Skip to main content
03 January, 2022
# Topics

Skáld og fræðimenn í eða úr Fljótsdal

03 January, 2022

Skáld og fræðimenn í eða úr Fljótsdal

Flutt úr aðalhandriti Fljótsdælu í júní 2014

Fræðimenn

Jón Jónsson (1849-1920) á Stafafelli í Lóni, var Húnvetningur að uppruna, vígðist 1875 prestur að Stafafelli og hélt til æviloka, alþingismaður 1893-99. Fyrri kona Margrét Sigurðardóttir, prófasts á Hallormsstað, sonur þeirra Sigurður bóndi á Stafafelli, og búa afkomendur hans þar enn. Seinni kona Guðlaug Vigfúsdóttir frá Arnheiðarstöðum, systir Guttorms í Geitagerði, þau voru barnlaus. Jón var stórgáfaður, hagmæltur og fjölfróður, einkum um fornsögur. Hann samdi margar ritgerðir og greinar um söguleg efni, sem birtust í ýmsum blöðum og tímaritum; Víkingasaga hans var prentuð í Rvík 1915. Árið 1886 fór Jón með tveimur Héraðsmönnum úr Fljótsdal suður yfir Hraun ofan í Lón, og lýsti þessum forna fjallvegi fyrstur manna í Austra sama ár (Hjörl. Gutt.: Austfjarðafjöll, 1974, bls. 110

Einar Jónsson (1853-1922) ættfræðingur, fæddist á Stóra-Steinsvaði, prestur á Kirkjubæ og Hofi í Vopnafirði, alþingismaður Norðmýlinga 1893-1902 og 1911-1914. Hann lagði sig mjög eftir ættfræði og sögulegum fróðleik, og var því oft nefndur Einar fróði. Hann safnaði til og ritaði stórvirkið Ættir Austfirðinga, sem gefið var út að honum látnum, 1953-1968, í 8 heftum, í ritstjórn Einars Bjarnasonar og Benedikts Gíslasonar frá Hofteigi, sem iðulega er til vitnað í þessari bók. Móðir Einars var Járngerður Eiríksdóttir bónda og hreppstjóra á Arnaldsstöðum og víðar í Fljótsdal. Hún var mjög sögufróð og vitnar Einar mikið til hennar í riti sínu. Hún var af ætt Þorsteins jökuls og Móbergsætt.

Eiríkur Kjerúlf (E. Kjerulf) (1877- ) var sonur Þorvarðar Kjerúlf læknis á Ormarsstöðum, og fyrri konu hans, Karólínu Kr. Einarsdóttur verslunarm. í Rvík, Einarssonar. Stúdent 1897, lærði læknisfræði í Khöfn og Rvík, útskrifaðist 1906, læknir á Ísafirði 1908-1932, síðan í Rvík og fékkst við forn fræði og ritstörf. Hann gaf út Sonatorrek Egils Skallagrímssonar 1935, og Völuspá 1945, hvorttveggja með ýtarlegum skýringum, og skýrir margt öðru vísi en tíðkast hefur. Auk þess ritaði Eiríkur bæklinga um dægurmál.

Þórarinn Þórarinsson (1904- 1985) á Eiðum, sonur Þórarins prests og Ragnheiðar á Valþjófsstað, fékkst talsvert við fræðistörf, einkum á efri árum, eftir að hann hætti skólastjórn, og var búsettur í Reykjavík. Sérstaklega lagði hann sig eftir sögu skóganna á Íslandi og, járngerð með tilliti til járngjalls í jörðu á Eiðum, og samdi um það fræðilegar ritgerðir, sem birtust í Múlaþingi og víðar, og ritaði sögu Eiðaskógar (Eiðaskógur að fornu og nýju. Bækl. 1983). Einnig safnaði hann drögum að tónlistarsögu Héraðs, sem er iðulega vitnað til í þessari bók. (Morgunblaðið 15. ágúst 1985).

Ragnheiður Helga Þórarinsdóttir, lærði norsku og sögu við H.Í. og lauk magisterprófi við Oslóarháskóla 1982, með prófritgerð um mótun barnaleikja af félags- og landfræðilegu umhverfi, útdráttur birtist í Glettingi 1996. Hún var um tíma kennari á Eiðum og safnstjóri á Egilsstöðum, en er nú búsett í Reykjavík

Þórarinn Þórarinsson yngri lærði arkitektur og vann sitt ævistarf sem slíkur, en hefur síðustu árin grúskað mikið í sambandi við kenningar Einars Pálssonar um landnám o.fl.

Sigurður Kristinsson fræðimaður í Reykjavík, var sonur Kristins Eiríkssonar, Jónssonar bónda á Kleif í Fljótsdal, og Salnýjar Jónsdóttur frá Grófargerði á Völlum, þau bjuggu fyrst í Refsmýri og þar ólst Sigurðu upp. Hann hefur ritað margar greinar um sögu Austurlands, er birst hafa í Múlaþingi. Systir hans var Sólrún á Krossi, skáldmælt og ritfær.

Guttormur Þ. V. Þormar er sonur Þorvarðar Þormar frá Geitagerði, prests í Laufási, og Ólínu Mörtu Jónsdóttur, byggingaverkfræðingur að mennt, búsettur í Reykjavík. Hann hefur á efri árum lagt sig eftir ættfræði. Fyrir mót Þormarsættar á Valþjófsstað sumarið 1998, tók hann saman ritið Þormarsætt, fjölrit, 76 bls., og 2001 kom út bókin Ljótsstaðaætt, sem hann ritstýrði, og inniheldur niðjatal hjónanna Sigmundar Pálssonar og Margrétar Þorlákdóttur á Ljótsstöðum, Skagafirði, en Sigríður dóttir þeirra var kona Guttorms í Geitagerði, og frá þeim er Þormarsætt runnin.

Halldór Þ. Þormar, bróðir Guttorms, hefur getið sér gott orð fyrir rannsóknir á sviði veirufræði. Hann lærði lífeðlisfræði í Kaupmannahöfn og tók þar magisterpróf 1956, fékk gullmedalíu fyrir prófritgerð, sem fjallaði um áhrif hitalosts á frumuskiptingu. Eftir það vann hann með Birni Sigurðssyni við rannsókn á visnuveiki í sauðfé, og fékk doktorspróf út á ritgerðir um það efni við Hásk. í Khöfn 1966. Síðan fékk hann stöðu við veirufræðideild nýrrar stofnunar í New York, og dvaldi þar næstu 20 árin, með konu sinni og dætrum þeirra. Árið 1985 fékk Halldór prófessorsstöðu í frumulíffræði við Háskóla Íslands, og gegndi henni til starfsloka. (SÚS: Viðtal við Halldór Þormar. Helgarblað DV, 3. júlí 1999)

Elísabet Gunnlaugsdóttir (f. 1973), dótturdóttir Guttorms Þormar í Geitagerði, lærði stærðfræði við háskólann í Montpellier í Frakklandi og varði doktorsritgerð í Hopf-algebru við sama skóla um aldamótin 2000.

Elfar Þórarinsson (f. 1979), sonur Þórarins Rögnvaldssonar og Magnhildar Björnsdóttur á Víðivöllum ytri lærði lífefnafræði í Khöfn , stundaði þar framhaldsnám í lífupplýsingatækni, og tók doktorspróf í þeirri grein vorið 2008. “Í stuttu máli snerist doktorsnámið mitt um að skrifa og keyra tölvuforrit, til að finna ný RNA-gen.”, segir hann í viðtali 2008. Hann kvaðst kunna vel við sig í Khöfn og fara allra sinna ferða á reiðhjóli. (G.G.: “Ég sé tækifæri í kreppunni.” Austur-Glugginn, 7. árg (47), 27. nóv. 2008).

Jón Frímannsson, Jónssonar, bónda Bessastöðum og Önnu Jóhannsdóttur, fæddist á Reyðarfirði og ólst þar upp, en dvaldi oft hjá frændfóki sínu á Bessastöðum. Lærði rafvirkjun fyrst hjá föður sínum en síðan í Iðnskólanum í Rvk, og stundaði alla sína starfsæfi, lengstaf búsettur á Akranesi. Síðustu árin hefur hann safnað heimildum um ættfólk sitt í Fljótsdal og lagt höfundi til efni og myndir í þessa bók.

Skáld og rithöfundar

Álfrún Gunnlaugsdóttir (1938- ) rithöfundur er líka afkomandi Mekkínar skyggnu. Oddný Pétursdóttir móðir hennar, var dóttir Sólrúnar Ólafsdóttur frá Urriðavatni, Hjörleifssonar, en móðir Ólafs var Mekkín skyggna. Álfrún er fædd í Reykjavík, nam bókmenntir og heimspeki í Barcelona á Spáni og lauk þar doktorsprófi 1970, varð lektor við Háskóla Íslands 1971 og prófessor 1988-2006. Hún hefur samið nokkrar skáldsögur, sem vakið hafa athygli og verið tilnefndar til verðlaunana. Yfir Ebrófljótið (2003) fjallar um borgarastyrjöldina á Spáni. (Dagný Kristjánsdóttir: Álfrún – hvött að rúnum. Viðtal. TMM 1994. Einnig Netsíða og bréf dags. 19. júní 2013.).

Árni Þórarinsson er dóttursonur Bryndísar Þórarinsdóttur (bls. xxx) frá Valþjófsstað og Árna Sigurðssonar prests í Rvík, bróðir Steinunnar myndhöggvara (bls. xxx). Árni gerðist blaðamaður og ritstjóri, og síðan 1998 hafa komið út nokkrar spennu- og glæpasögur eftir hann. Ein sú þekktasta er Tími nornarinnar, 2005. (Katrín Jakobsdóttir: Árni Þórarinsson, Um höfundinn. Bokmenntir is.).

Loks má geta þess að Sigurjón B. Sigurðsson, er tók sér skáldanafnið Sjón, rekur ætt sína í Fljótsdal. Hann er afkomandi Péturs Sveinssonar smiðs og fræðimanns frá Bessastöðum. Hann hefur sent frá sér margar ljóðabækur og nokkrar skáldsögur, sem þýddar hafa verið á önnur mál, m.a. Rökkurbýsnir (2009), sem fjallar um Jón lærða Guðmundsson.

Skáldgestir

Ýmsir vel þekktir rithöfundar og skáld hafa heimsótt Fljótsdal og dvalið þar tímabundið. Er þá fyrst að telja Jónas Hallgrímsson náttúrufræðing og skáld, sem dvaldi haustið 1842 hjá Beldring lækni á Brekku, meðan hann var að jafna sig af fótameini, og fór þá m.a. í Hengifossárgil

Ekkert er vitað um skáldskap hans á þeim tíma, en getgátur voru um að þá hefði hann verið að yrkja Dalvísur, og líklega hafa Fljótsdælingar haldið að hann hefði þá ort erfikvæðið um Þorstein Helgason í Reykholti, sem fórst 1839, sbr. ummæli Þórarins skólastjóra í inngangi bls. xxx. Kvæðið birtist í Fjölni 1843, og vissulega gat Jónas hafa lokið því á Brekku. Einhverjir létu sér til hugar koma að hann hefði ort hluta Hulduljóða, þegar hann “bjó í Hengifossárgili”, eins og hann segir í bréfi til Páls Melsted. Dunandi fossinn, sem “breiðir fram af bergi hvítan skrúða” á vel við Hengifoss. Víst er að hann orti kvæðið á árunum 1841-1845, og náði ekki að ljúka því áður en hann lést. (J.H. Rit I: 136; IV: 147-152og 161).

Páll Jónsson Árdal (1857-1930) skáld og rithöfundur var líklega heimiliskennari í Fljótsdal laust fyrir aldamótin 1900, og kynntist þar Álfheiði Eyjólfsdóttur konu sinni frá Hamborg. Hann var síðan kennari og skólastjóri á Akureyri í áratugi og samdi ljóð og leikrit, sem flestum var safnað í bókina Ljóðmæli og leikrit (Ak. 1951), með ýtarlegum formála eftir Steingrím J. Þorsteinsson. Leikrit hans Happið (1923) var vinsælt og m.a. sýnt í Fljótsdal. Einnig ritaði hann Ágrip af náttúrusögu handa alþýðu (1884). Í bókinni Ljóðmæli (Ak. 1905), er “Aldamótakvæði á samkomu Fljótsdæla 1901”, sem flutt var á hátiðinni á Valþjófsstað, sem fyrr var lýst (bls. xxx).

Stephan G. Stephansson (1853-1927) skáld í Kanada kom í Fljótsdal sumarið 1917. Þann 12. júlí var samkoma í Atlavík honum til heiðurs, þaðan fór hann að Brekku og næsta dag að Klaustri og gisti á báðum bæjum, síðan yfir heiðina, að Eiríksstöðum 15. júlí. Hann hafði áður ort sitt fræga kvæði um Jón hrak, sem munnmæli segja að hafi verið jarðsettur á Klaustri, og kom því til leiðar að leiðið var hlaðið upp. (Hrafnkell A. Jónsson: Kalt er við kórbak. Á sprekamó, 2005). Guttormur J. Guttormsson kom líklega tvisvar í Fljótsdal, 1938 og 1963, sem áður segir.

Þorsteinn Erlingsson (1858-1914), hið hið ástsæla þjóðskáld, úr Fljótshlíð í Rangárþingi, hóf ritferil sinn sem ritstjóri Bjarka á Seyðisfirði 1896-1900, og kom þá oft upp á Hérað og m.a. í Fljótsdal, og ritaði greinar um þær ferðir. Í Þyrnum (1918) birtist kvæðið “Í Hallormsstaðaskógi” sem er neyðarleg ádeila á meðferð hans, en ekki hef ég rekist á kvæði um Fljótsdal.

Jón Magnússon (1896-1944) ljóðskáld, af borgfirskum uppruna, kom í Fljótsdal sumarið 1927 og gisti einhverja daga hjá séra Þórarni á Valþjófsstað, og orti þá m.a. um Fljótsdal og Hallormsstaðaskóg. Ljóðasafn hans, Bláskógar IV, kom út 1945.

Símon Bjarnason Dalaskáld (1844-1916) var Skagfirðingur, sem ferðaðist víða og varð landsþekktur hagyrðingur; hvar sem hann gisti launaði hann með vísum og kvæðum. Ljóðmæli hans komu út 1950. Veturinn 1911-12 kom Símon í Fljótsdal og gisti m.a. í Brekkugerði, Valþjófsstað og Glúmsstöðum, og fengu þar allir sínar vísur, sem Vigfús Sigurðsson ritaði í vasabók sína. Gunnar skáld getur um heimsókn Símonar í Valþjófsstað, um 1895, í bók sinni Leik að stráum, og nefnir hann réttu nafni.

Halldór Kiljan Laxness (1902-199?) dvaldi á Austurlandi síðsumar og haust 1926. “Ég var nýkominn heim eftir ársdvöl í Suðurevrópu, og var hálfþreyttur á sál og líkama, eftir dálítið verk sem ég hafði þá nýlokið,“ eins og hann segir sjálfur í bókinni Dagleið á fjöllum. (2. útg. 1962), og á þar við skáldsöguna Vefarinn mikli frá Kasmír (Rvík 1927). Hann var á Hallormsstað síðustu daga ágústmánaðar og orti þá sitt fræga kvæði um Hallormsstaðaskóg og Orminn í Fljótinu, sem getið er í inngangi þessarar bókar.

Um haustið var Halldór hjá Bjarna Guðmundssyni lækni, sem Þórarinn skólastjóri segir, að þá hafi haldið til á Klaustri, hjá Sigríði og Sigmari G. Þormar, því að hann var þá ókvæntur, og sambýlisfókið á Brekku, sem var Jón bróðir Þórarins og kona hans, hafði flutt burtu um vorið. Halldór dvaldi því á Klaustri hjá Bjarna, og fór oft ríðandi með honum í læknisvitjanir og spjallaði við heimilisfólk á meðan hann sinnti sjúklingum. “Hann var þráspurull um mannlífið í sveitinni, einkum þó um kynlega kalla, sem Bjarni hafði sagt honum frá... Hann kom oft í Valþjófsstað, og var þar aufúsugestur, margfróður um hina víðu veröld og framúrskarandi músikmaður, lék oft tímum saman á píanó og raulaði með, stundum undir söng heimafólks.” Þá náði hann tali af Þorfinni á Kleif og fræddist af honum um hreindýrsreið Sigmundar föður hans. (Þórarinn Þórarinsson: Hreindýrsreiðin. Sópdyngja, handrit í Héraðsskjalasafni, bls. 15).

Halldór spurðist líka fyrir um Heiðarbyggðina hjá Jökuldælingum sem hann hitti, og mun þá hafa byrjað að viða að sér efni í skáldsöguna “Heiðina” er síðar varð Sjálfstætt fólk. Í Dagleið á fjöllum, lýsir hann skíðaferð yfir Fljótsdalsheiði, í fylgd með Jóni bónda á Eiríksstöðum, sem var bæklaður og ók á skíðasleða með hesti fyrir, og Ella nokkrum. (Þetta voru Jón Gunnlausson Snædal og Elís Gíslason Frydendal, þá vinnumaður í Geitagerði). Þeir hrepptu illviðri svo nærri lá að þeir yrðu úti, en náðu loks þrekaðir í Stuðlafoss um miðja nótt. Kvaðst Halldór hafa bjargað þeim með því að nota áttavita sem hann hafði meðferðis. Í næsta kafla, segir frá því er hann varð “hríðtepptur í koti austurí Jökuldalsheiði” á leið í Möðrudal, ásamt nokkrum öðrum. Kotið var Sænautasel, er síðar varð “Sumarhús” í skáldsögunni, með hliðsjón af bænum Veturhúsum í heiðinni. Sjálfstætt fólk (Rvík 1934-36) féll ekki í góðan jarðveg í sveitum og allra síst á Jökuldal, þar sem Halldór var lengi í ónáð síðan. Vorið 1940 dvaldi Halldór um skeið í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað og var að þýða Fjallkirkju Gunnars skálds. Þá heimsótti hann skáldið á Skriðuklaustri, og fylgdi Sigurður Blöndal honum á hesti upp í Hrafnkelsstaði, þar sem Jón M. Kjerúlf ferjaði hann yfir árnar.. (Sigurður Blöndal: Sigrún Pálsdóttir Blöndal. Helluprent 1979).

Einar Hjörleifsson Kvaran (1859-1938) var fæddur í Vallanesi, sonur Hjörleifs Einarssonar prests á Undirfelli í Vatnsdal og Guðlaugar Eyjólfsdóttur frá Gíslastöðum á Völlum. Einar Hjörleifsson afi hans var síðast prestur í Vallanesi (1850-1878). Miðkona hans var Þóra Jónsdóttir vefara á Arnheiðarstöðum, og þau áttu 11 börn er upp komust. Þau voru systkinabörn, því að Hjörleifur Þorsteinsson, faðir séra Einars, prestur á Hjaltastað, var bróðir Jóns vefara. Einar varð stúdent úr Bessastaðaskóla 1881, síðan við nám í hagfræði í Khöfn 1881-85, flutti þá til Kanada og var þar í áratug, síðan ritstjóri ýmissa blaða og tímarita í Reykjavík og átti þar heima til dauðadags, gerðist mikilvirkur rithöfundur og ákafur boðberi spíritisma, stofnaði Sálarrannsóknafélag Íslands með Haraldi Níelssyni 1918 og ritstýrði Morgni, til æviloka. Eftir hann liggja 6 skáldsögur, 5 leikrit og fjöldi smásagna, bæklinga og blaðagreina, einnig þýðingar nokkurra skáldsagna. Ritsafn (skáldrit) Einars í 6 bindum var gefið út 1944. Hann hafði lengi ritstyrk frá Alþingi og var prófessor að nafnbót. Einar kom a.m.k. einu sinni í Fljótsdal og hélt fyrirlestur á Valþjófsstað, en Þórarinn prestur var náfrændi hans. Halldór Stefánsson fræðimaður í Hamborg var annar náinn ættingi. (Ísl. skáldatal, Ísl. æviskrár).

 Skjögrastaðaskáldin

Á fyrri hluta 19. aldar bjuggu á Langhúsum hjónin Sigfús Jónsson og Þorbjörg Árnadóttir, f. 1794. Sigfús var innfæddur Fljótsdælingur af Melaætt, sagður greindur, fróður og hagmæltur, en Þorbjörg var frá Haugum í Skriðdal. Hún var svo hagmælsk að almannarómur taldi víst að hún væri laundóttir Hallgríms Ásmundssonar í Stóra-Sandfelli, sem var kunnur hagyrðingur á þessum tíma, og forfaðir ýmissa skálda og rithöfunda, en aldrei hefur það sannast. Geymst hafa nokkrar dýrt kveðnar vísur eftir Þorbjörgu í minni manna og komist á prent. (Ritsafn Guðfinnu Þorsteinsdóttur, 2013, bls. 34-36).

Meðal barna þeirra Langhúsahjóna var Jón Sigfússon (1823-1866) bóndi á Langhúsum og Kleif, sem var hagmæltur og orti m.a. gamanbrag um selið á Ingiríði upp af Hamborg (H. Hall.: Selið á Ingiríði og “Ingiríðarbragur”. Austri, jólin 1996). Kristrún Sigfúsdóttir átti Benedikt Gunnarsson, bróður Sigurðar próf. á Hallormsstað og Gunnars á Brekku, þau bjuggu síðast á Vaðbrekku, og þar lést Benedikt 1871, en Kristrún bjó þar til 1889, og öskusumarið 1875 flutti hún sig í beitarhúsin Faxahús á Aðalbóli, þar sem askan var lítil og bjargaði þar bústofni sínum. Sonur þeirra var Baldvin bóndi á Þorgerðarstöðum, sem ritaði um búskap í Fljótsdal á 19. öld, og Elísabet dóttir hans var fyrsti formaður Ungmennafélags Fljótsdæla.

Sigfús Sigfússon (1834-1895) frá Langhúsum var bóndi á Skjögrastöðum, hjáleigu frá Hallormsstað, rétt fyrir utan hreppamörkin við Gilsá, á síðasta fjórðungi 19. aldar. Sigfús var fróður og hagmæltur, til eru nokkrar vísur eftir hann og líka ritaði hann nokkrar þjóðsögur, sem birtust í söfnum Jóns Árnasonar, Jóns Þorkelssonar (Þjóðsögur og munnmæli) og Sigfúsar nafna hans. Sigfús var tvíkvæntur, fyrri kona var Rannveig Guðmundsdóttir (1840-1867) og áttu þau tvær dætur, Soffíu og Þorbjörgu, sem lést 16 ára gömul, en náði þó að skilja eftir sig fáeinar vísur. Soffía giftist Elís Þórðarsyni á Vattarnesi, sem drukknaði fáum árum síðar, þá flutti hún til Ameríku með börn þeirra tvö. Síðari kona Sigfúsar var Guðfinna Egilsdóttir frá Hvannstóði í Bogarfirði eystra, systir Sæbjarnar á Hrafnkelsstöðum. Þau áttu fjórar dætur sem allar náðu fullorðinsaldri: Rannveigu, Þuríði, Margréti og Kristrúnu, og allar voru hagmæltar, sérstaklega þó Rannveig og Margrét. Þuríður ólst upp á Hrafnkelsstöðum, en systur hennar hjá foreldrum sínum á Skjögrastöðum til 1893, þegar bú þeirra leystist upp.

Afkomendur þeirra Sigfúsar og Guðfinnu kallast Skjögrastaðaætt og er hún skýrasta dæmi um arfbundna hagmælsku á Austurlandi, sem rakin er til Þorbjargar á Langhúsum, eins og Sigurður Gunnarsson prestur á Valþjófsstað vakti fyrst athygli á með grein sinni: “Sýnishorn ættgengrar hagmælsku” 1931 (Eimreiðin, 37. árg., 2: 142-143), og Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir áréttaði í grein með sama heiti 2011 (Glettingur 21 (3), 2011: 20-25) og síðan í ritgerð um Erlu í nýlega útkomnu ritasafni hennar (2013), en svo virðist sem skáldgáfan erfist einkum í kvenlegginn.

Rannveig Sigfúsdóttir (1869-1951) var elst þeirra Skjögrastaðasystra, og að margra dómi besta skáldið í þeirra hópi. Hún giftist Þorsteini Eiríkssyni (1860-1929) frá Kleif og bjuggu þau víða á Úthéraði við mikla fátækt, fluttu í Bakkagerðisþorp í Borgarfirði 1902 og byggju sér þar kofa. Þau eignuðust 8 börn sem upp komust, og var þeim öllum komið í fóstur innan við fermingu á ýmsum stöðum. Rannveig var prýðilega hagmælt, og hafa nokkur kvæði hennar birst í safnritunum Aldrei gleymist Austurland (1949) og Huldumál (2003) og víðar, og eitthvað er til í handritum, en vísnahandrit hennar sjálfrar virðist hafa týnst. (Ritsafn Guðfinnu, V, bls. 46).

Guðfinna Þorsteinsdóttir (1891-1972), sem kallaði sig skáldnafninu Erla, var elst af börnum Rannveigar og Þorsteins. Hún var í fóstri frá 8 ára aldri í Krossavík í Vopnafirði, hjá Jörgen Sigfússyni frá Skriðuklaustri og Margréti Gunnarsdóttur frá Brekku í Fljótsdal, föðursystur Gunnars skálds, kvæntist Valdimar Jóhannessyni frá Syðri-Vík, og bjuggu þau á ýmsum stöðum í Vopnafirði, síðast og lengst í Teigi, og eignuðust níu börn. Þrátt fyrir fátækt og erfiðar aðstæður var Guðfinna sífellt að yrkja, allt frá bernsku til ellirára, og rita smásögur, ævintýri og ýmsan fróðleik. Henni var greinilega eðlislægt að yrkja, eins og fram kemur í þætti hennar, “Hvernig kvæði varð til,” en þar ritar hún:

“Það var nokkuð algild regla að ég orti hraðast – og best – þegar ég átti sem allra annríkast. Man ég eftir kvæðum sem ég orti við þvottabalann, hrífuna, tóvinnuna, húsaræstingu, sláturgerð og jafnvel þegar ég var veik og lá rúmföst. Það voru oft mínar einu hvíldarstundir, og þá hafði ég aldrei stundlegan frið fyrir þessu aðkalli.” (Ritsafn IV. bindi, bls. 227-231).

Guðfinna ritaði tvær bækur með sagnaþáttum, Völuskjóða (1957, 2. útg. 1982) og Vogrek (1959), og samdi þrjár ljóðabækur: Hélublóm (1937), Fífulogar (1935) og Ævintýri dagsins, Þulur og barnaljóð (1958), auk fjölda greina og kvæða í blöðum og tímaritum. Hún þýddi líka ljóð og sögur, m.a. Slagur vindhörpunnar eftir William Heinesen, sem út kom 1956. Auk þess hélt hún dagbók mestalla æfi. Valdimar lést 1953, og sama ár fórst Rannveig dóttir þeirra í snjóflóði í Svarfaðardal. Árið 1956 flutti hún alfarin til Guðrúnar dóttur sinnar á Selfossi og átti þar heima til dauðadags 1972. Þar fékk hún mun betra næði og aðstöðu til ritstarfa en heima í Teigi, og sneri sér þá meira að ritun sögulegs fróðleiks.

Haustið 2013 kom heildarútgáfa af ritverkum Erlu á markaðinn í fimm bindum, undir ritstjórn Önnu Þorbjargar Ingólfsdóttur bókmenntafræðings frá Akureyri, sem er óskyld henni. Þar er mikið af kvæðum og sögum sem ekki höfðu birst áður eða aðeins í blöðum eða tímaritum. Útgefandi er Félag ljóðaunnenda á Austurlandi, sem Magnús Stefánsson á Fáskrúðsfirði stýrir, en hann var meðritstjóri safnsins.
Sonur Guðfinnu er Þorsteinn Valdimarsson (1918-1977), frægasta skáld ættarinnar, oft talinn meðal bestu ljóðskálda Íslendinga á 20. öld. Þorsteinn fór í Menntaskólann á Akureyri, stúdent í Rvík 1939, guðfræðingur frá Háskóla Íslands 1946, og nam við Tónlistarskólann í Rvík og síðar í Vínarborg (1952-53) og Leipzig (1960-61). Hann átti lengst af heima í Reykjavík og vann við kennslu, en dvaldi oft á ættarstöðvunum, m.a. á Hallormsstað, vann þar í skógræktinni, og snerta mörg yrkisefni hans það umhverfi. Hann var síyrkjandi alla ævi, og sendi frá sér átta ljóðabækur: Villta vor! (1942), Hrafnamál (1952), Heimhvörf (1957), Heiðnuvötn (1962), Limrur (1965), Fiðrildadans (1967), Yrkjur (1975) og Smalavísur (1977). Hann var fær píanóleikari, samdi mörg sönglög, m.a. við eigin ljóð, og þýddi texta í söngleikjum og kórverkum. Úrval ljóða hans kom út hjá Bókmenntastofnun Háskóla Íslands 1998, með æviágripi og umfjöllun um ljóðagerð hans. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Guðrún Valdimarsdóttir, systir Þorsteins, búsett á Selfossi, hefur gefið út eina ljóðabók, og 2009 gaf Ljóðafélagið út bókina Geislaþytur, eftir Gunnar Valdimarsson, með frásögum og kvæðum eftir hann. Gunnar var bóndi í Teigi og síðast fornbóksali í Reykjavík.

Af systkinum Guðfinnu var Guðmundur Þorsteinsson (1901-1989) einna þekktastur. Hann ólst upp í Hjaltastaðaþinghá, en kenndi sig við bæinn Lund í Borgarfirði vestra, þar sem hann bjó um tíma, en síðari hluta ævinnar átti hann heima í Leirhöfn á Sléttu. Guðmundur var mikill hagleiksmaður, starfað m.a. að viðhaldi gamalla húsa og við lagfæringu forngripa á Þjóðminjasafni og Minjasafni Austurlands. Hann ritaði margar greinar og bókina Horfnir starfshættir, sem út kom í Rvík. 1975, önnur útgáfa aukin og myndskreytt 1990. Kvæðabók Guðmundar: Við hljóðfall starfsins, kom út á Akureyri 1975.

Guðný Þorsteinsdóttir (1892-1971) ólst að mestu upp hjá Þuríði Sigfúsdóttur, móðursystur sinni, og Gísla Benediktssyni á Skriðuklaustri, sem var bróðir Halldórs bónda þar. Guðný var tvo vetur í Kvennaskólanum í Reykjavík. Hún vistaðist í Borgarfirði eystri 1915 og giftist þar Haraldi Ingvarssyni sjómanni, ættuðum úr Grímsey, og áttu heima Bakkagerðisþorpi til 1944, lengst af í litla timbur-torfhúsinu Lindarbakka, sem enn er staðarprýði, en fluttu síðan til Vopnafjarðar. Þar veiktist hún og dvaldi tvisvar á Kristnesspítala, í síðara skiptið frá 1953 til dauðadags.
Guðný var vel hagmælt og orti mikið, einkum eftir að hún kom á Kristneshæli, nokkurt sýnishorn af kveðskap hennar birtist í smáriti Félags borgfirðinga eystra í Rvík 1979, síðan í Afmælisriti sama félags 1989, og bókinni Huldumál (2003). Bragi Haraldsson sonur hennar geymdi kvæðahandritin, sem eru 10-12, og voru þau afhent Héraðsskjalasafni á Egilsstöðum eftir lát hans, vorið 2009. Eitt besta kvæði Guðnýjar heitir “Hvað er á bakvið háu fjöllin?” en þar minnist hún Fljótsdalsins á undur hlýlegan hátt. Það væri vel þess virði að gefa út úrval af ljóðum hennar.

Guðbjörg og Sigríður, systur Guðnýjar og Guðfinnu, voru líka hagorðar, og eru vísur eftir þær í bókinni Huldumál, 2003.

Unnur Sólrún Bragadóttir, sonardóttir Guðnýjar, ólst upp á Eskifirði, tók kennarapróf og stundaði barnakennslu, m.a. um tíma á Fáskrúðsfirði, en síðan á Reykjavíkursvæðinu. Hún fór snemma að yrkja og hefur sent frá sér nokkrar ljóðabækur, sem hafa vakið athygli. Unnur er jafnvíg á hefðbundinn og óbundinn skáldskap, en flest eru ljóð hennar órímuð. (Ritfregnir í Austra, 18.7. 1991 og 9. 3. 1994, og í Glettingi 16 (1), 2006 og 20 (2), 2010).

Ingunn Snædal (f. 1971) er annar afkomandi Rannveigar, dóttir Vilhjálms á Skjöldólsstöðum og Ástu frá Teigaseli, sem er dóttir Sigurðar Þorsteinsonar og Rannveigar Sigfúsdóttur. Ingunn stundaði nám við kennaraskóla og háskóla heima og erlendis, og hefur síðasta áratug verið barnakennari við Brúarásskóla. Eftir hana liggja nokkrar ljóðabækur. Önnur bók hennar, Guðlausir menn... (2006), hlaut verðlaun kennd við Tómas Guðmundsson skáld, og náði metsölu í flokki ljóðabóka það árið. Síðan hafa komið frá henni nokkrar ljóðabækur. Ljóð Ingunnar eru öll án ríms og stuðla. Urður Snædal (f. 1981) systir Ingunnar er einnig skáldmælt, býr í Reykjavík. (sjá Huldumál 2003, bls. 328).

Margrét Sigfúsdóttir var fædd á Skjögrastöðum 27. júlí 1873 og ólst þar upp. Hún giftist Þórólfi Sigvaldasyni af Héraði. Þau bjuggu lengst af í Fáskrúðsfirði, við mikla fátækt, þar vann Margrét í fiskvinnu og annaðist sjúklinga. Þau áttu tvo syni, annar dó í æsku og Þórólfur lést 1914. Árið eftir flutti Margrét í Fljótsdal, með Jónas son sinn. Margrét dvaldi á ýmsum bæjum við barnakennslu á vetrum, en vinnukonustörf á sumrum. Síðustu áratugina átti hún heimili á Hrafnkelsstöðum. Hún lést árið 1955. Margrét var sískrifandi og yrkjandi, a.m.k. eftir að hún kom í Fljótsdal. Hún samdi margar smásögur og nokkrar lengri skáldsögur. Sumar þeirra birtust í tímaritinu Nýjum kvöldvökum og kvæði og greinar um ýmis efni birtust í ársritinu Hlín, þar sem hún ritaði undir nafninu Austfirsk kona. Auk þess hafa kvæði hennar birst í safnritunum Aldrei gleymist Austurland, 1949, og Huldumál (2003). Mesta afrek hennar á ritvellinum var þó sveitablaðið Leiftur, sem Kvenfélagið Eining stóð fyrir í 17 ár, 1934-1948, hún ritstýrði því allan tímann, handskrifaði það, og samdi mest af efninu sjálf. Til er heilt eintak af því í Héraðsskjalasafninu á Egilsstöðum .

Í Hlín eru samtals 24 ritsmíðar eftir Margréti, þar af 11 hugleiðingar eða hugvekjur, 3 sögur og ævintýri, 2 erindi, og 7 kvæði, þar á meðal kvæðaflokkur um “Víðivallasystkinin”, sem líklega er þekktasta kvæði hennar. Í Nýjum kvöldvökum birtust smásögurnar “Fórnir” (1950), “Eygló” (1951), og lengri saga sem heitir “Valgerður” (1952-53). Sögurnar “Bókin” og “Læknirinn” birtust aðeins í Leiftri. Þorsteinn M. Jónsson frá Útnyrðingsstöðum, skólastjóri á Akureyri, gaf út mánaðarritið Nýjar kvöldvökur, 1907-195?, og ritstýrði því, ásamt Jónasi frá Hrafnagili o.fl., en Þorsteinn var frændi Skjögrastaðafólks. Ritstjóri Hlínar var Halldóra Bjarnadóttir, skólastjóri á Akureyri og síðar Blönduósi.

Óprentuð handrit Margrétar voru geymd hjá Guðrúnu M. Kjerúlf frá Hrafnkelsstöðum, en voru sett á Héraðsskjalasafnið um 1990, og afrit tekið til geymslu hjá ritara þessarar bókar. Þetta eru 8 bækur, aðallega með kvæðum, mest af þeim er óbirt. (Guðrún M. Kjerúlf: Um Margrét í jólablaði Austra 1987. Sjá einnig Æfisögu Þorsteins Kjarvals, bls. 60, um kvæðið Víðivallasystkinin).

Jónas Þórólfsson, sonur Margrétar veiktist af berklum 1918 og fór á Vífilsstaðahæli um tvitugt. Hann orti mikið á hælinu á árunum 1922-23 , og eru ljóðahandrit hans í 3 bókum í Héraðsskjalasafni, Eg. Mest eru það lausavísur en líka allmörg kvæði, sem bera vitni um ótrúlega þroskaða skáldgáfu miðið við aldur. Ekkert af kvæðum hans hefur birst, svo mér sé kunnugt. Jónas mun hafa andast á Vífilsstöðum 1924.

Þuríður Sigfúsdóttir var hagmælt eins og systur hennar. Hún giftist Gísla Benediktssyni, bróður Halldórs bónda á Klaustri, og bjuggu þeir bræður þar saman um tíma, en síðan fluttu þau Gísli og Þuríður í Mela. Einkasonur þeirra var Benedikt, drukknaði ungur, er hann var á Hvítárbakkaskóla. Til eru fáeinar vísur eftir Þuríði, m.a. í kvenfélagsblaðinu Leiftri. Hins vegar ritaði hún dagbók, eins og Guðfinna síðar, sem nær yfir um 15 ár, og geymd er í handriti á Héraðsskjalasafni, Eg.

Kristrún Sigfúsdóttir (1881-1943), yngsta systirin frá Skjögrastöðum, giftist Sigurði Stefánssyni á Búðum í Fáskrúðsfirði, munu þau hafa búið þar og eignast fimm börn. Aðeins er vitað um eitt kvæði eftir hana, sem kallast “Fimmtug” og hún yrkir um ævi sína, birt í Huldumál – hugverk austfirskra kvenna, 2003. Eitt af börnum þeirra er Sigrún Sigurðardóttir (1915-1999), sem lengi var kennari á Fáskrúðsfirði og víðar, hún á líka fáein ljóð í bókinni Huldumál.

Jóhannes Guðjón Jónasson var fæddur á Höfðabrekku í Mýrdal 1862, en fór um fermingu með móður sinni, Ingibjörgu Þórðardóttur prests á Felli í Mýrdal, austur í Valþjófsstað, til Lárusar Halldórssonar prests, var síðan á ýmsum bæjum á Völlum, en kom aftur í Fljótsdal, gerðist vinnumaður hjá Jónasi lækni á Brekku skömmu eftir aldamótin og var þá orðinn fjölskyldumaður. Kona hans var Jónína Jónsdóttir af Völlum. Árið 1912 fengu þau Skjögrastaði til ábúðar og bjuggu þar til 1921, og við þann bæ var Jóhannes oftast kenndur. Þau hjón áttu sex börn er upp komust, en Jóhannes tvö að auki fyrir giftingu. Jóhannes lést 1928, hann var prýðilega hagmæltur, og liggja eftir hann allmörg kvæði og vísur í handriti, auk þess sem ýmsir kunnu, en mjög fátt hefur birst á prenti eftir hann. Sonarsonur hans, Jóhannes Jóhannsson, Eg., geymir handritið. (Stefán Einarsson: Austfirsk skáld og rithöfundar, 1964:192-196).