Skip to main content
26 November, 2021

Geitagerði

26 November, 2021

Geitagerði

Geitagerði var hjáleigubýli í innsta hluta Arnheiðarstaða, á landi milli Geitár og Marklækjar, og gilti þar sama eignarhald og sömu kvaðir og á aðaljörðinni (sjá Arnheiðarstaði). Ábúandi keypti jörðina 1953. Þar var hefðbundinn búskapur til aldamóta 2000, frá 1970 með skógrækt, en síðan aðeins skógarbúskapur.

Minjar í Geitagerði voru skoðaðar 12. júlí 1986, 8. ágúst 1990, og nokkrum sinnum síðan.

Gamli bærinn "stóð rétt ofan við núverandi íbúðarhús, forn baðstofa, löguð um 1896, 8 ¾ × 5 álnir + endi. Þverhús (1906), hlaðið, 12 × 6 álnir, alþiljað, járnklætt þak, stafn og veggur. (SJM II, 19). Guttormur Þormar segir að baðstofan hafi verið utan við þverhúsið. Bæjardyr voru austan á þverhúsinu, og þaðan gengið í baðstofuna og líklega fleiri hús í bænum. Gamli bærinn var rifinn stuttu eftir að steinhúsið var byggt 1930. Á málverki af bænum, líklega frá 1920-25, sést þverhúsið og hlutar af torfbænum beggja megin þess, að utan er baðstofan, álíka há og þverhúsið, með tveimur dyrum á austurhlið, en gluggar sjást ekki greinilega, að innan sést bara ólögulegt hrúgald, mun lægra. Utan við bæinn sést hús með grjótvegg, líklega Traðarhúsin. (Þormarsætt, 1998, bls. 28). (Þar sem segir hér að ofan að þverhúsið sé “hlaðið”, mun vera átt við bakvegginn, sem var grjóthlaðinn eins og vanalega).
Eftir að torfbærin var rifinn var trjágarðurinn (frá um 1907) stækkaður yfir bæjarstæðið. Á síðustu áratugum hefur jarðvegur í garðinum sigið og sést nú móta fyrir veggjum bæjarins í honum.

Gripahús við bæinn: Sumarið 1990 voru þar tvö gömul hesthús, sambyggð, undir sama risþaki, er sneri út og fram, en torfveggur á milli, bæði með dyrum að austan. Torfþak var á þeim, og stóð sæmilega enn, enda voru húsin í notkun. Innan við þau var viðbyggð kúahlaða úr torfi og grjóti, með skúrþaki af járni, og útidyrum að austan, en vindauga að vestan. Ekki var innangengt milli hennar og hesthúsanna. Hesthúsin voru byggð upp úr fjárhúsi, sem kallað var Traðarhús. Annað fjárhús var áður framan við hlöðuna, viðbyggt henni, og bar sama nafn. Traðirnar lágu á milli þessara húsa og niður á hlað gamla bæjarins, sem var austan við hann. Þessi hús eru nú horfin. Steypt fjós, frá 1943, er þarna rétt fyrir innan, sem notað var þar til fyrir fáum árum.

"Spölkorn innan við íbúðarhúsið var fjárhús, nefnt Guttormshús, byggt um 1830. Þar er nú kartöflugeymsla. Götuhús (ft.) hét þyrping fjárhúsa, rétt fyrir ofan íbúðarhúsið, rifin 1955. Áfast við gamla bæinn var fjárhús, kallað Bakhús, áföst við það var Bakhúshlaða." (Örnefnaskrá).

Götuhús voru rétt fyrir ofan bæinn, tvö sambyggð fjárhús, með hlöðu að baki. Að sögn Guttorms Þormar voru þau ekki byggð fyrr en eftir 1930, og efni úr gamla bænum notað til að byggja þau, bæði grjót úr veggjum og viðir úr þverhúsinu. Þau voru rifin eftir að steypt fjárhús og hlaða voru byggð utan við Traðarhúsin 1962, en þá var hluti af gömlu bitunum nýttur í þriðja sinn í hesthúsin og hlöðuna utan við bæinn (Sögn Guttorms Þormar 11. 8. 1990 og 25. 10. 2011). Nú sjást engin merki um Götuhúsin.

Guttormur segir að innan við skógarreitinn séu einkennilegar smátættur, líklega af kofum, sem hann veit ekki hvaða hlutverki hafa gegnt.

Skrúðgarður: Í SJM II er sagt að garðurinn framan við húsið sé frá 1906, "þá plantað birki, 1914 barrviðum". Í sömu heimild segir að "þverhús" væri byggt 1906, og þá hefur garðurinn verið settur sunnan við það og byrjað að planta þar trjám. Áður hefur þar líklega verið matjurtagarður. Í viðtali mínu við Guttorm V. Þormar bónda 3. ágúst 2006, taldi hann að barrtrjánum hefði verið plantað 1907, en birki og reyni áður, líklega laust eftir aldamótin. "Fegurstur og skipulegastur fanst mjer garðurinn í Geitagerði. Þar eru m.a. há og velvaxin nálatrje", ritar Theodór Árnason 1935. Guttormur Þormar segist muna eftir "laufskála" í miðjum gamla garðinum, og hafði heyrt að þar hefði farið fram húskveðja við jarðarför Sigríðar ömmu sinnar 1922. Garðurinn sést á fyrrnefndu málverki frá um 1920, er þá umluktur grjótgarði. (Þormarsætt,1998, bls. 28). Árið 1953 var svo byrjað að planta ýmsum trjátegundum í um 1 ha skógræktarreit utan við bæinn. (Símtal 25.10.11 / Nánar í garðapistli mínum, handr. 2011).

Grjótgarður er ofan við skrúðgarðinn, innan bæjar, líklega úr grjóti sem var í veggjum gamla torfbæjarins. Eitthvað sést móta fyrir gömlum túngarði utan við gamla túnið, t.d. framan við skógarreitinn.

Hestasteinn gamall er rétt ofan við skrúðgarðinn, kantaður, með stuðulslagi, um 1,5 m hár. Skeggi G. Þormar sagðist hafa heyrt, að Vigfús afi sinn og bræður hans hefðu flutt hann ofan úr fjalli, líklega um eða upp úr aldamótum 1900 (Viðtal 5.8. 2012). Annar steinn, aflangur og ferkantaður, úr stórkrystölluðu bergi, liggur nú (2012) upp við hestasteininn; hann kom upp þegar grafið var fyrir ljósleiðara nýlega.

Matjurtagarður segir Guttormur að hafi verið á ytri bakka Bæjarlækjarins, rétt fyrir neðan rafstöðina, og var hann umluktur torfgarði sem enn sér merki til. Þar var m.a. rækað kál og ýmsar matjurtir, aðrar en kartöflur í æsku hans. Kartöflugarður var hins vegar í Leyningi ofan við steyptu fjárhúsin, og sést þar enn dálítill stallur. (Símtal 30.3. 2012).

Myllutótt er við Bæjarlækinn, stutt fyrir ofan veg, inn af Neðra-Bjargi. Þar heitir Myllumelur og Myllumýri ofar. Tóttin er ennþá greinileg, ferhyrnd, um 4 × 5 m að utanmáli, svo og aðrennslisskurður fyrir ofan hana. Myllan var byggð um 1840, segir í SJM II, 19. (Myndað 12.7. 1986).

Áveita: "Um 1840 gerð áveita á tún og engjar úr bæjarlæk, með vatnsauka úr Geitá.... Vatni má veita yfir meirihluta túnsins um grasvaxtartímann, en sökum grafninga af vatnsrennsli verða ekki full not að vatnsveitingu." (SJM II, 19). Ummerki veituskurðar sjást ennþá utan og ofan við Neðra-Bjarg.

Stekkur var við Stekkjarklett, niður við fljót, fram og niður af bæ, nú í skógarjaðri.

"Kletturinn er um 500 m SA frá bæ, en um 40-50 m frá fljóti, nálægt jaðri barrskógar. Kletturinn er nálægt túnjaðri nú, en austan við hann er grösugur bakki, allt niður að fljóti. Fast austan við klettinn vottar fyrir tóft. Hún er eitt hólf, um 5 × 5 m, opin í austur og nánast skeifulaga. Örlar aðeins á grjóti í veggjum á nokkrum stöðum. Veggjahæð mest um 1 m. Um 20 m sunnar vottar fyrir annarri tóft, [með] tveimur samhliða veggjum, og sýnist stærð alls vera um 3 × 5 m. Óljóst, enda gras mjög hátt." (Fornleifaskýrsla 2001, bls. 89).

Stekkur heitir líka upp af bænum, milli Efra- og Neðrabjargs, utantil. Þar er ein lítil ferköntuð tótt, í grasmó, líkist fremur geita- eða fjárhúskofa en stekk.

Nátthagi, með grjótgarði umhverfis, er út og niður á Bökkum við Lagarfljót, fyrir utan túnið, undir lágum klettahjalla, er myndar aðhald að ofan. Stuttu utar er Hagaklettur, líklega kenndur við nátthagann.

"Nátthaginn er um 400 m NA af bæ, á fljótsbakkanum. Klettabelti nálægt fljótinu, en lægri grasbakkar þar fyrir neðan. Hlaðið er frá klettunum á tveimur stöðum að fljótinu og myndast þannig hólf á milli. Stærð þess er um 25 × 50 m. Syðri hleðslan er um 24 m, en sú nyrðri nær 30 m. Hleðslurnar eru ógrónar en hrundar að mestu, ná hvergi 1 m hæð. (Fornleifaskýrsla 2001, bls. 88).

Í jarðarlýsingu 1918 segir: "Tveir nátthagar, c. 3 dagsláttur = 96 arar, ekki komnir í fulla rækt, gefa af sér c. 10 hesta af töðugæfu heyi." Þessir nátthagar hafa líklega verið heima við bæinn, og til þess ætlaðir að rækta þar upp tún.

Rauðihellir, stundum nefndur Grímshellir, er í kletti við Lagarfljót, stutt fyrir utan Nátthagann. Halda sumir að þar hafi Grímur Droplaugarson hafst við um tíma, meðan hann var útlægur. "Nú komu þeir Grímur til Ingjalds, og fóru þeir í helli þann, er nú heitir Grímshellir." Neðanmáls segir að Grímshellir sé nú ókunnur. (Ísl. fornrit XI, 1950, bls. 176). Þeir sem um þetta hafa ritað virðast helst gera ráð fyrir því að þessi hellir hafi verið í Bæjarlækjargilinu á Arnheiðarstöðum, en til þess eru engar líkur. Kålund segir þó: "Eini hellirinn í landi bæjarins er ómerkilegur skúti, nokkru sunnar, niðri við fljótið, sem getur ekki verið sá er sagan nefnir." (Kr. Kålund: Ísl. sögustaðir IV, 1986, bls. 24).

Ég skoðaði hellinn 12. júlí 1986. Hann er SA í allháum kletti við fljótið, um 200 m innan við Geitána (merkin), um 10 m uppi í klettinum. Framan við hann er dálítil, hallandi silla, og má ganga eftir henni utan frá að hellisopinu. Hellirinn er um 3 m langur, tæpir 2 m á breidd, en aðeins um 1 m á hæð, og hefur grafist í þykkt lag af rauðaleir sem þarna er milli berglaga. Hann er dálítið rakur innantil, botninn er nokkuð sléttur. Hægt myndi vera að liggja í skúta þessum, og hann er vel falinn, sést varla nema utan af fljótinu, og auðvelt hefði verið að verjast þar, en þaðan sést ekki til mannaferða. (H. Hall.: Grímshellir og Grímsbás. Múlaþing, 15, 1987: 117-131).

Skipavík er stutt fyrir utan Rauðahelli. "Í Skipavík lentu vélbátar, meðan bátar voru notaðir til flutninga á Lagarfljóti (1905-1933)." (Örnefnaskrá). Guttormur Þormar kannast ekki við að áætlunarbáturinn hafi lent í Skipavík. Hann lenti alltaf á sandinum við Bæjarlækjarós, og þangað var lagður kerruvegur til að flytja heim vörur úr bátnum. (Sögn hans, 30.3.2012).

Fornasel kallast tættur uppi í fjallinu, undir Hamarsenda, sem er innsti hluti langs klettabeltis er kallast Efrihamar. Gamlar beitarhúsatættur eru þar skammt fyrir innan, undir Húsabrekkum. Þessir staðir eru upp undir heiðarbrúnum. Hætt var að nota beitarhúsin um 1910. (Ekki skoðað).

Forngripir: "Það mun hafa verið um 1910, að Vigfús G. Þormar, síðar bóndi í Geitagerði, fann tvo stóra og íburðarmikla silfurhnappa langt uppi í Geitagerðisfjalli. Hnapparnir eru taldir vera frá miðöldum, líklega 16.-17. öld, og geta því varla verið úr kumli. Skemmtileg frásögn er af hnöppunum í Morgunblaðinu 23. júlí 1989, þar sem greint er frá hlutskyggni bandarískrar konu í sambandi við hnappana. Þeir eru varðveittir í Geitagerði." (H. Hall.: Fornhaugar.... Múlaþing 18, 1991, bls. 53).

Sérstök örnefni: "Krosshraun heitir lágur klettahryggur upp af vesturhorni Frammýra, og þar niður af í suðurhorni sömu mýrar er Stekkjarklettur." (Örnefnaskrá). Gvendarklöpp er framan við Mjóadal, utan bæjar, neðan þjóðvegar. Hlandkollur kallast einkennilegar, ketillaga holur yst á Neðra-Bjargi, þar sem það er hæst og kallast þar Hlandkollubjarg. Sumar þeirra eru oft með hlandlituðu vatni. Líklega skessukatlamyndun. (Skúli Björn Gunnarsson: Af Hlandkollum, kílum... Glettingur 12 (3), 2002). Ofan við Efra-Bjarg eru örnefnin Brandabotnar og Tréhraun, sem vitna um skóga fyrr á öldum.

Umsögn um minjar 1990: Í Geitagerði er varla um sérstaklega merkilegar byggingaminjar að ræða, með þeim fyrirvara að tættur í fjallinu hafa ekki verið skoðaðar. Hesthúsin og Kúahlaðan standa þó fyrir sínu, og vonandi fá þau að halda sér. [Þau hafa nú verið rifin]

 

Heiðveig Agnes Helgadóttir