fyrir innan og neðan bæinn. „Fyrir nesið voru allt vakar. Þar brynndi hirðir nautum sínum.“ Því eru þær í sögunni kallaðar „Nautabrunnar“ (Fráleitt að naut hafi verið rekin út á ísinn til að brynna þeim!).
Eftir fund þeirra Helga og Helgu á Skeggjastöðum, þar sem Nollar birtist þeim að óvörum og fer á „beinspýtum“ (hrossleggjum?) upp í Bessastaði til að láta Bersa vita, aka þeir bræður á sleða út eftir Fljóti að Nautabrunnum. Þar búa þeir svo um að hesturinn Inni-Krákur þeysir með sleðann mannlausan út eftir ísnum að Eyvindará þar sem hann á heima, en felast sjálfir í skógi fyrir ofan vakirnar. Stuttu síðar kemur Bersi með húskarla sína að vökunum og þeir sjá hestinn með sleðann stíma út eftir Fljóti. Bersi fer einn á eftir honum en skilur húskarla eftir. Þá hlaupa þeir bræður fram úr skóginum og binda karlana samankreppta og skilja eftir á ísnum. Helgi fer heim á bæinn og segir Hreiðari bónda að líta eftir „glófum“ (vettlingum) sínum við vakirnar, sem hann gerir seint um kvöldið og finnur þá húskarla Bersa illa haldna á ísnum og bjargar þeim. Þeir bræður fara heimleiðis en koma við á Nollarsstöðum, draga Nollar á nærklæðum út í frost og hríð og hýða hann „svo að hvergi var heil húð hans milli hæls og hnakka“.

Ekkjufell: Samkvæmt Droplaugarsona sögu átti þar heima á Söguöld, Álfgerður læknir, sem læknaði Grím af sárum sínum eftir bardagann á Eyvindardal. Fornt eyðibýli yst í landinu heitir Valgerðarstaðir, etv. skírt eftir sömu konu. (Þar er nú trjáplöntustöðin Barri). Við bæinn er eini verulegi álagablettur á Héraði, sem ekki mátti slá eða nýta á annan hátt, að við lögðum kárínum.

Hróarstunga

11. Hof : „Hróar hét maður. Hann bjó á þeim bæ er að Hofi hét. Það er í Fljótsdalshéraði fyrir vestan Lagarfljót og fyrir utan Rangá, en fyrir austan Jökulsá. Þessi sveit hefur tekið viðnefni af Hróari og heitir Hróarstunga. Hann fékk viðnefni af Tungunni og var kallaður Tungugoði.“ Hróar bauð Þiðranda Geitissyni í Krossavík, Vopnafirði, fóstur, og ólst Þiðrandi þar upp, segir Fljótsdæla.
Vopnfirðingasaga getur þess ekki og í Þætti Gunnars Þiðrandabana segir að hann hafi verið í fóstri í Njarðvík. Síðar í sögunni (bls. 260) má skilja að átt sé við Hof í Fellum. Mikið hefur verið rætt og ritað um þessa klausu í Fljótsdælu. Í Landnámu og Njálu er getið um Hróar Tungugoða, son Una danska, er bjó í Skaftártungu í V.-Skaft., og var kenndur við hana. Halda sumir að höfundur Fljótsdælu hafi flutt hann á Hof í Tungu, sem hvergi er getið í öðrum fornsögum. Sumir telja að Hof sé eldra nafn á Kirkjubæ, eða hafi verið í landi Kirkjubæjar, á ásunum vestan við bæinn, en þar eru fornar bæjartættur. Sveitin milli fljótanna er aðeins nefnd Tunga í öðrum fornsögum en Fljótsdælu, og reyndar lengi síða; því eru líkur til að hún hafi fengið heitið Hróarstunga eftir sögunni. (Halldór Pétursson frá Geirastöðum o.fl. hafa ritað um Hof í Tungu.)

Eiðaþinghá

12. Eyvindará: Þar átti Gróa frænka Droplaugarsona heima og þar dvöldu þeir oft. Fljótsdæla segir hana móðursystur þeirra en Droplaugarsona saga föðursystur. Í þeirri síðarnefndu kemur fram að Gróa fann líf með Grími eftir bardagann við Kálfshól, og kom honum til Álfgerðar læknis, en lét verpa haug yfir lík Helga „fyrir sunnan garð“. Helgahaugur var líklega nálægt núverandi íbúðarhúsi (gamla), en er nú týndur.

Miðhús: Árið 1980 fannst mikill og ævaforn silfursjóður við bæinn á Miðhúsum, útbýli frá Eyvindará, sá stærsti sem fundist hefur hérlendis og vó rúmlega hálft kíló. Þór Magnússon ritaði ýtarlega um hann í Árbók Fornleifafélagsins 1980. Eiríkur Sigurðsson fv. skólastjóri á Ak. ritaði um sjóðinn í Gletting, 6. árg. 2. tbl. 1996, og gerði því skóna að þar væri kominn fjársjóður sá er Arnheiður fann í Víkinni í Noregi skv. Landnámu og Droplaugarsona sögu.
Dalhús er annað afbýli frá Eyvindará og stendur yst á Eyvindardal að austanverðu, fallið í eyði fyrir nokkrum áratugum. Innst í landi Dalhúsa er eyðibýlið Kálfshóll austan Eyvindarár á móti höfðanum Hnútu vestan ár, sem þjóðvegur beygir fyrir. Þar var búið um tíma á 19. öld og eru þar greinilegar minjar um hús og túngarð. Samnefndur hóll er rétt við tætturnar, kallaður Kálfshvoll í sögunum. Þar börðust þeir nafnar Helgi Ásbjarnarson og Droplaugarson ásamt mönnum sínum. Þrátt fyrir mikinn liðsmun Ásbjarnarsyni í hag mátti lengi vel ekki á milli sjá hvor hefði betur, en að lokum féll Helgi Droplaugarson eftir frækilega vörn og Grímur bróðir hans var nær dauða en lífi. Það réði úrslitum að Össur undan Ási, er setið hafði hjá í bardaganum, lagði til Helga Droplaugarsonar með spjóti, honum að óvörum, þegar hann ætlaði að drepa nafna sinn, sem var illa særður. Bardaginn er talinn hafa átt sér stað árið 998 (Droplaugarsonasaga).

13. Mýnes: Bær Þóris og húskarls hans, Þorgríms torðýfils, bróður Nollars. Þorgrímur var álíka illa liðinn og bróðir hans og kom á flot illmæli um Droplaugu og Helga, sem hann kvað vera son Svarts þræls en ekki Þorvaldar. Þegar Droplaug frétti þetta varð hún miður sín og sá Helgi sér ekki annað fært en hefna þessara ummæla. Fór hann að vetrarlagi með Grími út í Eyvindará og þaðan í Mýnes og skaut spjóti í gegnum Þorgrím, síðan batt hann líkið sitjandi upp á hest, þar sem það mátti dúsa til kvölds. Helgi var aðeins 12 ára er hann vann þetta fyrsta víg sitt.
Eiðar: Þar átti Helgi Ásbjarnarson síðast heima og var þar drepinn í hvílu sinni af Grími til bróðurhefnda, líklega árið 1008. Áður hafði Grímur gert sér jarðhús við Oddmarslæk, nálægt Fljótsbakka og faldi sig þar eftir vígið. Eftir það varð Grímur sekur skógarmaður og var haldinn á laun af frændum sínum, en fór síðan til Svíþjóðar þar sem hann lést af blóðeitrun í sári er hann hlaut í einvígi (Droplaugarsona saga). Haugur Helga er sagður vera utan við skólahúsin á Eiðum, en nánari staðsetning óviss.

Hjaltastaðaþinghá

14. Kóreksstaðir: Bær Þorbjarnar kóreks. Gunnsteinn sonur hans vann það óhappaverk er hann kom heimsókn í Njarðvík, með Þiðranda Geitissyni, náfrænda Droplaugarsona, að kasta spjótskafti að Ásbirni vegghamri sem var þar að hlaða garð. Það hleypti öllu í bál og brand í Njarðvík og leiddi til þess að Ketill þrymur, sem var flogaveikur, réðist með vopnum að Þiðranda systursyni sínum og varð hinn snarpasti bardagi. Í lokin skaut Gunnar austmaður sem þar var staddur, spjóti í gegnum Þiðranda, án þess að vita hvern hann var að skjóta, og fékk af því nafnið Gunnar Þiðrandabani. Mikill hluti Fljótsdælu gengur út á að lýsa viðureign Droplaugarsona við Gunnar þennan, en nánar er um hann fjallað í Gunnars þætti Þiðrandabana.
Í lok Droplaugarsona sögu er þess getið að Grímur Droplaugarson átti son er Þorvaldur (eða Þorkell) hét og var afi Þorvaldar er „sagði“ söguna og má etv. líta á sem höfund hennar. Þá væri hún með allra elstu Íslendingasögum. Jón Jóhannesson (Ísl. fornrit XI, formáli bls. LXIV) telur þó fráleitt að svo sé, en kannski hafi hann sagt ritara einhver drög að sögunni á gamals aldri.


 Eftirmál

Bréf til Péturs Þorsteinssonar skólastjóra Hallormsstaðaskóla
Eg., 7. sept. 2007
Sæll Pétur minn.
Ég ætla að senda þér þessa minnispunkta sem ég tók saman fyrir ferð okkar á söguslóðir Fljótsdælu. Eins og þú sérð hef ég ekki getað skilið Fljótsdælu frá Droplaugarsonasögu enda er það býsna torvelt, einkum vegna þess sem vantar aftan á þá fyrrnefndu. Auk þess tók ég glefsur upp úr þjóðsögum Sigfúsar.
Það er ekki hægt að segja að þessar fornsögur séu aðgengilegar skólanemum í núverandi formi. Til að svo mætti verða þyrfti að endursegja söguþráðinn úr þeim báðum í einni sögu á nútímamáli. Þetta hefur verið gert með aðrar fornsögur, ef ég man rétt, t.d. Grettis sögu, og mér finnst það engin goðgá ef það getur orðið til þess að endurlífga áhuga manna fyrir sögunum.
Kannski þú stingir upp á því við Guttorm Sigurðsson að athuga þetta. Ég hef verið að grípa niður í bókinni hans, "Á fleygiferð um eilífðina", og sýnist hann vera ágætlega ritfær. Það myndi ekki saka að taka líka eitthvað upp úr þjóðsögum og skjóta inn í frásögnina.
Þá má geta þess að Oddbjörg Sigfúsdóttir í Fellabæ hefur málað andlitsmyndir af öllum helstu persónum Austfirðingasagna, sem nota mætti til að skreyta nýja útgáfu, og skólinn ætti kannski að eignast eitthvað af þessum myndum hennar. Hún hefur einnig teiknað persónur úr Njálu.
Ekki hef ég hugmynd um hvort þessi hringferð okkar um daginn hefur komið að einhverjum notum fyrir skólakrakkana, en líklega hefur hún eitthvað notast kennurum svo þeir verði færari um að kynna sögurnar.
Fyrir nokkrum árum setti ég saman greinarstúf um Arnheiði og Droplaugu, sem birtist í afmælisriti Indriða Gíslasonar frænda míns: "Greinar af sama meiði", Rv. 1998. Ég þarf að ljósrita nokkur eintök af henni og sendi þér þá afrit. Kannski má hafa eitthvert gagn að henni við túlkun sagnanna.
Læt þetta nægja að sinni. Bið þig að fyrirgefa að prentarinn er í ólagi, en þú getur fengið þessa pistla á disklingi ef þú hefur áhuga á því.
Með bestu kveðju. - Helgi Hall.