Skip to main content
04 January, 2022
# Topics

Maríutungur-Kiðafellsþing

04 January, 2022

Maríutungur


Örnefnið Maríutungur á öræfunum sunnan Snæfells er líklega meðal hinna elstu og rótgrónustu á þessum slóðum, en hefur þó jafnan verið á reiki hvaða svæði það ætti við. Á Valþjófsstað var Maríukirkja, og er ekki að efa að örnefnið Maríutungur megi rekja til þess að kirkjan eignaðist þetta land. Sama örnefni kemur fyrir í sambandi við skógarítak kirkjunnar í Suðurdal Fljótsdals, líklega í landi Sturluflatar ("Bakkaskóg í Víðivalla land, og alla skóga frá lækjum fyrir utan Maríutungu(r) og til Sturluár.)

Í gömlum heimildum kemur fram að Maríutungur hafi verið vel gróið afréttarland, og að menn hafi m.a. sótt þangað fjallagrös. Telja má víst að þarna hafi mun stærra svæði verið jökullaust til forna en nú er raunin, og að mestur hluti þess hafi verið þakinn jarðvegi og gróðri. Almennt er talið að skriðjöklar Vatnajökuls hafi gengið lengst fram í lok 19. aldar, og þá hafa Brúarjökull og Eyjabakkajökull þrengt mest að Maríutungum. Mest varð eyðingin árið 1890 þegar báðir jöklarnir hlupu fram og sérstaklega Brúarjökull lagðist yfir væna sneið af tungunum, líklega um 30-40 ferkm., eða sem svaraði "dags göngu" (smölun) á afréttunum.

Varð þá jafnframt allmikil breyting á rennsli kvíslanna, sem koma undan jöklunum, og landslagi yfir höfuð. Jöklarnir skófu upp mestallan jarðveg af þeim svæðum er þeir hlupu yfir og ýttu honum upp í mikla garða eða hrauka, er síðan greru upp og þóttu grasgefnir, þessvegna títt nefndir Töðuhraukar. Hér verða teknar upp orðréttar klausur úr heimildum, þar sem örnefnið Maríutungur kemur fyrir.

Úr fornbréfum
Vitnisburður Gizurar Helgasonar um ítölu í Staðaröræfi frá Valþjófsstöðum.


Um lamba rekstur á öræfi

Það gjöri eg Gizur Helgason góðum mönnum kunnigt með þessu mínu opnu brefi, að eg kom 11 vetra gamall í Valþjófstaðar kirkjusókn, og þar ólst eg upp, og síðan bjó eg fyrst ellefu ár heima á staðnum og í Görðum (Gavrdvm), 8 ár á Arnaldsstöðum (Arnollstavdvm) í sömu þinghá; 12 ár á Glúmsstöðum og eitt ár á Þuríðarstöðum. Og heyrða eg aldrei á þessum árum að nokkur ætti neina ítölu fram á Staðaröræfi, hvorki lamba rekstur né annars penings, utan hundrað lamba rekstur frá Skriðu í Marítungur, enn staðurinn ætti í staðinn upp á 20 hesta torfskurð árliga í Skriðu land. Og einginn maður rak sína peninga þessi fyrr greind ár, hvorki fram af Seljadal [þ.e. Þorgerðarstaðadal] eða undir Snæfell, og eigi hin nyrðri öræfin, utan með þess leyfi sem Valþjófsstað hélt, utan búsmala rekstur sem í seljum var hafður. Og hér eptir vil eg sverja ef þurfa þykir, og til sanninda hér um, festir eg mitt innsigli fyrir þetta vitnisburðarbréf, skrifað á Valþjófsstað pride kalendas Junii, árum eptir guðs sonar fæðing 1552. (Ísl. fornbréfasafn XII, bls. 380).

Úr sýslulýsingum 1745

"Af dalnum [þe.Rafnkelsdal] ganga tveir óbyggðir dalir: Þuríðarstaðadalur og Glúmstaðadalur. Kallast Maríutungur milli þeirra, og þar fyrir innan Herjólfstungur." Sýslulýsingar 1744-1749. Rvík. 1957, bls. 288 (þýðing Indriða Gíslasonar, bls. 29).

“Der i fra ligger 2 ubygde dale, nafnl. Thuridarstadedal og Glumstadedal og i mellem dem kaldes Landet Mariætungur og der foran Herjolfstungur;..” (Sýslulýsingar bls. 288).

Úr Ferðabókum og ferðalýsingum.

Ein elsta heimild um nafnið er í Ferðabók Sveins Pálssonar, sem rituð er 1794, en þar segir: "Vestan við kvíslina [þ.e. Jökulkvísl] heita Maríutungur, og var farið þangað til grasa fyrrum. Vestan Maríutungna, er mynda allmikinn geira upp í jökulinn, brýst hin eiginlega Jökulsá á Brú undan jöklinum, h.u.b, í VSV frá Snæfelli." (Ferðabók bls. 385).

Í Jöklaritinu í sömu bók stendur þetta:

"Brúarjökull kallast hinn jökulboginn, frá Dyngjufjöllum [þ.e. Kverkfjöllum] austur að Maríutungum, litlu afréttarsvæði í krika, sem verður í jökulbrúnina, og var fyrr á tímum sótt þangað til grasatekju. Jökullinn er þarna mjög flatur..." (Ferðabók bls. 469)

Enn minnist Sveinn á Maríutungur í Jöklaritinu á bls. 472, og afmarkar þær á sama hátt, þ.e.á milli Jökulkvíslar og Aðalkvíslar Jökulsár á Brú. Sveinn kom á þessar slóðir sumarið 1794, og reyndi m.a. uppgöngu á Snæfell, sem ekki tókst.

Guðmundur Snorrason frá Bessastaðagerði í Fljótsdal varð fyrstur manna til að ganga á Snæfellstind, svo vitað sé, þann 13. ágúst 1877. Birti hann stutta frásögn af ferðinni í blaðinu Skuld á Eskifirði (1. árg. 12/13 tbl., 3. nóv. 1877). Hann lýsir útsýni af tindinum og ritar m.a.:

"Margir hafa fyr og síðar talað um að dalir mundu vera í Vatnajökli. Ekki get ég alveg synjað fyrir að svo sé, heldur var inn af Maríu-tungum, hér um bil í miðjum jöklinum, dæld mikil, og lá til suðurs og norðurs. Klettar voru beggja vegna við dæld þessa, en hvergi sá ég auðnu, enda var það ekki vel að marka, því kíkir hafði ég ekki; en á loftinu yfir honum sýndist mér sem hann væri auður."

Þorvaldur Thoroddsen ritar í Ferðabók sinni (I. bindi, bls. 49):

"Jökulkvíslin, sem fellur austast í Jökulsá á Brú, frá Snæfelli, á eiginlega að skiptast í tvennt, og milli þessara kvísla eru Maríutungur.* Í tungum þessum eða fitjum eru víða bestu hagar, og þangað eru stundum rekin lömb frá Brú."

Neðanmáls: * Um útilegufólk í Maríutungum er saga í Austra III, 1886, bls. 31 [Þar er átt við söguna af Gerðissystkinum]

"Óljósar fregnir geta um sakafólk á 18. öld, sem átti að hafa lagst út í Maríutungum og víðar á Brúaröræfum...." (Sama bók, I, bls. 282). Þorvaldur var þarna á ferð sumarið 1895 (?).

Úr þjóðsögum

Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar koma Maríutungur nokkrum sinnum fyrir, og virðist nafnið þá alltaf eiga við landið austan [hann ritar stundum "sunnan", en virðist eiga við austur, sbr. norður = vestur] Snæfells, sem nefnt er Eyjabakkar eða Eyjabakkasvæði í dag.

"Taktu 12 lembdar tvævetlur og rektu þær suðvestur í Maríutungur, inn undir jökli, austur frá Snæfelli." (Saga af Gerðis-systkinum. Þjóðs. S.S., 1. útg., XII, 79).

"Þeir lögðust til svefns í Maríutungum, suður frá Snæfelli." (Þáttur Sögu-Gvendar. Þjóðs. S.S. XI, 291).

"Þar eru Vesturöræfi fyrir norðan Snæfell, að Jökulsá á Dal, en að sunnanverðu við fellið kemur Jökulsá í Fljótsdal í mörgum kvíslum úr Vatnajökli. Milli kvíslanna heita Maríutungur. En sunnan Jökulsár í Fljótsdal liggur Múlaafréttur. Í Maríutungum slæðist oft fé eftir á haustum." ("Sögnin af Mjóa-Teina" (innskotsgrein). Þjóðs.S.S. 2.útg. IX, 208).

Þessi innskotsgrein virðist vera til skýringar á eftirfrandi setningu í sögunni:

"Við fórum hring í kringum fellin, og segir ekki af ferðum okkar fyrri en við komum austur í Maríutungur. Höfðum við þá fáar kindur.... Vorum við nú staddir undir hárri melbrekku inni við jökulinn.... [Þar urðu þeir fyrir árás útilegumanna].

Innskotsgreinin er líklega samin af Sigfúsi, og lýsir þá hugmynd hans um staðsetningu Maríutungna. Þessi skýringargrein er ekki í 1. útg. þjóðsagnanna, og hefur hann því sjálfur fellt hana niður, líklega ekki talið hennar þörf.

Í sögunni "Timburlest útilegumanna" í Grímu hinni nýju, 3. bindi (Rv. 1949, p. 49) segir:

"Einnig lá orð á, að útilegumannabyggð væri á öræfunum inn af Hrafnkelsdal og Jökuldal. Á þeim öræfum inn við jökla var landspilda, sem menn kölluðu Maríutungur, frjósamt land og fagurt, og þar hugðu menn að byggð útilegumanna væri. Nú eru þessar Marítungur huldar jökli." (Handrit Árna Jóhannssonar í Kaupangi, Eyf., e. sögn Sölva Magnússonar 1906).

Maríutungur koma einnig fyrir í sögum af Víðivallagerðissystkinum, og virðast þar vera austan við Snæfell, og jafnvel fyrir austan Jökulsá í Fljótsdal. (Sjá Grímu).

Úr ritum Hjörleifs Guttormssonar

"Fyrir stofnun klausturs á Skriðu urðu ítakaskipti við Valþjófsstað, þar sem Skriða fékk 100 lamba upprekstur í Maríutungur, innst á Vesturöræfum, gegn árlegum torfskurði á Valþjófsstaðar upp á 20 hesta í Skriðulandi." (Árbók. F.Í. 1987, bls. 58).

"Hér eiga Fljótsdælingar gangnakofa við Sauðá, þar sem legið er við í tvær nætur og dagurinn á milli notaður til smölunar úr landinu innan Sauðár: Fit, Maríutungum, Útigönguhnaus, Töðuhraukum og Nýjahrauni...." (Sama rit, bls. 76).

"Maríutungur er ekki notað um allan krikann milli Eyjabakka- og Brúarjökuls, heldur um suðvesturhluta þess svæðis, sem Brúarjökull og Jökulkvísl hafa leikið grátt á síðari öldum. Eru þar nöfnin Lágtungur og Hreinatungur, sem ég hef litið á sem undirheiti Maríutungna." (Tölvubréf til Bjarna Guðleifssonar, 25. júní 1999 /Afrit hjá undirrituðum)

Úr ritum Erlings Sveinssonar

"Maríutungur heita spildur nokkrar austan Jökulsár og inni við jökul, milli upptakakvísla Jökulsár á Brú. Þar er haglendi, en tungurnar hurfu að nokkru undir jökul er Brúarjökull hljóp 1963." (Lýsing Fljótsdalshrepps í "Búkollu" II, bls.7).

"Maríutungur heita innst á hávaða þeim, er skilur á milli Eyjabakkajökuls og Brúarjökuls. Um það bil eru innstu takmörk þessa afréttarhluta, "Undir Fellum", að vestan. Frá Maríutungum liggja þau svo um sandana vestan Snæfells, vestan við Sauðafell, að Þórustaðakvísl." (Afréttir Fljótsdalshrepps. Göngur og réttir, 2. útg., V, 368).

"Hinir, sem smala vestan Fitjahnjúks, halda áfram inn undir svonefnda Grjóthrauka, og bíða þeirra, sem innan og austan með jöklinum koma, og sendir hafa verið í Maríutungurnar. Eru það þrír menn, sem þangað fara. Halda þeir austur með Fit, og upp með Sauðá, innan við Sauðahnjúk, og smala inn sandana milli Fitjahnjúks og Bjálfafells. Leita síðan um Maríutungurnar og koma að lokum ofan með jöklinum, milli hans og jökulkvíslar þeirrar, er austan af þeim kemur." (Um göngur á Vesturöræfum, í Göngum og réttum, 2. útg., V, 379).

"Þá fara að lokum þrír inn Sandana, í átt til Maríutungna. Fara tveir þeirra inn á svonefndar Bergkvíslar, út og austur af Maríutungum, en hinn þriðji fer austur nokkru utar, um Mosdal. Er svo smalað út með Jökulsá, austan fella, allt út fyrir Laugará." (Hér er verið að lýsa göngum "undir Fellum" / Göngur og réttir 2. útg., V, 386).

Úr örnefnaskrám

"Suður af Fitjahnjúk, vestan við Litla-Sandfell (74) (sem sumir kalla), er lágt fell, sem heitir Bjálfafell. Sunnan við Bjálfafell er alldjúp lægð, sem liggur í suður, milli Maríutungna og Bergkvísla. Það er á afréttarmörkum. Eftir þessari lægð rann jökulkvísl, sem kom úr (tjörn), sem var við jökulrætur, en er nú þorrnuð. Nú er þessi jökulkvísl aðeins orðin bergvatnsspræna, en farvegur hennar er glöggur, og töluvert gil á kafla norðan við Maríutungur. Vestasta hornið af Maríutungum, rétt við jökulröndina, heitir Hnúta. Norðan við Hnútu, en sunnan við Nýjahraun, meðfram jökulröndinni, heita Lágtungur. Í lægðinni milli Lágtungna og Hnútu rennur Jökulskvísl nú. Vestan við Jökulkvísl eru Hreinatungur."

Samkvæmt þessum heimildum virðist örnefnið Maríutungur hafa verið notað um fjögur svæði á Snæfellsöræfum:

1) Tunguna milli Þuríðarstaðadals og Glúmsstaðadals í Hrafnkelsdal (Sýslulýsingar 1745).
2) Svæðið á milli Jökulkvíslar (núverandi /fyrrverandi?) og Brúarjökuls (sem í örnefnaskrá kallast Lágtungur (?), Hreinatungur o.fl.? / Erlingur Sveinsson)
3) Svæðið milli Brúarjökuls og Eyjabakkajökuls. (Þetta svæði er illa afmarkað, en var upphaflega kannski miðað við "gömlu jökulkvíslina". Þetta er líklega elsta merkingin?).
4) Svæðið austan Snæfells og Þjófahnjúka, eða það sem nú kallast Eyjabakkasvæði Aðallega hjá Sigfúsi Sigfússyni og í öðrum þjóðsögum).
- H. Hall. (apríl 1998). (Viðbætur í mars 1999 og maí 2008).

 

Dýjasel
í Norðurdal og leiðið á Þingvelli á Hraunum
Um “leiðið” á Þingvelli

Rögnvaldur Erlingsson, 1985:
“Fyrir rúmum 40 árum fór ég fyrst í göngu á Múla, en svo nefnist afréttarsvæðið milli stóránna, Kelduár og Jökulsár. Þó er smalað austan Kelduár fyrsta daginn. Er riðið austur fyrir Kelduána rétt framan við það sem Fremri-Sauðá í Suðurfelli fellur í hana. Þarna austan við Kelduána er allstórt flatlent móasvæði, er nefnist Þingvellir, líklega vegna þess að þarna þinga Múlagöngumenn, áður en þeir skipta sér til smölunar um hraunið. Þegar ég er kominn skamman spöl frá ánni, ríð ég fram á upphlaðið mannsleiði. Hvort sem þarna eru bein í gröf, er það víst, að þetta er alveg eins og mannsgröf, og af manna höndum gjört. Snýr það alveg eins og önnur mannsleiði, og er steinum raðað í kross á því.

Hafi nú bóndinn farið frá Dýjaseli á Djúpavog, er þessi gröf skamman spöl frá þeirri leið, sem hann hlýtur að hafa farið. Svona staðir vekja upp margar spurningar, sem aldrei munu fást svör við. (Rögnvaldur Erlingsson: Andstæður. Austri, júní 1985)

Hér vísar Rögnvaldur til þjóðsögu af bónda sem kvað hafa búið í Dýjaseli innst í Norðurdal (Fljótsdals) að austanverðu, við Ytra-Dýjafell, og farið í kaupstað á Djúpavog að vetrarlagi, lent í útistöðum við kaupmann og verið drepinn af útsendurum hans á heimleið þaðan. Sagan birtist í bókinni “Syndir feðranna” I. bindi, sem Jón Helgason blaðamaður og rithöfundur safnaði til eða samdi. Heimildarmanna er ekki getið við söguna, og engar frekari skýringar fylgja henni. Atburðarás sögunnar er ótrúleg í hæsta máta, og hún lítur út fyrir að vera skáldskapur. Samt er orðrómur um að Dýjasel hafi verið til (sjá hér á eftir). Rögnvaldur orti langt kvæði um þennan atburð, og styðst þar við söguna (sjá kvæðahandrit hans). Þingvöllur er vel þekkt örnefni, og er sama skýring á því í örnefnaskrá Múlaafréttar.

Þórhallur Björgvinsson, 2001:
Þórhallur Björgvinsson frá Þorgerðarstöðum, segir að “leiðið” sé aflöng þúfa á sléttum bala eða grund, að lögun og stærð sem upphlaðið leiði, líklega vel yfir 1 fet á hæð, og bungulaga, hækkar aðeins til austurs. Ekki vottar fyrir neinni dæld í því, eins og ef um tótt væri að ræða. Á því er steinaröð sem myndar nokkuð greinilegan kross. Þar að auki eru tveir steinar við leiðið, við sitthvort suðurhorn þess, og virðast þeir hafa verið fluttir þangað.

Hann segist hafa farið að leiðinu fyrir nokkrum árum, ásamt Guðmundi Ármannssyni á Vaði, Hirti Kjerúlf o.fl. og þá hafi þeir grafið niður með því að norðan, og sáu að þar var greinilegur veggur úr grjóti. Þórhallur álítur að þetta geti varla verið annað en leiði, og hefur sett það í samband við þjóðsöguna um bóndann í Dýjaseli (sjá hér að ofan). (Skv. viðtali við Þórhall 11. des. 2001. – H. Hall.)

Um Dýjasel (Dýjakot) og Bjargsendasel

Eiríkur Eiríksson, 1973 (Örnefnaskrá):
“Milli ánna [þ.e. Ytri- og Innri-Sníkilsár] heitir Ytra-Dýjafell, og innan við Innri-Sníkilsá er Innra-Dýjafell. Þar fyrir innan er Ytri-Heiðará. Við Ytra-Dýjafell er talið að hafi verið eyðibýli, sem hét Dýjasel, eða Dýjakot.

Þjóðsaga segir að síðasti ábúandi hafi heitið Þórður, og samkvæmt sögunni var hann myrtur í kaupstaðarferð 1701. (Sbr. Syndir feðranna, pr. í Reykjavík 1970). Vafalaust er sú saga ýkjufull og sum atriði vafalaust röng. Ekki er mér kunnugt um hver skrásetti sögu þessa eða heimildir hans.” Örnefnaskrá Múla.

Ármann Halldórsson, 1974 (“Búkolla”):
“Afbýlið Dýjasel er við Dýjafell, inni á Dal. Þar var búið á fyrri hluta 19. aldar. Það gæti verið sama og Bjargsendasel, sem er við Dýjafell.” “Búkolla” II, 49.

Ath. Bjargsendasel er miklu utar, eða á móts við Ófærusel (Kleifar megin), eða ytri enda Kleifarskógar.

Níels Pétursson, Glúmsstaðseli, 1990:
Níels Pétursson segist aldrei hafa séð tættur á því stykki, þar sem Dýjasel átti að vera, og heldur að þetta sé hreinn uppspuni, eða að átt sé við Bjargsendasel. Hann segist hafa farið að huga að tóttum, bæði vestan, suðvestan og sunnan undir Ytra-Dýjafelli, eftir að Rögnvaldur fór að spyrja hann eftir þessu, en sjálfur man hann ekki eftir að hafa heyrt getið um þetta sel fyrr en þá.

Bjargsendasel

Níels Pétursson, 1990:
Níels Pétursson (Glúmsstaðaseli / nú á Elliheimilinu á Egilsstöðum) segir að þar hafi verið býnsa miklar tættur, m.a. ein sem honum fannst líkjast baðstofutótt. Nokkuð bil sé á milli þeirra (ein nokkru framar). Þarna er kargaþýft, og ekki hefur hann tekið eftir túngarði þar. Hann segir rústirnar hafa skemmst mjög af vatnsgreftri undanfarna áratugi, og að nú muni lítið vera eftir af þeim. Ekki segist hann vita skýringu á því.

Hann segir að tætturnar séu á móts við miðjan Kleifarskóg, rétt fyrir innan Bjargsendalæk, sem er nokkurn veginn á móti Hvíldarhnjúkslæk hinum megin.
Skv. viðtali við Níels 24. nóv. 1990. – H. Hall.

Selsins er getið í Örnefnaskrá Glúmsstaðasels, og er þar staðsett rétt innan við Bjargsendalæk.Þann 16. júlí 1996 gekk ég frá Glúmsstaðaseli inn að Innri-Sníkilsá, en varð ekki var við neinar tættur á þeirri leið, enda mun ég hafa gáð að minjum Bjargsendasels á röngum stað, þ. e. við Bjargsendann, á móti Ófæruá, en skv. Níelsi er það innar. (Sjá ferðalýsingar mínar). Mig minnir ég hafa heyrt (nýlega) að Hallgrímur Kjartansson á Glúmsstöðum hafi fundið tættur við Ytra-Dýjafell (þarf að inna hann eftir því!). - H. Hg. (12.12. 2001).


Kiðjafellsþing (Fljótsdal)
samkvæmt rituðum heimildum í tímaröð.

Fljótsdæla saga (um 1500?)
“Og er leið fram að vorþingi, þá reið Ásbjörn ofan í Fljótsdalshérað og stefndi Ölviði til vorþings til Kiðjafells – þessi þingstöð er á hálsinum milli Skriðudals og Fljótsdals1 – og sótti þar hrossamálið.” Ísl. fornrit (Fljótsdæla saga) XI, bls. 218.

“Ríður Helgi [Ásbjarnarson] á burt með sínu liði og upp á háls. Hann helgar þing.” Ísl fornrit XI (Fljótsdæla saga), bls. 283.

“Og er þau koma út, þá mælti Þórdís: “Þú skalt fara sendiför mína skyndilega upp undir Kiðjafell á þingvöll.” – Ísl. fornrit XI (Fljótsdæla saga), bls. 284. (Nánari atvik í kaflanum (XX), bls. 282-285)

Engilbert Þórðarson, 1843:
“Utan og austan undir Múlanum stendur staðurinn Þingmúli. Hefur hann nafn af því, að þangað muni hafa verið flutt hin gömlu þing, Sunnudals- og Kiðjafellsþing, er meinast staðið hafi undir felli því, sem er innan til við Suðurdal í Fljótsdal, og nú kallast almennt Fell, og er því í Jónsbók einasta getið Múla- og Skaftafellsþings.” Engilbert Þórðarson: Þingmúlasókn 1843. Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar. Rv. 2000, bls. 323.

Þorvarður Kjerúlf, 1883:
“Þinghöfði liggur út frá Krakalæk í Hróarstungu.... Þar munu vorþing eflaust hafa verið háð á dögum Helga Ásbjarnarsonar, eint á 10du öld og líklega á 11. öld; síðar hefir þingstaðrinn verið fluttur að Þingmúla í Skriðdal, en fyrst eptir að alþingi var sett, eða ef til vill áðr, hefir aðalþingið verið háð undir Kiðjafelli í Fljótsdal; þar sjást nú engar tóptir, enda er þar blásið land.” Þorvarður Kjerúlf: Bréf, dags. 26. nóv. 1883 á Ormarsstöðum. Birt í Múlaþingi 14, 1985, bls. 6.

Sigurður Gunnarsson, 1872 (1886):
“Þrenna vorþingstaði hef eg heyrt nefnda í Fljótsdalshéraði; þá tvo sem hér voru nefndir, og hinn þriðja að Kiðjafelli, inn af Suðurdal Fljótsdals, undir felli sem hét áðr Kiðjafell, en er nú oftast nefnt Fellið. Sér þar enn margar tóftir, og eru þó sumar blásnar burtu. Þar var lengi bær, allt fram um miðja 18. öld, og hét að Felli. Hingað var skemmst að sækja vorþing fyrir Álftfirðinga hvorutveggju. Heitir enn Þingmannaklif innarlega í Suðurdal, þar sem mælt er að þingmenn að sunnan hafi komið ofan í Suðurdal, skammt utan við þingstaðinn.”

Sigurður Gunnarsson: Örnefni frá Jökulsá í Axarfirði austan að Skeiðará. (Ritað Marts 1872). Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta..II. bindi. Khöfn 1886, bls. 464.

“K i ð a f e l l er nú aðeins nefnt Fell. Það er fjallsmúli hár, er gengr út í suðrdal í Fljótsdal, milli hans og Villíngadals að austan, sem er óbyggt dalverpi. Sér enn, utan og norðan undir fellinu, menjar hins forna þingstaðar, en er nú mjög blásið. Varla er rétt að kalla þenna þíngstað “milli Fljótsdals og Skriðdals,” því þíngstaðurinn er innst í Fljótsdal, og æði lángt þaðan yfir fjöll til Skriðdals.” Sama heimild, bls. 483.

Jón Jónsson (Bjarnanesi), 1886:
“Austan árinnar, undir fellinu, eru beitarhús frá Sturluflöt, en fyrr var þar bær, er hét að Felli, og þar er sagt að Kiðjafellsþing hafi verið háð í fornöld. Blasti nú hinn forni þingstaður við oss, og má þar enn sjá hringmyndaða steinaröð, sem Baldvin sagðist hafa heyrt kallaða dómhring, en niðri á árbakkanum sagði hann að sæist votta fyrir grjótveggjum, er mundu hafa verið búðaveggir, en þar eru rof mikil og jarðvegur blásinn burtu.1”

[Neðanmáls] “Annar maður, sem er kunnugur um þessar stöðvar, hefur sagt mér, að dysjar margar væru undir Kiðjafelli, og styrkir það þá frásögn að þar hafi þingstaður verið, því að oft urðu víg og bardagar á þingum í fornöld. En allt þetta þarf nákvæmari rannsóknar við.”                    Jón Jónsson: Fundinn forn fjallvegur á Austurlandi. Austri 3. árg. 1886, nr. 26. [Jón fór inn Þorgerðarstaðadal að vestan, í fylgd Baldvins.

Kristian Kaalund, 1873:
“Fjall hátt og bungumyndað, Fell, liggur sunnan að dalnum og lokar honum. Renna ár á hvora hlið fjallsins, þverár Keldár, sem falla þarna saman. Þetta fjall á að hafa heitið fyrrum Kiðjafell. Er stutt nes undir fellinu, sem myndast þar sem árnar renna saman, og hefur verið talið, að þar hafi fyrrum verið háð þing, Kiðjafellsþing.

Minjar um þennan ætlaða þingstað eru mjög ógreinilegar og vafasamar, og einnig á að hafa staðið þar bær, Fell (Olavius nefnir Fell, og á að hafa lagst í eyði um 1700).

Ekki er ljóst hvernig háttað er munnmælum um þennan þingstað. Eina heimildin sem nefnir Kiðjafellsþing er Droplaugarsona saga hin meiri, sennilega aukin Droplaugarsona saga frá 17. öld. Er hún örugg staðfræðilega, en svo óljóst er talað um hvar þingstaðurinn er, að ekki er auðvelt að átt sig á honum. Vera má að sagnir um Kiðjafellsþing hafi fyrst komið fram eftir að lokið var samningu Droplaugarsona sögu hinnar meiri; en annars vegar vakti frásögn sögunnar ekki athygli einmitt á þessum stað (sjá nánar um það síðar), og einnig má það virðast eigi ólíklegt, að sagnir um Kiðjafellsþing hefðu hvatt höfund til að taka þetta örnefni upp í frásögn sína.

En séu sagnir um Kiðjafellsþing – sem skv. Droplaugarsona sögu h. meiri er vorþing – sannar, verður þingstaðafjöldi á Fljótsdalshéraði enn furðulegri, en hann er þegar í Droplaugarsona sögu ærið mikill.” Kr. Kaalund: Ísl. sögustaðir IV. Rv. 1986, bls. 30.

Daniel Bruun, 1901 (1974):
“Við komum síðla kvölds að Valþjófsstað, og þann 6. skoðuðum við nokkrar litlar tættur. Eftir tilvísan sr. Þórarins Þórarinssonar og fjölskyldu hans lá nú leið okkar inn í Suðurdalinn, að Þorgerðarstöðum, þar sem ég dvaldi til þess 8. við rannsókn á kumli því, er áður getur, en jafnframt til að leita að þingstaðnum, sem talinn er hafa verið undir Kiðufelli. Búðatættur fundust þar þó engar, eða neitt í þá áttina, aftur á móti heyjaði ég mér heimilda um aflögð sel og eyðibýli í Þorgerðarstaðadal, sem Keldá fellur um.” D. Bruun: Í Múlaþingi 7 (1974), 192.

Sigfús Sigfússon, um 1900? (1986):
“Fjórðungsþing var háð undir Kiðjafelli. Það er fremst í Suðurdalnum. Sóttu þangað Austfirðingar allir. Þar sjást tóftarústir miklar. Og þar er sagt að barist hafi verið. Enda hafa þar nærri fundist dysjar og blásið upp mannbein og hesta.”

Sigfús Sigfússon: Íslenskar þjóðsögur og sagnir. VI. bindi, bls. 9. [Neðanmáls er þessi tilvísun: “Sjá Safn II, 464. Skriðuföll og landbrot hafa nú eytt þessum rústum.” / Líklega á Sigfús hér við dysina sem fannst á bakka Keldár, neðan við Sturluflöt um aldamótin]

Halldór Stefánsson, 1948:
“Kiðjafells þingstaður, einnig í landnámi Brynjólfs gamla, en síðar líklega í þinghá Hrafnkels Freysgoða og niðja hans. Þingstaðurinn er um innstu byggðamót Suðurdals Fljótsdals, undir háum fellsmúla, er skilur tvo dali inn frá byggðinni, og hefur með vissu verið fjórðungs þingstaður á þjóðveldistímanum. Verður nánar gjörð grein fyrir þessu síðar. Þessa þingstaðar er getið í Fljótsdæla sögu. Fyrir þessum þingstað hafa fundizt vegsummerki. Hefur þeim lýst Sigurður prófastur Gunnarsson í Safni til sögu Íslands.”

Halldór Stefánsson: Goðorða og þingaskipun í Austfirðingafjórðungi. Austurland II, bls. 133. (Sjá einnig bls. 141, þar sem Halldór ræðir um aldur Kiðjafellsþings og samgöngur þangað)

Jón Jóhannesson, 1950:
Sbr. 20. kap. Þessa þingstaðar er eigi víðar getið og nafnið Kiðjafell hefur eigi haldist, en varla getur verið átt við annað fell en það sem heitir Freyshólafell. Þar eru þó ekki kunn nein merki þingstaðar. Sig. Gunnarsson taldi að Kiðjafell væri fjallsmúlinn er klýfur Suðurdals í Fljótsdal. “Sér enn utan og norðan undir fellinu menjar hins forna þingstaðar, en er nú mjög blásið (Safn t.s. Ísl. II, 483). Sú skoðun kemur ekki heim við söguna, en minjarnar hafa eigi verið rannsakaðar til hlítar. Jón Jóhannesson: Ísl. fornrit XI (Fljótsdæla saga), neðanmálsgrein bls. 218.

Helgi Hallgrímsson, 1968:
“Er staðurinn [Kiðjafellsþing] í dálitlu brekkuhalli, rétt sunnan við Fellsána, og er þar allt uppblásið, en grjótraðir á melum benda til mannvirkja, er gætu hafa verið búðir. Dómhringur hefur líklega verið á vellinum fyrir neðan, en engin merki sér til hans.” H.Hg.: Dagbók 1968.

Halldór Stefánsson, 1970:
Fell (Kiðjafell). Þingstaður forn og býli fram um 1700.” – Halldór Stefánsson: Fornbýli og eyðibýli í Múlasýslum. Múlaþing 5, 1970, bls. 180.

Ármann Halldórsson, 1975:
“Þingstaðurinn forni, Kiðafellsþing, var sunnan (!) í Suðurfelli, en hann er nú horfinn undir skriðuhlaup. – Sturluflöt í Sveitir og jarðir í Múlaþingi 2. bindi, 1975, bls. 59.

Þórhallur Björgvinsson (Þorgerðarstöðum), 1975:
“Heimildarmaður kom um 1933 á grundina í Skaganum austan[á að vera: austur!] við Fellsána, og sá þar 4-5 tættur, auk hrings, hlöðnum úr grjóti, ca. 10-15 faðmar í þvermál. Telur hann miklar líkur á að þar hafi Kiðjafellsþing verið háð, enda taldi það Elísabet Baldvinsdóttir á Þorgerðarstöðum, að hans sögn, en ekkert verður lengur um það fullyrt, þar sem haustið 1942 [á að vera: 1941] féll grjótskriða yfir grundina, en mun þó ekki hafa hreyft mikið við jarðvegi, að mati heimildamanns.” Heimildamaður: Þórhallur Björgvinsson, Þorgerðarstöðum, 10.7. 1975 (?). Úr spjaldskrá Gunnlaugs Haraldssonar forstöðumanns Minjasafns Austurlands á Egilsstöðum.

Lúðvík Ingvarsson, 1986:
“Af öðrum kafla þingfararbálks Járnsíðu, og samsvarandi kafla í Jónsbók, má ráða, að við lok þjóðveldistímans hafi aðeins verið tvö þing, eða öllu heldur tveir þingstaðir, í Austfirðingafjórðungi, að Múla, sem nú er nefndur Þingmúli í Skriðdal, og Skaftafelli í Öræfum. Samkvæmt hinni fornu stjórnskipan áttu að vera 3 vorþing í fjórðungnum.

Áður hefir verið drepið á, að síðari hluta þjóðveldisaldar voru haldin tvö þing á sama þingvelli að Þingmúla. Í Járnsíðu og Jónsbók er haldið þeim nöfnum vorþinganna, sem tíðkast höfðu á 13. öld. Því vantar þar nöfn vorþinganna í Austfirðingafjórðungi, sem haldin voru, áður en þinghald var flutt að Múla. Ekki verður sagt með öruggri vissu hvað þessi þing hétu. Athugun leiðir í ljós, að annar þingstaðurinn hlýtur lengst af að hafa verið í nánd við Krakalæk í Tungu, en hinn undir Kiðjafelli í Suðurdal í Fljótsdal.

Í sögum eru nefnd Krakalækjarþing og Kiðjafellsþing. Þessi nöfn verða notuð hér um þau tvö vorþing, sem síðar voru haldin á einum þingstað undir Múla í Skriðdal. Eftir að þinghaldið var flutt, hafa bæði þingin borið sama nafn.o

.... Ekki er alveg ótvírætt hvar mörkin milli Kiðjafellsþings og Krakalækjarþings hafa legið. Ástæða er til að ætla, að þau hafi verið hreppamörkin milli Norðfjarðarhrepps og Reyðarfjarðarhrepps hins forna, og þá við Gerpi við sjóinn. Uppi á Héraði hafa mörkin verið við Eyvindará (1) og Lagarfljót, en Fljótsdalshreppur allur mun hafa legið til syðra þingsins. Þessi mörk hafa ekki hindrað, að goðorðsmenn úr öðru þinginu ættu þingmenn innan marka hins.”

[Neðanmáls] “Þingið við Krakalæk hefir einnig verið kennt við Þinghöfða, sem er örnefni á sjálfum þingstaðnum. Sama þing er á einum stað nefnt Lambanesþing. Á þingstaðnum er mjög áberandi nes, sem hefir getað heitið Lambanes, þó að örnefnið sé týnt. Getið er Sunnudalsþings í Vopnafirði, sem lagðist af seint á 10. öld. Til þess hafa sótt sömu goðorðsmenn og áttu sókn til Krakalækjarþings.”
Lúðvík Ingvarsson: Goðorð og goðorðsmenn. 2. bindi. Egilsstöðum 1986, bls. 7-8

NB. Í símtali 7. des. 1989 sagðist Lúðvík hafa skoðað þingstaðinn við Kiðjafell, en ekki fundið þar nein ótvíræð merki. Hins vegar taldi hann skýrar búðatættur á Freysnesi (Ekkjufelli), sem bentu til þinghalds á þeim stað, og þá líklega á 10. öld. Engar heimildir eru þó um þinghald þar.

Helgi Hallgrímsson, 1989:
“Að sögn þeirra Flatarbænda, er Kiðjafellsþing talið hafa staðið norðan undir hámúla Suðurfellsins (Kiðufells), í mynni Villingadals, eilítið innar en andspænis bænum Flöt. Þarna er nú allt uppblásið og skriðurunnið. Þegar ég skoðaði staðinn 1968 í fylgd Halla Þorsteinssonar bónda á Flöt, sást ekki annað en nokkrar grjótraðir á melum, sem gætu hugsanlega verið síðustu leifar þingbúðanna.

Taldi Halli sig hafa góðar heimildir fyrir því, að þarna hefðu verið nokkrar aflangar tættur, en skriðuhlaup hefðu eytt þeim snemma á okkar öld, og uppblástur fylgt í kjölfarið. Dómhringur, töldu þeir Flatarmenn, að hefði verið niðri á eyrinni, þar sem Fellsá og Keldá mætast, en hans sér nú engin merki. Er hvort tveggja, að árnar hafa brotið mikið af eyrinni, og þar hefur líka verið tekið grjót til bygginga í svonefnd Fellshús, beitarhús er standa þarna nálægt. Þar er talið að bærinn Fell hafi staðið, sem Olavius getur í Ferðabók sinni (eyðibýlaskrá).

Miðað við núverandi aðstæður finnst manni staðsetning þessa þingstaðar næsta ólíkleg, en hann er þó óneitanlega vel staðsettur með tilliti til samgangna af öllu Austurlandi, meðan fjöll og heiðar voru betur grónar en nú gerist. Eðlilegt var líka, að þingstaðurinn flyttist síðar að Þingmúla í Skriðdal, því þangað var styttra og auðveldara að komast af öllu Mið-Austulandi.”

Helgi Hallgrímsson: Strútsfoss í Fljótsdal (Kiðafellsþing). Útivist 15 (1989), bls. 69. (Þar er einnig rætt um örnefnið Kiðjafell (Kiðufell), og vitnað í nokkrar heimildir um þingið)

Helgi Hallgrímsson, 2001:
Ég gekk frá brúnni á Fellsá, um 1 km inn á Villingadal, Suðurfells megin, og leit eftir minjum um meintan þingstað (Kiðjafellsþing) á leiðinni inn með gilinu [þ.e. Fellsárgili]. Á úteftirleið gekk ég nokkru ofar, en sá hvergi neitt sem bent gæti á hann, nema hugsanlega eina litla nokkurnveginn ferkantaða steinaþyrpingu, á mel niður við gilið, skammt fyrir innan og ofan brúna. ( Ferðadagbók 2001 (Sturluflöt og Suðurfell), 27. ág.).

Þórhallur Björgvinsson, 2001:
Í tilefni af ummælum þeim, sem Gunnlaugur Haraldsson vitnar til 1975, segist Þórhallur hafa komið að þessum minjum þegar hann var í göngum með Þóri Kárasyni á Sturluflöt, og var aðeins 11 ára gamall (Þórh. er f. 1922, og hefur þetta því verið 1933. / Þórir var f. 1910). Minjarnar voru á bala austan undir Fellinu, lítið eitt utar en á móti Strútsá (!), líklega næst fyrir utan Illubuskalæk. Hann segist ennþá muna vel eftir grjóthringnum, sem var vel upp úr grasi, og var úr tvöfaldri steinaröð, og sitt hvoru megin við hann voru tvær aflangar tættur, (tvær hvoru megin), aðskildar, og sneru dyrum niður að gilinu.

Ekki vissi Þórir neitt nafn á þessum stað, og virtist sem enginn hefði tekið eftir þessu áður. Haustið 1941 féll skriða yfir þennan bala, en Þórh. heldur að hún hafi ekki raskað mikið jarðvegi og náði ekki niður í Fellsárgil, en mun hafa farið yfir þessar minjar, og síðan gróið upp. (Hann segist hafa séð þessa skriðu hinum megin úr dalnum, en ekki hafa komið á staðinn eftir að hún féll, fyrr en á síðustu árum). Hann segist nú ekki muna hvort hann ræddi þetta við Elísabetu Baldvinsdóttur, en hann hitti hana ekki fyrr en löngu seinna.

Þórhallur segist fyrir nokkrum árum hafa farið með Páli Pálssyni frá Aðalbóli og sýnt honum staðinn, en þá sáu þeir engin merki um rústirnar. Páll tók þá nokkrar yfirlitsmyndir, ofan úr hlíðinni, með innrauðri filmu, að Þórh. heldur. (Þarf að spyrja Pál nánar að því). Þessi staður er um 1,5-2 km innar en þar sem Flatarbændur töldu að þingstaðurinn hafi verið. Ég hef ekki komið á þennan stað. Hugsanlega er þetta staðurinn sem í Þjóðs. Sigf. Sigf. (I,441) er kallaður Réttir, og gæti hafa verið skilarétt. Þórhalli finnst það þó ekki líklegt. H. Hall., skv. viðtali við Þórhall 11. des. 2001.

Jón Hallason, 2001:
Hér má loks bæta því við, að Jón Hallason fv. bóndi á Flöt, telur að þetta hljóti að vera misminni hjá Þórhalli, að tætturnar hafi verið svona langt inn á dalnum. Hann var 11-12 ára þegar skriðurnar féllu 1941, og segist ekki muna eftir neinum tóttum þarna innfrá, en einhversstaðar á þessu svæði telur hann að hafi mátt greina garðbrot úr grjóti. Hann man ekki heldur eftir neinum tóttum á ytra staðnum. – Símtal H.Hg. við Jón, 11. des.

Örnefnið Kiðjafell (Kiðafell /Kiðufell),
kemur víða fyrir í þessum heimildum, einkum þeim eldri, en nær allir taka fram að það sé “nú aðeins nefnt Fell”, Kaalund segir beinlínis “Þetta fjall á að hafa heitið fyrrum Kiðjafell.”

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar kemur þetta örnefni (Kiðafell) fyrir á tveimur stöðum (III, 291, V, 120-121), í fyrra skiptið í sögunni: “Útburðurinn í Sturlárrétt”, sem Sigfús Sigfússon á Skjögrastöðum hefur ritað, í síðara skiptið í ævintýri, sem Finnur Þorsteinsson á Hofi í Álftafirði (?) hefur skrifað, en er óstaðsett.

Í Þjóðsögum Sigfúsar kemur það fyrir á tveimur stöðum (I, 445 og VI,9), á fyrri staðnum í sögunni “Lömbin”, sem er skyggnisaga af Hinrik Hinrikssyni á Hafursá, og þar er þingið ekki nefnt, en síðari staðurinn er fyrr greindur.

Á kortum Herforingjaráðsins og síðar Landmælinga Ísl. hefur það alltaf staðið sem nafn á fjallinu, en óvist eftir hvaða heimild.

Í Örnefnaskrá Suðurfells stendur: “Fellsá rennur í Kelduá móts við bæinn í Sturluflöt, og nú teljum við allt búið austan hennar. Förum svo yfir ána. Þar er stórt og mikið fell, sem heitir Kiðufell (13).... Suðurfell (21) er hið daglega nafn á Kiðufelli og því svæði sem það tilheyrir.” Líklega er fyrra nafnið hér miðað við kortin eða prentaðar heimildir.

Í bókinni “Göngur og réttir” er nokkuð fjallað um afréttir suður af Fljótsdal, og er það hvergi minnst á Kiðjafell (Kiðufell), en örnefnið Kiðufellshraun kemur þar fyrir tvisvar fyrir í frásögn Metúsalems J. Kjerúlf: “Í fyrstu göngu” (bls. 389-391), sem hann fór á Múla um aldamótin 1900.

Í ritgerð Sæmundar Eyjólfssonar um skóga í Þingeyjarsýslu og Múlasýslum, í Búnaðarritinu 8. árg. 1894, bls. 24-25, hefur hann eftir Sigurði Vigfússyni fornfræðingi, sem kom í Víðivallagerði 11. júlí 1890: “Jón Pálsson þar, sem er 87 ára, segir mér eptir bróður sínum, sem er fæddur fyrir aldamót og var bóndi á Þorgerðarstöðum, að í hans tíð voru birkibitar þar í eldhúsinu úr Kiðjafellsskógi. Þeir voru höggnir eða kantaðir á hliðum, og lítið eitt á röðum. Jón Pálsson sá sjálfur þessa birkibita...” (Sjá einnig grein mína um Strútsfoss, í tímaritinu Útivist, 15. hefti, bls. 69).

Óhjákvæmilegt virðist því að álykta, að fjall það sem alla síðustu öld var í Fljótsdal kallað Fell eða Suðurfell, hafi einhverntíma borið nafnið Kiðufell eða Kiðjafell, og því verið sett í samband við “Kiðjafellsþing” Fljótsdæla sögu, enda þótt það stemmi ekki við söguna. Gera má ráð fyrir að forn munnmæli hafi verið um þinghald undir fellinu, óháð sögunni, sem benda til að þarna hafi verið þinghald einhverntíma.
Helgi Hall. tók saman 8.-12. des. 2001.

Heiðveig Agnes Helgadóttir