Kleif
Kleif
Kleif er landmikil jörð, en þó aðeins metin á 4 hundruð 1695 og 1894. Jörðin komst snemma í eigu Valþjófsstaðakirkju eins og allt hálendið þar fyrir innan, fram til jökla. Skv. SJM II var hún þó skráð eign Mjóafjarðarkirkju 1917, en er nú ríkiseign. Jörðin fór í eyði 1981.
Minjar á Kleif og Kleifardal voru skoðaðar 27. júní 1988 og myndaðar. Öll gömul torfhús fóru forgörðum í riðuhreinsuninni um 1990. Síðast skoðað og myndað í ágúst 2013.
Gamli bærinn: "Gamli bærinn var á sama stað og núverandi íbúðarhús. Sneri hlið að hlaði. Timburstafn með bæjardyrum í suður, annað úr torfi. Baðstofa 8 1/2 × 5 álnir, portbyggð, með reisifjöl." (SJM II, 48).
Í Héraðsskjalasafni er teikning Vigfúsar Sigurðssonar af Kleifarbænum frá 1901. Skv. henni hefur baðstofan verið með timburstafni ofantil, stórum glugga í suður, og tveimur gluggum austan á þekju. Viðbyggð henni að norðan er líklega skemma með þilstafni austur á hlað. Umhverfis baðstofuna að neðanverðu eru afar þykkir veggir, og austan á þeim tvennar dyr (eða dyr og gluggi). Að húsabaki eru tvö lægri hús, líklega eldhús og fjós, en þó rýkur aðeins úr skorsteini á baðstofunni.
Timburhús "á einni hæð, byggt 1940, stækkað 1951." (SJM II, 48, mynd). Þetta hús stendur enn 2013, en er farið mjög að hrörna eftir 30 ára eyðitíma, og er nú talið ónýtt. Í eldri hluta hússins eru útveggir með þunnu steypulagi á vírneti (forskalað), tjörupappi undir, en yngri hlutinn er klæddur með asbestplötum. Tvöfaldur reiðingur myndar einangrun í veggjum í báðum hlutum hússins. (Nokkur húsgögn voru enn í húsinu sumarið 2013). Lítið fjós var viðbyggt íbúðarhúsinu 1990, að bæjarbaki, veggir úr grjóti, nema að framan (austan) og járnþak, e.t.v. var þarna líka smáhlaða. Þessi hús voru rifin 1991.
Hús heima við bæ: "Útihús: Öll á túninu ofan við bæinn, öll úr torfi og grjóti, undir járni. Fjárhús fyrir 200, fjós fyrir 2, hlöður fyrir 200 hestburði." (SJM II, 48) "Yzt á túninu var fjárhús, hét Lambhús. Þar sem fjárhúsin eru nú hét Sauðhús." (Örnefnaskrá, viðbót 1973).
"Á Kleif voru líka hesthús og lítil hlaða beint upp af bænum, veggir úr torfi og grjóti, þök úr timbri og járni. Við brekkurætur, svona mitt á milli hesthúss og bæjar, en aðeins utar, stóð vélageymsla, sem rúmaði bíl og dráttarvél, veggir úr torfi og grjóti á þrjá vegu, en framhlið úr timbri og þak járnklætt. Rifið 1991." (Bergljót og Gunnar, Egilsst., bréf. 6. apr. 2012). Á mynd frá 1955-60 virðist aðeins vera heystæði beint upp af bæ, og smákofi með timburþili, e.t.v. smiðja, þar sem vélageymslan var síðar.
Fjárhúsin (Sauðhús) á Kleif stóðu 1988 á túninu, rétt framan og ofan við bæinn. Þetta voru fimm samliggjandi hús (miðað við þökin), sem stóðu hlið við hlið. Þau voru öll með grjótveggjum og járnþökum. Tvö ystu húsin voru með bretaskálajárni og timburþili af skálunum (eiginlega efri hluti skálanna), en hin þrjú með bárujárnsþökum á sperrum. Þessi þrjú voru sambyggð, þannig að milliveggir voru engir, og aðeins einar dyr austan á miðhúsinu, og eins voru skálahúsin sambyggð þannig, því að á þeim voru aðeins einar dyr. Að húsabaki var allstór hlaða, einnig byggð úr bretaskálaefni. Þetta hafa víst verið einu bretaskálahúsin sem þá stóðu í Fljótsdal. Húsin sjást á mynd frá 1955-60, einnig á bæjarmynd í SJM II, og á neg. mynd höf., frá 27. júní 1988. Í Búkollu 1995, s. 260, segir: "Öll útihús lögð í rúst af riðunnar sökum, en tún notuð til slægna og beitar frá Egilsstöðum." Á mynd frá 28. ágúst 1991 voru þau horfin og komin bunga í túninu á sama stað.
Kvíar voru innst á gamla túninu, þar sem heitir Kvíaholt. Hesthús var á Hesthúsgrund, framan við fjárhúsin, en var horfið 1990, tættur sléttaðar í tún. Vatnsþró var á Bæjarhjalla. (Örnefnskrá).
Ullarþvottastaður: "Ullarsteinn er innst á túninu, þar hjá rennur niður Ullarsteinslækur." (Örnefnaskrá).
Myllutótt er við Kleifará, niður við Jökulsá. (SJM II, 48).
Stekkur: "Þar utar [en Miðselsmýrar] er svo Stekkur, og Stekkahraun er utan við hann. Þar utar er svo Króarhraun, með vörðum á, og er þá komið heim að bæ." (Örnefnaskrá) "Upp af Stekk er Stekkasnið í hjallanum [Valahjalla] og Stekkahnaus er beint niður af sniðinu, niður af hjallanum." (Sama heimild). Stekkjartóttin er ennþá greinileg, nokkuð umfangsmikil, e.t.v. hefur þar líka verið rétt.
Miðsel: "Næst utan við Stóralæk er hæð sem heitir Miðselshæð, og Miðsel eru gömul beitarhús; þar er ræktað land, og svo eru Miðselsmýrar, ræktaðar, hér skammt framar, og Mýrarklettur er stakur á mýrunum. (Örnefnaskrá). "Tættur Miðsels enn óhreyfðar." (SJM II, 48). Þar voru beitarhús í notkun til 1907. Miðselið er um 1,5 km innan við Kleifarbæ, nú innst á nýræktartúnum. Um 1990 voru þar greinilegar tættur tvístæðra beitarhúsa, með hlöðutótt að baki, og hrútakofa til hliðar, vaxnar háu grasi. Utan og neðan við Miðsel er Miðselsfoss í Jökulsá, neðsti foss í ánni. Líklega hefur verið til Ystasel, en um það er ekki getið í örnefnaskrá eða SJM II. Hugsanlega hefur Eyrarsel verið þetta ysta sel.
Ófærusel: "Eitt sinn var þó búið um 5 km innar [en Kleif], þ.e. á Ófæruseli á Kleifardal, en búsetutími þar var ei nema örfá ár." (SJM II, 47). Halldór Stefánsson (1970) kallar selið "afbýli frá Kleif." Í eyðibýlaskrá í Ferðabók Olaviusar II, 1965, bls. 141, er þessi skýring við Ófærusel: "Haldið að þar hafi verið búið, en annars sel frá Kleif." "Utan við Ófæruna er Ófærusel, þar var búið til forna." (Örnefnaskrá). Engar ótvíræðar heimildir eru um fasta búsetu, en þar gat hafa verið tímabundin búseta eins og á fleiri seljum.
Ófærusel er um 4 km innan við Kleif, á svonefndum Kleifardal, utan við Ófæru og Ófæruselslæk, stutt fyrir ofan samnefndan foss í Jökulsá. Þar er fagurt og skjólsælt umhverfi. Þar voru beitarhús frá Kleif framan af 19. öldinni. Tættur beitarhúsanna eru skýrar, og rétt fyrir utan þær mótar fyrir hólfaðri tótt, sem gæti verið af selinu. Ein stök tótt er stutt fyrir innan. Engin merki sjást um túngarð.
Vörslugarðar: Landið kringum Ófærusel hefur verið afgirt með vörslugörðum, sitt hvoru megin, er legið hafa milli neðsta klettahjalla í fjallinu og Jökulsár. Skammt utan við selið er Ytri-Garður, aðallega úr torfi, og innan við Ófæru eru leifar af grjótgarði meðfram Mjóagilslæk. Þar er nú afréttargirðing. Að ofan myndaði innsti hluti Kleifarbjargs nægilegt aðhald. (Ófæran er hvilft með snarbrattri brekku sem nær niður niður í Jökulsá, líklega gamalt skriðufar, nú grasi vaxið, en gat hafa verið illfært fyrrum.)
Kláfur hefur lengi verið á Jökulsá innan og neðan við bæinn, milli gilbarma, og er enn nothæfur (Sjá Glúmsstaðasel). Í sóknarlýsingu Péturs Jónssonar á Valþjófsstað 1873 er getið um kláf á Jökulsá "inni í dalnum", sem líklega var á þessum stað. "Þar var kláfur sem tók af 1906, annar settur 1926, og endurnýjaður 1951, og þá steyptar vírfestar." (SJM II, 48). Líklega hefur þarna verið kláfur frá gamalli tíð. Sá sem tók af hefur líklega verið niðri í gilinu. (Mynd í Lagarfljótsbók, s. 192). Níels Pétursson í Seli sagði að kláfurinn hefði verið settur á gilið 1928 eða 1929, þá voru strengirnir festir í grjótvörður, en síðan í steypta stólpa 1948. Hann byggði kláfinn í félagi við Þorfinn á Kleif, þeir skiptu kostnaði jafnt, en fengu engan styrk. Sagðist hann hafa spurt Hallgrím Jónsson oddvita á Víðivöllum hvort hreppurinn myndi styrkja þessa framkvæmd, en hann gaf lítið út á það. (Viðtal 24. nóv. 1990).
Ég skoðaði kláfinn 16. ágúst 2013, með Gunnari bónda á Egilsstöðum, og var ekki að sjá annað en kaplar og festingar þeirra væru í besta lagi Kleifar megin, en kláfkassinn var horfinn, enda var hann orðinn hrörlegur. (Búið var að leggja rafmagnskapal meðfram kláfstrengjunum, vegna rafgirðingar meðfram Jökulsá, sem gerð var eftir að henni var breytt 2008-09)
Heystrengur: "Heyskapur á heiðinni var oft 80-90 hestburðir. Þangað var bæði bratt og langt að sækja, og því setti Þorfinnur bóndi Sigmundsson, laust fyrir 1930, upp 600 m langan vír, af brún niður á jafnsléttu, og renndi böggum niður á trissu. Þessi útbúnaður var notaður til 1950, að heyskap var hætt í efra." (SJM II, 48). Heyklettur er yst á Kleifarbjargi, skammt innan Kleifarár, þar hefur efri endi strengsins verið festur. "Þar sést móta fyrir heystæðum og þar eru einnig ummerki sem benda til að þar hafi heystrengurinn verið festur." (Bergljót og Gunnar, bréf 6.4.2012). Þau halda að þegar hætt var að nota strenginn hafi hann m.a. verið nýttur til að vinda utanum trérör, sem lögð voru til að leiða vatn úr Kleifará að rafstöðinni.
Heystrengir af þessu tagi voru á fleiri bæjum í Fljótsdal, líklega að norskri fyrirmynd, sjá Þorgerðarstaði, Egilsstaði og Hól. (H.Hall.: Heystrengir.... Glettingur 22 (2), 2012).
Virkjun: Kleifará var virkjuð til heimilisnota 1956, með pípum af Bæjarhjalla í miðju fjalli, niður að stöðvarhúsi við enda árgilsins. Stöðin var 16 kw. "Stöðin hefur reynst vel" Hún var lögð niður þegar samveiturafmagn kom 1971. (SJM II, 48). "Stöðvarhúsið var rifið 1972, er stöðin var seld Guðna Nikulássyni í Arnkelsgerði, en tóftin er enn greinileg 2012." (Bergljót og Gunnar, Egilsst., bréf 6.4.2012).
Reiðvegir lágu frá Kleif, annar upp yfir heiðarbrún, um Ytrasnið, meðfram Kleifaránni, til Aðalbóls í Hrafnkelsdal (Aðalbólsvegur), hinn fram eftir dalnum, og hefur fyrrum legið um Götuhjalla, inn frá bæ, en liggur nú eftir traktorsslóð um túnin, inn á Ófærusel, síðan inn yfir Ófæru og um Götuhjalla í Kleifarskógi, upp á heiðarbrún um Vegslakka við Hvíldarhnjúka, og þaðan inn að Laugafelli og Snæfelli. Er sá síðarnefndi ennþá vinsæll reiðvegur, og var skógur höggvinn frá honum á síðasta áratug 20. aldar.
Vöð: "Rétt innan við ós Kleifarár var vað á Jökulsá, sem kallað var Á Hellunni eða Helluvað." (Örnefnaskrá).
Huldufólk og útilegumenn: "Nokkuð frammi á túninu á Kleif eru tveir steinar, misstórir, þar eru sagnir um huldufólk." Tilgreind er saga frá upphafi 20. aldar. (SJM II, 48). Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (III, 27) er álfasagan "Fjalgerður", sem átti að hafa gerst á Kleif.
Á Valahjalla átti einn af útilegumönnunum sem héldu til við Þjófahnjúka að hafa verið eltur uppi og drepinn. (Sbr. Valþjófsstað og "Sagan af Snæfellsþjófunum" í Þjóðs. Sigf. Sigf.)
Umsögn 1990: Tættur Miðsels og Ófærusels ber að vernda. Athuga um fjárhús og fjós heima.