Skip to main content
12 November, 2021
# Topics

Mannvistarminjar í Fljótsdal

12 November, 2021

 

 

 Mannvistarminjar í Fljótsdal

 Helgi Hallgrímsson
frá Droplaugarstöðum
tíndi saman

 Eg. 2013

Síðan um miðja 20. öld hafa orðið meiri breytingar á atvinnuháttum en á öllum fyrri öldum Íslandsbyggðar, og má líkja því við byltingar ríkja eða hamfarir í náttúrunni. Það á a.m.k. við um sveitirnar. Þessi holskefla hefur skolað burtu flestum gömlum byggingum og mannvistarminjum. Gömul hús og tættur úr torfi og grjóti, urðu ekki hvað síst fyrir barðinu á henni. Jafnvel friðlýstar minjar voru sumsstaðar afmáðar. Menn kölluðu þetta "landhreinsun", og undir það var ýtt á margvíslegan hátt. Sem betur fer voru þó til undantekningar á einstöku bæjum og jafnvel í heilum sveitum.

Fljótsdalur á sér forna og að ýmsu leyti glæsta sögu. Fljótsdælingar hafa lengstum verið veitendur fremur en þiggjendur andlegrar og verklegrar menningar. Í því ljósi er skiljanlegt að þeir fóru sínar eigin leiðir við endurbyggingu og viðhald gamalla torfhúsa, svo að umrædd holskefla fór þar víða hjá garði án teljandi óskunda. Í Fljótsdal hafði hefðbundið byggingarlag gripahúsa náð verklegri fullkomnun, sem varla á sinn líka annarsstaðar í landinu, enda þótt húsin væru löguð að nútíma þörfum, og á flestum bæjum voru húsin í notkun um 1990.

Árið 1990 gerðust þau undur og stórmerki að bændur á Héraði austan Jökulsár á Dal, reyndar líka á Austfjörðum, ákváðu að slátra öllu sauðfé og geitum, í því skyni að útrýma riðuveiki, sem herjað hafði á fáeinum bæjum um nokkurt skeið.
Frumkvæðið kom frá opinberri stofnun sem nefnist Sauðfjárveikivarnir og var stutt af dýralæknum og stjórnvöldum, sem líklega sáu í þessu tækifæri til fækkunar sauðfjár og minnkandi offramleiðslu á lambakjöti. Í staðinn var lofað styrkjum til að bæta bændum upp tekjutapið og auðvelda þeim að endurnýja húsakost og kaupa nýjan bústofn.

Þau skilyrði voru sett að sótthreinsa yrði öll hús og húsarústir, þar sem sauðfé hafði verið hýst tvo síðustu áratugi, ellegar brjóta þau niður og ryðja mold yfir. Sú undanþága var þó gerð að taka mætti húsin úr notkun í álíka langan tíma, og verja þau með fjárheldri girðingu. Þetta skyldi framkvæma á tveimur árum, meðan svæðið væri sauðlaust, en að þeim tíma liðnum máttu bændur kaupa nýjan fjárstofn af svæðum þar sem riðu hafði enn ekki orðið vart, svo sem úr Öræfasveit eða af Vestfjörðum.

Þetta kom sérlega illa niður á þeim bændum sem notað höfðu fjárhús úr torfi og grjóti, en þeir voru margir í Fljótsdal. Hreinsun slíkra húsa var að vísu heimiluð, með því fororði að veggir yrðu klæddir innan með timbri eða steinsteypu, sem var bæði kostnaðarsamt og mikið verk. Er ekki að efa að margir hafa bölvað í kampinn, einkum á bæjum þar sem riðu hafði aldrei orðið vart, en þeir voru í miklum meirihluta.

Flestir sáu þann kost vænstan að ryðja niður torfhúsunum, þó þau væru sum hver ekki gömul og jafnvel nýlega uppgerð, og nota tækifærið sem bauðst til að byggja ný fjárhús úr steinsteypu, er þóttu samsvara betur nútíma búskap. Augljóst var að í Fljótsdal þýddi þetta algera byltingu á sviði húsagerðar, og að ómetanleg menningarverðmæti færu forgörðum. Það vakti furðu, að ekkert var um þetta fjallað á vettvangi minjaverndar, sem ráðuneyti menntamála og Þjóðminjsafnið voru þá í forsvari fyrir.
                                                                                                                                                       
Þegar þessi tíðindi spurðust sumarið 1990, fór höfundur á stúfana, til að reyna að bjarga því sem bjargað varð. Farið var á nær alla bæi í Fljótsdal, byggða sem óbyggða, og skoðuð þar gömul gripahús og tættur, þeim var lýst og teknar af þeim myndir. Fékk ég Halldór Sigurðsson listasmið, stjórnarformann Safnastofnunar Austurlands, til að liðsinna mér við þetta verk, en svo illa vildi til að Guðrún Kristinsdóttir, minjavörður Austurlands, var þetta sumar í leyfi og dvaldi erlendis. Samband var haft við Þjóðminjasafnið (Húsavernd), sem taldi sig ekki geta sinnt þessu verkefni. Um haustið setti ég saman lýsingu á hefðbundnum gripahúsum, tóftum og fleiri minjum í Fljótsdalshreppi, sem ég hafði skoðað eða haft spurnir af, og reyndi að flokka húsin og meta gildi þeirra. (Mannvistarminjar í Fljótsdal. Vélr. handrit, 43 bls., 1990). Þessi lýsing var send oddvita Fljótsdalshrepps, Safnastofnun Austurlands , Þjóðminjasafni o.fl. viðkomandi aðiljum, og afrit voru send heim á bæina, með ósk um athugasemdir.

Næsta sumar (1991) fór Guðrún nokkrar skoðunarferðir með mér um Fljótsdal og aðrar sveitir á Héraði, og við gerðum tillögur um verndun nokkurra gripahúsa og húsaþyrpinga á sjö bæjum í Fljótsdal, og sendum Jóni Péturssyni héraðsdýralækni, sem hafði umsjón með framkvæmd hreinsunar. Einnig ritaði ég greinar um þetta mál (Fjárhúsabylting á Héraði. Austri 25. okt. 1990. Húsbrotið mikla á Héraði. Glettingur 2 (1), 1992). Ef til vill hafði þetta þau áhrif að fáeinir bændur í Fljótsdal ákváðu að sótthreinsa fjárhús á jörðum sínum, skv. ofangreindum reglum, og taka nokkur hús úr notkun og girða þau, ef þau voru ekki þegar afgirt. Þannig björguðust nokkur gömul og merkileg torfhús frá þessum hreinsunareldi. Hin voru þó miklu fleiri sem hurfu af yfirborði jarðar.

Næstu árin hélt ég áfram að skoða mannvistarminjar í Fljótsdal, og leiðrétta og endurbæta minjalýsinguna frá 1990, eftir því sem tækifæri gafst, m.a. í sambandi við skráningu náttúruminja. Árið 1991 var hrint af stað svonefndri Héraðsskógaáætlun, og fékk ég það verkefni að kanna náttúrufar og minjar á jörðum og jarðapörtum sem ákveðið var að taka til skógræktar. Í þeim tilgangi voru flestar jarðir í Fljótsdal skoðaðar á árunum 1991-2005, ritaðar lýsingar á landslagi og minjum, og teiknuð landslags- og verndarkort með örnefnum, eftir loftmyndum, oftast í mælikvarða 1: 5000. Við þessa könnun skoðaði ég og myndaði fjölda minja, sem ég þekkti ekki áður, eða bara úr heimildum. Leitað var upplýsinga á bæjum, m.a. til að leiðrétta og bæta minjalýsinguna frá 1990. Það dróst hins vegar að endurrita hana, þar sem önnur verkefni voru meira aðkallandi.

Helstu heimildir voru örnefnaskrár, sem Metúsalem Kjerúlf bóndi á Hrafnkelsstöðum byrjaði að safna til og rita 1955-60, með viðbótum Eiríks Eiríkssonar í Dagverðargerði 1973, tilreiddar og geymdar hjá Örnefnastofnun, Rvík, svo og bókin Sveitir og jarðir í Múlaþingi (Búkolla) II. bindi, 1975, í ritstjórn Ármanns Halldórssonar, sem er mikill fróðleiksbrunnur (Í tilvísunum skammstöfuð SJM II).

Á árunum 1995-2000 var unnið að svæðisskipulagi Fljótsdalshéraðs, og lögboðinn þáttur í því er "svæðisskráning" mannvistarminja, sem felur í sér skráningu eftir tiltækum heimildum. Fornleifastofnun Íslands tók að sér það verk í Fljótsdal og skilaði skýrslu: Menningarminjar í Fljótsdalshreppi í Norður-Múlasýslu, Rvík 1999, fjölrit, 114 bls. Stofnunin hafði fengið afrit af handriti mínu frá 1990 (Mannvistarminjar í Fljótsdal), og nýtti það sem aðalheimild, óleiðrétt, með öllum sínum vanköntum. Auk þess var skráð það sem finnanlegt var í prentuðum heimildum og í örnefnaskrám. Minjarnar voru númeraðar eftir landskerfi, sem stofnunin hafði komið sér upp. Engin vettvangsskoðun átti sér stað við þessa skráningu í Fljótsdal, og margar missagnir og villur slæddust inn í skýrsluna, vegna skorts á staðþekkingu og ónákvæmni við notkun heimilda. Mikið er um endurtekningar á löngum klausum úr heimildum, sem gerir skrána óaðgengilega og mun lengri en þörf var á.

Árið 2000 tók ég saman ritið: Minjar og saga á Skriðuklaustri. Heimildakönnun og heimildaskrá, 36 bls., sem var fjölritað í nokkrum eintökum. Þar voru sögunni gerð meiri skil en vanalegt er í minjaskrám. Einnig var minjaskrá Valþjófsstaðar aukin og endurrituð 2008.

Um aldamótin var unnið við umhverfismat vegna Kárahnjúkavirkjunar, og einn þáttur þess var að kanna og skrásetja fornminjar sem kynnu að vera í hættu vegna framkvæmdanna. Miðað var við að skoða allar minjar á hálendinu upp af Héraði, og þær sem eru innan 100 m frá vatnsföllum sem áætlað var að breyta. Fornleifastofnun annaðist einnig þetta verk, og skilaði skýrslu til Landsvirkjunar: Fornleifakönnun vegna fyrirhugaðrar virkjunar við Kárahnjúka, apríl 2001, fjölrit, 103 bls. og 2 kort. Þar sem aðalskráning hafði farið fram voru upplýsingar um minjar innan þessara marka teknar beint úr fyrri skýrslum stofnunarinnar, en þar sem aðeins lá fyrir svæðisskráning, eins og í Fljótsdal, var gengið á flestar minjarnar og þeim nánar lýst. Til nýjunga má telja, að nú voru allar skráðar minjar staðsettar með alþjóðlegu hnitakerfi, og fylgja hnitin lýsingu þeirra í skránni, ásamt númerum sem fyrr voru innleidd. (Fljótsdalsminjar eru á bls. 61-89 í skránni).

Aðalskipulag Fljótsdalshrepps fyrir árin 2002-2014 var staðfest 2003, sbr. Greinargerð Landmótunar 12. maí 2003, en þar er lítið fjallað um minjar. Árið 2005 var framkvæmd ýtarleg könnun og lýsing minja á Valþjófsstað, sem fyrrnefnd Fornleifastofnun annaðist, en frumkvæði hafði Guðrún Jónsdóttir arkitekt, sem um nokkurra ára skeið hafði unnið að skipulagsáætlun á jörðinni fyrir Prestssetrasjóð. Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Magnús Á. Sigurgeirsson unnu þessa könnun, og skiluðu skýrslu um hana: Fornleifaskráning á Valþjófsstað í Fljótsdal, Fornleifastofnun, Rvík, 2005, fjölrit, 70 bls. Þau könnuðu einnig minjar á afréttum Valþjófsstaðakirkju og tóku þær með í skýrsluna. Þetta er vel unnin skýrsla, með teikningum og litljósmyndum af fjölmörgum minjastöðum. Árið 2005 safnaði Þóra Pétursdóttir heimildum um minjar sem hverfa, vegna virkjunarframkvæmda, og ritaði grein um þær í Múlaþing 32, 2005. Þær eru allar á hálendinu, aðallega gangnakofar. Þá er þess að geta, að árið 2010 fór fram fornleifaskráning vegna deiliskipulags fyrir sumarhúsabyggð á Víðivöllum ytri og við Laugafell á Fellnaafrétt. Nokkur uppgröftur fór fram á síðarnefnda staðnum, og skýrslur voru gerðar um báða staðina.

Árið 2001 hófst mjög viðamikil rannsókn og uppgröftur á klausturrústum á Skriðuklaustri, sem lauk 2011, og Steinunn Kristjánsdóttir, fv. forstöðukona Minjasafns Austurlands stýrði og stóð fyrir. Hafa hún og aðrir ritað margar skýrslur og greinar um þessa rannsókn, og sumarið 2012 kom út bókin Sagan af klaustrinu á Skriðu, eftir Steinunni, þar sem ýtarlega er fjallað um niðurstöður rannsóknanna og getið forngripa frá Klaustri.

Veturinn 2011-2012 endursamdi ég minjaskrána frá 1990 og bætti við hana þeirri vitneskju sem ég hef aflað, eða fram hefur komið í umgetnum skýrslum, á þeim 22 árum sem liðin eru síðan hún var rituð, og kannaði líka nokkuð eldri heimildir. Við þessa endurskoðun hefur skráin meira en þrefaldast að stærð. Lýsingar gömlu gripahúsanna voru teknar mikið til óbreyttar upp úr skránni frá 1990, en bætt við upplýsingum um afdrif húsanna eða núverandi ástand. Umsagnir um verndargildi voru líka látnar halda sér.
Snemma vors voru skrár viðkomandi jarða sendar ábúendum til leiðréttinga, og bárust nokkrar athugasemdir, munnlegar og skriflegar. Tvö undanfarin sumur hef ég farið á nokkra bæi, með Ólöfu Stefaníu Arngrímsdóttur, sem ljósmyndaði flest gömlu gripahúsin sem enn standa, með tölvumyndavél, og ýmsar fleiri minjar. Kópíur þeirra mynda voru sendar Þjóðminjasafni. Einnig las hún þessa ritgerð og leiðrétti.
Að lokum vil ég þakka þeim fjölmörgu Fljótsdælingum sem veittu mér upplýsingar um mannvistarminjar í sveitinni. Án þeirra aðstoðar hefði skráin orðið vanburðug.
Eg. í okt. 2013, Helgi Hallgrímsson

Þróun gripahúsanna í Fljótsdal


Gripahúsin, og þá sérstaklega fjárhúsin í Fljótsdal, hafa undirgengist merkilega þróun og aðlögun að byggingarefnum og aðstæðum nútímans. Ætla má að þessi breyting hafi byrjað á árunum 1930-40, þegar farið var að setja bárujárnsþök á hlöður. Þá var bárujárn enn svo dýrt að ekki virtist koma til greina að nota það á fjárhúsin sjálf. Eftir heimsstyrjöldina síðari fengu margir bændur ódýrt járn úr herskálum, og settu það undir eða ofan á torfþörkin, eða í stað þeirra. Þetta járn var yfirleitt ekki ryðvarið og ryðgaði því fljótlega niður.

Um 1950 var farið að setja bárujárnsþök á fjárhúsin, en þá voru járnþök komin á flestar hlöður. Oft var torflag sett ofan á járnið til að einangra þökin. Járnið mun oftast hafa verið fest á langbönd, sem hvíldu á röftum, er lágu frá veggjum upp á mæniása, eins og venjan var með gömlu torfþökin, og þegar búið var að setja torf ofan á járnið, hafði húsið mjög svipað útlit og áður. Járnið kom þá í stað tróðs af birkiviði, spýtum eða hellum, sem áður var undir torfinu. Á sama tíma voru húsin víða stækkuð, því að fjárfjölgun var mikil, oftast þannig að bætt var við húsum til hliðar við þau gömlu, og þá oft settar stoðir í stað milliveggja. Þannig urðu sumsstaðar til fjárhúsaþorp.

Á árunum 1960-70 kemur fram ný gerð fjárhúsa í Fljótsdal, sem ég hef kallað "nýhús". Þau eru úr blönduðu efni, þ.e. torfi, grjóti, timbri og járni. Umgjörðin er oftast gamli torfgrjótveggurinn, sem lykur um húsið á þrjá vegu, þá gjarnan endurhlaðinn og hækkaður nokkuð. Annar stafninn, þ.e. sá sem fram vísar (undan brekku eða að bæ), er jafnan úr timbri eða járni á timburgrind. Á þessum húsum er járnþak, sem hvílir á sperrum, líkt og á íbúðarhúsum, en endar þeirra hvíla á lausholtum, er liggja innst á veggjum. Þökin eru oftst rismeiri en á gömlu húsunum. Að baki þeim er vanalega hlaða úr bárujárni á trégrind, með járnþaki á sperrum, en grjótveggir oftast neðantil. Oft var sett þunnt torflag ofan á þökin til einangurnar, og sumsstaðar torf undir járnið, fest á vírnet, en hvorttveggja entist illa.

Járnþök á torfveggjum skapa ýmis vandamál, sem menn urðu að leysa, til að húsin entust vel. Mikilvægast er að hindra vatnsrennsli af þakinu ofan í vegginn. Best er að láta járnið ná út á ytri veggbrún, en til þess þurfti lengri plötur og það þýddi meiri kostnað, einnig í sperruefni og langböndum. Því var oft gripið til þess ráðs að framlengja þakið, með plötum úr sléttu járni, sem lagðar voru ofan á veggina, en sumir létu nægja að þekja þá með grastorfi. Takist verja veggina fyrir vatni, geta þeir staðir svo áratugum skiptir án teljandi viðhalds.

Um 1990 voru sum nýhúsin komin með einangrun úr frauðplasti innan á þakinu, krossviðarþiljur á stafni og glugga úr báruplasti, jafnvel rennihurðir og gólfgrindur úr járni eða tré. Stafnar og þök voru þá gjarnan máluð. Þessa húsagerð má kenna við Jónas Einarsson smið, sem byggði slík hús í Víðivallagerði, en þau voru eyðilögð, illu heilli. Á sumum bæjum eru þá komin fjárhús, sem eru alveg úr bárujárni á trégrind, veggir þá oft þiljaðir innan, og með plasteinangrun. Vatn og rafmagn er komið í flest gripahús sem eru nálægt bæjum. Athyglisvert er að þróun fjárhúsanna átti sér aðallega stað í Norðurdal og Suðurdal Fljótsdals. Fjós og hesthús hafa undirgengist svipaða breytingu, þótt hún sé ekki eins augljós.

Þróun gripahúsanna á seinni hluta 20. aldar er sambærileg við breytingar á bæjarhúsum snemma á öldinni, þegar frammihús (þverhús) spruttu upp úr torfbæjum, með timburþili að framan (hlaðsmegin) en torfveggir að baki, stundum torfþak fyrst, er síðan var skipt fyrir járnþak. Þessi bæjarhús eru flest horfin.
Hvað sem öðru líður, hefur í Fljótsdal verið gerð alvarleg tilraun til að samræma forna og nýja byggingarhætti og byggingarlag. Slík samræming er næsta óvenjuleg hér á landi. Hjá öðrum menningarþjóðum er hún talin sjálfsögð og einn af hornsteinum viðkomandi þjóðmenningar. 

Vallholt

Hrafnkelsstaðir

Víðivellir ytri

Klúka

Víðivellir fremri

 Víðivallagerði 

Sturluflöt/Suðurfell(Suðurfellsafrétt)

Þorgerðarstaðir/Þorgerðarstaðadalur

 Arnaldsstaðir

Lánghús 

Glúmsstaðir I - II og Glúmsstaðasel

Múlaafrétt/Undir Fellum/Vesturöræfi

 Kleif

Egilsstaðir

Þuríðarstaðir

Hóll

Valþjófsstaður

Skriðuklaustur

Minjar í Rana

Hamborg

Bessastaðir

Eyrarland,Litla Grund og Bessastaðagerði

Melar

Hjarðarból og Brekka

Brekkugerði og Brekkugerðishús

 Geitagerði

Arnheiðarstaðir og Droplaugarstaðir

 

Mannvistarlandslag

„Meðal þess sem einkennir torfhús og gerir þau frábrugðin öðrum húsum er að þau falla vel að landslaginu sem umlykur þau, enda gerð úr efnum þess. Oft renna torfhúsin saman við landslagið og verða hluti þess. Algengustu hús nú á dögum eru hins vegar sjaldan hluti af landslaginu í sama skilningi... ”

Þannig kemst Hjörleifur Stefánsson arkitekt að orði í upphafi kafla um „Torfhús í landslagi” í nýlega útkominni bók sinni: Af jörðu. Íslensk torfhús. (Rvík. 2013).

Um heim allan er nú komin upp öflug hreyfing til verndar hefðbundnum byggðum og tilheyrandi landslagi og náttúrufari, sem á tungumálum grannþjóða kallast kulturlandskap, culture landscape, á íslensku búsetu-, menningar- eða mannvistarlandslag.

Hér er um að ræða landslag, með þeim breytingum sem á því hafa orðið við alda- eða árþúsundalanga mannabyggð, bústang og ræktun, þar með taldar byggingar og önnur mannvirki í hefðbundnu formi. Gengið er út frá því að sú landnýting og tilheyrandi mannvirkjagerð, sem viðgengist hefur um langan aldur, hljóti að vera í bestu samræmi við landið og náttúruna á hverjum stað eða svæði, og sé í raun orðin hluti hennar.

Nú á tímum hraðfara breytinga og upplausnar, þegar mannlífið hefur víðast hvar verið slitið úr tengslum við umhverfi sitt, hefur það ekki lítið gildi að viðhalda slíku landslagi, m.a. til að læra af því hvernig við eigum að umgangast náttúruna og nýta gæði hennar án þess að spilla þeim. Þaraðauki finnst flestum mannvistarlandslagið fagurt, og skynja það samræmi sem þar getur að líta.

Varla er hægt að hugsa sér mannvist í meira samræmi við landið, en hefðbundinn íslenskan bóndabæ í grænu túni, skreyttu fíflum og sóleyjum; þar sem gripahús úr torfi og grjóti eru dreifð um túnið, veggir með listrænu handbragði, rauðlitaðir af skóf og grasi grónir ofantil, sem og torfþekjur, gamall torfgarður umhverfis túnið o.s.frv.

Þannig var þessu háttað á nokkrum bæjum í Fljótsdal áður en ósköp „riðuhreinsunar” gengu yfir 1990, og enn má sjá dæmi þess, t.d. í Vallholti (Hrólfsgerði), Klúku og á Lánghúsum. Á síðastnefnda bænum eru torfhúsin enn í notkun og hefur verið haldið við (Sbr. lýsingu og myndir í bók Hjörleifs , bls. 212-213). Þegar hætt er að nota húsin og endurbæta þau ganga þau fljótt úr sér. Sérstaklega á það við torfþörkin sem enn eru í upprunalegu formi.

Þrátt fyrir allt býr Fljótsdalur ennþá yfir merkilegri auðlegð hefðbundinna gripahúsa, sem hafa þróast þar á sérstakan hátt og lagað sig að kröfum nútímans, en samræmast þó vel fegurðartilfinningu manna og falla ágætlega að landslaginu.

Í búsetulandslagi er það heildarmyndin sem mestu máli skiptir. Sjálfsagt finnst mörgum óraunhæft að viðhalda byggð og búsetu í þessu horfi, en benda má á að það hefur hagrænt gildi varðandi menningartengda ferðaþjónustu, sem nú er á mikilli uppleið í sveitum. Í því efni hefur Fljótsdalur mikla möguleika sem enn hafa ekki verið nýttir.

Björn Jónsson: Búsetulandslag. Skógræktarritið 1999, nr. 2, bls. 26-35. [Sýnt með dæmum og myndum úr Landbroti, V.Skaft.]
Páll Imsland: Arkitektúrisk arfleifð Íslendinga og náttúruvár. Arkitektúr, verktækni og skipulag, 15. (3), 1994.

 

 Heimildaskrá

Prentað mál
Agnar Hallgrímsson, 1992: Hans Wíum sýslumaður og afskipti hans af Sunnevumálum... Múlaþing 19: 44-136.
Agnar Hallgrímsson, 1999: Parthús. Múlaþing 26: 27-30.
Ágúst Ó. Georgsson,1993: Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar. Rvík.
Ágúst Sigurðsson, 1977: Valþjófsstaður í Fljótsdal – gripið niður í kirkjusögu fram til 1789. Múlaþing 9: 26-62.
Ágúst Sigurðsson, 1979: Valþjófsstaður í Fljótsdal. Forn frægðarsetur, II. bindi. Rvík.
Ármann Halldórsson (ritstjóri), 1975: Sveitir og jarðir i Múlaþingi, II. bindi. (SJM II).
Ármann Halldórsson, 1981: Siglingar á Lagarfljóti og fleira um verslun og samgöngur á Héraði. – Múlaþing 11: 133-177.
Árni Magnússon, 1923: Um klaustrin. Blanda II, 1921-1923: 34.
Barði Guðmundsson, 1939: Myndskerinn mikli á Valþjófsstað. Alþýðublaðið. (Endurprentað í bókinni Höfundur Njálu, Safn ritgerða, Rvík 1958: 19 -28).
Bjarni Guðjónsson, 1994: Það líf er sumir sjá. Múlaþing 21: 194-195.
Björn M. Ólsen, 1885: Valþjófsstaðahurðin. Árbók Hins Ísl. fornleifafél. 1884-85: 24-37.
Bragi Björgvinsson, 1995: Rölt um sér til hugarhægðar. B.B. lýsir staðháttum í Þorgerðarstaðadal. Austurland, 45. árg., jólablað 1995.
Bruun, Daniel, 1974: Við norðurbrún Vatnajökuls.(Rannsóknir á Austurlandi sumarið 1901). Múlaþing 7: 159-195.
Bruun, Daniel, 1987: Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár. (Fortidsminder og Nutidshjem paa Island. Kh. 1928). Steindór Steindórsson þýddi. Rvík 1987. I-II. bindi.
Droplaugarsona saga. Austfirðinga sögur, útg. Jón Jóhannesson. Íslensk fornrit XI, Rvík 1950.
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson (1772), 1975: Ferðabók, I.-II. bindi. Rvík.
Einar Helgason, 1922: Garðyrkja á Austfjörðum. Ársrit hins ísl. garðyrkjufélags 1922: 11-23.
Einar E. Sæmundsen (ritstjóri): Fljótsdalshreppur - Aðalskipulag 2002-2014. Greinargerð 12. maí 2003. Tillaga til auglýsingar. Landmótun, Rvík. 83 bls. og 2 kort.
Elsa E. Guðjónsson, 1992: Fágæti úr fylgsnum jarðar. Skírnir 166 (vorhefti), bls. 27.
Erlingur Sveinsson, 1987: Afréttir Fljótsdalshrepps, Göngur og réttir, 2. útg. V. bindi. Akureyri.
Fljótsdæla saga. Austfirðinga sögur, útg. Jón Jóhannesson. Íslensk fornrit XI, Rvík 1950.
Franzisca Gunnarsdóttir, 1986: Vandratað í veröldinni. Rvík.
Gestur Guðmundsson, 1977: Samantekt um steintök eða aflraunasteina á Íslandi. Farfuglinn 21 (2): 4-13 og 16.
Gríma hin nýja (Ritsafn), 1978, III. og V. bindi, Rvík.
Guðborg Jónsdóttir, 2001: Skeggmannskannan á Skriðuklaustri – verndargripur frá miðöldum. Glettingur 11 (1): 15-18.
Guðrún Sveinbjarnardóttir, 1996: Leirker á Íslandi. Rit h. ísl. fornleifafél. og Þjóðminjasafns Ísl. nr. 3.
Gunnar Gunnarsson, 1944: Fljótsdalshérað. Árbók Ferðafélags Íslands 1944.
Guttormur Vigfússon (G), 1909: Sigfús á Klaustri. Minningargrein. Óðinn 5 (7): 53-54.
Guttormur Vigfússon (G.V.), 1919: Halldór Benediktsson og Arnbjörg Sigfúsdóttir á Skriðuklaustri. Óðinn 15 (5): 33-36.
Hald, Margrethe, 1950: Vötturinn frá Arnheiðarstöðum. Árb. hins ísl. fornleifafél. 1949-50: 73-77.
Halldór Stefánsson, 1929. Minning um Sölva og Sigríði á Arnheiðarstöðum. Óðinn 25 (1-8): 20-22.
Halldór Stefánsson, 1949: Útlagarnir í Þjófadölum. Eimreiðin 55. árg.
Halldór Stefánsson, 1970: Fornbýli og eyðibýli í Múlasýslum. Múlaþing 5, 1970: 172-187. [Oft tilvitnað sem “Eyðibýlaskrá H. Stef.]
Halldór Stefánsson, 1971: Ævislóð og mannaminni. Ævisaga. Rvík. 216 bls.
Halldór Stefánsson, 1979: Draumur Sölva á Arnheiðarastöðum. Gráskinna hin meiri, II: 97-98.
Heimir Steinsson, 1967: Orsakir klausturstofnunar að Skriðu í Fljótsdal. Orðið 3 (1-2): 46-50. (3. kafli prófritgerðar hans, sjá Handritaskrá).
Helgi Hallgrímsson, 1987: Grímshellir og Grímsbás. Múlaþing 15: 117-131.
Helgi Hallgrímsson, 1988: Klaustur-María og kraftaverkin tvö. Austri 33, jólablað: 20-22.
Helgi Hallgrímsson, 1989: Gunnar skáld og Skriðuklaustur. Bæklingur Alm. Bókafél., 18 bls.
Helgi Hallgrímsson, 1989: Úr sögu Ranaskógar í Fljótsdal. Ársrit Skógræktarf. Ísl.:19-32.
Helgi Hallgrímsson, 1989: Þrír steinar á Skriðuklaustri. Austri 34. árg., 2. febr.
Helgi Hallgrímsson, 1989: Strútsfoss í Fljótsdal. Útivist, 15: 63-73.
Helgi Hallgrímsson, 1989: "Í dag hafa menn riðið hjá." Austri 34, 25. maí.
Helgi Hallgrímsson, 1990: Fjárhúsabylting á Héraði. Austri, 25. okt.
Helgi Hallgrímsson,1991: Fáein orð um húsatættur. Austri 36, 23. maí.
Helgi Hallgrímsson, 1991: Fornhaugar, féstaðir og kuml í Fljótsdal. Múlaþing 18: 29-54.
Helgi Hallgrímsson, 1991: Halldór Guttormsson og smíðisgripir hans. Gálgás, jólablað.
Helgi Hallgrímsson, 1992: Húsbrotið mikla á Héraði. Glettingur 2 (1): 36-38.
Helgi Hallgrímsson, 1996: Selið á Ingiríði og "Ingiríðarbragur". Austri, jólablað.
Helgi Hallgrímsson, 1997: Vísað til vegar um Norðurdal Fljótsdals. Austri 42, 16. jan., 23. jan, 30. jan., 6. febr., 13. febr. og 20. febr.
Helgi Hallgrímsson: 1998: Klúkustóllinn. Glettingur 8 (1): 42.
Helgi Hallgrímsson, 1998: Samantekt um gangnakofa á Fljótsdalsafréttum. Fyrri hluti.- Múlaþing 25, 1998: 72-89. Síðari hluti. Múlaþing 26, 1999: 47-69.
Helgi Hallgrímsson, 1999: Höfuðbólin þrjú í Fljótsdal. I. Landnámsbærinn Bessastaðir. Lesbók Morgunbl. 74 (43), 6. nóv. II. Skriðuklaustur. Sama rit, 18. des. III. Valþjófsstaður. Sama rit, 22. jan. 2000.
Helgi Hallgrímsson, 2003: Tröllkonustígur og Skessugarður. Múlaþing 30: 32-41.
Helgi Hallgrímsson, 2004: Af völum og leggjum. Glettingur 14 (1): 41-46.
Helgi Hallgrímsson, 2004: Skriðuföll í Fljótsdal. Múlaþing 31: 42-54.
Helgi Hallgrímsson, 2005: Lagarfljót - Mesta vatnsfall landsins. Rvík, 414 bls.
Helgi Hallgrímsson, 2006: Stafkirkja og rauðviðarskáli á Valþjófsstað. Múlaþing 33: 122-141.
Helgi Hallgrímsson, 2011: Ádrepa um vörður og vörðuhleðslu á Héraði. Glettingur, 21 (3): 28-35.
Helgi Valtýsson, 1945: Á hreindýraslóðum. Akureyri. 228 bls.
Hjörleifur Guttormsson, 1987: Norð-Austurland – hálendi og eyðibyggðir. Árbók Ferðafél. Ísl.
Hjörleifur Guttormsson og Sigurður Blöndal (ritstjórar), 2005: Hallormsstaður í Skógum. Rvík. 350 s.
Hjörleifur Ólafsson, 1980: Hrakningasaga af Austurlandi. Vegamál: 10-12.
Hrafnkell A. Jónsson, 2005: Kalt er við kórbak. Á sprekamó, afmælisrit H. Hall.: 161-169.
Hrafnkels saga Freysgoða. Austfirðinga sögur, útg. Jón Jóhannesson. Íslensk fornrit XI, Rvík 1950.
Hörður Ágústsson, 1977: Fjórar fornar húsamyndir. Árb. Fornleifafél.: 135-136.
Hörður Ágústsson, 2000: Íslensk byggingararfleifð, I. bindi. Rvík.
Íslenzkt fornbréfasafn (Diplomatium islandicum). I.-XII. bindi.
Jarðabók Johnsens, 1847. Rvík.
Jón Árnason, 1961: Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, I.-VI. bindi (1954-1961).
Jón Helgason, 1970: Syndir feðranna. I. bindi.
Jón Yngvi Jóhannsson, 2011: Landnám – Ævisaga Gunnars Gunnarssonar. Rvík.
Jón Jónsson, 1886: Fundinn forn fjallvegur. Austri, 3. árg.
Jón Jónsson, 1897: Kjallaragröfin á Skriðu í Fljótsdal. Árb. hins ísl. fornleifafél. 1897: 22-24.
Jón Pálsson / Baldvin Benediktsson, 2002: Búskapur í Fljótsdal á 19. öld. Baldvin Benediktsson frá Þorgerðarstöðum skráði eftir Jóni Pálssyni í Víðivallagerði. Múlaþing 29: 23-35.
Kaalund, Christian, 1882 /1986: Bidrag til en historist-topografisk Beskrivelse af Island. (2. útg: Íslenskir sögustaðir, IV. bindi. Rvík).
Kristján Eldjárn, 1956: Kuml og haugfé. Rvík.
Kristján Eldjárn, 1973: Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvík. [Grein um Valþjófsstaðahurðina]
Landið þitt , 1980-85, 2. útgáfa, I.-VI. bindi, Rvík.
Lýður Björnsson, 1972: Saga sveitastjórna á Íslandi. I. bindi.
Magnús Már Lárusson, 1967: Maríukirkja og Valþjófsstaðahurð. Fróðleiksþættir og sögubrot, Rvík. (Áður birt í tímaritinu Sögu, 2. árg. 1954)
Margrét Sigfúsdóttir? (Kona), 1925: Blómadrottningin. Í blaðinu “19 júní”, 8 (11).
Margrét Sigfúsdóttir, 1952: Gerðissystkin (kvæði). Hlín 34. árg.
Metúsalem J. Kjerúlf, 1961 : Æskuminningar. Heima er bezt 11 (7): 236.
Metúsalem J. Kjerúlf, 1968: Straumferja. Múlaþing 3: 98-105.
Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar, Rvík 2000. 640 bls.
Ólafur Davíðsson, 1978: Þjóðsögur. 3. útg., I. bindi.
Ólafur Jónsson, 1957: Skriðuföll og snjóflóð, I. bindi, Akureyri.
Ólafur Olavius, (1780 /1964-65): Ferðabók, I.-II. bindi. Rvík.
Páll Guttormsson (P.G.), 1954: Fagur reitur. Tíminn.
Páll Pálsson, 2003: Er Reykjasel Hrafnkelssögu fundið? Múlaþing 30: 84-85.
Pálmi Pálsson, 1895: Tveir hanzkar. Árbók Hins ísl. fornleifafél. 1895: 34-35.
Pétur Ármannsson og Silja Traustadóttir, 2010: Hús skáldsins á Skriðuklaustri og höfundur þess. Tímarit Máls og menningar, 3 hefti: 25-39.
Pétur Jónsson, 2000: Valþjófsstaðasókn 1873. Múlaþing, Sýslu- og sóknalýsingar: 157-169.
Pétur Sveinsson, 1992: Dálítið úr ættartölu og þáttur af einum Austfirðingi. Múlaþing 19: 193-214.
Ragnar Ásgeirsson, 1941: Austur á Hérað. Vísir-Sunnudagsblað, nr. 45, 9. nóv.
Rögnvaldur Erlingsson, 1985: Andstæður. Austri, júní.
Rögnvaldur Erlingsson, 1989: Beinin við Bessu. Austri, jólablað.
Rögnvaldur Erlingsson, 1992: Randalín Filipusdóttir. Glettingur 2 (1): 40-44.
Sigfús Sigfússon, 1982-1993: Íslenskar þjóðsögur og sagnir. 2. útg., I-XI. bindi, Rvík.
Sigurður Einarsson, 1951: Halldór Benediktsson í Skriðuklaustri. Íslenzkir bændahöfðingjar, Akureyri: 387-399.
Sigurður Gunnarsson, 1886: Örnefni frá Jökulsá í Axarfirði austan að Skeiðará. Safn til sögu Íslands og ísl. bókmennta, II. bindi: 429-497.
Sigurður Kristinsson, 1998: Nítjándu aldar byggð í Rana. Múlaþing 25: 141-152.
Sigurður Nordal: Hrafnkatla. Studia islandica VII. Rvík.
Sigurður Vigfússon, 1893: Rannsókn í Austfirðingafjórðungi 1890. Árbók Hins ísl. fornleifafél.: 28-60.
Skúli Björn Gunnarsson, 2003: Kakalofninn á Klaustri. Glettingur 13 (3): 27-31.
Skúli Björn Gunnarsson, 2002: Af Hlandkollum, kílum o. fl. örnefnum. Glettingur 12 (3): 34.
Skriðuklaustur, evrópskt miðaldaklaustur í Fljótsdal. Greinasafn. Fræðslurit Gunnarsstofnunar I, Skriðukl. , 2008, 155 bls. (Margar greinar um þetta efni, eftir ýmsa höfunda)
Stefán Árnason, 2000: Valþjófsstaðasókn 1840-1841. Múlaþing, Sýslu- og sóknalýsingar: 129-154.
Stefán Einarsson, 1997: Goðaborgir á Austurlandi. Glettingur 7 (1): 19-27.
Stefán Ólafsson, 1885: Kvæði, 1. bindi. Khöfn.
Steinunn Kristjánsdóttir, 2012: Sagan af klaustrinu á Skriðu. Rvík. 375 bls. (Auk þess fjöldi greina eftir hana og fleiri, um uppgröftinn á Klaustri, sem vísað er til í bókinni)
Sveinbjörn Rafnsson, 1990: Byggðaleifar í Hrafnkelsdal og á Brúaröræfum. Rit Hins íslenska fornleifafélags I. Rvík, 112 bls.
Sveinbjörn Rafnsson (ritstj.), 1983: Frásögur um fornaldarleifar, I.-II. bindi. Rvík. 740 bls.
Sveinn Níelsson, 1949: Prestatal og prófasta, I. hefti. Rvík.
Sveinn Pálsson, 1945: Ferðabók. Rvík.
Vigfús I. Ingvarsson, 2011: Kirkjur og kirkjugöngur í Múlaprófastsdæmi. Bæklingur. Eg.
Vigfús Ormsson (1821), 1983: Greinileg frásaga um merkilegar fornaldarleifar í Valþjófsstaðasókn... Í Sveinbjörn Rafnsson: Frásögur um fornaldarleifar I: 34-39.
Þorsteinn Bergsson (ritstjóri), 1995: Búkolla, V. bindi Sveita og jarða í Múlaþingi. Búnaðarsamband Austurlands. 704 bls.
Þorsteinn Sigurðsson, 1920: Relation og kort Underretning um Skriðuklaustur, 1741. Blanda I, 1918-20: 238-240.
Þorvaldur Thoroddsen, 1959: Ferðabók, III. bindi.
Þóra Pétursdóttir, 2005: Minjar sem hverfa. Múlaþing 32: 47-66.
Þórarinn Þórarinsson, 1981: Á Lagarfljóti [bátsferðir]. Í grein Ármanns Halldórssonar: Siglingar á Lagarfljóti... Múlaþing 11: 165-170.
Þórhallur Vilmundarson, 1976: Af sturlum og stöðlum. Minjar og menntir, Afmælisrit Kristjáns Eldjárns, Rvík, bls. 533-.

Fjölrit / skýrslur
Adolf Friðriksson (ritstjóri), 2001: Fornleifakönnun vegna fyrirhugaðrar virkjunar við Kárahnjúka. Fornleifastofnun, Rvík, apríl. 103 bls. og 2 kort. [Tilvitnað sem Fornleifaskýrsla 2001].
Dagný Arnarsdóttir, 2007: Heildstæð auðlindanýting - Fljótsdalur á Héraði. Hásk. Ísl. / Stjórnun náttúruauðlinda. 30 bls., ljósrit. (Líklega prófritgerð).
Einar Þórarinsson, 1997: Hraunavirkjun. Orkustofnun. Skýsla.
Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Magnús Á. Sigurgeirsson, 2005: Fornleifaskráning á Valþjófsstað í Fljótsdal. Fornleifastofnun Íslands, Rvík. 70 bls. [Tilvitnað sem Fornleifaskýrsla 2005].
Fljótsdalshreppur – Aðalskipulag 2002-2014. Greinargerð, 12. maí 2003. Landmótun. 84 bls. + 2 kort.
Garðar Guðmundsson og Gavin Lucas, 2005: Rannsókn á fornleifum sem fara undir Hálslón við Kárahnjúka. Fornleifast. Ísl., fjölrit nr. FS296-00065, Rvík.
Gavin Lucas (ritstjóri), 2007: Fornleifauppgröftur á Pálstóftum við Kárahnjúka 2005. Fornleifastofnun / Landsvirkjun, febr. 2007. 40 bls. + Skýrslur sérfræðinga, um 100 bls.
Helgi Hallgrímsson, 2000: Minjar og saga á Skriðuklaustri. Heimildakönnun og heimildaskrá. 36 bls.
Jón Benjamínsson, 1986: Fljótsdæla hin nýja – meraættir. Fjölrit, okt.
Jón Benjamínsson, 2009: Jarðhitaleit í Fljótsdalshreppi 1. Yfirborðsjarðhiti. Fljótsdalshr., nóv. 128 bls.
Jón Benjamínsson, 2010: Jarðhitaleit í Fljótsdalshreppi 2. Borholugögn. Fljótsdalshr. febr. 114 bls.
Orri Vésteinsson og Sædís Gunnarsdóttir, 1999: Menningarminjar í Fljótsdalshreppi í Norður-Múlasýslu. Svæðisskráning. Fornleifastofnun, Rvík, 114 bls.
Orri Vésteinsson og Sædís Gunnarsdóttir, 1999: Menningarminjar í Jökuldals- og Hlíðarhreppi í Norður-Múlasýslu. Svæðisskráning. Fornleifastofnun, Rvík.
Philip Vogler (ritstjóri): Fornir fjallvegir á Austurlandi. Eg. 100 bls. og 11 kort.
Ragna Fanney Jóhannsdóttir, 2008: Fornleifauppgröfturinn á Skriðuklaustri og menningartengd ferðaþjónusta. Hásk. Ísl. / Raunvísindadeild/ Land- og ferðamálafræðiskor.BS-ritgerð. Maí, 35 bls.
Steinunn Kristjánsdóttir, Una Helga Jónsdóttir og Ásta Hermannsdóttir, 2010: Fornleifaskráning vegna deiliskipulags við Laugafell á Fellnaafrétti í Fljótsdalshreppi. Skriðuklaustur. 24 bls.
Steinunn Kristjánsdóttir (umsjónarm.), Ásta Hermannsdóttir og Una Helga Jónsdóttir, 2010: Fornleifaskráning vegna deiliskipulags fyrir sumarbústaðabyggð í landi Víðivalla ytri í Fljótsdalshreppi. Skriðuklaustursrannsóknir, Rvík.

Handrit
Benedikt Friðriksson, Hóli: Teikningar af bæjum í Fljótsdal. Héraðsskjalasafn, Eg.
Brynjólfur Sveinsson (biskup í Skálholti): Bréfabók. Lbs. 1082, 4to.
Gísli Oddsson (biskup á 17. öld): Bréfabók. Þjóðskjalasafn, Rvík.
Gunnlaugur Haraldsson (um 1975?): Þjóðminjaskrá Fljótsdalshrepps. Vélr. handr., 13 bls.
Gunnlaugur Haraldsson (um 1975): Spjaldskrá í Héraðsskjalsafni, Egilsstöðum.
Heimir Steinsson, 1965: Saga munklífis að Skriðu í Fljótsdal. Sérefnisritgerð til embættisprófs við Guðfræðideild Hásk. Ísl., unnin sumarið 1965. Vélr. handrit, um 150 bls.
Helgi Hallgrímsson, 1990: Mannvistarminjar í Fljótsdal. Vélr. handrit, 43 bls. [Frumdrög þessarar skýrslu og var allt tekið inn í hana.].
Helgi Hallgrímsson, 1993: Huldufólk á Héraði. Tölvusett handrit, 94 bls.
Helgi Hallgrímsson, 1995: Vísað til vegar í Fljótsdal. Tölvusett handrit, um 30 bls.
Helgi Hallgrímsson: Örnefnaskrár Droplaugarstaða, Skriðuklausturs, Vallholts, Fellnaafréttar og Vesturöræfa (endurritun). Tölvusett handrit.
Helgi Hallgrímsson (um 2000): Kiðjafellsþing (Fljótsdal). Tölvusett handrit, 6 bls.
Helgi Hallgrímsson: Ferðalýsingar úr Fljótsdal, 1987-2012. Vélr. og tölvusett handrit hjá höf.
Helgi Hallgrímsson, 1991-2005: Skógræktarlýsingar Vallholts-Hrafnkelsstaða, Víðivallagerðis, Sturluflatar, Þorgerðarstaða, Arnaldsstaða, Glúmsstaða I., Þuríðarstaða, Hóls, Valþjófsstaðar, Bessastaða-Eyrarlands, Mela, Brekkugerðis, Húsa, Geitagerðis, Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða. (Vélr. og tölvus. handrit með kortum, hjá höf. og Héraðsskógum)
Helgi Hallgrímsson, 2012: Skrúðgarðar í Fljótsdal. Tölvusett handrit, 20 bls.
Hreppsstjórabók Fljótsdalshrepps, löggilt 17. jan. 1946. Héraðsskjalasafn, Eg.
Jón Frímannsson, Akranesi, 2012: Bréf og fleira.
Ragnheiður H. Þórarinsdóttir (1984): Friðlýstar minjar í Austfirðingafjórðungi. Vélr. handr., 9 bls.
Rögnvaldur Erlingsson, (1992-): Á heimaslóð. Skáldsaga frá Víðivöllum. Vélr. handr. Héraðsskjalsafn.
Páll Pálsson, Aðalbóli, 1991: Bréf.
Sigmar Ingason, Valþjófsstað, 2013: Bréf.
Sigurður S. Þormar, Reykjavík, 2000: Bréf.
Skýrsla um lögferjustaði á Skriðuklaustri og Hrafnkelsstöðum, dags. 20.9. 1884 á Ormarsstöðum. Handrit í Héraðsskjalasafni, Eg.
Vigfús Sigurðsson (frá Egilsstöðum), um 1910: Teikningar af bæjum í Fljótsdal. Héraðsskjalasafn, Eg.
Þórður Tómasson og Gunnlaugur Haraldsson, 1975: Ferðabók. Handrit í Héraðsskjalasafni, Eg.
Örnefnaskrár jarða í Fljótsdal, flestar upphaflega ritaðar af Metúsalem J. Kjerúlf, og öðrum ábúendum, vélritaðar á Örnefnastofnun. Síðar bætti Ari Gíslason við nokkrum skrám. Árið 1973 fór Eiríkur Eiríksson á flesta bæi og ritaði athugasemdir og viðbætur . Örnefnaskrár Vallholts, Skriðuklausturs, Droplaugarstaða, Snæfellsöræfa og Rana voru endurritaðar af H. Hall. á árunum 1990-2012.

Munnlegar heimildir
Aðalbjörg Guðmundsdóttir, Bessastaðagerði, 1989.   Aðalbjörn E. Kjerúlf, Hamborg / Arnheiðarstöðum, 1986, 1990, 1996.
Andrés Einarsson, Bessastöðum, 2011.  Ágúst Þórhallsson, Langhúsum, 1990.
Benedikt Friðriksson, Hóli, 1990, 1992.  Benedikt Jónasson, Þuríðarstöðum, 1997.
Bergljót Þórarinsdóttir, Egilsstöðum, 2012.  Bjarni Guðjónsson, Valþjófsstað, 1990-2013.
Droplaug J. Kjerúlf, Vallholti, 1986-2000.  Einar Axelsson frá Bessastöðum, 2012.
Eiríkur M. Kjerúlf, Vallholti, 1986-87.  Eyjólfur Yngvason, Melum, 1989-1992, 2013.
Friðrik Ingólfsson, Valþjófsstað, 1990, 1992.  Guðmundur Þorsteinsson, Bessastaðagerði, 2012.
Guðsteinn Hallgrímsson, Droplaugarstöðum, 2010.  Gunnar Jónsson, Egilsstöðum, 1990, 2012.
Gunnlaugur M. Kjerúlf frá Hrafnkelsstöðum, 1991.  Gunnþórunn Ingólfsdottir, Víðivöllum fremri, 2012.
Guttormur V. Þormar, Geitagerði, 1986,1990, 2011.  Hallgrímur Helgason, Droplaugarstöðum, 1985-1993.
Hallgrímur Þórhallsson, Brekku, 1990, 1998, 2003.  Hákon Aðalsteinsson, Húsum, 1995.
Helga Vigfúsdóttir, Valþjófsstað, 1992.  Hjörleifur Kjartansson, Glúmsstöðum, 2011.
Hjörtur E. Kjerúlf, Hrafnkelsstöðum, 1992.  Hrafnkell Björgvinsson frá Víðivöllum fremri, 2012.
Ingólfur Gunnarsson, Valþjófsstað, 1990 .  Jóhann Frímann Þórhallsson, Brekkugerði, 2012.
Jóhanna J. Kjerúlf, Brekkugerði, 1989, 1990, 1993  Jón Bjarnason, Egilsstöðum, Fld., 1997.
Jón E. Kjerúlf, Arnheiðarstöðum, 1990, 2011, 2012.  Jón Þór Þorvarðarson, Glúmsstöðum, 1990.
Lilja Hallgrímsdóttir, frá Brekku, 2011.  Lilja Ólafsdóttir, Merki, Jökuldal, 2010.
Níels Pétursson, Glúmsstaðaseli, 1990.  Pétur Þorsteinsson, Bessastaðagerði, 1989, 1990.
Rögnvaldur Erlingsson frá Víðivöllum, 1988-1990.  Sigsteinn Hallason, Sturluflöt, 1990.
Sigurður Þórhallsson, Klúku, 1990, 1991.  Snorri Gunnarsson, Egilsstöðum, 1985, 1988.
Sveinn Einarsson frá Hrjót, Eg., 1989.  Sveinn Ingimarsson, Sturluflöt, 2001.
Sverrir Þorsteinsson, Klúku, 1991-2000.  Unnur Einarsdóttir, Valþjófsstað, 1990, 1992
Valgeir S. Þormar, Reykjavík, 1991, 2000  Þorsteinn Pétursson Maack, Víðivallagerði, 2012.
Þorvarður Ingimarsson, Eyrarlandi, 1996.  Þorvarður Stefánsson, Brekkugerði, 1992.
Þórarinn Bjarnason, Hjarðarbóli, 1990.  Þórarinn Lárusson, Skriðuklaustri, 1992, 2000, 2012.
Þórhallur Björgvinsson, Þorgerðarstöðum, 1994, 2001.

Fljótsdalshreppur lét prenta 50 eintök af riti þessu 2013. 

Heiðveig Agnes Helgadóttir