Skip to main content
16 November, 2021

Glúmsstaðir I og II og Glúmsstaðasel

16 November, 2021
Glúmsstaðir I


Glúmsstaðir (Gnúpsstaðir) eru ein hinna fornu stórjarða í Fljótsdal, sem átti Norðurdal austan Jökulsár, frá umgetnum merkjagarði og inn til jökla, þó að síðar hafi Múlaafrétt verið skilin frá henni. Í gömlu kaupbréfi segir að "jörðinni fylgi afrétt fyrir 800 fjár." Jörðin var metin á 20 hundruð 1695 og 1847. Glúmsstaða er getið í Fljótsdælasögu í sambandi við skriðuhlaup. Innantil í landinu voru nokkur sel, og eitt þeirra varð hjáleiga og síðar sjálfstæð jörð, Glúmsstaðasel. Auk þess átti jörðin selför í Glúmsstaðaselsdal í Hrafnkelsdal. Jörðin er önnur tveggja í Fljótsdal, sem alltaf hefur verið í einkaeign, en hin er Víðivellir ytri. Jafnan var tvíbýlt á jörðinni, og um miðja 20. öld var henni skipt í Glúmsstaði I og II, og nýr bær settur á beitarhúsum, er nefndust Stekkur. Skriðuhætt er á Glúmsstöðum, og síðast féll stórskriða þar utanvert við túnið 1979.

Minjar á Glúmstöðum I og II voru skoðaðar með Halldóri Sigurðssyni, og myndaðar (neg.) 7. okt. 1990 og 9. ágúst 1992. Landið var skoðað 19. okt. 1996 (pós. myndir) og samin skógræktarlýsing og teiknuð tilh. kort. í nóv. 1996.

Fornbýli: Í Fljótsdælasögu segir að Glúmur og Þuríður Hámundardóttir hafi búið á Glúmsstöðum, og þau áttu eina dóttur er Oddbjörg hét. Þær mæðgur fóru í fjós snemma morguns, ásamt nautamanni, en Glúmur og annað heimafólk lá í rúmum sínum. "En þá er þær komu heim að bænum, var hlaupin skriða á bæinn, og þar Glúmur inni orðinn og allur lýður, sá er á bænum var, nema þessir þrír menn. Eftir þessi tíðindi lætur Þuríður færa bæinn yfir ána, hóti ofar en áður var. Sá bær heitir síðan á Þuríðarstöðum."(Íslensk fornrit XI, Austfirðinga sögur. Rv. 1950, bls. 215).

Þó sagan sé ekki trúleg hafa Norðurdælingar haft fyrir satt að bærinn hafi forðum staðið um 250 m utar en núverandi bær, þar sem kallast Fremra-Háaleiti, en þar eru greinileg ummerki um skriðu úr fjallinu. "Háuleitin eru gamlir skriðuhólar, milli þeirra er talið að fornbærinn, sem getið er í Fljótsdælasögu, hafi staðið, en engin verksummerki sjást þar nú." (Örnefnaskrá). "Þar kvað á einum stað votta fyrir tóttum, og munnmæli herma að þar hafi bær Glúms staðið", ritar Ólafur Jónsson (Skriðuföll og snjóflóð I, 299).

Bænhús: "Einnig voru kirkjur á Víðivöllum ytri og Arnheiðarstöðum, en bænhús á Glúmsstöðum, á Víðivöllum fremri og Brekku." (Sveinn Níelsson: Prestatal og prófasta, I, 1949, bls. 9). Engar frekari heimildir hef ég fundið um þetta bænhús, eða hvar það hafi staðið.

Gamli bærinn: "Snemma á öldinni [19. öld] voru á nokkrum bæjum skálar. Á Glúmsstöðum var skáli með afar gamalli lokrekkju, sem hafði verið hurð fyrir, og þiljað upp í kring með sterku þili úr svartrauðum viði. Viðir allir í skálanum voru afarsterkir." (Jón Pálsson: Búskapur í Fljótsdal á 19. öld. Múlaþing 29, 2002, bls. 31.)

"Baðstofa, 15 × 6 álnir, hálf á þrepi, hinn helmingur portbyggður, alþiljað uppi og niðri. Þverhús við hlaðið, 15 × 6 álnir; allt þiljað uppi, hálft niðri (F.1918). Bærinn byggður um 1880 (það elsta), rifinn 1954." (SJM II, 52).

Til er í Héraðsskjalasafni útlitsteikning (riss) af Glúmsstaðabænum eftir Vigfús Sigurðsson, í vasabók hans frá 1901. Einnig er til ljósmynd hans af bænum, frá svipuðum tíma, er sýnir greinilega þverhúsið, sem var með spónlögðu þaki, viðbyggðum skúr að norðan, tveimur dyrum og 4 gluggum á milli þeirra, og glugga á norðurstafni, en engum kvisti. Að baki þess er lágt torfhús, með strompi sem rýkur úr; þar hefur líklega verið eldhús og búr, og bakvið það baðstofan, nokkru hærri en eldhúsið, en óljóst teiknuð. Viðbyggt fjós er SV við þverhúsið, með dyrum á langhlið. (Svipuð bæjarskipun og á Arnheiðarstöðum, sjá síðar). Þessi bær sést einnig á ljósmynd Vigfúsar (frá um 1910) sem birtist í Múlaþingi 29, 2002, bls. 25, þar sýnist hestarétt vera innan við fjósið. Steinhús var byggt 1953, og var bærinn líklega rifinn að mestu leyti 1954.

Í úttekt við jarðarmat 16. okt. 1901 er húsum svo lýst:
Baðstofa, portbyggð, þiljuð uppi og niðri, 12 álna löng og 6 álna breið (kr. 270).
Búr og eldhús, 20 álnir á lengd, 5 álnir á breidd, þar af 10 álnir þiljaðar innan (kr. 120).
Þverhús á hlaði, 12 al.á lengd, 5 al. á breidd, með timburvegg niður á hlað og spónaþaki, og timburstöfnum fyrir ofan höfuðbita, alþiljað innan, með lofti og gólfi (220 kr.)
Fjós, 8 al. á lengd, 6 al. á breidd (40 kr.). Hlaða, 11 al. á lengd, 5 al. á breidd, 7 al. á hæð (32 kr.). Hesthús fyrir 4 hesta (15 kr.). Hlaða, 9 al. á lengd, 6 al. á breidd og 6 al. á hæð (26 kr.). Fjárhús fyrir 70 fjár, fullorðið ( 35 kr.); Fjárhús fyrir 55 fjár, fullorðið (26 kr.); Fjárhús fyrir 55 fjár fullorðið (24 kr.); Fjárhús fyrir 60 fjár, fullorðið (28 kr.); Hlaða, 10 al. á lengd, 6 al. á breidd, 7 al. á hæð (30 kr.).

"Jörðina Glúmsstaði, með eyðibýlinu Hamarsel, og ofantöldum jarðarhúsum álítum við rétt metna á kr. 4000,00. P.t. Glúmsstöðum 16. okt. 1901. Sölvi Vigfússon (hreppstjóri), Halldór Benediktsson (virðingarmaður)."

Gripahús heima
"Úthýsi vóru þannig, að víðasthvar vóru fjárhús með jötum með veggjum. Jón man samt eptir einu fjárhúsi með garða á Glúmstöðum, sem rifið var 1825, og tók 70 fjár, fullorðið, og allt af birki. Eptir það varð almennt að byggja fjárhús með garða." (Jón Pálsson / Baldvin Benediktsson: Búskapurí Fljótsdal... Múlaþing 29, 2002, bls. 30).

"Þar inn frá þessu [þ.e. Tóftatanga] með ánni heita Lón. Svo er neðan gatna, er liggja inn túnið, fyrst yst Ærhúsbotn, svo er Brunnhvammur, sem er rétt utan í túnhólnum, sem nefndur er Hóll. Hér utan [innan?] við bæinn, framan við Hólinn, heitir neðst Grund og Lágatún er þar ofar. Þá er næst framan við Lágatún Smiðjubotn. Þar fram með ánni heitir Gæsahvammar, og ofan við þá heitir Parthúsgrund. Þá er komið tún neðan vegar. Bæjarholt heitir þegar komið er að utan, inn úr túngirðingunni, og Fjárhústún. Þá er nefnt Efratún upp af bænum, og Harðbali heitir túnspildan framan við Efratún. Næst fyrir framan Harðbala er lækur, sem heitir Hesthúslækur. Þá er komið að Parthústúni, sem er ofan við Parthúsgrund, þar standa Parthús." (Örnefnaskrá).

Á bæjarmynd í SJM II, 51 sést torfhús rétt fyrir utan íbúðarhúsið, líklega fjós eða hesthús.

Húsaskoðun 1990: Bakvið íbúðarhúsið er kofi með torfgrjótveggjum og torfþaki, notaður sem geymsla fyrir mat o.fl. Rétt fyrir innan og ofan bæinn er fjós úr blönduðu efni. Lengra inn og upp á túninu er gamalt Hesthús, með grjóthlöðnum veggjum, sem standa vel, og torfþöktu járnþaki, nú notað sem reykhús. Stórar hellur liggja á þakinu, sem líklega hafa áður verið undir torfþekjunni (neg. mynd 7.10.90). Innan við Hesthúsið er Hesthúslækur.

Tvenn fjárhús eru á Fjárhústúni fyrir utan og ofan bæinn, ofan vegar. Rétt fyrir ofan veginn er einfalt fjárhús, með grjótveggjum og járnklæddu þaki, sem er tyrft að hluta til. Að baki því er hlaða með grjót-stein- og járnveggjum og járnþaki. Efri húsin eru tvístæð, nær alveg úr járni og timbri, og hlaðan sömuleiðis. Stutt innar og ofar er stór, járnklædd hlaða með skúrþaki úr járni, og kofi þar fyrir ofan, með grjótveggjum og járnþaki. Loks er fjárhústótt spölkorn innan við Hesthúslæk, með viðbyggðri hlöðutótt, líklega Parthúsin eða leifar þeirra. (Fjárhúsin á Glúmsstöðum I voru riðuhreinsuð 1991-92 og notuð áfram).

"Heima á Glúmsstöðum I voru til skamms tíma allnokkur gripahús úr torfi og grjóti, og enn eru þar nokkur slík smáhús heima við bæinn, gamalt hesthús inn og upp á túni og fjárhús með grjótveggjum utan við bæ. Framan við bæinn voru Parthús á Parthúsgrund, nú horfin." (Skógræktarlýsing mín, 18. nóv. 1996). [Sbr. mynd í "Búkollu nýju", 1995, s. 248. Þar sést að búið er að rífa torfgrjótveggina á neðra fjárhúsinu]. Hesthúsið stendur enn (2013).

Ærhús hefur verið í eða við Ærhúsbotn og Smiðja í eða við Smiðjubotn, en ekki var gáð að rústum þar. Þá hefur brunnur verið í Brunnhvammi, sem er utan og neðan við Bæjarhólinn, en þar er mikið af smálindum. Þvottalækur nefnist innan við Parthúsmýri, "þar var ullin þvegin" (Örnefnaskrá). Kvíaklettur er í fjallsrótum upp af bæ og túni, má ætla að kvíar hafi verið á túninu fyrir neðan hann.

Hestasteinn er í hlaðvarpa á Glúmsstöðum, ferkantaður, flatur að ofan, og í hann er festur járnhringur (Sbr. neg. mynd 7.10.90).

Tættur á Tóftatanga: Tóftatangi, í daglegu tali nefndur Tangi, gengur fram í Jökulsá skammt fyrir utan og neðan bæinn. Talsverður straumur er við tangann og brot á ánni rétt fyrir innan, sem kallast Tangavað. Á tanganum eru mikil garðlög og tættur.

"Þar er gamall nátthagi, milli tveggja, lágra klettaþrepa, sem bæði vísa í austur. Annað þrepið er meðfram ánni, um 1-1,50 m á hæð, og hlaðið í lægri skörð, en síðan grjótgarður, allt að 1 m hár, í framhaldi af stallinum, um 50 m inn með ánni, að víkurnefnu sem þar er. Uppi á eystri stallinum er nokkuð heillegur garður úr torfi og grjóti, um metershár, og 0,5-1 m breiður, 30-40 m á lengd, og stuttir þvergarðar frá báðum endum til austurs. Ytri þvergarðurinn er um 1,5 m hár, og líkist húsvegg, en þar virðist hafa verið fjárhús eða rétt austur úr aðalgirðingunni. Í beinu framhaldi af garðinum á klettahryggnum er garðstubbur, utan við umrætt réttarhólf, sem liggur á klettarana er gengur fast að ánni. Austan við umrætt hólf eða tótt, virðist móta fyrir einhverjum tóttum á grasbala við hliðina á litlum kartöflugarði sem þarna er nú. Ekki er ljóst hvaða tilgangi þvergarðsstúfurinn (um 10 m) að innanverðu hefur þjónað, en hann liggur aðeins niður stutta brekku og endar þar á jafnsléttu. Hugsanlega hefur brekkan austan í eystri klettaröðinni verið girt til matjurtaræktar.

Eystra klettaþrepið er austan í dálitlum, grasi vöxnum hrygg, og uppi á honum, þar sem hann er hæstur, innan við enda nátthagagarðsins, mótar fyrir tóttum, og eru það þrjár, aflangar dældir í röð eftir hryggnum, alls um 20-22 m á lengd, og 4-5 m á breidd. Innsta dældin er um 5 m löng, miðdældin um 10 m, og sú ysta um 3 m. Þetta líkist eiginlega mest fornum skálatóttum, en gæti líka hafa verið fjárhús á fyrri tíð. Líklega er tanginn kenndur við þessar tættur, sem eru miklu eldri en nátthagagarðarnir." (Ferðalýsing H.Hg.,19.10. 1996). (Skv. Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar átti "kona dvergsins " í Dvergabýli á Hóli að hafa búið á Tóftatanga.)

Hagagarður (túngarður) og rétt: "Um 1918-20: Girt hagagirðing frá Jökulsá og upp í Bjarg framan við túnið á Glúmsstöðum I. Síðan hlaðið grjóti í slakka í Bjarginu, um 3-4 km vegalengd inn að Fossá, og girt þaðan í Jökulsá. Utan við bæ var vörslugarður frá á og upp í Bjarg. Þessi girðing þótti hið mesta mannvirki." (SJM II, 52).

"Um 25 m innar og austar [en tætturnar á Tóftatanga] er mikill þvergarður, um metersbreiður að ofan eða meira, og 1-1,50 m á hæð að utanverðu, hlaðinn úr grjóti neðantil en torfi efst, og vallgróinn. Þetta mun vera hluti af gömlum túngarði sem lá frá ánni og upp í neðsta klettabeltið í hlíðinni, um 250 m vegalengd. Sést annar partur af honum ofan við veginn, en á milli hefur hann verið sléttaður í túnið, og efsti hlutinn fór undir skriðu 1979.

Neðst við þennan garð hefur verið rétt, sem er opin inn í nátthagann, þ.e. millivegg vantar þar. Aðalhólf réttarinnar er um 8 x 12 m, og minna hólf austur úr því, meðfram garðinum, um 4 x 5 m. Þessi mannvirki eru fremur ungleg, líklega byggð á fyrri hluta 20. aldar." (Ferðalýsing höf. 19.10. 1996 og blýantsriss).

Vöð á Jökulsá: "Þá er að geta þess að við Ytra-Háaleiti var eitt sinn aðalvaðið á Jökulsá; það hét Háaleitisvað, en er nú alófært." Tangavað var úr Tóftatanga yfir á eyrina þar sem Hólsrétt er. Fossárvað er við Fossá, "kemur upp í Hestabotn." (Örnefnaskrá).

Gnúpsstaðagarður: "Landamerki Langhúsa og Glúmsstaða eru úr Nesinu við Jökulsá, bein lína í fornt garðbrot, sem í gömlum máldaga frá Valþjófsstað er nefndur Gnúpsstaðagarður, nú horfið sem örnefni í mæltu máli. (N.B. Í sama máldaga eru Glúmsstaðir nefndir Gnúpsstaðir)" (Örnefnaskrá Langhúsa, viðbót 1973). 1996 fannst mér mega greina garðinn ofan vegar og var meiri brún á honum að utanverðu, víða m 1 fet á hæð. Þar er nú merkjagirðing. (Í SJM II, 51 er garðurinn nefndur "Gnúpsstaðagerði").

Forngripir: Í Minjasafni Austurlands á Egilsstöðum er varðveittur spjótsoddur úr járni, sem fannst á Glúmsstöðum 1955-60. Finnandi var Sveinn Jónsson, síðast í Brekkugerði. Að sögn Jóhönnu J. Kjerúlf (11.7. 1975), tengdadóttur Sveins, var hann að dytta að girðingu skammt frá bænum, þegar hann fann oddinn. Hann er talsvert ryðgaður, sem vonlegt er. Hugsanlegt er að þarna hafi verið kuml. (H. Hall.: Fornhaugar... Múlaþing 18, 1991).

Umsögn 1990: Byggingar úr torfi og grjóti á Glúmsstöðum I eru á engan hátt sérstakar, og aðrar minjar líklega heldur ekki (?) Gamli torfkofinn heima við bæinn og gamla hesthúsið (reykhúsið) eru þó laglegar byggingar. Minjarnar á Tóftatanga hafa mikið gildi.

Glúmsstaðir II


Glúmsstaðir II
eru um 1,5 km innan við upphaflega bæinn, á höfða milli Brúarhvamms og Stekkjarhvamms, næstum andspænis bænum Hóli. Þar hét áður Stekkur og þar voru beitarhús frá Glúmsstöðum (I), og túnblettur í kringum þau (Húsatún eða Stekktún). Nýbýli var stofnað þarna 1948 og íbúðarhús byggt á næstu árum. Það var lengi síðan kallað Stekkur og jafnvel enn. Eftir það voru beitarhúsin notuð frá nýbýlinu. Búið var rífa þau um 1990, en í þeirra stað voru byggð tvö, samstæð fjárhús á stalli neðanvið bæinn, að mestu úr bárujárni á trégrind. Rétt fyrir utan þau var annað hús, lítið, með grjótveggjum, járnþaki og timburþili, e.t.v. leifar gömlu beitarhúsanna. “Einhverjum húsum var eytt við riðuhreinsun, m.a. fjárhúskofa með helluþaki”, segir í Búkollu V, 1995, bls. 249. Inn og uppi á túninu var torfkofi með smiðjulagi, þ.e. timburstafni, notaður sem reykhús. Á árunum 1990-91 var byggt fjárhús út og upp af bænum, einnig úr járni á trégrind, með hlöðu úr sama efni. (Mynd í Búkollu V).

Dráttarstrengur: "Hjá Glúmsstöðum II er strengdur vír yfir ána. Hann var mikið notaður áður en bæirnir komust í vegarsamband, m.a. var allt efni í íbúðarhúsið á Glúmsstöðum I dregið þar yfir. Enn í dag fá Glúmsstaðabændur póst þessa leið." (SJM II, 52). Strengurinn var á Klifahyl, sem heitir eftir Hólsklifi, handan ár. Gunnar Jónsson á Egilsstöðum telur að þessi stengur sé hluti af heyflutningastreng sem var á Hóli, og segir hann liggja enn á bakkanum.

Myllutótt er við Fossá.” (SJM II, 52). Hef ekki séð hana.

Heyhnaus: "Þar framar og enn neðar, hjá Einstigi er Einstigishnaus, en út og upp af Einstigi, milli þessara hnausa, er Heyhnaus, heyjað var uppi og velt hér niður á vetrum. Þar ofar, upp af, er Háfellið." (Örnefnaskrá). Heyjað var uppi á Múla, eins og víðar í Fljótsdal, en þetta er eina heimild um að böggum hafi verið velt niður, líklega eftir langri fönn.

Vörður: Í örnefnaskrá er getið um tvær vörður á Hólsgrundarhöfða, upp af Hólsgrund (túni), sem er beint á móti bænum Hóli.

Rétt: Í Jökulsárgili neðan við bæinn er dálítill stapi, aðskilinn frá gilklettunum, og slétt grasflöt á milli. "Hefur þar verið hlaðinn grjótveggur til að mynda réttarhólf, en líkega rifinn aftur. Þar er nú pínulítill kartöflugarður. Fyrir utan þessa kletta heitir Stekkjarhvammur, og er þar malarkrús með ýmsu rusli, sem blasir við af veginum." (Ferðalýsing mín 9. ágúst 1992).

Brúarhvammur er innan við bæinn, beint á móti Þuríðarstöðum handan Jökuslár. Þar er nafnlaus smáklettur (drangur) í miðri ánni. "Þar sem drangurinn er í ánni, er sagt að hafi verið steinbogi til forna, en Þuríður Hámundardóttir landnámskona hafi látið brjóta steinbogann, eftir að börn hennar fórust af honum. Börnin ætluðu að strjúka yfir í Glúmsstaði, sem þá voru eyddir af skriðuhlaupi (sbr. Fljótsdælu). Síðan heitir þarna Brúarhvammur, sem fyrr segir." (Örnefnaskrá Glúmsstaða / Nánar í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar og samantekt minni í handriti).

Hamarssel er gamalt sel frá Glúmsstöðum, stutt innan við Jökulsárbrú, sem byggð var haustið 1991, um 2 km inn frá Glúmsstöðum II, kennt við Birnuhamar, klettaborg í Jökulsárgili. Þar telja menn að hafi verið búið fyrrum, þó ekki sé kunnugt um neina ábúendur (SJM II, 51). Olavius (Ferðabók II, 141) telur selið eyðibýli í landi Glúmsstaða og Halldór Stefánsson tekur það upp í eyðibýlaskrá í Múlaþingi 5, 1970. Í örnefnaskrá segir að þar hafi verið sel frá Skriðuklaustri, en um það vantar heimildir. Þar hafa lengi verið beitarhús frá Glúmsstöðum (nú Glúmsstöðum II).

"Næst ókum við inn að Hamarsseli, en þar eru beitarhús frá Glúmsstöðum II, og standa þar enn tvö, samstæð fjárhús, með járnþaki og veggjum úr torfi og grjóti. Eru torflög á milli grjótraðanna niður í miðjan vegg, en vegghæðin er um 1,50-1,70 m. Húsin eru í góðu standi, enda hafa þau verið girt af, til að komast hjá riðuhreinsun eða ruðningi, og fá vonandi að standa. Þau eru með timburstöfnum ofan á vegglagi, eða öllu heldur timburgrind, sem plastefni hefur verið strengt á, til að mynda glugga, og er þetta svona á báðum endum húsanna. Minnist ég ekki að hafa séð það annarsstaðar." (Ferðalýsing mín, 9. ágúst 1992).

Skv. munnlegum upplýsingum Hjörleifs Kjartanssonar bónda í okt. 2011 hafa þau ekki verið tekin aftur í notkun og ekki horfur á að svo verði, því að nægt húspláss er fyrir fjárstofninn heima. Hann segir veggi húsanna vera farna að bila, enda ekkert viðhald á þeim síðan um 1990, en Kjartan Hallgrímsson, faðir hans, byggði þau, líklega um miðja síðustu öld. Ég skoðaði húsin 16. ágúst 2013. Virtust þau í góðu lagi, nema ekki var hægt að opna hurðir.

Rögnvaldarsel er nokkru innar, nálægt merkjum Glúmsstaðasels við Illagil. Í SJM II segir að þar séu rústir, en í örnefnaskrá segir að þetta sé nafn á kletti. (Hef ekki skoðað staðinn).

Glúmsstaðasel


Glúmsstaðasel hefur upphaflega verið sel frá Glúmsstöðum, eins og nafnið ber með sér, og líklega búið þar af og til á fyrri öldum, en var orðið sérstakt býli um miðja 19. öld. Bærinn stendur beint á móti Kleifarbæ, handan Jökulsár. Jörðin fór í eyði eftir riðuniðurskurð 1990, en er síðan nýtt frá Glúmsstöðum II.

Minjar í Glúmsstaðaseli voru skoðaðar og myndaðar 28. ágúst 1991 og 16. júlí 1996.

Í Seli var fram yfir aldamót 2000 merkilegt safn gamalla gripahúsa, og gott dæmi um snotran sveitabæ, með hefðbundinni húsaskipan, líkt og í Klúku og á Langhúsum, en síðustu ár hafa gömlu húsin týnt tölunni.

"Gamli bærinn byggður rétt fyrir aldamót, af kaupstaðarviðum. Portbyggð baðstofa, með eldhúsi undir palli, slétt súð úr plægðum viði, um 3 rúmlengdir. Viðbygging með járnþaki 1922, ein rúmlengd. Búið í bænum til 1951." (SJM II, 50).

"Asbestklætt timburhús, byggt 1952, 10 x 7 m, hæð og ris, án kjallara. Útihús: öll úr torfi og grjóti, undir járni, nema 200 hb. hlaða úr timbri og járni, fjárhús fyrir 230, hlöður fyrir 260 hestburði, fjós og hesthús." (Sama heimild). Íbúðarhúsið hefur nýlega verið endurbætt mikið, m.a. klætt að utan og einangrað. Það er notað sem sumarhús af eigendum þess, sem eru Bergljót Kjartansdóttir frá Glúmsstöðum II og Ásgeir Jónasson frá Þuríðarstöðum.

Árið 1991 voru fjós og hesthús sambyggð, rétt fyrir ofan íbúðarhúsið, með hlöðu að baki. Annað húsið með torfþaki, eða torfi á járni. Aðalfjárhúsin voru á túninu, skammt fyrir utan og ofan bæinn, tvístæð, með skúrbyggingu að utan, og byggð í "nýhúsastíl", þ.e. grjótveggir langs, en stafnar og þök af bárujárni, og hlaða að baki, járnklædd. Smekklega byggð hús. (Sbr. mynd í SJM II, 50). Þarna var áður fjárhús sem hét Hólhús. Neðan við bæinn var Neðstahús, eitt langhús, með hlöðu að baki, sem sneri eins og hin (þvert á dalinn). Járnþök voru á báðum húsunum, en torf ofan á járni á Neðstahúsi. Níels Pétursson bóndi í Seli frá 1955 til um 1990 mun hafa byggt eða endurbyggt flest þessi hús af mikilli smekkvísi. Efst á túninu var fjárhúskofi, með timburstafni og járnþaki undir torfi.

Húsaskoðun 2002: "Gekk svo heim að bænum og leit inn í fjárhúsin, sem eru rétt fyrir utan hann. Það eru tvístæð hús, sperrureist, með járnþaki og fóðruð með froðuplasti á milli sperra. Hliðveggir og bakveggur úr grjóti, með torfi á milli grjótlaga, og hellum efst. Við hlið þess að utan er viðbygging, með skúrþaki og stoðum ofan í garða, þakið ekki einangrað. Að baki húsunum er viðbyggð hlaða, með grjótveggjum upp í um 2 m hæð, en ofan á þeim úr tré og járni. Norðurveggur hefur hrunið inn, en annars eru húsin vel standandi. Samt virðist hafa runnið inn í þau í leysingum eða rigningum. Rétt fyrir ofan bæinn eru önnur tvístæð hús, fremur lítil, með timbur-járnstöfnum. Skoðaði þau ekki að innan. Þar fyrir ofan á túninu er kofi úr svipuðu efni, og annar nokkru innar og ofar, ofan við tún, orðinn hrörlegur. Fleiri smákofar eru þarna uppi standandi (Sjá fyrri lýsingu)." (Ferðalýsing mín 8. ágúst 2002). Neðstahúsið er ekki nefnt, hefur þá verið fallið í tótt.

Skv. símtali við Hjörleif Kjartansson bónda á Glúmsstöðum II, 18. okt. 2011, stóðu þá flest húsin í Seli, þó vissulega hefði þeim hrakað síðan um 1990, því að þau höfðu ekkert viðhald fengið í meira en tvo áratugi. Fjósið var áætlað að rífa, en láta veggina standa, og nota tóttina sem skjól fyrir útigrill. Þann 16. ágúst 2013 myndaði ég Selsbæinn handan yfir Jökulsá. Aðalfjárhúsin stóðu þá enn óbreytt, en hin gripahúsin virtust vera horfin, nema veggur af fjóstóttinni, og kofinn ofan við túnið.

Stekkur er alllangt innan við túnið, um það bil mitt á milli þess og Ytri-Trönuár. Tóttin orðin óskýr, sagði Níels Pétursson fv. bóndi í Seli.

Grjótgarðar: "Torfi bóndi Hermannsson hlóð fyrir aldamót grjótgarð meðfram moldarbörðum neðst í túni, til að hefta uppblástur túnsins. Heppnaðist vel." "Töluverðar leifar grjótgarða, vörslugirðinga fyrir stórgripi, hlaðnir af Torfa Hermannssyni, bæði heima við og frá bæ." (SJM II, 50). (Torfi var bóndi í Seli 1885-1904). Grjót í þessa garða hefur verið nærtækt í skriðu sem féll úr Gjáhjalla, sem er uppi í fjallinu ofan við bæinn, um 1870, eftir því sem Þorvaldur Thoroddsen segir í Ferðabók sinni (III, 288), en þess sjást nú lítil merki. (Sbr. Ólafur Jónsson: Skriðuföll og snjóflóð I, 424). "Grund, nú ræktuð, heitir svæði framan við túnið, fram að gömlum vörslugarði. Innan við þennan garð er stykki, lægð, sem ekki sést fyrr en komið er að því, þetta heitir Leyningur." (Örnefnaskrá).

"Stutt fyrir innan og neðan túnið er gamall grjótgarður, sem stefnir þvert á ána og hefur líklega náð upp að klettabeltum í fjallinu. Hann er nú að mestu hruninn. Hann er um 150 m fyrir innan núverandi túngirðingu, og um helmingi lengra frá bænum." (Ferðadagbók mín 16. júlí 1996).
"Ég gekk næst út með ánni og út að túni. Skammt fyrir innan túnið er lágt klettabelti á bakkanum, sem liggur fast að ánni að utanverðu, en innan við það er girt með grjótgarði, svo þar hefur myndast aðhald eða rétt, og þaðan liggur svo gamall grjótgarður áfram upp í brekkur (mynd), innanvert á lágum höfða fyrir framan túnið." "Rétt fyrir utan kláfinn er annar grjótgarður frá ánni, upp með innra jaðri gamla túnsins." (Ferðalýsing mín 8. ágúst 2002).

Svarðargrafir hafa líklega verið í Svarðarmýri, nokkuð fyrir utan tún, og þar heitir líka Svarðarlækur.

Kláfur var settur á Jökulsá fyrir neðan bæinn um 1930, fyrst á grjóthlöðnum vörðum, en síðan voru steyptir stöplar til að festa strengina.

"Kláfurinn er beint á milli bæjanna, Sels og Kleifar, þar sem áin fellur í grunnu klettagili, 30-40 m breiðu, með klettahólma austast. Það hefur verið vel vandað til þessa kláfs og virðist hann enn vera í ágætu lagi, nema kassinn er svolítið farinn að bila, og dráttarreipið (sem er nælonkaðall) hefur bútast sundur og liggur í pörtum við kláfinn. Vírarnir eru eins og þeir séu glænýir, en þeir eru rammlega festir á steypta stólpa, beggja megin ár, og virðast eðlilega strengdir. Hér þarf bara að smíða nýjan kassa eða gera við þennan, og fá nýtt dráttarreipi. Trissurnar eru utan á kassanum, efst, og leika á boltum, sem festir eru, annars vegar í kassann, og hins vegar í járnboga, sem eru utan um trissurnar.” (Ferðalýsing mín, 8. ágúst 2002) (Sjá Lagarfljótsbók, en þar er lýsing og myndir af kláfnum, sbr. einnig Kleif).

Seljatættur á Seldal: Sá hluti Norðurdals sem er innan við Glúmsstaðasel kallast Seldalur. Þar eru nokkrar seljatættur, sem getið er í "Búkollu" og örnefnaskrá. Einnig hefur Níels bóndi gefið upplýsingar um þær.

Trönusel var yst á dalnum, rétt framan við Innri-Trönuá, ofan við götur, rúma 2 km frá bænum. Þar voru síðar beitahús frá Seli, aflögð um aldamót 1900. Þarna var eitt fjárhús og sést tótt þess vel, sagði Niels Pétursson. (Ég rakst þó ekki á hana þegar ég gekk inn með Jökulsá 16. júlí 1996).

Bjargsendasel: "Milli Háumýrar og Strípamýrar, þar sem Bjargið nær lengst niður að ánni, heitir Bjargsendi, þar innar er svo Stórigrafningurinn. Þar, rétt innan við læk, ofan gils, eru eldgamlar tættur, nefndar Bjargsendasel og lækurinn Bjargsendalækur. Utan við hann er tangi fram í ána. Selið er rétt innan við lækinn, þar nokkru innar er Sníkilsá [ytri] á merkjum." (Örnefnaskrá Sels). Samkvæmt þessari lýsingu leitaði ég að seltóttum við enda Bjargsins, á móts við Ófæruna handan ár, 16. júlí 1996, en fann þar ekkert sem benti til mannvistarminja, nema smávörðu á klettabrík, enda er selið talsvert innar.

Níels í Seli sagði það vera á móts við miðjan Kleifarskóg, beint á móti Hvíldarhnjúkslæk handan ár. (Sbr. grein um Jökulsárfossa í jólablaði Austra 1990) "Þar eru tættur margar og dreifðar, og bendir gerð þeirra til búsetu", segir í SJM II, 49, en um það eru engar heimildir, og satt að segja ekki líklegt. Níels sagði að þar væri ein tótt, sem líkist baðstofutótt, og nokkrar smærri. Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir túngarði, en þarna væri kargaþýft. Hann sagði tætturnar hafa skemmst af vatnsrennsli síðustu áratugina. (Viðtal 24. nóv. 1990)

Dýjasel (Dýjakot): Óljósar sagnir eru um þriðja selið, Dýjasel eða Dýjakot, sem átti að hafa verið undir Ytra-Dýjafelli, líklega um 2 km innan við Bjargsendasel. Þar átti að hafa verið búseta, og síðasti bóndinn að hafa farist í kaupstaðarferð á Djúpavog. (Sjá þjóðsögu í ritsafninu "Syndir feðranna", 1. bindi, 1. útg. 1970). Rögnvaldur Erlingsson samdi sögu um þetta efni, sem heitir "Andstæður", birt í Austra, júní 1985 og líka langt kvæði, óprentað.

Níels Pétursson kvaðst hafa farið að huga að tóttum við Ytra-Dýjafell eftir að Rögnvaldur fór að spyrjast fyrir um þær, en mundi ekki eftir að hafa heyrt um þetta sel fyrr en þá. Hann sagðist aldrei hafa séð tættur á þessum slóðum, sem gætu verið af seli eða koti, og hélt að sagan ætti við Bjargsendaselið, ef hún er ekki tilbúningur. Hins vegar rakst hann á grjótbyrgi nokkurt, sem líkist smalakofatótt, undir kletti, vestan (NV) í fellinu, og einnig heystæði þar neðar og framar. Sjálfur gekk ég um þetta svæði 16. júlí 1996, án þess að rekast á tættur.

"Milli ánna [þ.e.Ytri- og Innri-Sníkilsár] heitir Ytra-Dýjafell, og innan við Innri-Sníkilsá er Innra-Dýjafell. Þar fyrir innan er Ytri-Heiðará. Við Ytra-Dýjafell er talið að hafi verið eyðibýli, sem hét Dýjasel eða Dýjakot. Þjóðsaga segir að síðasti ábúandi hafi heitið Þórður, og samkvæmt sögunni var hann myrtur í kaupstaðarferð 1701. (Syndir feðranna, Rvík. 1970). Vafalaust er sú saga ýkjufull og sum atriði vafalaust röng. Ekki er kunnugt hver skrásetti söguna eða heimildir hans." (Örnefnaskrá Múla).

Mig minnir ég hafa heyrt að Hallgrímur Kjartansson á Glúmsstöðum II hafi fundið tættur við Ytra-Dýjafell, en hann er nú látinn. Hjörleifur bróðir hans vissi ekki nánar um þetta, þegar ég spurði hann 18. okt. 2011, en sagðist halda að þarna væru einhver óljós tóttabrot, þó að hann hefði ekki séð neitt sem kalla má ótvírætt.

Umsögn 1990: Heildarsvipur bæjarhúsanna í Seli er einstaklega fagur og í góðu samræmi við umhverfið. Einnig eru útihúsin vel byggð og í góðu ástandi, gott dæmi um "nýhúsastílinn". Tættur Bjargsendasels ætti að friðlýsa.