Vísað til vegar umhverfis Löginn
Vísað til vegar
umhverfis Löginn
Það er sannmæli margra að óvíða sé meiri náttúrufegurð en á ofanverðu Fljótsdalshéraði og þá sérstaklega í dalnum meðfram stærsta stöðuvatni Lagarfljóts, Leginum, og upp frá því. Þetta blágræna vatn með sínum undrum hefur löngum heillað menn, ásamt skógarhlíð Hallormsstaðar og hinu tígulega Snæfelli, sem vakir yfir dalnum.
Margir ferðamenn leggja leið sína umhverfis Löginn, eða ‚Fljótsdalshringinn‘ eins og það er vanalega kallað, um Velli, Skóga, Fljótsdal og Fell, gjarnan með viðkomu á Hallormsstað og Skriðuklaustri. Þessi hringur er um 90 km og er ágætis dagsferð á bíl með hæfilegum stönsum.
Sumir fara hringinn á reiðhjóli en það eru aðallega útlendingar og til þess þarf helst tvo daga, þó margir fari það á einum. Svo er eitthvað um að menn fari þetta á hestum, en verða þá oftast að nota bílveginn, þar sem gamli reiðvegurinn hefur verið lagður niður og honum allvíða eytt eða girt yfir hann. Þessi gamli vegur lá víða nær fljóti en núverandi bílvegur. Nú er mikið rætt um að endurreisa gamla reiðvegi í landinu og er þegar byrjað á því austan Lagar.
Árið 1995 kom upp sú hugmynd að leggja göngustíg og hugsanlega einnig hjólabraut og reiðveg umhverfis Löginn. Framfarafélag Fljótsdalshéraðs, undir forustu Philips Vogler kennara á Egilsstöðum, hafði forgöngu um þetta mál, og fékk Braga Björgvinsson frá Víðilæk til að kanna stígstæðið og ræða við landeigendur haustið 1996. Skyldi miðað við að notaðir yrðu gamlir reiðvegir eða aflagðir bílvegir, eftir því sem hentaði og hægt væri á hverjum stað.
Þá var Leirubrúin í Fljótsdal ekki komin til sögunnar og var því miðað við ‚stóra hringinn‘ um brýrnar hjá Víðivöllum. Hefur þeirri áætlun verið haldið, því að mikilvægt er að fá höfuðbólin í Fljótsdal í þessa hringleið. Nokkrir stúdentar í arkitektanámi o.fl. voru fengnir til að kynna sér málið og gera áætlanir um gerð stígsins. Skiluðu tveir þeirra skýrslum til félagsins. Af framkvæmdum hefur samt ekki orðið. Þessi gönguleið er 95-100 km ef allir krókar eru taldir með.
Haustið 2002 efndi félagið til gönguferðar (raðgöngu) umhverfis Löginn, sem kölluð var ‚Fljótsgangan‘. Farinn var stóri hringurinn í 8 áföngum. Þessar ferðir voru furðu vel sóttar; 107 manns tóku þátt í þeim og þar af gengu 4 allan hringinn. (Katrín Gísladóttir í Glettingi 1/2003; Bragi Björgvinsson í Austurglugganum vorið 2003)
Í eftirfarandi lýsingu er miðað við að fara Fljótsdalshringinn sólarsinnis og byrja og enda á Egilsstöðum. Áhersla er lögð á að lýsa ströndum Lagarins og má því segja að lýsingin sé miðuð við gönguferð, þótt göngustígur sé ekki kominn. Getið verður um gamla vegi þar sem þá er að finna og bent á gönguleiðir.
Höfundur hefur samið miklu ýtarlegri lýsingu sveitanna umhverfis Löginn (Land og saga), sem aðeins er til í handriti, og má líta á þetta plagg sem útdrátt úr henni.)
H. Hall. (Apríl, 2005)
Austur-Vellir
Hinn gamli Vallahreppur skiptist í tvær sveitir, sem fram um aldamótin 1900 voru aðskildar kirkjusóknir, þ.e. Velli frá Eyvindará að Strönd, og Skóga þaðan að hreppamörkum við Gilsá. Bæir á Völlum sóttu kirkju í Vallanes, en Skógabæir að Hallormsstað. Auk þess skipti Grímsá Vallasveit í tvo hluta, Austur- og Norðurvelli (sem stundum innifelur Skóga). Á Austurvöllum er allbreitt láglendi milli Lagarfljóts og fjalla, með tveimur bæjaröðum. Það einkennist af höfðum (kollum), lágum ásum og mýrlendislægðum, sem víða er búið að ræsa fram. Fjallshlíðin austan við sveitina er í meðallagi brött og er neðri hluti hennar vaxinn birkiskógi, sem er eitt stærsta skógarsvæði landsins.
Egilsstaðir
Gamli Egilsstaðabærinn, sem nú er hótel, stendur á fljótsbakkanum fyrir botni Egilsstaðavíkur, og neðan við hann er gamall trjágarður. Bærinn er að stofni til frá 1904, stór og sérkennileg bygging, með sérstæða byggingarsögu, vernduð skv. húsfriðunarlögum. Á Egilsstöðum hefur um aldir verið þingstaður og fundastaður, enda er bærinn vel í sveit settur til þeirra hluta. Um það vitna Þingsteinar, stakir risasteinar utan við Egilsstaðakletta, og aftökustaður á Gálgási, þar sem nú er kirkja Egilsstaðakauptúns. Utan við víkina er Fljótshúsið á mjóum klettatanga; byggt um 1930 sem geymsluhús fyrir vörur sem fluttar voru með Lagarfljótsbátnum. Minjar um eldri geymslu eru á barði innan og neðan við bæinn. Jón Bergsson keypti Egilsstaði 1889 og hóf þar mikil umsvif í búskap og verslun, sem Pétur og Sveinn synir hans héldu svo áfram og búa afkomendur þeirra enn á staðnum. Utan við Egilsstaðakletta er Egilsstaðanes. Þar eru aðaltún jarðarinnar og alþjóðlegur flugvöllur. Úr nesinu liggur Lagarfljótsbrú yfir í Fellabæ, en áður var þar ferjustaður. Við brúna eru Víðihólmar, alvaxnir gulvíði, loðvíði og stökum birkitrjám. Egilsstaðaskógur er austur frá bænum; þar eru langstærstu tré af villtri blæösp á Íslandi, allt að 9 m á hæð.
Egilsstaðakauptún fór að byggjast í landi Egilsstaða eftir 1944, þegar Kaupfélag Héraðsbúa setti þar upp verslun og héraðslæknir settist þar að. Stofnun þess var staðfest með sérstökum lögum frá Alþingi 1947 og það var gert að sérstökum hrepp. Þorpið er miðstöð samgangna, verslunar og þjónustu á Miðausturlandi og þaðan kvíslast vegir um Hérað og til Austfjarða. Þar er heilsugæslustöð, apótek, elliheimili og nokkrir skólar, m.a. menntaskóli, sem tók til starfa 1979. Skógrækt ríkisins og Héraðsskógar hafa þar aðsetur síðan um 1990, og þar er stór uppeldisstöð (Barri) fyrir trjáplöntur. Íbúar eru um 1500.
Egilsstaðaklettar mynda tanga út í Lagarfljót, með skeri við endann. Þeir eru úr grófkornóttu og stórdílóttu basalti, sem stundum er kallað Egilsstaðaberg, og ristir óvenju djúpum grópum og klaufum af ísaldarjöklinum, sem skriðið hefur yfir þá í N-S-stefnu. Svipað berg er í Ekkjufellssklettum handan við fljótið. Klettarnir eru um 50 m y.s. og 30 m yfir fljótið. Þar hafa menn löngum orðið varir við huldufólk og hefur sambýli manna við það gengið áfallalaust. Sagt er að því hafi stundum verið gefin jólakerti, sem sett voru á hríslu í klettunum og brunnu út, hvernig sem viðraði.
Egilsstaðaflói heitir sá hluti Lagarfljóts sem er vestur af Egilsstöðum. Í honum hliðrast fljótið um breidd sína til austurs og breytir jafnframt um stefnu, úr norðaustri til norðurs. Um 40 m dýpi hefur mælst vestantil í flóanum, en við Egilsstaðakletta snargrynnkar fljótið úr um 20 m í um 2 m. (Stöðuvötn í Lagarfljóti kallast flóar, nema Lögurinn).
Gönguleið Egilsstaðir - Grímsárósar: Gamall reiðvegur og síðar kerruvegur / bílvegur liggur frá bænum á Egilsstöðum suður um Kollklauf í Egilsstaðakolli og upp á þjóðbraut hjá Dagsverki. Síðan lá hann inn Austur-Velli, ýmist á sömu slóð og núverandi þjóðvegur, eða ofan við hann (nær fjallinu). Frá Dagsverki má rekja gamlar götur inn og niður á Þórsnes og inn með Leginum, um Hrafnás, að Grímsárósum, og eru þar engar torfærur að sumarlagi, nema nokkur lækjargil og girðingar, en víða á leiðinni er ágæt útsýn yfir fljótið og sveitirnar báðum megin þess.
Egilsstaðakollur, um 70 m. y.s., er sunnan við Egilsstaðavíkina, með standklettum að utan og norðan. Í honum er önnur berggerð en í Egilsstaðaklettum og því er hann ekki eins fjölbreyttur hvað jökulminjar snertir, en þaðan er frábært útsýni, m.a. yfir þéttbýlið á Egilsstöðum. Flutningshöfði er nokkru innar á ströndinni, gamall ferjustaður, eins og nafnið bendir til, og SV við hann er Kollstaðalækur í djúpu gili með malarbökkum, þar er heilmikið malarnám. Malarfyllan hefur myndast af framburði vatna sem runnu meðfram Fljótsdalsjökli í lok Ísaldar. Er yfirborð hennar um 40 m y.s.
Kollstaðir - Höfði
Kollstaðir eru næst fyrir innan og ofan Egilsstaði. Bærinn stóð á lágum ás drjúgan spöl ofan vegar, utan við Kollinn sem hann er kenndur við, skammt frá tjörninni Skinnbeðju, en þar á að vera nykur. Jörðin var lögð undir Egilsstaði 1904, tilheyrir nú Egilsstöðum II. Þar hefur ekki verið búið síðan og hús eru fallin. Landið er mjög skógi vaxið. Hjáleigan Kollstaðagerði er nær fjallinu, og stendur þar sumarhús.
Þórsnes er nesoddi við Lagarfljót í landi Kollstaða. Nesið er sömu gerðar og Freysnes handan fljóts, enda standast þau á, bæði mynduð á straumaskilum í lok ísaldar, vegna beygjunnar á farvegi fljótsins. Líparít er áberandi í malarefni nessins, eflaust borið með vatni innan úr Skriðdal. Samkvæmt þjóðsögu á Þórslíkneski úr hofi Bessa á Bessastöðum að hafa rekið þarna. Líklegt er að bæði nesjanöfnin séu forn og tengist landnáminu. Upp af Þórsnesi gengur lágur klapparás, Þórsneshöfði, og vestan á honum eru friðlýstar húsatættur og garðlög, sem hafa orðið tilefni getgátna um þingstað á nesinu, en eru líklega leifar af fornu býli eða gerði. Á Þórsneshöfða voru árlegar héraðssamkomur á árunum 1873-1880, haldnar í stóru tjaldi.
Lögurinn, stöðuvatnið stóra, hefst eiginlega við nesin sem mynda eins konar inngang að því. Ef til vill var þessi inngangur helgaður guðunum, eins og öndvegissúlur í hýbýlum manna. Lögurinn héðan að Fljótsbotni er um 20 km langur, og 1-3 km breiður. Flatarmál hans er 53 ferkílómetrar og hann er þriðja stærsta stöðuvatn landsins. Vatnsborð er breytilegt, en að meðaltali er það um 20 m yfir sjávarmáli. Mesta dýpi er um 112 m hjá Arnheiðarstöðum, en á botninum er álíka þykkt leirlag. Hinn fasti botn er því um 200 m neðan sjávarmáls. Straumur er nánast enginn. Metangas sprettur upp hér og þar í vatninu, myndað við rotnun lífrænna leifa í botnleirnum, og brýst stundum upp með offorsi. Hefur það m.a. orðið tilefni sagna um Lagarfljótsorminn, sem talinn er eiga heimkynni í Leginum. Bleikja og urriði veiðast í Leginum, einnig stöku lax. Lómur er einkennisfugl vatnsins en mest ber þó á grágæsum.
Höfði er gamalt býli, sunnan undir háum höfða, er nú kallast Höfðakollur, skammt ofan vegar. Þar bjó Gísli Hjálmarsson læknir á 19. öld, vinur og samstarfsmaður Jóns Sigurðssonar forseta, sem hann hafði mikil bréfaskipti við. Páll Ólafsson skáld bjó þar tvö ár á eftir Gísla. Höfði er eign Skógræktar ríkisins, sem hefur plantað í mestallt landið. Innan og ofan við Höfða er bærinn Útnyrðingsstaðir. Þaðan var Þorsteinn M. Jónsson skólastjóri og bókaútgefandi á Akureyri.
Hæðir: Innan við Þórsnes er strandlengjan með höfðum, smávíkum og lágum klettum og fjaran nokkuð grýtt. Ofan við hana eru Hæðir, sem ná um 70 m y.s. Þær eru yfirleitt þaktar lyngmóum en með stökum hraunkollum. Nýlega hefur verið plantað þar lerki. Ofan við Hæðir er Þórsnesblá, sem nær upp að vegi. Minjar eru um fornbýli sunnan í Hæðum, nafnlaust.
Hrafnavík er við fljótið niður af Höfðabænum. Hún sker sig úr öðrum víkum á þessum slóðum, því að suðaustan við hana er allhátt standberg, myndað að hluta til af berggangi miklum, sem liggur samhliða ströndinni, um 2 km leið. Undir berginu er stekkjartótt og vottur að nausthúsi á bakkanum. Haft er fyrir satt að þarna hafi Grímur Droplaugarson fengið léðan bát til að flytja sig og félaga sína yfir fljótið, eftir dráp Helga Ásbjarnarsonar á Eiðum; síðan skilaði hann bátnum og synti til baka, en fljótið er þarna um 1 km á breidd!
Höfðaárfoss: Innan við Hrafnavík fellur Höfðaá í allbreiðum en lágum fossi ofan af ganginum niður í sandborið vik; getur hann orðið áberandi í vatnavöxtum handan fljóts. Lítið sumarhús er í hvammi utan og ofan við fossinn, og annað nokkru ofar, byggt sem lítil baðstofa. Stuttu innar er Hafnarhólmi skammt frá landi, og á litlum kletti þar uppi á ströndinni er stór gráhvít skella, sem líklega er stærsta skóf á Íslandi.
Ketilsstaðabæir
Innan við Höfðaá tekur við land Ketilsstaða, sem búið er að búta niður í nýbýli og sumarhúsalóðir.
Stóravík er skammt fyrir innan Höfðaá, með sandfjöru og sléttum bakka fyrir botni. Þar byggði Starfsmannafélag Landsbankans á síðasta áratug sex sumarhús, sem standa í röð á bakkanum. Þangað liggur vegur af þjóðvegi meðfram Höfðaá, niður yfir Hrafnás, sem rís allbratt fyrir ofan víkina, með tveimur myndarlegum vörðum. Beinahvammur er vestan í ásnum nokkru innar. Þar voru beitarhús frá Ketilsstöðum og þótti reymt. Á smátanga innan við hvamminn er sumarhús með lundi af ýmsum trjám.
Stangarás og Unalækur eru nýbýli við þjóðveg austan við Hrafnás, sem byggðust úr landi Ketilsstaða á árunum 1955-1960, ásamt býlinu Lönguhlíð, sem er nær fjalli. Enginn búskapur er nú á þessum bæjum. Keldhólar er gamalt hjáleigubýli utan við Lönguhlíð.
Unalækur er innan við samnefnt býli, kenndur við Una danska landnámsmann á Unaósi, og talinn hafa markað landnám hans upp í Héraðið. Auk þeirra furðusagna sem skráðar eru af Una í Landnámu, eru til ýmsar þjóðsögur af honum, álíka ævintýralegar. Nýlegt sumarhús er við ósinn, og annað á Kiðustekk, nokkru innar, á gömlum stekkjartóttum, þangað er bílfær slóð niður yfir Tröllhöfða.
Grímsárósar eru yst á Ketilsstaðanesi, neðan við Tröllhöfða. Í ósunum eru hólmar, vaxnir gulvíðikjarri, enda kallast þar Víðar. Kjarrið hefur aukist mjög í seinni tíð, eftir að sauðbeit minnkaði. Á Víðatanga eru óvenju myndarleg tré af gulvíði, allt að 5 m há, og lítill birkilundur. Í ósunum er bleik líparítmöl áberandi, sem áin ber með sér úr Austurfjöllunum. Farvegir hennar eru líka þaktir af þessari ‚gullmöl‘ og mynda skörp litbrigði við blátt vatnið og iðgræna bakka.
Grímsá kemur úr Skriðdal og myndast við samrennsli Geitdalsár í Norðurdal og Múlaár í Suðurdal. Þær eiga báðar upptök sín á Hraunum, hálendinu milli Fljótsdals og Suðurfjarða. Múlaá kemur úr Ódáðavötnum og heitir þar Axará (Öxará), en breytir um nafn í Skriðuvatni í Suðurdal. Margar þverár falla í Múlaá-Grímsá úr þverdölum Skriðdals, sem skerast inn í Austfjarðafjallgarðinn, þar sem líparít er ráðandi bergtegund; það veðrast hratt og myndar skriður. Hjá nýbýlinu Lundi fellur Grímsá ofan í Grímsárgljúfur (Grímsárgil), og þar var í henni um 20 m hár foss, Grímsárfoss, en fall hans var virkjað á sjötta áratug 20. aldar, og kallast þar Grímsárvirkjun. Úr gilinu rennur Grímsá út á Vallanes. Grímsá er dæmigerð dragá, þannig að í hana geta komið mikil hlaup, og verður hún þá að skaðræðisfljóti, enda hafa margir farist í henni. Á vetrum og í þurrkatíð á sumrum getur hún orðið sáralítil. Hún er því óhentug til virkjunar, en reynt var að bæta það upp með lítilli miðlun í Ódáðavötnum. Bleikja og urriði eru í vatnakerfinu og nokkur stangveiði.
Ketilsstaðir eru landnámsjörð og gamalt höfuðból, með nokkrar hjáleigur. Samkvæmt Landnámu hétu fyrstu ábúendur Ásröður og Ásvör. Þjóðsögur herma að Ásröður sé grafinn í Rauðshaugi sem blasir við sjónum uppi á Ketilsstaðahálsi. Símonarlág er innst í túni, merkt með skilti við veginn (sjá Eyjólfsstaði). Frá Ketilsstöðum er fögur fjallasýn til suðurs og ber þar mest á Hetti og Sandfelli, sem bæði eru um 1100 m. Á Ketilsstöðum var kirkja og sýslumannssetur á seinni öldum. Í Þjóðminjasafni er fræg altaristafla úr kirkjunni, sem Pétur Þorsteinsson sýslumaður lét mála af sér og fjölskyldu sinni. Pétur var uppi á 18. öld og kom talsvert við sögu á Austurlandi, m.a. við innflutning hreindýra. Á 19. öldinni var Páll Melsted (eldri) sýslumaður þar um nokkurt skeið, en sonur hans var Páll Melsted yngri, sagnfræðingur, sem skrifaði endurminningar frá Ketilsstöðum. Um 1915 byggði nýstofnaður fríkirkjusöfnuður á Völlum nýja kirkju úr steini á Ketilsstöðum, sem notuð var til samkomuhalds eftir að söfnuðurinn lagðist niður 1925 og rifin 1991. Nú er landsfrægt hestabú og tamningastöð á Ketilsstöðum.
Beinárgerði er gamalt afbýli frá Ketilsstöðum upp við fjallið, kennt við Beiná sem rennur í Beinárvatn utan við bæinn. Það var áður nefnt Urriðavatn, og úr því rennur Urriðalækur í Grímsá. Ofan við bæinn er Hjallaskógur með nokkrum sumarhúsum.
Eyjólfsstaðir
heitir næsti bær og var einnig talin úrvalsjörð. Þar bjó Björn Skúlason, umboðsmaður Skriðuklaustursjarða, á síðari hluta 19. aldar, mikill vinur Páls Ólafssonar skálds og faðir Ragnhildar, sem Páll orti flest ástarljóð sín til og síðar varð kona hans. Jörðin er nú í eigu trúfélagsins ‚Lúterska fríkirkjan‘, sem rekur þar biblíuskóla og hefur plantað lerki í mestan hluta landsins. Kaldá er utan við bæinn og á Kaldármóum, utan við ána, er garðyrkjustöðin Sólskógar, stofnuð um 1995, með gróðurhúsum og uppeldi fyrir garðplöntur. Utan og neðan við hana eru Kaldármelar með malarnámum.
Í Eyjólfsstaðaskógi er mikil sumarhúsabyggð. Flest húsin eru í eigu Alþýðusambands Austurlands. Skógræktarfélag Austurlands á hluta skógarins, hefur plantað þar barrviðum. Kaldá rennur í gegnum skóginn og neðan við hann eru rústir af eyðibýlinu Einarsstöðum, sem sumarhúsin eru oft kennd við. Þjónustumiðstöð fyrir sumarhúsin er á Úlfsstöðum.
Eyjólfsstaðir tengjast þjóðsögunni ‚Valtýr á grænni treyju‘, sem er ein besta og þekktasta þjóðsaga Íslendinga, þó líklega sé lítill fótur fyrir henni. Sendimaður sýslumanns á Ketilsstöðum fannst illa leikinn í Símonarlág, milli bæjanna, og gat aðeins stunið upp orðunum: „Valtýr á grænni treyju“ áður en hann lést. Svo vildi til að bóndinn á Eyjólfsstöðum hét Valtýr og gekk oft á grænni treyju, talinn góður maður og göfugur. Samt var hann tekinn og hengdur á Gálgási á Egilsstöðum, en áður bað hann guð að sanna sakleysi sitt. Komu þá þriggja ára harðindi sem kölluð voru Valtýsvetur. Síðar fannst svo hinn rétti morðingi, þegar blóð draup úr visnaðri hönd Valtýs bónda á höfuð hans á Egilsstöðum, og var hann þá líka hengdur á sama stað. Bein þeirra nafna voru sýnd á Gálgási, fram á síðustu ár.
Vallanesbæir
Vallanesið: Grímsá hefur borið fram víðáttumikla flæðisléttu, sem tilheyrir þremur jörðum: Ketilsstöðum, Eyjólfsstöðum og Vallanesi (og Jaðri), en oft er kölluð Vallanes einu nafni, og myndar um 3 km breitt nes út í Löginn. Utantil á nesinu fellur Grímsá í fljótið, í mörgum kvíslum og síbreytilegum, enda er það alsett gömlum og nýjum farvegum hennar. Í sumum þeirra eru kílar eða staraflákar. Meðfram ströndinni er víðast hvar mikil malaralda eða rif, sem fljótsaldan skolar upp og heldur við, en innan við það eru sumsstaðar smálón. Þeim hluta nessins sem næst liggur Vallanesbæjum, hefur verið breytt í tún og akra, og plantað miklum skjólbeltum sem sjást langt að. Mikið fuglalíf er á Vallanesi, og eru grágæsir langmest áberandi. Stundum flæðir Grímsá yfir mikinn hluta nessins, sérstaklega ef líka er hátt í fljótinu, en þegar lágt er í því koma upp stórar leirur við ósana.
Gönguleið yfir Vallanes: Grímsá er helsta torfæran á gönguleiðinni umhverfis Löginn. Brúin hjá Hvammi er nokkuð langt úr leið fyrir gangandi fólk. Þegar Grímsá er lítil að sumarlagi er hægt að vaða yfir kvíslar hennar í árósunum, en ekki er ráðlegt að gera það nema í fylgd kunnugra manna. Að jafnaði verður því að gera ráð fyrir flutningi á hestum, bílum eða ferju yfir ósana. Síðan má ganga meðfram ströndinni eða beinustu leið heim í Vallanes, en einhverjir skurðir eru á þeirri leið.
Vallanes hefur verið höfuðból, kirkjustaður og prestssetur frá örófi alda. Fylgdu því nokkrar hjáleigur og kirkjujarðir. Núverandi kirkja var byggð 1930, hún er með veglegustu kirkjum á Héraði. Ýmsir merkisprestar hafa starfað í Vallanesi, en þeirra þekktastur er Stefán Ólafsson sem uppi var á 17. öld og talinn með fremstu skáldum þeirrar aldar á Íslandi. Flest kvæði hans eru í gamansömum tón, m.a. um Grýlu og skrímslin í Lagarfljóti. Minnisvarði um Stefán er við kirkjuna. Guttormur Pálsson var prestur í Vallanesi á fyrri hluta 19. aldar, áður rektor Reykjavíkurskóla, talinn vel að sér í ýmsum fræðum og kennari góður.
Kona Guttorms var Margrét, dóttur Vigfúsar Ormssonar prests á Valþjófsstað, en Ingunn systir hennar var húsfreyja á Eyjólfsstöðum, og þóttu þær báðar skörungar. Haft er fyrir satt að þær systur séu kveikjan að gamanbréfi Jónasar Hallgrímssonar: „Þegar drottningin á Englandi fór í orlof sitt.“
Á fyrri hluta 20. aldar var Magnús Blöndal Jónsson prestur í Vallanesi. Hann tók mikinn þátt í félagsmálum og rak fyrirmyndarbúskap á jörðinni, en var nokkuð umdeildur. Hann stofnaði nýbýlið Jaðar og byggði þar glæsilegt hús sem enn stendur lítið breytt. Vallanes er nú orðið þekkt fyrir lífrænan búskap, sem Eymundur Magnússon stendur fyrir. Í klettum innan og ofan við bæinn er talið að huldufólk eigi bústaði. Á Stekkhólma við Grímsá eru höfuðstöðvar hestamannfélagsins Freyfaxa, og samkomuhús á Hvammsmóum, sem heitir Iðavellir.
Vallanesháls er sunnan og vestan við Vallanes, breiður og bungulaga ás (50-70 m y.s.), í framhaldi af Strandar- og Gunnlaugsstaðaásum. Hálsinn liggur um 3 km meðfram Lagarfljóti. Ströndin er bein, víðast með lágum klettum eða nefjum, sem oft eru mynduð af berggöngum. Niður af Jaðri er Fljótsklettur, og innan við hann Stóravík, með sandfjöru, en stærsti gangkletturinn heitir Skjólkampur. Fram af Fljótskletti er Kríusker. Innantil á hálsinum að vestan eru tvö sumarhús í eigu Landsvirkjunar.
Snæfell sést alla leið inn Velli og Skóga, en nýtur sín óvíða eins vel og af þjóðveginum á Vallaneshálsi, þar sem það gnæfir yfir Fljótsdalinn með hnjúkahirð sinni og ber fyrir enda Lagarins. Toppur fjallsins er 1833 m y.s. og hæsta fjall á Íslandi utan Vatnajökuls. Snæfell er eldfjall, tiltölulega ungt á jarðsögulegan mælikvarða, og ekki hægt að útiloka að það kunni að gjósa á ný.
Gönguleið Vallanes-Strönd: Frá Vallanesbænum liggur gamall reiðvegur suður Vallanesháls, sem er aflagður bílvegur að hluta til. Hann er þægilegt að ganga, en innan fárra ára verður lítið útsýni af honum, því að búið er að planta lerki beggja megin við hann. Þá verður betra að ganga meðfram ströndinni frá Jaðri eða Fljótskletti, um Stóruvík að bænum Strönd, enda er það líka greið leið.
Skógar
Innan við Vallanesháls tekur við sveitin Skógar, sem er vestan í Hallormsstaðahálsi og ætti raunar að tilheyra Fljótsdal, en hefur frá alda öðli verið talin hluti af Vallahreppi. Sveitin var lengst af sérstök kirkjusókn, ásamt tveimur bæjum í Skriðdal, og sótti kirkju að Hallormsstað. Nafnið sýnir að sveitin var óvenju skógrík langt fram eftir öldum, og þar er ennþá einn stærsti birkiskógur landsins, auk annara og nýrri skóga.
Strönd-Mjóanes
Hjá bænum Strönd hefst fjölbreytt strandlengja, 3-4 km löng, sem nær inn að Mjóanesi. Strandarvík er innan og neðan við bæinn. Síðan kemur Ströndin, lágur ás, vaxinn lerkiskógi, með nokkrum smávíkum og klettanefjum. Í einni víkinni er skútuhöfn og á einum stað gathellir, sem gýs vatni þegar fljótsaldan skellur inn í hann. Ofan við ásinn og veginn er Strandartjörn, mjög gróðurrík; flæðir stundum um skurði inn í hana úr fljótinu og jafnvel yfir veginn. Innan við Ströndina er Stóravík, grunn og hringlaga, fast við veginn, og þar næst flatur tangi, sem nú er að þekjast lerkiskógi, vinsæll áningarstaður.
Gönguleið Strönd-Hafursá: Frá Strönd að Gunnlaugsstöðum liggur þjóðvegurinn nálægt bakka Lagarins. Einnig má ganga eftir gömlum bílvegi lítið eitt neðar, en þaðan er ekkert útsýni vegna lerkiskógar. Skemmtilegst er að ganga meðfram ströndinni. Frá Fremrivík við Gunnlaugsstaði er sjálfsagt að ganga eftir bökkunum út á Mjóanestanga, sem er sæmilega greiðfær leið. Þaðan verður hins vegar að ganga eftir fjörunni, því að lerkiskógurinn nær alveg fram á bakka. Einnig má ganga gamlan bílveg sem er stutt fyrir neðan núverandi þjóðbraut. Neðan við Freyshóla taka við ófærir klettar við fljótið og verður að fara upp á þá eða svonefnd Hraun. Þaðan má fara aftur niður að fljóti, eða ganga eftir gömlum bílvegi gegnum lerkiskóg inn í Hafursá.
Gullströndin: Neðan við Gunnlaugsstaði er Fremrivík og áberandi klettastapi við hana, nefndur Hrafnastapi. Þaðan út á Mjóanestanga er fegursti hluti strandlengjunnar, þar sem skiptast á móleit klettanef, svartar bríkur, og víkur með svörtum eða gulum sandi. Vestasta víkin er stærst en þar er fjaran úr gulbleikri líparítmöl, enda oft nefnd Gullströndin. Í norðanveðrum kastar aldan þessari léttu flögumöl upp í kamba. Mölin hefur borist ofan af Mjóaneshálsi með Mjóaneslæk sem fellur í miðja víkina.
Mjóanes er gamall sögustaður. Þar átti Helgi Ásbjarnarson lengi heima og tótt af „skála hans“ er til sýnis í túninu stutt neðan vegar, vaxin háu grasi. Þar var stofnaður fyrsti stúlknaskóli á Austurlandi, sem síðan varð að Húsmæðraskólanum á Hallormsstað. Á fyrri hluta 19. aldar bjuggu í Mjóanesi hjónin Þorsteinn Mikaelsson og Kristín Jónsdóttir, sem bæði voru skáldmælt. Meðal afkomenda þeirra voru Sigfús þjóðsagnameistari og Jón Finnsson, faðir Eysteins ráðherra og Jakobs prests, föður rithöfundanna Jökuls og Svövu.
Mjóanestangi er neðan við bæinn; stærsti tangi við Löginn. Yst á honum að norðan er Veiðivik og vestan á honum Feigðarstapi, þar sem þjóðsaga segir að Þorvaldur faðir Droplaugarsona hafi farist við áttunda mann. Víðsýnt er af stapanum, en búið er að planta skógi á mikinn hluta Mjóanestanga sem takmarkar útsýn. Skógurinn er í eigu og umsjón Skógræktar ríkisins.
Freyshólar-Hafursá
Freyshólabakkar: Innan við Mjóanes er nokkuð bein strandlengja, með grunnum víkum og lágum klettum, sem er þakin af 30-40 ára gömlum lerkiskógi og falin sjónum þeirra sem fara um þjóðveginn. Yst á þessu svæði eru Skrúðnavíkur, en innst Lækjarvík; þar fellur Freyshólalækur til fljóts, þá Timburlágartangi og innan og vestan á honum er allhátt standberg í fljót niður og birkitré á brún. Innan bjargið eru Stekkjarvík og Stekkjarnes, vaxin lerkiskógi. Stutt er að ganga fram á bjargið af þjóðveginum, sem liggur þarna yfir klettaása er kallast Hraun, og beygir niður á nesið. Víðsýnt er af Hraunum og bjarginu. Þaðan liggur gamli bílvegurinn áfram um sandnámu í átt að Hafursárbæ.
Freyshólar eru annar tveggja bæja á Íslandi sem kenndir eru við Frey, en hinn er Freysnes í Öræfum. Ekki er vitað um tildrög nafnsins, en benda má á Freysnes í landi Ekkjufells og Hrafnkels sögu Freysgoða, sem styðja dýrkun frjósemisguðsins Freys á Upphéraði. Ólafur Jónsson ráðunautur og náttúrufræðingur á Akureyri var frá þessum bæ, en hann var frumkvöðull í ofanfallarannsóknum á Íslandi og ritaði bækur um það efni.
Hafursá, með hjáleigunni Freyshólum, var talin með betri jörðum á Héraði. Bærinn stendur að hólabaki nokkuð upp frá fljótinu, og þar er sérkennilegt gamalt steinhús. Þar hófust tilraunir með kornyrkju snemma á síðustu öld; 1944 var komið þar á fót tilraunabúi, er síðan var flutt í Skriðuklaustur 1949. Neðan við bæinn er útskot á þjóðvegi með borði og bekkjum á strönd Lagarfljóts, tilvalinn áningarstaður, og þar er upplýsingaskilti um Lagarfljótsorminn á kletti við fljótið.
Ormurinn í Lagarfljóti er frægast vatnaskrímsli hérlendis og var hans fyrst getið í annál 1345, síðan margoft í annálum og fleiri heimildum. Venjulega er svo til orða tekið að hann hafi rekið upp kryppur, eina eða fleiri, og þótti það jafnan vita á stórtíðindi. Um miðja 18. öld var mikið um undarlegar sýnir á Leginum, sem Hans Wíum sýslumaður ritaði skýrslu um. Fáum árum síðar fóru Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson um Hérað, þeir tóku þessa atburði til gagnrýninnar skoðunar og rituðu um þá í Ferðabók sinni. Niðurstaða þeirra var sú að um væri að ræða „undarlegar gufur“ úr vatninu eða botni þess. Um aldamótin 1900 fékk sú skýring stuðning af svipuðum fyrirbærum í Noregi, og var loks staðfest með fundi metangass í fljótinu 1963. Samt álíta margir að Ormurinn sé annað og meira en gas og nú er sú skoðun ekki fátíð að hann sé náttúruvættur og verndarandi Héraðsins, sem beri að sýna tilhlýðilega virðingu. Ormurinn hefur oft sést á þessum slóðum, líka neðan við Hallormsstað og bæina handan fljóts (sjá Skeggjastaði).
Gönguleið Hafursá - Hallormsstaður: Gegnum ytri hluta Hallormsstaðaskógar er um nokkrar leiðir að velja. Í fyrsta lagi má fara þjóðveginn, sem liggur á bakka fljótsins og er þaðan mest útsýni, en þar vantar gönguveg. Krækja má eftir gömlum vegi upp á Bergsbáshöfða og Ormsstaðaklett. Í öðru lagi má fara tvo skógarvegi, sem liggja í gegnum endilangan skóginn, sá neðri um Borgargerði og Fálkaklett, sem er góður útsýnisstaður, en sá efri um Kolakinn, ofan við Lýsishól og um Flataskóg. Báðir liggja þeir þvert yfir Hallormsstaðahóla og koma saman við Húsmæðraskólann. Hólarnir eru skemmtilegt gönguland og á þessum leiðum má skoða skógarteiga með mörgum trjátegundum.
Hafursáin fellur í fljótið fram og niður af bænum. Upptök hennar eru langt inni á Hallormsstaðahálsi. Rennur hún út eftir hálsinum í alldjúpu gili, en sveigir á brún hans ofan í hrikalegt klettagil, með nokkrum smáfossum. Innan við bæinn er gilið grunnt og vítt og kallast þar Mylluhvammur, beggja megin ár. Þar er vað á ánni og oftast hægt að stikla hana. Sagnir eru um huldufólk í gilinu. Innan við gilið er Hallormsstaðaskógur.
Hallormsstaðabæir
Hallormsstaðaskógur hefur lengi verið talinn stærsti og vöxtulegasti birkiskógur á Íslandi. Í lok 19. aldar voru tvö skógarsvæði á Hallormsstað, sitt hvoru megin við bæinn. Eftir beitarfriðun upp úr aldamótum 1900, uxu þau saman, og nú er landið frá Hafursá inn að Ljósá þakið skógi, frá fljóti og upp að skógarmörkum í 250-300 m hæð y.s. Árið 1998 var heildarflatarmál skógarins 696 ha, eða nálægt 7 ferkílómetrar. Mikið hefur verið plantað af barrviðum í skóginn, aðallega lerki og greni af ýmsum tegundum. Sama ár mældist flatarmál barrskógarins 256 ha, eða nálægt þriðjungur af heildinni. Partur nefnist ysti hluti skógarins og var gamalt ítak frá Skeggjastöðum í Fellum. Nokkrar jarðir í Fljótsdal áttu líka ítök í skóginum. Innst í Parti eru beitarhúsatættur, sem heita Borgargerði, í tveimur grasrjóðrum spölkorn ofan vegar, og minjar um eyðibýli.
Langisandur: Frá Hafursá liggur þjóðvegurinn næstu 2 km í skógarjaðrinum fast með strönd Lagarfljóts. Innan við ána er langur og beinn fjörukafli nefndur Langisandur (fjörur við Löginn kallast almennt ‚sandur‘). Innan við hann eru nafir með smábásum, og heitir einn þeirra Bergsbás. Ofan við hann er klettarið, sem kallast Höfði og hefur þar verið sprengt fyrir veginum, sem áður lá uppi á höfðanum. Þarna er býsna státinn drangur í fjörunni, sem ekki hefur fengið fast nafn, en sumir kalla Hallorm. Borgargerðisrétt er í klettakví ofan vegar, neðst í Borgargerðisási.
Ormsstaðir eru gömul hjáleiga frá Hallormsstað. Bærinn stóð austan í samnefndum hól eða höfða, en vestan í honum er Ormsstaðaklettur við fljótið. Hann er allur úr líparíti og býsna litskrúðugur; beggja megin eru víkur með gulri líparítmöl, eins og áður var lýst á Gullströnd í Mjóanesi, sumir kalla hana Hallormsstaðamöl. Bærinn er nefndur Oddsstaðir í fornsögum, og kemur þar nokkuð við sögu, enda bjó Helgi Ásbjarnarson þar um tíma, og missti konu sína í fljótið, ásamt tveimur þrælum, þar sem síðan er kallað Þrælavík, innan við klettinn. Bærinn lagðist í eyði 1936 en landið var síðan nytjað frá Hallormsstað. Ofan við bæinn er Haglaklettur í skóginum, einnig úr líparíti, með kúlulaga steinum (baggalútum) á stærð við bláber eða högl.
Hallormsstaðahólar eru gríðarmikill urðarbingur, sem nær niður að fljóti innan við Ormsstaði og liggur vegurinn gegnum neðsta hluta hans, þar sem kallast Ormsstaðaklif. Hólarnir eru um 1,3 km á breidd og 1,5 km að lengd; rúmtak þeirra er áætlað 30-40 milljónir teningsmetra. Jaðarinn kallast Hólabörð, er víða 20-30 m hár. Hrúgald þetta á upptök í mikilli skál í Hálsinum, sem heitir Bjargselsbotnar. Ofan við þá er Hallormsstaðabjarg, meira en 100 m hátt á köflum. Hin viðtekna skýring á slíkum urðarbingjum er að þau hafi orðið til á örstuttum tíma í miklum hamförum, og flokkist því sem berghlaup eða fjallhrun, sem þekkt eru bæði hér og erlendis, en oftast í smærri stíl. Þessi kenning fær varla staðist, og líklegra er að Hallormsstaðahólar hafi skriðið fram á þúsundum ára og séu jafnvel enn á ferðinni.
Landslag í þessum hólum er býsna flókið og fjölbreytt, en þeir eru að mestu klæddir skógi, og heldur ógreiðir yfirferðar nema eftir vegum eða stígum. Nokkrar litlar tjarnir eru í hólunum og fáeinir lindalækir. Kliftjörn er fast við veginn á Klifinu, oft þakin af grænu slýi. Í Hólum vex talsvert af gömlum reynitrjám, en þar hefur líka verið plantað barrviðum, einkum innan- og neðantil. Hallormsstaðahólar eru í flokki hinna fágætustu náttúrumæra við Löginn og hafa mikið verndargildi á landsmælikvarða.
Gatnaskógur kallast innan og neðan við Hólana, því að gegnum hann hafa jafnan legið götur. Meðan skógar voru fáir og lítils vaxtar þótti ævintýralegt að ferðast um Gatnaskóg, þar sem laufkrónur trjánna hvelfdust yfir götunum. Vínlækir tveir spretta undan Hólabörðum í Gatnaskógi, og koma við sögu hins alkunna kvæðis “Hríslan og lækurinn” eftir Pál Ólafsson. Þar hafa ferðamenn áð og blandað sér í glas. Innan og neðan við Gatnaskóg er Þurshöfði við fljótið, stuttur klettaás, skógi vaxinn að mestu. Þaðan er sagt að sjáist yfir allt Hallormsstaðaland. Litlu innar gengur nafnlaus oddi út í fljótið. Á honum er kvarði með tölustöfum, til að mæla vatnshæð fljótsins.
„Maríuklukkan grær á grænum völlum“ segir í alkunnu kvæði Halldórs Laxness um Hallormsstaðaskóg. Hann á þar eflaust við bláklukkuna, sem er ein helsta einkennisjurt Austurlands og óvíða eins áberandi og á Hallormsstað. Stórvaxin ætihvönn vex víða meðfram ströndinni og í Mörkinni eru breiður af sigurskúfi. Hrútaber eru um allan skóg og ribsber hafa verið að breiðast þar út, að ógleymdri alaskalúpínunni. Á haustin er mikið úrval sveppa að finna í skóginum og margir þeirra ætir.
Hallormsstaður er landnámsjörð og gamalt höfuðból, meðal stærstu jarða á Íslandi, ef hjáleigurnar Ormsstaðir og Buðlungavellir eru taldar með. Líklegt er að Atli Þórisson landnámsmaður hafi fyrstur búið á staðnum, þó að þess sé ekki getið í Landnámu. Þar var kirkja og prestssetur, þar til seint á 19. öld að hvort tveggja var lagt niður, og kirkjan rifin 1910. Kirkjugarðurinn, með vandlega hlöðnum grjótveggjum, er enn í notkun.
Meðal merkispresta má nefna Hjálmar Guðmundsson, á fyrri hluta 19. aldar, og Sigurð Gunnarsson á seinni hluta hennar. Sigurður gat sér gott orð sem landkönnuður á Miðhálendi Íslands, og skrifaði ýmislegt um það, tók líka mikinn þátt í þjóðmálum og sat á Alþingi um skeið. Hann er afi Guttorms Pálssonar skógarvarðar og Sigrúnar Blöndal skólastýru. Sigurður Blöndal sonur hennar hefur einkum gert garðinn frægan síðustu áratugi. Meðal sona Guttorms er Hjörleifur náttúrufræðingur og alþingismaður, sem manna best hefur haldið uppi merki náttúruverndar á Íslandi og ritað nokkrar bækur um landfræði Austurlands.
Húsmæðraskóli var stofnaður 1930 á Hallormsstað, fyrir forgöngu Sigrúnar og Benedikts Blöndal, og byggt veglegt hús fyrir hann á svonefndum Stekk. Rétt fyrir innan fellur Staðará í fossum. Stórt Barnaskólahús var byggt nokkru innar á sjöunda áratugnum. Eftir 1980 fóru íbúðarhús að byggjast þar eitt af öðru, og nú er þar kominn vísir að sveitaþorpi. Á sumrin eru rekin þar tvö hótel og tvö tjaldstæði. Söluskáli er við vegamótin upp að skólunum. Fastir íbúar eru nú 50-60.
Gönguleið Hallormsstaður-Bjargselsbotnar: Ágætur gönguvegur (jeppafær) liggur frá Húsmæðraskólanum út og upp í Bjargselsbotna, þaðan austur yfir Hallormsstaðaháls til Skriðdals, enda kallast hann Skriðdalsvegur. Af honum liggja vegir út í gegnum skóginn, sem fyrr segir, allt að Hafursá og niður með henni. Vegslóðar um skóginn eru tugir km.
Gönguleið Hallormsstaður-Gilsá: Frá Söluskálanum á Hallormsstað er samfelld göngubraut inn eftir skóginum neðan vegar, skammt frá ströndinni, um neðanverða Mörkina, Atlavík og inn í Guttormslund, þægileg gönguleið, með fjölbreyttum trjám. Einnig má ganga eftir fjörunni utan frá Þurshöfða (eða ytra tjaldstæðinu) og inn að Atlavíkurkletti. Frá Guttormslundi er torfært inn með Lagarfljóti og verður því að ganga þjóðveginn að miklu leyti inn að Gilsá. Af þeirri leið eru merktar göngubrautir upp með Jökullæk og Ljósá, að Ljósárfossi. Annar möguleiki er að ganga eftir skógarvegi, sem liggur inn og upp frá Mörkinni, um Tittlingssel, og eftir gömlum götum inn í Skjögrastaði.
Mörkin: Svo hefur lengi verið nefnt dálítið landsvæði innan og neðan við túnið á Hallormsstað, sem bendir til að þar hafi eitt sinn verið stór og myndarlegur skógur (mörk). Um aldamótin 1900 voru þar aðeins nokkur tré á stangli og smávegis kjarr. Gróðrarstöð fyrir uppeldi trjáplantna var sett á fót í Mörkinni 1903, ein hinna fyrstu í landinu, og hefur lengst af verið rekin af Skógrækt ríkisins, sem einnig telst eigandi jarðarinnar. Þar eru mikil gróðurhús, en plöntuuppeldi var að mestu hætt um síðustu aldamót. Þar er nú trjásafn, hið stærsta á Íslandi, með um 85 tegundum trjáa, þar af eru barrtré af 54 tegundum. Auk þess er teigasafn af ýmsum sömu trjám um allan skóg. Góðir göngustígar liggja um Mörkina og síðustu ár hafa þar verið settar upp listsýningar.
Minnismerki um Þorstein Valdimarsson skáld stendur við lækjamót í Mörkinni, en hann var þar starfsmaður í mörg ár. Hallormshaugur er í skóginum ofan við Mörkina og veginn, þar á Hallormur frumbýlingur á Hallormsstað að vera grafinn. Um hann er annars ekkert vitað. Niður af Hallormsstað er löng og bein malarfjara meðfram Lagarfljóti og Friðrikshöfði nokkru ofar, kenndur mann sem drukknaði þar fram af vorið 1838.
Atlavík er við fljótið skammt fyrir innan Mörkina. Hún er meðal frægust staða á Austurlandi, einkum vegna útihátíða sem þar fóru fram hvert sumar á seinni hluta 20. aldar, eða til 1987, oftast á vegum Framsóknarflokksins eða Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (ÚÍA). Víkin er kennd við Atla Þórisson landnámsmann, sem nefndur var Graut-Atli eða Atli grautur, og nam “ena eystri strönd Lagarfljóts, allt milli Giljár og Vallaness”. Sagt er að Atli hafi búið í Atlavík og því til staðfestingar eru fornar tættur í dalverpi ofan við víkina nefndar Atlatættur. Þær eru friðlýstar. Samkvæmt þjóðsögum átti Atli að hafa orðið útlægur og leynst í 20 ár í skóginum. Hann komst þá upp á lag með að búa til graut úr fjallagrösum, og fékk þar af viðurnefni sitt. Næst fyrir innan Atlavík er önnur vík, stundum nefnd Litla-Atlavík. Í Atlavík er vinsælt tjaldstæði, sem Skógræktin rekur, og aðstaða fyrir skipið Lagarfljótsorminn, sem gerir út þaðan á sumrin með ferðamenn. Á góðviðrisdögum er sandurinn í víkinni eins og baðströnd, enda þótt vatnshitinn fari sjaldan yfir 10 gráður. Fágætt mun vera að fólk baði sig í jökulvatni.
Guttormslundur er teigur með lerkitrjám, sem Guttormur Pálsson lét planta 1938, og markaði þannig upphaf lerkiskógræktar hérlendis, sem reynst hefur býsna árangursrík, einkum á Héraði. Trén eru furðu bein og allt að 20 m há, eins og í erlendum barrskógum. Slíkt sýnishorn af skógi er varla til annarsstaðar á Íslandi.
Ljósárfoss: Innan við Guttormslund falla þrír nokkuð vatnsmiklir lækir með stuttu millibili í fljótið, þar sem kalla má Lækjavík. Yst er Jökullækur, þá Sellækur og Ljósá syðst. Í þessum lækjum eru margir fossar, en þeirra hæstur og fegurstur er Ljósárfoss, um 1 km frá vegi, og liggur þangað merktur stígur um Ljósárkinn. Fossin er 17 m hár og fellur fram af hellubergsgangi. Innan við Ljósá eru Sólheimar, nýbýli stofnað 1947 á stað sem áður nefndist Geitagerði, fór í eyði 1955. Þar eru eða voru friðlýstar tættur.
Ásar: Innan við Sólheima er sérkennilegt kraðak af samhliða klettaásum, er stefna allir út og niður að fljótinu, og kallast það stykki Ásar. Þeir voru mjög orðnir uppblásnir um miðja síðustu öld, þó með smávegis kjarrleifum, en voru beitarfriðaðir þegar skógargirðingin var stækkuð inn að Gilsá 1978, og síðan hefur verið plantað lerki í mikinn hluta þeirra og sáð lúpínu. Ásarnir voru torfæra á gamla reiðveginum kringum Löginn og sæmilega bílfær vegur var ekki lagður þar fyrr en á sjöunda áratug 20. aldar.
Bakkarnir neðan við Ása eru allbrattir, með lágum hjöllum og klettaströnd, víðast með grýttri fjöru fyrir neðan, og grunnum smávíkum. Þarna átti Brekka í Fljótsdal skógarítak og því má kenna bakkana við þann bæ. Vöxtulegur birkiskógur er innantil á þessu stykki, þar sem kallast Brekkubali, inn við Klifá, en annars voru bakkarnir orðnir skóglausir. Þar er nú að vaxa upp sjálfsáinn birkiskógur með furðu beinum trjám.
Klifá heitir næsta á fyrir innan Sólheima, innst í Ásum, og fellur í klettagili með smáfossum niður í fljót. Í gilinu rétt fyrir neðan brúna er steinbogi, sem áin fellur undir, sá eini á láglendi á Héraði. Innan við Klifárbrú er Klifið, áður mesta torfæran á Ásaveginum, en þar hefur nú verið sprengt skarð fyrir veginn og útskot við hann. Þaðan er frábært útsýni til Fljótsdals og vinsæll áningarstaður í hvammi ofan við brúna. Frá Klifinu gengur Stórás, inn og upp eftir hlíðinni, og á honum eru nokkrar vörður. Ofan við ásinn eru Klifárbotnar vaxnir gömlum birkiskógi.
Buðlungavellir heitir næsta býli fyrir innan Klifá, hjáleiga frá Hallormsstað, sem getið er í fornritum, og telst eiga land milli Klifár og Gilsár. Á seinni öldum var bærinn þó jafnan uppi í mynni Gilsárdals, þar sem kallað var Skagasel og síðar Skjögrastaðir. Bæjarstæðið er í 205 m h. y.s. og þaðan er afar mikið og fagurt útsýni. Á seinni hluta 19. aldar bjuggu þar hjónin Sigfús Sigfússon og Guðfinna Egilsdóttir. Af þeim er komin merkileg skáldaætt, og er Þorsteinn Valdimarsson kunnastur þeirra skálda. Snemma á 20. öld bjó þar Jóhannes Jónasson, vel þekkt alþýðuskáld. Bærinn var aftur fluttur á gamla bæjarstæðið 1932 eftir húsbruna á Skjögrastöðum, en fór í eyði 1966. Töluverður gamall skógur er í landinu ofan bæjar og búið að planta lerki í þá hluta sem voru skóglausir ofan vegar, en neðan vegar er sjálfsáið birki, eins og í bökkunum utan við Klifá. Á Jónstanga er lítill barrskógarreitur sem Þórarinslundur nefnist, kenndur við Þórarin Þórarinsson fv. skólastjóra á Eiðum, sem var mikill áhugamaður um skógrækt. Frá Buðlungavöllum liggur gamall fjallvegur um Buðlungavallaheiði til Skriðdals.
Gilsá og Gilsárgljúfur: Í Fljótsbotninn að austan fellur Gilsá, allvatnsmikil þverá, austan af Gilsárdal, um 22 km að lengd, og sækir vatn sitt allt inn undir Hornbrynju, sem er fjallsbunga yst á Hraunum. Í dalsmynninu er áin í allt að 80 m djúpu og 3-4 km löngu gljúfri, sem er mjög fjölbreytt og litskrúðugt, með skógi vöxnum hvömmum beggja vegna. Mikið vex þar af reyniviði. Gljúfrið er fossalaust, en nokkrir lágir fossar eru yst á dalnum, og þveráin Grafningsá myndar háan foss ofan í gilið við Skjögrastaði. Neðan við þann bæ er lítið framhlaup í gljúfrinu, þar sem heitir Bæjarhvammur. Neðan við gilið er Gilsáreyri, sem nemur við Fljótsbotn. Í leysingum og stórrigningum getur Gilsá orðið hamhleypa. Í henni drukknaði Magnús Pálsson, kallaður Tíkar-Mangi, furðufugl af höfðingjaætt, 1846. Hreppamörk Valla- og Fljótsdalshreppa eru um ána.
Leirur kallast farvegur Fljótsdalsánna (Jökulsár) innan við Gilsáreyri, enda kvíslast árnar þar jafnan milli fjölmargra og síbreytilegra leir- og sandhólma, sem ekki ná að gróa því að yfir þá flæðir reglulega, einkum vor og haust. Stundum var farið á vaði yfir Leirur við Fljótsbotninn.
Um aldamótin 2000 var byggð brú yfir Jökulsá á Leirunum innanvert við Gilsáreyri, og ný brú á Gilsá nokkuð neðan við þá eldri. Þar er nú hægt að stytta sér leið yfir Árnar (Jökulsá) og stytta jafnframt hringinn umhverfis Löginn. Þó er ferðalöngum ráðlagt að fara stærri hringinn, til að kynnast Fljótsdalnum, og yfir brúna hjá Víðivöllum. (Margir sem koma að austan aka þó yfir Leirubrúna og inn eftir Fljótsdal að vestan og sömu leið til baka).
Suðurbyggð Fljótsdals
Fljótsdalur er margskiptur af stóránum Keldá og Jökulsá, sem áður fyrr voru oft erfiður farartálmi. Helstu hlutar sveitarinnar eru Suðurbyggð og Suðurdalur austan ánna, Múli á milli þeirra, Norðurdalur og Norðurbyggð norðan eða vestan ánna. Suðurbyggðin er vestan í Víðivallahálsi, sem aðskilur Fljótsdal og Gilsárdal. Hann fer jafnt hækkandi inn á móts við Víðivallabæi og nær þar 685 m hæð yfir sjó. Landslag er óreglulegt utantil í hálsinum og mikið um brotstalla, en víðast hallar berglögum ofan í dalinn.
Hrafnkelsstaðabæir
Ranaskógur er innan við Gilsárgljúfur, einn fegursti birkiskógur á Íslandi, með furðu háum og beinvöxnum birki- og reynitrjám, og teygir sig ofan í gljúfrið á nokkrum stöðum. Í skóginum er minningarlundur um Pál J. Kjerúlf á Hrafnkelsstöðum, sem lengi var þar ferjumaður, og þrjú sumarhús á hjólum. Skógurinn var um aldir eign (ítak) Víðivalla í Fljótsdal, en tilheyrir nú nýbýlinu Vallholti, og er í umsjá Skógræktar ríkisins. Auðvelt er að ganga um skóginn næst gilinu, upp á Kiðuhól, en þar eru stór reynitré. Innan og neðan við skóginn standa fáein stök birkitré í túni, þar sem kallast Skógarbali. Þau eru orðin hrörleg enda líklega hátt í 200 ára gömul. Þarna var vinsæll áningarstaður ferðamanna, meðan ferðast var á hestum, sem tíðkuðu að skera fangamörk sín í börk trjánna, eins og títt er erlendis.
Gönguleið Gilsá -Víðivellir- Valþjófsstaður: Á allri þeirri leið er varla um annað að ræða en ganga eftir bílveginum, enda er hann þægileg gönguleið eftir að meginumferðin fluttist á Leirubrúna, og þaðan er víða mikið og fagurt útsýni.
Kirkjuhamar heitir hjalli með stuðlabergskletti spölkorn innan við Skógarbala. Þar segir þjóðsaga að sé kirkja huldufólksins í Fljótsdal. Fram að aldamótum 1900 rann kvísl úr Jökulsá upp að klettinum, sem enn má sjá merki um. Skyggn kona á Hrafnkelsstöðum sá huldufólkið koma á bát til kirkjunnar. Innan við hamarinn var kuml, sem lenti undir veg.
Vallholt er nýbýli úr landi Hrafnkelsstaða, byggt 1942 á hólkolli ofan vegar. Mun leitun á sérkennilegra bæjarstæði. Þaðan er mjög fagurt útsýni og nýtur Hengifoss sín vel þarna af hólnum. Í Vallholti átti Jörgen E. Kjerúlf heima síðustu áratugi ævinnar. Hann orti manna mest um Fljótsdalinn, m.a. kvæðið Fljótsdalsgrund, sem varð sveitarsöngur Fljótsdæla, undir lagi sænska konungssöngsins eftir Otto Lindblad.
Hrólfsgerði er fornbýli skammt fyrir utan Vallholt. Þar hafa lengi verið beitarhús frá Hrafnkelsstöðum, síðar Vallholti, og þar stendur ennþá þyrping af sambyggðum fjárhúsum, úr torfi og grjóti, sumpart með upprunalegum torfþökum. Ýmsar áletranir eru á steinum í húsunum. Hætt var að nota húsin um 1980, og síðan hefur þeim hrakað. Fjárhús af þessu tagi voru notuð lengur í Fljótsdal en í öðrum sveitum, en nú eru aðeins fá orðin eftir. Flest voru eyðilögð við riðuniðurskurð 1990.
Gaslind: Neðan við Vallholt sprettur gas upp úr klöpp á bakka Jökulsár, sem þótti að vonum einkennilegt. Álitu sumir að það kæmi úr iðrum jarðar og væri ávísun á kol eða olíulindir, en við rannsókn reyndist það vera sama gasið og víða kemur upp í Leginum, þ.e. mýragas (metan). (Sjá Hreiðarsstaði í Fellum.)
Hrafnkelsstaðir eru forn bær, landmikil jörð og beitarsæl, enda var þar oft stærsta sauðfjárbú í Fljótsdal. Á fyrri hluta 20. aldar bjó Metúsalem (Sali) J. Kjerúlf stórbúi á Hrafnkelsstöðum, kunnur maður á sinni tíð. Hann rak lögferjuna, sem þarna hefur verið frá ómunatíð, og byggði jafnframt sérstæða ‚straumferju‘ yfir árnar hjá Víðivöllum, til að ferja sauðfé yfir þær og koma því á afrétt. Við gamla húsið eru einhver hæstu reynitré á Íslandi, um 14 m.
Hrafnkels saga Freysgoða er ein frægasta fornsaga Íslendinga, enda er hún stutt og vel gerð. Hún hefur verið þýdd á flest tungumál heims og um hana samdar margar bækur og mikill fjöldi fræðigreina. Hrafnkell bjó fyrst á Aðalbóli, í dalnum sem við hann er kenndur, og var höfðingi mikill, en hraktist þaðan slyppur og snauður að Hrafnkelsstöðum, sem sagan segir að hafi heitið Lokhilla. „Hefir það síðan verið kallaður jafnan góður bær“, segir í sögunni. Hrafnkeli búnaðist strax vel þarna, meira að segja „lagðist veiður mikil í Lagarfljót“, sem er talið að hafi þá náð inn að Hrafnkelsstöðum. Er svo að skilja að Freyr hafi stutt skjólstæðing sinn eftir þær ófarir sem hann mátti líða vegna vinfengis við guðinn. Að lokum náði hann hefndum, settist aftur að á Aðalbóli og hafði þar fyrri reisn. Þá hafði skapferli hans snúist til betri vegar og hann trúði ekki lengur á goðin.
Brattagerði: Innan við Hrafnkelsstaði liggur hlíð Víðivallaháls nokkuð bratt niður að Jökulsá og er þar nánast ekkert undirlendi. Innan við túnið er Skipabotn, en þaðan var ferjað yfir ána. Nokkrir höfðar ganga fram að ánni og milli þeirra eru djúpir hvammar, sem bílvegurinn krókast um. Á einum höfðanum er eyðibýlið Brattagerði, með greinilegum túngarði og beitarhúsatóttum. Þetta landslag þótti ekki árennilegt fyrir framtíðarveg um Fljótsdalinn, og m.a. þessvegna var farið í að byggja nýja brú yfir Leirur. Þetta er hins vegar ágæt leið fyrir þá sem ekki eru að flýta sér og vilja njóta útsýnis yfir dalinn, sem hvergi er betra en á þessum vegi. Ofan við Brattagerði er Hallsteinsfoss í litlum læk, með umgjörð af stuðlabergi.
Víðivallabæir
Bændaskógur: Á jarðamörkum Hrafnkelsstaða og Víðivalla er allstór teigur með lerkiskógi, sem byrjað var að planta árið 1970, og markaði upphaf svonefndrar bændaskógræktar á Héraði og raunar á öllu Íslandi. Trén hafa vaxið vel þarna og eru sum orðin allt að 12 m há. Í miðjum reitnum hefur verið útbúinn samkomustaður, með borðum og bekkjum úr lerkiviði, og þar halda skógræktarmenn gjarnan sínar hátíðir. Þessi teigur er stundum nefndur Víðivallaskógur.
Víðivallaurð er gríðarlega stórgrýtt urðartunga í hlíðinni innan við lerkiskóginn, skammt ofan vegar, þakin grámosa og kjarri vaxin að hluta. Efnið virðist hafa skrikað til í hlíðinni, sem ekki er tiltakanlega brött, og líklega sigið niður á löngum tíma (sbr. Hólana á Hallormsstað). Mórauðilækur rennur niður í urðina, svo nefndur vegna þess að hann er ávallt jökullitaður, eins konar pínulítil jökulsá, og stafar það ef til vill af hreyfingu urðarinnar sem enn er í gangi.
Víðivallaskógur er gamall birkiskógur innan við urðina og nær inn undir bæinn á Víðivöllum ytri. Hann er með stærstu og vöxtulegustu birkiskógum á Héraði, og sérstakur að því leyti að hann er gisinn og með grasbotni neðan- og innantil, enda hefur hann alltaf verið beittur. Stök birkitré eru neðan við skóginn og hann er byrjaður að sá sér niður á bakka, eyrar og hólma Jölulsár.
Hlíðarhús er gamalt afbýli frá Víðivöllum ytri neðan við miðjan skóginn; þar hafa lengi verið beitarhús. Árið 1964 var byggt nýbýli í skógarjaðri skammt fyrir innan og neðan húsin, sem kallast Víðivellir ytri I. Haustið 1979 féll mikil jarðvegsskriða úr Víðivallahálsi niður í gegnum Víðivallaskóg miðjan og yfir túnið á Hlíðarhúsum. Þetta er einhver stærsta skriða sem um getur í Fljótsdal, en þar er víða skriðuhætt, einkum í Suðurdalnum. Þar féllu margar og miklar skriður 1941, 1968 og 1997.
Grýlukvæði Stefáns: Sumir hafa viljað kenna Grýlu gömlu um þetta jarðrask, en hún kvað eiga hýbýli í Brandsöxl nokkru utar á hálsinum og í Urðarhrauni austan í honum, og Grýlulækir heita þar sem skriðan féll. Grýla er eins konar vættur og ævagömul barnafæla, sem flestir Íslendingar kannast við, en það var séra Stefán Ólafsson skáld í Vallanesi sem staðsetti Grýlu á Víðivöllum með hinu fræga Grýlukvæði sínu, er svo byrjar: „Ekki linnir ferðunum um Fljótsdalinn enn, það sér á að þar búa þrifnaðarmenn...“ Þetta var gamankvæði, líklega ætlað sýslumanninum, en það varð landsfrægt og fyrirmynd mikils kveðskapar um Grýlu allt fram á 19. öld.
Víðivellir ytri eru gamalt stórbýli, sem líklega hefur í upphafi átt allan Suðurdal að austanverðu, en síðan byggðust þar jarðirnar Víðivellir fremri, Víðivallagerði og Sturluflöt, en Hlíðarhús og Klúka voru hjáleigur. Báðir Víðivallabæir koma fyrir í Droplaugarsona sögu. Kirkja var á Víðivöllum ytri og sýslumenn sátu þar löngum á 17. og 18. öld. Kunnastur þeirra er Þorsteinn Sigurðsson, faðir Péturs sýslumanns á Ketilsstöðum. Rögnvaldur Erlingsson rithöfundur er alinn upp á Víðivöllum og bjó þar í nokkra áratugi, en flutti svo í Egilsstaði. Hann samdi fjölda smásagna og nokkrar lengri sögur og leikrit, m.a. um fólk og atburði í Fljótsdal.
Fljótsdalsár koma sín úr hvorum dalnum, Keldá úr Suðurdal og Jökulsá úr Norðurdal, og sameinast skammt fyrir utan Múlann. Þær eru grundvallarlega ólíkar, eins og líka dalirnir sem þær falla um. Keldá (Kelduá) kemur af Hraunum, en svo nefnist hálendið milli Fljótsdals og Suðurfjarða / Lóns. Hún er bergvatnsá að mestum hluta, eins og nafnið ber með sér, en kelda merkti almennt uppspretta (sbr. Kelduhverfi í Þing.). Í leysingum og stórrigningum getur Keldá orðið gríðarlega mikil og flæðir þá yfir eyrarnar innan við brúna. Haustið 1980 kom skyndilegt flóð í ána sem nærri lá að yrði þremur vegagerðarmönnum að aldurtila. Jökulsá kemur undan Eyjabakkajökli og kvíslast fyrst um Eyjabakkasléttuna austan við Snæfell, fellur svo í mörgum og miklum fossum ofan í Norðurdal og út eftir honum. Meðalrennsli Keldár er um 24 rm/sek. og Jökulsár um 34 rm/sek. Jökulsá er talin framhald Lagarfljóts og ræður nafni eftir að árnar hafa sameinast, enda leggur hún Lagarfljóti til jökullitinn.
Brýr og straumferja: Neðan við Hlíðarhús er brú á Hlíðarhúsakvísl úr Keldá, og síðan önnur yfir Keldá og Jökulsá eftir að þær hafa sameinast. Þar er áin um 90 m breið og heitir Stóraeyri milli kvíslar og ár. Brýrnar voru byggðar á árunum 1951-52, og þóttu mikil samgöngubót á sínum tíma. Á sama stað var ‚straumferja‘ sem Metúsalem Kjerúlf byggði á Jökulsá snemma á 20. öldinni. Hann spennti stálkapal yfir ána og festi ferjubátinn að framan og aftan við trissur sem runnu á honum. Með því að skástilla bátnum gat hann látið strauminn knýja hann báðar leiðir yfir ána. Ekki er vitað um straumferjur annarsstaðar á Íslandi. Þetta merka mannvirki var rifið þegar brýrnar voru byggðar.
Suðurdalur og Múli: Frá brúnum liggjur vegur inn í Suðurdal að austanverðu, að innsta bænum, Sturluflöt. Þaðan er um 2 km gönguleið að Strútsfossi, sem er í mynni Villingadals, álíka hár og Hengifoss og líka í mjög hrikalegu gljúfri. Annar vegur liggur um Eyrar, yfir brú á Keldá, og inn í Múlann hjá bænum Langhúsum. Á Langhúsum er merkilegt útihúsasafn úr jarðefnum, og eru húsin enn í notkun. Austan í Múlanum liggur jeppavegur að bæjunum Arnaldsstöðum og Þorgerðarstöðum, sem eru í eyði. Múlinn er um 650 m hátt fjall, milli Suður- og Norðurdals, sem myndar líkt og skipsstefni norður í aðaldalinn. Austurhlíð hans er mjög brött, með einlægum klettabeltum, en skógi vaxin að hluta (Arnaldsstaðaskógur), og þar hafa oft fallið miklar jarðvegsskriður.
Norðurdalur er frekar þröngur og bugðóttur, víða með snarbröttum klettahlíðum og háum björgum beggja vegna. Þar eru nú þrír bæir í byggð. Brú er á Jökulsá utantil í dalnum. Á Egilsstöðum í Norðurdal bjó Mekkín skyggna Ólafsdóttir á seinni hluta 19. aldar; sonarsonur hennar var Vigfús Sigurðsson sem ljósmyndaði og teiknaði bæi og fólk á Héraði á fyrstu tugum 20. aldar. Frá efstu bæjum í Norðurdal eru skemmtilegar gönguleiðir upp með Jökulsá.
Norðurbyggð Fljótsdals
Á Norðurbyggð Fljótsdal er meira undirlendi en á Suðurbyggðinni, og valda því þverárnar, Bessastaða- og Hengifossár, sem myndað hafa framburðargeira og bægt stóru ánum að austurlandinu. Valþjófsstaðafjall rís tignarlega upp af þessari sléttu, en utar er hlíðin óreglulegri og meira aflíðandi. Norðurbyggð Fljótsdalshrepps teygir sig um 10 km út með Leginum að norðvestan og er þar víða nokkuð brattlent.
Valþjófsstaður
er fornt höfuðból, kirkjustaður og prestssetur. Á Sturlungaöld bjuggu þar höfðingjar af Svínfellingaætt, m.a. Oddur og Þorvarður Þórarinssynir, kallaðir Valþjófsstaðabræður. Þorvarður er stundum nefndur Síðasti goðinn, því að hann varð síðastur íslenskra höfðinga til að afsala goðorði sínu til Noregskonungs 1264. Ýmsir telja að hann hafi ritað Njáls sögu, og fleiri fornsögur hafa verið bendlaðar við staðinn, svo sem Hrafnkela.
Um 1200 var byggð vegleg timburkirkja á Valþjófsstað, helguð Maríu mey. Þetta var stafkirkja með ‚útbrotum‘, eflaust af norsku timbri; er talið að hún hafi staðið nær óbreytt í rúmar fimm aldir, en um 1740 er byggð torfkirkja í hennar stað. Þessar kirkjur stóðu heima við bæinn, þar sem nú er trjágarður. Árið 1889 var aftur byggð timburkirkja, og þá á grundinni austan við bæinn, þar sem núverandi steinkirkja er önnur í röðinni, vígð 1966. Valþjófsstaðakirkja auðgaðist fljótt af jarðeignum og náði eignarhaldi á öllum afréttum milli Fljótsdals og Jökuldals, þar með töldum Hrafnkelsdal.
Af nafnkunnum prestum á Valþjófsstað má nefna Hjörleif Þórðarson á 18. öld, sem var nefndur latínuskáld, fyrir að þýða passíusálma Hallgríms á latínu. Vigfús Ormsson, kvæntist dótturdóttur Hjörleifs og þjónaði staðnum um aldamótin 1800. Hann var þekktari sem búnaðarfrömuður en prestur og ýmsir afkomendur hans voru vel að sér í búfræðum. Sigurður Gunnarsson (yngri) var prestur þar síðast á 19. öld. Bróðir hans, Gunnar Helgi Gunnarsson, bjó þar með honum í nokkur ár, en hann var faðir Gunnars skálds, sem ólst þar upp til sjö ára aldurs og lýsir heimilinu í ‚Leik að stráum‘, fyrsta bindi skáldsögunnar Fjallkirkjan. Framan af 20. öldinni var Þórarinn Þórarinsson þar prestur, faðir Þórarins skólastjóra á Eiðum. Prestssetur var byggt 1944 og félagsheimilið Végarður er á grundunum þar fyrir utan, af sama aldri og kirkjan, en nýlega stækkað.
Valþjófsstaðahurðin er einn frægasti forngripur Íslendinga. Hún er varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands, en nákvæm eftirlíking hennar er nú innri hurð kirkjunnar. Hurðin er fagurlega útskorin og talin vera frá öndverðri 13. öld. Halda sumir að Randalín Filipusdóttir, kona Odds Þórarinssonar, hafi skorið eða látið skera út hurðina, og gefið kirkjunni til sálubótar fyrir eiginmann sinn, sem var veginn í banni Hólabiskups. Hún var útidyrahurð Valþjófsstaðakirkju allt til um 1850, að hún var seld Nationalmuseet í Kaupmannahöfn fyrir nýja hurð og tvo kertastjaka. Hún var svo afhent Þjóðminjasafninu í Reykjavík árið 1930 í tilefni af 1000 ára afmæli Alþingis. Á hurðinni eru tveir hringlaga reitir með myndskurði. Í þeim efri er gömul riddarasaga (Riddarinn og ljónið) sögð í myndmáli, en í þeim neðri eru fjórir flugdrekar fléttaðir saman. Margar ritgerðir hafa verið skrifaðar um hurðina og jafnvel heilar bækur.
Valþjófsstaðamelar: Framan og neðan við bæinn eru melar með flötum stöllum í um 30-50 m hæð yfir sjó. Þeir hafa myndast af framburði Jökulsár út í þáverandi fljótsbotn eða fjarðarbotn í lok ísaldar, þegar landið var lægra og sjávarborð hærra sem þessu nemur. Um aldamótin 1800 blés upp kuml á melunum, með ýmsum merkisgripum sem varðveittir eru í Kaupmannahöfn.
Valþjófsstaðafjall rís tígullega upp af túnasléttunni, með sínum láréttu klettabeltum, um 20 talins. Neðstu hjallarnir eru bryddaðir röðum af birkitrjám og reyni, og brekkurnar eru þaktar hvönnum og öðru blómgresi. Mikill berggangur, sem Tröllkonustígur kallast, klýfur fjallað í herðar niður, og nemur neðri endinn við Végarð. Fjöldi smálækja skoppar stall af stalli, oftast þurrir á sumrum, en í vorleysingum syngur fjallið af nið þeirra. Ysti hluti fjallsins nefnist Klausturhæð og framhald þess til suðurs Teigsfjall eða Teigsbjarg.
[Kárahnjúkavirkjun, sem nú er í byggingu, verður í Teigsfjalli um 2 km innan við Valþjófsstað, stöðvarhúsið inni í fjallinu, en stjórnhús og greinistöð á bakka Jökulsár. Fyrirhugað er að taka Jökulsá í Fljótsdal úr farvegi sínum við Eyjabakkafoss og veita í aðfallsgöng Kárahnjúkavirkjunar; vatnið skilar sér aftur í farveginn neðan við Valþjófsstað, ásamt jökulvatnshluta Jökulsár á Dal. Við þá breytingu verða Jökulsárfossar vatnslitlir mestan hluta ársins, en neðan virkjunar fjórfaldast vatnsmagn árinnar. Er fyrirhugað að byggja mikla garða meðfram henni til að hindra flóð.]
Gönguleið Valþjófsstaður- Hengifossá: Frá Valþjófsstað er auðveldast að ganga þjóðveginn, en sá böggull fylgir skammrifi, að á honum er nú talsvert mikil og hröð bílaumferð a.m.k. á sumrum. Í gegnum land Skriðuklausturs má þó velja nýja og gamla vegslóða neðan bæjar, um Kirkjutún út að Melarétt. Þaðan má ganga niður Hamborgarnes og á bakka Jökulsár út eftir Bessastaðanesi endilöngu, yfir brú á Bessastaðakíl og upp á þjóðveg við Mela. Þetta er falleg leið eftir miðjum dalnum, og njóta hlíðarnar sín vel af henni.
Valþjófsstaða- og Klausturnes eru mikil flatneskja, sem árnar hafa myndað við núverandi vatnsborð fljótsins, eða því sem næst. Þessi nes voru mýrlendi áður en þau voru ræst fram, nema bakkar Jökulsár sem eru eilítið hærri. Þessvegna flæða árnar stundum upp á nesin, og á 19. öld var Jökulsá veitt á þau á vorin til að auka grasvöxt. Nú eru hins vegar garðar við ána sem hindra að hún flæði á nesin.
Skriðuklaustur
er næsti bær fyrir utan Valþjófsstað. Bærinn hét Skriða í upphafi og af honum fara engar sögur fyrr en þar var stofnað klaustur um aldamótin 1500, yngst allra klaustra á Íslandi, fyrir tilstilli Stefáns Jónssonar Skálholtsbiskups. Hallsteinn og Seselía á Víðivöllum gáfu klaustrinu jörðina, og fundið var kraftaverk til að styðja málið. Það fólst í því að prestur týndi kaleik og patínu á leið sinni út dalinn, en hvorttveggja fannst á þúfu neðan við Skriðu. Var þá vín í kaleiknum og patínan ofan á honum. Þar var fyrst byggð kapella og síðan vegleg klausturkirkja, þar sem kallast Kirkjutún, á hjalla innan og neðan við bæinn.
Kirkjan stóð langt fram á 18. öld; er tótt hennar skýr, með garði umhverfis. Nú er talið að klausturhúsin hafi einnig staðið þarna við kirkjuna og þessi árin fer fram uppgröftur til að staðfesta það. Í kirkjugarðinum á umrenningurinn Jón hrak að vera grafinn „út og suður“ og þar er nafn hans letrað á stein. Neðan við Kirkjutún eru Klausturhamrar, með röð af birkitrjám og blómgresi í syllum. Álög eru á trjánum, sem hafa líklega bjargað þeim.
Í Þjóðminjasafni er Mariulíkneski, sem talið er vera úr klausturkirkjunni. „Að öðrum myndum ólöstuðum, er þessi ein áferðarfegursta Maríumyndin, sem safnið geymir“, ritar Heimir Steinsson í ritgerð sinni um Skriðuklaustur (handrit). Árið 1989 var skorin út eftirmynd af ‚Klaustur-Maríu‘, sem nú prýðir stofur í Gunnarshúsi. Heima við bæinn er Bessasteinn, kúlulaga, notaður til aflrauna, og Hestasteinn með steðjagróp í miðju. Í húsalýsingu frá 1598 er getið um 16 hús heima á staðnum, auk gripahúsa, en þá voru klausturhúsin sögð vera fallin.
Klaustur voru eins konar verðbréfastofnanir þeirra tíma, og klaustrið efnaðist mjög fljótt af jarðeignum sem því voru gefnar. Þegar það var lagt niður um siðaskipti átti það næstum 50 jarðir og jarðarparta, sem þá gengu til konungs eða ríkis þeirra tíma, og nefndust upp frá því Skriðuklaustursumboð. Var það leigt út til umboðsmanna, sem nefndust klausturhaldarar, og voru oftast líka sýslumenn. Frægastur slíkra manna var Hans Wíum á 18. öld. Hann þótti mildur í dómum og fékk orð í eyra fyrir það hjá kollegum sínum. Hann ritaði skýrslu „um skrímslin í Lagarfljóti“ 1750.
Sunnevumál: Hans Wíum lenti í erfiðu sakamáli, sem nefnt var Sunnefumál og stóð í tvo áratugi. Það snerist um barneign systkina, Jóns og Sunnevu frá Geitavík í Borgarfirði, sem bæði voru á unglingsaldri. Jens Wíum, faðir Hans, hafði dæmt þau til dauða á Bessastöðum 1740, en skömmu síðar fórst hann vofeiflega á sjó. Þau systkin voru í haldi hjá Wíum meðan þau biðu dóms Alþingis eða náðunar, en þá vildi ekki betur til en svo, að Sunneva ól annað barn, sem ekki var grunlaust um að Hans ætti sjálfur, og tók málið þá nýja stefnu. Sunneva lést áður en málinu lauk, en Jón var dæmdur á Brimarhólm. Þessi harmsögulegu málaferli hafa orðið skáldum að yrkisefni og a.m.k. ein skáldsaga og eitt leikrit hafa verið samin út af þeim. Þjóðtrúin spann líka upp sína sögu, og lét Hans drekkja Sunnevu í Sunnevuhyl í Bessastaðaá.
Á öndverðri 19. öld bjuggu á Klaustri Eiríkur Arason og Þóra Árnadóttir, foreldrar Jónasar skólastjóra Búnaðarskólans á Eiðum og Guðríðar langömmu Herdísar Þorvaldsdóttur leikkonu, móður Hrafns og Tinnu, Gunnlaugsbarna. Skáld-Guðný, systir Þóru, var þar um tíma og orti rímur um dýrin í Fljótsdal. Sigfús Stefánsson og Halldór Benediktsson voru nafnkunnir bændur síðar á öldinni. Halldór var smiður og endurbyggði torfbæinn á Klaustri af miklum myndarskap.
Gunnarshús: Það var ævintýri líkast þegar Gunnar Gunnarsson skáld sneri aftur á æskuslóðir, keypti Skriðuklaustur og byggði þar hið stóra og glæsilega íbúðarhús 1939, sem oft er við hann kennt. Gunnar var áður búsettur í Kaupmannahöfn og ritaði bækur sínar á danska tungu. Gunnar og Franzisca kona hans bjuggu stórbúi á Klaustri til 1948, er þau fluttu til Reykjavíkur, og gáfu ríkinu jörð og hús til „ævarandi eignar“. Húsið er um 300 fermetrar að grunnfleti, á tveimur hæðum, með 30 herbergjum. Reynt var að líkja eftir gömlu torfbæjunum með því að múra grjóthnullunga í útvegginn og hafa torfþak á húsinu. Síðar voru hlaðnar svalir við húsið og sá Sveinn Einarsson um það verk. Minjasafn Austurlands var í húsinu 1945-1966, Tilraunastöð ríkisins í landbúnaði var þar til húsa 1949-1990, og gestaíbúð fyrir lista- og fræðimenn frá 1989. Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri var sett á fót 1997; hefur starfað þar síðan og staðið fyrir margháttuðum menningarviðburðum. Forstöðumaður er Skúli Björn Gunnarsson og býr í húsinu Skriðu.
Fljótsdalsrétt, einnig kölluð Melarétt og Klausturrétt, er á melahjalla út við Bessastaðaá, ein af stærstu og elstu skilaréttum landsins. Hún var byggð um 1905 af hnullungagrjóti úr ánni. Útveggir eru mjög þykkir og með miklum fláa að utan. Þangað er allt fé af vesturafréttum Fljótsdælinga rekið til réttar, og skipti það mörgum þúsundum þegar flest var á árunum 1960-70, en er nú orðið mun færra. Réttardagur í Fljótsdal er jafnan nokkur viðburður og oftast er fjöldi aðkomumanna á réttinni, sumir langt að komnir.
Bessastaðabæir
Bessastaðaá kemur úr Gilsárvötnum á Fljótsdalsheiði. Meginhluti vatnsins rennur fram í leysingum fyrri hluta sumars og getur rennslið þá farið upp í 50 rm/sek., en á vetrum getur áin orðið næstum þurr. Áin fellur í fögru og hrikalegu gili, sem kallað er Öræfagil í Fljótsdælu, með nokkrum fossum niður á dalinn. Hæstur er Jónsfoss, um 20 m, nálægt miðju gili. Í gilinu neðantil eru þykk setlög og surtarbrandur. Göngubrú var neðst á gilinu á fyrri hluta 20. aldar. Um 1950 var bílabrú byggð nokkru neðar og árið 2001 var ný brú byggð við hlið hennar. Frá brúnni beygir áin út nesið fyrir neðan Bessastaði og Eyrarland, kallast þar Bessastaðakíll, og sameinast Jökulsá hjá Bessastaðagerði.
Á áttunda áratug síðustu aldar var virkjun Bessastaðaár mjög á döfinni, og var heimiluð af Alþingi 1974. Átti þá að miðla vatni í Gilsárvötnum. Síðar var áætlað að nýta afrennsli Gilsárvatna í Fljótsdalsvirkjun Jökulsár og loks Kárahnjúkavirkjun, en af því varð ekki og mun þessi virkjunarhugmynd úr sögunni.
Bessastaðir eru ein af hinum gömlu stórjörðum; líklega bær Brynjólfs hins gamla, er nam Fljótsdal ofan Gilsár og Hengifossár, og reyndar líka Skriðdal og Austurvelli. Í Landnámu er ekki getið hvar hann bjó. Á Söguöld bjó þar sonarsonur Brynjólfs, Bersi Özurarson, sem var spakur að viti enda nefndur Spak-Bersi, hann kemur mikið við sögu í fornsögum Austfirðinga, sagður hafa fóstrað Helga Droplaugarson. Bersi „hafði mikinn átrúnað við goðin“ og átti hof veglegt, sem lýst er í Fljótsdælu og þjóðsögur segja að hafi verið í hvammi innan við ána. Við trúskiptin fleygði hann goðalíkneskjunum í ána, sem bar þær út í Lagarfljót. Síðan rak Þór á Þórsnesi en Freyr á Freysnesi, eins og fyrr getur. Bersahaugur er skammt niður af bæ, myndarleg grasi vaxin þúst og friðlýstar minjar.
Á Bessastöðum var kirkja fram um 1600, einnig þingstaður fyrir Fljótsdals- og Fellahreppa, með sérstöku þinghúsi, og enn heitir þar Þingvöllur í túni. Gálgaklettur er utan við Hamborg og Drekkingarhylur í ánni þar fyrir innan, einnig nefndur Sunnevuhylur því að þar átti Sunneva að hafa endað líf sitt. Bæjarnafnið Hamborg (Handborg í eldri ritum) hefur valdið heilabrotum, en ekki er vitað um uppruna þess. Í Hamborgarnesi, niður við Jökulsá, eru tættur sem þjóðsaga segir að séu af ‚Leikskálum‘ fornmanna, þegar þeir stunduðu knattleika á ís (íshokkí). Halldór Stefánsson fræðimaður og alþingismaður bjó um tíma í Hamborg og byggði steinhúsið sem þar stendur. Hann ritaði margt um sögu Austurlands. Hamborg fór í eyði um 1960.
Bessastaðavegur (í fornsögum Bessagötur) lá yfir Fljótsdalsheiði, frá Bessastöðum að Klausturseli á Jökuldal. Þetta var vörðuð alfaraleið og fjölfarin þar til bílvegir komu. Nú liggur bílvegur upp með gilinu og inn heiði að Snæfelli og Kárahnjúkum, sem farið er að kalla Kárahnjúkaveg.
Bessastaðanes er flatlend tunga milli Bessastaðakíls og Jökulsár. Nesið var mikið til þurrlend slétta, hin dæmigerða ‚Fljótsdalsgrund‘, sem Jörgen Kjerúlf yrkir um, og nánast sjálfgert tún. Í miklum vorleysingum flæðir Bessastaðaá stundum yfir nesið og ber á það aur og mold, en hækkar það jafnframt og frjóvgar. Það er nú allt orðið að túni.
Bessastaðagerði stendur á lækjargrund ofan við nesið. Upp af bænum er stór og frábærlega vel hlaðin varða, sem nefnist Sveinka, eftir Sveini Jónssyni, sem hana hlóð. Fangamark hans og ártalið 1890 er grafið á stein í vörðunni. Um og fyrir aldamótin 1900 var vörðuhleðsla stunduð sem listgrein í Fljótsdal, og eru nokkrar fleiri vörður merktar þannig. Guðmundur Magnússon, kallaður Sögu-Gvendur, bjó í Gerði snemma á 19. öld, frægur fyrir stórlygasögur í ætt við Munchausen. Einbúi heitir klettur úr smástuðluðu bergi rétt fyrir ofan veginn utan við Gerði. Þar kvað vera bústaður huldufólks og einhverjir hafa séð þarna einhyrnda kú, hinn fegursta grip, sem kannski er í ætt við einhyrninginn fræga.
Melar voru líklega hjáleiga Bessastaða í upphafi. Þetta er lítil jörð en gagnsöm, með góðar engjar á Melanesi, sem er nokkuð votlent á köflum, og vaxið víðigróðri en ræktað að hluta til. Melar hafa einkum orðið þekktir vegna Melaættar, sem rakin er frá Þorsteini Jónssyni bónda, er þangað flutti frá Hákonarstöðum á Jökuldal árið 1774 og konum hans tveimur, en með þeim átti hann 14 börn er upp komust, og settust þau flest að í Fljótsdal og Fellum. Í hlíðinni ofan við Mela er Völusteinn, öðru nafni Álfasteinn, með þúsundum af sauða- og stórgripavölum og merkinu „V E 9000 1867“ Ef til vill er þetta dæmi um fórnarsið úr heiðni, þegar menn gáfu álfum til að tryggja sér og búsmala sínum farsæld.
Hengifossá er álíka að vatnsmagni og lengd og Bessastaðaá. Hún kemur úr Hengifossárvatni á heiðinni og fellur í klettagili með mörgum tignarlegum fossum niður dalshlíðina. Hengifoss er í heiðarbrún, 128 m hár, oft talinn næsthæsti foss landsins, og áreiðanlega með þeim fegurstu. Neðan við fossinn eru mikil og litskrúðug setlög (sandsteinn), með surtarbrandi og jurtaförum. Neðar er Stuðlabergsfoss (Litlanesfoss), í umgjörð af óvenju reglulegum og háum stuðlabergssúlum. Nokkur skógargróður er í gilinu, með reynitrjám, og í mynni þess eru leifar af Hengifossárrétt (Melarétt), sem var aðalskilarétt í Fljótsdal næst á undan Klausturrétt. Þar er nú áningarstaður ferðafólks.
Gönguleið að Hengifossi: Hengifoss hefur lengi verið helsta skoðunarefni ferðamanna í Fljótsdal. Við gilsmynnið hefur verið gert bílastæði með salernum og sett upp skilti með upplýsingum um fossinn og Fljótsdal. Greiðfært er upp með gilinu beggja megin, eftir gömlum götum sem hafa troðist af fótum þúsunda ferðamanna. Aðalslóðin liggur nú að innanverðu og hefur víða verið lagfærð.
Brekkubæir
Hjarðarból er nýbýli, byggt úr landi Brekku, skammt fyrir utan Hengifossá, á beitarhúsum sem heita Skógargerði. Þar fyrir neðan er nýja Leirubrúin á Jökulsá, sem fyrr var getið. Utan við hana heitir Brekkuteigur. Þar fellur Hölkná í fossum niður á mörk fljóts og leira. Í hana flæðir stundum úr Hengifossá uppi á heiðinni. Við Hölkná, neðan vegar, er Brekkustekkur, fagur og skjólsæll staður, þar sem stundum voru haldnar útisamkomur.
Loftsteinn: Árið 1954 lenti ókennilegur hlutur á Leirunum neðan við Hjarðarból, grófst á kaf í sandinn og fannst ekki þrátt fyrir nokkra leit sem Bandaríkjaher stóð fyrir. Er líklegt að það hafi verið allstór loftsteinn, en loftsteinar hafa aldrei fundist á Íslandi, svo vitað sé. Gæti hann hafa lent undir uppfyllingu við Leirubrúna.
Gönguleið Hengifossá-Hrafnsgerðisá: Mestalla þessa leið má velja sér gönguslóð neðan þjóðvegar. Í Brekkuteig má fara niður að Fljótsbotni innan við Hölkná, og síðan eftir gömlum kerruvegi út með fljótinu neðan við Brekku. Sjálfsagt er þó að skreppa upp á Brekkuhólinn, til að njóta útsýnis yfir dalinn. Utan við Brekkulæk má halda áfram á kerruveginum út Háubakka. Þaðan má aftur fara niður að fljóti og út á Húsatanga. Þaðan er sjálfsagt að ganga um Geitagerðisbakka, þó ekki séu þar götur. Aftur er komið á þjóðveg innan við Arnheiðarstaði, og gengið eftir honum út fyrir neðan bæinn. Frá Bolalæk er gamall bílvegur um Parthús og Stekkhús langleiðis að Hrafnsgerðisá.
Bærinn Brekka stendur á malarhjalla, um 60 m yfir sjávarmáli, þar sem líklega er eitt af endastigum Fljótsdalsjökuls í lok ísaldar. Brekkuland náði frá Hengifossá að Marklæk innan við Geitagerði, en langt er síðan hjáleigurnar Brekkugerði og Hús byggðust úr jörðinni. Frá Brekku er fegursta útsýni sem hægt er að fá af alfaraleiðum inn yfir Fljótsdalinn. Þar var læknissetur löngum frá 1772 til 1944, og spítali frá 1907-44. Fyrsti læknir var Brynjólfur Pétursson (sem sagt er að hafi búið til drauginn Eyjasels-Móra). Snemma á 19. öld var þar danskur læknir, Jörgen Kjerúlf, sem varð forfaðir Kjerúlfsættar.
Brekka var endastöð áætlunarbátanna sem gengu á Leginum 1905-1934, frá Egilsstöðum. Fyrsti báturinn (Lagarfljótsormur, 1905-1918) var geymdur þar á vetrum, í skúr við ós Brekkulækjar, og geymsluhús, kallað Fljótshús, var við sandinn utan við Hölkná. Sjást minjar þessara bygginga enn (sbr. Egilsstaði).
Utan við bæinn og Brekkulæk heita Háubakkar meðfram fljóti. Undir þeim utantil er Baulutangi, en þar eiga fimm sækýr að hafa gengið á land endur fyrir löngu. Tókst að fanga eina þeirra sem nefnd var Dumba, og varð hún upphaf að ágætu kúakyni í Fljótsdal. Nokkur birkitré eru í bökkunum og víða blómlegur gróður.
Brekkugerði og Hús (Brekkugerðishús) eru gömul hjáleigubýli frá Brekku. Í Brekkugerðisfjalli er varða sem nefnist Sveinka, eins konar tvíburi þeirrar í Bessastaðagerði. Bærinn á Húsum stendur hátt (120 m. y.s.) enda er afar víðsýnt þaðan og þar hafa bændur löngum verið skáldmæltir (sbr. Skjögrastaði). Jörgen Kjerúlf, Fljótsdalsskáld, byggði þar upp á beitarhúsum, bjó þar 1924-1936, og kenndi sig oft við þann bæ. Síðan bjó þar Jón sonur hans, sem einnig var skáldmæltur, og nú búa þar Sigrún Benediktsdóttir og Hákon Aðalsteinsson frá Vaðbrekku. Hákon er vel þekkt alþýðuskáld og hefur sent frá sér nokkrar kvæðabækur. Þau hafa endurbyggt bæinn á sérstakan hátt og reka þar ferðaþjónustu. Úrval af kvæðum Jörgens kom út 2004 í bókinni Fljótsdalsgrund.
Húsatangi er niður af Húsum. Þar fellur Marklækur til fljóts í furðu miklu gili með malarhjöllum beggja vegna. Neðst á tanganum hefur Hákon á Húsum byggt upp áningarstað fyrir ferðamenn, einkum þá sem ferðast með fljótsbátnum. Þar er m.a. ‚gammi‘ úr lerkiviði, útiborð og sæti. Þjóðsagan segir að Ormurinn mikli í Lagarfljóti hafi verið bundinn á hausnum við Húsatanga.
Arnheiðarstaðabæir
Geitagerði stendur undir Geitagerðisbjargi, fyrrum hjáleiga Arnheiðarstaða. Þar hefur lengi verið myndarlega búið, af niðjum Guttorms Vigfússonar alþingismanns. Nú er Guttormur V. Þormar, fyrrum íþróttakappi, orðinn þar einn. Þar eru stórir teigar af nýjum skógi, aðallega lerki, og gamall trjágarður við bæinn, með risatrjám. Önnur risatré sem uxu á tertíertíma fyrir milljónum ára hafa skilið eftir sig mót neðst í Bjarginu, og uppi á því eru Hlandkollur, skessukatlar langt fjarri öllum fossum, hafa myndast undir jökli.
Geitagerðisbakkar eru einn fjölbreyttasti hluti Norðurstrandar Lagarfljóts. Utantil í bökkunum er fjöldi gamalla birkitrjáa, sem hafa sáð sér í nærliggjandi hjalla, og á milli kletta eru hvammar skrýddir blágresi og hvönn. Geitá fellur þar í fossum, og skammt fyrir innan hana er skútinn Rauðihellir í klettanefi við fljótið, en þar halda menn að Grímur Droplaugarson hafa leynst í útlegð sinni. Neðan við klettana strandaði báturinn Lagarfljótsormurinn 1918 og eyðilagðist, en mannbjörg varð.
Árnasteinn er mitt á milli bæjanna fast við veginn. Þar á að vera fólginn fjársjóður, er sumir tengja við Árna ríka Þórðarson, bónda á Arnheiðarstöðum á 18. öld, en ekki tjáir að leita hans, því að þá stendur bærinn í loga. Steinninn er í veglínu, en þegar vegurinn var endurnýjaður um 1970 þótti ekki vogandi að sprengja hann, heldur var vegurinn sveigður framhjá honum. Nokkru utar eru örnefnin Gálgaflötur og Gálgaklettur, sem benda til aftökustaðar og þinghalds á bænum.
Arnheiðarstaðir eru höfuból frá fornu fari, landnámsjörð og mesti fornsögustaður austan lands. Gamlar götur, sem kallast Merkisvegur, liggja yfir heiðina að Merki á Jökuldal, sem talið var hjáleiga Arnheiðarstaða. Bærinn stendur á hjalla undir klettahlíðum, við Bæjarlæk sem fossar þar niður. Er óvíða fegurra bæjarstæði, enda Hallormsstaðaskógur beint framundan. Hér bjó Ketill þrymur Þórisson þiðranda úr Veradal í Noregi, bróðir Graut-Atla í Atlavík.
Ketill dvaldi um vetur í Svíþjóð og keypti þar Arnheiði ambátt, ættaða úr Suðureyjum við Skotland. Eftir það fann hún fjársjóð mikinn, og bauðst þá Ketill til að skila henni aftur til heimkynna sinna, en „hún kaus að fylgja honum“. Þau giftust og er bærinn heitinn eftir henni. Þessari fáorðu ástarsögu hefur verið jafnað við sögu Melkorku og Ólafs pá í Laxdæla sögu. Ketill og Arnheiður voru langafi og -amma Helga og Gríms, sem kallaðir voru Droplaugarsynir. Þeir gerðu garðinn frægan á Arnheiðarstöðum kringum árið 1000. Um þá er fjallað í tveimur af helstu fornsögum Austfirðinga: Droplaugarsona sögu og Fljótsdælasögu. Þeir misstu föður sinn ungir og voru því kenndir við móður sína. Helgi deildi kappi við nafna sinn Ásbjarnarson og féll í bardaga á Eyvindardal árið 998. Grímur særðist þá nær til ólífis, en var bjargað, og hefndi hann bróður síns með vígi Helga Ásbjarnarsonar á Eiðum 1008. Fljótsdæla er ævintýrasaga full af gamansemi og glettum, talin frekar ung. Af uppruna Droplaugar fara ýmsar sögur og sumar ævintýralegar.
Af Árna ríka er komin Arnheiðarstaðaætt, með ýmsa sérkennilega gáfumenn innan borðs, þar á meðal rithöfundinn J. Magnús Bjarnason, Pál Ólafsson skáld og Einar Jónsson ættfræðing. Jón Þorsteinsson vefari bjó á Arnheiðarstöðum um aldamótin 1800. Hann hafði lært vefnað í Danmörku og kenndi öðrum það. Af honum er komin hin alkunna og fjölmenna Vefaraætt. Á öndverðri 19. öld bjuggu þar Halldóra, dóttir Jóns vefara, og Guttormur sonur Vigfúsar Ormssonar prests á Valþjófsstað, kallaður stúdent. Hann var forgöngumaður í búskap og félagsmálum á Héraði og alþingismaður um skeið. Sonarsonur hans var Guttormur Vigfússon, fyrsti skólastjóri Búnaðarskólans á Eiðum, síðar alþingismaður og bóndi í Geitagerði, forfaðir Þormarsættar. Jón sonur Guttorms eldra fór til Kanada og var faðir Guttorms J. Guttormssonar skálds. Halldór, yngsti sonur Guttorms stúdents, var listasmiður og skar út marga fallega gripi.
Í skýrslu Hans Wíum (1750), um skrímslin í Lagarfljóti, er sagt frá mjög fjölbreyttum fyrirbærum er sáust frá Arnheiðarstöðum og næstu bæjum á árunum 1749-50, m.a. sáu hann og þrír prestar sem þar voru staddir „blástur rétt undan í fljótinu, sem hvalablástur, en þó meiri allur“. Slíkir blástrar hafa sést af og til fram á okkar daga og stafa líklega af gasi (sjá Hreiðarsstaði).
Parthús heita forn beitarhús við veginn, drjúgan spöl út frá bænum, nú fallin í tættur. Við þau er tengd þjóðsaga af Parthúsa-Jóni, sem átti að hafa verið tættur í parta af draugi sem ofsótti hann. Stekkhús eru stuttu utar við fljótið, líklega gamalt eyðibýli.
Droplaugarstaðir er nýbýli úr landi Arnheiðarstaða, byggt 1942, út við Hrafnsgerðisá, kennt við Droplaugu fornkonu. Bærinn stendur hátt og þaðan er víðsýnt yfir Lagarfljót. Þar er vatnsrafstöð frá 1951 enn í gangi. Neðan bæjar eru Kiðuklettar með ríkulegum blóm- og birkigróðri. Landið hefur verið tekið til skógræktar; elsti reiturinn er ofan bæjar, frá um 1950. Hér var höfundur alinn upp frá sjö ára aldri, áður á heimabænum.
Fellin
Hrafnsgerðisá skiptir hreppum og utan við hana er Fellahreppur, sem nær út að Rangá, nokkrum km lengra en Lögurinn (nýlega sameinaður fleiri hreppum). Ekki eru teljandi skil í landslagi um ána, en nokkru utar breikkar undirlendið verulega og fell og ásar setja svip sinn á landslagið, sem eru nafngjafi sveitarinnar. Milli ása eru mýrar og stöðuvötn, en lítið sést til þeirra af þjóðvegi. Í Mið- og Útfellum eru tvær eða þrjár bæjaraðir, en eins og á Austur-Völlum verður þessi lýsing einkum miðuð við neðstu bæjarröðina.
Skeggjastaðabæir
Hrafnsgerðisá fellur í mörgum fossum ofan af Fljótsdalsheiði. Neðsta fossaröðin er sérlega tilkomumikil, með fjórum fossum, 10-15 m á hæð. Brú er á þjóðvegi á brún þess efsta, og í gilinu við hann er skúti með grjóthleðslu, sem Grímsbás nefnist, talinn einn af felustöðum Gríms Droplaugarsonar. Þar dvaldi umrenningur um tíma í lok 18. aldar og angraði ferðamenn.
Hrafnsgerði, fyrrum hjáleiga Skeggjastaða, er stutt fyrir utan ána, undir tilkomumiklum hömrum, sem kallast Hrafnsgerðisbjarg. Það er með öfugum jarðlagahalla, þ.e. til NA. Gríðarstór steinn er við heimreiðina að bænum. Undir Bjarginu er elsti ‚bæjarskógur‘ á Héraði, sem byrjað var að planta 1940, fjölbreyttur af trjátegundum. Íbúðarhúsið er meðal elstu steinhúsa á Héraði, byggð 1907, nú aðeins notað til sumardvalar. Myllutótt stendur við ána framan við bæinn, og leifar af rafstöð frá 1927. Gamli reiðvegurinn lá meðfram fljóti og yfir ána á Hrafnsgerðisáreyri. Þar fórst Guttormur Hjörleifsson lögsagnari árið 1771, eftir orðasennu við Hans Wíum og þótti ekki einleikið. Meðal afkomenda hans var Kristján Eldjárn forseti. Í hvammi ofan við eyrina var haldin landbúnaðarsýning 1908.
Gönguleið Hrafnsgerði - Ekkjufell: Þjóðvegurinn um Fellin (Fellavegur) liggur víðast hvar nokkuð langt frá Lagarfljóti, og útsýni þaðan er fremur takmarkað. Því er hann ekki fýsilegur gönguvegur, nema út hjá Teigabóli, en þaðan er best að ganga meðfram ströndinni út að Hofi. Frá þeim bæ liggur gamall reiðvegur út yfir Skarfatanga og fyrir neðan Ásklif, um kirkjustaðinn Ás, og út eftir fljótsbökkum alla leið að Víkurklettum innan við Ekkjufell. Þessi vegur er að vísu víða sundur slitinn af girðingum, túnum og görðum, einkum á Hreiðarsstöðum og Setbergi, en þá er hægt að krækja niður í fjöru. Frá Víkurklettum er sjálfsagt að ganga niður á Freysnes eftir ströndinni, en þaðan liggur bílvegur að Ekkjufelli.
Teigaból byggðist úr landi Hrafnsgerðis 1953, innan við samnefnda á. Þar heitir Nollarshaugur við bæinn, sem minnir á furðufuglinn Nollar á Nollarsstöðum í Fljótsdæla sögu. Neðan við Teigaból er sérkennilegur gangklettur við fljótið, sem heitir Mófríðarhamar, sagður draga nafn af konu sem drekkti sér af honum. Bergið í honum klofnar í þunnar hellur og brýni, og þótti gott til vopnafanga hjá krökkum af næstu bæjum. Utan við klettinn eru Háubakkar, með eina fundarstað þyrnirósar á Héraði, en rósinni var eytt þar snemma á 20. öld, vegna eftirsóknar í garða.
Skeggjastaðir eru ein hinna fornu stórjarða, nefndist fyrrum Skeggjastaðir á Teigum, og þótti ein besta jörð á Héraði. Upphaflegi bærinn stendur á hól framan undir klettahöfða, Hnausnum; er þar staðarlegt heim að líta. Þarna var löngum tvíbýlt, auk þess var hjáleigan Gata í túninu. Á síðustu öld voru þar fjögur býli og bú: tveir bæir heima, Holt innan við bæ, og nýbýlið Sólbrekka (frá 1960) við veginn. Nú er sköpum skipt; enginn búskapur á Skeggjastöðum, utan skógrækt og heimabærinn í eyði. Búið er að planta lerki í landið utan túna. Niður af bænum er breiður tangi, með smáklettum, sem kallast Skersli.
Ævintýrið af uppruna Ormsins er oft tengt Skeggjastöðum. Stúlka ein átti þar heima í fyrndinni sem fékk gullhring að gjöf og lagði undir lyngorm, en þá tók bæði gullið og ormurinn að vaxa svo stúlkan henti hvoru tveggja í fljótið og upp frá því fór hinn mikli Ormur að gera vart við sig og valda skaða. Þá voru fengnir til Finnar tveir sem gátu bundið hann á höfði og sporði og síðan getur hann aðeins rekið upp kryppur. Það gerist endrum og eins og var fyrrum talið boða einhver stórtíðindi.
Á 19. öld bjó Ingunn Davíðsdóttir skyggna á Skeggjastöðum, með Oddi Jónssyni manni sínum. Hún var amma Sigfúsar Sigfússonar þjóðsagnameistara, sem ólst upp á Skeggjastöðum, hjá Guðrúnu dóttur hennar, föðursystur sinni, og fékk þar ódrepandi áhuga á þjóðlegum fræðum, sem leiddi til þess að hann gerði söfnun þjóðsagna að ævistarfi. Þjóðsagnasafn Sigfúsar er hið stærsta á Íslandi og líklega í heiminum. Einar Jónsson prestur á Kirkjubæ er ættaður frá Götu. Hann samdi margra binda ritverk um Ættir Austfirðinga. Kaupfélag Héraðsbúa var stofnað á Skeggjastöðum 1907, og fyrstu heimilisrafstöðvar á Héraði voru byggðar þar og í Hrafnsgerði, 1927.
Hof og Ás
Bærinn Hof stendur í kvos við litla vík fast við fljótið. Mun enginn bær vera jafn nátengdur því, nema e.t.v. Egilsstaðir, enda gustar þar stundum svalt í hlýjum sunnanvindi. Þetta er annar tveggja bæja með hofsnafni á Héraði, en hinn er Hofteigur á Jökuldal. Óglögg tóft í trjálundi, rétt fyrir ofan efra bæinn, er sögð vera af hofinu og er friðlýst. Álfasteinar eru í túni utan bæjar, einn þeirra húslaga. Bolabás er við fljótið innan bæjar og utan við bæinn er Skarfatangi. Þar varð síðasta strand ‚Lagarfljótsormsins‘ árið 2001. Þó jörðin sé lítil hefur lengi verið tvíbýlt á Hofi og þar enn vel búið.
Ásklif: Utan við Skarfatanga hefst mikill ás sem gengur í N-S og kallast Ásklif, en Klif í daglegu tali. Hann er um 1,5 km langur, rís 120 m yfir sjávarmál, og er hæsti staður við Lagarfljót endilangt. Þaðan er því einstaklega gott útsýni, sem furðu fáir kunna að nota sér, enda þótt þjóðvegur liggi meðfram Klifinu að ofan, og þaðan sé aðeins um 10 mínútna gangur upp á það. Austan í Klifinu eru standbjörg með blómríkum syllum. Vex þar m.a. aronsvöndur, sem er fágætur á Héraði. Milli Klifsins og Lagarins innst er nokkuð aðþrengt, en þar hefur um aldir legið alfaravegur. Klifið var torfæra á veginum, en nafnið færðist yfir á ásinn (sbr. Klifá á Hallormsstað). Uppi á Klifinu er Söngsteinn en þar heyrði stúlka sálmasöng á 19. öld. Álfasteinn er undir Klifinu, skammt innan bæjar, og nokkru innar er lítil tótt sem kallast Steinaborg, þar átti séra Sigfús Guðmundsson að hafa sett niður draug, sem vakinn var upp í Áskirkjugarði um aldamótin 1800. Draugurinn varð samt þekktur undir nafninu Gerðis-Móri, kenndur við Gíslastaðagerði á Völlum.
Sögn er að eitt sinn hafi ákvæðaskáld ætlað að kveða Klifið sem brú yfir Lagarfljót, en ekki varð þó af þeirri framkvæmd því menn óttuðust þá röskun sem af því gæti hlotnast. Slysahætt þótti í Klifinu, enda gerir þar oft mikil rok. Því er sagt að Guðmundur biskup góði hafi verið fenginn til að vígja það. Ekki dugði sú vígsla til að hindra að Ólafur Pétursson frá Egilsstöðum færist þar veturinn 1956. Hann var í póstferð í vitlausu veðri, með Ingibergi á Hofi, og strandaði ofan við Klifið. Ætluðu þeir að ganga að Hofi, en gengu í þess stað fram af Klifinu innantil. Ingibergur bjargaðist á furðulegan hátt.
Kirkjustaðurinn Ás stendur undir Klifinu utantil, og því var hann fyrrum oft nefndur Undir Ási. Þar er meira en 100 ára gömul kirkja, hið snotrasta hús, en föst búseta lagðist þar niður árið 1962. Landið hefur allt verið tekið undir skógrækt. Frægastur Áspresta er líklega Grímur (Grímólfur) Bessason, sem þar var um miðja 18. öld. Hann var hagmæltur en þótti nota þá gáfu heldur illa. Talið er að hann hafi kveðið fyrstu lymruna á Íslandi: „Undarlegur var andskotinn / er hann hljóp í svínstötrin...“ Sigfús Guðmundsson og Benedikt Þórarinsson voru merkisprestar á 19. öld; síðasti prestur var Sigurður Gunnarsson, föðurbróðir Gunnars skálds, síðar á Valþjófsstað og í Stykkishólmi. Áskirkja hafði þá sérstöðu að vera ‚bændakirkja’, þ.e. í eigu jarðeiganda hverju sinni, þar til Brynjólfur biskup keypti jörðina 1662, og gaf hana kirkjunni „til ævinlegs prestsseturs“. Afbýli voru á Ásseli og Sigurðargerði ofan við Ásklif.
Haustið 1946 varð mjög sviplegt slys á Ási, þegar Guttormur bóndi Brynjólfsson fórst í sprengingu, ásamt tveimur ungum dætrum sínum og bróðurdóttur. Þetta gerðist við Klofasteina, sem eru út og upp af bænum, ofan við grafreitinn. Þau voru í smalamennsku og börnin fundu sprengikúlu frá skotæfingum Breta í stríðinu, sem mun hafa sprungið rétt hjá þeim.
Ormarsstaðir - Meðalnes
Ormarsstaðaá fellur í Lagarfljót á samnefndri eyri utan við Ás. Hún kemur ofan af Fellaheiði, framan við bæinn Ormarsstaði, álíka vatnsmikil og Hrafnsgerðisá, og líka með mörgum fossum. Hæstur þeirra er Gerðisfoss. Hún sameinast Svíná í Ármótahvammi, rétt fyrir ofan brúna. Um 1870 fórust tveir menn við ósinn, og síðan þykir þar reymt.
Ormarsstaðamelar eru utan við ána, stór framburðargeiri frá lokum ísaldar, með miklum malarnámum og hringlaga tjörn. Á fljótsbakkanum neðan við melana eru stekkjartættur. Í bökkunum út við Þorleifará er gamall kjarrskógarreitur sem kallast Kvistur. Annars er lítið um upprunalega skóga í Fellum, en nú er búið að planta trjám í margar jarðir.
Ormarsstaðir standa um 1 km upp frá fljótinu. Hjáleigurnar Hlíðarsel og Refsmýri eru út frá bænum, sú síðarnefnda enn í byggð. Samkvæmt Droplaugarsona sögu keypti Ketill á Arnheiðarstöðum þessa jörð fyrir Ormar sem var Rögnvaldsson af Jamtalandi. Þjóðsögur segja hann heygðan í Ormarshaugi, sem er melhóll hjá Hlíðarseli, og gera hann að fóstbróður Bessa á Bessastöðum og Rauðs (Ásröðar) á Ketilsstöðum, sem einnig eiga sína hauga. Þorvarður læknir Kjerúlf bjó á Ormarsstöðum seint á 19. öld. Hann var alþingismaður, skáldmæltur, og mikill frumkvöðull í félags- og atvinnumálum á Héraði meðan hans naut við, kom m.a. upp ullarvinnslu og spunavélum við Ormarsstaðaá, sem áin var látin knýja. Hann var líka frumkvöðull siglinga á Lagarfljóti.
Meðalnes er næsti bær með fljóti út frá Ormarsstöðum, fallinn í eyði fyrir nokkrum áratugum. Talið er að hann hafi fyrrum verið stór jörð, með hjáleigunum Miðhúsaseli, Birnufelli og Hreiðarsstöðum. Niður af bænum er samkomuhúsið Rauðilækur við veginn og samnefndan læk, nú notað til íbúðar. Við veginn hjá Meðalnesi er minnisvarði um Jóhann Magnús Bjarnason, sem fæddist þar 1866, en flutti á unga aldri með foreldrum sínum til Kanada og gerðist þar mikilvirkur rithöfundur. Eftir hann er frægt kvæði um Árna Oddsson lögmann.
Hreiðarsstaðir eru á samnefndum tanga utan við Rauðalæk, sem ef til vill hefur heitið Meðalnes. Fram og niður af tanganum eru frægar vakir á Lagarfljótsísnum, sem getið er í Fljótsdæla sögu og kallaðar ‚nautabrunnar‘, en nú oftast Þrælavakir.
Vakirnar stafa af uppstreymi á metangasi úr botni fljótsins. Það var fyrst sannað snemma árs 1963. Þá hafði nýlega fundist jarðhiti í Urriðavatni, þar sem líka voru vakir, og héldu menn að sama gæti verið uppi á teningnum þarna. Tveir Fellamenn lögðu því leið sína að Þrælavökum. Þeir reyktu báðir pípu; af tilviljun fleygðu þeir eldspýtu í eitt gatið og logi blossaði upp. Síðar safnaði Steinþór Eiríksson gasi í tunnu og setti á hana gaslampa sem logaði lengi og vel. Í Fljótsdælu er skemmtileg frásögn af brellum Helga Droplaugarsonar, sem tengist þessum vökum. Þar segir líka að Hreiðar bóndi hafi verið morgunsvæfur, því að hann sat við lestur ‚fornsagna‘ lengi nætur!
Setberg og Kross
Bærinn Setberg stendur framan undir felli sem kallast Bergið, en hefur upphaflega verið samnefnt bænum. Ofan við það er Skrukkuvatn í klettakvos og þar á að vera nykur. Neðan bæjar eru margir klettaásar, milli fljóts og vegar, sem kalla má Setbergsása einu nafni. Neðsti ásinn heitir Húsás og við hann eru beitarhús. Utar er Setbergsklöpp fast við fljótið, og ofan við hana er Klapparmór, nú orðinn að túni. Túnið er alsett samsíða öldum, sem hafa myndast af sandkasti í vogi sem þarna gekk norður úr fljótinu, þegar vatnsborð þess var um 5-10 m hærra en nú. Ferjað var frá klöppinni yfir fljótið. Utan og ofan við Klapparmó eru rústir að eyðikotinu Hrísgerði. Kolás liggur áfram út með fljóti.
Kross: Sagt er að bærinn dragi nafn af róðukrossi er þar var reistur í kaþólskri tíð, til varnar tröllagangi. Í ásunum fyrir ofan bæinn eru örnefni sem vitna um tröllabyggð, og ýmsar þjóðsögur eru þeim tengdar. Þar er Reyðarvatn, gott silungsvatn, enda kennt við bleikju (reyði) og fiskuðu tröllin á því. Langavatn er nokkru utar og líka silungsríkt. Nú er Kross aðallega þekktur fyrir huldufólk, sem býr þar í hverjum kletti, og heimamenn hafa umgengist allt til okkar daga. Oddbjörg Sigfúsdóttir, búsett í Fellabæ, ólst þar upp og kann þaðan margar sögur, sumar af eigin reynslu. Neðan við bæinn eru Fremravatn og Bolavatn. Þar hefur flórgoði orpið og álftapar heldur þar til.
Friðland að Fellabaki: Utan og ofan við Setberg og Kross er mjög fjölbreytt og fagurt landslag, með fjölda minja og vættasagna, sem ekki sést af þjóðvegi og er því næsta lítið þekkt. Þar skiptast á klettaásar, tjarnir og stöðuvötn, sem þegar voru nefnd. Nónásskógur er innan við bæinn Staffell. Hægt er að komast á þetta svæði eftir bílvegi sem liggur af Norðurlandsvegi hjá bænum Hafrafelli og upp að bænum Fjallsseli, en skemmtilegast er að ganga um það, t.d. frá Krossi að Staffelli eða Hafrafelli. Svæðið er á náttúruminjaskrá.
Ekkjufell
Krossleiti kallast utan og neðan við Kross. Þaðan er allgott útsýni af veginum og þægilegt að ganga þaðan út á Ekkjufellið, og inn á Víkurkletta.
Víkurklettar eru við Löginn, innst í landi Ekkjufells, neðan við Kross. Í klettunum er fallegur trjágróður sem hefur aukist mikið á seinni árum, birki- og reynitré, auk víðirunna, og blóm vefjast um syllur og stalla, m.a. sigurskúfur. Fremst á ásnum eru rústir Víkurhúsa, beitarhúsa frá Ekkjufelli, þar fannst kuml með mannabeinum um 1900.
Ekkjufellsklettar eru næst fyrir utan og neðan Víkurkletta, og hefja sig um 85 m yfir vatnsflötinn, eða 104 m y.s. Þaðan er afar gott útsýni yfir Egilsstaðaflóa og ytri hluta Lagarins. Klettarnir eru úr svipuðu bergi og Egilsstaðaklettar austan fljóts. Þeir eru mjög fjölbreyttir að lögun, og fagurlega grópaðir af ísaldajöklum, með nokkrum djúpum klaufum. Í Skútaklauf er hellisskúti, sem notaður var til að fela brugg á bannárunum svonefndu. Nokkur sumarhús eru sunnan og austan í klettunum og liggja bílvegir að þeim gegnum klaufarnar.
Freysnes gengur fram í fljótið innan og neðan við Ekkjufellskletta. Það er úr nokkuð grófri möl og hnullungum, líklega gömul eyri, mynduð þegar vatnsborð fljótsins var 5-10 m hærra og meiri straumur á þessum stað. Mikið er um líparítsteina í nesinu, sem bendir til uppruna úr Skriðdal. Efst á nesinu eru margar fornar tættur, sem menn telja vera til vitnis um þinghald. Ein stærsta tóttin kallast Goðatættur, á að vera af Freyshofi. Þjóðsagan segir að líkneski Freys hafi rekið á nesinu (Sbr. Þórsnes hinum megin). Neðan við tætturnar er um 50 ára gamall lerkilundur, sem plantað var til minningar um Baldur Sigbjörnsson og Þórunni systur hans á Ekkjufelli. Baldur fórst ungur í vök fram af nesinu veturinn 1936, það er síðasta dauðaslys í Leginum. Tveir samferðamenn hans björguðust við illan leik. Þarna við nesoddann er oft veikur ís vegna straums í fljótinu.
Ekkjufell er stór jörð og gömul, með afbýlinu Ekkjufellsseli og fornbýli sem heitir Valgerðarstaðir, en minjar þess eru sunnan í ásunum NA af Seli. Bærinn stendur á hól undir samnefndu felli, utan við Ekkjufellskletta. Í Droplaugarsona sögu segir frá Álfgerði lækni, sem bjó á Ekkjufelli, og tókst að græða Grím Droplaugarson eftir bardaga á Eyvindardal, þegar aðrir töldu hann dauðan. Í lækjargili rétt við bæinn er Huldukonuklettur, og við hann er eini verulegi álagabletturinn á Héraði, sem aldrei má nýta til heyskapar, ef forða skal slysum. Ekkjufell hefur alltaf verið á krossgötum, og þar (og í Seli) var lögferjan rekin. Þar var áður fyrr mikil gestanauð. Þar er nú enginn búskapur en nýlega byggður veitingaskáli og golfvöllur.
Ekkjufellið er næsthæst hinna mörgu fella í Fellum, 180 m y.s., og þaðan er frábært útsýni til allra átta. Yst á fellinu er stór steinn, nefndur Grettistak. Hann stendur á litlum fleti svo naumt á klettabrún, að það er engu líkara en hann sé að ögra þyngdarlögmálinu, og má því kallast eitt af undrum veraldar. Vafalaust hafa menn margoft reynt að steypa honum fram af, en hann hefur staðið það af sér til þessa. Í klettinum fyrir neðan er veglegur skúti, sem kallast Grettisbæli. Sunnan við Ekkjufellið er Hrafnafell, eins og kassi í laginu, og djúpar klaufir sitt hvoru megin þess.
Skipalækur er nýbýli í landi Ekkjufells, byggt um 1950, við samnefndan læk. Fram af bænum eru Ekkjufellshólmar í Lagarfljóti, vaxnir lyngi og kjarrgróðri. Á bænum er rekin ferðaþjónusta og leigð út gisting í nokkrum rismiklum húsum á ströndinni. Nýbýlið Helgafell er utan við lækinn, stofnað 1936, nú komið inn í þorp. Á þessum slóðum er fljótið aðeins um 1,5-2 m djúpt; nær þetta ‚Brúargrunn‘ inn undir Egilsstaðakletta og langt úteftir fljóti.
Fellabær: Þegar Ekkjufell komst í vegarsamband við Reyðarfjörð 1909 setti verslunin Framtíðin á Seyðisfirði upp geymsluhús við brúarendann, þar sem afgreidd var þungavara og tekið á móti sláturfé. Þetta hús var nefnt Skúr (Skúrinn). Um 1930 keyptu Ekkjufellsbændur Skúrinn og leigðu hann Sigurði Þorsteinssyni, sem hafði þar smábúskap og verslun, jafnan kallaður “Siggi í Skúrnum”. Hann nefndi staðinn Hlaðir. Eftir lát Sigurðar 1951 tóku Ekkjufellsmenn við rekstrinum. Árið 1960 var Verslunarfélag Austurlands stofnað og setti það upp verslun og síðar slátur- og frystihús hjá Hlöðum. Upp frá því fór að myndast þorp, sem byggðist út í Selása í landi Ekkjufellssels, og var síðan farið að kalla Fellabæ. Íbúar þess eru um 450.
Lagarfljótsbrú var byggð á árunum 1901-04 og vígð haustið 1905. Langir staurar voru reknir ofan í botninn og brúin byggð ofan á þeim. Fyrstu staurarnir voru rústaðir af ísreki um miðjan vetur og frestaðist því bygging brúarinnar. Hún var lengsta brú á Íslandi þar til brýrnar á Skeiðarársandi voru byggðar 1974. Skammt frá vesturenda brúarinnar eru tveir risasteinar í flæðarmálinu, sem heita Ferjusteinar, og litlu nær brúnni eru leifar af grjóthlaðinni bryggju sem ferjan lagðist að. Þarna var lögferja allt þar til brúin var tekin í notkun. Um einum km utan við brúna var efsta vað á Lagarfljóti, Einhleypingsvað. Er þá lokið hringferð umhverfis Löginn.
(Lokið endurskoðun, 26. 11. 04 / Síðast leiðr. 4.4. 05, eftir ábendingum Philips Vogler)