Flóra og gróður í Selskógi
12 October, 2022
FLÓRA OG GRÓÐUR Í SELSKÓGI,
EGILSSTÖÐUM.
Samantekt þessi var gerð að tilhlutan nefndar á vegum Egilsstaðabæjar, um málefni útivistarsvæðis í Selskógi, og byggist mest á athugunum sem undirritaður gerði seinni hluta ágústmánaðar 1993. Lokið 12. nóv. 1993. H. Hall.
Landslag
Selskógur er ysti hluti Egilsstaðaskógar, sem er annar víðlendasti skógur á Héraði. Selskógur er nú talinn afmarkast af Eiðaþinghárvegi að vestan (neðan), Eyvindará að NA, Hálslæk að austan (ofan), og Fagradalsbraut að SV. Þetta svæði er um 1,3 km á lengd og 0,6 km á breidd að meðaltali. Um helmingur þess er vaxinn birkiskógi, en hitt eru mýrar og tún. Hæðin er 40-90 m y.s Selskógur er fagurt og fjölbreytt skógarsvæði, með hæðum, ásum og mýrasundum. Hæst ber Selhæðina (92 m y.s.) í SV-horni svæðisins, en sunnan í henni er Selið (Egilsstaðasel), sem hæðin og skógarsvæðið eru kennd við, svo og fleiri örnefni. Frá Selhæðinni gengur breiður ás til norðurs, sem er mestallur skógi klæddur, og kallast Selöxl (eða Egilsstaðaöxl á korti Rotary-manna). Ásinn endar í svonefndum Rana, rétt ofan við Eyvindarárbrú. Lægri holt ganga til austurs frá Selhæð, einnig skógi klædd, og kallast Botnar á milli þeirra.
Eyvindarárgilið er þó helsta djásn svæðisins, og án þess væri Selskógurinn ekkert sérstakur. Gilið byrjar rétt ofan við Egilsstaðaþorp, um 200 m fyrir neðan brúna á ánni, en krókbeygir ofan við brúna, utan við Ranann, og er þar ákaflega fagurt og sérstætt. Tveir samhliða berggangar þverskera gilið þarna með stuttu millibili, og mynda klettarana beggja vegna, en áin rennur í þröngum, Z-laga bergstokki á milli þeirra og gegnum þá. Þarna er gilið skógi vaxið og skrýtt hinum fjölbreytilegasta gróðri.
Innan og ofan við Ranann er gilið vítt og grunnt, með malareyrum í botni (kallað "Eyrar" í plöntuskránni), og á þeim stórir steinar í þyrpingum. Þar upp af er samkomustaðurinn Vémörk, og aflangur túnblettur, mýri sem ræst var fram. Síðan hefst aftur klettagil meðfram ánni, sem þrengist smám saman og dýpkar er ofar dregur. Nær það inn á Eyvindarárdal, og er gilið alls um 3 km að lengd. Það er víðast um 50-100 m breitt, og 20-30 m djúpt, nokkuð krókótt og myndar lykkju efst við Selskóginn. Heita þar Tögl að austanverðu við gilið, og fremst í lykkjunni er Taglarétt, gömul skilarétt Eiðaþinghármanna. Í gilinu skiptast á skógi klæddar kinnar, klettar og skriður, en skógurinn teygist hvarvetna fram á klettabrúnir og niður í skriðurnar.
Í gilinu fellur Eyvindaráin víða á flúðum, hvítfyssandi í grýttum farvegi, með blátærum, djúpum og lygnum hyljum á milli. Þarna er mikið litaskart og skarpar andstæður í litum, einkum á haustin, þegar skógurinn skrýðist sínum hundrað litum.
Annar fegursti staðurinn í Eyvindarárgili er innan og ofan við Prestakershöfða, sem er rétt fyrir ofan Hálslæk og tilheyrir því ekki hinum eiginlega Selskógi. Gilið víkkar þarna nokkuð og er alsett dröngum og klettahleinum (berggöngum), en áin fellur í flúðum og smáfossum (sá hæsti um 2 m). Af þeim sökum hef ég nefnt staðinn "Fosshvamm". Þarna er mjög fallegur gróður, allstórt reynitré við litla klettatjörn, og eini fundarstaður burknans þrílaufungs á þessu svæði.
Landnýting
Á Selinu hefur upphaflega verið sel frá Egilsstöðum, en beitarhús eftir að seljabúskapur lagðist niður. Líklega hafa húsmenn einnig búið þar af og til. Mótar þar fyrir fornum túngarði, sem umlukt hefur seltúnið. Þar standa nú steinsteypt fjárhús og hlaða, byggð 1956. Þá var túnið einnig stækkað, og nær nú suður að vegi.
Fram um miðja þessa öld var skógurinn nýttur á hefðbundinn hátt, til eldsneytis og raftviðar, og var honum þannig haldið við með stöðugri grisjun og brottnámi fúafauska. Kolagerð var mikið stunduð í skóginum fyrr á öldum, eins og fjöldi kolagryfja vitnar um, en mun hafa lagst af um miðja 19. öld eða fyrr.
Sauðfjárbeit var í skóginum fram um miðja 20. öldina (1960?), en minnkaði þá mikið. Síðustu áratugina hefur ytri hluti Egilsstaðaskógar (sem tilheyrir Egilsstöðum I), og þar með Selskógurinn, verið notaður til að beita á hann nautgripum (kálfum). Hestum hefur verið beitt á Seltúnið og Hálslækjarmýrina.
Á árunum 1950-70 (?) var samkomustaður rekinn í skóginum, sem kallaðist Vémörk. Voru þar skálabyggingar stórar, síðar notaðar sem hjarðfjós, sem nú er búið að rífa. Enn stendur þar steinsteypt hlaða. Af þessu tilefni var lagður bílvegur frá Eiðaþinghárvegi við brúna, upp á samkomustaðinn, og höggvinn gangstígur gegnum skóginn meðfram gilinu.
Annar eldri samkomustaður er uppi við Hálslækinn, en þar voru aldrei nein hús eða önnur mannvirki, og er nú búið að slétta þar tún. (Eitt sumarhús var byggt í hvammi á Selöxlinni, og var bílfær slóð lögð að því. Það mun hafa brunnið og var jafnað við jörðu fyrir 1985).
Árið 1992 keypti Egilsstaðabær Selskóginn, sem þá fékk nýtt hlutverk, semsé að vera útvistarsvæði fyrir þéttbýlið. Sumarið 1993 voru lagðir gangstígar víða um skóginn, til að auðvelda fólki aðgöngu, og grisjað frá eldri vegum og stígum.
Gróðurfar
Á Selskógarsvæðinu eru 4-5 megingerðir gróðurs, þ.e. birkiskógur, mýrar, eyrar, tún og klettar. Birkiskógurinn þekur um helming svæðisins eða vel það. Er hann vöxtuglegur með köflum, þó meðalhæðin sé aðeins um 4-5 m. Einstök tré ná allt að 9 m hæð, og um 30 sm stofnþvermáli. Þau eru oftast með ljósum berki, en grábörkuð tré eru yfirgnæfandi í skóginum, og flysjast börkur þeirra mikið upp, svo þau verða hálfrytjuleg í útliti af þeim sökum. Bein og einstofna tré eru sjaldgæf í skóginum. Trén eru yfirleitt margstofna frá rót, sem stafar m. a. af skógarhögginu. Þegar trén voru höggvin, spruttu nýir sprotar af stubbi og rótum trésins sem aftur uxu upp í trjástærð, og svo koll af kolli. Þannig endurnýjaði skógurinn sig, en lítið sem ekkert með fræjum. Nú er mjög mikið um feyskjur í skóginum, eins og eðlilegt er, þar sem ekkert hefur verið grisjað í áratugi, og mikið af tránum er orðið gamalt. Á vetrum svigna trén oft mjög mikið undan snjófargi, leggjast jafnvel niður, og brotna þá meira eða minna, eftir því hversu snjóþungt er. Virðast ófúin tré einnig geta brotnað við slíkar aðstæður.
Gulvíðir vex víða innanum birkið í skóginum, og nær um 3-4 m hæð, einnig loðvíðir á stöku stað, einkum í gilinu. Í mýrarjöðrum myndar gulvíðirinn oft samfellt kjarr, 1-2 m hátt. (Sunnan Fagradalsbrautar hefur orðið vart við viðju, sem hefur sáð sér frá görðum í þorpinu, einkum í skurðbakka, og sömuleiðis selju, en þetta eru hvorttveggja erlendar víðitegundir).
Þá eru einstök tré eða smáþyrpingar af reyniviði hér og þar, mest á gilbörmunum eða í grennd við gilið, og verða því tíðari og stærri sem ofar dregur meðfram því. Þau hæstu munu vera um 7-8 m, og oft eru þau einstofna og nokkuð bein. Á Selöxlinni eru líka nokkur reynitré. Reynir mun óvíða vera eins tíður hér eystra. Aðeins Gilsárgil innan við Buðlungavelli kemst þar í samjöfnuð.
Blæösp vex víða í Egilsstaðaskógi innanverðum, og allt inn í Höfðaland, og myndar stæðileg, oft nokkuð beinvaxin tré, allt að 7 m há. Hún fannst fyrst í skóginum um 1950, og þá á Krossásum, sem eru skammt SV af Selinu. Hins vegar hefur hún ekki fundist í Selskógi, svo um sé vitað. Öspin myndar langar skríðandi jarðrenglur, sem nýir stofnar vaxa upp af hér og þar, og dreifist þannig hægt og hægt um skóginn, en hún hefur enn ekki blómgast og borið fræ hérlendis, svo vitað sé. Tilvist blæaspar í Egilsstaðaskógi er ráðgáta. Hún finnst einnig á nokkrum stöðum í Suðurfjörðum Austfjarða, en er þar jafnan smávaxin, varla meira en 1 meter.
Skógarbotninn er ýmist vaxinn lyngi eða gras- og blómgróðri, og oft blandast þessi gróður saman. Þá eru mosar og skófir einnig mjög áberandi í honum. Lyngið er aðallega bláberjalyng og aðalbláberjalyng. Það fyrrnefnda vex aðallega á hæðum, og þar sem snjólétt er, en það síðarnefnda í brekkum og lautum. Blágresi, hrútaberjaklungur, fjalldalafífill, klukkublóm og brennisóley eru algengar blómategundir í skóginum. Aðrar algengar jurtategundir eru t.d. vallelfting, túnvingull, kjarrsveifgras, bugðupuntur og vallhæra. Sjöstjarna vex í breiðum í skógarjaðrinum ofan við Einbúablána.
Helstu mosategundir skógarins eru fagurmosi (Hylocomium splendens), engjamosi (Rhytidiadelpus squarrosus) og skógarmosi (Rh. triquetrus), en engjaskófir (Peltigera spp.) eru mest áberandi af skófum í skógbotninum.
Mýrlendi er þriðja algengasta gróðurlendið í Selskógi. Helstu mýrarnar eru Einbúablá, eða hluti hennar, neðst á svæðinu, við Eiðaþinghárveg, nokkrir mýrablettir utan og ofan við Selhæð (m.a. Hringmýri eða Heimamýri) og Hrossamýri efst á svæðinu. Þá eru nokkrar mýrar meðfram Fagradalsvegi, meira eða minna ræstar fram.
Einbúabláin er blautust þessara mýra, og má kallast flói með fjölbreyttu gróðurfari. Aðaltegundir eru klófífa, vetrarkvíðastör, mýrastör, tjarnastör, hengistör, belgjastör, hálmgresi, mýrafinnungur og mýraelfting. Þar vaxa einnig engjarós, horblaðka og mýraberjalyng, bláberjalyng, fjalldrapi og smávaxið birki.
Aðrar mýrar eru þurrari og oftast nokkuð stórþýfðar, eins og Hrossamýrin. Í þeim er blanda af gras-, stara- og runnagróðri, oft með allmikilli klófífu, belgjastör, tjarnastör, engjarós, hálíngresi, vallhæru, og vingultegundum. Einnig er þar mikið af bláberjalyngi, fjalldrapa, gulvíði, loðvíði og birki. Þessar mýrar munu trúlega vaxa upp með skógi innan tíðar.
Á framræstum mýrum (óræktuðum) er grasgróður yfirleitt ríkjandi, ásamt mýrastör og belgjastör.
Graslendi og tún er það gróðurlendi sem þekur næstmest á Selskógarsvæðinu. Mestöll túnin eru orðin til við framræslu mýra, og hefur gróðurbreytingin orðið misjafnlega mikil frá mýragróðrinum. Sumsstaðar virðist mýragróðurinn aftur hafa náð yfirhöndinni, eins og t.d. á túninu við Vémörk, enda hefur sáðgresi enst illa í túnunum vegna kals. Snarrótarpuntur er víða mjög áberandi og þekur jafnvel stór svæði í túnunum. Hann mun einnig eiga tilveru sína kalinu að þakka.
Í klettum og skriðum í Eyvindarárgili er víða mjög fjölbreyttur gróður og gróskumikill, en þar er ekki um sérstakt gróðurlendi að ræða, heldur blöndu af fjölmörgum gróðurlendum. Þar koma lyngmóar m. a. við sögu, og eru hinir sígrænu runnar, einir og sortulyng oft mjög áberandi þar, og gefa landinu sérstakan svip. Reynir og víðitegundir ýmsar tilheyra einnig giljagróðrinum, svo og geithvönnin, að ógleymdum maríustakkstegundum og mörgum öðrum tegundum blóma. Yrði of langt mál að telja það upp hér, og vísast í plöntuskrána um frekari upplýsingar.
Svipað má segja um eyrargróðurinn. Hann er oftast mjög blandaður og tegundir hans koma úr ýmsum áttum. Hafa margar þeirra trúlega borist með ánni á eyrarnar, í formi fræja. Af sérstökum eyraplöntum má nefna eyrarrós, sem vex nokkuð á Eyrunum neðan við Vémörk, en hún finnst líka neðantil í gilklettunum.
Flóra
Samkvæmt meðfylgandi skrá yfir háplöntur, hafa fundist um 160 tegundir þeirra innan núverandi marka Selskógarsvæðisins, og um 10 tegundir að auki stutt fyrir utan mörkin eða í næsta nágrenni svæðisins (merktar með stjörnu eða spurningarmerki). Sumar þeirra eiga eflaust eftir að finnast á svæðinu. Þá eru í listanum nokkrar innfluttar tegundir af trjám og grösum (nöfn þeirra eru skáletruð).
Þó ekki sé gert ráð fyrir nema um 150 upprunalegum tegundum, er háplöntuflóran samt sem áður býsna fjölbreytt, miðað við stærð svæðisins.
Engin af þessum skráðu tegundum er neitt tiltakanlega sjaldgæf, þegar litið er til stærra svæðis, en þó eru t.d. klappadúnurt og þrílaufungur sjaldgæfar tegundir á Héraðinu, og sama er að segja um melasól og blæösp, en þessar 4 tegundir vaxa í næsta nágrenni við Selskóg (stjörnumerktar).
Þegar litið er til landsins alls er blæöspin langsjaldgæfasta tegundin sem vex hér um slóðir, og Egilsstaðaskógur er eini staðurinn hér á landi, þar sem hún hefur vaxið villt upp í trjástærð.
Af öðrum athyglisverðum jurtategundum er helst að geta Austurlandsplantnanna svonefndu, en af þeim vaxa bláklukka, gullsteinbrjótur, maríuvöttur og sjöstjarna á Selskógarsvæðinu, allar í töluverðu magni. Útbreiðsla þessara tegunda er næstum einskorðuð við Austurland, nema bláklukkan vex hér og þar í öðrum landshlutum, en varla svo að almenningur taki eftir henni þar. Raunar má líka telja blæöspina með Austurlandstegundum, þó hún finnist einnig í Fnjóskadal. Einnig má nefna birkifjólu, sem mikið er af í Selskógi, en hún hefur norðaustlæga útbreiðslu, vex aðeins á svæðinu frá Skagafirði til Héraðs.
TEGUNDASKRÁ HÁPLANTNA
B y r k n i n g a r
1. Tungljurt (Botrychium lunaria). - Selið. Líklega hér og þar í graslendi.
2. Tófugras (Cystopteris fragilis). - Víða í Gilinu og annarsstaðar í klettum.
3. *Þrílaufungur (Gymnocarpium dryopteris). - Aðeins fundinn í "Fosshvammi" í Eyvindarárgilinu út af Egilsstaðahálsi, og er því ekki í hinum eiginlega Selskógi. Myndar þar allstóra breiðu í skógi vaxinni gilkinn móti norðri.
4. Beitieski (Equsetum variegatum). - Mjög algengt um allt svæðið í þurrlendi og raklendi, klettum, eyrum o.s.frv. Einnig afbrigðið eskibróðir (E. trachyodon).
5. Fergin (E. fluviatile). - Hálslækjarmýrin, í skurðum.
6. Klóelfting (E. arvense). - Algeng um allt svæðið, einkum í Gilinu.
7. Mýraelfting (E. palustre). - Algeng í mýrum og raklendi um allt svæðið,
8. Vallelfting (E. pratense). - Mjög algeng um allt svæðið og myndar víða undirgróður í skóginum.
9. Mosajafni (Selaginella selaginoides). - Raninn og Selöxl, í mólendi. Líklega víðar.
B e r f r æ v i n g a r
10. Einir (Juniperus communis). - Algengur, einkum í Gilinu, einnig hér og þar í skóginum, í klettum og brekkum móti sól.
11. Blágreni (Picea engelmanni). - Fáein tré gróðursett við samkomustaðinn Vémörk.
12. Broddgreni (P. pungens). - Fáein tré gróðursett á sama stað og uf. teg.
13. Lerki (Larix sibirica). - Um 20 tré gróðursett á sama stað og uf. teg.
D u l f r æ v i n g a r
Sauðlauksætt og nykruætt
14. Mýrasauðlaukur (Triglochin palustris). Við Hálslæk, í raklendi.
15. *Fjallnykra (Potamogeton alpinus). - Seltjarnir.
16. *Grasnykra (P. gramineus). - Seltjarnir.
17. *Langnykra (P. praelongus). - Seltjarnir.
(Seltjarnir eru rétt fyrir sunnan Fagradalsbraut, innan við Selið, og eru því ekki í Selskógi, eins og hann er nú afmarkaður, en þar eru nú engar varanlegar tjarnir).
Grasaætt
18.Ilmreyr (Anthoxanthum odoratum). - Við Selið. Líklega víðar í þurrum grasbrekkum.
19. Fjallafoxgras (Phleum commutatum). - Algengt í Gilinu og hér og þar við dý og lækjarsitrur í skóginum.
20. Vallarfoxgras (Phleum pratense). - Á túnum við Vémörk og Selið, upp runnið af sáðgresi.
21. Reyrgresi (Hierochloe odorata). - Hér og þar á svæðinu, mest á Rana og Selhæð, í þurru eða hálfröku graslendi.
22. Hálíngresi (Agrostis tenuis). - Algengt um allt svæðið í graslendi, túnum og mýrum.
23. Skriðlíngresi (A. stolonifera). - Algengt í Gilinu, á Eyrunum og við Hálslæk, í raklendi og sandlendi.
24. Týtulíngresi (A. canina). - Algengt í Gilinu og í brekkum og klettum í skóginum.
25. Hálmgresi (Calamagrostis neglecta). - Hér og þar á svæðinu, einkum í mýrum, þar sem það myndar sumsstaðar gróður með öðrum tegundum.
26. Bugðupuntur (Deschampsia flexuosa). - Víða í grasbrekkum og dældum og sem undirgróður í skóginum.
27. Fjallapuntur (D. alpina). - Í Gilinu við Ranann, í skuggsælum og rökum skriðum. Einnig í tjarnstæði á Selhæð.
28. Snarrótarpuntur (D. caespitosa). - Hér og þar í hálfröku graslendi, mýrarjöðrum og þó einkum á túnunum, þar sem hann er víða aðalgrasið.
29. Lógresi (Trisetum spicatum). - Vex víða í Gilinu og í klettum í skóginum, þar sem þurrast er.
30. Vatnsnarvagras (Catabrosa aquatica). - Fundið í skurðum í Hálslækjarmýri.
31. Blásveifgras (Poa glauca). - Algengt í Gilinu og á klettum í skóginum.
32. Fjallasveifgras (P. alpina). - Algengt um allt svæðið, einkum í Gilinu.
33. Kjarrsveifgras (P. nemoralis). - Algengt í Gilinu og þó einkum í skóginum þar sem það er víða stór þáttur í undirgróðrinum, helst þar sem skógurinn er þéttur.
34. Vallarsveifgras (P. pratensis). - Vex hér og þar í gilinu, í valllendi og mýrarþúfum, einnig allmikið í túnum.
35. Varpasveifgras (Poa annua). - Víða á svæðinu, einkum í götum og á öðru troðnu landi, svo og á kalblettum í túnum.
36. Blávingull (Festuca vivipara). - Algengur um allt svæðið í hvers konar graslendi.
37. Túnvingull (Festuca rubra). - Algengur um allt, eins og uf. tegund, vex líka í mýrum og í skógbotninum er hann aðaltegundin víða, ásamt hálíngresi og kjarrsveifgrasi.
Staraætt (Hálfgrasaætt)
38. Hrafnafífa (Eriophorum scheuchzeri). - Aðeins séð við Eiðaþinghárveginn, neðst á svæðinu, í grunnum skurði.
39. Klófífa (E. angustifolium). - Algeng í mýrum og við læki og dý á svæðinu.
40. Fitjaskúfur (Eleocharis quinqueflora). - Fundinn á eyrum við Eyvindará, ofan við Ranann.
4l. Mýrafinnungur (Trichophorum caespitosum). - Á nokkrum stöðum í mýrum og flóum, jafnvel í stórum breiðum.
42. Þursaskegg (Kobresia myosuroides). - Víða í þurru mólendi, einkum á Rana og Selhæð.
43. Belgjastör (Carex panicea). - Víða í mýrum á svæðinu, mest þar sem framræslu gætir eða mýrar þorrna upp á sumrin. Er þar oft í breiðum.
44. Bjúgstör (C. maritima). - Í Gilinu við Vémörk.
45. Blátoppastör (C. canescens). - Á einum stað við Hálslækinn.
46. Broddastör (C. microglochin). - Fundin á einum stað í Gilinu og við Hálslæk, í röku landi.
47. *Dvergstör (C. glacialis). - Fundin á klettum í næsta nágrenni Selskógar, en ekki skráð á svæðinu sjálfu.
48. Flóastör (C. limosa). - Fundin í Einbúablánni, efst.
49. Hárleggjastör ( C. capillaris). - Hér og þar í Gilinu og á stöku stað í mýrum.
50. Hengistör (C. rariflora). - Einbúablá, efst, í breiðum.
51. Hnappstör (C. capitata). - Sást í Rananum og "Fosshvammi" í Gilinu. Fátíð.
52. Mýrastör (C. nigra). - Algeng í mýrum og öðru raklendi á svæðinu.
53. Sérbýlisstör (Carex dioica). - Sést hér og þar í raklendi og mýrum, en heldur fátíð.
54. Stinnastör (C. bigelowii). - Líklega víða á svæðinu, en hefur af einhverjum ástæðum sloppið við skráningu.
55. Tjarnastör (C. rostrata). - Á nokkrum stöðum í mýrum, mest í Einbúablá, og myndar borða umhverfis Seltjarnir.
56. Vetrarkvíðastör (C. chordorrhiza). Einbúablá, í blautum flóa, í breiðum.
Sefætt
57. Blómsef (Juncus triglumis). - Hér og þar í Gilinu og á Eyrunum.
58. Hrossanál (J. arcticus). - Víða á svæðinu í hálfröku landi og mýrarjöðrum.
59. Móasef (J. trifidus). - Hér og þar í gilinu.
60. Mýrasef (J. alpinus). - Hér og þar í gilinu og á Eyrunum.
61. Þráðsef (J. filiformis). - Hér og þar í rökum dældum.
62. Axhæra (Luzula spicata). - Tíð á öllu svæðinu.
63. Vallhæra (Luzula multiflora). - Tíð á öllu svæðinu, í allskonar landi.
Brúsakollsætt og sýkigrasætt
64. Mógrafabrúsi (Sparganium hyperboreum). - Í skurði í Hálslækjarmýri.
65. Sýkigras (Tofieldia pusilla). - Tíð um allt svæðið, einkum í Gilinu.
Brönugrasætt
66. Barnarót (Coeloglossum viride). - Hér og þar í Gilinu og skóginum.
67. Friggjargras (Platanthera hyperborea). - Algengt í Gilinu og víðar á svæðinu.
68. Hjónagras (Leucorchis albida). - Hér og þar í Gilinu.
69. Kræklurót (Corallorhiza trifida). - Fundin í Rananum.
Víðisætt
70. *Blæösp (Populus tremula). - Vex víða í Egilsstaðaskógi, sunnan Fagradalsbrautar, en hefur enn ekki fundist í Selskógi. Næsti vaxtarstaður er á Krossásum, um 1/2 km fyrir SV Selið. Öspin myndar allt að 7 m há tré í skóginum, og er hvergi eins mikið af henni hér á landi.
71. Grasvíðir (Salix herbacea). - Algengur í Gilinu og hittist víðar í klettum.
72. Grávíðir (S. callicarpea). - Tíður í Gilinu og í mýrum.
73. Gulvíðir (Salix phylicifolia). - Algengur um allt svæðið. Er víða töluverður þáttur í skóginum og myndar samfellt kjarr í mýrum. Hæstu trén er um 3-4 m.
74. Loðvíðir (Salix lanata). - Algengur um allt svæðið, einkum í Gilinu, og myndar allt að 2 m háa runna.
Bjarkaætt
75. Birki (Betula pubescens). - Myndar skóg um allt svæðið, sem kallast Selskógur, og er hluti af Egilsstaðaskógi. Meðalhæð skógarins mun vera um 4-5 m, en hæstu birkitrén eru 8-9 m há. (Sjá gróðurkaflann) Birkiblendingur við fjalldrapa er tíður í mýrum, myndar um 1 m hátt kjarr.
76. Fjalldrapi (Betula nana). - Algengur um allt svæðið. Myndar víða lágvaxið (um 0,5 m) kjarr, einkum í lyngmóum og mýrum.
Súruætt
77. Hlaðarfi (Polygonum aviculare). - Við Selið og Hálslæk, oftast í troðnu landi.
78. Kornsúra (Polygonum viviparum). - Algeng um allt svæðið, í allskonar gróðri.
79. Naflagras (Koenigia islandica). - Við Hálslæk, í flagi.
80. Ólafssúra (Oxyria digyna). - Tíð í Gilinu, á skuggsælum stöðum.
81. Túnsúra (Rumex acetosa). - Algeng um allt svæðið, í allskonar gróðri.
Grýtuætt
82. Lækjagrýta (Montia fontana). - Hér og þar við læki og lindir.
Hjartagrasætt
83. Akurarfi (Stellaria graminea). - Vex í breiðum á Seltúninu.
84. Haugarfi (St. media). - Selið og Vémörk, í hlaðvörpum og kalblettum á túnum.
85. Lambagras (Silene acaulis). - Títt á öllu svæðinu.
86. *Ljósberi (Viscaria alpina). - Hér og þar á klettum og holtum. (Var þó ekki skráður).
87. Melanóra (Minuartia rubella). - Fundin í "Fosshvammi", en er líklega víðar í Gilinu.
88. Skammkrækill (Sagina procumbens). - Tíður í Gilinu.
89. Lækjafræhyrna (Cerastium cerastoides). - Fannst á einum stað í Gilinu utan við Ranann, í blautri skriðu.
90. Músareyra (C. alpinum). - Hér og þar í Gilinu og í klettum í skóginum.
91. Vegarfi (C. fontanum). - Algengur um allt svæðið, í allskonar landi.
Sóleyjarætt
92. Brjóstagras (Thalictrum alpinum). - Algengt um allt svæðið.
93. Brennisóley (Ranunculus acris). - Algeng um allt svæðið í allskonar landi.
94. Trefjasóley (R. hyperboreus). - Hálslækjarmýrin, í skurði.
Draumsóleyjarætt
95. *Melasól (Papaver radicatum). - Ófundin á svæðinu, en vex í breiðum á malarhrygg við Eyvindará á Eyvindaráreyrum, um 1 km utan og neðan við Selskóg. Hefur líklega borist með ánni ofan úr fjöllunum, sem eru aðalheimkynni hennar hér eystra.
Krossblómaætt
96. Grávorblóm (Draba incana). - Hér og þar í Gilinu.
97. Hjartarfi (Capsella bursa pastoris). - Við Selið, í varpa.
98. Hrafnaklukka (Cardamine nymani). - Hér og þar í Gilinu, við dý, og víða í mýrum.
99. *Melablóm (Arabis petraea). - Vex á klettum og melum í grenndinni, en óskráð á svæðinu sjálfu.
100. Skriðnablóm (A. alpina). - Hittist hér og þar í Gilinu, á skuggsælum stöðum í klettum.
101. Vorperla (Erophila verna). - Sást við gilið utan við Vémörk. Er líklega hér og þar á klettum.
Hnoðraætt
102. Helluhnoðri (Sedum acre). - Hér og þar í Gilinu og á klettaholtum t.d. við Selið, í breiðum.
103. Flagahnoðri (Sedum villosum). - Víða í Gilinu og í flögum í mýrajöðrum.
Steinbrjótsætt
104. Gullsteinbrjótur (Saxifraga aizoides). - Vex hér og þar í klettum í Gilinu.
105. Mosasteinbrjótur (S. hypnoides). - Víða í Gilinu, í klettum og skriðum.
106. Snæsteinbrjótur (S. nivalis). - Hittist á nokkrum stöðum í Gilinu, í skuggsælum klettum.
107. Stjörnusteinbrjótur (S. stellaris). - Víða í Gilinu við dý og læki.
108. Vetrarblóm (S. oppositifolia). - Algengt í Gilinu og í klettum um allt svæðið.
109. Þúfusteinbrjótur ( S. caespitosa). - Algengur í Gilinu og á klettaholtum í skóginum.
110. Mýrasóley (Parnassia palustris). - Algeng í Gilinu og í raklendi annarsstaðar.
Rósaætt
111. Engjarós (Comarum palustre). - Algeng í mýrum á svæðinu.
112. Fjalldalafífill (Geum rivale). - Algengur um allt svæðið, í brekkum, klettum, skógi og mýrum.
113. Gullmura (Potentilla crantzii). - Algeng um allt svæðið, í mólendi, brekkum og klettum.
114. Holtasóley (Dryas octopetala). - Algeng um allt svæðið, í sama landi og uf. tegund.
115. Hrútaberjaklungur (Rubus saxatilis). - Algengt um allt svæðið, einkum í gilinu og skóginum. Myndar víða undirgróður í honum.
116. Jarðarber (Fragaria vesca). - Fannst neðst í skóginum, vestan í Selhæðinni (Egilsstaðaöxl). Þessi tegund vex víða í Egilsstaðaskógi, en það er heldur óvanalegt að hún vaxi í skógum hérlendis. Þá er hún líka stærri en venjulega.
117. Ljónslappi (Alchemilla alpina). - Algengur um allt svæðið, í giljum, klettum og grasbrekkum.
118. Maríustakkur (A. vulgaris). - Algengur um allt svæðið, einkum í Gilinu, oftast í raklendi eða mýrum.
119. Maríuvöttur (A. faeroensis). - Tíður í Gilinu og við Hálslæk, í hálfröku eða sendnu landi, klettasyllum, skriðum o.s.frv. Þetta er ein af þeim jurtategundum, sem aðeins vex á Austurlandi hérlendis, og utan Íslands vex hann aðeins í Færeyjum, enda við þær kenndur.
120. Reynir (Sorbus aucuparia). - Vex hér og þar í Gilinu og skóginum á Rana og Selhæð, jafnan stök tré eða fáein saman, oftastheldur hærri en birkiskógurinn umhverfis svo þau sjást nokkuð vel tilsýndar, einkum á haustin þegar þau fara að roðna. Þau hæstu munu vera um 6-7 m á hæð. Óvíða á Austurlandi er reynir eins algengur og í Selskógi. Nokkur tré eru í Eyvindarárgili neðan við skóginn og brúna á Eiðaþinghárvegi.
Ertublómaætt
121. Hvítsmári (Trifolium repens). - Vex á eyrum og bökkum í Gilinu við Vémörk og á túni við Selið.
Blágresisætt
122. Blágresi (Geranium silvaticum). - Algengt um allt svæðið, í gilinu og skóginum, víða mikið sem undirgróður með hrútaberjaklungri o.fl.
Vatnsbrúðuætt
123. Síkjabrúða (Callitriche hamulata). - Í skurði við Hálslæk og í polli í "Fosshvammi" í Gilinu.
Fjóluætt
124. Birkifjóla (Viola epipsila). - Vex á nokkrum stöðum í hálfdeigu graslendi í dældum og mýrarjöðrum neðst á svæðinu.
125. Mýrfjóla (V. palustris). - Víða í raklendi, við dý og læki og í mýrum.
126. Týsfjóla (V. canina). - Við Selið í grasbrekku. Er líklega víðar.
Dúnurtarætt
127. Eyrarrós (Chamaenerion latifolium). - Nokkuð víða í Gilinu, í klettum og á eyrum, þó hvergi í breiðum. (Amerísk tegund sem Evrópskir ferðamenn hafa gaman af að sjá).
128. Heiðadúnurt (Epilobium hornemanni). - Fannst í Gilinu við Ranann, en er líklega víðar í því.
129. *Klappadúnurt (E. collinum). - Aðeins fundin á einum stað í "Fosshvammi", fyrir ofan svæðið, í rakri skriðu.
130. Lindadúnurt (E. alsinifolium). - Algeng um allt svæðið, í Gilinu og við læki og dý.
13l. ?Ljósadúnurt (E. lactiflorum). - Líklega fundin í Gilinu við Rana, í blautri skriðu (var óblómguð og því ekki víst hvort hún er rétt greind).
132. Mýradúnurt (E. palustre). - Algeng um allt svæðið, í raklendi og mýrlendi.
Lófótsætt og maraætt
133. Lófótur (Hippuris vulgaris). - Í skurði í Hálstjarnarmýri.
134. *Síkjamari (Myriophyllum alterniflorum). - Vex í breiðum í Seltjörnum við Fagradalsbraut, rétt fyrir innan Selskóginn.
Sveipjurtaætt
135. Geithvönn (Angelica silvestris). - Vex allvíða í Gilinu í rökum brekkum, og teygir sig sumsstaðar nokkuð langt upp í skóginn, einkum við lækjasitrur.
Vetrarliljuætt
136. Klukkublóm (Pyrola minor). - Algengt um allt svæðið, í rökum dældum og skuggsælum stöðum, oft í þéttum skógi.
Krækilyngs- og lyngætt
137. Beitilyng (Calluna vulgaris). - Algengt um allt svæðið, í mólendi (lyngmóum), einkum á klettum og holtum.
138. Aðalbláberjalyng (Vaccinium myrtillus). - Algengt í brekkum og lautum, einnig sem undirgróður í birkiskóginum.
139. Bláberjalyng (V. uliginosum). - Vex í stórum stíl um allt svæðið og á víðast hvar mestan þátt í gróðri lyngmóa og skógarbotns.
140. Mýraberjalyng (V. microcarpus). - Vex í Einbúablá og Hrossamýri, í blautum flóum.
143. Sortulyng (Arctostaphylos uva ursi). - Algengt um allt svæðið, mest á þurrum holtum, brekkum og klettum, en sjaldan í skógi.
144. Krækilyng (Empetrum nigrum). - Mjög algengt um allt svæðið í hvers konar mólendi, og víða aðalgróður á lyngholtum og klettahraukum.
145. ?Mosalyng (Harrimanella hypnoides). - Vex líklega í Gilinu, enda þótt það sé ekki skráð.
Súrsmæruætt
146. Sjöstjarna (Trientalis europaea). - Vex í breiðum neðst í skóginum, við Einbúablá, og líklega víðar. Ein af Austurlandstegundunum, með svipaða útbreiðslu og maríuvöttur. Þarna er stutt að ganga af Eiðavegi til að skoða þessa undurfögru jurt.
Maríuvandarætt
147. Dýragras (Gentiana nivalis). - Við Selið í grasmólendi, og líklega víðar þó ekki sé skráð.
148. Gullvöndur (G. aurea). - Á sama stað og uf. tegund.
149. Maríuvöndur (G. campestris). - Víða á svæðinu í þurrum grasbrekkum og móum.
150. Reyðingsgras (Menyanthes trifoliata). - Einbúablá og Hrossamýri, í flóum.
Varablómaætt
151. Blóðberg (Thymus arcticus). - Algengt um allt svæðið, í mólendi, klettum o.s.frv.
Grímublómaætt
152. Augnfró (Euphrasia frigida). - Algeng í Gilinu og víðar.
153. Lokasjóður (Rhinanthus minor). - Vex víða í Gilinu og á óræktartúnum.
154. Smjörgras (Bartsia alpina). - Algeng um allt svæðið.
155. Fjalladepla (Veronica alpina). - Hittist hér og þar í Gilinu, einkum ofantil, á skuggastöðum.
156. Lækjadepla (V. serpyllifolia). - Við Hálslæk og líklega víðar.
157. Skriðdepla (V. scutellata). - Fundin í tjarnstæði á Selöxl (Egilsstaðaöxl).
158. Steindepla (V. fruticans). - Algeng í Gilinu, í klettum.
Blöðrujurtarætt
159. Lyfjagras (Pinguicula vulgaris). - Vex víða í Gilinu og á holtum.
Möðruætt
160. Gulmaðra (Galium verum). - Algeng um allt svæðið, í mólendi, klettum o.v.
161. Hvítmaðra (G. normanii). - Algeng um allt svæðið, á svipuðum stöðum og uf. teg.
Bláklukkuætt
162. Bláklukka (Campanula rotundifolia). - Algeng um allt svæðið í allskonar lendi. Bláklukkan er ein af Austurlandsplöntunum, sú þekktasta af þeim. Þó hún finnist í flestum landshlutum er hún hvergi eins tíð og austanlands.
Körfublómaætt
163. Fellafífill (Hieracium alpinum).- Tíður í Gilinu.
164. Undafíflar (Ýmsar tegundir, Hieracium spp.). Algengir um allt svæðið, einkum í gilinu.
165. Íslandsfífill (Pilosella islandica). - Algengur í Gilinu og víðar.
166. Jakobsfífill (Erigeron boreale). - Tíður í Gilinu ofantil og hittist einnig í lyngmóum og skóglendi.
167. Skarifífill (Leontodon autumnalis). - Tíður í Gilinu, á túnum og víðar.
168. Túnfífill (Taraxacum spp.). - Algengur um allt svæðið í ýmss konar lendi.
169. Vallhumall (Achillea millefolium). - Vex allmikið í gamla túninu á Selinu, en ófundinn annarsstaðar á svæðinu.
AÐRIR JURTAFLOKKAR
Mosar hafa lítið verið kannaðir í Selskógi. Þó hefur þeim verið safnað eitthvað í Eyvindarárgili, en niðurstöður greininga liggja enn ekki fyrir. Óhætt má fullyrða að mosaflóra gilsins sé mjög fjölbreytt, og má ætla að þar vaxi ekki færra en 100 tegundir.
Fléttur. Hörður Kristinsson fléttufræðingur á Akureyri hefur safnað fléttum oftar en einu sinni í Selskógi, m.a. þeim tegundum sem vaxa á trjánum, en fléttugróður er mjög áberandi á birki- og reynitrjám í Selskógi. Mun vera hægt að fá upplýsingar um fléttuflóruna hjá honum.
Sveppir. Undirritaður hefur margoft safnað sveppum í Selskógi, nafngreint allmarga þeirra og ljósmyndað. Hafa um 50-60 tegundir stórsveppa verið skráðar þar. Síðastliðið sumar söfnuðu erlendis sveppafræðingar þar einnig, en greiningar þeirra liggja enn ekki fyrir. Meðal góðra matsveppa sem vaxa í Selskógi má nefna kóngssvepp (Boletus edulis), og að sjálfsögðu er þar mikið af kúalubbanum (Leccinium scabrum), sem fylgir birkinu eftir, en hann er líka afbragðs matsveppur. Ein tegund hlaupsveppa (Femsjonia pezizaeformis), sem vex á birkitrjám og myndar þar rauðgula, lingerða púða, hefur hvergi fundist annarsstaðar hér á landi.
----------------
Samantekt þessi var gerð að tilhlutan nefndar á vegum Egilsstaðabæjar, um málefni útivistarsvæðis í Selskógi, og byggist mest á athugunum sem undirritaður gerði seinni hluta ágústmánaðar 1993.
Lokið 12. nóv. 1993. H. Hall.
Heiðveig Agnes Helgadóttir