Skip to main content
23 November, 2021

Skriðuklaustur

23 November, 2021

Skriðuklaustur

Skriðu í Fljótsdal er ekki getið í fornritum, og raunar fer engum sögum af staðnum fyrr en klaustur var stofnað þar laust fyrir aldamótin 1500. Elsta heimild sem nú er kunnugt um er “vitnisburðarbréf um landamerki, ítök og ítölur” Víðivalla ytri, frá 23. mars 1467, en þar segir að Víðivellir eigi “tíu hesta létorf árlega í Skriðu jörð og fimm stóðhrossa beit á vetrum, og taki ekki folöld frá. Teig [engjateig] með ummerkjum fyrir framan skógargöturnar ofan frá Skriðu.” (Ísl. fornbréfasafn V. bindi, bls. 472). Í staðinn átti Skriða skógarpart í landi Víðivalla. Víðivallateigur er enn til sem örnefni utan og neðan við bæinn á Skriðuklaustri.

Þegar Hallsteinn Þorsteinsson á Víðivöllum (ytri) og Sesselja kona hans gefa klaustrinu jörðina árið 1500, fylgja henni nokkur skógarítök og rekar sem kann þó að hafa verið lagt með henni frá Víðivöllum. Einnig virðist Klaustursel á Jökuldal með tilheyrandi afbýlum hafa fylgt Skriðu fyrir klausturstofnun, þó ekki sé það ljóst.

Í upphafi hefur Skriða sennilega verið afbýli frá Valþjófsstað. Valþjófsstaðakirkja náði snemma eignarhaldi á austursíðu Jökuldals, Hrafnkelsdal og öræfunum milli Jökulsánna. Raninn á milli Eyvindarár og Hölknár hefur lengi verið talinn sameign Valþjófsstaða og Klausturs, þannig að neðri hlutinn með býlunum Brattagerði og Þorskagerði tilheyrði Klaustri en afréttin Valþjófsstað. Klaustursel með afbýlinu Fossgerði (Stuðlafossi) er næsta jörð fyrir utan Ranann, og þarnæst jörðin Merki, sem var hjáleiga frá Arnheiðarstöðum. Valþjófsstaðakirkja átti fjórða part í báðum þeim jörðum, en hinn hlutinn var Kristfjáreign.

Ýmsir ferðabókarhöfundar á 18. eða 19. öld minnast á Skriðuklaustur, en geta ekki um fornminjar þar. Kristian Kålund kom þar árið 1873, en nefnir ekki annað en Bessastein, og Sigurður Vigfússon fornfræðingur, sem fór um Fljótsdal sumarið 1890, minnist ekki á Skriðuklaustur í ferðaskýrslu sinni (1893). Reyndar voru þeir báðir svo uppteknir af “fornsögustöðum”, að þeir gáfu lítinn gaum að minjum, sem þeir hugðu vera yngri en frá Söguöld. Aðeins Daniel Bruun, sem kom þar 1901, hefur eitthvað að segja um fornar minjar.

Ætla mætti að á svo fornfrægum stað sem Skriðuklaustri, væri margt minja frá fyrri öldum, en sú er ekki raunin. Forgengilegt byggingarefni og virðingarleysi fyrir gömlum minjum hefur valdið því, eins og reglan er hérlendis. Hins vegar eru meiri heimildir til um húsakynni fyrri tíma á Klaustri en almennt gerist. Þegar Klausturbær var endurbyggður um 1890 komu fornar minjar í ljós, sem Jón Jónsson læknir skoðaði og greindi frá í Árbók fornleifafélagsins 1897. Árið 1965 samdi Heimir Steinsson prófritgerð um Sögu munklífis að Skriðu í Fljótsdal, en úr henni hafa aðeins birst tveir kaflar. Í hana hef ég sótt meginhluta þess sögulega fróðleiks sem hér er tilreiddur.

Allt frá 1990 hefur höf. skoðað minjar á Klaustri, einna best 27. sept. 1991 og 1. ágúst 2000. Um aldamótin 2000 samdi ég sérstakan ritling: “Minjar og saga á Skriðuklaustri. Heimildakönnun” (36 bls.), sem var færður inn í þessa minjaskrá, með dálitlum breytingum. Þar er að finna 6 bls. skrá yfir heimildir um Skriðuklaustur og sögu staðarins. Sjá einnig grein höf. um Skriðuklaustur í Lesbók Morgunbl., 18. des. 1999.

Á fyrsta áratug 21. aldar fór fram umfangsmikill uppgröftur og ýtarleg rannsókn á rústum klaustursins. Árangur þeirrar rannsóknar er kynntur í nýlega útkominni bók: Sagan af klaustrinu á Skriðu, eftir Steinunni Kristjánsdóttur (Rvík 2012, 375 bls.). Hér verður ekki reynt að endursegja þær niðurstöður, nema í ágripi.

Annars verður leitast við að tína saman þær upplýsingar um sögulegar minjar á Skriðuklaustri, sem hægt er að finna í skrifuðum eða prentuðum heimildum, eða sjá má á yfirborði landsins, en tekið skal fram að engin skipuleg könnun á yfirborðsminjum hefur farið fram á jörðinni.

Landamerki Skriðuklausturs og Bessastaða (Hamborgar) voru áður fyrr miðuð við Melakvísl, Bessastaðaá og Eyvindarkeldu, og eru þannig skráð í þinglesinni landamerkjalýsingu frá 1922, sem innfærð er í landamerkjabók Norður-Múlasýslu. Árið 1930 seldi Sigmar G. Þormar, sem þá var bóndi á Klaustri, Eiríki J. Kjerúlf bónda í Hamborg, nokkra spildu yst af landinu, sem þá var sameinuð Hamborg. Síðan hafa merkin verið talin úr Silungakíl um Mylluskurð í Melatjörn, og þaðan í “klett framan við Goðaborg, merktan LM”, og því er Fljótsdalsrétt nú í landi Hamborgar. Eldri merkin eru skýrari í landslaginu. Gagnvart Valþjófsstað hafa jarðamerkin verið miðuð við Nýjagarð, sem enn sést móta fyrir, en þar er nú skurður og girðing.

Miðaldabærinn

Elsta lýsing húsa og húsmuna á Skriðuklaustri er í formi úttektar frá árinu 1598, og verður hún rakin hér á eftir. Úttektin er varðveitt í handriti í Þjóðskjalasafni sem afskrift frá 1636 (Þjskjs. Geiheimearkivet 3 No. 47). Halldór Stefánsson telur að fáum árum áður, 1595 eða 1596, hafi orðið húsbruni á Klaustri, en ekki er vitað hversu víðtækur hann var. (Austurland V, bls. 148 / Eríkur Eiríksson: Bæjarbrunar á Héraði. Glettingur 8 (1), 1998).

Þó úttekt þessi sé gerð 44 árum eftir að klausturhaldi lýkur er ljóst að húsaskipun hefur varla breyst mikið á þeim tíma, og mestur hluti þeirra hýbýla sem hér eru talin hlýtur að hafa verið í notkun á klausturtímanum, enda þótt “klausturhúsin” séu “af fallin”, eins og það er orðað. Úttektin er hér rituð eftir uppskrift Heimis Steinssonar í handriti hans Saga munklífis að Skriðuklaustri í Fljótsdal, bls. 44-46, en stuðst er við ljósrit af handritinu. (Stafsetning og greinarmerki fært til nútíma venju, greinarskil og leturbreytingar eru mínar).

Anno domini 1598 vorum vér eftirskrifaðir menn, séra Einar Sigurðsson, séra Þorvarður Magnússon, séra Einar Magnússon, Þórður Björnsson, Bjarni Jónsson, Björn Gunnarsson, eftir höfuðsmannsins bréfi Jóhanns Bockholtz, að Skriðuklaustri saman komnir, þriðjudaginn í sjöttu viku sumars, að meðtaka áðurnefnda Skriðu, með sinni innstæðu, utan garðs og innan, af umboðsmanni Erlends Magnússonar og afhenda Jacob Vijnoch gilt og gott, sem Erlendur hafði meðtekið.
Í fyrstu úttekið sjálfa klausturkirkjuna, vel standandi að veggjum og viðum, með hurðu og járnum, hespu og keng. Þetta innan kirkju: 15 höklar, sextándi hjá Erlendi Hjaltasyni, seytjándi undir Ási, 9 serkir, tíunda[!] rykkilín, fimm korporalshús, 3 dúkar, 5 kantarakápur, 6 höfuðlín, 6 brúnir, 8 altarisklæði með því sem í heimakirkjunni átti að vera, 1 fontklæði, 6 altarisdúkar, 1 randasloppur, 2 fordúkar, 12 stólur, 5 lepsur af messuklæðum, 2 kaleikar gylltir og einn lítill, fjórði hjá Þórði, allir með patínum, tvær pípur á krókum á háaltarinu og 2 krossar þar hjá, tvær laufapípur, báðar í tveim hlutum, málað tjald yfir altarinu, 1 fontkross, 6 klukkur fram í kirkjunni, þrjár bjöllur í kórnum, 1 norskur stokkur með lausu loki, 1 útsnikkuð kista innlæst, 5 stólar, sjötti stendur hjá Erlendi, 1 randatjald stórt í kórnum, 1 skrúðkista með lausu loki, 55 bækur talsins, 2 hangandi hjálmar, 1 skorin brík fyrir altari, 1 látúnskross, 1 merki, 1 hurð.
Heimakirkjan að falli komin, bæði að veggjum og viðum. Tvær klukkur litlar, báðar kólflausar; vatnskall með munnlaug, hvorttveggja brotið; maltkvörn; kista með loki, annari löm og hespu; önnur loklaus; þriðja með lausu loki; hurð með járnum og hespu; undir 12 hesta skeifur, með litlum stokki, en naglar aungvir, skeifurnar misgóðar; klaufhamar; 7 ljáir; þrjú brýni, fánýt; 3 nafrar, þrjár axir, eitt kjak af þeim.
Smiðjan sterk að veggjum og viðum, með hurðu; 2 steðjar; 1 sleggja; 1 hamar; 1 töng slæm, eitt saumhögg, 1 kómet, ein stappa, 1 skóbor, ein lóð.
Reiðingsskemman niðurfellileg, þó víða sterk, eingin hurð; fjórar nautshúðir; enn ein húð, góð; ein kýrhúð; tvö kálfsskinn, 13 klippingar, allir hæfir; 5 hesta reip og 12 einhögldungar; fjögur hælstög; 8 klyfberar reiddir, 4 óreiddir; 6 orf; 4 rekur; 7 hrífur; 5 vallarklárur; 1 strengur dreginn með aungli; járnkall góður, 1 páll góður.
Eldaskemman gömul, sterk og vel standandi, bæði að veggjum og viðum, hurð á, hespa og keingur.
Eldsgögn: Ketill, 10 skjólur, uppgiltur, með öðrum bættum til nýrrar gildingar; annar ketill nýr og sterkur, hálf þriðja skjóla; 6 skjólna ketill uppgefinn, og tveggja skjólna ketill með bótum, þessir báðir uppgiltir, með einum tveggja skjólna katli, góðum og sterkum; 1 halda; 2 pottar, stór og lítill, báðir heilir; setuslá; ketill, fjórar skjólur, uppgefinn.
Borðhús nýtt og sterkt, framan með þili, hurðu, hespu og keng; skerdiskar illir og góðir 23; 9 trédiskar heilir og 5 sprungnir; þrjú tinföt, dælduð en tvö heil; 1 saltsier [!]; tvær kistur, önnur með loki lausu, en önnur loklaus.Stórastofan ný, með hurð á járnum, með háborðsbekk og þiljuð þar um kring; háborðið með stólum; tvö borð með einu forsæti; 1 strigadúkur vondur, 1 borðklukka.
Kjallarinn gamall og sterkur, vel standandi, með tveimur hurðum og einni hjaragrind; 1 stokkur, loklaus og vondur; tvær könnur gamlar, kallaðar rjúpur, uppbættar með einni tint, og þrjár heilar og fjórða tint.
Prestaskálinn lítt hallaður að undirgrindinni, hrörnaður að veggjum og rjáfri, sængurstæði þrjú, með stólpum og rúmstokkum.
Litla baðstofan að öllu sterk, utan ein sperra brotin, loft og borð þar, með þremur hurðum, fjórða fyrir baðstofunni; pallur, vantar 1 fjölina.
Litla stofan komin til falls, sængurstæði, bekkur lítill, skáp(ur) naglfastur.
Skálinn nýr og sterkur að viðum og veggjum, með 6 sængum hvoru megin, þar í ein lokrekkja með hurð. Þetta í sængurklæðum: Þrjár sængur með dún, þrjú hægindi með dún; 5 hvíluvoðir fornar og sterkar, enn tvær hvíluvoðir, önnur bætt, önnur einskefta, 1 einskeftu hvíluvoð, þrjú sængurver forn, eitt fornt hægindisver, tvær ábreiður nýjar, 1 ábreiða bærileg forn, 1 ábreiða slitin og vond, tvær ábreiður vondar, lagðar fyrir eina munnlaug; vatnskallspottur með tveimur stútum.
Búrið mjög fornt og niðurfellilegt, hurð á járnum; fjögur stórkeröld, 20 trog góð og sterk, 9 trog misjöfn; 1 drykkjaraskur; 14 uppgjörðarkeröld, þrjú löggstokkin á einum stað hvert; 8 skjólur, fjórar vel sterkar, aðrar fjórar í minna gildi; 1 strokkur matheldur og heill, með loki og bullu, þó með birkigjörðum fjórum, annar strokkur að öllu vænn og sterkur; 8 borðskálar, ein brostin í barminum; 12 spænir; 7 kvennaskar; tvær hangandi kolur; 1 ljóspanna; 11 láfar; 1 floti, en tveir þar til; tvær síur; tvær skyrgrindur; 1 strokksíll. 
Skreiðarskemman að falli komin, með brotnum viðum, tvær hurðir fyrir, tvö byrðuhróf vond; 41 fiskur; 1 stokkur gamall, með lausu loki.Smjörklefinn sterkur, vel standandi, utan brotnir raftar í einu stafgólfi, 1 hurð á járnum, 1 pundari og smjörjárn; 2 smjörhjallar.
Stóra baðstofan sterk og stæðileg, hálfur annar pallur, 1 bekkur við óninn; lágur bekkur við dyrnar; 1 matborð; vefstaður alfær, vantar tvö sköft; göngin öll fram og innar sterk og stæðileg. [Hér er hluti af úttektinni, sem lýsir búfjáreign, felldur niður].
Hlaðan að falli komin að öllu rjáfrinu, með níu grenisúlum og grenilangböndum, utan vantar tvo faðma, hurð fyrir dyrunum.
Fjósið vel sterkt og stæðilegt, með einni hurðu.
Hitunarhúsið svo nær sem niður fallið, ónýtt að veggjum og viðum; item klausturhúsin af fallin; item túngarðurinn víða hrörnaður; item hesthúsið fornt og sterkt, með hurðarflaki og járnum; item tvö lítil hús af fallin heima á bænum og einn kofi, gegnt Litlu baðstofunni, illa til fara.” [Niðurlag bréfsins vantar í afskriftinni, en þar hafa etv. verið talin gripahús önnur]

Þetta eru mikil húsakynni, hvorki meira né minna en 20 hús eru talin upp, með öllum innanstokksmunum, sem gefa býsna skýra mynd af bústangi og lifnaðarháttum manna á höfuðbólum þeirra tíma. Þó eru ekki talin fjárhús eða hlöður sem kunna að hafa verið á túninu, en ekki er víst að fullorðið sauðfé hafi verið hýst.

Augljóst er að sum þessara húsa muni vera frá klausturtímanum, svo sem kirkjurnar báðar (sjá kirkjukaflann), prestaskálinn, eldaskemman gamla, búrið forna, skreiðarskemma, reiðingaskemma, smiðja, smjörklefi, kjallari og hitunarhús. Það síðastnefnda hefur líklega verið brugghús, sem hefur þótt ómissandi á klaustrum (sbr. “ölheita” og “að heita öl”). Um borðhús, stórustofu og skála, er hins vegar tekið fram að þau séu ný, og baðstofur báðar eru sterkar og stæðilegar, svo og fjósið og göngin, og má ætla að þau hús hafi verið byggð á síðari helmingi 16. aldar, eða þó líklega fremur endurbyggð, eftir brunann, eins og vanalegt var með hús úr torfi og grjóti. (Fleiri úttektir ættu að vera til á húsum og gripum Skriðuklausturs?).

Ekki er ljóst af úttektinni hvaða hús hafa staðið saman eða verið sambyggð, þó að röðin í upptalningu húsanna gefi eitthvað til kynna um það. Trúlega hafa öll íveruhúsin (Stórastofa, Litlastofa, Skáli, Prestaskáli, Stórabaðstofa og Litlabaðstofa) verið sambyggð, og líklega einnig Eldaskemma, Borðhús, Búr, Smjörklefi og Skreiðarskemma. Heimakirkja, Smiðja, Reiðingsskemma og Hitunarhús hafa líklega staðið sér, “Kjallarinn” að líkindum einnig, því að hann er talinn sem sérstakt hús, þá líklega niðurgrafið, ef til vill hefur hann verið fangageymsla, sbr. hurðirnar tvær.

Þar sem “klausturhúsin” eru sérstaklega tilgreind, hafa þau líklega verið aðsetur munkanna, og bendir orðalagið til þess að þau hafi verið fleiri en eitt, og líklega staðið afsíðis. Annars erum við litlu fróðari um þau, og þetta mun vera eina heimildin sem getur þeirra sérstaklega. Um aldamótin 2000 kom í ljós að klausturhúsin voru mikil sambygging utan við klausturkirkjuna og nátengd henni (Sjá bók Steinunnar Kristjánsdóttur 2012).

Kjallaragröfin eða "skyrkerið"
Jón Jónsson læknir skrifaði merkilega grein í Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1897, er nefnist “Kjallaragröfin á Skriðu í Fljótsdal í Múlaþingi.” Þar segir Jón, að kringum bæinn á Klaustri, hafi verið miklir rústahaugar, þegar Halldór Benediktsson kom þangað til búskapar um 1880. “Ljet hann það verða eitt sitt fyrsta verk, að ráðast á rústirnar, og koma þeim frá augunum, einkanlega þeim, er skyggðu á hina yndislegu útsjón yfir Lagarfljót og Hjeraðið.” Eftir þessu að dæma gætu rústir húsa frá klausturtímanum hafa verið við lýði fram undir lok 19. aldar, og til þess bendir fundur sá sem lýst verður hér á eftir.

Halldór á Klaustri var mikill húsagerðarmaður. Er sagt að hann hafi endurbyggt allan torfbæinn, líklega í kringum 1890. Halldór taldi mikilvægt að veggir bæjarins hefðu góða undirstöðu, og lét því grafa fyrir þeim ofan á fastan grunn, eins og nú tíðkast með steinveggi. Þegar Guðmundur Þorfinnsson, vinnumaður hans, var að grafa fyrir væntanlegum búrvegg, rakst hann á “rauðaviðardrumba og borðstubba, um 2 álnum neðan við gamla eldhúsgólfið í bænum, og: “undir þeim var gulhvítt, límkennt, rakt jarðlag, er var hjerumbil 3 stungur á þykkt, áður kom á fasta möl. Neðsta lagið af rústinni, sem lá ofan að trjávið þessum, var blandað smáum viðarkolamolum og ösku, án þess að það væri reglulegt öskulag.” Jón fékk leyfi Halldórs til að kanna þetta nánar, og fundu þeir þá “stóra gryfju eða gröf, fast niðri í malarlaginu”.

“Gröfin sjálf er c. 10 fet á annan veginn og 11 fet á hinn; hún snýr þannig, að hornin vita hjerumbil til höfuðáttanna. Dýptin er rúm 3 fet. 5 rauðaviðardrumbar voru í gröfinni og stóðu upp og ofan, 3 sinn í hvoru horni (V., S. og Au) – norðurhornið gróf jeg ekki upp – og 2 með miðjum hliðum, SV. og NA, ofan á þessum tveimur lá þvertré, og út af því lágu fjalir, fúnar mjög, svo ekki varð ákveðin þykkt þeirra, en þær hafa varla verið undir 1 þuml. – Trjen hjeldu sjer betur og voru þau yfir kvartil í þvermál, sívöl, líkt og rekaviðardrumbar.

Gröfin var vandlega hlaðin úr óhöggnu grjóti, límd með mósteypu og sljettuð innan með henni; stendur hleðslan alveg óhögguð, að því er sjeð varð. Botninn í gröfinni er hörð smáskriða og virtist leirlag eða mólag ofan á því. Úr suðurhorni grafarinnar lá lokræsi mikið, og hafði orðið vart við það undir bænum áður, en hversu langt það er, veit jeg ekki, því jeg gróf ekki fyrir enda þess, en yfir 20 álnir mun það vera. Lokræsið var upphlaðið og lagt með hellum bæði undir og yfir. Það var frá 1-2 fet á dýpt og alveg tómt og þurrt. Hallinn var ekki meira en hæfilegur vatnshalli.

Allur suðaustur helmingur grafarinnar, sem jeg gróf upp, var fullur af gulhvítu efni. Það var blautt, seigt og límkennt, en varð stökkt og gisið, er það þornaði. Austanvert við stoðina, undir miðri suðvesturhliðinni var beinarusl. Þar voru bæði kindabein og fiskbein og bein af stórgripum., en fremur mun það hafa fallið ofan í, en legið í gröfinni, því undir því og laust við það var gulhvíta efnið. Austanvert við miðja gröfina fannst steinsleif undir fjölunum, en ofan á fjölunum fundust smátæjur af vaðmáli.” (Árbók Fornleifafélagsins 1897, bls. 23).

Tilgáta Jóns læknis er sú, að gula efnið sé leifar af skyri, sem gert hafi verið upp í gröfinni, til þess bendi m.a. steinsleifin og lokræsið, sem líklega hafi verið notað til að “hleypa vatninu út, þegar gröfin hefir verið hreinsuð um fráfærurnar”, svo og það, að ekki fannst neitt annað timburkyns í gröfinni en stoðirnar. Telur Jón að bærinn hafi brunnið, og búrið þá hrapað niður á gröfina, sem hafi síðan ekki verið raskað þar til Guðmundur gróf í hana. Sé þessi tilgáta rétt, hefur það ekki verið nein smáræðis skyrgerð, sem átt hefur sér stað á Skriðu í gamla daga, því að Jón telur gröfina rúma um 70-80 “lagartunnur”!

Mikið hefði nú verið gefandi fyrir að hafa smá-sýnishorn af þessu gulhvíta efni sem Jón fann í gröfinni. Eftir lýsingunni að dæma gæti þetta hafa verið svonefnd “barnamold” eða kísilgúr öðru nafni. Barnamold hefur verið notuð frá alda öðli til að sía ýmsa vökva, þar á meðal öl. Verður manni þá hugsað til “Hitunarhússins”, sem getið er í úttektinni frá 1598. Máske það hafi einmitt verið Hitunarhúsið, sem Jón læknir gróf upp, en “Kjallarinn” kemur líka til álita.

Þar sem ekki er til grunnteikning af bæ þeim sem Halldór Benediktsson léta reisa, og verður að geta sér til um hvar búrið hafi verið. Líklega var það bakatil í bæjarþorpinu, sem stóð skammt sunnan og ofan við Gunnarshús, og hefur því hugsanlega lent undir steypta fjósgrunninum, sem þarna er nú. Að lokum ritar Jón læknir:

“Að endingu skal jeg geta þess, að í hitteðfyrra fannst eldstó og eldhúss gaflhlað á líkri dýpt og yfirborð grafarinnar, og voru þar einnig viðarkol og aska, sem bar vott um bruna, en af því eldstó þessi liggur ca. 20 álnir frá gröfinni, er óhugsandi að eldhús þetta hafi staðið í sambandi við búr þetta, svo annaðhvort er, að þau eru sitt frá hvorum tíma og bærinn brunnið tvisvar, eða það sem sennilegra er, að búrið hafi verið útibúr, sem matur var geymdur í, því það var algengt í fornöld.”

Jón getur þess ekki nánar hvar eldhúsið hafi fundist, en svo er að skilja, að það hafi einnig verið í bæjarstæði Halldórsbæjar.

Skv. grein Árna Björnssonar: Eldbjörg. Árbók Fornleifafélagsins 1986, brann bærinn á Skriðuklaustri “laust fyrir 1600”, en þá bjó þar Þórdís Henrichsdóttir, ekkja Erlends Magnússonar. Úttektin frá 1598 var einmitt gerð eftir fráfall hans, og skv. því hefur þessi bruni líklega orðið 1599, eftir að úttektin fór fram.

Byggingar og önnur mannvirki á 19. og 20. öld

Torfbær og timburhús: Lítið er vitað um bæ þann er stóð á Skriðuklaustri framan af 19. öldinni, en hann mun stundum hafa verið kenndur við Hans Wíum, sem átti að hafa byggt hann upp. Í sóknarlýsingu Stefáns Árnasonar (handrit, 1840, bls. 14), er bærinn á Klaustri talinn meðal fjögurra reisulegustu bæja í sókninni. Sigfús Stefánsson frá Valþjófsstað hóf búskap á Klaustri 1863, og er sagt að hann hafi byggt “stór og reisuleg frambæjarhús, margt af peningshúsum og hlöður við þau flest.” (Minningargrein merkt G., í Óðni 5 (7), 1909). Ekki er kunnugt um myndir eða teikningar af bæ Sigfúsar.

Halldórsbær: Halldór Benediktsson hóf búskap á Skriðuklaustri árið 1881, og hóf fljótlega að endurbyggja bæinn þar eftir sínu höfði. Sigurður Einarsson skáld, síðast pr. í Holti undir Eyjafjöllum, lýsti bænum í grein um Halldór í bókinni Íslenzkir bændahöfðingjar 1951.

“Fyrsta og mesta átak Halldórs í framfaraátt, eftir að hann keypti jörðina, var endurbygging bæjarins. Byggði hann fyrst reisulega baðstofu af nýjum veggjum og viðum, og reisti jafnframt við önnur bæjarhús. Síðar byggði hann langhús mikið af timbri við bæinn. Setning bæjarhúsanna hvert við annað og tilhögun innanhúss var nýlunda þá, og þótti til fyrirmyndar.

Inngangur í bæ og baðstofu var fyrst um afþiljaðan gang þvert í gegnum timburhúsið. Þá tók við stuttur, alþiljaður, vel upplýstur gangur, meðfram hérumbil þriðjungi af öðrum hliðvegg baðstofuhússins. Þegar inn úr honum var komið tók við stór, bjartur salur. Var gólf hans í sömu hæð og stofugólf baðstofuhússins, en vegghæð hans jöfn portbitum þess. Þessi salur svaraði til mjög stórs innra anddyris í íbúðarhúsum nú á tímum, nema hvað hann var hærri til lofts, því að ris var á honum ofan hárra veggja.

Allmikið fannst mönnum til um þetta hús, og var það nefnt “höll”. Úr höllinni voru fimm dyr til annarra herbergja í bænum. Þar voru m.a. tvö stór hreindýrshorn, áföst á hnakkabeininu, og notuð sem snagar fyrir yfirhafnarföt gesta. Höllin var samkomustaður hins fjölmenna heimilis til dansleikja og annarra leikja og mannfagnaðar, því að Halldór var gleðimaður og þau hjón bæði, og gátu vel unnt fólki sínu að létta sér upp, er á milli varð.

Þessi húsatilhögun hefði eflaust orðið mörgum til fyrirmyndar, ef ekki hefði brátt komið til sögunnar nýtt byggingarefni og steinöld hafizt á Íslandi. Og raunar varð hún til fyrirmyndar, er bærinn á Valþjófsstað var byggður upp litlu síðar. Nú eru báðir þessir fallegu bæir fallnir fyrir tímans tönn, og nýrri byggingartízku. En ekki þótti annar bóndabær reisulegri í þá daga á Austurlandi, en Skriðuklaustur, á meðan það bjó að húsinu Halldórs, og miðað við það sem þá var víðast á bæjum.” (Sigurður Einarsson: Halldór Ben. Ísl. bændahöfðingjar, Ak. 1951, bls. 391).

Í fasteignamati 1918 segir svo um húsakynnin heima á Klaustri:

“Baðstofa 18 x 6 [Um 11 x 4 m] álnir, portbyggð [þ.e. með lofti], alþiljuð uppi og niðri, Kr. 1000,00; b) Búr og eldavélarhús undir einu þaki, 23 x 5 ½ al., portbyggt, með lofti og gólfi og alþiljað uppi og niðri, - 600, 00; c) Þverhús við hlaðið, portbyggt, með kvisti, alþiljað uppi og niðri og með bárujárnsþaki, - 2200,00; d) Fjós fyrir 11 nautgripi, með áburðarhúsi við, - 70,00.”

Auk þess er getið um reiðfærakofa og smiðju, sem hafa verið í bæjarþorpinu. Öll húsakynni bæjarins, með útihúsum, eru metin á nálægt 5000 kr. Í minningargrein G.V. um Halldór, er þess getið að enginn bær á Austurlandi sé hærra metinn, nema Hof í Vopnafirði.

Bæjarhús: Um aldamótin 2000 teiknaði Sigurður S. Þormar verkfr. (Reykjavík) grunnmynd af Klausturbænum, eins og hann mundi eftir honum um 1935, og til eru ljósmyndir af bænum, í eigu bróður hans, Valgeirs S. Þormar, Reykjavík, sem teknar voru á þessum árum, þær elstu fyrir dauða Halldórs (1918), jafnvel á fyrsta áratugi aldarinnar. (Þeir bræður voru synir Sigríðar Halldórsdóttur og Sigmars G. Þormar sem bjuggu á Klaustri 1921-1939.) Ein þessara mynda, er sýnir suðurhlið baðstofunnar, birtist í grein minni um Skriðuklaustur í Lesbók Morgunblaðsins 18. des. 1999, bls. 36. Sést þar að baðstofan er með fjórum óvenju stórum gluggum á hliðinni uppi í “portinu”, og tveimur á neðri hæð. Við austurenda baðstofunnar sést í stafn Sigmarshúss, sem var að mestu úr timbri. Baðstofan stóð fram til um 1940.

Á annari bæjarmynd (á bls. 34 í sömu grein), sést þverhúsið (hvítt) og lítið timburhús (dökkt) rétt fyrir utan og ofan það, með dyraporti, og tveimur gluggum í austur. (Gólfhæð þess var 0,5-1 m lægri en Hallargólfið, ritar Sigurður Þormar í aths. við þetta plagg). Þetta hús mun Halldór Stefánsson hafa byggt, eftir að hann settist að á Klaustri 1901, og kvæntist Björgu dóttur Halldórs, en hann fluttist svo í Hamborg 1909. Það var kallað Útbær. (Síðast mun Sigurður Erlendsson hafa fengið íbúð í þessu húsi). Höllin sést ekki á þessum myndum, enda var hún á bakvið baðstofu og timburhús. Lengst til hægri er skemma eða smiðja. (Kópíur af þessum myndum eru í Héraðsskjalasafni, Eg.)

Í sama blaði (bls. 35) er mynd af timburhúsi, sem Sigmar hafði byggt í stað þverhússins (eða upp úr því), líklega kringum 1925, það var tvær hæðir, kvistlaust. Það var kallað Sigmarshús og var aðalíbúðarhús bæjarins, þar til Gunnarshús kom til sögunnar 1939, var líklega rifið 1940. Baðstofustafninn sést enn á þeirri mynd, og neðan við hana er trjágarður.

Rögnvaldur Erlingsson (Víðivöllum) var í barnaskóla á Klaustri 1929-31 og mundi vel eftir húsakynnum á þeim tíma. Skólinn var á neðri hæð Sigmarshúss, en búið var uppi á loftinu. Úr Sigmarshúsi var gengið í tengibyggingu sem kölluð var "Höllin", og inn í eldhús, sem var undir baðstofupalli. Litla baðstofan utan (og ofan?) við Sigmarshús, var líklega rifin þegar byrjað var að byggja Gunnarshús. Sunnan við baðstofuna (stóru) var skemma með timburstafni. (Sögn hans 1989).

Fjós og hlaða: Á gömlu baðstofumyndinni sést hús ofan við baðstofuna, með dyrum í suður, en það er fjósið, sem var efst húsa í bæjarþorpinu.

“Fjósið náði fram að baðstofugaflinum, fyrir ofan bæinn. Það var ekki sambyggt en tengt við hann með jarðgöngum, sem lágu úr eldiviðarhúsi inn af Höllinni. Engin kúahlaða var nálægt bænum, en gömul tóft fyrir aftan fjósið gæti bent til þess, að þar hefði verið heystæði. Engar dyr voru þó á fjósgaflinum. Kúahlaðan var neðan við hestaréttina.” (Sigurður S. Þormar: Bréf 1. 5.2000).

Smiðja og kálgarður: Lengst til hægri á bæjarmyndinni (bls. 34) er smiðja, sem var yst og neðst í bæjarþorpinu, spölkorn frá öðrum húsum í NA-horni á allstórum kálgarði, sem var girtur með torfþöktum grjótvegg, og sést hann einnig á myndinni.

Skemma o.fl: Fjærst á myndinni (bls. 34) er skemma, sem líklega er kölluð reiðfærakofi í matinu 1918, og var hún syðst í þorpinu. Samkvæmt teikningu Sigurðar, var hestarétt innan og neðan við skemmuna (í heimreið að bænum), og þar fyrir neðan var kúahlaða og viðbyggt hesthús. Skemman er í forgrunni myndar sem Björn Björnsson tók sumarið 1939, þegar Gunnarshús var í smíðum, og birtist í Árbók Ferðafélagsins 1944 (á eftir bls. 80). Þá stendur baðstofan enn og Sigmarshús, en í því bjó Gunnar það sumar og næsta vetur.

Sumarið 1940 hafa gömlu bæjarhúsin líklega verið rifin og jöfnuð við jörðu, nema skemman, sem sést ennþá á mynd sem var tekin eftir að búið var að byggja nýtt fjós við Gunnarshús, líklega frá 1942-43. Þá var gamla kúahlaðan neðan við hestaréttina horfin, en ný kúahlaða hafði þá risið innan og ofan við gamla bæjarstæðið, með torfgrjótveggjum, og stendur að mestu enn.

Vorið 1988 var jarðvegi ýtt frá vesturstafni Gunnarshúss. Kom þá í ljós nokkuð heillegur grjótveggur, er lá samhliða stafnveggnum, um 4-5 m frá honum, og var grundvöllur hans nálægt 2 m hærri en grunnur Gunnarshúss. Þetta virtist vera efri (vestari) veggur húss, því að á bakvið var aðeins mold. Jón Bjarnason frá Valþjófsstað, sem leit á vegginn, taldi líklegast að hann væri af “skíthúsi” Halldórsbæjar. Á sama stað er teiknuð og merkt “Tóft” á grunnmynd Sigurðar Þormars, sem hann telur að hafi ef til vill verið heystæði eða áburðarhús.

Guðrún Kristinsdóttir fornleifafræðingur á Egilsstöðum var kölluð til að skoða vegginn, og fór hún upp í Klaustur 29. maí þetta vor, ásamt Mjöll Snæsdóttur og undirrituðum, sem tók mynd af veggnum. (Guðrún hefur líklega gert einhverja skýrslu um þessa skoðun).

Járngjall: Einhverntíma í kringum 1985 var grafið fyrir nýju skólpræsi (?) inn og niður frá Gunnarshúsi, og kom þá upp dálítið járngjall á stykki, um 10-20 m frá SA-horni hússins. Gjallið var ekki kannað frekar, né heldur magn þess, en ætla má að þarna hafi staðið smiðja á miðöldum, meðan járngerð tíðkaðist enn.

Trjágarður: Á fyrstu áratugum 20. aldar var mikill áhugi fyrir skrúðgörðum á Héraði og sérstaklega í Fljótsdal. Á elstu bæjarmyndinni frá Klaustri sést að búið er að gróðursetja fáein tré í skotið austan við baðstofuna og sunnan við þverhúsið, það hæsta orðið um mannhæð.

Einar Helgason ritar (1922, bls. 22): “Skriðuklaustur. Í garði sunnan undir bænum eru 2 reynihríslur, rúmir 3 m á hæð, 22 ára gamlar; 1 reynihrísla 7 ára gömul, nú 2,20 m, nokkur birki af sömu gerð, barrfellir, ribs, greni, og töluvert af blómjurtum vex þar í garðinum.”

Önnur 3 m reynihríslan er eflaust reynitréð mikla, sem ennþá má sjá leifar af sunnan við Gunnarshús. Það hefur verið gróðursett um aldamótin 1900 (etv. í tilefni aldamótanna). Þetta tré er mikilvægt til að staðsetja helstu byggingar gamla bæjarins, þ.e. baðstofuna og þverhúsið. Á tíma Gunnars og Franziscu var allstór blóma- og trjágarður á Klaustri, sunnan undir Gunnarshúsi og austan undir Fjósinu. Gamla reynitréð var í SA-horni hans, en nokkrum trjám var plantað milli þess og suðurenda fjóssins. Lágt limgerði tengdi svo reynitréð við Gunnarshús. Eftir að Tilraunastöðin kom í Klaustur hrakaði skrúðgarðinum. Skepnur komust í trén og skemmdu þau, og svo fór að lokum, að eldgamla reynitréð stóð eitt eftir, til vitnis um forna frægð. (Nánar í riti mínu: Skrúðgarðar í Fljótsdal, 2011).

Gunnarshús

"Flest handarverk Skriðubænda á jörðinni eru nú horfin, eða munu hverfa, önnur en bær Gunnars, sem standa mun um langa hríð, sem vitni um hið einstaka ævintýri, sem gerðist í byggingarsögu Héraðsins með búsetu hans á Skriðu.” (SJM II, 35).

Þetta hús er nú vanalega kennt við Gunnar, sem lét byggja það 1939, utan og neðan við gamla bæinn á Klaustri. Það er einhver sérkennilegasta bygging á landi hér. Það var byggt samkvæmt teikningu Fritz Höger, þýsks arkitekts í Hamborg, með aðstoð Jóhanns Franklíns Kristjánssonar húsameistara í Rvík, sem var staðararkitekt við byggingu hússins. Upphaflega átti að hlaða útveggina úr tilhöggnum steinum, en það reyndist ekki gerlegt þegar til átti að taka, og var það ráð tekið að líkja eftir steinhleðslu með því að leggja steinhnullunga í steypu utan á veggjunum. Steinarnir voru sóttir út að Bessastaðaá. Torfþak er á húsinu, sem var endurnýjað 1989, og minnir húsið því á gömlu íslensku torfbæina, en líka á klausturbyggingar í útlöndum. Yfirsmiðir voru Guðjón Jónsson og Oddur Kristjánsson, og múrarameistari Guðmundur Þorbjarnarson. Súlnagöngin voru ekki byggð fyrr en á árunum 1974-82, og voru hlaðin af Sveini Einarssyni frá Hrjót, úr völdu grjóti og líklega eitthvað höggnu. Húsið er 335 fermetrar að grunnfleti, með um 30 herbergjum og kompum á tveimur hæðum, og geymslurými í risinu. Húsið er merkar byggingarsögulegar minjar, og jafnframt minnisvarði um Gunnar skáld og stórhug hans, enda líkist það engu öðru húsi á Íslandi.

"Ekki er ofsögum sagt af húsinu. Vafalaust er það fegursta og vandaðasta íbúðarhús landsins, og fer svo vel í landinu, að það er til fyrirmyndar. Svo vel fellur það inn í landslagið, að það mætti teljast hluti af því... Vandað ytra og innra og öllu fyrir komið með mestu smekkvísi. (Ragnar Ásgeirsson: Austur á Hérað. Vísir / Sunnudagsblað, nr. 45, 9. nóv. 1941).

Pétur Ármannsson og Silja Traustadóttir hafa nýlega birt ritgerð um "Hús skáldsins" og höfund þess þess í Tímariti máls og menningar 3, 2010, þar sem hönnunarsaga þess er rakin, og byggð á þýsku riti um Fritz Höger (Fritz Höger (1877-1949). Moderne Monumente. Ritstjóri: Claudia Turtenwald, Hamburg 2003). Þar segir m.a.:

"Sagan um tilurð Skriðuklausturs (!) er ekki síst forvitnileg vegna þess, að þar vann kunnur arkitekt í evrópskri listasögu 20. aldar að verkefni á afskekktum stað í íslenskri sveit, sem hann hafði sjálfur aldrei augum litið, og þekkti aðeins af þeim frásögnum, sem finna má í skáldverkum Gunnars. Í teikningum hans og lýsingu á húsinu birtist afar rómantísk og upphafin sýn á sögueyjuna Ísland..."

"Íbúðarhúsið á Skriðuklaustri var á sínum tíma veglegasta hús sem reist hafði verið í íslenskri sveit. Samkvæmt uppdráttum Högers áttu útihús í sama stíl að rísa sem hliðarálmur og sjálfstæðar byggingar beggja megin við húsið. Fullbyggt kostaði húsið um 200 þúsund krónur, sem jafngilti verði tíu einbýlishúsa í Reykjavík." (TMM, 3, 2010, bls. 25 og 32).

Töluverðar heimildir eru til um byggingu Gunnarshúss í formi viðtala, sem Guðrún Kristinsdóttir safnvörður á Egilsstöðum tók, við Jón S. Einarsson byggingameistara í Neskaupstað og Þórhall Björgvinsson frá Þorgerðarstöðum, árið 1989. Hún tók viðtölin á segulband og vélritaði þau svo. (Frumrit á safninu, afrit hjá H.Hg.) Nú munu ekki lengur vera á lífi neinir menn sem unnu við byggingu hússins. (Jón Yngvi Jóhannsson: Landnám - Ævisaga Gunnars Gunnarssonar, Rv. 2011, bls. 351-356).

Kakalofninn: Í bókastofunni, vinnuherbergi Gunnars, var stór múraður "kakalofn", þakinn rósmáluðum postulínsflísum og skreyti, með messinglokum. Hann var sænskur og sagður 100-150 ára gamall. Um 1960 var hann farinn að hrörna, vegna vannýtingar, og var því rifinn, en flísarnar settar í geymslu uppi á háalofti. Árið 2002 tókst að fá norskan sérfræðing um byggingu og varðveislu slíka ofna, William Jansen, til að endurbyggja ofninn, á upprunalegum stað og þótti það takast með ágætum. Skartar stofan nú aftur þessum merka grip, sem á varla sinn líka hérlendis. (Skúli Björn Gunnarsson: Kakalofninn á Klaustri. Glettingur 13 (3), 2003, bls. 27-31).

Fjósið var líklega byggt 1942, við SV- horn vesturálmu Gunnarshúss, og sneri eins og austurálma þess. Það var úr timbri og asbesti á steyptum grunni, en grjóthlaðinn veggur var undir því að austan. Það var rifið sumarið 1989, enda þá orðið hrörlegt, og hafði lítið verið notað í 1-2 áratugi. (Var dæmt ónýtt / Sjá bréf Þórhalls Pálssonar, Skipulagsstofu Austurlands 7.6. 1988).

Samkvæmt hugmyndum Gunnars og teikningum Högers átti að byggja, auk fjóssins, tvær útihúsasamstæður, aðra innan við íbúðarhúsið og fjósið, en hina rétt fyrir utan (sbr. mynd í bókinni Landnám, 2011, bls. 356). Má ætla að önnur hafi verið ætluð fyrir hesta, reiðtygi, sleða, vélar o.s.frv., en hin líklega sem fjárhús. Þessi hús voru aldrei byggð, líklega einkum vegna fjárskorts, og vegna þess að brátt tók að halla undan fæti í búskapnum.

Munir úr búi Gunnars: Flest húsgögn fluttu þau Gunnar og fjölskylda með sér til Reykjavíkur, þegar þau brugðu búi á Klaustri haustið 1948, og voru þau síðan í húsi þeirra á Dyngjuvegi 8 í Reykjavík. Eftir lát þeirra bjó Franzisca sonardóttir þeirra lengi í húsinu, og hélt þar öllu í sömu skorðum. Það var selt Reykjavíkurborg um 1990, og síðan afhent Rithöfundafélagi Íslands, sem nú hefur þar aðsetur. Franzisca ánafnaði húsinu (félaginu) þá einnig nokkrum húsgögnum úr eigu Gunnars, sem hann kom með frá Danmörku, og hafði á Klaustri. Um aldamótin 2000 afhenti hún Gunnarsstofnun ýmsa muni úr eigu þeirra hjóna, m.a. skrifborð Gunnars og hjónarúm, sem voru sett á upprunalega staði í húsinu.

Uppboðið mikla: Öll búsáhöld og tæki voru seld á uppboði á Klaustri haustið 1948, og dreifðust þau víðs vegar um Hérað og Firði. Má geta þess að hjólbörur úr járni og með járnhjóli, sem notaðar voru við steypuvinnuna þegar Gunnarshús var byggt, hafa skilað sér í Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum, og sömuleiðis hestareka og sleðameiði, sem undirritaður hafði forgöngu um að koma þangað. Fleiri gripir kunna að hafa borist safninu frá Klaustri, og hefur það ekki verið kannað frekar. Uppboðsskrá er í Hreppstjórabók Fljótsdalshrepps (löggilt 17. jan 1946), sem geymd er í Héraðsskjalasafni Austurlands, Egilsstöðum. Samkvæmt henni hafa verið boðnir upp 779 gripir, og mun það vera stærsta uppboð sem fram hefur farið á Héraði.

Klaustrið á Skriðu og klausturkirkjan

Munkaklaustur var stofnað á Skriðu, líklega 1493, því að það ár var farið að gefa klaustrinu jarðir, og er langyngst slíkra stofnana hér á landi. Mun Stefán Jónsson Skálholtsbiskup hafa beitt sér fyrir stofnun þess. Fyrsti príor var Narfi Jónsson, vígður árið 1496 (eða 1497).

Heimir Steinsson, sem lengi var prestur á Þingvöllum, samdi prófritgerð við Guðfræðideild Háskóla Íslands árið 1965, er nefnist “Saga munklífis að Skriðu í Fljótsdal”, og rekur þar allar tiltækar heimildir um tilurð og sögu klaustursins og reynir að varpa ljósi á ýmislegt sem heimildir geta ekki um, þar á meðal um orsakir þess að klaustrið var stofnað. Sá kafli ritgerðarinnar “Orsakir klausturstofnunar að Skriðu í Fljótsdal” birtist á prenti í tímaritinu Orðið, 3. árg. 1-2. hefti 1966-67, bls. 46-50. Annar kafli: “Jarðir Skriðuklausturs og efnahagur” birtist í tímaritinu Múlaþingi, 1. árg. 1966, bls. 74-80. Að öðru leyti hefur ritgerð Heimis ekki verið birt, og er það mikill skaði fyrir íslenskar sögurannsóknir. Hins vegar leyfði hann undirrituðum að ljósrita handrit sitt og vitna í það í þessari samantekt.

Í kaflanum um orsakir klausturstofnunar rekur hann fyrst helgisögu þá, sem talin var hafa ráðið staðarvali klausturkirkjunnar, og því að bæði klaustur og kirkja voru m.a. tileinkuð “hinu helga blóði”, þ.e. blóði og líkama Krists, og þeirri dularfullu umbreytingu sem brauð og vín var talið ganga í gegnum við neyslu altarissakramentis. Setur hann það í samband við trúarvakningu innan kirkjunnar og bendir á sérstöðu Skriðuklausturs í því sambandi:

“Hvergi getur um klaustur helgað líkama Krists og blóði í nágrannalöndunum. Eina dæmi þess á Norðurlöndum virðist vera klaustrið að Skriðu í Fljótsdal, og sakar ekki að þeirri nýlundu sé á loft haldið.” (Heimir Steinsson 1966-67, bls. 49).

Svo virðist sem þessi helgun klaustursins hafi átt nokkurn þátt í þeim ótrúlega mikla auði sem brátt safnaðist að klaustrinu á Skriðu, einkum í formi jarðeigna. Í gjafabréfi Hallsteins og Sesselju, frá 8. júní árið 1500, er tekið fram að þau gefi hana “fyrst að upphafi Guði almáttugum, júnfrú Marie og helga blóð til ævinlegs klausturs”, og svipaðir formálar eru fyrir mörgum öðrum jarðagjöfum.

Klaustrið eignaðist brátt fjölda jarða um allt Austurland, auk heimajarðar með hjáleigum, og undir lokin voru þær orðnar um 40 talsins. Klaustrin á miðöldum voru miðstöðvar auðsöfnunar og veigamikill bakhjarl kaþólsku kirkjunnar til að tryggja efnahagslegt og pólitískt vald. Þar sem ekkert klaustur var fyrir í þessum landshluta hlaut að vera mikilvægt að koma því á fót, til að styrkja stöðu kirkjunnar og nýta þá efnahagslegu möguleika sem gáfust á Austurlandi. Talið er að einhver kennsla hafi farið fram í klaustrinu á Skriðu, bæði barnakennsla og uppfræðsla prestsefna. Eftir siðaskiptin reyndi Gissur Einarsson biskup að koma á skólahaldi á klaustrunum, en það mun hafa runnið út í sandinn. (Sjá kafla VI, Skólahald, í ritgerð Heimis 1965). Klaustrið hefur líklega alltaf verið fámennt (bræður innan við 10), en vegna hinna miklu veraldarumsvifa hefur fjöldi starfsmanna búið á staðnum og unnið þar. Eftir siðaskiftin var klaustrið lagt niður, þó ekki formlega fyrr en 12. mars 1554 (Heimir Steinsson 1966, bls. 74). Féllu eignir þess undir “konung” eða ríki þess tíma, og voru leigðar út af umboðsmönnum konungs, sem oft sátu á jörðinni og nefndust “klausturhaldarar”. Oftast voru þeir jafnframt sýslumenn í einhverjum hluta Múlasýslu, eins og t.d. Hans Wíum.

Síðan um aldamót 2000 hafa farið fram umfangsmiklar rannsóknir á rústum klausturs og kirkju, undir stjórn Steinunnar Kristjánsdóttur fornleifafræðings. Hafa niðurstöður þeirra verið birtar í rannsóknaskýrslum, ýmsum tímaritum og sérritum. Mikill fróðleikur um klaustrið á Skriðu og klaustur almennt er að finna í ritinu Skriðuklaustur, evrópskt miðaldaklaustur í Fljótsdal. Greinasafn. Fræðslurit Gunnarsstofnunar I, Skriðukl. 2008 (155 bls.). Sumarið 2012 kom svo út vegleg bók, Sagan af klaustrinu á Skriðu (375 bls.), frá hendi Steinunnar, þar sem uppgreftrinum er lýst og greint frá þeirri vitneskju sem hann leiddi í ljós. Þó að bókin sé fræðileg er efnið tilreitt á alþýðlegan hátt, í sögulegu formi og ríkulega myndskreytt, svo skiljanlegt er venjulegum lesanda, auk þess á köflum með nánast skáldlegum tilþrifum.

Hér er hvorki ástæða né vettvangur til endursegja efni þessarar ágætu bókar, svo viðamikið sem það er. Þess skal aðeins getið, að við jarðsjárkönnun 2001 fundust rústir klaustursins á Kirkjutúni, norðaustan við kirkjugarðinn, og voru þar grafnar upp 13 sambyggðar vistarverur, með samanlögðu innanmáli um 800 fermetrar. Auk þess voru kirkjutóttin og kirkjugarðurinn grafin upp, og alls var rannsóknasvæðið um 1500 fermetrar. Í kirkjugarðinum voru grafnar upp 260 beinagrindur, heilar eða að hluta, og voru þær rannsakaðar af beinafræðingum.

Teikning á bls. 62 í bókinni gefur til kynna hvernig fornfræðingar hugsa sér að klaustrið og kirkjan hafi litið út. Í ljós kom að klaustrið, með tilheyrandi kirkju og grafreit, var skipulagt og byggt samkvæmt stöðluðum reglum um slíkar stofnanir, sem giltu um alla Evrópu, og starfsemi þess hefur einnig verið hefðbundin. Rannsókn á beinunum leiddi í ljós að í klaustrinu átti sér stað umönnun og líklega lækningar sjúklinga, sem leituðu til klaustursins, og virðist það jafnvel hafa verið aðalverkefni þess. Má víst segja að það hafi verið merkasta og jafnframt óvæntasta niðurstaðan.

Að lokum var aftur sett mold í grafirnar og þakið yfir, en beinin verða geymd í Þjóðminjasafni. Uppgrafnar rústir kirkju og klausturhúsa eru hins vegar opnar, og hafa verið settar í það horf að skoða megi hvern krók og kima í þeim. Voru þær formlega opnaðar almenningi á “klausturhátíð” 19. ágúst 2012.

Kirkjugarður var vígður á Skriðu skömmu eftir stofnun klaustursins, eða 1496, og fljótlega eftir aldamótin 1500 hefur verið hafin þar kirkjubygging. Til er í Fornbréfasafni (VIII, bls. 403) “Vígslubréf Skriðuklausturskirkju”, ritað með miklu orðskrúði, útgefið í Heydölum 3. sept. 1512. Þar auglýsir Stefán biskup

“að í heiður við allsvaldanda Guð, jungfrú Sanctam Mariam Guðs móður, og hið helgasta Sacramentum hold og blóðs vors Herra Jesú Christi, höfum vér vígt kirkjuna á Skriðuklaustri í Fljótsdal, með þeim skilmála að hún á heimaland allt með gögnum og gæðum, sem fylgt hefur að fornu og nýju, og þær allar aðrar eignir í föstum og lausum sem segir í Registrum.”

Í bréfinu er mönnum heitið “40 daga aflát” synda, fyrir ýmsar athafnir og góðverk við nefnda kirkju, sem upp eru talin í bréfinu, svo sem “þeim sem rétta sínar hjálparhendur til gagns eður góða um uppheldi eður efling, smíð eða bygging greindrar kirkju”, “item þeim sem standa við prédikan” o.fl. Það var semsagt víðar en suður í Rómi sem “seld” voru aflátsbréf. Þá var kveðið á um “kirkjudag”, sunnudaginn næsta á undan Bartólómeusmessu, sem er 24. ágúst.

Kirkjugarður og kirkja voru sett niður á grund eina, um 150 m neðan (SA) við bæinn, á næsta hjalla neðan við þann sem bærinn stendur á. Þar heitir síðan Kirkjuvöllur eða Kirkjutún. Á Íslandi var það nánast regla að kirkjur væru byggðar heima við bæjarhús, svo til þess hlaut að liggja ærin ástæða, að svo var ekki gert á Skriðu. Skýring fyrri tíðar manna var sú, að niðri á hjallanum hefði gerst kraftaverk. Nú er hins vegar vitað að þar hafði verið byggt fyrir klaustrið allt að tveimur áratugum áður en kirkjan reis, en helgisagan getur jafnt fyrir það skýrt staðarval klausturs og kirkju.

Ef til vill munaði mjóu að kirkjutótt og kirkjugarður væru útmáð árið 1949, þegar bústjóri Tilraunastöðvar Landbúnaðarins tók við ráðsmennsku á Klaustri, og vildi losna við allar misfellur á túnum. Hefur Steinunn það eftir þeim bræðrum, Gunnari og Agli Gunnarssonum frá Egilsstöðum, að hann hefði beðið tvo vinnumenn sína að slétta garðinn, en þeir hafi neitað. Síðan bað hann Gunnar Sigurðsson, afa þeirra, að vinna þetta verk, en þegar hann neitaði því líka hafi hann sætt sig við orðinn hlut. Segist Steinunn hafa fregnað að einhverskonar bannhelgi hafi hvílt á þessum stað. (St. Kr.: Sagan af klaustrinu á Skriðu, 2012: 93).

Kirkjugarður með kirkjutótt voru friðlýst 1988: "Kirkjugarður með kirkjutóft undir brekkunni við bæjarhúsin á Skriðuklaustri. Skjal undirritað af Þ.M. 23. 12. 1988. Þinglýst 30. 12. 1988." (Ágúst Ó. Georgsson: Fornleifaskrá 1990, bls 56.).

Helgisagan: Þorsteinn Sigurðsson, sem um tíma var sýslumaður í Múlasýslu og bjó á Víðivöllum ytri, ritaði Relation og kort Underretning um Skriðuklaustur..., dagsett 23. okt 1741, og var sá hluti sem fjallar um upphaf klausturs og kirkju birtur í tímaritinu Blöndu 1920. Þar segir svo:

“Þegar nú nefnd jörð (sem þá kallaðist Skriða) var í þessu standi eitt bóndabýli, segist að presturinn á Valþjófsstað hafi eitt sinn riðið út eftir dalnum í sókn sína, til að þjónusta einhverja vanburða manneskju, og hafi leið hans legið fyrir neðan sagða jörð (sem og sýnist að líkindum), og þegar presturinn vildi forrétta sitt erindi að þjónusta þann veika, þá segist að kaleikurinn, patínan, einnig brauð og vín hafi tapað verið, og því hafi hann sent mann til að leita þessa alls. Þessi sendimaður prestsins reið svo alla leið til baka þangað til hann kom fyrir norðan [neðan] bæinn á Skriðu. Þar segist að hann hafi fundið á einni þúfu standandi kaleikinn með víni í og patínuna yfir honum, með brauði á henni. Þetta segist (sem og er vel trúlegt) að papískt fólk (svo sem það var geðjað í þá daga) hafi haldið stóra dáðsemd og furðuverk guðs, og bygt því á þeim sama stað eina veglega kirkju, og látið áðurtéða þúfu, sem kaleikurinn og patínan fanst á, vera undir sjálfu altarinu í kirkjunni.” (Um Skriðuklaustur. Blanda, I, 1918-20, bls. 238-240).

Til sönnunar á sögunni telur Þorsteinn tvö atriði, 1) fjarlægð kirkjunnar frá bænum, “fjær heimahúsum en nokkur önnur kirkja hér á landinu”, 2) “Nafnið sjálft, því kirkjan í vísitazíu biskupsins Brynjólfs Sveinssonar kallast Corporis Christi; af gömlu fólki hefur hún og nefnd verið Heilaga blóðs kirkja.”

Finnur Jónsson biskup hefur mjög svipaða sögn í Kirkjusögu sinni (Historia ecclesiastica Islandiæ, 1778), og Árni Magnússon getur um þetta í minnisblöðum Um klaustrin (Blanda II, 1921-23, bls. 34). Merkilegt er að enginn þeirra tengir kirkjuna við klaustrið, eða virðist vita hvar það stóð. Hvergi er þess getið á hvaða tíma þetta gerðist. Finnur segir að eigandi jarðarinnar hafi þá þegar byggt “kapellu” á staðnum, til minningar um atburðinn. Á öðrum stað ritar hann, að sögn Heimis:

“En er klaustrið tók að auðgast hefur hún [þ.e. kapellan] verið talin of lítilmótleg eða þröng, ellegar hún hefur verið að falli komin, og því verið rifin, og önnur mun virðulegri verið byggð á sama stað.” (Heimir Steinsson.: Saga munklífis, bls. 32).

Þó sagan um náðarmeðulin sé vissulega helgisaga, eins og fjöldi annara sagna frá kaþólskum tíma, er ekki ástæða til annars en taka mark á henni, hvað varðar staðsetningu klausturs og kirkju og tileinkun þeirra. Sögnin virðist enn hafa verið þekkt um miðja 18. öld í Fljótsdal, en fellur svo í gleymsku, og kemur t.d. hvergi fram í þjóðsögum frá 19. öld, eins og ætla mætti.

Heimir Steinsson leggur áherslu á það í ritgerð sinni um Skriðuklaustur (1965), að á 12. og 13. öld hafi orðið trúarleg vakning í Evrópu, sem tengdist aukinni áherslu kirkjunnar á sakramentin og tilbeiðslu á líkama Krists og blóði, og telur að stofnun kirkju og klausturs á Skriðu dragi dám af því.

“Engin önnur dæmi finnast um það hér á landi, að kirkja sé helguð líkama Krists og blóði (Sbr. Safn til sögu Ísl., V, 6: 56-58). Er því tiltæki stofnenda Skriðuklausturs all sérstætt, hvernig sem það kann að vera til komið....Atferli kaleiksins og patínunnar í hinni fornu sögu verður allt skiljanlegra, sé það haft í huga, að tilbeiðsla líkama Krists og blóðs hefur í þann tíma átt sér stað hér á landi um alllangt skeið. Dregur það úr líkunum til þess, að sagan sé síðari tíma tilbúningur, og eykur rökin fyrir því, að um sé að ræða eitt hinna mörgu furðuverka, sem rómversk-kaþólsk guðrækni getur af sér allt til þessa.” (Orsakir klausturstofnunar að Skriðu. Orðið 3 (1-2), 1966-67, bls. 49).

Á þessum tíma voru kirkjur á bæjunum sitt hvoru megin við Skriðu, þ.e. á Bessastöðum og Valþjófsstað, og hálfkirkja eða bænhús á Víðivöllum ytri. Þó einkennilegt sé virðist Skriðukirkja hafa eflst eftir siðaskiptin, á kostnað Bessastaðakirkju, sem lagðist af um aldamótin 1600. Er jafnvel getið um nokkra presta á Skriðuklaustri á 17. öld. Er talið að sumir þeirra hafi annast barnakennslu, eins og á klaustrinu áður (Ágúst Sigurðsson 1980, bls. 30). Annars var Skriðukirkja talin annexía frá Valþjófsstað eða Ási í Fellum. Eftir aldamótin kom í ljós að klausturhúsin hafa verið rétt fyrir norðaustan kirkjuna, og raunar tengd henni með göngum. (H. Hall.: Klaustur-María og kraftaverkin tvö. Austri, jólablað 1988).

Að lokum er þess að geta að veglegur kaleikur og patína hafa bjargast úr klausturkirkjunni, og eru nú geymd í Þjóðminjasafni, sbr. mynd á bls. 102 í bók Steinunnar 2012. Freistandi er að ætla að þar séu komnir gripirnir af þúfunni, sem helgisagan getur um.

Skriðuklausturskirkja hefur verið allstórt og veglegt hús á klausturtímanum og lengi þar á eftir. Engin bein lýsing er til á kirkjunni, en Heimir Steinsson hefur reynt að gera sér nokkra mynd af henni, með hliðsjón af þeim fáu orðum í úttektum frá 1598, 1610 og 1641, er víkja að húsinu sjálfu, sem oftast er vegna þess að eitthvað er úr lagi gengið. Niðurstaða hans er:

“Klausturkirkjan að Skriðu er stórt hús um sig og allhátt, girt torfveggjum á þrjá vegu, en með timburþili á vesturgafli og læstri hurð á járnum. Að innan er húsið þiljað því nær allt, gólf allt úr timbri og bekkir með veggjum í þeim hluta kirkju sem almenningi er ætlaður (sbr. síðar). Kórgólfið er hærra en gólf meginkirkjunnar; kórinn skiptist í tvennt, og er þil milli fremri og innri kórs, svo og milli fremri kórs og kirkju. Í kórnum er glergluggi, væntanlega á bak við háaltari. Innri hluti kórsins er þrengri en hinn fremri, en yfir þeim síðarnefnda er loft og fyrir því pílárar, en stigi upp að ganga.” (H. St.: Saga munklífis, bls. 55).

Þann 29. ágúst 1677 visiterar Þórður Þorláksson biskup. Þá er risin ný kirkja, sem hann lýsir svo:

“Kirkjan í sjálfri sér, nýuppsmíðuð upp á sýslumannsins, Jóns Þorlákssonar kostnað, er nú með fjórum stafgólfum og 2 bitum á lofti, með reisifjöl og langböndum, standþili bak og fyrir, undir og yfir bita, glergluggi yfir altari og prédikunarstól, þil milli kórs og kirkju undir og yfir bita, með dróttum, 2 stólar í kór og kórinn umhverfis þiljaður, með fóðruðum bekkjum, og fjalagólf í innsta stafgólfi í kórnum, gömul hurð á járnum, með hespu og keng og vænum hengilás fyrir, item önnur hurð fyrir bakdyrum; kirkjunnar veggir vandaðir og vel gerðir, og hún sjálf sterk og stæðileg.” (H. St.: Saga munkl., bls. 55).

Heimir telur ljóst að þessi kirkja sé mun minni en sú gamla, og þrátt fyrir meðmælin hér að ofan sé lítt til hennar vandað, enda sé hún nú aðeins ætluð heimafólki. Aðalkirkjan er hvorki þiljuð né með fjalagólfi. (Geta ber þess, að Þórður biskup er bróðir Jóns Þorlákssonar sýslumanns, og þeir voru synir Þorláks Skúlasonar Hólabiskups). Við heimsókn biskups 1682 er búið að bæta við “vindskeiðum vænum” fyrir framan kirkjuna, “með kostulegt verk”, þ.e. útskurð. Árið 1697 er komið fjalagólf í kirkjuna, og nýjar vindskeiðar að framan, “útsnikkaðar með kostulegu verki og yfirstroknar með góðum olíufarva, sem þessari kirkju er gott ornamentum”, en þær gömlu hafa verið settar á afturstafn. Þetta hefur Bessi Guðmundsson sýslumaður látið gera. Fram kemur að torfþak er á kirkjunni.

Á 18. öld hrakar kirkjunni smám saman, enda virðast sýslumenn og klausturhaldarar heldur hirðulausir um hana, ef marka má ummæli biskupa í vísitasíum, og forsóma að gera þær endurbætur sem lagt er fyrir. Árið 1739 var Skriðukirkja gerð að útkirkju frá Valþjófsstað, og eftir það sátu prestar ekki á Skriðuklaustri. Við vísitasíu Ólafs biskups Gíslasonar 1748, er kirkjan “að segja að falli komin og þessvegna ekki embættisfær”. Hins vegar lofar “velnefndur klausturhaldarinn Seignieur Wíum” að endurbyggja hana, “annaðhvort á tilkomandi hausti eða næstkomandi vori.” (H.St.: Saga munklífis, bls. 58). Virðist sem Hans Wíum hafi efnt það að einhverju leyti, því að við vísitasíu Hannesar Finnssonar biskups 16. ágúst 1779, stendur kirkjan enn, að vísu heldur hrörleg, en virðist þó ekki verr á sig komin en 30 árum fyrr.

Þá eru hafnar deilur milli þeirra sýslumanna Hans Wíums og Þorsteins Sigurðssonar á Víðivöllum, sem fyrr var nefndur, um viðhald kirkjunnar og kostnað við prestahald, og af því tilefni ritar Þorsteinn “Relation” þá sem fyrr var vitnað til, dags. 23. okt. 1741, þar sem hann færir m.a. rök fyrir því að Skriðuklausturskirkja sé ónauðsynleg, og réttast að leggja hana niður. Stendur í þessu stappi næstu áratugi, og á meðan fær kirkjan lítið sem ekkert viðhald. Loks er hún formlega lögð niður með konungsbréfi 1792, og telur Heimir að þá þegar hafi verið búið að rífa hana. “Kirkjan skal af lögð og kirkjugripir gefnir, en lausafé selt.” (H. St.: Saga munklífis, bls. 61).

Gunnar Gunnarsson segir hins vegar í Árbók Ferðafélagsins 1944, bls. 87: “rifin var hún ekki fyrr en í manna minnum (árið er mér ókunnugt)” Gunnar minnist á sögusagnir um að hún hafi verið flutt að Valþjófsstað og byggð þar upp, en fyrir því eru engar heimildir. “Gamlar menjar, sem upprunalega hafa verið í henni geymdar, svo sem minningatöflur yfir látin börn sýslumanns Wíums, hafa aftur á móti verið fluttar þangað”, segir Gunnar.

Heimir Steinsson hefur langan kafla í prófritgerð sinni um “Innanstokksmuni í kirkju”, bls. 62-86, og er hérmeð vísað til hans um frekari upplýsingar varðandi það atriði. Síðar verður fjallað um Maríulíkneski, sem líklega var í kirkjunni.

Sveinn Einarsson sagði mér (7. 3. 1989) að þegar hann var að hlaða svalirnar við Gunnarshús, hafi Þór Þorbergsson tilraunastjóri verið með hugmyndir um að byggja kapellu á gamla kirkjustæðinu, og hlaða veggi hennar á sama hátt, en ekki varð af framkvæmdum í því efni.

“Heimakirkjan”, sem nefnd er í úttektinni frá 1598 (sjá áður) hefur valdið fræðimönnum nokkrum heilabrotum. Ljóst er að hún hefur verið heima á bænum, nálægt öðrum bæjarhúsum. Af innanstokksmunum í henni er ljóst búið er að afhelga hana, enda er hún þá “að falli komin, bæði að veggjum og viðum” og er þá notuð sem geymsla fyrir ýmislegt dót, m.a. maltkvörn, smíðatól og skeifur.

Heimakirkju er aftur getið í úttekt frá 1610, en þá bregður svo við að hún er sögð vera “ný að veggjum og þaki, endurbætt að þilviði yfir kórnum”, annars líklega svipuð og áður. Í vísitasíu Brynjólfs biskups 1641 er aðeins getið um “bænhús”. Í máldaga sem líklega er frá 1471, er sagt að 7 bænhús séu í Valþjófsstaðasókn, og hafði þeim þá fjölgað um eitt frá fyrri máldögum. Heimir Steinsson (Saga munklífis.. bls. 10) giskar á að það hafi verið á Skriðu.

Í þessu sambandi er vert að minnast ummæla Finns Jónssonar í Kirkjusögunni, sem fyrr var vitnað til, að fyrst hafi verið byggð kapella á staðnum þar sem kraftaverkið gerðist, en síðan önnur stærri kirkja (klausturkirkjan). Þessi kapella gat hafa verið nefnd bænhús í máldaganum 1471. Hugsanlega hefur hún svo verið flutt heim að bænum og nefnd heimakirkja.

Ummerki klausturs, kirkju og kirkjugarðs.

Um aldamótin 2000 voru minjar klausturhúsanna horfnar af yfirborði jarðar. Ekki var einu sinni vitað hvar þau stóðu, en líklegt var talið að þau hefðu verið á núverandi bæjarstæði eða í nánd við það. Við upphaf fornleifarannsóknar, er fram fór á Skriðuklaustri 2001-2011 kom hins vegar í ljós, að rústir klausturhúsanna voru utanvert við kirkjugarðinn á Kirkjutúni.

Þegar Daniel Bruun ferðast um Fljótsdal árið 1901, virðist hann hafa fengið einhvern ávæning af klausturtóttunum, en honum farast svo orð:

Um það bil 40 álnum [25 m] vestan bæjarhúsanna er tótt (b), sem vera mun frá tímum klaustursins. Hún er 30-40 skrefa löng og mest 24 skref á breidd. Í bakka á djúpum skurði við annan enda rústarinnar kemur í ljós að grunnurinn hefur verið hlaðinn úr grjóti, sem nú liggur á fjögurra feta dýpi í jörð. Enn er hin þriðja tótt (c) þar í túninu og er sú minni. (D. Bruun, 1901 / 1974, Múlaþ. 7, bls. 163).

Lýsingunni fylgir lítil teikning af tóttinni, sem virðist skv. henni, hafa verið mjög útflött og ógreinileg. Samkvæmt þessu rissi og mælikvarða sem fylgir, er innanmál tóttarinnar um 6-7 x 22 m, en veggir allt að 5 m þykkir og því mjög útflattir. Tóttin liggur samhliða fjallinu og einar dyr (mjög víðar) eru sýndar á austurhlið. Varla er hægt að geta sér til, hvaða tótt þarna var um að ræða, en lögunin bendir þó helst til skálatóttar. Ekki er greint hvar tótt c var, en hún er líklega af gripahúsi. Umrædd tótt (b) virðist hafa verið innan og ofan við Gunnarshús, um það bil þar sem “Kúahlaðan” er nú, eða rétt fyrir sunnan hana. Þar er nú slétt, hallandi tún.

Sigurður S. Þormar merkir “Tóft” og “Reykhús” á þessum slóðum á teikningu sína af húsaskipan á Klaustri um 1935. Tóft hans gæti því verið sú sama og Daniel á við. Tóftin var beint upp af fjóshaugnum, segir hann, en haugurinn var rétt fyrir innan fjósið. Hann telur að veggurinn ofanvert í tóftinni hafi verið allt að mannhæð (Símtal 29. 12. 2000).

Daniel Bruun minnist einnig á “jarðgöng”, og ritar um þau:

“Samkvæmt venjunni ættu að hafa legið jarðgöng milli bæjar og kirkju, til afnota fyrir nunnurnar (!). Á einum stað sést jafnvel svolítill hryggur, sem mun vera leifar af þessum jarðgöngum, en hér um eru sagnir harla óljósar.”

Vegna fjarlægðar klausturkirkjunnar frá bæjarhúsum er útilokað að slík jarðgöng hafi verið til, auk þess er hjalli með klettakjarna þar á milli.

Daniel Bruun birtir einnig grunnteikningu af kirkjugarði og kirkjutótt í fyrrnefndri ritgerð sinni, og segir vera “u.þ.b. 600 fetum suðaustan bæjarhúsanna, undir brekkuhalli.” Samkvæmt teikningu hans er kirkjugarðurinn ferhyrndur og allar hliðar jafnlangar, um 30 m, með dyrum á miðri vesturhlið (að brekkunni) og líklega einnig á suðurhlið miðri. Tveir samhliða hryggir eru í miðjum garðinum og snúa nokkuð skáhallt miðað við hann, þ.e. í A-V, og eru það efalaust hliðveggir síðustu kirkjunnar sem þarna stóð. Þeir eru um 10 m skv. teikningunni.

Jón læknir (1897) segir að leiði Hans Wíums og Jóns “flak” sjáist ennþá skýrt í kirkjugarðinum, en Gunnar segir að þau séu “sýnd” þar. (Sjá um Jón hrak síðar í þættinum). Jón Pálsson (blindi) sem var fæddur 1805, segir að Hans hafi seinastur verið grafinn þar (Múlaþing 29, 2002, bls. 25), og ýmsir samtímamenn mínir töldu sig muna eftir legsteini Wíums. Valgeir Þormar, sem var uppalinn á Klaustri, sagði steininn hafa verið sýnilegan meðan hann átti þar heima fram til 1938, og kvaðst muna vel eftir honum. Þetta hafi verið íslenskur grágrýtissteinn, sem þynntist upp, líklega eitthvað tilhöggvinn, en lá flatur þegar hann man eftir, svo að ekki sást áletrun á honum. Taldi Valgeir að hann hefði verið við NA-horn kirkjutóttar, líklega nokkurn veginn í línu frá miðju kirkjunnar í stefnu á Hrafnkelsstaði, og þó nær kirkju en garði. (Símtal 28. sept. 1991).

Í Wíums-þætti Sigfúsar Sigfússonar (XI. bindi, bls. 38 í 1. útgáfu) er birt “Grafskrift” Hans Wíums , þ.e. vísa undir dróttkvæðum hætti, sem ætla má að hafi verið rituð á legstein hans.

Um aldamótin 2000 var þessum minjum svo lýst:

"Rústirnar eru á sléttum stalli austan undir lágum klettarana, sem liggur frá suðri til norðurs [!]. Sléttað tún umhverfis. Ekki sést heim að bæ frá kirkjunni eða öfugt. Greinilegar rústir. Garðurinn umhverfis er ferkantaður, 22 × 23 m, op á miðri vesturhlið, sem snýr að klettunum. Veggir grónir og gróskumiklir, allt að 1 m háir og sumsstaðar 2 m breiðir. Hvergi sér í grjót. Leiði Jóns Hrak er í SA-horni garðsins. Kirkjutóftin er því sem næst í garðinum miðjum, tveir samsíða veggir, sem liggja frá austri til vesturs, ummál tóftar 7 × 7 m. Veggir allt að 1,5 m háir og alveg grónir, líkt og garðveggirnir. Kirkjuveggirnir eru ekki samsíða veggjum garðsins, umhverfis." (Fornleifaskýrsla 2001, bls. 78).

Á árunum 2005-2010 voru flestöll leiði í Klausturkirkjugarðinum grafin upp, eitthvað um 240 talsins. Beinin höfðu yfirleitt varðveist vel og voru þau öll tekin til nákvæmrar rannsóknar af sérfræðingum. Fjölmargar beinagrindur báru merki alvarlegra sjúkdóma sem unnt var að greina, og sýndi að í klaustrinu hafði verið rekin sjúkrastofa og sjúklingar látist þar. Hins vegar fundust engir legsteinar í garðinum, og hallast Steinunn að því að ekki hafi verið jarðsett þar eftir að klaustrið lagðist niður. Legsteinn Hans Wíums var því líklega bara þjóðsaga, og steinninn sem menn héldu vera hann hefur þjónað öðrum tilgangi.

Landnámsskáli?: Við uppgröft klausturhúsanna fundust, minjar um byggingu sem gæti verið frá landnámsöld, og Steinunn getur sér til að sé af stórum skála, um 20 × 10 m að flatarmáli, og náði frá SA-horni klaustursins (matsalnum) yfir í kirkjugarðinn, og kom þar greinilega fram í gröfunum. Ekki fundust þó neinir gripir sem staðfesta þetta. (Sagan af Klaustrinu á Skriðu, bls. 120 og 132). Hugsanlega var þetta aðeins gripahús eða rétt. Þá taldi Steinunn að hlaða hefði verið byggð yfir NA-horn rústanna, líklega um aldamót 1900, en hefði ekki skert þær neitt teljandi.

Leiði Jóns hrak: Jón læknir segir að leiði Hans Wíums og Jóns “flak” sjáist ennþá skýrt í kirkjugarðinum (um aldamót 1900), en Gunnar segir að þau séu “sýnd” þar. Um aldamótin 2000 voru þau varla greinanleg vegna þúfumyndunar og mikils grasvaxtar. Á þúfu í SA-horni garðsins var hella, sem á er ritað nafnið “Jón hrak”. Stephan G. Stephansson skáld hafði ort frægt kvæði um Jón hrak árið 1898, og þegar hann kom að Klaustri árið 1917, kom hann því til leiðar, að þetta meinta leiði yrði hlaðið upp, eins og fram kemur í bréfi hans til Sigríðar Halldórsdóttur á Klaustri:

“P.t. Eiríksstöðum, 15. júlí 1917. Ég hefi minnzt á það við föður þinn, að hann leyfði, að hlaðið væri upp leiði Jóns míns hraks, og tók hann því vel. Nú vil ég biðja þig að sjá um þetta. Legg með kr. 5.00, svo þú borgir einhverjum fyrir að gera þetta. Mér finnst ég skuldi karlinum þetta, að þúfunni hans sé haldið við, fyrst þú hefir hana til sýnis fyrir gesti. Með kærri þökk og kveðju til þín og heimilismanna.
Fagurbeltað fjall hefir prýtt
Forna Skriðuklaustur,
Þar mun vera fleira frítt,
Farirðu þangað austur. St. G. St.”

Stephan minnist einnig á þetta í bréfi til Jóns Jónssonar frá Sleðbrjót, dags. 14. des. 1917: “Jón hrak” er grafinn að Skriðuklaustri. Leiðið í túninu snýr “út og suður”. (Bréf og ritgerðir, II, 1942: 131 og 134). Af orðum hans er ljóst að heimilisfólkið hefur talið víst að þetta fræga leiði væri þar. Gunnar Gunnarsson víkur að þessu í Lýsingu Fljótsdalshéraðs 1944:

“Lét Stephan G. hlaða upp leiði hans, þegar hann var hér á ferð, og Hákon skógræktarstjóri hefur gefið gabbróhellu á það, með nafni Jóns, en Sigurður Nordal vill ekki hafa að Jón liggi hér, og eigi heldur hafi hann heitið Jón hrak, heldur Jón flak, og má vel vera.” (G.G. 1944: 86).

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (I: 227) er sagan “Leiðið í Skriðuklausturskirkjugarði”, rituð af Þórarni Jónssyni stúdent frá Klaustri. Þar segir frá draumi Jóns Eiríkssonar vinnumanns, þar sem látinn maður kvartar yfir því að vera jarðaður eins og aðrir kristnir menn, því að hann hafi verið svo vondur, og vill láta snúa við leiði sínu. Fékk Jón ekki frið fyrr en það var gert. Ekki er minnst á Jón hrak í þeirri sögu, og ég hef hvergi fundið staðgóðar heimildir um að hann sé grafinn á Klaustri, eða að hann hafi yfirleitt verið til. Hrafnkell A. Jónsson, fv. skjalavörður á Eg., ritaði grein um þetta efni og telur að um "flökkusögn" sé að ræða, sem Stefán hafi kynnst hjá öðrum vesturfara, Sveini Björnssyni, sem alinn var upp á Valþjófsstað. (Kalt er við kórbak. Á sprekamó. Afmælisrit H.Hall. 2005: 161-169). Franzisca Gunnarsdóttir fjallar á skemmtilegan hátt um Jón hrak í bók sinni, Vandratað í veröldinni. Rvík. 1987.

Kirkju- og klausturgripir

Maríulíkneski: Í Þjóðminjasafni Íslands er geymt Maríulíkneski af tré (safnnúmer 14414). Því er svo lýst í safnskrá:

“Maríulíkan úr eik, prýðis vel gert og vel varðveitt. Það er 71 cm á hæð; barnið sem hún heldur á hné sér, 28 cm. Líkneskið er holað út að aftan, eins og flest þess háttar líkön eru. Hin heilaga móðir situr á stóli, með kórónu á höfði og barnið á hné sér. Hún hefur haldið á einhverju, sennilega veldissprota, í hendi sér, en hann er nú týndur. Aðra hendina vantar líka á barnið; að öðru leyti er líkanið óskaddað. Sennilega hefur það upphaflega verið málað, en þess sjást nú sama og engin merki, en gljákvoða hefur verið borin á það nýlega.”

Líkneskið er úr svonefndu Wordssafni, sem kennt er við enskan fiskkaupmann, Pike Ward, er dvaldist hér um og fyrir aldamótin 1900, síðast í Hafnarfirði. Hann var áhugasamur um íslenska forngripi og eignaðist talsvert safn af þeim, sem hann flutti með sér til Englands. Þetta safn var svo að lokum gefið Þjóðminjasafni Íslands og kom þangað árið 1950. Þá fylgdi líkneskinu svofelld klausa, líklega frá hendi Wards:

“Þegar Ísland hvarf frá kaþólskri trú til Lútherstrúar, urðu menn að eyðileggja allar myndir af Maríu mey, og er bóndinn á Klaustri við Lagarfljót var að endurbyggja fjós sitt og reif niður veggi þess gamla, fann hann þetta líkan af Maríu mey, og skírnarfont. Þessir hlutir voru sendir til Reykjavíkur, en ég komst yfir Maríulíkneskið eftir talsvert þref.”

Kristján Eldjárn getur þess í smágrein um Wordssafn í bókinni Hundrað ár í Þjóðminjasafni, að “ekki sé víst að sú heimild sé óskeikul.” Þó er varla ástæða til að efast um, að þessi umsögn hafi fylgt styttunni þegar Ward fékk hana í hendur, enda virðast úttektir á gripum klausturkirkjunnar staðfesta það, eins og Heimir Steinsson bendir á í ritgerð sinni 1965. Í úttektum frá 1598 og 1610 er ekki getið um myndastyttur í kirkjunni, en 1641 er minnst á “Maríulíkneski”, ásamt “líkneski einhverrar heilagrar meyjar af alabastur [og] annað líkneski lítið fyrir kórdyrum.” Í úttekt frá 1677 segir: “Maríulíkneski og þrjú önnur, eitt af þeim af alabastri”, og 1706 er getið um “Maríulíkneski með hulstri” og “tvö líkneski fyrir framan kórdyr”. Enn er þeirra getið í úttektum kirkjunnar frá 1748 og 1779.

Það fer því naumast á milli mála, að líkneskin hafa verið tekin úr kirkjunni við siðaskiptin um 1550, og komið fyrir í geymslu, meðan mesta ofstækið gegn dýrlingamyndum gekk yfir, en síðan sett í kirkjuna aftur. Ýmis dæmi eru til um þetta, og fundust sumir kirkjugripir ekki fyrr en mörgum öldum seinna. (Sjá t.d. Selma Jónsdóttir: Saga Maríumyndar, 1964).

Núverandi ástand Maríustyttunnar bendir samt ekki til, að hún hafi legið lengi í moldarvegg, þó hún hafi verið í “hulstri”. Líklega má líta á þetta sem þjóðsögu, er fylgt hafi líkneskinu, vegna þess að það var tekið úr kirkjunni og falið. Klaustrið að Skriðu var m.a. helgað Maríu mey, og styrkir það fremur þá skoðun að líkneskið sé komið úr Skriðuklausturskirkju. Í lok umræðu sinnar um Maríulíkneskið farast Heimi Steinssyni svo orð:

“Að öðrum myndum ólöstuðum, er þessi ein áferðarfegursta Maríumyndin, er safnið geymir. Mikill menningarauki hefur verið að slíkri mynd í íslenzkri sveitakirkju á þeim öldum er fátækt réði annars mestu um húsakost allan og hýbýlaprýði – og væri raunar enn. Þeim mun óskiljanlegri verður hugsunarháttur þeirra manna, er sakir viðkvæmra trúarskoðana sinna, vildu feigan slíkan kjörgrip. Þeim mun skiljanlegra verður og, að þeirrar aldar, sem látið hefur kúgast til að grafa listaverk sín, hollvætti og dýrustu helgidóma í fjósvegg, eða fela í hellum, biði von bráðar að heykjast trúarlega örbjarga í fang árum og illyrmum galdratrúarinnar, óhugnanlegustu pestar sem yfir land þetta hefur gengið að fornu og nýju.” (H. St.: Saga munklífis..., 1965, bls. 82)

Í tilefni aldarafmælis Gunnars skálds vorið 1989 stofnaði ritari þessa pistils til samskota meðal Héraðsbúa heima fyrir og burtfluttra, til að kosta eftirlíkingu umræddrar Maríustyttu. Var Sveinn Ólafsson myndskeri í Rvík fenginn til þess verks, er þótti takast með ágætum, og var þessi nýja "Klaustur-María" gefin Gunnarshúsi, þar sem hún hefur verið til sýnis í arinstofunni. Söfnunarféð var lagt í "Maríusjóð", er hefur síðan haldið áfram að vaxa og getur vonandi stutt að fleiri þörfum verkum. (H. Hall.: Klaustur-María og kraftaverkin tvö. Austri, jólablað 1988. / Skriðuklaustur. Lesb. Mbl. 18. des. 1999).

Barbörulíkneski: Í úttektum klausturkirjunnar er minnst á “líkneski af alabastri”. Við uppgröft kirkju og klausturs fundust nokkur brot af líkneski heilagrar Barböru, úr “terrokottaleir”. Forverði Þjóðminjasafnsins tókst að setja það saman og birtist mynd af því í Klausturbók Steinunnar, bls. 98. Það er um 30 sm á hæð, “og stendur á stalli, skreyttum kórónum og vínberjaklösum.” Í hægri hendi heldur hún á bók, en í vinstri hendi á turni, sem var einkennandi fyrir hana, en hann var allur í molum. Líkneski af þessu tagi voru framleidd í Utrecht í Hollandi á 15. öld.

Skírnarfontur: Varðandi “skírnarfontinn”, sem Ward getur um, þá er slíks grips ekki getið í úttektum kirkjunnar fyrr en 1727, en þá er þar “skírnarfat af messing”, en vera má þó, að “sacrarium af messing”, sem nefnt er 1706, sé sami gripurinn. Í Valþjófsstaðakirkju er eldgamalt skírnarfat úr messing, sem sagt er að Hjöleifur Þórðarson, pr. á Valþjófsstað á 18. öld, hafi gefið kirkjunni, og gæti það hugsanlega verið umrætt skírnarfat, sem einfaldlega hafi lent þangað á dögum Hjörleifs.

Kaleikar: Í úttekt Skriðuklausturskirkju frá 1598 er getið um “tvo kaleika gyllta, og einn lítinn... allir með patínum”, er verið hafi í kirkjunni. Þegar kirkjan var lögð niður 1792 og gripum hennar ráðstafað voru kaleikur og patína gefin Klyppstaðarkirkju í Loðmundarfirði, og komu þaðan í Þjóðminjasafnið 1916. Þau hafa verið aldursgreind til ára kringum 1500. Þetta eru veglegir gripir, sem birt er mynd af í bók Steinunnar, bls. 102.

Á Egilsstöðum í Fljótsdal er nú varðveittur bikar einn af postulíni, gylltur að innan og myndskreyttur að utanverðu, sem sagt er að sé ættaður úr kirkjunni á Skriðuklaustri. Segir Snorri Gunnarsson á Egilstöðum, að bikarinn sé kominn frá Páli Þorsteinssyni langa-langafa sínum (frá Melum), er hafi verið síðastur meðhjálpari í Skriðuklausturskirkju. (Páll er líklega fæddur um 1775, svo þetta getur varla staðist). Snorri segir að tveir minni bikarar hafi fylgt þessum, og hafi þeir verið sendir Þjóðminjasafni.” (H. Hall.: Klaustur-María... Austri, jólin 1988, þar er birt mynd af bikarnum). (Mig minnir að fyrirspurn hafi verið send Þjóðminjaverði um 1990, sem gat ekki staðfest að þessir bikarar væru þar). Skv. bók Steinunnar (2012) er Egilsstaðabikarinn of ungur til að geta verið úr kirkjunni.

Altarissteinar: Á kaþólskum tíma þóttu svonefndir altarissteinar ómissandi í kirkjum. Þeir voru hafðir undir ölturum og höfðu táknrænt gildi. Í úttektum klausturkirkjunnar 1598 og 1641 er getið um altarissteina, og við uppgröftinn fundust þrír slíkir steinar, að talið var, úr innlendu bergi. “Allir voru þeir brotnir, en samt er greinilegt að þeir höfðu verið höggnir til eða slípaðir eins og altarissteinar eru alltaf. Einn af þessum þremur var með rósamunstri af algengri gerð”, segir í bók Steinunnar, bls. 95 (mynd). Einnig er talið að marmarasteinn, sem var á bænum Mjóanesi í Skógum, nú í Minjasafninu á Egilsstöðum, hafi verið altarissteinn á Skriðuklaustri.

Altaristafla?: Jóhanna J. Kjerúlf frá Brekkugerði sagðist muna eftir altaristöflu, sem stóð upp við vegg í "holinu" (=höllinni?) í gamla torfbænum á Klaustri, og heldur að hún hafi verið úr klausturkirkjunni. Minnir hana að myndin hafi verið óskemmd þegar hún sá hana, en líklega ekki í ramma. Ekki vissi hún hvað varð um þessa mynd. (Sögn hennar 5. febr. 1989).

Kistill: Í fyrrnefndri fornleifaskýrslu Vigfúsar Ormssonar, 20. sept. 1821, nr. 158 (Frásagnir um fornaldarleifar I, bls. 36) er þessi klausa:

“Til er líka kistilkorn nokkurt, er fyrrum var haft til að geyma í prestsskrúðann á Skriðuklaustri, en selt þegar kirkjan samastaðar var afsköffuð. Kistill þessi er úr eik, ómerkilegur nema að því leyti, að á þá hliðina sem að manni snýr, þegar upp er lokið, er höggvin lifandi afmálun yfir 1 kóng, b. 3, 16 inclus, og í kring þetta letur, með upphleyptum bókstöfum: “ingenium prudens poscit. Litesque resolvit femineas. Populus pectora doctat.” Út við hliðfjalarendana, báðumegin, eru höggvin, að menn meina, hjónin er bjuggu á klaustrinu, þegar stokkur þessi var keyptur, eður þaug hafa gefið hann til kirkjunnar; stendur hann á móts við hægri hendi, þegar maður horfir á hlíðina, með þessum bókstöfum, sínum til hvorrar hliðar A E – er hún móts við vinstri, og standa þessir bókstafir sinn hvoru megin höfuðs hennar, G A.”

“Þessi kistill virðist ekki varðveittur lengur,” ritar útgefandi í athugasemdum sínum. Ekki verður betur séð en þarna sé komin önnur hvor þeirra kista, sem getið er í úttektinni frá 1598, líklega “útsnikkaða” kistan. Um afdrif þessa kistils er ekki vitað (Sjá Valþjófsstað).

Aðrir forngripir: Við uppgröft klausturs og kirkju 2001-2011 fundust margir fleiri gripir, sem Steinunn getur um í bók sinni og birtir myndir af, m.a. gullhringur veglegur, með laufaskreyti, sem fannst í gröf (mynd á bls. 156), innsiglishringur með stöfunum O S , járnsylgja og ljósahald úr járni, kertabjalla, reiknimynt, spjótsoddur og hnífar af ýmsu tagi, m.a. til blóðtöku, skæri, kotra og teningar úr beini, náttúrsteinar ýmsir, o.fl.

Veraldlegir gripir

Klúkustóllinn: Á bænum Klúku var stóll úr birki, fagurlega útskorinn, m.a. með nafninu Guðmundur PS, útskornu með höfðaletri á bakbríkina. Talið er að Guðmundur Pálsson klausturhaldari á Skriðu hafi átt stólinn, og Una Guðmundsdóttir kona hans e.t.v. annan eins, sem þá er líklega týndur. Sverrir Þorsteinsson í Klúku afhenti Minjasafni Austurlands þennan stól árið 1994, og er hann þar í sýningarsal. (H.Hall.: “Klúkustóllinn”. Glettingur 8 (1), 1998, bls. 42, og þar eru litmyndir af stólnum. Sjá Klúku).

Kingja eða nisti er í Þjóðminjasafni, skráð frá Skriðuklaustri 1916, fundið “í bæjarmoldum”. Í bréfi frá Sigríði Halldórsdóttur á Klaustri til Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar, dags, 23.3. 1916, kemur fram að hann hefur falast eftir þessum "verndargrip", sem Sigríður kallar svo, og hún hefur sent hann með bréfinu. Skúli Björn telur mögulegt að hann sé frá klausturtíma, og Steinunn er sömu skoðunar. Mynd er af nistinu í bók hennar, bls. 15.

Leirkanna (Bartmann): Vorið 1992 var grafið fyrir litlu gróðurhúsi á gamla bæjarstæðinu suðvestan við Gunnarshús á Klaustri. Á um 3 feta dýpi rakst Margrét Lára Þórarinsdóttir á pyttlulaga könnu úr leir, með haldi. Á aðra flathliðina er grópuð andlitsmynd af skeggjuðum manni. Mynd af könnunni var send þjóðminjaverði.

Í ritgerð Guðrúnar Sveinbjarnardóttur: “Leirker á Íslandi”. Rit Hins íslenska fornleifafélags og Þjóðminjasafns Íslands 3, er mynd af könnunni og þessi stutta klausa:

“35. Kanna. Skeggkarl, heil. Leirinn grár og glerungur ljósgrár. Hæðin er 150 mm, þvermál ops 32 mm, botns 50-55 mm. Mesta vídd um bumbu er 105 mm. Framaná stút er óvenju stórt, gróft andlit, miðað við stærð könnunnar. Er það á leirræmu sem hefur verið bætt á könnuna eftir að hún var rennd. Fannst þegar verið var að grafa fyrir gróðurhúsi rétt við íbúðarhúsið að Skriðuklaustri í Fljótsdal, í útjaðri gamla bæjarstæðisins, og er í eigu Guðborgar Jónsdóttur á sama stað. 17. öld. Mynd 10.”

Með hjálp Edward F. Heite fornleifafræðings o.fl. aflaði Guðborg Jónsdóttir, fyrrum húsfreyja á Klaustri, sér ýmissa fleiri heimilda um þennan grip og samdi ritgerð um hann, í tengslum við nám sitt við Menntaskólann á Egilsstöðum, 1999, er síðar var birt. (G.J.: Skeggmannskannan á Skriðuklaustri. Glettingur 11 (1): 15-18, 2001).

Samkvæmt henni er kannan af tegundinni Raeren, en þær voru algengar á 16. og 17. öld, og voru aðallega framleiddar í Hollandi og vestasta hluta Þýskalands. Guðborg telur þó að kannan hafi verið búin til fyrir lok 15. aldar, og hafi komið í Klaustur með munkunum. Samkvæmt heimildum hennar var algengt að slíkar könnur væru notaðar til að framkvæma ýmiss konar varnargaldur.

“Algengast var að í könnuna væru lagðar ýmisskonar jurtir, sem ilmuðu vel; þar á eftir fylgdu nokkuð margir hárbeittir prjónar. Þeir voru beygðir í vinkil, sumum var stungið í hjartalaga klæðisbút, um aðra var vafið mannshárum. Að lokum var fyllt upp með nokkrum beittum nöglum og þeir voru tvíbeygðir. Í könnustútinn var síðan þjappað leirklessu, til að loka henni. Þá var kannan grafin í jörðu og stúturinn vísaði niður. Venjulegast var henni síðan komið fyrir undir þröskuldinum inn í hýbýli manna, en stundum grafin niður í eldstóna. Með þessu þótti mönnum tryggt, að illir andar og draugar ættu ekki greiðan aðgang inn í hýbýlin. Þeir trúðu því að allt það er sækti að þeim og væri á sveimi við bústaði þeirra, myndi laðast að ilminum úr könnunni og leita fyrst þangað, og líða inn í hana, en þegar þar yrði komið væri þeim tortímingin vís í naglasúpunni og engin leið til baka.”

Í þessu sambandi má geta þess, að seint á 16 öld var þýskur kaupmaður, Jakob Winoch sýslumaður í Múlaþingi með búsetu á Skriðuklaustri, og kona Erlends Magnússonar, fyrirrennara hans, var af þýskum ættum. Er ekki ólíklegt að kannan sé frá þeim komin.

Gripahús á heimatúni

Kúahlaða var innan og neðan við bæinn á fyrri hluta 20. aldar, neðan við Hestaréttina, góðan spöl frá fjósinu. Um 1940 hefur þessi hlaða verið rifin, en önnur og stærri hlaða byggð ofan við gamla bæjarstæðið, skammt inn og upp af húsi Gunnars, að mestu úr timbri og járni, og stendur hún enn í dálítið breyttu formi, hefur líklega verið endurnýjuð á árunum 1965-70, stytt og hækkuð. Þá var byggt við hana að austan lítið hús, með grjótveggjum, járnþaki og timburstafni, sem 1991 var hænsnahús og síðar hesthús, ásamt syðri hluta hlöðunnar. Það er nú hið eina sem eftir stendur af grjótbyggingum á Klaustri, auk reykkofa er síðar getur.

"Hólmyndun talsverð er allt upp undir veg. Efst og nyrst á hólnum stendur kofi, 4 × 5 m, með grjóthlöðnum veggjum. Við hann aftanverðan er bárujárnsskemma með stíum fyrir 3-4 hross. Innangengt er milli þessara húsa. Grindin í grjótkofanum hefur sýnilega verið endurnýjuð nýlega. 6-7 umför grjóts, timburstafn, -stoðir og -sperrur, en þak úr járni. Neðar á hólnum vottar víða fyrir grjóti. Hann er sléttastur efst, sunnan grjótkofans, og hugsanlegt að kofinn, eða forveri hans hafi staðið í bæjarröðinni. Neðst og nyrst í hólnum, 20-30 m neðan við kofann mótar fyrir grunni, líklega seinni tíma byggingu. [líklega af gróðurhúsi Guðborgar?]" (Fornleifaskýrsla 2001, bls. 78).

Gripahús: Í Fasteignamati 1918 er getið um “Fjárhús fyrir 700 fjár (metin á 540 kr.) og 13 heyhlöður fyrir c. 800 hesta af heyi (404 kr.).” Auk þess “hesthús fyrir 23 hesta”(92 kr.) og “reiðfærakofi, mylla og smiðja” (46 kr.). Ekkert er sagt frá skipan þessara húsa, en þau hafa öll verið á heimatúninu, nema fjögur fjárhús voru á Hantónni, sem síðar getur.

Í örnefnaskrá Ara Gíslasonar (um 1960) eru nefnd: Grundarhús, Götuhús og Nýjuhús, sem öll voru utan við bæinn. Á grunnteikningu Sigurðar Þormars er merkt Réttarhús á túninu innan bæjar, innan við Litla-Hring. Telur hann að þar hafi verið hlaða og líklega fjárhús. Á myndinni frá 1942-43 sést þarna lítið torfhús með járnþaki, og ofar til hægri grillir í annað með torfþaki, sem líklega var á svonefndu Kvíabóli.

Nýjuhús voru um 200 m utan bæjar, þar sem nú er járnbraggi. Á loftmynd frá 1955 sést þar engin tótt, en eitthvert jarðrask. (Stuttu utar og neðar er líkt og hringlaga tótt, etv. súrheysgryfja). Bragginn sem þarna stendur enn, var notaður sem verkfærageymsla.

Götuhús stóðu um 60 m utan og neðan við Grundarhúsin, á innra barmi Litla-Grafnings, eða yst á svonefndum Keppingi, en svo kallast túnstykki utan við bæinn. Á loftmynd frá 1955 sést þar tótt af einu langhúsi, með hlöðutótt að baki, ofan við. Tóttin er líklega horfin.

Grundarhús stóðu á Grundunum, yst í gamla túninu, um 270 m NA frá Gunnarshúsi. Á loftmynd frá 1955 virðast þarna vera þrjú fjárhús sambyggð í kross, og hlaða að baki í miðju. Um 1990 voru þar tvö fjárhús úr torfi og grjóti, byggð saman í vinkil, og stór hlaða (18,5 × 6,5 m) úr bárujárni á trégrind í horninu, en undirstöðuveggir grjóthlaðnir og farnir að bila. Þann 27. sept. 1991 gerði ég grunnteikningu af húsunum, lýsti þeim, og tók nokkrar ljósmyndir inni í þeim. Austurhúsið var 14 × 4 m, með grjótveggjum neðantil að innan, en torflagi efst og suðurhúsið 11 × 4 m að innanmáli, að mestu grjóthlaðið. Vegghæðin var víðast hvar 1,70-1,80 m, nema á ytri vegg Austurhússins, aðeins 1,40-1,50. Veggþykkt var yfirleitt frá 1,50 m að neðan til 1,30 að ofan, mælt við dyr, sem voru um 1 m á breidd. Bæði húsin voru með járnþaki á sperrum, en torf lagt ofan á og fest með mörgum hellum. Garðar voru grjóthlaðnir en steypt ofan á þá. Stoðir voru meðfram báðum garðahliðum, með um 1,50 m bili, festar upp í sperrur. (Samkvæmt þessu voru Grundarhúsin af “nýhúsagerð” og hafa líklega verið endurbyggð í tíð Jónasar Péturssonar).
Þessi síðustu fjárhús af gömlu gerðinni voru jöfnuð við jörðu árið 1992, vegna hinnar alræmdu “Riðuhreinsunar”, en hlaðan var skilin eftir, og stóð hún nokkur ár enn, var líklega rifin eftir aldamótin. Í úttekt á húsum jarðarinnar 13.8.1999 segir, að hlaðan sé byggð 1961, úr timbri og járni 127 fermetrar, “ástand gott miðað við aldur; er í notkun.”

Önnur mannvirki heima við

Kvíar: Í örnefnaskrá er getið um Kvíaból, inn og upp af bænum “rétt innan við aðaltúnið, ofan við veginn”, og lenti sneið af því undir veginn. Kvíatóttin er líklega alveg horfin, en þarna var hústótt um miðja 20. öldina (sést á myndum), líklega af fjárhúsi og hlöðu.

Hringar: “Upp af Fit og Fremsta-Nátthaga er svæði, sem heitir Hringur. Ofan við Hring var áður geysistór hestarétt og djúpar traðir. Ofan þeirra var Litli-Hringur. Allt er þetta nú orðið slétt... Þetta merka mannvirki var sléttað með jarðýtu í kringum 1950. Sér þó enn móta fyrir hvar traðirnar hafa legið." (Örnefnaskrá). Á mynd frá 1942-45 sést Litlihringur og traðirnar sem sem lágu í hálfhring umhverfis hann, með grjótveggjum beggja vegna.

Í viðbótum við skrána segir að íbúðarhús tilraunastjórans (“Skriða”) sé efst á Hringnum. Af þessum mannvirkjum sést nú aðeins um 40 m langur, bogalaga grjótgarður, úr Stóra-Hring, sem er rétt ofan við húsið Skriðu. Hestaréttin og traðirnar eru horfnar. Á teikningu Sigurðar Þormars sést að Litli-Hringur hefur verið stutt fyrir innan bæinn og ofan við Traðir og Hestarétt, opinn þeim megin er að bænum sneri, en frá honum að ofan lá grjótgarður (túngarður) út að Nýjuhúsum, utan við bæ, sem enn sjást minjar af.

Þessir svonefndu Hringar voru víða á Héraði, jafnan heima við bæi, og hafa verið hringlaga (eða stundum ferhyrnd) gerði úr torfi eða/og grjóti, sem notuð voru til vörslu húsdýra, líkt því sem nátthagar síðar. Mjög fáir hringar hafa geymst fram á þennan dag, en til eru lýsingar á nokkrum þeirra, og oft má sjá móta fyrir þessum görðum sem lágum hryggjum í túnum. (Sbr. t.d. Bessastaði.)
Hring- eða sporöskjulaga gerði eru algeng á fornum eyðibýlum á Héraði, og munu því vera með elstu og upprunalegustu mannvirkjum á landi hér. (Gamlir túngarðar og kirkjugarðar eru líka hringlaga). Hugsanlegt er að hringarnir hafi upphaflega verið “akurgerði”, og jafnvel að þeir hafi til skiptis verið notaðir til kornræktar og skepnuvörslu, enda hafa húsdýrin þá lagt til áburð í gerðin.

Hestarétt og Traðir: “Eitt af því sem setti sinn svip á umhverfið heima við, var hestarétt ein mikil, er þar var við bæinn...”

“Heimaréttin var til hliðar, fast við bæjarhlaðið. Leiðin heim að bænum innan frá, svo og leiðin utan úr sveitinni, ef farið var að bænum ofan túns, lá gegnum hestaréttina. Var þá stigið af baki í réttinni, við grindina heim á hlaðið. Menn sem komu utan úr sveit neðan túns, og heim að bænum eftir túnbrautinni, stigu af baki við réttargrindina á hlaðinu. Þurfti þá ekki annað en opna hana og hleypa hestunum inn í réttina. Úr réttinni var innangengt í stóra reiðfæraskemmu. Voru þar geymd öll reiðfæri, reiðingar og ferðagögn. Sprett var af og lagt á, án þess að taka þyrfti hesta úr réttinni. Var hestaréttin á Klaustri þannig mjög haganleg, bæði fyrir heimilið og þá sem að garði bar, og margt var þessu líkt í fyrirkomulagi og tilhögun, sem Halldór hafði á heimili sínu.” (Sigurður Einarsson: Halldór Benediktsson. Ísl. bændahöfðingjar, 1951, bls. 394).

Réttin var fyrir innan bæinn og tengdist skemmunni. Rögnvaldur Erlingsson sagði (27.4.1988), að réttin hefði verið í tröðunum, þ. e. nota mátti traðirnar sem rétt, enda voru grjótveggir beggja megin við þær, og kemur það nokkuð vel heim og saman við lýsinguna hér að ofan. Það er ennfremur staðfest af grunnteikningum Sigurðar Þormars, sem fyrr var getið. Hestaréttin á Klaustri hefur verið einstök í sinni röð. Sveinn Einarsson sagði mér, að þegar hann var að hlaða svalirnar við Gunnarshús, 1975-80, hefði verið leitað að tröðunum með því að stinga niður járnteini á líklegum stöðum, án árangurs. Þá hefði komið gestur (líklega Jón Bjarnason) sem upplýsti að traðirnar, og fleiri grjóthleðslur, hefðu verið rifnar til að púkka grjóti undir Gunnarshús, en þó skildir eftir stærstu steinarnir sem menn réðu ekki við. (Sögn Sveins 7. mars 1989). Í bók Steinunnar (bls. 93) er sagt frá því að tveir ýtumenn hafi veigrað sér við að ryðja tröðunum, en sá þriðji lét sig hafa það.

Brunnar: Sigurður Þormar segir brunn (4-5 m djúpan) hafa verið stutt fyrir neðan Gunnarshús, líklega þar sem nú er jarðhús. Halldór Benediktsson lét leiða vatn í bæinn í “galvaniseruðum járnpípum” líklega um aldamótin 1900, og var það tekið úr brunni í brekkurótum, skammt ofan vegar, sem hefur verið aðalvatnsból bæjarins síðan, en hefur átt til að þorna. Þar er lítið, steypt brunnhús. Annað vatnsból er skammt inn og niður af bænum, og stendur þar lítið, steypt brunnhús. (Nú mun vatn vera sótt í lindir í Melakróki við Bessastaðaármela).

Bunuvellir / Rafstöð: Bunuvellir eru "í króki milli Yzta-Nátthaga [Mið-Nátthaga?] og Kirkjuvallar, þar var ullin þvegin við læk, sem síðar var svo virkjaður til ljósa". (Örnefnaskrá). Þessi staður er í hjallabrúninni, innan og ofan við Kirkjugarðinn. Þar nokkru ofar er lind og rann þaðan lækjarspræna.

"Bunuvellir eru rúma 260 m suðaustur af bæ og 160 m suðvestur af Kirkjugarði. Lítið gil sem lækur hefur grafið. Rennur í skurð þar sem hallanum sleppir, þar er nú ræktað tún. Engin mannvirki sjást á Bunuvöllum." (Fornleifaskýrsla 2001, bls. 81).

Við þennan litla læk var sett upp rafstöð í búskapartíð Sigmars G. Þormars, líklega kringum 1930, en varla var það rafmagn nema til ljósa. Stöðvarhúsið stóð neðan við neðsta hjallann, innan og neðan við Klausturhamra, og mun tóttin varla sýnileg.

“Rafstöðin var fyrir neðan Klausturhamra. Hún gekk fyrir vatni, sem kom úr kaldavermslislind fram og niður af bænum. Þar var þveginn þvottur og þurrkhjallur var þar. Vatnið úr henni rann áður í skurði niður á Bunuvelli, þar sem ullin var þvegin. Þessi lækur var stíflaður, með fyrirhleðslu á brekkubrúninni. Þar myndaðist stór pollur. Úr honum lá röraleiðsla úr tjörguðu blikki, niður fyrir Klausturhamra (innan við endann). Þegar pollurinn var fullur, þá tók það eina 8-10 tíma að hann tæmdist, eftir að skrúfað hafði verið frá vatninu í rafstöðinni. Þetta nægði til ljósa og útvarpstækis. Alltaf varð að skrúfa fyrir rafstöðina þegar fólk tók á sig náðir. Þá fylltist pollurinn yfir nóttina.” (Sigurður Þormar, bréf dags. 1.5. 2000).

Þetta er eina vatnsrafstöð af þessu tagi sem ég hef heimildir um á Héraði, þar sem safnað var vatni að næturlagi. Hún var líklega lögð niður um 1940.

Gunnar Gunnarsson lét fyrst setja upp litla dísilrafstöð í húsi sínu (undir aðalinngangi), en síðan var sett upp vindrafstöð á járngrindaturni ofan við vesturálmu hússins, sem sjá má á myndum af bænum frá fimmta áratug 20. aldar. Á fyrstu árum tilraunastöðvarinnar (um 1950) var sett upp ný dísilstöð í herbergi milli bakdyrainngangs og borðstofu, sem nú er fundaherbergi, er þótti að vonum nokkuð hávær og var því byggður smákofi úr steypu fyrir hana, rétt innan og neðan við Gunnarshús, sem enn stendur. (Þórarinn Lárusson, munnl. heimild, 2012. / Hann heldur að leifar af vindrafstöðinni séu geymdar uppi á háalofti í Gunnarshúsi. Turninn undan henni var líklega ekki rifinn fyrr en um sama leyti og fjósið).

Reykkofi er beint niður af bænum, undir “Bæjarhjalla”. Það er grjót/torfveggjahús, með bröttu járnþaki, um 2 × 3 m að innanmáli. Það virðist ekki vera gamalt. Reykhús var áður innan og ofan við bæinn, þar sem nú er Kúahlaðan. Valgeir Þormar rámaði í að hænsnakofi hefði verið á þeim slóðum sem þessi reykkofi er nú. Líklega er það sami kofinn.

Matjurtagarðar: “Í rituðum heimildum (Sýslumannaævum o.v.) er þess getið að Gísli Magnússon (Vísi-Gísli) hafi haft með höndum ræktunartilraunir, aðallega í garðrækt á Skriðuklaustri. Hann var á Klaustri um 1649-1653, sýslumaður.” (SJM II). Olavius (1780/1965, II, bls. 136) ritar: “Mér var tjáð, að á Skriðuklaustri væri kálgarður í allgóðri rækt...” Í sóknarlýsingu Stefáns Árnasonar (1840) er getið um “hlaðna” kál- og kartöflugarða á Klaustri og fleiri bæjum í Fljótsdal. Gísli í Skógargerði segir í handriti um Halldór á Klaustri, að hann hafi verið “brautryðjandi í jarðeplarækt” og hafi stundum fengið 40-50 tunnur af þeim og “auk þess eitthvað af rófum” (Austfirðingaþættir... 2000, bls. 234). Í Fasteignamati 1918 eru matjurtagarðar 4220 fermetrar (nálægt 1/2 ha), og “gefa af sér 30-40 tunnur matjurta í meðalári”.

Einn þessara garða er Kálgarðurinn, sem Sigurður Þormar merkir á teikningu sína, utan og neðan við bæinn. Aðrir garðar hafa líklega verið þar fyrir utan og ofan, efst í svonefndum Keppingi, og sjást þeir á loftmyndinni 1955. (Á myndum frá um 1950 sést grjótgarður liggja upp og niður rétt fyrir utan Gunnarshús, sem e.t.v. er leifar af gömlum matjurtagarði)

Túngarðar: "Bessi [Guðmundsson sýslumaður (um 1646-1723)] ljet byggja túngarð fyrir ofan túnið, og var hann kallaður Þorragarður, því hann var byggður á þorra. Hann er nú [um 1900] allur sokkinn í jörð og er Halldór búinn að láta grafa hann upp og byggja að nýju." (Jón Pálsson / Baldin Benediktsson: Búskapur í Fljótsdal á 19. öld. Múlaþing 29, 2002, bls. 25).

Á síðari hluta 19. aldar var heimatúnið á Klaustri girt með görðum úr torfi og grjóti, sem sagt er að Halldór Benediktsson hafi látið hlaða eða endurbyggja.

"Túnið hafði Halldór girt, áður en túngirðingarlögin [!] komu til sögunnar. Var það girt ýmist með öflugum görðum, eða vörzluskurðum. Haust og vor lét hann húskarlalið sitt vinna að jarðabótastörfum, eftir því sem annir við aðra búsýslu leyfðu." (Sigurður Einarsson: Ísl. bændahöfðingjar, Ak. 1951).

Í Fasteignamati 1918 segir, að túnið sé “algirt með torf- eða grjótgarði, og fleiri og færri gaddavírsstrengjum ofaná.” Af þessum görðum sést nú lítið, nema um 100 m langur og nokkuð útflattur garður eða stallur meðfram þjóðveginum að neðan, út og upp af Gunnarshúsi. Þar fyrir innan er túngarðurinn líklega í kanti eldri bílvegar, sem er rétt fyrir neðan núverandi þjóðveg. Á loftmynd (1:2000) frá 1955 sést meira af þessum garði og hefur hann legið í boga út og niður að Litlagrafningi (utan við núverandi heimveg) og niður með honum að innan, fast við tóttina af Götuhúsi, og myndar svo lykkju upp á við aftur, en þar hefur líklega verið kartöflugarður.

Skriðugarðar: Í sóknarlýsingu séra Stefáns Árnasonar 1840 (Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar, 2000, bls. 147) er eftirfarandi setning: “Skriðugarðar (eru) ei annarsstaðar en á Skriðuklaustri.” Ekki sjást greinileg merki um þessa skriðugarða á loftmyndum, en þeir hafa líklega verið gerðir til að beina leysinga- og regnvatni úr fjallinu ofan bæjar í ákveðna farvegi. Ég hef þó aðeins rekist á eina heimild um að skriður hafi skemmt tún á Klaustri, en það var í janúar 1950. (SJM IV, 260).

Nátthagar. Þrír nátthagar eru nafngreindir í örnefnaskrá Klausturs, þ.e. Fremsti-Nátthagi, Mið-Nátthagi og Ysti-Nátthagi. Þeir hafa verið í röð á “Kirkjuhjalla”, sá ysti líklega utan við Kirkjutún, en hinir tveir fyrir innan það. Einhversstaðar er minnst á að Halldór Benediktsson hafi byggt nátthagana, en sumir kunna þó að vera eldri. Þetta stykki hefur nú verið sléttað í tún, en á nokkrum stöðum má greina garðbrot af þessum nátthögum.

"Daniel Bruun sá afgirtan nátthaga á ferð sinni 1901. Ekki sáust mannvirki í Mið- og Fremsta-Nátthaga. Ysti-Nátthagi hlýtur að vera stykkið norðan við Kirkjuvöll, þar sem friðlýsta kirkjutóftin er. Þar, tæpa 80 m norður af reykkofa, er garðbrot. Að mestu sléttað tún, en um 20 m breið grasrönd í órækt er upp við klettabrúnina. 13 m langur garður liggur þvert yfir grasröndina, rúmlega 1 m breiður og 1,2 - 1,3 m á hæð. Nær algróinn en töluvert grjót sést í kring. Austurhluti garðsins hverfur í skurði, sem liggur samsíða túninu. Uppi á klettabrúninni vestan garðsins, vottar fyrir garðleifum, en mjög er það óglöggt sökum þýfis og grass. Þetta gætu verið leifar af nátthaga. (Fornleifaskýrsla 2001, bls. 79).

Merkir steinar

Bessasteinn: Meðal frægustu fornminja á Skriðuklaustri er svonefndur Bessasteinn, kúlulaga steinvala, nokkru stærri en fótbolti, með smáslöðri á einum stað. Virðist þetta vera sæbarinn hnullungur, en getur líka verið úr Bessastaðaánni kominn. Hann stendur nú við gamla reynitréð sunnan við Gunnarshús, ásamt öðrum steini nokkru stærri og þyngri, sem ekki er nafngreindur, og tveimur minni steinum. Bessasteinn kvað vera kenndur við Bessa (Bersa) Özurarson bónda á Bessastöðum á Söguöld, sem um getur í Droplaugarsona sögu og víðar. (Sjá Bessastaði). Séra Vigfús Ormsson getur um steininn í fornleifaskýrslu sinni frá 20. sept 1821, á þess leið:

“munnmæli fólks er, að þegar Bessi, hniginn á efra aldur, kom eitt sinn á fætur um hádegi, og gekk út á hlaðið, hafi fyrir honum orðið stór steinn á hlaðinu, hvörjum hann kastað hafi undan sólu af fæti sér, og undir eins so fyrir mælt, að hann heygður yrði þar steinninn staðar nymdi. – Steinn þessi - kallaður Bessasteinn – er ennþá geymdur sem minnismerki Bessa, á Skriðuklaustri, og þar jafnframt hafður til að reyna á hraustleik karlmanna, og þykir það hraustur maður, er getur kastað honum yfir öxl sér og aftur fyrir. Hefja því færri hann meir en á bringu og þykir það meðalmanns tak. – Að lögun er steinninn allt eins og egg, að því undanteknu, að á einum stað utantil á honum, er aflaung hvilft, er sagan segir að komið hafi eftir stórutá Bessa, er hann kastaði steininum, en á að getska er steinninn 12 til 14 lp.[lýsipund = 16 pund] og af Bessastaðahlaði suður að haugnum 70 faðmar.” (Frásagnir um fornaldarleifar I, bls. 34 / Skv. þessu hefur steinninn vegið 190-250 pund).

Næst getur steinsins hjá Kr. Kålund (á ferð þarna 1873), og hefur hann sömu sögu að segja og Vigfús, og telur að steinninn hafi verið fluttur frá Bessastöðum að Klaustri. Daniel Bruun (1901) segir hins vegar, að Bessi hafi sparkað honum inn í Skriðuklaustur, eftir því sem sagan segi, “þar sem hann síðar seig í jörð”. Hann segir steininn vega um 180 pund.

Sigfús Sigfússon segir í “Spak-Bersa þætti” sínum í Þjóðsögunum (1. útg. IX, 22-23), að steinninn hafi verið "borinn inn að Skriðuklaustri út úr kappræðu", og segir hann vega 28 "fjórðunga", þ.e. um 280 pund eða um 140 kg. Enn er fjallað um Bessastein í ritgerð Gests Guðfinnssonar um “steinatök eða aflraunasteina” 1977. Þar er haft eftir Þórarni á Eiðum, að steinninn hafi verið “við heimreiðina á Skriðuklaustri, nánar tiltekið við hestaréttina."

Aflraunir við Bessastein voru þrjár: Í fyrsta lagi að grasa honum, lyfta honum úr grasi; í öðru lagi að lyfta honum í hnéhæð; í þriðja lagi að lyfta honum upp á réttarvegginn, og var þá aflraunin fullkomnuð. Þórarinn taldi fráleitt að nokkur hefði getað jafnhattað Bessastein.” (Farfuglinn 21 (2), 1977).

Slíkir aflraunasteinar eru þekktir víða um land, og er nokkurra fleiri getið frá Austurlandi í grein Gests. (Hugsanlega er þetta "Ólafssteinn" úr Bessastaðakirkju, sjá grein Þórðar Tómassonar í Goðasteini 8 (2), 1969, s. 84).

Hestasteinn (steðjasteinn): Í hlaðvarpanum neðan við Gunnarshús er allstór steinn, eins og þykk kringla í laginu, flatur að ofan og með ferkantaðri holu á stærð við bolla ofan í miðjan flötinn. Hann er nokkuð rauðlitaður og dökkur á köflum. Hann er nú kallaður Hestasteinn. (Á teikningu Sig. Þormar er hann innan og neðan við bæinn, nálægt hestaréttinni). Hann gat vel hafa verið notaður til að binda hesta við hann, einkum ef hringur eða kengur hefur verið festur í holuna, sem telja má líklegt. Annars ber hann þess merki að hafa verið notaður sem “steðjasteinn” í smiðju, og er ferkantaða holan vitni um það, en í hana var steðjafóturinn festur.
Þór Þorbergsson fyrrum tilraunastjóri á Klaustri hafði það eftir Einari Pálssyni, hinum kunna forntrúarfræðingi, að steinn þessi geti verið gamall blótsteinn, og þá hugsanlega kominn úr “hofi Bessa”. (Viðtal við Þór í Mbl. 31. ág. 1980 / Sjá einnig grein mína: Þrír steinar á Skriðuklaustri, Austri 2. febr. 1989).

"Steinninn er hringalaga, flatur að ofan og vaxinn skófum, um 30 cm hár og nálægt 80 × 80 cm að ummáli. Í honum miðjum að ofan er rúmlega 10 cm djúpt gat, sem er nær því að vera ferkantað en hringlaga. Ummál þess er um 10 × 10 cm." (Fornleifaskýrsla 2001, bls. 82).

Bæjardyrahella: Þegar Sveinn Einarsson var að hlaða svalirnar við Gunnarshús, var hann eitt sinn á gangi á gamla bæjarstæðinu og rakst þá á hellu, sem var mjög máð að ofan, eins og eftir langvarandi troðning. Taldi hann víst að það væri gamla bæjardyrahellan, tók hana upp og setti í hellulögnina undir svölunum, næst bakdyrunum á húsinu. Er hún auðþekkt á troðningsförunum. Sagði Sveinn að kona sem vel þekkti til á bænum hefði staðfest þetta. (Sögn hans 7. mars 1989).

Mannvirki og minjar fjær bæ

Hantó (Hantón) nefnist hjáleigubýli á Skriðuklaustri, er stóð á lágum hjalla innst í landinu, skammt ofan þjóðvegar. Ofan við það er Hantóarhjalli, í fjallsrótum. Það var í byggð 1703 og 1801 (Manntöl). Halldór Stefánsson (1970) telur það hafa farið í eyði 1803, en varla hefur þar verið samfelld byggð fram að þeim tíma. Á 19. og 20. öld voru þar beitarhús, sem notuð voru fram um 1950. “Yzta húsið hét Goluhús. Neðar stóð Götuhús. Inn af Götuhúsi var Þorpshús. Svo er Hesthús innst.” (Örnefnaskrá). Húsin hafa staðið með stuttu millibili. Þetta hefur verið fjárhúsaþorp, líkt og í Víðivallagerði. Reiðvegurinn lá áður í gegnum þorpið.

“Þegar gengið var inn veginn um Hantóna, þá kom fjárhús, talsvert ofan við veginn. Síðan kom hús rétt neðan við veginn og aðeins lengra. Loks kom hús, eitt eða tvö, nokkru innar við veginn og ofar (ofan við götuna), og mig minnir að í öðru þessara húsa hafi féð verið baðað. Þá var garðinn tekinn úr og undir kom baðþró. Smá uppspretta var austan við húsvegginn inni í skúta eða einhvers konar yfirbyggingu.” (Sigurður Þormar: Bréf, 1.5. 2000).

Húsin gengu fljótt úr sér eftir að hætt var að nota þau, og voru jöfnuð við jörðu með jarðýtu, líklega kringum 1970. Sést þar nú ekkert nema nokkrir hálfgrónir haugar og ólögulegar steinahrúgur. Túngarður sést þar ekki heldur, hefur líklega verið sléttaður þegar tún var stækkað kringum húsin.

Nafn hjáleigunnar hefur orðið mörgum íhugunarefni, en það var einnig ritað Hamtó, Handtó og Hvanntó (SJM II, 35). Nóg er af geithvönn í fjallinu. Freistandi er að setja það í samband við nafnið á Hamborg, næsta bæ fyrir utan Klaustur. Það hefur verið tengt so. að hama sig, og standa í höm, sem er aðallega notað um hesta er standa úti í slæmu veðri. Orðið ham er til í málum grannþjóða og hefur ýmsar merkingar, sbr. endinguna –ham í enskum staðanöfnum og e. hamlet = þorp). "Getgátur ýmsar um uppruna nafnsins, en engin þeirra sennileg", ritar Gunnar í Árbók Ferðafél. 1944, bls. 88.

Stekkur hefur verið innst á Stekkjarhjalla, utan og neðan við Grundarhús. “Í innri enda Stekkjarhjalla heitir Stekkjarskot. Þar ganga fram klettar, sem mynda þetta skot. Það var hægt að refta yfir, milli þeirra, og þá var komið skýli.” (Örnefnaskrá). Þegar ég skoðaði hjallann 27. sept. 1991 sá ég þarna ofurlítið klettaskot, sem ekki getur rúmað nema fáein lömb, og engar hleðslur eru við skotið. Kannski hefur stekkurinn lent í skurði sem liggur meðfram hjallanum að ofan. Sigurður Þormar “kannast ekki við neinar minjar um stekkinn”. Í Fornleifaskýrslu 2001 er sagt að skotið sé um 1 × 3 m að stærð.

Mylla: "Myllu setti hann [Halldór Benediktsson] við Bessastaðaá, með miklu yfirfallshjóli, sem kallað var "Veraldarhjólið" af nágrönnum." (SJM II, bls. 34). Myllan var reyndar ekki við ána, heldur við skurð sem var grafinn frá lindum í Melakróki innan og neðan við Bessastaðaármela, ofan í Jökulsá. Skurðurinn heitir Mylluskurður og er nú á merkjum við Hamborg. Hann var endurgrafinn með skurðgröfu um miðja 20. öldina, og hefur myllutóttin þá líklega verið eyðilögð, a.m.k. sjást aðeins grasi vaxnir uppmoksturshaugar, þar sem myllan hefur líklega staðið, og af “veraldarhjólinu” mun ekki finnanlegt tangur né tetur. Sigurður Einarsson ritar:

“Í svokölluðum Melakróki, út og niður frá bænum, er vatnsmikil uppsprettulind, alveg niðri á marflötu nesinu. Uppsprettuvatninu hafði verið tekinn skurður niður í gegnum nesið og flaut það í honum, straumlaust að sjá. Þar sem þetta var kaldavermsluppspretta, var vatnsmagnið að kalla mátti jafnt sumar og vetur og fraus ekki að jafnaði. Þetta vatn, þótt hægt virtist renna, notaði Halldór til þess að snúa stóru skúffuvatnshjóli, og tengdi það við kvarnasteina. Þarna malaði hann allt korn til heimilisnota og stundum fyrir nágrannana. Hjólið snerist hægt, og mölunin gekk seint. En myllan var iðin og ólöt, snerist jafnt nótt sem dag og lengst af sumars og vetrar. Venjan var að vitja hennar einu sinni á sólarhring, til þess að láta kornið í trektina og taka úr mjölkassanum. Að öðru leyti var myllan sjálfvirk. Engum [öðrum] hafði til hugar komið, að unnt væri að láta kornmyllu ganga fyrir vatninu í þessum straumlausa skurði.” (Sigurður Einarsson: Íslenskir bændahöfðingjar I, Ak. 1951, bls. 392).

Adolf og félagar töldu sig finna merki um mylluna sumarið 2000 og rita:

"Tóftin er rúmlega 1 km NA af bæ, 30-40 m norðan við slóða sem liggur út nesið. Nokkuð þýft en grasi gróið. Hér eru minjar sem hljóta að tengjast myllunni, fast við skurðinn, sem þjónar einnig sem landamerki. Einföld vegghleðsla, 5-6 m löng, 1 m breið og álíka há. Ekki sést grjót. Út frá þessu mótar fyrir skurði, veigalitlum og sennilega handgröfnum, út í tjörn sem er 20-30 m austar, en nú er uppþornuð. " (Fornleifaskýrsla 2001, bls. 80) .

Geta má þess að önnur kornmylla hefur verið efst í Hamborgarnesinu, utan og neðan við Melahornið, en þar heitir Myllurás og Mylluhólmi, við gömlu landamerkin. Myllurásin er gömul kvísl og áveituskurður úr Bessastaðaá. Við skoðun 27. júní 1991, fundust þarna smátættur á tveimur stöðum, sem geta verið af mylluhúsunum (sjá Hamborg). Myllusteinar frá Klaustri eru sagðir vera á Eyrarlandi og Brekku:

Myllusteinn á Eyrarlandi: “Myllusteinn úr annari Klausturmyllunni, ca. 40 sm í þvermál og 7 sm á þykkt; klappað í hann A(nno) 1861”. (Aðfangabók Minjas. Austurlands. G. Har.)
Myllusteinn á Brekku: “Myllusteinn, óvenju stór, neðri steinninn, 75 sm í þvermál og 8 sm á þykkt. Úr gömlu Klausturmyllunni, sem var við ytra melshornið í Hamborgarmelunum. Steinninn er í þrennu lagi.” (Aðfangabók Minjasafns Austurlands: Skrá yfir gripi heima fyrir. Gunnl. Haraldsson 1975).

Myllusteinsbrotin liggja nú í trjágarðinum á Brekku (sjá þann bæ).

Gripahagi - Hagagarður: “Hér upp af þessu [þ.e. Bökkum og Sandbrotum innan við Klausturtanga], innan við Hagagarð, og upp undir Klausturhamra, er síðar getur, er allstórt svæði, sem heitir Gripahagi, ræktaður.” (Örnefnaskrá, bls. 3). Greina má þennan garð á loftmynd frá 1955, en hann er innan- og ofantil á Nesinu. Sigurður Einarsson (1951, bls. 392) getur þess að Halldór Ben. hafi skilið milli engja og sumarhaga stórgripa, og er þar trúlega átt við þennan Gripahaga. “Kýr fóru aldrei upp á Kúahjalla í minni tíð. Þær voru alltaf reknar niður í Gripahaga, og komu svo sjálfar heim á kvöldin og biðu við hliðið innan við Hringinn.” (Sigurður Þormar: Bréf 1.5. 2000).

Merkjagarður var á landamerkjum Klausturs og Valþjófsstaðar á láglendinu, “sem að fornu og nýju haldinn hefur verið landamerki, og sem liggur frá Jökulsá fram og upp eftir nesinu, upp undir fjall.” (Landamerkjabréf 1922). Í örnefnaskrá Valþjófsstaðar er hann nefndur Nýigarður, og sagt að Lárus Halldórsson prestur (1877-1883) hafi látið byggja hann. Hann gegndi tvíþættu hlutverki, var einnig áveitugarður fyrir nesið innan við hann. Gunnar Gunnarsson lét setja þarna upp girðingu á merkjunum, og á árunum 1952-53 var grafinn skurður á þessari línu, sem hefur trúlega eyðilagt garðinn.

Áveitumannvirki: Sagt er að séra Vigfús Ormsson hafi byrjað að veita vatni úr Jökulsá á Valþjófsstaðanes skömmu eftir 1800. Þar sem Klausturnesið er samliggjandi, án nokkurra mishæða, hefur þessi áveita e.t.v. einnig nýst þar. Samkvæmt heimildum var þó aðallega veitt úr Bessastaðaá á nesið. Jón Pálsson (blindi) segir að "fyrsta búnaðarfjelagsvinnan" hafi verið að hlaða fyrir Krókakílinn á Klaustri, "og fengust 40 hestar þá úr lóninu, en ekkert áður." Félagið var stofnað um 1850. (Jón Pálsson / Baldvin Benediktsson: Búskapur... Múlaþing 29, 2002, bls. 33). Í minningargrein um Sigfús Stefánsson (dótturson séra Vigfúsar), sem bjó á Klaustri 1863-1881, er þess getið að hann hafi bætt útengi “með vatnsveitingum og skurðgreftri”, og sama er sagt um Halldór Ben. Í fasteignamati 1918, segir: “Á mestan hluta engjanna er veitt vatni á vorin.”

Áveitugarðar hafa verið um allt Nesið, til að halda uppi vatninu, og á bak við þá voru uppistöður kallaðar lón. Eru nokkur þeirra nafngreind í Örnefnaskrá, svo sem Friðrikslón og Gunnlaugslón á Útnesinu, sem voru aðskilin af garði; Nýjalón og Heimalón upp af Klausturtanga (niður af bæ), “einnig aðskilin af garði”.

“Vatni var veitt úr Bessastaðaá um skurð inn á Klausturnes. Varnargarðar, ca. 0,5 m á hæð, sem byggðir voru, vörnuðu því að vatnið rynni út í Jökulsá, og lokur voru settar í kílana. Þannig fékkst samfellt vatn á allt nesið, ca. 0,5 m djúpt. Því var hleypt á nesið á vorin og haft fram á sumar. Þá var því hleypt af nesinu með því að taka lokurnar úr kílunum. Þarna var samkomustaður fyrir álftir og fleiri fugla, sem áðu í nokkra daga á vatninu á leið sinni upp á heiðavötnin. Þá ómaði svanasöngur um dalinn. Þarna var heyskapur stundaður eftir túnaslátt. Hætt var að veita á nesið, þegar vísindamennirnir grófu það allt í sundur og eyddu öllu fuglalífi, m.a. með því að þurrka upp Lómatjörn.” (Sigurður S. Þormar: Bréf 1.5. 2000).

Áveiturnar voru líklega notaðar fram til 1940-1945. Á árunum 1951-52 lét Tilraunastöðin á Klaustri grafa margir skurði á Nesinu með skurðgröfu, sérstaklega í mýrunum næst brekkum, og þar var byrjað að rækta tún. Sú ræktun mistókst þó að miklu leyti, og er nú rætt um að moka ofan í skurðina.

Í Fornleifaskýrslu Adolfs Friðrikssonar og félaga 2001, er leifum áveitumannvirkja sem þá sáust lýst nokkuð ýtarlega. " Upp frá tanganum [Klausturtanga] liggur smágarður, svæðið utan við þann garð heitir Nýjalón." (Örnefnaskrá).

"Staðurinn er tæpa 800 m innan eða sunnan við Ála. Sléttir og grónir bakkar, tún að mestu. Torfgarðsstubbur liggur frá bakkanum, um 6 m langur, 1 m breiður og allt að 1 m hár. Meiri um sig en hinn dæmigerði áveitugarður, e.t.v. hlaðinn til að skilja sundur slægjustykki... 370 m suður af 013 [Nýjalóni] er annað garðbrot...2 m breiður torfgarður, um 40 m langur, virðist tvöfaldur, og siginn í miðju eftir endilöngu. Liggur frá ánni og upp að dæld sem gæti hafa verið tjörn. Greinilegt rask hefur orðið á hluta garðsins og nánasta umhverfi, vegna túnræktar. Líklega áveitugarður... "Hlaðnir torfgarðar um tvær tjarnir, sem nú eru vatnslitlar, en vatn rennur úr annarri út í Jökulsá. Reisulegir garðar, allt að 0,8 m háir, grænir og gróskumiklir. (Fornleifaskýrsla 2001, bls. 80).

"Norðaustur úr Gortjörn er Friðrikslónsgarður." (Örnefnaskrá).

"Ekki er alveg ljóst hvar Gortjörn var. Hins vegar er stakur garður á Klausturnesi, sem ekki er getið annarsstaðar, og gæti verið Friðrikslónsgarður. Þetta er um 300 m suðaustur af kirkjugarði. Slétt graslendi, beitiland fyrir hross að mestu. Garðurinn á upptök sín í skurði, sem er samsíða klettabeltinu neðan kirkjugarðsins. Fyrst liggur hann um 100 m til austurs, en beygir svo til norðausturs um 150-200 m, en hverfur þar í skurð. Allt að 1 m hár og ámóta breiður, torfhlaðinn og býsna þýfður og óreglulegur. " (Fornleifaskýrsla 2001, s. 81).

Torfskurður: Þess var áður getið að 1467 áttu Víðivellir “tíu hesta létorf árlega í Skriðujörð.” (Ísl. fornbréfasafn V, bls. 472). Í Vitnisburði frá 1552 kemur líka fram, að Valþjófsstaður átti rétt á 20 hesta torfskurði árlega “í Skriðu land”, gegn 100 lamba upprekstri í Maríutungur við Vatnajökul (Ísl. fornbréfasafn XII, bls. 380). “Til herlegheita má þó jörðinni telja, að þar er góður reiðingaskurður, í svokölluðum Klausturpyttum...” ritar Stefán Árnason í Sóknarlýsingu 1840 (Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar, 2000: 140). Pyttanna er ekki getið í örnefnaskrá, en þeir hafa líklega verið á Klausturmýrum, efst á Nesinu.

Gamlir vegir: Nafn Götuhúsa bendir til að gamli reiðvegurinn hafi legið þarna beint út frá bænum í gegnum túnið, enda sést móta fyrir honum á loftmynd frá 1955. Hann hefur legið rétt neðan við Götuhús og Grundarhús, líklega í stefnu á Hylvað á Bessastaðaá, sem er neðanvert við Sunnevuhyl. Frá bænum lá gatan inn og upp gegnum traðirnar á milli Hringanna, þar sem hestaréttin var, síðan inn um Hantó til Valþjófsstaðar.

Fyrsti kerruvegur um Fljótsdal hefur líklega verið lagður á árunum 1905-1910, utan frá Fljótshúsi við Brekku, sem var endastöð áætlunarbátsins (Lagarfljótsormsins fyrsta), og lá bæði út- og inneftir þaðan. Hann var unninn á vegum hreppsins, líklega með einhverjum opinberum styrk. Þessi vegur lá frá neðanverðum Melunum við Bessu, fyrir ofan Melakrók, neðan Stekkjarhjalla, og upp á “Bæjarhjallann” neðan við Kepping, heim að bænum. Sést hann vel á loftmynd frá 1955, en hlutar af honum eru nú komnir í tún, þó að enn sjáist vel fyrir honum á pörtum, svo sem neðan í Bæjarhjallanum. Þessi vegur hefur verið töluvert mannvirki, upphlaðinn víða, og grafinn inn brekkur. Líklega var fyrst ekið bílum á þessum vegi í Klaustur.

Bílvegur var lagður að Brekku í Fljótsdal á árunum 1934-35, og 1938-39 að Klaustri og Valþjófsstað. Á Klaustri hefur hann líklega frá upphafi legið á sömu slóðum og hann er nú, ofan bæjar, og sést eldri vegurinn rétt fyrir neðan núverandi veg fyrir ofan Klausturtúnið. Yfir Bessastaðaá var ekið á vaði utan við Melahornið. Hengifossá og Bessa voru brúaðar sumarið 1944, en Jökulsá og Keldá ekki fyrr en 1949-52. Heimvegur að Klaustri var upphaflega þvert niður frá þjóðvegi að Gunnarshúsi utanverðu, og þannig er hann á loftmynd 1955. Hann var brattur og ljótur, og var því mikil bragarbót þegar hann var færður þangað sem hann er núna.

Vöð: Vöð hafa verið nokkur á Fljótsdalsánum (Jökulsá) fram af landi Skriðuklausturs. Frægast þeirra var Álavað á Álum, utanvert við Klausturtanga.

“Nú förum við inn fyrir Krókakíl... Þar af bökkunum er yzta vaðið yfir ána, það heitir Álar. Þar fram undan eru Eyrar í ánni... Þá eru hér innar tvö önnur vöð á ánni, Kirkjubrot (er í Valþjófsstaðalandi) og Bjarnabrot. En það var þrautavað á ánni. Öll voru vöð þessi vandrötuð og munu nú ófær.” (Örnefnaskrá, bls. 3). "Vaðið var nær beint niður af Skriðuklaustri, yst á nesinu, þar sem það gengur lengst út í ána. Gróinn bakki, tún upp af honum. Álarnir sýnast mjög djúpir nú, sandeyrar á milli." (Fornleifaskrýrsla 2001)

Í viðbótum við örnefnaskrána segir að Bjarnabrot sé í stefnu á Veturhús, beitarhús frá Víðivöllum ytri, sem nú eru niðurlögð. Úr Hamborgartanga, skammt fyrir utan gömlu landamerki Klausturs, er talið að verið hafi hið forna Skálavað (sjá Hamborg).

Ferjustaður (Lögferja) var yfir Jökulsá innan og neðan við Klaustur, líklega við merki Valþjófsstaðar (um 0,5 km utan við núverandi brú?), var þar lögferja á seinni hluta 19. aldar, en áður og síðar var lögferja á Hrafnkelsstöðum. Árið 1884 var ferjustaðurinn orðinn ófær vegna sandeyrar sem myndaðist í ánni, og “Landkvíslar” norðan megin. Þorvarður Kjerúlf og Einar Guttormsson rituðu skýrslu um málið og lögðu til að endurbæta ferjustaðinn, og breyta rennsli kvíslanna með fyrirhleðslum. Til þess kom þó ekki, heldur var lögferjan aftur færð út í Hrafnkelsstaði. (Skýrsla um lögferjustaði á Skriðuklaustri og Hrafnkelsstöðum, dags. 20.9. 1884 á Ormarsstöðum. Handrit í Héraðsskjalasafni).

Vörður: Nokkrar vörður eru á Klausturhæð og í fjallinu (heiðinni) þar fyrir ofan, og eru þessar nafngreindar í örnefnaskrá: “Norðan við Bugöldu er endinn á Vegups nefndur Vegupsarendi. Þar vestan við endann á melnum er varða, sem heitir Finna... Móti Finnu er önnur varða handan Lambakíls, hún heitir Steinka.” Myndarleg varða (nafnlaus) er á hjallanum fyrir ofan Stéttar (melaröðina yst í landinu, ofan vegar) og sést heiman frá bænum.

Landamerkjasteinar: Í örnefnaskrá Hamborgar, segir að merkin við Klaustur séu “úr Silungakíl eftir skurði í Melatjörn, í klett framan við Goðaborg, merktan L.M.” Í örnefnaskrá Klausturs er sagt að þarna “í hvamminum” sé “steinn merktur L.M.” Í landamerkjabréfi frá 1922, er sagt að merkin séu úr Eyvindarkeldu “og þaðan bein stefna í Miðheiði í merkjavörðu (ytri) (merkt L.M. á jarðfastan stein og hlaðin varða ofan á, þaðan inn Miðheiðarháls í Merkjavörðu fremri (merkt L.M., eins og hin varðan)...” Enginn klettur er við hvamminn, en Jón E. Kjerúlf sagði mér að þessi áletrun væri á kletti við Litlafoss, stuttu ofar.

Söguleg örnefni: Skyrkollumelur heitir allhár melkollur stutt fyrir utan efri brúna á Bessastaðaá, uppi á Heiðinni. Tilefni nafnsins er að vinnumaður frá Klaustri færði fólki mat á engjar í Klausturbug í niðaþoku og týndi skyrkollu á melnum. (Örnefnaskrá). Neðst í Bugnum, á merkjum við Hamborg, er Eyvindarkelda, sem mun draga nafn af Eyvindi er Hrafnkell Freysgoði drap við Eyvindarfjöll (Sjá Hrafnkelssögu). Gunnhildarbotn er í fjallsrótum upp af bænum. Helgukíll og Helgutangi eru við Jökulsá utantil á Klausturnesi. Goðaborg og Bessahlaup: Þessir staðir eru við neðsta hluta Bessastaðaárgils, á merkjum við Hamborg, og fylgja efnislega fremur þeirri jörð (Sjá Hamborg).

Vættatrú og önnur hjátrú

Álög á trjám: Klausturhamrar eru klettabelti austan í neðsta hjallanum, neðan við Kirkjutún. Þetta eru allháir klettar, með skorum, stöllum og syllum, sem eru vaxnar fjölbreytilegum gróðri. Á hjallabrún er röð af gömlum og myndarlegum birkitrjám, ásamt runnum af gulvíði og loðvíði. Í einni syllunni vaxa reynir og sigurskúfur. Það er kraftaverki líkast að þessi tré skuli hafa fengið að vaxa í friði rétt við bæinn, og skýrist það af álögum, sem eiga að hvíla á trjánum þarna: “Sé þar höggvin hrísla, drepst stórgripur”, ritar Gunnar skáld í Árbók F.Í. 1944, bls. 86.

“Fyrir neðan Kirkjutúnið eru háir hamrar, sem hvergi eru færir mönnum né skepnum, nema um einn stað, hérumbil beint niður frá kirkjunni. Það er nefnt Kirkjuskot, og um það gekk huldufólkið þegar það fór til kirkju. Sitt hvoru megin við þetta skot vaxa birkihríslur út úr grassverðinum og teygja sig upp á við, og eru nú orðnar háar. Það var trú manna, að ekki mætti brjóta neina hríslu í hömrunum, því þá átti bóndinn á Skriðuklaustri að missa einhvern stórgrip, og þótti það rætast. Var þannig staðurinn algerlega friðaður fyrir illri meðferð frá manna hálfu.”

Þetta ritar “Svala”, sem líklega er Guðný Þorsteinsdóttir, ættuð frá Skjögrastöðum, síðar á Lindarbakka í Borgarfirði eystri, í handskrifað blað kvenfélagsins Einingar í Fljótsdal, Leiftur, 7. árg., 2. tbl., 15. maí 1938. Eflaust eimir hér eftir af fornri helgi kirkju- og klausturstaðarins, sem tengist helgisögninni fornu, sbr. líka ótta manna við að slétta kirkjugarðinn. Einnig getur þetta verið leifar af fornri trjáatrú, sem var algeng í heiðni, og hefur sumsstaðar geymst fram á okkar daga.

Huldufólk: “Í Klausturhæð í Fljótsdal, ofar frá Skriðuklaustri, hafa menn þótzt sjá ljós loga.” ritar Sigús Sigfússon (Þjóðsögur og sagnir IV, bls. 15). Franzisca Gunnarsdóttir ritar í bók sinni “Vandratað í veröldinni”. Rv. 1987, bls. 55-56.

“Í nágrenni Klausturs var líka mikil huldufólksbyggð og dvergar í hverjum steini, sem var stærri en svo að ég fengi lyft honum. Stærð dverganna fór eftir bústað þeirra: Litlir dvergar bjuggu í smærri steinunum og síðan koll af kolli. Huldufólkið bjó í klettabeltum fjallsins, ásamt björgum hér og þar. Niðri á Kirkjutúni var allt fullt af blómálfum. Þeir hringdu bláklukkum á kvöldin, þegar blómálfabörnin áttu að koma inn og fara að hátta. Blómálfabörnin voru fegurstu verur á þessari jörð, blíð, góð og aldrei óþæg.”

Hér byggir hún líklega mest á eigin ímyndun, því að aldrei auðnaðist henni að sjá þessar hulduverur. Sjá einnig þátt um Egil Snotrufóstra, eftir Þorstein frá Hamri, í Sunnudagsblaði Tímans 1. árg. 1962, bls. 940-943.

Tröllkonustígur eða Skessustígur heitir berggangur mikill og áberandi, er skásker Valþjófsstaða- og Klausturfjall, frá suðri til norðurs. Sjá Valþjófsstað (H. Hall.: Tröllkonustígur og Skessugarður. Múlaþing. 30, 2003).

"Nunnurnar” á Skriðu. Fyrr var minnst á ummæli Daniels Bruun, um “jarðgöngin” og “nunnurnar” á Klaustri. Svo virðist sem það hafi með tímanum skolast til hvort klaustrið á Skriðu var munka- eða nunnuklaustur, og er það reyndar ekki einsdæmi. Líklega gaf nunnuklaustur ímynduninni meira undir fótinn.

Rögnvaldur Erlingsson frá Víðivöllum sagðist hafa heyrt sögu um tvær nunnur, sem hefðu verið brenndar á Skriðuklaustri fyrir galdur, og verið dysjaðar frammi á túninu, en þar voru tvær stórar þúfur til vitnis um atburðinn, sagði hann. Ekki hef ég heyrt þá sögu frá öðrum né séð hana á prenti, og ekki er getið um þessar þúfur í örnefnaskrá. Líklega er þarna komin sögnin um nunnurnar á Kirkjubæjarklaustri, sem áttu að hafa verið brenndar fyrir hórdóm o.fl. uppi á Systrastapa og dysjaðar þar. (Sjá Þjóðsögur Jóns Árnasonar II, bls. 76).

Sunnevuhylur er í Bessastaðaá, um það bil sem hún kemur fram úr Bessastaðaárgili, og heitir Drekkingarhylur öðru nafni. Fyrra nafnið tengist munnmælum um dauða Sunnevu Jónsdóttur, sakakonu, sem Hans Wíum sýslumaður (á 18. öld) átti í mestum brösum með. Hylurinn er nú í landi Hamborgar (sjá þann bæ).