Brekkugerði og Brekkugerðishús
Brekkugerði
Brekkugerði var upphaflega hjáleiga frá Brekku, eins og nafnið bendir til, eign Skriðuklausturs, síðar Konungs og Landssjóðs, eins og aðaljörðin, en langt er síðan Brekkugerði varð sérstök jörð, metin á 12 hundruð 1695 og 1847. Afbýli hennar var Brekkugerðishús (Hús), sem ýmist var nýtt frá heimajörðinni eða af sérstökum ábúendum.
Minjar voru skoðaðar 18. júli 1989, síðan 8. ágúst 1990, og 27. nóv. 1993, loks 27. ágúst 2012.
Bæjarhús 1877: Þann 20. apríl 1877 var gerð mjög ýtarleg úttekt og virðing á öllum húsum, búsáhöldum og bústofni Þorsteins Jónssonar í Brekkugerði, sem þá var að hætta búskap, en Jón sonur hans að taka við. Úttektina önnuðust Sæbjörn Egilsson bóndi á Hrafnkelsstöðum og Gunnar Gunnarsson bóndi á Brekku. Hér fer á eftir lýsing á "húsum þeim sem þeirri jörðu fylgja."
“1. Baðstofa í þremur stafgólfum, 8 al á lengd, 5 al á breidd, innan stafa, 4 al á hæð af lopti undir mænir, með fernum sperrum, fjórum langböndum á hverri hlið - sperrurnar eru með kálfum og er borð í mæni baðstofunnar. Reisifjöl er yfir húsinu öllu, portbygging í austurenda hússins, 4 al. á lengd, 5 al br., hæð af gólfi þar er 3 al undir loptið - 4 portstafir eru þar, 4 al á hæð, og þrepstöplar 4 í norðurenda, 1 al á hæð. - 2 höfuðbitar - 3 gluggar á framhlið, með 2 rúðum hver. Hurð á járnum með dyraumbúnaði fylgir húsinu. Álag er gjört á húsið 24 kr.
2. Göng frá baðstofu til bæjardyra 6½ al lengd, 1½ al breidd, 3 al hæð, með þvertrjám og árepti. Álag gjört 16 kr.
3. Búr, 7 al lengd milli stafna, 4½ breidd, og á hæð af gólfi í mæni 4½. Í húsinu eru 6 stoðir, 3 álna háar, undir lausholtum. 3 bitar og þrennar sperrur. Fjögur borð eru lögð á hvora hlið í stað langbanda, og tvö borð í mæni. Birkitróðviður er á öllu húsinu. Glergluggi með 4 rúðum er á austurstafni. Hurð á járnum með dyraumbúningi. Álag gjört 22 kr.
4. Eldhús, 6¼ al lengd, 4 al breidd, 5½ al hæð af gólfi í mæni. Tvennar sperrur yfir húsinu og 2 bitar, en engar stoðir, því bitarnir liggja á veggjum. Aflraftar og árepti af birkivið. Göng frá þessu húsi inn í búrið eru 2½ al á lengd, 3 al hæð, 1½ á breidd, með þrem þvertrjám og birkiárepti. Á eldhúsið og þessi göng er ekki gjört álag.
5. Göng frá eldhúsi til bæjardyra 5 al á lengd 1½ al breidd, 3½ al hæð, með yfirbyggingu af hellum. Á þessi göng er ekkert álag gjört.
6. Hús sem er norður frá eldhúsi, sem nú er haft fyrir eldivið, og kemur í stað lítils kofa sem þar var. - Þetta hús er 6 al á lengd, 4½ al breidd og 4 al á hæð, með einum mæniás og stoð undir, 4um greniaflröptum á hvorri hlið og tróðvið af birki. Göng frá þessu húsi fram til eldhússins eru 5 al á lengd, breidd 1½ al. Álag á þetta hús er gjört 8 krónur.
7. Skemma framúr göngum. Frávíkjandi jarðarinnar leggur henni þetta hús fyrir göng sem fyrrum lágu frá baðstofugöngum til útidyra. Þetta hús er 5½ al á lengd, 3½ al á breidd, af gólfi undir lopt 3 al, og af lopti undir mæni 3½ al, með þrennum kálfasperrum, 6 portstöfum og 3um langböndum á hvorri hlið og reisifjöl yfir, 3 loptbitum og 2 höfuðbitum. Þil er fyrir húsinu, glergluggi á þilinu og hurð fyrir húsinu á járnum. Álag á þetta hús er ekki gjört.
8. Skemma úti á hlaði, 8½ al lengd, 5½ al á breidd, hæð af gólfi undir lopt 3 al, af lopti undir mæni 2½ al. Húsið með fernum portstöfum, fernum kálfsperrum, fjórum loptbitum og 2 höfuðbitum og lausholtum, þrennum langböndum á hverri hlið - upprepti af birki. - spírur og birkiraptar í mæni. Þil er fyrir húsinu, og hurð fyrir dyrum, á járnum. Álag er gjört 20 kr.
9. Hlaða framan undir bænum er 11 al á lengd og 4 al á breidd, og á hæð af gólfi undir mæniás 5 al. Undir mæniás eru 3 stoðir, 7 aflraptar af grenivið eru á hverri hlið og árepti af gömlu birki. Hurð á járnum með dyraumbúningi fylgir þessu húsi. Álag er gjört 18 krónur.
10. Fjárhús frammi og uppi á túninu, 16 al á lengd, 5¾ al á breidd, 3½ al á hæð, með 14 stoðum undir 2 langböndum, 8 aflröptum á hverri hlið, rapturinn er mjög gisinn og áreptið er af birki, fúið. Álag á þetta hús er gjört 20 kr.
11. Fjárhús uppi á túni, 10 al á lengd, 5 al breidd, 3½ al á hæð, af gólfi undir langbönd. 9u stoðir undir 2ur langböndum, 7 aflraptar á hverri hlið af greni og birki. Hurð með dyraumbúningi fylgir líka þessu húsi. Álag er gjört 18 krónur.
12. Hesthús niður á hól, 6 al á lengd, 4 al breidd, 3½ al hæð, með 1 mæniási, 1 stoð, 1um aflrapti af grenivið, annar raptur allur er af birkivið. Álag gjört 3 krónur. Álagið allt 149 krónur.
Í uppskrift á búinu og virðingu þess er auk þess getið um Stofuhús (metið á 120 kr.), Fjós og hlaða utan undir því (16 kr. og 18 kr.), Smiðjuhús, með smiðjubelg, aflhólk, steðja, ílaghamri o.fl., hlöður við fjárhúsin og hesthúsið, sem fyrr voru nefnd, auk þess Nýja húsið, Hesthús útfrá með hlöðu, Grundarkofi, Árhús með hlöðu, Hrútakofa og nokkra aðra kofa. Einnig Sauðhúsin 3 og hlöðukofi, ennfremur Vatnsmylla.” (Handrit frá Geitagerði)
Þetta er ýtarlegasta húsalýsing frá 19. öld í Fljótsdal sem ég hef séð. Til er einnig “Uppskrift og virðing á húsum og mannvirkjum, sem Margrét á í Brekkugerði og Húsum, 12. júní 1924” Þar er átt við Margréti Sveinsdóttur, ekkju Jóns Þorsteinssonar, sem lengi bjó í Brekkugerði.
Þar er getið um baðstofu og ýmsar innréttingar hennar, þverhús, eldhús, búr, eldiviðarkofa, fjós, kúahlöðu og aðra hlöðu “á bænum”, Norðurkofa og þvottahjall.
Af útihúsum er getið um Borgarhólshesthús, Hesthús fram á túni og Hesthúshlöðu, Lambhús og Lambhúshlöðu, Miðhús og Miðhúshlöðu, Fremra- og Ytra-Ærhús og Ærhúshlöðu, Nýjahús og Nýjahúshlöðu, Nýjahús á Húsum og hlöðu þar við, Grundarhús, Efstahús og Hrútakofa. Þá er komin vatnsleiðsla, og girðingar með staurum, bæði í Brekkugerði og á Húsum. Athygli vekur að garðar í fjárhúsum eru sérmetnir. (Óundirritað skjal í Héraðsskjalsafni, Eg.)
"Gamli bærinn var líklega frá tíð Jóns Þorsteinssonar, 8. tug 19. aldar. Baðstofa 18 × 5 álnir. Þverhús við hlaðið 7 × 6 álnir, með járnþaki, byggt fyrir aldamót." (SJM II, 20).
Þverhúsið (Framhús) var úr timbri, síðast klætt að austan með sléttu járni, yfir nokkra glugga og upphaflegar dyr. Jóhanna J. Kjerúlf sagði að efnið hefði líklega að verið úr "stofu" sem Beldring læknir á Brekku átti. Ytri hlutinn var skemma, undir sama þaki, timburþil á milli.
Húsið var myndað og mælt 27. nóv. 1993 og voru málin þessi: Lengd að austan (utanmál), mælt að dyrastaf aðalinngangs íbúðarhúss: 10,30 m, en 10,80 m þegar mælt var eftir þakinu, sem nær að hluta til yfir dyrnar. Breidd hússins að innan var 3,60 m. Hæð að austan (utanmál): 2,40 m, þ.e. hæð langveggjar, en þar við bætist rishæð ca. 1,80 m. Kvistur austan á húsinu miðju var 2,80 m á breidd og ca. 2 m á hæð í miðju. Grjótveggur að hluta að utan og ofan. Húsið þá orðið mjög hrörlegt, norðurstafn í rusli. (Sbr. ljósmyndir).
Íbúðarhús, járnklætt timburhús, byggt 1934 af Jörgen E. Kjerúlf (föður Jóhönnu), í stað gömlu baðstofunnar, og sneri (líklega eins og hún) þvert á þverhúsið og var viðbyggt því. Búið var í því til 1994, þegar nýtt íbúðarhús var byggt um 150 m utar utar á túninu, ofan við Klifið, og lögð ný heimreið að því. Gamla húsið stóð í nokkur ár eftir það og var notað sem geymsla, en síðan brennt fyrir aldamót 2000, og Þverhúsið, eða leifar þess, um leið.
Þar sem timburhúsið var er nú bæjartótt, með um 2 m háum grjótveggjum að vestan og norðan, sem standa nokkuð vel, og austan við hana er steypt stétt, sem hefur verið neðan við húsið. Í tóttinni, og innan við hana, hefur Þórhallur Jóhannsson sett upp dálítinn skrúðgarð, með trjám og runnum. Þar sem þverhúsið var, ásamt fjósi og hlöðu, er hins vegar stór haugur af mold og grjóti, alvaxinn grasi og heimulunjóla. (Skoðað 27. júlí 2012).
Fjós var sambyggt bænum að utan og ofan, með veggjum úr grjóti og torfi og járnþaki, og viðbyggð fjóshlaða úr sömu efnum. Fjósið stóð enn 1993, en aðeins veggir hlöðunnar. Þessi hús voru rifin skömmu síðar.
Trjágarður var sunnan og austan við bæjarhúsin, elsti hluti frá um 1914, aðallega með birkitrjám. Þau sem voru rétt sunnan við húsið eyðilögðust þegar bærinn var brenndur, en þau sem voru austan við húsið standa enn, og líka lundur með 5 trjám spölkorn innar. Þar er nú eitt stærsta birkitré í Fljótsdal. (Sjá skrúðgarðapistil minn).
Gripahús á túni: Rústir gripahúsa voru um 1990 á tveimur stöðum á túninu innan og ofan við bæinn, á lágum stalli neðan við Hjalla (Bæjarhjalla). Innra húsið var Hesthús, enda heitir þar Hesthúsbali, Hesthúslækur og Hesthúsklauf. Ytra húsið var kallað Lambhús, það var 7-8 m langt og tók 60-80 kindur, sneri út og fram, og hlaða viðbyggð að utan, sneri þvert á húsið, um 8 m löng. Hrútakofi, um 4 m langur, var viðbyggður að ofan. Veggir stóðu enn nokkuð vel um 1990, en þekjur voru fallnar.
Miðhús voru upp af bæ, horfin 1990. Ofan við þau er Miðhúshjalli. "Úr honum kom snjóflóð, sem drap fé, hvort það hefur verið snjóflóðið 1904 man ég ekki. Flóðið lenti á heyi sem bjargaði bænum." (Örnefnaskrá).
Ærhús voru utan og ofan við bæ, undir Ærhúshjalla, og Nýjahús utar á túninu, neðan við Nýjahúsbrekku, út undir Brúarlæk. Jóhanna Kjerúlf segir ærhúsin hafa verið tvö, sambyggð (tvístæð), með vegg á milli, og hlaða fyrir ofan. Hvort hús tók 50-60 kindur. Þökin voru hellulögð að hluta til, en annars með viðartróði. Þau voru rifin kringum 1970. (Sögn Jóhönnu 14.2. 1993). Jóhanna segir að Jörgen Kjerúlf, faðir sinn, hafi byggt tvístæð fjárhús á bala neðan við Borgarhól, inn og niður af bænum, milli heimreiðar og þjóðvegar. Þau voru rifin þegar hann flutti í Hús (1924) og rústin sléttuð í tún, svo þar sjást engin ummerki.
Nátthagi var innan við hesthúsið á Hesthúsbala, og þar var einnig fjárrétt sem enn sést, út og upp af steinsteyptu fjárhúsunum við Grundarlæk. Þarna var allstórt stykki (líklega um 2 ha), umlukt gömlum torfgarði, og réttin með grjótveggjum að hluta til, m.a. notuð til rúninga. Nátthaginn var sléttaður í tún, en einhverjar leifar sjást enn af garðinum kringum hann. Jóhanna sagði (1993) að nátthaginn og réttin hefðu verið byggð í æsku sinni, á búskaparárum Margrétar ömmu sinnar og Eiríks Vigfússonar ráðsmanns, 1925-1933. Oft var fé geymt í þessum nátthaga, en annar nátthagi var niðri í Bökkum, þar sem lambfé var haft á vorin.
Ullarþvottastaður var við Brúarlæk að utanverðu, beint út af bænum, neðan við Nýjuhúsin. Þar var læknum veitt í 2-3 rásir og voru bunur í þeim öllum, svo fleiri en einn gátu skolað ullina samtímis. Þar voru líka stórar grjóthlóðir og pottur mikill, til að sjóða ullina. (Sögn Jóhönnu Kjerúlf 14. 2. 1993).
Vatnsmylla var við Brúarlæk, á hjallabrún fyrir neðan túnið, skammt ofan þjóðvegar, og er tótt hennar ennþá vel skýr, rétt framan við lækinn (sbr. riss 19.7. 1989).
"Vörslugarður úr stórgrýti frá búskapartíð Þorsteins Jónssonar, um miðja 19. öld." (SJM II, 20). Á melnum innan við Borgarhól er steinaröð, líklega leifar af þessum gamla grjótgarði, sem rekja má frá Klifi og upp með Grundarlæk að utanverðu. Að ofan hefur Bæjarhjalli líklega myndað aðhald með því að hlaðið var í skörð á honum.
Jóhanna Kjerúlf hélt að Jörgen faðir sinn hafi sótt grjót í garðinn, þegar hann byggði fjárhús innst og neðst á túninu, fyrir neðan Borgarhól. Hún taldi að garðurinn hafi náð upp í Fossahjalla fyrir ofan Sauðhúsin í fjallinu (sjá síðar), og legið upp með Grundarlæk að utanverðu, en þar sér nú lítið til hans. Ekki vissi hún til að hlaðið væri í skörð í Fossahjalla. Hún heyrði sagt að garðurinn hefði verið til að varna stórgripum að komast í túnið, og hafa þeir þá verið hafðir framan við garðinn, sem líklega hefur ekki verið fjárheldur, og var kannski aldrei fullgerður. Hún segist ekki muna eftir garði í kringum túnið, og urðu krakkarnir að stugga burt skepnum af því fyrir slátt, en ekki skildist mér að vakað hefði verið yfir túninu. (Sögn hennar 15. febr. 1993).
"Gamall grjótgarður liggur frá Lagarfljóti og upp að klettabelti skammt neðan vegar. Þetta er nánast beint niður af nýrra íbúðarhúsi í Brekkugerði, en sést þó ekki þaðan. [Þ.e. neðan í Klifinu] Snarbrött brekka, en gróin, m.a. trjárækt. Næst fljótinu er malarrönd. Garðurinn hefur sýnilega náð allt að vatnsborði, en er nú hruninn og máður þar. Liggur beint upp brekkuna, að þverhníptu klettabelti, sem er um 80 m ofar. Hann er að mestu leyti hruninn, og lítur ekki út fyrir að hafa verið mjög hár. (Fornleifaskýrsla 2001).
Hringur: "Borgarhóll er neðst í túni, Hringur er þar utar, neðantil í túninu. Og þar ofar heitir Grund." (Örnefnaskrá). Jóhanna segir Hringinn hafa verið út af bæ, stórþýft stykki í túninu. Sást þar hvorki til garða né rústa.
[Svonefndir Hringar voru á nokkrum bæjum á Héraði, t.d. á Skriðuklaustri og Bessastöðum. Þetta voru forn hringlaga gerði, oft 10-30 m í þvermál, girt torf- eða grjótgörðum, notuð sem réttir og/eða nátthagar fyrir hesta og kindur. Víðast hvar lögð niður fyrir aldamót 1900].
Matjurtagarður gamall er í brekku sunnan og neðan í Klifinu, utan við Kelduna, sem þar rennur niður í Fljót. Girtur með torfgarði sem vel sést enn (Líklega Siggagarður, sjá Hús).
Borgarhóll er melkollur skammt fyrir innan bæinn, innan við Keldu. Þar er engin klettaborg og því er líklegt að hann sé kenndur við fjárborg (þ.e. hringlaga byrgi, grjóthlaðið), er þar hafi staðið, en þess sér nú engin merki. (Grjótið líklega notað í aðrar byggingar).
Stekkur var í dálítilli hvilft utan við Stekkjarmel, út og upp af Baulutanga. "Sjást þar enn nokkur garðlög, fremur óglögg" (Skógræktarlýsing mín 1993).
"Grösug brekka. Stekkurinn er á sléttum stalli austan undir litlum kletti. 10-20 m sunnar eru upptök jarðfalls eða gildrags sem gengur niður í Lagarfljót. Ógreinileg tóft og sigin. Mótar samt fyrir veggjum, og m.a. grjóti á nokkrum stöðum. Aðeins eitt hólf sjáanlegt, alls um 10 × 5 m, og virðist opið í norður. Einungis þrír veggir, því brekkan þjónar hlutverki vesturhliðar. (Fornleifaskýrsla 2001).
Nátthagi var í Bökkunum, utan og neðan við Stekkinn og náði niður að klettum við Fljótið, hann var girtur torfgarði, síðar með gaddavírstrengjum ofan á. Hann var nokkuð sléttur og grasgefinn og var því oft sleginn (Jóhanna). Garðurinn er nú að mestu horfinn.
Rétt: Í grafningi stutt fyrir utan og ofan Baulutanga var rétt, með timburgrindum, sem notuð var til rúninga á vorin. Þá var oft rúið á nóttunni. Einu sinni fékk Jóhanna að vaka slíka rúningsnótt, og var henni það eftirminnilegt. Hún mundi líka eftir að stíað var þarna á vorin, þ.e. lömbin voru tekin frá ánum og lokuð inni í réttinni (stekknum) á kvöldin, og ærnar svo mjólkaðar á morgnana, en á daginn gengu lömbin með ánum. Þetta var gert kannski 2-3 sinnum með hverja lambá, áður en þeim var sleppt með lömbunum. (Eiginlegar fráfærur tíðkuðust þá ekki lengur í Fljótsdal. Jóhanna var fædd 1911, og því hefur þetta verið á árunum 1915-20.). Jóhanna hélt að gamla stekkjartóttin hefði verið efst í Nátthaganum, en hún var þá ekki í notkun. (Sögn Jóhönnu Kjerúlf í Brekkugerði 14. febr. 1993).
Baulutangi: "Við Lagarfljót niður af Stekkamel er tangi út í fljótið, kallaður Baulutangi. Þar er sagt að grá sækýr hafi gengið á land og út af henni séu allar gráar kýr á Héraði." (Örnefnaskrá). (Sjá einnig Þjóðsögur Jóns Árnasonar III, 2006, þar er stutt saga af þessum atburði skráð af Sigfúsi Sigfússyni á Skjögrastöðum).
Skipabotn heitir við Fljótið rétt fyrir innan Brúarlæk (merki við Hús). "Skipabotn mun draga nafn af því að þar var stundum ferjað yfir Lagarfljót." (Örnefnaskrá). Jóhanna sagðist ekki muna eftir að bátur væri hafður þarna, og ekkert skýli var þar fyrir báta, eða tótt af neinu tagi. Hinsvegar byggði Eiríkur Vigfússon skýli fyrir bát, líklega milli Brúar- og Húsalækja. Var það bátur sem hét Emanuel, og var keyptur af Olsen-bræðrum, sem ráku vélbátinn á Lagarfljóti. (Arnheiðingar og Geitungar keyptu um sama leyti bát, sem kallaður var Skata). (Sögn Jóhönnu Kjerúlf 14. febr. 1993).
Siggagarður var allstór kartöflugarður á fljótsbakkanum út við Brúarlæk, innan og ofan við Skipabotn, kenndur við Sigurð J. Kjerúlf, sem stundaði kartöflurækt um tíma á Húsum á árunum 1930-40.
Sauðhús voru yst á Kolás, um 1 km inn og upp af bænum. Þau standa á grasi grónum hrygg eða grundarbungu, sem gengur niður úr Fosshjalla, rétt fyrir utan smálæk. Hellugrjót er í lækjargilinu og hjallanum, sem hefur verið notað í húsin. Tættur þeirra eru enn við lýði, enda voru húsin notuð fram á síðustu öld. Þau voru tvístæð, með lítilli hlöðu að ofanverðu; veggir grjóthlaðnir, líklega upp í fulla hæð, og hellugrjót áberandi í þeim, enda standa þeir vel. Skammt fyrir neðan þau er tótt af litlu fjárhúsi, 4,5 × 4 m að innanmáli, en milli hennar og aðalhúsa er grjóthlaðin rétt. Umhverfis húsin er nátthagi, girtur grjótgarði. (Skoðað 18. júlí 1989 og aftur 1992).
Sel: "Óglöggar selrústir eru í fjallinu, nálægt Brekkumörkum, þar sem heitir Sel og Selgil." (SJM II, 20). Í örnefnaskrá segir að rústirnar séu á grund í gilinu, en Jóhanna Kjerúlf segir þær vera í gilkjaftinum. Ég fann þær ekki sumarið 1992, þrátt fyrir nokkra leit. Þorvarður Stefánsson í Brekkugerði segir að þarna sé bara ein lítil tótt, skammt fyrir utan og neðan enda Selgilsins. (Sbr. Sel á Brekku).
Vörður: Sveinka nefnist stór og snilldarvel hlaðin varða á Fláabrún, inn og upp í fjallinu, stutt fyrir utan Selgil. Þvermál vörðunnar er 1,25 × 1,25 m neðst, og um 1 × 1 m nálægt brún. Hæðin er um 2,80 m, en auk þess stendur hún á um 70 sm háum steini. Toppinn vantar. Hún er alveg rétthyrnd, hlaðin úr völdum steinhellum, og vandlega fellt í allar glufur með smáhellum, svo veggir verða næstum sléttir. Minnir varðan helst á turna frá Miðöldum í Evrópu. Á stein í vörðunni er rist "1893 Sv.J.", þ.e. byggingarár og fangamark hleðslumanns, sem var Sveinn Jónsson, vinnumaður, er einnig hlóð "Sveinkuna" í Bessastaðagerði. Bera vörður hans af öðrum vörðum á Héraði, og eru einstæðar á landsvísu. (H. Hall.: Ádrepa um vörður og vörðuhleðslu á Héraði. Glettingur 21 (3), 2011).
Nokkrar fleiri vörður eru í fjallinu fyrir ofan Brekkugerði, sumar nokkuð stórar, 1-1,5 m á hæð, og ætla ég að þar séu fleiri vörður en á nokkurri annari jörð í Fljótsdal. Á Kolási er varða, reglulega ferhynd, um 1 × 0,80 m að grunnfleti og 1,60 m á hæð, þverstýfð að ofan, líklega eitthvað hrunið af henni. (Skoðuð 18.7. 1989). Varðan Tóta er á Fláabrún við Selgil, Ærhúsvarða á Ærhúshjalla, Klapparkarl fram og upp af Arnheiðarbotni og Fremri- og Ytri-Fláavarða á Fláabrún.
Miðskáli er smalabyrgi, grjóthlaðið, skammt út og upp frá Sveinku (ekki skoðað), og Miðskálavörður tvær, skammt frá skálanum.
Forngripir: Í Brekkugerði hafa verið til leifar af fjórhjóla vagni sem Gunnar Gunnarsson á Klaustri átti, og tveimur hestum var beitt fyrir. Marteinn Pétursson keypti á uppboði. (Jón E. Kjerúlf 2012).
Maríutungur er örnefni á merkjum við Brekku niður undir Fljóti. Jóhanna Kjerúlf sagði það vera stykki á milli kvísla lækjarins Illukeldu, sem rann yfir það í hlákum og rigningum, en var annars þurrt, blómlegt og grasgefið, en ekki þótti taka því að slá það, líklega vegna bratta. Hún sagði að Gunnar Helgi, faðir Gunnars skálds, hefði sagt sér frá þessu örnefni, en hann var alinn upp á Brekku. Þarna eru Háubakkar í landi Brekku við Fljótið, með ríkulegum blóm- og kjarrgróðri.
Gildi byggingaminja í Brekkugerði 1990: Sauðhúsatætturnar, varðan Sveinka, og gamla timburhúsið í Brekkugerði hafa mest minjagildi. Af þessum minjum er varðan sérstæðust.
Hús (Brekkugerðishús)
Bæjarhús: Jóhanna Kjerúlf sagði að gamli torfbærinn á Húsum hefði staðið þar sem fjárhúsið Nýjahús er. Þar var kallað Eldhúshlaða, og kom þar upp mikið af glerbrotum. Einnig var þar gamall brunnur. Síðast var búið í bænum um 1870 og líklega hefur hann verið fallinn um aldamót 1900. Jörgen Eiríksson Kjerúlf, faðir Jóhönnu, byggði lítið steinhús á Húsum 1924, efst á túninu, en þá hafði bærinn verið í eyði um áratuga skeið. Nokkuð stærri viðbygging var byggð 1941, einnig steypt. Hákon Aðalsteinsson og Sigrún Benediktsdóttir fluttu á jörðina 1991, þau endurbyggðu húsið og innréttuðu að nýju á listrænan hátt, sem vakti þjóðarathygli. Var fjallað um það í tímaritinu "Hús og hýbýli" 1994.
Minjar voru skoðaðar 8. ágúst 1990. Utan við bæinn, og sambyggð honum, voru þá stór fjárhús, að mestu leyti úr timbri og járni, með skúrþaki af járni og steypt hlaða ofan við þau. Þá var fjóskofi rétt fyrir ofan bæinn, úr torfi og grjóti að hluta til. Þessi hús voru rifin á tíunda áratugnum, nema hlaðan, sem breytt var í íbúðir fyrir ferðafólk. Lítill trjágarður var á bakka Bæjarlækjar, sunnan við bæjarhúsin, þar eru enn nokkur birkitré. (Lítill trjáreitur ofan við túnið, frá um 1960).
Gripahús í túni: Um 1990 voru í Húsatúni þrjú gömul fjárhús eða fjárhúsatættur, í röð út og fram, skammt fyrir neðan bæinn, öll af svipaðri stærð og gerð (um 10 m löng), sneru öll þvert á brekkuna, og hlaða eða heystæði við efri enda þeirra allra. Ysta húsið var rétt fyrir utan Bæjarlækinn, kallað Grundarhús eða Grundarkofi. Þekjan var fallin, en veggir stóðu enn að mestu. Næst var Ærhús, framan við lækinn, stóð einnig að mestu, en torfþakið orðið götótt. Syðsta húsið nefndist Nýjahús, og stóð það best, enda notað þar til fáum árum áður. Það var með torfþaki í gömlum stíl, með röftum og tróði af birkilimi og spýtum. Hlöðurnar voru allar fallnar og veggir þeirra líka að miklu leyti. Hákon og Sigrún höfðu hug á að varðveita fjárhúsin eða tættur þeirra, og fengu því framgengt þrátt fyrir eindregin tilmæli um að jafna þau við jörðu, enda var þá jörðin afgirt til skógræktar og ekkert sauðfé lengur.
Skálsteinn: Í hlaðvarpa á Húsum er allstór steinn, jarðfastur, flatur að ofan og með grunnri skál, um 1 fet í þvermál, sem ber engin merki þess að vera höggvin af manna höndum. Í skálina safnast vatn í rigningum, og stundum var skepnum gefinn matur í hana, en annars er ekki vitað um hlutverk hennar (mynd 14.6.1989).
Brunnur gamall er við Nýjahúsið, en þar mun gamli torfbærinn hafa staðið. Að sögn Sigrúnar Benediktsdóttur er hann vandlega hlaðinn með grjóti að innan, hringlaga, og mjókkar aðeins niður, um 2 m á dýpt. Nýlega hruninn að hluta til. (Símtal 14.5.´13)
Stekkur er í svonefndum Skotum (Ytri-Skotum), lág sem gengur út og fram eftir hlíðinni, beint út af bænum og nær út undir Marklæk. Ofan við lágina er Stekkjarhjalli, og þar heitir Stekkjarmelur. Á búskapartíma Jörgens Kjerúlf og Jóns sonar hans, var þar grjóthlaðin fjárrétt, sem enn stendur. Sporöskjulaga svæði umhverfis réttina er umgirt gömlum garði úr grjóti og torfi. Þorvarður Stefánsson í Brekkugerði sagði að smátótt væri skammt fyrir innan og ofan réttina, sem e.t.v. væri hinn upprunalegi stekkur. Ofan við Stekkinn vex gamalt reynitré út úr klettaskoru, og þar taldi Hákon Aðalsteinsson að byggi huldufólk.
Fornistekkur: Fornastekksholt heitir milli Brúarlækjar og Bæjarlækjar í Húsateig, niður við Fljót, þar hefur verið stekkur með þessu nafni.
"Tæpa 90 m SV af nausti (011), ofar í brekkunni, er stekkjartóft utan í hól. Gróin brekka, um 50 m frá fljóti. Trjárækt hafin skammt frá. Tvíhólfa aðhald. Kró, um 5 × 7 m, opin í NA, og minni kró innan í henni NV-til, um 2 × 3,5 m. Algróið og hvergi sér í grjót." (Fornleifaskýrsla 2001).
Naust: "Niður við fljót, nánast beint niður af Húsum, er tóft, 7-8 m frá fljótinu. Sandrönd við fljótið, en gróið holt þar upp af. Þarna var naust. Tóftin sést í grónum bakka upp af sandinum. Bátslaga renna, um 4 × 8 m. Engar hleðslur sjáanlegar." (Fornleifaskýrsla 2001). Þetta er líklega naustið sem Jóhanna sagði að Eiríkur Vigfússon hefði byggt. (Sjá Brekkugerði).
Vörður: Í fjallinu fyrir utan og ofan Hús eru margar vörður, eins og í landi Brekkugerðis, sumar myndarlegar og vel hlaðnar. Digravarða er nafngreind uppi á Brúnum. Út og niður af Digruvörðu kallast Þrælaháls. (Örnefnaskrá).
Tófugildra: Örnefnin Gildruhraun og Gildruhraunsmýri, neðan bæjar og túns, benda til að þar hafi verið tófugildra, sem nú er líklega horfin, en þar er varða sem gæti verið hlaðin úr grjóti gildrunnar.
Tjaldstaður: "Þar utar og norðar er Tjaldhóll, þar sem Hengifossá beygir, rennur fyrst út og austur, síðan til vesturs, og þar í beygjunni er Tjaldhóll, feikna hár og sér vítt yfir." Á þessar slóðir var oft farið til að safna fjallagrösum (höf, man eftir einni slíkri ferð, frá Droplaugarst. um 1945), og þá var gjarnan legið í tjaldi nokkrar nætur.
Bræður (hreppamörk á Heiðinni): "Nyrst er svo Miðheiðarháls. Á honum er Bræðraalda, þar á tveir steinar, gríðarstórir, samliggjandi, Bræður. Þarna er rekið þegar Fellamenn koma af Stuðlafossrétt. Grasþúfa er á fremri steininun, hann er alókleifur, en mögulegt með hinn." (Örnefnaskrá / Mynd í Fellamannabók, 1991, bls. 218).
"Gammi": Á tíunda áratugnum byggði Hákon Aðalsteinsson sérkennilegan kofa á Húsatanga, af lerkitrjám úr nýskóginum, í stíl við "gamma" samanna í Norður-Skandinavíu, og tók þar á móti ferðafólki sem kom með skipinu Lagarfljótsorminum. Skv. munnmælum átti sá eiginlegi Lagarfljótsormur að hafa verið bundinn við tangann, og hélt Hákon því á lofti.
Árið 1990 var Nýjahúsið talið verðmætustu minjarnar á Húsum.