Skip to main content
22 February, 2022
# Topics

Fjalltívinn í Snæfelli

22 February, 2022

Fjalltívinn í Snæfelli

(Birti í Glettingi 13 (1), 2003, bls. 39-41)

 

Snæfell rís í suðri sælu:
Silfri krýnda Héraðsdís,
frá þér holla finn ég kælu,
fagurlega djásn þitt rís.
Heilsa bað þér bróðir svás,
Bárður hvíti, Snæfellsás,
Hann á vestra hrós og lotning.
Hér ert þú hin ríka drottning.

Þessi vísa úr Héraðskvæði Matthíasar Jochumsonar er eitt lítið sýnishorn af ótalmörgum vísum og kvæðum, sem ort hafa verið um Snæfell. Í kveðskap er fjallinu ýmist líkt við konung eða drottningu, og "fjallkonuímyndin" er sjaldan langt undan. Hvítu jökulhettunni er gjarnan líkt við "bjartan Fjallkonufald" (Sjá jólablað Austra 1991).

"Þau munnmæli loða við fjall þetta.... að enginn megi ganga upp á það, og sé útaf brugðið, verði slíkri ofdirfsku jafnan refsað með illviðri", ritar Sveinn Pálsson í ferðadagbók sína 1794, og mátti reyna það á sjálfum sér, þegar hann freistaði þess að ganga á tindinn.

Þessi ummæli benda til forns átrúnaðar og dýrkunar á Snæfelli. Örnefni í grennd við fjallið, svo sem Þóriseyjar og Hafursfell, geta bent til að það hafi verið tileinkað höfuðgoði heiðninnar Ása-Þór, sem beitti höfrum fyrir reið sína eins og kunnugt er. Hin forna fjallatrú á sér djúpar rætur, og er ekki laust við að ennþá eimi eftir af henni á okkar upplýstu tímum.

Í hugum margra Héraðsbúa er Snæfell heilagt fjall, enda birtist það oft eins og upphafið í tign sinni, nánast ójarðneskt. Það á ekki síst við í skammdeginu, þegar sólin sest við fjallið og baðar það og umhverfi þess gullnum ægiljóma. Það mun þó hafa verið að sumarlagi sem Sigfús Sigfússon á Skjögrastöðum kvað á á ferð um Fljótsdalsheiði seint á 19. öld.:

Snæfells tindinn háa hreina
himinlindar gylltir binda.

Og unglingsstelpa, dóttir hans, svaraði að bragði:

Hans er strindi, höldar meina,
hversdagsyndi sunnanvinda.

Héraðsbúar fylgjast vel með fjallinu, og nota skýjamyndanir þess m.a. til að spá í veður. Hjá mörgum er það fyrsta verk dagsins að gá til Snæfells. Það sannaðist m.a. í byrjun árs 1998, þegar smáhrun varð úr NA-öxl fjallsins, og það varð umfjöllunarefni fjölmiðla.

Andi fjallsins – fjalltívinn

Erla Stefánsdóttir, sem er kunn fyrir dulskyggni sína og kortlagningu á vættabyggðum, hefur nokkrum sinnum komið austur á Hérað, og sér þá gjarnan vætt sem hún kallar fjalltíva yfir Snæfelli. Hann líkist skýstrók eða tré, en þó má greina í honum ýmsar myndir. Stundum gnæfir hann hátt yfir fjallið jafnvel ofar skýjum. Mest ber á gulum og fölbláum ljóstónum í þessari voldugu veru, sem hún hefur reynt að túlka á meðfylgjandi teikningu.

Erla segir að í Snæfelli skerist a.m.k. þrjár "orkulínur", og standi ein þeirra í beinu sambandi við Hofsjökul, þar sem hún kveður vera miðstöð slíkra lína hér á landi, en hann tengist Snæfellsjökli, sem er ein helsta orkustöð jarðarinnar að dómi margra dulspekinga. Hugsanlega er það segulsvið fjallsins sem Erla skynjar eða sér.

Dulskyggn kona, Ingibjörg Hjörleifsdóttir á Ísafirði, lýsir Snæfelli þannig:

“Fjallið Snæfell á Austurlandi ber höfuð og herðar yfir önnur austfirsk fjöll, í mætti sínum og mikilleika. Það er hinn hvíti ás. Yfir Snæfelli ljómar sól tignar og fegurðar. Andi fjallsins er tiginborinn, af konunga kyni, kraftmikill og voldugur. Hann er verndari Austurlands, ber gullkórónu á höfði og veldissprota í hendi. Í kórónu hans eru greyptir gimsteinar, sem kasta frá sér mikilli litadýrð er endurkastast frá Snæfellinu á alla vegu og breiðast yfir allt Austurland og víðar. Oft verður fjallið eins og stærðar ljóssúla; fær þá margur ofbirtu í augun, sem nálgast það. Forn helgi hvílir yfir þessu mikilúðlega fjalli. Fornmenn höfðu mikið dálæti á Snæfelli og báru djúpa lotningu fyrir því. Þeir færðu því fórnir og þótti það gott til áheita.” (Bréf, okt. 2002).

Anna Hjaltadóttir í Fellabæ var eitt sinn á leið í Snæfellsskála, ásamt fleirum, í fegursta veðri. Þegar komið var á melana norðvestan við fjallið, og snjóhvítan tindinn bar við hminblámann, segist Anna hafa séð eða skynjað fjallsandann, sem henni fannst umlykja allt fjallið, og gnæfa langt yfir það. Hann var í sólgulum og gylltum litum. Þetta var fögur og áhrifamikil sýn, og henni fylgdi sérstök sælutilfinning.

Oddbjörg Sigfúsdóttir, sem er afkomandi Ingunnar skyggnu og hefur séð ýmsar furður um dagana, sendi árið 1999 frá sér ævintýrakverið “Vættafundur á Eyjabökkum”, þar sem hún lætur alla landvætti Austurlands koma saman á fund og ráðgast um framtíð fjórðungsins. Meðal þeirra er Snædrottningin sem býr í Snæfelli. Hún fór í “hvíta jöklakjólinn sinn með bláu blúndunum og setti gráu þokuslæðuna um hálsinn, og þá var hún ferðbúin.”

Ljóshjúpurinn

Haustið 1999 fór fram óvenjuleg athöfn á Snæfellsnesi norðaustan við Snæfell, sem kölluð var “Eyjabakkagjörningur” (Sjá Gletting 10 (1), 2000). Ein þeirra listakvenna sem skipulögðu atburðinn varð fyrir einkennilegri upplifun við það tækifæri, sem hún lýsir svo:

“Ég tók þátt í Eyjabakkagjörningi þann 4. september 1999, og var meðal þeirra sem báru síðustu steinana. Strax í upphafi verksins hafði myndast sérkennileg stemning sem helst verður lýst sem einhvers konar helgi. Hélst þessi helgi út allt verkið. Margir þátttakenda höfðu orð á því eftir á að þeir hefðu fundið fyrir óvenjulegum og mögnuðum áhrifum á þessari stundu.

Þegar ég hafði komið steininum fyrir horfði ég eftir steinaröðinni, sem nú lá í línu milli Snæfells og vaðsins á Jökulsá ofan við fossa. Sá ég þá ljóssúlu rísa upp af hverjum steini og myndaðist þannig ljóssúlnaröð.

Þegar verkinu var lokið og flestir farnir til byggða eða í Snæfellsskála, gengum við nokkur til baka meðfram steinaröðinni að Snæfelli. Þá sá ég ljós, sem eins og flæddi út úr fellinu, en var þó ekki mjög skært, og varði það allan tímann sem gangan tók.

Daginn eftir var ég aftur við steinaröðina, og þegar ég var um það bil miðja vegu milli enda hennar sá ég aftur ljóssúlurnar eins og standa upp af hverjum steini. Síðan var eins og súlurnar breiddu úr sér, þar til myndast hafði ljósveggur. Allt í einu flæddi ljósið upp og teygðist nokkuð hratt í átt til Eyjabakkajökuls, þannig að myndaðist eins og hvolfþak úr ljósi, sem nam við jörðu við steinana.

Sú hugsun flaug í gegnum huga mér að verið væri að mynda verndarhjúp yfir Eyjabakkana alla, og átti ég því von á að ljósið myndi koma niður aftur við jökulinn og staðnæmast þar. En mér til undrunar flæðir það áfram í vesturátt. Mér verður hugsað: “Hvert skyldi það ætla?” og þá heyri ég eins og sé sagt “Hofsjökull”, og skildi ég það þannig að hjúpurinn myndi ná yfir öll Vesturöræfi og upp á Hofsjökul miðjan. Þessum viðburðum fylgdi mikil og sterk helgi.” (Bréf 10. des. 2002).

Söngur og norðurljósakóróna

Inga Rósa Þórðardóttir gætti Snæfellsskála svo vikum skipti á hverju sumri, þar til hún fluttist burt af Héraði vorið 1999. Hún segist hvergi fá betri nætursvefn en þar.

Eitt sinn þegar hún var stödd í eldhúsi skálans heyrði hún sálmasöng, eins og verið væri að messa. Hún hélt fyrst að þetta kæmi úr útvarpstæki sem þarna var, og gekk úr skugga um að það var lokað, og ekki um önnur viðtæki að ræða í skálanum. Þegar hún kom út fannst henni söngurinn koma frá steinstólpa sem reistur var til minningar um Hrafn Sveinbjarnarson, rétt fyrir utan skálann. Í grein um Snæfell í tímaritinu Snæfelli, 2. tbl. 13. árg. 1993, ritar hún:

"Þeir sem sjá lengra en nef þeirra nær hafa sagt að Snæfell sé orkustöð, og þar búi mikil og falleg vera. Við sem höfum dvalið þarna lengri eða skemmri tíma, erum ekkert að efast um það, og þeir sem sáu mikinn og fagran ljósagang fyrir ofan fjallið 29. desember 1989 ættu ekki að þurfa að efast heldur."

Sýnin sem Inga Rósa vísar til er skráð í gestabók skálans, og hljóðar þannig:

Milli kl. 21 og 22 voru norðurljós í suðaustri, og virtust þau laga sig þannig, að þau voru eins og kastljós, sem stefndu öll að ákveðnum punkti hér beint yfir. Síðan dreifðist kjarninn til vesturs og norðurs, þar til þessi hringur náði saman, og sló dumbrauðum bjarma á norðurljósin sumsstaðar, sem teygði sig allt frá sjóndeildarhring upp á himininn. Þegar norðurljósin höfðu lokað hringnum, byrjuðu þau að senda frá sér mjóa kastgeisla, sem stefndu allir að einum punkti, þar til aðeins var lítill ljóslaus hringur í miðjunni; sló þá fyrir grænum sveip þar, sem myndaði hring. Þetta fyrirbæri stóð í 10 mínútur a.m.k., svo vel var hægt að virða þessa ljósadýrð fyrir sér. Þessi norðurljós titruðu ekki, en voru stöðug meðan á þessu stóð."

Þetta er undirritað af 7 ferðafélögum, en Hákon Aðalsteinsson frá Vaðbrekku var einn þeirra og virðist hann hafa ritað lýsinguna. Þetta hefur líklega verið svokölluð norðurljósakóróna, sem er mjög sjaldgæft fyrirbæri, og fáum auðnast að sjá í svo mikilfenglegri mynd.

Snæfell er ótrúlega margbreytilegt eftir veðri og skýjamyndun. Að kvöldi 11. dags júnímánaðar 1998, gat að líta annað fjall vestanhallt við það venjulega, sem var alveg jafn stórt og næstum eins að lögun. Það var eins og fjallið hefði tvöfaldast. Smám saman hækkaði aukafjallið og gnæfði yfir hitt, en máðist svo út á nokkrum mínútum. Sama dag var greint frá samþykkt Náttúruverndarráðs, um að leyfi Landsvirkjunar til að virkja Jökulsá í Fljótsdal yrði afturkallað, og Eyjabakkar yrðu lýstir alþjóðlegt verndarsvæði.

Nú er stefnt að nýtingu fallvatnanna sitt hvoru megin við Snæfell til raforkuframleiðslu, en hvað skyldu margir hafa leitt hugann að því, að Snæfell kunni sjálft að vera orkustöð, og að orkan sem frá því stafar sé ef til vill ekki minna virði en sú raforka sem hægt yrði að kría út úr fallvötnunum?

(NB: Þessi smágrein átti að birtast í Snæfellshefti Glettings haustið 1998, og var þá búið að gera umbrot af henni, en hún var felld niður vegna plássleysis. Síðan hefur nokkrum sinnum verið bætt við hana. Síðast breytt, 21. jan. 2003. – Helgi Hall


Eftirhreytur um Snæfell

(Birt í Glettingi 16 (2), 2006, bls. 14)

Í tilefni af grein minni um Fjalltívann í Snæfelli í 1. tölublaði Glettings 2003, langar mig að koma á framfæri nokkrum viðbótum.

Magnleysi Oddbergs

Skömmu eftir að blaðið kom út hringdi til mín maður að nafni Oddbergur Eiríksson, búsettur í Grafarvogi í Reykjavík, sem nú er um áttrætt. Hann greindi frá því að fyrir um 30 árum hefði hann gengið á Snæfell með ungum frænda sínum. Hann telur að þeir hafi farið hina vanalegu leið upp suðvesturöxl fjallsins. Veður var stillt og bjart og gekk fjallgangan að óskum þar til komið var upp á öxlina ofan við hlíðarbrattann.

Þá urðu þeir skyndilega báðir svo máttlausir að þeir áttu erfitt með gang, en héldu þó öllum sönsum, að hann telur, og fundu ekki fyrir öndunarerfiðleikum. Þeir létu þetta ekki á sig fá og tókst að komast upp á tindinn, sem er tiltölulega stutt og þægileg leið, en veittist þeim býsna erfitt við þessar aðstæður. Þeir fóru svo sömu leið til baka, en þá brá svo við að magnleysinu létti af þeim um leið og þeir komu á öxlina, þar sem það hafði sest að þeim. Oddbergur segist hafa gengið á mörg fjöll, m.a. á Öræfajökul, en aldrei orðið fyrir þess háttar áhrifum, eða ‚fjallaveiki‘ af neinu tagi, því þótti honum þetta einkennilegt og óskiljanlegt, ekki síst þar sem allar aðstæður voru hinar bestu.

Norðurljósakórónan

Í greininni er sagt frá furðulegum ljósagangi er hópur manna úr Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs varð vitni að við Snæfell 29. des. 1989, og tekin upp stutt lýsing á honum úr gestabók Snæfellsskála.

Nýlega rakst ég ýtarlegri lýsingu á þessu fyrirbæri í blaðinu Austra, 25. jan. 1990, sem Björn Ingvarsson raftæknifræðingur á Egilsstöðum hefur ritað.

Það var á tíunda tíma um kvöldið að þau voru stödd við Snæfellsskála. Það hafði stytt upp og var orðið heiðskýrt og stjörnubjart og vægt frost. Þeim varð litið til fjallsins í austurátt og sáust útlínur þess bera við himin.

„Tökum við þá eftir dumbrauðum bjarma, sem geislaði upp yfir norðuröxl fjallsins og verður smám saman skærari. Bjarmi þessi breiðir úr sér til suðurs og suðvesturs og einnig lengra til norðurs. Bjarminn er sumsstaðar rauðleitur, annarsstaðar kaldgrænn, og myndar ljósstafi sem teygja sig samsíða upp á himinhvolfið og stefndu allir í einn punkt yfir okkur, sem virtist frá okkur séð vera austan við háhiminhvelfinguna og þá yfir fjallinu.

Þessir ljósstafir sindruðu ekki eins og norðurljós gera, og þeir voru þráðbeinir, aðeins varð hægfara breyting á ljósstyrk og lit. Til suðurs sáum við neðri jaðar þessa fyrirbæris, og myndaði hann lárétta skarpa línu lágt yfir sjóndeilarhring, og var ljósstyrkur mestur neðst, en dofnaði upp á við. Daufur hringur myndaðist um punktinn uppi á himninum. Þessi ljós virtust ekki vera mjög hátt á himninum, og giska ég á 4-7 km. Fyrirbæri þetta stóð yfir í um það bil 15 mínútur, en dofnaði þá og eyddist.“

Blaðamaður Austra (Guðgeir Ingvarsson) hafði samband við Öddu Báru Sigfúsdóttur veðurfræðing og las fyrir hana lýsingu Björns. Hún kvaðst lítið geta sagt, „en taldi þó helst að þetta mundi vera einhver rafmagnsfyrirbrigði í háhvolfunum.“

Í Glettings-greininni er þetta nefnt ‚norðurljósakóróna‘, sem er þekkt fyrirbæri en fágætt. Norðurljós verða til við árekstur rafhlaðinna agna frá sólinni við atóm og mólekúl loftsins, aðallega í 100-1000 km hæð. Segulsvið jarðar beinir þeim að belti umhverfis segulpólana er liggur m.a. um Ísland.

Í Stjörnufræði-Rímfræði Þorsteins Sæmundssonar (1972) er þessi skýring gefin á norðurljósakórónu: „Þegar geislótt norðurljós eru fyrir ofan athuganda, virðast geislarnir allir stefna frá einum punkti og mynda hvirfingu eða kórónu um punktinn. Kórónupunkturinn er nálægt þeim stað sem segulhallanál stefnir á; á Íslandi er hann sem stendur um 14° til SSV frá hápunkti himins.“

Jónas Hallgrímsson náttúrufræðingur varð vitni að slíku fyrirbæri á ferðalagi á Grímstunguheiði 26. ágúst 1837, og lýsir því prýðilega í ritum sínum, t.d í útgáfu Tómasar Guðmundssonar 1948, 2. bindi, bls. 103-105. Veðurfarsaðstæður voru þá ekki ósvipaðar og við Snæfell 1989. Það skal ósagt látið hvort fjallið hefur einhver áhrif í þessu sambandi, en eins og önnur eldfjöll hefur það sitt segulsvið.

H.Hg. (mars 2004).