Skip to main content
16 November, 2021

Langhús

16 November, 2021
Langhús


Lánghús voru eign Valþjófsstaðakirkju eins og jarðirnar austan í Múlanum, og stundum höfðu Valþjófsstaðaprestar þar beitarhús, sem gæti verið tilefni nafnsins. Landið er báðum megin í Múlaendanum. Á Lánghúsum er nú mesta safn grjóttorfhúsa uppi standandi, og enn í notkun, sem dæmi finnast um á Héraði og líklega á öllu Austurlandi og víðar.

Í bókinni Af jörðu, Íslensk torfhús, eftir Hjörleif Stefánsson arkitekt, sem út kom 2013, er lýsing og myndir af þessum húsum, á bls. 212-213, og má víst segja að þarmeð séu þau orðin landsfræg.

Húsin voru fyrst skoðuð og mynduð 9. júní 1990, aftur 7. okt. 1990 (með Halldóri Sigurðssyni), enn aftur 27. júní 1991, og nokkrum sinnum síðan. Guðrún Kristinsdóttir minjavörður skoðaði og myndaði húsin 1991. Landið vestan Múla var skoðað 19. okt. 1996, og skógræktarlýsing gerð í nóv. 1996 með tilh. kortum. Loks skoðaði ég húsin 1. ágúst 2012, með Ólöfu Stefaníu Arngrímsdóttur, sem myndaði þau með tölvumyndavél að utan og innan.

Gamli bærinn: "Baðstofa 9 x 5 1/2 alin, 3 hlöður." "Steinhús, byggt 1938, 7,50 x 8,20 m. Hæð og kjallari, tvöfaldir veggir, einangraðir með torfi." (SJM II, 54).
Steypt hlaða (1965), 686 m3. Önnur gripahús úr torfi og grjóti, undir járni, fjárhús fyrir 300, fjós fyrir 4, hesthús fyrir 6, hlaða 240 m3. Steypt votheysgryfja, 25 m3 og vélageymsla úr blönduðu efni." (sama hemild).
Þjóðvegur lá þá um hlaðið á milli húsanna, en var um aldamótin færður niður fyrir þau, ofan á bakka Jökulsár, og nýtt íbúðarhús úr timbri var um 2005 reist rétt utan og neðan við steinhúsið, fast við trjálundinn.

Trjálundur lítill er í brekku, rétt austan við bæinn. Í honum eru um 10 birkitré, þétt saman, og í ágætu standi (2012), þau syðstu með hvítum stofnum, allt að 35 sm sverum og á að giska 12-13 m há. (mynd).

Gömlu húsunum var lýst 1990, og gildir sú lýsing að mestu leyti enn, en fáeinar viðbætur eru frá 2012.

Fjós o.fl. við bæinn: Rétt fyrir neðan bæinn, neðan vegar, er fjóskofi úr grjóti og torfi, með nokkuð upprunalegu torfþaki og gömlum dyrum að austan. Hætt var að nota það fyrir nokkrum árum (1990).Viðbyggð fjósinu er tótt gamla eldhússins í torfbænum, sem þarna stóð. Þar er steindrangur yfir dyrum. Þetta sýnir að gamli bærinn hefur staðið spölkorn utar og neðar en núverandi steinhús. Árið 2012 var húsið orðið hrörlegt, en torfþakið hékk þó uppi.

Fjóshlaða: Gömul fjóshlaða er austast á túninu á Lánghúsum, rétt neðan við veginn, snýr A-V, með dyrum austan á stafni, en vindauga að vestan, mikið niðurgrafin. Yfirbygging er í gömlum stíl, með þremur stoðum í röð í miðju, á henni er torfþak, að hluta til með járni undir. Veggir standa nokkuð vel, en viðhald hefur ekki verið nægilegt, enda var hætt að nota hlöðuna fyrir nokkrum árum. Sumarið 2012 var þekjan orðin götótt, en stóð samt að mestu leyti, og farið að hrynja úr veggjum. Við hlöðuna er lítil, steypt súrheysgryfja, sexköntuð, með toppþaki af timbri.

Hólhús: Fjárhús neðan vegar, skammt NV af bænum, snýr samhliða dalnum. Þetta er mjög sérkennilegt hús, eiginlega þrískipt, og viðbyggð hlaða að auki. Miðhlutinn er sennilega gamall, en í seinni tíð hefur húsið verið lengt til norðurs, og þverhýsi byggt úr því til vesturs (líklega gömul hlaða). Veggir eru vandaðir að hleðslu og standa vel, þó aðeins farnir að bila á elsta partinum. Dyr eru á langhlið austan á miðju húsi. Upprunalegt torfþak er á elsta hluta hússins, en járn lagt ofan á það, a.m.k. að vestan. Á yngri pörtum er járn undir torfþakinu Grindur eru á gólfi í ysta hlutanum. Steypt var innan á veggi 1992, vegna riðuhreinsunar. Á hlöðunni er járnþak á sperrum. Merkileg sambygging, sem stendur enn nokkuð vel. (Sumarið 2012 var hlaðan full af nýju heyi).

Spölkorn vestan við Hólhúsið er annað hús úr torfi og grjóti, sem snýr þvert á það; þekjan er fallin niður á vestari hlutanum, en heil á austurhluta, sem er aðskilinn með þvervegg, og var sá hluti ennþá notaður til geymslu matvæla 1990. Hann er eldri en vesturparturinn, sem var byggður til að hýsa traktor þegar hann kom, en var aðeins notaður í fáein ár (reyndist illa). Þessi hús voru fallin í tótt 2012.

Aðalhúsin (Garðhús) eru andspænis Hólhúsinu, sunnan vegar, og örskammt vestan við íbúðarhúsið. Þetta er mikil sambygging, sem hefur vaxið og aukist með viðbyggingum í ýmsar áttir, allt fram á okkar daga. Þau standa vel enn, sumarið 2013. Aðalhúsið er ferningslaga, jafnt á alla kanta, ca. 18-20 m, raunar fjögur, samliggjandi fjárhús, án milliveggja, en risþak á hverju fyrir sig, og stoðir undir sundum. Gluggi er á hverjum stafni að sunnan, og dyr á miðju sunnan á, og aðrar nálægt suðurenda á austurhlið. Elsta húsið mun hér (sem víðar) vera í miðju, og á því er upprunalegt torfþak, að mestu leyti með birkitróði, en hellum neðst. Undirlag þekja á hliðarhúsunum er af ýmsum toga, sumsstaðar járn.

Utan við þessa sambyggingu er viðbyggð hlaða, lítil en líklega upprunaleg, með flötu járnþaki (skúrþaki), og tótt af gömlu hesthúsi er austan við hana, einnig viðbyggt. (Ætlunin var að stækka hlöðuna þangað, en í þess stað var byggð hlaða úr steinsteypu, spölkorn SA af húsunum. Við hana áttu að rísa steypt fjárhús, en voru ekki byggð).

Þá er enn hesthús byggt í framhaldi af gömlu hlöðunni til vesturs, með dyr vestan á stafni og glugga yfir, og er það með járni undir torfþakinu. Það tekur 6 hesta, og er með hellulögðu gólfi, og upphækkuðum básum, líkt og hesthúsið í Klúku. Það var byggt 1961 (?) og er það ártal rist á stein við dyrnar.

Öll þessi hús hafa verið m.e.m. gerð upp á síðustu áratugum, sérstaklega þekjurnar, sem hafa "brunnið" nokkuð á suður- og austurhliðum, en eru annars í góðu lagi. Veggir allra húsanna eru frábærlega vel hlaðnir og heilir, yfirleitt með óvenjumiklum fláa að utan, sem tryggir að þeir standi betur. Efst í þeim er yfirleitt torflag, og stafnar úr torfi (streng eða þökum). Á árunum 1990-92 varð að klæða veggina með steypu að innanverðu, til að fá leyfi fyrir notkun þeirra sem fjárhúsa, og hefur það vissulega breytt innra svip húsanna, en ekki skemmt þau að öðru leyti.

"Næst var stansað á Langhúsum, og hittum við þar Ágúst Þórhallsson bónda... Hann hefur verið að "riðuhreinsa" gömlu torf-fjárhúsin, sem eru rétt við bæinn, og segir það ganga nokkuð vel. Ætlar svo að steypa innan á veggina til að fullkomna verkið, segist hafa hjálpað Jóni á Glúmsstöðum I við að framkvæma það á fjárhúsi þar, og hafi það gengið vel. Lögðu þeir vírnet (hænsnanet) á veggina og slettu svo steypunni á það og inn í rifurnar á milli steinanna, og er þetta því eins konar "forskalning", eins og tíðkaðist fyrr á árum með timburveggi. Fjósið í hlaðvarpanum og tóttina þar (sem er leifar af gamla torfbænum, þ.e. hlóðaeldhúsi) segist hann ætla að rífa, og líklega einnig hlöðu austur með veginum, sem nú er eitthvað tekin að hrynja, en hann telur vera elsta húsið á staðnum í nokkuð upprunalegri mynd. Hann segir dýralækni ekki hafa gert athugasemd við hreinsun hennar." (Ferðalýsing mín 9. ágúst 1992).

Bakkahús (Bakkhús) var niður á bakka Jökulsár, niður frá bænum, það var að mestu horfið 1990, vegna landbrots árinnar, en þá var þar kartöflukofi. Ullartóft er einnig horfin í ána (Örnefnaskrá). "Syðst var Austurhús", segir í Örnefnaskrá, líklega sléttað í tún. (Um aldamót var byggður nýr vegur meðfram Jökulsá, neðan við bakkana, sem hindrar frekara landbrot, en nú er áin líka orðin lítil vegna virkjunar.)

Múlarétt (Hrakhamarsrétt) er á Réttarhjalla NA í Múlanum, sem er malarhjalli að hluta til, og ganga inn í hann djúpar geilar utan og austan frá. "...og það fé sem kemur af Múlanum í svokallaða Hrakhamarsrétt, sem er undir hamri við Kelduána, í austanverðum Múlanum." (Stefán Árnason: Sóknarlýsing, 1841. Múlaþing, Sýslu- og sóknalýs. 2000, bls. 144).

"Út frá Gamlastekk, aðeins lengra, gengur Réttarhjalli, ógróinn melhjalli. Á honum er lögrétt Múlamanna; smala þeir allt landið milli Jökulsár og Keldár, auk þess stórt svæði sunnan Keldár, inn með Fremri-Sauðá, á Víðidalsvörp, um Geldingafell og í svokallaða Kverk, sem liggur vestur með jöklinum, allt vestur undir Jökulsá." (Örnefnaskrá)

Aðalhólf (almenningur) réttarinnar er aflangt, ca. 36 x 10,5 m, og ber þess merki að hafa verið lengt til norðurs (NV). Austur úr þessu hólfi miðju er dráttarhólf, ca. 7 x 17 m, með grjótveggjum, eins og stóra hólfið, en umlukt dilkum, sem gerðir eru úr vírneti og/eða timbri. Framan við stóra hólfið (enda þess) er bogalaga grjótveggur, hálffallinn, sem myndar þar dálítið hólf. Veggir aðalréttarinnar standa vel, enda er réttin líklega enn í notkun sem skilarétt fyrir Múlann og mun því vera haldið við. (Umsögn Stefáns Árnasonar 1841, bendir til að réttin hafi þá verið neðan við Hrakhamar, en ekki er vitað um tættur þar).

Gamlistekkur er "grasi vaxinn blettur á klettastalli upp af Hrakhamri", segir í Örnefnaskrá, en ekki er getið um tættur þar.

Geithús var innst á Geitahjalla, sem er austan í Múlaendanum. Þar voru beitarhús frá Langhúsum, notuð til 1926-27. (Örnefnaskrá). "Grjótgarður var yst á Geitahjalla, fjárheldi." (SJM II, 54). Tættur húsanna voru enn greinilegar um 1995.

Austan við Múlaendann heitir Húseyri og Húseyrarkvísl, sem fylltist af aur í skriðuhlaupunum haustið 1941. Ólíklegt er að beitarhús hafi verið á eyrinni, því að Keldá flæðir stundum yfir hana. Líklega fremur kennd við beitarhúsin NA í Múlanum.

Tófugildrur tvær eru í landi Lánghúsa, “vel á sig komnar, minjar sem vert væri að gefa gaum, segir heimildarmaður.” (Búkolla V, 1995, bls. 250). Ekki er getið nánar um staðina.

Vörður: Vörðuhjalli er í hlíðinni um 1 km suður af bænum, innan við Bjarndýrsbotna, og yst og efst á hjallanum er fallega hlaðin, ferhyrnd varða, 1 x 0,75 m að grunnmáli og um 1,70 m á hæð, en stendur auk þess uppi á steini. Varðan sést vel heiman frá bænum.

Garðar: Í ferð um Suðurdal að austanverðu, 2. ágúst 2012, sá ég greinilegan garð, líklega að mestu úr grjóti, sem liggur þvert niður Múlahlína, frá hæsta klettabeltinu (Skeikarhjalla?) niður að Hrakhamarshyl, spölkorn innan við Hrakhamarsrétt. (Gæti verið undirhleðsla girðingar). Gnúpsstaðagarður (landamerki). Sjá Glúmsstaði I.

Gamall vegur liggur uppi á börðunum, milli Grashjalla og núverandi vegar, og hefur þar sýnilega átt sér stað nokkur vegagerð. Við hliðina á veginum eru margar götur. (Skógræktarlýsing mín 1996). Þetta er innst í landi Langhúsa vestan Múla.

Áveita: "Áveituskurður, um 300 m langur, var grafinn frá Jökulsá ofan og austan við Langhúsaeyri, til að veita jökulvatni út á engjar, sem voru yst og neðst á eyrinni, og kölluð voru Lón. Sagt er að grjótstífla hafi verið sett í austari kvíslina, til að ná vatni í skurðinn. Lónin voru hólfuð sundur með stíflugörðum (áveitugörðum), en lítið mun sjást til þeirra nú, því að þar hafa verið ræktuð tún." (Skógræktarlýsing mín 1996). "Áveitan brást þegar lítið var í ánni í gróindum." (SJM II, 54) Á eyrinni hafði hvert lón sitt nafn, innan frá talið: Eyrarlón, Bakkalón, Torflón, Húsfreyjulón, Þýfðalón og Bæjarlón. "Milli Seftjarnar og Þýfðalóns var garður, kallaður Kvennagarður. Eftir honum lá engjagatan á Fram-Eyrina." (Örnfnaskrá).

Vöð: Nokkur vöð voru á Jökulsá undan landi Lánghúsa, og eru þessi nafngreind í örnefnaskrá, utan og austan frá talið: Ytra- og Fremra-Skógarvað, Drangsvað, nálægt Drang, Melgrófarvað, undan Melgræfum í landi Valþjófsstaðar, Hundabrot og Teigshúsavað, kennt við Teigshús handan Jökulsár. Klúkuvað var á Keldá á móts við bæinn Klúku. (Höf. reið eitt sinn yfir ána á Drangavaði, með föður sínum og fylgdarmanni, ungur drengur í barnaskóla.)

Hrakhamar (huldufólk) nefnist allhár klettaveggur SA í Múlaendanum, neðst, víða með þverstuðluðu bergi, og talinn vera framhald Skessustígs í Valþjófsstaðafjalli. Því hefur verið trúað, a.m.k. á síðustu öld, að í hamrinum byggi huldufólk, og fara af því nokkrar sögur. Um 1980 var sprengt mikið grjót úr hamrinum til vegagerðar, og 31. okt. 1980 kom gríðarlegt flóð í Keldá og voru nokkrir vegagerðarmenn þá í lífshættu við Keldárbrúna, en björguðust naumlega. Trúðu sumir að það væri hefnd fyrir brotið úr hamrinum. (Hjörleifur Ólafsson: Hrakningasaga af Austurlandi. Vegamál 1980: 10-12. Bjarni Guðjónsson: Það líf er sumir sjá. Múlaþing 21, 1994: 194-195. H. Hall.: Huldufólksbústaðir á Héraði (handrit)).

Draugasaga: Í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar eru sögur af draugnum Langhúsa-Móra, sem sendur var Auðuni bónda á Lánghúsum á fyrri hluta 19. aldar og fylgdi honum síðan. Að lokum fékk hann vin sinn, Einar á Víðivöllum fremri til að taka við draugnum, og fluttist hann þá þangað og nefndist eftir það Víðivalla-Móri. (Sigf. Sigf. Þjóðs. II, 211-213).

Bjarndýrsbotnar er örnefni NV í Múlanum, milli Lánghúsa og Glúmsstaða. Krosshjalli kallast austan í Múlanum, út og upp af Votabergi. (Örnefnaskrá).

Umsögn 1990: Torfgrjóthúsin á Lánghúsum verða að teljast í sérflokki meðal slíkra húsa í Fljótsdal, og jafnvel á öllu Héraði, hvað snertir allt skipulag, endurnýjun, viðhald og vandaðar og listrænar hleðslur, þótt nokkur hús á öðrum bæjum séu e.t.v. eldri og upprunalegri. Guðrún Kristinsdóttir, forstöðumaður Minjasafns Austurlands, hefur skoðað húsin og telur þau mikils virði, einnig Halldór Sigurðsson form. Safnastofnunar Austurlands. Það sem þó skiptir mestu máli er að Ágúst Þórhallsson bóndi á Lánghúsum, hefur ítrekað lýst vilja sínum til að viðhalda húsunum og nota þau framvegis, enda hefur hann, ásamt Þórhalli Ágústssyni föður sínum, átt mestan þátt í uppbyggingu og endurnýjun þeirra.
Eins og að ofan greinir eru flest þessara húsa enn í góðu lagi 2013, og aðalhúsin, ásamt Hólhúsinu, enn í hefðbundinni notkun fyrir sauðfé og hross. Ágúst hefur síðustu árin dvalið á Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum, en Rebekka systir hans og Baldur sonur hennar, hafa haldið áfram búskap á Langhúsum og notað gömlu húsin fyrir gripi sína.