Skip to main content
03 March, 2022
# Topics

Bjarni Halldórsson Endurminningar

03 March, 2022

Endurminningar Bjarna Halldórssonar, Akureyri

Formáli
Bjarni Halldórsson fæddist á Urriðavatni í Fellum 13. jan. 1892. Foreldar voru hjónin Halldór Magnússon, úr Skaftafellssýslu, og Sigurbjörg Snorradóttir frá Fossgerði (Stuðlafossi), Jökuldal. Hann var snemma tekinn í fóstur af Jóni Stefánssyni og Sveinbjörgu Bjarnadóttur á Hreiðarsstöðum í Fellum, en var líka á ýmsum bæjum í Útfellum, m.a. á Hafrafelli, Fjallsseli og Urriðavatni. Hann var í Búnaðarskólanum á Eiðum 1908-1910. Eiríkur Sigurðsson segir í minningargrein um Bjarna í Degi 11. ágúst 1971, að Benedikt Blöndal kennari á Eiðum hafi hvatt hann til frekara náms og styrkt hann fjárhagslega til þess. Hann settist þá í Gagnfræðaskólann á Akureyri og lauk gagnfræðaprófi þaðan 1913, hóf nám í Menntaskólanum í Reykjavík um haustið, en varð að hætta um veturinn vegna lasleika.

Fór þá að fást við barnakennslu á vetrum, m.a. 1915-16 í farskóla í Fellum, og næsta vetur í Möðrudal. Árið 1917 gerðist hann verslunarmaður hjá Otto Tulinius á kureyri. Árin 1919-1927 var Bjarni verslunarstjóri við "Hinar sameinuðu íslensku verslanir" á Arngerðareyri við Ísafjarðardjúp, en fluttist síðan til Akureyrar aftur og gerðist skrifstofumaður og síðar skrifstofustjóri hjá Rafveitu Akureyrar og gegndi því starfi til 1963. Hann lést 13. júní 1971. Eiginkona hans var Margrét Gunnarsdóttir, kaupmannsdóttir úr Reykjavík. Þau eignuðust fjögur börn sem komust til manns.

Bjarni starfaði mikið að félagsmálum á Akureyri, m.a. bindindis-, íþrótta-, kirkju- og verkalýðsmálum, og var einn af stofnendum Austfirðingafélagsins þar og formaður þess um skeið. Hann var alla tíð mjög tengdur átthögum sínum í Fellum, eins og fram kemur í eftirfarandi minningaþáttum, og fór þangað á hverju sumri í mörg ár, og húsvitjaði á flestum bæjum í sveitinni.

Vélritað handrit með minningaþáttum Bjarna (98 bls.) er varðveitt í Héraðsskjalsafni Austfirðinga á Egilsstöðum. Minningaþættir Bjarna eru í dagbókarformi, og hafa flestir verið ritaðir á Akureyri á árabilinu 1950-1970. Ármann Halldórsson birti fjóra af þessum þáttum í Múlaþingi, 1. hefti 1966, og 16. hefti 1988, en aðrir hafa mér vitanlega ekki birst á prenti.

Ég hefi nú tölvusett aðra þætti þar sem Bjarni segir frá æsku sinni og yngri árum á Austurlandi og nokkrum ferðum sínum þangað. Þeir eru allgóð heimild um atvinnuhætti, mannlíf og veðurfar á fyrstu áratugum 20. aldar á Héraði, Jökuldal, Möðrudal og Vopnafirði. Einnig er drepið á ýmsa atburði á Akureyri á ritunartíma þáttanna, en miklu meira er um það í þeim þáttum sem hér er sleppt. Í þeim segir Bjarni m.a. frá skólaárum sínum og búskap á Arngerðareyri við Djúp. Athugandi væri að gefa alla þættina út í heild.
H.Hall. (jan. 2011)

Minnisstæðar stundir

Eg var 8 ára þegar eg var fyrst látinn sitja yfir ám með öðrum strák, sem var rúmu ári eldri. Klukkan var rúmlega 9 á morgnana þegar búið var að mjalta ærnar, og þá áttum við að vera tilbúnir að hleypa strax út ánum. Við höfðum með okkur miðdegismat á tveimur emaleruðum diskum og 2 flöskur af mjólk. Utanum diskana var hvítur léreftsklútur, en flöskurnar voru sín í hvorum sokk. Vanalega rákum við ærnar út með Skriðufelli [Hafrafelli?] framhjá Grímstorfunni, og svo dreifðu þær sér niður í stóra blá. Þegar forsælan var komin niður í Markkeldur, þá máttum við fara að reka ærnar heim. En svo komu margir dagar þegar ekki var sólskin og suma daga rigning, þá lentum við í mestu vandræðum, þá höfðum við ekkert til að fara eftir, nema ef svo vildi til að við sáum til smalans á Urriðavatni, þá gátum við farið eftir honum.

Einusinni fannst okkur dagurinn vera orðinn fjarska langur, við höfðum ekkert til að fara eftir, en lögðum á stað með ærnar heim á leið og kvíuðum þær, svo fórum við heim í bæ og tilkynntum að ærnar væru komnar í kvíarnar. Kvenfólkið rak upp stór augu, og sagði að klukkan væri ekki orðin 5 ennþá. Við máttum reka ærnar út og vakta þær út í Stekkjarmýrinni til mjaltatíma.
Af því enginn þorði að lána okkur úr, af ótta við að við myndum fikta í því, þá var það ráð tekið að negla hrífuskaft upp á bæjarburstina og hengja þar á lak þegar tími var til kominn að reka heim. En við sáum ekki flaggið nema annar okkar hlypi suður á Breiðahjalla, þaðan sást heim að bænum.

Svo var það á enduðum túnaslætti, þá var ákveðið að halda töðugjöldin á sunnudegi. Það var lógað höfuðsóttarkind daginn áður (það var kölluð meinakind á Austurlandi). Hún hafði verið tjóðruð á túninu um sumarið, var sullur í heilanum á henni, og vildi hún því altaf snúast í hring. Í tilefni af töðugjöldunum máttum við reka ærnar suður í Klaufir og vera svo heima yfir hádaginn. Það komu 2 drengir af næsta bæ, og þeir fóru að leika við okkur, svo við gleymdum alveg tímanum, þar til kallað var til okkar, að við ættum strax að fara að smala ánum. Við hlupum af stað og fórum langt suður fyrir Klaufir, þar til við sáum heim að Krossi, og alla leið þaðan sáum við meðfram Langavatni. Þá fórum við að reka ærnar heim. Þegar þangað kom reyndist vanta 12 ær. Næstu daga var leitað að ánum alt upp í heiðarbrúnir, en ekki fundust ærnar. En því miður var alltaf leitað langt yfir skammt. Eftir viku sáust þær frá næsta bæ koma sunnan úr svokölluðu Kálfafelli, sem liggur meðfram Langavatni að vestan. Það er lágt fell, mjög leitótt og grösugt; þarna höfðu þær verið allan tímann. En við vorum búnir að fá marga ákúruna á þessu tímabili, fyrir lélega vörslu.

Enginn minnisstæður atburður gerðist í lífi mínu eftir þetta, þar til sumarið 1905. Þá var verið að byggja Lagarfljótsbrúna; var hún vígð um haustið. En í júní þá um sumarið var haldin nautgripasýning austan megin brúarinnar. Eg fékk að fara á hana, og hefi skrifað það helsta upp til gamans fyrir mig. [Bls. 3 í handriti Bjarna]
[Þessi frásögn Bjarna af nautgripasýningunni við Lagarfljótsbrú 1905, birtst í grein hans: "Minnisstæðar stundir", í Múlaþingi 16, 1988, bls. 108-110.]

Í sumarleyfi austur á Héraði sumarið 1950

Fyrstu dagana í júlí var hér mjög gott veður, sérstaklega 3., 4. og 5., þá var glaða sólskin og mikill hiti. Þann 5. júlí komu 15 konur úr Fellahrepp í skemmtiferð hingað til Akureyrar, og voru hér um kyrrt þann 6. Þá ákvað eg að fara með þeim austur og eyða þar mínu sumarfríi.

Við lögðum af stað þann 7. júlí kl. 10 f. h., í glaða sólskini, og höfðum ágætt veður allan daginn. Fyrst var farið að Laxfossum [Laxárfossum] og þeir skoðaðir. Svo var borðað á Laugum. Þaðan var haldið áfram, án verulegra tafa, alla leið í Möðrudal. Þar var okkur boðið að drekka kaffi. Þá var þar fyrir fjölmenni, þar á meðal báðir þingmenn kjördæmisins, Páll Zophaníasson og Halldór Ásgrímsson.

Frá Möðrudal var haldið í einum áfanga austur í Fell, en þá var eftir að skila konunum hverri heim til sín, og gekk það í snúningum, en kl. 1 eftir miðnætti komum við í Holt, eftir mjög skemmtilega ferð.

Daginn eftir var algerlega skift um veður og komin norðan bræla og súld. Daginn eftir 8. júlí [NB] var rigning og leiðinlegt veður. Þá var skemmtun á Hallormsstað og var fólk mjög óheppið sem þangað fór.

Eg var 3 daga um kyrrt í Holti. Á mánudag fór eg út í Meðalnes. Á leiðinni kom eg við á Hofi og Ási. Í Meðalnes hafði eg ekki komið lengi, og var nú búið að byggja þar nýtt hús. Hún bjó þar enn, ekkja Sölva Jónssonar, vinar míns og leikbróður frá okkar bernskudögum. Eg átti þarna mjög góða nótt, og fór ekki fyr en eftir hádegi daginn eftir. Þá fór eg í Birnufell, og fór Friðmar með mér þangað. Eg gisti um nóttina á Birnufelli, hjá Birnu og Friðrik, í góðu yfirlæti. Daginn eftir fór eg svo í Setberg, og var hjá Önnu og Gunnlaugi í 2 nætur. Þar var þá fóstra mín, Sveinbjörg Bjarnadóttir, og var eg oftast að tala við þær mæðgur, hana og Önnu dóttur hennar.

Á föstudag fór eg frá Setbergi með vegavinnumönnum, og var fluttur upp í Hafrafell, og gisti þar 2 nætur, fór annan daginn upp í Staffell, að heilsa upp á Sigfús J. Oddsson og konu hans, og þau systkinin Elísabet og Runólf. Þar var allt við það sama, þau bjuggu þá sér, systkinin, en það var allt í gamla bænum, en Fúsi var byrjaður að byggja.
Frá Hafrafelli fór eg í Urriðavatn og var þar um kyrt í 4 daga. Á þriðjudag var eg við jarðarför þeirra Fossvallasystkina, Aðalbjargar og Björns, en hún fór fram á Ekkjufelli; voru þau jörðuð þar í heimagrafreit. Margt manna var þar viðstatt, og voru það flest ættingjar hinna látnu. Þar hitti eg sumt af gömlum leiksystkinum, sem eg hafði ekki séð í tugi ára. Séra Sigurjón á Kirkjubæ jarðaði og hélt mjög góða minningarræðu.

Eg fór svo aftur heim með Urriðavatnsfólkinu, og morguninn eftir fór eg norður til Akureyrar. Þá gerðist ekkert sögulegt í þeirri ferð. Þegar eg kom heim voru allir frískir, og allt hafði gengi mjög vel á meðan eg var í burtu. [Bls. 27 í handriti Bjarna]

Sumardagurinn fyrsti 1951

Í dag er fyrsti sumardagur á því herrans ári 1951. Þessi vetur hefur verið mörgum þungur í skauti. Síðan 1920 hefur enginn komið slíkur, og við sem höfum verið hér síðan 1927, munum ekki eftir öðrum eins á þvi tímabili. Í dag er sólskin og birtan geysimikil, af því allt er hvítt milli fjalls og fjöru, endalaus jökull yfir allt landið, en þó langmest yfir Austur- og Norðurlandi. Útvarpið talar um heyþrot og bjargarskort víða á Norðaustur- og Austurlandi. Allir vonast nú eftir bata sem allrafyrst.

Nú langar mig að rifja upp einhverjar minningar frá fyrsta sumardegi. Þegar eg var drengur, þá var það venja í minni sveit, að ungar stúlkur áttu að halda upp á fyrsta sumardag, með því að gefa þá sætt kaffi og rúsínulummur, eða eitthvað gott brauð með því. Þá var líka stundum haldin skemmtisamkoma þennan dag. Sérstaklega er mér minnisstæð ein slík samkoma sem við hjeldum á Eiðum þegar ég var þar. Var hún fjölmenn og sýndum við skólapiltar glímu, undir stjórn Guðmundar Þorbjarnarsonar, og sungum undir stjórn Hákons Finnssonar.

Næsta skemmtun sem eg man eftir var haldin á Arnheiðarstöðum 1919, og var þá yndislegt veður, og man eg ljóst eftir því að við vorum mestmegnis úti á túni með öll skemmtiatriði. Séra Þórarinn Þórarinsson á Valþjófsstað hélt ræðu, og lagði út af smásögunni: Að klæða fjallið (las hana upp í byrjun). Seinna fórum við í leiki úti á túni, og var þá orðið svo þurt, að við fórum í "Eitt par fram fyrir ekkjumann", og gekk vel. Þó man eg að óhöpp hentu tvær dömurnar, var svuntan slitin af annari, en blússa var rifin af hinni. Annars skemmtu allir sér vel og minnist eg varla að hafa upplifað bjartari og gleðiríkari sumardag.

Svo liðu árin eitt af öðru, og eg lifði marga skemmtilega sumardaga fyrstu, en ekki neinn sem hafi sérstaklega hrifið huga minn með endurminningu sinni, svo ástæða sé til að minnast hans hér, að einum undanteknum.

Það var árið 1937, sem Kantötukór Akureyrar fór í söngför til Reykjavíkur, og hefi ég skrifað sérstakan póst um þá ferð. En hér ætla ég að minnast á annan dag ferðarinnar: Sumardaginn fyrsta. Við fórum héðan með e.s. Ægir á síðasta vetrardag kl. 8 að morgni, og vorum komin suður í miðjan Faxaflóa kl. 8 næsta morgun; þá vaknaði eg og hafði mig á kreik Veður var bjart en þó talsverður kaldi á suðvestan og því dálítill undirsjór. Útsýnið var dásamlegt fyrir þá sem aldrei höfðu verið þarna á vormorgni fyrri. Við okkur blasti Snæfellsjökull, hvítur og tignarlegur, svo fjöllin í Borgarfirðinum og Skarðsheiði, Akrafjall og Esjan, svo nokkur nöfn séu nefnd. Eg varð stórhrifinn og gleymdi á samri stund allri sjóveiki.

Við höfðum fengið skeyti um að Ægir ætti ekki að leggjast að bryggju fyrr en kl. 2 eftir hádegi, og fór skipið því mjög hægt það sem eftir var leiðarinnar. Allir reyndu að þvo af sér einkenni sjóveikinnar og fara í sín betri föt, einkum kvennfólkið.

Þegar kl. var 2 var lagst að bryggju, og var þar fjöldi manna saman kominn, til að taka á móti okkur. Karlakór Reykjavíkur söng og við svöruðum með söng. Svo var stigið á land, og fór eg heim með þeim Laufeyju og Val, sem voru komin þarna til að taka á móti mér. Um kvöldið vorum við svo boðin á Hótel Borg, til sameiginlegrar kaffidrykkju með helsta söngfólki bæjarins. Þar var líka karlakórinn Vísir frá Siglufirði, og söng hann þar 3 lög, en síðan sungum við önnur 3 lög, og var gerður að því mjög góður rómur, og var upphafið að velgengni okkar í þessari ferð. Við vorum þarna fram á nótt við söng og dans, og var þetta sá viðburðaríkasti fyrsti sumardagur sem eg man nú eftir.

Vel hefði mátt skrifa skemmtilegar um blessaðan sumardaginn fyrsta, ef stílisti hefði átt í hlut, það er sá dagur sem eg held mikið upp á, og hann hefur fært mér einhverja gleði í öll þau ár sem eg man eftir mér. Eg sé eftir að hafa ekki æfinlega skrifað niður hjá mér það sem eg hefi upplifað þann dag. En nú er það um seinan.

Fyrsti sunnudagur í sumri 1951

Það var vor í loftinu, hægur sunnan andvari. Eg er kominn á kreik kl. 9, man þá eftir því að eg þarf að koma kartöflupoka um borð í m.s. Skjaldbreið, sem liggur við syðri Torfunefsbryggjuna. Bílar eru dýrir á sunnudegi, og vil eg ógjarnan bæta því ofan á 100 krónu verð á kartöflupokanum, að greiða 8-10 kr. flutningsgjald fyrir pokann, ofan frá skrifstofu og út í skip. Eg fer fyrst inn á skip og tala við Guðmund 1. vélstjóra, sem á að taka á móti pokanum; hann lánar mér strax sinn aðstoðarmann, og við sækjum pokann á grind sem eg get lagt til heiman frá mér. Sagan er búin. Þetta gerist á árinu 1951, og eg, sem nú er að nálgast sextíu árin, er nú löðursveittur og eftir mig eftir þetta þó svo litla erfiði.

Nú hvarflar hugur minn langt aftur í tímann, þegar eg var ungur piltur heima í sveit minni. Þá er tuttugasta öldin rétt að byrja og tækni nútímans algerlega óþekkt fyrirbrygði. Eg hirði skepnur á heimili mínu, bæði kýr og kindur; kl. 7 er eg kominn á fætur til að gefa kúnum, og svo fer eg að bera vatn í tunnu sem þar stendur í einu horni, síðan moka flórinn, taka hey í poka eða meisa, sem þá var ennþá notað. Þegar eg er búinn að brynna kúnum, þá er tími til kominn að gefa rollunum; eg fer með töðuhár í poka úr fjóshlöðunni, því nú er allt besta ærheyið búið, enda er sumarið byrjað og vonir eru til að féð fari bráðum að bjarga sér úti. Ærnar eru orðnar þungar á sér því nú eru þær komnar á síðasta mánuðinn. Þær taka vel í töðutugguna og eg fer að þreyfa á holdum þeirra, meira af vana, en af því að eg viti ekki svona hér um bil um hverja einustu á, hvað henni líður, því þetta hefi eg gert oft í viku síðari hluta vetrarins. Nú tek eg á júgrum þeirra og finn að nokkuð misjafnt er sigið undir þær; sumar eru þegar komnar með stórt júgur, en öðrum er ekki farið að ræta, sem svo er kallað.

Nú á eg bara eftir að gefa í tryppakofanum, en þar er eg vanur að hafa eina svolitla hvílarstund við að strjúka folann minn og félaga hans. Þeir eru gáskafullir og vilja endilega fara út á meðan eg er að gefa þeim, enda hefi eg vanið þá á það að fá sér frískt loft ævinlega, meðan eg er að moka undan þeim og sópa stallinn. Svo þarf eg að fara inn í heytosina, sem er þarna við, og af því nú eru alstaðar komnar geilar eftir því að endilöngu, og eftir standa aðeins svolitlar bríkur og stabbar hér og hvar, þá verð eg að fara með mestu gætni um þetta völundarhús, til að fá ekki torfið alt ofan á mig. Nú er eg búinn að gefa á stallinn, og hleypi svo vinum mínum inn, eg þarf ögn að kemba þeim, og grípa skæri ofan úr rjáfri til að klippa ójöfnur sem komið hafa fram í faxinu við áflog þeirra. Eg sæki þeim vatn í fötu út í lindina og set hana í stallinn á milli þeirra.

Nú er víst komið mál til að fá sér morgunkaffið. Eg fer heim og finn fóstru mína í kokkhúsinu, þar sem hún er búin að gefa hinu fólkinu morgunkaffi, enda er klukkan nú langt gengin í tíu. Gott er að fá blessaða hressinguna; á meðan er fóstra mín að spyrja mig um skepnurnar, og svo fer hún að segja mér eitthvað frá fyrri tíð. Hún er minnug á alt það gamla, og getur sagt mér hvrnig sumardagurinn fyrsti var fyrir 30-40 árum, hvað margar ær faðir hennar átti þá, og hvað mörg lömb dóu það vor o.s.frv. Hún minnir mig á það þegar eg var 6 ára og fór með fóstra mínum út í fjárhús á sumardaginn fyrsta, til að horfa á meðan verið var að brennimerkja gemlingana, og eg vildi endilega fá sjálfur að halda mínum gemling, sem var grábotnótt gimbur sem fóstri minn gaf mér, þegar fært var frá sumarið áður. Nú vildi eg endilega fá að halda í Botnu á meðan fóstri minn brennimerkti hana. En svo illa tókst til að Botna tók ógurlegt viðbragð þegar hún fann hitann af járninu og dró mig fram í kró; þar lá eg flumbraður á nefinu og allur skítugur.

Nú berst talið að deginum sem yfir stendur. Eg segi fóstru minni að eg ætli að bregða mér út á bæi í dag, það eigi að vera Ungmennafélagsfundur sem eg ætli á. Eg segist ætla að reka kýrnar fyrst upp fyrir Sauðásinn, en svo geti Geiri litli litið eftir þeim upp úr hádeginu; það geti verið snjóloft ennþá á Rauðalæknum, og því vissara að athuga um það að þær detti ekki þar niður. Klukkan 11 var eg kominn á bak á folanum mínum á þeysireið útsveitina, til fundar við æskuleiksystkini mín, og þar vissi eg að yrði fagnafundur og gaman að hittast, "til að kankast eitthvað á, eða til að hlæja." [Bls. 29 í handriti Bjarna]

Bænadagur 29. apríl 1951

"Bænin má aldrei bresta þig / búin er freisting ýmisleg. / Þá líf og sál er lúið og hrjáð, / lykill er hún að drottins náð."

Í dag er lögboðinn almennur bænadagur um allt Ísland. Aldrei mun hafa verið meiri þörf á því á þessari öld, að beðið væri fyrir þjóðum heimsins, en nú. Aldrei hefur heimshyggjan og kæruleysið náð meiri tökum í hjörtum manna en nú, og aldrei hefur íslenska þjóðin verið í meiri vanda stödd en nú. Æskan er andvaralaus og léttúðug, hugsar mjög lítið um andleg mál og sækir ekki kirkjur né hlustar á guðsorð. Þjóðin er klofin í tvær hatramar andstæður. Atvinnuvegirnir eru ótryggir og verkföll yfirvofandi. Harðindi og heyleysi er víða í sveitum og sjávarþorpum. Dýrtíð og erfiðleikar herja að alþýðu þessa lands og öllum efnalitlum þjóðfélagsþegnum sýnist svart framundan, þegar hinar litlu tekjur hrökkva ekkert til brýnustu lífsnauðsynja. Svona er þá spegilmynd dagsins í dag.

Á þessum degi vill hugur minn reika yfir liðna æfi, og eg minnist þess að máttur bænarinnar hefur oft hjálpað mér í lífinu; mörg atvik hafa komið fyrir, sem hafa sannfært mig um kraft orðanna: "Bænin má aldrei bresta þig..."

Það var sumarið 1904, þá var eg í Fjallsseli í Fellum, ásamt foreldrum mínum og Snorra bróður mínum [síðar lækni]. Bóndinn hét Pétur Stefánsson og kona hans var Sigríður Eiríksdóttir frá Bót. Eg var þarna smali um sumarið og leiddist hjásetan mjög, einkum af því að ekki var fært frá á neinum bæjum í nágrenninu.

Svo var það einn drungalegan dag, að eg sat hjá ánum upp í fjalli. Þar var þokuslæðingur og gætti eg mín ekki sem skyldi með eftirlit á ánum, svo eg tapaði 5 af þeim. Þegar eg kom heim var mikið um þetta talað, og var eg atyrtur fyrir að hafa ekki gætt ánna betur. Nú var komið kvöld og sama þoka í fjallinu eða jafnvel meiri. Eg skildi það svo á húsbónda mínum, að eg yrði að fara að leita að ánum, var eg því dapur mjög, og það mun bróðir minn hafa séð, svo hann bauð mér að koma með mér, enda þó hann væri þreyttur eftir erfitt dagsverk.

Eg þáði það og gengum við nú saman suður og upp fjall, og er við höfðum lengi gengið, þá vorum við orðnir þreyttir og vonlausir, og í þann veg að snúa við heim. Þá segir Snorri að nú skulum við setjast niður og biðja Guð að bænheyra okkur, "því þar sem tveir menn biðja af alhuga, þá mun þeim veitast bæheyrsla", sagði Snorri að hann hefði lesið þetta í sínu kveri. Við gerðum þetta, og mun sú bæn hafa verið heit og einlæg. Svo héldum við af stað í áttina heim á leið, en sjáum þá í þokunni nokkrar kindur álengdar, og göngum nær þeim; þá eru þarna komnar 3 ærnar sem við leituðum að, og þó fanst mér við hafa áður verið búnir að skynja þessar kindur. Við rákum þær nú með okkur heim á leið, og skamt þarna frá hittum við aftur kindur, og var þar ein ærin til. En svo fundum við ekki meira, en við lofuðum guð fyrir hans bænheyrslu við okkur, og þó við værum dauðþreyttir, þá vorum við strax orðnir léttari í spori, og þegar við komum heim að bænum var klukkan rúmlega 3 um nóttina. Við hýstum ærnar og vöktum einhverja stúlku til að mjalta þær, og fórum svo að sofa.

Mörgum sinnum hefi eg fengið bænheyrslu síðan þetta skeði, en ekki er mér eins minnisstætt um nokkur atvik eins og þetta fyrir 46 árum rúmum. [Bls. 30 í handriti Bjarna]
[Bjarni var fæddur 1892 og hefur því verið 12 ára er þetta gerðist. Snorri var 3 árum eldri. Hann fór í langskólanám og varð læknir, síðast í Vestur-Skaft.]

Fyrsti sumardagur 1952

Eg fer til Björgvins Guðmundssonar á eftir og sit þar til kl. 6. Hann er að breytast, kjarkurinn að bila, hann er ekki eins ræðinn og áður, virðist ekki vita hvað best sé að tala um. Síminn hringir; það er Reykjavík. Jón Leifs vill fá hann suður á fund Tónskáldafélagsins. Björgvin harðneitar, á þeim forsendum að hann hafi engin ráð á því að fara til Reykjavíkur fyrir ekki merkilegra erindi, enda sé hann löngu orðinn leiður og reiður við alla þeirra stjórnsemi þar syðra. Svo skammar hann þá með vel völdum orðum, og segist ekki treysta neinum þeirra. Eg kveð svo litlu síðar og held heim. Enginn er heima, eg sest niður og skrifa bréf til konu minnar sem nú dvelur í Englandi. Um kvöldið sit eg svo uppi hjá Aldísi og Hauk til k. 11. [Þetta er aðeins lítill hluti af hugleiðingu Bjarna á þessum degi. Bls. 35]

Vorhret 1955  (Ritað 23. apríl)

Undanfarnar vikur hefur veðráttan verið mjög hagstæð um alt land, enda er það frekar óvanalegt að túnblettir séu farnir að grænka fyrir sumarmál. En síðasta vetrardag brá til kulda og var frost aðfaranótt sumardagsins fyrsta, þótti það góðs viti samkvæmt gömlum kreddum. Nú í morgun 23. apríl, var alt orðið hvítt niður í sjó og í allan dag hefur hríðað annað slagið og ekkert tekið.

Oft vill svo verða að sumar kemur ekki með sumri eftir almanakinu. Eg minnist í þessu sambandi eins vors á minni lífsleið. Það mun hafa verið vorið 1916. Eg átti nokkrar kindur og voru mér tilsagðar þær úr fóðrum á krossmessu 3. maí. Svo safnaði eg þeim saman, fékk lánað hús hjá Sigbirni á Ekkjufelli, keypti hey af Jóni á Hreiðarssöðum o.fl., svo keypti ég mér rúgmjöls hálftunnu, og með þetta tókst mér að bjarga þessum ám mínum frá því að horast niður og verða gagnslausar.

Eg settist að á Ekkjufelli fram yfir sauðburð og hirti um þessar ær, sem voru fáar, líklega 12 til 15. Hvern dag var hríðarhraglandi, og ærnar voru frekar illa fóðraðar, og því grannar þegar eg tók við þeim. Á hverjum degi bjó eg til rúgmjölsdeig og skipti því í jafna parta, sem eg gaf ánum einu sinni á dag, til að spara heyið. Altaf var eg að skoða ærnar, þreifa undir þær, giska á hverjar myndu bera fyrst, o.s.frv. Mér var strax farið að þykja vænt um þær, einkum þær sem bjuggust vel til, þ.e.a.s. þær sem eitthvað kom undir.

Ein var sú ærin sem mér leist ekki sem best á; það var kollótt tvævetla, sem var vel feit, en sem ekkert kom undir. Hvernig sem eg fór að þá kom ekkert undir hana. Eg huggaði mig við að hún bæri mjög seint. Svo var það einn morgun að eg kom frekar snemma í húsið, því þær voru eitthvað byrjaðar að bera. Þá sé eg að Kolla er borin og lambið er stórt og komið á spena; en júgrið var ekki stærra en svo að eg gat kreist það í lófa mínum. Nú hefðu flestir í mínum sporum tekið lambið strax og lógað því. En eg hefi aldrei getað aflífað skepnur og síst ungviði, mér hefði því síðast dottið það í hug að ráðast á blessað lambið og slátra því. En eg gerði annað, eg tók þá mjólk sem mér var ætluð út á graut og gaf lambinu hana. Þannig liðu nokkrir dagar. Svo kom góður dagur, þegar lambið var 4 daga gamalt, þá lét eg ána út og var að gefa henni auga. Hún rölti út af túninu og staðnæmdist í klauf sem er beint austur af bænum. Eftir þessari klauf lá reiðvegur þegar komið var neðan frá Lagarfljóti og farið upp Fell. Eg var nú eitthvað að bjástra heima við fjárhús, þá sé eg að maður kemur með tvo til reiðar norðan [austan?] klaufina og fer geyst. Um leið sá eg kind hrökkva undan hestunum, en hugsaði ekkert um það meir.

Nokkru seinna fór eg að huga að Kollu með lambinu, til að láta hana inn. En þegar eg kom austur í klaufina, þá stóð hún þar yfir dauðu lambinu, það lá þar rétt í götukantinum. Enn í dag er það sannfæring mín, að lausi hesturinn sem maðurinn teymdi, hafi farið yfir lambið og drepið það, en ef til vill hefur maðurinn ekki veitt því athygli.

Að öðru leyti gekk sauðburðurinn vel. Síðar um vorið, þegar smalað var til rúnings, þá hafði eg mikið fyrir að sameina á og lamb, sem ringlað var í sundur; man eg að eg reiddi lambið langan veg til að finna ána og koma þeim saman aftur. En mér var þetta strarf svo geðfelt, að aldrei fann eg til þreytu eftir slíka daga, þó eg væri allan daginn á þönum, matarlaus ef svo bar undir. Um haustið fór eg svo með þessar sömu ær í fóður til Einars í Möðrudal; var það ánægjuleg ferð sem tók 5 daga. Því miður átti það ekki fyrir mér að liggja að umgangast ær mínar þar, en sumar þeirra lifðu í góðu gengi þar á fjöllunum til 1920, og urðu góður stuðningur okkar á fyrstu búskaparárum, því þegar eg fór að búa á Arngerðareyri, þá fékk eg senda inneign mína frá Vopnafirði, sem nam 1300 kr., og var það mikið fé í þá daga. Auk þess fékk eg eitthvað frá mínum gömlu félögum, sem keyptu sumar ærnar til lífs, af því þær þóttu gefa góðan arð. [Bls. 45]

Nokkur minnisverð tíðindi á fyrsta ársfjóðrungi 1956

Eg var mjög ánægður með fyrstu jólin okkar í fyrstu íbúðinni sem eg eignaðist á æfinni [Bjarmastíg 15, sem Bjarni keypti í mars 1955 á 170 þús. kr.], og á Gamlárskvöld var undur gaman að sjá alla þá miklu flugelda sem upp í loftið fóru og blöstu við úr okkar íbúð. Höfum við aldrei séð eins mikla ljósadýrð á gamlárskvöld. Nýja árið byrjaði einnig vel, veður var stillt og bjart; við fórum til Búdda síðari hluta dagsins, en hann var ekki heima og þótti mömmu hans það mikið miður. Síðan var janúarmánuður nokkuð frostharður og miklar snjókomur. Var mikill snjór í gilinu sunnan við húsið okkar, og þar voru börn og unglingar á skíðum alla daga frá morgni til kvölds.. [Sleppt úr]

Síðustu daga mánaðarins komu hlýindi og allur snjórinn fór á mjög skömmum tíma, lá við að Gísli okkar yrði fyrir snjóskriðu sem kom ofan af þakinu, og kom hún á hann, en til guðs lukku var hann uppi á tröppunum, en hefði hann staðið neðan við tröppurnar þá hefði hann stórslasast.

Febrúar var hagstæður mánuður fyrir okkur. Þá voru altaf blíðviðri á Íslandi, þó mikið frost og kuldar væru suður um alla Evrópu, og jafnvel á Ítalíu dó fólk úr kulda og vosbúð. Sveinbjörn Jónsson, vinur okkar í Rv. átti sextugsafmæli þann 11 febr., og ætlaði þá að ferðast sér til skemmtunar og hressingar til útlanda, en varð að fresta því vegna kuldanna í nálægum löndum og erfiðleika þar á samgöngum á só...[Sleppt úr]

Þann 17. mars hélt Austfirðingafélagið á Akureyri sitt venjulega ársmót á Hótel KEA. Var það fjölmennt að vanda og fjörugt vel. Í þetta sinn var nýr háttur upp tekinn, að hafa ekkert sameiginlegt borðhald og engar veitingar innifaldar í aðgangseyri, svo hver og einn gæti sjálfur ráðið því hvað hann keypti sér. Vínveitingaleyfi var haft. Yfirleitt virtust flestir skemmta sér vel; þó var heldur þröngt í danssalnum, og fleiri konur en karlar, svo þær urðu nokkuð útundan. Auk þess var það töluvert áberandi að karlmenn yrðu ölvaðir þegar á leið, en ekki var samt hægt að segja að það ylli veisluspjöllum. Til skemmtunar var í upphafi fyrst ræða fyrir minni Austurlands, sem Ólafur Jónsson flutti, og kom víða við og rakti sögu Héraðsins í stórum dráttum, vildi halda að Austfirðir væru á eftir öðrum landsfjórðungum með margt, og miklir fólksflutningar hefðu verið þaðan síðasta mannsaldur. Svo var spurningaþáttur sem Jakob Árnason ritstjóri annaðist. Virtist fólk vera mjög dauft til að taka þátt í honum, því fjöldamargir gáfu sig ekki fram, þegar þeirra nr. voru útdregin. Að síðustu var svo happdrætti, og var dregið um málverk af Snæfelli, sem Emil Sigurðsson málaði. Það hlaut Björg Ólafsdóttir Jónssonar. Þar á eftir sagði formaður Austfirðingafélagsins nokkur orð. [Bls. 46]

Skírdagur 29. mars 1956

Eg vaknaði snemma og heyrði að Gísli var kominn á kreik, og þá var ekki um ró að ræða lengur, svo eg fór að klæða mig rétt á eftir Möggu. Veður var yndislegt, glaða sólskin og sunnanvindur, og sennilega 10 stiga hiti. Eg fór í sund og buslaði lengi í lauginni. Svo ætlaði eg út í Skjaldarvík til að hitta Einar Stefánsson frá Möðrudal, en þá var engin ferð þangað. Einar er vistmaður á elliheimilinu og er hálfgerður einstæðingur. Mér rennur til rifja að hugsa til þess hvað forlögin hafa skapað honum ömurlegt líf á síðari helming æfi hans. Eg læt hugann reika aftur í tímann.

Okkar fyrstu kynni voru við Gagnfræðaskólann á Akureyri, hann var þar í þriðja bekk þegar eg kom í fyrsta. Við dæmdumst til að búa saman þann vetur, af því hann átti engan svo góðan vin í sínum bekk, að þeir gætu sameinast um herbergi.

Svo var það árið 1912, ári eftir að hann útskrifaðist úr skólanum, að hann á leið hingað til Akureyrar, og ræður mig sem kaupamann í Möðrudal. Á öðrum stað hefi eg skrifað hvernig faðir hans snerist við þessari ráðningu, og endurtek ekkert af því hér. En eftir það lágu leiður okkar saman í 4-5 ár, og æfinlega reyndist Einar mér góður félagi, og margar ánægjulegar stundir áttum við saman í Möðrudal. Einar var sérlega söngelskur og hefði getað náð nokkurri tækni í hljóðfæraleik, ef hann hefði notið einhverrar kennslu. Við æfðum saman tvísöng að gamni okkar, og sungum nokkuð saman án undirleiks. Fólki á afskekktum stöðum, eins og uppi á Fjöllum, þótti gaman af þessum söng. Við vorum t.d. í brúðkaupsveislu á Grímsstöðum sumarið 1913, og sungum þar; fengum við mikið þakklæti fyrir þann söng.

Einar hafði gaman af hestum og átti góða reiðhesta. Hann seldi mér gráskjótta hryssu, sem var afbragðs reiðhross fyrstu ár sín, en fjörið dofnaði eftir að hún var búin að eignast 3 folöld. Undan henni eignaðist eg ágætis reiðhest, sem eg fékk til mín vestur á Arngerðareyri 1924; þá var hann sex vetra, ótaminn; það var listahestur, og gaf okkur hjónum margar ánægjulegar stundir.

Rétt 40 ár eru nú liðin síðan Einar tók við búi í Möðrudal að föður sínum látnum. Þá þótti mörgum eldri og reyndari mönnum hann sýna strax nokkurt ráðdeildarleysi, þegar hann réði til sín 3 kaupakonur sunnan úr Reykjavík. Þær voru allar óvanar sveitavinnu, aldar upp í kaupstað á góðum heimilum. En þetta fór alt betur en spáð var, og Einar þurfti ekkert að skammast sín fyrir þá ráðsmennsku sína. Hitt var annað mál, að hann var altaf ósjálfstæður í skoðunum og hvarflandi í framkvæmdum. Fyrir því var hann enginn maður til að búa á svo erfiðri jörð sem Möðrudalur var, og þegar svo jörðin skiptist í 6 staði, og lítil eining var innan fjölskyldunar, þá var ekkert undarlegt þó Einar biði þar lægri hlut og hrökklaðist burt af þeim vettvangi. En þá var eg kominn í annað landshorn og fylgdist ekkert með því sem gerðist, nema það sem mér var skrifað. Síðar lenti Einar til Ameríku og þar hlaut hann það áfall sem hann hefur aldrei beðið bætur af allt sitt líf.

Nú bæti eg hér við stuttri frásögn af gestrisni Einars og greiðvikni. Snorri bróðir minn stundaði læknisnám um þetta leyti og var á sumrin í Fossgerði [Jökuldal] hjá Guðmundi móðurbróður okkar. Einar hafið hitt hann sumarið 1913 og boðið honum að koma til Möðrudals; var svo komið að ferðin var ákveðin og tilgreind helgin, eg held 18. sumarhelgi. Veður hafði verið leiðinlegt þennan laugardag og um kvöldið gerði rigningu og þokusúld.

Einar hafði látið setja eitthvað af hestum í hús. Við vorum allir komnir frá vinnu og lágum í rúmum okkar og lásum. Einar var órólegur altaf að tala um hvort Snorri muni ekki fara að koma. Við sögðum að hann mundi hafa hætt við ferðina vegna veðurs. Ekki vildi Einar ganga inn á það. Alt í einu snarast hann á fætur og fer út; við heyrðum að það hringlaði í reiðtygjum, og eftir stutta stund er riðið úr hlaði. Svo líða nærri 2 tímar að ekkert gerist. Við vorum háttaðir og sumir sofnaðir, þegar riðið er í hlað, og nú heyrum við mannamál. Þarna voru þeir komnir Einar og Snorri. Einar hafði riðið á móti honum alveg upp á Möðrudalsfjallgarð, sem er 10 km leið, og þar mættust þeir. Snorri sagði mér síðar að aldrei mundi hann gleyma því, hvað þetta hefði glatt sig mikið, einkum þó að hafa hestaskipti við Einar og setjast á hans ágæta reiðhross, það hefði verið eins og að setjast í hægindastól og láta líða úr sér eftir hossið á illgengum klárum Guðmundar í Fossgerði.

Föstudagurinn langi 1957

Krossferli að fylgja þínum / fýsir mig Jesú kær. / Væg þú veikleika mínum / þó verði eg álengdar fjær. Ennþá hefur algóður faðir leyft mér að lifa marga dýrðarfagra daga, og finna þá fagnaðarsælu sem um mann streymir við komu vorsins, eftir dimman og kaldan vetur.

Þessi aprílmánuður hefur verið mjög góður og hlýr hér á Norðurlandi. Í gær var eg í kirkju og gekk til altaris. Það hefi eg gert of sjaldan á minni löngu lífsleið; sannast þar orð Páls postula: Hið góða sem eg vil gjöri eg ekki. Marga páskahátíð hefi eg upplifað um mína æfidaga, sem hefur verið gleðirík og vitnað um dásemdir drottins. Eg minnist guðs handleiðslu á þessum helgu dögum og hjálp hans frá háska.

Það var fyrir 40 árum síðan. Eg var þá í Möðrudal. Á páskunum kom þriggja daga stórhríð, svo iðulaus að ekki sá út úr augum. Eg hafði þann starfa að hirða hesta þá sem í húsi voru. Þeir voru í tveim hesthúsum, og gekk mér vel að finna þau bæði; en þegar eg var búinn að gefa hestunum, þá langaði mig til að hitta piltana sem hirtu féð; eg vissi að þeir voru í nyrstu húsunum á túninu, og þangað var vandratað af því húsin voru alveg á kafi í snjó. Eg varð því að treysta á athyglisgáfu mína, og hvað það tæki mig langan tíma að ganga þennan spöl.
Það fór svo að eg lenti framhjá húsunum, og fann það á mér, sneri því við og athugaði vel snjóinn. Allt í einu sá eg litla snjóköggla liggja ofan á fönninni, sem ekki gátu hafa losnað af sjálfu sér. Eg fór að leita þar í kring og fann brátt fleiri og stærri; þannig hélt eg áfram þar til eg fann holuna sem þeir piltar höfðu mokað upp þegar þeir voru að komast inn í húsið, sem alt var á kafi, eins og áður er sagt. Með okkur varð fagnaðarfundur, og litlu síðar lögðum við 3 af stað heim á leið, með sinn pokann hver á bakinu, fullan af heyi handa kúnum. Veðrið tók okkur strax og feykti okkur áleiðis undan storminum, á leið heim. En við vorum ekki nógu varkárir með stefnuna, og áður en varði vorum við komnir framhjá bænum, en þá rákumst við á gamalt túngarðsbrot sem var upp úr snjónum, og það varð okkur til bjargar, því eftir þessu garðbroti gátum við leiðrétt okkur og komist heilir heim. Eg minnist atburðar á skírdag fyrir 33 árum, vestur á Arngerðareyri. [Sleppt hér / Bls. 50]

Apríl 1957

Eg var að koma frá því að fylgja gömlum kunningja til grafar, en það var Erlendur Erlendsson skósmiður, sem var orðinn 87 ára gamall þegar hann dó. Ekki man eg nú lengur hvenær við Erlendur sáumst í fyrsta sinn, það getur vel hafa verið á Seyðisfirði, þegar eg sem unglingur var þar í lestaferðum, eða á Vopnafirði sumarið 1913, þegar við Einar Stefánsson fórum lestaferð frá Möðrudal þá um sumarið, með ullina á 18 hestum. Sú ferð var að mörgu leyti talsvert eftirminnileg, en það verður þó ekki rakið hér.

En sumarið 1928 var eg um 5 mánaða tíma á Vopnafirði og þá kynntist eg fyrst Erlendi; varð sú kynning til þess að við vorum alltaf góðkunningjar upp frá því. Hann var einn af þeim mönnum sem settu svip sinn á þetta fámenna og fátæklega sjávarþorp. Árla sást hann á ferli þar í plássinu og áhugasamur var hann með útgerð sína, fylgdi því fast eftir að farið væri á sjóinn hvenær sem veður og færi gafst. Gárungarnir sögðu að það mætti altaf sjá það á Erlendi, hvort vel eða illa gengi. Ef honum fanst eitthvað mótdrægt þá barði hann stafnum fastara niður og mun haltari en vanalega, eins var hann þá mjög brúnaþungur og bölsýnn oft í tali. En ef alt gekk vel, þannig að fiskur væri nógur, og honum líkaði sæmilega við kaupmanninn sem fiskinn keypti, þá hló hann og sagði gamansögur og þurfti lítið að styðja sig við stafinn. Hann var eðlisgreindur og glöggur á margt í hinu daglega lífi, vel kynntur af nágrönnum sínum og öllum sem hann umgekkst

Annars langar mig til að minnast á fleiri sem eg kynntist þetta sumar og annað sumar sem eg var á Vopnafirði. Fyrst var það þá læknirinn, Árni Vilhjálmsson, hann var einn af þeim fáu sem eg þekkti ögn, fyrir því að við vorum búnir að vera saman í skóla. Ekki var hann aðlaðandi eða skemmtilegur, og stundum, ef illa lá á honum, þá var hann þurr og kaldur, jafnvel fráhryndandi. En svo gat hann verið glaður og reifur og leikið á als oddi, þá hló hann bæði hátt og hjartanlega. Þau hjón voru mjög gestrisin, einkum þó hún, sem var hvers manns hugljúfi, og mildaði allt þó maður hennar busaði eitthvað.

Þá var það kaupfélagsstjórinn, Ólafur Methúsalemsson. Hann hafði alltaf yfir sér einhvern aristókratískan blæ, sem hélt mönnum í hæfilegri fjarlægð frá honum, án þess þó að hann væri nokkurntíma ókurteis eða þóttafullur. Hann gekk mikið um plássið, kastaði kveðju á menn og leitaði frétta hjá þeim sem hann hitti á förnum vegi. Ræðinn var hann og gat verið skemmtilegur. Þau hjónin voru glæsileg og settu svip á þorpið.

Næst vil eg minnast á Einar Runólfsson kaupmann. Hann er sá maður sem líklega er mestur vandi að lýsa. Þegar eg var þarna var hann hniginn mjög á efri ár og því kannski farinn að tapa sér. Þau hjón bjuggu í snotru húsi í miðju þorpinu og hafði hann búðarholu á neðri hæðinni, og þar var hann sjálfur við afgreiðslu alla daga. Auk þess mun hann hafa haft póstafgreiðslu, og þar kom samviskusemi hans mest fram. Nágrannar hans sögðu að það kæmi mjög oft fyrir að hann þyrði ekki annað en brjóta upp innsigli, sem hann var nýbúinn að setja fyrir poka, því þá var hann ekki alveg viss hvort þetta eða hitt bréfið var raunverulega komið í pokann. Minnisstæðastur verður Einar mér frá heimsóknum sínum í Guðna-hús og löngun hans eftir að spila bridge, en hún var mjög mikil, og mátti heita svo að hann kæmi að jafnaði annaðhvert kvöld til að spila við okkur. Hann gat verið skemmilegur við spilin, einkum ef honum gekk vel, og æfinlega var hann ljúfur og hæglátur og orðvar. En hann var sérkennilegur á ýmsa lund.

Í 15 ár hefi eg notað sumarfrí mitt til að fara austur á Hérað, og aldrei fallið úr ár nema sumarið 1951, en þá var Valgy okkar hér hjá okkur með manni sínum í mánuð.

Síðastliðið sumar (1956) fór eg að vanda austur, og í þetta sinn fékk eg far með þeim Þórólfssonum, Birni og Richardi. Nú var eg ekki heppinn með veður; það voru aðeins 3 fyrstu dagarnir sem eg var fyrir austan, sem voru virkilega góðir. Þá var eg á Urriðavatni hjá vini mínum og frænda, Jóni Ólafssyni, og naut þess mjög vel. Við erum fermingarbræður og vorum oft saman á unga aldri, þó við ættum ekki sama heimili. Hann er staðfastur og tryggur.

Þegar eg rifja upp gamlar minningar frá okkar æsku, þá er margt sem þar ber fyrir hugarsjónir. Eg sé þenna unga og glæsilega mann verða ástfanginn af fermingarsystur okkar, sem eg hefi líka ágætar endurminningar um; hún mun hafa endurgoldið honum ást sína, og allt virtist því geta endað vel. En örlögin eru flókin og stundum miskunnarlaus. Vini mínum varð það á að eignast barn með giftri konu þar í sveit. Þá var hann rétt tvítugur, og konan mikið eldri en hann. Þetta leiddi til þess að ekkert varð af sambandi milli fermingarsystkinanna. Þar mun margt hafa til komið, einkum þó foreldrar hennar, sem altaf höfðu verið á móti þessu, en notuðu nú tækifærið til að þröngva henni til að giftast öðrum manni, sem hafði sótt mjög eftir henni áður, en sem hún mun ekki hafa elskað, enda varð hjónaband þeirra ófarsælt og án nokkurs kærleika. Þetta er ein af mörgum raunasögum, þar sem eitt einasta synda augnablik orsakar ævilangt skipbrot. Og þó veit maður ekki hvernig hjónaband þeirra hefði orðið. Það gat líka hafa mislukkast.

Nú erum við báðir hálfsjötugir og höfum gaman af að hittast og rifja upp eitt og annað frá liðnum árum. Eg hafði gaman af að veiða silung með honum á síðastliðnu sumri, og sömuleiðis að fara í smalamennsku með honum og rýja ærnar og reka til fjalls. Allt þetta vekur svo góðar endurminningar frá löngu liðnum tíma. Annars var eg óheppinn með veður hinn hlutann af fríinu, og naut mín ekki, svo eg er að hugsa um að fara ekki austur næsta sumar, þó guð gefi mér það að lifa svo lengi. Eg held líka að svo geti farið að fólk fái leið á mér ef eg kem á hverju ári.

Fyrst eg er að rifja þetta upp um tvö fermingarsystkin mín, þá langar mig að nefna hina 2 fermingarbræður mína. Bergsteinn Brynjólfsson á Ási hefur verið þar alla sína æfi. Eg kynntist honum ekki mikið í æsku, af því það var of langt í milli okkar. En öll mín kynni af honum hafa verið mér til gleði; hann hefur ætíð sýnt mér vináttu þegar fundum okkar hefur borið saman; hann er yfirlætislaus og að því leyti mjög ólíkur þeim frændum sínum, Egilsstaðabræðrum. Hann er giftur frænku minni, Margréti Jónsdóttur, en faðir hennar og móðir mín voru systkinabörn. Þau eiga 3 uppkomna syni og 1 dóttur. [2 dætur, sú þriðja fórst 1946]

Sigurður Sigbjörnsson frá Ekkjufelli er mér mjög hugstæður fyrir öll okkar góðu kynni sem drengir og ungir menn. Eg laðaðist um tíma mjög að heimili hans og fanst það vera þá skemmtilegasta heimilið í minni sveit. Mest mun það hafa stafað af því að þar voru mörg börn á sama aldri og eg, eða svipuðum. Auk þess var þessi bær í þjóðbraut og var þar oft miðstöð ungs fólks til að hittast. Þar var líka mikil gestrisni um hönd höfð, meiri en víða annarstaðar, og mikill gestagangur. Þetta setti alt svip sinn á heimilið. Börnin voru öll vel innrætt og skemmtileg. En nú þegar svo langt er umliðið þá finnst mér eg hafa bestar endurminningar um Sigurð. Hann var veitull og hlýr, vildi hvers manns vandræði leysa. Vegir okkar hafa ekki legið saman neitt að ráði síðan við skildum ungir menn, aðeins rekist saman eina og eina dagstund, og þá hefur hann verið sami góði drengurinn sem fyr. Auk þess hefur hann altaf notað tækifærið og glatt mig með einhverri gjöf. Yfirleitt verð eg að segja það, að mín fermingarsystkini hafa verið góðir fulltrúar okkar kynslóðar, og eg má vera þakklátur ef eg fæ jafngóðan dóm og þau munu fá frá samtíð sinni. En gott varað njóta kynna við þau, lof sé guði fyrir það, eins og allt ananð gott mér auðsýnt í lífinu. [Bls. 52-53 í handriti Bjarna]

Fyrsti sunnudagur í sumri, 28. apríl 1957

Túnin eru farin að grænka, trén að springa út. Farfuglarnir eru margir komnir. Allt ber vott um komu sumarsins. Eg byrjaði daginn með að fara í sund. Þar var margt af ungu fólki, sem auðsjáanlega naut þess að vera til. Þetta var skólafólk sem nú er að lesa undir vorprófin, og þarfnast líkamlegrar hressingar, svo sálin verði meira opin fyrir kjarna hinnar andlegu fræðslu sem þeim hefur verið miðlað á liðnum vikum og mánuðum.

Eg var þarna, einn gráhærður öldungur, innanum tugi ungra manna og kvenna, og auðvitað á eg ekki lengur samleið með þessu fólki, enda fann eg það að eg er þeim alveg óviðkomandi, eða eins og loft sem var utan við þeirra sæluríki.

Hugurinn hvarflaði til þess tíma þegar eg var að lesa undir próf. Eg minnist hinna yndislegu vordaga fyrir 44 árum, þegar eg þreytti hér gagnfræðapróf, og las undir það með mínum kæra vini Helga Ingvarssyni. Þá fanst okkur gaman að lifa og við lifðum í okkar eigin heimi. Allt sem var utan við hann fannst okkur vera okkur óviðkomandi.

Þó var undantekning með hina æruverðugu kennara okkar, sem við bárum fulla virðingu fyrir, og vildum koma okkur sem best við, svo þeir tækju síður strangt á veikleika okkar og þeim götum sem við kynnum að gera. Fram á síðasta dag fanst mér eg vera nokkuð öruggur með mig. Kveið þó altaf fyrir stærðfræðinni, því eg fann hjá mér einhverja vöntun og skilningsleysi á grundvallaratriðum hennar. Það fór líka svo að eg strandaði í henni, og var það í einhverri formúlu sem eg átti að kunna en kunni ekki. Eg var utan við mig þegar eg fór frá prófborðinu og ætlaði að fara upp á herbergi mitt og jafna mig, en þá heyrði eg að röðin væri komin að mér í landafræði, svo eg ranglaði þar inn, sem eg hefði ekki átt að gera. Eg hafði lesið landafræðina mjög vel, og var nú svo öruggur með að eg mundi gera hana upp á 7, en þarna var eg alveg úti að keyra; hugur minn var ennþá bundinn við stærðfræðina og það niðurlag sem eg beið þar. Það stóðu í mér einföldustu spurningar. Sérstaklega man eg eftir að eg kom upp í löndunum á Balkanskaga, og var spurður um sundið milli Grikklands og Ítalíu og mundi ekki hvað það hét. Eg fékk 5, og Stefán skólameistari grét þegar hann hitti mig síðar um daginn, yfir því hvað eg stóð mig illa.

Annars eru fyrstu sumardagarnir í mínum endurmnningum mest bundnir við sveitina og skepnurnar þar, þær sem eg umgekkst sem ungur drengur.

Eg minnist þess þegar eg var 9 ára, þá var eg kominn í Hreiðarstaði með fóstra mínum. Þar lék eg mér að hornum og kjálkum, og hafði það uppi á hjallanum fyrir ofan bæinn. Það var svolítill, ávalur klettur á bak við ysta húsið á túninu, með sléttum grasfleti á, þar geymdi eg hjörðina mína, og þar byggði eg smáhús og réttir til að safna því í. Svörtu hornin voru forustuféð. En svo átti eg líka hesta, og þeir voru ekki þarna með, enda voru þeir allir smíðaðir úr tré eða hornum, en það voru reiðhestarnir. Hinir hestarnir voru leggir úr kindafótum, og voru þeir litaðir sumir, mest með ljósreyk. Með þessa hesta var eg stundum hjá bæjarlæknum, og hafði gaman af að láta hestana synda í læknum. Á einum stað í læknum var svolítill foss eða buna, og undir var svo kringlótt hola, svolítið djúp. Löngum stundum sat eg við þessa bunu og söng: "Bunulækur blár og tær / bakkafögur á í hvammi".

Einusinni á sumardaginn fyrsta var eg sem oftar að reyna gæðingana á sundi; eg átti þá einn hest, mesta kjörgrip, smíðaðan úr hreindýrshorni; ekki man eg hver gaf mér hestinn, en mér þótti sérlega vænt um hann og kallaði hann Léttfeta. Með þennan hest var eg þennan dag og fanst endilega að eg þyrfti að láta hann þreyta sundið með hinum hestunum, svo eg lét hann í lækinn rétt fyrir ofan fossinn og hann fór strax á kaf, en sökk ekki alveg, heldur bar straumurinn hann fram af brúninni og niður í hylinn, en hann kom ekki aftur í ljós þar, og hvernig sem eg leitaði að honum, þá var mér alveg ómögulegt að finna þennan uppáhalds gæðing minn aftur. Marga daga á eftir varð mér reikað suður að læknum og þreifaði alstaðar undir bakkana, en aldrei fann eg Léttfeta og saknaði eg hans mikið. Löngu seinna eignaðist eg góðan reiðhest og langaði til að láta hann heita Léttfeta, en eg var svo hjátrúarfullur að eg hélt að einhver ógæfa fylgdi þessu nafni, og því fékk sá hestur annað nafn. Hann varð okkur hjónum til mikils yndis og er það önnur saga. [Bls. 54 í handriti Bjarna]

Júlí 1957

Eins og vant er þá fæ eg altaf löngun til að rifja upp nokkuð af því sem fyrir mig hefur komið í mínu sumarfríi. Eg fór í þetta sinn flugleiðina austur á Hérað. Var staðráðinn í því að fara austur nú í sumar. En þann 17. júlí var símað til mín frá Egilsstöðum og mér sagt að eg yrði bara að koma austur þann dag. Eg hlýddi skipuninni, enda var eg þegar kominn í frí, svo mér var ekkert að vanbúnaði.

Það var reglulega gaman að fljúga austur þennan dag. Fjallasýn mjög góð og alla leiðina glaða sólskin. Með mér í vélinni var Hulda Gísladóttir frá Skógargerði, og þegar komið var yfir Héraðið fórum við að hafa augun hjá okkur, enda var virkilega gaman að sjá þar yfir þennan dag.

Á flugvellinum tóku þeir Nonni frændi og Ólafur sonur hans á móti mér, og svo tóku þeir Huldu líka með í Urriðavatn. Eg var svo hjá mínum gamla vini og fermingarbróður 4 fyrstu dagana þar eystra, og komst í það að rýja, smala og reka fé, alt á hestum auðvitað. Svo var strax byrjað á silungsveiðinni; við frændurnir lögðum á kvöldin og drógum upp á morgnana, fengum altaf eitthvað, flest 10 silunga í 3 net. Svo var eg við heyþurkinn, því altaf var þurkur á hverjum degi.

Á meðan eg var á Urriðavatni var haldið hestamannamót á Egilsstöðum 2 daga, það var hrossasýning, kappreiðar og góðhestakeppni. Við nutum þess reglulega, frændurnir, að vera þarna, höfðum báðir ætíð haft gaman af góðum hestum og átt góða hesta. Þarna hitti eg að vanda ýmsa gamla kunningja, sem eg hefi hitt á undanförnum árum. Það er altaf einhver fróun í því að sjá gamalkunnug andlit, þó ekki sé nema rétt í svip.

Svo fór eg í Hafrafell og þar endurtók sig sama sagan að mestu; eg var alla daga úti við heyþurk, og fékkst við silungsveiði, sem þar bar þó ekki teljandi árangur. Við vorum að tala um það, að eg myndi hafa gaman að koma í Grímstorfuna, sem eg hefi ekki komið í síðan eg var drengur. En úr framkvæmdum varð nú ekki. Á Hafrafelli var sú breyting á orðin, að nú var Sigríður Sigfúsdóttir horfin þar; hún dó síðastliðið vor. Mér fanst mikil vöntun á heimilið, eða eg saknaði einhvers, til að byrja með. Sigríður var búin að vera mikil stoð fyrir Hafrafells heimili í þau 50 ár sem hún var búin að dvelja þar.

Nú rifjaðist upp fyrir mér atvik frá árinu 1908. Eg var þá kaupamaður á Hvanná, og þá voru ekki tíðar ferðir milli Jökuldals og Héraðs. Runólfur á Hafrafelli gifti sig það sumar fyrrgreindri Sigríði og var mikil veizla, boðið fólki úr nærliggjandi sveitum. Runólfur sendi orð með einhverjum að eg væri boðinn í veizluna, en eg fékk ekki boðin fyrri en sama daginn og veizlan var og gat því ekki farið. Það sveið mér sárt, því eg vissi að þessi veizla var óvenju stórbrotin, og heilt ævintýri fyrir ungling sem alinn var upp í sveit.

Síðar frétti eg ýmislegt úr veizlunni sem þótti þess vert að halda því á lofti. Það var 2 árum áður sem einn háttsettur maður á Héraði var að ögra Runólfi með því að hann myndi vart giftast úr þessu, og hét honum því að hann skyldi gefa honum hest og aktygi, ásamt kerru, ef hann yrði giftur innan tveggja ára, og Runólfur vann heitið.

Þetta var nú útúrdúr, enda ekki neitt sérstakt um að skrifa. Eg fór frá Hafrafelli í Holt og var þar í 3 daga, þá aðgerðarlítill, því þar var ekki neitt hey til að hirða, enda var veður þá orðið kalt og úrfelli nokkurt. Svo kom eg í Birnufell og Setberg og endaði aftur á Urriðavatni.

Yfirleitt var eg mög ánægður yfir að hafa farið austur og notið ennþá sumarhlýjunnar á fornum æskustöðvum, rifjað upp gamlar og góðar minningar. Eg kom líka snöggvast að Hreiðarstöðum, þar sem eg dvaldi mest eftir að eg fór að fást við skepnur haust og vor. [Bls. 55]

Haust (6. okt. 1957)

Það er komið haust og það er 6. okt. 1957. Sumarið er senn á enda, það er eitthvað það besta sumar sem eg hefi lifað, sólríkt, hlýtt og þurt. Sumarið 1915 var mjög gott og ef til vill sambærilegt við þetta sumar. Eg var þá í Möðrudal það sumar og er mér það á margan hátt minnisstætt. Eg var þar meðal góðra vina, þar á meðal voru 4 skólabræður mínir frá Gagnfræðaskóla Akureyrar. Heyskapur gekk vel, en var þó ekki mikill, af því svo mikil þurkatíð var, svo engi var fremur snöggt. Annars virtist Stefán bóndi vera ánægður með það. Hann bað mig að vera fram yfir göngur, og þótti mér vænt um það.

Eg lenti svo í göngum með honum suður á Brúaröræfum og gistum við í Arnardal. Við komum þar rétt fyrir dimmingu og fórum strax að tína okkur sprek til að hita kaffi, en það gekk mjög illa. Það var mikill stormur og við ætluðum að hita inni í jarðhúsinu sem við sváfum í, en reykinn lagði allan niður um opið á kofanum, og við vorum nærri búnir að kæfa okkur þar inni. Svo hættum við alveg við að hita kaffi, týndum okkur melju til að hafa á kofagólfinu til að liggja á, og svo lögðum við okkur til svefns.

Daginn eftir var ágætt veður; við fórum mjög snemma og skildu þá leiðir. Eg fór suður allan Álftadal og reið geyst, en hann fór með safnið niður með Arnardalsá. Svo eftir þriggja tíma harða reið, kom eg aftur til baka í Arnardal, án þess að sjá nokkra kind. Eg sundreið Arnardalsá og náði Stefáni niður undir Jökulsá. Síðan héldum við út með henni og komum í myrkri heim í Möðrudal um kvöldið með 200 fjár.

Eg var svo alt haustið í Möðrudal, og Stefán bað mig að vera hjá sér um veturinn, en eg hafði von um barnakennslu í Fellahreppi, og beið eftir að vita hvað því liði. Svo var það í síðustu viku sumars, að eg fékk skeyti, þar sem mér var tilkynnt að eg hefði verið settur kennari í Fellahreppi, til helminga við Eirík Sigurðsson. Eg tók því boði og iðraðist aldrei eftir því, einkum vegna þess, að þeir atburðir gerðust í Möðrudal þennan vetur, að eg mátti teljast heppinn að hafa ekki verið þar. Að því hefi eg vikið annarstaðar.

Sumarið 1916 var einnig mjög gott sumar, og þó sérstaklega haustið. Mér er þetta sumar einnig mjög minnisstætt, enda má segja að þá hafi skapast örlög mín að miklu leyti, því það sumar kynntist eg konu minni, sem hefur verið minn lífsförunautur í nærri 38 ár.

Framan af sumrinu var eg austur á Héraði og kom ekki til Möðrudals fyrri en í byrjun júlí; var þá byrjaður heyskapur, og mér er það minnisstætt, að eg kom ekki til Möðrudals fyrri en eftir háttatíma, og á leiðinni ofan frá Fjallgarðinum naut eg þess að vera einn í næturhúminu og virða fyrir mér kunnar slóðir. Nóttin var björt og eg sá að byrjað var að slá á engjum sunnan við Desjarnar. Þetta var ef til vill mesta gleðisumar sem eg hefi upplifað, því þarna var mikið af glöðu fólki saman komið í Möðrudal.

Þetta sumar keypti eg af Einari gráskjótta hryssu með folaldi, og til að heyja handa henni fór eg rétt fyrir göngurnar austur í Hreiðarstaði og var þar 2 vikur, fékk engjar hjá Jóni. Þá var dásamleg veðrátta og man eg sérstaklega eftir hvað það var gaman að vera þar einn með sjálfum sér, þessa daga sem eg var að heyja fyrir Skjónu. Eg hafði hana hjá mér og var sérstaklega hrifinn af folaldinu, enda reyndist það afbragðs reiðhestur síðar, þó eg gæti ekki fengið hann til mín vestur á Arngerðareyri fyr en hann var 6 vetra.

Eg var þarna á Hreiðarstöðum fram yfir göngur, og þá lagði eg á stað til Möðrudals með kindur mínar, sem eg hafði komið þar í fóður hjá Einari. Það voru eitthvað um 15 kindur sem eg fór með þangað, og sumar þeirra átti eg þar í 4 ár, eða þar til eg var byrjaður búskap á Arngerðareyrai 1919. Ferðin með kindurnar var mjög ánægjuleg, og var eg sérlega heppinn með veður og allt, og var þá vel tekið á móti mér í Möðrudal, eins og raunar æfinlega, og öll minning mín um þann stað er óblandin ánægja, og eftir því sem eg eldist finn eg betur og betur að hvergi mun mér hafa liðið betur en þar. [Bls. 57]

 Föstudagurinn langi 1958

Í gær var eg til altaris hjá séra Pétri Sigurgeirssyni, ásamt með um 30 manna hóp af konum og körlum. Það var hátíðleg stund, og eg vildi óska að hún yrði okkur öllum til betrunar og blessunar.

Þegar eg var til altaris í fyrsta sinn, þá skildi eg ekki til hlítar hvað þessi athöfn fól í sér. En eitt er mér minnisstætt. Við fermingarbörnin vorum bara 5 sem vorum tekin til altaris saman, og þegar presturinn rétti mér bikarinn þá hallaði hann honum ekki svo mikið að eg næði að væta varir mínar í víninu, og fór eg því á mis við það að bergja af kalek Krists, og fanst lengi á eftir að eg myndi ekki hafa verið verðugur þess.

En í dag er verið að minnast krossgöngu Krists og krossfestingu. Það er mesti sorgardagur kristninnar og táknar allt það mótlæti og hverfulleik þessa jarðneska lífs; það minnir okkur á daga sorgarinnar í lífi okkar, og að við getum á hverju augnabliki átt von á að sjá á eftir ástvinum vorum yfir landamæri lífs og dauða. Eða verið kvödd héðan sjálf, fyrirvaralaust.

Margir hafa sinn kross að bera gegnum lífið, sumir stælast við mótlætið og þroskast andlega við að glíma við erfiðleika. Aðrir örmagnast undir sínum krossi, og ef enginn samferðamaður léttir þeim byrðina, þá endar það ekki nema á einn veg, að þeir gefast alveg upp. Það verður sjálfsagt altaf hægt að deila um það hverjir eru mestu krossberar þessa lífs. En margir munu mér sammála, að þeir sem minnst hefur verið gefið af andlegum skilningi og skynsemi, þeir séu aumastir allra, þvi þeirra kross er svo þungur að það er oft ekki á nokkurs færi að létta þeim byrðina.

Þegar eg var drengur þá var eg vetrarpart við nám á heimili þar sem systir bóndans hafði orðið vitskert á unga aldri, og dvalist eftir það hjá bróður sínum. Þessi kona var nú þarna á heimilinu og gerði ekki flugu mein. En hvort það hefur verið fyrir það að hún hefur sjálf kosið að vera ein og út af fyrir sig, eða hitt að hún var svo mikill sóði að hún taldist ekki geta verið meðal fólks af þeim sökum, veit eg ekki, en þegar eg var þarna þá var hún höfð í fjósinu, og búið um hana í svolitlu skoti eða bás í öðrum enda fjóssins. Aldrei heyrði eg hana tala neitt, en mér var sagt að hún skildi allt sem við hana var sagt og gæti talað þegar hún vildi.

Mér er enn í minni að sjá útganginn á þessari manneskju, þegar hún var á ferli, það var hörmulegt, hún hafði einhverjar fatadruslur utan um sig til að skýla nekt sinni. Þá var ekki venja á heimilum að hafa sérstök náðhús, heldur urðu allir að gera sér að góðu að fara út í náttúruna og á vetrum að fara í fjósið og gera öll sín stykki í flórinn. Svo var og þarna, og var fjósið einkum notað á vetrum. Innangengt var í öll fjós þá, þar sem eg þekkti til, og voru oft nokkuð löng göng úr eldhúsi til fjóss.

Mér þótti mjög miður að þurfa að fara þarna í fjósið og gerði það ekki nema þegar eg var tilneyddur. Þá kom það mjög oft fyrir að eg rakst á konuna í þessum göngum, og getið þið hugsað ykkur hversu óhuggulegt það hefur verið fyrir barn að reka sig á lifandi veru í svarta myrkri, sem ekki gaf neitt hljóð frá sér.

Oft hefi eg um þessa konu hugsað síðan, og aldrei getað gert mér grein fyrir því hvað mikið hún skynjaði af hinu daglega lífi. En mér var sagt að hún hefði verið mjög vel gefin, bæði til sálar og líkama, áður en þetta hertók hana, og mér finst alltaf með sjálfum mér að hún hafa haft fullt vit og vitað hvað sagt var og gert, og þetta hafi bara verið að nokkru leyti samferðafókinu að kenna, að hún fékk ekki sína fullu heilsu aftur, en ef til vill hefi eg rangt fyrir mér. [Bls. 59 í handriti Bjarna]
[Kona þessi hét Anna Þorbjörg Björnsdóttir og var systir Sigbjörns bónda á Ekkjufelli, hún veiktist um fermingaraldur. Guðbjörg Guðmundsdóttir, móðir Margrétar húsfreyju, hafði herbergi á fjósloftinu, yfir kamesi Önnu, og leit til með henni. Guðbjörg vildi ekki flytja í nýja steinhúsið, vegna þess að þar komu upp mannabein í grunninum. Líklega hefur fjósið verið hluti af gamla torfbænum. sjá Ekkjufellsbók, bls. 140 og 194]

 Eldaskírdagi, 10. maí 1958

Í uppvexti mínum var meira talað um eldaskírdaga og vinnuhjúaskildaga en nú tíðkast. Þá voru þetta oft viðburðaríkir dagar, sem settu sitt svipmót á sveitalífið. Vinnufólk var þá margfalt fleira en það er nú, og var oft að hafa vistaskifti. Samhliða því, og í beinum tengslum við það, var líka hinn svokallaði eldaskírdagi, þegar skilað var úr fóðrum eða eldum.

Mest af þeim skepnum sem teknar voru í fóður voru tilheyrandi vinnufólki eða lausafólki, og þann 10. maí átti það að taka við sínum skepnum. Oft var það að menn stóðu þá uppi heylausir fyrir sínar skepnur, því það vildi bregðast að sumargróðurinn kæmi svo snemma að hægt væri að treysta á hann um miðjan mai.

Eg minnist þess vorið 1916, þá fékk eg að kynnast þessu af eigin raun. Eg hafði smátt og smátt verið að koma mér upp kindum, eftir að eg var búinn í skóla, og voru ýmsir sem höfðu þær á fóðrum fyrir mig. Þetta vor gaf faðir minn mér nokkrar ær til viðbótar, ég held einar 5, og með þeim var æreign mín orðin 12 til 15 stykki.

Nú var þetta vor óvenju hart, og þeir sem höfðu þessar kindur óskuðu eindregið eftir að vera lausir við þær 10. maí og tilkynntu mér það. Eg fór þá á stúfana og útvegaði mér hús hjá Sigbirni Björnssyni á Ekkjufelli, og svo fór eg til þeirra sem helst höfðu hey aflögu og falaði hjá þeim nokkra bagga. En lítið var það sem eg fékk hjá hverjum. Oftast var það nokkrir pokar í stað. Svo útvegaði eg mér hálftunnu af rúgmjöli, og með þessu kom eg svo ánum fram og missti mjög lítið af lömbum. En kuldar og él héldust alveg fram um mánaðamót maí og júní, en þá kom loksins hlýrra veður og nægur gróður. Það mun hafa verið kringum 3 vikur sem eg dvaldi með kindur mínar á Ekkjufelli áður en eg gat sleppt þeim.

Í þessu sambandi vil eg geta þess, að um vorið þegar smalað var til rúnings, þá haði eg mjög mikið fyrir að ná saman ám mínum, og einu atviki man eg eftir í því sambandi, að eg eyddi heilli nótt í að koma saman á og lambi, sem hafði verið aðskilið á Birnufelli; kom ærin í Ekkjufell en lambið í Staffell.

Um haustið fór eg svo með þessar ær mínar til Möðrudals flestar, af því eg hafði samið við Einar Stefánsson að hann tæki þær í fóður. Þar átti eg þær flestar til ársins 1919, eða í 3 ár, og voru þær farsælar, og þegar eg fékk andvirði þeirra frá Hinum sameinuðu ísl. verslununum á Vopnafirði haustið eða veturinn 1919, þá var það mesta peningaupphæð sem eg hefi tekið á móti fram til þessa dags sem minni eign, og varð mér grundvöllur við stofnun nýs heimilis.

Fyrst eg fór að skrifa um veturinn 1915-16, þá vil eg bæta hér við, að þann vetur var eg farkennari í Fellahreppi, til helminga við Eirík Sigurðsson, og hafði eg miðhlutann af hreppnum og kenndi á 3 bæjum, en þeir voru þessir: Hreiðarsstaðir, Ormarstaðir og Staffell. Próf tóku um vorið 8 börn; var prófað á Ormarstöðum, og var prófdómari hjá mér Guttormur Vigfússon alþingismaður í Geitagerði; lauk hann miklu lofsorði á börnin fyrir góða kunnáttu.

Næsta vetur á eftir var eg einkakennari í Möðrudal og Víðidal, og var þá mikið að hugsa um að leggja fyrir mig barnakennslu, því eg fann að eg hafði áhuga fyrir því og sennilega nokkra hæfileika. En þá um veturinn fékk eg bréf frá Otto Tulinius á Akureyri, og efni þess var að biðja mig að koma til sín sem verslunarmaður. Eg hafði áður verið hjá honum tæpt ár og líkaði þá mjög vel þar. Svo eg sló til að réði mig til hans, en það gerði svo út um æfistarf mitt, því síðan hef eg fengist við verslunar- og skrifstofustörf allt til þessa dags, og héðan af verður aldrei um það sagt hvort hefði verið farsælla fyrir mig. Þar er um engan samanburð að ræða.

En þegar eg var að ljúka prófdómarastörfum við Barnaskóla Akuryrar nú fyrir 3 dögum, en það var í tuttugasta og fimmta skipti sem eg er þar prófdómari, þá fanst mér að eg mundi tæplega hafa haldið svona lengi út sem barnakennari, og að mitt geðslag hefði ekki þolað ýmsa erfiðleika sem því eru samfara að vera kennari. Svo það hefur sjálfsagt verið farsælast að svo fór sem fór. [Bls. 63 í handriti Bjarna]

 Í sumarleyfi á Austurlandi 1958

Laugardaginn 2. ágúst lögðum við af stað til Austurlands með rútunni, ég og tengdadóttir mín. Veður var bjart en sólarlaust mestan hluta leiðarinnar. Við borðuðum miðdag í Hótel Reynihlíð. Á öðrum stöðum var ekki staðar numið svo teljandi væri.

Við Lagarfljótsbrú urðum við eftir af rútunni, og þar beið Bragi Hallgrímsson með sinn Landrower, til að taka tengdadóttur mína með sér upp í Holt. En eg hringdi til Urriðavatns og var Ólafur Jónsson kominn eftir mér að 15 mín. liðnum. Á meðan beið eg í sölubúð Sigbjörns Brynjólfssonar, sem var full af ungu fólki sem ætlaði að skemmta sér í Egilsstaðaskógi um nóttina.

Allir voru glaðir og reifir á Urriðavatni og tóku vel á móti mér. Daginn eftir (sem var sunnudagur) var léttskýjað og hægviðri. Við fórum á Héraðsmót Sjálfstæðismanna í Egilsstaðaskógi, var það mjög fjölsótt, svo eg hefi aldrei séð svo margt fólk þar saman komið áður. Nokkuð var þar um drykkjuskap og spilti það fyrir skemmtuninni, einkum þegar leið á kvöldið.

Eg var á Urriðavatni til miðvikudags, en þá fór Ólafur með mig inn í Hafrafell, og daginn eftir bauð Anna mér að fara með mig út í Heykollstaði. Hafði eg mjög gaman af því, einkum af því að þau voru svo vel hress gömlu hjónin þar og virtust hafa gaman af gestakomunni.

Á föstudaginn fór eg svo upp í Holt með Braga, sem flutti tengdadóttur mína út í Egilsstaði, í veg fyrir rútuna. Í Holti var eg svo til þriðjudagskvölds, og þaðan fór eg með þeim hjónum Elísabetu og Hallgrími á Eiðahátíðina, sem haldin var í tilefni af 75 ára afmæli skólans. Sem gamall Eiðanemandi hafði eg altaf haft löngun til að vera þarna staddur, og með það fyrir augum þá fór eg seinna austur en annars var venja mín. Í skrúðgöngunni sem farin var voru fáir frá Búnaðarskólanum, og af mínum árgangi mættu 4 af 11, og var það ekki sem verst. Veður var fremur hagstætt á meðan skemmtiatriðin fóru fram, enda kom það sér vel, þar sem alt fór fram undir beru lofti. Á eftir var svo söguleg sýning inni í skólanum, og voru menn að skoða hana á meðan unga fólkið var að dansa. En um miðnættið fórum við til baka, og þá munu flestir hafa farið að tygja sig til heimferðar. Segja má að alt færi þarna vel fram og margar ræðurnar voru athyglisverðar, sumar ágætar, einnig var söngur "Eiðamanna" góður, en það vantaði samt einhvern virðuleik í samkomuna.

Eftir þetta mátti segja að aldrei kæmi góður dagur þann tíma sem eg átti eftir að vera fyrir austan. Eg fór frá Holti út í Setberg á þriðjudagskvöld og var þar 2 nætur, fanst Önnu fóstursystur minni það ekki geta verið minna. Þaðan fór eg svo í Birnufell og var þar eina dagstund í góðu yfirlæti, svo um kvöldið fluttu þau hjónin Birna og Friðrik mig út í Urriðavatn.

Daginn eftir, sem var föstudagur, fór eg með rútunni heim til Akureyrar. Þeir feðgar Jón og Ólafur fluttu mig í veg fyrir bílinn, inn fyrir vatnið, og höfðu litla Jón með, sem er þriðji ættleggurinn. Ekkert var af fólki með bílnum sem eg þekkti og var ferðin því heldur dauf; við stönsuðum hvergi nema til að drekka kaffi í Grímstungu, var það mjög vel útilátið. Svo var haldið áfram til Reykjahlíðar og þar stansað 10 mín. En eftir það var hvergi stoppað til að fara úr bílnum fyrri en á Akureyri. Þegar eg kom á torgið sá eg að Gísli minn beið þar eftir mér, og bar fyrir mig töskuna heim, og eins og æfinlega áður þá fanst mér fjarska gott að vera kominn heim. [Bls. 64 í handriti Bjarna]

Sumardagurinn fyrsti 1959

Dýrðlegur dagur með 8 stiga hita, hefur verið regn í nótt, en útlit er nú fyrir að hann sé að létta til, og ef til vill fari blessuð sólin að skína. Veturinn hefur verið mildur og góður til landsins, en miklir rosar hafa verið á höfum úti og erfiðleikar fyrir sjómannastéttina, sem hefur orðið að gjalda miklar fórnir á liðnum vetri. [Hér er sleppt úr um heimlishagi]
Þegar eg var í Eiðaskóla fyrir 50 árum, þá var æfður svolítill kór fyrir vorhátíð, sem haldin var þar á staðnum á sumardaginn fyrsta. Tekstinn við eitt af þeim lögum sem við æfðum var svona:

Gott er að vakna við gleðileg tíðindi, / gaman að laðast að fegurð og blíðlyndi;
því er hér glaumur og geð okkar kátt, / gyðjan er komin úr suðrænni átt.
Sjáið hvar kemur hún, syngjandi, hlæjandi, / sorgum og neyðum frá mönnunum bægjandi,/
gleðinni og vonnni nærri því nægjandi, / nú er því fjarstæða að barma sér æjandi.
Velkomið vor, velkomið vor, velkomið vor.

Á hverju sumri minnist eg þessa söngs með gleði, og hugsa til þess að þá var eg enn ungur og elskaði lífið. Þá fanst mér engir skuggar vera til í mínu lífi, og alt brosti við mér, og eg gat svo hjartanlega tekið undir þetta erindi skáldsins. En margt hefur síðan sannfært mig um, að lífið er ekki tómur leikur sem líður tra-lala. En samt hljóta allir að fagna vorkomunni og gleðjast yfir að sjá hvernig alt lifnar við, með hækkandi sól og sumri. [Bls. 67]

Í sumarleyfi á Héraði sumarið 1959

Eg byrjaði sumarleyfi 22. júlí, og daginn eftir, sem var fimmtudagur, fór eg með Austfjarðarútunni kl. 9 að morgni á stað frá Akureyri. Það voru fáir í bílnum þennan dag; eg sat hjá Dagnýju í Skógargerði og höfðum við góðan tíma til að rifja upp eitt og annað frá gömlum dögum. Ennfremur sagði eg henni um eitt og annað, í sambandi við það sem fyrir augun bar, því eg er orðinn kunnugur á þessari leið, eftir að hafa farið svo til á hverju ári þessa sömu leið í 18 ár.

Við fórum úr á Helgafelli (við Lagarfljótsbrú) og kom eg strax 2 pökkum á Sæbjörn frá Skeggjastöðum sem var þar staddur. Svo biðum við á Helgafelli þar til Ólafur á Urriðavatni sótti okkur. Þar var þá dóttir Árna heitins í Blöndugerði, sem gestur þeirra á Urriðavatni. Sigurbjörg hafði veikst þá um daginn og var rúmliggjandi 2 næstu daga.

Daginn eftir var eg við heyskap því það var nokkur þurkur. Svo kom laugardagur, og um hádegi kom Elli heim; þá var strax ákveðið að nota daginn til rúnings og fórum við 3 að smala, Bjargmundur, Elli og eg, allir ríðandi. Fyrst fórum við bara stutt og komum með 30 ær í ullu, vorum búnir að rýja þær kl. 5, þá fórum við með þær suður fyrir landamerkjagirðingu, og smöluðum svo að nýju og komum þá með rúmar 40 ær; þá var eg farinn að þreytast og fór nú heim og sat hjá Sigurbjörgu þar til þeir komu heim að borða um 10-leytið.

Daginn eftir, sem var sunnudagur, fór eg út í Heykollsstaði, og lánaði Elli mér sína ágætu hryssu. Eg fór fyrst í Skógargerði og þar slóst Sigurður Þorsteinsson í fylgd með mér út í Heykollsstaði í glansandi sól og góðu veðri. Komum í Dagverðargerði í leiðinni. Eg gisti á Heykollsstöðum um nóttina. Daginn eftir var sólskin og sterkjuhiti, svo það fór upp í 26 gr. í skugga. Eg var með Sveini allan daginn og var verið að þurka töðu, svo kl. 8 fór eg, og Sveinn yngri fylgdi mér alla leið í Urriðavatn.

Næsta dag fór eg í Hafrafell og flutti Ólafur mig þangað. Þau hjónin buðu mér að fara með mig í Fjallsel og Egilssel og þáði eg það. Við fórum svo þetta daginn eftir, sem var miðvikudagur 29. júlí, og var þá gott veður allan daginn til kvölds, en þá rigndi svolítið. Næsta dag fór eg svo um hádegisbilið upp í Staffell og var þar allan þann dag, en um kvöldið flutti Sigfús mig niður í Hafrafell, og vorum við þar að spjalla um eitt og annað til miðnættis, vorum í kaffiboði hjá Brynjólfi og Sigrúnu.

Föstudaginn 30. júlí fór Gulla á Hafrafelli með mig upp í Setberg og þar var eg þar til á þriðjudag. En á sunnudaginn 1. ágúst fór eg með Braga í Holti út í Egilsstaðaskóg á samkomu Sjálfstæðismanna þar. Við komum þangað seint, af því að bíllinn punkteraði, og vorum búnir að missa af skemmtiatriðunum, en eg hitti þar ýmsa kunningja mína að máli. Svo fékk eg flutning hjá Ólafi á Urriðavatni upp í Setberg, og þá var kl. um 7.

Daginn eftir fór eg svo gangandi upp í Birnufell og var þar í góðu yfirlæti til kvölds, en þá flutti Ólafur Bessi mig aftur niður í Setberg.
Eg fór svo með Jóni Atla daginn eftir upp í Holt, og á leiðinni komum við að Hofi, og þar var eg lengi að tala við Árna, en þeir bræður, hann og Jón, búa alveg einir á helmingi af jörðinni, og hafa engan kvennmann eða nokkra hjálp, og Árni er svo fatlaður að hann fer ekki út úr húsi, og aðeins getur eldað mat fyrir þá.

Eg dvaldi svo í Holti það sem eftir var af vikunni, og á sunnudaginn fór eg með þeim hjónum og öllum strákunum upp að hestamannamóti á Víðivallagrundum, og á eftir í félagsheimilið Végarð, sem vígt var þar daginn áður. Þá var leiðinlegt veður þann dag, mikil rigning og hálfkalt. Annars hafði eg altaf verið heppinn með veður fram að því. Við komum heim í Holt kl. 10 um kvöldið og daginn eftir fór eg með Braga útí Helgafell, en Ólafur á Urriðavatni sótti mig þangað, og var eg svo um kyrt þar einn dag, en fór svo norður á miðvikudag þann 12. ágúst; þá var fremur leiðinlegt veður og skýjað alla leið og seinast mikil rigning. Eg fékk Lárus til að flytja mig heim, og þar leið fólkinu vel, nema hvað kona mín var mikið kvefuð, og alt hafði gengið vel þennan tíma sem eg var i burtu, og gott er að koma heim til sín í birtu og yl. [Bls. 68 í handriti Bjarna]

Sumardagurinn fyrsti 1960

Við kveðjum vetur sem hefur verið óvenju mildur og hagstæður, bæði til sjós og lands. Engir harðindakaflar hafa komið og engar stórhríðar sem hafa staðið lengur en 1-2 sólarhringa, og venjulega frostlítið eða frostlaust. Það hefur meira að segja komið fyrir að hitinn hefur farið upp í 10 stig á celsius. Heilsa okkar hefur verið með betra móti, einkum er mjög mikill munur á heilsu Gísla nú í vetur og í fyrravetur, hann hefur aldrei fallið niður í eymd og þunglyndi eins og hann gerði svo oft í fyrra, enda hefur hann altaf haft nóg að gera í allan vetur, eftir því sem hans þróttur og taugar leyfa. Við fengum bæði vont kvef eftir Nýárið, en það batnaði fljótt. Hinsvegar hefur kona mín verið með einhverja vesöld í sér frá því í lok febrúar, sem er þó óðum að lagast nú.

Sumarið byrjar mjög vel, með sólskini og hlýviðri. Eg fór í kirkju kl. 11 og hlustaði á skátamessu hjá séra Pétri Sigurgeirssyni. Svo fór eg eftir hádegi upp í fjárhús að skoða ærnar mínar og gefa þeim brauð. Það vill rifjast upp fyrir mér þegar eg var ungur að fást við fjárhirðingu, og þá man eg mörg vorin þegar lítið var til að gefa eftir sumarmál, þá voru stabbarnir oft orðnir litlir í hlöðunni við fjárhúsin og þurfti því að fara spart með. Reynt var þá að bæta upp heygjöfina með brauðskamti, ef til var rúgmjöl til að hnoða deig úr.

Á langri æfi gerist margt sem verður minnisstætt, en fátt af því mun teljast markvert. Eg minnist þess þegar eg var 12 ára. Þá vildi faðir minn endilega fá mig til sín, frá fóstra mínum. Eg var mjög tregur til að fara burtu frá Hreiðarstöðum, en mest mun það hafa verið móðir mín, sem dró huga minn til sín. Eg hafði ekkert verið hjá henni frá því eg var 3 ára. En hún hafði oft komið að finna mig og æfinlega umvafið mig sínum kærleiksríku ástarörmum. Eins höfðum við bræðurnir aldrei verið saman eftir að eg fór frá foreldrum mínum, eins og áður segir.

Það varð því úr að eg hefi sjálfsagt óskað eftir því að fara til foreldra minna, og mun fóstri minn hafa tekið það nærri sér. Mér höfðu verið eignaðar tvær ær, og nú lét fóstri minn mig þá þær með mér, ásamt gemling undan annari. Mér gekk illa að reka þær úr heimalandinu og var víst lengi á leiðinni. En eg þóttist mikill maður þegar eg kom loks með þær upp að Fjallseli, en þar voru foreldrar mínir í vinnumennsku. Enga ánægju hafði eg af þessari kindaeign minni, þær struku strax frá mér, og um haustið dó fóstri minn og eigur hans skiptust milli barna hans, og eg sá aldei aftur Glæsu mína eða aðra kindur sem eg hafði rekið.

En ekki var eg nema 1 ár með foreldrum mínum, og þá fór eg aftur í Hreiðarstaði, til Sveinbjargar, dóttur fóstra míns, og hjá henni var eg svo fram yfir fermingu, og hefi altaf talið hana vera fóstru mína, því hún var áður búin að vera svo lengi ráðskona hjá fóstra mínum. Hjá henni og manni hennar eignaðist eg svo aftur kindur, og þegar eg fór í Eiðaskóla 1908, þá átti eg einhverjar ær sem fóðraðar voru fyrir mig. En þau hjónin, Jón og Sveinbjörg, kostuðu mig að nokkru leyti í Eiðaskóla, nema það sem eg gat unnið mér inn. Til dæmis fór eg í kaupavinnu þá um sumarið á undan, og fékk 140 kr. yfir sumarið, og mun það hafa látið nærri að hrökkva fyrir fæðinu. Sumarið þar á eftir var eg á Eiðum, og vann þannig fyrir fæðinu síðari vetur minn í þeim skóla.

Annars varð eg svo lítið var við fyrsta sumardag á þeim árum, því það var þá enginn helgidagur, og ekkert sérstakt með hann gert fram yfir aðra daga ársins, nema hvað ungar stúlkur áttu að gefa kaffi þann dag í tilefni af komu Hörpu, en svo var þessi mánuður kallaður.

Í nótt dreymdi mig að eg ætlaði að fara að klæða mig, og steig fram úr rúminu, og þá steig eg niður í vatn á gólfinu; skildi eg ekkert í þessu. Fór eg svo og fékk skóflu til að hreinsa gólfið, og fanst mér þetta vera krapavatn, sem tók mér í ökla fyrst. Þetta mun vera fyrir einhverjum veikindum á mér á þessu nýbyrjaða sumri. [Bls. 69]

Skólavistin á Eiðum 1908-1909

Um göngurnar fór eg frá Hvanná og fékk þá reiðilega útborgað mitt kaup, sem voru 140 kr. fyrir 14 vikur. Eg hafði þá ákveðið að fara í Eiðaskóla um haustið, og var á Hreiðarstöðum þar til skólinn átti að byrja. Við vorum tveir saman úr Fellunum, Oddur Sölvason, sem líka var að byrja. En auk þess var Oddur Sigfússon frá Staffelli í skólanum, og var þetta hans seinni vetur. Hann var því farinn á undan okkur til að vera við verklegt nám um haustið.
Við vorum gangandi, með einn hest undir koffortum okkar og sængurfötum. Mér leist vel á skólastjórann, Berg Helgason frá Kirkjubæjarklaustri, of fanst það glæsilegur maður í sjón. Aftur á móti fanst mér Blöndal kennari vera frekar ófríður.

Alt mitt nám á Eiðum var byggt á sandi, ef svo má að orði komast, og stafaði það fyrst og fremst af því að allar námsbækur þar voru á dönsku, en í henni skildi eg ekki eitt einasta orð þegar eg kom þangað, og við höfðum aðeins 2 tíma í viku tilsögn í dönsku. Námið varð því að byggjast á góðri eftirtekt hjá kennurunum, þegar þeir voru að halda sína fyrirlestra, en til þess var eg of ungur þegar eg fór í skólann, að eg gæti hagnýtt mér það til hlítar, enda verð eg að játa það, að sú búfræði sem eg lærði á Eiðum þau 2 ár sem eg var þar, hún byggðist ekki á bóklegri kunnáttu, nema að mjög litlu leyti, og svo mun hafa verið fyrir mörgum fleirum. Hinsvegar höfðum við mikið gagn af þeirri kennslu sem fram fór í verklegu námi haust og vor, og auk þess vorum við nokkrir þar líka yfir sumartímann, og tel eg það hafa verið engu minna virði en bóklega námið yfir veturinn.

Einn er sá atburður sem fyrir kom síðari veturinn sem eg var á Eiðum, sem hafði mjög mikil áhrif á alt skólalífið. En það var fráfall Bergs Helgasonar skólastjóra. Hann hafði verið með lungnaberkla á meðan hann var í háskólanum, en tókst að lækna sig af þeim, og þótti það með eindæmum duglegt af honum. En strax á öðru skólastjóraári hans á Eiðum, þá tekur veikin sig upp aftur í maganum, og varð það honum að bana eftir þriggja mánaða þjáningarfult líf. Þetta setti sinn svip á alt skólalífið þennan vetur; við vorum eins og fuglar í búri, sem ekki meiga njóta frelsis og glaðværðar. Við vorum búnir að æfa leikrit til að sýna á Gamlárskvöld, og sömuleiðis álfabrennu, sem líka var búið að undirbúa á þrettánda. Það og margt fleira féll niður hjá okkur.

Bergur skólastjóri var aðeins rúmlega fertugur þegar hann dó. Hann var glæsimenni mesta, kvikur á fæti og snar í hreyfingum; hann var kvongaður danskri konu, og áttu þau einn dreng 2. ára, sem hún fór með til Danmerkur eftir dauða Bergs.

Skólalífið var fábrotið mjög; við höfðum náttúrlega ákveðnar settar reglur að fara eftir, t.d. að vera komnir niður í kennslustofu k. 7-8, því tímar byrjuðu kl. 8; svo var kennslu vanalega lokið kl. 3, og þá var hlé, 2 tímar, til að vera úti í leikjum, s.s. knattspyrnu, glímu o.fl. Svo var aftur farið í kennslustofur og lesið þar til kl. 8, en kl. 10 áttum við að vera komnir í rúmin.

Í svefnherbergjum var aldrei upphitað, og var ætíð opinn gluggi, hvernig sem viðraði. Var vanalega gaddfrosið þvottavatnið á morgnana þegar við fórum á fætur. Matur var ekki mikill en góður, og víst að einhverju leyti upp á danska vísu, t.d. voru altaf baunir og flesk einusinni í viku. Glímur voru mikið æfðar og var kennari í þeim Guðmundur Þorbjarnarson, mjög góður glímumaður, var því mikill áhugi fyrir þeim, og um vorið var höfð glímusýning á skemmtun sem haldin var, og þótti góð skemmtun. Um Benedikt Blöndal hefi eg skifað sérstaka minningargrein.
Það væri freistandi að minnast lítillega minna skólabræðra frá Eiðum, en sökum þess að það yrði svo langt mál, ef ætti að gera því nokkur skil, þá tek eg þann kost að sleppa því alveg hér. Það voru yfirleitt alt Austfirðingar, nema einn úr Vestur-Skaftafellssýslu. Aðeins 2-3 héldu áfram búnaðarnámi, og eru þeir Lúðvík Jónsson, Hornfirðingur, sem nú er ráðunautur, og Ólafur? Læt eg svo útrætt um búnaðarnám mitt. Vð fórum 3 félagar frá Eiðum í Gagnfræðaskólann á Akureyri, voru það synir séra Magnúsar í Vallanesi og eg.
(Fyllri frásögn af skólavist minni á Eiðum er á næsta blaði hér eftir. B.H. / Bls. 7)

Skólinn byrjaði fyrsta vetrardag, og var þá tekið til starfa í alveg nýju skólahúsi, sem hafði verið í smíðum 2 undanfarin ár. Það var steinhús, tvílyft, með kjallara. Á neðri hæð voru tvær kennslustofur og eldhús og stór borðstofa. Á efri hæð var íbúð skólastjóra og svefnherbergi kennara og nemenda. Kennsla byrjaði kl. 8 að morgni, en við vorum vaktir kl. 7 og áttum að vera komnir niður í skólastofur kl. hálf-átta. Kl. 9 var drukkið morgunkaffi eða réttara sagt morgunmjólk, því kaffi var aldrei drukkið á þeim tíma. Með mjólkinni var smádiskur fyrir hvern mann, og á honum 2 hveitibrauðssneiðar, án nokkurs ofanálags. Svo voru tímar aftur frá kl. 10-12, en þá var miðdegismatur. Aftur var kennsla frá kl. 1 til 3, þá var kaffitími. Svo áttum við að lesa í kennslustofum til kl. 5, þá var einn tími í einhverjum leikjum úti, sem oftast var annaðhvort knattspyrna eða handbolti.

Við æfðum líka dálítið skotfimi; voru til nokkrir rifflar sem skólinn átti, og var skotið í stóra hurð, sem var máluð hvít, með svörtum punkti í miðjunni, en utan við punktinn voru 6 mismunandi stórir hringar; var sá ysti nærri því úti í kanti á hurðinni. Þessi hurð eða fleki var svo reist upp 500 m frá íbúðarhúsinu, og við látnir standa fast hjá húsinu. Svo áttum við að hitta annaðhvort punktinn, eða þá a.m.k. í einhvern hringinn. Svo voru gefnar einkanir fyrir, eftir að hver hafði skotið 21 skoti, og fékk enginn að skjóta meira en 3 skotum á dag. Fyrir að hitta punktinn í miðju voru gefnir 8, en svo smálækkaði einkunin eftir því sem utar dró, og ekkert var fyrir að kúlan kæmi utan við ysta hring.

Glímur voru nokkuð æfðar síðari vetur minn í skólanum, og var til þess fenginn sérstakur glímukennari sem hét Guðmundur Þorbjarnarson, var hann ágætur kennari. Einnig kenndi hann okkur undirstöðuatriði í grísk-rómverskri glímu o.fl. Eftir kennsluna var svo haldin skemmtun fyrir almenning, og voru þar sýndar glímur, bæði íslensk glíma og grísk-rómversk; þótti það hin besta skemmtun. Þá hafði einnig verið æfður söngflokkur með nemendum, og var það Hákon Finnsson sem var fenginn til þess. Altaf man eg sum þau lög sem hann lét okkur æfa, og hafði eg þá aldrei heyrt þau fyrri, eins og t.d. þetta: "Gott er að vakna við gleðileg tíðindi, gaman að laðast að fegurð og blíðlyndi..." Þetta var hressandi vorsöngur, sem vakti mikla athygli, og þótti fólki gaman að þessu öllu. Þá var einnig sýndur sjónleikurinn "Hermannaglettur" og þótti hann takast vel.

Kennsla fór mest fram í fyrirlestrum, sem þeir héldu, Benedikt Blöndal og Bergur Helgason skólastjóri. Yfirheyrslur voru aðeins þriðji hver tími eða tæplega það. Allar kennslubækur voru á dönsku og gekk mönnum illa að hagnýta sér þær fyrri veturinn, ef þeir höfðu ekki lært dönsku áður, því þarna voru kenndir aðeins 2 tímar í viku í dönsku og lítið gert til að glæða þá kunnáttu, enda voru flestir meira eða minna á gati í þessum dönsku námsbókum, en margir tóku mjög vel eftir fyrirlestrunum og jafnvel reyndu að skrifa upp úr þeim það helsta, og á því flutu flestir gegnum yfirheyrslurnar.

Regla var ágæt í skólanum, enda voru þetta allt vel þroskaðir piltar, og ekki hægt að brjóta mikið skólareglur í svona fámenni í afskekktri sveit. Eg var yngstur í mínum bekk og líka minnstur, mun eg hafa notið þess hjá flestum, því enginn minna skólabræðra sýndi mér yfirgang eða áreitni, og Blöndal hafði sérstakt dálæti á mér, og mátti eg koma til hans á hans einkaherbergi hvenær sem eg vildi. Meira að segja gerði hann mig að trúnaðarmanni sínum í smá ástaræfintýri. Hann reyndist mér líka best allra vandalausra manna, eftir að eg hafði byrjað mína skólagöngu á Eiðum, og hvatti mig til að halda áfram námi, og studdi mig til þess með dálitlu fjárframlagi.

Vorið 1909 vorum við látnir taka verklegt nám, þegar skólanum var lokið, og var það mest við meðferð á jarðvinnslutækjum. Við vorum látnir plægja með tveimur hestum og herfa, nota hestareku og valtara, fara með kerru og vagna, dreifa áburði, þekja flög o.fl. Um haustið 1909 vorum við svo við landmælingu í tvær vikur eða meira, áður en skóli hófst, og vorum við látnir kortleggja stórt landstykki meðfram Eiðavatni. Það þótti mér mjög skemmtilegt verk, að öllu öðru leyti en því, að það var mjög kaldsamt, vegna þess að haustið var svo næðingssamt, en eg vildi gjarnan hafa lært meira af því fagi. [Bls. 6]

Framhald af skólaárum mínum fyrir 50 árum (Í Gagnfræðaskólanum á Akureyri)

Strax á fyrsta vetri mínum í Gagnfræðaskólanum á Akureyri var eg kosinn umsjónarmaður í minni deild. Einnig lenti eg í ýmsum félagsskap, var t.d. kosinn formaður í málfundafélaginu Framsókn. Eg starfaði mikið í taflfélagi og náði þar góðum árangri. Í öðrum bekk var eg svo kosinn í matarfélagsstjórn. Einnig var eg kosinn umsjónarmaður í 2. bekk A og umsjónarmaður á Suðurvistum. Þá var eg áfram formaður málfundafélagsins og í stjórnum taflfélagsins, skemmtifélagsins og blaðafélagsins.

Í bréfi sem eg skrifaði móður minni, segi eg frá fyrstu ferð minni í skólann. Við vorum 14 skólapiltar sem fórum með s/s Vestu frá Seyðisfirði og vorum tvo daga á leiðinni til Akureyrar, en þangað komum við 8. október. Þar lýsi eg nánar móttökunum í skólanum, og hvað margir létu mig njóta þess að [Snorri] bróðir minn hafði komið sér mjög vel í skólanum. Svo segi eg henni frá inntökuprófinu í skólann, og hversvegna eg gekk ekki inn í 2. bekk, eins og eg hafði hugsað mér. Eg minnist einnig á afmæli séra Matthíasar Jochumsonar. Hann varð 75 ára 11. nóv. þetta haust, og fóru allir kennarar og nemendur í skrúðgöngu til hans á afmælisdaginn, og var þar haldin ræða og honum flutt kvæði. Eg minnist líka á það að eg búi með 3 Austfirðingum, og að herbergi mitt heiti Paradís.

Í bréfi til móður minnar 17. jan 1911 er eg að segja henni frá jólafríinu í skólanum, hvað það hafi verið skemtilegt, og þar skiptust á boð, fyrst hjá skólameistara, svo hjá skólabretanum, og síðast hjá heimavist nemenda, og á öllum stöðum voru fram reiddar góðar veitingar. Einnig var eg boðinn til Sigurðar Hlíðar, dýralæknis, sem var fjárhaldsmaður minn alla veturna sem eg var í skólanum, og voru þau hjónin mjög góð við mig. Einkunir mínar voru mjög góðar; það voru aðeins þrír fyrir ofan mig í bekknum á jólaprófinu.

Í bréfi til móður minnar 12. febr. 1911 segi eg að nú hafi eg hitt austfirska þingmenn, þá Jón á Hvanná og Þórarin í Gilsárteigi, og með þeim fékk eg bæði bréf og kort. Skólameistari fór þá suður á þing. Í bréfi frá 5. apríl segi eg henni frá einkunum mínum; þá var eg næsthæstur í mínum bekk.

Þetta sumar sem nú fór í hönd var eg kaupamaður á Birnufelli, hjá Ólafi Bessasyni, og þar var líka móðir mín þá, svo eg gat notið samvista við hana þetta sumar, og þótti mér mjög vænt um það, því henni þótti fjarska vænt um mig og þráði að hafa mig nálægt sér. Eg fór þaðan fyrir fyrstu göngur út að Urriðavatni, var þar á aðra viku, og svo flutti Jón Ólafsson fermingarbróðir minn mig niður á Seyðisfjörð í veg fyrir skip.

Eg kom í tæka tíð norður, til að undirbúa og sjá um aðdrætti til heimavistarinnar, og var búinn að öllu slíku þegar skólinn hófst. En samt hafði eg í mörgu að snúast í sambandi við matarfélagið fyrstu mánuðina, og gat því ekki sinnt náminu sem skyldi. Í bréfi til mömmu 21. des, er eg að segja henni frá prófinu, sem gekk nokkuð vel eftir atvikum. Þá var Magnús söngkennari búinn að stofna karlakór og var eg í honum. [Bls. 8]

Þennan vetur, 1911-1912, var eg umsjónarmaður á Suðurvistum heimavistarinnar, og var það eitt meðal annars til að draga úr lestri hjá mér. Um vorið var eg óviss hvað eg ætti að gera yfir sumarið, mér bauðst að vera með skólabróður mínum við að gera fótboltavöll fyrir ofan Gagnfræðaskólann. Þegar skólanum var lokið, þá fengum við að búa í skólanum, og fengum fæði hjá skólabretanum. Þannig leið júnímánuður og gerðist ekkert sérstakt. Við Jens Eyjólfsson, sem með mér var, byrjuðum að læra sund hjá Lárusi Rist.

Svo gerðist það einn dag, að til mín kemur Einar Stefánsson frá Möðrudal, og var hann að sækja frænku sína sem komin var frá Ameríku. Hann fékk að gista í skólanum, og þá fór eg að spyrja hann hvort þá vantaði ekki kaupamann í Möðrudal. Jú, hann sagði að svo mundi vera, og talaðist svo til með okkur að eg færi með honum austur. Þá var líka lokið að mestu þeirri vinnu sem við Jens vorum ráðnir til að gera.

Það var 1. júlí sem við lögðum af stað austur; ferðin var mjög skemmtileg og var mikið sólskin alla leiðina. Þetta fyrsta sumar mitt í Möðrudal byrjaði ekki rétt vel. Við Stefán bóndi urðum ósáttir strax um morguninn eftir að eg kom þar, út af því að hann vildi ógilda ráðningu mína, vegna þess að Einar sonur hans hefði ekkert leyfi haft til að ráða mig, og út af því spunnust ýmsar umræður sem ekki verða sagðar hér, en samtal okkar endaði með því að eg sagðist ekkert vera upp á það kominn að vera þarna, og mundi þegar leggja af stað austur á Jökuldal. En til þess kom aldrei. Aðalbjörg dóttir Stefáns, sem æfinlega vildi koma fram til góðs, aftók með öllu að eg færi, og bauðst til að ábyrgjast mér full skil á kaupi til jafns við aðra kaupamenn þar á staðnum.

Fysta verk mitt í Möðrudal var að vera hjálplegur við fráfærur, en þær fóru fram vestur í Lónabotnum, stutt frá Jökulsá á Fjöllum. Á heimleiðinni fórum við að sækja tryppi í Bæjarlönd. Vildi eg endilega fara á bak á einu tryppi og prófa ótemju sem enginn hafði áður sest á bak á. Það varð til þess að eg lenti í miðjum tryppahópnum, og varð að sætta mig við það að fara þannig í einum samfelldum spretti heim í Möðrudal, en það er rúm tveggja tíma reið með skikkanlegu ferðalagi. Þetta tryppi varð síðan afburða reiðhestur.

Svo byrjaði heyskapurinn og lét Stefán mig vera einan í 3 daga, með roskinni kaupakonu, sem líka var nýráðin þarna. Hann mun hafa gert það til að sjá hver afköst okkar yrðu. Á þriðja degi varð eg alvarlega veikur, seint um daginn, og komst með herkjum heim. Þá var Einar líka veikur orðinn, og lágum við hvor á móti öðrum í 2-3 daga, en svo fóru aðrir að veikjast, og munu flestir hafa orðið eitthvað veikir. En við Einar náðum okkur fljótt.

Ekkert gerðist markvert, nema að Stefán fór með frænku sinni suður, og var burtu í 1-2 mánuði. Arnfríður húsfrú veiktist mikið, og var eg sendur í Grímsstaði til að panta meðöl fyrir hana frá Vopnafirði. Fyrstu dagana í ágúst gerði hret, svo slæmt að við gátum ekki verið við slátt vegna snjóföls sem kom. Við reyndum að slá í túninu, en það litla gras sem þar var lagðist alveg flatt undan ljánum. Þetta mun hafa staðið í 2 daga.   [Bls. 9]

Minningar úr Gagnfræðaskólanum veturinn 1912-1913

Það var vorið 1912 sem Árni Friðriksson fyrrverandi skólaumsjónarmaður dó í heimavist Gagnfræðaskólans. Vorið áður hafði hann útskrifast sem gagnfræðingur og hafði verið sérlega vinsæll í skóla og hrókur alls fagnaðar. Eg veit ekki hvort hann hugði á framhaldsnám, en aðstandendur átti hann ekki, sem gætu veitt honum fjárhagslegan stuðning. Um haustið kemur hann til Akureyrar og ræður sig sem kennara hjá konsúl Ragnari Ólafssyni, en hann var svo vinsæll í skólanum að hann fékk að borða í heimavistinni um veturinn, og sat hann við hlið mér við matborðið. Síðari hluta vetrar fékk hann líka að búa í heimavistinni, og var með Jóni Árnasyni uppi á Tindastól, sem var í rishæð að sunnan. Það mum hafa verið seint í mars, sem Árni var á leið heim í skólann; hann ætlaði Menntaveginn, sem kallaður var, en komst aðeins inn í Samkomuhús, og þaðan varð að bera hann uppí skóla. Á þriðja degi dó hann, án þess að geta nokkurntíma gert sig skiljanlegan. Við vöktum yfir honum til skiptis, nánustu vinir hans, og bárum lík hans niður til að kistuleggja það í kennslustofu. Það var mikil eftirsjá í honum.

Um haustið 1912 varð eg að koma snemma, því nú var eg aðalheimavistarstjórinn, og þurfti því að sjá um alla aðdrætti og slátrun á fé sem keypt var til heimavistarinnar. Það fór mikill tími í að annast öll innkaup og flutninga, og gat ekki hjá því farið að maður yrði eitthvað að svíkjast um námslestur. Eg var kosinn í skemmtinefnd eins og árið á undan, og var mér ljúft að vinna þar, því eg var fjörugur og mikið dansfífl.
Strangar reglur voru um það að við mættum ekki fara með gesti okkar í herbergin í heimavistinni, og við vissum að [Stefán] skólameistari var æfinlega á verði þau kvöld sem dans-samkomur voru, og því mjög erfitt að ætla sér að komast framhjá honum með nokkurt pukur. En því verður ekki neitað að það var reynt af ýmsum. Nú var það svo, að þennan vetur var eg dálítið skotinn í einni skólasystur minni, og hún virtist endurgjalda það.

Einhverntíma var það á skemmtun í Leikfimihúsinu, að okkur langaði til að geta verið tvö ein örlitla stund. En það var engin leið nema fara heim í skóla, og við vorum það augnablikið bæði sammála um að taka áhættuna. Annars vil eg taka það fram, að eg braut yfirleitt aldrei þær reglur sem skólinn hafði sett okkur, og fékk aldrei löngun til þess, utan þetta eina sinn. Það er ekki rétt hjá mér, að það hafi verið blátt bann við því að fara með dömu af dansleik inn á sitt herbergi; það mun hafa verið leyfilegt, þó skólameistara væri illa við það. En að læsa að sér, það var blátt bann við því, og ef einhver var svo djarfur að gera það, þá mátti hann búast við hörðu hjá skólameistara.

Nú leggjum við af stað heim í skóla, og erum svo heppin að skólameistari var ekki á stóra ganginum, eins og hann var oftast vanur. Við fórum upp á Suðurvistir og inn í herbergi mitt. Eg kveikti á lampa og það hvarflaði ekki að mér að læsa hurðinni að innan. Fyrst sátum við hlið við hlið og héldumst í hendur. Svo mun eg hafa verið sestur undir hana (tekið hana í kjöltu mér) þegar reiðarslagið dundi yfir. Eitt högg á hurðina og henni hrundið upp um leið. Þar stóð Stefán skólameistari, þungur á brún og brá, en þó glettinn. Hann spurði aðeins hvort við værum orðin þreytt á dansinum; skemmtinefndin mætti ekki bregðast skyldum sínum. Að svo mæltu fór hann. Við vorum ekki lengi að hypja okkur út og fara aftur að dansa. Þetta mun vera eina ástaræfintýri mitt í Gagnfræðaskólanum þá vetur sem eg var þar. [Bls. 10]

[Haustið 1913 fór Bjarni til Reykjavíkur, eftir að hafa innritast í Menntaskólann þar. Segir hann frá skólavist sinni þat á næstu síðum [12-14] í minningaþáttum sínum. Svo fór að hann varð að hætta námi vegna veilu í augum]

Eftir um það bil tvo mánuði fór eg að fá verki í augun á kvöldin, þau urðu rauð og stirð. Eg varð oft að hætta að lesa mikið fyrr en eg var vanur. Þetta verkaði illa á mig, og eg fór að kvíða fyrir tímum, því eg var illa lesinn.

Svo ákvað eg að fara til augnlæknis. Þá var aðeins einn augnlæknir í Reykjavík og hét Andrés Fjeldsted frá Hvítárvöllum. Hann hafði sérstaka lækningarstofu, og lagði eg leið mína þangað. Þegar röðin kom a mér, þá stóð eg þarna frammi fyrir mjög myndarlegum manni, nokkuð holdugum, með ljóst yfirskegg. Hann spurði mig um öll sjúkdómseinkenni; svo fór hann að skoða augun í mér með afarsterkum spegli, sem bar svo sterka birtu inn í augun, að eg þóttist alveg viss um, þegar hann hélt höfði mínu eins og í skrúfstykki, og þrýsti sínu auga fast upp að mínu, þá hlyti hann að geta lesið allar mínar hugrenningar. Mikla alúð og vandvirkni lagði hann í þessa skoðun, og eg sá strax að hann var ekki ánægður með ástand mitt.

Svo kom úrskurðurinn: "Þér hafið einhverntíma fengið mislinga; þeir hafa farið í augun á yður og skemmt æðahimnuna, þannig að þar eru stórir flekkir inni á botni augans. Þetta hefur batnað í bili, en nú við ofmikla notkun undanfarna vetur hafa augun veikst aftur, og nú er komin mikil bólga í þetta, sem smábreiðist út, uns það nær sjálfri sjóntauginni, en nái það henni þá tapið þér alveg sjóninni." Dómsorð voru þessi: "Þér verðið strax að hætta öllum lestri og skrift og megið ekkert nota augun næstu 2 ár, annars getur farið svo að þér tapið allri sjón." Svo sagðist hann skyldi láta mig fá vottorð, sem eg skyldi fara með til rektors Menntaskólans. Næsta dag gæti eg svo komið og fengið hjá sér hlífðargleraugu, sem eg yrði að nota úti, sérstaklega í sólskini.

Þetta kom yfir mig eins og reiðarslag. Til þessa hafði allt leikið í lyndi fyrir mér, frá því eg byrjaði mína námsbraut, þrátt fyrir mjög örðugan fjárhag þá hafði ræst vel úr öllu, og vilji minn var að komast lengra áfram á menntabraut. En nú fann eg að hér var sett rautt strik á mína lífsbraut, og óljós grunur læddist gegnum huga minn, að hér væru æðri máttarvöld sem hefðu gripið fram í og hvíslað: "Hingað og ekki lengra."

Mitt fyrsta verk var að hitta rektor og trjá honum alla málavexti, um leið og eg afhenti læknisvottorðið. Hann var fullur hluttekningar með mér og bauð mér strax að eg mætti sitja í tímum, án þess að vera prófaður. Eg afþakkaði það strax, til þess væri eg of févana að eg mætti veita mér þann munað.
Eg held að rektorinn hafi verið mesta göfugmenni. Nú var ekkert sem kom ofar í huga minn en það, að fá strax ferð burt frá Reykjavík. Eg byrjaði á að greiða allar mínar skuldir og kveðja þá sem voru mér vinsamlegir. [Bls. 14]

Bjarni fór nú til Akureyrar og gerðist afgreiðslumaður í verslun Ottós Tuliníusar, til hausts 1914. Þá hugðist hann sigla til Kaupmannahafnar til að fá bót á augnveiki sinni, en Fjelsted læknir réði honum frá því, auk þess var skollin á heimsstyrjöld, sem truflaði allar samgöngur. Næstu tvö árin var Bjarni á Austurlandi, stundaði barnakennslu á vetrum, en vinnumennsku á sumrum. Vorið 1917 fór hann aftur að starfa hjá Tuliníusi á Akureyri, og vorið 1919 gerist hann verslunastjóri á Arngerðareyri við Ísafjarðardjúp, þar sem hann bjó í 9 ár, fluttist þá aftur til Ak. og var verslunarstjóri hjá Tuliníusi 2 ár, "en eftir það hætti eg verslunarstörfum, og hefi altaf verið á skrifstofum síðan, lengst hjá Rafveitu Akureyrar, síðan 1934."

Fyrstu kynni Bjarna og Margrétar Gunnarsdóttur

Það var um 11. helgi sumarsins 1916 sem eg lagði af stað austan úr Fellum og norður í Möðrudal, til að dvelja þar í kaupavinnu í fjórða og síðasta sinn. Eg var á ferð á sunnudegi og varð seint fyrir, svo allir voru komnir til náða þegar eg kom þar, nema Einar og Aðalbjörg, sem áttu von á mér og voru því ekki háttuð.

Daginn eftir var eg svo strax kynntur fyrir hinum nýju kaupakonum, sem allar voru sunnan af landi. Eg veitti því athygli að ein hafði traf um fingurinn, og frétti síðar um það að hún hefði kvöldið áður fengið flís upp í fingurinn, svo hatramlega að Stefán Björnsson varð að beita allri sinni handsnilli til að ná henni út, en á meðan var nærri liðið yfir stúlkuna. Eg get þess hér, því þessi kvennmaður átti síðar eftir að bindast mér æfilöngum hjúskaparböndum, og höfum við oft á það minnst, að það hafi verið slæmur fyrirboði þetta, fyrir okkar fyrstu kynnum í lífinu.

En nú víkur sögunni aftur til ársins 1918, en þá var það 6. janúar það ár, sem við opinberuðum trúlofun okkar. Var eg þá búsettur og staddur á Akureyri, en hún í Reykjavík, með öðrum orðum, við komum okkur saman um þennan dag, til að setja upp hringana, hvort á sínum stað.
Þetta mun hafa frést furðu fljótt austur í Möðrudal, og með febrúarpóstinum fékk eg bréf frá þeim systkinum, Einari og Aðalbjörgu, þar sem þau eru að óska mér til hamingju með trúlofunina. Set eg hér kafla úr bréfum þeirra. Einar skrifar mér 12. febr.:

"Eg get ekki annað en beðið guð að halda í armlegg þinn og beina þér inn á bjarmaland ástarinnar, og kenna þér að spara hina helgu geisla, og eyða þeim ekki öllum til að uppljóma brúðkaupssalinn, en geyma þá til að láta þá skína yfir ykkur í ellinni, svo þið fáið þá að rekja spor farsældar og frama á hinum dulda vegi elliáranna. Það er vandi að ganga í hjónaband, en eg held, eftir því sem eg þekki ykkur, að það geti farið vel ef réttilega er með það farið, því þið hafið bæði mikið til af því góða. Magga er góð kona og verð þess að láta sér þykja vænt um hana."

Aðalbjörg skrifar sama dag:

"Um leið og eg óska þér til hamingju, samgleðst eg þér svo innilega með þína elskulegu gullperlu, sem þú ert búinn að fá þér til fylgdar á lífsleiðinni.... Þú ert mikill gæfumaður og verðugur þess að fá góða konu. Elsku Magga er í mínum augum sem hreinn og skær demantur, og væri eg karlmaður, þá mundi eg hafa öfundað þig af henni mjög mikið. En nú er eg stúlka og því samgleðst eg þér innilega..."

Eg vil bæta því hér við, að Aðalbjörg mun hafa átt sinn stóra þátt í því, að við Magga bundumst tryggðum, því þegar Einar bróðir hennar bauð Möggu með sér og fleirum í skemmtiferð til Ásbyrgis í byrjun ágúst þetta sumar, þá hefði eg aldrei fengið að fara þá ferð með þeim, ef Aðalbjörg hefði ekki lagt sig alla fram við að útvega mér hesta, svo eg gæti farið með þeim. Og ef eg hefði ekki farið þá ferð með Möggu, þá býst eg ekki við að við hefðum náð að kynnast nógu mikið til að bindast kærleiksböndum ævilangt. [Bls. 16]

 

Latest Posts