Bessastaðir
Bessastaðir
Bessastaðir eru að líkindum landnámsjörð í Fljótsdal, síðar kirkjustaður og þingstaður. Í Landnámu segir að Brynjólfur hinn gamli Þorgeirsson "kom skipi sínu í Eskifjörð og nam land fyrir ofan fjall, Fljótsdal allan, fyrir ofan Hengifossá fyrir vestan, en fyrir ofan Gilsá fyrir austan, Skriðudal allan, og svo Völluna út til Eyvindarár, og tók mikið af landnámi Una Garðarssonar og byggði frændum sínum og mágum." (Ísl. fornrit I, 296). Þess er ekki getið hvar Brynjólfur bjó, en sonarsonur hans Bersi Özurarson bjó á Bessastöðum og var bærinn við hann kenndur. Hann var nefndur Spak-Bersi og er mikið af honum sagt í Droplaugarsona sögu, Fljótsdælasögu og fleiri fornsögum, auk þess gengu af honum þjóðsögur allt fram á síðustu öld.
Jörðin hefur í upphafi náð milli Bessastaðaár og Hengifossár, en síðar byggðust þar býlin eða jarðirnar Hamborg, Bessastaðagerði og Melar, og loks Eyrarland og Litlagrund á síðustu öld. Þessir bæir eru stundum nefndir Bessastaðatorfa. Á 16. öld komust þeir allir í eigu Skriðuklausturs og síðan í opinbera eign. Hamborg fór í eyði 1958, sem fyrr getur, og Litlagrund 1974. Jörðin var talin 30 hundruð í Jarðabók Johnsens 1847, þá líklega með Hamborg og Gerði.
Minjar á Bessastöðum og Eyrarlandi voru skoðaðar og myndaðar 21. júlí 1986 og 22. sept. 1986, síðan var landið skoðað og myndað 19. júlí 1989 og aftur 22. okt. 1996, í tengslum við skógræktarlýsingu, dags. 7. nóv. 1996.
Gamli bærinn: "Torfbær, að mestu í Marbælisstíl, frá síðasta áratug 19. aldar. Baðstofa 12 × 6 álnir, portbyggð, alþiljuð. Þverhús við hlaðið. Bærinn stóð á sama stað og núverandi íbúðarhús." (SJM II, 31). Búið var í bænum til 1937.
Pétur Sveinsson fæddist á Bessastöðum 1823, en ólst upp á Þorgerðarstöðum, kom aftur til foreldra sinna á Bessastöðum um tvítugt, og bjó þar síðan um nokkurt skeið. Í endurminningum sínum ritar hann: "Næsta ár var byggt stofuhús á Bessastöðum. Jón á Brekku reisti, en eg og Sigurður gamli beykir frá Eskjufirði, smíðuðum innan..." (Dálítið úr ættartölu og þáttur af einum Austfirðingi. Múlaþing 19, 1992, bls. 199).
Þetta hefur líklega verið um 1845, og verður að skilja svo að "stofuhúsið" hafi verið timburhús (Sbr. t.d. Hofsstofa og Lónsstofa í Hörgárdal, Eyf., sem eru álíka gömul timburhús, sem enn standa). Það hefur líklega verið fyrsta timburhús í Fljótsdal á seinni öldum, en á síðari hluta 19. aldar fóru timburhús að rísa við torfhúsin á mörgum bæjum, og voru þá kölluð þverhús eða frammihús. Pétur ritar ennfremur:
"Svo fórum við að byggja á jörðinni, byggðum hvört einasta hús, og umbreyttum öllum bænum, færðum húsin saman, og komum því öllu til betri útsjónar en áður hafði verið, því okkur var vel samhent í því að finna upp á öllu sem betur mátti fara. Og svo byggðum við öll utanbæjarhús og hlöður, og stækkuðum allt úr því formi sem áður var." (Múlaþing 91, 1992, bls. 199-200).
Þetta var um 1850, en þá var Gunnar Gunnarsson snikkari líka kominn í Bessastaði, giftur Þorgerði, systur Péturs.
Til er teikning af bænum, sem Vigfús Sigurðsson frá Egilsstöðum (Fljótsdal) gerði, líklega á fyrsta áratug 20. aldar, og er í teikningabók hans (Drawing book), sem geymd er í Héraðsskjalasafni á Egilsstöðum. Þar sést baðstofan yst og bakvið hana annað torfhús, líklega búr og eldhús. Timburhús er viðbyggt baðstofu að innanverðu, ein hæð og ris, með kvisti, síðan tvö hús með timburstöfnum, og milli þeirra lægra torfhús. Utan við bæinn er viðbyggð rétt eða matjurtagarður. Líklega er þetta sá bær sem Gunnar og Pétur byggðu 1845-50.
Steinhús, "byggt 1937, stækkað 1949-50, stærð nú 7 × 8 m, 2 hæðir, og 5 × 8 m bættust við [!]. Timburskilrúm, gólf og þiljur. Heimagerð teikning, samþykkt af Teiknistofu Landbúnaðarins." (SJM II, 31). Síðan var innréttingum nokkuð breytt, um 1975-1980.
Bessastaðakirkja: Á Bessastöðum var kirkja, líklega frá upphafi Kristni í landinu og fram um yfir aldamót 1600, og eflaust líka kirkjugarður. Þetta var bændakirkja, og líklega sóknarkirkja fyrstu aldirnar, eða fram til um 1400. Elsti máldagi kirkjunnar er frá 1203:
"Þessi er máldagi á Bessastöðum, að þar skal vera heimilisprestur, ef sá vill er þar býr, og hafa kjörið fjórða dag páska, og taka heimatíund allra heimamanna og lýsitolla. Reiða presti tvö hundruð. Þar er skylt að syngja hvern dag helgan og alla imbrudaga, miðvikudaga alla og frjádaga á lönguföstu, og tvær dymbilnætur, pálmasunnudag og páskadag allar tíðir. Þar skal annast hundrað álna ómaga, eða láta syngja hundrað sálumessna, reiða út ef vill þetta hundrað i vaðmálum, mat, eða skæðum, þeim fátækum mönnum sem hann vill og sé sá eigi lögkominn að fé hans. (Máldagar, Ísl. fornbréfasafn).
"Á Bessastöðum var fyrst aðalkirkjan, en um eða fyrir 1200 varð Valþjófsstaður aðalkirkjan, þótt ekki ætti hún land allt fyrr en 1306. 1512 var vígð klausturkirkjan á Skriðu, og hnignar þá Bessastaðakirkju, er þó enn getið sem hálfkirkju 1576 [og 1598] en 1641 er hún lögð niður fyrir nokkru." (Sveinn Níelsson: Prestatal og -prófasta, 1949, bls. 9).
Í vísitasíu Valþjófsstaðar 6.8.1641 segir Brynjólfur Sveinsson biskup, að kirkja á Bessastöðum sé lögð niður fyrir nokkru, en í notum Bessastaða "forsorgast heima á klaustrinu átta ærgilda ómagi." (Hér er átt við Skriðuklaustur, sem þá var orðið konungseign, eins og Bessastaðir).
Kirkjustæðið virðist hafa týnst gjörsamlega, sem er næsta furðulegt og óvenjulegt, en líklega hefur kirkjan verið heima við bæinn, þar sem hann enn stendur, hugsanlega þar sem skrúðgarður er nú. Ekki er vitað til að mannabein hafi fundist við mannvirkjagerð á bænum. (Árið 2010 var hlaðið utan við bæinn grafið upp og skipt um jarðveg í því. Þar fundust engin bein, en nokkrir gripir, sem verða að teljast frá 19.-20.öld / Andrés Einarsson.) Hugsanlegt er að kirkjan hafi staðið utan við bæinn, þar sem Bæjarlækur bar fram aur í vatnavöxtum, og grunnur hennar, ásamt kirkjugarði, hafi lent undir aurinn.
Gripahús í túni: "Efratún er framan og utan og ofan til við húsið. Þar eru fyrst Fremrisléttur; stendur á þeim neðst og yzt gamalt fjárhús, Götuhús. Reiðgötur lágu ofan við húsið til ársins 1940. Áfast við húsið var Hesthús, utan við það var svo Hesthúshóll. Kofarnir eru nú horfnir. Þá kemur Hrútakofaslétta, fremst á henni stóð Hrútakofi. Efst á sléttunni er fjárhús, nefnt Ærhús. Á sléttunni er Kúahlaða, grafin niður í hól, sem heitir Kúahlöðuhóll. Um 20 m frá hlöðunni stendur bærinn. Þá koma þúfur, sem nú er búið að slétta yfir.... Framan við þúfurnar er hóll, beint upp af bæ, sem heitir Ærhúshóll, á honum standa ærhús, nefnd Ytri-Ærhús."
"Neðratún er fyrir neðan þjóðveginn.... Þá voru þar, yzt og neðst, fjárhús, nefnd Þingvallahús, nú sléttað yfir. Þar út af er Hringur, spilda, og svo Aur. Fremst og neðst í SV-horni Aursins er Bessahaugur... Yzt og neðst var svo Aurhús, þar var fjárhús, sem nú hefur verið sléttað yfir." (Örnefnaskrá).
Örnefnaskráin var rituð á árunum 1955-60, og þá hafa Kúahlaðan og Ærhúsin verið við lýði. Þau sjást líklega á teikningu Vigfúsar, sem fyrr var nefnd, og á ljósmynd Björns Björnssonar í Árbók F.Í. 1944 (bls. 29) má greina þessi hús, jafnvel líka Þingvallahúsið og Aurhúsið.
Sumarið 1990 voru öll gripahúsin fallin og búið að slétta yfir þau. Litlar sem engar minjar sjást nú af þessum húsum. (Á hólkolli um 100 m VSV af bænum mótar fyrir hústóttum, sem Andrés Einarsson fv. bóndi telur vera af Ærhúsum. (Munnl. heim. 15.9. 2011).
Kvíar voru þar sem nýbýlið Eyrarland stendur nú, og hét þar Kvíabali. "Við austurhorn Breiðumýrarlóns eru Kvíar." (Örnefnaskrá). Þetta örnefni er út á Bessastaðanesi, langt frá bæjum, svo þar geta varla hafa verið kvíar til að mjólka kvíaær, líklega bara kvíalaga lægð.
Matjurtagarðar: Pétur Sveinsson segist hafa byggt "tvo kál- og kartöflugarða, annan 8 faðma í hvört horn, hinn 15 faðma í hvört horn, á tvo vegu úr eintómu grjóti, fengum um 15 tunnur af kartöflum úr honum, þegar góð ár vóru." (Múlaþing 19, 1992, bls. 200). Þetta var á árunum 1845-1873.
Skrúðgarður: "Trjá- og blómagarður frá 1914. Anna Jóhannsdóttir lagði frábæra rækt við hann" (SJM II, bls. 31). Byrjað var að planta í horn á kartöflugarði, sem var sunnan eða SA við gamla bæinn, og skýldu honum torfgarðar á tvær hliðar. Eftir að steinhúsið var byggt 1937 var garðurinn austan við það, en var stækkaður 1980-85 suður fyrir húsið. Ýmsir hafa ritað um garðinn og undrast hvernig húsmóðir sem ól upp 14 börn gat annast hann. ("Blómadrottningin" í blaðinu 19. júní 8 (11), 1925 / Tíminn 1954 o.fl.). Garðurinn er enn í ágætu standi; í honum eru aðallega birki- og reynitré, en líka nokkur barrtré, þar á meðal broddgreni, sem um tíma var stærst sinnar tegundar á Íslandi. (Nánar í handriti mínu: Skrúðgarðar í Fljótsdal, 2011).
Þingminjar: Á Bessastöðum var opinber þingstaður í margar aldir, a.m.k. fram um miðja 18. öld, og um hann vitna nokkur örnefni og minjar sem voru við lýði fram á miðja 20. öld. Áður var getið um Gálgaklett og Drekkingarhyl í Hamborg, sem var hjáleiga Bessastaða.
"Neðratún er fyrir neðan þjóðveginn. Þingvöllur, hæðarbrekka innst á túninu. Þar var þverhnípt brekka neðar, og hét það Þingbrekka. Þarna ofan til er gamalt tóttarbrot, þá voru þar yzt og neðst, fjárhús, nefnd Þingvallahús, nú sléttað yfir." (Örnefnaskrá).
Í fornbréfum frá miðri 18. öld er minnst á "Þinghús" á Bessastöðum, sem líklega hefur staðið á Þingvelli, og gæti fjárhúsið hafa verið byggt upp úr því.
"Lítil og sokkin tóft í túninu, skammt inn og niður af bæ. Er á sléttum bala neðan við þjóðveginn. Að sögn Andrésar bónda á Bessastöðum heitir þessi bali Þingvöllur (Þingvellir?). Vildi bóndi fá að jafna þessar minjar við jörðu, til að geta haft betri not af túninu, en ég tók af honum loforð um að gera svo ekki, og fékk heimild hans til að setja niður friðlýsingarmerki í tóftinni, 17. júlí 1975." (Gunnlaugur Haraldsson: Spjaldskrá í HAUST).
Þarna er nú óglöggt garðlag og vallgróið tóttarbrot í túninu, um 100 m suður frá bænum, milli gamla bílvegarins, sem líklega lá yfir völlinn, og núverandi vegar sem var byggður 2001, og þar er friðlýsingarmerki sem Gunnlaugur hefur líklega sett þar 1975. Andrés Einarsson fv. bóndi segir (15. 9. 2011) að þetta sé rúst Þingvallahússins.
Hringur: "Þar út af [Þingvallahúsi] er Hringur, spilda, og svo er Aur." (Örnefnaskrá). "Fornir þingstaðir eður dómhringar. Þesskonar girðingu í ferkant, held eg sé að finna í hjáleigutúninu [!] á Bessastöðum, og er hún á milli 30 og 40 faðma á hvorn veg. - Sumra manna mál er samt, að þetta verið hafi sáðgarður Bessa; en nú er það þó kallað Hringur." (Vigfús Ormsson: Fornleifaskýrsla 20. sept. 1821. Frás. um fornaldarleifar I, 35). Þetta mannvirki hefur líklega verið beint austur af bænum, að líkindum gegnt hlutverki nátthaga, sbr. Hringana á Klaustri og fleiri bæjum á Héraði, en þeir voru iðulega sett í samband við "dómhringa".
Hjáleiga í túni ?: Í ofangreindri tilvitnun getur séra Vigfús um "hjáleigutún", en aðrar heimildir geta ekki um hjáleigu á Bessastöðum, nema Hamborg og Gerði. Ólíklegt er að þær hafi átt þarna túnskika, þar sem mikið og gott túnstæði var á báðum stöðum.
Bessahaugur er líklega frægastur fornminja á Bessastöðum. Hans er fyrst getið í Fornleifaskýrslu Vigfúsar Ormssonar prests á Valþjófsstað, sem er dagsett 20. sept. 1821 og birt í bókinni Frásagnir um fornaldarleifar 1983, fyrra bindi, bls. 34-39. Þar er langur kafli um hauginn, er svo byrjar:
"Bessahaugur, hvörr orpinn skal vera yfir Bessa landnámsmann, er bjó á Bessastöðum í Fljótsdal. Munnmæli fólks er, að þegar Bessi, hniginn á efri aldur, kom eitt sinn á fætur undir hádegi og gekk út á hlaðið, hafi orðið fyrir honum stór steinn á hlaðinu, hvörjum hann kastað hafi undir sólu af fæti sér, og undir eins svo fyrir mælt, að hann heygður yrði, þar steinninn staðar nymdi. [Síðan er lýsing á steininum, sem nú er á Skriðuklaustri, sjá þann bæ].
Vigfús lýsir síðan haugnum, sem hann segir mjög aflagaðan vegna þess að Guðmundur Pétursson (1748-1811) sýslumaður hafi látið grafa í hann að suðaustanverðu, og líklega hafi verið grafið í hann áður. Hann telur hauginn upphaflega hafa verið líkan skál á hvolfi, um 2,5 álnir á hæð og um 3 faðma í þvermál við jörðu. Síðan bætir hann við:
"Þeim sem að tilhlutan sýslumanns sál. G. Péturssonar hauginn brutu, varð samt ekki til hlítar ágengt í þeim starfa, því þá þeir brotið höfðu hérumbil 2 al. af þrísettri hleðslu af grjóti og torfi, á skakk ofanávið inní hauginn, fór gröfin að fyllast af vatni, hvörju þeir héldu ollandi kynngi haugbúans, og gáfu því tapt við svo búið."
Loks getur Vigfús þess að tvo af grafarmönnum hafi dreymt svipaðan draum nóttina eftir, að þeim fannst haugbúinn birtast og segja vatnið hafa komið frá ánni, sem var í vexti, en hins vegar væri ekkert að finna í haugnum, "utan járnbrot, svo sem kvartils langt", er hann sýndi þeim, því að langt væri síðan hann hefði verið rændur.
Þarna kemur greinilega fram ótti manna við að grafa í fornhauga, sem ekki dugði þó til að hindra endurtekin haugbrot, ýmist í hagnaðarskyni, eða af forvitni og fróðleiksfýsn. Næst getur Sigurður Gunnarsson um hauginn í margnefndri ritgerð sinni 1886: "en ekki sýnist hólbrot það samt vera líkt fornmannshaugi." Því næst minnast Kr. Kålund (1882) og Daniel Bruun (1901) á hauginn, og geta þess að grafið hafi verið í hann, en lýsa honum ekki. Þá getur Sigfús Sigfússon þess í þætti sínum um Spak-Bessa, að Sigurður Vigfússon fornfræðingur hafi grafið í hauginn, líklega 1890, "ærið linlega", en ekki getur Sigurður þess í Fornleifaskýrslu sinni (Árb. Fornleifafél. 1893). Getur Sigfús þess til, að bein Bessa hafi verið færð til kirkju sem reis á Bessastöðum skömmu eftir dauða hans. Sigfús birtir þó aðra sögu af broti Bessahaugs, af hálfu ónafngreinds manns, sem dreymdi Bessa og þótti hann allreiður, en varð auk þess fyrir ýmsum áföllum og neyddist til að hætta við haugbrotið. Álíka sögur eru sagðar um ótalmarga fornhauga á Íslandi. Haugurinn var friðlýstur skv. Þjóðminjalögum, 25. okt. 1930, og 17. júlí 1975 setti Gunnlaugur Haraldsson minjavörður á hann friðlýsingarmerki. Í SJM II, segir að fundist hafi hrossbein í haugnum.
Ég skoðaði Bessahaug fyrst sumarið 1986, og ritaði þá í ferðabók:
"Bessahaugur er neðst og syðst í túninu á Bessastöðum, niður við aura Bessastaðaár, og er slétt tún umhverfis hann. Hann er nú nánast skeifulaga, því að mikið skarð hefur verið grafið í hann SA frá, og er botn þess nánast í sömu hæð og völlurinn umhverfis. Líkist haugurinn því fremur lítilli tóft. Hæð þessa skeifulaga garðs (tóftarveggjanna) er um 2-3 fet, og er hann þakinn stórvöxnu grasi sem og skarðið innan hans. Þvermál skeifunnar er um 4 m, að utan. Á einum stað innan í skeifunni sést þó í mold í garðinum, þar sem nýlega virðist hafa verið stungið niður. Sér þar í bein og ýmislegt drasl, sem bendir til að þetta sé annaðhvort gamall sorphaugur, eða þá að sorpi hafi verið fleygt í hauginn, eftir að hann var grafinn upp." (H. Hall.: Fornhaugar... í Fljótsdal. Múlaþing 18, 1991, bls. 41).
Þorgerðarþúfa: "Þorgerðarþúfa heitir í Bessastaðatúni. Þar undir á kona Bessa að vera leidd. En sagan segir hún héti Ingibjörg." (Sigurður Gunnarsson, í Safni til sögu Ísl. II, 1886, bls. 429-497). "Þá koma þúfur, sem nú er búið að slétta yfir. Fremst og neðst í þúfunum var stór þúfa, Þorgerðarþúfa, hún lá frá SV til NA. Mun vera 25-30 m vestur af Bessastaðabæ." (Örnefnaskrá). Sigfús Sigfússon getur hennar ekki. Eins og fram kemur í örnefnaskránni var búið að slétta þúfurnar um 1960, og ekki er þess getið að þar hafi fundist bein eða annað sem benti til legstaðar. (H.Hall.: Fornhaugar ... Múlaþing 18, 1991).
Stekkur: "Utan við Bæjarlækinn er Stekkabrekka, uppi á henni Sléttibali. Utan við Stekkalæk er Ytri-Stekkabrekka; uppi á henni er stekkur, við hann kemur Hlauplækur niður." Hef ekki fundið þessa stekkjartótt.
Gimbrarstekkur er uppi í hlíðinni, innan og ofan við bæinn, nálægt merkjum við Hamborg, stutt fyrir ofan svarðargrafir sem notaðar voru frá báðum bæjum (ofan við næstneðstu vegarbeygju). Þarna er lítið áberandi stekkjartótt, tvískipt og eru hólfin um 3 × 3,5 og 3,5 × 5 m, líklega dyr á þeim báðum. Lágir melar eru rétt fyrir ofan tóttina.
Kornmylla var við Bæjarlækinn, nú líklega horfin. Pétur Sveinsson getur um myllu, er hann átti við lækinn (um 1872) og tókst að bjarga frá hlaupi í honum. (Múlaþing 19, 1992).
Barnahús: Smátótt úr grjóti, um 1 × 1 m er á klöppunum milli fossanna í Bæjarlæknum.
Merkigarður er á landamerkjum Bessastaða og Hamborgar, frá Jökulsá upp í Úthleypuskurð. Á merkjum við Gerði gegnir Áveitugarður, sama hlutverki, skv. örnefnaskrá.
Áveitugarðar og -lón: Á Bessastöðum voru mjög góð skilyrði fyrir áveitur, bæði úr Bæjarlæk á túnið, og úr Bessastaðaá á Bessastaðanes, enda munu þær hafa byrjað snemma á 19. öld. Til er fróðleg frásögn af þessum áveituframkvæmdum í fyrrnefndri grein eftir Pétur Sveinsson frá Bessastöðum. Árið 1844 var búið að veita Bæjarlæknum á Neðratúnið, en hann tók sig til og gróf skurð og hlóð garða upp úr lækjargilinu til að veita læknum á Efratúnið. Síðan hófst hann handa við að veita vatni úr Bessastaðaá (Miðkvísl) út á Bessastaðanes.
"Það var að sönnu komin lítilfjörleg byrjun á Framnesið, en allt Útnesið, fyrir utan svokallaðan Vaðal, stóð þurrt, og skrælnaði upp þegar svo viðraði. Vaðallinn er gamall farvegur eptir ána, hún rann þar fyrir aldamótin 1800. Svo settum við stíflugarð í Vaðalinn, og svo var vatnið fengið á Útnesið, Breiðumýri, Bakkastykki, Fífuhólmana, Seigaker og Koppaker. Svo hlóðum við garð fram í Melakvísl, hérumbil á landamerkjum milli Hamborgarengis og Bessastaða, þó dálítið ofar, því það hagaði betur efninu, og marga smágarða úti á Nesinu... Svo komu til vinnufélögin í dalnum [Búbótafélagið?], við vatnsveitingar og annað. Þó var minnst unnið af þeim á Bessastöðum, einn garður norður Breiðumýrina, 160 faðma langur, knéhár, en það var unnið af heimamönnum, svo mörgum hundruðum skipti, sem á að vera til í skjölum yfirmanna. Og þarna þurfti árlega í að standa, því áin eyðilagði svo opt verk mannanna, og spurði aungan að, og margan dag hafði eg þar lúna og blauta handleggi upp úr vatni." (Pétur Sveinsson: Dálítið úr ættartölu og þáttur af einum Austfirðingi. Múlaþ. 19, 1992, s. 198).
"Úthleypuskurðurinn var tekinn úr ánni við beygju, þar sem hún fer að renna út dalinn. Úthleypa er slétta þar sem skurðurinn endar." (Örnefnaskrá). Í örnefnaskrá eru þessir áveitugarðar nafngreindir: Eiríkslóngarður, Fremstalóngarður, Miðlóngarður, Breiðumýrarlóngarður innri og ytri, Nýjalóngarður og Ystalóngarður. Þeir munu nú nær allir vera horfnir við túnræktun.
" Á nesin var lengi veitt vatni úr Bessastaðaá, og hey af þeim mikið og kjarngott. Talið var að þar fengjust 450-500 hestar í meðalári, og var slegið árlega... Mikið áveitukerfi, skurðir og garðar, frá Bessastaðaá. Áveitan gerði stórgagn og var haldið við og notuð fram undir 1960." (SJM II, 31). Þá var farið að rækta tún á Bessastaðanesi, og nú er það orðið nær samfellt tún, sem áin á þó enn til að hlaupa á í vorleysingum og bera á þau mold og sand, sem getur aukið grasvöxt ef það er í hæfilegu magni.
Hjásetukofar: "Ofan við brúnina heita Höll, þá eru Þrímelar. Þar fram og upp af er hjásetukofi sem heitir Bræðraborg, þar út og upp af var grjótvarða á hæð, kölluð Hæðarvarða. Upp úr henni var byggður hjásetukofi, sem heitir Péturskofi. Nú aðeins vörðutyppi." (Örnefnaskrá).
Vörður: "Ofan við Hlíðarnar heitir Brún. Á Brún, utan við Ytri-Bæjarlæk eru þrjú vörðutyppi, sem heita Þrívörður.... Út af Hæðarvörðu [sjá kofa] er stór varða, Sauðavarða, nú að mestu fallin (á landamerkjum við Gerði).... Á Grjótups er varða, Grjótupsarvarða... Neðan (austan) við Lambakíl er varða sem heitir Finna, og norðvestan við kílinn er önnur varða, Steinka. Þessar tvær síðastnefndu eru við Bessastaðaveg, þar sem hann skiptist við Vegups. (Örnefnaskrá) "Stór varða, frábærlega vel og fallega hlaðin, stendur á stórum steini við veginn milli Lambakíls og Vegupsar. Heitir Finna." (Fornir fjallavegir á Austurlandi, 1997).
Götur /Vegir: "Reiðgötur lágu ofan við húsið [Götuhús] til ársins 1940." (Örnefnaskrá). Aðalgötur hafa líklega frá fornu fari legið um bæina Bessastaði og Hamborg, og þaðan að Hylvaði á Bessastaðaá, sem var þrautavað. Fyrsti bílvegur var hins vegar lagður niður með ánni að vaði á kvíslunum þremur (Melakvísl, Miðkvísl og Landkvísl), og inn fyrir neðan Melahornið og upp á Melana neðst, þaðan inn og upp í Klaustur. (Jón E. Kjerúlf segir að þessi vegur sé ennþá sýnilegur).
Vöð: Í örnefnaskrá er getið um Fífuhólmavað á Bessu við Fífuhólma, þar sem áin myndar beygju. Annað "heybandsvað" var nefnt Krókur, líklega þar sem áin beygir til norðurs.
Ullarþvottur: "Út af bænum er slétt grund sem heitir Bali, og þar niður af heitir Ullarbali." (Örnefnaskrá). Líklega ullarþvottastaður við Bæjarlækinn.
Svarðargrafir voru í fjallshlíðinni, inn og upp af Bessastöðum, neðan við Gimbrarstekk, sem áður var getið, nálægt merkjum við Hamborg og líka nýttar þaðan.
Umsögn 1990: Mikil eyðing minja hefur átt sér stað á Bessastöðum, og er það því bagalegra, sem bærinn er einn af helstu sögustöðum á Héraði. Hinar friðlýstu minjar, sem enn eru við lýði, verða þó að teljast merkilegar, a.m.k.í sögulegu og þjóðtrúarlegu tilliti.