Skip to main content
24 February, 2022
# Topics

Snæfell "Silfri krýnda Héraðsdís"

24 February, 2022

"SILFRI KRÝNDA HÉRAÐSDÍS"

Fyrri hluti (“Silfri krýnda Héraðsdís – Snæfell í þjóðtrú og skáldskap”) birtur í jólablaði Austra 1991, bls. 6-9. Aftur, umskrifaður (“Fjalltívinn í Snæfelli”) í Glettingi 13 (1), 2003, bls. 39-41.
Seinni hluti (“Fjallgöngur á Snæfell fyrr á tíð”) birtist í tímaritinu Jökli nr. 42 / 1992, bls. 65-72.
/ H.Hg., 12. 7. 1993.)

 

Um Snæfell í máli og myndum og næsta umhverfi þess.
(Hugsanlega efni í bók um Snæfell).

 

Snæfell skín í suðri sælu:
Silfri krýnda héraðsdís,
frá þér holla finn ég kælu,
fagurlega djásn þitt rís.
Heilsa bað þér bróðir svás,
Bárður hvíti, Snæfellsás.
Hann á vestra hrós og lotning,
hér ert þú hin ríka drottning.

M. J.

Inngangur
Þegar festa skal orð á blað um Snæfell, liggur við að manni fallist hendur. Svo hátignarleg er ímynd þess í hugum okkar Héraðsbúa, svo glæst og hafin yfir raunveruleikann, að manni finnst eins og ekkert sé um þetta fjall að segja, a.m.k. ekkert sem hæfir tign þess og veldi. Það er í rauninni ólýsanlegt eins og sjálfur guðdómurinn, enda felur það í sér drjúgan part af eðli hans. Það tengir saman himin og jörð. Þó það sé gert af jarðefnum er það meira í ætt við himininn, eins og það birtist okkur. Kannske verður því best lýst með orðum Kiljans úr upphafi 4. bókar Heimsljóss (Fegurð himinsins):

"Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu."

Varla mun nokkurt fjall á Íslandi bera jafn mikið höfuð og herðar yfir svo víðlenda byggð, sem Snæfell yfir Fljótsdalshérað. Það er hér sannarlega "Fjallið eina". Það er þannig sett, fyrir suðvesturstafni Héraðs, að ekki verður betra hásæti fundið fyrir "Héraðsdís" eða drottningu Héraðsins. Þessi fjalladrottning hefur líka sína hirð: hnjúkana, sem eru um 20 talsins. Þeir girða fjallið í hálfhring, og myndu sumir vera taldir stæðileg fjöll, ef þeir væru ekki í nábýli við risann.

Þegar heiðskýrt er kringum Snæfell, birtist tindurinn silfurhvítur við himinblámann. Í ljósaskiptunum sveipast hann oft fjólubláu mistri, sem gerir hann ójarðneskan og upphafinn. Fegurst er þetta þó í skammdeginu, þegar sólin sest í grennd við fellið og himininn verður sem eldsglóð eða skíragull. Þá getur Snæfell orðið eins og viti, er stafar geislaflóði út yfir Héraðið. Máske birtist hin ójarðneska fegurð fellsins þó aldrei eins skýrt eins og í glaða tunglsljósi á vetrum, þegar landið er snævi þakið og Fljótið ísi lagt. Þá yrði enginn undrandi þótt álfadrottningin birtist og heilsaði honum eins og í kvæði þeirra Heines og Jónasar (Stóð ég úti í tunglsljósi).

Eins og Olympstindur er toppur Snæfells þó oft hulinn skýjahettu, er vindar háloftsins bægja í ýmsar áttir, teygja og toga í alls konar myndir og litaskraut. Þannig hefur það verið þegar Sigfús á Skjögrastöðum var á ferð yfir Fljótsdalsheiði, með Rannveigu dóttur sinni og kvað:

Snæfells tindinn há hreina,
himinlindar gylltir binda.

Og stelpan svaraði að bragði:

Hans er strindi, höldar meina,
hversdagsyndi sunnan vinda.

 

SNÆFELL Í TRÚ OG HJÁTRÚ

Goðahelgi á Snæfelli.

Varla er vafi á því að hinir fornu Héraðsbúar hafi bundið einhvern átrúnað við Snæfell, því að fjalladýrkun var alltíð í heiðnum sið. Við getum rétt ímyndað okkur þá ægifegurð sem birtist hinum fyrstu landnámsmönnum, er þeir komu neðan af fjörðum og litu yfir Héraðið, skógi skrýtt og vatnaspeglum, og þessi silfurhvíti tindur blasti við, kórónaður gullnum skýjum í nónstað. Hvað ætli þeim hafi dottið í hug nema sá "helgi áss", sjálfur þrumuguðinn Þór, akandi í gullreið sinni með höfrunum fyrir.

Skyldi það vera nokkur tilviljun, að eyjaflæmið suðaustan við Snæfell, eitthvert fegursta flæðiland á Íslandi, hefur frá fornu fari nefnst Þóriseyjar, og eitt stærsta fellið í hirð Snæfells er kallað Hafursfell.

Hafrar Öku-Þórs voru tveir, og hafi menn líkt Hafursfelli við annan þeirra, þá hafa Nálhúshnjúkar staðið fyrir hinn. Þar eru stórir móbergsdrangar (nálhúsin), sem geta verið hornin á hafrinum. Nú er meira að segja hamarinn Mjölnir kominn á sinn stað, því að vestan í Snæfelli rís þverhnípishamar mikill hátt uppi í fjallinu, sem farið er að kalla Hamar eða Hamarinn.

Ýmis goðahelginöfn má finna í grenndinni. Þórfell er á heiðarbrún fyrir ofan Egilsstaði, Þórisstaðakvísl við Þrælaháls og fornbýlið Þórisstaðir í Hrafnkelsdal. Ennfremur Ragnaborg, á Múlanum andspænis Laugafelli. Auðvitað gátu þessi örnefni verið dregin af mannsnafninu Þórir, en það verður að teljast fremur ólíklegt, því það hefur aldrei verið títt á Austurlandi. (Á hinn bóginn var tíska á seinni öldum, að breyta fornum örnefnum þannig að þau virtust vera dregin af mannanöfnum).

Þegar Sveinn Pálsson kemur í Fljótsdal árið 1794, eimir enn eftir af hinni fornu goðahelgi Snæfells. Sveinn ritar:

"Þau munnmæli loða við fjall þetta - eins og mörg önnur - að enginn megi ganga upp á það, og sé útaf brugðið, verði slíkri ofdirfsku jafnan refsað með illviðri."

Svipuð hjátrú var t.d. á Snæfellsjökli, Heklu og Herðubreið, en varla á mörgum fjöllum öðrum, þótt Sveinn taki svo til orða. (Kannske er það vottur um forna helgi fjallsins, að Snæfell er sjaldan nefnt sínu rétta nafni í Fljótsdal, heldur oftast Fellið, Hnjúkurinn eða Tindurinn).

Fjallvætturinn.
Skyggn kona, Erla Stefánsdóttir, úr Reykjavík, segir að í Snæfelli búi voldugur fjallvættur (fjalltívi), sem sjáist greinilega við vissar aðstæður. Hann líkist einna mest strók af eldi eða vatni, eða jafnvel tré, en í honum má líka greina ýmsar myndir svo sem blóm eða andlit. Hann gnæfir stundum hátt yfir fjallið, (líklega allt að 500 m), sést jafnvel koma upp úr skýjahulunni. Hún segir hvíta, gyllta og bláa liti eða ljóstóna vera mest áberandi í þessari undurfögru mynd, sem varla verður lýst nema með teikningu.
Hugsanlega eru það segulkraftlínur fjallsins, sem Erla greinir á þennan hátt

Snæfell í þjóðtrúnni.

Í þjóðtrúnni hefur Snæfell og umhverfi þess orðið þekktast fyrir útilegumannasögur. Í hugarheimi Fljótsdælinga og annara Héraðsbúa, fyrr á öldum, voru þar "huldir dalir", með góðum landkostum, jafnvel heilar byggðir með sýslumönnum.

Þessi trú var enn í fullu gildi fram um miðja 19. öldina, eins og sjá má af ritdeilu er átti sér stað í landsmálablöðum á árunum 1862-65, þar sem þeir Björn Gunnlaugsson stjörnufræðingur og landmælingamaður og Sigurður Gunnarsson próf. á Hallormsstað færðu rök fyrir því að útilegumannatrúin væri hégilja, en séra Hákon Espólín á Kolfreyjustað ritaði grein til varnar henni.                                                                                                 (Sjá bókina Hrakningar og heiðavegir I, Akureyri 1950, bls. 245-269).

Maríutungur
Þetta var stutt með örnefnum eins og Maríutungur, en svo nefnist krikinn milli skriðjöklanna miklu, Brúarjökuls og Eyjabakkajökuls, sem Valþjófsstaðakirkja eignaðist snemma á öldum, og draga líklega nafn af því.

Er talið að þar hafi fyrrum verið gróðursælt land. Til merkis um það er ákvæði í gömlum jarðabréfum, að Skriða í Fljótsdal fékk "hundrað lamba rekstur" í Maríutungur gegn torfskurði á 20 hesta í landi Skriðu. Sveinn Pálsson segir að þangað hafi verið farið til grasa fyrrum (Ferðabók s. 385). En náttúruöflin hafa verið seig við að eyða þessari gróðurvin, t.d. gekk Brúarjökull langt fram á Tungurnar 1890.

Maríutungur koma víða fyrir í útilegumannasögum af Héraði, og eru þá gjarnan staðsettar öðru vísi en nú telst rétt. Í Grímu segir um Tungurnar:
"Einnig lá orð á, að útilegumannabyggð væri á öræfunum inn af Hrafnkelsdal og Jökuldal. Á þeim öræfum inn við jökla, var landspilda, sem menn kölluðu Maríutungur, frjósamt land og fagurt, og þar hugðu menn að byggð útilegumanna væri. Nú eru þessar Maríutungur huldar jökli."      (Gríma hin nýja 3. bindi, s. 49).

Í Þjóðsögum Sigfúsar er þessi innskotsgrein í "Sögninni af Mjóa-Teina":
"Þar eru Vesturöræfi fyrir norðan Snæfell, að Jökulsá á Dal, en að sunnanverðu við fellið, kemur Jökulsá í Fljótsdal í mörgum kvíslum úr Vatnajökli. Milli kvíslanna heita Maríutungur. En sunnan Jökulsár í Fljótsdal liggur Múlaafréttur. Í Maríutungum slæðist oft fé eftir á haustum."
Þarna eru Maríutungur komnar austur á Þóriseyjar, og má segja að þá hafi heilög María tekið við arfleifð Ökuþórs.

"Landahringur"
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er "Sagan af Skúla bónda" skráð eftir handriti Guðbrands Erlendssonar á Fáskrúðsfirði.

Þar segir frá stúlkunni Sigríði, sem útilegumenn rændu frá Glúmsstöðum í Fljótsdal. Ári síðar lendir Skúli bóndi á Glúmsstöðum til byggða þeirra og hittir stúlkuna, sem þá er gift sýslumanni þeirra útilegumanna, og segir hún við Skúla:
"Hann er sýslumaður yfir þessum landshluta, er Landahringur heitir."

Sýslumaður hafði áður náð öllum fénaði bónda til sín, og bauð honum nú að koma og setjast að í sínum byggðum, sem bóndi þáði með þökkum, enda voru þar mun betri landkostir en í Fljótsdal.

Þannig voru útilegumannabyggðirnar sérstakur heimur, sem ekki hlítti reglum íslenskrar veðráttu eða staðhátta, enda var oft stutt milli hans og álfheims eða heims jarðbúa í þjóðsögunum, eins og eftirfrandi saga sýnir:

Eitt sinn var Sögu-Guðmundur á Bessastöðum í eftirleitum undir Fellum, ásamt fleirum, og lögðust þeir til svefns í Maríutungum, en Gvendur vakti. Sá hann þá "karl og kerlingu ganga út úr einum melhólnum" og stefna að þeim. "En þau urðu þess vör að ég vakti og stönzuðu, og sneru svo inn í sitt inni aftur." Þá kom í ljós að einn félaga Gvendar hafði dreymt það sama.
"Allir þeir félagar trúðu að þeim nöfnum hefði birst þetta í vöku og svefni, og að karlinn og kerlingin hefðu verið útilegumenn, eða öllu heldur álfar eða aðrir jarðbúar. Fóru þeir þaðan hið bráðasta." (Þjóðsögur Sigfúsar XI, 291).                                                                                                                                   Hér má einnig geta þess, að í Hálskofa, austan undir Snæfelli, hafa menn oft orðið varir við "reimleika", án þess að á því hafi fengist nein viðhlýtandi skýring. Kannske eru "jarðbúarnir" þar enn að verki.

"Dýrt er drottins orðið."
Sagan af Snæfellsþjófunum er skráð af Sigfúsi Sigfússyni og birt í þjóðsögum hans XII. bindi s. 17-21, eftir Jóni Pálssyni (blinda) í Víðivallagerði og Bergljótu Sigurðardóttur á Skeggjastöðum (langömmu minni). "Leikur sagan mjög á ýmsum tungum", segir Sigfús, og dregur dám af Hellismanna sögu. Annars virðist hún til þess ætluð, að skýra þjófa-örnefnin við Snæfell og ýmis örnefni í Fljótsdal, svo sem bæjarnafnið Valþjófsstaður.

Söguþráðurinn er þannig í stuttu máli: Á dögum Svarthöfða prests á Valþjófsstað lögðust 18 þjófar út, og bjuggu um sig í helli undir fossi í Þjófadalsá (nú Þjófagilsá), sem kemur úr Þjófadal sunnanvert við Snæfell, milli þess og Þjófahnjúka. Þaðan lögðust þeir á fénað Fljótsdælinga, og fóru ránsferðir út um Hérað.

Fjórir eru nafngreindir, er þóttu verstir viðureignar: Galti, Valur, Valþjófur og Valnastakkur, en hann var svo nefndur af því hann gekk í brynju úr sauðarvölum. "Með tímanum gerðu þeir sér skála við ána í Þjófadal. Var hann grafinn djúpt í jörðu og markar þar enn fyrir grunnlagi hans."

Nú segir af því, að Fljótsdælum fannst nærri sér höggvið, og skutu á fundi um málið. Þar bauð sonur Svarthöfða sig fram til að heimsækja ræningja og koma þeim í hendur byggðamanna. Fréttist stuttu seinna, að hann hefði framið glæp og væri horfinn.

En það er af prestssyni að segja, að hann lagði leið sína inn í Þjófadal, hitti þá útilegumenn, og sagði sínar farir ekki sléttar. Tóku þeir við honum eftir miklar fortölur, og eftir nokkur ár var hann orðinn sem einn af þeim. Tók hann þá að ámálga við þá, að fara niður í dalinn og ræna sér konum, og lagði á ráðin um aðferðina. Kvað best að taka þær við messu í Valþjófsstaðakirkju, þegar byggðamenn yggðu ekki að sér.

Var afráðið að reyna þetta um hvítasunnuna. Prestsson kom boðum til heimamanna, með því að binda spjald við hornin á forustusauð föður síns. Höfðu Fljótsdælir mikinn viðbúnað. Sátu karlar fremst í kirkjunni, alvopnaðir, dulbúnir sem konur, en konur allar í kór.

Koma nú ræningjar að kirkjunni og ráðgast um. Sýndist þeim lítils við þurfa og skildu vopn sín eftir úti og báðu prestsson gæta þeirra. En þegar í kirkjuna kom urðu heldur betur viðbrigði. Tókst nú bardagi, sem endaði með að ræningjar voru allir felldir. Sumir voru eltir uppi og drepnir þar sem viðeigandi örnefni segja til.
"Sannaðist á þeim, ef sagan er sönn, að " dýrt er Drottins orðið,"" segir Gunnar Gunnarsson. (Árbók F.Í. 1944, 89).                                                                       Leiði þeirra voru til sýnis á Valþjófsstað allt fram á miðja þessa öld, kölluð Þjófaleiði eða Þrælaleiði, en voru þá sléttuð, illu heilli.

Spáð í veður á Snæfelli
Frá alda öðli hafa Héraðsbúar nýtt sér Snæfell til þess að spá um veður fyrir næsta dag eða daga. Ef heiðskírt var við Snæfell og tindurinn skýjalaus að kvöldi, þótti það víst merki um landátt og þurrk á sumrum, daginn eftir. Tæki fjallið hins vegar á sig þokuhettu að kvöldi, þótt allt væri glansbjart annarsstaðar, mátti búast við rysju á næstunni.

Á þeim bæjum sem ekki sást til Snæfells, urðu menn að láta sér lynda aðrar aðferðir, en heyrt hefi ég þess getið, að menn hafi þar stundum verið sendir langar leiðir, til að sjá hvernig viðraði á fellinu.

Í Fljótsdal sést Snæfell ekki frá bæjum á Norðurbyggðinni. Er sagt að þá hafi Norðurbyggjar hagað heybreiðslum sínum eftir því hvernig Austurbyggjar gerðu, því að þeir sáu til fjallsins. Eftir að sími kom í sveitina var stundum hringt á milli byggðanna, til að fá úrskurð um veðurlagið, og mun ekki trútt um að sumir eldri menn hafi tekið meira mark á þessum spám en hinni opinberu veðurspá útvarpsins.

Vegna þess hve Snæfell er hátt og stakt, er veðurlag fjallsins mjög sérstakt. Þokuhetta getur myndast á tindinum án nokkurs fyrirvara jafnvel í heiðskíru veðri. Mun það helst gerast um miðjan daginn, þegar uppstreymi er mest meðfram hlíðum fjallsins. Loftið sem stígur upp kólnar þá mjög ört, og getur verið ótrúlega mikill hitamunur á tindinum og landinu umhverfis, jafnvel allt að 15 gráðum. Þetta hafa ýmsir Snæfellsfarar sannreynt.

Oft eru líka veðraskil um Snæfellsfjallgarðinn, t.d. í suðaustanátt. Þá getur verið hvasst og úrhellisrigning við fjallið, en lygnt og bjart á Vesturöræfum. Það gustar oft mikið um Snæfell, og hefur margur ferðalangurinn fengið að kenna á hvassviðrinu þar.

SNÆFELL Í SKÁLDSKAP OG LISTUM

Í upphafi þessara skrifa var minnst á nokkrar vísur um Snæfell, en það hefur að vonum orðið mörgu skáldinu yrkisefni, og skal þess freistað að geta þess helsta hér.

Fyrst skal þá frægan telja Matthías Jochumsson, þjóðskáldið alkunna. Þann 5. ágúst árið 1900, reið Matthías í góðra vina hópi frá Seyðisfirði upp á Hérað, sem hann leit þá í fyrsta sinn sínum jarðneskum augum. Og andagift skáldsins lætur ekki á sér standa:

Hugfanginn heldur ég stóð,
og hljóðlega baðst ég svo fyrir:
"Lof sé þeim lífið mér gaf:
Loks sé ég Fljótshéraðs sveit!
Gef mér nú goðborna dís,
nei gefðu mér Appolló-Bragi,
himneska hressingarskál,
hefja skal lofgjörðarmál!

Þetta er ein vísan í kvæðinu "Á Fjarðarheiði", sem er eins konar gamansamur inngangur að öðru kvæði, sem heitir "Fljótsdalshérað", en úr því er vísan sem tilfærð er í upphafi greinar. Í báðum þessum kvæðum lætur skáldið gamminn geisa. Það er eins og það ráði sér ekki fyrir fögnuði og galsa, og því varð hér ekki til neitt fullkomið listaverk, eins og t.d. "Skín við sólu Skagafjörður", en margt er þar gullkornið engu að síður.

Eyjólfur Jónasson Melan, sem víða var prestur í Íslendingabyggðum í Norður-Ameríku, fæddur á Sléttu í Reyðarfirði 1890, orti kvæði er nefnist "Kveld á Rauðshaugi", er birtist í Heimskringlu 1934 og er endurprentað í Múlaþingi 9 (1977). Rauðshaugur er uppi á hálsinum ofan við Kollsstaðgerði, og mun varla til betri útsýnisstaður fyrir Snæfell og innanvert Hérað. Ég tek hér upp fyrri hluta kvæðisins:

Lagarfljót dreymir í djúpbláum ál,
deyjandi sólmóðu kafið,
skyggnt eins og blóðrefils blikandi stál,
blæhlýju grænsilki vafið.

Víðfeðmin skugganna teygja sig tröll
og taka yfir víkur og granda,
á meðan hin dulu og dimmbláu fjöll
djúpúðug hugsandi standa.

Sem konungur upp yfir ásana rís,
með ennið í heiðinu bláa,
grænmöttlað, hlaðbúið eilífum ís,
einsamla Snæfellið háa.

Líkt seinustu hetjunni úr hjörvanna leik,
sem horfir um kveldið á valinn.
Það lítur, er sólskíman líður þar bleik,
yfir Lagarfljót, ásana og dalinn.

Annar Vestur-Íslendingur, Runólfur Runólfsson frá Snjóholti, lýsir Snæfelli þannig í kvæðinu "Fljótsdalshérað." (Lesb. Mbl. 1. árg., 28.11.1926).

 Vesturhlíð í hálfa gátt,
hvítan ber þar jökulskalla.
Snæfell teygir tindinn hátt,
tignarlega í loftið blátt.
Dísir leika og dansa kátt,
drungalega um hamrastalla.
Vesturhlíð í hálfa gátt,
heyrist ómur upp til fjalla.

Margrét Sigfúsdóttir frá Skjögrastöðum, átti heima á Hrafnkelsstöðum síðari hluta ævinnar, en þaðan blasir Snæfell við sjónum. Henni verður Snæfellið ímynd rósemi, festu og stöðugleika í fallvöltum heimi, er hún kveður:

Árla ég töfrandi, margoft sé mynd,
magnþrunginn, sólglæstan Snæfellsins tind,
horfa með ró yfir Héraðið breitt,
hátign og festu hans skerðir ei neitt.

Hvenær sem lít ég þitt hátignar skraut,
heiðbláa ljóma við stjarnanna braut,
hugur minn fagnar, því fegurðarþrá,
finn ég það svala að horfa þig á.

Margt er í óvissu mönnunum hjá,
margs konar breyting á ýmsu má sjá.
Þó eitt er ég viss um, og það er nú það,
að þú hverfur aldrei, né flytur úr stað.

Systurdóttir Margrétar, Guðný Þorsteinsdóttir, er lengst átti heima á Borgarfirði eystra kveður svo í fjarlægðinni:

Snæfellið er þar fegurst fjalla,
faldar það hvítu alla tíma.
Tignin þess býr í tindi bröttum,
tindrar er eygló faldinn gyllir.
Það er sem kóngur kærra fjalla,
kátur sem lítur yfir ríkið,
biður þess vel að vættir allar
vaki yfir dalnum alla tíma.

Jóhannes Jónasson frá Skjögrastöðum kveður um fjallið í kvæðinu "Vormorgunn á Þúfu":

Að líta yfir Fljótsdals fögru hlíðar,
og fellið, er sér tekur nafn af snæ,
það er mér yndi ætíð, fyrr og síðar,,
því aldrei fegri sjón ég litið fæ.
Og helst í faðm hins hýra morgunroða,
er hugur fyllist leiðslukenndri þrá.
Mig langar ennþá eitthvað fleira að skoða,
þó ávallt nóg sé hérna til að sjá.

Í bændaför árið 1964 orti Ármann Dalmannsson skógarvörður á Akureyri (ættaður úr Borgarfirði vestra) kvæðið "Morgunstund við Lagarfljót", en þar eru m.a eftirfarandi vísur:

Ég sá í Fljótinu svipi fjalla og dala.
Það sýndi mér Héraðsins fegurð í myndaröðum.
Og jafnframt heyrði ég læki og lindir hjala,
og las um sumarsins dýrð á skógarins blöðum.

Snæfell í spegli sem konung síns héraðs það kynnti
með kórónu úr snæ á höfði og litklæði á síðu.
Já Fljótið það heillaði hugann og á það minnti,
hve himinn og jörð eiga mikið af fegurð og blíðu.

Sigurður Baldvinsson frá Stakkahlíð, ávarpaði Guttorm J. Guttormsson með tilþrifamiklu kvæði á sjötugsafmæli hans 1948, er birtist í Tímanum 10. des. það ár. Þar samsamar höfundur Snæfellið Fjallkonumyndinni og lætur hana skarta við heimkomu skáldsins:

Himinstilling heilög var.
Horfðu sól og stjörnurnar,
með þér á móðurgrund.
Mikil og dýrðleg stund!
Snæfellið bláhvítt og bjart,
bar nú sitt fegursta skart,
rétti þér trölltrygga mund.

Sástu af regin sjónarhól,
saumaðan gulli mjallarkjól,
bjartan Fjallkonufald,
felldan við skaut og hald.
Drottningin dýrðleg og há,
djúpúðgi mótuð á brá,
tignin og vorbjarmavald.

Hér að framan var getið ferðar Fljótsdælinga og Fellamanna upp á Snæfellstind sumarið 1880. Einn fjallgöngumanna var Þorvarður Andrésson Kjerúlf, uppalinn á Melum í Fljótsdal, þá læknir og bóndi á Ormarsstöðum í Fellum. Af þessu tilefni orti Þorvarður langt kvæði, er hann nefnir:

"Uppi á Snæfelli 1880."

Yfir firnindi og fjöll,
rennum augunum öll,
onaf Snæfellsins tröllvaxna tind.
Hér er svalari sól,
uppi á jötunheims hól,
en við niðandi laufhvamma lind.

Fegra útsýni í heim,
hefur enginn af þeim,
áður litið, er hvarfla nú hér.
Allt í svipan nú sést,
endalaus jökullest,
fornar heiðar og feigðvænur hlér.

Senn um heljarheims rann,
móður þrjár falla fram;
vatnsföll héðan vér eygjum og þrjú,
Löginn, Jökulsár tvær,
þinna landa eru þær,
vættur vor sem í fjallinu átt bú.

Undir hafgráum hnjúk,
þar býr hreggviðri og fjúk.
Kyssir kvöldsólin svellið blákalt.
Fölur máni úr mar,
skýja skýrir hann far,
fetar tómlega um himinhvolf svalt.

Ekkert lifenda lið,
hefur hér haldist við,
síðan jökull fól landvætta láð.
Tvisvar tæmum þess skál,
öll af alhug og sál.
Ei mun vænlegt að rjúfist þau ráð.

Blessist landbónda bær,
blessist sjóbónda sær,
hollt sé Íslandi hamingjuhjól.
Veri vættur vor þú,
meðan bóndi er við bú,
verndarvættur þess lands er þig ól.

Hverfum, hverfum þá heim,
heim frá öræfageim.
Hröð og sjaldgæf er hryggðarlaus stund.
Endurminningin ein,
bæta má oss það mein.
Glaðir slítum svo glaðværan fund.

Handrit þessa kvæðis er geymt í Héraðsskjalasafninu á Egilsstöðum, líklega komið frá Hrafnkelsstöðum.

(Það sem hér að ofan er ritað, birtist í grein í jólablaði Austra 1991, bls. 24-25, undir heitinu: "Silfri krýnda Héraðsdís", ásamt frásögn af Snæfellsgöngu Guðmundar Snorrasonar í næsta kafla).

Snæfell í málaralist.

Það er vissulega ekki að undra þótt Snæfell hafi orðið austfirskum listmálurum viðfangsefni, svo tignarlegt sem það er, litauðugt og hafið yfir raunveruleikann. Það er sagt að málari nokkur í Japan hafi málað eða teiknað hið heilaga fjall Fujii eitthvað um 4 þúsund sinnum, og sýnir það best hvað málarar geta hrifist af slíku viðfangsefni.

Enginn hygg ég að hafi málað Snæfell oftar en Steinþór Eiríksson á Egilsstöðum, og munu myndir hans af fjallinu skipta nokkrum tugum. Þar er fjallið séð undir ýmsum sjónarhornum, á ýmsum árstímum og við margvíslegar aðstæður birtu og sklýjafars. Flestar sýna þær samt fjallið utan af Héraðinu, oftast úr Skógum eða af Vallaneshálsi, þar sem það blasir sérstaklega vel við, og Lagarfljót myndar forgrunninn.

Eitt elsta og stærsta olíumálverk Steinþórs er einmitt af Snæfelli og Fljótsdal frá þessu sjónarhorni, og prýðir það stofu þeirra hjóna á Egilsstöðum. Það mun vera málað kringum 1955-60(?). Steinþór segist að vísu hafa hrifist meira af Dyrfjöllunum, og málað þau oftar, enda blöstu þau við sjónum á æskuheimili hans í Hjaltastaðaþinghá. Þar sé þó ólíku saman að jafna, Snæfelli og Dyrfjöllum. Dyrfjöllin eru ægifögur en jafnframt hrikaleg og jafnvel tröllsleg. Snæfellið upphafið og tígullegt, með sínum mildu litum og bogadregnu, kvenlegu línum.

Snæfellið hefur verið Steinþóri stöðug uppspretta nýrra listaverka, og segist hann aldrei verða þreyttur af að mála það. Í hverri nýrri mynd af fjallinu lýsir hann því frá nýju sjónarmiði og reynir að túlka eigindir þess og eðli á nýjan hátt. Þannig er listin.

Helga Sigurðardóttir listmálari á (Gömlu) Egilsstöðum, sem hefur fjallið daglega fyrir augunum, segist skynja í því mikla fegurð og guðlega tign, en hefur aldrei málað mynd af því, nema þá óbeint, enda leggur hún ekki fyrir sig landslagsmálverk. Þó hún hafi ætlað að mála það, hefur komið eitthvað annað út á myndinni, segir hún. Má samt skilja, að fjallið sé henni aflvaki á sviði málaralistar, ekki síður en landslagsmálaranum Steinþóri.

FJALLGÖNGUR Á SNÆFELL FYRR Á TÍÐ

Fyrsta tilraun til uppgöngu

Talið er að það hafi verið Sveinn Pálsson læknir og náttúrufræðingur, sem fyrstur manna reyndi að ganga á Snæfellstind, 1794. Er söguleg frásögn af þeirri fjallgöngu í Ferðabók hans, 1. útg. bls. 382.

Fylgdarmenn Sveins inn að Snæfelli voru tveir Fljótsdælingar, þeir Guttormur Pálsson, prests á Valþjófsstað, Magnússonar , síðar prófastur í Vallanesi, og Pétur Brynjólfsson læknis á Brekku. Þeir voru þá ungir og efnilegir menn um tvítugt. Átti Guttormur heima á Arnheiðarstöðum, en Pétur á Brekku.

Pétur hafði fyrr um sumarið unnið það afrek af "finna Vatnajökulsveg" þ.e. færa reiðleið úr Fljótsdal eða Jökuldal til Suðurlands, og fékk fyrir það verðlaun stjórnvalda. Hann mun þá hafa verið manna kunnugastur þarna á öræfunum. Hins vegar var Guttormur vel að sér í grasafræði, segir Sveinn.

Þeir félagar fóru inn Norðurdal "þangað til að ekki verður lengra komizt, vegna kletta og hamrafluga."(!) Þá fóru þeir upp á fjallið og komust um kvöldið inn á Snæfellsnes og tjölduðu þar. Var þá komin sunnan átt og ský niður í miðjar hlíðar á Snæfelli.

Morguninn eftir var orðið strekkingshvasst (líklega af NV?), og komið skúraveður með slyddu á Snæfelli. Samt lögðu þeir félagar til uppgöngu á norðausturöxl fjallsins, og komust með herkjum upp að "jökulsnjónum". Síðan segir í dagbók Sveins:
"En nú komst óveðrið í algleyming. Rokið sem var svo mikið, að það reif freðinn skara af snjónum og þeytti honum framan í okkur, ásamt snjógusum og haglhryðjum annað slagið, lagðist á eitt með bratta fjallsins og hálkunni á jökulsnjónum, til að banna okkur uppgönguna. Loks fengum við komist upp á fyrsta hjallann norðan í fjallinu, og fengum við síðar vitneskju um, að það mundi (varlega áætlað) nema þriðjungi af allri hæð fjallsins. Þegar hér var komið var með öllu óhugsandi að komast hærra, ekki svo mjög vegna þokunnar, er náði alveg niður til okkar, heldur veðurofsans, sem var svo harður, að við urðum að grafa okkur holu til að liggja í, svo við skyldum ekki kútveltast niður hlíðina, auk þess að hann svipti af mér nýrri baðmullarnátthúfu (því að höttunum okkar urðum við að halda á í höndunum)."

Það verður ekki sagt, að fjallvætturinn hafi veitt þessum fyrstu ferðalöngum neitt sérlega blíðar móttökur. Það vantar bara þrumur og eldingar til að ímynd þrumuguðsins sé fullkomnuð. Sveinn játar sig sigraðan, er hann ritar:
"Veðrið fór síversnandi, svo við urðum að snúa aftur til tjaldsins, og gefa jafnframt upp alla von um að ná takmarkinu frekar en orðið var, þar sem við höfðum ekki nesti nema til tveggja daga. Snæfell er því fyrsta fjallið, sem ég hef ásett mér að ganga á, en orðið frá að hverfa."

Þrátt fyrir þetta telur Sveinn sig "góðu bættan af förinni og fjallgöngunni, svo langt sem hún náði." Hann bar með sér loftvog og mældi loftþrýsting bæði við fjallsrætur og þangað sem þeir komust í fjallinu. Eftir því áætlaði hann að Snæfell væri 6600 dönsk fet eða um 2080 m og því hæsta fjall landsins "þangað til annað sannast." Um eðli fjallsins og jarðsögu segir hann:
"Í lausagrjótinu, sem er mjög svipað hér og á Heklu, eru mest megnis skorpusteinar, móberg (tuffa) og rauðir, litlir gjallsteinar, en auk þess dálítið af hraunkleprum... Sýnir það og sannar, ásamt hinni keilumynduðu lögun, að Snæfell er eldfjall. En hversu ævafornt hlýtur það ekki að vera, þar sem engin hraun eru í grennd við það í margra mílna fjarlægð? Hljóta þau vissulega að vera með öllu sokkin í jörð og að nokkru leyti molnuð í sundur. Væntanlega er þetta forna eldfjall í hópi þeirra sem hafa spúið fyrir þá tíð, er núverandi þurrlendi reis úr sænum. Allur efsti þriðjungur Snæfells er jökli hulinn, og skaga þaðan margir smá-falljöklar niður eftir hlíðunum. Athugaði ég einkum tvo þeirra, í N- og NNA-hlíðunum og sá hvernig þeir höfðu ekið lausagrjótinu fram fyrir sig, en höfðu nú hörfað dálítið til baka. Enn fremur tók ég þarna eftir einum hætti slíkra jökla til að auka á sig, en um það hef ég skrifað í jöklariti mínu."

Þá segist Sveinn hafa séð allvel til jöklanna í suðvestri, og gert teikningu af þeim, er bendir til að hann hafi komist á NV-öxlina, en teikningin virðist þó fremur vera gerð af hnjúkunum norðan við fjallið. Hann tekur síðan upp lýsingu Péturs Brynjólfssonar á austur- og norðausturbrún Vatnajökuls og öræfunum þar fyrir norðan og austan, sem er gagnmerk og fróðleg, og segist nú átta sig betur á henni eftir ferðina.

 

"Þar fannst mér mikið tignarlegur staður."

Á seinni helmingi 19. aldar var mikil menningarleg vakning og framfarasókn í Fljótsdal, svo að slíks eru fá dæmi annarsstaðar á landinu. Eflaust hafa Fljótsdælingar þá getað tekið undir með Stefáni frá Hvítadal, er hann orti:

Langt til veggja heiðið hátt.
Hugann eggja bröttu sporin.
Hefði ég tveggja manna mátt
mundi ég leggjast út á vorin.

Þeim hefur sjálfsagt líka verið mikið í mun, að fá það staðfest, sem Sveinn Pálsson hélt fram, að Snæfell væri hæsta fjall landsins. Samkvæmt tiltækum heimildum var það Fljótsdælingurinn Guðmundur Snorrason, er þá átti heima í Bessastaðagerði, sem fyrstur varð til að klífa Snæfellstind 1877. Ritaði hann stutta frásögu af ferðinni í blaðið Skuld á Eskifirði, 1. árgang (12-13), 3. nóv. 1877, sem hér fer á eftir:

"Uppi á Snæfelli. Herra ritstjóri! - Þann 13. Ágúst byrjaði ég ferð mína inn undir Snæfell, í þeirri von að ég mundi komast upp á það.- Kl. 10 f. m. fór ég frá insta bæ í Fljótsdal; kl. 6 e. m. var ég kominn inn undir Snæfell, og kl. 8 1/4 var ég kominn upp á hæsta koll á því; það fanst mér mikið tignarlegur staður. Þar reisti ég upp stöng með íslenzku flaggi á. Hvergi var þoka eða skýhnoðri á loftinu, svo að sjá mátti yfir alla Norður-Múlasýslu og Suður-Múlasýslu, afstöðu af öllu, og suður í Lón; og suður yfir Öræfajökul sást ofan á auð fjöll, sem eru á að gizka í Fljótshverfi. Þetta er ljós vottur um, að Snæfell er hærra en Öræfajökull, þar sem svona sást til fjalla yfir hann. Margir hafa fyr og síðar talað um, að dalir mundu vera í Vatnajökli. Ekki get ég alveg synjað fyrir að svo sé, heldur var inn af Maríu-tungum, hér um bil í miðjum jöklinum, dæld mikil og lá til suðrs og norðrs. Klettar voru beggja vegna við dæld þessa, en hvergi sá ég auðnu, enda var það ekki vel að marka, því kíkir hafði ég ekki; en á loftinu upp yfir honum sýndist mér sem hann væri auður. Annan dal sá ég suður af Geldingafelli; hann er mjög grunnur og líklega gróðurlítill, því snjór var undir hverri öldu í honum; jökulbrún er í báðum endum á honum. Syðri endi hans stefnir fram á Mýrar eða Suðursveit.
            Staddur á Vestdalseyri, 5. Okt. 1877.
                            Guðmundur Snorrason, frá Bessastaðagerði í Fljótsdal.

Guðmundur þessi varð síðar bóndi í Fossgerði á Jökuldal 1884-1924, greindur maður og athugull um margt, stundaði smíðar og verslun með búskapnum. Er sagt að hann flytti inn brennivín í ámum, beint frá útlöndum til Seyðisfjarðar, en þaðan heim í kútum og seldi. ("Búkolla"). Hann var eftir þetta afrek gjarnan nefndur Guðmundur Snæfellsfari. Hann var kvæntur Álfheiði Þorsteinsdóttur frá Glúmsstöðum, móðursystur Björgvins Guðmundssonar tónskálds.

Könnunarferð Fljótsdælinga 1880.

Fljótsdælingar láta þó ekki hér við sitja. Þann 22. ágúst 1880 halda 8 menn úr Fljótsdal og Fram-Fellum inn að Snæfelli, og hafa loftþyngdarmæli meðferðis " ef vera mætti að uppgönguveður fengist."

Einn þeirra var Guttormur Vigfússon frá Arnheiðarstöðum, búfræðingur frá Stend í Noregi 1877, sem ritaði ferðalýsingu birta í Norðanfara 20. árg. (1-2), 18. nóv. 1880. Veturinn eftir var hann kennari við Möðruvallaskóla, síðan í framhaldsnámi við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn, og gerðist svo fyrsti skólastjóri hins nýstofnaða búnaðarskóla að Eiðum 1882, síðar bóndi í Geitagerði og alþingismaður um árabil.

Guttormur segir ekki hverjir samferðamenn hans voru, en í dagbók Sölva Vigfússonar á Arnheiðarstöðum kemur fram, að það voru þessir menn: Þorvarður Kjerúlf læknir og bóndi á Ormarsstöðum, Jóhann Frímann Jónsson sama stað, Andrés Jörgensson Kjerúlf, faðir Þorvarðar læknis, bóndi á Melum, Brynjólfur Þórarinsson bóndi á Brekku, Ólafur Stefánsson bóndi í Hamborg, Baldvin snikkari (líklega Jóhannesson, síðar bóndi í Stakkahlíð, Loðmundarfirði), auk þeirra bræðra, Guttorms og Sölva á Arnheiðarstöðum.

Þar eð ferðasaga Guttorms er nú í fárra höndum, finnst mér rétt að birta hana hér í heilu lagi. Fyrirsögn greinarinnar í Norðanfara er: "Ferð upp á Vatnajökul", sem hlýtur að vera misprentun. Ég hef bætt millifyrirsögnum í greinina og skýringum við plöntunöfn o.fl. (Þessar skýringar eru innan hornklofa).

Ferðin upp á fjallið
- 22. ágúst riðum vjer nokkrir saman úr Fljótsdal og Fellum innundir Snæfell, og höfðum með oss loptþyngdarmælir, ef vera mætti að uppgönguveður fengist.

Að morgni hins 23. var þokukúfur á fellinu, og biðum vjer framundir hádegi, ef þokunni ljetti, því suðvestanblær og skin var hið neðra, og hvergi þokueimur það sem sást til Vatnajökuls. Er þetta hvorttveggja öruggt heiðríkjumerki hjer eystra, og því hjeldum vjer af stað, þótt þokunni ljetti eigi. Völdum vjer til uppgöngu röðul þann er veit til Hjeraðsins.

Gekk allt greiðlega þar til er vjer komum upp á falljökulsveif þá, er liggur norðan í fellinu. Var þokunni þá að vísu mestri ljett; en nú tóku við gjár og sprungur, sumar hálffullar af vatni en sumar tómar, allur jökullinn þakinn aurleðju, grjóti og fossandi smálækjum. Gekk ferðin því bæði hægt, er svo gætilega varð að fara, og krókótt, unz vjer komum efst upp í jökulkinnina, ofanvert við sveifina.

Þar komum vjer að jökulgjá, er lá þvert fyrir allri sveifinni. Var enginn kostur að komast fyrir hana, því að öðru megin lá hún fram á þverhníptan hamar, en hinu megin ofan í jökulhengi. Gjá þessi var frá 2-4 föðmum á breidd og 30-40 faðma djúp, og efri barmurinn miklu hærri en hinn neðri. Var við því búið að vjer yrðum að snúa aftur, nema ef vjer freistuðum að fara yfir á örmjórri og þunnri nýfennisbrú, er lá á einum stað yfir hana og var það ráðið. Fyrir ofan gjá þessa tóku við margar aðrar, en yfir flestar þeirra lágu gamlar jökulbrýr, er virtust traustlegri en hin fyrsta. Fyrir sumar varð gengið eða hlaupið yfir.

Nú var jökulgnúpurinn einn eftir, en áður en vjer kæmumst alla leið upp á hann, komum vjer að afar djúpri og breiðri jökulgjá, er lá á ská langt ofan í jökulinn að vestan. Urðum vjer að ganga fyrir hana, og var það hinn síðasti farartálmi.

Gjár þessar í gnúpnum hugðum vjer svo til komnar, að undir væri hamartindur, er jökullinn hefði hlaðist utan á, en er hlánaði á sumrin og vatnið sigi í gaddinn, spryngi jökullinn frá hamrastöllunum. Virtist oss gjá þessi öllu dýpst af þeim, er vjer sáum í fellinu og mikilfenglegust.

Það var stundu fyrir nón, er vjer komum upp. Var þar köld suðvestan kylja, enda fraus á pollum í jöklinum þegar um nónbil, en undir fellinu er vjer komum ofan um miðaftansbil, var þó enn hlýr vindur og lofthiti mikill (12 °C.). Eptir stöðu loftþyngdarmælisins vorum vjer nú hjer um bil 6,400 fet [ = 2006 m] yfir sjávarmáli, en undir fellinu 2,600 fet [= 873 m].

Útsýni af tindinum
Útsýni þaðan er afar vítt og tröllslegt. Allur Vatnajökull, vestan fyrir Kistufell að norðan og Öræfajökul að sunnan, lá sem undir fótum vorum. Taka hvergi fjöll eða tindar upp úr honum, nema til brúnanna.

Fyrir austan Kverkfjöll að norðan og Öræfajökul að sunnan, myndast lægð í jökulinn, er nær alla leið að suðvestan og norðaustur undir Snæfell. Má hjer fyrir því hafa verið mikið hjerað (Breiðamerkurhjerað) til forna, að jökullinn er mjög lágur, enda taka hvergi fjöll upp úr honum, nema Breiðamerkurfjall og lítið fell suður af Snæfelli, norðan til í jöklinum, sem þó sjaldan mun autt. Má skoða dæld þessa sem áframhald af Fljótsdalshjeraði, þótt falljökull sje nú búinn að fylla hana í sjó fram.

Austan við jökullægð þessa tekur við jökulþakin fjallaþyrping, sem jökulvötn Hornafjarðar og Lóns hafa víst mest aðrennsli úr, og mun austur- og norðausturhluti Breiðamerkurjökuls þaðan kominn, en suðvesturhlutinn úr Öræfajökli. Þannig mun smám saman hafa kreppt að hjeraðinu, að austan og vestan, en eigi norðan svo mjög, unz vetrargaddurinn hefir eigi náð að þiðna að sumrinu fyrir jökulkuldanum.

Úr suðurhluta lægðarinnar hafa jökulvötn Breiðamerkursands aðrennsli, en Lagarfljót og Jökulsá á Brú að norðan. Jökulsá á Fjöllum hefir eigi aðrennsli austar en úr jökulbungunni suður af Kverkfjöllum, en þar virtist oss Vatnajökul bera hæzt, og jökulbunguna suður af Kistufelli, næst Öræfajökli.

Til sjávar sjest suður af, kringum Hrollaugseyjar. Að öðru leyti sjest glöggt yfir báðar Múlasýslur og nokkurn hluta Þingeyjarsýslu. Skemst er útsýni vestur af, því að bæði felur Ódáðahraun sýn og Vatnajökull suður af Kistufelli og Kverkfjöllum.

Grasafræðiathuganir
Þessi grös fundum vjer hæst frá sjó í fellinu, 4000 fet [1254 m]: jöklasóley (Ranunculus glacialis), gæsablóm (Draba hirta) [þ.e.hagavorblóm], músareyra (Cerastium alpinum), steinbrjót (Saxifraga stellaris) [þ.e.stjörnusteinbrjót], æruprís (Veronica arvensis) [þ.e. fjalladeplu], geldingahnapp (Statice), vingul (Festuca vivipara) [þ.e. blávingul], fjallapunt (Aira alpina), og litla gula blómjurt, er vjer þekktum eigi [líklega fjallavorblóm?], auk ýmissa mosategunda.

1000 fetum [um 300 m] ofar hurfu síðustu lífsmerki náttúrunnar; það var mosategund ein, er óx á steinum, 2 þuml. há og greinótt mjög; hugðum vjer það helzt vera Lichen rangiferinus (tröllagrös?) [líklega Neurophogon sulphureus, sem nú kallast tröllskegg, runnkennd skóf sem vex á steinum á fjallatindum].

Ýmislegt
Ýmislegt smávegis er rangt í uppdrætti Íslands, viðvíkjandi Fljótsdals- og Jökuldalsöræfum; þannig er t.d. enginn háls milli Vatnajökuls og Snæfells, heldur sljettir sandar og smáfell, er heita Þjófahnúkar.

Það er annars einkennilegt, hversu mörg fell eru í kringum Snæfell. Vjer töldum um 20, og stendur Snæfellið í miðri þyrpingunni, sem móðir í barnahóp. Flest eru að suðvestan og norðaustan, færri að vestan og norðan, og ekkert að suðaustan, enda fellur Jökulsá í Fljótsdal mjög nærri fellinu þeim megin, eptir sljettum eyrum. Er hún þar afar breið yfirferðar, vegna geysimargra hólma er í henni eru. Nokkru nær byggð en fellið renna allar kvíslarnar saman og mynda foss, Eyjabakkafoss svokallaðan; eptir það fellur hún í einu lagi út í Fljótsdalinn.

Hraunhelludrang fundum vjer austan undir fellinu, nær því niðri á jafnsljettu, sem merki þess að Snæfell hefir brunnið til forna. Drangur þessi hefir auðsjáanlega borizt á falljökli ofan úr fellinu og risið þarna uppá endann. Hann er milli 40 - 50 fet á hæð, nær því 20 á breidd og 15 á þykkt. Hefir steinninn verið nefndur Sótaleiði, því hann er mjög líkur minnismarki á leiði í laginu, og jökulbotninn sem hann hefir borizt úr, Sótavistir.

G. Vigfússon.

Hér lýkur grein Guttorms. Þessi síðasta klausa bendir til að þeir félagar hafi farið suðaustur af fellinu á niðurleið, enda var ekki árennilegt að fara niður þá leið sem þeir höfðu komið upp. Þeim mælist fjallið um 200 m hærra en það er nú almennt talið. (Þeir hafa líklega ekki leiðrétt fyrir hitamuninum, sem veldur því að kvikasilfurssúlan í loftvoginni stendur lægra uppi á fellinu en hæðin segir til um). Annars hefur ferð þeirra Guttorms og félaga býsna vísindalegt yfirbragð, og þeir eru heppnir með veður. Landfræðileg þekking Guttorms og félaga virðist vera furðu mikil, og líklega er þetta í fyrsta sinn hérlendis, sem háfjallagróður og hæðarmörk plantna eru athuguð. Örnefnin Sótaleiði og Sótavistir eru snjöll, en virðast ekki hafa náð fótfestu. Sýnist mér að Sótavistir eigi við jökulbotninn NA í fjallinu, sem Sigurður Þórarinsson (1964) nefndi Hálsajökul, þó hann sé raunar ekkert tengdur Snæfellshálsi, hvað þá fleiri hálsum, og er sú nafngift því ekki heppileg. Skriðjökull þessi hefur í fyrndinni borið heljarbjörg fram úr botninum, sem liggja hér og þar á aurunum fyrir framan jökulinn, og eru þau flest úr dökkleitu gjallblönduðu móbergi, þar á meðal "legsteinn Sóta", sem er ekkert smásmíði.

Árið 1880 var eitt hið besta í manna minnum, veturinn fádæma mildur og sumarið þurrt og hlýtt austanlands. Snjóbráð hefur verið óvenju mikil og er það skýringin á hinum miklu og torfæru sprungum í "Norðurjökli" Snæfells. Má geta þess, að í ágúst 1957 fór greinarhöfundur þessa sömu leið upp á fjallið, og man ekki til þess að hafa séð sprungur í jöklinum. (Jennings 1952, telur þetta jökulfönn en ekki skriðjökul. Hins vegar getur eðli þessa "jökuls" hafa breyst á tímabilinu 1880-1950).

 Þáttur Sigurðar Gunnarssonar

Rétt er að geta þess, að um miðja 19. öld hafði séra Sigurður Gunnarsson á Hallormsstað ferðast víða um Miðhálendið, með Birni Gunnlaugssyni, hinum þekkta mælingamanni og stjörnumeistara. Höfðu birst eftir hann greinar í blöðum um þessar ferðir, og fáum árum áður (1876) hafði hann ritað greinaflokk "Um öræfi Íslands" í Norðanfara, m.a. skemmtilega grein um víðsýnið á Vatnajökli, þar sem hann persónugerir jökulinn og kallar "Vatnar" konung. Hins vegar kemur hvergi fram, að Sigurður hafi gengið á Snæfell, og er skýringuna kannske að finna í eftirfarandi klausu, sem tekin er úr Vatnajökulsgrein hans:

"Sá sem er staddur uppi á Vatnajökli, suðvestur af Kistufelli, beint inn af Trölladyngju, í skínanda sólskini og heiðskýru veðri, og er áður kunnugur um Vestur-, Norður-, og Austurland, hann fær þaðan hið mesta og skemmtilegasta víðsýni, er nokkursstaðar er að fá hjer á landi af einni sjónarhæð; og að litast þá um þaðan, veitir svo stórgjört og tignarlegt víðsýni, að honum getur eigi liðið það úr minni þaðan í frá.

Tindafell, Tungnafell, Trölladyngja og Dyngjufjöll hin fremri, með Dyngjufjalladal, þessi nálægu fjöll sýnast hjeðan miklu lægri en endranær, eins og þau auðvirði sig og líti upp af fótskör fjallajötunsins Vatnars, hvað þá hin fjarlægari. Herðubreið, fjalladrottning Norðurlands öræfanna, lítur hátt upp til konungsins, en hann horfir yfir herðar henni. Honum virðist hann einnig líta ofan yfir Snæfell, inn af Fljótsdal, fjallatröll Austurlandsins. En það er falskur hugarburður. Er Vatnar lítur yfir af jökli sínum suðvestur af Kistufelli, þá er hann á affalli sinnar jökulborgar, en eigi á tindi hennar. Snæfell er varla lægra en það affall.

Það er fjarlægðin sem vekur hroka í huga karlsins, að hann sje hærra settur. En er hann litast um í fjarlægðinni og sjer þar í blámanum Hornstrandafjöll, Norðurlands- og Austurlandsfjöll, sem honum eru fjærst, þá hækkar brún á karli, því þau sýnast honum skríða sem grislingar á 4 fótum og gjóta sjónum inn til sinnar hátignar. Og þessi hroka tilfinning hans er ekki tómur hugarburður, af fjarlægð kominn, heldur er það sannast mála, að hans borg er miklu hærri. Hann gýtur nú aðeins hægra auga á Snæfell, og virðir það fyrir sjer.

Það er eina fjallið norðan megin, sem dregur lítið eitt úr hroka hans, því það gnæfir svo hátt og stendur á háum heiðum. Þá gætir hann þess, að fjallhryggur er inn af því, til hans borgar, svo það er áfast við hana. Þá hlær hugur karls og segir: Það er þá eitt útvígið minnar borgar, eitt hið tignarlegasta annað en Öræfajökull, þar sem Hnappur minn stendur ár og aldir og horfir til skipa 30-40 mílur á haf út, eins og úr einum hæsta vitaturni í heimi. Og nú verður karlinn kyrr og rór."

Ætli Sigurður sé hér ekki að lýsa hugsunum sínum fremur en "Vatnars", og hafi fundist það lítið keppikefli að ganga á Snæfell, eftir að hafa litast um af svo mikilfenglegum stað.

Rannsókn Þorvaldar Thoroddsen 1894.

Réttri öld eftir að Sveinn Pálsson skoðaði Snæfellssvæðið og freistaði uppgöngu á fjallið, kom þar annar merkur náttúrufræðingur, Þorvaldur Thoroddsen. Hann kom sunnan úr Lóni, um Víðidal, þann 17. ágúst, og tjaldaði fyrstu nóttina á Eyjabökkum. Hélt síðan yfir Þóriseyjar upp við jökul, og segir þar víða illfært fyrir hesta og menn, enda voru þá aðeins liðin 4 ár frá því að Eyjabakkajökull (og Brúarjökull) höfðu sín mestu framhlaup sem um getur á sögulegum tíma.

Næstu nótt gisti Þorvaldur "við dálítinn læk, sem rennur niður úr Þjófahnjúkum innarlega".

Vestasti hluti jökulsins, fyrir vestan Eyjafell, var alveg genginn fram af jökulöldum, og var töluverður gangur í honum." Alltaf heyrðust þaðan skruðningar og dynkir og stórhlunkar, þegar við og við var að hrapa úr jökulhömrunum, en við þetta bættist sífellt ómandi undiralda af ótal niðandi lækjum og fossum."

Morguninn eftir, þann 19. ágúst, viðraði ekki til fjallgöngu: " Um morguninn var þoka mikil á Snæfelli og norðurfjöllum, útsunnanfar með regnskúrum á jökli, en norðaustanblástur hið neðra við Þjófahnjúka; suður um jökul og Þjófahnjúka var allvel bjart." Virðist þetta ekki hafa verið ósvipað og þegar Sveinn ætlaði að ganga á fjallið. Ákvað Þorvaldur því að ganga á innsta Þjófahnjúkinn, sem hann kallar Litla-Snæfell. "Það er einstakur hnjúkur, strýtumyndaður", 1160 m á hæð. Þaðan fékk Þorvaldur gott útsýni yfir fjöll og jökla umhverfis, einnig til Snæfells. Þann 20. fer leiðangurinn svo út fyrir austan Snæfell, að Laugará og er þar fjórðu nóttina.

Þótt Þorvaldur gengi ekki á Snæfell og virðist raunar hafa skoðað fjallið næsta lítið, reynir hann að gera sér grein fyrir berglagabyggingu þess og myndun. Hann telur að Snæfell og "tindarnir fyrir utan það og innan" séu allir úr móbergi. "Snæfell sjálft hefir einhvern tíma gosið í fyrndinni, löngu fyrir landnámstíð, en þó hafa engin hraun runnið þaðan, að sjáanlegt er."

"Það er talið næsthæsta fjall á landinu (1822 m) [nú talið 1833 m y.s.], og á því er töluverð jökulhúfa efst. Þó var hún nú í sumar með minnsta móti sakir hitanna. Niður úr jökulhúfunni ganga nokkrir skriðjökulstangar, og eru tveir stærstir að norðaustan. Undan hinum nyrðri rennur mórauður jökullækur, og fyrir neðan hann eru stórar hraungrýtishrúgur, sem jökullinn hefur ekið á undan sér."

"Nyrzt í Þjófadalnum miðjum er hár líparíthryggur, sem gengur inn í Snæfell, og kemur líparítið líka fram í því að norðan. Það er því allt útlit til þess, að stór sprunga full af líparíti, gangi þvers í gegnum Snæfell. Gossprunga hefir að öllum líkindum í fyrndinni klofið Snæfell, frá suðri til norðurs. Upp um hana hefir kastazt aska og blágrýtisgjall. Af einhverjum breytingum neðanjarðar hefir glóandi líparítleðja að lokum gubbazt upp í sprunguna, fyllt hana og storknað þar. Hefir afl gossins ekki verið nóg til þess að koma líparítinu alveg út, því það er, þegar það er rennandi, miklu seigara en blágrýtið. Síðan þessi tappi kom í gossprunguna, hefir Snæfell ekki getað gosið."

Þorvaldur getur um hvítt vikurlag, 12-15 sm undir yfirborði, og svart blágrýtisvikurlag 30-60 sm neðar, sem hann telur ekki ólíklegt að rekja megi til gosa í Snæfelli, og virðist því gera ráð fyrir að það hafi verið virkt eldfjall fram á Nútíma.

Tilgáta hans um líparítstífluna í gossprungu fjallsins er skemmtileg og athyglisverð, og er gott dæmi um glöggskyggni þessa mikla landkönnuðar, þótt eftir sé víst að fá hana staðfesta eins og fleira í sambandi við Snæfell. Reyndar mun jarðfræðilegri þekkingu á fjallinu lítið hafa farið fram síðan Þorvaldur gekk þarna um garða, fyrir nærfellt hundrað árum.

Söguleg Snæfellsganga 1925

Þann 22. júlí 1925 lögðu fjórir ferðalangar til uppgöngu á Snæfellstind. Það voru þeir bræður, Benedikt og Emil Jónassynir og Þorsteinn Gíslason, allir búsettir á Seyðisfirði og Sveinn Jónsson bóndi á Egilsstöðum. Fylgdarmaður þeirra var Friðrik Stefánsson bóndi í Hóli í Fljótsdal, en ekki gekk hann á fjallið í það sinn. Frásögn Benedikts af ferðinni birtist í blaðinu Hæni á Seyðisfirði sama ár, og var endurprentuð í tímaritinu Gerpi, 12. tbl. 2. árg. 1948, með myndum sem þeir félagar tóku.

Það sem gerði ferðina svo merkilega var, að Sveinn á Egilsstöðum teymdi hest sinn alla leið upp á tindinn, og er ekki vitað til að það hafi gerst fyrr eða síðar að þar hafi komið skepna af því kyni.

Daginn sem þeir gengu á fjallið var bjart veður og hlýtt, en nokkuð hvöss vestanátt, 15 gr. hiti niðri en uppi á tindinum var 1 gr. frost, enda skall á þá þoka meðan þeir voru þar. Eftir ferðalýsingunni að dæma, hafa þeir gengið norðan eða NV á fjallið, og lentu í illfærum skriðum, en niður fóru þeir eftir fönnum SV í fjallinu, og gekk það eins og í sögu.

Þeir höfðu tvo hæðarmæla meðferðis upp á fjallið. Sýndu þeir báðir um 2100 m hæð á tindinum, eða um 100 m hærra en leiðangurinn 1880 hafði mælt. Eftir að hafa leiðrétt fyrir loftþyngdarbreytingu meðan á ferðinni stóð, fengu þeir út hæðina 2130 m.

Daginn eftir fóru þeir suður með Snæfelli, upp á Snæfellsháls og gegnum Þjófadal yfir á Vesturöræfi, en þar sem veður var enn mjög gott og bjart á fjallinu, ákvað Sveinn að freista þess að koma "steingráum hesti, sem hann átti, upp á Snæfell, eftir fönnunum, sem við fórum niður daginn áður."

Fékk hann Emil til að fylgja sér, og er ekki að orðlengja það, að þeir teymdu hestinn alveg upp á tindinn, og þar tók Emil mynd af Sveini með hestinn, sem hann kallaði Snæfelling eftir þennan atburð.

Snæfellsferð Lilju og Ingimars í eftirmála 

Heimildir
Ármann Halldórsson (ritstjóri): Sveitir og jarðir í Múlaþingi II.- Búnaðarsamband Austurlands 1974.
Benedikt Jónasson: Ferð til Snæfells.- Hænir (Seyðisfirði), 3 (32-33), 20. og 22. 8. 1925.
Benedikt Jónasson: Gengið á Snæfell. - Gerpir 2 (12): 22-28. 1948.
Guðmundur Snorrason: Uppi á Snæfelli.- Skuld 1(12-13), 3. nóv. 1877.
Gunnar Gunnarsson: Fljótsdalshérað.- Árbók Ferðafélags Íslands 1944.
Guttormur Vigfússon: Ferð upp á Vatnajökul. - Norðanfari 20 (1-2):1 (18. nóv. 1880).
Halldór Kiljan Laxness: Heimsljós II. - Rvík. 1955.
Hjörleifur Guttormsson: Norð-Austurland, hálendi og eyðibyggðir. - Árbók Ferðafélags Íslands 1987.
Jennings, J.N.: Snaefell, East Iceland.- Journal of Glaciology 2 (12), 1937: 133-137.
Jóhannes Jónasson: Kvæðahandrit (Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Egilsstöðum).
Jón Árnason: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri IV.- 3. útg. Rvík. 1956. (Sagan af Skúla bónda, bls. 365-67).
Margrét Sigfúsdóttir: Kvæðahandrit. (Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Egilsstöðum).
Matthías Jochumsson: Ljóðmæli. 3. útg., aukin. Rvík. 1936.
Richard Beck: Séra Eyjólfur Jónsson Melan. - Múlaþing 9. 1977: 129-141.
Runólfur Runólfsson: Fljótsdalshérað. Endurminningar.- Lesbók Morgunblaðsins 1. árg., bls.7. (28. nóv.1926).
Sigfús Sigfússon: Íslenskar þjóðsögur og sagnir, XI-XII.- Rvík 1954.
Sigurður Baldvinsson: Guttormur J. Guttormsson sjötugur (?). - Tíminn 10. des. 1948.
Sigurður Gunnarsson: Um öræfi Íslands (1).- Norðanfari 15. árg., 1876, bls. 69-70.
Sigurður Kristinsson: Þegar hugsjónir fæðast.- Múlaþing 16. 1988: 12-104.
Sigurður Þórarinsson: On the Age of the Terminal Moraines of Brúarjökull and Hálsajökull.- Jökull 14, 1964: 67-75.
Sveinn Pálsson: Ferðabók. Dagbækur og ritgerðir 1791-1797. Rvík 1945.
Sölvi Vigfússon: Dagbók (óprentuð).
Þorsteinn M. Jónsson (útgefandi): Gríma hin nýja, 3. bindi.- Rvík. 1979. (Timburlest útilegumanna).
Þorvaldur Thoroddsen: Ferðabók III.bindi. 2. útg. Rvík. 1959.
Þorvarður Andrésson Kjerúlf: Kvæðahandrit. Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Egilsstöðum.

(Samantekið í nóv. 1991)

 

Snæfellsferð (óbirt)
með hest 11. okt. 1993

Í tilefni af frétt í Austra 21. okt. 1993, um ferðalag Ingmars Sveinssonar frá Egilsstöðum á Völlum, með hestinn Hvell, 22 ára upp á Snæfell, 11. okt. sama haust, hringdi ég í Lilju Óladóttur í Merki, sem var þátttakandi í ferðinni, ásamt Önnu Bryndísi Tryggvadóttur á Brekku í Fljótsdal og Sveini Óðni, syni Ingimars.

Lilja sagði að Ingimar hefði lengi alið með sér þann draum að komast upp á Snæfell með hest, og feta þannig í fótspor föður síns, Sveins Jónssonar, sem leiddi hest upp á fjallið 1948 (Sbr. Gerpir 2 (12), 1948). Hann fór af Snæfellshálsi líklega upp SA-öxl fjallsins, sem líklega er besta gönguleiðin á það.

Ingimar var búsettur á Hvanneyri, en hafði farið austur með hestinn snemma sumars 1993, í þeim tilgangi að leiða hann upp á fjallið, og hafði komið honum fyrir hjá Lilju í Merki. Sumarið 1993 var óvenju kalt, þokusælt og úrkomusamt á Austurlandi, og gafst aldrei gott tækifæri til að klífa fjallið með hestinn. Leið svo fram á haust, en framan af október var oft góðviðri og hagstætt ferðaveður. Ákvað Lilja þá að láta til skarar skríða, og hringdi í Ingimar (10. okt?), sem kom strax austur.

Var svo ekið með hestinn í kerru inn að Snæfellsbúðum, sem voru austan undir Sandfelli, við NA-horn Snæfells, og þaðan hófst gönguferðin. Var fyrst farið upp í Vatnsdal, sem er dalkvos í um 900 m h., norðan við Snæfell, með smávatni er Sandvatn kallast, og mun Ingimar hafa riðið þangað. Þaðan var svo gengið fyrir vestan Vatnsfell, sem er lítið fell fyrir SA vatnið, og síðan upp eftir hrygg þeim er myndar NA-brún Snæfells, og liggur meðfram skriðjökultungu, sem teygir sig langleiðina niður í fyrrnefnda kvos. Segir Lilja að þar hafi verið nokkuð greiðfært, en víða nokkuð bratt. (Í fréttinni segir: “Mestalla leiðina var farið á hjarni. Færi var gott, en mjög bratt að fara”). Síðasta spölinn upp á fjallið urðu þau að fara á skriðjöklinum, sem var allmikið sprunginn, en nýsnjór hafði þó sest í sprungurnar, svo víða var fært á snjóbrúm. Jökullinn er þarna líka mjög brattur á stykki, og var þetta erfiðasti “hjallinn” í ferðinni. Segist Lilja hafa gengið á undan og kannað leiðina með broddstaf (?).

Þetta gekk þó allt slysalaust og hesturinn gamli var alltaf rólegur á hverju sem gekk. Þegar upp á fjallsflötinn kom var greiðfært á harðfenni og gat Ingimar þá aftur farið á bak á hestinum.

Þoka var á leiðinni upp, og gerði það ferðina heldur erfiðari, en uppi á tindinum var heiðskýrt og sáust tindar hæstu fjalla upp úr þokunni, þar á meðal Herðubreið, en tindur hennar sést í baksýn á myndinni af Ingimar með hestinn þarna uppi á fjallinu, og sannar það hvar hún er tekin, segir Lilja, sem tók myndina.

Þau höfðu nokkrar áhyggjur af því hvernig gengi að koma hestinum niður jökulinn aftur, það gekk þó einnig slysalaust en mjög hægt.
Lilja segir að frásögn af ferðinni sé í tímaritinu Eiðfaxa, líklega 1. hefti 1994, með litmyndum, líklega viðtal ritstjórans við Ingimar.
H. Hall. 22. febr. 2000.